Vaknaði útsofin um hálfsex leytið í gærmorgun. Tæpum tveimur tímum síðar var ég mætt í vinnu. Ekkert auka er í framleiðslu þessa dagana og við kláruðum fyrstu tvo skammtana áður en klukkan varð hálftíu. Vorum í innleggjum það til hádegisskammturinn skilaði sér. Vorum búnar að ganga frá og loka kortadeildinni stuttu fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi héldum við áfram í innleggjunum. Það var nóg að gera. Ég var búin um þrjú leytið og farin úr vinnu upp úr klukkan hálffjögur. Hringdi aftur í pabba til að segja honum músasöguna. Hann var þá staddur á Selfossi hjá Jónu Mæju. Hafði skroppið í bæinn til að láta þvo bílinn og stoppaði á Selfossi í baka leiðinni. Ég var byrjuð að synda um fjögur. Synti 500 metra á uþb 25 mínútum. Hitti ekki á kalda potts vinkonu mína en hún hafði sent skilaboð um að komast ekki í sund fyrr en um fimm leytið. Kom við á einum stað áður en ég fór heim eftir sundið. Horfði á hluta af landsleik kvenna í fótbolta við Dani. Missti þó af því þegar Ísland skoraði sigurmarkið. Ánægð með stelpurnar okkar og mikið svakalega stóð markvörðurinn sig vel. Þar er heilmikið efni á ferð.
6.12.23
5.12.23
Eitthvað út í loftið
Klukkan var ekki nema hálfsex þegar ég rumskaði í gær við það að ég þurfti á salernið. Eiginlega of snemmt til að fara á fætur svo ég gerði tilraun til að kúra mig niður aftur eftir að hafa skroppið á snyrtinguna. Sú tilraun gekk ekki upp svo ég ákvað að klæða mig. Hafði ekki sett símann í hleðslu í fyrrakvöld. Það var sennilega alveg nóg á honum uþb 65% en ég ákvað samt að hlaða hann á meðan ég væri heima. Sinnti morgunverkunum og settist síðan inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um hálfsjö fór vekjaraklukka af stað. Hélt að N1 sonurinn ætlaði bara að fara á fætur í fyrra fallinu. Vekjarinn hélt áfram að hringja og ca 3-4 mínútum seinna ákvað ég að fara og banka á dyrnar hjá syninum. Hann var alveg saklaus, vekjarinn hans átti ekki að hringja fyrr en korter fyrir sjö. Ég hafði þá sjálf gleymt að slökkva á mínum eigin vekjara þegar ég fór á fætur og var þarna kannski búin að vekja eitthvað af nágrönnunum.
Mætti í vinnu stuttu fyrir klukkan hálfátta. Þar hafði ýmislegt gengið á á kaffistofunni skömmu áður en ég mætti. Einhvern veginn hafði mús komist inn og inn á kaffistofu. Músin forðaði sér inn í aðra uppþvottavélina og í stað þess að reyna að veiða hana þar var ákveðið að setja vélina bara í gang. Annars var ég á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Aðeins lágu fyrir dagleg verkefni. Lukum fyrri skömmtunum af rétt fyrir hálftíu. Fórum svo niður aftur um ellefu leytið og vorum búnar fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi var fyrrum fyrirliði í reikningagerðinni en ég var að hjálpa til í sumum uppi verkefnunum alveg til klukkan að verða fjögur. Þá fór ég í sund. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalinn en gleymdi að segja honum frá músinni, enda sá ég hana aldrei sjálf. Henni var hent í poka og út í gám. Kalda potts vinkona mín var í sinni annarri ferð í kalda pottinum þegar ég mætti. Saman fórum við þrjár ferðir, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Innilaugin var ekki í notkun svo það var mikið um að vera á flestum brautunum í útilauginni. Ég synti því ekkert en þvoði mér samt um hárið á leiðinni upp úr. Var komin heim skömmu fyrir klukkan sex.
4.12.23
Værukær
Svaf til klukkan að byrja að ganga átta í gærmorgun. Var eitthvað að spá í að skreppa aðeins í sund en fljótlega ákvað ég að halda mig inni og heima. Líkt og á laugardaginn fór ég tvisvar í þvottahúsið, til að sækja þvott, setja í vél og hengja upp. Rétt fyrir tvö eða um það leyti sem leikur Liverpool og Fulham í ensku deildinni var að byrja datt mér í hug að athuga hvort ég gæti ekki nýtt tímann til að föndra á meðan ég fylgdist líka með leiknum. Þetta gekk svona glimrandi vel. Byrjaði á því að skera þykkar litaðar og hvítar arkir í tvennt og brjóta helmingana upp í kort. Held að ég hafi búið til helmingi fleiri kortagrunna en ég þarf. Svo klippti ég út nokkrar jólamyndir úr blöðum sem ég er búin að eiga í nokkur ár og klippa áður úr. Áður en fótboltaleikurinn var búinn var ég byrjuð að líma, skreyta og föndra. Hélt þessu föndri áfram og fylgdist einnig með lokaleik dagsins sem var milli Manchester City og Tottenham. Um það leyti sem kvöldfréttirnar voru að klárast var ég búin að búa til 25 kort, kvótinn kominn og sennilega rétt rúmlega það. Nú á ég bara eftir að setja hvítar arkir inn í lituðu kortin og svo væri snilld að byrja að skrifa kortin sem fyrst.
3.12.23
Hana nú!
Það er þrálátt kvefið. Ekki með hita, nef og ennisholur ekki stíflaðar, smá eymsli í hálsinum gera það að verkum að ég er latari en dags daglega. Var þó komin á fætur um sjö í gærmorgun og eitthvað að spá í að skreppa í sund. Endirinn varð samt sá að ég hélt mig inni við og heima við allan daginn. Einu skiptin sem ég fór út úr íbúðinni voru þau tvö skipti sem ég skrapp niður í þvottahús til að setja í eina vél og hengja upp. Hringdi í pabba um hálftvö leytið og vakti hann víst upp af hádegisblundinum eftir hádegisfréttirnar. Hann hafði verið svo fast sofandi að í fyrstu hélt hann að vekjaraklukkan væri að hamast þegar það var síminn og önnur dóttlan að trufla draumana. Annars sonurinn skrapp til pabba síns en hinn eldaði sér stórsteik og fór svo á nokkra klukkutíma aukavakt á N1 við Borgartún. Ég sýslaði ýmislegt en gerði lítið af því sem ekki má skrifa um, meira af því sem ég skrifa oft um. Dagurinn leið ótrúlega hratt og klukkan var orðin tíu þegar ég skreið upp í rúm.
2.12.23
Fyndið eða fúlt?
Sennilega er ég ekki að fara alveg nógu vel með mig því það situr í mér þrálátt kvef með tilheyrandi leiðindum. Að vísu hefur ekki stíflast neitt, hef varla fundið fyrir hálsbólgu og alveg haft næga orku í daglegt stúss og vinnumál. Svaf eitthvað stopult í fyrrinótt en var vöknuð á mínum tíma og mætt í vinnu um hálfátta. Framleiðslu vikunnar var lokið stuttu fyrir tólf. Framkvæmdastjórinn og næstráðandi hans voru á fundi til klukkan langt gengin í eitt og við biðum bara rólegar eftir að þau kæmu í mat. Vorum að ganga frá eftir matinn til klukkan rúmlega hálftvö og skiluðum svo af okkur eldhúsvaktarböngsunum til þeirra sem eiga vaktina í næstu viku. Það teygðist úr vinnudeginum hjá sumum. Ég stimplaði mig út klukkan hálffjögur. Var með sjósundsdótið meðferðis en taldi það skynsamlegra að sleppa ferð í sjóinn. Kom við á tveimur stöðum áður en ég fór bara heim. Ég var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu.
1.12.23
Afmælisheimboð
Þegar ég kom heim í gær og fór á netið biðu skilaboð eftir mér frá einni fyrrum samstarfskonu minni. Hún setti á kortagrúppuna sem var að vinna saman í K1 til október í fyrra. Hún bauð okkur heim til sín um fjögur leytið í gær í tilefni af 55 ára afmæli. Ég var búin að vinna fyrir klukkan þrjú. Fyllti tankinn hjá AO við Öskjuhlíð og skrapp svo heim í hálftíma. Við fjórar gestirnir komum allar á svipuðum tíma tvær af okkur voru með afmælisgjöfina; nýjasti jólaóróinn og tíminn minn 2024. Gestgjafinn og afmælisbarnið var steinhissa því hún var ekki að ætlast til þess að fá neina gjöf heldur langaði hana að hitta okkur. Hún bauð upp á alls konar kruðerí en ég þáði ekkert nema kalt vatn. Löngunin í sumt af kruðeríinu var alls ekki svo sterk. Ég var búin að vara við í grúppunni. Skrifaði að ég myndi koma í heimsókn er segði pass á veitingarnar. Stoppuðum í hátt í tvo tíma sem liðu ógnar hratt. Kom heim um upp úr klukkan sex.
30.11.23
Inn
Svaf til klukkan hálfsex í gærmorgun. Var mætt í vinnu um hálfátta. Hættum framleiðslu stuttu fyrir þrjú. Ég var komin í sjóinn tuttugu mínútum fyrir fjögur. Það var fjara, sjórinn 2,1°C og ég var út í í tæpar tíu mínútur. Fór ekkert í lónið en sat góða stund á spjalli í heita pottinum. Úr Nauthólsvík lá leiðin í Forlagðið við Fiskislóð, Löður og Krónuna. Bræðurnir voru nýlega komnir heim þegar ég kom heim um sex leytið. Föðurafi þeirra var jarðsunginn í kyrrþey í Eyrarbakkakirkju í gær. Þeir voru kistuberar ásamt pabba sínum bræðrnum hans og fóstursyni yngsta föðurbróðurins. Báru kistuna úr líkbílnum inn í kirkju fyrir athöfn og út úr kirkjunni eftir athöfn. Þá var hún sett á stall svo þeir sem ekki ætluðu í garðinn gætu signað yfir hana. Kistuberarnir þurftu líka að bera kistuna úr líkbílnum í garðinn og láta hana síga ofan í gröfina. Davíð Steinn sagði að þetta hafi gengið mun betur en hann átti von á. Oddur Smári hefur ekkert tjáð sig um þetta. Horfði á einn þátt og Kiljuna en var komin upp í rúm fyrir klukkan hálftíu.
29.11.23
Krukka með blöndu af fræjum, hnetum og möndlum
Rumskaði um fjögur leytið í gærmorgun. Fór á salernið og beint aftur upp í rúm. Gat samt ekki sofnað neitt að ráði aftur og var komin á fætur fyrir klukkan sex. Var alveg hress og kát í vinnuni. Frágangurinn í kaffistofunni eftir hádegismatinn gekk vel og í framleiðslunni framleiddum við um fimmtán hundruð gjafakort og svo tvo þriðju að rúmlega níuhundruð korta endurnýjun. Hættum rétt fyrir þrjú. Um það leyti fann ég að ég var að verða hálf syfjuð og þreytt. Það freistaði mín í smá stund að fara beint heim eftir vinnu en ég lét það ekki eftir mér. Spjallaði við pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Rútínan í sundinu tók mig einn og hálfan tíma. Synti m.a. 500 metra. Kom heim um hálfsex leytið og var það endurnærð eftir sundið að ég hékk uppi alveg til klukkan að byrja að ganga tíu. Þá fór ég upp í rúm og las í ca hálftíma áður en ég fór að sofa.
28.11.23
Kvartanir... nenni þeim alls ekki
Sem oftast fyrr á virkum morgnum var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Fimm korterum síðar lagði ég af stað í vinnuna. Fram í miðja viku mun ég vera á ítroðsluendanum á kortaframleiðsluvélinni og eftir að hafa stimplað mig inn í vinnu og opnað seinni lásinn á ytri hurðinni á hvelfingunni uppi fór ég niður að "ná í" tölur og hlaða inn fyrirliggjandi verkefnum. Fór svo upp aftur til að fylla á vatnsbrúsann minn og fá mér heitt vatn. Fyrirliðinn var í bókhaldinu og á móttökuendanum og fyrrum fyrirliði í innlögnum. Við tvær sem erum á kortavélinni þessa vikuna erum líka skráðar á kaffistofu vaktina þessa vikuna. Sú sem var með mér áður á von á frumburði sínum á næstu dögum og er komin í leyfi. Umslagavélin var með smá uppsteit í debetframleiðslunni en við lukum við þann skammt ásamt visa og 200 gjafakortum um hálftíu. Milli tíu og hálftólf framleiddum við 1000 gjafakort og kláruðum hádegisskammtinn um tólf. Vel gekk að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn en líklega hefði verið betra að ég hefði tekið það að mér ein á meðan fyrirliðinn sinnti bókhaldsvinnunni því svo þurfti ég að bíða aðeins eftir henni áður en við framleiddum 1000 gjafakort í viðbót. Sú bið getur verið mismunandi og eiginlega ekki hægt að demba sér í önnur verkefni á meðan og ekki má vera einn á framleiðsluvélinni. Stimplaði mig út um þrjú og fór beinustu leið yfir í Laugardalslaug. Kalda potts vinkona mín kom á sama tíma og ég ákvað að elta hana á milli potta og gufu en skrópa í sundinu. Kom heim um fimm leytið. Bræðurnir voru búnir að fara saman í verslunarleiðangur. Annar þurfti að kaupa sér skyrtu og bindi en hinn nýja spariskó og báðir fóru þeir í klippingu og skeggsnyrtingu en þeir verða kistuberar á morgun.
27.11.23
Ennþá er að dimma meir og meir
Var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Var eitthvað að spá í hvort ég ætti að gera mér ferð í laugina í Grafarvogi og prófa infrarauðu gufuna en klukkan hálftíu var ég ekki enn farin af stað. Tók þá ákvörðun að setja sundlaugar og sjósundshandklæðin mín í þvottavélina og skrópa alfarið í sund. Hætti netvafri um þetta leyti og tók fram skammtímalánsbókina: Blóðmeri eftir Steindór Ívarsson. Stuttu fyrir klukkan hálftólf lagði ég frá mér bókina og fékk mér hálftíma göngutúr. Hélt lestrinum áfram eftir hádegi og kláraði bókina. Hef svo tíma til 7. desember til að klára bókina sem ég skilaði ekki af mér í síðustu ferð. Það er bók sem er hátt í sexhundruð blaðsíður: Sjö systur eftir Lucindu Riley. Er rúmlega hálfnuð en á eitthvað um tvöhundruð blaðsíður eftir enn. Ég var líka aðeins að horfa á enska boltann, horfði á fyrri hálfleikinn í æfingalandsleika kvenna í handbolta og tvo síðustu pólsku þættina Kennari 2. Gufusauð mér grænmeti og hafði með fiskbita sem ég átti frá því um daginn og þegar ég fór upp í rúm að lesa meira áður en ég fór að sofa sleppti ég því að fá mér tyggjó.
26.11.23
Labbitúr í morgun en ekki sund
Vaknaði stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun og fór fljótlega á fætur. Var komin í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta. Þar var að hefjast tveggja daga sundmót í innilauginni en ég kom nægjanlega snemma til að fá stæði á planinu. Engar brautir á útilauginni voru fráteknar en þar sem ég ætlaði að þvo á mér hárið skipti mig miklu máli á fá braut sem ég gæti synt á bakinu án þess að hafa áhyggjur af því að reka hausinn í einhvern. Byrjaði því rútínuna á því að fara í kalda, heitasta, kalda, sjópottinn, kalda, gufu og svo fór ég á braut sjö og synti 400 metra, flesta á bakinu og fékk að halda mig alveg út við kaðalinn sem skilur að brautir 6 og 7. Eftir sundið fór ég eina ferð í kalda og svo smá "sólbað" áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var mætt vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar rétt fyrir klukkan hálfellefu og stoppaði í rétt rúman klukkutíma. Við byrjuðum á alltof fræðilegum kafla um úrverk en lásum bara um hálfa blaðsíðu áður en við ákváðum að skippa yfir kaflann og færa okkur yfir í þann næsta. Það gekk miklu betur. Var komin heim um tólf. Upp úr klukkan sex rúllaði ég yfir í Garðabæinn til tvíburahálfsystur minnar sem einnig var að taka á móti útskriftarbróður okkar úr FSu sem nú er m.a. að gefa út sína sjöundu hjólabók. Tilefnið var m.a. að afhenda okkur okkar eintak og fékk ég allar sjö bækurnar í einu og sú nýjasta var árituð. Sonja bauð okkur í mat og tíminn leið alveg svakalega hratt því allt í einu var klukkan orðin hálftíu. Lagði bílnum við Blönduhlíð rétt fyrir tíu. Fór beinustu leið upp í rúm og las til klukkan ellefu. Steinsofnaði fljótlega eftir það en rumskaði um hálfeittleitið en þá var hlandblaðran að heimta tæmingu og þóttist vera jafn full og eins og ég hefði sofið alla nóttina. Skrapp á salernið en var fljót að sofna aftur.
25.11.23
Á sjó... ég meina í sjó
Það var eilítið skrýtinn dagur í vinnunni í gær. Ein af þeim sem getur "opnað" fyrir að hægt sé að byrja innlegg dagsins var í fríi, önnur lasin og hinar tvær sem hafa leyfi og getu til að gera þetta mættu rétt áður en klukkan varð átta. Þær lentu í smá veseni sem tók um korter að leysa úr. Eftir það var hægt að byrja. Yfirleitt erum við búin frekar snemma á föstudögum eða upp úr klukkan tvö en í gær vorum við til klukkan rétt rúmlega þrjú að klára allt. Ég var komin i Nauthólsvík tuttugu mínútum fyrir fjögur og í 2,1°C sjóinn tíu mínútum seinna. Svamlaði og hoppaði um í smá öldugangi í ca sjö mínútur. Fór svo í gufu í uþb fimm mínútur, þaðan í lónið og var þar í nokkrar mínútur áður en ég fór loksins í heita pottinn. Var komin heim um fimm leytið.
24.11.23
Magnað í 2,1°C sjónum áðan
Rumskaði aðeins um fimm í gærmorgun, sofnaði strax aftur og svaf í um klukkustund. Hafði ágætis tíma til að vafra um á netinu áður en ég fór í vinnuna. Var byrjuð í innleggja vinnu áður en klukkan varð átta. Allt var búið um þrjú leytið. Hringdi og talaði við pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaugina. Byrjaði á að fara í kalda pottinn en fór svo á braut átta og synti 400m Nú var sama og engin ferð á logninu þannig að skórnir mínir stukku ekki út í laug á eftir mér. Fór amk tvær aðrar ferðir í þann kalda og gufuna og sjópottinn að auki. Þessi rútína tók mig rúma klukkustund. Eftir sundið skrapp ég á Kringlusafnið og skilaði þremur bókum af fjórum og tók fjórar aðrar í staðinn, eina nýja á skammtímaláni. Næst lá leiðin í Krónuna í Skeifunni. Var komin heim um sex leytið.
23.11.23
Titill
Það var nokkuð mikil hraðferð á logninu í gær en engin ófærð. Mætti í vinnu um hálfátta og var byrjuð í innleggjunum fyrir klukkan átta. Þrátt fyrir að það vantaði einhverjar hendur á dekk og sumar hendur væru aðeins til hádegis vorum við búin snemma í gær eða fyrir klukkan hálfþrjú. Þær í kortunum voru aðeins lengur til að klára að framleiða gjafakortaskammt. Ég var búin að stimpla mig út og farin úr húsi á undan þeim. Ég var með sjósundsdótið með mér en ég þurfti samt að skreppa heim áður og það varð til þess að ég fór ekkert út aftur. Það hefði nú verið gaman að hoppa smávegis í öldunum. Ég var nú samt fegin að vera komin inn þegar komu hagléls hryðjur og hraðferðin á logininu jókst verulega inn á milli.
22.11.23
Gæðastundir
Vaknaði um sex í gærmorgun og var frekar hissa á því að nóttin væri liðin. Hefði alveg getað hugsað mér að kúra aðeins lengur. Lét það þó ekki eftir mér og var komin á fætur skömmu síðar. Mætti í vinnu um hálfátta og var byrjuð í innleggjum fyrir klukkan átta. Það að fá að vera í innleggjunum í heila viku hjálpar til við að komast hraðar inn í málin. Sumt af því sem ég var mjög óörugg með í byrjun er orðið mun auðveldara. Fæ þó enn ábendingar um hvað má betur fara og eins geri í villur sem sem betur fer eru ekki of alvarlegar en læri mikið af þeim. Vorum búin klukkan að verða hálffjögur. Kalda potts vinkona mín var búin að láta mig vita að hún kæmist ekki í sund en ég dreif mig í Laugardalslaugina beint eftir vinnu. Fór fyrst í kalda pottinn og synti svo 400m bringusund. Strax eftir fyrstu 100 metrana fann ég annan skóinn á svamli í lauginni en hinn var týndur. Eftir aðra ferð í þann kalda hitti ég á eina sem ég er farin að kannast vel við. Urðum samferða í heitasta pottinn og sagði ég henni af skóveseninu. Á leiðinni úr heitasta pottinum í sjópottinn sá hún eitthvað á svamli á braut sex. Og það reyndist við nánari skoðun vera hinn skórinn. Ég var að synda á brautum 7 og 8. Þar á milli er enginn kaðall en það er kaðall á milli brauta 6 og 7. Úr sjópottinum fór ég aftur í kalda og endaði svo á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og heim. Þessi rútína tók um fimm korter með tímanum í sturtu og skiptiklefanum.
21.11.23
Ekki er betra veðrið í dag
Vaknaði útsofin stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Var mætt í vinnu rétt fyrir hálfátta. Þessa vikuna er ég í innleggjum og var ég byrjuð á fyrsta skammtinum áður en klukkan varð átta. Stimpilklukkan telur frá því ég stimpla mig inn sem ég geri um leið og ég er komin að skrifborðinu mínu eftir að ég mæti. Það var þokkalega mikið að gera en það náðist að klára allt um þrjú leytið. Þá stimplaði ég mig út og fór beit í sund. Synti 400m á bakinu og hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum í hennar annarri ferð. Eftir mína aðra ferð í kalda fórum við í gufu og svo aðeins í sjópottinn. Þá var kominn klukkutími frá því ég mætti og þar sem ég ætlaði að þvo á mér hárið kallaði ég þetta gott svo hárið myndi nú ná að þorna. Fannst voða skrýtið að handklæðin mín voru mjög blaut þegar ég var búin að þvo mér. Það kom í ljós að sturtan sem ég notaði var biluð og sprautaði vatni yfir vegginn og á handklæðin sem voru efst í rekkanum. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni til að kaupa mér harðfisk. Var komin heim fyrir klukkan hálfsex.
20.11.23
Leiðinda veður
Svaf sennilega í um níu tíma í fyrrinótt. Fór nefnilega tiltölulega snemma í háttinn og vaknaði svo um hálfátta leytið. Var bara þokkalega hress en alveg einstaklega löt. Nennti ekki út fyrir hússins dyr en var að dútla við alls konar hérna inni við. Er samt ekki enn farin að taka fram jólakorta föndurdótið. Stefni þó að því að taka það með mér austur um næstu helgi ef veður og færð leyfir. Ég dreifði aðeins úr tuskum og handklæðum sem ég hef verið að prjóna undafarin misseri, þ.e. þeim stykkjum sem ekki hafa verið gefin eða tekin í notkun ennþá. Það væri sennilega hægt að búa til amk tvö rúmteppi úr þeim öllum. Svo var ég að horfa á hina ýmsu þætti. Kíkti líka aðeins á landsleikinn; Portúgal - Ísland í knattspyrnu karla þar sem hann var sýndur í opinni dagskrá á Stöð2 Sport. Dagurinn leið ógnar hratt og var ég komin upp í rúm um hálftíu í gærkvöldi og las í hálftíma áður en ég fór að sofa.
19.11.23
Rúm
Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt til að fara og létta á blöðrunni. Sofnaði strax aftur og svaf til klukkan að verða sjö. Þurfti þá aftur að tæma. Var ekki tilbúin að fara strax á fætur en fann það fljótlega að ég var útsofin og vel hvíld svo það var ekki lengi sem ég lá í bælinu. Ákvað að taka utan af sængurfötunum, lakið og einnig stykkið sem er undir dýnunni og nær næstum niður í gólf á þremur hliðum af fjórum (pífa til að "fela" gólfið undir rúminu). Lyfti svo dýnunni upp á rönd og lagði upp að fataskápnum. Skyldi við herbergið mitt svona og settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu þar til klukkan var byrjuð að ganga tíu. Þá fyrst fór ég með sængurfötin og "pífuna" í þvottahúsið. Um þetta leyti var ég búin að ákveða að taka því rólega heimavið allan daginn. Fann engin eymsli í hálsinum og frekar lítið fór fyrir maga/ristil skruðningum svo það er vonandi að hverfa alveg á næstunni. Ég horfði á nokkra þætti, körfuboltaleiki, prjónaði, gerði smá af því sem ekki skal skrifa um og dagurinn leið mjög hratt. Davíð Steinn fór til pabba síns og fjölskyldu hans. Oddur mátti ekki vera að því en hann hjálpaði mér svo að snúa dýnunni við í gærkvöldi þegar pífan var þornuð og komin aftur á. Var komin upp í rúm um hálftíu og las í um hálftíma áður en ég fór að sofa.
18.11.23
Aftur komin helgi
Í gær framleiddum við 3000 gjafakort í heildina ásamt daglegu framleiðslunni. Það er nokkuð vel af sér vikið því á föstudögum hættum við frekar snemma og vorum við búnar að ganga frá kortadeildinni um tvö leytið. Þegar við komum upp sneri ég mér að því að fara yfir skjöl í smá stund. Stimplaði mig út fyrir klukkan þrjú og ákvað að fara beinustu leið heim. Skruðningarnir á maga og ristilsvæðinu sem og hálssærindin voru að einhverju leyti enn til staðar og ekki á það hættandi að skella sér í sjóinn. Annars hefur mér liði alveg þokkalega alla vikuna og held að þessi óþægindi séu á undanhaldi. Það flögraði að mér að þetta tengdist breyttu mataræði en ég er samt viss um að svo er ekki, þá hefði þetta ástand átt að poppa upp fyrir tæpum mánuði. Held svo reyndar að ég sé búin að "pissa" amk 5 kílóum af bjúgsöfnun sem segir mér að ég sé á réttri leið. En það hvort þetta breytta mataræði sé komið til með að vera alveg 100% þori ég ekki að fullyrða neitt um. Vona helst að þegar ég hef náð tökum á blessaðri vökvasöfnuninni í líkamanum að ég geti að einhverju leyti snúið mér að flest sé best í hófi stíl. Það verður að koma í ljós. Kaffibindindið heldur áfram amk enn um sinn. Og ég mun einnig halda áfram að forðast sykurinn og glútenið.
17.11.23
Vissa
Það er helling að gera í framleiðslu gjafakorta þessa dagana. Skammtarnir eru misstórir en þegar vel gengur erum við að framleiða um þúsund kort á uþb fimmtíu mínútum. Í gær var allt að verða búið uppi um hálfþrjú leytið svo við ákváðum að ganga frá niðri um svipað leyti. Sendum eina tösku upp í lyftunni í skúr eitt með 2500 gjafakortum fyrir eitt útibú. Þar sem ég var í bókhaldinu þessa vikuna fór ég beint í að ganga frá tölum og skjölum. En klukkan var rétt að verða þrjú þegar ég yfirgaf vinnustaðinn eftir ágætis dagsverk. Var með sunddótið með mér í bílnum en byrjaði á því að fara í heilsuhúsið til að kaupa mér C vítamín og fleira. Ákvað m.a. að prófa safa úr djúsvélinni. Það var búinn til fyrir mig úr hveitigrasi, engifer, epli og gúrku. Það átti að vera paprika í þessu líka en ég bað um að henni yrði sleppt. Þessi drykkur reif vel í hálsinn og var alveg ágætur en ég náði þó ekki að klára skammtinn. Tók hann með mér úr í bíl og keyrði í Laugardalinn. Á planinu við sundlaugina ákvað ég hins vegar að það væri ekki sniðugt að fara í sund verandi aum í hálsinum svo ég dreif mig bara heim. Kláraði þá bók sem ég tók síðast af safninu; Gættu þinna handa eftir Yrsu Sigurðardóttur, fitjaði upp á nýju smá-handklæði, vafraði á netinu, horfði á þætti en fór inn í rúm fyrir hálftíu og var sofnuð um tíu leytið eftir að hafa lesið smá stund.
16.11.23
Laukrétt
Þrátt fyrir að þurfa að afhenda framleiðsluvélina til yfirferðar um tólf í gær gátum við framleitt 1000 gjafakort ásamt daglegur framleiðslunni. Pöntunin fyrir útibúið hljóðaði upp á 1500 en við höfðum framleitt fyrstu fimmhundruð á þriðjudaginn svo hægt var að senda þetta frá okkur. Ég sendi fyrrum fyrirliða upp í mat um tólf en beið sjálf niðri eftir yfirferðarmönnunum. Klukkan var að verða hálfeitt þegar sá fyrri mætti og skömmu síðar var ég leyst af í mat. Eftir mat lauk ég við bókhaldsvinnuna og þurfti svo að vera til taks fyrir tæknimanninn okkar. Hann þurfti að setja inn nokkrar nýjar skrár í kerfi sem tveir þurfa að skrá sig inn fyrst. Rétt fyrir hálfþrjú komst ég svo niður til að leysa fyrrum fyrirliða af í yfirsetunni. Þá voru báðir viðgerðarmennirnir á svæðinu. Þeir vildu fljótlega fara upp í kaffi. Uppi var allt að verða búið og fáir eftir í vinnu, í raun bara tveir. Annar var að skúra á neðri hæðinni. Sá sem vinnur í afgreiðslunni kenndi mér á hvernig ég gæti hleypt yfirferðarviðgerðarmönnunum út ef til þess kæmi áður en hann fór. Klukkan var að verða hálffimm þegar allt var búið niðri. Sá sem er í skúringunum var að skúra uppi og tæknimaðurinn tók að sér að hleypa út. Ég fór beinustu leið heim eftir vinnu, hringdi í pabba og spjallaði við hann á leiðinni. Ég var semsagt ekki í neinu líkamlega formi til að skreppa aðeins í sjóinn. Enn með særindi í hálsinum en hvorki verri né betri heldur en daginn áður. Held að það hafi verið skynsamlegt af mér að fara bara heim og dunda mér þar.
15.11.23
Akkúrat
Í vinnunni í gær framleiddum við yfir 3000 gjafakort. Hættum framleiðslu um hálfþrjú en svo notaði ég síðasta hálftímann til að ljúka við bókhaldsverkefni. Var með sunddótið með mér í bílnum en ég var einhvern veginn ekki stemmd og farin að finna fyrir hálsbólgu svo ég fór beint heim. Ég hvorki versnaði né lagaðist í hálsinum. Dundaði mér við ýmislegt að var komin upp í rúm um níu og lagði frá mér bókina áður en klukkan varð hálftíu. Var fljót að sofna en því miður rumskaði ég aftur stuttu eftir miðnætti og þurfti að pissa. Ekkert gekk að sofna aftur svo ég ákvað að lesa aðeins meira. Held að klukkan hafi verið að nálgast þrjú þegar ég hætti lestri og kúrði mig niður. Sofnaði sem betur fer en var svo vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja í morgun.
14.11.23
Ð
Svaf í einum dúr frá ca tíu til klukkan að verða sex í gærmorgun. Var mjög hissa að kominn væri morgun og hefði líklega alveg getað sofið lengur. Ég dreif mig nú samt á fætur og hafði rúman tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég fór í vinnuna. Var í bókhaldi og á móttökuendanum á vélinni. Til stóð að viðgerðarmenn kæmu um tólf í hefðbundna yfirferð á vél en það frestaðist um tvo daga. Í staðinn var tími til að ljúka við framleiðslu á gjafakortapöntun frá því í síðustu viku. Hætti vinnu um þrjú og fór beint í sund. Var búin að synda 400m og í minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Og ein systir hennar var líka mætt á svæðið. Sú fer aldrei í kalda en við sátum góða stund í sjópottinum. Var komin heim um hálfsex leytið. Strákarnir voru ekki heima. Þeir voru með pabba sínum á sjúkrahúsi Selfoss að kveðja föðurafa sinn.
13.11.23
Uss
Svefninn, aðfaranótt sunnudagsins var frekar skrykkjóttur. Ég fór á fætur á níunda tímanum og hafði þá í heildina sofið í um fimm klukkustundir í mis-stutt/löngum bútum. Var komin í sund upp úr klukkan hálftíu. Hitti á sjósundsvinkonu mína sem var að mæta um svipað leyti. Hún fór beint á braut átta en ég í kalda pottinn og svo á braut átta. Synti 400 metra áður en ég fór aftur í kalda og þaðan í gufu. Þegar ég var að koma úr gufunni var sjósundsvinkonan á leiðinni í þann kalda og varð ég samferða henni. Hún fór svo upp úr og heim en ég í sjópottinn. Þar var ég óvenju lengi því upp úr klukkan ellefu komu mágkona mömmu heitinnar og kalda potts vinkona mín skömmu síðar. Náði einni ferð í kalda pottinn með þeirri síðar nefndu áður en ég fór upp úr og heim. Restinni af deginum eyddi í ég alls konar dundur.
12.11.23
Kærleiksknús á alla í óvissuástandi
Var sofnuð fyrir klukkan ellefu á föstudagskvöldið. Svaf nokkuð vel, með einu pissuhléi, til klukkan að verða sjö. N1 sonurinn var því farinn í vinnuna þegar ég kom á fætur. Var mætt í sund um hálfníu. Eftir fyrstu ferðina í þann kalda fór ég á braut og synti yfir á bakinu. Færði mig svo yfir á braut tvö og í heildina synti ég 500m þar af ca 40 m. skriðsund en annars á bakinu. Fór svo beint aftur í kalda, þaðan í gufu, kalda sturtu, sjópottinn og smá dýfu í kalda áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan hálfellefu. Stoppaði hjá henni í um klukkustund. Á þeim tíma náðum við m.a. að lesa eina blaðsíðu og glósa nokkur orð. Var komin heim aftur stuttu áður en aukafréttatíminn vegna hræringanna á Reykjanesinu og í kringum Grindavík hófst. Grindavíkurbær hafði verið rýmdur um nóttina þegar í ljós kom að sprungan og kvikugangurinn náði undir bæinn og út í sjó og kvikan sennilega komin á innan við eins kílómetra dýpi á hættulegum stað hvað bæinn varðar. Úff, þetta er svo nöturlegt og það er líklegra en ekki að það komu upp gos mjög nálægt bænum. Sprungan ku vera um 15 km löng og 3km á breidd þar sem hún er breiðust. Eftir aukafréttatímann hringdi ég í pabba og sagðist ætla að taka því rólega þessa helgina, horfa á enska boltann, lesa, prjóna, horfa á þætti og skoða mataræðið betur. Ég á aðeins eftir að taka út kjötið af þeim matvörum sem eru á "taka út" listanum. Um fimm leytið gufusauð ég blómkál, belgbaunir, rósakál og fjóra bita af þorskhnökkum. Borðaði svo einn fjórða af skammtinum með sallati, súrkáli og ólífum. Mér gengur alltaf betur og betur að forðast að detta í að fá mér eitthvað nasl fram eftir kvöldi. Jafnvel þó það nasl sé tiltölulega hollt. Er að tala um möndlu, hnetur (ekki jarðhnetur) og fræ. Hef ekki farið út í að leggja þetta í bleyti yfir nótt og þurrka upp aftur en það á víst að vera ennþá betra fyrir meltinguna og ristilinn.
11.11.23
Kannski
Nú er hugurinn með Grindvíkingum. Það er ekki sjón að sjá skjálftaveðurkortið, allt morandi í grænum stjörnum. Ég fann fyrir nokkrum öflugum skjálftum eftir að ég kom heim úr vinnu og sjósundi síðdegis í gær.
Ég var annars mætt í vinnu á svipuðum tíma og venjulega í gærmorgun. Framleiddum rúmlega þrjúþúsund gjafakort en hættum framleiðslu frekar snemma eða um tvö. Margir voru farnir þegar við komum upp enda reynum við yfirleitt að taka út styttingu vinnuvikunnar á föstudögum. Ég tók við bókhaldinu og mun sjá um það og móttökuendann á framleiðsluvélinni í næstu viku. Stimplaði mig út um klukkan þrjú.
Var komin í Nauthólsvík um klukkan hálffjögur og tíu mínútum fyrir fjögur óð ég út í 2,7°C sjóinn og svamlaði um í tæpar tuttugu mínútur. Hitti enga seli. Sat í heita pottinum lengur en ég var út í sjónum en var komin heim um fimm leytið.
10.11.23
Og aftur komin helgi
Vorum að framleiða til klukkan þrjú í gær, með kaffi og matarpásu að sjálfsögðu. Það er komin gjafakortaframleiðsluvertíð og pantanir þannig að þær klárast ekki innan dagsins svo við förum beinustu leið niður eftir morgunkaffi, framleiðum til klukkan að ganga eitt. Förum svo aftur niður um eitt leytið og höldum áfram. Eftir vinnu fór ég beint yfir í Laugardalinn og fór fyrstu ferðina í þann kalda um hálffjögur. Synti svo 400 metra áður en ég fór aftur í kalda. Var í sundi til klukkan fimm. Hitti ekki á kalda potts vinkonu mína því hún komst ekki fyrr en korter yfir fimm. Ég var komin heim um hálfsex og kvöldið fór í alls konar. Dreif mig í háttinn um hálftíu og las í uþb hálftíma áður en ég fór að sofa.
9.11.23
Næstum því synt með selum
8.11.23
Rjómablíða, eða næstum því
Aðfaranótt gærdagsins var frekar erfið upp á svefn að gera. Held að samtals hafi ég sofið í kannski fjóra tíma. Engu að síður var ég komin á fætur um sex og mætt í vinnu klukkan hálfátta. Var búin í vinnu um hálffjögur og fór þá yfir í Laugardalinn. Spjallaði við pabba á leiðinni. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn synti ég 300 metra og þá passaði akkúrat að kalda potts vinkonan var komin og tilbúin í sína fyrstu ferð í kalda en hún byrjar oftast og endar á því að fara í heitasta pottinn. Fórum í gufu eftir mína fjórðu ferð í kalda og svo þaðan í sjópottinn. Eftir korter þar varð ég að segja þetta gott því ég var komin í spreng. Kom heim um sex og fékk mér hluta af afgangnum sem ég eldaði mér sl. sunnudag. Um hálfátta kom nafna mín til að sækja húslyklana sem hún hafði látið Davíð Stein fá þegar hann var í kisupassinu stuttu fyrir síðust mánaðamót. Frænka mín stoppaði hjá mér í rúma klukkustund og við áttum gott spjall. Fljótlega eftir að hún fór ákvað ég að þótt klukkann væri ekki alveg orðin níu væri ágætt að fara bara í háttinn. Las til klukkan korter yfir níu en ég held að ég hafi verið sofnuð um hálftíu. Rumskaði um fjögur í morgun til að fara á salerni en svaf svo í tvo tíma í viðbót. Vaknaði á undan vekjaraklukkunni og mér reiknast til að heildarsvefninn sl. nótt hafi verið rúmir átta tímar.
7.11.23
Ekkert kaffi í þrjár vikur
Vegferðin mín til að "heila görnina" heldur áfram og gengur bara þokkalega. Er þó ekki búin að taka út alveg allt sem var á úttöku-listanum en líklega er það bara kjötið sem er eftir og ég er að vinna í þessu. Það að ég finn góðan mun á mér hjálpar til við þetta verkefni en alltaf langar mig samt í kaffi og stundum popp á kvöldin. Læt það ekki eftir mér ennþá, staðráðin í að halda þetta út. Hversu lengi veit ég ekki en líklega þrjá mánuði til hálft ár og þá get ég vonandi farið að taka stöðuna um hvað ég prófa að taka inn aftur.
Var á íttoðsluendanum á vélinni í gær. Fór því beint niður að "sækja" tölur og hlaða inn þegar ég mætti í vinnu. Emmurnar voru á sínum stað en í hinni möppunni voru bara debetkortaskrár en engar skrár fyrir kreditkort. Framleiddum allt debet og kláruðum afgang af gjafakortapöntun. Kerfisfræðingurinn kom um níu leytið til að skoða, sagðist hafa sér allar skrár hjá sér. Hann gat sent okkur þær og við fórum ekki upp í kaffi fyrr en að framleiðslu lokinni. Þá var klukkan að ganga tíu svo það var engin veruleg seinkun á afhedingu. Fórum ekki niður aftur fyrr en hádegisskammturinn skilaði sér á vélina. Gengum frá kortadeildinni um tólf. Ég hjálpaði til við frágang í eldhúsverkunum og fór svo í innleggin. Klukkan var fjögur þegar ég stimplaði mig út.
Hringdi í afmælisbarn gærdagsins, besta vin minn, og spjallaði við hann á meðan ég ók yfir í Laugardalinn. Kaldapotts vinkona mín var í sinni annarri ferð í kalda pottinum þegar ég mætti í sundið. Við fórum fjórar ferðir saman í kalda, tvær í heitasta, eina í gufuna og eina í sjópottinn. En ég skrópaði í sjálft sundið. Kom við í Krónunni í Borgartúni á leiðinni heim. Fékk ekki alveg allt þar sem mig vanhagaði um en fór þó ekki í aðra búð til að útvega það sem ávantaði. Lá ekkert svo á þessu.
6.11.23
Almannavarnafundur
Ég var vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Klukkan var ný orðin níu þegar ég var komin á braut sjö í Laugardagslauginni, þá búin að fara eina ferð í kalda pottinn. Synti 400m og fór aftur í kalda. Sjósundsvinkona mín var þá mætt á svæðið. Það eru níu vikur síðan hún fékk nýja hnjáliði. Hún er að vinna í að styrkja sig og þarf að passa sig að gera ekki of mikið en hún synti 200 metra skriðsund, fór svo í nuttpottinn og hitti mig í gufunni. Úr gufunni fórum við í sjópottinn og þar sátum við á spjalli í amk hálftíma. Skelltum okkur svo í kalda pottinn í þrjár mínútur áður en við fórum upp úr. Ég var komin heim rétt fyrir tólf. Um þrjú leytið skellti ég mér í smá göngu upp að Perlu, niður að HR og svo til hægri meðfram Öskjuhlíðinni og framhjá Valsheimilinu. Forritið í símanum byrjaði líklega ekki að skrá gönguna fyrr en ég var komin yfir Bústaðahlíð á ljósunum. Þetta voru rétt rúmir þrír kílómetrar á 37 mínútum og ég kom heim mátulega áður en Liverpool leikurinn hófst. Það munaði engu að mínir menn töpuðu. Á áttugustu mínútu skorðuðu Luton fyrsta mark leiksins en það var í uppbótatíma sem Luis Diaz jafnaði metin.
5.11.23
Trall
Titill færslunnar í dag er út í loftið. Hefði allt eins getað notað upphafsorðið í þessari færslu sem titil þar sem markmiðið var að orðið hæfist á T. Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun og notaði fyrsta rúma klukkutímann til að vafra um á netinu og setja inn færslu. Lagði af stað í sund um það leyti sem morgunfréttir klukkan átta voru að hefjast. Í sundi byrjaði ég á að fara eina ferð í þann kalda og úr þeim potti í þann heitasta. Þar hitti ég fyrir frænda minn og nafna hans pabba. Sá er kominn í fæðingarorlof en yngri sonur hans er um eins árs. Við spjölluðum í nokkra stund eða þar til ég fann að kominn var tími á að kæla sig aftur. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fór ég á braut 6 og synti 500m, flesta á bakinu en kannski 40 metra skriðsund í síðustu ferðinni. Eftir þriðju ferðina í kalda pottinn fór ég í gufu, þaðan í sjópottinn og svo endaði ég á kalda og smá "sólbaði" áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Þá var klukkan að byrja að ganga ellefu. Svo lagði ég leið mína í AO við Sprengisand áður en ég fór vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Kom heim um hálfeitt leytið. Einhvern veginn fór það svo að ég fór ekkert út aftur. Bræðurnir fóru til pabba síns og fjölskyldu hans um tvö leytið. Davíð Steinn hringdi í mig upp úr klukkan sjö til að athuga hvort ég væri í bænum og ef svo væri hvort hann mætti fá lánaðan minn bíl til að sækja frænku sína austur í Hvolsvöll. Hann kom um níu leytið að sækja bíllykilinn. Bíllinn hennar Bríetar hlýtur að vera eitthvað bilaður og kærastinn vant við látinn. En þetta gaf frændsystkynunum tæki færi til að hittast.
4.11.23
Tíminn
Það er tilgangslaust að reyna að eltast við eða stoppa tímann en það er vel hægt að staldra við í núinu og gleyma stund og stað, fortíð og framtíð. Það eru til nokkrar aðferðir og er sjósund ein af þeim. Föstudagar eru sjósundsdagar hjá mér, svona oftast nær. Engin undantekning í gær og þegar vinnu lauk um þrjú leytið fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. C.a. tuttugu mínútum fyrir fjögur óð ég út í 4,5°C heitan sjóinn í fjöru og stillu. Var svo sem ekki mikið að synda en svamlaði um í rúmar tíu mínútur. Ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Sat svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Þar lauk ég við að hlusta á síðasta innleggið í fjögra vikna netnámskeiðinu um heilun á görninni. Mataræðið skiptir miklu máli en það gerir andlega hliðin líka. Það er hægt að borða hollt og gott en vera út á túni andlega og það er líka hægt að vera andlega sterkur en borða svo óhollt og mikið að líkaminn mótmælir. Ég hef svo sem vitað þetta í þó nokkurn tíma en þótt meltingakerfið hjá mér hafi verið viðkvæmt alveg frá fæðingu þá hef ég samt ekki haldist á réttri braut hvað varðar að passa alltaf hvað ég læt ofan í mig. Að vísu hef ég ekki drukkið litað gos í meira ein þrjá áratugi og drekk heldur ekki bjór. Hvernig mér mun ganga að vera staðföst næstu vikurnar hvað varðar t.d. kaffi, hvítvín, popp, kjöt og fleira sem ég þarf að útiloka (sumt vonandi bara um tíma) verður að koma í ljós. Er ekki frá því að ég sé að finna smá mun á mér en á meðan ég er ekki alveg laus við bjúginn held ég þetta vonandi út. Það er örugglega þess virði að reyna og sleppa því bara að hugsa um það sem ekki má heldur einblína á það sem má alveg örugglega.
3.11.23
Enginn magnesíum pottur
Nú brá svo við að ég svaf í einum dúr frá ca tíu í fyrrakvöld til klukkan að verða sex í gærmorgun. Vinnudagurinn stóð yfir milli klukkan hálfátta og rúmlega þrjú. Var komin í sund upp úr klukkan hálffjögur. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni úr vinnunni í sundið og komst þá að því að eldri systurdóttir mín er búin að vera hjá honum síðan seint á sunnudagskvöldið var, með hvolpinn Uglu með sér. Ugla er að fara að taka þátt í hundasýningu um helgina. Synti 300 metra og það passaði akkúrat að þá var kaldapotts vinkonan mætt og tilbúin í fyrstu ferðina í þann kalda. Fórum fjórar ferðir í í þann heitasta á milli. Eftir fjórðu ferðina settumst við inn í gufu í góða stund. Í uþb tvo mánuði fyrir lokun var verið að setja magnesíum flögur út í einn pottinn á þriggja eða fjögurra tíma fresti einu sinni í viku, á fimmtudögum. Í gær var fyrsti fimmtudagurinn síðan opnaði aftur en búið var að fjarlægja skiltið. Sumir sögðu að ekki hefði verið fyllt á flögurnar en aðrir sögðu að þetta hefði alltaf átta að vera tímabundin kynning. Það er verið að selja poka af magnesíuflögum í afgreiðslunni. En eftir gufuferðina fórum við í sjópottinn. Ég dýfði mér svo smástund aftur í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim. Þá var klukkan byrjuð að ganga sex. Vinkonan ætlaði að vera svolítið lengur því mögulega var dóttir hennar að fara að mæta í sund um hálfsex leytið.
2.11.23
Þessi tími sem hleypur svo hratt
Í "gærmorgun" var klukkan rétt orðin hálffjögur þegar hlandblaðran stuggaði við mér. Ég skreið svo aftur upp í rúm. Sofnaði ekki alveg strax aftur en held að ég hafi svo fengið klukkutíma lengri svefn því mig var að dreyma eitthvað spennandi og skrýtið þegar ég vaknaði rétt fyrir sex. Mætti í vinnu á sama tíma og venjulega og var byrjuð í innleggjunum áður en klukkan sló átta. Það var aðeins rólegra í þeirri vinnu og ég var búin með minn skammt stuttu fyrir kaffi. Á miðvikudögum er brauð og kruðerí með morgunkaffinu og oft fundir. Það var ekki fundur í gær en sú sem kemur með kruðeríið er að vinna hálfa stöðu í fyrirtækinu og sér um kaffistofuna í D30 og kemur einu sinni í viku til okkar. Ég ákvað að snúa bakinu í glæsilegt morgunverðarborðið, drekka mitt heita vatn, prjóna og spjalla við vinnufélagana. Freistaðist ekki neitt. Hélt svo áfram í innleggjunum eftir kaffi og kláraði þann skammt rétt fyrir tólf. Eftir hádegi gekk vel framan af og ég sá fyrir mér að klára um tvö en þá kom babb í bátinn og ég þurfti smá aðstoð og var síðust að klára. Var samt búin um þrjú. Fór í Nauthólsvík beint eftir vinnu. Var rétt búin að klæða mig úr skóm og sokkum þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt handklæði. Trítlaði fram í afgreiðslu og leigði mér eitt handklæði á 750 krónur. Var komin út í 4,7°C sjóinn tíu mínútum fyrir fjögur og svamlaði um í tæpar tíu mínútur. Þá settist ég smá stund inn í gufuna. Úr gufunni óð ég út í lónið sem var amk einni til tveimur gráðum heitara ef ekki meira því það var fjara. Var samt bara stutta stund út í.
1.11.23
Nagladekkin komin undir og sumardekkin á dekkjahótelið
Aftur rumskaði ég um fimm til að skreppa á salernið. Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex og í vinnuna um hálfátta. Var byrjuð í innleggjavinnunni áður en klukkan var orðin átta. Klukkan að byrja að ganga fjögur fékk ég að hætta vinnu því ég átti tíma með bílinn hjá N1 í Fellsmúla klukkan hálffjögur. Bíllinn komst strax að á réttum tíma og það tók aðeins korter að svissa yfir á vetrardekkin. Ég prjónaði smávegis á meðan og horfði löngunaraugum á kaffivélina og bakkelsið sem var í boði. Mig langaði í kaffi og kleinu en þó eiginlega samt ekki. Ég er á ákveðinni vegferð og fer vonandi ekki að skemma hana alveg strax. Er aðeins farin að finna mun á mér til hins betra en reikna þó með að tilraunin þurfi að standa yfir í amk þrjá til sex mánuði og ef bjúgurinn mun hverfa þá er allt eins líklegt að ég hugsi mig tvisvar um hvort það borgi sig bara ekki að halda sig við það sem gerir manni gott og sleppi tökum á því sem er að skemma fyrir. Sjáum hvað setur.
Var mætt í sund rétt rúmlega fjögur og hitti kalda potts vinkonu mína þegar hún var á leið í sína fyrstu ferð í kalda. Fórum fjórar ferðir alls í þann pott, tvær ferðir í heitasta pottinn, eina í gufu og eina í sjópottinn. Ég synti ekki neitt en þessi rútína tók alls um einn og hálfan tíma. Kom við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim.
31.10.23
Innlagnarvika
Rumskaði um fimm í gærmorgun. Blaðran var full svo ég skrapp á salernið en skreið svo upp í rúm aftur. Sofnaði þó ekki en ég kúrði í tæpan klukkutíma áður en ég fór á fætur. Var mætt í vinnu fyrir klukkan hálfátta. Þessa vikuna hefur verið ákveðið að ein af okkur í kortunum verði alfarið uppi í innlögnum en hinar tvær sinni kortamálunum. Fyrirliðinn ákvað fyrir helgi að ég skyldi byrja í innlögnunum og ég var sátt við það. Það var nóg að gera og smá aukaálag því það vantaði tvær. Við vorum því að vinna til klukkan hálffimm. Ég gerði aðeins ein mistök sem ekkert mál var að laga. Læri af þeim. Annars finnst mér þetta alveg að vera að koma hjá mér. Veit þó að ég er alls ekki útlærð. En þetta er gaman og tíminn gersamlega flýgur áfram. Var komin í sund um fimm og hitti kalda potts vinkonu mína í sinni fimmtu ferð í kalda pottinum. Saman náðum við 3 ferðum og eina í gufu. Ég synti ekkert en fór aðeins í sjópottinn og fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim.
30.10.23
Ný vinnuvika
Svaf alveg ágætlega í fyrrinótt þrátt fyrir að þurfa að skreppa á salernið tvisvar sinnum. Seinna skreppið var reyndar um sex. Ég fór á fætur um átta. Vafraði um á netinu í uþb klukkustund. Þá var pabbi komin á fætur og ég settist við eldhúsborðið og lagði kapla í hálftíma. Einhvern tímann fljótlega eftir það skrapp ég í tæplega hálftíma göngu aðeins upp og aftur niður með Rangánni. Veðrið var fallegt en svalt. Ég var í lopapeysu og með ennisband og það var alveg nóg þar sem ég var á hreyfingu. Var rjóð í framan lengi eftir að ég kom inn úr göngunni. Fitjaði upp á nýrri tusku og greip líka í bók. Hafði mat handa okkur feðginum tilbúinn um það leyti sem hádegisfréttir voru að klárast. Horfði á Liverpool leikinn en fljótlega eftir hann fór ég að taka mig saman. Mundi eftir að taka með mér þorskhnakkana úr kistunni hans pabba. Var komin heim um hálfsex.
29.10.23
Á Hellu
Ég var vöknuð um sex í gærmorgun. Fór í sund um átta. Hárþvottadagur svo ég synti á bakinu. Fór fjórar ferðir í kalda, eina í gufu, eina í þann heitasta og slakaði einnig vel á um stund í sjópottinum. Var komin heim aftur um hálfellefu. Enginn esperantohittingur þessa helgina þar sem verið var að undirbúa 4 ára afmæli. Um hádegisbil pakkaði ég niður, m.a. fartölvunni N1 sonarins sem ég er búin að hafa aðgang að síðustu misserin. Kom við í Heilsuhúsinu í Kringlunni til að versla vítamín og kókosvatn. Var komin til pabba um tvö. Það hafðist að senda skjal með pósti úr fartölvunni, opna í tölvunni hans pabba og prenta út. Þetta er yfirlit úr netnámskeiðinu yfir vítamín sem eiga að hjálpa til við að heila mína blessuðu görn. Dagurinn leið ógnarhratt. Var með bleikju í matinn og gufusoðið blómkál og lauk með í kvöldmatinn. Fann einnig steinlausar ólífur inn í ísskáp. Næstu tvær vikurnar mun ég fara vel yfir leiðbeiningarnar um það sem taka á úr mataræðinu, alfarið eða um tíma og mun ég gefa mig alla að þessu verkefni næstu misserin í góðri von um að mér muni takast að vinna bug á bjúgnum sem ég hef verið með meira og minna í yfir þrjátíu ár.
28.10.23
Morgunstund
Vaknaði hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að fara í gang. Slökkti á henni, dreif mig á fætur að sinna morgunverkefnunum. Mætti í vinnu um hálfátta. Ég var í sömu stöðu í gær, á ítorðsluendanum, svo ég fór beinustu leið niður í kortadeild að kveikja á vélinni og "ná í" tölur áður en ég fór og fyllti á vatnsbrúsann. Visa og debet framleiðslu lauk tuttugu mínútum yfir níu. Þá fór ég upp á undan til að skreppa á salernið áður en fór í starfsmannasamtal við framkvæmdastjórann klukkan hálftíu, það seinna á árinu. Við spjölluðum í rúmar tuttugu mínútur og leið mér mjög vel í þessu samtali. Verkefnastaðan var þannig að það þurfti ekki aukahendur uppi. Ég sat því góða stund inn á kaffistofnni eftir samtalið, prjónaði og spjallaði og drakk vatn. Um ellefu kom pöntun upp á 5000 gjafakort ásamt hádegisframleiðslunni. Við fórum því aftur niður eftir hádegi til að hlaða inn og byrja framleiðslu á þessum gjafakortum. Framleiddum einn fimmta af pöntuninni en ákváðum á láta gott heita um tvö leytið og ganga frá deildinni. Hjálpaði til með eitt verkefni uppi áður en ég stimplaði mig út stuttu fyrir þrjú og fór svo beinustu leið í Nauthólsvík. Dásamlegt að skella sér aðeins í sjóinn í vinnuvikulok. Kom heim á fimmta tímanum.
27.10.23
Taylor Swift bíótónleikar
Vinnudagurinn í gær náði til klukkan hálffjögur. Ég var á ítroðsluendanum. Vorum búnar með fyrstu tvo framleiðsluskammtana um það leyti sem var að bresta á kaffipása. Eftir kaffi og til ellefu tók ég nokkur innlegg. Ákvað sjálf verkefnið og leysti það án þess að þurfa neina tilsögn eða aðstoð. Hádegisskammturinn var ekki stór en það var líka tilkynnt og send inn beiðni um framleiðslu á 2000 gjafakortum. Það var hægt að hlaða gjafakortaverkefninu inn klukkan eitt og við gátum klárað framleiðslu. Þegar við vorum búnar að ganga frá niðri var klukkan að byrjuð að ganga fjögur. Flest var að klárast uppi líka. Ekki tók því samt að fara eitt eða neitt því ég var búin að skrá mig á viðburð með með framkvæmdastjóranum, nokkrum vinnufélögum og fylgifiskum. Byrjuðum á því að fara yfir í salinn í hinum endanum á húslengjunni. Þar vorum við í góðu yfirlæti til klukkan hálfsex. Fengum léttar veitingar og ég ákvað að taka svindldag. Fékk mér reyndar ekkert að drekka hvorki áfengt né óáfengt. Ég fékk svo far yfir, ákvað að geyma bílinn minn áfram í því stæði þar sem ég lagði honum um morguninn. Í Laugarásbíó fengum við afhentan miða sem gilti fyrir popp og gosi. Ég ákvað að sleppa gosinu og fékk í staðinn að uppfæra popppokann í stærri poka. Popp er eitt af því sem ég á að taka út og ég á í jafnmiklu veseni með það og kaffið. Reyndar er nú liðin ein og hálf vika síðan ég drakk kaffi síðast, en mig langar alltaf í svarta, sterka drykkinn. Klukkan sex vorum við komin inn í aðalsalinn. Það voru reyndar auglýsingar fyrsta korterið eða svo en svo hófust stórkostlegir tónleikar og flott dansatrið með Taylor Swift þar sem hún fór yfir ferilinn og tók lög af öllum plötunum sínum. Þetta var ekki búið fyrr en klukkan langt gengin í níu. Þá var ég að verða svolítið þreytt í rófubeininu þrátt fyrir að hægt væri að halla sér í sætunum. En ég var uppveðruð þegar ég svindlaði mér sem fyrst yfir Sæbrautina, næstum stystu leið að bílnum mínum og fór heim, beinustu leið í rúmið en las þó aðeins áður en ég fór að sofa.
26.10.23
Fimmtudagur og stutt í mánaðamót
Auðvitað var tvöfaldur skammtur af kortapöntunum í gær en misstórir skammtar þó. Framleiðsla stóð yfir milli klukkan átta og hálfeitt með kaffipásu á milli. Ég var í bókhaldi og innlögnum og fór bara einu sinni niður í kortadeild. Það var einnig nóg að gera í innlögnunum og eftir hádegi komu fyrirliði og fyrrum fyrirliði með inn í þau verkefni. Ég var búin í vinnu rétt fyrir fjögur og fór þá beinustu leið í Nauthólsvík. Það var flóð, lítil ferð á logninu, sjórinn 7,1°C og spegilsléttur. Ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Skrapp svo og skilaði skammtímalánsbókunum á Kringlusafnið. Tók aðeins eina bók í staðinn sem er nýleg eða frá því í fyrra og með 30 daga skilafresti. Ég er þá með fjórar bækur en ekki fimm hér heima og eftir hálfan mánuð mun ég líklega framlengja skilafresti á þremur af bókunum.
25.10.23
Lagði niður störf í gær
Þrátt fyrir að ég stillti ekki á mig neina klukku og hefði farið að sofa aðeins með seinni skipunum á mánudagskvöldið var ég glaðvöknuð um hálfsex. Var komin á fætur fljótlega. Hitti því aðeins á N1 soninn sem lagði af stað í vinnu um sjö. Ég vafraði ekkert svo lengi á netinu en kynnti mér m.a. viðburðina sem tengdust deginum. Það varð úr að ég ákvað að fara einungis á hápunktinn, samstöðufundinn á Arnarhóli. Notaði tækifærið og lauk við að lesa hina skammtímalánsbókina af safninu, hugaði að næstu skrefum í tiltektinni í mataræðinu til að heila mína blessuðu görn og prjónaði líka smávegis. Kveikti ekkert á sjónvarpinu og var lítið á glugga í samfélagsmiðla. Korter yfir eitt lagði ég labbandi af stað og rifjaði upp leiðina sem ég fór oftast þegar vinnustaðurinn var á Kalkofnsvegi. Það var greinilegt að allar leiðir lágu á torgið og margir fóru labbandi úr Hlíðum og nágrenni. Upp á Skólavörðuholtinu var magnað að sjá "fossana" sem streymdu úr að manni fannst öllum áttum. Var komin á Arnarhólinn korter fyrir tvö og stóð nánast á sama blettinum í einn og hálfan tíma. Veðrið sýndi svo sannarlega á sér sínar bestu hliðar og stundin var magnþrungin. Ég sem yfirleitt forðast að fara í mikla mannþröng sýndi samstöðu og fann bara fyrir töfrum allt í kring. Labbaði svo aðeins aðra leið heim og var komin þangað fyrir klukkan fjögur. Í gærkvöldi kíkti danska frænka mín og nafna til mín en hún var að afhenda Davíð Steini húslykla þar sem þau Mikel eru að skreppa til Danmerkur í dag og verða til sunnudags og hann var búinn að taka að sér að heimsækja kisu á meðan. Hann var einmitt nýkominn af vakt þegar hún mætti á svæðið. Pabbi hennar á afmæli á laugardaginn, verður 76 ára og þau ætla að gera sér glaða daga með honum.
24.10.23
Bíó Paradís
Vinnudagurinn minn í gær varð rétt rúmir átta tímar. Fór beinustu leið í Laugardalslaug eftir vinnu. Kalda potts vinkona mín var þegar búin að fara tvær ferðir í þann kalda þegar ég mætti. Saman fórum við þrjár ferðir í hann, tvær í heitasta pottinn og eina ferð í gufuna. Ég dýfði mér svo smá stund í kalda pottinn áður en ég fór upp úr og heim. Ég mátti semsagt ekki vera að því að synda neitt. Kom heim um hálfsex. Fékk mér kókosvatn og avaocado. Þremur korterum síðar labbaði ég af stað niður í bæ. Var komin rétt á undan esperanto vinkonu minni að Bíó Paradís. Vorum við báðar örlítið snemma í því. Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi buðu upp á að sækja sýningu á verðlaunamynd um Thomas Keating: A RISING TIDE OF SILENCE. Sýningin stóð yfir í klukkustund og korter og byggðist á viðtölum við þennan merka mann og ævi hans. Hann var fæddur 1923 og hefði því orðið hundrað ára í ár. Myndin kom út fyrir tíu árum, sama ár og kyrrðarbænasamtökin voru stofnuð. Var komin heim aftur um hálfníu og skrefafjöldi gærdagsins fór yfir tíuþúsundskref.
23.10.23
Fæðingardagur föðurbróður míns
Eins og kom fram í tiltlinum á færslunni í gær átti ég erfiða nótt í fyrrinótt. Fór upp í tiltölulega snemma og las í smá stund. Það voru þannig skilaboð í líkamanum að mér fannst ég hvorki geta legið né setið og var þetta næstum því eins slæmt og þegar ég fékk flensuna í maí í vor. Einhvern veginn fann ég stellingu og sofnaði um stund. Rumskaði um eitt leytið. Skrapp á salernið. Óþægindin voru enn að angra mig en ég sofnaði samt aftur en ekki lengi. Vissi næst af mér um þrjú leytið og fór þá aftur á salernið. Báðar ferðirnar á salernið voru til að pissa. Um fimm leytið var ég að spá í að kannski væri bara best að koma sér á fætur en næst vissi ég af mér upp úr klukkan átta. Þetta varð til þess að ég fór ekki í sund fyrr en um hálfellefu því ég þurfti að vafra aðeins um á netinu og einnig búa til innkaupalista í samræmi við mataræðið þessa dagana. Áttaði mig strax á því í sturtuklefanum að það var bara ágætt að ég væri í sundi á þessum tíma. Hitti nefnilega tvær konur sem ég hef ekki hitt lengi, önnur þeirra er sjósundsvinkona mín og hin kona eins frænda míns. Hitti hann út í laug og hálftíma síðar mætti kalda potts vinkona mín. Því miður fyrir okkur var kaldi potturinn lokaður í gær. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég fór upp úr. Kom við í Krónunni í Skeifunni og líka Heilsuhúsinu í Kringlunni. Hringdi í pabba. Var eitthvað að spá í að skreppa austur og sækja þorskhnakka í kistuna til hans en það varð ekkert úr því. Davíð Steinn hjálpaði mér með vörurnar inn úr bílnum. Þetta voru samt bara tveir pokar, annar léttur, og tveir hlutir í þriðja pokanum fyrir utan sundtöskuna og veskið mitt. Það fór svo þannig að ég skrapp í tuttugu mínútna göngutúr stuttu fyrir fjögur en ekkert í lengra ferðalag á bílnum. Eldaði mér bleikju í kvöldmatinn og hafði slatta af grænu grænmeti með og dass af rauðu súrkáli.
22.10.23
Erfið nótt
Það er nokkuð víst að líkaminn er að vinna í að afeitra sig. Svaf þokkalega í fyrrinótt en var vöknuð fyrir allar aldir í gærmorgun, fyrir klukkan sex á laugardegi. Lagði af stað í sund í fyrra fallinu og kom við hjá ÓB í Öskjuhlíðinni til að jafna þrýstinginn á dekkjunum. Hitti fleira af "sundfólkinu mínu" í sundi, bros á vörum en sumir voru samt að spá í hvort ekki hefði verið hægt að þrífa sumt betur. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn fór ég á braut 1 og synti 500 metra, flesta á bakinu en smá bringu- og skriðsund líka. Eftir aðra ferðina í kalda pottinn fór ég í sjópottinn og var það í korter áður en ég fór aftur í kalda, síðan í gufu, stutta dýfu í kalda, smá "sólbað" og svo upp úr að þvo á mér hárið um tíu leytið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Ég var búin að ákveða að taka ekki út hafra úr fæðunni fyrr en eftir þessa helgi svo hún bauð mér upp á hafragraut með chia fræjum og kanil og svo jurtate á eftir. Var komin heim rétt fyrir tólf. Kveikti strax á sjónvarpinu og stillti á rás tólf því hádegisleikurinn í gær var milli Liverpool og Everton. Leikurinn fór 2:0 fyrir heima liðið en gestirnir voru einum færri frá því fyrir þrítugustu mínútu í fyrri hálfleik. Eftir leikinn lauk ég við fyrirlestrana og ítarefnið fyrir viku tvö í netnámskeiðinu. Tók einnig saman lista yfir það sem ég þarf að verða mér út um. Var frekar svekkt síðar um daginn þegar ég uppgötvaði að möndlumjólkin sem ég keypti um daginn inniheldur sykur. Keypti hana áður en námskeiðið hófst en ég er samt yfirleitt vön að athuga með innihaldslýsingar. Það hef ég greinilega ekki gert um daginn. Blandaði hluta af mjólkinni við chiafræ en líklega helli ég restinni af fernunni. Ekkert varð úr að ég færi út í búð í gær. Bræðurnir fóru að heimsækja hina fjölskylduna sína. Ég horfði á bart úr nokkrum leikjum í enska, tvo þætti, prjónaði smá en það var ekki fyrr en ég fór upp í rúm á tíunda tímanum að ég las eitthvað.
21.10.23
Næst síðasta helgin í október
20.10.23
Föstudagur
Vaknaði um sex í gærmorgun eftir ágætan nætursvefn. Var í vinnu milli klukkan hálfátta og klukkan að ganga fjögur. Á móttökuendanum í framleiðslunni til hádegis og að hreinsa gull og fara yfir skjöl eftir hádegi. Þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis fór ég beint heim eftir vinnu. Ég veit að það borgar sig ekki að skrópa of oft en þar sem ég er að vinna í breytingum þessa dagana þá fannst mér liggja meira á að koma heim til að kíkja á netnámskeiðið. En kannski er ég bara að skrökva að sjálfri mér eða alltof góð við mig. Ég notaði amk fyrstu þrjú korterin eftir að ég kom heim til að spjalla við konu eins frænda míns og ég eyddi aðeins minni tíma í námskeiðið. Þetta er svokallað 4 vikna sjálfsnámskeið og einn af kostunum við það er að maður ræður hvenær maður hlustar á fyrirlestrana og skoðar ítarefnið. Rétt fyrir sex fékk ég mér AB mjólk með rúsínum, chiafræjum og smá seríósi. Seríósið er reyndar eitt af því sem á að taka út og í næstu viku eiga allar mjólkurvörur að fara út amk í einhvern tíma. Líklega er best að líta á þessa vegferð sem spennandi ferðalag. En maður má líklega líka halda í vonina um að sumt af því sem tekið er út í þessu ferli muni vera hægt að taka inn aftur. Sjáum hvað setur. Ég er amk ekki búin að drekka kaffi síðan á þriðjudagsmorguninn.
19.10.23
Fart á tímanum
Þegar ég mætti í vinnuna um hálfátta í gærmorgun var mér hleypt inn í stigaganginn. Þar voru þegar mættir hátt í tíu vinnufélagar og það bættist í hópinn á næstu mínútum. Aðgangskortin virkuðu ekki en sá sem er í móttökunni var að tala við einhvern í símanum. Eftir dágóða stund komst hann inn og amk fimm mínútum seinna opnaði hann fyrir okkur hinum, hleypti okkur öllum inn í einu í gegnum slússuna þar sem á yfirleitt einn að fara í einu hvort sem fólk er að koma eða fara. Hann varð líka að hleypa okkur inn í skrifstofurýmið því aðgangskortin voru ekki orðin virk. Það var verið að vinna í því. Ég gat aðstoðað við að opna ytri hurðina á hvelfingunni uppi. Fyrrum fyrirliði var mætt og fyrirliðinn setti hana í bókhalds- og uppivinnu. Þegar aðgangskortin voru loksins orðin virk kom í ljós að það var samt ekki hægt að nota þau til að opna hvelfinguna niðri. Ég gat hlaðið inn verkefnunum en það var að sjálfsögðu ekki hægt að framleiða neitt fyrr en hægt var að sækja kortavagnana inn í hvelfingu. Sá sem lagaði það kom rétt fyrir níu. Skammturinn sem átti að fara út um tíu var tilbúinn hálftíma fyrr. Við fórum upp með töskuna og í kaffi. Nema nú er ég á þeirri vegferð að sleppa kaffidrykkju og brauðáti í ákveðinn tíma. Það var sem betur fer boðið upp á vínber, jarðaber, osta og sykurlausar sultur en frá og með næstu viku mun ég taka út alla mjólkurvöru í ákveðinn tíma. Ég er að gera þetta til að athuga hvort ég losni við bjúginn ef ég breyti mataræðinu. Var búin í vinnu rétt fyrir tvö. Fór beint í Nauthólsvík og naut þess að hoppa um í öldunum í 6,5°C sjónum í tæpt korter. Fór svo aðeins í gufu og tíu mínútur í heita pottinn áður en ég fór upp úr og heim.
18.10.23
Pabbi áttatíuogníu ára í dag
Ég varð svolítið hissa þegar ég vaknaði í gærmorgun og sá að klukkan var orðin sex. Enn voru samt um tuttugu mínútur þar til vekjarinn hefði átt að ýta við mér. Slökkti á honum og fór á fætur. Var mætt í vinnu um hálfátta og var ekki búin fyrr en klukkan að verða fjögur. Þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér fór ég beint heim úr vinnu og skrópaði í sundið.
17.10.23
Beint heim eftir vinnu í dag
Var nokkuð snemma á fótum í gærmorgun. Mætti í vinnu á sama tíma og oftast. Ég var í bókhaldinu og á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum daglega fyrirliggjandi framleiðslu fyrir klukkan hálftíu. Stuttu fyrir tíu mætti fyrrum fyrirliði og hitti okkur fyrir utan hús. Við fengum far í D30 með vinnufélaga. Öll vorum við að fara til að vera viðstödd minningarstund um samstarfskonu sem tapaði baráttunni við ristilkrabbamein fyrr í mánuðinum. Athöfnin var falleg, erfið og stóð yfir í tæpan hálftíma. Vinnufélaginn sem við fengum far með á staðinn var ekki að fara til baka svo við þrjár tókum leigubíl. Fyrrum fyrirliði kom ekki inn með okkur en hún kemur til vinnu á morgun eftir sex vikna veikindaorlof vegna aðgerðar sem hún þurfti að fara í. Ég var búin í vinnu rétt fyrir klukkan þrjú. Kom við á AO við Sprengisand til að fylla á tankinn áður en ég fór í Sund í sundhöllinni. Synti ekki neitt en var þeim mun duglegri við að pottormast.
16.10.23
Netnámskeið í að heila görn
Rumskaði alltof snemma en sofnaði þó aftur á endanum. Klukkan var svo um níu þegar ég fór á fætur og tók ég fljótlega þá ákvörðun að halda kyrru fyrir heima. Eina sem ég fór úr íbúðinni voru tvær ferðir í þvottahúsið. Vafraði á netinu milli klukkan hálftíu og tólf. Helmingurinn af þeim tíma fór í að klára fyrstu vikuna af fjórum á netnámskeiði sem ég skráði mig á rétt eftir síðustu mánaðamót. Yfir hádegisfréttunum fór ég langt með að ljúka við enn eina tuskuna, kláraði hana alveg og gekk frá endum í gærkvöldi. Rétt fyrir tvö var ég búin að setja upp vatn í hraðsuðukönnuna og til stóð að hella upp á fyrsta kaffibolla dagsins og fara að fylgjast með landsleik í handknattleik kvenna. Þá hringdi síminn. Á línunni var ein af fyrrum samstarfskonum úr kortadeildinni. Úr varð þriggja kortera símtal. Klukkan var því þrjú þegar ég drakk fyrri kaffibollann af tveimur. Seinni partinn af deginum notaði ég í þáttaáhorf. Var með bækur með mér í stofunni en ég tók þær aftur með mér inn í herbergi þegar ég fór í háttinn um hálftíu og las þá í tæpan klukkutíma.
15.10.23
Hvíldardagur
Þegar ég leit út í gærmorgun sá ég snjóföl yfir öllu. Hins vegar þurfti ég ekki að skafa af bílnum þegar ég lagði af stað í sund um átta. Snjórinn var laus á og ekki á hliðarrúðunum og rúðuþurrkurnar unnu strax á þessu bæði á fram og afturrúðu. Lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og labbaði þaðan spölinn í Sundhöll Reykjavíkur. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn fór ég beint í innilaugina. Þar var einn á hverri braut en ég fann mér pláss á braut 2 og synti í uþb hálftíma, flestar ferðirnar á bakinu. Yfirleitt er ég frekar "feimin" við að synda á bakinu ef einn eða fleiri eru á sömu braut en í gærmorgun var þetta ekkert mál. Sá sem var fyrir á brautinni syndir með hljóðum svo ég vissi yfirleitt hvenær við vorum að mætast á brautinni. Næst fór ég smá stund í heitasta pottinn sem er á svölunum og annar af elstu pottunum. Átti svo eftir að fara þrjár ferðir í kalda, eina ferð í gufuna og eina í nuddpottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Klukkan var rétt byrjuð að ganga ellefu þegar ég rölti að bílnum aftur. Í þetta sinn þurfti ég að sópa af honum. Var búin að mæla mér mót við esperanto vinkonu mína en þó ekki fyrr en um hálfellefu. Mér fannst samt ekki taka því að skutlast fyrst heim með sunddótið heldur fékk ég mér smá bíltúr út á Gróttu. Var komin á Sólvallagötuna rétt rúmlega hálfellefu og stoppaði þar til klukkan tólf. Lásum saman eina blaðsíðu og það voru nokkur orðin sem við glósuðum hjá okkur. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim en tvær ferðir í þvottahúsið með fimm tíma millibili, aðra til að setja í vél og ná í þvottinn af snúrunum og hina til að hengja upp. Annars fór dagurinn í lestur, netvafr, netnámskeið, þáttaáhorf, og prjón.
14.10.23
Smá snjór
Hafi ég vaknað heldur snemma í fyrradag þá sló ég það met í gærmorgun. Rumskaði um hálffimm og rúmum hálftíma síðar varð mér ljóst að ég var glaðvöknuð. Það eru aldrei vandræði með að eyða tímanum fram að vinnutíma en get alveg þurft að passa mig að gleyma mér ekki í grúskinu, vafrinu á netinu eða lestrinum þegar ég gríp í bók að morgni til. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Ég var í bókhaldsvinnunni og tók saman tölur. Færri en fimmtíu kort voru til framleiðslu í fyrsta skammtinum en sá skammtur fer úr húsi um tíu á morgnana. Debet dagurinn náði heldur ekki tvöhundruð kortum. Vorum búnar niðri í bili um hálftíu. Fór aðeins í innlagnir eftir kaffi og gekk vel. Þurfti bara að fá ráð um eitt atriði en allt annað gekk vel. Hádegisskammturinn var innan við sextíu kort. Fyrirliðinn var upp tekin alveg til klukkan rúmlega hálftólf en þá fórum við niður og það tók okkur ekki nema hálftíma að framleiða, telja, pakka og ganga alveg frá kortadeildinni. Eftir mat fór ég aftur í innlagnir. Vorum búin um tvö leytið og ég var komin í Nauthólsvík fljótlega eftir það. Hitastigið á sjónum hafði lækkað um heila gráðu frá því á miðvikudaginn en ég fór í fyrsta sinn í sjósunds skóna mína síðan ég lagði þeim í vor eftir að sjórinn var orðinn átta til níu gráður. Svamlaði um í uþb tuttugu mínútur og ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Fékk svo gott kikk í líkamann þegar ég fór í heita pottinn. Var komin heim rétt fyrir klukkan fjögur.
13.10.23
Sjórinn 5,8°C
Vaknaði heldur snemma í gærmorgun. Var komin á stjá um hálfsex leytið. Mætti í vinnu rétt fyrir hálfátta. Var aftur á ítroðsluendanum. Þegar daglegri kreditkortaframleiðslu var lokið snerum við okkur beint að því að framleiða auka kreditendurnýjunina. Þegar rétt rúmlega hundraðogsjötíu kort voru óframleidd af sexhundruðogsextíu urðum við að hætta því formin voru alveg á þrotum. Eftir kaffi framleiddum við debetkortapöntun dagsins og svo hádegis kreditskammtinn í kjölfarið. Stuttu eftir mat bárust fleiri form svo við gátum farið niður aftur og klárað það sem stóð útaf. Var búin í vinnu um hálfþrjú. Fannst of snemmt að leggja bílnum við Austurbæjarskóla til að fara í sund í Sundhöllina svo ég skrapp heim og náði í bókasafnspokann með öllum átta bókunum af safninu. Tók aðeins fimm bækur í staðinn en tvær af þeim eru á skammtímaláni svo ég hef líklega aðeins tvær vikur til að lesa þær. Það ætti nú að takast en hugsanlega verður hægt að framlengja um aðrar tvær ef enginn pantar þær í millitíðinni. Var komin í sund um hálffjögur og hitti konuna sem ég kynntist þegar ég var í heimsókn hjá Lilju vinkonu á Kanaríeyjum mánaðamótin janúar/febrúar 2019. Ég fór 4 ferðir í kalda, synti í uþb tuttugu mínútur, fór eina ferð í heitasta pottinn og eina í gufuna áður en ég fór upp úr og heim.
12.10.23
Bókasafnið
Gærdagurinn var annasamur en skemmtilegur. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni, undirbúa daginn og hlaða inn skránum. Fann óvenju fáar skrá í möppunum og hélt fyrst að framleiðslan yrði fljót afgreidd. Hins vegar frétti ég það þegar ég kom upp aftur til að fylla á vatnsbrúsann og fá mér smá kaffi að það hefðu verið sendar nokkuð stórar endurnýjunarskrá og stór hluti af daglegri framleiðslu seinni partinn í fyrradag og þær skrá sem voru svo sendar á venjulegum tíma ýttu þessum skrám í skráar súpuna. Það þurftir því að hlaða inn fleiri skrám og það tók aðeins lengri tíma að "leita" þær uppi á almenna svæðinu. Fyrir utan daglega vinnslu kláruðum við debet hlutann af auka endurnýjuninni. Lokuðum og gengum frá kortadeildinni um hálffjögur og ég var komin í sjóinn tíu mínútur yfir fjögur. Notaði strandskóna, þurfti ekki að vaða hálfaleið til Kópavogs og ég svamlaði um í tæpar tíu mínútur í 6,8°C. Þá var mér farið að verða kalt á tánum svo ég fór í heita pottinn í smá stund áður en ég fór upp úr og heim. Um hálfsjö lagði ég af stað í Kópavog. Átti að hitta núverandi og tvær fyrrverandi kortadömur á Brasserie Kársnes klukkan sjö. Ég taldi mig hafa nægan tíma en lenti í smá villum og mætti síðust af okkur fimm þegar klukkan var tíu mínútur gengin í átta. Þær spurðu mig hvort ég hefði synt yfir og tafist á leiðinni. Fljótlega eftir að ég mætti voru teknar niður pantanir. Hinar fjórar pöntuðu allar hamborgara en ég valdi fisk dagsins sem reyndist vera mjög gómsæt bleikja með smælki og sallati. Hittingurinn stóð yfir í tæpa tvo tíma. Ég var komin heim rúmlega níu. Kveikti ekkert á sjónvarpinu og fór í háttinn um hálftíu. Var búin að lesa allar bækurnar af safninu en þegar ég fór á bókamarkaðinn við Fiskislóð um daginn keypti ég m.a. nýjustu bókina eftir Lilju Sigurðardóttur og ég byrjaði á henni í gærkvöldi. Ætlaði varla að geta lagt hana frá mér en eftir rúmlega hálftíma lestur var ég samt orðin það syfjuð að ég ákvað að vera skynsöm og fara að sofa.
11.10.23
Sjósund
Svaf nokkuð ágætlega í fyrrinótt. Vaknaði á undan vekjaraklukkunni og var mætt í vinnu um hálfátta. Upp úr klukkan hálfþrjú fékk ég að fara því ég átti tíma í árlegt tanneftirlit. Tannlæknastofan er flutt á milli hæða í Valhöll. Var alltaf, þann tíma sem ég hef sótt hana, á fjórðu hæð en í mars sl. flutti hún niður á þriðjuhæð. Ég vissi ekki af þessu fyrr en ég kom úr lyftunni í gær og sá tilkynningu um flutningana við gamla innganginn inn a stofuna. Labbaði niður á þriðju. Þegar kom að mínum tíma vildi tannlæknirinn byrja á því að nota nýjustu græjuna og taka panorama mynd af tönnum og tanngarði. Hann vildi m.a. fá að sjá hvernig barnajaxlinn hefur það. Hann sagðist vilja senda inn umsókn um niðurgreiðslu vegna brúar sem þarf að gera fyrr eða síðar. Þar sem þetta er "fæðingargalli" er mjög líklegt að umsókninni verði svarað játandi og þá hef ég ár til að ákveða hvort ég dembi mér í þessi mál næstu misserin eða hvort ég fái tannlækninn til að sækja um aftur að ári þegar ég á næsta eftirlitstíma. Reyndar sagði hann að það lægi meira á að setja krónu í stað rótarfyllts jaxls niðri hægra megin. Ég ákvað að festa tíma fyrir það í febrúar n.k. en get alltaf afbókað þann tíma ef ég vil fresta þessu eitthvað lengur.
Mætti í Sundhöllina um hálffjögur leytið. Hitti eina sem ég hitti yfirleitt í Laugardalslauginni en þar sem sú laug er enn lokuð vegna framkvæmda dreifast sundlaugargestir í aðrar laugar á höfuðborgarsvæðinu á meðan. Fór 3 sinnum í kalda, synti í tæpar tuttugu mínútur og fór einu sinni í langa nuddpottinn á útisvæðinu áður en ég fór upp úr. Skrapp svo í Krónuna við Fiskislóð áður en ég fór heim.
10.10.23
Árlegt tanneftirlit
Í fyrrinótt svaf ég eitthvað skringilega og alls ekki nóg. Var komin á fætur um sex og mætt í vinnuna um hálfátta. Klukkutíma síðar vorum við fyrirliðinn að framleiða kort á fullu þegar mér datt í hug að kíkja aðeins á facebook. Þá var maður samstarfskonu okkar og fyrrum yfirmanns nýbúinn að setja inn mjög dapurlega færslu því konan hans hafði tapað fyrir ristilkrabba kvöldið áður. Við höfðum fengið þær fréttir fyrir örfáum vikum að það liti alls ekki vel út og meinið væri ólæknandi. Ég gerði mér samt ekki ljóst að það væri svona stutt eftir. Við fyrirliðinn fengum báðar nett áfall og sem betur fer var smá endurnýjun ólokið því við vorum alls ekki tilbúnar að fara strax upp. Fórum ekki upp fyrr en um tíu. Var í vinnu til klukkan að verða hálffjögur. Þá var ég það lúin að þrátt fyrir að ég væri með sunddótið meðferðis fór ég beinustu leið heim. Var komin upp í rúm fyrir klukkan hálftíu og sofnuð rúmlega tiu.
9.10.23
Erfiðar fréttir
Rumskaði um sex leytið í gærmorgun við það að vera í spreng. Fannst samt eins og ég væri bara nýsofnuð og hellingur eftir af nóttinni. Eftir að hafa skroppið á salernið fór ég beinustu leið í rúmið aftur. Vissi næst af mér um níu. Það leið samt tæpur hálftími þar til ég fór á fætur. Um hálfellefu leytið hellti ég upp á kaffi. Rúmum klukkutíma eftir það setti ég upp saltfisk, kartöflur og niðurkorna og skrælda rófu saman í pott. Beið eftir suðunni og sauð svo þar til kartöflurnar voru tilbúnar. Við pabbi vorum að borða stuttu fyrir klukkan eitt. Um eitt settist ég fyrir framan imbann og horfði á leik í enska; Brighton - Liverpool 2:2. Fljótlega eftir að leiknum lauk hellti ég aftur upp á kaffi og við pabbi fengum okkur pönnsur. Rétt fyrir fjögur tók ég mig saman, kvaddi og brunaði í bæinn. Hlustaði á Rokkland með Óla Palla á rás tvö þar sem hann fór yfir feril Sinead O´Connor.
Um hálfníu leytið í morgun bárust þær erfiðu fréttir að samstarfskona til sl tíu ára væri fallin frá eftir baráttu við ristil krabbamein. Kona sem var ekki orðin 53, greindist í nóvember í fyrra. Meðferð virtist vera að skila jákvæðum árangri í vor en fyrir stuttu síðan fengum við þær fréttir að meinið væri búið að dreifa sér og það væri stutt eftir. Okkur grunaði ekki hversu stuttur tími þetta var. Hugurinn er núna hjá fjölskyldu og vinum hennar og verður þar líklega áfram næstu daga og vikur.
8.10.23
Heima hjá mér
Hafði ekki stillt á mig vekjaraklukku en vaknaði engu að síður einhvern tímann á sjöunda tímanum í gærmorgun. Tíminn leið fljótt við netvafr en svo var ég komin í Sundhölluna um átta leytið stuttu eftir að opnaði. Eftir fyrstu ferðina í þann kalda ætlaði ég að demba mér beinustu leið í innilaugina en þá var lokað fyrir aðgengi að henni vegna skorts á starfsfólki. Eftir smá stund í heitasta pottinnum, aðra ferð í þann kalda, korter í gufunni og þriðju ferðina í kalda pottinn var búið að opna á notkun innilaugarinnar. Ég fór á braut 1 og synti í tæpt korter, flestar ferðirnar á bakinu. Tók svo eina ferð í kalda, nokkra stund í heita/nudd pottinn úti, fimmtu ferðina í kalda og smá stund í sólbað áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar rétt fyrir hálfellefu. Hún tók vel á móti mér en þó með þeim orðum að við yrðum að fresta esperanto lestri þar til síðar. Stoppaði hjá henni í um klukkustund áður en ég fór heim. Þá var ég ekki alveg búin að ákveða næstu skref. Það varð þó úr að um eitt leytið setti ég niður í tösku og brunaði austur á bóginn eftir að hafa hringt í pabba og sagst líklega vera á leiðinni. Var komin um hálfþrjú. Skömmu síðar hellti pabbi upp á könnuna. Eftir kaffi ákvað hann að skella sér í að búa til pönnuköku stafla. Eftir kvöldfréttir hafði ég steikta bleikju með soðnum kartöflum og hrásallati í matinn. Aldrei þessu vant fékk ég mér ekkert hvítvín, hvorki með matnum né seinna um kvöldið. Ég á samt ennþá hvítvínsbelju í öðrum ísskápnum hjá pabba.Kassa sem ég keypti einhvern tímann í vor eða sumar.
7.10.23
Komin austur á Hellu
Fram að hádegi framleiddum við fyrirliðinn dagleg kort og rúmlega sjöhundruð að auki í endurnýjun. Kaffipása á milli hálftíu og tíu. Eftir hádegi hjálpuðum við til uppi. Vinnudegi lauk upp úr klukkan hálfþrjú eða rétt rúmlega það. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Á leiðinni þangað spjallaði ég við Lilju vinkonu en torgarvertíðinni er lokið hjá henni, lauk sl. mánaðamót. Svamlaði um í uþb tuttugu mínútur í sjónum og sat svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Setti í eina handklæðaþvottavél og stillti á prógram sem er 4,5 klst langt. Vafraði á netinu til klukkan að ganga sjö en sat svo fyrir framan imbann alveg til klukkan langt gengin í ellefu. Þá "skreið" ég loksins inn í rúm og las í smá stund áður en ég fór að sofa.
6.10.23
Sjósundsdagur
5.10.23
Innflutningspartý í D30 á eftir
Vinnudagurinn hjá mér í gær kláraðist um fjögur leytið. Það fór ég í Nauthólsvík. Sjórinn var 8,4°C, það var fjara en ég var að svamla í honum í uþb tuttugu mínútur. Sat svo annað eins í heita pottinum. Þegar ég hafði lagt bílnum fyrir utan heima fór ég í stuttan göngutúr. Labbaði 1,5km á 19 mínútum sléttum. Eftir að hafa gengið frá sjósundsdótinu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði á netinu og setti m.a. inn færslu á þessum vettvangi. Var búin að slökkva á tölvunni áður en klukkan sló sjö. Fékk mér AB mjólk með chia fræum, rúsínum og musli og seinna fékk ég mér harðfiskbita. Horfði á fréttir og þætti og svo fyrstu Kilju vetrarins nokkru seinna heldur en í línulegri dagskrá enda var klukkan að byrja að ganga ellefu þegar ég fór loksins í rúmið.
4.10.23
Aftur sund og göngutúr eftir vinnu
Vaknaði óþarflega snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en stuttu fyrir klukkan sex. Mætti í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega. Fór beint í að taka saman framleiðslutölur dagsins. Það var einnig komin smá endurnýjun á bæði debet og kredit kort fyrir einn bankann. Öllum skrám var hlaðið inn á framleiðsluvélina en endurnýjunar skrárnar voru látnar bíða. Daglegri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Fyrirliðinn kvaddi um leið og búið var að ganga frá í kortadeildinni, var í fríi eftir hádegi. Ég fékk mér að borða, kláraði bókhaldsvinnuna en um eitt leytið fór ég í að hjálpa til við að vinna í innlögnunum og fleiru. Var búin í vinnunni korter yfir þrjú. Fór beinustu leið í Sundhöllina. Fór fjórar ferðir í kalda, synti í ca tuttugu mínútur, eina ferð í heitasta pottinn og eina í gufu. Eftir að ég lagði bílnum í götunni heima fór ég í aðeins lengri göngutúr en í fyrradag. Labbaði 2,16 km á 27 mínútum sléttum.
3.10.23
Sund og göngutúr eftir vinnu í gær
Vaknaði á undan klukkunni í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn tilkynnti smá seinkun en ég tók saman þær tölur sem við fáum póst um og prentaði út alla pappíra. Þær tölur sem við fáum ekki póst um handskrifuðum við inn á framleiðslublöðin þegar við fórum niður. Milli tíu og rúmlega ellefu vann ég að því að klára mánaðamótavinnuna í reikningagerðinni og undirbúa og tengja fyrir næstu mánaðamót. Kláruðum daglega framleiðslu um tólf. Var að vinna til klukkan langt gengin í fjögur. Fór svo beinustu leið í Sundhöllina. Lagði bílnum við Austurbæjarskóla. Synti ekki nema rúmar tíu mínútur en fór fjórum sinnum í kalda pottinn. Þegar ég kom heim fékk ég stæði fyrir framan hús. Fór í stuttan göngutúr, 1,6 km á 19 mínútum, áður en ég fór inn.
2.10.23
Fyrsti mánudagur mánaðarins
Vaknaði um klukkan sjö í gærmorgun. Korter fyrir níu tók ég sunddótið með mér út í bíl og ók upp í Úlfarsárdal til að prófa sundlaugina þar. Þarna opnar klukkan níu um helgar og aðstaðan er til fyrirmyndar. Útilaugin skiptist í 6 tuttuguogfimm metra brautir. Það er líka innilaug og gufa. Kaldi potturinn og heitasti potturinn eru hlið við hlið og svo eru fleiri mismunandi heitir pottar. Ég byrjaði á því að prófa kalda pottinn. Hann var skráðu 8-10°C en mæling gærdagsins sýndi hann yfir 13°C enda hefði ég næstum getað setið endalaust í honum. Sat í 10 mínútur fyrstu ferðina af fjórum. Synti 500 metra á braut eitt en á milli hinna ferðanna í þann kalda prófaði ég heitasta pottinn og gufuna. Ég átti svo í smá erfiðleikum með að taka ekki bók með mér heim af bókasafninu sem er staðsett á sama stað. Sá þarna amk tvær sem mig langaði að lesa en báðar þeirra voru með 14 daga skilafrest og þar að auki er ég búin að lofa mér að sækja ekki fleiri bækur fyrr en ég er búin að lesa síðustu bókina af Kringlusafninu. Skrapp í "heimsókn" til N1 sonarins sem var á vakt á N1 stöðinni við Gagnveg. Þegar ég var búin að jafna þrýstinginn á dekkjunum sníkti ég smá kaffi. Kvaddi á tólfta tímanum og var komin í stæði fyrir framan hús um hálftólf. Fór í stuttan göngutúr um hverfið áður en ég fór inn.
1.10.23
Ný laug prófuð í morgun
En ég skrifa aðeins um gærdaginn. Var vöknuð um sjö og rúmum klukkutíma seinna var ég komin í Sundhöllina. Byrjaði á því að setjast í kalda pottinn í rúmar fimm mínútur. Þá fór ég á braut 1 í innilauginni og synti 500metra á rétt rúmum tuttugu mínútur, flestar ferðir á bakinu en 2x25 m á skriðsundi og 3x25 m bringusund. Skellti mér svo í heitasta pottinn og hitti fyrir ritarann í stjórn óháðasafnaðarins og manninn hennar. Tíu mínútum seinna fór ég niður, út og aftur í kalda pottinn. Var ný sest í hann þegar ég tók eftir kunnuglegri konu í heitapottinum hinum megin við útilaugina. Veifaði til hennar og fékk veif til baka. Fimm mínútum síðar var ég svo komin í pottinn til hennar. Áttum gott hálftíma spjall eða rúmlega það áður en hún skellti sér út í laugina en ég dýfði mér smástund í kalda pottinn áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið. Var komin til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Við spjölluðum líka mikið saman en lásum líka rúmlega hálfa plaðsíðu í kennslubók á og um esperanto. Kom heim um tólf leytið og fór ekkert út aftur. Horfði á leiki í enska boltanum og sinnti einnig húsverkum sem ekki má skrifa um.
30.9.23
Helgi og mánaðamót
Þriðja morguninn í sömu vikunni var ég vakin af vekjaraklukkunni eftir aðra svefnskrykkjótta nótt. Var samt mætt í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn stóð til klukkan að ganga þrjú og nýttist í framleiðslu og mánaðamótabókhalduppgjör. Var með sjósundsdótið í skottinu en ég fann að dagsformið var heldur bágt sennilega vegna of lítis svefns og svo mikillar einbeitingar í mánaðamótauppgjöri. Þannig að ég endaði heima og var komin þangað óvenju snemma eða upp úr klukkan hálfþrjú. Sá fyrir mér að líklega yrði ég að fara snemma í háttinn um kvöldið. En þegar til kom fór ég ekkert svo snemma í háttinn en heldur ekkert svo seint.
29.9.23
Mánaðamót
Vaknaði tuttugu mínútum áður en vekjarinn átti að hringja. Mætti í vinnu um hálfátta. Við fyrirliðinn vorum í kortaframleiðslu til hádegis en að hjálpa til uppi eftir hádegi. Verkefnum var ekki lokið fyrr en klukkan var korter í fjögur. Fór aftur í Sundhöllina. Synti ekki nema 200 metra en var heldur ekki nema uþb klukkutíma á svæðinu. Fór þrjár ferðir í kalda pottinn, eina í gufu og eina í heitasta pottinn. Fékk stæði við hliðina á innkeyrslunni. Tók stuttan göngutúr áður en ég fór inn.
28.9.23
Sundhöllin
Annan morguninn í röð vaknaði ég við vekjaraklukkuna en að þessu sinni var svefninn miklu miklu betri. Svaf örugglega í átta tíma og var að dreyma eitthvað fallegt þegar ég var vakin í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Ætlaði að taka kerfin niðri af en varð það á að setja af stað kerfið uppi. Eða eins og sá í afgreiðslunni sagði þegar hann hringdi í securitas; "Svolítið breiðir þumalfingur"! Mér tókst að taka kerfin skammlaust af í annarri tilraun og snéri mér svo að því að taka saman framleiðslutölur. Fyrirliðinn fór niður að hlaða inn og "sækja" þær tölur sem kom án tilkynninga. Í kaffinu kom sú sem á að sjá um kaffistofuna á miðvikudögum þegar boðið er upp á brauð og kruðerí og oft haldnir fundir um það sem er á döfinni. Fór í smá innlagnir. Tók þó ekki mikið og var búin að skila af mér um það leyti sem tölur um hádegisframleiðsluna skiluðu sér. Vorum búnar niðri um tólf. Eftir mat tók ég að mér að sjá um frágang í eldhúsinu þar sem það var mjög mikið að gera hjá þeim sem eiga kaffistofuvaktina þessa vikuna. Svo hreinsaði ég gullið áður en ég fór aftur í innlagnir. Klukkan var langt gengin í fjögur þegar mínum verkefnum var lokið. Þar sem Laugardalslaugin er lokuð þessa dagana ákvað ég að skreppa í Sundhöllina. Lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskólann. Það kom mér á óvart að það var ekkert svo margt um manninn, fékk meira að segja pláss til að synda á einni af fjórum brautum í útilauginni og synti alveg í tuttugu mínútur. Fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í heitasta sem er 42°C og einu sinni í gufu. Var komin heim um hálfsex. Ákvað að framlengja skilafrestinum á þeim bókum sem ég sótti á safnið fyrir mánuði síðan. Á aðeins eftir að lesa eina bók en ég get þá skilað öllum bókunum átta þegar ég hef lesið hana.
27.9.23
Framlenging á bókaskilum; seinni fjórar
Svaf frekar lítið í fyrrinótt. Rumskaði eftir rúmlega tveggja tíma svefn og var allt í einu glaðvöknuð. Kveikti á lampanum og greip í bókina sem ég er að lesa; Mín sök sem ég hef minnst á hér áður. Spennan var svo mikil að ég steingleymdi tímanum og las í rúma tvo klukkutíma. Gerði svo tilraun til að sofna aftur. Um fimm leytið var ég að spá í hvort ég ætti bara að fara á fætur en svo vissi ég næst af mér um hálfsjö þegar vekjaraklukkan truflaði hjá mér ágætis draum. Var mætt í vinnuna um hálfátta. Á milli framleiðsluskammta og eftir hádegi vorum við fyrirliðinn að hjálpa til í innleggjunum. Fannst ég vera pínu utan við mig og þurfti óvenju mikla aðstoð á köflum en samt var sagt að það munaði um þessa hjálp. Mínum vinnudegi lauk um hálffjögur. Þá fór ég beinustu leið heim. Horfði á landsleikinn Þýskaland - Ísland með öðru auganu en þegar staðan var orðin 4:0 fyrir þýsku fótboltastelpurnar skipti ég yfir í þáttaáhorf. Var komin í rúmið fyrir hálftíu og farin að sofa um tíu.
26.9.23
Innlagnir og yfirferð
Var vöknuð og búin að slökkva á vekjaraklukkunni tæpum hálftíma áður en hún átti að hringja. Mætti í vinnu um hálfátta. Vélin var með mánudagsstæla eða mótþróaþrjóskuröskun en við komum henni af stað upp úr klukkan hálfníu. Eftir kaffi tók ég innlegg úr nokkrum vínbúðum á höfðuborgarsvæðinu. Handtaldi úr pokunum því ég mundi ekki eftir því að það var hægt að setja seðlana á spjöld. Klukkan var korter í tólf þegar ég fór loksins niður til að hlaða inn, gera skiptiblað og framleiða hádegisskammtinn. Fyrirliðinn var farin amk tuttugu mínútum á undan mér að taka til í framleiðsluna og svo beið hún bara róleg eftir mér. Hún sat svo yfir viðgerðarmönnunum þegar þeir komu rúmlega tólf á meðan ég skrapp í mat. Yfirferðinni lauk korter fyrir fjögur og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Engin ferð á logninu, flóð og 9°C. Svamlaði út að kaðli og kom svo við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Eftir sjósundsferðina skrapp ég í Krónuna vestur á Fiskislóð sem opnaði nýlega aftur eftir miklar breytingar.
25.9.23
Síðasti mánudagur septembermánaðar
Rumskaði um hálffimm leytið í gærmorgun og þurfti á salernið. Gerði heiðarlega tilraun til að kúra mig niður aftur en í staðinn helltist andinn yfir mig og ég varð að ná í símann til að skrá niður tvær nýjar limrur. Fór ekki á fætur fyrr en um átta en hafði ekki sofnað aftur. Hellti upp á kaffi um níu leytið, lagði kapla, vafraði á netinu, prjónaði og las. Hafði bleikju í matinn eftir hádegisfréttir og horfði svo á Liverpool leikinn. Hellti aftur á könnuna um þrjú leytið. Um fjögur tók ég mig saman, kvaddi pabba og brunaði beinustu leið heim.
24.9.23
Rok og rigning úti, sól í sinni inni
Dreif mig á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Vafraði aðeins um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu en var komin í Laugardalslaugin rúmlega átta. Þar var að byrja sundmót í innilauginni, Stæðin á planinu fyrir framan að fyllast og nóg að gera í búningsklefunum. Ég byrjaði á því að skella mér í kalda pottinn í uþb fimm mínútur. Synti svo 400 metra, helminginn á bakinu hinn helminginn á skriðsundi og bringusundi. Eftir næstu ferð í kalda fór ég beint í gufuna. Svo kalda sturtu og í sjópottinn. Þar lenti ég á kjaftatörn en ég hafði þó tíma til að dýfa mér í þann kalda í nokkrar sekúndur áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var í vandræðum með að bakka út úr stæðinu vegna bíls sem var vinstra megin við minn bíl. Sem betur fer kom þarna kona að sem var að sverma fyrir stæðinu. Hún gat leiðbeint mér þessa fáu metra sem ég var óviss um eftir að ég hafði þó dregið hliðarspegilinn bílstjórameginn inn. Var mætt til espernato vinkonu minnar tuttugu mínútum seinna. Stoppaði hjá henni í eina og hálfa klukkustund og stór hluti af þeim tíma var helgaður lestri á esperanto. Fór svo beint heim með sund- og espreantodótið, setti niður í tösku og dreif mig austur til pabba til "rugla" aðeins í helgarrútínunni hans, eða þannig.
23.9.23
Á Hellu þessa helgina
Ég var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Stimplaði mig inn á slaginu hálf og fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni og "sækja" þær tölur sem ekki kemur póstur um. Svo fór ég upp, fyllti á vatnsflöskuna, fékk mér einn kaffibolla og prjónaði eina umferð í tuskunni sem er á prjónunum núna. Við fyrirliðinn fórum niður rétt rúmlega átta og kláruðum framleiðslu og pökkun á þeim skömmtum sem lágu fyrir og föstudagstalningu að auki áður en klukkan varð hálftíu. Eftir tíu þurfti fyrirliðinn að skreppa aðeins úr húsi en næsti framleiðsluskammtur var hvort eð er ekki að koma fyrr en upp úr ellefu. Ég fór því í "innleggs-vinnu" uppi í um klukkutíma. Tók einnig saman hádegistölurnar, skipti- og talningablað og fór niður að hlaða inn og fylla út skiptiblaðið. Svo komu fyrirmæli frá framkvæmdastjóra um að koma upp í mat en hann kom með eldbakaðar pizzur í hús upp úr klukkan hálftólf. Hann hafði annars kíkt á okkur um átta leytið um morguninn með mjög erfiðar fréttir af fyrrum yfirmanni. Fer kannski út í þá sálma seinna. Vinnudegi var lokið um tvöleytið og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í tvíburahálfsystur mína á leiðinni þangað til að leita frétta af tvíburahálfmömmu minni. Þar er staðan öllu betri, hægur bati þó en svo sagði Sonja mér af því að það hafði verið viðtal við systurdóttur mína í tíu fréttunum á fimmtudagskvöldið. Ég var rúmar tuttugu mínútur í sjónum og ca helminginn af þeim tíma í heita pottinum. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni heim. Bríet var þá stödd hjá honum og talaði líka við mig en hann sagðist einmitt líka hafa séð viðtalið við hana kvöldið áður og horft á það tvisvar. Þegar ég kom heim var ég fljót að kveikja á sjónvarpinu og velja að horfa á tíu fréttirnar frá því 21. september. Það sem ég er endalaust stolt af þessari systurdóttur minni sem ég á smá þátt í að hún varð til, allt vegna þess að mamma hennar vildi fá mitt álit og skoðun á því sem hún var að velta fyrir sér síðla árs 2003. Fyrst vildi ég ekkert segja um málið en systir mín sótti fast eftir mínu áliti og af tveimur valkostum sem hún velti upp var svarið hjá mér; Þú getur alveg gert bæði (...stundað nám og eignast annað barn)!
22.9.23
Sjórinn 8,6°C
Var búin að klæða mig, búa um og slökkva á vekjaranum amk tuttugu mínútum áður en hann átti að hringja í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn fór allur fram í kringum kortin en honum var lokið fyrir klukkan tvö. Fyrir utan daglega framleiðslu kláruðum við endurnýjun og svo var förgun á ónýtu plasti frá júní, júlí og ágúst. Gjafakortið sem fannst í vélinni í upphafi vikuknnar eftir að hafa verið "týnt" síðan í október í fyrra var líka tætt niður. Var komin í Laugardalslaugina rétt rúmlega tvö. Fór beinustu leið á braut átta og synti 500 metra. Var búin að fara eina ferð í kalda pottinn, eina ferð í magnesíum pottinn og hafði setið um 15 mínútur í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum nokkrar ferðir í þann kalda, og annað hvort í heitasta, magnesíupottinn eða gufuna inn á milli. Settumst líka 2x30 mínútur í smá sólbað. Vorum í minni síðustu ferð í magnesíum pottinum þegar tveimur pokum af magnesíum flögum var sturtað út í. Ég var komin heim um hálfsex eftir þrjá tíma á sundlaugarsvæðinu. Átti von á sendingu um sex leytið en sú sending skilaði sér um hálfníu leytið. Var að styrkja dóttur einnar sem vann með mér á Grandaborg veturinn 1991-92. Keypti af þeim tvær pakkningar af klósettrúllum.