17.1.18

Miðvikudagskvöld, mánuðurinn rúmlega hálfnaður

Þessa vikuna höfum við vinnufélagarnir á minni deild látið nægja að skila af okkur átta tímum, mætum korter fyrir átta og hættum korteri fyrir fjögur. En bæði á mánudaginn og gær voru hendur látnar standa vel fram úr ermum og í morgun fór síðasta auka-SPES frá okkur. En þá liggur fyrir að vinda sér í vörutalningu á varahlutalager. Um tvö í dag fékk ég eina með mér í að byrja. Ég var búin að prenta út skrána sem er upp á 14 blaðsíður. Nú á hins vegar bæði að telja og taka út þá hluti sem eru síðan fyrir 2010 og hafa ekkert hreyfst í mörg ár. Margir af þeim tilheyrðu eldri vélinni sem er ekki til lengur svo þetta er löngu tímabært. Við náðum að sitja við þetta verkefni í tæpa klukkustund og vorum strax komnar með rúmlega botnfylli í kassa af úreltum varahlutum en aðeins búnar að fara yfir brotabrot af öllum heildar lagernum. Ætli við fáum svo ekki sérfræðinga til að fara yfir þessa hluti og gefa grænt ljós á förgun. Ég er ekki slíkur sérfræðingur en það segir sig sjálft að sumir gamlir hlutir hljóta að úreldast.

Eftir að ég kom heim úr vinnu á mánudaginn og var búin að taka stöðuna á foreldrum mínum dreif ég mig í sund og verslaði á leiðinni heim. Við Oddur hjálpuðumst svo að við að útbúa kvöldmatinn og við ákváðum að bíða eftir Davíð Steini sem var á leiðinni heim úr vinnu. Við borðuðum því ekki fyrr en rúmlega hálfníu. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim úr vinnu í gær þar sem ég ætlaði mér að fylgjast með strákunum okkar á EM. Leiðinlegt að þeir náðu ekki að vinna þennan leik og enn leiðinlegra að Króatar skyldu liggja fyrir Svíum. Gat þó ekki annað en dáðst að sænska liðinu sem tapaði fyrsta leiknum í riðlinum en komast upp úr honum með 4 stig.

Gef mér alltaf einhvern tíma í lestur og er ég að lesa fjórar bækur í einu. En ég er líka komin á skrið í hundalopapeysuprjóni. Hugsanlega næ ég að ljúka því verkefni á næstu tíu dögum en systurdóttir mín á að keppa á skautum hér í bænum síðasta föstudaginn í þessum mánuði og þá koma amk hún og mamma hennar suður og jafnvel pabbi hennar og hárlausi hundurinn. Cara, labradorinn, verður líklega send í pössun.

14.1.18

Vetrarveður

Ég lét undan leti minni og fór ekki í sund í morgun þrátt fyrir að vera í bænum. Var vöknuð um sjö en ég fór ekki á fætur fyrr en klukkan var farin að ganga ellefu. Bíllinn er í stæði aftan við heilsugæsluna síðan um hálftvö í gær og ég verð að færa hann þaðan fyrir klukkan átta í fyrramálið.

Strax eftir vinnu á föstudaginn var tók ég 13 alla leið upp í Kringlu, eingöngu til að fara á bókasafnið. Var með fimm bækur sem voru komnar á allra síðasta skiladag. Vel gekk að skila inn bókunum en ég komst ekki út aftur fyrr en ég var komin með sjö bækur í staðinn þrátt fyrir að vera enn að lesa jólabækurnar. Ein af þessum sjö bókum er nýjasta hjólabókin hans Smára um Rangárvallasýslu. Hefði svo vel getað fengið mér smá göngu og labbað heim en ég ákvað að bíða frekar eftir strætó sem stoppar við Sunnubúðina. Heima hafði ég rúmlega eina og hálfa klukkustund áður ég fór að heiman aftur. Þann tíma notaði ég m.a. til að taka stöðuna á foreldrum mínum og ég náði einnig að horfa á næstum allan fyrsta EM-landsleik strákanna okkar. Slökkti á sjónvarpinu þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum og öruggt að við vorum að vinna.

Um tíu mínútum fyrir sjö sótti Brynja vinkona mig. Leið okkar lá í Þjóðleikhúsið að sjá Risaeðlurnar og leiddist okkur alls ekki á þeirri sýningu. Vorum uppi á svölum í 20. röð, smá niðurhræddar en það gleymdist þegar sýningin hófst um hálfátta. Þremur tímum seinna færðum við okkur enn nær miðbænum og enduðum á Kebabhúsinu þar sem við fengum okkur að borða og ég eitt hvítvínsglas með matnum. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég kom heim aftur.

Var mætt í sundið korter yfir átta í gærmorgun, náði heim tímanlega til að skutla N1-ungamanninum á aukavakt en hann átti að vera mættur aðeins fyrir klukkan tíu. Klukkan ellefu var ég komin í fyrsta esperantohitting á nýja árinu og þar sem ég var ekki búin að koma síðan á aðfanga dag stoppaði ég í rúma tvo tíma. Ég var ekki búin að vera heima nema í um þrjú korter þegar ég tók strætó niður í bæ til að skreppa á hugleiðslu og fyrirlestur í Lífsspekifélaginu.

Annars er ég búin að lesa fyrstu bókasafnsbókina, Hótel smásögur eftir Steindór Ívarsson. Mæli með þessari bók en hún gerist í Hótel Fönix og er köflunum skipt upp í herbergisnúmer og tengjast kaflarnir, þ.e. gestunum úr sumum herbergjanna bregður fyrir í hinum köflunum.

Horfði á landsleikinn í Indónesíu í hádeginu og núna eru rúmlega tveir klukkutímar í leik númer 2 hjá EM hópnum í Split.  Áfram Ísland!

10.1.18

18 ára starfsafmæli í dag

Ég kom beint heim úr vinnu einhvern tíman á sjötta tímanum í gær. N1 strákurinn var í vaktafríi og hann var búinn að taka niður jólin og fara með í geymsluna. Ég á reyndar eftir að taka jóladúkinn af borðinu í stofunni, þvo hann og ganga frá og einnig að taka niður jólapóstinn.

Átti til bleikju og fór fljótlega að huga að matargerð. Eftir að hafa sett upp kartöflur og skorið niður grænmeti með bleikjunni og sett í 150° heitan ofn hrærði ég í eina eggjalausa brúnköku og skipti deiginu í tvö velsmurð form. Þegar kvöldmaturinn var tilbúinn hækkaði ég ofninn upp í 175° og setti inn annað formið. Eftir 2x25 mínútur slökkti ég á ofninum og þá stóð til að skreppa í sund og koma koma svo við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim. Það varð ekkert úr þeim áformum því ég hafði kveikt á tölvunni og ætlaði að vera snögg að setja upp og senda út messutilkynningar. Það tók hins vegar nógu langan tíma til að ég ákvað að sleppa sundinu og fór út í Sunnubúð. Eftir að deigið hafði kælst niður ákvað ég að vera ekkert að setja botnana saman. Setti á tvo diska og bjó til krem úr flórsykri, kakói, smjörlíki og smá slettu af heitu vatni og setti yfir þá. Annan diskinn skildi ég svo eftir heima í morgun en hinn tók ég með mér ásamt ostum og smá fleiru þegar ég fór á bílnum í vinnuna upp úr klukkan hálfsjö í morgun.

8.1.18

Gleðilegt nýtt ár 2018

Það er 8. janúar og klukkan byrjuð að ganga ellefu að kveldi dags. Dagarnir eru þegar farnir að þjóta hratt framhjá og munar líklega frekar mikið um aukið vinnuálag. Það er smá törn í gangi og hún er reyndar búin að vera í gangi í um það bil mánuð. Sé ekki alveg fyrir endan á henni í bili því þegar verkefninu, sem er í vinnslu, verður lokið verður að fara í lagertlaningar. Áramótin í þeim talningum hnikast til um einhverjar vikur því það þarf að nota allan auka tíma í SPES-verkefnið.

Eyddi áramótunum og síðustu helgi með foreldrum mínum og um nýliðna helgi byrjaði ég á að prjóna aðra hundapeysu á litla hárlausa hund systur minnar og mágs. Hann passaði fínt í peysuna sem ég prjónaði í október sl. og vill helst vera í henni en það þurfti að taka endurskinsþráðinn úr henni því hann meiðir í frosti.

Föðursystir mín varð níræð á þrettándanum, á laugardaginn 6. janúar. Ég á enn eftir að heyra í henni en hún var ekki heima á afmælisdaginn sinn. Með þessum tímamótum hefur hún farið framúr eldri systikynum sínum heitnum í aldri en til að fara fram úr föðurömmu minni vantar hana rúmlega sjö og hálft ár enn. Ég yrði ekkert svo hissa þótt hún næði því, því þótt hún segist sjálf finna fyrir aldrinum líklamlega lítur hún alls ekki út fyrir að vera mikið eldri en áttræð og varla það.

Vonandi kemst bráðum regla á færslurnar mínar, það er nú lágmark að láta ekki líða of marga daga á milli en stundum fær maður ekkert ráðið við það því annað hvort er tíminn of knappur eða andinn ekki yfir manni.