Síðast liðin vika var fljót að líða. Fékk að fara heim úr vinnu um hálfþrjú á miðvikudaginn og horfði á megnið af landsleiknum hér heima. Strax eftir leikinn sótti ég jafnöldru, vinkonu og fyrrum vinnufélaga og við byrjuðum á því að skreppa í IKEA til að fá okkur kaffi. Sátum þar og spjölluðum í á aðra klukkustund. Síðan skruppum við á rúntinn um Breiðholt og Árbæ og þegar ég skilaði henni heim skrapp ég með henni inn til að heilsa upp á kisuna hennar og stoppaði í amk klst. Var með sunddótið með mér í bílnum en þegar til kom fór ég beint heim eftir þennan hitting enda klukkan byrjuð að ganga níu.
Á fimmtudaginn var landsleikurinn klukkan fimm og ég horfði á hann heima og fann til og borðaði kvöldmat áður en ég fór í sundið. Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudaginn lagði ég áherslu á að koma smá skikk á heimilið. Var eitthvað að spá í að skreppa á fund/fyrirlestur í Lífsspekifélaginu en þegar til kom nennti ég engan veginn að fara út aftur. Slakaði bara á fyrir framan skjáninn með prjónana með mér. Var farin að sofa fyrir miðnætti.
Í gærmorgun var ég mætt í sundið upp úr klukkan hálfníu. Þá var ég eignlega búin að ákveða að fara ekkert út úr bænum þessa helgina. Úr sundinu fór ég beint í espernatohitting og var mætt vestur í bæ áður en klukkan sló hálfellefu. Hringdi í pabba þegar ég kom heim og hann var sammála mér um að vera ekkert að leggja upp í nein ævintýri og nota frekar helgina í hluti sem eru nauðsynlegir en leiðilegt að framkvæma og skrifa um.
Er búin að lesa eina af jólabókunum, Hasím og er sú bók mjög vel skrifuð og vekur mann til umhugsunar. En ég er líka að lesa mega spennandi bók af safninu; Hellisbúinn eftir Jörn Lier Horst. Er rúmlega hálfnuð með þá bók og skil varla hvernig ég gat lagt hana frá mér.