23.1.19

Miðvikudagskvöld

Kom ekki heim úr vinnu fyrr en rétt upp úr klukkan fimm í dag og ég hef ekki nennt út aftur. Hefði þurft að fara og sinna sund-rútínunni en hugga mig við það að ég fór í sund bæði í gær og í fyrradag. Auðvitað er alveg í lagi að hvíla kropparæktina dag og dag og það er jafnvel æskilegt á stundum.

Er að horfa á  Danmörk-Svíþjóð á HM á Rúv2. Þetta er hörku leikur og ég er ekki viss um með hvoru liðinu ég á að halda. Megi betra liðið vinna og leikurinn halda áfram að vera skemmtilegur á meðan hann er í gangi.

Sjalaprjónið gengur alveg ágætlega, á kannski svona tuttugu umferðir eftir áður en ég felli af.

20.1.19

Ekki út úr bænum þessa helgina

Síðast liðin vika var fljót að líða. Fékk að fara  heim úr vinnu um hálfþrjú á miðvikudaginn og horfði á megnið af landsleiknum hér heima. Strax eftir  leikinn sótti ég jafnöldru, vinkonu og fyrrum vinnufélaga og við byrjuðum á því að skreppa í IKEA til að fá okkur kaffi. Sátum þar og spjölluðum í á aðra klukkustund. Síðan skruppum við á rúntinn um Breiðholt og Árbæ og þegar ég skilaði henni heim skrapp ég með henni inn til að heilsa upp á kisuna hennar og stoppaði í amk klst. Var með sunddótið með mér í bílnum en þegar til kom fór ég beint heim eftir þennan hitting enda klukkan byrjuð að ganga níu.

Á fimmtudaginn var landsleikurinn klukkan fimm og ég horfði á hann heima og fann til og borðaði kvöldmat áður en ég fór í sundið. Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudaginn lagði ég áherslu á að koma smá skikk á heimilið. Var eitthvað að spá í að skreppa á fund/fyrirlestur í Lífsspekifélaginu en þegar til kom nennti ég engan veginn að fara út aftur. Slakaði bara á fyrir framan skjáninn með prjónana með mér. Var farin að sofa fyrir miðnætti.

Í gærmorgun var ég mætt í sundið upp úr klukkan hálfníu. Þá var ég eignlega búin að ákveða að fara ekkert út úr bænum þessa helgina. Úr sundinu fór ég beint í espernatohitting og var mætt vestur í bæ áður en klukkan sló hálfellefu. Hringdi í pabba þegar ég kom heim og hann var sammála mér um að vera ekkert að leggja upp í nein ævintýri og nota frekar helgina í hluti sem eru nauðsynlegir en leiðilegt að framkvæma og skrifa um.

Er búin að lesa eina af jólabókunum, Hasím og er sú bók mjög vel skrifuð og vekur mann til umhugsunar. En ég er líka að lesa mega spennandi bók af safninu; Hellisbúinn eftir Jörn Lier Horst. Er rúmlega hálfnuð með þá bók og skil varla hvernig ég gat lagt hana frá mér.

15.1.19

Saumaklúbbur og bókasafnsferð

Þar sem HM handbolta-leikurinn við Barein byrjaði klukkan hálfþrjú horfði ég á hann í vinnunni í gær. Fékk far heim. Hringdi örstutt í pabba en dreif mig svo í sund. Kom reyndar við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í sundið og keypti nætursaltaða ýsu og fiskibollur. Náði að sinna sundrútínunni mjög vel, þ.e. fór nokkrar ferðir í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur og gufaðist smávegis. Við Oddur Smári vorum sammála um að hafa fiskibollurnar í kvöldmatinn og geyma okkur þann nætursaltaða.

Á slaginu klukkan átta var ég mætt til tvíburahálfsystur minnar bæði með saumatöskuna og prjónana. Prjónaði og spjallaði og spjallaði og prjónaði enda er drjúgur tími liðinn síðan haldinn var saumaklúbbur síðast. Klukkan var líka allt í einu orðin ellefu, örstuttu síðar.

Kom heim  úr vinnu í dag um hálffjögur. Strákarnir voru báðir heima. Ég stoppaði nú ekki lengi við. Hringdi í pabba og spjallaði stund við hann. Tók svo til sunddótið mitt og bókasafnsbækurnar. Byrjaði á því að skila inn bókunum áður en ég dreif mig í sundið. Á leið heim úr sundinu kom ég við í Krónunni. Var svo með þann nætursaltaða í matinn í kvöld.

Er annars að fylgjast með leiknum Þýskaland - Frakkland. Mikil spenna.

13.1.19

Áfram Ísland

Vó, það er erfið bárátta framundan hjá íslensku handboltastrákunum næsta klukkutímann eða svo. Vonandi ná þeir samt að stríða Spánverjunum.

Skrapp austur eftir sund og esperanto í gær. Var með prjónadótið, bækur og tösku með mér. Í kaffitímanum ákváðum við pabbi að hafa rauðsprettu í kvöldmatinn og að ég myndi sjá um að framreiða hana. Annars fór seinni parturinn og kvöldið í handboltagláp, prjónaskap, lestur og kapallögn. Náði að klára að lesa síðustu bókasafnsbókina svo nú mun ég klárlega loksins byrja á jólabókunum. Er líka búin að klára eina dokku af sjö í sjalinu sem ég byrjaði að prjóna á fimmtudagskvöldið var.

Lét Davíð Stein vita þegar ég lagði af stað heim upp úr klukkan hálfþrjú í dag og renndi við á Bakkanum eftir honum. Hérna heima eru nú mættir tveir auka piltar og eru þá fjórir ungir menn, ef ég tel þetta rétt, að spila í holinu.


10.1.19

19 ár í kortadeild RB í dag

Eftir nokkuð langa prjónapásu og mikla umhugsun er ég að hugsa um að prjóna enn eitt sjalið. Og jafnvel kannski tvö í viðbót. Kom við í Hagkaup í Skefunni eftir sund áðan og keypti mér m.a. nokkrar dokkur og tvo liti af kambgarni. Það gæti alveg farið svo að ég byrji strax í kvöld.

Annars ætlar þessi fyrsta heila vinnuvika á árinu að verða frekar fljót að líða. Sl. þriðjudag hafði ég tök á því að hætta aðeins fyrr í vinnunni. Skrapp heim, hringdi í pabba, náði í sunddótið og dreif mig í sund. Náði að klára rútínuna á ca klst. Úr sundi fór ég beint á fyrsta safnaðarstjórnarfund ársins sem var haldinn heima hjá formanninum sem býr í Grafarvoginum. Ritarinn hafði boðað forföll svo ég var beðin um að hlaupa í ritaraskarðið. Fundurinn stóð yfir í um það bil klukkutíma en strax á eftir var okkur boðið í mat, dýrindis kjötsúpu og kaffi og með því á eftir. Löngu eftir að við vorum búin að gæða okkur á veitingunum héldum við áfram að spjalla um eitt og annað og klukkan var langt gengin í tíu þegar ég kom heim.

Er ekki farin að demba mér í sjóinn  á nýja árinu. Ákvað að fara frekar í sund í gær. Áður kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti "allsbera" ýsu og hrogn sem ég hafði í matinn í gær handa mér einni. Annar sonurinn er farinn í nokkurra daga heimsókn til föðurforeldra sinna og hinn var að vinna til klukkan átta og var búinn að borða þegar hann kom heim. Þannig að ég bjó til einskonar plokkfisk úr afgangnum í kvöld, hafði hluta af hrognunum í þeirri blöndu og fannst þetta frekar gott.

7.1.19

Lagt inn í blóðbankann

Upp úr klukkan ellefu í morgun fékk ég bæði sms og mail frá Blóðbankanum þar sem var spurt hvort ég gæti komið að gefa blóð í dag. Ég var alveg með það á hreinu að ég myndi hlýða kallinu og þótt ég væri þá þegar búin að vera frekar dugleg í vatnsdrykkjunni bætti ég í. Var komin í Blóðbankann fyrir klukkan fjögur. Á meðan ég beið eftir að verða kölluð til fékk ég mér tvö glös af appelsínudjúsi, eitthvað sem ég geri aðeins þegar ég fer og gef blóð, eina kleinu og nokkrar rúsínur. Allar mældar tölur voru góðar og ákveðið var að taka úr vinstri hendinni sem yfirleitt hvefur verið "þægari". Nú brá svo við að æðin hrökk undan nálinni og ekki kom dropi. Ég gaf fúslega leyfi til að prófa hvort gengi betur með hægri hendina. Hjúkrunarfræðingurinn gaf sér góðan tíma og fékk aðra til að aðstoða sig á tímabili en allt gekk glimrandi vel og áður en ég labbaði heim fékk ég mér kaffibolla, rúgbrauð með kæfu og gúrku, eina kleinu til og fleiri rúsínur.

6.1.19

Þrettándinn

Ég er nýkomin heim frá Hellu. Var komin þangað upp úr klukkan hálfþrjú í gær. Oddur Smári sendi mig með nýkeypt belti og bað mig um að fá afa sinn til að bæta við götum á það. Pabbi vatt sér beint í það mál. Við feðginin skiptum svo með okkur verkum í eldhúsinu. Hann sá um kaffitímann og bauð þar m.a. upp á vöfflur og rjóma. Hann tók svo út rauðsprettu til að hafa í kvöldmatinn. Ég sá um að elda rauðsprettuna um kvöldið og hafði með henni kartöflur, lauk og epli. Fékk mér hvítvínsglas með matnum og annað til eftir matinn.

Var ekki með neina handavinnu með mér en nokkrar bækur, samt ekki bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Er að spara mér lesturinn á þeim en hlakka til að lesa þær allar þrjár engu að síður. Allt bækur sem mig langaði í og ég veit ekki hvernig ég fer að því að velja hverja þeirra ég les fyrst. Er að vinna í að lesa bækur sem ég þarf að skila á safnið seinna í mánuðinum. Er langt komin með að lesa bókina Utan þjónustusvæðis krónika, eftir Ásdísi Thoroddsen. Erfiðara gengur að lesa Sögu þernunnar eftir Margret Atwood og ég er búin að framlengja skilafrestinum á þeirri bók og þarf að skila henni í síðasta lagi 15. janúar. Ég er búin að lesa örfáa kafla en aðrar bækur inn á milli sem hafa togað meira í mig að háma í mig.

2.1.19

Um það bil tveggja daga gamalt nýtt ár

Ég var komin heim fyrir klukkan hálfníu í gærkvöldi. Báðir synir mínir voru heima og annar þeirra gaf mér gott knús og sagði um leið: "Mamma, ég er ekki búinn að sjá þig síðan í fyrra!" Hinn sonurinn kom fram til þess að fara niður í þvottahús að hengja upp úr þvottavélinni. Annað skiptið sem hann þvær af sér alveg sjálfur.

Fjórða vinnudaginn í röð fór ég á bílnum í vinnuna í morgun. Strax eftir vinnu fór ég beint í Kringluna á þjónustuborðið á fyrstu hæð og keypti mér þriggja mánaða strætókort sem gildir frá og með morgundeginum. Ég var svo heppin að boðuð hækkun á fargjöldum tekur ekki gildi fyrr en á morgun og fékk því þetta kort á kr. 26.900 í stað kr. 27.950. Næst lagði ég leið mína í Fiskbúð Fúsa í Skipholti þar sem ég náði mér í bleikjuflök til að hafa í kvöldmatinn. Svo skrapp ég í sund áður en ég fór heim.