30.4.17

Pepsídeild karla rúllar af stað í kvöld

Þá er ég komin í fimm daga orlof, löng helgi þar sem 1. maí (morgundagurinn) er á mánudegi og ég ákvað að taka tvo af þeim fáu sumarfrísdögum sem ég á eftir frá því í fyrra. Fer því ekki að vinna fyrr en á fimmtudaginn.

Á föstudaginn fór ég á bílnum í vinnuna en fékk einkabílstjórann til að koma og sækja hann eftir skóla og skutla mér yfir í K2 í leiðinni. Í Katrínartúninu var örfundur á sviðinu mínu frá klukkan hálffjögur en að auki gaf ég mér tíma til að kveðja tvo vinnufélaga mína. Annar að hætta þar sem hann verður 67 á árinu en hinn að skipta um vinnustað.

Var svolítið löt á fætur í gærmorgun og N1 sonur minn notaði tækifærið og sagði að ég mætti alveg skutla sér í vinnuna upp úr klukkan hálfníu. Eftir skutlið fór ég í sund, úr sundinu beint til norsku esperanto vinkonu minnar og frá henni lá leiðin í Krónuna eins og oft áður áður en ég fór heim. Seinna um daginn skrapp ég með allar 11 bókasafnsbækurnar og skilaði á Kringlusafnið. Kom heim með sjö bækur í staðinn, m.a. nýjustu bók Ragnars Jónassonar Drungi.

28.4.17

Gugnaði á því að labba í vinnuna

Einkabílstjórinn var beðinn um að leysa af á Skeljungsstöðinni við Smárann fljótlega eftir hádegi í gær. Ég sagði honum að fara á bílnum og sækja mig í Laugardalinn eftir vaktina. Eftir vinnu fór ég fyrst heim, hringdi í pabba og bað svo Davíð Stein um að taka að sér kvöldmatargerðina. Tók svo til sunddótið, sjampó og fleira tilheyrandi og tók 13 við Sunnubúð korter fyrir sex og skipti yfir í 14 á Hlemmi. Var byrjuð að synda tuttugu mínútum yfir sex. Þrátt fyrir að vera ekki orðin góð af kvefpestinni sem byrjaði í hálsinum stalst ég eina ferð í kaldapottinn og sat í honum mínar tvær mínútur. Var varla byrjuð að bíða eftir Oddi þegar hann sótti mig. Heima var Davíð Steinn búinn að elda, leggja á borð og kveikja á tveimur sprittkertum. Mikið sem ég er þakklát fyrir þessa syni mína og mjög stolt af þeim líka.

27.4.17

Stalst í þann kalda

Í gær og í dag var N1 ungi maðurinn á frívakt svo ég nýtti strætókortið. Það er að verða að venju hjá mér að byrja vinnudaginn á því að safna saman vatnsflöskum samstarfsfólksins, setja í körfu og fara með fram til að fylla á. Þau sem ekki eru með þar til gerðar flöskur fá eitt vatnsglas á vinnustöðina sína. Daglegum verkefnum í gær lauk upp úr hádeginu í gær. Eftir að hafa fengið okkur að borða ákváðum við að flýta fyrir mánaðarlegri reikningagerð með því að gera smá lagertalningu á ákveðnum hlutum. Það var vel til fundið. Enn betra var svo að fá að hætta aðeins fyrr, þ.e. þurfa ekki að vera á staðnum alla átta tímana.

Ég var komin heim fyrir hálfþrjú með þau plön að taka aðeins til hendinni. Raunin varð reyndar sú að ég notaði þennan aukatíma í allt annað. Hitt verkefnið bíður mín bara aðeins lengur fyrir vikið.

26.4.17

Líður á vikuna og mánuðinn líka

Fyrstu tvo virku dagana í þessari viku fór ég á bílnum í vinnuna. Á mánudaginn fór ég beintustu leið á milli, báðar leiðir. Í gærmorgun byrjaði ég á því að skreppa í sund og ég stalst til að fara eina ferð í kalda pottinn þrátt fyrir að vera ekki búin að ná mér af hálsbólgunni og kvefinu. Fengum að hætta vinnu í fyrra fallinu, klukkutíma fyrr, þar sem allt var búið. Skrapp heim með sunddótið. Skólastrákurinn var á leið aftur í skólann og ég bauð honum far. Athugaði fyrst hvort Inger vildi taka á móti mér og hafa smá esperantohitting áður en við færum í slökunarjógað í Fella og Hólakirkju. Hún samþykkti þá hugmynd og við náðum að ljúka við að lesa kafla þrjú, rúmlega blaðsíðu. Hittum Sigurrós í Breiðholtinu og eftir öðru vísi slökunarstund en í síðustu viku bauð hún okkur heim til sín sem við þáðum enda hafði verið talað um það eftir síðasta hitting. Kom heim um hálfníu og horfði á Castle og einnig þáttinn eftir tíu fréttir á RÚV.

24.4.17

Eftir helgina

Það lá við að ég væri með smá fráhvarfseinkenni í gær. Hitti norsku esperanto vinkonu mína sex daga í röð frá 17. til og með 22. apríl. Fyrst var það annar í páskum, esperanto, smá afmælis og horft á Kon-Tiki. Á þriðjudeginum fórum við saman í djúpslökun (Yoga-nítre) í Fella- og Hólakirkju. Á miðvikudagskvöldið var það Þjóleikhúskjallarinn (improve iceland) og KEX (seinni partur af tónleikum Tómasar R og félaga). Á fimmtudaginn, Sumardaginn fyrsta, var aftur esperanto hittingu. Á föstudagskvöldið síðasti föstudagsfyrirlestur í Lífsspekifélaginu á þessu starfsári (2016-17) og svo hugleiðsla og umræður á sama stað (Ingólfsstræti 22) um miðjan dag á laugardaginn.

Skrapp í sund í gærmorgun og fór smá í kalda pottinn í leiðinni þrátt fyrir ertingu í hálsinum. Mætti í óháðu kirkjuna stuttu áður en tilraunamessan byrjaði og var beðin um að lesa fyrri ritningalesturinn. Eftir messuna og smá smakk af bráðabrauði og svartbaunaseyði var aðalfundur safnaðarins haldinn. Ég hafði verið beðin um að tilkynna breytingar varðandi Bjargasjóð og komst nokkurn veginn skammlaust frá því. Þegar ég kom heim aftur slakaði ég á að mestu yfir bókum. Horfði á einn þátt í sjónvarpi símans en var komin í bælið mun fyrr en venjulega eða um tíu.

22.4.17

Smá vesen í hálsinum, en er að lagast

 morgni sumar dagsins fyrsta byrjaði ég á því að skutla Skeljungsafleysingarsyninum upp á Vesturlandsveg þannig að hann var mættur þar um hálfátta. Í bakaleiðinni var nokkuð blint vegna þéttrar snjókomu efst í Ártúnsbrekkunni. Mér fannst ekki taka því að fara heim heldur tók smá rúnt um Laugardalinn en var þó kominn á stæði við Laugardalslaugina tíu mínútum áður en opnaði klukkan átta. Sendi N1syninum smáskilaboð um að ég yrði komin heim um hálftíu og gæti því skutlaði honum á sína vakt sem var frá 10-22. Auðvitað hefði hann alveg geta tekið strætó en með þessu móti fékk hann aðeins meiri tíma heima.

Um ellefu, þennan sama dag, var ég komin til norsku esperantovinkonu minnar og við áttum saman góða tvo tíma og notuðum drjúgan hluta af þeim tíma í að halda áfram að lesa Kon-Tiki. Frá Inger lá leiðin í Krónuna en eftir að ég kom heim hélt ég mig þar það sem eftir var dagsins og kvöldsins við lestur og fleira. Er að lesa fjórar bækur í einu, allar af bókasafninu, m.a.: Þar sem fjórir vegir mætast eftir Tommi Kinnunen og Fórnarleikar eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Ég er ekki enn búin að verða mér úti um garn í enn eitt sjalið en ég held að ég verði að gera þriðju tilraun með þriðja litinn og næ þá vonandi að fylgja mynstrinu frá fyrstu til síðustu lykkju.

Í gærmorgun var ég með strætókortið. Var mætt í vinnu korter fyrir átta. Tólf mínútum fyrir fjögur náði ég leið no 13 við Stjórnarráðið. Sá vagn bilaði reyndar á Hlemmi þannig að við sem biðum þolinmóð í bilaða vagninum fluttum okkur yfir í þann sem kom korteri síðar. Rúmlega sjö fór ég aftur að heiman og hélt áfram á nýta strætókortið. Fór úr vagninum á sama stað og eins og þegar ég er að fara í vinnuna. Kíkti aðeins inn í Mál og Menningu við Laugaveg en var mætt í Lífspekifélagið nokkru fyrir átta. Þar fór svo fram síðasti föstudagsfyrirlestur vetrarins, enda komið sumar. Inger og Sigurrós komu líka. Eftir mjög skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur og smá kaffi og með því á eftir var ég nýbúin að missa af leið 13. Ákvað því að labba með Inger áleiðis vestur í bæ og tók næsta vagn til baka og heim, ofarlega á Hofsvallagötunni.

20.4.17

Gleðilegt sumar

Á þriðjudaginn var ég með strætókortið. Mætti í vinnu um hálfátta. Þar sem að náðist að ljúka öllum daglegum störfum fyrir seinna kaffi fékk ég leyfi til að fara heim í fyrra fallinu. Þar stoppaði ég í tæpan klukkutíma áður en ég settist upp í lánsbílinn, sótti norsku vinkonu mína og endaði á Yoga-nítre (djúpslökunarstund) í Fella og Hólakirkju. Magnaður klukkutími það.

Í gærmorgun var N1 sonurinn á vakt svo hann var með strætókortið. Ég ákvað að fara á bílnum, frekar en að labba í vinnuna, og byrjaði á því að mæta í Laugardalslaugina rétt um það leyti sem opnaði um hálfsjö. Var mætt í vinnu rétt rúmum klukkutíma síðar. Kom heim upp úr hálffjögur. Hafði til matinn snemma eða fyrir sex. Korter yfir sjö var ég sótt af dóttur norsku esperanto vinkonu minnar. Sem skutlaði okkur vinkonunum í Þjóleikhúskjallarann þar sem við vorum næstu rúmu tvo tímana og skemmta okkur við að fylgjast með spunahóp. Þegar því lauk sendum við SMS á dótturina. Hún kom að vörmu spori að sækja okkur og sagði okkur frá því að það væri enn dagskrá á KEX, Tómas R Einarson og fjöldinn með honum að spila og syngja, frítt inn og mega stuð. Það þurfti ekki að þrábiðja okkur um að koma við þar á heimleiðinni. Tónleikunum lauk rétt fyrir ellefu og áður en við yfirgáfum staðinn hitti ég sr. Pétur, kampakátan að venju. Synirnir voru búnir að loka að sér þegar ég kom heim enda báðir að vinna í dag.

18.4.17

Fáir vinnudagar í þessari viku

Ég mætti í Laugardalslaugina klukkutíma eftir að opnaði í gærmorgun, eða um níu. Smá "sjógangur" var í lauginni en ég sinnti rútínunni minni út í gegn nema ég synti á brautum 1 og 2 en ekki 7 og 8 eins og oftast. Kom heim aftur um ellefu og byrjaði á því að hella upp á smá kaffi. Las, saumaði og vafraði um á netinu en stuttu fyrir þrjú tók ég strætó yfir á Sólvallagötuna með esperantopokann á bakinu. Norska esperanto vinkona mín átti afmæli. Við byrjuðum á því að lesa smá því von var á einum afmælisgesti í viðbót ca klst. eftir að ég mætti á svæðið. Þegar hún kom settumst við fimm, einnig maður og dóttir norsku vinkonu minnar, að glæsilegu kaffiborði. Eftir kaffið færðum við okkur inn í stofu og horfðum á myndina Kon-Tiki saman.

Kom heim aftur upp úr sjö. Hafði lánað bræðrum bílinn og voru þeir hjá pabba sínum eitthvað fram á kvöldið. Ég horfði m.a. á annan þáttinn af Dicte en fór í háttinn í fyrra fallinu. Þó ekki fyrr en synir mínir höfðu skilað sér heim og einkabílstjórinn sagt mér hvar hann hafði lagt bílnum.

17.4.17

Annar í páskum að kveldi kominn

Hafði stillt á mig klukku í gærmorgun til að vera viss um að ég svæfi ekki af mér páskamessuna klukkan átta. Reyndin varð sú að ég var vöknuð vel á undan klukkunni og lagði af stað labbandi tuttugu mínútum yfir sjö til að vera mætt nokkru fyrr og bjóða fram aðstoð við undirbúning á heitum brauðbollum og kakói með þeyttum rjóma sem var í boði safnaðarstjórnar strax á eftir messu. Fjórir af níu stjórnarmeðlimum voru mætt og langt komin með undirbúninginn. Ég settist því fljótlega inn í kirkju og tók virkan þátt í messunni þegar hún byrjaði. Að venju var ballettjáning rétt á undan predikuninni og voru tvær stúlkur sem dönsuðu verkið "Lífshvörf". Afar magnað verð ég að segja. Eftir messu gaf fólk sér góðan tíma til að spjalla yfir kakóinu (eða kaffinu) og brauðbollunum í efri safnaðarsal kirkjunnar. Yfir 40 höfðu tekið þátt í þessari stund. Á eftir aðstoðaði ég við frágang og fékk með mér smá af kakóinu og brauðbollunum sem varð afgangs. Einkabílstjórinn var að skutla N1 á 12 tíma vakt í Hafnarfirði frá klukkan tíu. Það passaði fínt fyrir hann að koma og hirða mig upp strax á eftir því mér hugnaðist ekki að labba heim, með kakóbrúsa í annarri hendinni þótt leiðin væri ekki löng. Restina af deginum notaði ég í lestur, imbagláp og útsaum.

16.4.17

Páskadagur

Síðasta virka dag fyrir páska enduðum við flest í deildinni minni vinnudaginn á Kryddlegnum hjörtum. Já, við höfðum fengið leyfi til að hætta vinnu þegar daglegum verkum var lokið og þeim var flestum lokið um hálfeitt. Fengum okkur súpu og sallat og ég splæsti þar að auki á mig hvítvínsglasi. Um hálftvö leytið leysist samkoman upp enda orðnar mettar og tilbúnar í að halda heim á leið. Ég hafði komið gangandi í vinnuna og rölti ásamt einni úr hópnum áleiðis að Hlemmi. Rétt við Lindargötu ákvað ég að athuga hvort fyrrum kórsystir mín væri heima. Heppnin var með mér, Lilja var heima. Hringdi í einkabílstjórann og bað hann um að koma og sækja mig um þrjú. Hafði því ágætis tíma fyrir smá spjall og kaffisopa.

Þegar Oddur Smári sótti mig fórum við eina ferð í Sorpu og skruppum einnig í Krónuna. Norska esperanto vinkona mín hafði haft samband og við ákváðum að hittast hjá henni um fjögur leytið. N1 ungi maðurinn var kominn heim svo ég fékk strætókortið um leið og ég sótti esperantogögnin. Einkabílstjórinn skutlaði mér til Inger en ég kom svo heim með strætó upp úr klukkan sex.

Á fimmtudagsmorguninn var ég mætt í Laugardalinn rétt eftir opnun, um átta. Þegar ég kom heim aftur sinnti ég smá heimilisverkefnum áður en ég græjaði mig fyrir tveggja daga heimsókn austur á Hellu. Ýtti aðeins við ungu mönnunum til að kveðja og brunaði svo austur upp úr hádeginu. Stoppaði um stund í Fossheiðinni, til að sækja mér faðmlög, spjall, kaffi og einnig til að fá að skreppa á salerni. Næstu tveir dagar liðu svo í rólegheitum, við alls konar dundur. Kom aftur í bæinn um tíu í gærkvöldi.

12.4.17

Labbað í vinnu í morgun

Í gærmorgun fór ég á bílnum í vinnuna og hafði með mér sunddótið í skottinu. Strax eftir vinnu fór ég í Laugardalinn og gaf mér einn og hálfan tíma í sundrútínuna. Á leiðinni heim úr sundi hringdi N1 ungi maðurinn, hafði reyndar verið búinn að reyna ná í mig á meðan ég var í sundinu, og sagðist myndu taka aukavakt morguninn eftir (í dag semsagt) og spurði hvort hann mætti ekki vera með strætókortið. Ég samþykkti þá beiðni og hafði á orði að ég hefði þrjá aðra möguleika í stöðunni. Fara aftur á bílnum, labba eða vekja einkabílstjórann og biðja hann um að skutla sér.

Útbjó lasanja í kvöldmatinn, horfði svo á Dicte frá því kvöldinu áður. Oddur Smári horfði svo á Castle og einnig þáttinn eftir tíu fréttir með mér. Ég var ekki búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera varðandi ferðir milli heimilis og vinnu þegar við fórum að sofa. Oddur var samt alveg rólegur yfir því, sagði bara að það myndi koma í ljós hvort hann yrði vakinn eða ekki.....

10.4.17

Labbað til og frá vinnu

Klukkan var tíu mínútur gengin í átta þegar ég byrjaði sund-rútínuna mína í gærmorgun. Synti í rúmlega tuttugu mínútur og fór fjórar ferðir í kalda pottinn, tvisvar í 42°C pottinn, einu sinni í sjópottinn og einu sinni í gufuna. Bjó mér til hafragraut og hellti upp á kaffi þegar ég kom heim. Í kaffibrúsanum var kaffi síðan á fimmtudagskvöldið og ég ákvað að nota hluta af því út í vöffludeig sem ég hrærði í. Geymdi deigið framyfir hádegi. Náði að ljúka smá eldhúsverkefni á næstu tveimur tímum. Fékk svo Davíð Stein til að steikja vöfflurnar á meðan ég skrapp í verslunarleiðangur.

9.4.17

Pálmasunnudagur

Dagarnir eru ekkert að láta bíða neitt eftir sér, sama hvort mikið eða lítið er í gangi. Eftir vinnu á fimmtudaginn kom ég heim með strætó til að ná í bílinn. Davíð Steinn og einn vinur hans voru búnir að leggja undir sig hol og stofu til að setja saman nýja tölvu. Ég tók til sunddótið mitt og spurði bræður í leiðinni hvort það væri eitthvað sérstakt sem þyrfti að koma með úr búðinni. Annar nefndi skinku og hinn mjólk. Eftir sundið kom ég við í fiskbúð. Fannst orðið óralangt síðan ég hafði fengið soðna ýsu. Úr fiskbúðinni lá leiðin í Krónuna við Nóatún. Sá á gemsanum að Davíð Steinn hafði reynt að hringja og svo sent skilaboð um að hann og vinurinn ætluðu að halda upp á að tölvan væri komin upp og fara og fá sér eitthvað að borða. Fiskurinn hefur greinilega ekki heillað. Það endaði svo með því að hinn sonurinn fékk sér heldur ekkert af kvöldmatnum. Það gerði nú minnst til því þá átti ég nóg afgangs í plokkfisk.

Upp úr klukkan átta um kvöldið kom tvíburahálfsystir mín með vörur sem ég hafði pantað til styrktar kórferðalagi dóttur hennar, hakk og pappír. Ég var búin að hella upp á og Sonja búin að keyra það út sem hægt var svo hún gat stoppað. Bræðurnir komu báðir inn í stofu til okkar að spjalla í smástund og það var afar glatt á hjalla. Eftir eina mínútu eða svo var klukkan allt í einu farin að ganga tólf.

Ég hafði strætókortið líka á föstudaginn. N1 sonurinn tók aukavakt milli klukkan 18 og 22 en þar sem bróðir hans var að fara í spilakvöldshitting rétt þar hjá ákvað ég að þeir bræður fengju bílinn en ég notaði strætókortið til að skreppa á lífsspekifélagsfund um átta. Kom aftur heim um tíu og N1 sonurinn ekkert svo löngu síðar en einkabílstjórinn fór aftur á spilakvöldið.

Í gærmorgun var ég komin í sund upp úr klukkan átta. Gaf mér það góðan tíma í rútínuna að ég fór beint úr sundi yfir til norsku esperantovinkonu minnar um hálfellefu. Restina af deginum ætlaði ég að nota skynsamlega en varð frekar lítið úr því verki sem ég sá að ég gæti ekki frestað mikið lengur. Davíð Steinn fór með strætó í Mosfellsbæ á fjórða tímanum en einkabílstjórinn fékk að fara á lánsbílnum um sex.

7.4.17

Tvíburahálfsystrahittingur

Það var hálka á Bústaðaveginum í gærmorgun og þrátt fyrir að ég væri ekki á mikilli ferð var mér næstum hætt að lítast á blikuna rétt áður en ég kom að ljósunum þar sem hægt er að beygja til að fara m.a. í HR og Nauthólsvík. Það endaði með því að ég sveigði upp á gangstéttarbrún til að stöðva bílinn og slapp ég þannig við að lenda aftan á þá bíla sem biðu eftir grænu ljósi. Komst því til vinnu án þess að valda eða lenda í tjóni, bíllinn tók amk ekki aftur á rás og bremsurnar hlýddu miklu betur og miklu fyrr.

Eftir vinnu skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni, skilaði fimm bókum af átta og nældi mér í sjö bækur. Ein af þeim þremur sem ég skildi eftir heima var reyndar að komast á tíma en sem betur fer gat ég framlengt um mánuð. Þetta er bókin Sjóveikur í Munchen eftir Hr. Hallgrím Helgason. Ég komst ekki í að byrja að lesa þá bók fyrr en rétt fyrir síðustu helgi en sá strax að þessa bók yrði ég að lesa.

Svo lá leiðin beint á mánaðarlegan fund í stjórn óháða safnaðarins. Kom ekki heim fyrr en upp úr klukkan hálfsjö og ákvað að vera heima, þ.e. sleppti einni sundferð. Útbjó messutilkynningu í moggann og póstaði einnig á óháða vegginn og heimahöfn safnaðarins. Fylgdist með skólahreysti, Kiljunni og Neyðarvaktinni en slökkti á imbanum upp úr klukkan tíu.

5.4.17

Kringlubókasafnið sótt heim seinni partinn í dag.

Ég var heppin að missa ekki af strætó í gærmorgun. Ég var ekki komin nema út að horni og átti eftir að fara yfir götuna og komast að stoppistöðinni þegar vagninn var að renna þar að. Bílstjórinn sá mig sem betur fer en þurfti alls ekki að bíða lengi eftir mér þar sem ég tók á sprett. Kom heim aftur rétt um fjögur og byrjaði á því að hringja austur áður en ég tók mig til og dreif mig í sund. Spjallaði einnig aðeins við N1 soninn sem var í vaktafríi í gær. Hann tók að sér að sjá um kvöldmatinn. Í Laugardalnum hitti ég greinilega á mjög góðan tíma því það var nóg pláss til að synda, mátulega margir aðrir á staðnum. Reyndar voru nokkuð margir í sjópottinum. Stuttu eftir að ég kom heim aftur bauð Davíð Steinn upp á ofnbökuð og velkrydduð kjúklingalæri og hrísgrjón með. Mjög gott hjá honum. Oddur Smári tók svo að sér frágang í eldhúsinu.

4.4.17

Castle-kvöld

Ég gleymdi að geta þess að pabbi tók sig til og skipti um dekk á lánsbílnum á laugardaginn. Tók nagladekkin undan og setti heilsársdekkin aftur í staðinn. Hann tók svo jeppann af nöglunum á sunnudaginn.

Strætókortið var í mínum höndum í gær og í dag. Gaf einkabílstjóranum grænt ljós á að fá bílinn lánaðann í skólann og fleiri erindi í gær, bæði vegna veðurs og eins þá hafði ég lagt í annarri götu þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið.

Annars átti ég hálfpartinn von á nöfnu minni og frænku í heimsókn til mín seinni partinn í gær. En hún kom ekki einhverra hluta vegna, náði ekki í hana svo ég fór jafnvel að spá í að ég hafi misskilið tímann og daginn eða þá að hún hafi þurft að skreppa af landi brott. Hafði ofnbakaða bleikju í matinn og dreif mig svo í sund.

2.4.17

Á Hellu

Áður en ég brunaði austur í gær fór ég í sund, klippingu og hitti esperanto vinkonu mína. Var nokkurn veginn búin að taka mig til fyrir helgina er ég skaust heim til að sækja það dót, ganga frá sunddótinu og kveðja þann soninn sem var heima. Hinn sonurinn var farinn á langa vakt en ég hitti hann aðeins rétt áður en ég fór í sundið og hann í strætó. Kom aðeins við í Fossheiðinni til að fá faðmlög, spjall, kaffi, nota salernið og skila bók og mynd sem ég hafði fengið lánað. Pabbi var útivið
þegar ég kom á Hellu. Hann var að fylla kerru númer tvö eftir smá vorverk í garðinum framan við hús. Mamma var inni að hlusta á sögu, smá lerkuð eftir að hafa dottið framan við hús daginn áður. Sem betur fer braut hún sig ekki og eftir síðdegiskaffið í gær og smá hvíld klæddi hún sig upp og fór smá stund út með tvo stafi til halds og trausts. Hún labbaði út að húsi no. 18 og til baka sagði að það hefði ekki mátt vera lengra. Ég held líka að það sé betra að hún drífi sig aðeins af stað en ætli sér samt ekki um og of.