Þá er ég komin í fimm daga orlof, löng helgi þar sem 1. maí (morgundagurinn) er á mánudegi og ég ákvað að taka tvo af þeim fáu sumarfrísdögum sem ég á eftir frá því í fyrra. Fer því ekki að vinna fyrr en á fimmtudaginn.
Á föstudaginn fór ég á bílnum í vinnuna en fékk einkabílstjórann til að koma og sækja hann eftir skóla og skutla mér yfir í K2 í leiðinni. Í Katrínartúninu var örfundur á sviðinu mínu frá klukkan hálffjögur en að auki gaf ég mér tíma til að kveðja tvo vinnufélaga mína. Annar að hætta þar sem hann verður 67 á árinu en hinn að skipta um vinnustað.
Var svolítið löt á fætur í gærmorgun og N1 sonur minn notaði tækifærið og sagði að ég mætti alveg skutla sér í vinnuna upp úr klukkan hálfníu. Eftir skutlið fór ég í sund, úr sundinu beint til norsku esperanto vinkonu minnar og frá henni lá leiðin í Krónuna eins og oft áður áður en ég fór heim. Seinna um daginn skrapp ég með allar 11 bókasafnsbækurnar og skilaði á Kringlusafnið. Kom heim með sjö bækur í staðinn, m.a. nýjustu bók Ragnars Jónassonar Drungi.