24.4.18

Árskort á Valsvöllinn 2018-19, kort no 68

Já, líkt og í fyrra gildir kortið á alla heimaleiki Vals fram á næsta vor, þ.e. alla deildarleiki. Ég vona bara að ég nýti þetta kort betur næsta vetur heldur en kortið sem var að renna úr gildi. Ég var frekar dugleg að mæta á heimaleikina fyrrasumar, í Pepsídeild bæði karla og kvenna en ég fór aðeins á einn heimaleik í vetur í Olísdeild kvenna. Pepsídeild karla byrjar að rúlla á föstudaginn kemur og það er Valur - KR strax í fyrstu umferð.

Annars var ég að koma heim úr sundi. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan fjögur og fékk gott pláss bæði í pottum og laug. Synti í um 25 mínútur eða 600 metra. Hitti eina nöfnu mína sem var með mér í KÓSÍ kórnum. Við syntum víst eitthvað á svipuðum tíma en ég tók ekki eftir henni fyrr en við vorum báðar farnar að pottormast.

19.4.18

Gleðilegt sumar!

Afar gott að fá svona aukafrídag. Ég leyfði mér samt ekki að sofa út í morgun, en kannski var ég bara útsofin því ég vaknaði löngu áður en vekjarinn átta að hringja eða einhvern tímann milli klukkan hálfsjö og sjö. Var mætt í Laugardalinn um leið og verið var að opna klukkan átta. Byrjaði á því að demba mér í kalda pottinn í fjórar mínútur áður en ég fór í laugina. Reyndar varð lítið úr sundi, þ.e. ég fór aðeins tvær ferðir, 200 metra, því gúmmíið öðru megin á sundgleraugunum datt af þegar ég var að setja þau á mig í upphafi. Þrjóskaðist þessa 200 metra með annað auga lokað. Settist aftur í þann kalda áður en ég fór í heitari potta og hitta hluta af "morgunfólkinu" mínu. Hafi svo engan tíma til að blása á mér hárið því ég var búin að lofast til að skutla N1 syninum í vinnuna og hirða hann upp um hálftíu.

Skrapp í göngu núna seinni partinn, hálfan Öskjuhlíðarhring, og kom við í Valsheimilinu til að athuga með árskortið á völlinn í sumar. Þau koma ekki í sölu fyrr en á morgun. Hefði geta keypt mig inn á leik Vals og ÍBV, ríkjandi bikar og deildameistara en ákvað frekar að ljúka göngunni og fara heim til að þurrka af mér göngufossinn á bakinu.

Er annars nýlega byrjuð á Smásögum eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, AFLEIÐINGAR. Bókin inniheldur sjö smásögur. Er aðeins búin með þá fyrstu en ég gat ekki hætt að lesa fyrr en ég var búin með hana. Ég er enn með 3 bækur af safninu eftir að ég skilaði inn nokkrum bókum  sl. sunnudag án þess að ná mér í aðrar í staðinn.

17.4.18

Soðið slátur í matinn í kvöld

Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég varð fimmtug, þessi mánuður er rúmlega hálfnaður og það fer alveg að líða að því að ég fari í sumarfrí. Ekki alveg tveir mánuðir þangað til en miðað við hvernig tíminn brunar áfram þá er alls ekki langt þangað til. En á meðan ætla ég að njóta hvers dags og hverrar mínútu eins og kostur er.

Síðan ég setti inn færslu hérna síðast er ég m.a. búin að fara nokkrum sinnum í sund, í tvær fermingaveislur, eitt sextugs afmæli, skila nokkrum bókum á safnið, láta taka nagladekkin undan bílnum og eyða sólarhring með stelpunum í kortadeildinni á Hótel Selfossi.

Fór í blóðbankann strax eftir vinnu í gær, 49. heimsóknina og sleppti því sundferð. Hins vegar dreif ég mig í sund upp úr klukkan fjögur eftir að ég hafði sett upp slátur og beðið Davíð Stein um að fylgjast með suðunni sem og setja upp kartöflur um sex.

Kveikti annars á tölvunni í kvöld til þess að senda og setja inn tilkynningar um næstu messu í moggann og á vegg og heimasíðu safnaðarins.

4.4.18

Fiskbúð og sund eftir vinnu í dag

Ég er rúmlega hálfnuð með eina bókina sem ég kom með heim af safninu í gær. smáglæpir eftir Björn Halldórsson hefur að geyma 7 smásögur sem eru frá 12 bls og upp í 24 að lengd. Á aðeins eftir að lesa 3 smásögur. Ætla ekki að segja neitt um sögurnar sem ég hef þegar lesið nema það að ég mæli alveg með þessari bók.

Þegar ég var búin að heyra aðeins í pabba rétt upp úr klukkan fjögur í dag, tók ég til sunddótið, kvaddi og byrjaði á því að stoppa í fiskbúðinni Hafið við Skipholt. Þar keypti ég ýsu í soðið, lax og 1 kg af rauðum kartöflum. Var komin ofan í kalda pottinn rétt fyrir fimm og byrjuð að synda um fimm mínútum síðar. Synti aðeins í rúmt korter eða 400 metra. Þá fór ég aftur í þann kalda í 3 mínútur áður en ég skrapp í nokkrar mínútur í 38°C pott sem ég fer ekki oft í. Eftir nokkrar mínútur þar fór ég þriðju og síðustu ferðina í þann kalda áður en ég endaði í gufunni. Kom heim um hálfsjöleytið og var maturinn tilbúinn ca hálftíma seinna.

3.4.18

Bókasafn og sund eftir vinnu í dag

Vinnudagurinn var ekki lengi að líða enda nóg af verkefnum. Var komin heim upp úr klukkan fjögur. Tók stöðuna á foreldrum mínum og hringdi einnig í esperanto vinkonu mína sem er á leið út í tveggja vikna frí eftir tvo daga. Við höfðum ætlað að veifast á á Facebook en það lítur út fyrir að það sé búið að loka á mig þar. Veit ekki alveg hvað eða hvernig þetta gerðist en ef mér tekst ekki að endurræsa aðganginn minn innan nokkurra daga þá gæti allt eins farið svo að ég láti þann vettvanginn alveg eiga sig. Hver veit nema það hafi þá líka góð áhrif á skrifin mín á þessum vettvangi.

Áður en klukkan varð fimm var ég búin að taka til sunddótið mitt og fjórar lesnar bækur af fimm af Kringlusafninu og búin að kveðja strákana. Fyrst lá leiðin í efnalaugina Snögg þar sem ég "leysti" út jakkaföt strákanna, þ.e. mínus einn jakki. Setti þetta í skottið og fór næst á safnið. Sex bækur komu með mér út af safninu í staðinn fyrir þessar fjórar sem ég skilaði inn. Ein af þessum sex er með tveggja vikna skilafrest en hún og þrjár aðrar af hinum innihalda smásögur. Segi kannski betur frá þessu seinna. Úr safninu lá leiðin í Laugardalslaugina, tvær ferðir í kalda, 400 m sund og næstum tíu mínútur í gufunni. Kom heim aftur um sjö. Strákarnir farnir í heimsókn til pabba síns og ég slapp við að elda þar sem til eru ýmis konar afgangar.

2.4.18

Úti snjóar

Laugardalslaugin er um það bil að opna. Ég er komin á fætur, búin að fá mér eitthvað og allt tilbúið fyrir sundferð. Ég fór ekki í sund í gær þótt það væri opið milli klukkan 10 og 18. Gærdagurinn hófst snemma. Var komin á ról um hálfsjö og mætt upp í kirkju á slaginu sjö. Við vorum 4 úr stjórninni sem hjálpuðumst að við að leggja á borð í efri safnaðarsalnum, hita brauðbollur, smá kaffi, búa til heitt kakó og þeyta rjóma. Það fór svo að aðeins eitt okkar sá sér fært að mæta í messuna. Ég hálfsé því eftir því að hafa ekki drifið mig í kirkju á föstudagskvöldið því nýji kórinn var að syngja þá sem og í gær. Get huggað mig við það að bæði heyrði ég í kórnum þegar hann var að hita upp og svo mun hann syngja aftur í tilraunamessu fjórða sunnudaginn í þessum mánuði. En það mættu ríflega fimmtíu mann í messu í gærmorgun og er það heldur fleira heldur en undanfarna páska. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar öllum frágangi var lokið og þá fór ég beint heim aftur og hélt mig þar. Strákarnir voru báðir heima en þeir komu ekki á fætur fyrr en einhvern tímann eftir hádegi. Í gærkvöldi var ég með steikt hrefnukjöt og bjó til sæta kartöflumús með smá tvisti, hafði hálfa rauðrófu með í litlum bitum út í músinni.