31.10.04

- Blandað innihald -

Davíð datt út um níu sl. föstudagskvöld. Hann rétt rumskaði um miðnætti til að hátta sig. Ég er svo sem ekkert hissa á þessu, maðurinn er að slíta sér út á vinnu þessa dagana og virðist ekkert lát á (hann kom heim um fimm í morgun).

Í gærmorgun fór Davíð með Odd Smára á karateæfingu en við Davíð Steinn löbbuðum upp í kirkju og vorum komin þangað á slaginu tíu. Þar fór fram sannkölluð verksmiðjuvinna í kertapökkun næstu tímana. Oddur Smári og Davíð komu til aðstoðar um ellefu. Gert var ráð fyrir tímanum tíu til tvö en þetta var duglegt fólk sem þarna var og allt var búið um hálfeitt. Þá var búið að pakka 100.000 kertum í fimm litum, fílabeinslit, rauð, vínrauð, græn og blá. Hver drengur á að selja amk fimmtíu pakka og tókum við með okkur fimm kassa, tvo af rauðum, tvo af vínrauðum og einn fílabeinslit. Mér skilst að grænn og blár séu ekki eins vinsælir.

Eftir pakkið skruppum við á Pítuna. Davíð ákvað að vinna heima til að byrja með og strákarnir völdu að vera heimavið á meðan ég fór að versla. En tvíburarnir komu svo með mér í Valsheimilið um fjögur á Valur - FH (34:29) í kvennahandboltanum. Þetta var skemmtilegur leikur en aldrei spurning um hvernig færi þótt FH kæmist í 1:0.

Um það leyti sem tvíburarnir voru að fara í háttinn kvaddi Davíð og sagðist verða að fara á skrifstofuna til að ljúka ákveðnu verkefni. Ég var búin að komast á því að dagskrá Stöðvar 2 og Sýnar voru óruglaðar en fann þar svo sem ekkert sem mig langaði að horfa á (kannski hnefaleikana en ég valdi Deep cover sem sýnd var á Skjá einum).

Þegar ég fór í háttinn byrjaði ég á bók sem heitir Íslenskar smásögur Þýðingar og er í rauninni íslenskaðar smásögur eftir 29 erlenda höfunda. Las tvær fyrstu smásögurnar: Gamla konan eftir Bertold Brecht og Samkvæmt guðspjalli Markúsar eftir Jorge Luis Borges. Ég hlakka til að lesa allar hinar sögurnar.

29.10.04

- Lestur, jólakortagerð og fleira -

Strákarnir voru komnir heim á undan mér í gær, höfðu reynt að hringja en gemsinn var auðvitað dauður. Þeir bræður, sem voru nú ekki búnir að vera lengi einir, voru í playstation. Ég byrjaði á því að sækja þvott niður á snúrur, m.a. flipperhandklæðið hans Odds. Síðan ákvað ég að gefa mér tíma í smá lestur. Ég er nýbúin að ljúka við Minningar barnalæknisins Björns Guðbrandssonar en í gær lauk ég við að lesa Fjandvinir, smásögur eftir Gunnar Gunnarsson. Bókin um barnalækninn var fín. Margar af smásögunum voru líka mjög góðar en þær höfðuðu ekki allar til mín.

Um fimm sá ég til þess að Oddur Smári gerði sig kláran fyrir karateæfingu. Stráksi hringdi líka í pabba sinn til að kanna hvort hann næði ekki tímanlega í sig. Davíð Steinn fékk að vera áfram í tölvunni. Þegar feðgar komu heim af æfingu komu þeir með franskar kartöflur með sér og ég var búin að steikja nokkrar kjúklingabringur (og renna í könnuna). Átti til smá sallat í ísskápnum en ég var ein um að vilja svoleiðis með.

Davíð þurfti að vinna í gærkvöldi. Gat samt gert það heima svo hann kom öðru hvoru fram og drakk með mér kaffi. Reyndar kíkti mamma í heimsókn upp úr hálfátta. Við sátum saman fyrir framan imbann. Ég sýndi henni jólakortin sem ég er búin að gera og fór svo að klippa niður mynd af engli sem er að hugga ungan dreng. Það tók mig rúmlega klukkutíma að klippa þetta niður og svo tæpan hálftíma að líma þetta framan á kortið en það tókst og ég gerði því semsagt eitt jólakort í gærkvöldi. Svona þrívíddarkort koma mjög vel út og það er gaman að föndra við þau þótt það taki smá tíma.

28.10.04

- Afmælisbörn -

Davíð og Hugborg hans Tomma eru árinu eldri í dag. Vonandi verður dagurinn ekstra góður hjá þeim. Davíð var að vísu að vinna alveg fram á morgun. Rumskaði eitthvað um fimm þegar hann var að skríða í bælið.

27.10.04

- Tilfæringar og kortagerð -

Pabbi beið fyrir utan seinni partinn í gær. Hann var að koma til mín til að taka ónýtt og gamalt sjónvarp og sýsla ýmislegt fleira. Þegar hann kvaddi eftir kvöldmat var hann búinn að hjálpa mér að færa til stóra hluti í strákaherberginu svo sófinn kæmist betur fyrir. Það er samt nokkuð ljóst að þessi sófi passar alls ekki hjá okkur og getur í mesta lagi fengið að vera þar til strákarnir eru vaxnir upp úr kojunum (og það styttist í það). Hann var líka búinn bora upp fyrir mig geisladiskastand, sprittkertalampa og negla upp tvær myndir. Það eru þrír mánuðir síðan við fluttum og það er fyrst núna sem ég er að komast í gang með að koma mér betur fyrir. Hef svo sem verið að spá í hlutina, velta þeim fyrir mér fram og aftur, enda veit ég núna nákvæmlega hvernig ég vil hafa hlutina. Davíð er búinn að fá fullt af tækifærum til að gera þetta með mér en nú ákvað ég að virkja pabba.

Rétt fyrir átta kvaddi ég feðgana og dreif mig til tvíburahálfsystur minnar í kortagerð. Að þessu sinni vorum við bara tvær, áttum samt kannski von á einni til en það varð ekkert úr því. Ég gerði fyrstu tvö þrívíddarkortin mín. Líkt og í síðustu viku leið tíminn undrafljótt. Klukkan var allt í einu byrjuð að ganga tólf. Þá var ég búin að gera 8 jólakort og 8 merkispjöld, mjög sátt við framleiðslu kvöldsins.

26.10.04

- Foreldrafundur í drengjakórnum -

Kom við hjá Helgu systur í gær og þáði hjá henni einn tebolla. Það tók því ekki að fara heim því það var búið að boða til foreldrafundar upp í kirkju klukkan fimm. Það voru nokkur mál á dagskrá fundarins. M.a. tilvonandi kertasala drengjakórsins sem er árlegt hjá þeim. Hver drengur á að selja amk fimmtíu pakka (tíu kerti sama á kr. 600 í allskonar litum). N.k. laugardag á að hittast í kórkjallaranum og pakka saman kertum. Mér skilst að það sé mikið fjör og mikið gaman. Endilega látið mig vita ef þið viljið kaupa kerti. Það er líka stefnt að því að fara með strákana í æfingabúðir í Skálholt fljótlega og svo aftur í febrúar/mars. Kórinn á að syngja næst klukkan sex á aðfangadag. Sá dagur verður því líklega allt öðruvísi en flestir aðfangadagar hjá okkur. Hér má finna heimasíðu kórsins.
- Af símamálum -

Sennilega er stutt í síðustu andvörpin hjá gemsanum mínum. Hann er með "ofnæmi" (eða eitthvað) fyrir sjálfum sér. Vinnur í því að skemma sjálfan sig. Ég er búin að skipta tvisvar um rafhlöðu á árinu og passaði vel upp á að setja símann aldrei í helðslu fyrr en hann var amk farinn að pípa, helst alveg búinn á því. Núna þykist hann vera marga, marga klukkutíma að hlaða sig og sú hleðsla dugir mjög skammt þótt síminn sé frekar lítið notaður. Það gerðist samt svolítið skrýtið í morgun. Ég nota símann til að vekja mig og stillti hann í gærkvöldi þrátt fyrir að hann gæfi til kynna að lítið væri eftir á honum. Náði mér einnig í gamla vekjaraklukku til öryggis (sú er svolítið rugluð. Gengur rétt en ef hún á að vekja mann klukkan sex verður að stilla nálina á fimm). Einhvern tímann í nótt slokknaði á gemsanum. Ruglaða vekjaraklukkan hringdi rúmlega sex. Og viti menn, þrátt fyrir að gemsinn væri "dauður" hringdi hann klukkan 6:20 (og nokkrum sinnum eftir það).

25.10.04

- Tvisvar í kirkju -

Ýtti við Oddi Smára um hálfníu í gærmorgun og spurði hvort hann ætlaði á æfingu eða sofa áfram. Stráksi ákvað að mæta á fyrstu knattspyrnuæfingu sína í 6. flokknum og dreif sig á fætur, fékk sér morgunmat, tók sig til og hjólaði svo af stað rétt fyrir níu. (Æfingarnar eru örugglega byrjaðar fyrir einhverju síðan). Sendi Davíð Stein í sturtu. Á meðan hann var að fá sér eitthvað borða fann ég til sparifötin hans, skyrtu, svartar buxur, svarta sokka og svarta skó. Það kom reyndar í ljós að skórnir voru orðnir helst til þröngir og litlir en við redduðum því í gær með því að lána honum spariskó bróður síns. Upp úr hálftíu skutlaði ég Davíð Steini upp að kirkjukjallara og skildi við hann þar í bili.

Oddur Smári hringdi heim um hálfellefu til að spyrja hvort hann mætti fara heim með einum fótboltafélaga sínum. Ég minnti hann á að hann hefði lofað bróður sínum að mæta í kirkju til að hlusta á hann. Við fórum öll í kirkju. Davíð bað um að setjast ekki mjög framarlega en ég settist hjá Helgu og Ingva á þriðja bekk og það hefur sjálfsagt verið of framanlega fyrir manninn minn (eða þá að hann hafi hreinlega ekki séð okkur). Það er skemmst frá því að segja að Drengjakór Reykjavíkur stóð sig með miklum sóma í messunni. Kórstjórinn hafði fengið níu eldri drengi með þeim og þetta kom mjög vel út. Eftir messu og smá kaffisopa var fólkið boðið inn í kirkju aftur að hlusta á alla kórana (drengjakórinn, unglingakórinn og módettukórinn). Við höfðum bara tíma til að hlusta á strákana aftur því ég átti að vera mætt um eitt til að hita upp fyrir messu í Óháðu kirkjunni.

Feðgarnir skutluðu mér, fengu sér að borða og svo fóru bræðrnir saman í heimsókn til fótboltafélaga síns. Séra Pétur bað mig um að lesa fyrri ritningalesturinn og varð ég við því. Ég var of hissa til að verða stressuð. Fékk að lesa yfir textann áður en messan byrjaði. Það voru ekki margir mættir í messu, innan við 30 manns, svo það tók því ekki að verða feimin. Lét bara vaða. Meðhjálparinn stóð við hliðina á mér og las síðari ritningalesturinn. Hann tók fyrir mig biblíuna þegar við vorum búin (erfitt að halda bæði á sálmabók og biblíu alla messuna). Þetta verk var semsagt búið áður en ég vissi af. Svo er ekki laust við að ég hafi orðið pínu montin þegar flestir kórfélanna hrósuðu mér fyrir lesturinn eftir messu.

23.10.04

- Fyrsti vetrardagur -

Í dag er föðurbróðir minn, Þorsteinn Oddsson, 84 ára. Hugurinn verður hjá honum í dag. Reyndar hugsa ég oft til þessa frænda míns. Slæ stundum á þráðinn til hans og heilsa alltaf upp á hann þegar ég skrepp austur (þ.e. ef hann er heima).

Við Oddur vorum að koma frá karateæfingu. Hann varð glaður við að ég skyldi ætla að skutla honum og horfa á. Svo var ég að lesa blöðin þegar þjálfarinn kom með piltinn fram. -"Mamma, ég beyglaði stóru tána". Hann fékk kælingu á tána og fór svo aftur inn.

22.10.04

- Rafmangsleysi og rómantík -

Davíð fór með Odd Smára á karateæfingu í gær. Áður en þeir komu heim sendi hann mér sms-skeyti sem fór alveg framhjá mér (gemsinn var í kápuvasa mínum inni í skáp). Þegar þeir feðgar komu heim tilkynnti Davíð mér að það væri keppni í tímafreka leiknum og að hann hefði skráð sig þar með til leiks. Ég vék því úr tölvunni og fór að huga að kvöldmatnum. Hellti upp á í leiðinni. Við strákarnir borðuðum saman upp úr sjö.

Eftir mat fóru strákarnir inn í herbergið sitt að leika sér en ég settist með kaffibolla inn í stofu og kveikti á sjónvarpinu. Var að hugsa um hvað ég ætti að gera við kvöldið. Ætti ég að sauma eða gera nokkur jólakort? Ákvað að horfa amk á Malcolm in the middle áður en ég tæki ákvörðun. Sá þáttur var nýbyrjaður þegar rafmagnið fór. Davíð og félagar voru í miðjum leik. Bóndi minn var þó sá eini sem var útilokaður frá leiknum vegna óviðráðanlegra orsaka. Mér fannst þetta nokkuð fyndið, að það skyldi vera tekið fram fyrir hendurnar á honum þó svo að ég væri búin sætta mig við ástandið. Fljótlega kom maðurinn uppi að biðja um eld. Strákarnir fundu vasaljósin sín og skruppu svo upp í heimsókn. Ég kveikti á amk 12 sprittkertum og dreifði um húsið. Við Davíð settumst svo inn í stofusófa, drukkum kaffi, spjölluðum og höfðum það kósí. Strákarnir komu niður stuttu seinna og háttuðu sig en fengu svo að fara upp aftur til klukkan að verða tíu. Þeir sögðu að Dagbjörtu uppi leiddist svo.

Davíð var að hugsa um hvort hann þyrfti að fara á skrifstofuna að ljúka smá vinnu en rafmagnið kom á aftur (eftir um klukkustundar fjarveru) áður en til þess kom. Við slökktum á loftljósinu inni í stofu og drukkum einn kaffibolla í viðbót við sprittkertaljós. Maðurinn minn var svo að vinna langt fram á nótt.

21.10.04

- Engar holur -

Ég fór í árlegt eftirlit til tannsa í morgun. Var mætt á slaginu en þurfti að bíða í um tíu mínútur því einn mágur minn var í stólnum. Þegar ég komst að þurfti tannlæknirinn rétt að fara yfir tennurna og hreinsa smá tannstein hér og þar. Svo sagði hann bara: -"Sjáumst að ári!" Skiptimiðinn minn rann út á meðan ég var að gera upp og festa næsta tíma, svo ég ákvað að labba bara til baka í þessu fína veðri (tannlæknirinn er með stofu í Sjálfstæðishúsinu við Háaleitisbraut 1). Þetta var bara fínasti aukagöngutúr. Var heldur ekkert svo lengi þar sem ég er þrælvön.

Annars var ég með rúsínuslátur í matinn í gærkvöldi. Strákarnir borðuðu mikið og þótti maturinn góður. Þetta smakkaðist líka mjög vel. Hafði það mikið að ég get steikt slátur í kvöldmatinn í kvöld.

Mér er hætt að standa á sama með þessa vinnutörn hjá Davíð. Hann kom heim í morgun rétt áður en ég arkaði af stað og meðalsvefn á sólarhring er kominn niður í tvo tíma hjá honum. Ef þetta heldur svona áfram er ég hrædd um að eitthvað fari að bila hjá honum.

20.10.04

- Föndurkvöld -

Pabbi var búinn að láta mig vita að hann ætlaði að sækja mig seinni partinn. Þegar ég kom út um fjögur var það hins vegar mamma sem renndi upp að mér. Ég hikaði í smástund en sagði henni svo að það væri verið að sækja mig. Pabbi kom rétt seinna og bauð mér að taka í nýja bílinn sinn. Ég afþakkaði í þetta sinnið. -"Afi, velkominn! Gaman að sjá þig"! sögðu strákarnir sem biðu ásamt Bjössa (öðrum tvíburanum "hennar mömmu") á tröppunum heima.

Heima setti pabbi upp ljósakrónu fyrir mig. Ég bauð honum að borða með okkur (lúxusplokkfisk) og þáði hann það. Var bara hinn rólegasti hjá mér. Hann kvaddi samt strax eftir matinn en ég á von á honum fljótlega aftur.

Ég náði samningum við Davíð um að koma heim um átta og vinna þar. Tvíburarnir voru að koma úr bað er hann kom heim. Ég stakk næstum strax af og dreif mig yfir til tvíburahálfsystur minnar. Tvær aðrar vinkonur hennar voru þegar komnar þegar ég kom upp úr hálfníu og svo var Kristbjörg fósturdóttir hennar stödd þarna. Á dagskrá var jólakortagerð. Fljótlega var ég alveg niðursokkin í föndrið og rétt skaut inn orði og orði í umræðurnar. Það munaði vel um það að vera búin að klippa niður karton og myndir. Tíminn flaug og allt í einu var klukkan orðin ellefu. Þá voru líka komin 18 jólakort hjá mér. Ég kom heim um hálftólf. Davíð sat við tölvuna og var að hamast við að vinna og vann víst langt fram á nótt eins og undanfarna daga. Ég vona að þessari vinnutörn fari að ljúka bráðum!

En það var allt annað að arka í morgun heldur en undanfarna tvo morgna. Það var stillt og gott og frábært að hugsa.

19.10.04

- Hann tók vel í í morgun -

Já, það var hálfstrembið á arkinu í morgun. Að vísu komst ég að því þegar ég kom út að hljóðin í veðrinu voru mun meiri heldur en kannski sjálfur vindurinn. En hann var sterkur sums staðar á leiðinni. Stundum komst ég varla úr sporunum. Þetta hafðist þó allt saman.

Davíð Steinn tilkynnti mér er hann kom heim af kóræfingu að drengjakórinn ætti að syngja við messu í kirkjunni n.k. sunnudagsmorgun. Ég hlakka til að heyra í strákunum. Spurði drenginn hvort hann kæmi í mína messu ef ég kæmi í hans? He he.....

18.10.04

- Afmælisbarn dagsins -

...er hann pabbi minn.
Í dag fyllir hann sjö tugina og í tilefni þess ætlar hann að vera einn með sjálfum sér. Til hamingju með daginn pabbi! Á föstudaginn var, var síðasti vinnudagurinn hans hjá Landgræðslu Ríkisins. Ég er samt viss um að pabbi verður ekki í neinum vandræðum með að finna sér eitthvað til dundurs. T.d. er ýmislegt sem hann getur dytt að fyrir mig...

16.10.04

- Sláturgerð -

Mamma bauð tvíburunum með sér austur í gær. Hún beið hérna fyrir utan þegar ég kom arkandi heim um fimm. Ég tók til í tösku handa strákunum og fór með henni á skrifstofu habilis að sækja þá. Ætlaði svo að bjóðast til að labba heim þaðan (úr Ármúlanum), en Davíð Steinn bað um að fá að taka línuskautana sína og fylgihluti með austur svo við þurftum hvort sem er að fara eftir þeim hlutum. Ég kvaddi svo strákana og um fimm og sagðist sækja þá á sunnudag.

Davíð kom ekki heim fyrr en um ellefu um kvöldið. Það er smá vinnutörn í gangi hjá honum þessa dagana. Ég var sem betur fer með árskortið í Val og dreif mig handboltaleikinn VALUR - ÍBV 28:26. Satt best að segja hélt ég að strákarnir ætluðu ekki að hafa það. Eyjamenn skoruðu fyrsta markið en framan af fyrrihálfleik leiddu mínir menn. Þeir misstu þó forskotið niður og voru undir í hálfleik. Það var ekki fyrr en síga fór á seinni hluta síðari hálfleiks að Valsara náðu að rétta sinn hlut (leikurinn hefði reyndar getað farið á hvorn veginn sem var) og náðu undirtökunum. Pálmar stóð vel fyrir sínu í markinu og varði m.a. eitt vítaskot.

Í morgun dreif ég mig á fætur fyrir níu. Davíð hafði talað um að vera mættur í vinnu um tíu og hann ætlaði að skutla mér til tvíburahálfsystur minnar í leiðinni. Ég var mætt þangað rétt rúmlega. Hún og mamma hennar voru í þann veginn að byrja á sláturgerðinni. Mér var tjáð að ég ætti að skera mörinn en tvíburahálfsystir mín að sauma vampirnar. Þegar hún var búin að gera sig klára í að byrja saumaskapinn kom í ljós að allar vambirnar voru þegar saumaðar. Þar sem við mamma hennar vorum að snyrta og hakka lifrar var hún því beðin um að skera mörinn. Tvíburahálfsystir mín fann til bretti og hníf en þegar hún opnaði annan pokann með mörinni kom í ljós að það var þá þegar búið að skera allan mörinn. "-Ég hélt nú ekki að pabbi þinn hefði keyrt svo hart í bæinn í morgunn að mörinn myndi hristast í sundur..." sagði mamma hennar þá bara. En hún var semsagt búin að flýta fyrir sláturgerðinni eins og hægt var og þegar búin að gera sín þrjú slátur. Við vorum rétt um þrjá tíma að vinna tíu slátur. Ég fékk svo að geyma slátrið mitt í frystikistunni til morguns (tók bara fjóra keppi (tvo og tvo) með heim)

Davíð var að vinna til rúmlega sex svo þær mæðgur sátu uppi með mig. Ég var með saumadótið og hugsaði til þess að ég hefði átt að taka kortagerðardótið mitt líka með. Maðurinn minn sótti mig rétt um sjö. Hann skoðaði húsið tvíburahálfsystur minnar hátt og lágt enda að koma þangað í fyrsta sinn eftir flutningana. Hann skilaði mér heim í Drápuhlíð en þurfti svo að fara á skrifstofuna. Þar er hann enn og ekki vitað hvenær hann mun skila sér. Ég er samt að vona að hann þurfi ekkert að vinna á morgun og geti skroppið með mér austur.

15.10.04

- Föstudagur enn á ný -

Tvíburarnir voru "ekki týndir" þegar ég kom heim um hálffimm í gær, heldur uppi í risíbúð að glamra á hljóðfæri og leika sér við kettina. Unga húsmóðirin uppi er ekkert að neita þeim um að vera þótt stelpan hennar (sex ára) sé ekki endilega heima. Ég fór þó fljótlega upp og sagði Oddi Smára að koma og búa sig undir karatetíma. Fór svo niður í þvottahús og sótti nýfundið flipperhandklæðið hans til að taka með sér. Stráksi er sá eini sem fer í sturtu eftir tímana. Hann hringdi svo í pabba sinn og sagðist vera að verða klár.

Ég undirbjó kvöldmatinn og hellti upp á. Stuttu áður en þeir feðgar komu hringdi Davíð og sagðist ætla að skutla stráknum heim en fara beint að vinna aftur. Og ég sem var búin að hella upp á fullan brúsa. Mér tókst að fá manninn minn til að koma aðeins inn, fá sér að borða (saltfisk) og einn kaffibolla. Hann var samt farinn um hálfátta. Ein vinkona mín leit aðeins inn í gærkvöld, færandi hendi (gaf mér heimabakað rúgbrauð). Hún stoppaði ekki lengi því hún var eiginlega á leið annað.

Þeir bræður fóru í háttinn um níu. Ég tók loksins fram föndurdótið og skærin og klippti og klippti. Gaf mér samt ekki tíma til að klippa niður arkir í "jólakortastærð". Hefði líklega þá verið að langt fram á nótt. Kassinn undan nýju skónum hentaði vel undir föndrið. Fór í háttinn um miðnætti, heldur seint en þó ekki eins seint og Davíð. Hann kom ekki heim fyrr en um hálfsex í morgun og var mættur til vinnu aftur um níu.

En nú er ég komin í ævisögurnar í bili. Er að lesa um leikarahjónin Erling Gíslason og Brynju Benediktsdóttur. Er ekki komin mjög langt en sé samt fram á skemmtilestur.

14.10.04

- Enn er lesið -

Í gær lauk ég við skáldsöguna Á færibandi örlaganna eftir Halldór Stefánsson. Höfundur var á 81. ári þegar hann sendi þessa sögu frá sér á fyrri hluta áttunda áratugsins. Þetta var smellin saga en á margan hátt sorgleg. Sagan hélt mér við efnið. Það var með ólíkindum í hvaða raunum söguhetjurnar lentu. Stundum virtist ekkert vera að gerast þó en samt fann ég að það kraumaði eitthvað undir niðri.

Og nú er ég byrjuð á og langt komin með Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák Guðjónsson. Sú bók er líka um mannlegar raunir en þó mun nærri nútímanum.

Það var kóræfing í gærkvöldi og að þessu sinni vorum við að æfa jólasálma í röddum. Komust yfir 6 sálma og var tíminn alveg ótrúlega fljótur að líða. Það er mesta furða að ég skuli ekki vera að raula jólalög þessa stundina...

12.10.04

- Sunddót Odds komið í leitirnar -

Ég var hér um bil hálfnuð heim, seinnipartinn þegar gemsinn byrjaði að hringja. Davíð Steinn var á línunni. -"Hæ, mamma, ertu á leiðinni heim?" -"Já, elskan, en ég ætla að koma við í fiskbúðinni. Verður það ekki allt í lagi?" -"Jú, við erum komnir heim. Ég fékk símanúmerið þitt hjá pabba svo ég gæti hringt í þig til að vita hvort þú værir á leiðinni..."

Þeir bræður voru að leika sér í play station tölvunni þegar ég kom heim. Gaf þeim grænt ljós á að leika sér nokkra stund í henni áfram. Sjálf fleygði ég mér stund í rúmið og fór að lesa. Er að lesa "Sveindómur" eftir Egil Egilsson.

Þegar þeir bræður hættu að tölvast kom Davíð Steinn og sagði mér að hann hefði verið að leita að húfunni sinni í óskilamununum í skólanum og fundið sunddótið hans Odds sem er búið að vera týnt í nokkrar vikur. Mér léttir stórum. Að vísu var kominn tími til að kaupa stærri skýlur á strákana en mér var alls ekki sama um Flipper-handklæðið. En þetta er semsagt komið heim núna.

11.10.04

- Nýliðin helgi og fleira -

Eftir hádegi sl. laugardag skutluðum við mæðginin Davíð á skrifstofuna og sóttum svo tvíburahálfsystur mína. Við fórum fyrst í Föndru þar sem ég verslaði mér ýmislegt til kortagerðar. Síðan lá leiðin í Bónus.

Stoppuðum svo hjá tvíburahálf-systur minni til klukkan að verða fimm. Gerði tilraun til að heimsækja eina frænku mína og nöfnu sem ég er búin að vera á leiðinni til lengi, lengi. Hún var ekki heima svo ég skrapp í verslun áður en ég sótti svo Davíð

Í gær var messa og skírn í Óháða söfnuðinum. Að þessu sinni voru allir sálmar sungnir í röddum og eitt lag að auki þar sem einn tenórinn söng einsöng.

Ég hef nýlokið við að lesa bókina Hér leynist drengur sem er um einhverfan dreng og hvernig honum, með aðstoð foreldra og systur, tókst að vinna sig út úr einhverfunni. Mjög svo athyglisverð lesning sem náði sterkum tökum á mér.

Fór beint á ferðaskrifstofuna seinni partinn og borgaði upp Sikileyjarferðina sem við förum í 18. nóv. Nú er ég komin með farseðilinn í hendurnar og allt orðið einhvern veginn raunverulegra. Ég hlakka ekkert smá til, hef ekki farið út fyrir landsteinana síðan 1995, og finnst það alveg mál til komið. Ég er líka viss um að þessi ferð verður frábær.
- Skammdegi -

Birtan hverfur smátt og smátt
svart myrkrið tekur völdin.
Það má ekki að hafa hátt
í húminu á kvöldin.

9.10.04

- Bókasafnsferð og fleira -

Ég kom við á Grettisgötunni seinni partinn í gær og stoppaði í klukkutíma. Samt var ég á undan feðgunum heim. Þeir komu um sex og þá sá ég mér leik á borði og dreif mig á bókasafnið. Skilaði öllum bókum nema Harrý Potter og Fönixreglunni sem Oddur Smári er að lesa og annarri sem ég ætla strákunum líka að lesa. Framlengdi útláni þeirra um mánuð. Síðan tók ég mér körfu í hönd. Lagði leið mína m.a. á fimmtu hæðina og setti nokkrar ævisögur í körfuna, skrifa kannski um þær að lestri loknum, einnig kom ég við í barnadeildinni og tók nokkrar bækur fyrir strákana. Ég fyllti körfuna og þegar búið var að merkja bækurnar út fylltu þær tvo bókasafnspoka. Reyndar komst ég ekki langt með þær því það pípti á mig á útleið svo ég varð að fara aftur í afgreiðsluna, tína allar bækurnar úr pokunum. Þetta verður örugglega athyglisverð lesning. Tók eitthvað um sex bækur handa strákunum að lesa, en ég leigði 15 bækur handa mér og hlakka ég til að lesa þær. Það eru sirka tveir dagar á hverja bók en ég ætla nú ekkert að keppast við því það er ekkert auðveldara en að framlengja skilafrestinum.

Oddur Smári var vaknaður upp úr klukkan átta í morgun. Ég reif mig upp hálftíma síðar og ákvað að fara með drengnum í karate að horfa á í þetta skipti. (Davíð hefur séð um allar ferðir á æfingarnar hingað til). Ég hafði mjög gaman að því. Hann var mættur fyrstur. Áhugi hans er svo greinilegur því það var hann sem rak á eftir: -"Við verðum að drífa okkur mamma!" sagði hann áður en klukkan varð níu (æfingin byrjar kl. 9:20).

Ég er búin að lesa fyrstu bókina, Vatnsfólkið sem eru smásögur eftir Gyrði Elíasson. Sögurnar eru flesta mjög stuttar en þær toguðu í mig og drakk ég hverja söguna í mig á fætur annarri. Kannski las ég bókina heldur hratt og verið getur að ég lesi sumar sögurnar yfir aftur áður en ég skila bókinni. Hef skilafrest til 11. nóvember.

8.10.04

- Ný arkleið prófuð -

Ég tók óvænta stefnu á arkinu í morgun og prófaði alveg nýja leið. Góðan part af leiðinni heyrðist ekkert í neinu öðru en syngjandi fuglum. Veðrið var milt og alveg logn. Þetta var frábær göngutúr. Ég á örugglega eftir að ganga þessa leið aftur.

Það eru ellefu dagar þangað til ég á að skila af mér á bókasafninu en ég var að klára síðustu bókina í gærkvöldi. Samt var ég örugglega með hátt í 15 bækur. Þvílíkur bókaormur sem ég er. Sennilega verð ég á ferðinni á bókasafnið um helgina.

7.10.04

- Smeik í smá stund -

Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi ég í Skaftahlíðina til að grennslast fyrir um tvíburana. Í ljós kom að þangað höfðu þeir ekki komið (kannski vegna þess að enginn var heima um það leyti sem þeir eru vanir að "banka" upp á. Mamma fór með krakkana til tannlæknis um þetta leyti.) Hvar voru þá tvíburarnir? Hringdi í Davíð og minnti hann á að það var karateæfing hjá Oddi. Sagði honum líka að ég vissi ekkert hvar drengirnir væru. Hringdi líka í Helgu systur en hún gat lítið hjálpað mér. Galopnu dyrnar inn í íbúðina hefðu átt að gefa mér vísbendingu þegar ég kom heim. Fór fram í gang til að athuga hvort skórnir þeirra væru þar og þá kom Oddur Smári ofan úr risíbúð. Þeir bræður höfðu komið við í Skaftahlíðinni um þrjú leytið en þar sem enginn var heima þar löbbuðu þeir heim. Það var einhver heima uppi og þeim var hleypt inn. Þeir fóru alla leið upp að heimsækja kettina.

Annars fóru þeir með sínum bekk og öðrum sjö ára bekknum með rútu upp í Háskóla til að synja við setningu ráðstefnunna Spider Web. Það ku hafa gengið alveg ágætlega og nú er ég spennt að vita hvort eitthvað kemur um þetta í fréttunum.

6.10.04

- Nýtt húsgang -

Um sex í gær kom sending frá Betra bak. Tveir piltar komu inn með svefnsófa í pörtum og skrúfuðu hann saman inni í strákaherbergi. Held samt að það endi með því að sófinn verði settur í tölvuherbergið. Tvíburarnir voru nýkomnir heim og snérust í kringum ungu mennina, allir fjórir höfðu gaman að. Það er mamma sem var að senda okkur þennan sófa svo hún eða pabbi geti lúllað hjá okkur öðru hvoru.

Davíð skilaði sér heim á áttunda tímanum. Ég var búin að renna í könnuna og við mæðginin vorum búin að gæða okkur á sveppasúpu. Aldrei þessu vant þurfti Davíð ekki að vinna og hann "fór heldur ekki" á æfingu í tímafreka leiknum. Svo við höfðum kvöldið að mestu fyrir okkur.

5.10.04

- Meðbyr -

Ég var svo heppin að Kári var á sömu leið og ég seinni partinn í gær. Hann ýtti vel á bakið á mér og var ég fimm mínútum fljótari fyrir vikið. Einu sinni var næstum farið illa fyrir mér. Ég stóð og beið eftir ljósunum yfir Miklubraut þegar Kári ákveður að ýta duglega í mig. Ég var næstum því fokin út á götuna. Sem betur fer tókst mér að stöðva mig og hallaði mér bara duglega á móti vindinum.

4.10.04

- Helgin liðin -

Ég greip hugmyndina frá Guðrúnu Völu fegins hendi og smurði stafla af flatkökum með hangiketi í gærmorgun. Takk fyrir þessa snilldarhugmynd Guðrún Vala! Svo sendi ég feðgana eina út í Valsheimili, Davíð Steinn hjólaði en Oddur Smári var samferða pabba sínum. Dreif í að ryksuga og taka til en svo freistaðist ég til að horfa á Chelsea - Liverpool 1:0. Mínir menn töpuðu, en fengu þó bara eitt mark á sig og ég hef það á tilfinningunni þetta fari alveg að smella hjá þeim. En þvílíkt mark sem Henry skoraði fyrir Arsenal með hælspyrnu. Þetta var með ólíkindum.

2.10.04

- Eitt og annað -

Það var montinn drengur sem kom heim af karateæfingu í morgun. -"Mamma, ég fékk hrós fyrir kötuna!", sagði Oddur Smári. Ég var svo stollt að ég táraðist.

Ég ætlaði mér stóra hluti í dag og var komin á fætur löngu fyrir klukkan níu. En svo fór mest allur dagurinn að leita að leikhúsmiðum, 2x2 gjafamiðum sem ég á í Borgarleikhúsið. Ég ætlaði að lána mömmu tvo af þessum miðum ef þeir kæmu í leitirnar. Ég man nákvæmlega hvar ég er búin að geyma þá undanfarin ár en mér er fyrirmunað að muna hvar ég stakk þeim í flutningunum. Sem betur fer gat mamma reddað sér öðruvísi úr málunum.

Sendi tvíburana út að leika sér um tvö. Tók út hjólin þeirra en stuttu seinna hringdi Davíð Steinn heiman að frá einum fótboltafélaganum. -"Mamma, við erum hjá Birgiri." -"Nú, nú, fóruð þið þá beint inn annars staðar?" -"Nei, nei, við hjóluðum." var svarið. Það kom reyndar í ljós þegar þeir komu heim þremur tímum seinna að þeir voru mest af tímanum úti í fótbolta.

Í kvöld á ég von á Önnu frænku í kaffi og spjall. Kannski fæ ég hana til að baka með mér en það er fótboltakuppgjörið í Valsheimilinu á morgun og þangað á maður helst að koma með eitthvað til að maula og leggja í púkk. Hvað ætti ég nú að baka? Hugs, hugs.

1.10.04

- Nýr mánuður hafinn -

Það er kominn föstudagur enn á ný. Reyndar er farið að kvölda þegar þetta er skrifaði en það er enn föstudagur.

Að þessu sinni ætla ég að skrifa stuttlega um "nýjustu" bækurnar sem ég hef lokið við að lesa. Önnur er Slóð fiðrildanna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Bókin höfðaði til mín alveg frá fyrstu blaðsíðu og var erfitt að leggja hana frá sér. Allir kaflar stuttir í henni og þótt söguhetjan væri að hugsa aftur og fram í tímann og einnig að ferðast í núinu var mjög auðvelt að fylgja þræðinum. Það var spennandi að fylgjast með sögupersónunni rifja upp tímamótaatburði og gera þá upp að fullu. Hin bókin sem ég var að klára er Nornadómur eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Því miður hef ég ekki lesið fyrri bókina, Við Urðarbrunn en ég á það örugglega eftir, ef ég þekki mig rétt. Þessi bók var allt öðruvísi en engu að síður mjög spennandi líka og sökk ég alveg á bólakaf í hana. Ég mæli hiklaust með þessum tveimur bókum.