Síðast liðinn mánudag átti ég bókað flug frá Reykjavík til Egilsstaða klukkan hálfellefu fh. Ella, æskuvinkona mín, tók á móti mér og við byrjuðum á að skreppa heim til hennar og fá okkur kaffi. Síðan skruppum við í Bónus og vínbúðina þar sem ég keypti argentíska hvítvínsbelju. Um kvöldið var vinkona mín með rosagóðan fiskrétt og hvítvínið var afar ljúffengt með.
Á þriðjudeginum vorum við komnar á fætur um níu. Fengum okkur morgunmat og kaffi á eftir. Ég var með saumana mína með, hafði reyndar gripið í þá strax daginn áður. En á ellefta tímanum ókum við að Selskóg og tókum stóra hringinn þar. Það voru nokkrir dropar en alveg logn og þetta var góður göngutúr. Skórnir voru "þægir" mest alla leiðina en voru aðeins farnir að bíta mig í hægri hælinn í restina. Er við komum til baka bjó Ella til handa okkur grænan búst úr appelsínusafa, spínati, engifer og lime. Síðan horfðum við saman á frímynd Skjás Eins, "The man with the ironfists". Eftir myndina og nokkurt kaffiþamb renndum við aðeins yfir á Seyðisfjörð og rúntuðum aðeins þar um. Það var magnað að sjá spegilsléttan Löginn þegar við komum aftur til baka. Um kvöldið kom uppeldisstjúpsystir Aðalsteins og maðurinn hennar. Slegið var upp í grillveislu og drukkið hvítt, rautt og bjór frameftir kvöldi sem leið alltof hratt.
Í gær vorum við vinkonur aftur á fótum um níu. Aðalsteinn var ekki farinn í vinnuna og drakk með okkur kaffi áður en hann fór. Rétt fyrir hádegi löbbuðum við tvær upp á klett að hringskífu. Þetta var ekki langur göngutúr en góður. Það var búið að vera rok um morguninn en það lyngdi akkúrat á meðan við vorum á labbinu. Fengum okkur aftur grænan drykk í hádeginu og svo greip ég í saumana mína. Seinni partinn skruppum við yfir í Hússmiðjuna á Reyðarfirði og heimsóttum Aðalstein í vinnuna. Valdís, dóttir Ellu, hitti okkur líka þar. Í gærkvöldið kláraði ég úr beljunni og við vinkonurnar spiluðum nokkrar umferðar af 10.000 (farkle). Fórum ekki eins seint að sofa og kvöldin á undan en náðum samt ekki að skríða upp í fyrir miðnætti.
Ég skrapp í sturtu upp úr átta í morgun og skreið svo upp í aftur í smá stund. Fékk mér morgunmat um níu og hellti upp á. Var búin að drekka einn kaffibolla áður en Ella kom fram. Við spjölluðum svo yfir kaffibollum þar til kominn var tími til að skila mér á flugvöllinn. Vélin fór í loftið rétt fyrir tólf og það er uþb klst. síðan ég lenti í Reykjavík. Hitti Guðbjörgu frænku mína á flugvellinum en Oddur Vilberg sonur hennar var að koma frá Egilsstöðum með sömu flugvél og ég.
Fríið mitt er ekki hálfnað og ég veit ekki hvort það verða reglulegar færslur á blogginu næstu þrjár vikurnar, það verður bara að koma í ljós.