31.8.03

jack on mast
Uh-oh - you are "Stop blowing holes in my
ship!" You're a little bit edgy,
honestly, and it's getting in the way of your
natural charm. We understand that life can be
hard, but take a deep breath and have a drink.
Relax.


Which one of Captain Jack Sparrow's bizarre sayings from Pirates of the Caribbean are you?
brought to you by Quizilla
- Nokkrir punktar - (......)
Ef ég hefði vitað að það væri nóg að kveikja á tölvunni til að fá manninn fram úr hefði ég prufað það fyrr. Reyndar var það einlæg ætlun mín að leyfa honum að sofa til hádegis og nota morguninn sjálf m.a. fyrir framan tölvuskjáinn...

Seinni partinn á föstudaginn fór ég í fótsnyrtingu, í fyrsta sinn á ævinni, í boði mömmu. Takk, mamma! Hjá Hildi í fótaaðgerðastofunni Gæfuspor við Skúlagötu 40, fékk ég klukkutíma meðferð (á tær, táberg, jarka og hæla), notalegt spjall á meðan og sveif svo út eins og ný manneskja. Nú er um að gera að fara vel með skökku, ilsignu brauðfæturnar á sér...

Í gærmorgun (og fram eftir degi) gerði ég nokkuð sem ég hef ekki gert lengi, lengi. Svaf út og tók mér svo bók í hönd þegar ég var loksins vöknuð. Fyrir nokkur var ég byrjuð á bókinni: HÁTT UPPI VIÐ NORÐURBRÚN eftir Hlín Agnarsdóttur. Bókin lofaði góðu en ég var bara að lesa of seint á kvöldin þannig að athyglin hélst ekki sem skyldi og þar að auki gat ég bara lesið örfáar blaðsíður í einu. Í gær las ég og las (ca. 250 bls. af 300) þar til ég var búin með bókina. Bókin er allt í senn, grípandi, fyndin, dularfull og sorgleg...

Hafði svo einka-saumaklúbb (bara fyrir mig) á meðan Davíð var að spila við tölvuleikfélagana í gærkvöldi...

29.8.03

- Vikan, mánuðurinn og fríið að klárast -
Ég sit fyrir framan skjáinn með "Green tea" í bolla innan seilingar. Hugurinn beinist í allar áttir og erfitt að henda reiður á öllum hugsununum. Eftir næstu viku verður margt komið í fastar skorður. Strákarnir mæta í skólann eftir helgi og við systur förum aftur að skipta eldamennskunni á milli okkar (tveir dagar hjá henni og tveir hjá mér)...

Hoppað aftur í tímann
(Hef mikið velt því fyrir mér hvort eftirfarandi mál eigi heima hér hjá mér og hvers vegna/hversvegna ekki?)
Um áramótin fyrir rétt tæpum tíu árum (veturinn þegar ég kenndi 6 ára bekk í Árbæjarskóla) ákvað ég að hætta að borða brauð sem var bakað úr hvítu hveiti og með geri í. Fljótlega datt mér í hug að vigta mig reglulega og skrá þyngdina niður (í gamla góða "filofaxið").
Þegar kennslu lauk um vorið hafði ég losað mig við tíu kíló. Um svipað leyti tók ég út allan sykur úr fæðunni líka og síðasta skráða þyngd (um miðjan október 1994) sýnir svart á hvítu 20 kg minna heldur en sú sem ég skráði niður fyrst.

Þegar ég gekk með tvíburana virtist sem ég mætti borða hvað sem ég vildi án þess að ég finndi nokkuð fyrir því. En um leið og ég var hætt með þá á brjósti hætti ég að þola sumt af því sem mér fannst orðið ofboðslega gott og erfitt var að venja sig aftur af...

En nú er ég búin að ákveða að þetta gengur ekki lengur. Og hér eftir ætla ég að halda mig sem best ég get frá sykri, geri og unnum matvörum!!! Semsagt breyttur lífstíll. Að sjálfsögðu mun ég einnig reyna að hreyfa mig meira og markvissara. Ég ætla að leyfa mér að enda þetta á enn meiri egó-flippi: Áfram Anna, dugleg stelpa!!!

28.8.03

- Eitt og annað - ...í gær og í dag...
Um leið og Davíð hafði lokið við að bera á gluggakarmana og skipta aftur um föt, í gærkvöldi, lögðum við leið okkar í Mosfellsbæinn. Hún og maðurinn hennar tóku vel á móti okkur. Hjá þeim hittum við einnig foreldra hennar sem kom mér þægilega á óvart (það er ekki oft sem ég hitti þau annars staðar en í sínu heima-umhverfi). Kvöldið leið alltof hratt og var mikið hlegið.

Í morgun keyrði ég Davíð í vinnuna of fékk að hafa bílinn í dag. Fór í heimsókn í Hafnarfjörðinn upp úr ellefu til ungrar vinkonu minnar sem varð móðir fyrir um 2 og hálfum mánuði. Stoppaði hjá henni í um tvo tíma og höfðum við um margt að spjalla því ég hef í raun ekki hitt hana síðan kvöldið eftir að hún átti. Nýja hlutverkið hjá henni gengur vel og mér líst vel á hvað hún er afslöppuð í því.

Rétt áður en ég ók í burt datt mér í hug að hringja í frænku mína sem býr í Garðabæ. Hún sagðist vera á heimleið og bað mig endilega að kíkja. Það innlit stóð yfir í rúma þrjá tíma. Nýjustu fréttir af frænku minni eru þær að hún og fjölskylda hennar eru búin að taka að sér tæplega átta ára móðurlausa stúlku (a.m.k. í nokkra mánuði). Þau eru búin að leggja mikið á sig til að bjóða skjólstæðing sinn velkominn og við fyrstu sýn virðist allt ætla að ganga upp. Fékk m.a. að fara með þeim tveimur þangað sem sú stutta tók nokkurs konar fimleikapróf. Mér fannst stúlkan standa sig mjög vel, hún hefur aldrei verið í feimleikum áður en var greinilega að reyna að gera sitt besta...

Við systur ætlum að skreppa í "pool" í kvöld og á ég von á því að það verði jafn gaman og öll hin skiptin fyrr á árinu.

27.8.03

- Enn er sumarblíða! -

Hitinn hér í Reykjavík var örugglega óvanalega mikill, miðað við árstíma, í dag.

Mamma leit inn um hálfellefu og eyddum við saman þremur tímum, bæði í spjall, uppfléttingar (í Íslendingabók) og einnig brugðum við okkur í Garðheima.

Var eiginlega ekki í neinu geru stuði en um þrjúleytið dreif ég mig í að mála aftur flesta gluggakarma norðan og austan megin á íbúðinni. (Guggnaði á glugganum sem snýr út að innkeyrslunni að bílskúrnum...). Á meðan þetta er skrifað er eiginmaðurinn að mála sunnan megin, nýbúinn með eina gluggann að vestan.

Eldri hjónin uppi voru úti í garði að slá og raka á sama tíma og ég var að mála í dag. Upp úr fjögur bauðst ég til að klára raksturinn (sem var reyndar að mestu búinn) og troða hrúgunni ofan í svartan ruslapoka...

26.8.03

- Núna leik ég lausum hala -

Afi minn og amma mín
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði þekk og fín
þangað vil ég fljúga


Skólinn byrjaði í dag en strákararnir fengu nokkurra daga aukafrí og fóru austur með föðurömmi sinni í gærkvöldi.
Hálf skrýtið að vera svona barnlaus og sjálf í fríi. Var örugglega ekki eitthvað sem ég þurfti að gera?

Spallaði við hana í góðan hálftíma í morgun. Strax að því samtali loknu hringdi síminn og var það sú nýgifta í saumaklúbbnum. Þær mæðgur voru í nágrenninu og bauð ég þær velkomnar að kíkja í heimsókn. Nokkru eftir að þær komu datt mér í hug hvort ég fengi ekki far áleiðis á næsta bókasafn. Það var auðsótt mál. Fengum okkur þó hádegishressingu fyrst.

Stefnan var tekin á Kringluna. Þar skildu leiðir um hálfeitt. Ég arkaði áleiðis í safnið með tvo bókapoka, svartholið mitt á öxlinni og regnjakka undir hendinni því ég ætlaði að labba beint heim að þessu erindi loknu (en það fór nú aldeilis öðruvísi). Rétt áður en ég komst á bókasafnið hitti ég fyrrum kórfélaga úr kór-FSu og æsku vinkonu hennar. Við röbbuðum saman í stutta stund en vonumst til að hittast mjög fljótlega aftur.

Það tók enga stund að skila bókunum og fá lengri frest fyrir þær sem ég skildi eftir heima. Að þessu erindi loknu mundi ég eftir því að ég er oft búin að ætla mér að fara í svona göngugreiningu. Auðvitað þarf að panta tíma með fyrirvara en ég ákvað samt að labba við hjá Stoðtækni Gísli Ferdinanson hf. og kanna málin. Ég var svo stálheppinn að komast strax að og fæ ég innlegg og þar að auki 7-8 mm upphækkun undir vinstri fótinn eftir viku. (Þetta er víst eitthvað sem ég hefði átt að vera búin að gera fyrir löngu, (með mína fótasögu)!!!)

En ekki var nú allt búið enn því þegar ég kom frá greiningunni ákvað ég að athuga hvort ég væri jafn heppin hjá hárgreiðslustofunni Kristu. Klukkan var hálftvö og það var laus tími klukkan þrjú. Jú, jú, ég ákvað að taka hann. Eitt af því sem ég gerði á meðan ég beið þess að tíminn liði var að kíkja í Steinar Waage og athuga hvort ég finndi ekki hentuga skó á mig. Ég fann fyrirtaks Ecco-skó og keypti þá með það sama.

Klukkan var rétt um hálffjögur þegar ég lagði af stað heim úr Kringlunni. Ég var búin að mæla mér mót við Helgu systur seinnipartinn (vorum búnar að ákveða að hafa sameiginlegan kvöldverð) en ég gaf mér samt smá stund til að kíkja á mömmu og Kolfinnu á miðri heimleið.

25.8.03

- Engar holur - Og tónleikahald
Strákarnir voru að koma úr árlegu tanneftirliti. Það gekk vel að venju. Davíð Steinn byrjaði í stólnum og hélt Oddur Smári söngtónleika á meðan. Þeir bræður skiptu svo um hlutverk þegar Oddur Smári fór í stólinn. Báðir fengu þeir mikið hrós fyrir, frá tannlækninum og klíníkdömunni, og voru þau yfir sig hissa hvað þeir mundu vel alla söngtextana. (Sunnan yfir sæinn breiða, Hver á sér fegra föðurland, Hver má sigla þá blæs ei byr, Ó, blessuð vertu sumarsól og nokkur fleiri.)

23.8.03

Og nú er Davíð kominn út og byrjaður að bera á gluggana!!!
- Ævintýri gærdagsins - (...sum þeirra)
Þrátt fyrir veðurblíðuna strax um morguninn fóru strákarnir ekki út fyrr en um ellefu. Oddur Smári var í Valsbúningnum sínum en Davíð Steinn var í buxum og bolnum sem hann fékk um síðustu helgi. Þurfti að kalla á þá inn til að fá sér hádegishressingu (um eittleytið).

Eftir hádegi löbbuðum við mægðinin saman áleiðis niður í bæ. Lögðum leið okkar fram hjá Barónsborg, leikskólanum sem þeir voru í, og vorum við svo heppin að Lilja leikskólakennari, sem var með þá fyrsta veturinn (´98-99), var úti og spjallaði hún smá stund við okkur. Við báðum bara að heilsa hinum sem við þekktum.

Tilgangurinn með bæjarferðinni var að kaupa afmælisgjöf Jönu Katrínu (bróðurdóttur mömmu), en hún verður fimm ára á morgun og bauð hún tvíburunum í barnaafmæli. Við fundum gjöfina í Tiger!

Þegar þessu var lokið datt mér í hug að nota tækifærið og athuga með nýja skó á Odd Smára en hann var alveg að klára skóna sem hann fékk í vor. Byrjuðum á að kíkja í Ecco og þar fundum við strax "réttu" skóna. Oddur Smári var a.m.k. mjög ánægður með þá, sérstaklega eftir að hann uppgötvaði að hann gat hlaupið enn hraðar á þeim en gömlu skónum. Davíð Steini fannst ég vera að hugsa meira um Odd...

Að skókaupunum loknum þurfti að tæma ákveðnar blöðrur. Það gerðum við á Grettisgötunni en ég er alltaf með lykil hjá Helgu systur. Hringdi samt í hana til að láta hana vita og fékk um leið leyfi til að taka gömlu SS úlpuna, en úlpan sú er með rétta stuðningsmanna-litinn.

Áður en við hugðum að heimferð settumst við inn á Tíu dropa og fengum okkur hressingu. Einnig gerðum við tilraun til að skipta vinnings-tappa yfir í kókflösku en fórum víst ekki á réttu bensínstöðina.

Eftir kvöldmat fórum við öll fjölskyldan í Laugardalslaugina. Ég synti 300, Davíð 500 en strákarnir fóru margar salíbunur í vatnsrennibrautina. Davíð gaf strákunum pylsur eftir sundið og er við komum heim fóru þeir beina leið í háttinn og sofnuðu næstum strax (um hálftíu).

Davíð þurfti að vinna (gat þó gert það hér heima). Ég fór í háttinn eftir að mynd tvö var búin. Rumskaði stuttu áður en Davíð var búinn að vinna. Hann var nýkominn upp í þegar stærsti skjálftinn við Krýsuvík reið yfir. Það kom feiknar högg og hár hvellur en ekkert datt þó úr hillum...
- ÍA - Valur 2:0 -
Við fórum öll fjögur, ásamt 29 öðrum stuðningsmönnum, með rútu upp upp á Skaga um hádegisbil í dag. Margir fleiri komu svo á einkabílum. Valsararnir voru að spila ágætlega á köflum (þó sérstaklega í seinni hálfleik) en voru ekki að nýta sér færin sín, þar á meðal fóru tvær vítaspyrnur forgörðum. Við verðum bara að vona það besta og halda í vonina... Áfram Valur!
- 113 ára ártíð föðurömmu minnar -
Í dag eru 113 ár síðan föðuramma mín heitin, Vilborg Helga Þorsteinsdóttir, fæddist. Hún var sjötta í röðinni af tíu systkynum. Hún giftist afa heitnum, Oddi Oddssyni 1894-1972, þann 13. nóvember 1919. Þeim varð fimm barna auðið og er pabbi minn yngstur af þeim (fæddur 1934). Amma var að verða 78 ára árið sem ég fæddist en ég er næst-yngst af barna-börnunum. Yngst er Helga systir en hún er fædd 11 dögum fyrir 50 ára brúðkaupsafmæli föðurforeldra okkar. Pabbi hennar var elstur af barnabörnunum. Eftir að afi dó fluttist amma að Helluvaði til einnar dóttur sinnar og tengdasonar. Amma dó á Sjúkrahúsi Suðurlands 15. febrúar 1988 eftir fremur stutta legu. Þá komin á 98. árið.

Minningarnar um ömmu eru mjög margar. Hún var mjög oft með prjóna í höndum að prjóna sokka og/eða vettlinga (eða gera við göt) á öll barnabörnin og ég man að alltaf þegar ég kom í heimsókn fékk hún að skoða sokkana mína, þ.e. ef ég var í ullarsokkum. Henni þótti líka mjög gaman að taka í spil og spilaði ég "nokkrum" sinnum Kasínu við hana. Það er notalegt að ylja sér við allar minningarnar!

22.8.03

- Föstudagur - (en þetta helst í gær...)
Fram að hádegi sinnti ég inniverkum og spjallaði við hana og aðeins við Önnu frænku á netinu. Sú síðarnefnda er að koma til landsins n.k. mánudag. Hún er búin að fá herbergi á Gamla Garði og verður því heldur lengra í burtu frá mér heldur en síðasta vetur, en þeim mun nær Háskóla Íslands þar sem hún heldur áfram námi í íslensku fyrir útlendinga.

Eftir hádegi ögraði ég sjálfri mér til að halda undirbúningsvinnunni áfram. Eldri maðurinn uppi var úti í garði (að halda áfram smíði við bú-kofa (sem var byrjað á fyrr í sumar)) og hjálpaði hann mér með stigann sem var full erfiður fyrir mig í stöðunni 3/4. Og viti menn tveimur tímum seinna var ég búin að skafa og pússa alla gluggana. En fæturnir skulfu eitthvað áfram eftir að ég kom alveg niður á fasta jörð.

Stuttu eftir að við strákarnir vorum búin að fá okkur síðdegishressingu kom mamma með "sína" stráka. Þeir tveir löbbuðu svo með okkur mæðginum á Hlíðarendasvæðið til að horfa á Odd Smára og Davíð Stein á fótboltaæfingu. Ég skildi þá eftir þar og dreif mig heim að aðstoða mömmu við kvöldmatargerð.

Um hálfsex litu við norsk vinkona mín og dóttir hennar. Þær stoppuðu stutt en áður en þær fóru mæltum við okkur mót aftur upp úr hálf-átta.

Davíð kom við hér heima rétt áður en hann sótti svo strákana. Hann dreif sig því næst í ræktina. Matarundirbúningur okkar mömmu (hún hrærði í kjötbollur (ég steikti þær), bjó til sallat, setti upp kartöflur og bjó svo til sósu úr kjötbollusoðinu) drógst aðeins á langinn en þetta var mjög gott og vel borðað.

Norska vinkona mín og dóttir hennar voru komnar rétt á undan Davíð. Við þrjár fórum svo á bílnum niður í bæ og vorum komnar inn í Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu rétt fyrir átta. Í fjölnotasalnum fluttu Egill Sæbjörnsson og Ragnar Kjartanson Fjögur tilbrigði við sorg sem frumflutt var á menningarnóttina. Á eftir þeim steig hljómsveitin Kimono á svið. Einnig var hægt að skoða sýninguna Humar eða frægð, Smekkleysa í 16 ár í A salnum. Gjörningurinn var svolítið spes (þrælgaman að fylgjast með), hljómsveitin að spila vel og mér fannst sýningin í A salnum frábær. Þetta vekur mig kannski til dáða til að skoða hvað annað er í boði hér og þar...

20.8.03

- "Fjórburagengi" og gluggakarmar utanhús undirbúnir... -
Tvíburarnir voru vaknaðir fyrir klukkan átta í morgun. Það var nú mikið í lagi mín vegna. Gaf mér samt tíma til að hlusta á útvarpsfréttirnar áður en ég skreiddist á fætur. Bjó til hafragraut í morgunmatinn (bara fyrir strákana) og fékk þá svo til að klæða sig. Oddur fór út með pabba sínum um hálftíu, til að fá hjólið sitt út. Bæði hjólin voru tekin úr skúrnum en þegar ég ætlaði að búa um strákana fann ég Davíð Stein steinsofandi í neðri kojunni (hann svaf í rúman klukkutíma). Oddur kom fljótlega inn aftur og sagðist ekki nenna að hjóla einn úti.

Pabbi var í bæjarferð að útvega sér meira efni í pallinn fyrir austan. Hann er reyndar búinn með pallinn sjálfan og er að þreyfa sig áfram með grindurnar. Hann leit við hjá mér um hádegið með smávegis sem mömmu vantaði og gaf sér tíma fyrir einn tebolla.

Tvíburarnir "hennar mömmu komu hjólandi (og mamma bílandi) um tvöleytið. Fékk lánaðan bílinn og "rændi" til mín stiganum hans mágs míns. Útvegaði mér sandpappír, hleypti svo í mig kjarki og klöngraðist upp við gluggana sem snúa út að götunni (það er ekki alveg eins hátt upp í þá og gluggana hinum megin) og byrjaði að pússa. Komst einnig upp á skúrþak og auðvitað komu allir strákarnir þangað upp á eftir mér, mjög áhugasamir um að fá að hjálpa til. Ég var reyndar mjög stolt af Oddi Smára að komast bæði upp og niður sjálfur. Lofthræðsla er ekkert grín!!!

19.8.03

- Ferð í Fossheiðina -
Í morgun fékk ég þá frábæru flugu í höfuðið að í dag væri góður tími til að skreppa á Selfoss. Þegar ég var búin að ganga úr skugga um að tekið yrði á móti okkur mæðginunum bauðst ég til að keyra manninn minn í vinnuna. Það var mikið í lagi ef ég nú léti smyrja bílinn áður en ég færi nokkuð úr borginni.

Var mætt í Fossheiðina fyrir hálftólf. Fékk kaffi, spjall, grín og glens, eina bók gefins og tvær lánaðar. Okkur var boðið upp á dýrindis kjötsúpu (a la amma...) í hádeginu (lenti svo auðvitað í uppvaskinu á eftir...;-) Þegar heimsóknir eru svona stopular dragast þær á langinn en þrír tímar liðu sem hálftími væri.

Var komin í bæinn aftur rétt rúmlega þrjú. Verslaði, gekk frá vörunum, gaf strákunum að drekka og labbaði svo með þeim á knattspyrnu-æfingu. Stuttu eftir að ég kom heim kom Davíð heim úr vinnu. Þar sem ég var að undirbúa kvöldmatinn og Davíð ekkert á leið í sund eða ræktina (tölvu-stríðs-leikja-æfing í kvöld) sendi ég hann að sækja strákana. Hann fór á bílnum því hann ætlaði að vera svo fljótur. Birta, vinkona og jafnaldra strákanna spurði eftir þeim hálftíma áður en æfingin var búin. Krakkarnir eru semsagt úti núna og ég er að nota tækifærið til að segja frá ævintýrum dagsins áður en klukkan verður sjö...

18.8.03

- Sitt lítið af einhverju... -
Nýliðin helgi var annasöm og mjög skemmtileg. Rigningin á Laugardaginn aftraði okkur ekkert frá því að taka þátt í fyrstu íþróttahátíð RB-fjölskyldunnar. Davíð hafði reyndar verið að spá í að vera heima og vinna en ákvað að sjá til og vera a.m.k. í stuðningsliðinu. Án þess að fara út í frekari smáatriði þá var skipulag dagsins mjög vel útfært í alla staði. Allir (frá 4 ára) gátu tekið þátt og allra yngstu fjölskyldumeðlimirnir fengu pössun á meðan systkyni og foreldrar kepptu í alls konar íþróttargreinum.

Við komum heim um fimm leytið eftir sjö tíma fjarveru. Ég dreif strax í að setja í eina þvottavél og hefði auðvitað helst þurft að leggja sjálfa mig í bleyti. En ég var ekki komin alveg svo langt þegar Bidda hringdi í mig til að athuga hvort ég hefði ekki áhuga á því að skoða aðeins MENNINGARNÓTTINA! Jú, jú ég var alveg til í það og við mæltum okkur mót við Þjóðmenningar húsið upp úr klukkan hálfsjö (ætluðum auðvitað að fara á tónleikana með Önnu Pálínu, Aðalsteini Ásberg og félögum). Strákarnir mínir (allir þrír) sögðu pass og vildu hafa það rólegt heima svo ég labbaði ein af stað vopnuð regnhlíf. Það var orðið troðfullt á tónleikana löngu fyrir klukkan sjö svo við urðum frá að hverfa í bili. Röltum um og réðum ráðum okkar. Um hálfátta hringdi vinkona mín sem býr í London í mig. Hún var stödd á landinu því verið var að skíra dóttur-dótturina þennan dag. Á meðan ég var í símanum fundu hún og fósturdóttir hennar okkur Biddu. Við héldum hópinn fjórar, röltum um, kíktum á örfá atriði og mættum svo tímanlega á tónleikana í Þjóðmenningar húsinu sem voru auglýstir klukkan níu (þriðju og síðustu tónleikarnir) Það er varla hægt að ímynda sér það að áður héldu þau hjónin tónleikana heima í stofu hjá sér. Fengum okkur sæti á fremsta bekk og biðum rólegar í þrjú korter. Sú bið var vel þess virði. Þegar við komum út undir bert loft aftur var komið hið besta veður. Létum berast með straumnum niður í bæ. Bidda sótti hjólið sitt þangað sem hún hafði lagt því í Austurstrætinu og eftir það gengum við á móti staumnum. Horfðum á flugeldasýninguna efst á Skólavörðustígnum og sáum örugglega megnið af henni. Kom heim um hálftólf og tók Davíð Steinn tannlaus á móti mér, hann var að missa sína fyrstu barnatönn...

Um níu á sunnudagsmorguninn sendi ég SMS til ömmunnar. Ég ætlaði bara að athuga það hvort óhætt væri að hringja í hana. Hún hringdi til baka, var að passa ömmubarnið sitt. Okkur kom saman um að ég skyldi bara drífa mig í heimsókn því hún færi að taka sig saman upp úr hádeginu, átti flug út til London seinnipartinn. Strákarnir komu með og stoppuðum við í rúman klukkutíma. Eftir hádegi fóru strákarnir út á Miklatún á hjólunum. Davíð dreif sig með þeim. Fengum heimsókn um miðjan dag, mágkona mömmu og tæplega fimm ára dóttir hennar.

Um hálfsex vorum við mætt hjá Helgu systur með læri með okkur til að henda á grillið hjá þeim. Krakkarnir voru duglegir að leika sér við aðra krakka í götunni bæði fyrir og eftir mat...

15.8.03

- Komin heim -
Lauk við þrifin um hálfeitt í dag (er því komin út úr skápum í bili). Það fóru eitthvað um 18 tímar í þetta í vikunni svo ég hafði tíma í nokkrar heimsóknir. Fékk reyndar æskuvinkonu mína til að kíkja eftir hádegið á þriðjudaginn. Hún var ein heima og eftir spjall og kaffi í eldhúsinu hjá pabba og mömmu ákáðum við að fara í sund með strákunum mínum.

Pabbi vildi svo endilega skutla okkur heim í dag og vorum við mæðginin komin í hús rétt rúmlega þrjú. Strákarnir vildu auðvitað fara á hjólaæfingu. Ég fór með þeim um fjögur leytið og sá fljótlega að ég gæti alveg varið að láta þá um þessi hjólamál...

14.8.03

- Afmælisbörn gær-dagsins (13. ágúst
Bjössi og Víðir, átta ára. Við mamma og strákarnir og einnig
Helga og Hulda vorum boðin. Ég er búin að vera í þrifum í eldhússkápunum
hjá foreldrum mínum, og ekki komin út úr skápnum enn, síðan á mánudag
(eina leiðin til að borga allt passið til baka...). Gerði hlé á
þessu um hádegi í dag, enda alltof gott veður til að vera inni.
Davíð var búinn að redda afmælisgjöfinni frá strákunum og Huldu,
tafl og flugdreki. Mamma gaf þeim alveg eins Hummel-æfingagalla og
hún gaf mínum strákum í afmælisgjöf (svo þeir geti nú örugglega litið út
eins og fjórburara í vetur...
).


10.8.03

8. ágúst - síðasti morguninn í bústaðnum -
Tvíburarnir voru vaknaðir frekar snemma og ég reif mig upp um svipað leyti og morguninn áður. Gáfum okkur öll góðan tíma í morgunverðinn og mér sýndist við myndum samt hafa nægan tíma í tiltekt. Davíð fór eina ruslaferð áður en byrjað var að hlaða bílinn. Strákarnir voru að leika sér en nenntu ekki að vera lengi úti. Ég bauð þeim að hjálpa okkur og það var auðsótt mál. Oddur Smári var meira að segja tilbúinn til þess að skúra en hann fékk það verkefni að ryksuga (stóð sig mjög vel) og svo fóru þeir bræður nokkrar ferðir með dót niður í bíl.

Lokaði á eftir mér bústaðnum um hálfeitt. Ákaváðum að fara sömu leið og við komum, Dragann. Stoppuðum í Ferstiklu og inn við Botnskálann. Hálftíma áður en við komum í bæinn hringdi ég í "tvíburahálfsystur" mína. Hún reyndist vera heima svo ég boðaði komu okkar þangað til að skila kaffitrekt sem hún hafði lánað mér og einnig smá dós sem hún hafði gleymt hjá okkur. Það fór svo vel um okkur fjölskylduna að stutta heimsóknin drógst á langinn og varð að meira en tveimur tímum.

Ég veit vel af því að mér hættir alltaf til að hengja mig í smáatriðin. Stundum tekst mér að flækja mig ekki of í þeim en ég er líklega bara svona gerð GERI OF MIKIÐ ÚR ÖLLU sem er að gerast í kringum mig...

Davíð er að klára sitt litla frí í dag. Hann ætlar að skutla okkur mæðginunum á Hellu þar sem við verðum næstu daga. Veit ekkert hvað ég verð dugleg að blogga þar enda er örugglega ágætt að fá hvíld frá smáatriðunum mínum...
- Sunnudagsmorgun -
Heyrði í Oddi um hálfníu. Ég bara gat ekki rifið mig upp alveg strax. Drengurinn var svo sem ekkert að reyna að vekja mig heldur settist fram í stofusófa (eftir morgunmiguna) alveg pollrólegur. Davíð Steinn var enn sofandi en þegar hann vaknar á undan mér er hann alveg jafn tillitsamur og Oddur Smári. Klukkan níu kveikti sá vaknaði á morgunsjónvarpinu. Þá reif ég mig upp, ristaði brauð handa honum og fékk mér eitthvað sjálf í svanginn. Davíð rumskaði rétt seinna en nafni hans vaknaði ekki fyrr en klukkan að verða tíu. En áfram með frásögnina úr Skorradalnum;

7. ágúst

Þennan morgun vaknaði Oddur Smári lang-lang fyrstur (einhvern tíman á níunda tímanum), ég dreif mig á fætur um níu en nafnarnir vöknuðu ekki fyrr en um ellefu. Það var sólarlaust, smá rok en mjög hlýtt. Við tókum því bara rólega en afrek dagsins var eiginlega búið að ákveða kvöldinu áður. Berjamó! Við ákváðum að fara á sama stað og í fyrra, ofarlega í Draganum. Við vorum aðeins með mayonaise-dós og tóma sóda-vatns flösku og vorum rétt um klukkutíma að fylla ílátin.

Þegar við komum til baka var byrjað að rigna. Við höfðum engar áhyggjur af því og vorum ákveðin í að grilla. Reyndar vorum við svo heppin að rigningin var hætt um það leyti sem Davíð tók fram grillið. Síðasta kvöldmáltíðin var mikil og vel-útilátin (við elduðum eiginlega fyrir svona tíu manns) en það er líka bara gott að eiga afganga. Spiluðum við strákana um kvöldið en reyndum að koma þeim í ró í fyrra fallinu. Oddur Smári var fljótur að sofna en það sama verður ekki sagt um Davíð Stein.

9.8.03

6. ágúst
Við systur fórum á fætur með börnunum á tíunda tímanum, löngu á undan mönnunum okkar. Helgu tókst þó að lokka Ingva á fætur fljótlega eftir að kaffið var til. Maður vissi varla af krökkunum þau voru ýmist í tjaldinu eða í sandkassanum og rólunum. Veðrið var einstakt eins og það var búið að vera eiginlega alla vikuna. Um tvöleytið grillaði Davíð kjúklingabringur sem við settum svo út í sallat og buðum gestunum að borða með okkur áður en þau þurftu að drífa sig til baka.

Þegar gestirnir voru farnir fórum við fjögur í göngutúr innar í dalinn með "Pésa-bolta" (boltann sem Pétur (sem er með þeim í 7. flokk Vals) gaf þeim í afmælisgjöf). Eftir tíu mínútna labb fundum við tún með tveimur mörkum á og spiluðum þar fótbolta (ég og Davíð Steinn á móti Oddi Smára og Davíð). Þeir síðarnefndu höfðu betur. Ég hafði bara úthald í einn hálfleik en þá spilaði Davíð einn á móti strákunum. Þetta var hin besta skemmtun.

Um kvöldið suðum við pylsur og spiluðum svo eitthvað frameftir við strákana; þjóf, ólsen-ólsen, veiðimann og yatzý!
5. ágúst
Þennan morgunn vaknaði Davíð Steinn fyrstur. Við vorum samt öll komin framúr fyrir ellefu. Bidda sendi SMS og lét vita að bíll vinkonunnar væri bilaður og því kæmist hún ekki í heimsókn til okkar í þetta skiptið. Ég skrifaði henni til baka og ákvað það að henni skyldi boðið í heimsókn í næstu sumarbústaða-ferð.

Helga systir hringdi og boðaði komu fjölskyldunnar með kvöldinu (f r á b æ r t !). Þau ætluðu semsagt að gista yfir nóttina eins og ég var búin að bjóða þeim. Strákarnir voru úti að leika við systkynin úr næsta bústað þar til þeirra heimsókn var lokið.

Við fjölskyldan gerðum okkur ferð í BÓNUS í Borgarnesi. Þegar við komum til baka fór Davíð með strákana niður að vatninu til að leyfa þeim að sulla. Ég elti þá með myndavél rétt seinna og þá voru tvíburarnir bara á brókinn. Davíð Steinn var fyrri til að hætta sullinu og fóru þeir nafnar saman upp í bústað til að setja lambalærið á grillið. Oddur Smári hætti sullinu fimmtán mínútum seinna. Ég bjó til sallat, smurði sveppi og fékk Davíð Stein til að hjálpa mér að pakka inn kartöflum.

Þegar gestirnir komu var ég að búa til sósu og verið var að leggja á borð úti. Helga og þau komu með lítið tjald með sér sem tjaldað var á veröndinni, eitthvað fyrir börnin að leika sér í, enda gerðu Davíð Steinn og Hulda nokkrar tilraunir til að sofna í því seinna um kvöldið. Ingvi bauð upp á dýrindis koníak með kaffinu þegar búið var að ganga frá eftir matinn. Tókum börnin inn um tíu-leytið og höfðum smá sögu og söngstund, öll saman eftir að þau voru háttuð. (Helga systir stakk upp á þessu). Strákarnir sofnuðu á tólfta tímanum og Helga og Ingvi fóru inn með Huldu hálftíma seinna og voru búin að svæfa hana upp úr miðnætti. Þá fórum við að spila. Spiluðum Kana til tvö en þá fórum við Ingvi í kojur. Helga og Davíð spiluðu áfram, Ólsen-ólsen eitthvað fram eftir nóttu...
- Millispil -
Þar sem að ringdi eldi og brennisteini rétt fyrir þrjú í dag ákváðum við að hætta við að taka þátt í "Hinsegin dögum, (GAYPRIDE) og fara bara strax í sund". Náði að synda 200 metra áður en feðgarnir komu út í. Ég var ofan í í einn og hálfan tíma. Fór upp úr aðeins á undan og saumaði nokkur spor í
haustinu á meðan ég beið eftir feðgunum. Versluðum á heimleiðinni og eftir mat fór ég aftur út á tún með strákunum. Oddur Smári getur nú hjólað af stað aleinn og sjálfur. "Æfingin skapar meistarann!" segir hann mjög oft þessa dagana.
4. ágúst
Sameiginlegur morgunmatur var borðaður um ellefu og fóru krakkarnir svo fljótlega út að leika við systkynin úr hinum bústaðnum. Þennan dag var ekki mikil sól en samt alveg einstaklega gott stuttbuxna-veður. Um nóttina höfðum við verið að spila Kana en núna skiptum við yfir í asna og var spilað og spilað. Um miðjan dag voru grillaðar pylsur. Davíð Steinn rétt skaust inn og rændi sér einni nakinni pylsu en hin tvö gáfu sér tíma til að setjast með okkur og borða eina með öllu. Á eftir fengum við okkur kaffi og héldum áfram að spila. Allt var á rólegu nótunum, enginn að flýta sér, ekkert stress - bara notalegheit.

Gestirnir kvöddu fyrir sex og allt í einu vorum við bara tvö eftir því strákarnir héldu áfram að leika við systkynin. Höfðum kjötbollur í matinn (um sjö) og á meðan við vorum að ganga frá drifu drengirnir sig aftur út. Davíð Steinn kom þó fljótlega inn og fór að spila við okkur en Oddur Smári valdi það að vera úti til níu. Að þessu sinni voru strákarnir komnir í koju um tíu...
3. ágúst
Þessi dagur var yndislega annasamur og veðrið hélt áfram að leika við okkur. Við Davíð höfðum verið að spila til hálftvö, strákarnir höfðu farið í koju um ellefu og gestirnir um hálfeitt þannig að það var liðið nokkuð á morguninn áður en líf fór að færast í mannskapinn. Eiginlega fáránlegt að sofa þessa blíðu af sér en við gerðum nú meira en það því eftir sameiginlegan "brunch" tók "föðursystir" mín að sér frágang, strákarnir fóru út (og niður að vatni) en afgangurinn af okkur fullorðna fólkinu límdist við Formúluna (og það þótt ég vissi að verið væri að taka hana upp fyrir mig).

Við Davíð kíktum samt út á verönd öðru hvoru til að athuga hvort við sæum ekki eða heyrðum í strákunum og í eitt skiptið heyrði Davíð öskur í Oddi Smára. "Davíð Steinn hefur örugglega hrint honum út í...", sagði hann. En stuttu seinna kom síðarnefndi drengurinn á harðahlaupum upp í bústað. "Oddur Smári er stórslasaður hann datt á stein og getur ekki staðið upp!" Davíð fór einn í björgunarleiðangurinn og skömmu síðar komu þeir feðgar labbandi (annar haltrandri reyndar og með tvö bæðandi sár við annað hnéð). Það lagaðist strax og sárin höfðu verið hreinsuð og plástur sett á það stærra. Formúlan var að klárast og við vorum búin að fá tilkynningu um tvær heimsóknir í viðbót við þá sem við vissum þegar af. Engu að síður ákváðum við fullorðna fólkið að setjast aðeins niður inni og spila eina umferð af spilinu sem við ætluðum að spila kvöldinu áður, "Five Crowns". Oddur hjálpaði pabba sínum og Davíð Steinn mér. Þetta er spil sem getur dregist á langinn en þótt við værum byrjendur (við Davíð allt svo) vorum við sennilega bara um klukkutíma að ljúka þessu spili (eitt spil eru 11 umferðir).

Að spilinu loknu fengu gestirnir sér hressingu og luku við að taka sig saman. Svo birtust fyrstu gestir dagsins, frænka mín, maðurinn hennar og yngri sonur (sá eldri var í Eyjum enda rétt að verða 18 ára). Þau kom með afmælistertu með sér og héldu upp á 12 ára afmæli sonarins. Hinir gestirnir kvöddu fljótlega og ekki löngu seinna fóru allir strákarnir (stórir sem smáir) niður að vatni að reyna að fanga fisk. Frænka mín fór í sólbað og ég var á vappi á veröndinni.

Næstu gestir komu fljótlega, mágur minn (yngri bróðir Davíðs, og var hann með son sinn og kærustuna með (þegar við vissum að þau væru í nágrenninu og höfðu hug á að heimsækja okkur buðum við þeim að borða með okkur). Þau fóru fljótlega niður að vatninu líka. Um hálfsex sá frænka mín að það væri betra að hún tæki sig saman og labbaði niður að vatninu til að fá feðgana (sína), til að taka saman og kveðja.

Rétt áður en þau kvöddu komu svo vinkona mín og tvíburahálfsystir og hennar fylgifiskar (við vorum búin að ákveða að leggja saman í púkk og borða saman líkt og við "föðursysturnar" kvöldinu áður og það tók ekki langan tíma að sannfæra þau um að gista líka þar sem þau voru svona seint á ferðinni).

Krakkarnir héldu sig á leiksvæðinu við bústaðinn (og kynntust þrælskemmtilegum systkynum sem voru gestir í næsta bústað), stóru strákarnir fóru að huga að grillinu og við vinkonurnar sáum saman um meðlætið. Maturinn var borðaður inni, enda var klukkan orðin níu, og fengu krakkarnir fyrst. Sá yngsti þriggja ára sat lengst við borðið, bæði með frændum sínum og svo okkur fullorðna fólkinu. Mágur minn og þau þrjú kvöddu um hálfellefu, krakkarnir fengu að vera úti til hálftólf, við vinkonurnar hjálpuðumst að við frágang og svo var farið að spila. Strákarnir komust í ró um miðnætti eftir að hafa fengið hressingu og spilað stutta stund við stúlkuna (hún var alveg ótrúlega natin við börnin ekki eldri en hún er (11) og hafði tildæmis haft vakandi auga með bróðursyni Davíðs á meðan hann var í heimsókn.
- Millispil -
Dreif mig út á Klambratún með strákana á hjólaæfingu. Klukkan var að verða ellefu, en það er stutt að fara og úthaldið hjá okkur Oddi ekkert of mikið. Við vorum samt úti í klukkutíma og það endaði með því að Oddur komst aleinn og sjálfur af stað, eftir uppgjöf hjá mér þar sem ég dró mig alveg í hlé og settist á bekk góðan spöl frá drengnum. Eftir smá baul kom hann hjólandi til mín (ég mæli samt ekkert endilega með þessari uppgjafaraðferð...)


2. ágúst
Tókum því rólega til að byrja með. Var í sambandi við nýgiftu "föðursystur" mína því ég var búin að bjóða henni, manninum hennar og dóttur þeirra að gista hjá okkur eina nótt. Við ákváðum að hittast í Borgarnesi því saman ætluðum við að kíkja á hana, hennar mann og dóttur þar sem þau eru búin að fá land undir sumarbústað ca tíu km. vestan við Borgarnes. Stoppuðum þar á annan tíma, fengum kaffi og létum okkur dreyma um framtíðarheimsóknir á þennan stað. Ég vona samt að við verðum ekki of ágeng þegar þar að kemur því eins og það er gott að gaman að fá heimsóknir þá er líka yndislegt að fá tíma bara fyrir sig og sína kjarnafjölskyldu! Versluðum í BONUS í bakaleiðinni. Veðrið þennan dag var magnað. Við borðuðum úti á verönd um áttaleytið og þegar við föðursysturnar vorum búnar að ganga frá ákváðum við að senda alla strákana á brennuna og vera bara í rólegheitunum að koma litlu stúlkunni í svefninn. Eftir á að hyggja hefði sennilega verið skynsamlegra að við fjöskyldan hefðum farið saman á brennuna og gestirnir í bústaðnum að svæfa þá stuttu á meðan.
- Komin heim aftur en bara yfir helgina -
Jamm, ég fór semsagt út úr bænum þann 1. ágúst sl. og kom heim í gær. Ég athugaði ekki að taka með mér stílabók og fattaði heldur ekki að ég gæti notað hvít A4 blöð sem voru á staðnum. Notaði bara gamla góða filofaxið mitt til að punkta niður hjá mér það helsta sem gerðist þessa daga sem ég var í burtu.

1. ágúst
Við lögðum ekki af stað fyrr en á níunda tímanum á föstudagskvöldinu. Davíð var á nokkurs konar bakvakt, hafði látið þau boð út ganga að hægt væri að ná símasambandi við hann fram að hádegi. Rétt fyrir fjögur skoðaði hann netpóstinn sinn fyrir tilviljun og uppgötvaði þá að það hafði verið reynt að hringja í hann allan daginn, bara ekki í gemsann hans. Tvíburarnir voru í afmælisveislu (eins og kom fram síðast þegar ég bloggaði) og ég var að snúast í marga hringi í kringum sjálfa mig til að vera nú viss um að gleyma ekki neinu. Sótti nýju skóna hans Davíðs Steins og lyklana og fylgitöskuna að íverustað næstu daga. Ætlaði líka að fara yfir gólfin en endirinn varð sá að ég sópaði bara yfir eldhúsgólfið. En við komumst af stað á endanum. Ókum fyrir Hvalfjörðinn og stoppuðum stutta stund í Ferstiklu. Þar uppgötvaði Davíð að hann var ekki með veskið sitt og þar af leiðandi ekki ökuskírteinið. Klukkan var um hálftíu og ég vildi alls ekki snúa við en var góða stund að jafna mig á þessum fréttum. Áfangastað var svo náð langt gengin í ellefu, innarlega í Skorradal, norðan megin við vatnið. Fengum okkur pylsur með öllu og spiluðum aðeins við strákana áður en við komum þeim í ró.

1.8.03

- í sólskinsskapi -

Nú er aftur komin sól og blíða. Ingvi kom með Huldu um hálfellefu og nokkru seinna fór ég út á tún með öll börnin. Oddur Smári er svo ákveðinn í að æfa sig af kappi sem er bara mjög gott! Davíð Steinn bjargar sér alveg sjálfur og hjólar út um allt Klambratún. Við komum til baka um tólf. Krakkarnir voru reyndar aðeins áfram úti á meðan ég útbjó handa okkur smá hádegishressingu. Nú er mágur minn kominn úr ræktinni og eftir ca. klukkutíma eru strákarnir að fara í sjö ára afmæli til eins fótboltafélaga síns.

Það eru næg verkefni framundan, bæði í dag og næstu daga en ég veit ekki alveg hvenær ég gef mér tíma til að blogga næst.