8.4.19

Nagladekkin komin á dekkjahótel

Það fór eins og mig grunaði, ég dvaldi fyrir austan alveg framyfir kvöldfréttir og kvöldmat. Upp úr tvö hrærði ég í pönnsur. Pabbi ákvað að fá sér göngutúr á meðan og fór alla leið í búðina til að kaupa rjómapela. Skrapp aðeins til Möggu og Sævars í Nestúnið eftir pönnsukaffið. Þar voru þau úti á palli ásamt tveimur börnum sínum, tengdasyni, gesti (núverandi bónda á Helluvaði), dóttur hans og þremur barnabörnum. Sátum ekki lengi útivið. Dóttir þeirra hjóna og hennar fjölskylda búa í bænum og þegar sonur þeirra var orðinn úrvinda og farinn að biðja um að fara heim kvöddu þau. Við Magga sátum svo í góða stund inni í stofu hjá henni og spjölluðum um lífið og tilveruna.

Við pabbi ákváðum að ég skyldi taka sumardekkin með mér í bæinn, sóttum þau í skúrinn upp úr klukkan sex og settum tvo hjólbarða í skottið og tvo afturí. Ég fékk að sjá um matinn. Steikti þorsk og hafði kartöflur, gulrætur og lauk með. Um það leyti sem Landanum lauk kvaddi ég pabba og dreif mig heim. Fékk ekki stæði í Drápuhlíðinni en fann ágætis stæði í Blönduhlíðinni.

Fór gangandi í vinnuna í morgun og þegar ég kom heim aftur ákvað ég að keyra við hjá hjólbarðaþjónustu N1 við Fellsmúla og athuga hvort þeir gætu ekki umfelgað, sett sumardekkin undir og geymt fyrir mig nagladekkin. Maðurinn í afgreiðslunni sagði að það væri amk klukkutíma bið en féllst á að taka bíllykilinn og fá hjá mér símanúmer á meðan ég tæki smá göngutúr. Ég kíkti aðeins í A4, Rúmfatalagerinn og Hagkaup. Þegar ég tók upp símann til að athuga með hvað tímanum liði sá ég að ég hafði misst af símtali, nokkrum mínútum áður en það var ekki einu sinni liðinn nema uþb hálftími. Borgaði rúm 15 þúsund fyrir umfelgun og hálfs árs hótelgeymslu og fór svo beint í sund.

6.4.19

Á Hellu

Aðra helgina í röð er ég komin í sveitasæluna á Hellu og það er ljóst að hér verð ég til morguns og líklega alveg frameftir degi þá og jafnvel fram á kvöld. Var komin austur rétt upp úr klukkan tvö. Eftir kaffi, um fjögur, skrapp ég með nokkrar bækur til nöfnu minnar (vinkonu mömmu) og mömmu eins bekkjarbróður míns í grunnskóla. Þar kom vel á vondann. Hún var heimavið að endurlesa og langt komin með eina bók eftir Camillu Läckberg og var farin að spá í hvað hún ætti að lesa í kvöld og næstu daga. Hún ákvað að taka til skoðunnar allar fjórar bækurnar sem ég var með, tvær eftir Lizu Marklund og aðrar tvær eftir Boris Akunin. Stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma.

Pabbi notaði tækifærið og fór í sinn nýlega daglega göngutúr á meðan ég var í þessari heimsókn. Á fimmtudaginn var labbaði ég í fyrsta skipti til og frá vinnu síðan í haust og sama dag sá pabbi að það var orðið vel göngufært fyrir eldri borgara með staf. Strætókortið mitt rann úr gildi eftir 2. apríl sl. og þann 3. fór ég á bíl í vinnuna í fyrsta skipti síðan fyrsta virka daginn á þessu ári. Hætti vinnu fyrir hálfþrjú þann dag og byrjaði á því að sækja mér nýja lykil fyrir fyrirtækjabankann v/hússjóðs Drápuhlíðar 21. Úr bankanum fór ég beint í sund og svo kom ég við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Var komin heim rétt fyrir fimm. Davíð Steinn tjáði mér að hann ætti að taka vakt frá klukkan sex til klukkan tíu á N1 í Fossvogi milli Reykjavíkur og Kópavogs. Það eru aðeins strætóstoppistöðvar á Kringlumýrarbraut við Kringluna og svo við Hamraborg. Það var boðaður saumaklúbbur hjá mér þetta kvöld um átta. Ég ákvað að hringja í þá sem býr í húsbílnum sínum í Moso og bjóðast til að sækja hana í fyrra fallinu og bjóða henni í mat. Hún þáði það með þökkum. Davíð Steinn var mættur á vaktina ca tíu mínútum fyrir sex og uþb tuttugu mínútum seinna var ég kominn upp í Mosó. Við Lilja vorum komnar í Drápuhlíð um hálfsjö, sáum Odd Smára tilsýndar en hann hafði verið kallaður á aukavakt. Bauð Lilju upp á steikta þorskhnakka með kartöflum. Hnakkana fékk ég hjá einni sem vann með mér á kortadeildinni í meira en tíu ár. Hennar maður er vélstjóri á sjó og kemur stundum með þorsk, ýsu og eða þorskhnakka í tíu kílóa öskjum. Ég keypti af þeim tíu kíló á mánudagskvöldið var og skipti þeim niður í þónokkra frystipoka með tveimur flökum í.

Í gær skráði síminn á mig alls fjóra göngutúra. Til og frá vinnu og svo skrapp ég gangandi í Lífspekifélagið og var mætt rétt fyrir átta og komin heim aftur upp úr klukkan hálftíu eftir fróðlegan fyrirlestur sem var m.a. um ffh, fljúgandi furðuhluti.