Það fór eins og mig grunaði, ég dvaldi fyrir austan alveg framyfir kvöldfréttir og kvöldmat. Upp úr tvö hrærði ég í pönnsur. Pabbi ákvað að fá sér göngutúr á meðan og fór alla leið í búðina til að kaupa rjómapela. Skrapp aðeins til Möggu og Sævars í Nestúnið eftir pönnsukaffið. Þar voru þau úti á palli ásamt tveimur börnum sínum, tengdasyni, gesti (núverandi bónda á Helluvaði), dóttur hans og þremur barnabörnum. Sátum ekki lengi útivið. Dóttir þeirra hjóna og hennar fjölskylda búa í bænum og þegar sonur þeirra var orðinn úrvinda og farinn að biðja um að fara heim kvöddu þau. Við Magga sátum svo í góða stund inni í stofu hjá henni og spjölluðum um lífið og tilveruna.
Við pabbi ákváðum að ég skyldi taka sumardekkin með mér í bæinn, sóttum þau í skúrinn upp úr klukkan sex og settum tvo hjólbarða í skottið og tvo afturí. Ég fékk að sjá um matinn. Steikti þorsk og hafði kartöflur, gulrætur og lauk með. Um það leyti sem Landanum lauk kvaddi ég pabba og dreif mig heim. Fékk ekki stæði í Drápuhlíðinni en fann ágætis stæði í Blönduhlíðinni.
Fór gangandi í vinnuna í morgun og þegar ég kom heim aftur ákvað ég að keyra við hjá hjólbarðaþjónustu N1 við Fellsmúla og athuga hvort þeir gætu ekki umfelgað, sett sumardekkin undir og geymt fyrir mig nagladekkin. Maðurinn í afgreiðslunni sagði að það væri amk klukkutíma bið en féllst á að taka bíllykilinn og fá hjá mér símanúmer á meðan ég tæki smá göngutúr. Ég kíkti aðeins í A4, Rúmfatalagerinn og Hagkaup. Þegar ég tók upp símann til að athuga með hvað tímanum liði sá ég að ég hafði misst af símtali, nokkrum mínútum áður en það var ekki einu sinni liðinn nema uþb hálftími. Borgaði rúm 15 þúsund fyrir umfelgun og hálfs árs hótelgeymslu og fór svo beint í sund.