Gærdagurinn var ansi langur í annan endann. N1 ungi maðurinn var á aukavakt milli hálfátta og tvö í sinni vinnu svo ég eftirlét honum strætókortið. Ákvað að fara á bílnum beint í vinnuna, þ.e. ég sleppti morgunsundferð. Áður en ég fór tók ég alla skó af ganginum og inn í hol. Var tilbúin til að fara á síðastu jóga-nítre slökunarstundina í Fella og Hólakirkju seinna um daginn en um miðjan dag var ljóst að það myndi ekki ganga upp og lét ég Inger vita í tíma. Ég kom heim úr vinnu rétt upp úr klukkan hálftíu í gærkvöldi. Teppalagningarmaðurinn sem við nágranni minn í risinu réðum til að rífa af teppið og leggja nýtt í sameignina hafði komið og rifið upp og fjarlægt gamla teppið. Ég skrapp upp til nágrannans til að skoða teppaprufur. Við vorum ekki lengi að velja og vorum báðar sammála. Áður en ég komst í háttinn sendi ég messu tilkynningu í moggann og setti svipaðar fréttir á facebook vegg og heimasíðu safnaðarins. Tók á mig náðir þegar klukkan var byrjuð að ganga tólf.
31.5.17
30.5.17
35 ára fermingarafmæli í dag
Þann 30. maí 1982, sem var hvítasunnudagur, fermdist ég í Keldnakirkju. Síðan eru liðin 35 ár. :-)
Ég var annars með strætókortið í gær en flaskaði á því að það er komin sumartímatafla og þá gengur 13 aðeins tvisvar á klukkustund, 14 og 44 yfir heila tímann. Ég sem var að nota hálfátta vagninn þegar ég var að nota strætó í vetur. Vissi ekki af þessum breytingum í gær og fór því of fljótt út. Þegar ég áttaði mig á því að vagninn væri ekki að koma alveg strax labbaði ég upp að skýlinu sem er merkt Flókagötu þótt það standi nú reyndar við Lönguhlíð.
Um fjögur fékk ég far heim úr vinnunni og ákvað svo fljótlega að drífa mig í sund. Hringdi samt í pabba áður. Kom heim einhvern tímann á áttunda tímanum. Þá var Davíð Steinn búinn að steikja hakk sem þeir bræður notuðu svo á vefjur ásamt grænmeti. Ég ákvað að borða frekar afganga.
29.5.17
Aðeins um gærdaginn. Jazzmessa og fleira.
Ég skutlaði N1 unga manninum í vinnuna sína upp úr klukkan hálfníu og fór svo beint í sund. Kom heim um ellefu, gekk frá sunddótinu, fékk mér eitthvað að borða og prjónaði smá. Kvöldið áður hafði verið hringt í mig og ég spurð hvort ég gæti tekið að mér að sjá um maulið eftir messuna. Ég var örlítið efins í fyrstu en ég ætlaði hvort sem er að mæta í kirkjuna svo ég ákvað að vera jákvæð gangvart þessu verkefni. Um tólf leytið í gær skrapp ég því í Bónus í Kringlunni án þess að hafa hugmynd um það fyrirfram hvað ég myndi grípa með mér til að hafa með kaffinu.
Úr Bónus lá leiðin beint upp í kirkju og var ég svo heppin að sr. Pétur var að koma þar að um sama leyti, 12:40, svo ég komst strax inn. Er nefnilega ekki með lykla. Maulið er borið fram í efri safnaðarsal kirkjunna sem er mjög gott fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með stiga. Í neðri salnum hefði þurft að raða upp öllum borðum þar sem þau eru flest sett saman í eitt langborð. Svona vilja þeir sem eru með fundi í þessum sal, tveir hópar einu sinni í viku (annar hópurinn á mánudögum og hinn á fimmtudögum) hafa það. Uppi tók ég stóla frá tveimur borðum og ýtti borðunum þversum alveg upp að vegg. Á þessi borð setti ég maulið, glös, vatns- og djúskönnur, diska, servíettur, skál með ýmsum tegundum af tei og brúsa með heitu vatni. Á hin borðin setti ég nokkra bolla, eina mjólkurkönnu og einn kaffibrúsa. Hafði enga hugmynd um hversu margir yrðu í messunni. Þar sem organistinn og kórinn hans voru í fríi hafði hann beðið Ágústu Evu að syngja við messuna. Hún forfallaðist á síðustu stundu, en sr. Pétur fékk þrjá unga stráka sem eftir messuna kölluðu sig "Háóða jazztríóið" og jazz-söngkonuna Ingibjörgu Hlíðar. Hún var mjög tímabundin og þurfti að vera mætt annars staðar um þrjú. Engu að síður náði hún að syngja fyrir okkur fjögur lög áður en hún fór. Fjórða lagið söng hún eftir þá stystu predikun sem ég man eftir að hafa verið, og hafa þær yfirleitt aldrei verið lengri en tíu til fimmtán mínútur. Predikunin tók að þessu sinni rétt um þrjár mínútur en presturinn hafði spurt söfnuðinn hvort það væri ekki í lagi að hafa þetta það stutt til að fá fjórða lagið með söngkonunni. Nokkuð margt var í kirkjunni, alls 48 manns og um leið og ég var búin að fara í altarisgönguna dreif ég mig í að gera allt klárt fyrir maulið eftir athöfnina. Þrjú af fyrrum KÓSÍ meðlimum mættu og ég gaf mér smá tíma til að setjast niður með þeim. Ekkert stress var á fólki en ég var búin að ganga frá eftir maulið áður en klukkan varð hálffimm og varð samferða prestinum út.
Heima stoppaði ég svo aðeins í tæpa tvo tíma. Hringdi í pabba, prjónaði og las smá en á sjöunda tímanum lagði ég í hann til Grindavíkur á leik heimamanna og "minna" manna sem fór ekki alveg nógu vel fyrir Valsstrákunum, 1. tapið hjá þeim staðreynd en eru samt í 2. sæti með sama stigafjölda og lið Grindavíkur en betra markahlutfall. Eftir leikinn heimsótti ég vinafólk mitt en ég athugaði það á laugardaginn hvort þau yrðu heima og hvort ég gæti sótt þau heim þótt klukkan væri byrjuð að ganga tíu. Kom svo heim upp úr hálftólf. Ævintýralega skemmtilegur dagur.
28.5.17
Alls 48 í jazzmessu í dag
Í gærmorgun var ég fyrst út úr húsi rétt upp úr klukkan átta. Var byrjuð að synda ca tuttugu mínútum yfir átta og synti í tuttugu mínútur. Fór tvisvar í kalda pottinn og endaði í sjópottinum þar sem ég dagaði næstum því uppi því það heilsaði mér kona með þeim orðum að hún kannaðist svo við mig og við fórum að spjalla saman í kjölfarið. Eftir sundið skrapp ég heim til að ganga frá sunddótinu. Stoppaði ekkert, var með esperanto-bakpokann tilbúinn í skottinu og var komin vestur í bæ rétt upp úr hálfellefu. Rúmum tveimur tímum seinna kvaddi ég og þá lá beinast við að koma við í Krónunni við Granda áður en ég færi heim. Var svo alveg róleg heima restina af deginu. Prjónaði alveg helling og er byrjuð á þriðju dokku af fimm á sjalinu sem ég byrjaði á um síðustu helgi. Eftir að Oddur Smári kom heim úr sinni vinnu fór ég fljótlega að finna til matinn, steikti lambagúllas og skar niður ýmis konar grænmeti. Það var til salsasósa og sýrður rjómi í ísskápnum og þegar Davíð Steinn kom heim úr sinni vinnu var allt tilbúið til að útbúa sér vefjur. Sátum öll saman að snæðingi og bræðurnir skiptust á vinnusögum. Davíð Steinn bauð upp á gulrótarkökusneið í eftir rétt og svo hjálpuðust þeir að við að ganga frá eftir matinn.
27.5.17
279 lykkjur á hringprjónunum
Í gær fórum við öll mæðginin í vinnu. Davíð Steinn fór fyrstur sjö mínútur fyrir sjö til að ná í strætó og vera kominn í Stórahjallann fyrir hálfátta. Ég labbaði út tíu mínútum yfir sjö til að vera mætt í mína vinnu korter fyrir átta og Oddur Smári var síðastur út úr húsi en hann er aðeins nokkrar mínútur og tölta upp í Öskjuhlíð en hann átti að vera mættur um hálfátta. Helmingurinn af kortadeildinni var í orlofi í gær svo við vorum þrjú sem létum hendur standa fram úr ermum til að vinna á öllum daglegum verkum og þrátt fyrir að taka matar og kaffipásur náðum við ca. fimm korterum af deginum í endurnýjun. Hættum vinnu korter fyrir fjögur. Mér bauðst far heim sem ég þáði. Var samt ekki lengi heima. Hringdi í pabba en tók svo til bókasafnsbækur og sundútbúnað. Byrjaði á því að skila nokkrum bókum á Kringlusafnið og tók auðvitað nokkrar í staðinn. Var búin að framlengja skilafrestinum á þremur bókum. Næst lá leiðin í Nauthólsvíkina þar sem ég stakk mér í sjóinn í nokkrar mínútur. Var komin heim aftur fyrir klukkan hálfsjö. Kvöldmaturinn var akkúrat tilbúinn um það leyti sem Oddur kom heim úr vinnu. Sat svo með prjónana í stofunni og fylgdist aðeins með Voice. Slökkti á sjónvarpinu um tíu en klukkan var samt farin að ganga tólf áður en ég gekk til náða.
26.5.17
Á bókasafnið og í sjóinn eftir vinnu í dag
Oddur Smári var mættur einum og hálfum tíma snemma í vinnuna sína í gærmorgun. Það var rauður dagur og því átti hann ekki að mæta fyrr en klukkan níu. Sem betur fer er vinnan frekar stutt frá en hann verður í afleysingum, "starfsmaður á plani", á Skeljungsstöðinni í Öskjuhlíð. Ég hafði ekki stillt á mig neina klukku en fór á fætur einhvern tímann á níunda tímanum þannig að ég gat óskað syninum góðrar vaktar þegar hann fór aftur í vinnuna. Á meðan ég beið eftir því að N1 sonurinn vaknaði, en hann var í vaktafríi í gær, dundaði ég við ýmislegt hér heimavið, bæði húsverk, prjóna og fleira. Það fór nú svo að ég varð að vekja Davíð Stein um hálftvö. Bað hann um að ryksuga gólfið við útidyrnar og búa til vöfflur úr uppskrift sem ég var búin að hræra í á meðan ég væri í sundi. Þar með var ég farin í Laugardalinn. Kom heim aftur tæpum tveimur tímum seinna og skrapp þá eftir rjóma í Sunnubúðina. Hafði kvöldmatinn til um hálfsjö og var svo farin á Valsvöllinn (VALUR-Grindavík stelpurnar 5-1) áður en Skeljuns-ungi maðurinn kom heim úr vinnunni.
25.5.17
Nýstúdentinn strax byrjaður í sumarvinnunni
Í gær varð Oddur Smári stúdent af tölvubraut úr Tækniskólanum. Útskriftarathöfnin fór fram í Eldborg í Hörpu enda margir að útskrifast af mörgum brautum og skólum sem eru undir "hatti/þaki" Tækniskólans. Þar sem N1 ungi maðurinn var á frívakt notaði ég strætókortið til að komast í vinnunna og þannig gat Oddur komið á bílnum um tvöleytið. Hann var svo heppinn að fá stæði á neðra plani Seðlabankans. Ég var í vinnunni milli korter í átta og korter yfir tvö. Hafði mætt með sparilegt dress með mér í vinnuna og skipti um föt og málaði varirnar áður en ég fór yfir í Hörpuna. Athöfnin byrjaði um þrjú en ég var komin í sæti upp úr hálfþrjú og hafði verið svo séð að taka með mér prjónana svo ég gat dundað mér við að prjóna alveg þar til allt var sett í gang. Athöfnin tók rúmlega tvo og hálfan tíma og var bein útsending af Facebook-vegg skólans og var þetta í fyrsta skipti sem það er gert. Sendi pabba linkinn á athöfnina en reyndar gat hann ekki opnað einhverra hluta vegna. Ég prófaði ekki að opna sjálf þar sem ég var á staðnum. Hinn tvíburinn hafði ekki haft áhuga á því að mæta og fylgjast með bróður sínum taka á móti útskriftarplagginu en við sóttum hann seinna og buðum honum út að borða með okkur. Við Oddur skiptum samt fyrst um föt.
22.5.17
Smá lottovinningur á áskriftarmiða
Dagarnir þjóta hjá og tíminn lætur ekkert bíða eftir sér frekar en venjulega. Á föstudaginn fór ég úr vinnunni um hálfþrjú og fór beint í Kópavogskirkju til að fylgja einni náfrænku minni. Hafði ætlað mér að mæta aftur í vinnuna um fjögur og sitja yfir mönnunum sem koma og yfirfara framleiðsluvélina mánaðarlega. Hringdi í þá sem var á vaktinni og hún sagðist geta verið til klukkan sex svo ég hafði samband við norsku esperanto vinkonu mína í staðinn. Stoppaði hjá Inger í um klukkustund áður en ég fór í Krónuna við Granda til að versla inn.
Á Laugardagsmorguninn mætti ég í sund upp úr klukkan níu. Eftir sundið kom ég aðeins við í Hagkaup í Skeifunni til að athuga hvort það væru til fleiri dokkur með sama númeri í þessum fjórum litum sem ég keypti inn um daginn. Það var til og þar að auki keypti ég fimm dokkur í enn einum litnum. Þegar ég kom heim lauk ég við að taka mig til fyrir austurferð, vakti annan soninn bara til að kveðja hann. Við mamma höfðum mælt okkur mót við Selfosskirkju fyrir klukkan hálftvö til að fara saman á Queen-messu með kirkjukór Keflavíkurkirkju og Jónsa. Það var frábær klukkustund. Jóna og Reynir voru ekki heimavið og mamma fann ekki útiarinn í Húsasmiðjunni en okkur var tekið opnum örmum í Fossheiðinni. Lauk við að prjóna bleika sjalið um kvöldið, gekk frá endunum og byrjaði strax á næsta lit.
Svaf til klukkan að ganga tíu í gærmorgun þrátt fyrir að hafa farið að sofa fyrir miðnætti. Það var ekki alveg jafn mikil bongóblíða og á laugardeginum en þó var hægt að sitja úti á palli með prjónana það lengi að ég náði að roðna aðeins. Kom heim rétt upp úr klukkan tíu í gærkvöldi og fór næstum því beint í háttinn.
18.5.17
Torfi Geirmundsson kvaddur
Í gær labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Fékk Odd í lið með mér við ákveðin verk hér heima og sendi hann einnig eina ferð í Sorpu. Eftir kvöldmat fór ég loksins í sund og gaf mér góðan tíma í alla rútínu. Á tólfta tímanum komu systir mín og eldri dóttir hennar til mín. Hinn helmingurinn af fjölskyldunni og minni hundurinn gistu annars staðar í bænum og stærri hundurinn var í pössun fyrir norðan. Við systur þurftum að spjalla smá áður en við tókum á okkur náðir einhvern tímann eftir miðnætti.
Ég fór á bílnum í vinnuna í morgun og vann milli hálfátta og hálftólf. Þá fór ég heim, fékk mér smá hressingu og skipti um föt. Oddur klæddi sig líka upp og fékk að keyra okkur upp að Árbæjarkirkju. Þar var saman komið fjölmenni til að fylgja tengdapabba systur minnar. Enginn prestur var í athöfninni heldur voru uppáhalds lögin hans spiluð og minningarorð voru í höndum Rúnars bróður hans sem og Mikaels og Lilju, tveimur af fimm börnum Torfa heitins. Allt í hans anda. Blessuð sé minning um litríkan og góðan mann.
16.5.17
Jafntefli
Helgin leið afar hratt. Á föstudagskvöldið fór ég út að borða með 9 vinnufélögum úr K1 á Matstofu Garðabæjar. Það var mjög góð kvöldstund, gott að borða, góð þjónusta og skemmtilegur félagsskapur. Var mætt í sund rétt upp úr átta á laugardagsmorguninn og í klippingu klukkan tíu. Fór síðan heim, gekk frá sunddótinu og tók esperantodótið með mér til Inger. Þar stoppaði ég í einn og hálfan tíma. Fór beint heim aftur og lauk við að pakka niður fyrir austurferð. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni austur. Þegar ég kom svo til foreldra minna frétti ég að Torfi Geirmundsson, tengdapabbi systur minnar, væri fallin frá. Blessuð sé minning hans.
Mamma bað mig um að skreppa í búðina eftir rófu og smá söngvakeppnis snakki. Sauð rófuna og útbjó rófustöppu sem var höfð með sviðum í kvöldmatinn. Báðir foreldrar mínir entust fyrir framan skjáinn yfir söngvakeppninni. Ég var með prjónana og prjónaði helling. Við mamma sátum áfram eftir að keppninni lauk og horfðum á bíómyndina sem kom á eftir alveg þar til slökknaði á sjónvarpinu um miðnætti. Þá var amk hálftími eftir af myndinni en þar sem ekki var hægt að ná sambandi aftur við skjáinn fórum við að sofa.
Á sunnudeginum mundi ég eftir því að pabba og mömmu hafði verið boðið í fermingarveislu. Hjálpaði mömmu að þvo sér um hárið. Þau kvöddu um þrjú en þá var ég komin á fullt að ryksuga bílinn og strjúka allt ryk af innan úr honum. Svo skrapp ég gangandi til föðursystur minnar upp að Helluvaði.
Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn en ég var skilaði mér heim í bæinn um tíu.
12.5.17
Á leiðinni út að borða með nokkrum vinnufélögum
Það var loksins haldinn saumaklúbbur í fiskamerkisfélaginu "þrír þorskar..." hér hjá mér á miðvikudagskvöldið. Það var 100% mæting, fyrri gesturinn mætti rétt fyrir átta og hinn ca hálftíma síðar. Og svo var klukkan allt í einu að verða ellefu. Mikið sem tíminn leið hratt, enda orðið það langur tími frá síðasta hittingi að það þurfti margt að spjalla. Nálar og prjónar fengu samt að vera með í klúbbnum.
Í gær var eini dagurinn í vikunni sem ég hafði aðgang að strætókortinu. Var mætt í vinnuna korter fyrir átta og var komin heim aftur um þrjú. Hafði kvöldmatinn frekar snemma og skrapp svo í sund milli klukkan hálfsjö og hálftíu, þ.e. ég fór að heiman um hálfsjö og var komin aftur heim um hálftíu. Fór í sarpinn og horfði með öðru auganu á Cikaco fire með öðru auganu en prjónaði með hinu.
10.5.17
Saumaklúbbur nýafstaðinn hjá mér í kvöld
Á mánudaginn labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Kom heim upp úr klukkan fjögur. Var eiginlega búin að taka ákvörðun um að láta loksins verða af því að prófa að skreppa í sjóinn. Vissi að það opnaði í afgreiðslunni á Ylströndinni við Nauthólsvík um fimm og yrði opið til klukkan átta. Klukkan var orðin hálfsex þegar ég fór með handklæði, sundbol, strandskó og 600 kr. út í bíl. Þegar ég hafði lagt bílnum sá ég tvær konur sem ég reiknaði út að væru vanar og á leið í sjósund. Þær voru aðeins á undan mér. Í afgreiðslunni skrifaði ég mig í gestabók, borgaði gjaldið og fékk ágætis leiðbeiningar hjá þeirri sem afgreiddi mig. Í skiptiklefanum ákvað ég að bera mig upp við konurnar tvær og önnur þeirra var meira en til í að leyfa mér að hengja mig á sig. Hún lánaði mér meira að segja sundvettling á aðra höndina og sá til þess að ég fengi lánaðan vettling á hina höndina í afgreiðslunni. Dýfingin í sjóinn gekk annars glimrandi vel. Var alls ekki lengi útí, synti ekkert og ekki með höfuðið á kaf, en þó alla leið upp að hálsi. Vá, hvað þetta var annars gott og hressandi. Það mætti segja mér að ég verði farin að stunda þetta sport á fullu á næstu misserum.
Í gærmorgun skrapp ég í sund áður en ég fór í vinnuna. Vinnudagurinn var nokkuð skrautlegur en við náðum að klára allt nokkru áður en átta tímarnir voru liðnir. Annars er ég iðin við prjónana og gef mér einnig tíma til að lesa á hverjum degi.
8.5.17
Fór fyrsta íslenska sjóbaðið í dag
Var komin á fætur um átta í gærmorgun, hrærði í vöfflur, hellti upp á kaffi, harðsauð egg og bjó til myndarlegan vöfflustafla. Næturgestirnir vöknuðu einn af öðrum. Helga skrapp út í smá göngu með minni hundinn áður en við, hún, mágur minn, yngri systurdóttir og ég settumst niður við morgunverðarborðið í holinu. Systurdóttir mín fór aftur inn í stofu eftir að hafa dásamað það að fá vöfflur í morgunmat. Synir mínir fengu að sofa út en annar þeirra náði að koma fram áður en gestirnir tóku sig saman og kvöddu einhvern tímann á tólfta tímanum. Fram að því áttum við Helga og Ingvi gott spjall yfir nokkrum kaffibollum.
Um eitt leytið dreif ég mig í sund og kom svo við í garndeildinni í Hagkaup í Skeifunni og keypti mér 4x4 (4 litir) dokkur af kambgarni, nýjasta sudokublaðið og fjölnota Hagkaupspoka utan um allt saman. Fljótlega eftir að ég kom heim lánaði ég bræðrunum bílinn. Ég hringdi í pabba og ákvað svo að byrja á því að ryksuga yfir gólfin þar sem hundarnir höfðu fengið að fara um því þar lágu ófá hárin af henni Cöru, á eldhúsgólfinu, í holinu, á baðherbergisgólfinu og á stofugólfinu. Að þessu loknu fitjaði ég upp á nýju sjali og þegar hætti að prjóna í gærkvöldi hafði ég prjónað 48 umferðir. Að vísu aðeins sjö lykkjur til að byrja með en þeim fjölgaði í annarri hverri umferð.
7.5.17
Þriðja sjalið komið á prjónana
Á föstudagskvöldið hafði systir mín samband við mig til að segja mér að þær mæðgur og báðir ferfætlingarnir myndu taka laugardaginn snemma og renna suður. Spurði hvort þau fjölskyldan fengju gistingu eina nótt. Að sjálfsögðu var svar mitt mjög jákvætt. Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt fyrir hálfníu í gærmorgun og gaf mér góðan tíma í alla rútínu. Dagaði reyndar næstum uppi í salt/sjópottinum á spjalli við eina pottormsvinkonu mína. Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að undirbúa mig undir gestkomuna. Þegar einkabílstjórinn kom fram upp úr tvö var ég m.a. búin að hræra í vöffludeig. Fékk hann til að skreppa fyrir mig í búðina. Áður en hann kom heim aftur lagði N1 strákurinn af stað á aukavakt á N1-stöðina við Lækjargötu í Hafnarfirði. Hann átti að vinna milli fjögur og átta og notaði strætókortið til að koma sér á staðinn en ég lofaðist til að sjá til þess að hann yrði sóttur.
Þegar vöfflufjallið var um það bil að verða tilbúið og Oddur var að koma til baka úr búðinni komu mæðgurnar og hundarnir. Hulda kom rétt inn til að fá að nota salernið og ég fékk knús í leiðinni. Systir mín bað Bríet og Odd að fara í smá gönguferð með ferfætlingana en svo skutlaði hún eldri dóttur sinni til kærastans með viðkomu í einni búð. Þegar búið var að viðra hundana og fá sér vöfflur spiluðum við Bríet Ólsen ólsen upp og niður og svo kenndi hún mér annað spil sem ég hef aldrei spilað áður og heitir einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu - sprite/spræt! Minni hundurinn varð ekki rólegur fyrr en systir mín kom aftur og settist inn í stofusófa.
Upp úr hálfsjö komu nokkrir strákar til Odds því þeir höfðu fengið leyfi til að halda spilakvöld hér ef þeir yrðu ekki lengur en til ellefu. Ég fór því og sótti N1 strákinn eftir að hafa undirbúið lasanja í kvöldmatinn og fengið Helgu til að setja hvítlauksbrauð (eitthvað sem ég hef afarsjaldan með) inn í ofninn síðustu tíu mínúturnar áður en rétturinn yrði tilbúinn. Þurfti aðeins að bíða eftir vinnandi syninum en við vorum komin heim rétt fyrir hálfníu. Spilastrákarnir stóðu við samninginn, ég fór eina gönguferð með minni hundinn, mágur minn bættist í gestahópinn á tólfta tímanum eftir langt og erfitt sjúkraflug sem fylgdaraðili aðstandenda.
5.5.17
Aftur komin helgi
Orlofisdagarnir liðu alltof hratt en þar sem ég var undirbúin undir það þá ákvað ég að reyna að halda mig sem mest í núinu og þakka fyrir hverja mínútu. Vel gengur að lesa bækurnar sem ég tók af safninu um daginn, búin með þrjár af sjö og er að lesa hinar fjórar og tvær að auki. Netið eftir Lilju Sigurðardóttur (sjálfstætt framhald af: Gildran eftir sama höfund) er mjög spennandi. Kaflarnir eru þar að auki það stuttir að maður álpast stundum til að lesa aðeins einn enn, alltof mörgum sinnum. Er hálfnuð með þessa bók.
Er annars búinn að fara á tvo heimaleiki í Pepsídeildinni, Valur - Víkingur Ólafsvík 2:0 á sunnudagskvöldið var hjá strákunum og Valur - ÍBV 4:0 á miðvikudagskvöldið hjá stelpunum. Næstu heimaleikri eru eftir tíu daga 15. og 16. þ.m. Það verður komið að þeim tímapunkti áður en ég veit af.
Í gær var fyrsti vinnudagur eftir orlofið. Ég labbaði í vinnuna og aftur heim, þá með úlpuna undir hendinni. Kom við á Lækjartorginu og gaf mér góðan tíma til að spjalla við eina vinkonu sem var þar með sölubás. Veðrið var sérdeilis gott sem hefur varla farið framhjá neinum enda kom fram í fréttunum að hitinn hafi næstum náð jafn hátt og hann náði í fyrrasumar. Það er allt að gerast og sólin heldur áfram að hækka á lofti.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)