31.12.06

- Lokadagur 2006 -

Mér
finnst alls ekki svo langt síðan þetta ár byrjaði. Og nú er það senn á enda. Við erum búin að hafa það gott yfir hátíðarnar. Ég skildi feðgana eftir heima um fimm á aðfangadag og fór í kirkju. Það var mjög notaleg stund og allt gekk vel. Ég kom heim rétt fyrir sjö og þá hafði eitthvað klikkað í sambandi við kartöflurnar þannig að klukkan var eitthvað um átta þegar við settumst niður. Seinna um kvöldið fréttum við að kartöflurnar hefðu klikkað á fleiri stöðum og valdið seinkun, bæði hjá foreldrum Davíðs og yngsta bróður hans. Ég var búin að segja strákunum að þeir mættu vaka eins lengi og þeir vildu og að það mætti ekki fara í tölvur daginn eftir fyrr en klukkan væri örugglega orðin tíu.

Um hálftíu á aðfangadagskvöld vorum við öll komin inn í stofu. Strákarnir sáu um að lesa á og dreifa pökkunum. Við urðum stundum að bremsa þá af svo þetta gengi ekki of fljótt fyrir sig. Tæpum tveimur tímum seinna var búið að opna alla pakka fyrir utan einn stóran sem Davíð átti. Um miðnætti varð Oddi Smára litið á klukkuna. Hann hnippti í bróður sinn og sagði: -"Davíð, klukkan er orðin tólf við verðum að fara að hátta og sofa!" Ekkert löngu seinna komum við hjónin okkur fyrir uppi í rúmi með öll jólakortin, opnuðum þau og lásum saman.

Á jóladag mætti ég upp í kirkju um eitt og var næst á eftir prestinum. Messan klukkutíma seinna fór vel fram. Petra formaður kvenfélagsins var ræðumaður og fórst henni það vel úr hendi. Tommi og Hugborg komu til okkar um kvöldið. Þau lögðu til kalda hlutann af hangiketinu á meðan við buðum upp á okkar heitt. Kvöldið varð notalegt, letilegt og skemmtilegt.

Á annan í jólum fórum við fjölskyldan í fjölskyldumessu í Hallgrímskirkju. Davíð Steinn söng með drengjakórnum við messuna, það var skírður hálf norskur og hálf íslenskur drengur (Tindur) og önnur dóttir kórstjórans söng einsöng hluta af messunni.

Davíð var í fríi á milli jóla og nýjars. Hann þurfti aðeins að fara með bílinn í skoðun og reyndar að mæta á einn fund. Annars fór vel um feðgana hér heima og var mikið spilað í tölvunni.

Í gær skruppum við til tengdó á Bakkann. Tommi, Hugborg, Teddi og Skotta komu líka. Við stoppuðum frameftir öllu.

Það er aftansöngur klukkan sex og svo ætlum við að hittast hjá Tomma og borða saman. Á morgun skreppum við svo á Hellu og þar fá strákarnir að vera fram á miðvikudag.

Takk fyrir allar heimsóknir og athugasemdir á árinu sem er að líða. Ég vona að framundan sé skemmtilegt og gefandi nýtt ár fyrir alla. Umfram allt; Farið vel með ykkur! "Sjáumst hress og kát á nýju ári!"

24.12.06

- Gleðileg jól -

Það eru um það bil átta tíma þar til klukkurnar syngja. Þá verð ég stödd í kirkju óháða safnaðarins. Mér hefur ekki tekist að sannfæra feðgana um að koma í kirkju þannig að þeir verða heima og leggja loka hönd á undirbúninginn. Kannski tekst mér að fá þá í kirkju á morgun. Ég mun amk mæta þegar Davíð Steinn syngur með drengjakórnum í Hallgrímskirkju á annan í jólum.

Á fimmtudagskvöldið var keyptum við Davíð síðustu jólagjafirnar og vorum að pakka inn langt fram eftir. Ég til þrjú og hann til hálffimm. Helga systir og Bríet komu um hálffimm á föstudag með pakkana til okkar og þegar þær fóru tóku þær pakkana til þeirra og pabba og mömmu. Seinna um kvöldið komu tengdó að skila af sér og eftir kaffibolla og skemmtilega stund tóku þau sína pakka með sér til baka.

Í gær átti eftir að keyra út örfáa pakka og nokkur jólakort. Við byrjuðum samt á því að taka til hér heima. Strákarnir skiptu um á rúmunum hjá sér, ég ætla að skipta um á okkar rúmi á eftir. Seint í gærkvöldi eldaði ég jólagrautinn. Festist nefnilega yfir "Sleepless in Seattle" og "Instinct".

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni. Óska lesendum mínum gleðilegra og friðsamra jóla. Hafið það sem allra best.

19.12.06

- Hugskeyti? -

Ég stóð mig að því að hugsa til Blóðbankans í gær enda um fjórir mánuðir síðan ég gaf síðast. Nokkru eftir að ég var að hugsa þetta barst mér sms sem var akkúrat frá umræddum banka. Og ekki nóg með það heldur fékk ég líka tölvupóst frá blóðbankanum. Ég ákvað því að fara og leggja inn seinni partinn í gær. Ég notaði tækifærið og spurði hversu mikið mætti vanta upp á fulla fjóra mánuði og fékk svarið vika til tíu dagar. Þannig að ég er búin að reikna það út að ég get gefið 20. gjöfina mína á fertugsafmælisdaginn minn, þann 17. mars 2008 og ég ætla mér að stefna að því markmiði. Annars var mjög létt yfir mér í blóðgjöfinni. Bað um að það yrði frekar tekið úr vinstri handlegg þar sem ég ætlaði að skrifa jólakortin um kvöldið. Sú vinstri er reyndar mun betri en eitthvað var streymið letilegt í gær og var ég beðin um að pumpa og pumpa. Ég var orðin svo pumpuþreytt í restina að ég spurði hvort ég mætti ekki pumba með hinni... he, he!

18.12.06

- Laufabrauð -

Davíð skrapp á skrifstofuna milli klukkan tíu og eitt í gær. Þegar hann kom aftur fórum við öll fjögur til frænku minnar. Mamma hennar, bróðir og mágkona voru þegar mætt. Tvíburarnir og yngri sonur frænku minnar settust gallvaskir við skurðarbrettin og skáru út mismargar áður en þeir gáfust upp og fóru frekar í tölvuleiki. Við fullorðna fólkið skárum áfram af kappi. Þegar við vorum langt komin fóru tveir af mömmunum (minn og frænku minnar) til við að steikja og pressa. Þegar upp var staðið voru 100 stykki laufabrauð í þremur myndarlegum bunkum og á þeim hin margvíslegustu mynstur. Þetta var hin besta skemmtun.

17.12.06

- Árlegt jólaglögg "óþæga kórsins" -

Á föstudagskvöldið var, hittist óháði kórinn allur heima hjá einni úr kórnum. Einnig komu Pétur Máté (kórstjórinn sem er í leyfi), séra Pétur og örfáir makar. Núverandi kórstjóri fékk far með okkur Davíð. Þegar við vorum að koma á staðinn fékk ég símtal frá tvíburahálfsystur minni. "Hvað er hún að hringja í mig núna þegar ég er að fara í kórpartý...? hugsaði ég með mér en hló svo með sjálfri mér því hún var auðvitað að fara í sama teiti og var að leita að götunni.

Fljótlega eftir að allir voru mættir stóð Kristinn Þorsteins upp, setti upp gleraugun, tók upp nokkur blöð úr jakkavasanum og las okkur pistilinn. Hann klikkaði ekki frekar en venjulega og af og til komu einhverjir með smá innskot sem hittu alveg í mark. Hann byrjaði að lesa nokkra fimmaura brandara og ég bara verð að láta tvo af þeim flakka hér:

Kona nokkur hitti lækni og kvartaði undan því að hún ætti svo erfitt með svefn.
-"Hefurðu prófað að liggja á bakinu"?
-"Þá kemur Kalli".
-"En geturðu legið á hliðinni"?
-"Þá kemur Kalli líka".
-"Hmm, hvernig væri þá að sofa á maganum"?
-"Það er greinilegt að þú þekkir ekki hann Kalla minn..."

Gamall maður sem hafði búið alla sína ævi á eyju einni í Breiðafirði og lifað af því sem land og sjór gaf var kominn í land og á elliheimili. Honum fannst ekkert varið í matinn og kvartaði oft. Dag einn kemur ein vinnustúlkan til hans og segir að hann fái nú gott að borða í kvöld.
-"Hvað verður í matinn"?
-"Snitsel"!
-"Hann hef ég aldrei smakkað en ég hef borðað bæði landsel og útsel..."

Eftir pistilinn leið ekki á löngu uns Adda settist við píanóið og sagði: -"Þetta virkar svona; þið segið mér hvað þið ætlið að syngja og ég spila undir." Það var nánast sama hvaða lag var nefnt allt gat hún spilað. Kvöldið leið hratt enda held ég að allir hafi skemmt sér hið besta. A.m.k. skemmti ég mér afar vel.

14.12.06

- Lítið eftir af 2006 -

Það eru aðeins sextán dagar eftir af þessu ári. Og mér sem finnst það nýbyrjað. Ég er furðulega róleg yfir hlutunum, finnst enn eins og það sé nægur tími til alls sem mig langar til að ljúka fyrir jólin. Ég er aðeins byrjuð að kaupa jólagjafir og spá í hvað hægt sé að gefa hinum sem ég er ekki búin að finna jólagjöf fyrir. Ég á enn eftir að setjast niður við kortaskriftir en ef ég skrifa nú 15-20 kort á dag á næstunni tekur það mig bara 3-5 daga eða svo. Ég hefði reyndar átt að vera búin að skrifa á jólakortin sem ég sendi út fyrir landsteinana, en það verður bara að hafa það þótt þó berist kannski ekki fyrr en milli jóla og nýjárs.

Oddur Smári er næstum því þegjandi hás. Hann fór samt í skólann í dag en treysti sér ekki til að mæta í síðasta frjálsíþróttatímann fyrir jól. Ég skutlaðist hins vegar með Davíð Stein og Dag. Síðan skrapp ég í fiskbúð og Pennann að kaupa lax og umslög. Kannski byrja ég á kortaskrifum í kvöld en ekki fyrr en ég hef lokið við að þýða bréf fyrir pabba. Það er eitt af því sem ég lít á sem undirbúning fyrir jólin. Ég er búin að gera þetta í svo mörg ár að ég myndi sakna þess ef þetta væri ekki gert einhverra hluta vegna fyrir einhver jólin...

12.12.06

- Þeytingur -

Í gær var árlegt boð hjá kórstjóra drengjakórsins. Strákarnir mættu til hans um fimm. Ég fékk Odd Smára til að labba á karateæfingu en skutlaði Davíð Steini til kórstjórans. Síðan dreif ég mig í Þórshamar til að sjá hvernig karatestrákurinn tæki sig út með rauða beltið. Ég gat ekki stoppað lengi því ég hafði tekið að mér að sjá til þess að söngfuglarnir fengju pizzur og gos um sex. Ég stoppaði smá stund til að aðstoða við að hella í glös en svo varð ég að drífa mig að sækja Odd Smára. Síðan fórum við saman að sækja Davíð Stein. Seinni partur gærdagsins var semsagt svona jó-jó-dæmi.

Kom heim um tvö í dag og lagði mig (enda fór ég frekar snemma á fætur). Rúmlega fjögur skutlaði ég "þríburunum" (Oddi Smára, Davíð Steini og Degi) á frjálsíþróttaæfingu. Skrapp svo og hitti norsku esperanto vinkonu mína og sýndi henni það sem afi gaf mér. Það á eftir að koma að góðum notum. Hún vildi endilega gefa mér úr sem hún sagðist ekki geta notað, þetta væri svona esperanto gjöf. Vá, það er langt síðan ég hef gengið með úr. Ég þakkaði auðvitað fyrir mig er núna tíðlitið á vinstri úlnliðinn á mér. En þegar ég ætlaði að gá að tímanum nokkru seinna tók ég upp gemsann og athugaði hvað klukkan á honum sagði.

Mamma kom við áðan með myndirnar sem voru teknar af strákunum. Þetta voru þrjár myndir, hver annarri betri. Ég var samt nokkuð fljót að ákveða hvaða mynd skyldi fjölfölduð fyrir jólakortin. Já, ég er enn ekki byrjuð að skrifa jólakortin, bara tilbúin með tvö jólabréf sem fara hvort með sínu kortinu. Skrapp í gærkvöld til "tvíburahálfsystur" minnar bæði með nótur og saumana mína. Þetta varð hið notalegasta kvöld og við uppgötvuðum að við myndum hittast annað hvert kvöld í vikunni. Meira um það seinna.

9.12.06

- Hótel Rangá -

Tommi mágur sótti tvíburana til mín um sex í gær. Um svipað leyti lögðum við hjónin af stað austur. Leiðin lá alla leið austur að Hótel Rangá. Vinna mannsins míns bauð starfsmönnum og mökum þangað í jólahlaðborð og gistingu með morgunverði innifalinn. Við vorum komin austur um hálfátta. Klukkustund síðar voru allir komnir og hófst þá hin mesta veisla. Hlaðborðið var fullt af alls konar kræsingum, mörgum tegundum og vel útilátnum. Ég komst fimm ferðir (passaði mig að taka ekki of mikið í hvert sinn og síðasta ferðin var í eftirréttina) en þá var ég líka svo pakksödd að mig langaði helst til að fara inn á herbergi að sofa. Ég lét það samt ekki eftir mér fyrr en klukkan var farin að halla í miðnætti. Davíð skrallaði eitthvað áfram og ég náði að horfa á eina mynd á Stöð tvö áður en hann kom.

Í morgun fór ég í nudd-bombubað um níu og slakaði virkilega vel á. Við mættum í morgunverðinn um níu og vorum mjög ánægð með hve fjölbreyttur hann var. Komum í bæinn upp úr hádeginu og okkar fyrsta verk var að skutla Davíð Steini í afmælisboð til eins bekkjarbróður síns. Oddur Smári fékk að vera lengur hjá frænda sínum og kom ekki heim fyrr en um tvö.

8.12.06

- Kjötbollur -

Ég leyfði Davíð Steini að sleppa við að mæta á frjálsíþróttaæfingu en skutlaðist með Odd og Dag. Skrapp heim í millitíðinni og velti vöngum yfir því hvað ég ætti að hafa í kvöldmatinn. Hafði tekið út hakkrúllu og var hreint ekki viss hvernig ég ætti að meðhöndla hana. Ákvað því bara að lesa þar til kominn væri tími til að sækja Odd. Við mæðgin komum heim um sex og þá ákvað ég að demba mér út í kjötbollugerð. Það er orðið frekar langt síðan ég gerði kjötbollur síðast og núna átti ég ekki alveg allt til alls. En ég átti nóg og þegar til kom urðu þetta hinar bestu bollur sem strákarnir átu með góðri lyst.

7.12.06

- Verkefni drengjakórsins v/Frostrósa lokið -

Það voru langir og strangir dagar hjá strákunum í drengjakór Reykjavíkur í gær og fyrradag. Davíð Steinn fékk frí úr skólanum á hádegi á mánudag. Hann bjargaði sér sjálfur og mætti á réttum tíma á æfingu í Ýmishúsinu. Eftir æfinguna fór hann beint í afmælisboð til eins bekkjarbróður síns. Ég tók mér frí úr vinnunni á þriðjudaginn og í gær. Um tíuleytið á þriðjudagsmorgun kíktum við í vinnuna hans afa. Hann hafði sett sig í samband við mig og bauð mér að sækja til sín esperanto-orðabækur sem ég þáði með þökkum. Við fengum leiðsögn um vinnustað afa og höfðum við mjög gaman að. Takk, enn og aftur afi!

Um hálftólf var ég mætt í Laugardalshöllina með drenginn. Staldraði við í næstum hálftíma en skrapp svo frá. Var komin aftur um hálftvö að sækja strákinn en æfingunni seinkaði aðeins og lauk ekki fyrr en rúmlega tvö. Skrapp með strákinn á Hárhornið í klippingu en svo fórum við heim og höfðum það rólegt. Þegar Oddur Smári kom úr skólanum sagði ég að frjálsíþróttirnar myndu örugglega falla niður þar sem búið var að stilla upp fyrir tónleikana í salnum þar sem æfingin fer fram. Oddur fór því yfir til vinar síns. Ég sá til þess að söngfuglinn mætti ekki svangur á alvöruna seinnipartinn. Skilaði honum af mér rúmlega fimm og var hann í höllinni næstu sex tímana. Það var þreyttur drengur sem sofnaði strax og hann lagðist útaf upp úr klukkan hálftólf þetta kvöld.

Í gærmorgun rumskaði Davíð Steinn um níu, opnaði pakkann við númer 6 á klukkustrengnum, skrapp á salernið og kom svo upp í til mín. Hann steinsofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en tveimur tímum seinna. Að þessu sinni átti hann að mæta um hálfeitt í Hallgrímskirkju. Ég var á svæðinu til að byrja með en skrapp svo í bankann og á bókasafnið (einni bókanna sem ég náði í síðast átti að skila fyrir 9. des.). Oddur og Dagur vinur hans komu saman heim úr skólanum um tvöleytið. Ég bauð Degi að leika sér í tölvunni og bíða eftir okkur og fékk Odd með mér í Hárlausnir. Strákurinn komst strax að. Þegar við komum til baka var pabbi kominn. Ég var búin að bjóða honum á sjónvarpstónleikana og biðja hann um að kippa mér með upp í kirkju. Við mættum þangað fyrir fjögur, og hittum eina vinkonu mína sem ég var líka búin að bjóða, en upptökutónleikarnir áttu að hefjast um hálffimm. Klukkan var reyndar farin að ganga sex þegar allt fór í gang. Rétt áður söng karlakórinn eitt lag því þeir voru búnir að bíða uppi á pöllunum í rúmar tuttugu mínútur. Það er ekki oft sem maður fær aukalagið á undan. Næstu tvo tímana fengum við magnaða tónleika. Tvö laganna þurfti að endurtaka aftur vegna mistaka hjá söngfólkinu en strákarnir klikkuðu aldrei.

Á meðan þessu fór fram tók Oddur Smári gráðu upp í hálft rautt belti og gerði það með glans. Eftir tónleikana fór ég næstum beint á kóræfingu (kom við heima til að skipta um föt og kippa með mér kórmöppunni (tók reyndar vitlausan poka með mér en það kom ekki að sök)). Um leið og ég var laus af kóræfingu fór ég upp í kirkju. Strákarnir voru samt ekki búnir fyrr en um hálfellefu. Minn var alveg búinn á því, hafði þurft að berjast við að hósta ekki síðustu mínúturnar og þegar allt var búið barst hann í grát. En strákarnir eiga hrós og rós í hnappagatið skilið fyrir frammistöðu sína undan farna daga.

3.12.06

- Desember kominn á skrið -

Fyrsta jólakortið er komið inn um lúguna og setti ég það beint í jólapóstpokann. Það borgaði sig að setja hann upp snemma. Sjálf er ég ekki farin að skrifa á nein kort. Er að velta fyrir mér hvernig mynd af strákunum ég eigi að senda með í ár.

Törnin er byrjuð hjá Davíð Steini. Ég keyrði hann í Langholtskirkju seinni partinn í gær þar sem hann tók þátt í útgáfu tónleikum Björgu Þórhallsdóttur, ásamt flestum strákunum úr kórnum og fleira fólki sem kemur að diskinum. Hann var mættur um hálffjögur og þegar ég sótti hann upp úr hálfsex voru strákarnir að syngja síðasta lagið fyrir hlé.

Á meðan strákurinn var í kirkjunni skrapp ég að heilsa upp á konu sem ég vann með í Árbæjarskóla fyrir 14-15 árum síðan. Hún var ekki heima við. Maðurinn hennar tjáði mér að hún væri á sjúkrahótelinu við Rauðarárstíg, tiltók herbergisnúmerið og bað mig fyrir kveðju til hennar. Það eru liðin ár og dagar (amk 2-3 ár) síðan ég heimsótti þessa konum en nú var eitthvað sem ýtti mér til hennar. Hún tók vel á móti mér, var þó steinhissa að sjá mig þar sem það er svona langt síðan. Við röbbuðum heilmikið saman og tíminn leið eins og örskot.

Þegar ég sótti Davíð Stein sagði ég honum frá heimsókninni. Og hann sagði: "Þú ert mjög góð mamma að heimsækja svona gamalt og veikt fólk!" Reyndar er hún Steinunn ekki beint veik heldur var verið að skipta um lið í öðru hnénu á henni.

Núna um tíu er Davíð Steinn svo að fara upp í Ýmishús á æfingu. Hann kemur ekki heim fyrr en upp úr hálftvö. Á morgun kemur hann heim úr skólanum á hádegi og mætir aftur á æfingu í Ýmishúsið milli hálftvö og fimm. Þaðan fer hann svo beint í afmælisboð.

Bóndinn sem ég var hjá í sveit fermingarsumarið mitt er sextugur í dag. Ég sendi honum svohljóðandi skeyti:

Til hamingju Óli með tugina sex
tókst að ná áfanga stórum.
Vonum þú náir næstu sex
nú allavega fjórum.