24.9.23

Rok og rigning úti, sól í sinni inni

Dreif mig á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Vafraði aðeins um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu en var komin í Laugardalslaugin rúmlega átta. Þar var að byrja sundmót í innilauginni, Stæðin á planinu fyrir framan að fyllast og nóg að gera í búningsklefunum. Ég byrjaði á því að skella mér í kalda pottinn í uþb fimm mínútur. Synti svo 400 metra, helminginn á bakinu hinn helminginn á skriðsundi og bringusundi. Eftir næstu ferð í kalda fór ég beint í gufuna. Svo kalda sturtu og í sjópottinn. Þar lenti ég á kjaftatörn en ég hafði þó tíma til að dýfa mér í þann kalda í nokkrar sekúndur áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var í vandræðum með að bakka út úr stæðinu vegna bíls sem var vinstra megin við minn bíl. Sem betur fer kom þarna kona að sem var að sverma fyrir stæðinu. Hún gat leiðbeint mér þessa fáu metra sem ég var óviss um eftir að ég hafði þó dregið hliðarspegilinn bílstjórameginn inn. Var mætt til espernato vinkonu minnar tuttugu mínútum seinna. Stoppaði hjá henni í eina og hálfa klukkustund og stór hluti af þeim tíma var helgaður lestri á esperanto. Fór svo beint heim með sund- og espreantodótið, setti niður í tösku og dreif mig austur til pabba til "rugla" aðeins í helgarrútínunni hans, eða þannig. 

23.9.23

Á Hellu þessa helgina

Ég var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Stimplaði mig inn á slaginu hálf og fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni og "sækja" þær tölur sem ekki kemur póstur um. Svo fór ég upp, fyllti á vatnsflöskuna, fékk mér einn kaffibolla og prjónaði eina umferð í tuskunni sem er á prjónunum núna. Við fyrirliðinn fórum niður rétt rúmlega átta og kláruðum framleiðslu og pökkun á þeim skömmtum sem lágu fyrir og föstudagstalningu að  auki áður en klukkan varð hálftíu. Eftir tíu þurfti fyrirliðinn að skreppa aðeins úr húsi en næsti framleiðsluskammtur var hvort eð er ekki að koma fyrr en upp úr ellefu. Ég fór því í "innleggs-vinnu" uppi í um klukkutíma. Tók einnig saman hádegistölurnar, skipti- og talningablað og fór niður að hlaða inn og fylla út skiptiblaðið. Svo komu fyrirmæli frá framkvæmdastjóra um að koma upp í mat en hann kom með eldbakaðar pizzur í hús upp úr klukkan hálftólf. Hann hafði annars kíkt á okkur um átta leytið um morguninn með mjög erfiðar fréttir af fyrrum yfirmanni. Fer kannski út í þá sálma seinna. Vinnudegi var lokið um tvöleytið og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í tvíburahálfsystur mína á leiðinni þangað til að leita frétta af tvíburahálfmömmu minni. Þar er staðan öllu betri, hægur bati þó en svo sagði Sonja mér af því að það hafði verið viðtal við systurdóttur mína í tíu fréttunum á fimmtudagskvöldið. Ég var rúmar tuttugu mínútur í sjónum og ca helminginn af þeim tíma í heita pottinum. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni heim. Bríet var þá stödd hjá honum og talaði líka við mig en hann sagðist einmitt líka hafa séð viðtalið við hana kvöldið áður og horft á það tvisvar. Þegar ég kom heim var ég fljót að kveikja á sjónvarpinu og velja að horfa á tíu fréttirnar frá því 21. september. Það sem ég er endalaust stolt af þessari systurdóttur minni sem ég á smá þátt í að hún varð til, allt vegna þess að mamma hennar vildi fá mitt álit og skoðun á því sem hún var að velta fyrir sér síðla árs 2003. Fyrst vildi ég ekkert segja um málið en systir mín sótti fast eftir mínu áliti og af tveimur valkostum sem hún velti upp var svarið hjá mér; Þú getur alveg gert bæði (...stundað nám og eignast annað barn)!

22.9.23

Sjórinn 8,6°C

Var búin að klæða mig, búa um og slökkva á vekjaranum amk tuttugu mínútum áður en hann átti að hringja í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Vinnudagurinn fór allur fram í kringum kortin en honum var lokið fyrir klukkan tvö. Fyrir utan daglega framleiðslu kláruðum við endurnýjun og svo var förgun á ónýtu plasti frá júní, júlí og ágúst. Gjafakortið sem fannst í vélinni í upphafi vikuknnar eftir að hafa verið "týnt" síðan í október í fyrra var líka tætt niður. Var komin í Laugardalslaugina rétt rúmlega tvö. Fór beinustu leið á braut átta og synti 500 metra. Var búin að fara eina ferð í kalda pottinn, eina ferð í magnesíum pottinn og hafði setið um 15 mínútur í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum nokkrar ferðir í þann kalda, og annað hvort í heitasta, magnesíupottinn eða gufuna inn á milli. Settumst líka 2x30 mínútur í smá sólbað. Vorum í minni síðustu ferð í magnesíum pottinum þegar tveimur pokum af magnesíum flögum var sturtað út í. Ég var komin heim um hálfsex eftir þrjá tíma á sundlaugarsvæðinu. Átti von á sendingu um sex leytið en sú sending skilaði sér um hálfníu leytið. Var að styrkja dóttur einnar sem vann með mér á Grandaborg veturinn 1991-92. Keypti af þeim tvær pakkningar af klósettrúllum. 

21.9.23

Sólbaðsveður við sundlaugina

Vaknaði um sex leytið í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Kláruðum daglega framleiðslu rétt fyrir tólf. Eftir hádegi "hreinsaði" ég gullið og fékk svo að æfa mig og fylgjast með verkefnum í kringum seðavélarnar og hraðbankana. Korter yfir þrjú var allt búið. Ég fór beint í sund. Hringdi aftur í pabba og frétti að hann hefði skellt sér aftur í rennibrautina eftir morgunsundið. Hann var hinn hressasti. Ég hins vegar var löt varðandi sundið. Þegar ég var búin að fara fjórar ferðir í kalda, 10 mínútur í gufu, eina ferð í heitasta og 20 mínútur í sjópottinn mætti ég kalda potts vinkonu minni. Það varð til þess að ég tók aukaferðir í kalda og gufu og svo sátum við amk hálftíma í sólbaði. Þegar ég kvaddi um hálfsex var enn um 13°C hiti í forsælu. 

20.9.23

Pabbi og rennibrautirnar í sundlauginni á Hellu

Var komin á stjá einhvern tíman rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu til klukkan að byrja að ganga átta. Mætti í vinnu um hálfátta og fékk fljótlega skilaboð frá fyrirliðanum að hún yrði sein fyrir, ég mætti alveg taka saman allar tölur þegar ég væri búin að "sækja" Emmurnar. Sá að það var komin smá endurnýjun, ekki stór en bæði debet og kredit fyrir fleiri en einn aðila. Hlóð öllum skrám inn en tók svo aðeins saman daglegar framleiðslutölur. Þeirri framleiðslu lauk um hálftíu. Eftir kaffi fór ég yfir skjöl en fyrirliðinn vann í kortabókhaldinu og tók saman endurnýjunartölurnar. Ákváðum að geyma þá framleiðslu aðeins. Lokuðum og gengum frá kortadeildinni um tólf eftir að hafa framleitt hádegisskammtinn. Eftir fór ég í verkefni uppi sem tók einn og hálfan tíma og það þrátt fyrir að fá smá aðstoð í restina. Mínum verkefnum lauk um þrjú leytið og mátti ég fara þá. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaugina. Var að kanna hvort hann væri með strengi eftir leikfimina. Svo var ekki og hann sagðist meira að segja hafa skellt sér eina salibunu í rennibraut eftir sundið um morguninn. Hann sagði líka að hann væri búinn að fá gott krem til að bera á fæturnar og þetta krem mildaði eða tæki alla verki svo honum fannst hann vera léttari á sér. Ég bað hann samt um að passa sig á að fara ekki á undan sjálfum sér, flýta sér hægt. En ég er mjög glöð að pabbi er allur að braggast eftir þessa slæmu tognun.

Kaldapotts vinkona mín mætti ekki á svæðið. Ég synti 500 metra þar af næstum 100 metra skriðsund, fór fimm sinnum í kalda pottinn, tvisvar í heitasta, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn. Þegar ég fór loksins upp úr og heim var klukkan byrjuð að ganga sex.