6.12.22

Sjórinn 0,2°C í gær

Var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta í gærmorgun. Það var komið að mér að sinna bókhaldinu en eftir hádegi fór ég niður að hjálpa til við öðruvísi framleiðslu. Föstudagsframleiðslan var kláruð og amk þriðjungurinn af framleiðslunni fyrir mánudaginn. Umslagavélin var með vesen í restina annars hefðum við líklega látið okkur hafa það að klára allt sem fyrir lá. Kortin og formin voru framleidd sér. Kortin handlímd á formin og sett í umslög, einnig handgert. Ef umslagavélin verður ekkert skárri í dag munum við líklega bíða eftir varahlutnum sem vonandi kemur á morgun og að allt fari þá að virka eins og á að virka þegar varahluturinn er kominn í.

Stakk mér í sjóinn stuttu fyrir hálffimm. Það var stilla og flóð, mjög stutt út í. Mér leið það vel að svamla um að áður en ég vissi af var ég búin að vera uþb tíu mínútur í hressandi köldum sjónum. Sat svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. 

5.12.22

Mánudagur

Byrjaði gærmorguninn eins og ég hóf laugardagsmorguninn. Meira að segja á svipuðum tíma. Klæddi mig og bjó um um hálftíu leytið og eftir morgunverkin á baðherberginu færði ég mig inn í stofu. Bækur, prjónar, tölva og sjónvarp voru notuð. Bræðurnir voru sóttir um fjögur sótti ég esperanto vinkonu mína en hún var að vinna í næsta hverfi. Síðan sóttum við eina vestur í bæ. Vorum komnar að Hallgrímskirkju um hálffimm. Ekkert bílastæði var alveg við kirkjuna en ég fékk stæði á Berþórugötunni. Sú fjórða í Viðeyjargenginu bættist í hópinn í röðinni við kirkjuna. Skömmu síðar var byrjað að hleypa inn. Margir voru með miða eins og við en einhverjir gengu frá miðakaupum í anddyrinu. Við fjórar fengum sæti saman í miðri kirkjunni. Framundan var rúmur klukkutími af kórsöng og einsöng, 4 kvenna og stúlknakóra og 3 einsöngvara. Þessi tími var mjög fljótur að líða. Söngurinn var dásamlegur. 18 lög voru á efnisskránni en svo sungu kórarnir eitt aukalag á leiðinni út úr kirkjunni. Þær tvær sem ég sótti vildu labba heim svo ég labbaði ein að bílnum mínum og var komin heim upp úr klukkan hálfsjö. 

4.12.22

Skammtímalánsbókin upplesin

Rumskaði fyrst upp úr sex í gærmorgun. Ákvað að slökkva á vekjaraklukkunni sem var stillt á tæplega hálfátta, snúa mér á hina hliðina og sofa eitthvað áfram. Vissi næst af mér rétt fyrir klukkan níu. Þá kveikti ég á lampanum á náttborðinu og hélt áfram að lesa; Morðið í Öskjuhlíð um ævintýri Stellu Blómkvist. Las í uþb hálftíma áður en ég fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Rétt fyrir ellefu var ég mætt vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Var með esperanto dótið mitt, eða hluta af því, í fyrsta sinn í marga, marga mánuði. Hún byrjaði á því að bjóða mér í graut og á eftir fór ég með kaffi í bolla og settist í græna sófann í forstofuganginum. Við lásum hálfan kafla um veturinn í bókinni Leskaflar. Klukkan var að verða hálfeitt þegar ég kvaddi og fór aftur heim. Hafði þá drukkið þrjá kaffibolla. Hellti aldrei upp á kaffi hér heima en var að prjóna, lesa, vafra á netinu, horfa á leikina í 16 liða úrslitum á HM og síðustu þættina í þáttunum Ummerki sem sýndir eru á RÚV. 

3.12.22

Seint að sofa - sofið út

Vinnudagur gærdagsins varð langur en ekki 100% árangursríkur. Var mætt á svipuðum tíma. Sú sem var búin að vera í bókhaldinu og mánaðamótauppgjörinu bað um að fá að vera áfram í bókhaldinu. Við hinar ákváðum þá að halda sömu vinnustöðum svo ég var á móttökuendanum. Eftir fyrstu framleiðslu dagsins kom í ljós að sá hluti sem á að líma kort á form var mjög svo ósamvinnuþýður. Það var því ákveðið að hafa samband við viðgerðarmann. Sá komst ekki til okkar fyrr en upp úr hádeginu. Ætla ekki að fara nánar út í þessi mál nema að ég kom ekki heim úr vinnu fyrr en langt gengin í átta.

2.12.22

"Jóli Hólm"

Svaf alveg þar til vekjarinn fór í gang í gærmorgun. Hafði að vísu rumskað um fimm leytið en sem betur fer sofnaði ég aftur. Tók sunddótið með mér í vinnuna og geymdi í skottinu. Vorum á sömu vinnustöðvum og á miðvikudaginn. Ágætlega gekk framan af en svo fóru bæði prentarinn og umslagavélin að vera með leiðindi. Allt daglegt var búið. Einnig vorum við búnar að afgreiða allar gjafakorta pantanir. En okkur lék hugur á að vinna á stórri endurnýjun. Framleiddum þó aðeins um 150 kort en það bíða um 3000. Að vísu eru þetta kort sem eiga að taka við af kortum sem renna út um áramótin svo það er enn ágætis tími til að klára. Var komin í kalda pottinn um fjögur. Fór þrisvar í hann, tvisvar í þann heitasta og synti svo aðeins 200 metra áður en ég fór upp úr og heim.

Í pistli gærdagsins gleymdi ég að geta þess að bráðabirgðahulsan þar sem krónan, sem verið er að smíða, á að koma, losnaði. Það er búið að skanna svæðið og krónan verður tilbúin á næstu dögum svo ég er ekkert stressuð yfir að hafa svæðið opið. Finn ekkert til og ekkert kul heldur. Hringdi samt til öryggis í tannlæknaþjónustuna. Fékk óvart samband á Selfoss en sú sem talaði við mig gat flett mér upp. Hún taldi að þetta væri allt í lagi en það væri líka mjög fljótgert að festa hulsuna ef ég vildi. Ég ákvað að bíða bara átekta. Kannski fæ ég símtal frá tannlækninum í dag um að krónan sé komin. Annars var ég búin að fá póst frá Veitum um að komið væri að hinum árlega álestri mæla. Ég fór niður á ellefta tímanum í fyrrakvöld og tók myndir af mælastöðunum sem ég sendi strax.

Í gærkvöldi hittumst við fimm sem höfðum unnið saman í kortadeildinni í mörg ár á sýningunni; Jóli Hólm, í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Það var mikil skemmtun. Magnað hvað þessi strákur getur hermt listilega eftir mörgum. Það liggur við að hann breytist í persónuna sem hann er að herma eftir. Fannst t.d. á tímabili að það væri Páll Óskar sem stæði á sviðinu. Hálftíma hlé var á sýningunni sem byrjaði um hálfátta og lauk með laglegri jólasyrpu skömmu fyrir klukkan tíu.