Vaknaði um sjö. Um hálfníu var ég komin í Sundhöllina. Eftir fyrstu ferðina af þremur í þann kalda sá ég að braut tvö var mannlaus náði samt ekki ofan í laug áður en einhver annar var byrjaður að synda á henni. Var komin út í á braut eitt og synti 300m en á síðustu 75 metrunum bættist þriðja manneskjan við og ég rétt hafði geð í mér að klára upp í 300m því þessar brautir eru eiginlega bara ein og hálfbreidd eða svo. Fór aftur í kalda í fimm mínútur og fékk svo braut 1 í innilauginni alveg fyrir mig og synti aðra 300m þar. Fyllti á bensíntankinn á leiðinni heim um tíu leytið. Stoppaði heima í rúma tvo tíma. Rétt fyrir eitt sótti ég esperanto vinkonu mína. Vorum báðar klæddar til útivistar. Valið hafði staðið á milli þess að skreppa í Viðey eða leita að berjum og við ákváðum að fara í bíltúr aðeins út fyrir bæinn. Fórum fyrst upp að Hafravatni á stað sem Inger hafði farið áður. Þar voru engin ber en fullt af lyngi. Næst lá leiðin í Heiðmörk en við vorum heldur ekki lengi þar. Að endingu fórum við alla leið að Gljúfrasteini. Lögðum þar og röltum aðeins aftur fyrir húsið og stutt áleiðis að Helgufossi sem er tæpa 3km frá. Ef við hefðum verið fyrr á ferðinni, ákveðið að fara beint þangað, hefðum við sennilega labbað aðeins lengra. En við fundum samt smávegis af bæði blá- og krækiberjum. Þau voru ekki stór en í lagi með flest af þeim. Tíndum ekki mikið en eitthvað. Fengum okkur svo te og harðfisk sem Inger hafði útbúið og komið með sér. Í baka leiðinni komum við við hjá N1 við Gangveg og heilsuðum upp á Davíð Stein og Óla. N1-sonur minn tékkaði á þrýstingnum á dekkjunum. 3 af fjórum voru í lagi, en eins og mig grunaði var það fjórða frekar vanstillt. Skilaði svo Inger heim og var sjálf komin heim um hálfsex. Veðrið hafði leikið við okkur allan daginn þótt sums staðar væri smá ferð á logninu. Ekki náði ég þó að safna skrefum alveg upp í 4500 en fór heldur ekki út aftur til að gera það. Hefði ekki þurft langa göngu til að ná markmiðinu en hugsaði með mér að ef öll skref dagsins hefðu verið talin (skrefin milli potta og lauga í sundinu) væri ég í ágætis málum.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
16.9.24
15.9.24
Tap hjá Liverpool
Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Klukkan var svo orðin hálfníu þegar ég mætti í sundhöllina. Að þessu sinni gat ég farið beinustu leið í kalda pottinn. Sá yngstu mágkonu mömmu í heita pottinum og heilsaði upp á hana eftir fyrstu kælinguna. Hún var búin að synda og þegar hún fór að hugsa sér til hreyfings upp úr lauginni fór ég aftur í kalda áður en ég fór á braut 4 í innilauginni og synti 600m á hálftíma, flestar ferðir á bakinu en fjórðu hverju ferð ýmist skrið- eða bringusund. Fór smástund í heitasta pottinn, 42°C, annan af elstu pottunum, áður en ég fór síðustu ferðina í þann kalda, gufu og þvoði mér svo um hárið á leiðinni upp úr. Var komin til espernato vinkonu minnar rétt rúmlega hálfellefu og stoppaði hjá henni til tólf. Lásum eina og hálfa bls. í Kon-Tiki og höfðum nú íslensku útgáfuna til samanburðar. Planlögðum svo næsta hitting sem verður á öðrum nótum og strax í dag. Áður en ég fór heim keypti ég þvott og felguþrif á bílinn hjá Löðri við Fiskislóð og kom svo aðeins við í Krónunni. Restin af deginum fór að mestu í fótboltaáhorf, lestur og prjónaskap.
14.9.24
September að verða hálnaður
Vinnudagurinn í gær var léttur og í styttra lagi. Kortaframleiðslu og frágangi á kortadeild lauk fyrir hálftíu. Restina af vinnudeginum var ég í innlögnum. Fréttum reyndar af plastsendingu í hádeginu en sem betur fer ákváðum við að bíða ekki eftir henni því um tvö leytið komu þau skilaboð að pakkanum yrði komið til okkar eftir helgi. Var komin í Nauthólsvík upp úr klukkan þrjú Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni. Pabbi var sjálfur á ferðinni, á leiðinni í búðina. Mágur minn er staddur hjá honum þessa dagana. Fór annars tvisvar í sjóinn, fyrst í tuttugu mínútur og eftir uþb tuttugu mínútna gufu fór ég aftur í rúmar fimm mínútur. Sat svo dágóða stund í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.
13.9.24
Míni golfgarðurinn með vinnufélögum
Í gær skildi ég bæði prjóna og sunddót eftir heima þegar ég fór í vinnuna. Öllum verkefnum í vinnunni var lokið í fyrra lagi en við dokuðum flest við til klukkan langt gengin í fjögur. Ástæðan var sú að ekki tók því að fara heim því við vorum skráð sem hópur í Mínígólf og staðurinn, sem er frekar stutt frá vinnustaðnum, opnar klukkan fjögur. Vorum 22 í hópnum og af þeim tveir af sumarliðunum og ein sem er í barneignarfríi. Okkur hafði verið skipt í tvö lið og þeir tveir sem skipulögðu þennan hitting voru "bændurnir" í þessari bændaglímu. Svo var okkur skipt niður í fjóra fjögurra manna hópa og einn sex manna, tveir (þrír í sex manna hópnum) úr hvoru liði. Ég var í fyrsta hollinu sem var ræst út klukkan hálffimm. Spilaðar voru allar átján holurnar. Í mínu holli, ekki í mínu liði samt, var sá sem fór holurnar á fæstum höggum. Ég fór fyrstu holuna á tveimur höggum en svo gekk svona upp og niður. Skv. skorblaðinu átti ekki að skrá fleiri högg en sex á hverri holu. En við höfðum ekki lesið það og vissum því ekki af því fyrr en einhver úr öðru liði sagði okkur frá því. Ég fór nefnilega eina holuna á tólf höggum og aðra á 10. Eftir reiknireglunni "ekki fleiri en 6 högg" fór ég fyrri níu á 36 og seinni níu á sömu svo í heildina fór ég á 72 og var líklega í neðsta sæti á flestum höggum. En það var svo gaman og á eftir var hlaðborð og framkvæmdastjórinn tilkynnti hver fór flestar holur í höggi, hvort liði fór á færri höggum í heildina og hver fór á fæstum höggum.
12.9.24
Sjórinn og lengri göngutúr
Það var framleiðsludagur í vinnunni í gær. Allt gekk ágætlega en við áttum eftir að framleiða tvær tegundir þegar klukkan var að verða hálftíu. Geymdum þá framleiðslu því það var fundur í kaffitímanum og forstjórinn var með okkur á þeim fundi. Framleiðslu og frágangi í kortadeild lauk svo milli hálfellefu og ellefu. Sneri mér beint að innleggjum eftir það. Vinnudegi lauk fyrir klukkan þrjú. Var mætt í Nauthólsvík korter yfir þrjú og óð út í um hálffjögur. Hitastigið undir níu gráðum en ég var í strandskónum og berhent. Ætlaði ekki að tíma að fara upp úr en tuttugu mínútum síðar fór ég í gufuna. Eftir gufu, kalda sturtu og tuttugu mínútur í pottinum skrapp ég aftur í sjóinn í örfáar mínútur áður en ég fór að huga að heimferð. Ákvað að fara ekki í sturtu bara þurrka mér en skolaði strandskóna og úr sundbolnum. Kom heim klukkan að ganga sex. Ætlaði varla að nenna út aftur en stuttu fyrir átta fór ég út og það sem átti að vera göngutúr í styttra lagði varð 3,1km hringur á tæpum fjörutíu mínútum. Eftir að ég kom heim aftur náði ég sambandi við Jónu Mæju hans Reynis frænda. Hún náði ekki að svara heima símanum sínum en hringdi til baka úr gemsanum og við spjölluðum saman í heila klukkustund. Það var eiginlega komið fram yfir þann tíma sem ég fer oftast upp í, ekki svo langt fram yfir en framyfir samt. Engu að síður réði ég eina sudoku og las í þremur bókum eftir að ég var háttuð og komin í rúmið enda var klukkan orðin hálfellefu og rúmlega það þegar ég fór loksins að sofa.