25.5.22

Miðvikudagur

Þrátt fyrir að hafa rumskað einhvern tímann á sjötta tímanum í gærmorgun svaf ég svo alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Ákvað að fara á bílnum í vinnuna. Fram að kaffi var ég að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld. Límstykkerarnir eru komnir til landsins en þeir bárust ekki alla leið til okkar í gær svo enn var verklagið að framleiða kort og form sér, lesa saman og handlíma kort á form. Engu að síður ákváðum við að byrja á einni endurnýjuninni þegar daglegri framleiðslu var lokið eftir hádegi. Þannig að þegar við hættum vinnu um þrjú vorum við örugglega búnar að handlíma hátt í áttahundruð kort alls. Ætlaði aftur í Vesturbæjarlaugina en þar var verið að malbika planið fyrir framan og ég nennti ekki að leita að stæði. Fann stæði á góðum stað rétt hjá Sundhöllinni og var byrjuð að synda í innilauginni þar korter fyrir fjögur.

24.5.22

Nota bílinn í dag

Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Lokað var inn í stofu þannig að frænka mín hafði skilað sér einhvern tímann eftir að ég fór að sofa. N1 sonurinn kom fram um hálfsjö og var farinn út á undan mér. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö, yfir Klambratúnið, Gunnarsbraut og Laugaveg. Vorum fjórar í vinnu. Límstykkerinn er ekki búinn að skila sér og einhver vandræði með að fá rekstrarvörunar sendar. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi og tók svo á móti fram að hádegi. Klárðuðum allt daglegt um tólf og afhentum þá viðgerðarmönnum vélina til yfirferðar. Flokkaði kennispjöld eftir hádegi til klukkan tvö en þá máttum við sem ekki vorum að sitja yfir fara heim. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í um klukkutíma en þá tók ég sunddótið með mér út í bíl. Skrapp samt fyrst í fiskbúðina áður en ég fór í Vesturbæjarlaug. 

23.5.22

Óvæntur hittingur

Var komin á fætur upp úr átta. Tók því rólega fyrst um sinn og vafraði um á netinu. Um tíu, um það bil sem verið var að opna, var ég mætt í Nauthólsvík. Þar hitti ég óvænt fyrir þrjár af fjórum úr sjósundshópnum mínum. Systurnar og sjósundsvinkonu mína sem heldur utan um hópinn. Aðra af systrunum hitti ég í Hagkaup fyrir nokkru síðan en annars var þetta í fyrsta skipti á þessu ári sem hópurinn hittist. Þær biðu eftir mér á meðan ég græjaði mig og svo urðum við samferða út í sjó. Fórum ekkert svo langt en vorum tæpar tuttugu mínútur út í og svo annað eins eða jafnvel aðeins lengur í heita pottinum. Þegar ég kom heim aftur byrjaði ég á því að hella mér upp á kaffi. Davíð Steinn var vaknaður og kominn fram en hann fór fljótlega inn í herbergið sitt aftur. Næstur fram var Oddur. Lánaði þeim bræðrum bílinn um miðjan dag. Um svipað leyti fór Bríet í sund. Ég fór hins vegar að fylgjast með enska boltanum og fitja upp á nýrri tusku. Mitt lið, Liverpool, fékk á sig mark strax á fyrstu mínútunum og það tók töluverðan tíma að jafna og hvað þá komast yfir. Lokatölur urðu þó 3:1 fyrir Liverpool. Salah skoraði eitt markanna, Son í Tottenham skoraði 2 og voru þeir jafnir eftir leiktíðina og skiptu með sér gullskónum. Manchester City liðið sem var á toppnum fyrir umferðina lenti 2:0 undir gegn Aston Villa en skoraði svo þrjú mörk seint í seinni hálfleik og sigraði því deildina með eins stigs mun. Allison í marki Liverpool fékk gullhanskann fyrir að fá á sig fæst mörkin. Held að Edison í City liðinu hafi fengið jafnfá mörk á sig en hann spilaði einum leik meira en Allison. Nú er bara að sjá hvernig úrslitaleikurinn í meistaradeildinni fer en þar gæti Liverpool unnið þriðja bikarinn af fjórum mögulegum.

22.5.22

Sunnudagur

Var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Lokað var inn í stofu þannig að einhverntímann kom frænka mín heim. Ég var með tölvuna í herberginu mínu og vafraði aðeins um á netinu. Var komin í Sundhöllina rúmlega átta. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég fór á innstu braut í innilauginni og synti í hálftíma. Settist smá stund út á svalir í heitari pottinn áður en ég fór aftur í kalda pottinn í fimm mínútur. Úr kalda fór ég í gufu og þar á eftir settist ég í nokkrar mínútur út á bekk áður en ég fór og þvoði á mér hárið. Ekkert af heimafólkinu var vaknað þegar ég kom heim rétt rúmlega tíu. Ég hellti mér upp á kaffi og fór með það inn í mitt herbergi, kom mér fyrir upp í rúmi með bók og bolla. Um miðjan dag bauð frænka mín okkur mæðginum á kaffihús, Te&kaffi við Suðurlandsbraut. Stoppuðum þar í hátt í klukkutíma. Eftir kaffihúsaferðina fór frænka mín að hitta vini. Ég kveikti fljótlega á sjónvarpinu og fylgdist aðeins með úrslitaleik meistaradeildarinnar í kvennafótboltanum. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn. 

21.5.22

Á leið í sund

Fór aftur á bílnum til vinnu í gærmorgun og að þessu sinni með sjósundsdótið í skottinu. Ég var í bókhaldinu og drjúgan hluta af morgninum var ég að flokka kennispjöld. Var nýlega byrjuð á fjórða kassanum þegar ég gat loksins farið að hjálpa stelpunum á vélinni að para saman kort og form. Það var aðallega vegna þess að vélin hafði eitthvað verið ósamvinnuþýð og það sem var farið í gegn höfðu þær undan að ganga frá. Daglegri vinnu og allri talningu var ekki lokið fyrr en klukkan var farin að ganga fjögur. Fór beint í Nauthólsvík eftir vinnu og var að vaða út í um fjögur, hálfa leið til Kópavogs eða þannig leið mér, það var svo mikil fjara. Svamlaði aðeins um en synti svo í rólegheitum út að kaðli. Var rúmt korter í sjónum og svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.