7.3.21

Hrökk upp við skjálfta um tvö í nótt

Var komin á fætur um sjö í gærmorgun. Hálftíma síðar vakti ég N1 soninn og spurði hvort hann ætti ekki að mæta til vinnu um átta. Það var reyndin og bauðst ég til að skutla honum. Hann þáði það, pissaði, tannaði og klæddi sig og með minni aðstoð komst hann í vinnuna rétt áður en klukkan sló átta. Ég fór beint heim aftur. Gekk frá endum á fyrsta barnateppinu sem datt af prjónunum í fyrrakvöld. Fitjaði upp á nýju barnateppi með öðru mynstri. Byrjaði að lesa Vatnið, gríman og geltið eftir Silju Björk Björnsdóttur sem er mágkona mágs míns og er um veikindi hennar sem hún glímdi við um tvítugt. Um hálftíu bjó ég mér til hafragraut og hellti upp á könnuna. Klukkutíma síðar var ég sótt af nöfnunum. Við vorum mættar í röðina við aðstöðuna í Nauthólsvík korter fyrir ellefu, nógu framalega til að ná inn með fyrsta hollinu. Sjórinn var kominn yfir þrjár gráður og tvær af okkur nutum þess að svamla um. Sú þriðja naut þess líka til að byrja með en við vorum kannski of lengi út í fyrir hana, næstum því korter og svo smá stund í lóninu áður en við fórum í heita pottinn. Vorum í pottinum í amk tuttugu mínútur en hún náði ekki í sig hita, ekki fyrr en hún fékk sér te eftir að hún mætti til vinnu upp úr tólf.

Um eitt leytið var ég búin að taka saman farangur amk til einnar nætur, vakti Odd til að kveðja hann og brunaði beint austur á Hellu. Við pabbi fórum í smá kaplakeppni en spilin voru ekki með okkur í liði svo ég settist fljótlega inn í stofu með prjónana mína. Pabbi bauð upp á pönnsur með kaffinu og í kvöldmat fékk ég kjötsúpu. Hann sjálfur er hættur að borða heitan mat á kvöldin, fékk sér kornfleks og lifrapylsusneið. Eftir að kvöldfréttirnar voru byrjaðara fékk ég leyfi til að renna í hvítvínsbeljuna. Horfði á seinni hlutann um Daða og Gagnamagnið og skipti svo yfir á Sjónvarp símans. Ég var komin upp í rúm um ellefu og las bara í stutta stund. Var örugglega sofnuð fyrir miðnættið. Um tvö leytið í nótt var ég nýbúin að snúa mér í rúminu þegar skjálftinn upp á fimm reið yfir og fannst greinilega. Ég ætlaði að halda áfram að sofa en ég varð að byrja á því að skreppa fram á salerni og tæma hlandblöðruna fyrst og það varð líklega til þess að ég glaðvaknaði og gekk illa að sofna aftur í einhvern tíma.

6.3.21

Sjórinn 3,2°C

Að sjálfsögðu labbaði ég í vinnuna fimmta daginn í röð í gærmorgun. Var mætt um hálfátta. Á föstudögum mætum við fjórar af fimm, þ.e. ef engin er í fríi eða lasin. Fram að morgunkaffi var ég inni á framleiðsluvélinni í móttökunni eftir að hafa tekið saman og talið til þær tegundir sem voru í daglegri framleiðslu í fyrstu tveimur daglegur verkefnunum. Eftir kaffið var ég frammi í pökkun, frágangi og einnig föstudagstalningu með bókaranum þegar framleiðsluverkefnum var lokið. Engin auka framleiðsla er í gangi svo það var engin framleiðsla eftir hádegi. Vorum samt í vinnu til klukkan að verða hálfþrjú.

Fékk far heim úr vinnunni. Hellti mér upp á smá kaffi og settist smá stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Var komin í sund klukkan að verða hálffimm. 3x5 mínútur í kalda, 300m sund og endaði í löngu gufubaði. Kom heim aftur um sex. 

5.3.21

Fyrsta heila vinnuvikan mín á árinu liðin

Vaknaði upp við snarpan skjálfta stuttu fyrir sex í gærmorgun, rúmum hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að vekja mig. Fór á fætur skömmu síðar. Labbaði af stað í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega. Valdi aðra leið eftir að ég var komin þvert yfir Klambratún. Fór yfir Snorrabraut, framhjá Domus Medica, upp á milli Tækniskólans og Hallgrímskirkju, Skólavörðustíginn, hluta af Arnarhól og kom Kalkofnsveginn að vinnustaðnum. Ég var í bókhaldi og kom því ekkert nálægt framleiðslunni. Hinar fjórar skiptu með sér verkum, tvær í framleiðslu fram að kaffi og hinar tvær í alls konar undirbúning frammi. Þær síðarnefndu fóru svo í framleiðsluna eftir morgunkaffi. Allri endurnýjun er lokið í bili og daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir klukkan tólf. Nú þegar við erum allar í vinnu saman er ein búin að færa sig aftur í 70%. Hún var því búin með vinnuvikuna sína um hádegið. Við hinar vorum til rúmlega tvö.

Fékk far heim úr vinnunni. Fór í sund um fjögur. Var búin að synda 400metra og sat í minni fyrstu ferð í þeim kalda þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Kom heim aftur um sex. 

4.3.21

Skatturinn

Ég er ekki búin að opna skattframtalið mitt sem á að skila inn á næstu dögum. Er samt alveg róleg yfir þessu og stefni að því að skoða þetta og klára um komandi helgi.

Tuttugastaogþriðja vinnudaginn í röð á árinu labbaði ég í vinnuna upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Framan af morgni höfðum við allar fimm nóg að sýsla. Við þrjár sem vorum frammi til að byrja með, ein í bókhaldi, önnur í að undirbúa pökkun og sú þriðja að sortera og raða saman ónýtu plasti frá því í febrúar, vorum sömu þrjár og unnu saman aðra hverja viku frá verslunarmannahelgi. Tvær af okkur tókum við framleiðslunni inni á vél eftir morgunkaffi. Ég var í að taka á móti. Þegar daglegu framleiðsluverkefni tvö af þremur lauk og það var amk hálftími í það þriðja höfðum við síðustu endurnýjun febrúar úr að moða. Sú endurnýjun var keyrð til okkar og yfir á vél sl. mánudag og það var búið að framleiða eitthvað af henni. Nokkrar misstórar skrár voru þó eftir og framleiddum við allar nema þá stærstu, hún var framleidd eftir hádegið.

Skipt var um vinnutölvur hjá mér og einni annarri eftir hádegi í gær og það var ekki búið fyrr en um fimm. Fékk svo far heim og ákvað að fara ekkert út úr húsi aftur, skrópaði semsagt í sjóinn og fór heldur ekkert í sund. 

3.3.21

Jarðhræringar og gosórói

Jæja, ætli það sé komið að því? Gos kannski að hefjast á stað sem er virkt en hefur ekki gosið öldum saman? Það er mikið lagt á almannavarnir þessi misserin og verkefnin velflest krefjandi. Og margt sem hefur verið að gerast og er í gangi eitthvað sem þarf að fylgjast með, læra af og búa sig undir allt mögulegt. Það væri nú samt alveg ágætt ef maður hætti að hrökkva upp við skjálfta á nóttunni.

En hvað um það, það gerist sem gerist. ÉG er að spá í að reyna bara að halda áfram daglegri rútínu. Ég labbaði í vinnuna á svipuðum tíma og oftast áður í gærmorgun og var mætt á vinnustaðinn rétt upp úr hálfátta. Ég átti fyrstu vakt á vélinni ásamt einni annarri, ég að hlaða inn og setja af stað. Hún að telja til tegundirnar og taka á móti. Sú sem átti að vera í móttökunni eftir kaffi var í krefjandi yfirlestri á verkferlum og handbók og þáði það að ég leysti hana af. Svo það fór þannig að ég kom mér inn á vél allan tímann sem hún var í gangi því eftir hádegi vorum við aftur saman á vélinni sem tókum fyrstu vaktina. Ég að taka á móti og hún að troða í. Hættum framleiðslu rétt fyrir hálffjögur, gengum frá og fórum heim. Fékk far með þeirri sem var tvisvar með mér á vélinni.

Kalda potts vinkona mín lét mig vita að hún kæmist ekki í sund. Ég var mætt í Laugardalslaugina upp úr klukkan fjögur. Fór 3x5 mínútur í kalda, synti 400 metra, fór einu sinni í heitasta pottinn og endaði í gufunni. Kom heim um sex leytið.

Er enn að lesa bókina Pabbastrákur en er rúmlega hálfnuð með hana enda hef ég aðeins verið að lesa í þeirri bók síðustu tvö kvöld.