10.4.21

Tíminn líður

Í gær labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Lagði af stað um sjö. Verkefnin fram að hádegi voru bókhaldstengd og eftir hádegi flokkaði ég kennispjöld til klukkan hálfþrjú. Í fyrradag tók ég mig til og taldi öll kennispjöldin úr einum heilum kassa sem ég flokkaði og voru þau 1115 stykki. Maður er líka næstum einn og hálfan tíma að flokka úr einum kassa, aðeins lengur ef maður rekst á myndir af fólki sem maður þekkir. Við erum búnar að flokka úr rúmlega 30 kössum og eigum að minnsta kosti efitr 600 kassa. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið og var komin um hálffjögur. Greip ekkert í nál en aðeins í prjóna og bækur. Bjó svo vel að eiga til afganga svo ég var ekkert að hafa neitt fyrir kvöldmatnum. 

9.4.21

Löng helgi framundan

Aftur var ég vöknuð á undan vekjaraklukkunni. Gærmorguninn var ósköp svipaður og aðrir vinnumorgnar. Gaf mér smá tíma í tölvunni eftir að ég var komin á fætur og búin að ljúka morgunverkunum. Labbaði af stað í vinnu um sjö. Fyrirliðinn var mætt til vinnu og hún fékk mig til að skipta við sig um stöðu, þ.e. bað um að fá að taka bókhaldið í gær þar sem hún þurfti að mæta á fjarfund um níu. Ég samþykkti það og fór á móttökuendann á framleiðsluvélinni. Daglegri framleiðslu lauk um hádegið og eftir hádegið flokkuðum við gömul kennispjöld til klukkan að verða þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Sjósundsvinkona mín var búin að spyrja hver vildi koma með í sjóinn um fimm en þegar til kom komst hún ekki sjálf og engin af hinum heldur svo ég var ekkert að æða ein af stað. Saumaði út, las, vafraði á netinu og glápti á imbann. Um níu fór ég í snögga sturtu og svo upp í rúm. Las til klukkan tíu og er nú langt komin með bókina Urðarköttur. 

8.4.21

Gluggaveður

Ég vaknaði aftur smá stundu áður en vekjarinn átti að hringja í gærmorgun og var búin að slökkva á honum og koma mér á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Ég var í framleiðslu að troða í vélina fram að hádegi. Eftir hádegi kláruðum við að plokka frá gulu miðana og töldum allt plastið, skráðum niður upplýsingar og létum kortaeigendur vita fjöldann og tegundirnar. Yfirgáfum vinnustað rétt fyrir hálffjögur. Ég fékk far heim. Nennti ekki út aftur. Hellti mér upp á smá kaffi og kveikti svo á fartölvunni. Millifærði smá summu á Odd og fékk hann til að skreppa út í Krambúð. Hringdi í pabba og einnig jafnöldru hans, konu sem var í Óháða kórnum. Tók aðeins fram útsauminn. Horfði á imbann og FBI þátt. Var háttuð upp í rúm um hálftíu og las í rúman hálftíma. Var frekar fljót að sofna. 

7.4.21

Vinnuvikan hálfnuð

Ég vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun, amk fimmtán mínútum áður en vekjarinn átti að hringja. Dreif mig á fætur, bjó um mig, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér lýsi og notaði svo tímann sem eftir var til að vafra aðeins um á netinu. Labbaði af stað í vinnuna um klukkan sjö. Fram að hádegi vann ég við framleiðsluna, taldi í kortategundirnar og tók á móti þeim og skoðaði. Framleiðslu lauk um hádegið en eftir hádegi voru við tvær af þremur að plokka út gula miða á milli plasta úr nýrri sendingu sem kom til okkar fyrir fáeinum dögum. Sú þriðja var að vinna í reikningagerðinni en hún plokkaði smá stund með okkur, eða úr einum 300 korta kassa af þeim 25 sem voru saman í öðrum stóra kassanum úr sendingunni.

Fékk far heim úr vinnunni. Tímann til hálfátta notaði ég í tölvumál, útsaum og sjónvarpsgláp. En um hálfátta tók ég til handavinnuna mína og labbaði í Grettisgötuna í saumaklúbb. Tvíburahálfsystir mín mætti um hálfníu. Notaleg og skemmtileg kvöldstundin til klukkan ellefu leið alltof hratt. Fékk far heim með Sonju en við tókum smá rúnt á Gróttu og Ægisíðu til að virða fyrir okkur gosbjarmann af Reykjanesinu. Var komin heim fyrir miðnætti en það munaði ekki miklu. Fór beint í rúmið en gaf mér tíma til að lesa aðeins áður en ég fór að sofa þannig að klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég slökkti ljósið. 

6.4.21

Fyrsti virki dagurinn í apríl

Ég var pínu löt að fara fram úr fletinu í gærmorgun. Var þó klædd og komin á ról um hálfníu. Það lá svo sem ekkert sérstakt fyrir framan af morgni. Eyddi rúmri klukkustund í fartölvunni en um tíu bjó ég mér til hafragraut. Stuttu fyrir ellefu sótti sjósundsvinkona mín mig og var nafna hennar með í för. Þrjár saman skelltum við okkur í sjóinn við Nauthólsvík. Frost var í lofti en sjórinn mældist 3°C. Áður en við vissum af vorum við búnar að svamla um í sjö mínútur. Tíminn leið extra hratt því við vorum að spjalla svo mikið. Ég kom heim aftur rétt fyrir tólf og var búin að fara í sturtu búa mér til kaffi áður en hádegisfréttirnar á Rás 2 fóru í loftið.

Hélt mig heima við það sem eftir var af deginu. Skrapp aðeins tvær ferðir í þvottahúsið en annars var ég að prjóna, lesa, vafra um á netinu og glápa á imbann. Ekkert varð úr útsaum í gær en það stendur til bóta í dag.