20.6.24

Ennþá tæp vika eftir af fríinu

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun og dreif mig fljótlega á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Oddur Smári kom fram ca klukkutíma síðar eða milli hálfátta og átta. Hann átti að mæta á námskeið, þriðji dagur af fimm, klukkan níu. Úti var mikil rigning og ég bauðst til að skutla honum þegar ég færi í sund. Hann þáði það. Ég var komin í kalda pottinn um níu. Fór svo á braut 2, þar sem það var sundleikfimi á brautum 7 og 8, og synti 300metra. Fór þrjár aðrar ferðir í þann kalda. Í gufunni frétti ég að sést hefði til stærðarinnar rottu við sjópottinn fyrr um morguninn. Ég held að tekist hafi að veiða kvikindið, varð amk ekki vör við neitt svoleiðis þessi fimm korter sem ég var í sundi. Eftir sundið fór ég í Krónuna í Skeifunni. Var að setja vörurnar í skottið þegar Oddur hringdi um ellefu. Búið var að fara yfir námskeiðsskammtinn þann daginn. Náði í soninn og hann hjálpaði mér með vörurnar inn. Lánaði honum svo bílinn svo hann gæti farið að versla fyrir sig. Davíð Steinn var greinilega alveg búinn á því eftir síðustu vaktatörn því hann vaknaði ekki fyrr en um miðjan dag. Hann skrapp í verlsunarferð um sex. Horfði annars á alla EM leikina í gær, prjónaði alveg helling og bauð strákunum upp á steikt slátur í matinn, aldrei þessu vant. Þeir þáðu boðið en það er orðið afar sjaldan sem ég elda fyrir okkur öll. Gafst eiginlega upp á því þar sem oftar og oftar kom fyrir að þeir borðuðu lítið sem ekkert af því sem ég var með í matinn. Davíð Steinn er mjög duglegur að sjá um eldamennsku fyrir sig sjálfan. Eldar þá gjarnan þannig að hann geti tekið með nesti á vinnuvaktir. Oddur er mjög lítið fyrir eldamennsku, kaupir sér brauð, flatbrauð og ost og einnig heimsendan skyndibita stöku sinnum.

19.6.24

Komin heim

Ég var nýlega komin á fætur þegar pabbi kom heim úr sundi í fyrra fallinu, milli hálfátta og átta. Hann sagðist þó hafa getað gert flest af sundrútínunni nema farið í rennibraut og gufu. Hann stoppaði alls ekki lengi heima því hann átti tíma hjá augnlækni seinna um morguninn. Morguninn leið mjög hratt hjá mér við svipaða hluti og ég var að gera í fyrradag, leggja kapla, prjóna, vafra á netinu og fleira. Pabbi kom aftur upp úr eitt og um svipað leyti fékk ég skilaboð frá konu sem ég var hjá í sveit um fermingu um að hún væri komin heim eftir skrepp á Selfoss. Fljótlega tók ég mig saman og kvaddi pabba sem var sennilega að fara undirbúa sig undir pönnukökugerð og síðar sultugerð. Ísbíllinn var mættur í sveitina þegar ég kom þar upp úr klukkan tvö. Sá sem var á bílnum var inni að fá sér hressingu. Ég spurði hvort hann væri með sykurlausan ís og keypti af honum einn pakka, áður en hann fór, og fékk að geyma hann í frystikistunni hjá Helgu og Óla á meðan á heimsókn minni stóð. Þetta var fyrsta heimsókn ársins í sveitina, liðið hátt í eitt ár frá því ég kom þar síðast. Ég batt ekki enda á kaffipásuna, bað bara um kalt vatn. Sleppti líka að fá mér af kökunum sem voru á borðum. Fékk mér eina brauðsneið með osti en lét svo vatnið duga. Hafði mestan áhuga á því að spjalla við Helgu og seinna Óla þegar hann og yngsti sonurinn komu inn úr smá girðingavinnu. Tengdadóttirin hafði komið inn aðeins fyrr eftir að hafa sótt börnin tvö, Þorstein og Söru, á leikskólann. Það er alltaf gott að koma í afa og ömmuhús en þau fóru reynda inn í sjónvarpsherbergi, smá feimin við gestinn. Stoppaði í rúma tvo tíma sem liðu alveg ótrúlega hratt. Var komin heim um sex og hjálpaði Oddur mér með dótið úr bílnum. Hann hafði engan áhuga á því að smakka sykurlausa ísinn. Það gerði aftur á móti bróðir hans þegar hann kom heim úr vinnu upp úr klukkan átta.

18.6.24

Ennþá á Hellu

Við pabbi fórum hvorki í skrúðgöngu né yfir höfuð út úr húsi í gær. En það hefði nú verið í frásögur færandi ef við hefðum tekið upp á því. Þess í stað höfðum við það mjög notalegt hér á númer 24. Lagði kapla, vafraði á netinu, gerði æfingar, prjónaði og horfði að fullt af fótbolta. Hafði bleikju handa okkur í hádeginu og það var svo ekki fyrr en ég fór upp í rúm um ellefu að ég leit í bók.

17.6.24

Lýðveldi Íslands 80 ára í dag

Rumskaði upp úr klukkan sex. Snéri mér aðeins á hina hliðina. Um sjö skrapp ég fram á salernið en skreið aftur upp í rúm. Las til klukkan að verða hálfátta. Þá dreif ég mig loksins á fætur. Pabbi hafði aðeins farið á stjá um sex leytið en hann kom svo klæddur fram um níu leytið. Klukkutíma síðar fór hann á rabbabara veiðar hjá nágrönnunum á no 22. Hann var búinn að fá leyfi og það var nóg til. Upp úr hádeginu tók ég að mér að skera niður uppskeruna í ca 9mm bita. Markmiðið hjá pabba var að fylla tvo fimm kílóa poka og frysta. Fyrstu "veiðarnar" mældust rúmlega sjö kíló. Þá var náð í aðeins meira. Seinni pokinn mældist 4,750kg en pabbi ákvað að láta það gott heita. Hann mun svo taka annan pokann úr frysti einhvern tímann í næstu viku og sjóða úr honum sultu. Veðrið var einstaklega gott en við fórum þó inn um fjögur leytið og horfðum á hluta af öðrum leik dagsins á EM í knattspyrnu karla. Horfðum á allan síðasta leikinn eftir kvöldmat. 

16.6.24

Sumarblíða

Dreif mig á fætur um sjö í gærmorgun. Það fóru svo þrjú korter í netvafrið og færsluna eftir morgunverkin á baðherberginu. Tíu mínútum fyrir átta settist ég upp í bíl með sund- og esperantodótið með mér. Var akkúrat að leggja á planinu við Laugardalslaug þegar morgunfréttir fóru í loftið og verið var að opna. Eftir þrjár mínútur í kalda pottinum synti ég 500m á braut átta og amk 200m á bakinu. Eftir næstu þrjár mínútur í kalda sat ég í gufunni í rúmar fimmtán mínútur og gerði æfingar. Næst lá leiðin í sjópottinn eftir kalda sturtu og eftir þriðju og síðustu ferðina í þann kalda settist ég í sólbað við hliðina á einni sundvinkonu minni þar til kominn var tími til að fara upp úr og þvo sér um hárið. Fór beinustu leið úr sundi vestur í bæ í esperantohitting og var komin þangað rúmlega hálfellefu. Stoppaði tæpan klukkutíma að þessu sinni en við lásum samt eina og hálfa blaðsíðu í Kontiki. Erum alltaf jafn hrifnar af þeirri bók. Fljótlega eftir að ég kom heim sendi ég af stað skilaboð í Fossheiðina og dreif mig í að pakka niður fyrir nokkra daga. Davíð Steinn var vaknaður og hjálpaði mér að ferma bílinn. Lenti í smá töfum á Miklubraut milli Lönguhlíðar og Kringlumýrarbrautar vegna framkvæmda við gatnamót. Að öðru leyti gekk ferðalagið vel. Fór Þrengslin og var komin í Fossheiðina upp úr klukkan hálftvö. Þar var vel tekið á móti mér þessa aðra heimsókn á árinu. Stoppaði í rúman klukkutíma og brunaði áfram austur á bókinn. Bruninu lauk þegar ég var nýkomin yfir Þjórsárbrú en það voru vegaframkvæmdir á kaflanum rétt við Holtaafleggjara (stendur Gíslholt á skiltinu) og næstum að Áshól. Umferðin var mikil í báðar áttir og langar raðir mynduðust. Klukkan var  byrjuð að ganga fimm þegar ég kom í Hólavanginn. Pabbi hafði verið að klára að slá og var á spjalli við nágrannann í endahúsinu. Ég kastaði á þá kveðju en fór svo inn til að horfa aðeins á EM og prjóna.