6.12.23

Rökkrið er mjög dökkt þessa dagana

Vaknaði útsofin um hálfsex leytið í gærmorgun. Tæpum tveimur tímum síðar var ég mætt í vinnu. Ekkert auka er í framleiðslu þessa dagana og við kláruðum fyrstu tvo skammtana áður en klukkan varð hálftíu. Vorum í innleggjum það til hádegisskammturinn skilaði sér. Vorum búnar að ganga frá og loka kortadeildinni stuttu fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi héldum við áfram í innleggjunum. Það var nóg að gera. Ég var búin um þrjú leytið og farin úr vinnu upp úr klukkan hálffjögur. Hringdi aftur í pabba til að segja honum músasöguna. Hann var þá staddur á Selfossi hjá Jónu Mæju. Hafði skroppið í bæinn til að láta þvo bílinn og stoppaði á Selfossi í baka leiðinni. Ég var byrjuð að synda um fjögur. Synti 500 metra á uþb 25 mínútum. Hitti ekki á kalda potts vinkonu mína en hún hafði sent skilaboð um að komast ekki í sund fyrr en um fimm leytið. Kom við á einum stað áður en ég fór heim eftir sundið. Horfði á hluta af landsleik kvenna í fótbolta við Dani. Missti þó af því þegar Ísland skoraði sigurmarkið. Ánægð með stelpurnar okkar og mikið svakalega stóð markvörðurinn sig vel. Þar er heilmikið efni á ferð. 

5.12.23

Eitthvað út í loftið

Klukkan var ekki nema hálfsex þegar ég rumskaði í gær við það að ég þurfti á salernið. Eiginlega of snemmt til að fara á fætur svo ég gerði tilraun til að kúra mig niður aftur eftir að hafa skroppið á snyrtinguna. Sú tilraun gekk ekki upp svo ég ákvað að klæða mig. Hafði ekki sett símann í hleðslu í fyrrakvöld. Það var sennilega alveg nóg á honum uþb 65% en ég ákvað samt að hlaða hann á meðan ég væri heima. Sinnti morgunverkunum og settist síðan inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um hálfsjö fór vekjaraklukka af stað. Hélt að N1 sonurinn ætlaði bara að fara á fætur í fyrra fallinu. Vekjarinn hélt áfram að hringja og ca 3-4 mínútum seinna ákvað ég að fara og banka á dyrnar hjá syninum. Hann var alveg saklaus, vekjarinn hans átti ekki að hringja fyrr en korter fyrir sjö. Ég hafði þá sjálf gleymt að slökkva á mínum eigin vekjara þegar ég fór á fætur og var þarna kannski búin að vekja eitthvað af nágrönnunum.

Mætti í vinnu stuttu fyrir klukkan hálfátta. Þar hafði ýmislegt gengið á á kaffistofunni skömmu áður en ég mætti. Einhvern veginn hafði mús komist inn og inn á kaffistofu. Músin forðaði sér inn í aðra uppþvottavélina og í stað þess að reyna að veiða hana þar var ákveðið að setja vélina bara í gang. Annars var ég á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Aðeins lágu fyrir dagleg verkefni. Lukum fyrri skömmtunum af rétt fyrir hálftíu. Fórum svo niður aftur um ellefu leytið og vorum búnar fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi var fyrrum fyrirliði í reikningagerðinni en ég var að hjálpa til í sumum uppi verkefnunum alveg til klukkan að verða fjögur. Þá fór ég í sund. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalinn en gleymdi að segja honum frá músinni, enda sá ég hana aldrei sjálf. Henni var hent í poka og út í gám. Kalda potts vinkona mín var í sinni annarri ferð í kalda pottinum þegar ég mætti. Saman fórum við þrjár ferðir, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Innilaugin var ekki í notkun svo það var mikið um að vera á flestum brautunum í útilauginni. Ég synti því ekkert en þvoði mér samt um hárið á leiðinni upp úr. Var komin heim skömmu fyrir klukkan sex. 

4.12.23

Værukær

Svaf til  klukkan að byrja að ganga átta í gærmorgun. Var eitthvað að spá í að skreppa aðeins í sund en fljótlega ákvað ég að halda mig inni og heima. Líkt og á laugardaginn fór ég tvisvar í þvottahúsið, til að sækja þvott, setja í vél og hengja upp. Rétt fyrir tvö eða um það leyti sem leikur Liverpool og Fulham í ensku deildinni var að byrja datt mér í hug að athuga hvort ég gæti ekki nýtt tímann til að föndra á meðan ég fylgdist líka með leiknum. Þetta gekk svona glimrandi vel. Byrjaði á því að skera þykkar litaðar og hvítar arkir í tvennt og brjóta helmingana upp í kort. Held að ég hafi búið til helmingi fleiri kortagrunna en ég þarf. Svo klippti ég út nokkrar jólamyndir úr blöðum sem ég er búin að eiga í nokkur ár og klippa áður úr. Áður en fótboltaleikurinn var búinn var ég byrjuð að líma, skreyta og föndra. Hélt þessu föndri áfram og fylgdist einnig með lokaleik dagsins sem var milli Manchester City og Tottenham. Um það leyti sem kvöldfréttirnar voru að klárast var ég búin að búa til 25 kort, kvótinn kominn og sennilega rétt rúmlega það. Nú á ég bara eftir að setja hvítar arkir inn í lituðu kortin og svo væri snilld að byrja að skrifa kortin sem fyrst.

3.12.23

Hana nú!

Það er þrálátt kvefið. Ekki með hita, nef og ennisholur ekki stíflaðar, smá eymsli í hálsinum gera það að verkum að ég er latari en dags daglega. Var þó komin á fætur um sjö í gærmorgun og eitthvað að spá í að skreppa í sund. Endirinn varð samt sá að ég hélt mig inni við og heima við allan daginn. Einu skiptin sem ég fór út úr íbúðinni voru þau tvö skipti sem ég skrapp niður í þvottahús til að setja í eina vél og hengja upp. Hringdi í pabba um hálftvö leytið og vakti hann víst upp af hádegisblundinum eftir hádegisfréttirnar. Hann hafði verið svo fast sofandi að í fyrstu hélt hann að vekjaraklukkan væri að hamast þegar það var síminn og önnur dóttlan að trufla draumana. Annars sonurinn skrapp til pabba síns en hinn eldaði sér stórsteik og fór svo á nokkra klukkutíma aukavakt á N1 við Borgartún. Ég sýslaði ýmislegt en gerði lítið af því sem ekki má skrifa um, meira af því sem ég skrifa oft um. Dagurinn leið ótrúlega hratt og klukkan var orðin tíu þegar ég skreið upp í rúm. 

2.12.23

Fyndið eða fúlt?

Sennilega er ég ekki að fara alveg nógu vel með mig því það situr í mér þrálátt kvef með tilheyrandi leiðindum. Að vísu hefur ekki stíflast neitt, hef varla fundið fyrir hálsbólgu og alveg haft næga orku í daglegt stúss og vinnumál. Svaf eitthvað stopult í fyrrinótt en var vöknuð á mínum tíma og mætt í vinnu um hálfátta. Framleiðslu vikunnar var lokið stuttu fyrir tólf. Framkvæmdastjórinn og næstráðandi hans voru á fundi til klukkan langt gengin í eitt og við biðum bara rólegar eftir að þau kæmu í mat. Vorum að ganga frá eftir matinn til klukkan rúmlega hálftvö og skiluðum svo af okkur eldhúsvaktarböngsunum til þeirra sem eiga vaktina í næstu viku. Það teygðist úr vinnudeginum hjá sumum. Ég stimplaði mig út klukkan hálffjögur. Var með sjósundsdótið meðferðis en taldi það skynsamlegra að sleppa ferð í sjóinn. Kom við á tveimur stöðum áður en ég fór bara heim. Ég var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu.