30.9.22

Teboð í Apótekinu

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun þar sem það var grenjandi rigning. Fram að kaffi var ég frammi í skrifstofurýminu m.a. að undirbúa pökkun. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Allri daglegri framleiðslu var lokið rétt rúmlega tólf. Eftir hádegi fóru þær tvær sem byrjuðu á vélinni um morguninn aftur á vélina að vinna að endurnýjun. Voru að til klukkan langt gengin í fjögur. Þær eru báðar með TEAMS í símanum og gátu fylgst með sviðsfundi frá klukkan þrjú þrátt fyrir að vera að vinna að framleiðslu. Við hinar sátum við skjáina okkar. Um fjögur löbbuðum við yfir á Apótekið þar sem við hittum næstráðandi yfirmann okkar. Vorum að halda upp á að búið er að flokka öll kennispjöld og þau verða brátt öll farin frá okkur. Kom heim upp úr klukkan sex. Strákarnir komu mun seinna en þeir höfðu boðið einum frænda sínum og hans fjölskyldu með sér út að borða á einhverjum stað í Kringlunni.

29.9.22

Fimmtudagur

Labbaði í vinnuna upp Eiríksgötu og yfir Skólavörðuholtið í gærmorgun. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi og þurfti að byrja á því að skipta um aðgangsorð á vélinni. Það gekk upp í fyrsta. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Framleiðslan gekk vél og vélin með sama og ekkert vesen. Kerfisfræðingarnir þurftu stundum að yfirtaka vélina en það var oftast bara tölvuparturinn og þá máttum við halda áfram með okkar verkefni á meðan. Eftir hádegi pakkaði ég því síðasta sem ópakkað var en svo var ég annað hvort að lesa eða prjóna þar til tími var kominn til að hætta vinnu. Fékk far heim úr vinnunni. Strákarnir voru í Sorpuferð og ég ákvað bara að halda mig heimavið.

28.9.22

Sundferð

Það sem himininn var fallegur í gærmorgun þegar ég var á leiðinni akandi í vinnuna. Velflestir vinnufélagarnir höfðu orð á þessu. Ég var í skrifstofurýminu ásamt tveimur öðrum fram að kaffi. Lítið var fyrir mig að gera svo sem betur fer var ég með bók og prjóna með mér. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Vélin var þokkaleg til að byrja með en vildi fljótlega fara að láta sinna sér. Í flestu tilfellum þýddi það að taka varð kortin úr henni framan við svæðið þar sem þau koma venjulega. Þetta reynir svolítið á þolinmæðina en þeir sem koma að gera við eða fara yfir vélina eru búnir að sjá þetta og segjast vera búnir að gera allt sem þeim dettur í hug svo þeir koma ekki að kíkja aftur fyrr en allt stoppar alveg. En þetta tefur okkur í framleiðslunni og það er ekki gott þegar maður er með endurnýjanir sem þarf að klára og koma frá okkur. Eftir hádegi var ég í sömu stöðu og um morguninn. Öllum verkefnum lokið nema framleiðslu sem aðrar tvær sáu um. Þær hættu um þrjú vegna leiðinda í vélinni. Ég fór beinustu leið í Laugardalslaugina eftir vinnu. Synti 400 metra, 350 á bakinu og 50 skriðsund. Var nýbúin með mína fyrstu ferð í kalda pottinum og sat í þeim heitasta þegar kalda potts vinkonan mætti. Saman fórum við fimm ferðir í kalda pottinn og enduðum svo í gufunni. Að þessu sinni fór ég upp úr á undan og þvoði mér um hárið í leiðinni. 

27.9.22

Sjóbað

Vaknaði við hamaganginn í vekjaraklukkunni stuttu fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Davíð Steinn var að sinna sínum morgunverkum á baðherberginu þannig að ég fór beint á netið þegar ég kom á fætur og fram. Tuttugu mínútum síðar sinni ég mínum morgun verkum og labbaði svo fljótlega af stað í vinnuna. Ég var í bókhaldinu í gær. Það starf gekk vel en mín verkefni voru búin rétt upp úr hádeginu. Sem betur fer var ég bæði með bók og prjóna. Felldi enn eina tuskuna af prjónunum og fitjaði að sjálfsögðu upp á nýrri. Rúmlega tvö varð ég samferða einni af hinum upp í K2 þar sem við kortagerðarteymið áttum markmiðsfund með yfirmanni. Fundurinn var skráður frá 14:30-16 en stóð aðeins yfir í klukkutíma því okkur gekk svona ljómandi vel á fundinum. Ég fékk far með annarri heim. Staldraði stutt við þar, var komin í Nauthólsvík upp úr klukkan fjögur. Sjórinn 8,8°C og að flæða að, engin fleiri úr sjósundshópnum mínum en ég svamlaði um í sjónum í tæpar tuttugu mínútur og sat svo í heita pottinum í rúman hálftíma. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Krambúðinni áður en ég fór heim. 

26.9.22

Líður á mánuðinn

Var komin á fætur um níu í gærmorgun, lokað inn til strákanna svo þeir höfðu skilað sér heim. Gærdagurinn var mjög svipaður laugardeginum, fór ekkert en las, prjónaði, vafraði um á netinu og horfði á hina og þessa þættina. Hafði ofnsteiktar kjúklingabringur í matinn og gátu báðir bræðurnir nýtt sér það. Var búin að slökkva á sjónvarpinu um níu og komin upp í rúm ca 40 mínútum seinna. Las til klukkan hálfellefu og var svo fljót að sofna.