17.8.22

Sjósundsferð

Labbaði í vinnuna um sjö. Var í "frammiverkefnum" fram að kaffi. Undibjór pökkun og taldi svo með þeirri sem var í bókhaldinu þegar fyrsti skammturinn hafði verið afgreiddur. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann. Við vorum búnar með næsta skammt hálftíma áður en hádegisskammturinn komi yfir á vél og sá skammtur var búinn rúmlega hálftólf. Fengum að fara úr vinnu um hálftvö. Ég kom aðeins við í bókabúð að kíkja á nýja tuskuprjónabók. Ákvað samt að freistast ekki til að kaupa þá bók. Stoppaði heima í um tvo tíma áður en ég tók til sjósundsdótið og fór í Nauthólsvík. Hausttímabilið er hafið og ég fyllti á kortið mitt til áramóta. Hitti sjósundsvinkonu mína og við vorum búnar að vera rúmar tíu mínútur á svamli í sjónum þegar systurnar úr hópnum okkar komu. Fórum í heita pottinn tuttugu mínútum síðar. Það var frekar margt um manninn miðað við að ekki er lengur ókeypis í aðstöðuna. Áður en ég fór heim kom ég við í fiskbúðinni og keypti ýsu í soðið. Ekki var til harðfiskur úr óbarinni ýsu en ég prófaði keilu og þorsk í staðinn. 

16.8.22

Labbað í vinnu og aftur heim

Vaknaði rétt rúmlega sex. Sá til þess að vekjarinn myndi ekki hringja, fór á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu í tæpan hálftíma. N1 sonurinn kom fram rétt fyrir hálfsjö og fór út á undan mér. Ég labbaði í vinnuna um sjö og var fyrst á svæðið af fjórum. Já, nú er aðeins ein í fríi og við fjórar á svæðinu. Var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni fram að hádegi og í pökkun, talningu og sorteringu til hádegis. Var að flokka ónýt kort frá apríl og út júlí sem þarf að farga fljótlega. Átti aðeins júlíkortin eftir þegar við skruppum í mat. Yfirgáfum vinnustaðinn fyrir klukkan þrjú og ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið.

15.8.22

Ný vinnuvika

Vaknaði rúmlega níu. Var samt komin á fætur og fram aðeins á undan pabba. Lagði kapla, las og prjónaði. Hellti mér upp á kaffi um hálfellefu. Um hálftvö kom maður einnar frænku okkar pabba og færði honum smávegis af krækiberjum. Ég hellti aftur upp á. Maðurinn stoppaði þó ekki lengi en gaf sér tíma til að drekka einn bolla af kaffi. Upp úr hálffjögur bauð pabbi upp á grilluð rif með hrísgrjónum og sallati. Bríet og Bjarki borðuðu með okkur og tóku svo að sér að vaska upp. Rúmlega fimm tók ég mig saman og kvaddi pabba. Bjarki var farinn og Bríet líklega farin að sofa því hún átti að byrja vinnu eldsnemma eða um fjögur í morgun. Greiðfært var í bæinn eða alveg fram að þar sem framkvæmdirnar eru þar var samfelld bílalest á ca 30 km hraða inn að fyrsta hringtorgi. 

14.8.22

Sunnudagur

Klukkan var orðin hálfníu þegar ég vaknaði í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu gaf ég mér tíma í netvafr og það urðu tveir tíma. Klukkan var því um ellefu þegar ég mætti í Sundhöllina. Braut 4 í útilauginni var laus og ég byrjaði á því að synda í tuttugu mínútur, flestar ferðirnar á bakinu en þó tvær skriðsundsferðir. Eftir sundið var það kaldi í fimm mínútur, gufa, sturta og aftur kaldi áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Skrapp aðeins í Krónuna við Fiskislóð því það var farið að vanta ost, skinku og brauð. Verslaði aðeins í einn poka. Gekk frá vörunum er ég kom heim og fékk mér einhverja hressingu. Kveikti aðeins á sjónvarpinu og horfði á síðustu mínútur í hádegisleiknum í enska boltanum. Svo pakkaði ég niður og dreif mig austur. Fór Þrengslin og kom aðeins við hjá Jónu og Reyni en þau eru enn í sumarleyfi, nýkomin úr tveggja vikna ferð til dóttur sinnar og fjölskyldu í Danmörku. Þáði kaffi hjá þeim en stoppaði aðeins í tæpan klukkutíma. Klukkan var samt orðin hálffimm þegar ég kom til pabba. 

13.8.22

Nýr skoðunarmiði

Í gærmorgun vaknaði ég aðeins þremur mínútum áður en klukkan átti að hringja. Hafði reyndar rumskað um klukkutíma fyrr en mér fannst það heldur snemmt og sem betur fer steinsofnaði ég aftur og dreymdi einhverja vitleysu. Fór á bílnum í vinnuna. Við vorum tvær, ég var í bókhaldi og á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk fyrir klukkan tólf og við kláruðum að telja og ganga frá áður en við fórum í mat. Ég fékk að fara um tvö. Fór með bílinn í Frumherja til að láta skoða hann. Tveir aðrir voru á undan og aðeins einn í vinnu en biðin varð samt ekkert löng og ég fékk bláan 2023 miða á bílinn og enga athugasemd. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. Þrátt fyrir að vera með sunddótið í bílnum ákvað ég að fara heim án þess að fara í sund. Oddur fékk lánaðan bílinn og þeir bræður fóru báðir saman eitthvað að erindast. Komu heim með tilboð og fötu frá KFC í boði Davíðs Steins. Um kvöldið horfði ég á bikarleik kvenna, undanúrslit, í fótboltanum. Stjarnan - Valur 1:3. Leikur var sýndur beint á RÚV2.