26.7.21

Þriðji ekkifrídagurinn framundan

Ég var glaðvöknuð eitthvað áður en klukkan varð sjö í gærmorgun og dreif mig bara á fætur. Notaði megnið af tímanum til klukkan að verða átta til að vafra um á netinu. Var mætt í sund rétt eftir að opnaði og gaf mér góðan tíma þar. Byrjaði að sjálfsögðu á því að fara í kalda pottinn. Fann að hann var eitthvað kaldari en undanfarið en var samt 5 mínútur. Rétt áður en ég fór upp úr honum var hann mældur og reyndist 6,7°C. Synti 600 metra, þar af 300 á bakinu. Fór aftur í kalda í fimm mínútur. Svo í sjópottinn í tæpan hálftíma. Kalda pottinn, gufuna, í kalda sturtu og endaði í kalda pottinum áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið og hitti á kalda potts vinkonu mína og systur hennar þegar ég var komin inn í klefa að klæða mig. Klukkan var um hálfellefu þegar ég kom heim. Hellti upp á kaffi. Afgangurinn af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og sjónvarpsgláp. Lánaði strákunum bílinn seinni partinn og fram á kvöld. 

25.7.21

Sunnudagur

Var ekkert að drolla of lengi í rúminu í gærmorgun en leyfði þó klukkunni að verða hálfátta áður en ég fór á fætur. Fljótlega hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér einhverja morgunhressingu með. Um tíu var ég komin í Nauthólsvík rétt eftir að opnaði þar. Engin úr sjósundshópnum mínum mætti í gær. Ég synti/svamlaði rólega út að kaðli. Kom svo aðeins við í víkinni áður en ég skellti mér í heita pottinn. Veggklukkan var ekki á sínum stað en þegar ég kom aftur í bílinn var liðinn akkúrat klukkutími frá því ég yfirgaf hann fyrir sjósundið. Næst lagði ég leið mína í Krónuna við Granda. Ég var svo rétt nýbúin að ganga frá vörunum þegar annar sonurinn kom fram. Restin af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og sjónvarpsgláp. 

24.7.21

Helgarfrí

Á öðrum degi í "ekkifríinu" mínu fór ég á bílnum í vinnuna í annað skiptið í vikunni. Það var búið að síga helling úr hægra afturdekkinu en ég komst á Skúlagötuna og dældi í þar, svo mikið að það hætti að kvarta í mælaborðinu. Daglegri framleiðslu lauk að mestu um hádegisbilið. Það þurfti að kalla út kerfis/tækni mann til að hægt væri að framleiða eitt kort úr debetdeginum. Það þurfti að laga eitthvað og senda það sérstaklega yfir aftur. Þessi sami tæknimaður hálpaði mér líka í gegnum símann og teams til að ná aftur í rétta font svo hægt væri að prenta út ákveðin skjöl þar sem ákveðið númer á að vera falið undir flipa en ekki sjást í gegn. Hættum vinnu rétt fyrir hálfþrjú. Ég kom við til að dæla meira lofti í dekkið og fór svo beinustu leið á dekkjaverkstæði N1 í Fellsmúla. Þar komst ég strax að og viðgerð tók innan við hálftíma. Aftur var það nagli sem var að valda þessu, líkt og með framdekkið hægra meginn stuttu eftir að búið var að setja sumardekkin undir. Sem betur fer hafði felgan sloppið við hnjask þótt keyrt hafi verið á mjög loftlitlu dekkinu.

Afmælissynirnir voru báðir heima en að mestu inn í sínum herbergjum. Ég fór ekkert út aftur en var að dunda mér við ýmislegt. Hafði til kvöldmat um sjö en var sú eina sem gerði honum einhver skil. Horfði á Tónaflóð um landið, útsendingu frá Höfn.

23.7.21

Tvisvar sinnum tuttuguogfimm

Ég var komin á fætur um sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af lýsi, járntöflu, vatnsglas og harðsoðið egg. Vafraði svo um stund á netinu. Labbaði lengri leiðina í vinnuna og var samt fyrst. Samstarfskonur mínar komu á svipuðum tíma skömmu síðar og spurðu hvort ég hefði ekki haft það gott í fríinu. Ég gekk inn í verk þeirrar sem ég var að leysa af og var að gera það sama og daginn áður, á móttökuendanum á vélinni. Eftir hádegi byrjuðum við aðeins að endurnýja debetkort sem renna út um leið og ágúst klárast. Framleiddum fyrir heilan banka. Hættum vinnu um hálfþrjú og önnur samstarfskona mín skutlaði mér í Blóðbankann við Snorrabraut. Ég var búin að fá tvær beiðnir frá þeim með stuttu millibili, rétt liðnir fimm mánuðir frá síðustu gjöf svo ég hafði bókað tíma áður en samstarfskona mín lenti í sóttkví. Hún fékk neikvætt út úr testinu svo ég taldi óhætt að fara og gefa. Hjúkrunarfræðingurinn leitaði að æðum í báðum olnbogabótum og ákvað að velja vinstri hendina. Sagðist samt ekki vera of bjartsýn. En viti menn hún hitti í fyrsta og stungan var þannig að ég fann ekkert fyrir henni. Rennslið fór vel af stað en þegar ég var hálfnuð með að fylla blóðpokann hægðist á svo ég var beðin um að pumpa svo ég félli ekki á tíma. Það gekk allt saman upp. Á eftir fékk ég mér tvö djúsglös og innihald úr einum litlum rúsínupakka áður en ég labbaði heim. Þegar heim var komið hringdi ég í FÍB aðstoðina. Þeir sendu mér bíl frá Vöku. Ekkert varadekk er í bílnum mínum og Vökumenn komu eftir klukkan fimm. Þeir pumpuðu í hægra afturdekkið sem var nánast orðið flatt og settu vel í það. Ég var ekkert að hreyfa bílinn neitt en hefði líklega átt að skreppa til að dæla betur í dekkið í gærkvöldi. 

22.7.21

Fyrsti dagur í ekkisumarfríistrax

Var komin á fætur upp úr klukkan sex. Ákvað að fara á bílnum í vinnuna og tók sunddótið með mér. Byrjaði á því að fara upp í Öskjuhlíð og athuga þrýstinginn á dekkjunum þar sem var farið að kvarta. Það vantaði ekki mikið upp á þrjú af dekkjunum en það fjórða var nokkuð lint. Ekki gekk þó að dæla í dekkið svo ég færði mig yfir á pumpuna á Skúlagötunni þar sem var olísstöð. Þar gekk vel að dæla í dekkið, dældi samt ekki nóg því enn var kvartað. Fór í vinnuna og var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum allt daglegt fyrir klukkan tólf og kreditendurnýjun um tvö. Vorum fjórar í vinnu en sú sem var að koma úr fríi fékk að "leika lausum hala" í skrifstofurýminu í gær. Um tvö tókum við upp sendingu af kortum og töldum. Það gekk mjög vel þótt við þyrftum að "klæða" kortakassana úr og í plast til að hægt væri að telja. Rétt fyrir þrjú var ég búin að stilla vinnupóstinn á "out of office", senda tímana í þessari viku til samþykktar, kveðja vinnufélagana með virktum þar á meðal einn sem mun hætta vegna aldurs í byrjun september. Kom við á fyrrum olísstöðinni og dældi betur í dekkið. Fór svo upp í Öskjuhlíð og þá var hægt að jafna þrýstinginn svo það hætti að kvarta. Ég hefði samt átt að drífa mig á dekkjaverkstæði að því loknu. En í staðinn dreif ég mig í sund. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið þegar ég var í annarri ferðinni og saman fórum við fjórar ferðir í kalda. Bauð strákunum út að borða á Pítuna og þá var farið að kvarta aftur undan þrýstingi í dekkjum. Dældum í dekkið á N1 í Borgartúni áður en við fórum heim. Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi fyrirliði kortadeildar í mig. Dóttir hennar sem var búin að fá Jansen sprautu var greind með delta afbrigðið af Covid-19 svo fyrirliðinn var komin í amk fimm daga sóttkví. Þar sem það verða að vera þrír starfsmenn á deildinni og ein er í sumarfríi úti á landi spurði hún mig hvort ég gæti hlaupið í skarðið, amk framyfir seinni sýnatöku. Ég sagðist geta það. Var ekki búin að plana neitt fyrstu dagana og veit að þá bætast bara við dagana í hinn enda frísins í staðinn. Þarna gat ég líka launað fyrir að hún frestaði sínu frí um nokkra daga þegar mamma lá banaleguna fyrir tæpum þremur árum.