Í gær var sjósundsdagur svo ég fór ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir tíu. Þá var ég búin að vera á fótum í tæpa fjóra tíma og vakandi í rúmlega fimm tíma. Bjó mér til hafragraut upp úr klukkan níu. Hitti kalda potts vinkonu mína á planinu við Nauthólsvík um það leyti sem verið var að opna. Sjórinn var 12,4°C og það var að flæða að. Fórum þrjár ferðir í sjóinn, eina í gufu og tvær í pottinn. Fórum upp úr um hálftólf. Ég kom við í bókasafninu í Kringlunni áður en ég fór heim. Skilaði 7 bókum af 9 og tók fjórar bækur í staðinn, allar með 30 daga skilafresti og frekar þykkar. Í hádeginu sauð ég ýsubita í einum potti og sæta kartöflu, brokkolí og gulrætur í öðrum potti. Fljótlega eftir hádegið skrapp ég út í smá göngu. Forritið í símanum skráði á mig 1,2km á korteri en þótt gangan hafi ekki verið mjög löng var hún í heildina eitthvað lengri því skrefin fóru yfir 4000. Sennilega spilar inn í að það var hringt í mig í miðri göngu og ég stoppaði í smá stund og rölti svo miklu hægar og stoppaði jafnvel öðru hvoru á meðan ég var að tala í símann. Á línunni var ein frænka mín og nafna, fimm árum eldri en ég. Eftir að ég kom heim aftur hringdi ég í pabba. Hann var bara nokkuð hress. Hafði lent í meira brasi með sláttuvélina en náði að gera við hana og klára að slá. Kveikti á sjónvarpinu stuttu fyrir fjögur og fylgdist með fyrsta leiknum á EM kvenna; Ísland - Finnland 0:1. Stelpurnar okkar voru ekki líkar sjálfum sér, amk ekki alveg eins ákveðnar og í æfingaleiknum fyrir nokkrum dögum. Fengu þó sín færi sem þær nýttu ekki. Kannski sló magakveisa fyrirliðans þær eitthvað út af laginu og ég veit að þær ætluðu sér að gera betur. Vonandi nýta þær færin sín betur í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum og ná hagstæðari úrslitum.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
3.7.25
2.7.25
EM að byrja í dag
Þetta er einn af þeim dögum sem byrja eldsnemma. Það snemma að mér fannst ekki tímabært að fara á fætur og byrjaði því daginn eins og ég endaði gærdaginn. Eftir að hafa skroppið fram á baðherbergi um fimm fór ég aftur upp í rúm og greip í bók. Er búin með tvo þriðju af bókinni; Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og er alveg heilluð. Gærdagurinn byrjaði ekkert svo seint heldur en þó ekki eins snemma, einhvers staðar á milli sex og hálfsjö. Samt var klukkan orðin átta þegar ég var loksins mætt í sundið. Var í heila tvo tíma og synti m.a. 700m. Ég fór líka í göngutúr í gær en bara stuttan, 1,5km á 20 mínútum. Notaði ferðina til að fara með gler og málm í gámana við upphafsenda Eskihlíðar. Annars var nú veðrið í gær upplagt fyrir mikla útiveru en ég var að sýsla við eitt og annað hér heima og gleymdi mér í mis gáfulegum og mis nauðsynlegum verkefnum.
1.7.25
Verkstæðismál
Korter fyrir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 700m á rúmum hálftíma. Hafði ágætis tíma til að fara í gufuna, sjópottinn og þrjár ferðir í þann kalda. Gat einnig gefið mér tíma í spjall við konu sem ég er nýfarin að hitta aftur í sundi og kemur nú aðeins tvisvar í viku um leið og opnar. Var mætt í Hátúnið í osteostrong um hálfníu og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var við mitt besta á tveimur öðrum. Kom klukkan að byrja að ganga tíu. Rúmum klukkutíma síðar hringdi ég á N1 verkstæðið við Ægisíðu og spurði hvort þeir gætu athugað bremsurnar og skipt um klossa ef þyrfti. Ég var beðin um að koma með bílinn til þeirra sem allra fyrst og dreif mig strax í það verkefni. Í ljós kom að það þurfti að skipta um diska og klossa að framan. Þeir sögðust geta afgreitt það samdægurs svo ég skildi bílinn eftir, nafn mitt og símanúmer og labbaði heim. Fór ekki alveg beinustu leið en það urðu rúmir 4km á tæpum 55 mínútum. Klukkan hálftvö var hringt í mig frá verkstæðinu til að láta vita að bíllinn væri tilbúinn. Var rúmar 40mínútur að labba 3,55km. Mátti gefa upp kennutölu N1 sonarins og fékk ágætis afslátt út á hana. Borgaði tæp 47þúsund en sú upphæð hefði farið yfir 60þúsund. Var komin heim fyrir klukkan hálfþrjú og lánaði Oddi bílinn til að reka einhver erindi. Skrefafjöldi dagsins var þarna kominn yfir 12þúsund. Kláraði annars að lesa enn eina bókina af safninu.
30.6.25
Síðasti júnídagurinn framundan
Þegar maður er sofnaður fyrir klukkan hálfellefu er kannski ekkert svo skrýtið að vera vaknaður fyrir klukkan hálfsex. Ég er klædd og komin á ról og mun gera líkt í sl. mánudag; mæta snemma í sund og fara svo beint í osteostrong tíma um hálfníu. Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt rúmlega átta. Synti 500m á braut átta og fór 3x5 mínútur í þann kalda. Ég var komin heim aftur á ellefta tímanum. Var að sýsla við ýmislegt mis gáfulegt fram eftir degi. Ein nafna mín og frænka hringdi í mig um þrjú og við spjölluðum í hátt í klukkustund. Svo hringdi ég í pabba. Hann var hress en ekki alveg eins hress með sláttuvélina sína. Hún gafst upp áður en hann var búinn að slá. Sennilega vantar nýtt kerti í hana. Rétt rúmlega fjögur lagði ég af stað í göngutúr, nokkuð stóran hring í kringum Öskjuhlíðina. Settist niður í 10 mínútur eftir rúma 4 km og uþb 50 mínútna göngu. Var tæpan hálftíma að labba 2,2 km heim eftir að ég hélt för áfram. Veðrið var dásamlegt, milt og gott og ég var næstum alla gönguna á stuttermabol með peysuna bundna um mittið á mér.
29.6.25
Sunnudagur
Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Mætti í Laugardalslaugina um átta, rétt eftir að að var opnað. Fór beint á braut 7 og synti 600m. Fór 3 ferðir í þann kalda, eina í gufu, eina í sjópott, eina í heitasta og eina í nuddpottinn. Var svo mætt vestur í bær til norsku esperanto vinkonu minnar rétt rúmlega tíu. Við lásum 2 bls. í Kon-Tiki. Svo var ég komin heim um hálftólf leytið. Var að dútla við ýmislegt, m.a. það sem ekki má skrifa um. Klukkan var því að verða fjögur þegar ég skrapp loksins út í smá göngutúr. Labbaði tæpa 4km á þremur korterum og settist svo aðeins niður á bekk á Klambratúninu. Kom heim um hálfsex leytið. Kvöldið leið hratt. Þriðju vikuna í röð vann ég á áskriftamiðann minn í lottó. Var með 3 rétta. Í síðustu viku var ég með tvo rétta og bónus og vikuna þar á undan 4 rétta. Þegar ég ætlaði að slökkva á sjónvarpinu stuttu fyrir klukkan tíu "festist" ég yfir sannsögulegri mynd sem verið var að sína á RÚV. Fór því óvanalega seint í háttinn í gær. Las samt nokkrar bls. í tveimur af bókasafnsbókunum áður en ég fór að sofa.