6.2.23

Á blund-takkanum

Svaf til klukkan að byrja að ganga níu í gærmorgun. Korter yfir níu lögðum við sonurinn af stað upp á Gagnveg, skiltið á bílnum ég í farþegasætinu fram í og Davíð Steinn í bílstjórasætinu. Úti var grátt og blautt og svolítil hraðferð á logninu. Ferðin gekk þó mjög vel fyrir sig. Ég ákvað að þyggja kaffi út í bíl áður en ég fór aftur beinustu leið heim. Hugsanlega hefði ég haft gott af því að skreppa aðeins í sund og gufu en ég ákvað að skrópa í gær. Fór ekkert aftur út en horfði á einn leið í enska, nokkra þætti af ýmsu efni, m.a. fyrsta þáttin af "Stormur" og svo númer tvö af átta þegar hann fór í loftið eftir fréttir og Landann. Prjónaði slatta af nýjustu tuskunna á prjónunum og hringdi líka í pabba. 

5.2.23

Sunnudagur

Var vöknuð og komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég ágætan tíma til að vafra aðeins um á netinu. Tíu mínútum yfir sjö lögðum við mæðgin af stað. Ég setti skiltið um æfingaakstur á skottlokið fyrir ofan númeraplötuna og settist í farþegasætið fram í á mínum bíl. Í Ártúntbrekkunni kom smá hríð og skyggnið varð aðeins verra en Davíð Steinn komst vel í gegnum þá prófraun. Rétt fyrir hálfátta vorum við komin upp á N1 við Gagnveg. Ég tók skiltið af bílnum, færði mig í bílstjórasætið og hinkraði eftir að sonurinn færði mér kaffibolla. Var komin á planið við Laugardalslaugina tæpu korteri áður en opnaði. Sat út í bíl, kláraði kaffið og hlustaði á morgunfréttir áður en ég fór í sund. Synti 400m, þar af 350 á bakinu. Fór eina ferð, þrjár og hálfa mínútur í kalda pottinn, tíu mínútur í gufu og aðrar tíu í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Kom heim um hálftíu. Klukkutíma seinna setti ég í eina þvottavél og skrapp svo í smá stund vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Við slepptum esperantóinu en ég þáði hjá henni graut og kaffi. Var komin heim aftur um hálftólf. Fór ekkert aftur út. Aðeins eina ferð í þvottahúsið til að hengja upp. Kláraði að prjóna eina tusku og fitjaði upp á annarri, óróa, úr bókinni sem ég fékk í jólagjöf. Horfði á fótboltaleiki og nokkra þætti. Las og kláraði bók sem ég gaf sjálfri mér; Gauksunginn eftir Camillu Lackberg. Byrjaði á þeirri bók fyrir meira en viku.

4.2.23

Grand, pass eða nóló

Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Mætti til vinnu um hálfátta. Ég og sú fjórða vorum á vélarvaktinni og að þessu sinni var hún allan daginn á ítroðsluendanum. Var henni innan handar á meðan hún var að hlaða inn fyrstu verkefnum dagsins. Svo ákvað hún sjálf að framleiða aðeins eina tegund í einu sem mér fannst mjög skynsamlegt. Hægt er að framleiða þær tegundir saman sem er hlaðið inn eins en þeim fer nú reyndar fækkandi í flestum verkefnum hjá okkur því breytingar og frávik frá plasti gera það að verkum að búa þarf til ný "load" fyrir margar af tegundunum. Klukkan var orðin tíu þegar við skruppum upp í kaffi. Þá vorum við búnar með fyrsta verkefnið og langt komnar með að telja. Urðum að loka og læsa öllu því það komu gestir úr einum bankanum í hús og alla leið niður á gang. Þótt þeir mættu ekki koma inn í framleiðslurýmið mátti heldur ekki vera neitt í gangi þar inni. Vorum langt komnar með debet daginn þegar við skruppum í mat um tólf. Framleiðslu lauk um tvö og búið var að telja, pakka og ganga frá deildinni rétt fyrir hálfþrjú. Þá átti sú sem var í bókhaldinu bara eftir að útbúa póstmiða með þeim kortum sem voru að fara í póst en ekki útibú. Ég stimplaði mig út korter fyrir þrjú. Var með sunddótið með mér en í stað þess að drífa mig í sund burraði ég alla leið inn í Hafnarfjörð á AO við Kaplakrika og fyllti á tankinn. Það var rigning og mikil bleyta og vatnselgur sums staðar á leiðinni og umferðin farin að þyngjast. Kom heim fyrir klukkan fjögur. 

3.2.23

Rúmlega sex

Það þurfti að sópa af bílnum í gærmorgun en það tók svo sem enga stund því snjórinn var ekki fastur á. Hins vegar var ég ekki skynsöm í skóvali þótt það hafi sloppið til í gærmorgun. Slabbið, krapið og rennandi vökvinn var þannig að það var betra að stíga varlega til jarðar og ekki hvar sem er. Var mætt í vinnu um hálfátta. Um átta fór ég niður með fjórðu manneskjunni. Höfðum sama háttinn á. Ég byrjaði á ítroðsluendanum og var þar fram að kaffi. Vorum í miðju kafi þegar öryggiskerfið fór allt í einu á. Þá var viðgerðarmaður búinn að "brjóstast" inn til okkar um neyðarhurðina. Þessi maður var að leita að myntherberginu og hafði ekki komið síðan kortadeildin bættist við. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Þegar daglegri framleiðslu var lokið, sem var yfir ellefu hundruð kort, skiptum við aftur um enda. Áttum aðeins eftir um tvöhundruð kort af níuhundruð í endurnýjun þegar við urðum að pakka saman. Klukkan var orðin þrjú. Við höfðum ætlað að klára þessa endurnýjun en urðum að víkja fyrir manneskju sem kom til að setja upp rakamæla í herbergið. Ekki má vera með framleiðslu í gangi á meðan utanað komandi aðilar eru á kortagerðarsvæðinu. Ég var því að labba út af vinnustaðnum um hálffjögur. Fór beint heim. Um átta leytið um kvöldið skrapp ég svo með Davíð Steini sem farþegi í hans bíl í klukkutíma æfinga akstur.

2.2.23

Aðeins lengri vinnudagur

Var vöknuð um sex í gærmorgun og er því greinilega að komast í ákveðna rútínu aftur. Mætti í vinnuna um hálfátta. Ég byrjaði á ítroðsluendanum fram að kaffi. Fjórða manneskjan var með mér. Eftir kaffi fékk hún sinn eigin aðgang að framleiðsluvélinni og við skiptum um stað. Fyrirliðinn leysti mig af í mat rétt fyrir tólf en um það leyti fór vélin að vera með smá vesen. Um hálftvö leytið skiptum við yfir í nýjustu kortin fyrir  nýjustu sparisjóðina sem auglýsa mikið þessa dagana. Höfum verið að framleiða fyrir þá tvo daga í viku en nú vilja þeir fara að fá kortin sín daglega. Framleiddum síðast fyrir þá á mánudaginn og þá voru þetta innan við þrjátíu kort. Í gær var heildarfjöldinn hátt í tvöþúsundogsjöhundruð kort. Þessi kort fara ekki á nein form, þeim er pakkað annars staðar, en við vorum nú samt tæpa þrjá tíma að framleiða þennan helling. Klukkan var því um hálffim þegar ég fór heim úr vinnu. Umferðin var orðin þyngri og ég tæpu korteri lengur á leiðinni heim. Bræðurnir fengu lánaðan bílinn til að fara í eina sorpuferð og Davíð Steinn notaði tækifærið og verslaði inn fyrir sjálfan sig í leiðinni. Við mæðgin fórum ekki á rúntinn í æfingaakstur í gærkvöldi. Held að hvorugt okkar hafi nennt.