26.7.24

Síðasti föstudagurinn í júlí

Vaknaði á slaginu sex í gærmorgun, tuttugu mínútum áður en vekjarinn átti að hnippa í mig. Var útsofin eftir átta tíma svefn. Rámar aðeins í að ég hafi rumskað um miðja nótt, en svo stutt að ég er ekki viss nema það hafi verið draumur. Þegar ég kom fram tók ég eftir því að ferðalangurinn var búinn að skila sér heim. Gleymdi að minnast á að eftir sjósundið á miðvikudaginn stalst ég til að leggja bílnum í smá stund við Austubæjarskóla. Skrapp í jurtaapótekið að verða mér úti um brenninetlu til að prófa og labbaði smá hring í leiðinni. Annars var gærdagurinn alveg jafn fljótur að líða og flestir aðrir dagar. Var komin í vinnu um hálfátta. Fyrrum fyrirliði fór niður að hlaða inn nýjustu kortaskránum og ég tók saman bókhaldið en annars vorum við í innleggjum. Það var ekki stór dagur og það margar hendur á dekki að stundum þurfti að bíða eftir verkefnum. Var komin í sund upp úr klukkan þrjú. Synti 400m og fór 3x4mínútur í þann kalda. Samkvæmt plani átti að sturta magnesíumflögum í nuddpottinn klukkan fjögur. Planið gekk samt ekki upp í gær því okkur var sagt að það hefði riðlast til um daginn (þennan eina dag vikunnar sem þetta er gert) og yrði ekki fyrr en klukkan fimm. Á spjaldinu við pottinn stendur: Kl 7:00, 12:00, 16:00 og 20:00. Ég nennti ekki að bíða til klukkan fimm, náði mér bara í smá magnesíum í sjópottinum í staðinn. 

25.7.24

Í sjóinn í gær

Aftur var ég frekar snemma á fótum, útsofin á sjötta tímanum í gærmorgun. Morguninn fram að vinnu tíma er samt alltaf frekar fljótur að líða hvort sem ég hef hálftíma eða tvo tíma. Reyndar eru flestir dagar afar fljótir að líða í heildina og gærdagurinn var engin undantekning. Það var framleiðsludagur og ég var í bókhaldinu og á móttöku endanum. Afgreiddum framleiðsluna á rúmum klukkutíma. Milli tíu og tvö vorum við fyrrum fyrirliði að taka saman, flokka og telja ónýt kort alveg frá því í nóvember. Þegar það allt var komið heim og saman og alveg búið að ganga frá kortadeild og hvelfingu tókum við nokkur innlegg til að flýta fyrir vinnunni uppi. Allt var búið um þrjú. Hringdi og talaði við pabba á meðan ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Davíð Steinn var enn hjá honum að gæða sér á nýsteiktum pönnsum. Sonurinn var samt farinn að huga að brottför. Óð "hálfa" leið til Kópavogs í sjónum því það var mikil fjara. Fór reyndar langleiðina út að kaðli og aftur til baka. Hefði getað vaðið þetta og gerði það á köflum en annars svamlaði ég á bakinu. Tók þó einstaka sinnum skrið og bringusundstök. Var hálftíma í 11,4°C sjónum, fimm mínútur í gufu og korter í heita pottinum eftir kalda sturtu. Fór ekki aftur út í sjó svo að þessu sinni þvoði ég mér um leið og ég skolaði úr sundbol og strandskóm. Á snap-kortinu sá ég að Davíð Steinn var kominn í heimsókn til ömmu sinnar um fimm leytið.

24.7.24

Vika eftir af júlímánuði

Dagurinn í gær byrjaði nokkuð snemma. Rumskaði semsagt upp úr klukkan fimm og fann fljótlega að ég var eiginlega útsofin þótt ég hafi ekki alveg náð sjö tíma svefni. Tíminn fram að vinnutíma leið mjög hratt við netvafr, blogg og æfingar. Mætti í vinnu um hálfátta. Þriðjudagar eru stórir dagar og gærdagurinn var enginn undantekning. Höfðum það samt af að klára yfir sextánhundruð innlegg fyrir klukkan hálffjögur. Ég fór beint í sund eftir vinnu og hitti strax á kalda potts vinkonu mína. Hún var þá þegar búin að fara eina ferð í kalda. Fórum fjórum sinnum saman í kalda. Eftir síðustu ferðina synti ég aðeins 100m áður en ég fór upp úr og heim. - Annars ætlaði ég að segja frá því að í kringum áttunda júli fékk ég áminningu frá bókasafninu um að skiladagur væri að nálgast. Ég var búin að lesa þrjár af þeim fjórum bókum sem ég var með að láni. Ákvað að framlengja skilafrestinum á öllum bókunum og gefa mér tíma til að lesa; Ættarfylgjan eftir Ninu Waha.  Það eiga reyndar að vera tveir punktar yfir báðum ö-unum en lyklaborðið er ekki að vinna með mér í að finna út leið til að skrá þá. Engu að síður er bókin góð en ég á þó enn eftir að lesa síðustu 100 bls af tæplega 500 bls bókinni.

23.7.24

Smá vinna, útför og kistulagning í gær

Vaknaði um fimm leytið í gærmorgun. Var komin á fætur um hálfsex. Vafraði um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu en stuttu fyrir sjö greip ég aðeins í prjónana mína áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Stimplaði mig inn í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fyrirliðinn var komin úr fríi og þegar fyrrum fyrirliði kom úr sjúkraþjálfun vorum við fjórar kortadömur á svæðinu. Sumarliðinn okkar fór niður að hlaða inn skrám en tókst ekki að kveikja á fartölvunni til að fylla út skiptiblöð. Kom með fartölvuna upp og skiptinguna handskrifaða. Ég var í innleggjum fram að kaffi en var líka í kortabókhaldinu. Mér tókst ekki að "vekja" fartölvuna svo ég leitaði ráða hjá tæknimanni í gegnum teams. Hann sagði mér að halda inni starthnappnum í 30 sekúndur, sem ég gerði. Svo kom fyrirliðinn og tók tölvuna, ætlaði að setja hana í samband við aðra hleðslustöð. Á leiðinni yfir að sínu svæði smellti hún á starthnappinn og tölvan vaknaði til lífsins. Stimplaði mig út úr vinnu eftir fjóra tíma. Samstarfsmaður til margra ára, var oft mikið í kortamálunum, var að missa konuna sína um daginn. Útförin fór fram í Háteigskirkju klukkan eitt og ég var búin að fá leyfi til að fara. Það var nánast full kirkja. Stundin var mjög falleg en smá erfið á köflum. Yngsta dóttir þeirra var í árgangi með tvíburunum í Hlíðaskóla og sú elsta leigði risíbúðina fyrir ofan mig í eitt ár fyrir nokkrum árum. Boðið var upp á veitingar í safnaðarheimilinu eftir kirkjuathöfnina. Ég fór eingöngu þangað til að votta vinnufélaganum og börnum hans samúð mína en svo dreif ég mig beint austur. Var komin til pabba fyrir klukkan fjögur. Við urðum svo samferða á hans bíl yfir á elliheimilið stuttu fyrir fimm. Einn systur-sonar-sonur pabba er prestur og hann tók að sér að stýra kistulagningu ömmu sinnar. Mjög falleg athöfn og gott að fá að taka þátt í henni, kveðja aldraða föðursystur og knúsa margt af fólkinu hennar. Eftir athöfnina var öllum boðið í súpu og spjall á Maríuvöllum. Við pabbi komum aftur í Hólavanginn um sjö leytið. Ég staldraði við í tvo tíma, fór í smá kaplakeppni við pabba (hann hafði betur), því ég vissi að von væri á Davíð Steini sem er að verða búinn að fara hringinn. Hafði tjaldað á Höfn kvöldið áður. Gat því gefið syninum fyrirfram afmælisknús áður en ég fór heim. 

22.7.24

Strembinn dagur framundan

Þrátt fyrir að vera komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun fór ég ekki í sund fyrr en stuttu fyrir tíu. Hitti þá beint á kalda potts vinkonu mína og við fórum beinustu leið í þann kalda. Yfirleitt vill hún byrja á heitasta pottinum og enda á honum líka. Fórum fimm ferðir í þann kalda og ég fór í alla hringpotta, gufu og sjópott á milli. Eftir fimmtu ferðina fór ég á braut 7 og synti 300m en vinkona mín í steinapottinn ásamt einni systur sinni. Vorum búnar að kveðjast en eftir sundið ákvað ég að fara sjöttu ferðina í þann kalda og þá var hún líka að fara sína sjöttu ferð. Hún fór svo í þann heitasta en ég settist smá stund á stól áður en ég fór upp úr og heim. Gerði annars alls konar í gær en hluti af því skrifa ég sjaldnast um. Skrapp í stutta göngu, með bók og sólgleraugu meðferðist. Settist á bekk rétt hjá Veðurstofu Íslands og las nokkrar blaðsíður. Ferðin á logninu var þó heldur of hröð svo ég hélt för áfram fljótlega og kláraði smá hring um hverfið.