19.1.25

Tilraunir

Svaf til klukkan hálfsjö. Var komin í sund rúmum tveimur tímum síðar. Synti 600m á braut 6, langflesta á bakinu en smá skriðsund líka en ekkert bringusund. Fór aðeins eina fimm mínútna ferð í kalda pottinn. Var um tuttugu mínútur í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum. Þvoði mér um hárið og var svo komin heim um ellefu. Enginn esperanto hittingu þessa helgina. Var eitthvað að spá í að skreppa í verslunarleiðangur en ákvað svo að það gæti alveg beðið í einn til tvo daga. Restin af deginum fór í alls konar dútl, s.s. lestur, prjón, þátta- og íþróttaáhorf. Davíð Steinn hringdi í mig alla leið frá Svíþjóð til að spyrja hvort og þá hvað hann ætti að kaupa handa mér. Ég sagðist bara vilja fá hann heilan heim. Hann sagði mér frá því að hann hefði gleymt bakpokanum sínum í lestinni milli Danmerkur og Svíþjóðar. Hefði sett hann í hillu svo hann væri ekki fyrir og var svo mikið að hjálpa vinkonu sinni með hennar dót þegar þau fóru úr lestinni að hann gleymdi að taka bakpokann og uppgötvaði það ekki fyrr en lestin var farin. Í bakpokanum voru föt til skiptana, hleðslutæki og snúra. Þegar hann fékk loksins samband við einhvern á vegum lestarinnar sem var viljugur að hjálpa þá er niðurstaðan sú að þeir sem geta athugað með pokann eru með lokað yfir helgina og þetta verður ekki athugað fyrr en á morgun, mánudag. Þá verður pilturinn kominn heim úr ferðalaginu. Meira um þetta mál síðar. 

18.1.25

Í sjóinn í gær

Klukkan var rétt að verða fimm þegar ég vaknaði í gærmorgun. Heldur snemma en ég var samt alveg tilbúin í daginn. Gat gert extra æfingar og það var nógur tími fyrir alla rútínu og netvafr. Mætti í vinnu um hálfátta. Fram að kaffi var ég í innlögnum en upp úr tíu fórum við fyrrum fyrirliði niður í kortahvelfinguna að pakka kortum. Slatti af kortum fór í þó nokkra kassa. Eftir hádegi fórum við aftur niður og til stóð að halda áfram að pakka niður en fyrst fórum við í að sortera öll kort sem hafa orðið ónýt í framleiðslu síðustu rúmu tólf mánuði. Þótt búið væri að sortera meiri helminginn af þeim fyrir nokkrum vikum og það væru ekkert svo stórir bunkar af ónýtu plasti þá tók þetta sinn tíma. Þar að auki var öll önnur starfsemi búin fyrir tvö svo við hættum og gengum frá þegar við vorum búnar að flokka, staðfesta. Gengum frá upp úr klukkan tvö og fórum upp. Þá voru aðeins framkvæmdastjórinn og sú sem er yfir innlögnunum eftir. Fórum aðeins yfir málin með framkvæmdastjóranum en ég var komin í Nauthólsvík og sjóinn rétt fyrir þrjú og heim um fjögur leytið.

17.1.25

Landsleikir

Vaknaði rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Sinnti allri morgunrútínu og æfingum með lóð. Mætti í vinnu um hálfátta. Var aðallega að vinna í innleggjum í gær en við fyrrum fyrirliði fórum eina hálftíma ferð niður og inn á kortalager. Rétt fyrir hádegi skrapp ég niður í kortadeild með tveimur kerfis-sérfræðingum frá Dalveginum. Öllum verkefnum var lokið um hálfþrjú. Fór beint í sund. Synti 400m á 20 mínútum fór þrjár þriggja mínútna ferð í þann kalda og var aðeins 10 mínútur í gufu og aðrar 10 í sjópottinum. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég fór upp úr og ákvað að heimsækja vinnufélagann sem hefur verið á Grensásdeild síðan 8.desember sl Hann var að búa sig undir að fara í afmæli en þau konan hans voru ekkert að flýta sér og gáfu sér tíma til að spjalla aðeins við mig. Nýliðin nótt var hans síðasta en eftir helgi bætir hann bara á dagdeild í æfingar en fær að sofa heima hjá sér. Gott að sjá hversu vel gengur miðað við hversu slæmt slysið var en hann og hundurinn hans uður fyrir bíl seint í nóvember. Var komin heim um hálfsex leytið, tæpum tveimur tímum fyrir fyrsta leik kalraliðsins í handbolta á HM.

16.1.25

Einbeiting

Var mjög ánægð þegar ég vaknaði rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun, alveg útsofin og heldur betur til í daginn. Tók pásu frá æfingum með lóð en að öðru leyti var morgunrútínan mjög svipuð. Vinnudagurinn var í styttra lagi en alls konar. Fyrstu verklotu lauk heldur snemma eða um níu og næstu verk komu ekki inn fyrr en langt gengin í ellefu. Í millitíðinni heimsóttu okkur formaður starfsmanna félagsins og fjórir af sex trúnaðarmönnum fyrirtækisins. Einn af þessum fjórum hefur verið í veikindaleyfi sl mánuði og er þar að auki að fara að hætta vinnu fljótlega vegna aldurs. Ég þekkti allt þetta fólk og líka þessa tvo sem ekki komust. En það var mjög gott að fá þessa heimsókn og frábært að geta gefið sér svo góðan tíma. Við fyrrum fyrirliði fórum eina ferð niður í hvelfingu kortadeildar til að taka niður þrjá innsiglaða kortakassa og senda upp með annarri lyftunni. Þetta verður sótt fljótlega. Ég fór líka niður í kortadeild eftir hádegi með viðgerðar/yfirferðar manni sem hafði verið beðinn um að taka niður einhver "log" af vélinni á usb lykil. Það tók hátt í klukkutíma. Þegar ég kom upp aftur um tvö var allt að verða búið. Stimplaði mig út og fór um hálfþrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Hringdi í heimasímann en hann sagðist hafa skroppið í bæinn á þriðjudaginn og keypt sér nýjan gsm síma í Elkó í skeifunni svo ég hefði getað hring í þann síma. Var komin í sjóinn um þrjú. Hann var komin í 3,7°C gráður og fór ég eina tíu mínútna ferð út í og sat svo korter í pottinum áður en ég fór upp úr og hringdi í nöfnu mína og hálfdanska frænku sem býr á Vestugötunni. Þrátt fyrir að hún væri á kafi í tiltekt og ætti von á gesti í kvöldmat sagði hún að ég væri velkomin að kíkja. Var komin til þeirra um fjögur og stoppaði í svona þrjú korter. Fékk góð knús og einnig athygli frá kisu, Pixý sem virtist alveg muna eftir mér. Annars flaug N1 sonurinn út til Danmerkur sem fylgdarmaður fyrir eina vinkonu sína snemma í gærmorgun. Þau tóku lest til Svíþjóðar og vinkonan er á leið í aðgerð í dag og má alls ekki lyfta neinu næstu dagana. Þess vegna fór Davíð Steinn með. Þau koma heim aftur n.k. sunnudag. 

15.1.25

Vangaveltur

Enn og aftur var ég vöknuð eldsnemma, öðru hvoru megin við fimm. Þegar ljóst varð að ekkert þýddi að reyna að kúra sig niður kveikti ég á náttborðs lampanum og greip í eina bókina á náttborðinu. Um síðustu helgi lánaði esperanto vinkona mín mér nýjustu bókina eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Ég lauk reyndar við að lesa þá bók strax um helgina. Ein af bókunum sem ég keypti þegar ég var að kaupa jólagjafirnar var árituð nýjasta bókina hans Ragnars Jónassonar, Dimma! Er langt komin með hana. Gæti svo sem verið búin ef ég væri eingöngu að lesa eina bók í einu sem ég er alls ekki að gera. Er að lesa seinni bókina af safninu og eina af bókunum sem ég fékk í jólagjöf, eftir Evu Björgu Ægisdóttur. Held að ég hafi lesið allar bækurnar sem hafa komið út eftir hana og þetta er sú nýjasta. Annars gekk vinnudagurinn í gær vel fyrir sig og var búinn frekar snemma miðað við að þriðjudagar eru yfirleitt stórir dagar. Ég var amk byrjuð að synda korter yfir þrjú í gær og vorum við á sama tíma kalda potts vinkona mín og ég. Syntum 500m og gáfum okkur einnig góðan tíma í potta- gufu- og sjópottsrútínu. Held að sundferðin hafi varið í rétt rúma tvo tíma. Hélt að ég hefði sett af stað forrit í samsung health á símanum en komst svo að því þegar ég var búin að klæða mig í útiskóna frammi á gangi að það hafði amk ekki farið í gang. Þar með gat ég heldur ekki skráð niður alla serimoníuna, lengd sunds og ferðir í þann kalda. Svona er þetta nú bara stundum. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti mér harðfisk og fiskibollur. Klukkan var langt gengin í sex þegar ég kom heim. Kvöldið fór í að horfa á fótbolta, smá handbolta og leysa flækju.