30.6.22

Tveir vinnudagar í viðbót

Þrátt fyrir að veðrið væri tilvalið til göngu í gærmorgun ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna og tók sunddótið með mér. Ég var á ítroðsluendanum en það var smá basl að koma framleiðsluvélinni í gang. Þurfti að taka hana niður og endurræsa þrisvar sinnum áður en hægt var að hefja framleiðslu. Fyrsti daglegi skammtur var þó tilbúinn rétt rúmlega níu. Byrjuðum á einni tegund í næstu framleiðslu áður en sú sem var í bókhaldinu útbjó fyrstu tölur og talningu. Töldum áður en við fórum í kaffi. Næstu framleiðslu lauk um það bil sem þriðja og síðasta framleiðslan, hádegisskammturinn, skilaði sér til okkar. Daglegri framleiðslu lauk korter yfir tólf. Eftir hádegi kláruðum við að pakka og telja áður en við snérum okkur að endurnýjun. Endurnýjuðum 1000 kort. Hættum framleiðslu rétt fyrir hálffjögur og vorum búnar að taka saman og ganga frá rúmu korteri síðar. Ég átti svo að fá að halda áfram í fríi. Hafði samt eitthvað á tilfinningunni að ég væri ekki alveg laus. Dreif mig í sundhöllina og í klefanum þar vatt sér að mér 3-4 ára stúlkubarn sem sagði að ég væri voða flott kona. Fór beinustu leið í kalda pottinn og ætlaði svo upp í innilaug. Þar var mikið fjör á stóra stökkbrettinu svo ég fór í heitasta pottinn, annan af elstu pottunum, í nokkrar mínútur. Allt var orðið rólegt í innilauginni eftir pottferðina svo ég fór á braut 1 og synti í korter áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Var komin heim um hálfsex. Þá biðu mín skilaboð frá yfirmanni að sú sem var í fríi síðustu vikuna væri komin með covid-19 og var ég spurð hvort ég gæti unnið fram að helgi. Ég samþykkti það og ætti svo að fá að halda áfram með fríið til og með 25. júlí.

29.6.22

Síðasti útkallsdagur

Vaknaði um sex. Sá til þess að vekjarinn myndi ekki hringja á sínum tíma og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu þar til kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Vorum bara tvær í vinnu í gær. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég mætti til að prenta út fyrstu framleiðslutölur var að ein skráin var á núlli. Sendi póst til að kanna málið og þegar leið á morguninn kom í ljós að um bilun hafði verið að ræða. Skráin kom til okkar um tíu. Á meðan unnum við í hinni daglegu skránni. Ég var á móttökuendanum og í bókhaldinu. Það sem venjulega er tilbúið til afhendingar kláraðist um hálftólf. Vorum til klukkan hálfeitt að klára allt daglegt. Eftir hádegi urðum við að afhenda framleiðsluvélina. Við töldum, pökkuðum og gengum frá og ákváðum svo að stinga af um þrjú. Ég fékk far heim úr vinnunni og fór ekkert út aftur. Aðeins niður í þvottahús að sækja þvott af snúrunum. Er byrjuð að lesa skammtímalánsbókina sem er yfir fimmhundruðogtuttugu blaðsíður. Er búin með fyrstu 140 blaðsíðurnar. 

28.6.22

Þriðjudagur

Sem oftast áður vaknaði ég nokkru áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Slökkti á henni og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu þar til kominn var tími til að labba í vinnuna. Ég var á ítroðsluendanum með lánsmanneskjuna með mér á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk um hálfeitt. Eftir hádegi héldum við áfram endurnýjun til klukkan að verða hálffjögur. Sú sem var í bókhaldinu hélt áfram að flokka kennispjöld þegar bókhalds og pökkunarvinnu var lokið. Hún bauð mér far heim eftir vinnu sem ég þáði. Stoppaði heima í tæpa klukkustund en þá tók ég bókasafnspokann og sunddótið með mér. Fór fyrst á safnið og skilaði fjórum bókum. Fann sex aðrar, sem samtals eru yfir tvöþúsundogfjögurhundruð blaðsíður. Hélt að þær væru allar á 30 daga skilafresti því ég fór ekkert í rekkann með nýjustu bókunum. Samt var eina af þessum sex ný og með 14 daga skilafresti. Bók sem er yfir 500 blaðsíður. Af safninu fór ég í Sundhöllina. Settist fyrst í kalda pottinn rétt fyrir hálfsex. Fór svo á braut 1 í innilauginni og synti 300 metra áður en ég fór beint í þann kalda aftur. Svo smá stund í gufu og uþb tvær mínútur á bekk úti áður en ég fór upp úr og heim aftur. 

27.6.22

Mánudagur

Ég var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Vafraði um á netinu í rúman klukkutíma. Rétt áður en ég skutlaðist með Davíð Stein upp á N1 við Gagnveg setti ég uppþvottavélina í gang. Eftir skutlið ákvað ég að fara í sund í Grafarvogslaug. Synti í um 15 mínútur, fór þrisvar sinnum í kalda pottinn, einu sinni í heitan pott og einu sinni í gufu. Var komin heim aftur um ellefu leytið. Uppþvottavélin var búin. Tók til nokkrar óhreinar flíkur og fór með niður í þvottahús. Rúmum tveimur tímum síðar fór ég aftur niður og hengdi upp úr vélinni. Annars er mest lítið að frétta. Er búin að lesa allar bækur sem ég er með af safninu en bókasafnið er lokað á sunnudögum í sumar. Þá kemur sér vel að eiga ólesnar "jóla/afmælisgjafa" bækur. 

26.6.22

Síðasti sunnudagur júnímánaðar

Vaknaði rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Dreif mig á fætur og gaf mér tíma til að vafra um á netinu og setja inn færslu á þessum vettvangi. Davíð Steinn kom fram rúmlega sjö. Ég skutlaði honum upp á Gagnveg og þáði kaffibolla í staðinn. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. Ég er skráð með ferðavikur núna en það er meiri afsláttur á ódýrustu stöðunum heldur en á öllum hinum þrátt fyrir afslátt á hinum en ekki á þeim ódýrustu. Næst lá leiðin í Sundhöllina. Lagði á stæði við Austurbæjarskóla líkt og ég geri oftast. Var komin í kalda pottinn rúmlega átta tuttugu og rétt fyrir hálfníu fór ég á braut eitt í innilauginni. 48 mínútum síðar var ég búin að synda 1000 metra, 40x25 og langflestar ferðirnar á bakinu. Synti 6x25 skriðsund og 4x25 bakskriðsund og allar hinar baksund. Semsagt engin bringusundsferð. Settist svo aðeins út í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í þann kalda og svo gufuna. Eftir gufuferðina fór ég í útisturtuna og eina enn ferð í þann kalda. Settist svo smá stund á bekk áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Eftir sundið fór ég á þvottastöðina við Fiskislóð og keypti eina ferð fyrir bílinn. Að lokum kom ég við í Krónunni þar skammt frá og verslaði smávegis inn. Kom heim aftur upp úr klukkan ellefu. Gekk frá vörunum og fitjaði svo upp á nýrri tusku með drekamynstri.