Vaknaði næstum því klukkutíma áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Fór á fætur uþb hálftíma síðar og hafði samt góðan tíma í morgunverkin og netvafrið áður en tími var kominn til að fara í vinnuna. Þangað var ég mætt upp úr klukkan hálfátta. Var mætt fyrst úr kortadeildinni og byrjaði því á því að fara niður og kveikja á kortavélinni þar sem sá sem er í afgreiðslunni var búinn að taka öll kerfin af. Fyrrum fyrirliði var áfram í innleggjum og fyrir liði tók að sér bókhaldið sem kom sér vel því hún var að fara á fund um miðjan morgun. Það var því A-teymið, Auður og Anna sem tóku að sér framleiðsluvaktina, hún nr1 og ég á móttökuendanum. Daglegu kortin í heildina náðu ekki 600. Framleiddum rúmlega 400 fram að hádegi. Vélin var í ágætis gír. Hefðum klárað þetta um tólf en okkur lá ekkert á og sú fjórða þurfti að skreppa aðeins yfir í hraðbankamálin bæði fyrir og eftir hádegi. Vorum búnar að ganga frá deildinni og slökkva á vélinni fyrir klukkan tvö og þá tók ég klukkutíma í að fara yfir innlegg áður en ég fór heim.
Um fimm keyrði einkabílstjórinn mig niður í Katrínartún. Þar var tímamótum RB fagnað milli 17 og 19. Þarna var margt um manninn. Mörgum hafði verið boðið, bæði núverandi og fyrrverandi RB-ingum, stjórn RB, og samstarfsaðilum reiknistofunnar. Boðið var upp á alls konar smárétti og drykki, hljómsveit sem nokkrir starfsmenn RB skipa spilaði bæði á undan og eftir ræðum forstjóra og formanns stjórnarinnar og einnig söng kór RB. Allt mjög gott og flott. Hitti fullt af fólki bæði RB-inga á eftirlaunum og einnig RB-inga sem eru með sínar starfstöðvar í Katrínartúni og eða heima hjá sér. Held að við höfum aðeins mætt þrjú úr seðlaverinu, framkvæmdarstjórinn og sá sem er í myntinni. Hann vann áður bæði hjá sparisjóðum og einnig arion. Hann skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en annars var einkabílstjórinn alveg tilbúinn að koma og sækja mig.