24.3.23

Föstudagur enn á ný

Vaknaði næstum því klukkutíma áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Fór á fætur uþb hálftíma síðar og hafði samt góðan tíma í morgunverkin og netvafrið áður en tími var kominn til að fara í vinnuna. Þangað var ég mætt upp úr klukkan hálfátta. Var mætt fyrst úr kortadeildinni og byrjaði því á því að fara niður og kveikja á kortavélinni þar sem sá sem er í afgreiðslunni var búinn að taka öll kerfin af. Fyrrum fyrirliði var áfram í innleggjum og fyrir liði tók að sér bókhaldið sem kom sér vel því hún var að fara á fund um miðjan morgun. Það var því A-teymið, Auður og Anna sem tóku að sér framleiðsluvaktina, hún nr1 og ég á móttökuendanum. Daglegu kortin í heildina náðu ekki 600. Framleiddum rúmlega 400 fram að hádegi. Vélin var í ágætis gír. Hefðum klárað þetta um tólf en okkur lá ekkert á og sú fjórða þurfti að skreppa aðeins yfir í hraðbankamálin bæði fyrir og eftir hádegi. Vorum búnar að ganga frá deildinni og slökkva á vélinni fyrir klukkan tvö og þá tók ég klukkutíma í að fara yfir innlegg áður en ég fór heim.

Um fimm keyrði einkabílstjórinn mig niður í Katrínartún. Þar var tímamótum RB fagnað milli 17 og 19. Þarna var margt um manninn. Mörgum hafði verið boðið, bæði núverandi og fyrrverandi RB-ingum, stjórn RB, og samstarfsaðilum reiknistofunnar. Boðið var upp á alls konar smárétti og drykki, hljómsveit sem nokkrir starfsmenn RB skipa spilaði bæði á undan og eftir ræðum forstjóra og formanns stjórnarinnar og einnig söng kór RB. Allt mjög gott og flott. Hitti fullt af fólki bæði RB-inga á eftirlaunum og einnig RB-inga sem eru með sínar starfstöðvar í Katrínartúni og eða heima hjá sér. Held að við höfum aðeins mætt þrjú úr seðlaverinu, framkvæmdarstjórinn og sá sem er í myntinni. Hann vann áður bæði hjá sparisjóðum og einnig arion. Hann skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en annars var einkabílstjórinn alveg tilbúinn að koma og sækja mig.

23.3.23

RB 50 ára

Þennan dag fyrir 50 árum síðan var RB stofnað. Sagan segir að kaupa hafi þurft tölvu fyrir bankakerfið sem var mjög dýr en niðurstaða funda um efnið var sú að bankarnir tæku sig saman og keyptu tölvuna og til þess þurfti að stofna heilt fyrirtæki.

Annars var ég vöknuð um sex í gærmorgun. Verkefnin skiptust þannig að sú fjórða sá um bókhaldið, fyrirliðinn um móttökuendann á vélinni, ég um ítroðsluendann og fyrrum fyrirliði var í innleggjum. Daglegri framleiðslu lauk um tólf leytið. Gekk alveg þokkalega vel nema mér tókst einhvern veginn að eyða út fjórum endurnýjunarskrám sem biðu þess að verða endurnýjaðar. Það gerði samt ekki svo mikið til því þessar skrár komu til okkar þann 17. sl. og ég gat einfaldlega leitað þær uppi og hlaðið þeim inn aftur. Eftir hádegi framleiddum við kortin í þessum skrám sem voru færri en hundrað.

Hætti vinnu rétt upp úr klukkan tvö og fór beint í sund. Hringdi í pabba áður en ég lagði af stað úr Sundaborg og talaði við hann á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Hann þurfti að taka fram nýja snjómoksturstækið sitt í gær. Eftir smá fikt fann hann út hvernig tækið virkaði og var nýbúinn að moka stéttina undir gluggunum fyrir framan hús þegar ég hringdi. Þannig mun sá sem ber út moggann eiga auðveldara að rétta honum blöðin inn um eldhúsgluggann við eldhúsborðið.

Fór beinustu leið í kalda pottinn í tæpar fimm mínútur áður en ég valdi mér braut 6 til að synda. Eftir þrjár ferðir voru fleiri komnir á þá braut en engir voru á brautum 7-8 svo ég færði mig þangað því ég var að synda á bakinu flestar þessar 10x50m ferðir. Fór tvisvar aftur í kalda, sjópottinn á milli og svo gott gufubað áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið.

Kom heim um fjögur og þegar Oddur Smári kom fram nokkru síðar áttum við gott spjall um ýmislegt. Sendi rafrænt bréf á þann sem mun halda utan um þær framkvæmdir utanhús sem eru að fara í gang mjög fljótlega og vona að ég fá jákvætt svar fljótlega. Horfði á fréttir og þrjá þætti og var komin upp í rúm upp úr klukkan hálftíu.

22.3.23

Vikan um það bil hálfnuð

Ég var greinilega svolítið lúin eftir dásemdar helgina. Skreið upp í rúm um níu leytið í fyrrakvöld og rétt svo gat lesið tvær eða þrjár blaðsíður áður en ég ákvað að þetta gengi ekki alveg og fór að sofa. Rumskaði aðeins um fimm leytið en svo ekki fyrr en vekjaraklukkan hringdi kl 06:27 í gærmorgun. Var mætt í vinnuna rétt rúmlega hálfátta. Það kom í minn hlut að sjá um bókhaldið. Framleiðsla gekk vel og svo fengum við til okkar þrjá innsiglaða poka með tveimur tegunum af plasti, alls um tíu þúsund kort. Tveir kassar í hverjum poka og í flestum tilvikum 4x500 kort í hverjum kassa, ekki samt alveg öllum. Sem betur fer var hægt að telja meiri hlutann í gegnum plastið en það þurfti að "hátta" nokkra kassa. Gengið var frá kortadeildinni um tvö en ég hélt vinnu áfram til klukkan hálffjögur við að fara yfir innleggsbunka.

Var mætt í sund um fjögur. Eftir tvær ferðir í kalda var kalda potts vinkona mín ekki mætt svo ég ákvað synda smá. Það urðu 10x50m ferðir á bringunni og viti menn vinkonan var mætt á svæðið svo ég tók tvær ferðir í viðbót í kalda pottinn og endaði á góðri gufu. Hitti einn frænda minn og fyrrum samstarfsmann og kórbróður í einni ferðinni í heitasta pottinn og þegar ég var á leiðinni upp úr hitti ég eina bekkjarsystur mína úr grunnskóla sem ég hef einnig hitt í sjónum.

Eftir kvöldfréttir í sjónvarpinu fór ég með Davíð Steini á rúntinn. Hann passaði sig á að beygja ekkert í áttina að Hafnarfirði en fór í Krónuna við Gullhamra og rúntaði um Grafarholt, Grafarvog og Breiðholt og keyrði Bústaðaveginn heim. Stoppaði nokkrum sinnum í brekkum þar sem engin umferð var til að æfa sig að taka af stað. Vel gekk hjá kappanum og hann sagði mér að hann væri búinn með nethlutann af ökuskóla tvö.

Horfði á fimmta þáttin af sex af The nevers. Áður en ég fór upp í rúm að lesa. Þá var klukkan um tíu. Ætli ég hafi ekki verið sofnuð ca þremur korterum seinna.

21.3.23

Snemma að sofa í gærkvöldi

Var vöknuð á sjötta tímanum í gærmorgun. Reyndi að kúra aðeins lengur og stillti vekjaraklukkuna þannig að ég myndi þá vakna rétt fyrir sjö ef ég steinsofnaði. Klukkan hálfsjö slökkti ég á klukkunni aftur og dreif mig bara á fætur. Mætti í vinnuna um klukkutíma síðar, fyrst af kortadeildinni og á undan þeim sem venjulega hleypir inn á morgnana. Mér var samt hleypt inn því það var annar samstarfsfélagi mættur sem líka kemst inn til að opna svo fyrir vinnufélögunum. Ég var á móttökuendanum á vélinni með þeirri fjórðu sem kom úr ferðinni frá Marakesh ca örlítið á undan okkur sem vorum að koma frá Kaupmannahöfn. Seinni og síðasti hópurinn kemur svo heim í dag. Um hádegi var aðeins eftir að framleiða um hundrað kort af daglegri framleiðslu. Sú fjórða fór í innlegginn og fyrirliðinn kom niður með mér eftir hádegi. Fyrrum fyrirliði sá um bókhaldið í gær. Vorum búnar að að framleiða, telja, slökkva á vélinni og ganga frá niðri rétt rúmlega tvö. Ég sá að það var enn verið að vinna í innleggjum. Ákvað að leggja til hjálpar hendur en til þess að þurfa ekki að trufla neinn eða gera neina vitleysu var sú hjálp fólgin í að fara yfir innlegg sem búið var að gera. Þ.e. staðfesta upphæðirnar. Nokkrir innleggsbunkar fóru í kassa sem aðeins er sett í ef innlegg hafa verið staðfest en ég þurfti að skila einhverjum til baka í sömu kassa og ég tók þá úr. Þessi aðstoð var samt vel þegin og þökkuð. Ég hætti vinnu rétt fyrir fjögur og fór beint heim.

20.3.23

Afmælis árshátíðar helgin

Afmælisdagurinn: Pakkaði niður í litla flugfreyjusösku og bakpoka um morguninn og tók með mér í bílinn. Var i vinnunni milli klukkan sjö og langt gengin í tólf. Sá um bókhaldið og hjálpaði aðeins til við frágang. Ákvað að taka með mér heyrnartólin úr vinnunni. Skutlaðist heim eftir einkabílstjóranum sem keyrði mig út á Keflavíkurflugvöll og skildi með eftir þar. Hitti flesta úr hópnum sem ég var að ferðast með á Loksins kaffibar og drakk þar tvö glös af hvítvíni þangað til kominn var tími til að fara um borð. Á leiðinni til Kaupmannahafnar keypti ég mér eitt hvítvínsglasið enn en einnig kalda kalkúnaborgara og snakk. Á Kastrup tók íslensk stúlka á móti okkur, leiðsagði okkur að rútunni og fór með okkur alla leið á motel one. Klukkan var byrjuð að ganga níu að dönskum tíma þegar við komum þangað. Ég fékk herbergi á efstu hæð, no 505. Mjög gott var að komast úr skónum og það fór svo að ég fór ekkert niður aftur þótt ég færi alls ekki strax að sofa.

Árshátíðardagurinn: Var vöknuð um sjö leytið, eða upp úr klukkan sex að íslenskum tíma. Fór í sturtu um hálfníu og niður í borðsal í morgunverðarhlaðborð fljótlega eftir það. Þar hitti ég nokkra vinnufélaga og maka og einnig fyrrum fyrirliða. Eftir morgunmatinn urðum við samferða í lyftunni upp á þriðju hæð svo hún gæti náð í snjallúrið sitt og sýnt mér herbergið. Svo löbbuðum við upp á fimmtu svo hún gæti skoðað herbergið mitt. Rétt fyrir klukkan ellefu hittist stór hluti af hópnum til að fara saman í göngu um nærliggjandi svæði undir leiðsögn Ástu Stefánsdóttur sem hefur verið búsett þarna í yfir tuttugu ár. Gangan og leiðsögnin tók tvo tíma og var bæði fróðlega og skemmtilega. Þegar hún kvaddi vorum við á torginu hinum megin við Strokuna. Við Silla ákváðum að labba til baka í rólegheitum. Komum við á pizza stað sem heitir Mamma Rósa og akkúrat um það leyti byrjaði að hellirigna. Demban var gengin yfir þegar við vorum búnar að fá okkur að borða. Við kíktum einnig inn í H&M. Ég keypti mér nú ekki neitt þar.  Klukkan hálfsex hittist næstum allur hópurinn, amk allir vinnufélagar sem voru í ferðinni, í lobbýinu yfir fordrykk áður en labbað var yfir á veitingastaðinn PUK sem var spölkorn í burtu. Áttum pöntuð borð klukkan sex og boðið var upp á tvíréttað að dönskum sið og osta í eftirrétt. Höfðum bara borðin til klukkan átta svo við færðum okkur aftur yfir á hótelið. Held að allir hafi verið komnir upp á herbergin sín fyrir miðnætti. Ég var með þeim síðustu upp örfáum mínútum fyrir tólf.

Heimferðardagurinn: Vaknaði aftur snemma og var búin að fara í sturtu fyrir átta. Fór niður í morgunmat stuttu síðar. Hitti einhverja en mun færri heldur en morguninn áður. Labbaði upp stigann á eftir og hafði það notalegt til hádegis. Las, prjónaði og pakkaði niður. Skilaði af mér herberginu klukkan tólf og fékk að geyma flugfreyjutöskuna á hótelinu. Við fórum fjórar saman í göngu um borgina, Strikið og nágrenni. Ég nennti ekki að kíkja í neinar búðir en beið samviskusamlega fyrir utan ef hinar fóru inn. Fengum okkur að borða á Cafe vivaldi um eitt leytið og gátum setið úti. Tveim tímum seinna settumst við inn á Villa Vino og fengum okkur kaffi eftir meira labb um borgina. Vorum komnar á hótelið fyrir klukkan fimm og biðum í lobbýinu eftir rútunni sem kom klukkan sex. Notaði tímann og prjónaði á meðan. Vorum komnar á flugvöllinn upp úr klukkan hálfsjö. Ég var búin að tékka mig inn í gegnum appið en beið eftir að þær sem ég var með tékkuðu inn töskur og settu á færibandið. Ég var ekkert að spá í fríhöfninni. Tók að mér að keyra eina um á hjólastól sem við fengum lánaðan og var notaður alveg þar til kominn var tími til að ganga um borð. Lentum í Keflavík rétt rúmlega ellefu að íslenskum tíma. Ég fékk far með fyrrum fyrirliða en hún var með tvo farþega í viðbót sem hún keyrði fyrst. Klukkan var samt bara rétt að verða eitt þegar ég kom heim í nótt eftir skemmtilega og vel heppnaða ferð.

Komin heim eftir frábæra afmælishelgi í Kaupmannahöfn

Þetta verður stutt færsla að þessu sinni. Mun gera helginni betur skil seinna í dag eða á morgun. Við lentum klukkan rétt rúmlega 23 í gærkvöldi. Það tók smá tíma að komast út úr vélinni og í gegnum flugstöðina. Ég þurfti samt ekki að bíða eftir neinni tösku á bandinu og aldrei þessu vant labbaði ég alveg framhjá fríhöfninni. Ég var svo heppin að fá far heim með fyrrum fyrirliða og var komin heim rétt rúmlega eitt í nótt.