16.10.21

Frænkuheimsókn

Í gærmorgun fór ég á bílnum í vinnuna. Var með sjósundsdótið, bókasafnspoka með þremur bókum og dall með mér í skottinu. Inn í vinnu tók ég prjónadótið og súpubréf með mér. Vorum þrjár í vinnu sem virkar þá þannig að hver og ein er bara á einni starfsstöð yfir daginn, ekki bara bókarinn. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Þessa dagana er aðeins um daglega framleiðslu að ræða en það styttist í að endurnýjanir fyrir kort sem renna út eftir næsta mánuð skili sér til okkar. Það ferli byrjar strax eftir helgi. Vélin var með smá leiðindi og vesen og í einu slíku veseniskasti þurftum við að hringja á viðgerðarmann. Hann gat liðsinnt okkur í gegnum símann og við gátum klárað alla framleiðslu fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi sorteraði ég kennispjöld. Hættum vinnu fyrir klukkan þrjú. Ég fór beint á safnið að skila bókunum. Þrátt fyrir að það væru enn þrjár bækur heima stóðst ég ekki mátið og valdi fimm aðrar til að taka með mér heim. Tvær af þeim eru skammtímalánsbækur með fjórtán daga skilafresti. Næst lá leiðin í Nauthólsvík. Sjórinn 6°C og flóð. Ég svamlaði um í korter og var svo annað eins í heita pottinum. Áður en ég fór heim kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti mér nætursaltaða ýsu og harðfisk, óbarða ýsu. Um níu komu Bríet og Mundi en Bríet var búin að hringja í mig fyrr um daginn til að spyrja hvort hún mætti gista í stofunni minni um helgina. 

15.10.21

Alveg að koma helgi

Það var vekjaraklukkan sem vakti mig aldrei þessu vant í gærmorgun. Jú, það kemur fyrir að ég sef alveg þar til innstilltur tími virkra daga rennur upp. Þrátt fyrir þetta hafði ég smá tíma til að vafra á netinu áður en ég labbaði í vinnuna, yfir Skólavörðuholtið fjórða daginn í röð. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld. Eftir kaffi var ég númer eitt á framleiðsluvélinni, að mata hana. Daglegum verkum lauk upp úr klukkan hálftólf. Þá átti reyndar aðeins eftir að framleiða eitt dk-kort. Það kort beið eftir tæknimanni til að setja það upp eins og bankinn óskaði eftir. Tæknimaður mætti um eitt og í tíundu tilraun tókst að framleiða kortið með textum, nafni og tölum á réttum stað.

Fékk far heim úr vinnunni. Strákarnir voru rétt ókmnir heim um þrjú úr sorpuferð. Það var allt í lagi mín vegna ætlaði hvorki í sund né sjóinn. Um fjögur skipti ég um föt og fljótlega eftir það fékk ég einkabílstjórann til að skutla mér að Snorrabraut 37. Staðsetningin var í göngufjarlægð en samt það langt að það hefði komið foss á bakið á mér við göngu þangað. Á Bullseye hitti ég níu aðra af vinnufélögum mínum sem eru með sama yfirmann. Hún var inni í þessari tölu en það vantaði þrjá úr hópnum. Við skiptum okkur í tvö fimm manna lið og kepptum í pílu í um klukkustund. Svo löbbuðum við yfir á Jörgensen sem er staðsett við Hlemm í húsi þar sem arionbanki var með útibú áður. Fengum okkur að borða þar og spjölluðum saman til klukkan níu. Þá fóru flestir að huga að heimferð en einhverjir urðu eftir amk einhverja stund lengur. Ég fékk far heim og horfði á FBI-most wanted áður en ég fór upp í rúm að lesa til ellefu. 

14.10.21

Tæpur hálfur mánuður

Hef alltaf smá tíma á morgnana til þess að vafra aðeins um á netinu og stundum næ ég að setja inn færslu dagsins um gærdaginn. Labba svo af stað í vinnuna um sjö. Þessa vikuna fer ég yfir gönguljósin á Miklubraut, undir brúna við Snorrabraut og upp Eiríksgötu. Svo er misjafnt hversu langt niður Skólavörðustíginn ég geng, stundum alla leið en stundum labba ég Klapparstíginn eða einhvern anna stíg þar í grenndinni. Í gær var ég á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi. Tók til í framleiðslutegundir í þremur vögnum af fjórum. Það er ekki fyrr en upp úr ellefu sem vitað er hvaða tegundir eru til framleiðslu í fjórða vagninum. Eftir morgunkaffi flokkaði ég kennispjöld og einnig eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni um þrjú leytið. Var svo næstum tvo tíma að koma mér af stað í sund. En það hafðist á endanum. Fór 2x5 mínútur í kalda og synti 300 metra. Þegar ég kom heim um hálfsjö var Davíð Steinn byrjaður að undirbúa og elda kvöldmatinn. Ég hafði tekið hakkrúllu úr frysti um morguninn og hann bjó til kjötbollur og kartöflubáta. Mjög gott hjá honum.

13.10.21

Mið vika

Var mætt fyrst á vinnustað af kortadeildinni í gærmorgun. Var í bókhaldinu. Daglegum verkum var lokið um eitt. Flokkaði kennispjöld eftir það. Um tvö kom beiðnapóstur sem tók um tuttugu mínútur að afgreiða. Að því loknu fórum við allar saman á kaffihúsafund á Kjarvalsstaði. Þar hitti ég fyrir eina sem ég hitti oft í sundi. Við fengum okkur 3 cappucino, 1 swiss mokka og 1 venjulegan kaffi, 2 ostatertusneiðar, eina gulrótar-, eina súkkulaði og eina eplakökusneið. Var komin heim upp úr hálffjögur. Tók til sunddótið og fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Þar hitti ég aftur þá sem ég hitti á Kjarvalsstöðum. Fór 3x5 mínútur í kalda, synti 300 metra og var góða stund í gufunni áður en ég fór upp úr og heim. 

12.10.21

Snemmt

Þar sem ég er enn ekki búin að fjárfesta í strætókorti labbaði ég í vinnuna í gærmorgun. Fór yfir Skólavörðuholtið og safnaði uþb 4000 skrefum í leiðinni. Ég var frammi fyrsta kastið, undirbjó pökkun, flokkaði kennispjöld og þegar fyrstu tölur voru tilbúnar taldi ég vagnana með þeirri sem var í bókhaldinu. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Hádegisframleiðslan breyttist í gær. Nú erum við farnar að setja flest kort á form og í umslög en fram að þessu hafa kortin aðeins verið framleidd og send til viðkomandi fyrirtækis. Til að byrja með höldum við áfram að senda kortin til fyrirtækisins en áður en langt um líður munum við fara að senda þau í póst. Þessi breyting gekk annars vel fyrir sig. Eftir hádegi fór ég með 17 flokkaða kassa af kennispjöldum inn í kennispjaldageymslu og kom með 15 óflokkaða kassa til baka. Flokkaði svo kenni spjöld þar til við ákváðum að hætta upp úr klukkan hálfþrjú. Fékk far heim úr vinnunni og skellti mér svo í sjóinn um fimm.