Ég var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Vinnudagurinn teygðist alveg til klukkan fimm og var verulega öðruvisi. Ætla samt ekki að fara neitt nánar út í það en bara geta þess að mánaðamótauppgjörsvinnan fer bara nokkuð vel af stað hjá mér. Var með sjósundsdótið með mér en ég var í engu stuði, hvorki til að skreppa í sund eða sjóinn. Sjálfsagt hefði ég nú alveg haft gott af því að skreppa smá en í staðinn kom ég við á AO við Kaplakrika og fyllti á tankinn áður en ég fór heim. Tók sem sagt stærri hringinn heim. Var komin heim stuttu fyrir sex. Bjó mér til plokkfisk úr afgangnum frá því á laugadaginn, ýsunni sem ég keypti hjá Fúsa sl. föstudag. Prjónaði smá, vafraði á netinu, horfði m.a. á Eyðibýli en var komin upp í rúm um níu og farin að sofa hálftíma síðar.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
1.6.23
31.5.23
Síðasti dagur maímánaðar framundan
Klukkan er ekki nema hálfsex en þar sem mér tókst ekki að sofna aftur ákvað ég að fara á fætur og undirbúa mig fyrir daginn. Í gær var ég að vinna milli hálfátta og hálffjögur. Á leiðinni yfir í sund spjallaði ég við pabba. Var búin með eina ferð í kalda og 100 metra bringusund þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum tvær ferðir í kalda, eina í 42°C, gufu, og svo annan eins hring. Eftir seinni gufuferðina fór vinkona mín í sína fimmtu ferð í kalda en ég settist á stól í smá stund áður en ég fór inn í sturtu. Kom við í Krónunni við Fiskislóð á heimleiðinni svo klukkan var að verða sex þegar ég lagði í hornstæðið hér heimavið. Gerði nokkrar tilraunir til að ná í syni mína í síma. Oddur varð á undan að hringja til baka. Ætlaði fá upphafi að biðja hann um að koma út og sækja vörurnar út í bíl og ganga frá þeim. Davíð Steinn hringdi líka til baka en ég gat upplýst hann um að málin væru komin í ferli.
30.5.23
41 ár síðan ég fermdist, hvítasunnudag 1982
Rumskaði fyrst um fjögur í gærmorgun en svaf svo áfram til klukkan að verða átta. Pabbi kom fram um tíu leytið en hann hafði reyndar vaknað um sex og fengið sér eitt harðsoðið egg. Hann tvær ferðir í búðina, fyrst of snemma því það opnaði ekki fyrr en klukkan tólf. Um tvö leytið bauð hann upp á saltfisk með kartöflum og rófu. Allt soðið í sama pottinum og mjög gott. Um hálffimm kvaddi ég og brunaði beint í bæinn. Kom heim um sex. Oddur var einn heima. Davíð Steinn kom heim tveimur tímum seinna en hann skrapp aðeins út að borða í gær.... alla leið til Akureyrar, ásamt einum vini sínu og samstarfsmanni. Þeir voru á frívakt í gær og líka í dag. Sonurinn með nýja bílprófið og eigin bíl er greinilega að æfa sig mjög mikið í umferðinni.
29.5.23
Í heimsókn hjá pabba
Ég gat sem betur fer sofnað aftur um hálffimm leytið í gærmorgun. Vaknaði aftur upp úr klukkan hálfníu. N1 sonurinn lagði af stað í vinnuna um það leyti og ég dreif mig skömmu síðar í sund. Synti 300 metra áður en ég fór fyrstu ferðina í kalda pottinn. sá pottur var 6,4°C. Sat í honum í uþb þrjár mínútur áður en ég fór yfir í sjópottinn. Þar sat ég örugglega í um fimmtán mínútur. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fór ég í gufu. Var það í svipaðan tíma og í sjópottinum. Fór í kalda stuttu og dýfði mér örstutt aftur í kalda, settist á stól í smá stund áður en ég fór upp úr. Skv. snapp-kortinu var systir mín lögð af stað frá Hellu og var komin austur fyrir Vík á ellefta tímanum. Ég hringdi í hana og spjallaði smástund. Þau hjónin og hundarnir voru á leiðinni á Höfn að heimsækja vinkonu þeirra. Vinkonan hafði reyndar líka gert stopp á Hellu og fengið gistingu svo hún var í samfloti með þeim austur. Ég hellti mér upp á sterkt kaffi þegar ég kom heim. Slakaði á í tæpar tvær klukkustundir en um það leyti sem hádegisfréttir voru að byrja í útvarpinu var ég að leggja af stað austur til pabba. Eftir "innrásir" undanfarna daga var hann einn heima. Unga parið var í sveitinni hjá foreldrum hans. Bjarki kom reyndar tvisvar sinnum. Í annað skipti til að sækja sparifötin sín því hann var á leið í fermingaveislu frænda síns og í seinna skiptið til að sækja smá dót fyrir Bríeti. Þessi ungi maður var að útskrifast úr FSu sl. föstudag af rafvirkjabraut. Við pabbi horfðum á leik í enska. Reyndar byrjaði pabbi ekki að horfa fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleikinn í leik Southamton og Liverpool sem fór 4:4 og ég var að flakka á milli stöðva og skoða brot úr hinum leikjunum sem sýndir voru úr síðustu umferðinni. Um korter í sjö var ég með matinn tilbúinn, bleikju og soðin gróf grjón sem ég hafði bætt niðurskornum lauk út í síðasta korterið. Þetta var mjög gott. Um þetta leyti var ég búin að ákveða að gista og fékk ég mér því 2-3 hvítvínsglös úr beljunni í aukaísskápnum í gærkvöldi. Drakk þau ekki mjög hratt en áhrifin entust fram eftir kvöldi. Horfði á tvo þætti í þriðju seríunni Happy Valley um lögreglukonuna Cathrine Cawood. En þegar pabba fór að sofa um hálfellefu leytið slökkti ég á sjónvarpinu og vafraði um á netinu í rúma klukkustund eða svo.
28.5.23
Varla kominn nýr dagur
Einhverra hluta vegna rumskaði ég um þrjú leytið eftir innan við fimm tíma svefn. Hvort sem það var fuglasöngur eða það að byrjað var að birta aftur þá tókst mér ekki að svæfa mig aftur, amk ekki í bili. Ég var mjög snemma á fótum í gærmorgun líka, komin á stjá um sex. Þrátt fyrir að veðrið væri með besta móti kallaði "útið" ekkert á mig, hvorki sund- sjó- eða gönguferðir. Fann enn fyrir hálsinum en ég var ekki beint slöpp. Tók innidag, smá þrif en aðallega hámhorf, prjón og netvafr. Ætla ekkert að skammast mín fyrir þetta. Gærdagurinn er liðinn og kemur ekki aftur. Framundan er nýr dagur og ný ævintýri. Vonandi mun ég ná að sofna smá stund aftur þangað til kominn er tími á næstu sundferð.