29.5.24

Enn á Egilsstöðum

Staðan í skólanum hjá vinkonu minni í gær var sú að hún gat unnið heima. Engu að síður undirbjó hún sig líkt og aðra vinnudaga; fór snemma á fætur, klæddi sig í vinnufötin og sinnti ýmsum öðrum morgunverkum með góðum hvíldum. Aðalsteinn fór í sína vinnu um átta og fljótlega eftir það stimplaði Ella sig inn í gegnum forrit í símanum og setti upp spelku á vinstri hendina svo sú hendi væri samvinnuþýðari. Ég sjálf tók morguninn rólega en var þó komin fram um sjö. Sótti svo fartölvuna inn um það leyti sem Ella var að byrja að fara yfir pósta og fleira vinnutengt. Hún tók sér "kaffipásu" um hálftíu. Rétt fyrir tíu skrapp ég út í smá labbitúr. Ætlaði út á peysunni en þá var byrjað að dropa og ég er mjög fegin að ég snéri við eftir úlpunni því göngutúrinn varð í heildina rúmur tveir og hálfur kílómetri og það rigndi alla leiðina. Rétt fyrir hálftvö skutlaði ég Ellu í sjúkraþjálfun. Hleypti henni út á merkta stæðinu en lagði svo bílnum skammt frá og ætlaði að nota tækifærið og fara aftur í göngutúr. Auðvitað byrjaði aftur að rigna svo ég entist bara í tæpt korter. Beið svo bara í bílnum þar til Ella var búin í sjúkraþjálfuninni. Restin af deginum fór í spjall, hvíld og þáttaáhorfun. 

28.5.24

Þokuloft en stillt veður

Vinkona mín tekur daginn mjög snemma á vinnudegi. Undirbúningurinn undir daginn tekur drjúga stund og inn í þeirri stund þarf að gera ráð fyrir hvíld/pásum. Þau hjónin voru komin fram fyrir klukkan hálfsjö. Ég kom á fætur stuttu síðar og átti gott spjall næsta klukkutímann eða svo. Þau voru svo bæði farin út úr húsi um átta. Veðrið var yndislegt og ég ákvað fljótlega að rölta í sund. Samkvæmt forritinu í símanum var ég um korter að labba rúman kílómeter svo ég hef farið frekar rólega. Klukkan var sjö mínútur í níu þegar ég byrjaði að synda. Synti í rúmar tuttugu mínútur og flestar ferðir á bakinu. Svo prófaði ég báða köldu pottana, sat dágóða stund í sólbaði en um tíu leytið fór ég upp úr og þvoði mér um hárið í leiðinni. Rölti upp að skóla og sá að rafskútan hennar Ellu var á merkta stæðinu alveg við aðalinnganginn. Ákvað að hinkra eftir henni og athuga hvort ég fengi ekki far fyrir sundtöskuna mína sem var alveg sjálfsagt. Restin af deginum fór í spjall, sólbað, þáttaáhorf og smá bæjarferð. Ella bað mig um að skutla sér í gjafavörubúð til að kaupa tvær útskriftargjafir, aðra handa dóttur sinni og hina handa tengdadóttur sinni. Þessi bæjar ferð gekk mjög vel. Göngugrindin komst vel fyrir við aftursætin og svo gat Ella sest á stól inni í versluninni og fékk mjög góða þjónustu. 

27.5.24

Ekkert ferðaveður - bongóblíða

Var fyrst fram og á fætur í gærmorgun, rétt að verða sjö, en æskuvinkona mín var örugglega vöknuð því hún kom fljótlega fram. Vegna MS þá gengur allt mun hægar og frá því ég kom hingað síðast í ágúst sl. sé ég greinilegan mun á henni. Ég er þakklát fyrir hversu opin hún er með að tala um allt sem þessu fylgir og svarar öllum spurningum greiðlega. Dagurinn var annars tekinn mjög rólega. Aðalsteinn hélt smíðunum áfram ásamt nágranna sínum og eftir hádegi hreinsaði hann beðin og sló lóðina. Einar Bjarni er í vinnulotu og er búinn að vera hér síðast liðna viku. Hann skrapp í útskriftaveislu á Höfn á laugardeginum og kom til baka seint um kvöldið. Hann skrapp út í folf (frisbígólf). Aðalsteini voru færðar nokkrar öskjur af þorskhnökkum af sjómanni sem hann á regluleg viðskipti við og það var ákveðið að fá mig og Einar Bjarna í að matreiða þrjú flök af hnökkum í kvöldmatinn. Samvinnan tókst mjög vel. Vorum búin að borða áður en körfuboltaleikurinn milli Grindavík og Vals byrjaði. Æsispennandi leikur. Ég fylgdist einnig með leik FH og Aftureldingar í úrslitakeppni karla í handbolta á mbl vefnum. Sá leikur var ekki síður spennandi.

Enn hef ég ekki fallið í kaffipásunni en það er rétt að játa það að ég fékk mér hvítvín bæði á föstudags og laugardagskvöld en þá hafði ég ekki drukkið slíkt síðan í september.

26.5.24

Bríet búin að setja upp rauðu húfuna

Þegar ég kom fram um hálfsjö í gærmorgun voru æskuvinkona mín og maðurinn hennar komin á fætur. Um átta leytið bönkuðu nágranninn og smiður uppá því hér fyrir utan er verið að smíða litla geymslu fyrir sexhjól. Aðalsteinn átti hugmyndina og nágranninn greip hana á lofti. Verkið var hafið á föstudaginn og það var haldið áfram í gær. Við Ella tókum því rólega en upp úr klukkan tíu fengum við okkur göngutúr í Nettó, hún á rafskutlunni sinni og ég á mínum tveimur jafnfljótum. Ég stökk inn í búðina rúmu korteri seinna með innkaupalista í sms-i. Svo fórum við aðra leið til baka, hún með vörurnar í grind fyrir aftan sig. Um tvö leytið byrjuðum við að undirbúa mexíkanska kjúklingasúpugerð. Ég beinhreinsaði afgang af kjúkling frá því kvöldið áður en Ella skar niður grænmetið í skál. Um þrjú leytið tók ég að mér að standa yfir pottunum. Það urðu nefnilega til tveir pottar af súpu, annar potturinn var þó minni en hinn. Allt var byrjað að malla um fjögur og fékk að malla á lægsta straum í klukkustund. Þá var settur út í þetta rjómaostur og rjómi, suðan látin koma upp og svo slökkt undir. Horfðum svo á fyrri hálfleikinn í úrslitaeinvígi evrópukeppninnar í handbolta. Valdís dóttir Ellu kom um svipað leyti. Horfði með okkur á leikinn og borðaði svo með okkur þessa dýrindis súpu sem nóg var til af.

Bríet setti upp rauðu húfuna í MK í gær en hún tekur svo verklegt sveinspróf í kjötiðn í fyrstu vikunni í júní. 

25.5.24

Komin í heimsókn til æskuvinkonu

Ég var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun en fór ekkert út í fjárhús. Mágur minn og systir drukku ketókaffið sitt eftir að Helga hafði kíkt í fjárhúsin. Þar var allt rólegt, og það var enn rólegt næst þegar hún kíkti í næstu ferð. Ingvi var eitthvað slappur og lagði sig. Helga fór þriðju ferðina út í hús um níu. Þá greip ég tækifærið til að taka fram fartölvuna, vafra á netinu og setja inn færslu. Það var greinilega eitthvað að gerast úti í húsi því systir mín kom ekki aftur inn. Um tíu leytið kom lögreglubíll með ljósin á upp að húsinu og annar lögregluþjónninn bankaði upp á. Það hafði verið ekið á kind og tvö lömb rétt við afleggjarann og þau voru að athuga hvort kindurnar væru frá Árlandi. Ég veit orðið númerið og það passaði. Hringdi því í systir mína svo hún gæti hringt í Aron sem ekki var kominn á fætur eftir kvöld og næturvaktina. Mágur minn kom fram um svipað leyti. Ungi bóndinn talaði smá við lögregluna en dreif sig svo niður á veg. Annað lambið og rollan voru dauð og hitt lambið svo illa farið að aflífa þurfti það. Hann sótti svo dráttarvél með skóflu og notaði þá tækifærið og fór með þessi hræ og önnur og urðaði á næsta bæ.

Annars var ég byrjuð að pakka og huga að því að halda ferðalaginu áfram en klukkan var að verða hálftvö þegar ég kvaddi loksins. Rúmum tveimur og hálfum tíma síðar var ég komin til Ellu vinkonu.