19.4.24

Útskrifuð úr sjúkraþjálfun

Gærdagurinn byrjaði alltof snemma eða um fimm. Greip í bók og las í rúman hálftíma. Var komin á stjá fyrir klukkan sex. Vafraði um á netinu en um sjö leytið ákvað ég að trekkja hendina betur í gang með því að prjóna. Var mætt í Fossvoginn um átta og fékk að fara beint í bjúgdæluna fyrstu tuttugu mínúturnar. Svo lærði ég nokkrar nýjar æfingar. Sjúkraþjálfarinn sagði í lok tímans að nú væri þetta alfarið í mínum höndum. Úthaldið í vinnunni er farið að aukast. Er búin að ákveða að ég geti amk verið 100% en verð að passa að fara ekki mikið fram yfir það. Var annars mætt í vinnu um níu. Byrjaði á því að fara niður í koradeild að hlaða inn nýjustum skrám. Það tók fartölvuna óratíma að opnast þannig að þegar ég var loksins búin að útbúa og vista skiptiblöðin var komin tími til að skreppa í kaffi. Er þó ekki ennþá farin að drekka kaffi aftur. Fyllti bara á vatnsflöskuna og fékk mér heitt vatn í bolla. Verkefnum dagsins lauk frekar snemma og ég var komin í sund upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 500 metra. Var komin heim um fjögur leytið. Byrjaði á því að setja í þvottavél og sækja þvott af snúrunum. Fékk mér svo hressingu og horfði á nokkra gamla og nýja þætti af NCIS og FBI með Oddi. N1 sonurinn kom heim úr vinnu um átta leytið. 

18.4.24

Fart á tímanum

Svaf átta tíma í einum dúr í fyrrinótt. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fór fljótlega niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám. Framleiðsla hófst á níunda tímanum. Um hálftíu fórum við upp í kaffi og á fund sem var næstum klukkutíma langur. Kláruðum alla daglega framleiðslu fyrir klukkan tólf og milli klukkan eitt og þrjú endurnýjuðum við uþb fimmtánhundruð kort. Ég hafði semsagt úthald í fullan vinnudag. Var ekki með sunddótið meðferðis svo ég fór beinustu leið heim eitthvað að spá í að gera mér svo ferði í Nauthólsvík síðar um daginn. Þegar til kom fór ég ekkert út aftur. 

17.4.24

Snjókoma í gærkvöldi

Morguninn byrjaði alltof snemma í gærmorgun, eða um fimm leytið. Var því komin á stjá áður en klukkan varð sex. Vafraði aðeins um á netinu en trekkti svo þá hægri betur í gang með smá prjónaskap. Lagði af stað í vinnuna í fyrra fallinu og byrjaði á því að koma við á AO-stöðinni í Öskjuhlíð og fylla tankinn. Vinnan var svipuð og á mánudaginn og flestum verkefnum lokið um tvö leytið. Þá stakk ég af í sund. Þurfti að byrja á því að endurnýja árskortið en það gekk fljótt og vel fyrir sig. Fæ það svo endurgreitt í gegnum íþróttastyrkinn. Synti 400m og fór svo aðeins eina ferð í kalda pottinn en hún stóð yfir í um sjö mínútur. Var tuttugu mínútur í gufunni á eftir, tók þá kalda sturtu áður en ég skrapp í sjópottinn í um tíu mínútur. Þar hitti ég fyrir einn frænda minn sem vinnur sem einkaþjálfari í Laugum. Spurði hann hvar væri best að kaupa sér handlóð. Hann mælti með Hreysti í Skeifunni. Ætlaði mér að athuga málið á leiðinni heim en umferðin var þung og það varð á endanum léleg afsökun til að bíða aðeins með þessi kaup. 

16.4.24

Fallegt veður

Svaf í heila átta tíma í fyrrinótt. Mætti í vinnu tuttugu mínútm fyrir átta. Fyllti á vatnsbrúsann minn og fór svo niður í kortadeild að hlaða inn tölum. Var byrjuð í innleggjum stuttu fyrir klukkan níu. Hægri höndin var alveg að vinna með mér en ég passaði mig á að sitja ekki of lengi við. Um hálftvö var farið að sjá fyrir endann á verkefnum dagsins. Ég stimplaði mig út tæpum hálftíma síðar og fór beint í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína og við fórum saman 4 ferðir í kalda áður en ég fór á brautir 7-8 og synti 300 metra. Kom heim um fjögur. Klukkutíma síðar fór ég aftur út. Ætlaði að skreppa í stuttan göngutúr. Kom heim aftur klukkutíma og 4,5km síðar. 

15.4.24

Ný vinnuvika

Var vöknuð um sjö leytið og komin á stjá fljótlega eftir það. Dreif mig í sund um hálftíu leytið. Synti 500m, þar af sennilega um 200m á bakinu. Hitti sjósunds vinkonu mína þegar ég var að klára mínar ferðir og hún að byrja á sínum ferðum. Kalda potts vinkona mín var líka mætt á svæðið og þegar búin með eina ferð í kalda þegar ég fór í mína fyrstu. Eftir þrjár ferðir í kalda fórum við í gufuna og þaðan í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar. Skellti mér svo eina stutta ferð í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Restin af deginum fór í rólegheit heima við. Horfði á leiki í enska boltanum, nokkra þætti, prjónaði og las; Blóðmáni eftir Joe Nesbö. Var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu.