22.2.24

Eymsli og bólgur

Var mjög bólgin og stirð í kringum hægri úlnlið og þumal í gær. Gat ekki beygt fingur eins mikið og ég var farin að geta. Þetta var svona langt fram eftir degi. Hugsanlega hef ég eitthvað ofgert mér. En ég tók samt fjórar æfingalotur yfir daginn. Ég tók líka bólgueyðandi. Labbaði líka í Fiskbúð Fúsa eftir harðfiski, ýsu og bleikju. Var nýlega komin til baka þegar Oddur kom fram og spurði hvort ég ætlaði að þvo á morgun. Hann var semsagt að panta þvottadag svo ég skellti sjálf í vél í gær, tók þvott frá Davíð Steini af snúrunni og hengdi sjálf upp þegar vélin var búin að gera sitt. 

21.2.24

Það snjóar

Það var smá áskorun að setja teygju í hárið til að taka það saman upp á höfðinu áður en ég fór í sturtu í gærmorgun. Frá fallinu hafði ég gert mér að góðu að þvo mér með þvottapoka. Sturtuferðin var minna mál heldur en ég hélt. Upp úr hádeginu rölti ég á Hárhornið og fékk hárþvott og fasta fléttu hjá samstarfskonu Lilju. Lilja var með tvö verkefni í gangi en ég komst strax í stólinn hjá samstarfskonunni. Næst skrapp ég í heimsókn til Lilju vinkonu og stoppaði hjá henni í góðan klukkutíma áður en ég rölti aftur heim. Bræðurnir höfðu skroppið saman til ömmu sinnar og þeir voru ekki komnir heim þegar ég fór í háttinn upp úr klukkan hálftíu. 

20.2.24

Hárþvottur, föst flétta og heimsókn

Ekkert varð úr bókasafnsferð í gær og bíður sú ferð betri tíma. Fór í einn hálftíma göngutúr og tók fjórar æfingalotur. Annars var ég bara aðhámhorfa á hina ýmsu þætti.

Spelkan er aðeins farin að meiða mig á köflum. Úlniður og þumall eru þó nokkuð bólgina á morgnana og þegar ég tek spelkuna af fyrir æfingar er ég nokkuð dofin á neðsta hlutanum á lófasvæðinu. Prófaði að taka spelkuna af þegar ég fór að sofa í gærkvöldi. Var sennilega eitthvað smeik við þann gjörning því ég svaf frekar órólega og þegar ég rumskaði um þrjú leytið setti ég spelkuna á mig aftur. Samt finnst mér allt vera í rétta átt, gerist bara á hraða snigilsins.

19.2.24

Bókasafnsferð á döfinni í dag

Var komin á fætur um átta leytið í gærmorgun. Settist fljótlega inn í stofu með fartölvuna í fanginu en var mjög meðvituð að vera ekki of lengi. Stuttu fyrir klukkan níu gerði ég fyrstu æfingalotuna af fjórum yfir daginn. Höndin var stirð og bólgin en lét þokkalega vel að stjórn. Um klukkutíma seinna skrapp ég í hálftíma göngutúr. Fór aftur í göngutúr um tvö leytið og var þá búin að taka tvær æfingalotur í viðbót. Þegar ég tók fjórðu og síðustu æfingalotu dagsins um fjögur leytið var höndin alls ekki eins bólgin og fyrr um daginn. Þumalfingur er "óþekkastur" og liðleikinn í úlnliðnum er langt því frá að vera upp á sitt besta. En engu að síður finnst mér þetta vera í rétta átt og er ákveðin í að vera þolinmóð og dugleg í senn. Í gærkvöldi kláraði ég svo að lesa síðustu bókina af safninu.

18.2.24

Allt í rétta átt

Í gær voru sex vikur frá því ég brotnaði. Vissi reyndar ekki fyrr en á sunnudagskvöldinu að ég væri brotin eftir að hafa farið í fyrstu röntgen myndatökuna G3 fyrir ofan bráðamóttökuna. Ef ekki hefði þurft að toga brotið til eða togunin virkað hefði ég losnað við gipsið á mánudaginn var. En ég ætla svo sem ekkert að vera að velta mér upp úr ef og hefði heldur vinna með það sem er.

Á föstudaginn fór ég í tvo göngutúra, annan um morguninn nákvæmlega 20 mínútna langan og hinn eftir hádegi sem varði í tæpan hálftíma. Samtals voru þetta um 3,5 km. Ég æfði úlnlið og fingur fjórum sinnum 15 skipti yfir daginn. Í gær tók ég líka 4 æfingalotur en fór í einn uþb 40 mínútna göngutúr sem var 3 km langur. Annars var ég að horfa á boltann, þætti eða lesa. N1 sonurinn hringdi um hádegið og bað mig um að senda Odd með verkja og bólgulyf til sín í vinnuna. Lánaði Oddi bílinn bæði í þessa sendiferð og svo áfram í heimsókn til pabba hans og fjölskyldu.