20.1.22

Vaknað við vekjaraklukku

Í gærmorgun var ég komin á fætur rúmlega sex. Var mætt fyrst til vinnu um hálfátta. Sýslaði ýmislegt í skrifstofurýminu fram að kaffi, taldi m.a. með bókaranum eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Eftir kaffi fór ég á framleiðsluvélina og leysti af þá sem var á ítroðsluendanum. Aeins ein skrá úr daglegaverkefni tvö var eftir en þá tók við sérverkefni. Framleiddum 750 kort af því verkefni áður en hádegisframleiðslan kom yfir. Eftir hádegi var ég á móttökuendanum á vélinni. Fórum langt með að ljúka við sérverkefnið en aðeins erum rúmlega 200 kort eftir í framleiðslu. Kerfisfræðingarnir voru á staðnum. Þegar ég var að ganga frá á skrifborðinu mínu sá ég nýtt verkefni, skráð á mig, sem unnið er með verkfæri sem aðeins ég og önnur höfum aðgang að. Ákvað að demba mér í það verkefni. Allt gekk vel þar til breytingaskrárnar áttu að fara yfir þá var allt fast. Kerfisfræðingarnir voru á endanum báðir komnir til mín að hjálpa og það endaði með því að þetta hafðist en þá var klukkan líka orðina fimm. Var komin heim um hálfsex og ákvað að skrópa í sund enn einn daginn.

19.1.22

Háspennu handboltaleikir

Var mætt fyrst á vinnustað og fór strax að sinna bókhaldinu. Ein af hinum sem átti að vera á vélinni fram að kaffi skipti við aðra svo ekki þyrfti að leysa hana af þegar hún þurfti að skreppa aðeins eftir hádegið. Vinnudagurinn leið hratt en var ekki búinn hjá mér fyrr en um fjögur því ég var aðeins að aðstoða kerfisfræðingana tvo sem voru að vinna að ýmsum verkefnum. Klukkan var því orðin hálffimm þegar ég kom heim og þar sem ég vildi ekki missa af einni einustu mínútur af landsleiknum milli Íslands og Ungverjalands og þar að auki fylgjast með hinum leiknum í sama riðli, fór ég ekkert út aftur. Þvílíkir leikir. Og allir íslensku þjálfararnir á mótinu komu sínum liðum upp úr riðlinum. Veislan heldur áfram.

18.1.22

Líður á fyrsta mánuðinn

Ég vaknaði um sex í gærmorgun, rúmum tuttugu mínútum áður en vekjaraklukkan átti að stugga við mér. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist í niður í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um hálfsjö og kvaddi tæpu korteri síðar. Ég var mætt í mína vinnu um hálfátta. Var á ítroðsluendanum á framleiðsluvélinni fram að kaffi. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld og eftir hádegi var ég á móttökuendanum á vélinni. Kom heim rétt rúmlega fjögur. Dagurinn leið jafn hratt og flestir aðrir dagar. Er langt komin með tuskuna sem ég fitjaði upp á sl. föstudag og einnig að lesa þriðju bókina af sjö af safninu. Er enn að spara jólabækurnar. 

17.1.22

Ný vinnuvika framundan

Var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun og í sund rétt rúmum tveimur tímum síðar. Synti 400m á bakinu á braut 2, fór 2x uþb 6 mínútur í 6,9°C kalda pottinn, einu sinni í heitasta og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr og þvoði  mér um hárið. Kom heim um hálftólf. Skellti handklæðum í þvottavélina. Hellti upp á kaffi og settist svo fyrir framan sjónvarpið með prjónana mína. Horfði á einn þátt, hlustaði á hádegisfréttir og horfði svo á annan þátt þar til leikur Liverpool og Brentford hófst. Seinni part dags hringdi ég í pabba sem var að ljúka við pönnukökubakstur. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn því ég sat spennt yfir handboltanum, fyrst hinn leikinn í riðlinum; Ungverjaland-Porúgal og svo leik okkar manna á móti Hollandi. Strax eftir leik og EM-stofu var 4. þáttur af verbúðinni sem ég horfði á með textavarpinu. Fór inn í rúm upp úr klukkan tíu og las um stund áður en ég fór að sofa.

16.1.22

Morgunstund

Ég leyfði mér að kúra til klukkan að verða tíu í gærmorgun. Það varð til þess að ég ákvað að skrópa í sund enn einn daginn. Vafraði um á netinu, prjónaði og horfði á fótbolta. En um hálfþrjú skrapp ég í ágætis göngutúr; Lönguhlíð (frá Drápuhlíð), Hamrahlíð, Kringlumýrarbraut, Miklabraut, Reykjahlíð og Drápuhlíð. Þetta voru 2,7 km á 33 mínútum og hátt í fjögurþúsund skref. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn en ég tók því rólega, vafraði um á netinu, kláraði að lesa bók af safninu, horfði á þætti og fótbolta. Var semsagt bara mjög slök í gær.