7.12.21

Þriðjudagsmorgun

Vaknaði rétt upp úr klukkan sex, að minnsta kosti korteri áður en vekjarinn átti að hringja. Slökkti í vekjaranum, klæddi mig og bjó um. Ég var búin að sitja inni í stofu með fartölvuna á hnjánum í amk tíu mínútur áður en N1 sonurinn kom fram. Hann var svo farinn á undan mér. Ég var mætt fyrst í mína vinnu um hálfátta. Vorum allar fimm í gær og ég var á ítroðsluendanum á vélinni milli tíu og rúmlega tólf. Reyndar gátum við ekki byrjað fyrr en klukkan var langt gengin í ellefu því kerfisfræðingarnir yfirtóku vélina þegar við fórum í kaffi og þurftu þennan tíma til að gera tilraunir. Þannig að í stað þess að ljúka við dk framleiðslu dagsins fórum við næstum beint í hádegisframleiðsluna. Framleiddum reyndar tvær síðustu skrárnar fyrir einn bankann en þá voru tvær skrár úr einum banka eftir. Þær sem voru á vélinni fram að kaffi fóru aftur á hana eftir hádegi. Hættum vinnu rétt fyrir hálffjögur. Ég stoppaði heima í tæpa klukkustund áður en ég dreif mig í Nauthólsvík og 2,1°C sjóinn. Var næstum því tuttugu mínútur að svamla í sjónum og kannski eitthvað svipað sem ég sat í pottinum. Held samt að ég hafi verið styttra í pottinum en sjónum.

6.12.21

Tíminn þýtur

Vaknaði rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun. Fór á fætur og eftir morgunverkin á baðinu kveikti ég á einni tölvunni hans pabba. Sat svo við hana í um klukkustund. Pabbi kom fram um tíu leytið og byrjaði á því að skrá niður sínar mælingartölur um hitastig og fleira. Við fengum okkur harðsoðin egg og hann setti fleiri upp. Ég fór í kaplakeppni við sjálfa mig. Um hálftólf hellti ég mér upp á kaffi. Pappírinn sem ég keypti til að setja inn í dökku jólakortin mætti alveg nota sem jólakort ein og sér. Hann er 220 gr. Ákvað samt að nota hluta af honum inn í tilvonandi jólakort þessa árs. Lauk við að brjóta og líma 20 stk. inn í grænu, bláu, rauðu og svörtu jólakortin. Um hálftvö kvaddi ég pabba minn og frænku mína og lagði af stað heim. Kom við hjá Jónu Mæju og Reyni. Þeim hálfbrá þegar ég hringdi dyrabjöllunni þeirra því það kemur svo sjaldan nokkur til þeirra þessa dagana. En þau tóku fagnandi á móti mér og ég stoppaði hjá þeim í kaffi í um klukkutíma. Þau fara til Danmerkur um jólin svo ef ég er skynsöm þá klára ég jólabréf og kort til Gerðar og bið þau fyrir það áður en þau fara út. Jóna Mæja sýndi mér svolítið þegar ég kom. Þegar hún varð sextug fyrir átta árum gaf ég henni útsaumað stjörnumerkið sitt með nafninu sínu undir. Það átti bara eftir að finna ramma utan um útsaumið. Afmælið var haldið í Reykjavík á sínum tíma hjá aldraðri móður hennar. En svo tíndi hún þessari gjöf og var búin að leita öðru hvoru. Þetta fannst loksins um daginn þegar hún tók fram gjafapoka til að endurnýta. Ég kom heim um fimm leytið. Tæpum tveimur tímum seinna tók Davíð Steinn að sér að elda úr "jólaglaðningum" frá RB. T-bone steik með alls konar meðlæti og ofnbakaður gullostur í forrétt. 

5.12.21

Á Hellu

Svaf til klukkan langt gengin í átta í gærmorgun. Dreif mig beint í sund og rútínan þar tók rúma tvo tíma með hárþvottinum í lokin. Það var ekki fyrr en ég kom heim úr sundi og búin að hella mér upp á kaffi og finna mér eitthvað snarl að ég settist niður í stofu með fartölvuna í fanginu og kaffibollann á kantinum. Eftir smá leiki, netvafr og blogginnfærslu sótti ég þvottinn minn í þvottahúsið. Pakkaði niður í tösku, gat aðeins vakið annan strákinn til að kveðja. Lagði svo af stað austur upp úr klukkan hálfeitt. Kom við í Fossheiðinni á Selfossi. Stoppaði þar í um klukkustund áður en ég hélt för áfram á áfangastað. Byrjaði á því að fara í smá kaplakeppni við pabba en eftir kaffitímann horfðu við á seinni hálfleik í leik þar sem Liverpool var að keppa á útivelli. Staðan var markalaus þar til á síðustu mínútu uppbótartíma að Liverpool náði inn marki og tók öll stigin þrjú. Chelsea hafði tapað óvænt í hádegisleiknum svo "mitt" lið var á toppnum þar til eftir Man. City var búinn að vinna sinn leik og er fyrir vikið á toppnum stigi ofar en Liverpool. Eldaði grjónagraut í matinn. Fékk mér hvítvín eftir fréttir og við pabbi horfðum saman á Emil í Kattholti. 

4.12.21

Hádegi

 sem er vön að vera mætt fyrst á vinnustað þegar hún er ekki í fríi eða lasin mætti síðust í gærmorgun. Ein af okkur hinum þremur sem erum í 100% stöðu reyndi að hringja um átta en síminn hjá þeirri sem ekki var mætt hringdi út. Þá  hringdi hún í dóttur viðkomandi og það kom í ljós að mamman hafði sofið yfir sig. Hún átti að vera á móttökuendanum á framleiðsluvélinni en ég skipti við hana og í staðinn fór hún inn á vél eftir kaffi og á móttökuendann eftir hádegi. Þar sem fella þurfti jólahlaðborð vinnustaðarins niður vegna veiru og hertra reglna fengum við jólaglaðning, gott að borða, velútilátið fyrir tvo og þríréttað. Það mátti sækja þetta seinni partinn á fimmtudaginn en við fengum okkar sent í K1 í gær. Vegna aukafarangursins þáði ég boð um far heim eftir vinnu frá þeirri sem býr í Garðabæ. Um hálffimm fór ég í Nauthólsvík. Það var stillt veður, flóð og sjávarhiti 2,2°C. Ég var að svamla um í sjónum í uþb korter og sat svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Lánaði bræðrunum bílinn um sjö og fram eftir kvöldi. Þeir voru boðnir í 25 ára afmæli einnar skólasystur þeirra úr Hlíðarskóla. Vorum beðnir um að vera búnir að taka hraðpróf og ekki mæta nema þeir væru neikvæðir. Ég hafði það notalegt fyrir framan imbann til klukkan að verða ellefu. Þá fór ég í háttinn, kláraði að lesa bókina Bláleiftur eftir Ann Cleves og byrjaði á Svörtu perla eftir Lizu Marklund.

3.12.21

Morgunstund

Við vorum fjórar í vinnu til hádegis og þrjár eftir hádegi. Ég vann á vélinni allan daginn en skipti reglulega um enda. Gátum lokið við stóra gjafakortapöntun og sent frá okkur upp úr hádeginu. Vinnudagurinn leið hratt þótt hann stæði yfir til klukkan langt gengin í fjögur. Kom við í Eymundsson í Austurstræti og keypti mér hvítan pappír til að setja inn í dökku jólakortin. Fjárfesti einnig m.a. í pennum. Klukkan var orðin hálffimm þegar ég kom heim og enn og aftur skrópaði ég í sund. Fór ekkert út aftur. Hafði til kvöldmat um sjö. Annar sonurinn reyndar að vinna og hinn hafði pantað sér pizzu en gekk þó frá í eldhúsinu. Horfði á megnið af Man. Utd - Arsenal leiknum en fór inn í rúm að lesa korteri áður en leiknum lauk.