31.10.20

Bloggað alla daga þennan mánuðinn

Það var eitthvað vesen á netinu í gærkvöldi þannig að þegar sjónvarpið fraus í annað skipti um hálftíu ákvað ég að slökkva og hátta mig upp í rúm með bók. Las í einhverja stund en ég leit ekki á klukkuna þegar ég lagði frá mér bókina og slökkti á lampanum. Held samt að klukkan hafi alls ekki verið orðin ellefu enda var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Fór fram á sloppnum um hálfátta og var á undan N1 syninum á baðherbergið en hann kom fram rétt á eftir mér og var farinn af stað í sína vinnu fljótlega. Ég bjó mér til hafragraut og borðaði í rólegheitunum. Um hálfníu fór ég að huga að því að undirbúa mig undir sjóferð. Var sótt uþb tuttugu mínútum síðar. Tvær aðrar voru mættar og biðu í bílunum sínum þar til sú síðasta sem hafði boðað komu sína mætti skömmu síðar. Sjórinn mældist 4,8°C og það var afar hressandi að taka nokkur sundtök bæði á bringu og baki. Vorum uþb sjö mínútur útí. Svo var mér skilað heim að innkeyrslu. Ég fór beint í sturtu og þvoði mér um hárið. Fór svo niður í þvottahús og setti sjósundsdótið 30° stutt prógramm í þvottavélinni. Á nú bara eftir að fara niður aftur til að hengja dótið upp.

Heyrði aðeins í Helgu systur í gærkvöldi. Hún hringdi til baka þar sem hún gat ekki svarað þegar ég hringdi um miðjan dag. Tilboðinu þeirra í jörðina var tekið en það veltur samt á því hvort seljendur fái greiðslumat hvort þetta verði að veruleika. Tilfinning mín er samt sú að norðanfólkið mitt sé að fara að flytja í sveitina á næstu misserum.

Síðasti dagurinn í þessum mánuði runninn upp og framundan er vinnuvika eftir helgi. Vegna hertra reglna til að freista þess að ná böndum um veiruna er útlit fyrir að vinnufyrirkomulag haldi áfram með sama hætti næstu vikurnar. Í næsta vinnustoppi ætla ég að huga að jólakortagerðinni í ár.

30.10.20

Lítil ferð á logninu

Næstsíðasti dagur októbermánaðar er hafinn. Ég kom mér á fætur áður en klukkan varð átta en er lítið búin að gera síðan eftir morgunverkin á baðherberginu. N1 sonurinn lagði af stað í sína vinnu stuttu fyrir sjö. Hinn sonurinn fer líklega ekki á fætur fyrr en upp úr hádeginu. Rólegheit hjá mér, nenni varla að spá í hvað ég ætla mér að aðhafast. Fór ekki í neinn göngutúr í gær en ég er búin að fara oftar út að ganga í þessari fríviku heldur en þegar var frívika síðast. Við Oddur urðum samferða út á Granda fljótlega eftir hádegið í gær. Hann hleypti mér út við Krónuna og skrapp í Sorpuferð á meðan ég verslaði. Innkaupalistinn var nokkuð langur enda hálfur mánuður síðan ég fór síðast í búð.

Heyrði í pabba mínum í gær. Hann er laus við þvaglegginn en honum var kennt hvernig hann á að losa um sjálfur og þarf að fara reglulega á salernið, ekki sjaldnar en á fjögurra tíma fresti. En í staðinn kemst hann líka í sund á meðan það er hægt og er hann nú, með deginum í dag, búinn að fara þrjá daga í röð. Hann sagðist vera sprækari, syndir aðeins hraðar, heldur en nokkru áður en hann fékk þvaglegginn og með minni verki í mjöðmunum. Ég fékk svo fréttir af systir minni og mági í gegnum hann. Tilboðinu í jörðina var tekið með fyrirvara um greiðslumat svo það stefnir allt í að þau séu að flytja enn norðar, í sveitina milli Akureyrar og Húsavíkur.

Hringdi líka í Ellu vinkonu. Það er búið að skilgreina hennar afbrigði af MS í miklum áhættuflokki. Hún lét skólastjóra grunnskólans á Egilstöðum vita sem spurði hana hvað hún vildi gera. Á meðan engin smit greinast fyrir austan vill Ella stunda sína kennslu með hefðbundum hætti, þ.e. mæta í skólann. En ef þessi staða breytist er skólastjórinn tilbúinn að setja hana í verkefni sem hægt er að vinna að heiman.

29.10.20

Stutt í næsta mánuð

Þrátt fyrir að hafa bæði farið í  fimmtíu mínútna göngu í gær morgun og svo tæpar sex mínútur í lónið í Nauthólsvík seinni partinn gekk svolítið illa að sofna í gærkvöldi. Ég skreið upp í rúmlega tíu en kláraði "Eddumál" á tæpum þremur korterum. Var búin að slökkva á lampanum fyrir klukkan ellefu. Held ég hafi gleymt mér í smá stund en ég hrökk upp fyrir miðnætti. Veit ekki nákvæmlega hversu lengi ég var að sofna en ég fór amk aldrei framúr og kveikti heldur ekki nein ljós eða fór að vafra um í netheimum á símanum. Einhvern tímann sofnaði ég og kannski var ekki svo langt liðið á nóttina. Svo svaf ég á mínu græna alveg til klukkan að byrja að ganga níu í morgun. Ég á eftir að fara út í göngutúr en kannski fer ég ekki fyrr en seinni partinn í dag. Einkabílstjórinn ætlar í sorpuferð og ég ætla nota ferðina og skreppa í búðina. Hálfur mánuður síðan ég verslaði síðast ef frá er talin ein ferð í Fiskbúð Fúsa í síðustu viku.

Það "datt" ein afgangatuska af prjónunum í gær. Á sennilega afganga í eina til en ég ákvað að nota eina af fjórum dokkum sem ég á eftir af þeim tíu sem ég keypti í Söstrene Grene um daginn. Seinni dokkan af þeim sem ég keypti í Hagkaup er hluti af afgöngum núna.

Ég á eftir að heyra í bæði pabba og systur minni og/eða mági í dag. Engar fréttir eru góðar fréttir en ég þarf samt að fá það staðfest. Og svo er spurning hvort tilboðinu í jörðina var tekið. 

Sennilega verða sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu ekki opnaðara neitt alveg á næstunni en vonandi næst að ná böndum um veirufaraldurinn sem allra allra fyrst.

28.10.20

Mið vika

Það er eins gott að fylgjast aðeins með dagatalinu á þessum skrýtnum tímum þar sem önnur hver vika er full af laugardögum og eða sunnudögum þar sem ég má ekki mæta á vinnustaðinn. Leiðist svo sem alls ekki þessi tími en líklega mætti ég alveg vera duglegri við að nýta hann aðeins skynsamlegra. Held samt að ég sé alveg að gera mitt besta í því sem ég tek mér fyrir hendur og það sem verður útundan er hvort sem er annað hvort eitthvað sem er ekki á mínu færi eða þá ástand sem ég tek sjaldan eftir.

Ég er langt komin með bókina hennar Jónínu Leósdóttur, sú bók er spennandi og fyndin en stundum pirrandi á köflum. Aðal söguhetja er helst til forvitin um annarra hagi og gengur stundum fram af mér við að afla sér upplýsinga en oftast kemur það þó sér vel fyrir þá sem hún er að forvitnast um.

Pabbi á tíma hjá þvagfærasérfræðingi hér í bænum um tvö í dag. Hann má ekki mæta með neinn með sér og ekki koma inn fyrr en fimm mínútum fyrir settan tíma. Hann á að losa sig sjálfur við legginn, sagt að gera það um tíu en ég held að pabbi hafi þráð að komast í sund á "sínum tíma" um hálfsjö í morgun svo hann hefur líklega fjarægt legginn fjórum tímum fyrr en ráðlagt var. Hann sagði við mig í símtali gærdagsins að hann ætlaði bara að drekka aðeins minna fram að læknistímanum. Honum finnst líklegt að hann verði þræddur aftur, batinn er hægur en þó í áttina finnst honum.

Systir mín og mágur gerðu tilboð í jörð milli Akureyrar og Húsavíkur sl. föstudag. Buðu sína fasteign upp í á sléttu og átti tilboðið að gilda til klukkan fimm síðdegis á mánudaginn var. Þegar ég hringdi í mág minn stuttu fyrir hádegi í gær spurði ég hann meðal annars um hvort tilboðinu hefði verið tekið og svarið var að þau voru beðin um að framlengja frestinn um tvo sólarhringa. Þannig að það kemur í ljós fyrir klukkan fimm í dag hvort þau eru að flytja frá Akureyri á næstunni og í sveitina. 

27.10.20

Fartölvan netsambandslaus fram á kvöld

Vegna netvandræða var ég búin að slökkva á sjónvarpinu fyrir klukkan hálftíu í gærkvöldi og komin upp í rúm með bók. Var búin með Krossfiskar og byrjaði á Barnið sem hrópaði í hljóði. Klukkan var ekki mikið meira en tíu þegar ég lagði frá mér bókina, slökkti á lampanum, bað bænirnar og fór að sofa. Var ekki mikið að rumska í nótt og ég satt best að segja svaf örugglega meira en átta tíma. Var að rumska rétt fyrir sjö þegar N1 sonurinn lagði af stað í vinnuna. Ég hlustaði á fréttir klukkan sjö og aðeins á morgunútvarp rásar tvö en var komin á fætur nokkru áður en klukkan varð átta.

Ætlaði að byrja á því að nota fartölvuna eftir morgunverkin á baðherberginu en ég náði engu netsambandi og vildi ekki vera fikta of mikið. Laumaði mér í staðinn í tölvu Davíðs Steins í ca. klukkutíma. En þar logga ég hann bara út af facebook en ekki gmail svo ég blogga aldrei í hans tölvu. Þegar Oddur Smári kom fram um eitt leytið sat ég inni í stofu að lesa og var þá búin að prjóna smá líka og snuddast aðeins í eldhúsinu. Bað soninn um að athuga hvort hann gæti nettengt fartölvuna en þær tilraunir sem hann gerði virkuðu ekki.

Ég skrapp í 4,4 km. labbitúr um nágrennið og stóran part af Öskjuhlíðinni upp úr klukkan þrjú og Oddur Smári var farinn á vakt þegar ég kom heim aftur um fjögur. Rétt eftir að ég kom heim hringdi hinn sonurinn í mig og spurði hvort ég gæti sótt sig eftir vaktina og komið við í Lyfju í heimleiðinni, hann vantaði að útvega sér brjótsviðatöflur. Ég samþykkti þetta. Var mætt á Gagnveg tæpum tíu mínútum áður en vaktin hans var búinn og notaði tækifærið og kannaði þrýstinginn í hljólbörðunum því mælaborðið var með skilaboð um að ekki næðist samband við skynjarann. Þrýstingurinn var í fínu lagi, þurfti aðeins að bæta um 1" í annað afturdekkið. Skilaboðin hurfu úr mælaborðinu þegar ég var búin að endurstilla í gegnum Menu.

Davíð Steinn opnaði svo nettenginguna fyrir mig áðan svo ég næ að blogga tuttugastaogsjöunda daginn í röð í þessum mánuði, af 27 dögum sem eru að verða liðnir af október. 

26.10.20

Mánudagsmorgun

Þrátt fyrir að ekki sé venjulegur virkur vinnudagur hjá mér þá stillti ég vekjaraklukkuna á hálfátta í morgun og var sofnuð fyrir klukkan ellefu. Rumskaði einhvern tímann á fimmta tímanum og náði ekki að festa svefn aftur. Um hálfsex slökkti ég á vekjaraklukkunni, freistaðist aðeins til að logga mig á netið og skrolla niður moggavefinn og facebook vefinn. Slökkti eftir fimmtán mínútna vafr og gerði heiðarlega tilraun til að sofna aftur um stund. Ekkert varð af því. Heyrði N1 soninn læðast um upp úr hálfsjö og skella á eftir sér korter fyrir sjö. Tuttugu mínútum síðar læddist Kvikk sonurinn á fætur og hann var farinn í sína vinnu fyrir klukkan hálfátta. Hálftíma eftir það reif ég mig á fætur.

Í gær skrapp ég í göngutúr hálfan hring í Öskjuhlíðinni. Á þremur korterum, milli eitt og tvö, labbaði ég að og eftir Flugvallarvegi og svo stíginn meðfram hlíðinni að HR. Þar labbaði ég upp og framhjá Perlunni og kom niður við ljósin á Bústaðaveg ofan við Kvikk/OB stöðina. Þetta mældust 3,7km að heiman og aftur heim.

Lánaði bræðrunum bílinn rétt fyrir kvöldmat í gær og sleppti því að elda þrátt fyrir að hafa tekið út kjúklingalæri í gærmorgun. Strákarnir voru að fara hitta pabba sinn og bjóða honum út að borða.

Ég er langt komin með enn eina tuskuna og kláraði að lesa bókina sem ég hef nefnt hér áður. Ég get svo svarið það að ég var örugglega sjö daga að lesa hana, eða amk hátt í það.

25.10.20

Síðasti sunnudagur októbermánaðar

 Eftir slétta viku, þ.e. næst komandi sunnudag, byrjar nóvember. Þrátt fyrir allt hefur þetta ár liðið þokkalega hratt og ég er viss um að síðustu tveir mánuðirnir verða ekki lengi að líða. Einhvern veginn hef ég náð að taka bara fyrir einn dag í einu, sokkið mér niður í lestur eða prjón og er svo þar að auki svo heppin að eiga góðar vinkonur og einnig hafa kynnst nokkrum hressum konum sem skella sér í sjóinn 2-3 í viku, jafnvel þótt aðstaðan í Nauthólsvík sé lokuð.

Ég stóð við skrif gærdagsins og um það leyti sem Kvikk-sonurinn kom heim af vakt var vöfflustaflinn nánast tilbúinn. Kaffitíminn var tekinn í fyrra fallinu, um hálfþrjú. Áður en ég fór í þetta verkefni ryksugaði ég sameignina frá þvottahúsi og upp á pallinn fyrir framan hjá mér. Davíð Steinn sá svo um að skúra þá hluta sem ekki eru teppalagðir og kvitta fyrir okkar mánuð. Náðum semsagt að skila af okkur sameignarþrifum áður en mánuðurinn okkar er liðinn.

Er enn að lesa bókina Sjö dagar. Þær fjórar bækur sem bíða enn ólesnar í röðinni af safninu eru: Krossfiskar eftir Jónas Reynir Gunnarsson, Sólkross eftir Óttar M. Norðfjörð, Helköld sól eftir Lilju Sigurðardóttur og Barnið sem hrópaði í hljóði eftir Jónínu Leósdóttur. Skiladagurinn á öllum bókunum 10, lesnum sem ólesnum, er til 20. nóvember svo ég hef nægan tíma.

24.10.20

Æi, sjötíuogsex er heldur mikið

Ég fór frekar snemma í háttinn í gærkvöldi, miðað við að það var föstudagskvöld og margir laugardagar og sunnudagar framundan. Klukkan var nú samt orðin tíu og svo las ég í smá stund. Rumskaði um sjö í morgun og varð vör við að Oddur Smári var að undirbúa sig undir að mæta og opna á Kvikk. Hann var farinn fyrir hálfátta en ég fór ekki framúr fyrr en amk tuttugu mínútum eftir það. Klæddi mig aðeins í slopp og eftir morgunverkin á baðherberginu setti ég upp hafragraut. Um hálfníu undirbjó ég mig undir sjósundsferð og var alveg klár í þá ferð þegar ég var sótt rétt fyrir níu. Hittumst sex saman við Nauthólsvík. Ég var fyrst út í en við vorum alls ekki lengur en tíu mínútur á svamli ásamt hinum öndunum og máfunum. Fór beint í sturtu þegar ég kom heim og ákvað að þvo á mér hárið í leiðinni. Svo stakk ég sjósundsdótinu mínu í þvottavélina, stillti á 30°C og 1,35 klst. þannig að það styttist í að ég geti farið niður og hengt upp. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi en er aðeins búin að drekka einn. Hinn skammturinn er örugglega orðinn kaldur í lélegum brúsanum. Það gerir nú minnst til. Nota sennilega þann leka til að búa að hræra saman við vöfflusoppu og hellti svo upp á nýtt kaffi. 

23.10.20

Síðasti vinnudagurinn í þessum mánuði

Tvíburahálfsystir mín sótti mig um átta í gærkvöldi en við vorum boðaðar og búnar að samþykkja að mæta í saumaklúbb til þeirrar þriðju í klúbbnum. Á leiðinni milli Hlíða og Grettisgötu hringdi gemsinn minn og á hinum endanum var ein pottavinkona mín úr morgunhópnum í Laugardalslauginni. Laugin er búin að vera lokuð í þrjár vikur bráðum en hún hefur ekki mætt mikið á þessu ári, er ekki örugg þegar Covid-19 er að sveimi í samfélaginu. Hún hafði hins vegar fengið kveðju frá mér í gegnum aðra sem við þekkjum báðar og ákvað því að hringja. Við töluðum stutt en ég lofaði að setja mig í samband við hana í næstu viku.

Vel var tekið á móti okkur á Grettisgötunni og tveir tímar liðu mjög hratt. Föndruðum, spjölluðum, hlógum og hlustuðum á mússík undir m.a. á Kim Larsen heitinn. Ég var komin heim áður en klukkan varð ellefu. Fór beint í rúmið en las í smá stund.

Vaknaði á undan klukkunni en varð að bíða eftir að komast að á salerninu því Oddur Smári hafði tekið að sér aukavakt milli hálfátta og þrjú og var í sturtu þegar ég kom fram. Ég fór aftur á bílnum í vinnuna og þema dagsins var bleikt. Allri framleiðslu var lokið um hádegið og eftir hádegi var lokið við að telja, ryksuga vélina, þrífa og sótthreinsa helstu sameiginlegu snertifleti og sett saman skýrsla um vikuna fyrir hópinn sem tekur við í næstu viku.

Fór beint heim eftir vinnu og byrjaði á því að hringja í pabba minn. Í dag, 23. október, eru liðin 100 ár frá fæðingu föðurbróður míns, Þorsteins Oddssonar. Daginn sem hann fæddist var fyrsti vetrardagur og hann sagðist alltaf eiga afmæli þann dag hvort sem hann hitti á 23. eða ekki. Blessuð sé minning hans. 

22.10.20

Notaði bílinn milli heimilis og vinnu í dag

Var komin upp í rúm um hálftíu í gærkvöldi. Las í rúman hálftíma. Var fljót að sofna, rumskaði örstutt öðru hvor meginn við miðnættið og svo svaf ég alveg til klukkan korter yfir sex. Vaknaði semsagt tíu mínútum áður en vekjaraklukkan átti að fara í gang.

Mætti á vinnustaðinn um hálfátta. Allri framleiðslu og frágangi var lokið um hálfþrjú. Daglegu skrárnar náðu ekki 300 kortum í heildina. Fengum fleiri form vegna sérverkefnis sem við byrjuðum á í gær. Framleiddum rúmlega 200 kort þar til að ljúka við ca 400stk pöntun. Fengum eina endurnýjun og framleiddum fimm skrár af sex, hefðum klárað ef við hefðum haft nægt hráefni.

Kom við í fiskbúð Fúsa á heimleiðinni og keypti ýsu, 1 lauk og poka að óbarinni ýsu. 

21.10.20

Labbað báðar leiðir, 2x3,5 km milli heimilis og vinnu

Sennilega hef ég farið aðeins of snemma að sofa í gær, um hálfellefu, því í rumskaði upp úr klukkan fimm og sofnaði ekki aftur eftir það. Fór á fætur um sex og bjó til hafragraut, nóg handa tveimur og þáði N1 sonurinn annan skammtinn áður en hann fór af stað í vinnuna. Ég labbaði af stað í vinnuna áður en klukkan varð sjö og ákvað að fara þá leið sem liggur m.a. meðfram flugvellinum, gegnum Hljómskálagarðinn, meðfram tjörninni og Lækjargötuna að Kalkofnsvegi. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt. Öll dagleg framleiðsla var búin rétt fyrir hádegið og svo kláruðum við að framleiða mánaðarlega kreditendurnýjun og byrjuðum á sér yfirfærsluverkefni. Hefðum klárað það verefni líka ef við hefðum verið með nóg af formum. Labbaði af stað heim um hálfþrjú og fór næstum sömu leið til baka og ég fór í morgun nema ég labbaði meðfram Valsvellinum og göngustíg milli Skógarhlíðar og Eskihlíðar. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi og fékk mér hressingu því það er betra að vera búin að fá sér eitthvað skömu áður en maður skreppur í sjóinn en ég verð sótt eftir ca. hálftíma.  

20.10.20

Fimm komma sex, heilmikið högg og langur skjálfti upp úr hálftvö í dag

Var komin í bólið um hálfellefu í gærkvöldi. Las um stund en var búin að leggja frá mér bókina, slökkva á lampanum og biðja bænirnar mínar áður en klukkan varð ellefu. Einhverra hluta vegna rumskaði ég um tvö leytið. Náði ekki að sofna strax aftur svo ég ákvað að prófa að skreppa á salernið. Fannst sem mér væri ekki svo mikið mál en bunan var meiri heldur en tilfinningin. Náði að festa svefn fljótlega en rumskaði aftur um hálffjögur. Hvað var í gangi veit ég ekki en ég sofnaði alla vega aftur og svaf þar til vekjaraklukkan fór í gang um hálfsjö.

Labbaði 3km í vinnuna í morgun og var mætt upp úr hálfátta. Ég sá um bókhaldið og frágang frammi í dag. Hinar tvær framleiddu daglegu kortin og héldu svo áfram með endurnýjunina eftir hádegi. Um hálftvö leytið var ég búin að því sem lá fyrir og fór þá að vinna í að gera uppkast að skýrslu, punkta niður það helsta sem var í gangi í gær og í dag. Allt í einu heyrðust drunur og það kom einhver hreyfing og svo heilmikið högg og enn meiri hreyfing. Ég stóð upp strax eftir skjálftann og fór að athuga með samstarfskonur mínar. Þær voru á leiðinni fram þegar ég opnaði dyrnar inn til þeirra. Framleiðsluvélin stoppaði í hamaganginum og þær voru nokkuð skeknar. Róaði þær niður og mig í leiðinni. Þær héldu framleiðslu áfram en hættu  tæpum klukkutíma síðar. Það sem stendur eftir af endurnýjuninni klárast á morgun eða hinn og okkur sýndist í góðu lagi að fara heim í fyrra fallinu. Ég fékk far heim og var komin þangað um þrjú. Byrjaði á því að hella mér upp á tvo bolla af kaffi og hringdi svo fljótlega í pabba. Hann fann alveg fyrir skjálftanum. 

19.10.20

Sjósund seinni partinn

 Var vöknuð upp úr klukkan sex í morgun og komin á fætur um hálfsjö. Labbaði af stað í vinnuna rétt fyrir klukkan sjö og var mætt þangað um hálfátta. Skrefamælirinn í símanum var samt ekkert að hafa fyrir því að telja skrefin eða skrá niður göngutúrinn, allar tölur á núll þar og það virkaði ekki að "pota" eitthvað í forritið. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt, nóg að gera en við hættum vinnu um þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Endurræsti símann eftir að ég kom heim og þá fór heilsuforritið Samsun Health loksins að virka. Hellti upp á einn bolla af kaffi og fékk mér hressingu. Las um stund í; Sjö dagar eftir Freancesku Hornak, bók sem ég byrjaði á í gær. Korter fyrir fimm var ég tilbúin í sjósundsferð og beið frammi á gangi eftir farinu en Helga Rún varð samt að hringja í mig þegar hún var komin fyrir utan því ég sá hana ekki beygja inn í götuna hvernig svo sem ég fór að því að missa af því. Helga Björk var í aftursætinu en systurnar og eina til hittum við í Nauthólsvík ásamt slatta af fleira fólki sem fékk alveg sömu hugmynd. Stilla og fallegt veður og við vorum rétt rúmar tíu mínútur út í sjónum sem við giskum á að hafi verið öðru hvoru meginn við 5°C.

18.10.20

Pabbi áttatíuogsex ára í dag

Íslensku stafirnir á lyklaborðinu voru ekki tiltækir þegar ég ætlaði að setja inn pistil dagsins fyrir klukkan níu í morgun. Mér skilst að það sé einfalt að laga það en ég beið engu að síður eftir að N1 sonurinn kæmi á fætur og úr sturtu til þess að laga þetta. Það tók hann aðeins nokkrar sekúndur en ég sá reyndar ekki hvað hann gerði því ég fór að undirbúa mig undir að skutlast með hann upp á Gagnveg þar sem hann er á vakt milli klukkan tíu og hálfátta í dag. Notaði tækifærið og kannaði loftþrýstinginn á dekkjunum sem var aðeins búinn að minnka um 1-2 á öllum hjólbörðum á tæpum þremur vikum.

Gulu laufblöðunum hefur fækkað töluvert en samt hefur verðin á logninu ekki verið neitt sérstaklega mikil. Er hálfnuð með enn eina tuskuna og ég lauk við að lesa Arsenikturninn í gær. Í dag myndi mig langa til að skreppa og heilsa upp á afmælisbarn dagsins og einkabílstjórinn er alveg til í að koma með. Hins vegar vil ég helst fylgja fyrirmælum og vera ekkert að ferðast að óþörfu, sérstaklega þegar enn eru að greinast yfir 60 smit daglega og höfuðborgarsvæðið skilgreint sem rautt.

Framundan er vinnuvika, sú seinni í þessum mánuði því ég reikna með því að hólfa- og hópaskipting verði áfram næstu vikurnar og er jafnvel smeik um að þetta ástand vari alveg fram á nýtt ár. Einn dagur í einu og nota tímann mis skynsamlega, amk að passa vel upp á sínar sóttvarnir, handþvott, sprittun og tveggja metra reglu eins og hægt er. Og þrátt fyrir veiruógnina er svo hægt að horfa þannig á þetta að við lifum á mjög svo sögulegum tímum. Þetta ár fer svo sannarlega í sögubækurnar og það er ekki búið enn, alveg tveir og hálfur mánuður eftir þar til 2021 rennur upp.

17.10.20

Leikur milli Liverpool-liða í enska

Enn ein tuskan "datt" af prjónunum í gærkvöldi. Tuska númer tvö úr afgöngum en þær eru að nálgast 20 stk. sem ég hef prjónað á þessu ári. Er ekki búin að fitja upp á nýrri en ég á enn sjö heilar dokkur sem eru ætlaðar í tuskuprjón og það er líklegt að ég byrji á næstu tusku strax í dag.

Lauk við að lesa bókina Sterkasta kona í heimi í gærkvöldi. Er langt komin með Arsenik turninn, las amk  100 bls í þeirri bók í gær. Ef ég skrái mig inn á leitir.is og vel útlánshnappinn kemur í ljós að allar bækurnar 10 sem ég er með af safninu erum með skilafrest til  9. nóvember n.k. Á fimm af þessum tíu alveg ólesnar, búin að klára 4 og eins og ég skrifaði áðan langt komin með Arsenik turninn fimmtu bókina af tíu.

Vaknaði upp úr klukkan sjö í morgun. Var ekkert að rjúka strax framúr heldur kúrði um stund. Fór fram á sloppnum rétt fyrir átta og setti upp hafragraut eftir að hafa sinnt morgunverkunum á baðherberginu. N1 sonurinn kom fram stuttu seinna, orðinn alltof seinn í vinnuna en í þetta sinn var ekkert sem ég gat gert við því. Tímaáætlun strætó er svo þannig um helgar að hann er hvort sem er alltof seinn hvort sem hann á að mæta klukkan átta á laugardagsmorgni eða klukkan tíu á sunnudagsmorgni. Ég get hjálpað til með mætinguna í fyrramálið ef hann vill en hann á líka rétt á því að fá leyfi til að taka leigubíl á kostnað vinnuveitanda.

Tíu mínútum fyrir níu var ég tilbúin í sundbol innan undir yfirtökuflíkinni með hárið í hnúð undir sundhettu og í sjósundssokkum og strandskóm á fótunum. Í stórum bláum IKEA poka var ég með handklæði, skó og sjósundsvettlinga. Húslyklar, sokkar og vettlingar voru í vösum yfirtökuflíkurinnar. Helga Rún sótti mig og systurnar hittu okkur í Nauthólsvík. Vorum tíu mínútur á svamli í dásamlegri morgunkyrrð og nokkrar endur voru á svamli skammt frá. Það var háflóð um hálfsjö í morgun og því aðeins byrjað að fjara út aftur þannig að við gátum notað "staðina okkar" til að geyma handklæði skó og yfirhafnir. Þegar ég kom heim aftur fór ég beint í sturtu og þvoði á mér hárið í leiðinni. Á eftir skolaði ég úr sjósundsdótinu mínu í þvottahúsinu og skildi eftir sokka og strandskó á heitu röri en hengdi sundbol og hanska upp í baðherberginu. Síðan hellti ég mér upp á fyrstu kaffibolla dagsins og er búin að drekka þrjá bolla nú þegar.

16.10.20

Föstudagur

Klukkan er að verða hálftíu og smám saman að birta af degi. Ég sit í stofusófanum með fartölvu Davíðs Steins á hnjánum. Búin að sitja hér í rúman klukkutíma. Þegar ég lít út og horfi út um stofugluggann sé ég tré með mikið af gulum laufum. Aðeins örlar í grænt en guli liturinn er meira áberandi. Veturinn er að nálgast, rétt rúm vika í vetradaginn fyrsta skv. almanakinu.

Við Oddur Smári skruppum í leiðangur í gær. Hann keyrði og hleypti mér út við Krónuna við  Granda. Ég setti á mig grímu áður en ég fór inn í búðina og það er í fyrsta skipti sem ég geri það. Og þetta var annar dagurinn í röð sem ég set svona upp því eins og ég skrifaði um í gær þurfti ég að setja upp grímu í blóðbankanum. Á meðan ég var að versla fór Oddur í Sorpu með, blöð, plast og fleira drasl. Hann var búinn að þessu á undan mér og beið þolinmóður út í bíl, eitthvað að leika sér með símann sinn. Einkabílstjórinn hélt svo á vörunum, tveimur pokum inn og gekk frá þeim. Davíð Steinn var að ganga frá úr uppþvottavélinni. Þeir voru semsagt báðir á frívakt í gær. 

15.10.20

Engar holur

Fór gangandi í blóðbankann í gær og var mætt fimm mínútum fyrir bókaðan tíma. Var nýbúin að leggja frá mér útfyllta skjalið þegar ég var kölluð inn. Skellti í mig einu djúsglasi og þambaði einnig eitt glas af vatni. Setti svo á mig grímu áður en ég þvoði mér, sprittaði og elti hjúkrunarfræðinginn inn í herbergi þar sem blóðþrýstingurinn var mældur. Eftir mælinguna bauð hún mér að leggjast á ákveðinn bekk á meðan hún undirbjó blóðtökuna. Hún leitaði að æðum í báðum handleggjum og ákvað svo að velja að stinga í þann hægri sem hefur verið þekktari fyrir að vera óþekkur. En allt gekk súper vel og korteri síðar fékk ég mér smá hressingu á kaffistofunni áður en ég labbaði heim aftur. Mér var ráðlagt að hringja inn í næstu viku til að kanna hvernig járnið kemur út í mælingu, hvort það er á leiðinni upp eða niður og eins verð ég að láta vita ef ég greinist/veikist af Covid-19 á næstu dögum.

Áður en ég fór heim sótti ég bílinn í næstu götu. Um hálftvö fór ég á bílnum í árlega skoðun hjá tannlækninum. Valhöll er ekki langt frá en ég ákvað að burra þetta. Labbaði hins vegar bæði upp og niður stigana en stofan er á fjórðu hæð. Teknar voru tvær myndir, tannsteinn hreinsaður og eins farið með tannþráð á milli allra tanna. Þegar ég var búin að gera upp þessa heimsókn bókaði ég þá næstu eftir rétt rúmlega ár. Á heimleiðinni kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið. Var reyndar búin að taka út hakk og það varð ofan á að nota það í gærkvöldi en það verður fiskur í matinn í kvöld, það er klárt mál.

Ein bókin úr bunkanum sem ég sótti síðast á safnið heitir; Sterkasta kona í heimi eftir Steinunni G. Helgadóttur. Ég er byrjuð á þeirri bók, er semsagt að lesa þrjár bækur í einu og svo þá fjórðu sem er á dönsku gríp í ég öðru hvoru.

Heyrði bæði í  föðursystur minni og "tvíburahálfsystur" minni í gær og átti langt spjall við þá síðarnefndu. Samt er ekkert svo langt síðan við hittumst í saumaklúbbi hjá Lilju. Málið er samt einfalt við höfum alltaf um nóg að spjalla hvort sem við hittumst oft eða sjaldan.

14.10.20

Á leið í blóðbankann

 Ég fékk sms og e-mail frá blóðabankanum í gær um hvort ég gæti komið með framlag í dag 14. Var beðin um að panta tíma ef svo væri. Fyrst var ég að spá í að panta tíma á morgun fimmtudag en svo var ég ekki viss um að ég mætti fara þá ef ég væri að fara til tannlæknis í dag þótt um árlegt eftirlit væri að ræða. Ég ákvað því að panta tíma klukkan hálfellefu og fékk skilaboð í morgun um á sá tími væri fullbókaður svo hann var færður til 10:40. Þetta þýðir líklega það að ég verð að segja pass á sjóferð seinni partinn en stundum þarf bara að forgangsraða.

Í gærmorgun var ég með hugann hjá Lilju vinkonu, alveg ákveðin í að hafa samband við hana um hádegið. Um hálfellefu sendi hún mér fyrirspurn á facebook-tsjattinu um hvort ég væri að vinna. Ég svaraði strax að ég mætti ekki mæta á vinnustaðinn þessa vikuna og í framhaldi ákváðum við að ég myndi fá mér göngutúr til hennar fljótlega. Var mætt til hennar á tólfta tímanum með prjónana með mér. Hún bauð upp á kaffi og ég fitjaði upp á nýrri tusku. Eftir spjall, kaffidrykkju og prjónaskap ákváðum við að skreppa í smá göngutúr meðfram Sæbrautinni og í framhaldinu færi hvor heim til sín. Ég var komin heim um þrjú og skv. skrefaforritinu í símanum búin að labba yfir 7000 skref. Fór ekkert aftur út og bíllinn er búinn að vera óhreyfður í nokkra daga í stæði í næstu götu.

13.10.20

Fallegt veður

Það fór svo að ég fór ekki út úr húsi í gær fyrr en Helgurnar kipptu mér með í sjósundsferð um hálffimm. Fram að því var ég búin að lesa, prjóna, vafra á netinu og ýmislegt fleira. Dagurinn leið amk frekar hratt. Mættum aðeins fjórar úr hópnum í Nauthólsvík og sú fjórða kom ekki fyrr en ca fimm mínútum eftir að við hinar vorum komnar út í. Hún ætlaði sér hvort sem er ekki að vera lengur út í en fimm mínútur. Ég hoppaði fyrst út í og var sennilega uþb 15 á svamli. Tók aðeins örfá sundtök en lét mig fljóta á bakinu eða var bara að busla. Það var fljóð, aðeins byrjað að fjara út aftur, sjórinn sennilega um 6°C og lítil ferð á logninu. Mér var svo skutlað beint heim aftur þar sem ég fór í sturtu og klæddi mig áður en ég fór niður í þvottahús að skola úr sjósundsdótinu og setja nokkur handklæði í þvott. 

12.10.20

Að trekkja sig í gang

 Einu skiptin sem ég fór út úr íbúðinni í gær var þegar ég trítlaði niður í þvottahús. Fór reyndar eina aukaferð niður því ég misreiknaði tímann og þegar ég fór niður til að hengja upp úr vélinni átti hún eftir rúmlega tuttugu mínútur af prógramminu. Var alveg með það á bak við eyrað í allan gær dag að skreppa út í smá göngu en dagurinn leið án þess að af því yrði.

Lauk við lestur bókarinnar Heift í gærkvöldi en ég hef líka verið að lesa bók sem er ekki af safninu; Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant eftir Gail Honeyman. Hef verið með þessa bók á náttborðinu í einhverja mánuði og stundum líða dagar og vikur á milli þess sem ég gríp í hana. Þetta er samt mjög áhugaverð bók og skemmtilegt hvernig hún er sett upp. Maður kemst smám saman að meiru um sögupersónuna en þrátt fyrir að vera rúmlega hálfnuð með bókina er samt ekki enn búið að ljóstra upp um öll áföllin sem persónan gekk í gegnum á mótunarárum sínum. Hvers vegna er hún t.d. með ljót brunaör í andliti? Kemst einhvern tímann að því. Ég á enn eftir að byrja á síðustu bókinni af þremur af þeim bókum sem ég á að skila af mér næst; Arsenik turninn eftir Anne B. Ragde. En ég er byrjuð að glukka í ljóðabók sem kom með mér heim eftir síðustu heimsókn á safnið. Gott og illt eftir Þór Stefánsson.

Hvernig svo sem þessi dagur þróast eða skiptist niður þá er m.a. á dagskránni að hitta sjósundshópinn í Nauthólsvíkinni seinni partinn í dag.

11.10.20

Fuglasöngur

Þegar ég var búin að fara í sturtu og skola úr sjósundsdótinu mínu uppgötvaði ég það að önnur saumaklúbbsvinkona mín hafði sent mér fyrirspurn á facebook-spjallinu um hvort ég væri upptekin. Ég skrifaði til baka um að ég væri nýkomin úr sjónum og að hita mér kaffi en annars væri ég ekki upptekin fyrr en eftir klukkan fimm. Við sammæltumst um að hún sækti mig um eitt. Hún var komin aðeins fyrr, kom inn og stoppaði í smá stund. Svo fórum við saman að sækja dót úr gömlu íbúðinni. Fyrrum meðleigjandi var búin að fara með flest dótið niður í anddyri. Hann kom út að sækja úr bílnum eitthvað sem hann taldi sig eiga, m.a. sleðana/skíðin, sem notuð er ef farangur er svo mikill að hann kemst ekki fyrir inni í bílnum, á bílþakinu. Það smotterí sem varð eftir í íbúðinni og einn kassi í geymslunni ætlaði hann svo að taka saman seinna. Eftir þetta ævintýri fórum við aftur heim til mín og ég hellti upp á kaffi handa okkur.

Ég fór ekki út aftur fyrr en rétt fyrir sex. Ég var boðin í mat og heimsókn til nöfnu minnar og frænku, kærasta hennar og kisunnar sem ég passaði í nokkra daga í byrjun ágúst. Kisan þetta mig aftur og vildi alveg tala við mig. Húsráðendur töluðum meira að segja um að þau hefðu aldrei séð köttinn "spjalla" svona við aðra manneskju heldur en þau. Mér finnst þetta vera góð meðmæli með mér.

Kom heim aftur rúmlega níu og þá var að byrja mynd á RÚV um Coco fyrir Channel árin. Ég festist yfir myndinni þangað til hún var búin.

10.10.20

Í sjóinn með fimm úr sjósundshópnum mínum

Var vöknuð um sjö í morgun. Heyrði í Oddi vera að gera sig kláran á vinnuvakt. Hann ætlar að vinna eins lengi og hann má af uppsagnafrestinum og næstu þrjá daga að þessum degi meðtöldum er hann að vinna frá hálfátta til fjögur. Ég fór framúr rétt rúmlega átta. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég beint inn í stofu og prjónaði átta umferðir, komin með nýjan lit í "blíðar bárur"-tuskuna. Sá afgangur endist í mesta lagi tvær til tvær og hálfa báru.

Upp úr klukkan hálfníu útbjó ég mér matarmikinn og þykkan hafragraut. Uþb klukkutíma seinna var ég komin í sundbolinn, sundhettuna, sjósundssokkana og strandskóna og búin að setja á mig ennisbandið sem Helga Rún gaf mér í vor. Ennisband sem er þannig í laginu að það er breiðara í hnakkanum og nær niður að hálsi. Tók til handklæði, sokka, skó og sjósundshanska og í vasana á yfirtökuflíkinni setti ég m.a. húslykla og vettlinga. Fór í ullarpeysu inni á meðan ég beið eftir að heyra frá þeirri sem ætlaði að kippa mér með. Hún hringdi nokkrum mínútum áður en hún renndi að húsinu. Við vorum þrjár samferða; Helgurnar og ég, systurnar komu hvor á sínum bílnum og sjötti meðlimur hópsins kom á rafhjóli úr vesturbænum. Engin ferð á logninu en samt pínu svalt. Held að sjórinn hafi verið eitthvað um 6°C. Ég var fyrst út í og svamlaði um í ca korter. Fór beint í sturtu þegar ég kom heim, hafði verið svo séð að hengja upp náttsloppinn minn á handklæðaofninn. Eftir að hafa klætt mig fór ég með hluta af sjósundsdótinu í þvottahúsið og skolaði úr því í stóra vaskinum þar. Setti sokkana og skóna á heitt rör sem tilheyrir minni íbúð en hengdi hitt upp á baðherberginu. Svo hellti ég mér upp á 2 bolla af sterku kaffi.

Í gærkvöldi kláraði ég loksins bókina; Fyrir fallið, eins spennandi og hún var í byrjun fannst mér seinasti hluti bókarinna frekar langdreginn. Gafst þó aldrei upp á lestrinum og kláraði allar þessar 467 bls.

9.10.20

Lengri gönguleið í vinnuna í morgun

Labbaði 3,5km á rétt tæpum 40 mínútum í vinnuna í morgun og var samt mætt fyrst. Náðum að ljúka allri fyrirliggjandi framleiðslu, sótthreinsa sameiginlega fleti og skrifa skýrslu til þeirra sem standa framleiðsluvaktina í næstu viku. Teljum okkur skila af okkur góðu "búi" og hreinum borðum. Urðum allar samferða út af vinnustaðnum rétt rúmlega hálffjögur og önnur hinna bauð mér far heim svo við urðum áfram samferða út í Hörpu þar sem þær leggja bílunum sínum á meðan þær eru í vinnunni. Tíu dagar þar til við megum mæta næst í vinnu.

Hringdi í pabba fljótlega eftir að ég kom heim og sagðist ætla að fara að fyrirmælum og vera ekkert á ferðinni að óþörfu. Hann var sammála mér með þá ákvörðun. Meðan ég var að tala við hann mundi ég eftir einu atriði sem ég hafði ætlað að láta fylgja skýrslunni. Það varð til þess að eftir samtalið við pabba hringdi ég í fyriliða kortadeildarinnar en hún er í hinum hópnum. Eftir gott spjall vorum við sammála um að ég hafi líklega átt að hringja í hana, henni fannst amk gott að heyra í mér.

Ég er búin að byrja þrisvar á sömu tuskunni úr uppskriftabókinni og taldi mig vera búin að finna rétta taktinn og ná að lesa rétt úr uppskriftinni. Uppskriftin heitir "blíðar bárur" eða eitthvað svoleiðis og ég er rúmlega hálfnuð með þriðju báruna og það er allt í einu komin ein aukalykkja á prjóninn. Enda örugglega með að taka mér smá skáldaleyfi. Í fyrstu tilraun var ég með alltof fáar lykkjur eftir að hafa prjónað fyrstu sex umferðirnar og í annarri tilraun var ég komin með alltof margar lykkjur eftir jafnmargar umferðir. Skrýtið, en ég ætla ekki að gefast upp og ætla mér að nota alla afganga í þessa tusku.

8.10.20

Á bílnum í vinnuna

Ákvað að vera ekkert að galla mig upp í rigningargöngu og fór á bílnum í vinnuna í morgun. Eftir á að hyggja var ég frekar ánægð með það því klukkan var nefnilega langt gengin í fimm þegar ég gat farið heim. Veðrið núna seinni partinn var samt kjörið til að vera úti í en ég ákvað að fara beint heim og inn og undirbúa mig undir leikinn í kvöld.

Sjósundsvinkona mín, sú sem lánaði mér yfirtökuflíkina í vor hringdi í mig rétt fyrir fimm í gær og spurði hvort hún ætti að taka mig með í Nauthólsvík og lána mér flíkina aftur. Það var nefnilega ákveðið að loka aðstöðunni alveg. Ég þáði farið og flíkina með þökkum og var búin að klæða mig í sundbolinn innan undir buxur og peysu, fara í sjósundssokkana og strandskóna utanyfir og taka til sokka handklæði og skó þegar hún kom. Hittum þrjár úr hópnum og svo var fullt af fólki í sjónum sem hafði fengið sömu hugmynd. Við svömluðum um í 12 mínútur og ákváðum að endurtaka þennan leik annað hvort seinnipartinn á morgun eða á laugardagsmorguninn, jafnvel báða þessa daga.

7.10.20

Endurnýjun

Var mætt til vinnu rétt upp úr hálfátta. Labbaði þriðja morguninn í röð. Daglegur framleiðsluskammtarnir voru frekar litlir sem var kannski ágætt því þá tekur kannski færri daga að framleiða þessi tæpu fjögurþúsund í fyrstu endurnýjun mánaðarins. Við náðum amk að framleiða í kringum ellefuhundruð af þeim eða tæplega einn þriðja.

Labbaði heim eftir vinnu, fyrsta gangan heim í þessari viku fékk far heim bæði í gær og fyrradag. Báðir synirnir eru að vinna og ég ætla að skreppa í Nauthólsvík eftir tæpan hálftíma og hitta hluta af sjósundshópnum mínum þar. Líklega er talið inn í klefa en heiti potturinn er lokaður. Nóg pláss í sjónum og kannski kemst maður í smá gufubað á eftir, fer alveg eftir hversu margir eru á svæðinu. 

6.10.20

Ja hérna

 Já, nú er maður eiginlega orðlaus. Þetta hættir ekkert að vera skrýtið. Maður veltir því fyrir sér hvort málin eru komin úr böndunum og hvort nokkrar aðgerðir, hversu harðar sem þær eru, muni virka yfirleitt. Eins gott að ég fór á bókasafnið um helgina. nú verður bara lesið og prjónað á milli þess sem ég má mæta í vinnu. Og kannski getur maður skroppið í sjóinn. Þeir sem sjá um aðstöðuna í Nauthólsvík auglýstu að klefar og gufa yrðu opin hjá þeim en heiti potturinn lokaður en hvort þeir ákveði svo að að skella alveg í lás eins og sundlaugar höfðuborgarsvæðisins veit ég ekki enn en yrði ekkert hissa. 

5.10.20

Vinnuvika hafin

Eitthvað hlýt ég að hafa verið spennt vegna vinnuvikunnar framundan því ég  rumskaði milli tvö og þrjú í nótt eftir rúmlega þriggja tíma svefn og mér fannst ég vita af mér alltaf eftir það fram á morgun þrátt fyrir að hafa lítið gert annað en legið og snúið mér stöku sinnum. Fór á fætur um sex og bjó mér til hafragraut í morgunmat. Rétt fyrir sjö lagði ég gangandi af stað til vinnu og var akkúrat 30 mínútur að labba 3 km. Ég var í bókhaldinu svo ég kom ekki nálægt neinni framleiðslu. Hinar tvær kláruðu alla daglega framleiðslu um hálfeitt. Eftir hádegi fór önnur þeirra að klára mánaðarlegu reikningagerðina á meðan við hin töldum alla framleiðslu og það sem stóð útaf mánaðarlegri talningu skv. skýrslu frá hinu genginu, rekstrarvörur í framleiðsluvélar, umslög og form og fleira.  Tókum okkur ekki kaffipásu seinni partinn og vorum búnar að ljúka öllum verkefnum dagsins um þrjú og fórum heim þá. Ég fékk far heim með annarri hinna en hún hætti á samgöngusamning sl. mánaðamót.

Heima hellti ég upp á kaffi og fékk mér hressingu með því. Las í bókinni sem ég skrifaði um í gær og prjónaði nokkrar umferðir í nýjustu tuskunni áður en ég tók til sjósundsdótið og var komin í Nauthólsvík rétt fyrir fimm. Tvær úr genginu voru að koma upp úr, nokkrar höfðu sagt pass eða voru ekki í bænum en við vorum tvær á sama tíma. Gleymdum alveg að taka tímann á því hvað við vorum lengi að svamla um í 6,8°C sjónum en skutum á að það hafi verið tæpar tuttugu mínútur og svo vorum við annað eins í heita pottinum á eftir.

4.10.20

Engin skrifpása

Hafði hugsað mér að sleppa því að blogga í dag en það var eitthvað sem togaði mig að tölvunni og sleit mig frá spennusögunni sem ég er að lesa. Er reyndar að lesa tvær af þeim þremur bókum sem ég átti eftir að lesa, bækur sem ég nái í á safnið föstudaginn fyrir rúmri viku. Er búin að minnast á Heift en ég byrjaði á Fyrir fallið eftir Noah Hawley í fyrrakvöld, spennu saga upp á rúmlega fjögurhundruðogsextíu blaðsíður sem rígheldur. Er næstum því hálfnuð með bókina.

Ég var komin austur á Hellu fyrir klukkan tvö í gær. Stuttu eftir að ég var komin út úr bænum komu skilaboð um að skynjarinn vegna þrýstings í dekkjum væri ekki að svara. Ákvað að kanna þrýstinginn þegar ég var komin á Selfoss. Skilaboðin frá hjólbarðaverkstæðinu voru að öll dekk ættu að vera 32" en ég gat ekki lesið betur á miðanum. Hins vegar var eins og þrýstingurinn væri á bilinu 34-36. Ég ákvað að setja öll dekk á 32 og reyna að virkja það þannig. Skilaboðin komu aftur eftir rúmlega 10 km keyrslu. Leiddi þau hjá mér í bili. Pabbi er búin að kaupa bækurnar um Hellu og var á kafi að lesa í fyrra bindinu. Ég var með prjónana mína og bókina sem heldur mér við efnið þessa stundina.

Eftir kaffi tók ég út bleikjuflak úr frysti. Hafði kvöldmatinn tilbúinn milli frétta tíma. Horfði á fréttir á RÚV eftir matinn, náði mér í tvö flök af þorskhnökkum úr öskju sem ég geymi í frystikistunni hjá pabba og kvaddi hann rétt fyrir átta. Kom aftur við á Selfossi að kanna þrýstinginn. Hann var næstum því eins og ég hafði stillt hann fyrr um daginn svo ég reyndi að festa tölurnar inni. Hugsanlega er skynjarinn að bila því merkið/skilaboðin birtust aftur í mælaborðinu og á útvarpsskjánum áður en ég var komin framhjá Hveragerði.

Var vöknuð um sjö, greip í bókina (Fallið) hálftíma síðar. Heyrði í N1 syninum um níu og dreif mig þá loksins á fætur. Hann var reyndar búinn að redda sér fari svo ég gat haldið áfram að lesa. Um tíu sendi ég fyrirspurn á kaldapotts vinkonum mína um hvort og þá hvenær hún ætlaði í sund í dag. Svarið kom fljótlega og var klukkan 12. Ég sagðist myndu hitta hana í Laugardalnum, ætlaði að mæta örlítið fyrr til að vera búin að synda. Þegar ég var að læsa skápnum utan um fötin upp úr klukkan hálftólf var vinkona mín að mæta. Hún sagðist skyldu bíða eftir mér í steinapottinum á meðan ég væri að synda. Fyrsta ferðin af sex í þann kalda var á slaginu tólf og eftir þá síðustu sat ég uþb tíu mínútur í gufunni.

Áður en ég fór heim aftur eftir sundið fór ég á þrjá staði í Kringlunni. Skilaði fjórum bókum á safnið og var komin með átta í hendurnar áður en ég fór að annarri sjálfsafgreiðslutölvunni. Eina af þessum átta bókum var ekki hægt að fá leigt því það var búið að panta hana. Hinar sjö bækurnar eru allar með skiladaginn 3. nóvember sem svo er hægt að framlengja um 30 daga í viðbót. Þær þrjár sem voru hér heima eftir síðustu bókasafnsferð eru með skiladaginn 25. október sem einnig er hægt að framlengja. Fór með bókapokann út í bíl áður en ég fór á hina tvo staðina, Lin design þar sem ég keypti 5 stk af höfuðhandklæðum sem flest eru hugsuð sem jólagjafir og Söstrene Grene þar sem ég keypti 10 dokkur af bómullargarni sem má fara á 60°C í þvotta vél og einn poka af himalayjasalti.

3.10.20

Er veiran að taka völdin?

Miðað við nýjustu veirgreiningafréttir þá er ég afar smeik um að sóttvarnarlæknir skili inn minnisblaði sínu og að takmarkanir fari aftur niður í 20. Ég er nokkuð viss um að langflestir hafi verið að passa sig en bæði þegar einhverjir telji að tilmæli eigi ekki við sig og virði ekki sóttkví sem og að fólk getur fengið veiruna án þess að vita af því eða veikjast en verið smitberar þá er illt í efni. Kannski er hluti af þessu náttúran sjálf að segja hingað og ekki lengra, það þarf að taka "mig" alvarlega. Það er amk nokkuð ljóst að það er engan veginn hægt að sjá fyrir hversu lengi þetta ástand muni vara. Ég þori varla að hugsa um hvernig það væri ef ekki hefðu verið þessar landamæratakmarkanir. Hef óljósan grun um að margir þættir spili inn í en er fúl út í þá sem hafa svindlað/ekki virt reglur/tilmæli vísvitandi sjálfsagt hugsandi "Það kemur ekkert fyrir mig!" Hugsa að þessir aðilar séu ófærir um að hugsa neitt lengra og geri sér ekki grein fyrir því að svona hugsunarháttur kemur niður á þeim sem minnst mega sín, viðkvæmu hópunum.

Annars var ég að koma úr sundi. Fór á fætur um hálfátta og hélt að N1 sonurinn væri að sofa yfir sig eina ferðina enn. Hann er þá í fríi í dag. Klukkan var orðin hálfníu áður en ég lagði af stað í Laugardalinn og ég þurfti að skafa. Synti 500m og fór fjórar ferðir í þann kalda, heitan pott á milli og endaði á að sitja í gufunni í uþb 10 mínútur áður en ég fór upp úr. Kom við á Sprengisandi og fyllti bílinn. Ég er að hugsa um að skreppa aðeins og heimsækja hann pabba minn. Hugsanlega best að það sé svona skreppitúr í þetta sinn. Koma aftur í bæinn í kvöld og skreppa í sund aftur í fyrramálið, ef ekki verður búið að skella í lás, og undirbúa mig undir vinnuviku.

2.10.20

Naglarnir komnir undir

Mér fannst ekki skemmtilegt að mælaborðið í bílnum fór að væla þegar ég settist upp í hann stuttu fyrir klukkan fimm í gær. Þá hafði ég ekki notað bílinn frá því ég kom heim úr fiskbúðinni í kringum hádegið daginn áður. Fór beint upp í Öskjuhlíð og þegar ég byrjaði að pumpa dekkið var það komið niður í 17. Fór í sund og hélt ég hefði misst af kalda potts vinkonu minni. Hún var þá sein fyrir, hafði sleppt leikfimitíma og kom rétt upp úr hálfsex. Þá var ég búin að fara þrjár ferðir í þann kalda. Fór aðrar þrjár með henni og synti svo 200 metra áður en ég fór upp úr og heim.

Davíð Steinn sá um kvöldmatinn í gær. Hann hafði skroppið gangandi upp í Kringlu fyrr um daginn bæði til að ná í eitthvað í pósthólf og einnig skreppa í Bónus og huga að nestismálum fyrir vinnuvaktadagana framundan. Hann keypti eitt og annað, m.a. botna í pizzur og hann útbjó eina pizzu í gærkvöldi með hakki, túnfisk, gulum baunum og mikið af osti.

Heyrði N1 soninn fara af stað í vinnu fyrir klukkan sjö í morgun. Klukkutíma síðar dreif ég mig á fætur, burstaði tennur, fékk mér lýsi vítamín, vatnsglas og harðsoðið egg og tók sunddótið og prjónana með mér út í bíl. Var mætt á dekkjaverkstæðið í Fellsmúla rétt rúmlega átta. Var ekki búin að panta tíma en ég þurfti samt ekki að bíða lengi eftir að komast að, kannski ca 7 mínútur. Keyrði bílinn inn um hurð númer 3, skildi bíllykilinn eftir í og áréttaði sömu beiðni og í afgreiðslunni um að ventillinn farþegameginn að framan yrði athugaður. Fékk mér kaffisopa en tók aldrei upp prjónana þótt það hefði alveg verið nægur tími til að prjóna nokkrar umferðir. Það var settur nýr ventill og sumardekkinn tekin inn á hótelið og með N1 afslætti Davíðs Steins (þurfti bara að gefa upp kennitöluna hans) kostaði þetta rúmlega þrettán þúsund. Ég hef aldrei látið setja nagladekkin svona snemma undir en ég held að ég hafi alveg verið að gera rétt.

Af Kvikk syninum er það að frétta að hann fékk uppsagnarbréf á miðvikudaginn var og mátti ráða því hvort hann myndi vinna uppsagnarfrestinn sem rennur út um áramótin. Kannski var þetta það sem hann þurfti til að fara að ákveða næstu skref í lífinu, hver veit. Hann var smá stund að melta þetta en sagði svo að sér væri alveg sama. Það var á honum að heyra að hann ætlaði að mæta á sínar föstu vaktir þangað til búið væri að leysa vaktamálin.

 

1.10.20

Október byrjaður

Ég vaknaði rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Kveikti á útvarpinu og lét hugann aðeins reika um. Náði að rífa mig á fætur og búa um rúmið áður en klukkan varð átta. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég beint inn í stofu og las um stund í; Ýmislegt um risafurur og tímann eftir Jón Kalmann Stefánsson. Er langt komin með þá bók, á aðeins 60 blaðsíður eftir sem ég væri líklega búin með ef ég hefði ekki ákveðið að skipta um stað í stofunni og kveikja á tölvunni. Er semsagt búin að vafra smá og leika mér síðan rétt fyrir klukkan níu.

Hitti þrjár úr sjósundshópnum í Nauthólsvík um ellefu í gærmorgun. Sjórinn 6,7°C og mikil fjara. Óðum nokkuð langt út, hafði á tilfinningunni að við værum hálfnaðar til Kópavogs. Svömluðum um á svæðinu og tvær af okkur sáu krossfisk. Ég er ekki enn búin að fjárfesta í nýjum sundgleraugum svo ég var ekkert að reyna að koma auga á krossfiskinn. Synti smávegis bæði á bringu og baki en við fórum ekki út að kaðli. Vorum á svamli í tæpt korter og svo líklega um hálftíma á spjalli í heita pottinum á eftir.

Kom við hjá loftdæminu hjá Kvikk. Mælaborðið var ekki byrjað að kvarta en dekkið var komið niður í 27 svo ég pumpaði það upp í 33. Skrapp í Krónuna við Nóatún og kom einnig við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór heim. Enn ein tuskan datt af prjónunum í gærkvöldi. Á eftir að ganga frá einum enda, prjónaði upphafsendann saman við hluta af fyrstu umferðinni. Svo er bara að fitja upp á nýrri tusku. Á dokkur í fjórar aðrar og geri svo örugglega tusku úr afgöngunum.