Ég náði leið 13 fyrir utan vinnustaðinn minn klukkan rétt rúmlega fjögur í gær og fór beinustu leið heim. Annar sonurinn hafði aðeins þurft að skreppa í einn tíma í skólann um morguninn líkt og aðra föstudaga þetta misserið en hinn var ekki kominn heim og ekki von á honum nærri strax. Sá þeirra sem var heima hafði framkvæmt beiðni mína um að ryksuga sameignina alveg frá þvottahúsinu og upp á okkar pall. Þegar ég skrapp niður til að setja í eina vél sá ég að mér var óhætt að ákveða að við værum búin að skila af okkur þvottahúsumsjón þennan mánuðinn, en við eigum að taka sameignina fjórða hvern mánuð. Slapp semsagt alveg við að skúra yfir þvottahúsið og gat einbeitt mér að skylduverkunum í eigin íbúð.
Rétt fyrir hálfsex ákvað ég að drífa mig með nokkra poka af flöskum í endurvinnsluna við Knarrarvog. Fékk góða aðstoð við að tæma pokana í teljarann og skanna kvittunina sem ég fékk á eftir. Rúmlega 70 flöskur og dósir gáfu rúmar ellefuhundruð krónur beint inn á debetreikninginn minn svo mér fannst þessi ferð borga sig. Að vísu finnst mér líka gott að geta styrkt skátana, yngri flokkana í íþróttafélaginu og aðra sem stundum koma og spyrja um flöskur.
Úr endurvinnslunni fór ég í bókasafnið í Kringlunni og skilaði tveimur af fjórum bókum sem ég var enn með. Skilafresturinn nálgaðist á þessum sem ég fór með en ég var búin að framlengja um mánuð á hinum tveimur bókunum sem telja samtals 932 bls. Er byrjuð á þeim báðum og vildi fá lengri tíma til að ljúka við þær. Þrátt fyrir að eiga eftir þessar bækur, eina úr bókaklúbbnum sem ég er líka byrjuð á og enn eina ólesna tók ég mér níu bækur með heim af safninu. Heildar blaðsíðufjöldi þeirra bóka er þó ekki nema 1.482. Er ég bókaormur eða hvað? Ég held að það sé engin spurning og löngu sannað.
Hafið það sem allra best um helgina og njótið þess að vera til alltaf!
Hafið það sem allra best um helgina og njótið þess að vera til alltaf!