31.10.15

Helgi og mánaðamót

Ég náði leið 13 fyrir utan vinnustaðinn minn klukkan rétt rúmlega fjögur í gær og fór beinustu leið heim. Annar sonurinn hafði aðeins þurft að skreppa í einn tíma í skólann um morguninn líkt og aðra föstudaga þetta misserið en hinn var ekki kominn heim og ekki von á honum nærri strax. Sá þeirra sem var heima hafði framkvæmt beiðni mína um að ryksuga sameignina alveg frá þvottahúsinu og upp á okkar pall. Þegar ég skrapp niður til að setja í eina vél sá ég að mér var óhætt að ákveða að við værum búin að skila af okkur þvottahúsumsjón þennan mánuðinn, en við eigum að taka sameignina fjórða hvern mánuð. Slapp semsagt alveg við að skúra yfir þvottahúsið og gat einbeitt mér að skylduverkunum í eigin íbúð.

Rétt fyrir hálfsex ákvað ég að drífa mig með nokkra poka af flöskum í endurvinnsluna við Knarrarvog. Fékk góða aðstoð við að tæma pokana í teljarann og skanna kvittunina sem ég fékk á eftir. Rúmlega 70 flöskur og dósir gáfu rúmar ellefuhundruð krónur beint inn á debetreikninginn minn svo mér fannst þessi ferð borga sig. Að vísu finnst mér líka gott að geta styrkt skátana, yngri flokkana í íþróttafélaginu og aðra sem stundum koma og spyrja um flöskur.

Úr endurvinnslunni fór ég í bókasafnið í Kringlunni og skilaði tveimur af fjórum bókum sem ég var enn með. Skilafresturinn nálgaðist á þessum sem ég fór með en ég var búin að framlengja um mánuð á hinum tveimur bókunum sem telja samtals 932 bls. Er byrjuð á þeim báðum og vildi fá lengri tíma til að ljúka við þær. Þrátt fyrir að eiga eftir þessar bækur, eina úr bókaklúbbnum sem ég er líka byrjuð á og enn eina ólesna tók ég mér níu bækur með heim af safninu. Heildar blaðsíðufjöldi þeirra bóka er þó ekki nema 1.482. Er ég bókaormur eða hvað? Ég held að það sé engin spurning og löngu sannað.

Hafið það sem allra best um helgina og njótið þess að vera til alltaf!


30.10.15

Bókasafnsferð

Eftir vinnu í gær fór ég beint heim. Hringdi í pabba og einnig tvær vinkonur mínar. Eftir að hafa matreitt lifur í kvöldmatinn og borðað dreif ég mig í sund. Kom heim rétt fyrir níu og þá voru ævintýraspilafélagar bræðranna mættir og þeir voru búnir að leggja holið undir sig þessir hressu fimm kappar. Ég gaf mér tíma til að skrásetja miðvikudaginn í örfáum línum áður en ég fór inn í stofu með bók. Reyndar notaði ég svo megnið að næstu tveimur tímum til að glápa á imbann. Fór í háttinn áður en strákarnir voru búnir að spila og vissi ekkert hvenær spilinu lauk því ég var steinsofnuð.

29.10.15

Hví er svona mikil hraðferð á tímanum?

Annar sonurinn notar rauða strætókortið á miðvikudögum. Þá nota ég tækifærið og fer á bílnum, fyrst í sund upp úr klukkan sjö og eftir reglubundna rútínu fer ég beint úr Laugardalnum í vinnuna. Í gærmorgun hitti ég Lenu og til að geta farið oftar með henni í pottadýfingar kleip ég aðeins af gufustundinni áður en ég fór upp úr.

Eftir annasaman vinnudag dreif ég mig beint heim strax um fjögur. Póstaði tilkynningu um samveru aldraðra í kirkjunni n.k. sunnudag á vegg og heimahöfn safnaðarins. Hringdi í pabba og svo hringdi mamma. Átti gott spjall við þau bæði en varð svo að drífa mig á kóræfingu. Ég fékk að æfa með bæði alt og sópran og nú erum við byrjuð að fara yfir aðventu og jólalögin.

Þegar æfingu var lokið, fyllti ég á tankinn á lánsbílnum og fór svo beinustu leið til tvíburahálfsystur minnar. Hún fékk leyfi til að æfa verkefni á mér. Ég hafði tekið föndrið með mér en það endaði með því að kvöldið leið án þess að ég gerði nokkuð nema aðeins að sýna jólakortin sem ég er búin að búa til. Það var mikið spjallað og ég gat ekki slitið mig í burtu fyrr en klukkan var langt gengin í ellefu. Gærdagurinn var því afar langur en viðburðarríkur hjá mér.

28.10.15

Morgunsund

Um gærdaginn er alveg hægt að skrifa í örfáum línum. Mætti í vinnu rétt fyrir átta í gærmorgun. Fór beint heim seinni partinn og hélt mig heima eftir það. Hringdi í tvíburahálfsystur mína. Hafði kjöt í karrý í matinn. Strákarnir voru með spilakvöld í holinu en ég föndraði og horfði á sjónvarpið til klukkan að ganga ellefu. Og nú er kominn tími til að rjúka á vikulega kóræfingu. Hvort skyldi ég nú æfa sem alt eða sópran í þetta skiptið? Segi kannski frá því á morgun.

27.10.15

Kjöt í karrý í kvöldmatinn

Ég hafði hugsað mér að kíkja í sund í Sundhöllina eftir vinnu í gær. Fór með sunddótið með mér í strætó í vinnuna í gærmorgun (hvað eru mörg í í því?). Það fór nú samt svoleiðis að ég fór beint aftur heim eftir vinnu, horfði á landsleikinn, hafði til kvöldmatinn, borðaði og fór svo á lánsbílnum í sund í Laugardalslaugina. Var byrjuð að synda upp úr hálfátta, fór tvisvar sinnum rúmlega tvær mínútur í kalda pottinn, nokkrar mínútur í sjópottinn, smá stund í gufuna og var komin heim aftur fyrir klukkan níu, áður en Broen byrjaði.

Samanburður


Myndin að ofan er tekin á Saffran á afmæli tvíburanna í fyrra. Mynd númer tvö er tekin heima hjá einni vinkonu minni fyrir rétt rúmum mánuði. Og myndin hér að neðan var tekin 8. okt. sl. Myndin sem ég setti á FB-vegginn af nýju úlpunni um daginn er þó enn betri.  "Ég, um mig frá mér til mín"


26.10.15

Nýkomin úr sundi

Það tókst ekki að mæta í sund strax eftir opnun í gærmorgun. Í staðinn hitti ég synina þegar þeir komu heim á níunda tímanum eftir að hafa spilað "ævintýraspilið" heima hjá einum spilafélaganum frá því um átta kvöldið áður. Náði líka að hella upp á kaffi handa Lilju vinkonu áður en ég dreif mig loks í Laugardalinn. Var á svipuðum tíma og á laugardagsmorguninn  en ég gaf mér ekki eins góðan tíma þótt ég næði alveg að sinna sundpottagufurútínunni svona nokkurn veginn. Ég vildi heldur eiga góða stund aftur heima áður en ég mætti í upphitun fyrir jazzmessu í kirkjuna. Náði þarna góðum tveimur tímum á milli, fékk mér kaffi með Lilju og kvaddi hana svo með góðu faðmlagi þar sem ég þóttist viss um að hún yrði farin þegar ég kæmi heim seinni partinn. Það reyndist vera rétt hjá mér.

Jazzmessan tókst alveg ágætlega. Það mætti ein úr sópran sem hefur ekki getað verið með í haust þar sem hún hefur verið að vinna á æfingatímum og á ferð og flugi messuhelgarnar. Þessi stúlka er líka að komast á níunda meðgöngumánuð svo það er viðbúið að hún verði stopult með í vetur. En mikið var gott og gaman að fá hana í hópinn í gær, hitta hana og sjá hvað hún blómstrar.  Aðeins tveir af tíu sálmum voru sungnir einradda. Kórstjórinn spilaði undir á Hammondorgelið og hafði fengið Scott Mclemore á trommur og Ásgeir Ásgeirsson á gítar með sér. Það var fín blanda. Rödduðu sálmana söng ég með altinum og gerði engar stórar gloríur þar. Villtist að vísu einu sinni yfir í sópran en það kom ekki að sök.

25.10.15

Púff hvað helgin leið fljótt.

Í gærmorgun var ég ákveðin í að vera ekkert að rjúka af stað í sund um leið og opnaði. Fór á fætur rétt upp úr átta og bjó til kaffi handa okkur Lilju. Klukkutíma síðar skutlaði ég vinkonu minni í Kolaportið þar sem hún var með sölubás ásamt annarri konu. Eftir skutlið fór ég í Laugardalinn og var byrjuð að synda um 9:40. Synti í tuttugu mínútur án þess að stoppa neitt á milli. Er ekki viss um hversu margir metrar það voru en ég ætla að giska á 600. Fór fjórar ferðir í kalda pottinn, þrjár ferðir í þann sem er 42 gráður en eftir fjórðu ferðina í þann kalda fór ég í sjópottinn. Þar var ég í dágóða stund því ég hitti svo skemmtilegt fólk, m.a. hjón um áttrætt sem voru svo lífleg og skemmtileg. Það kom í ljós að konan hafði verið í sveit á Móeiðahvoli í kringum fermingu hjá barnlausum hjónum og var húsmóðirin ættuð frá Keldum. Úr sjó pottinum skrapp ég aðeins í gufuna áður en ég fór upp úr.

Á heimleiðinni kom ég við á tveimur stöðum, Krónunni við Nóatún og i vínbúðina í Faxafeni. Heima dundaði ég mér við ýmislegt annað en "skyldustörfin" og flaug tíminn hratt við það dundur. Sótti Lilju í Kolaportið um fimm og var svo tilbúin um sex þegar ein úr minni deild í vinnunni kippti mér með mér í heimboð til annarrar úr sömu deild. Mættum öll nema ein af átta en fengum samt áttunda gestinn með en það er sá sem vann með okkur sl. vetur. Að auki fékk kjölturakkinn Birta að vera með. Við vorum semsagt í matarboði. Ég hafði tekið með mér litlar hvítvínsflöskur úr hvítvínsbúðinni en þær fór ég allar með óáteknar heim aftur því það var boðið upp á vín. Gerði mitt besta til að passa að fara ekki yfir víndrykkjustrikið til að vera messufær í dag. Held að það hafi alveg sloppið til.

24.10.15

Snemma á fótum - snemma í rúmið

Ég fór á fætur upp úr klukkan fimm í gærmorgun og var mætt í vinnuna klukkan sex eins og tvo dagana þar á undan. Um hálftíu fékk ég að skjótast frá. Sótti tilvonandi rafvirkja í Tækniskólann til að koma honum í fyrirfram pantaðan tíma til augnlæknis. Þar kom í ljós að sjónin hafði eitthvað versnað síðan í fyrravor. Engu að síður spurði augnlæknirinn son minn að því hvort hann vildi fá gleraugu. Hann er enn á mörkunum og myndi alveg fá bílpróf þótt hann væri ekki með gleraugu. Hins vegar er hann með smá sjónskekkju og finnur þar að auki fyrir þreytu í tímum og verður að passa sig að lenda ekki aftarlega í stofunni ef hann á að sjá á töfluna. Svo það var ákveðið að fjárfesta í gleraugum. Fórum með miðann frá lækninum í optikbúðina á fyrstu hæðinni í Hamrahlíðinni. Það tók smá tíma að velja sér réttar umgjarðir. Ég var fegin að það var ekki ég sem þurfti að velja en strákurinn fann þetta út alveg sjálfur og þegar búið var að velja, stilla og borga fengum við að vita að hægt yrði að sækja gleraugun seinna um daginn.

Einkabílstjórinn var kominn heim úr skólanum þarna langt gengin í ellefu og þar sem ég var alls ekki viss um að fá stæði aftur fyrir utan vinnustaðinn minn kipptum við honum með, skutluðum hinum bróðurnum aftur í skólann og mér í vinnuna. Ég bað strákinn um að fara með uppsöfnuð blöð og fleira í gámana og sækja mig aftur um eitt leytið.

Eftir vinnu fór ég beint heim. Við einkabílstjórinn sátum nokkra stund í bílnum fyrir utan því við vorum að rabba saman um eitt og annað. Að vísu var svo sem enginn heima hjá okkur þá stundina en það er bara eitthvað við það að spjalla saman í bílnum.

Seinna um daginn skrapp ég með vinkonu minni á tvo staði með hjólið hennar og fleira í geymslu og annað í notkun. Stoppuðum aðeins á báðum stöðum, ívið lengur á fyrri staðnum þar sem við skildum hjólið eftir. Þegar við komum til baka úr þessu leiðangri hjálpuðumst við að við að útbúa kvöldmatinn.

"Kaffi og rán" eftir Catharina Ingelman-Sundberg er bráðskemmtilegur sænskur kósí-krimmi. Hef verið að lesa þessa bók undanfarna daga og mæli hiklaust með henni. Vona að ég verði svona hresst og uppátækjasamt gamalmenni þegar þar að kemur.  :-)

Ég og pabbi minn


Myndin af okkur er tekina á Hellu þann 3. ágúst sl.

23.10.15

Jazzmessuhelgi framundan

Ég mætti aftur klukkan sex í vinnu í gærmorgun ásamt sama vinnufélaganum. Klukkan eitt fór ég beint í sund þar sem ég gaf mér góðan tíma í rútínuna. Hitti fyrrum vinnufélaga í sjópottinum og staldraði fyrir vikið aðeins lengur þar en oft áður. Að sundinu loknu fór ég með jólagjöfina hennar systur minnar í innrömmun í Rammagerð Kópavogs. Má sækja þetta strax upp úr mánaðamótum. Var komin heim á fjórða tímanum. Annar tvíburinn var farinn til pabba síns en hinn var að vinna að verkefni til sex og fékk svo strætóklink hjá mér því bróðirinn hafði verið með rauð kortið til að komast m.a. til Garðabæjar fyrr um daginn,eitthvað sem var skyldumæting á vegum skólans. Við vinkona mín skruppum í Sunnubúð eftir nauðsynjum og nammi, fengum okkur afganginn af laxaréttinum frá því kvöldið áður og horfðum svo á imbann fram eftir kvöldi. Ég var reyndar frekar skynsöm og fór í háttinn á ellefta tímanum vitandi það að ég þyrfti að vakna upp úr fimm aftur.

22.10.15

Morgunhani

Í stað þess að byrja gærdaginn á því að mæta í sund um hálfsjö var ég mætt í vinnuna klukkan sex ásamt einni annarri úr deildinni. Vinnuskyldu okkar lauk svo klukkan eitt og þá fór ég beint í Laugardalslaugina. Gaf mér góðan tíma í rútínuna mína og var þarna á annan tíma. Kom við í Fiskbúð Hafliða í Skipholti og ætlaði að kaupa bleikju að vestan til að hafa í kvöldmatinn. Samkvæmt manninum sem afgreiddi mig var bleikjan týnd, hafði ekki skilað sér í fiskbúðina, svo ég ákvað að kaupa laxaflak í staðinn

Var komin heim upp úr þrjú og hafði því góða tvo tíma í smá hvíld áður en ég mætti á kóræfingu. Kórstjórinn bað mig um að æfa altröddina því í byrjun leit út fyrir að annars væri engin alt. Það rættist þó úr því. Nafna mín altinum mætti nefnilega rétt eftir að æfingin hófst. Við konurnar voru einni færri en karlarnir eða fimm en þrjár af okkur heitum Anna svo það má segja að kórstjórinn hafi verið Önnum kafinn. Tveir af þremur bössum heita reyndar Kristinn. Æft var fyrir Jazzmessuna sem verður n.k. sunnudag og einnig farið yfir lögin sem við höfum verið að æfa sl. mánuð. Þess má geta að í einu laginu var ég að syngja alt-röddina í fyrsta skipti.

Þegar ég kom heim eftir kóræfingu var vinkona mín búin að gera mat úr laxinum og þau strákarnir að fá sér að borða. Ég byrjaði á því að smíða messutilkynningu í moggann og uppfæra vegginn og heimahöfnina með svipuðum upplýsingum áður en ég fékk mér smakk af laxi sem var bakaður í ofni ásamt rauðkáli, gulrótum og hvítkáli. Horfði á imbann til klukkan að verða tíu en þá fór ég að undirbúa mig undir háttinn til að vera tilbúin í næstu morgunvakt.

20.10.15

Þriðjudagskvöld

En ég ætla aðeins að skrá niður smávegis um gærdaginn. Fór með strætó í vinnuna og hafði sunddótið með því ég var að spá í að fara í sund beint eftir vinnu. Sú ákvörðun breyttist þó margra hluta vegna. Vinnudagurinn var annasamur og mjög öðruvísi, á margan hátt mjög athyglisverður en ég ætla samt ekki að að skrifa neitt meira um það. Ég sinnti vinnuskyldum mínum og fór beint heim á eftir. Heima stoppaði ég ca. einn og hálfan tíma áður en ég dreif mig loks í sund. Viðhélt rútínunni þrátt fyrir að vera á "óvenjulegri" tíma.

Eftir sundið ákvað ég að fara beint í heimboð í heimahús á stórreykjavíkursvæðinu til að fá tækifæri til að kveðja einn vinnufélaga minn. Ég hitti á réttu götuna í rétta bæjarfélagi en eitthvað hafði húsnúmerið skolast til í minninu hjá mér og ég bankaði upp á hjá bláókunnugu fólki. Sem betur fer átta annar vinnufélagi minn leið framhjá, gangandi og í sömu erindagjörðum og ég. Sú var með húsnúmerið á hreinu. Ég geymdi lánsbílinn þar sem ég hafði lagt honum og varð samferða töluvert austar í götuna. Nokkrir aðrir vinnufélagar höfðu svarað kallinu og voru þegar mætt í kveðjuhófið. Frábært að fá tækifæri til að kveðja góða manneskju en við vorum vissar um að leiðir okkar myndu eitthvað liggja saman síðar.

19.10.15

Annasöm og skemmtileg helgi!

Ég fór í sund strax upp úr klukkan átta á laugardagsmorguninn. Gaf mér góðan tíma, synti 500 metra fór fjórum sinnum 2,5 mínútur í kalda pottinn þrisvar í einn heita pottinn, tíu mínútur í sjópottinn og annað eins í gufuna. Upp úr hálftíu var ég á leiðinni heim þegar norska esperanto-vinkona mín hringdi og mér heyrðist á henni að hún vildi fá mig yfir til sín. Ég ákvað að hlýða kallinu. Fór heim með sunddótið, tók mig til fyrir austurferð og hafði esperantodótið með mér. Á leiðinni heyrði ég um að eitthvað væri um að vera á Eiðistorgi um hálfellefu í þættinum Bergson og Blöndal. Spáði svo sem ekkert meir í það en ég var rétt sest inn hjá vinkonum minni þegar hún sagðist hafa fengið "geggjaða" hugmynd og það leiddi til þess að við skruppum út á Eiðistorg og fengum okkur smá morgunverð og kaffi. Stoppuðum kannski í svona tuttugu mínútur eða hálftíma og nutum kaffis, hljómlistar og fl. áður en við snérum heim og lásum smá esperanto.

Frá Inger fór ég um tólf og fór þá beint austur á Hellu. Aðstoðaði mömmu við að gera eplajukk uppskrift úr helgarmogganum og hræra í pönnukökudeig og bjó einnig til þrjú jólakort. Ég var líka með bækur og saumadótið en það vannst ekki tími til að sinna því vegna þess að það var búið að bjóða okkur í smá veislu í Brekkugerði. Tókum pönnsurnar, sem mamma steikti á tveimur pönnum, eplajukkið og rjómasprautu með okkur þangað. Kvöldið leið alltof hratt. Pabbi og mamma fengu í glas og ég rétt dreypti á hálfu hvítvínsglasi með matnum. Keyrði þau heim stuttu fyrir tíu, tók saman dótið mitt, fékk krækiber og tók dót sem ég átti að afhenda Helgu systur og brunaði svo í bæinn. Kom heim fyrir miðnætti.

Í gærmorgun var ég mætt í Egilshöllina upp úr átta og sá yngri systurdóttur mína keppa á skautum. Henni gekk alveg ágætlega. Ég sá amk miklar framfarir en hún lenti í fjórða sæti af sextán keppendum og það þótt henni fipaðist einu sinni. Hún gerði svo afar vel í því að klára sinn dans þótt mússíkin stoppaði amk hálfri mínútu of snemma. Þegar keppni í þessum flokki var lokið lét ég Helgu fá dótið úr bílnum, kvaddi mæðgurnar og fór svo beint í sund. Synti svipað og daginn áður og gaf mér góðan tíma til að pottormast á eftir. Verslaði á heimleiðinni og var að koma heim um hálfeitt.

16.10.15

Bleikur dagur

Já, það var bleikur dagur í dag. En ég ætla reyndar að segja örstutt frá gærdeginum. Hann var kannski ekki alveg eins viðburðarríkur og margir undanfarnir dagar, nánast hægt að lýsa honum í þremur orðum: Vinna, borða, sofa! Og þó, ég náði að lesa smá inn á milli, skila fjórum bókum á safnið án þess að taka neinar í staðinn, elda kjúklingabringur í ofni með sætri kartöflu, hnúðkáli og rauðkáli (sauð bygggrjón með þessu) og horfði svo á imbann til klukkan tíu. Þá varð ég að fara að huga að því að koma mér í háttinn, einhvern veginn alveg búin á því þótt ég viti ekki alveg eftir hvað. Kannski eitthvað uppsafnað?

Njótið allra daga alltaf!

15.10.15

Allt ágætt bara

Gærdagurinn kláraðist alveg án þess að ég gæfi mér tíma til að setja inn pistil fyrir þriðjudaginn. Ég fór á fætur um sex í gærmorgun og þótt ég héldi vel á morgunrútínsspöðunum þá vantaði klukkuna ca 13 mínútur í sjö þegar ég synti loks af stað í Laugardalslauginni. Varð vör við að Lena var á svæðinu svo ég synti aðeins 200 metra til að hitta hana sem fyrst í pottinum. Hún fór reyndar fyrst í 42°C pottinn en þótt ég væri á undan ofan í þann kalda sat ég hennar tvær mínútur í viðbót þegar hún kom. Við náðum svo þremur öðrum kaldapottsferðum en ég sleppti gufu- og "sól"-baðinu því ég var ákveðin í að mæta aðeins fyrir átta í vinnuna.

Strax eftir vinnu skrapp ég upp í Brimborg til að sækja pakka fyrir pabba. Hann hafði verið að versla sér varahlut í bílinn sinn og þar sem hann vissi að ég yrði á ferðinni fljótlega bað hann mig um að sækja hann fyrir sig. Hafði örfáar mínútur heima til að ganga frá sunddótinu og fá mér smá snarl áður en tími var kominn til að mæta á kóræfingu. Bassinn var sá eini sem var fullskipaður en engu að síður var æfingafært.  Við sóprÖnnur og Helga sungum með Ingu Dóru í altinum þegar sópran átti ekki að syngja. Litum aðeins á "Bjarnatónið"- til að rifja upp fyrir jólin eftir kaffihlé. Einn úr bassanum átti sjötugs afmæli fyrr í vikunni og nafna mín í sópran átti afmæli í gær. Það var sungið fyrir þau bæði í restina af kóræfingunni.

lokum verð ég að segja örstutt frá þriðjudagskvöldinu því það var blásið í sauma-jólakortagerðar-prjónaklúbb hjá tvíburahálfsystur minni og ég náði að framleiða 10 stk jólakort. Kvöldið leið alltof hratt og klukkan var allt í einu farin að ganga tólf áður en við gátum slitið okkur frá föndrinu. Líklega er alltof langt síðan síðasti klúbbur var haldinn því við höfðum um margt að spjalla og að sjálfsögðu fengum við nokkur hlátursköstin.

13.10.15

Endalaust hraðferð á tímanum

Þar sem ég þurfti að skila posanum og leggja inn seðlana eftir kaffihlaðborðið í kirkjunni á sunnudaginn fór ég á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun. Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að mæta í sund í Laugardalinn rétt eftir opnun. Veðrið var dásamlegt og frábært að byrja morguninn svona. Eftir 300 metra á bringunni fór ég beint í kalda pottinn. Hafði þóst sjá Lenu í lauginni að synda baksund og það kom á daginn að hún var þarna, hafði fyrst brugðið sér í einn heita pottinn áður en hún kom til mín í kalda pottinn. Það endaði með því að ég fór fjórar ferðir í þann kalda með henni. Í síðustu ferðinni hitti ég einn frænda minn, afi hans var föðubróðir minn. Hann var að prófa þessar dýfingar í þann kalda. Náði að vera um mínútu og svo fór hann smá stund upp úr áður en hann dýfði sér aftur. Við Lena bentum honum á að það þætti ekki verra að fara í heitan pott á milli. Endaði í sjópott og gufu og náði samt alveg á réttum tíma í vinnuna.

Fékk að stinga af úr vinnu rétt fyrir hálftvö. Fór fyrst í bankann áður en ég renndi Hafnarfjörðinn til að skila posanum til VALITOR. Kvöldið var notalegt. Las, horfði á fréttir, dansk-sænska sakamálaþáttinn Brúna og CSI-Cyber.

12.10.15

Eftir helgina

Nýliðin helgi var að mestu helguð kirkju óháða safnaðarins.  Ég fór þó í sund báða morgnana strax upp úr klukkan átta, þ.e. rétt eftir opnun. Eftir laugardagssundið og pottadýfingar skutlaði ég vinkonu minni í Kolaportið þar sem hún var með sölubás allan þann daginn. Síðan lá leiðin í Bónus í Kringlunni þar sem ég verslaði inn nauðsynjar fyrir kaffihlaðborð KÓSÍ-kórsins. Mætti með þetta kirkjuna og minn skerf á hlaðborðið, flatkökurnar sem ég smurði kvöldið áður, um hádegisbilið. Ég renndi blint í sjóinn hvað varðaði hjálparhendur fyrir undirbúning, vissi aðeins fyrir víst um fjórar hendur. En allt í allt mættum við átta (16 hendur) og komumst nokkuð langt með það sem hægt var að undirbúa daginn fyrir hlaðborð á tæpum þremur tímum. Ég var amk komin heim góðum klukkutíma áður en fótboltalandsleikurinn hófst. Þá voru mættir þrír félagar bræðranna og þeir vinirnir byrjaðir að spila. Sótti vinkonu mína í hálfleik. Nokkru eftir leikinn ákváðum við tvær að skreppa á Gló við Laugaveg og fá okkur að borða þar. Fórum á lánsbílnum en lögðum honum við Hallgrímskirkju og löbbuðum þaðan. Þetta var mjög góð hugmynd hjá okkur og komum við pakksaddar til baka.

Eftir sundið í gærmorgun hafði ég ágætistíma heima en ég hafði ákveðið að mæta í krikjuna um tólf og stóð við það. Var ekki búin að vera lengi á staðnum en byrjuð að undirbúa þegar fleiri mættu. Rétt upp úr eitt hituðum við upp fyrir messuna og að þessu sinni voru helmingi fleiri kórfélagar mættir heldur en í sl. tveimur messum, eða 10. Reyndar var aðeins ein mætt í altinum svo ég svissaði yfir í altinn í eina sálminum sem sunginn var í röddum. Einkabílstjórinn kom gangandi í kirkjuna um hálftvö og ég bað hann um að passa posann og "peningakassann" með skiptimynntinni í. Hann sá svo að mestu um að taka við greiðslu v/kaffihlaðborðsins eftir afar skemmtilega galdramessuna. Vel var mætt í kirkjuna og í nógu að snúast að fylgjast með að ekki vantaði neitt. Það tók líka drjúgan tíma að ganga frá. Oddur fékk að skila posanum af sér um fjögur og ég lánaði honum rauða kortið til að hann gæti skroppið í heimsókn til pabba síns.

10.10.15

Undirbúningur í fullum gangi

Þar sem ég var búin að fá leyfi til að fara fyrr úr vinnu til að reka ýmis erindi fór ég á lánsbílnum í gærmorgun. Byrjaði að sjálfsögðu á því að mæta í Laugardalinn klukkan hálfsjö. Synti 400 og náði tveimur góðum ferðum í kalda pottinn, einni í heitan pott, einni ferð í sjópottinn og smástund í gufuna og "sólbað" á eftir.

Klukkan hálfþrjú kvaddi ég vinnufélagana og dreif mig í að reka fyrrnefnd erindi. M.a. skrapp ég í banka eftir skiptimynnt (seðlum), sótti einn posa til Valitor og keypti nokkra pakka af flatkökum, smjör og hangikjöt. Eftir kvöldmat sat ég svo í stofunni með vinkonu minni, hún að prjóna og ég að smyrja flatkökur. Höfðum kveikt á sjónvarpinu á meðan og fylgdumst aðeins með útsvari.

9.10.15

Vinnuvikan liðin í bili

Ég fór með vagninum sem fer frá Sunnubúð korteri fyrir heila tímann í vinnuna í gærmorgun og var mætt á vinnustaðinn rétt fimm mínútum fyrir átta og svo beint heim aftur átta tímum seinna. Fékk annan soninn í lið með mér í skylduverkin svo þau gengu nokkuð hratt og vel fyrir sig. Hafði steiktan fisk með hvítkáli, rauðkáli og hýðisgrjónum í kvöldmatinn og tók svo fram jólakortaföndrið. Bjó til níu kort í viðbót og er þá nánast komin með tvo þriðju af kortunum sem mig vantar í ár. Vel gert!


8.10.15

Morgunstund

Var vöknuð nokkuð á undan vekjaraklukkunni og þó var hún stillt á tíma sem ekki náði 06:00. Hafði því ágætis tíma til að sinna morgunverkunum og taka mig til fyrir daginn. Var mætt við Laugardalslaugina um það leiti sem opnaði og að sjálfsögðu vígði ég nýja sundbolinn með því að synda 300m, dýfa mér 3x í kalda pottinn, 2x í einn heitan, einu sinni í sjópottinn og sitja svo nokkrar mínútur í gufunni.  Sundbolurinn virkaði vel.

Var mætt í vinnuna stuttu fyrir átta. Hafði alveg nóg að sýsla frameftir degi en fékk svo að fara klukkutíma fyrr. Hafði þá tæpa tvo tíma heima áður en ég mætti í fyrra fallinu á kóræfingu í krikjuna til að taka til kaffið fyrir pásuna. Þrátt fyrir að við mættum aðeins fimm fyrir utan kórstjórann blésum við í æfingu og æfðum nokkur lög, gömul og nýtti í röddum. Æfingin var góð en höfð í styttra lagi og við enduðum á því að taka smá kaffi áður en við gengum frá og fórum heim. Kórstjórinn varð reyndar eftir því hann er líka að stjórna karlakórnum Stefni og þeirra æfing er á eftir æfingu KÓSÍ-kórsins.

7.10.15

Mið vika

Þar sem ég var vöknuð nokkuð löngu á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun freistaðist ég til að kveikja á tölvunni og náði ég að setja inn bloggfærslu áður en tími var kominn til að skottast út í strætó. Annars lá mér svo á að nota nýju úlpuna í fyrsta sinn að ég gleymdi að taka með mér húslykla. Þegar mér gafst kostur á að hætta aðeins fyrr í vinnunni var ég ekki viss um að ég myndi finna einhvern heima svo ég samdi um að ég mætti frekar hætta fyrr seinna í vikunni. Fékk mér svo göngutúr hálfa leið heim áður en ég náði vagninum sem stoppaði fyrir utan um hálffimm. Það voru allir heima svo ég komst inn. Ég stoppaði þó ekki lengi við því fyrsta þriðjudag í mánuði eru haldnir stjórnarfundir í óháða söfnuðinum og ég átti að vera mætt upp í kirkju klukkan fimm. Það hafðist. Fundurinn var nokkuð góður og setti ég m.a. beiðni fyrir hönd KÓSÍ-kórsins (með smá aðstoð) um að hækka framlagið í sjóðinn. Formaðurinn lagði til að tillagan yrði samþykkt á þá vegu að kórinn fengi helminginn af hækkuninni núna en frá og með áramótum myndi framlagið tvöfaldast miðað við núverandi framlag.

Kom heim upp úr hálfsjö. Hitaði smá hluta af kjötsúpunni, frá því á mánudagskvöldið án þess að hafa kjötið með, handa okkur Lilju en strákarnir höfðu sagt pass því það var spilakvöld hér hjá þeim frá klukkan hálfníu til hálftólf. Ég gerði lítið annað en að lesa, spjalla við Lilju og glápa á imbann. Ætlaði að horfa á þáttinn eftir tíu fréttir á RÚV en þá var ég hins vegar farin að geyspa svo mikið að ég taldi ráðlegast að koma mér í háttinn.

6.10.15

Brun á tímanum

Það mætti segja mér að það nýtt ár verði gengið í garð áður en langt um líður og þessir þrír mánuðið sem eftir lifa af þessu ári líði svo hratt, svo hratt að þegar ég lít til baka um áramótin muni mér finnast eins og þetta hafi í raun verið mun styttri tími. Það er eins gott að nýta og njóta augnablikanna.

Fljótlega eftir vinnu í gær fékk ég vinkonu mína sem er hjá mér í nokkra næstu daga til að koma með mér í Sport Direct og hjálpa mér að finna á mig úlpu og sundfatnað. Við gerðum góða ferð. Ég fékk á mig samskonar úlpu og ég keypti handa einkabílstjóranum um daginn, þrjár í einni fjólubláa að lit, og tvennskonar sundföt, tegundir sem ég hef ekki prófað áður, á innan við tuttuguogeittþúsund krónur. Sundbolurinn er opinn í bakið en ekki aðskorinn og hin sundfötin eru í tvennu lagi, brók og bolur (ekki bikiní). Ég hlakka til að prófa þá.

Eftir að við komum heim aftur hjálpuðumst við að við að útbúa dýrindis kjötsúpu í stærsta pottinum mínum. Um það leyti sem súpan varð til hringdi ég til að athuga með soninn sem enn var í skólanum. Þá var hann einmitt að hætta í verkefninu sem hann hafði verið að vinna að, úti var hellidemba og ég ákvað að senda einkabílstjórann, hinn soninn, eftir honum.

5.10.15

Eftir helgina

Tók þátt í haustfagnaði með vinnufélögum seinni partinn á föstudaginn og aðeins fram á kvöldið. Hafði ekki úthald lengur en til hálfníu en það var að hluta til vegna þess að ég var ákveðin í að nýta báða helgidagana mjög vel.

Var komin ofan í Laugardalslaug og byrjuð að synda fyrir klukkan hálfníu á laugardagsmorguninn. Úr sundinu mætti ég beint í klippingu. Þótt ég væri mætt  áður en klukkan varð alveg  tíu opnaði Nonni fyrir mér og bauð mér að byrja á því að fá mér smá kaffi sem ég þáði. Kom heim um hálfellefu. Tíminn til tvö leið frekar hratt við ýmis konar dundur og skylduverk. Var mætt á Vodafone-völlinn um tvö. Komið gervigras á völlinn en leiktíðið endaði eins og hún hófst með heimaleik sem tapaðist. Patrick Pedersen náði ekki að skora í leiknum en fékk engu að síður gullskóinn fyrir flest skoruð mörk í sumar.

Eftir leikinn trítlaði ég aftur heim til þess að ná í lánsbílinn og sækja eina vinkonu mína, og dótið hennar, en hún var með bás í Kolaportinu. Hitti aðeins á þrjár vinkonur sem eru Rangæingar að upplagi og líka í vinahóp Þallar (Fridu Fridriks).

Það var spilakvöld hér hjá bræðrunum en við vinkona mín lögðum stofuna undir okkur og ég bjó til níu jólakort þrátt fyrir að vera líka að fylgjast með sjónvarpinu. Hætti ekki kortaframleiðslunni fyrr en klukkan var langt gengin í tólf.

Var mætt í laugina í gærmorgun á svipuðum tíma og morguninn áður. Skrapp heim með sunddótið og náði í esperantodótið. Mundi loksins eftir að taka með mér tvær síðustu vikukrossgáturnar, þ.e. úr þeim vikublöðum sem ég fékk síðast í ágúst áður en ég sagði upp áskriftinni. Við einbeittum okkur að esperantoinu í þetta sinn. Stoppaði aðeins rúma klukkustund, skaust heim með esperantodótið og dreif mig svo í heimsókn til foreldra minna. Þar stoppaði ég aðeins fram á kvöld en var þó komin heim aftur um tíu.

2.10.15

Bókasafn, bleikja og föndur

Aðeins örfáar línur í dag. Ég skrapp í fiskbúð Hafrúnar fljótlega eftir vinnu í gær og keypti bleikjuflök frá Vestfjörðum. Mjög góður matur. Síðan lá leiðin á bókasafnið í Kringlunni. Skilaði tveimur af þremur bókum, var búin að framlengja skilafrestinum á þeirri síðustu. Kom heim með bleikjuna (og reyndar aðra fisktegund líka til að eiga í frysti) og sjö bækur, þar af eina sem þarf að skila eftir tvær vikur.

Kvöldið fór svo í jólakortaundirbúning, spjall við eina vinkonu sem prjónaði og bjó til skartgripi á meðan og sjónvarpsgláp. Klippti út fullt af jólalegum myndum úr þrívíddarbók sem ég átti í fórum mínum, hreinlega kláraði þá bók. Nú þarf ég bara að klippa niður fleiri karton og brjóta saman í hentuga kortastærð, á aðeins 13 slík kartona kort tilbúin til að jólaskreyta en þarf líklega amk annað eins.

Á meðan á þessu fór fram voru bræðurnir með spilakvöld frammi í holi.

1.10.15

Glænýr mánuður

Þá eru liðnir 3/4 hlutar af þessu herrans ári 2015 og ég hamast við að njóta dýrmætu augnablikanna og samskiptanna við samferðafólksins. Á þriðjudagskvöldið skrapp ég aðeins til "föðursystur" minnar (kannski rétt að kalla hana föðurnöfnu því feður okkar eru nafnar!?!?) en það var liðinn nokkur tími síðan við hittumst síðast, oft eitthvað annað í veginum eða tíminn að skarast á. En það er nú svo sem ekki fjöldi hittinga sem skipti mestu máli, amk ekki alltaf, heldur gæðin og hvernig maður nýtir þessar stundir sem gefast.

Í gærmorgun vaknaði ég í fyrsta skipti í þó nokkurn tíma við það að vekjarinn var kominn í gang. Enda hafði ég stillt klukkuna á 05:50 til að vera örugglega komin í sund strax um opnunar leytið. Það tókst, þ.e. ég var mætt í Laugardalinn rétt rúmlega hálfsjö og byrjuð að synda tæpum tíu mínútum síðar. Synti aðeins 300 metra til að geta farið oftar í pottana. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn urðu fagnaðarfundir í einum af heitari pottunum þegar Lena, danska konan, fann mig þar en við höfum ekki hist síðan 11. ágúst sl. Ég náði tveimur kalda pottsferðum með henni og afar góðu spjalli í leiðinni.

Var mætt á vinnustaðinn ca tíu mínútum fyrir átta enda á lánsbílnum. Allt daglegt var búið fyrir hálfþrjú og ég fékk að fara heim upp úr klukkan þrjú. Það var alveg ágætt að fá klukkutíma lengri tíma til að slaka á og undirbúa sig undir annars afar góða og notadrjúga kóræfingu. Sú æfing byrjaði reyndar á kaffipásu þar sem það var ekki útséð um mætingu í allar raddir, en það rættist heldur betur úr mætingunni, nema kannski í altinum þær voru aðeins tvær, þrír í hvorri karlarödd og við vorum fjórar í sópran. Ég stalst því stundum til að æfa aðeins með altinum þegar sópranröddin átti að hvíla.

Frétti í gær af andláti fyrrum vinnufélaga sem ég vann með fyrstu fimm árin á RB. Það var smá högg því konan sú náði því þá ekki einu sinni að verða 75 ára og það þykir ekki hár aldur í dag. Hugurinn er hjá aðstandendum hennar.