13.12.11

- Dagarnir fljúga áfram -
Ég get ekki sagt að ég sé mjög dugleg í jólaundirbúningnum. Einhvern veginn finnst mér tíminn hafa verið alveg nógur hingað til. Bakaði tvær sortir af smákökum seinni partinn í nóvember og aðra þeirra aftur í gærkvöldi. Er eitthvað byrjuð að hugsa um og viða að mér hugmyndum og raunverulegum jólagjöfum en ég er ekki enn byrjuð að skrifa jólakortin. Samt hefur verið í nógu að snúast í félagslífinu hjá mér. Á fimmtudaginn var, var okkur hjónum boðið í dýrindis kjötsúpuveislu vestur í bæ ásamt öðrum hjónum. "Strákarnir" þrír hafa þekkst síðan þeir voru pollar. Húsmóðirin bauð svo upp á alls kyns góðgæti með kaffinu og hafði baka tvær kökur sérstaklega handa mér, þar sem hún veit að ég má ekki borða hvítan sykur og hvítt hveiti. Þetta var mjög skemmtileg kvöldstund með góðum vinum. Á föstudaginn var tók ég mér orlof eftir hádegi til að gefa mér góðan tíma til að undirbúa það sem var framundan. Davíð kom ekki heim fyrr en um þrjú en við vorum lögð af stað úr bænum rúmlega fjögur. Helga systir sótti strákana fyrir kvöldmat og voru þeir hjá henni fram að hádegi á laugardag. Vorum komin á Hótel Rangá rétt fyrir sex og fengum mega-herbergi (að mér fannst) í nýjustu álmunni. Slökuðum vel á til að byrja með áður en kominn var tími til að skvera sig upp fyrir hlaðborðið. Habilis var með borð á efri hæðinni (ásamt öðrum 10 manna hóp) sem þýddi það að það þurfti að trítla upp og niður stigann til að sækja sér á hlaðborðið. En það var alveg í góðu lagi. Maturinn var mjög góður og erfitt að velja úr hvað maður átti helst að smakka því það var ekki sjens að smakka á öllum sortum. Á einum tímapunkti hvarf Davíð og missti því af skemmtilegum jólasveinasveini sem birtist með stærðar poka af gjöfum handa öllum við langborðið okkar. Sveinki var það skemmtilegur að fólk lá í hláturskasti mest allan tímann sem hann var í heimsókn. Úthaldið var mismunandi, sumir létu gott heita um miðnætti og þeir sem höfðu mesta úthaldið voru að langt fram á nótt. Ég var í hópnum þarna mitt á milli. Mættum í morgunverðarhlaðborðið rétt upp úr tíu á laugardagsmorgninum. Þar var hægt að fá alls kyns morgunverðarkræsingar. Á leiðinni í bæinn aftur stoppuðum við bæði hjá pabba sem og hjá tengdaforeldrum mínum þannig að klukkan var að verða fimm þegar við komum heim. Þ.e. ég komst alla leið heim, Davíð þurfti að fara aftur í smá björgunarleiðangur sem tók meira ein fjóra tíma. Fór að aðstoða vin sinn og samstarfsfélaga sem hafði fest sig og festi sig sjálfur. Fleiri voru kallaðir til og þetta var víst mikið bras sem endaði þó vel.

6.12.11

- Desembermánuður byrjaður -
Tæpar þrjár vikur til jóla og tíminn flýgur ógnarhratt áfram. Ætlaði að segja frá því í síðustu viku að síðasta mánudagskvöldið í nóvember tók ég upp saumana mína en þeir höfðu legið ósnertir í ca mánuð eða svo. Ákvað að sauma annað "Jólaþorp" (ætla að reyna að muna eftir því að taka myndir af saumuðu jólakortunum). Myndin er ekki stór en það fer drjúgur tími í að sauma hana. Er búin að taka upp sauman amk þrisvar sinnum síðan þetta kvöld og ég á enn ca klst vinnu eftir, megnið af hvíta litnum og svo útlínur. Á laugardagsmorguninn var, reyndar bara stuttu fyrir hádegi, kíkti ég aðeins á norsku esperanto vinkonu mína. Við tókum reyndar ekki fram bækurnar heldur skruppum í smá göngutúr meðfram sjónum við Grandana í átt að Seltjarnarnesi. Var ekki nægilega vel klædd fyrir langan spöl og entist bara í uþb hálftíma. Mér fannst ég hins vegar þeim mun duglegri heima miðað við marga aðra laugardaga. Eftir hádegi á sunnudaginn var drifum við hjónin okkur saman út í göngu. Að þessu sinni var ég nógu vel klædd. Aftur á móti var úthaldið ekki meira en fyrir rúmlega klst göngu svo gönguleiðir okkar hjóna skildu þegar ég var ca hálfnuð. En þetta var virkilega hressandi. Skutlaði Davíð í pílu og sótti norsku vinkonu mína um hálfátta í gærkvöldi. Við tvær fórum saman á kyrrðarstund í Bústaðakirkju, notaleg stund sem er haldin fyrsta mánudagskvöld í hverjum mánuði með Þór Gunnlaugssyni lögreglumanni á eftirlaunum og oftast er séra Pálmi einnig. Sá síðarnefndi var hins vegar ekki með í gærkvöldi og ekki heldur fyrir mánuði síðan.

29.11.11

- Eitt og annað -

Nú er
nóvember senn á enda og þá bara einn mánuður eftir af árinu. Undanfarnir dagar hafa verið fljótir að líða og margt hefur verið brallað. Á föstudaginn bauð ég Davíð með mér á jólhlaðborð með vinnufélögum mínum og þeirra fylgifiskum á Grand Hótel. Við stoppuðum aðeins í rúma tvo tíma því svo lá leiðin heim til eins kórfélaga míns í jólaglögg, söng og fleira. Við rétt misstum reyndar af hápunktinum, pistlinum sem sannKristinn flytur alltaf við svona tækifæri. En við skemmtum okkur engu að síður svo vel að áður en við vissum af var klukkan komin nokkuð fram yfir miðnætti. Maðurinn minn og svili stefndu á rjúpuferðir á laugardag og sunnudag og þar að auki hefði Davíð helst þurft að klára smá verkefni sem hann var að vinna að. Þeir félagar fóru ekki af stað fyrr en komið var vel fram á morguninn því yngri systurdóttir mín var að keppa á skautum og pabbi hennar að taka upp dansinn hennar. Sú stutta nældi sér í annað sætið. Ég var heimavið allan laugardaginn og náði að taka til í og þrífa efri skápana í eldhúsinu og framfylgja fleiri heimilisstörfum.

Svilarnir fóru fyrr af stað á sunnudagsmorguninn en samt ekki fyrr en á níunda tímanum. Ég var afar löt og kom mér ekki á fætur fyrr en um ellefu. Var mætt í kirkjuna um eitt og söng með sex öðrum kórfélögum mínum við messuna klukkan tvö. Rétt fyrir þrjú vorum við sest niður og ég komin með kaffi í bollann. Þá verð ég vör við það að gemsinn minn er að hringja. Á línunni var maðurinn minn með hjálparbeiðni. Hann bað mig að sækja aukalykla af bíl svila síns og skutlast með þá til þeirra. Áður en ég fór af stað lánaði sannKristinn mér pistilinn frá föstudeginum. Skrapp heim, skipti um skó og lét strákana vita hvað ég væri að fara að gera. Setti bensín á bílinn á leiðinni heim til systur minnar. Eftir að hafa sótt bíllyklana lagði ég í hann út úr bænum og var ég uþb klst að keyra til þeirra félaga. Þeir höfðu sem betur fer hitt á hóp manna sem var að vinna í skógrækt (saga og pakka jólatrjám) ca tuttugumínútna gangleið frá þar sem þeir festu sig og læstu sig úti úr bílnum. Vel gekk að kippa þeim lausum (ég og okkar bíll sluppum sem betur fer alveg við það). Vorum komin í bæinn stuttu fyrir sex. Bjó til kaffi handa manninum áður en ég skrapp að versla inn það nauðsynlegasta og skutlaði ég gleraugum mágs míns til hans í leiðinni. Ákváðum að hafa mat frá Saffran í kvöldmatinn.

23.11.11

- Tónleikar -
forskot á aðventuna
Um leið vinnu lauk í gær arkaði ég yfir Skólavörðuholtið og kom fyrst við í Sundhöllinni. Var komin ofan í laugina upp úr klukkan hálffimm og synti í ca tuttugu mínútur. Tapaði tölunni á ferðunum eftir þá 12. (300 metra) og veit ekki hvort ég synti 6 eða átta ferðir eftir það. Synti bara til klukkan að verða fimm og skrapp þá í heita pottinn áður en ég dreif mig upp úr og hélt áfram ferðinni heim.
ÉG var rétt að komast heim þegar Davíð hringdi í mig og spurði hvort ég væri með eitthvað skipulagt um kvöldið. Það var ekki svo hann sagðist ætla að bjóða mér á tónleika í Fríkirkjunni. Tveir kórar og Gissur Páll Gissurarson sáu um sönginn. Vox academica reið á vaðið með þremur lögum og áður en þriðja lagið kláraðist gengu þau aftast í kirkjuna og Raddbandafélag Reykjavíkur tók við. Báðir þessir kórar sungu án undirleiks. Ég verð aðeins að skjóta því að að þrátt fyrir fínan söng í upphafslögunum leist mér ekki á blikuna til að byrja með en þegar Raddbandafélagið byrjaði breikkaði brosið á minni og ég hélt áfram að brosa út að eyrum þegar Gissur steig fram og söng tvö lög. Á eftir Gissuri steig Vox hópurinn aftur upp á sviðið með mun skemmtilegri lög heldur en í byrjun. Svo söng Gissur eitt lag áður en Raddbandafélagið tók aftur við með þrjú lög. Að endingu sungu báðir kórarnir þrjú lög saman og Gissur sá um einsöng í tveimur laganna. Auðvitað var svo eitt aukalag í lokin. Erfið byrjun skemmti ekki fyrir mér kvöldið og ég var alsæl með kvöldið.

22.11.11

- Smá(köku)bakstur -

Um síðustu helgi stóð til að taka eldhúsið í gegn hjá mér. Það gekk ekki alveg eftir en ég þreif amk ísskápinn og tók til í honum áður en ég verslaði inn til vikunnar. Í gærkvöldi ákvað ég að demba mér í smákökubakstur og súkkulaðikúlugerð. Hnoðaði fyrst í kúludeigið (smjör, haframjöl, kakó, flórsykur og smá mjólk hnoðað saman og kúlað upp úr kókosmjöli) og fékk bræðurnar til að kúla það upp. Næst þeytti ég þrjár eggjahvítur sem er grunnurinn í lakkrístoppakökum (annað innihald er púðursykur, rjómasúkkulaði og lakkrískurl). Þetta urðu eitthvað rúmlega 60 kökur og þegar síðasta platan beið eftir að komast í ofninn bjó ég til "deig" í kornflekskökur (eggjahvítur, sykur, kornfleks, kókosmjöl og suðusúkkulaði). Tók síðust plötuna út úr ofninum á tólfta tímanum, stolt yfir því að hafa ekki látið freistast að sleikja skálar að innan eða smakka á afrakstrinum.

18.11.11

Sundgleði

Fljótlega eftir sumarfrí í haust ákvað ég að fara amk tvisvar í viku í Sundhöllina beint eftir vinnu. Átti gamalt tíu miða gatakort með sex götum á í fórum mínum. Eftir að hafa nýtt kortið ákvað ég að kaupa mér 10 "miða" kort í laugarnar. Var langt komin með að nota það kort þegar Davíð minntist á það að laugarnar opnuðu klukkan hálfsjö. Hann sagði ekki meira og ég var heilan sólarhring að átta mig á að maðurinn var að biðja mig um að koma í sund á morgnana. Við ákváðum að prófa þetta og komumst að því að þetta var að virka mjög vel. Þegar ég var búin að klára rafræna sundkortið tvisvar ákvað ég því að kaupa ársmiða í laugarnar. Í Sundhöllinni synti ég oftast 200m og aldrei meir en 300m en í Laugardalnum syndi ég oftast hálfan km og í morgun fór ég 700m. Það er virkilega gott að byrja daginn á að fá sér sundsprett.

16.11.11

Löng og góð bústaðarhelgi

Fyrsta föstudaginn í mánuðinum, 4. nóv. sl, tók ég mér frí úr vinnu frá hádegi. Davíð kom heim rétt fyrir þrjú og klukkan var orðin fjögur þegar öll fjölskyldan var búin að taka sig saman og lögðum af stað að heiman. Komum við í Krónunni upp á Höfða og svo tókum við bensín áður en við keyrðum alveg út úr borginni. Vorum ekki komin að afleggjaranum upp í land Efri-Reykja fyrr en um kvöldmatarleytið. Þar biðu eftir okkur mágur minn og yngri systurdóttir. Kvöldmatur var ekki borðaður fyrr en um níu, gúllassúpa a la Davíð. Eldsnemma morguninn eftir fóru svilarnir af stað í rjúpuleiðangur. Bríet vaknaði um það leyti sem þeir fóru og til að leyfa nú unglingunum mínum að sofa aðeins lengur dreif ég mig upp til að sinna frænku minni. Oddur Smári kom niður um níu og á ellefta tímanum skruppum við þrjú í pottinn. Pabbi kom upp úr hádeginu og systir mín og eldri dóttir hennar seinni partinn (Hulda hafði verið að keppa á skautum um morguninn) á svipuðum tíma og veiðimennirnir komu tómhentir heim. Þá vorum við öll mætt fyrir utan mömmu sem er að spóka sig á Kanaríeyjum þessa dagana og skemmtir sér konunglega þar í góðum hita fyrir kroppinn hennar. Borðað var hreindýr í kvöldmatinn með dýrindis meðlæti a la Helga og Ingvi og pabbi bauð okkur fullorðna fólkinu upp á rautt eða hvítt með.´

Spáin fyrir sunnudaginn var ekki spennandi en svilarnir ákváðu engu að síður að drífa sig upp snemma og taka stöðuna þá. Það varð úr að þeir drifu sig aftur á veiðar. Við hin fórum á tveimur bílum upp að Geysi þar sem voru teknar myndir af krökkunum við Strokk. Helga fór svo með eldri krakkana upp að Gullfossi og tók myndir af þeim þar á meðan við pabbi fórum með Bríeti í lengri bíltúr og keyptum handa henni ís. Veiðimennirnir komu heim með fjórar rjúpur en í kvöldmatinn var læri a la pabbi. Allir gestir voru farnir um átta og þá settumst við fjögur niður og spiluðum partý-alías. Nafnarnir rústuðu okkur Oddi en þetta var meiriháttar skemmtilegt.

Við vorum öll fjögur í fríi á mánudeginum og tókum því rólega til að byrja með. Við Davíð ákváðum samt að vekja strákana þegar klukkan var orðin tólf. Eftir að hafa fengið okkur eitthvað að borða fórum við að huga að tiltekt og frágangi. Lokuðum bústaðnum á eftir okkur rétt fyrir fimm.

15.11.11

- Mánuðurinn er hálfnaður -

Síðastliðin helgi var allsherjar pabbahelgi. Við systur kvöddum börn og menn og brunuðum saman austur á Hellu eftir kvöldmat á föstudaginn. Horfðum með honum á "Útsvarið" og skemmtum okkur vel. Hann leyfði okkur líka að hlusta á segulbandsspólu sem var tekin upp þegar mamma fór að hitta Þórhall miðil í síðastliðnum mánuði. Ég horfði svo á Wallander áður en ég fór í háttinn. Klukkan var rétt orðin tíu á laugardaginn þegar við brettum öll upp ermar og byrjuðum á skápaþrifum í eldhúsinu. Pabbi og Helga hjálpuðust að við að taka til og þrífa í búrinu á meðan ég setti minna notað leirtau í uppþvottavél og byrjaði á eldhússkápunum. Við unnum mjög vel allan daginn og fram að kvöldmat. Pabbi lenti í smá veseni því það var byrjað að leka undir eldhúsvaskinum, en auðvitað náði hann að laga það :-). Á sunnudaginn þreif Helga ísskápinn og ég þurrkaði af köppum og kösturum í stofunni. Síðan skellti ég mér í göngutúr upp að Helluvaði og heimsótti Árný, föðursystur mína. Áður en við systur lögðum af stað í bæinn kynnti pabbi okkur fyrir grænmetisréttinum sínum, gufusoðið niðurskorið grænmeti og epli.

En fyrsta helgin í mánuðinum var ekki síðri en sú nýliðna. Punkta aðeins niður um þá helgi næst. ...á annars ekki að skrifa í "öfugri tímaröð

11.11.11

- Ógnarferð á þessum tíma -

Hvernig væri nú að fara að skrifa reglulega á þessum vettvangi aftur? Er reyndar sannfærð um að ef ég næ að koma e-s konar skipulagi á þessi skrif þá verður þetta lítið mál. Ákveðin rútína er mjög holl.

25.3.11

- Langt liðið á þriðja mánuð ársins -

Það er alltaf nóg að gerast í kringum mig, gef mér bara því miður ekki mikinn tíma til að setjast niður og festa á skjáinn það eftirminnilegasta. Síðan ég skrifaði síðast er ég bæði búin að eiga 43 ára afmæli og fagna 15 ára brúðkaupsafmæli, kristalsbrúðkaupsafmæli, með manninum mínum.
Merkilegir áfangar það :-). Ég lauk líka við að sauma engilinn, þvo hann, pressa, festi allar nál. 100 perlurnar (bláar og hvítar) í hann og straujaði yfir aftur. Davíð tók mynd af listaverkinu mínu bæði sér og með mér og þegar ég verð búin að láta ramma engilinn inn og hengja hann upp á góðum stað mun ég biðja hann um að mynda hann aftur. Þá tók ég mig til og tók fram mest af því sem ég er ekki byrjuð á og var að spá í að byrja á næstu stóru mynd (hef um tvær að velja). Ákvað svo að fresta því smá. Er þó með fullt í takinu og byrjaði á tveimur smámyndum og undirbjó jafa fyrir þrjár aðrar. Sat t.d. í allt gærkvöldi í húsbóndastólnum og fór langt með eina páskamynd sem ég byrjaði á fyrr í vikunni.
Tvíburarnir voru annars á árshátíð Hlíðaskóla í gærkvöldi, fóru fínir að heiman við þriðja dreng rétt fyrir hálfsjö og komu heim rúmum fjórum tímum seinna afar ánægðir með kvöldið. Karatestrákurinn sýndi víst nokkrar kötur og svo var hann valinn HÁR HLÍÐÓ 2011 enda er hann duglegur að breyta um og óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.

8.3.11

- "Tíminn líður hratt" -

Fyrsta vikan af mars er liðin og það stefnir hraðbyri í tvö afmæli hjá mér. Seinna afmælið á ég sameiginlegt með manninum mínum en eftir tvær vikur verða liðin 15 ár síðan við mæltum okkur mót við fulltrúa sýslumanns og létum pússa okkur saman. Margt er annars búið að gerast sl. "skráfría" daga, eiginlega alltof margt til að vera að skrifa um á einu bretti. Get ekki valið úr og veit varla hvar á að byrja. En ég veit þó að ég ætla að nota þetta sem hvatningu til að skrifa oftar :-). Sjáum til hvort ég kemst ekki bráðum í "skrifgang"!

18.2.11

- Aftur kominn föstudagur -

Það er ekkert fyndið hversu hratt tíminn æðir áfram. Ég hamast við að njóta augnabliksins og reyni að stressa mig sem minnst. Oft er maður samt kominn út í hringiðuna áður en maður veit af. Labbaði tvisvar sinnum yfir í Hlíðarnar úr vinnunni í gær. Fyrst um hádegið til að fara í foreldraviðtal með strákunum (sem og Davíð og kennaranum). Það gekk svona glimrandi vel að við Davíð buðum okkur út að borða á "Fish and Chips" á eftir :-). Maturinn þar er mjög góður. Kláraði svo vinnudaginn áður en ég arkaði af stað heim á leið. Stoppaði góða stund á einum stað þegar ég var ca hálfnuð. Bjó til plokkfisk úr afgangnum frá því á miðvikudaginn. Annar tvíburinn var lítið hrifinn en sagði samt eftir matinn að þetta hefði nú ekki verið versti plokkfiskur sem hann hefði smakkað. Þegar Davíð kom heim kláraði hann afganginn enda held ég að plokkfiskur sé einn af uppáhaldsréttunum hans.

17.2.11

- Fjörug kóræfing -

Kom við í Heilsuhúsinu og Yggdrasil á leiðinni heim úr vinnu í gær. Þegar ég kom út úr síðarnefnda staðnum var kallað: "Mamma" og hinum meginn götunnar stóð fyrrum söngfugl, við hliðina á kunnuglegum bíl, og baðaði út öllum öngum og við hraðbankann stóð enginn annar en maðurinn minn. Ég fór yfir götuna og inni í bílnum var hinn tvíburinn. Davíð var að skutla þeim bræðrum að hitta bekkinn sinn á Eldsmiðjunni og hafði stoppað þarna til að taka út pening og láta þá hafa. Ég óskaði strákunum góðrar skemmtunar og hélt svo göngu minni áfram heim á leið. Sauð mér ýsu og bræddi smjör með möndlum og furuhnetum í og fékk mér ásamt mauki sem ég keypti í Yggdrasil. Um sjöleytið skundaði ég af stað á kóræfingu. Það vantaði einn-tvo í hverja rödd fyrir utan tenór, þau mættu öll þrjú. Eftir upphitun byrjuðum við á fara yfir Moon River svo sungum við yfir lagið sem við sungum eftir predikun sl. sunnudag og svo æfðum við Aldasöng áður en við fórum í kaffi. Eftir kaffi fengum við nokkra blaðsíðna lag í hendurnar sem ætlunin er að flytja seinna í mánuðinum. Ein úr altinum hefur sungið þetta áður. Þetta er þekkt lag en mér gekk hálfbrösuglega til að byrja með. Það var samt farið að lagast. Allt í einu var klukkan orðin tíu og kórstjórinn sagðist ekki ætla að halda okkur til miðnættis. Tveir og hálfur tími er alveg ágætis tími en hann var svakalega fljótur að líða. Fékk góðar fréttir eftir æfinguna.

16.2.11

- Útlínur og úttalning -

Sat með saumana mína fyrir framan sjónvarpsskjáinn part úr gærkvöldinu. Taldi fyrst út í "vínmyndinni". Er að sauma laufblöð og byrja bráðum á berjaklösum. En ég tók engilinn líka fram og saumaði amk tvær útlínur. Þetta er alveg að hafast en samt virðist alltaf vera eitthvað smá eftir. Annars er hugurinn stöðugt hjá tengdamömmu og verður hjá henni í allan dag, eða þar til ég/við heyrum frá henni eða tengdapabba.

15.2.11

- Dirty Dancing -

Ég skellti mér í Háskólabíó í gærkvöldi með fimm öðrum stelpum að sjá Patrick Swayze heitinn í myndinni Dirty Dancing. Það var fullur salur og rétt fyrir myndina var komu fram fjögur danspör og hituðu og byggðu upp stemminguna. Þetta var sko ekki leiðinlegt og það eina sem mér fannst að var tuttugu mínútna hlé í miðri myndinni. Davíð var í pílu og karatestrákurinn á æfingu svo fyrrverandi söngfuglinn var einn heima part úr gærkvöldinu.

14.2.11

- Enn ein helgin þotin hjá -

Sat með saumana mína fyrir framan imbann fram eftir föstudagskvöldi. Davíð sá alveg um matinn og stóð sig vel í þeim málum :-). Laugardagurinn var nokkuð slakur en um miðjan dag skruppum við í heimsókn til einnar frænku minnar, þ.e. við fórum bara tvö við Davíð. Strax eftir heimsóknina ákváðum við að prófa að verla í Kosti. Það var svolítið skrýtið að ganga um þetta vöruhús og skoða úrvalið en ég var annars nokkuð ánægð með þennan prufuleiðangur. Hver veit nema maður fari að kíkja reglulega í Kost, þ.e. a.m.k. betra ef mann vantar eitthvað í miklu magni. Saumaði fyrir framan skjáinn aftur þá um kvöldið alveg þar til Mission impossible III byrjaði. Vann bæði að englinum sem og "vín-smá-myndinni". Engillinn er nú langt kominn, aðeins örfáar útlínur í ermarnar á kjólnum eftir og svo auðvitað allar perlurnar. Rétt fyrir hádegi í gær fór ég tvær ferðir með fernur og blöð í gáminn sem er í Eskihlíðinni. Davíð skutlaði mér svo í kirkjuna um eitt. Það var skírð stúlka í messunni og maður sem hefur verið kristinboði í Eþíópíu fór í ræðustólinn. Ræðan hans var virkilega góð og vel fram sett. Eftir smá kaffisopa eftir messuna labbaði ég heim. Feðgarnir voru á leið í keilu með tengdó, einum mági mínum og syni hans, en þeir voru ekki farnir þegar ég kom heim. Ég náði að horfa á framlenginguna í undanúrslitum bikar karla í handboltanum og var búin að stinga læri í ofninn nokkru áður en feðgarnir komu aftur heim. Davíð kom með mér að versla ávexti fyrir vinnuna og svo horfðum við fjölskyldan á "The karate kid" með Jackie Chan.

11.2.11

- Vikan að klárast -

Það er kominn föstudagur enn á ný. Vikan að klárast og eftir helgina verður þessi stysti mánuður ársins hálfnaður. :-) Þar sem ég tek þátt í "Lífshlaupinu" á vinnustaðnum mínum hef ég gengið bæði í og úr vinnu og á miðvikudaginn trítlaði (hálfskautaði ég reyndar) ég líka á kóræfingu og á heimleiðinni var smá hríðarkóf að bíta í andlitið á mér. En í morgun treysti ég mér ekki til að rennblotna og kannski fjúka um koll svo ég bað manninn um að skutla mér í vinnuna. Ein frænka mín sem býr í Danmörku er á Íslandi þessa dagana. Ég frétti af henni í fyrradag. Dvölin stendur bara yfir í viku og er hún að fljúga heim til sín á morgun. Hringdi í foreldra hennar í gær bara svona rétt til þess að heyra í henni. Það var mjög gott og gaman. Á eftir hringdi ég svo í mömmu. Hún er þreytt og finnst þessi barátta við heilsuna frekar erfið. Vonandi fer hún að finna meira fyrir batanum fljótlega. Hugurinn er líka stöðugt hjá tengdamömmu.

9.2.11

- Dagarnir æða áfram -

Vikan er hálfnuð og fimm dagar síðan ég settist síðast við skjáinn í þeim tilgangi að punkta niður það sem hefur verið á döfinni. Á laugardaginn skundaði ég yfir í Norðurmýrina til esperanto vinkonu minnar. Við erum að vinna í að koma okkur aftur í gang. Nú styttist reyndar í að það verði mun lengra að labba yfir til hennar en þau eru að flytja vestur í bæ einhvern tímann með vorinu. Að öðru leyti tók ég því rólega þannig að á sunnudeginum átti auðvitað eftir að sinna hefðbundum heimilisstörfum sem eiga að vinnast reglulega. Slapp feðgunum að mestu við þau mál. Notaði skurðinn í lófanum sem afsökun fyrir að vera ekki mikið að "busla" í vatni og vinda klúta. Á mánudagskvöldið tók ég á móti hinum fiskunum í saumaklúbb. Yndislegt kvöld í alla staði. Mikið spjallað, hlegið og saumað. Vorum allar að telja út. Ég sýndi þeim engilinn en ákvað að sauma smámyndina sem ég byrjaði á um daginn. Kom við í fiskbúðinni á heimleiðinni í gær og keypti bæði bleikju og ýsu. Ýsan fór í frysti en ég ákvað að prófa að baka bleikjuna með afgangi af rófum sem voru skornar niður í snakk fyrir saumaklúbbinn kvöldinu áður. Sauð kartöflur og bræddi smá smjör og setti möndlur út í. Mér fannst þetta hið mesta sælgæti en feðgarnir voru svona semí-ánægðir.

4.2.11

- Það kom babb í bátinn -

Á heimleiðinni í gær leit ég aðeins inn til fyrrum nágranna í risinu í norðurmýrinni. Alltaf gott og gaman að kíkja smá til gömlu hjónanna. Ætlaði mér að sitja eitthvað við saumana í gærkvöldi og hefði reyndar geta farið í keilu líka en ég varð fyrir smá óhappi, þegar ég var að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn, sem setti strik í reikninginn. Hægri lófinn lenti í smá árekstri við hnífsodd og Davíð varð að hjálpa mér við að setja eitthvað yfir ca cm skurð á óþægilegum stað. Í stað þess að sauma neitt, hvað þá keila, þá kláraði ég að lesa "Morgunengil" eftir Árna Þórarinsson.

3.2.11

- Engin kóræfing í gærkvöldi -

Var að hamast við að hengja upp þvott um sjö í gærkvöldi þegar ég fékk sms um að kóræfing félli niður vegna veikinda. Ég þurfti því ekkert að flýta mér að hengja upp til að verða ekki of sein á æfingu. En mér datt reyndar í hug að kannski hefðu þessi skilaboð ekki borist einni sem er nýbyrjuð aftur í altinum. Ég lauk við það sem ég var að gera, dreif mig upp í íbúð og fann símanúmerið hjá kórsystur minni. Ég rétt náði henni áður en hún fór að að heiman því hún var auðvitað að leggja af stað á æfingu. Í staðinn notaði kvöldið í englasaum og fylgdist einnig með Kiljunni. Náði að klára alveg annan vænginn og það er ekki mikið eftir af hinum vængnum, hugsanlega samt svona ein kvöldstund. Kannski get ég klárað þann væng í kvöld og þá eru bara eitthvað af dökkum útlínum í kjólnum eftir og svo auðvitað perlurnar. Jei, þetta klárast líklega bara á næstu dögum, þ.e. ef ég held mig að verki.

2.2.11

- Vikan er hálfnuð -

Í dag byrjar "Lífshlaupið" og stendur það yfir í tæpar þrjár vikur. Að sjálfsögðu skráði ég mig til leiks og arkaði keik í vinnuna í morgun með vindinn í bakið. Varð að passa mig vel á Eiríksgötunni við sjúkrahúsið því þar var búið að moka gangstéttina og lúmsk hálka. Var næstum því dottin einu sinni en bjargaði mér meistaralega með nettum handleggjasveiflum. Það er ekki svo langt síðan ég flaug á hausinn á miðri hraðahindrun yfir Barónsstíginn. Þá lenti ég á öðru hnénu og ætlaði ekki að geta staðið á fætur. Það tókst þó í þriðju tilraun en ég er enn með kúlu og mar á hnénu til minningar um þetta fall. Karatestrákurinn var þreyttur í gærkvöldi og sleppti kumiteæfingu. Ég var með soðinn fisk í matinn um hálfsjö og pilturinn ákvað svo sjálfur að fara í háttinn klukkan níu. Mér fannst það gott hjá honum. Hann vaknaði alveg jafnþreyttur í morgun, fannst honum. Hinn tvíburinn tók út svona daga í síðustu viku og ég veit ekki hvort um er að ræða vetrarslen, vaxtarkippi eða sambland af báðu. Vann aðeins að bláa englinum í gær og er langt komin með að klára útlínur í öðrum vængnum. Enn get ég þó ekki áætlað hversu mikið er eftir en það eru nokkur verkefni sem bíða eftir mér og halda mér við efnið því ég er ákveðin í að byrja ekki á neinu "stóru" fyrr en ég hef alveg lokið við engilinn. Aftur á móti er ég einnig að vinna að tveimur litlum myndum sem ég gríp í stöku sinnum.

1.2.11

- Nýr mánuður -

Það er kominn febrúar og miðað við hvað janúar var fljótur að líða reikna ég með að það verði örstutt þar þessi mánuður verður liðinn.
Helgin fór vel fram. Gerði reyndar mest lítið á laugardaginn. Svaf framundir hádegi og restin af deginum fór í innkaup, saumaskap og smá lestur. Á sunnudaginn skyldum við fyrrverandi söngfugl eftir heima og brunuðum til Akranes með karatestrákinn til að fylgjast með honum keppa í kata og kumite. Það fór rúmlega hálfur dagurinn í þetta ævintýri en þegar heim var komið var ákveðið að leigja mynd sem við gátum horft á öll fjögur. Aldrei þessu vant voru allir sammála um myndavalið strax. Ævintýramynd með Nicolas Cage varð fyrir valinu.
Hulda, systurdóttir mín, keppti á skautum á laugardaginn og náði silfrinu í þetta sinn. Vel gert hjá frænku minni.
Í gærkvöldi skrapp ég til tvíburahálfsystur minnar. Ekki í saumaklúbb, heldur á Tuppervare-kynningu. Það er ár og dagur síðan ég fór síðast á svona kynningu. Hitta margar skemmtilegar konur og svo endaði það með því að ég smellti mér á nokkrar vörur úr bæklingnum. Á "svolítið" af svona fyrir og sumt af þessu nota ég mjög mikið.

28.1.11

- Janúar alveg að verða búinn -

Það er föstudagur, helgi framundan og strax á þriðjudaginn hefst nýr mánuður. Og mér sem finnst áramótin hafi verið fyrir ca hálfum mánuði. Ætli það verði ekki kominn mars eftir eina og hálfa viku?
Annars settist ég niður með saumana mína í gærkvöldi. Er að "hamast" við að reyna að klára engilinn svo ég geti nú farið að byrja á nýju stóru verkefni. Stóðst ekki mátið um daginn og byrjaði að sauma litla mynd af rauðvínsflösku og glasi ásamt vínberjum og laufblöðum. Svo hef ég líka alltaf "merkjamyndirnar" að grípa í. En ég var semsagt að vinna í englinum í gærkvöldi. Nánar tiltekið að útlínum í öðrum vængnum. Ef ég sest niður með saumana mína eitthvað, nánast á hverjum degi, ætti ég að ná að klára þetta verkefni á örfáum vikum.

27.1.11

- Ein að reyna að koma sér í gang -


Jæja, er ekki besta leiðin til að vekja "skrifandann" að setjast niður fyrir framan skjáinn og "hamra" svolítið á lyklaborðið? Jafnvel þótt maður hafi ekkert að segja? Reyndar er kollurinn fullur af alls konar efni það er bara spurning hvort og hvernig ég kem einhverju af því frá mér. Ætla að sjá til næstu daga hvort eitthvað festist á skjáinn...

26.1.11

- Nýtt ár og fyrsti mánuðurinn langt kominn -
Ég er orðin alltof löt við skriftirnar og líkar það frekar illa. Það er nefnilega alveg ágætt að eiga einhverja punkta til að lesa yfir. Ég ætla nú samt ekki að lofa því að ég verði neitt duglegri og að þessu sinni verður þetta bara stutt og snubbótt. Sjáum svo til hvað gerist á næstu dögum og vikum.