29.2.04

- Hlaupársdagur -

Hvað skyldu margir fæðast í dag? Fyrir fjórum árum var systurdóttir mín reyndar fædd en samkvæmt fyrstu sónar-útreikningum var systir mín skráð 1. mars, sem þýddi að barnið gæti fæðst á hlaupársdag. Ef það hefði farið svo væri hún að fagna 1. afmælisdegi sínum í dag!

Gærdagurinn var annars í meira lagi annasamur. Á föstudagskvöldið létur tvíburarnir vita að einn bekkjarbróðir þeirra hefði boðið þeim í afmælið sitt. Á boðskortinu stóð að veislan væri milli tólf og tvö. Helga systir var líka búin að gefa mér miða á bikarleikina í handboltanum og þar að auki var hún að halda upp á afmæli Huldu. Ljóst var að það yrði að halda vel á spöðunum og jafnvel að eitthvað yrði útundan. Ingvi mágur kom þetta kvöld til að fá lánað sófaborð og handþeytarann okkar en hann kom ekki með bikarmiðana, vissi sennilega ekki af þeim.

Rétt fyrir tíu lagði ég af stað í afmælisgjafa-leiðangur. Strákarnir sögðu mér að kaupa annað hvort Jugio-spil (veit ekki alveg hvað það er né hvernig það er skrifað) eða markmanns-hanska. Ég ákvað að kaupa hið síðarnefnda og fékk þessa fínu hanska í Útilíf í Kringlunni. Næst lá leiðin í Pennann, þar sem ég keypti pappír og kort. Þar að auki fann ég sniðuga litabók handa Huldu og svo er krossgátublaðið Þrautakóngur komið út og að þessu sinni keypti ég tvö eintök. Þetta góð æfing í stafsetningu og til að auka orðaforðann og svo hafa strákarnir gaman að þessu. Nú úr því ég var stödd í Kringlunni ákvað ég að versla það sem vantaði upp á fyrir komandi viku.

Um ellefu hringdi ég upp á hjá Helgu systur og sótti miðana til hennar. Hún hún sýndi mér afmælisgjafir sem Hulda var búin að fá, New-born dúkku og tösku (eiginlega skólatösku). Það var líka búið að baka heilmikið fyrir afmælið og afmælistertan var brún hjartalaga kaka skreytt með bleiku kremi (nema hvað, he he), glæsilegt allt saman. Er heim kom renndi ég í könnuna, hjálpaði strákunum að pakka inn gjöfinni en þeir skrifuðu sjálfir á kortið. Davíð skutlaðist með þá og spurði í leiðinni hvort það væri í lagi að þeir fengu að vera til hálfþrjú.

ÍBV - Haukar 35-32
Davíð lét sig hafa það að koma með (sennilega mun meira freistandi heldur en að vinna, eða það held ég). Leikurinn var hraður og spennandi. Haukastelpur voru með forystuna allan fyrri hálfleikinn en Eyjastúlkum tóks að komast yfir áður en var flautað til hálfleiks. Í leikhléinu skemmti pylsuparið. Strax eftir hlé kom mjög góður kafli hjá ÍBV og þær skoruðu nokkur mörk í röð. Haukar gáfust aldrei upp en náðu samt ekki að jafna leikinn aftur.

Eftir leikinn sóttum við strákana og fórum beint í veisluna til Huldu vorum fyrst á svæðið en hinir gestirnir komu fljótlega, nokkrar vinkonur úr leikskólanum, vinkonan á móti og frændfólk. Um fjögur leytið fór ég þó að ókyrrast. Strákarnir fengu að verða eftir en við Davíð stungum af.

Fram - KA 23:31
Það var einhvernveginn aldrei spurning hvernig þessi leikur mundi enda. Markvörður KA-manna stóð sig mjög vel í markinu og Arnór Atlason skoraði langflest mörkin. Þar fyrir utan voru Framara líka oft óheppnir. Annars áttu taplið dagsins það sameiginlegt að aðalmarkverðir þeirra meiddust í leiknum. Í Höllinni (á seinni leiknum) hitti ég tvo frændur mína hvor úr sinni ættinni. Held að þeir hafi báðir haldið með Fram þannig að þeir fóru ekki kátir heim...

27.2.04

- Heilsað upp á forsetann -

Hraðaði för minni heimleiðis seinni partinn í gær. Var þó stöðvuð í smástund, rétt áður en ég komst upp að kirkjunni, af einni vinkonu minni. Spjölluðum stutta stund en við vorum eiginlega báðar að flýta okkur. Fullt af prúðbúnu fólki var að koma úr kirkjunni. Þegar kom að norður hlið kirkjunnar komu strákarnir (allir þrír, eitt og hálft tvíburapar) hlaupandi frá framhlið kirkjunnar. -"Við vorum að heilsa forsetanum!" sögðu þeir. Oddur Smári sagðist hafa talað tvisvar við Ólaf. "Það var rosalega frægur maður að deyja í kirkjunni!", sagði Davíð Steinn.

Í gærkvöldi skrapp ég svo til tvíburahálfsystur minnar. Var komin rétt fyrir átta og við byrjuðum á því að fá okkur labbitúr. Komum úr þeirri ferð fimm korterum seinna, fengum okkur kaffi, popp og smá hnetur og venjulegar rúsínur og rýndum svo í heilsu-uppskriftarbækur. Var komin heim fyrir hálfellefu því Davíð var búinn að lofa að hitta kunningja sinn og líta á tölvuna hans. Fram að þessum tíma eða amk milli sjö og hálftíu var hann að keppa í tímafreka leiknum. Hans lið vann víst.

26.2.04

- Kóræfing - (...og ýmislegt annað...)

Davíð tók þátt í öskudagsgleðinni í skólanum í gær og var með Hulk-grímu og nornahatt og grænt hár. Sum fimm ára börnin voru hálf smeik við hann en að öðru leyti vakti hann gífurlega lukku. Skemmtuninni lauk rétt rúmlega tvö og þá fóru þeir feðgar heim. Tvíburarnir mættu svo á knattspyrnuæfingu í öskudagsbúninunum og Davíð Steinn, Ninja var með grímuna allan tímann. Davíð safnaði okkur öllum saman á fimmta tímanum. Er við komum heim vildu strákarnir athuga hvort þeir finndu einhverja til að leika sér við úti. Þeir komu inn svo til strax og Davíð Steinn sagði: -"Dísuss, það er bara enginn heima í umhverfinu!"

Í kvöldmatinn hafði ég plokkfisk. Steikti lauk í olíu, bræddi pipaost saman við setti fiskinn út í, stappaði, kryddaði með smá cayanne og hvítum pipar og setti líka nokkrar ostsneiðar og smá rjóma út í. Ekki kannski það besta fyrir mig og passaði ég mig á því að fá mér bara lítið en rosalega varð Davíð ánægður, eiginlega kolvetnalaus matur og þar að auki uppáhaldið hans.

Á kóræfingu byrjuðum við að æfa Rússneskt lag við texta Valgarðs Kristjánssonar, Kvöldljóð heitir það og er afar fallegt. Annars vorum við slegin út af laginu á seinni hluta æfingarinnar (eftir kaffipásu) því við fengum ekki góðar fréttir af kórfélaga okkar sem veiktist um áramótin. Það er útlit fyrir að hann nái sér aldrei að fullu aftur. Sorglegt!

25.2.04

- Öskudagur -

Ömmusystir mín og ein vinkona mín Lilja eru árinu eldri í dag. Lilja er móðuramma Helgu Lilju og er nákvæmlega fertug. Ömmusystir mín er aðeins eldri komin á áttræðisaldur. Jónas ömmubróðir minn er að útskrifast af sjúkrahúsinu þar sem hann er búinn að vera síðan í nóvemberlok og fer á Reykjalund eða var það Vífilsstaðir? eins gott að finna út úr því svo maður geti heimsótt hann Mamma fékk frí í dag til að geta verið með honum í þessum flutningum.

Sem betur fer dreif ég mig stystu leið heim í gær. Mamma sá um að koma strákunum á kóræfingu og þar sem annar "tvíburinn" hennar er líka í kórnum skutlaði hún mínum heim í leiðinni. Þegar ég beygði inn í Flókagötu sá ég tvo gutta´, sem ég kannaðist eitthvað við, skjótast yfir á hina gangstéttina við hornið á Gunnarsbrautinni. Þetta voru þeir Oddur Smári og Davíð Steinn. Þar sem enginn hafði svarað dyrabjöllunni heima og þeir ekki prófað að hringja hjá þeim uppi þá voru þeir vissir um að þeir ættu að fara til Helgu frænku og voru lagðir af stað þangað. Þetta var bara spurning um nokkrar mínútur en kannski ég þurfi að láta þá hafa lykil fljótlega.

Davíð kom heim hálfsex. Ég hélt að hann væri bara að ná í æfingadótið sitt því hann er loksins byrjaður aftur að æfa. En það var mikið að gerast hjá manninum mínum í gær. Það voru tvær keppnir í tímafreka leiknum. Hann gat reyndar bara tekið þátt í þeirri fyrri því hann er í foreldrafélagi Ísaksskóla og það var verið að undirbúa öskudagshátíðina í gærkvöld. Um hálfellefu kom Davíð aftur heim og sagðist ætla að skjótast með öskudagsbúninga af strákunum til bróður síns. Sá býr fyrir austan fjall og Davíð kom ekki aftur heim fyrr en klukkan var byrjuð að ganga þrjú. Þvílík orka sem maðurinn hefur því hann var búinn að vera á fótum frá því fimm um morguninn.

Ég horfði á fjórða og síðasta hlutann af danska þættinum "Einelti í skólum" (Mobbefri skole - NU!) í gærkvöldi. Mjög áhugaverðir þættir og frábært hvað verið er að gera í þessum málum í Danmörku. Það hefur orðið mikil vakning hér heima líka undanfarin ár sem er gott. Eineltið er samfélagslegt vandamál og varðar alla. Engin ein leið er rétt til að taka á vandanum en þegar allir vinna saman og leggjast á eitt þá eru málin komin á skrið. Svo verður bara að passa, eins og með marga aðra hluti, að sofna ekki á verðinum þegar allt virðist komið í góðan farveg...

24.2.04

- Hann er napur núna -

Hann beit fast í kinnarnar á arkinu í morgun. Þrátt fyrir þykkar flauelisbuxur og það að kápan mín nær niður að hnjám smaug kuldinn innfyrir. Fann reyndar ekkert fyrir því að mér væri kalt á höfðinu, þó var hárið aðeins rakt og ég bara með eyrnaband. Ætli ég hafi nokkuð fryst þær gráu? Kannski hafa þær ofkælst! Og þó svo væri versna ég ekkert mjög mikið fyrir það. Kannski lagast ég bara.

Mér gengur illa að festa athyglina við eina bókasafnsbókina. Er nú búin með fimm af tíu og sú sem varð næst fyrir les-valinu er ekki að fanga athygli mína, Tvífarinn...

Ég sótti Huldu seinni partinn í gær og fór með hana heim til hennar. Þegar Helga kom með strákana mína ákváðu krakkarnir að fara aðeins út. Ekki leið á löngu uns ein enn var búin að bætast í hópinn. Þó það væri svona kalt voru krakkarnir úti í tæpan klukkutíma en Hulda var líka alveg búin á því rétt eftir að hún kom inn. Það lagaðist um leið og hún var búin að borða og fékk þar að auki að fara í kjól eftir matinn...

23.2.04

- Messa, týndir feðgar og bollukaffi - ...en fyrst afmælisbörn dagsins...

Billi móðurbróðir minn og Sandra Ósk (sú sem ég passaði nokkra klukkutíma í viku veturinn ´02-´03) eru afmælisbörn dagsins ásamt nokkrum fleirum væntanlega.

Þjóðlagamessan fór vel fram. Það er gaman að taka þátt í svona og mér líður afskaplega vel í þessum kór. Séra Pétur talaði um Rut, breytingarnar og las upp breytta textann við lagið Furðuverk. Hann lagði áherslu á að maður ætti að vera ánægður með sjálfan sig og treysta Guði sem skapaði okkur í sinni mynd. Hann fékk líka unga stúlku til að syngja upprunalega textann við lagið. Ræðan var mjög umhugsunarverð og hitti í mark. Það var boðið upp á bollur með kaffinu eftir messu en ég gaf mér ekki tíma til að setjast niður, varla kvaddi (þvílík ókurteisi).

Davíð svaraði ekki síma svo ég skundaði beint heim. Þar var enginn og knattspyrnuæfingin var örugglega búin. Ég sá samt að Davíð hafði lokið erindunum með bróður sínum því það var búið að pakka inn gjöfinni. Stuttu seinna hringdi síminn. Oddur Smári var á línunni.
-"Mamma, megum við vera lengur hérna hjá vini okkar?"
-"Hvað fórðuð þið ekki á æfingu?"
-"Jú, við erum bara komnir til baka."
-"Og, kom pabbi ykkar þá ekki að sækja ykkur? Veistu Oddur þið getið ekki fengið að vera lengur í þetta sinn því Helga á von á okkur í bollukaffi og Hulda á afmæli..."

Oddur Smári hefur örugglega slegið hraðamet í að klæða sig eftir æfingu. Venjulega er hann lang, lang, lang síðastur en Davíð mætti út í Valsheimili tíu mínútum eftir að æfingin var búin og þá voru allir farnir. Tvíburarnir fóru semsagt heim aftur með vini sínum. Davíð hringdi rétt á eftir Oddi svo fljótlega vorum við öll búin að finna hvert annað.

Komum á Grettisgötuna um hálffjögur og rétt á eftir birtist pabbi. Helga var búin að baka fullt af vatnsdeigsbollum og það vantaði bara Ingva, annars vorum við öll þarna. Hulda fékk að blása á fjögur kerti sem stungin voru í kínverskt epli og svo sporðrenndum við niður öllum bollunum. Krakkarnir fóru upp á loft að leika sér á meðan við hin fengum okkur aðeins meira kaffi. Pabbi kvaddi um fimm og þá fékk Helga þá frábæru hugmynd að nota okkur mæðginin til og mömmu til að hjálpa sér og Huldu að útbúa smá gjafapoka handa krökkunum í leikskólanum, en sú stutta er að halda upp á afmælið sitt í leikskólanum í dag.

22.2.04

- Afmæli -

Í dag er Hulda frænka
4 ára. Mér sem finnst svo stutt síðan hún fæddist. Einnig veit ég um eina sem er fimm ára í dag, Guðlaug Magnúsdóttir. Sú hélt upp á afmælið sitt ásamt systur sinni sem verður 6 ára þann 7. mars n.k.

Í gær var ég með Huldu stóran part af síðdeginu. Systir mín var að fara á námskeið klukkan og ég var búin að samþykkja að sjá um að fara með stelpuna í ballet og í 4 ára afmæli einnar vinkonu sinnar. Hulda og Oddur Smári voru sammála um að í þetta sinn ætti Davíð Steinn að koma með og fá að sjá litlu ballerínurnar. Stráksi ætlaði ekki að nenna þessu ballet stússi en þegar ég sagði að hann mætti þá ljúka við að lesa aukalestur á meðan þá valdi hann frekar að koma með, he he. Ég held að hann hafi nú alls ekki séð eftir því. Hann fékk að vera inni allan tímann og var svo heillaður að þegar tíminn var búinn og stelpurnar voru að tínast út ein og ein varð Hulda að fara aftur inn og sækja hann því hann var að horfa á títlurnar hneigja sig.

Er heim kom hjálpaði ég frænku minni úr balletbúningnum og í kjól. Gaf svo krökkunum hressingu. Um það leyti sem ég var að leggja af stað með Huldu í afmælið voru strákarnir að drífa sig út. Eftir að hafa skutlað Huldu dreif ég mig að versla. Við Davíð vorum rétt búin að ganga frá vörunum þegar tími var kominn til að sækja stelpuna aftur. Veislan stóð yfir í um einn og hálfan tíma sem er alveg mátulegt fyrir svona títlur. Helga hafði samband þegar ég var að komast heim aftur og sagðist þurfa að versla. Það var mikið í lagi. Tvíburarnir voru reyndar ekki komnir heim en Hulda fann sér eitthvað til dundurs, við Davíð vissum varla af henni.

Strákarnir komu heim um sex með þann vin með sér sem þeir höfðu heimsótt, strák sem býr hér rétt hjá, er jafngamall þeim og æfir með þeim knattspyrnu í Val. Sá fékk að stoppa til sjö. Hann hringdi svo rétt fyrir hálfellefu í morgun og spurði hvort hann og bróðir hans mættu koma í heimsókn. Það var mikið í lagi og hér voru þeir til rúmlega tólf. Klukkan hálfeitt hringdi hann aftur og spurði hvort tvíburarnir mættu koma til hans, þeir gætu tekið fótboltadótið með sér því pabbi hans gæti alveg skutlað þeim á æfingu rétt fyrir tvö. Davíð var eitthvað aðeins að snúast með öðrum bróður sínum og ég var að fara að tygja mig á upphitun fyrir Þjóðlagamessu í kirkju Óháða safnaðarins svo þetta kom sér bara vel.

Rétt áður en ég labbaði af stað hringdi Helga og bauð okkur í "bollu-afmælis-kaffi" strax eftir messu. Ég lét Davíð vita og bað hann um að pakka inn afmælisgjöfinni hennar Huldu og sækja strákana í boltann og jafnvel mig eftir messu. Það breyttist eitthvað smá... (afgangurinn mjög fljótlega.)

21.2.04

- Nokkur orð um skemmtunina - (...og sitthvað fleira...)

Seinni partinn í gær sátum við hjónakornin öxl í öxl í stofusófanum með tóma kaffibolla á sófaborðinu. Tvíburarnir voru inni í hjónaherbergi að spila á gameboy.
Ég. -"Strákar!"
Þeir. -"Já!"
-"Eruð þið báðir að spila?"
D.S. -"Nei."
-"Hver er ekki að spila?"
D.S. -"Oddur Smári."
-"Oddur Smári!"
O.S. -"Já!"
-"Viltu gera svolítið fyrir mig?"
O.S. Brölti fram úr hjónarúminu og kom fram segjandi: -"Með ánægju!"
-"Kaffibrúsinn er inni í eldhúsi..."
O.S. brosti. -"...ég veit sko alveg hvað ég á að gera..."

Ég var að bíða eftir að þvottavélin lyki sér af og Davíð kom sér ekki að því að líta á smá tölvumál. Eftir einn og hálfan kaffibolla fór ég niður í þvottahús, hengdi sumt upp á snúrur en ákvað að setja alla sokka í þurrkarann. Í sokkahrúgunni voru nefnilega uppáhaldssokkarnir mínir og ég ætlaði fá þá hreina og þurra og rimpa í smá gat á öðrum til að geta nota þá um kvöldið.

Ákvörðun var tekin um að panta pizzu handa strákunum og barnapíunum og Davíð tók að sér að sækja bæði. Eins og áður hefur komið fram þá búa barnapíur okkar í Hafnarfirði. Svolítið yfir lækinn að fara en við erum bara svo ánægð með piltana að við leggjum þetta yfirleitt á okkur.

Rétt fyrir átta kvöddum við strákana og skutluðumst svo upp í kirkju Óháða safnaðarins (ég er reyndar ekki í söfnuðinum (hver veit hvað seinna gerist...) en sem kórfélaga var mér boðið, ásamt maka, á árlega árshátíð). Árshátíðin heppnaðist mjög vel. Góður matur og frábær skemmtiatriði. Ómar Ragnarsson er í söfnuðinum og mér skylst að hann skemmti þarna á hverri árshátíð. Hann skemmti amk í gær. Byrjaði á alveg nýsömdu lagi sem hann og Helgi Björns. sömdu vegna kosninga um kynþokkafyllstu konuna. Þá gerði hann upp ýmis mál sem verið hafa ofarlega í deiglunni undanfarið ár. Hann endaði á að segja svolítið frá húmor tilvonandi forsætisráðherra. Þeir tveir áttu víst mjög skemmtilegar samræður fyrir ekki svo löngu síðan. Kórstjórinn lék svo bæði undir fjöldasöng og einsöng. Einn tenórinn okkar, Ari Gústafsson, söng nokkur lög eftir Sigfús Halldórsson og fór afskaplega vel með. Og svo var einn af nýliðunum í kórnum (fyrrum meðlimur í Landsbankakórnum), Kristinn Þorsteinsson beðinn um að segja nokkrar reynslusögur og brandara. Hann var fús til þess en bað samt okkur kórfélaga sína um að afsaka það að sumt að þessu værum við búin að heyra einu sinni, jafnvel tvisvar áður. Mér fannst það lítið gera til því hann segir svo skemmtilega frá að maður getur stundum ekki hætt að hlægja...

Samkoman leystist upp um ellefu og fórum við hjónin aðeins á rúntinn áður en við leystum barnapíurnar af. Held reyndar að strákarnir hafi verið svolítið hissa hvað við komum snemma heim. Síðast var klukkan að verða þrjú en nú komum við fyrir miðnætti.

Um hálffjögur í nótt hrökk ég upp við það að Davíð Steinn kallaði á mig. Hann var vakandi og sagðist líða mjög illa innra með sér en ekki vita afhverju. Hann var ekki heitur bara eitthvað svo átakanlega sorgmæddur. Hann fór fram á wc-ið og bað svo um vatnssopa. Oddur Smári rumskaði við þetta og fékk að gera sömu hluti. Nú kom sér vel að vera ekki búin að taka saman vindsængina síðan um síðustu helgi. ÞvíDavíð Steinn vildi prófa að kúra þar og athuga hvort honum tækist að sofna aftur. Það hefur greinilega tekist því ég heyrði ekki meir í honum fyrr en hann kom fram um níu góða stund á eftir bróður sínum...

20.2.04

- Fundur og fleira -

Ég sótti Huldu frænku upp úr fjögur í gær og saman trítluðum við heim til hennar. Mamma beið á Grettisgötunni eftir að Bjössa en strákarnir voru að koma af kóræfingu. Helga systir hafði matinn í fyrra lagi svo ég væri búin að borða áður en ég færi á fund klukkan sex. Ég sá um að tvíburarnir lyku við heima- og aukalesturinn og naut Hulda frænka góðs af. (Ekki amalegt að eiga tvo frændur til að lesa fyrir sig...). Sú stutta var líka mjög glöð með það að fá að hafa strákana lengur. Mammu hennar segir að hún sé farin að spyrja hvænær Anna frænka komi næst. Koma mín til hennar þýðir það að þá koma "stóru bræður" hennar (eins og hún kallar frændur sína stundum) og leika við hana.

Fundurinn var í kirkjunni með kórstjóra barnakórsins. Hún var að segja okkur frá hugmyndum um skipulag á kórstarfinu í maí og líka að unglinga- og barnakórinn munu halda tónleika saman á sumardaginn fyrsta. Meira um það þegar nær dregur.

Eftir fundinn sóttum við Davíð strákana til Helgu. Hulda vildi eiginlega ekki sleppa þeim. Fljótlega eftir að við komum heim kvaddi ég strákana mína og tók með mér góða gönguskó, stakk og húfu út í bíl og brunaði af stað í heimsókn til tvíburahálfsystur minnar. Við byrjuðum á því að klæða okkur upp og fara í góðan göngutúr. Vorum alveg þrjú korter í þeim túr. Þegar við komum til baka bauð hún upp á kaffi og osta og fljótlega vorum við búnar að taka upp handavinnuna. Ég er enn að sauma haustið og hún er með peysu á prjónunum. Notalegt kvöld í alla staði.

Og í kvöld er ég að bjóða manninum mínum á nokkurs konar árshátíð. Segi kannski frá því næst...

19.2.04

- Smá skýrsla um gærdaginn -

Helga systir tók það ekki í mál að við frænkurnar myndum labba á Hrefnugötuna. Það var slagveður í gær og systir mín sótti okkur, skutlaði okkur og náði svo í strákana úr boltanum. Hulda var hjá mér til hálfátta. Þá kom mamma og tók hana með sér heim. Helga er á námskeiði á miðvikudagskvöldum frá sex til tíu og í gær var mamma ekki laus fyrr en á áttunda tímanum. Enda var þetta lítið mál. Hins vegar hefðu málin flækst svolítið ef mamma hefði þurft að vera lengur því það eru kóræfingar milli átta og hálfellefu á miðvikudagskvöldum. (Held samt að það hefði áreiðanlega verið hægt að leysa flókin mál, þurftum þess bara ekki í gær...)

Í dag er ein frænka mín Jóna árinu eldri. Hún er jafnskyld mér og Birna og Helga, þ.e. við erum allar systkynadætur.

18.2.04

- Margir eiga afmæli í dag -
(...og ég þekki sumt af afmælisbörnunum...)

Mágkona mömmu, Kristín á afmæli í dag. Fyrir rétt tæpum sex árum kynntist ég konu á Miklatúninu sem var þar að "viðra" tvíburana sína eins og ég. Maðurinn hennar er fertugur í dag. Og svo á rithöfundurinn Hallgrímur Helgason líka afmæli. Þetta er greinilega mjög góður afmælisdagur!

17.2.04

- Úr einu í annað - (...og jafnvel allt í graut...)

-"Ég er hættur að gera armbeygjur mamma!" sagði Oddur Smári við mig þegar ég var að taka til morgunmatinn. Um daginn fékk hann nefnilega armbeygjuæði og gerði armbeyjur í tíma og ótíma. Flottar armbeygjur samt. -"Afhverju ertu hættur því?" -"Bara, og nú veit ég hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég ætla að verða kraftajötunn..." Ég sagði drengnum að hann gæti orðið allt sem hann langaði til að verða ef hann einsetti sér það bara en bað hann líka um að passa sig á ólöglegu efnunum ef hann ætlaði sér að rækta kraftana. (Er ekki alveg í lagi að minnast á þetta í tíma þótt pilturinn sé bara á áttunda árinu, best að byrgja brunninn og allt það...?)

Davíð var eitthvað slappur í gær og var heimavið, en samt að vinna. Ég kom heim fyrir hálffimm, kastaði á hann kveðju og dreif svo í að sækja strákana í skólann (á bílnum, ein að láta hraða nútímans hafa áhrif á sig).

Anna frænka hringdi og spurði hvort hún mætti ekki koma í heimsókn. Davíð varð fyrir svörum og misskildi hana eitthvað í byrjun en þegar rétta spurningin var komin á hreint bauð hann hana velkomna. Kom sér vel fyrir hann því þeir fjórir bollar, sem ég hafði hellt upp á eftir að ég var komin heim, voru búnir og nú var góð ástæða til að hella upp á meira kaffi.

Anna náði að hitta strákana áður en þeir fóru að sofa og svo sátum við nöfnurnar inn í eldhúsi og spjölluðum um alla heima og geyma (ég er reyndar ansi smeyk um að ég hafi talað amk 70% af tímanum). En hún sagði mér fréttir af ungum frænda okkar sem varð fárveikur stuttur fyrir jól. Það fannst æxli í maganum á honum og á næstu dögum á að rannsaka hvers kyns æxlið er. Vonandi er þetta ekki of alvarlegt því drengurinn á allt lífið framundan, rétt kominn yfir tvítugt. Hún sagði mér líka að hún væri að skreppa til Kaupmannahafnar seinna í vikunni (svona helgarferð) og fleira og fleira. Tíminn flaug frá okkur og klukkan var allt í einu að verða ellefu. Bauðst til að skutla henni á Gamla garð, þannig fengum við enn lengri spjalltíma saman...

En afþví að ég minntist afmæli einnar frænku minnar í gær fór ég að spá í hvenær Helga systir hennar ætti nú afmæli. Og komst að því eftir smá "njósnir" að það er akkúrat vika síðan í dag. Hvernig fór þetta framhjá mér?

Að lokum vil ég geta þess að nú er ég byrjuð að lesa "Of stór fyrir Ísland, semsagt eina ævisöguna enn og hún lofar góðu, ætlaði varla að geta lagt hana frá mér seint í gærkveldi. Held samt að ég hafi náð að sofna fyrir miðnætti. Davíð varð hins vega að vinna að ákveðnu verkefni langt fram eftir nóttu. Þessi vinnutörn er orðin of löng og hætt að vera sniðug, ef hún var það þá nokkurn tímann!

16.2.04

- Smá viðbót -

Því laust niður í kollinn á mér rétt áðan að ein frænka mín, Birna, er árinu eldri í dag. Ég rak manninn minn strax úr tölvunni því ég varð auðvitað að tilkynna þetta og vona ég að hún sé ekkert óánægð með það. Hingað (á heimasíðuna hjá þeim á Reykjum) kíki ég oft í heimsókn.
- Hitt og þetta -

Enn ein helgin er liðin, tíminn floginn burt á methraða hreinlega. Davíð var að vinna heima við. Ég fór í vikulegan innkaupaleiðangur fyrir hádegi á laugardag og hafði orð á því þegar ég kom heim að ég hefði örugglega keypt hálfa búðina. -"Afhverju varstu að stoppa þar?" sagði Davíð bara. Oddur Smári var enn með svo mikinn hósta að við ákváðum að halda honum inni við þennan dag en bróðir hans fór út að hjóla seinni partinn. Um kvöldið komu Hugborg og Tommi með Tedda til okkar. Sá síðast nefndi gisti hjá okkur um nóttina.

Hrökk upp við það um hálfsjö í gærmorgun að ég heyrði í Tedda. Þegar ég athugaði málið reyndist pilturinn steinsofandi, hafði sennilega verið að dreyma eitthvað. Hann kom samt fram rétt fyrir sjö til að pissa. Hann fór beint í kojuna (Oddur Smári lánaði honum neðri kojuna, svaf sjálfur á vindsæng) aftur. Það var smá vesen á honum en hann vildi samt ekki koma fram og það endaði með því að hann sofnaði aftur. Oddur Smári kveikti á morgunsjónvarpinu um níu og Davíð Steinn kom fram stuttu síðar. Teddi vaknaði um hálftíu. -"Uss, ekki hafa hátt og vekja pabba og mömmu", heyrði ég Odd segja um leið og ég smeygði mér fram úr.

Eftir hádegi fór ég með Davíð Stein á æfingu. Vorum enn að hugsa um hóstann í Oddi því ef hann hleypur og hamast mikið fær hann svaka hóstakast. Hugborg og Tommi voru komin en sem betur fer ekkert að flýta sér og lofuðu að fara ekki fyrr en eftir að við mæðginin værum komin aftur. Ég fylgdist með allri æfingunni. Davíð Steinn var mest allan tímann í marki og sýndi frábæra takta, skutlaði sér nokkrum sinnum á eftir boltanum og var að verja nokkuð vel. Sumir strákarnir í hinum liðunum höfðu orð á því hvað Davíð Steinn var góður í markinu og hans eigin liðsfélagar vildu hafa hann á milli stanganna (og hann sem ætlaði ekki að vilja fara á æfingu af því að Oddur gat ekki farið).

Seinni partinn fór báðir bræður út að hjóla og voru úti í hátt á þriðja tíma. Gestirnir voru farnir og Teddi var alveg til í að koma aftur til okkar seinna.

Annars las ég fjórar bækur um helgina. Ma. "spilað og spaugað" (um Röngvald Sigurjónsson) og "Lífið og ég" um Guðrúnu Ás. báðar voru þessar bækur þannig að það var varla hægt að leggja þær frá sér. Skemmtilega skrifaðar, mikill húmor og þónokkuð af myndum. Er hægt að hafa það betra? Nú er ég byrjuð á skáldsögu eftir Garíel Garcia Mrques, "Frásögn um margboðað morð" og er ég rúmlega hálfnuð með þessa grípandi, óvenjulegu sögu.

Hafði hrygg í matinn í gærkvöldi, kartöflur og sveppasósu. Og svo útbjó ég sallat sem ég setti ma vínber, fetaost, papriku, sveppi og gúrku í. Það var velborðað af þessum krásum.

Strákarnir fóru í bað og eftir að þeir voru sofnaðir höfðum við hjónakornin kvöldið alveg útaf fyrir okkur. Slökktum á sjónvarpinu (ekki samt á tölvunni) og höfðum það þvílíkt notalegt svo ekki sé meira sagt.

Davíð fór svo á fætur klukkan fjögur í morgun til að vinna... (Held samt að það sé að sjá fyrir endann á vinnutörninni.

14.2.04

- Árinu eldri -

Í dag er, bekkjarsystir mín og vinkona til margra ára, Elínborg Valsdóttir árinu eldri. Örugglega góður dagur til að halda upp á afmælið sitt. Laugardagur og þar að auki Valentínusardagur!

13.2.04

- Bókasafnsferð - (og sitthvað fleira)

Mamma safnaði mér og drengjunum saman á fimmta tímanum í gær. Kóræfingin var nýlega búin þegar við renndum að kirkjunni. Davíð Steinn var að koma út og stuttu seinna kom Bjössi. Ekkert bólaði á Oddi Smára og fann ég hann á spjalli við kórstjórann í mestu makindum tíu mínútum seinna.

Davíð kom heim rétt fyrir sex, ég var ekki einu sinni farin að bíða eftir honum. Notaði afgang af ýsu síðan fyrr í vikunni, skar niður papriku og skinku og blandaði öllu saman í eggjaköku. Einnig átti ég hýðishrísgrjón sem ég hitaði upp í afgangi af lauksmjöri. Þetta sló í gegn, Davíð smakkaði á grjónunum og þótti þau góð.

Eftir matinn fengum við hjónin okkur kaffibolla og svo dreif ég mig á bókasafnið í Grófinni. Skilaði öllum bókum sem ég var með hjá mér og lagði svo af stað í leiðangur með körfu á handleggnum. Leiðin lá m.a. í ævisögudeildina, þar sem ég fann "spilað & spaugað", Rögnvaldur Sigurjónsson leikur af fingrum fram og sitthvað fleira. Einnig kom ég við í barnadeildinni og ég fór út af safninu með tvo fulla poka, Tíu bækur handa mér sem ég hef mánuð til að lesa. Þrír dagar fyrir hverja bók, skyldi það takast? O, ég framlengi þá bara þegar þar að kemur. Fyrir utan þessar tíu bækur er ég m.a. með eina bók í láni frá "tvíburahálfsystur" minni, Vetrarferðin eftir Ólaf Gunnarsson.

12.2.04

- Pizzugerð og kóræfing -

Við Oddur vorum heima aftur í gær. Drengurinn fékk að horfa á videó og spjalla á msn-inu en hann sinnti líka heimalestrinum. Ég nýtti tímann og fann ma aftur gólfið í herbergi drengjanna. Rúmlega þrjú kom Davíð heim með skóla og sunddót nafna síns. Sundpokinn fannst en drengurinn greip vitlaust handklæði heim með sér úr sundinu í gær.

Lét brauðvélina um að hnoða í einn pizzubotn, (2dl. volgt vatn, 1 tsk. salt, 4d. heilhveiti. 1/2dl byggmjöl og 4tsk lyftiduft) Úr varð efni sem þakti nær alla ofnplötuna mína. Um fjögur kvaddi ég Odd og labbaði út í Valsheimili eftir hinum stráknum. Þessi för tók tæpan hálftíma. Oddi var sama, hann var á fullu að spjalla í tölvunni. Davíð Steinn dreif sig í að læra og ég bakaði botninn og þakti hann svo með tómatssósu, túnfisk, rækjum, sveppum, papriku og lauk og setti svo ost yfir þrjáfjórðu. Mæðgurnar, systir mín og dóttir hennar komu mátulega í mat og öllum þótti pizzan góð.

Davíð var á fundi þar til rétt fyrir átta. Ég fór á kóræfingu um leið og hann kom. Við konurnar vorum boðaðar klukkan átta og komu "strákarnir" á tíunda tímanum. Æfðum þrjú lög, þar af eitt sem er bara útsett fyrir kvennaraddir, "Senn kemur vor". Hin lögin voru "Dona nobis pacem" og "Ave Maria". Að lokum sungum við tvisvar yfir lag sem ég söng með kór FSu á sínum tíma: "Smávinir fagrir". Vel nýtt og skemmtileg æfing!!!

11.2.04

- Vikan hálfnuð -

Mamma skutlaði Davíð Steini heim af kóræfingu í gær. Hann kom í alltof stórum stígvélum og hafði týnt sundpokanum sínum eftir að hann var búinn í sundi (Davíð fann hann hvorki í skólanum né í Sundhöllinni og mamma var viss um að drengurinn hafi ekki komið með sundpokann í bílinn hjá sér). Þetta með stígvélin gat drengurinn ekkert gert að. Þetta voru glæný, ómerkt stígvél nr. 34 (tveimur númerum stærri en hans) og eigandi þeirra var farinn út á undan Davíð. Sem betur fer voru hans stígvél vel merkt með nafni og símanúmer og það var hringt hingað á sjötta tímanum og svo komið um átta og skipt á skófatnaði.
Það er verra með sundfötin, ef þau finnast ekki, amk. sé ég mjög eftir handklæðinu, Flipperhandklæðinu ef dótið kemur ekki í leitirnar. Sundpokinn er reyndar vel merktur með nafni og símanúmeri svo ég er vongóð! (Að vísu var ekkert hringt í gær vegna pokans...)

Um síðustu helgi lauk ég við bókina "Með lífið í lúkunum". Hún er um Rögnvald Sigurjónsson píanóleikara frá því hann kemur heim úr þriggja ára námi frá USA 1945 og til ársins 1987. Í bókinni segir hann ma frá öllum tónleikunum sem hann hélt víða um heim og eftir lestur bókarinnar er ég ákveðin í að hafa upp á fyrstu/fyrri bókinni. Allt verður ljóslifandi fyrir augunum á manni og húmorinn er frábær. Ætli mín sé að detta í ævisögurnar? (Að vísu langar mig ekkert að lesa Lindu eða Rut en...)

10.2.04

- Þriðjudagur -

Sótti systurdóttur mína á fimmta tímanum í gær. Öll börnin á deildinni voru komin inn í sal og áttu að fá að horfa á teiknimynd og sumir sem voru sóttir um þetta leyti voru alls ekki ánægðir að missa af því að horfa og vildu hreint ekki fara heim. Hulda var ekki ein af þeim, hún maldaði smá í móinn en kom alveg mótþróalaust. Við skoppuðum heim til hennar.

-"Anna frænka, ég á flottan fjólubleikan kjól. Á ég að sýna þér hann?"
-"Hann er flottur Hulda mín, ég sá hann hjá þér um daginn."

Sú stutta notaði samt tækifærið, þegar ég þurfti að bregða mér afsíðis, fór upp og úr buxum og brók og klæddi sig í "jóla-prinsessu-kjólinn", setti upp hring og kórónu og fór í bleika skó. Rosa fín. En ég var mest hrædd um að hún myndi óhreinka skósíðan kjólinn, sérstaklega eftir að hún kom inn í eldhús til mín og fór að hjálpa mér við kjötbollugerð. Mér tókst að fá hana til að fara úr kjólnum en ekki vildi hún í buxurnar og brækurnar aftur, ekki fyrr en mamma hennar kom heim með Odd Smára og Davíð Stein og skikkaði hana í brækur.

Helga hafði orð á því við mig hvað það væri notalegt að koma heim, barnið í góðum "fíling" og verið að "elda" alvörumat. Hún sjálf hafði samt ekki tíma til að bíða eftir kjötbollunum því hún þurfti að vera mætt á námskeið klukkan sex.

Davíð kom og borðaði með okkur. Strákarnir voru búnir að læra (bæði í heimanámi í skólanum og lesa heima- og aukalestur fyrir mig og Huldu) og þeir feðgar kvöddu okkur frænkurnar um sjö. Fjótlega vildi sú stutta hátta og tanna og svo fór ég með henni upp, las fyrir hana eina Disney-sögu um köttinn Óliver og félaga, fór með bænir með henni og bauð henni góða nótt. Ég vissi ekki af henni meir.
Mamma leysti mig af um hálftíu.

Heima fann ég Davíð í tímafreka leiknum, jafnvel þótt hann væri ekkert búinn að sofa síðan um hádegi á sunnudag. Ekki nóg með það heldur var hann svo óheppinn að þegar hann hætti loks að leika sér var haft samband við hann og varð hann að sinna smá verkefni til klukkan að ganga tvö. Þetta endar með ósköpum ef álagið fer ekki að minnka bráðum. Amk er ég viss um að ég spring bráðum alveg á limminu, og þó ég hef lifað þetta af hingað til og hann líka, held ég.

Rétt fyrir þrjú í nótt vaknaði ég við það að Oddur Smári var að vola. Hann var bullsveittur, með mjög ljótan hósta og hafði fengið martröð. Ég gaf honum vatn og var á ferðinni til hans næsta klukkutímann. Davíð Steinn rumskaði við þetta en lét mig ekki vita að hann hefði vaknað og hreyfði sig ekki þegar ég strauk yfir kollinn á honum. Hins vega fann ég hann háskælandi rúmlega fjögur í nótt/morgun, skælandi yfir því að ég hefði ekkert sinnt honum. Ég sagði honum að ég hefði ekki vitað að hann hefði vaknað og vildi ekki trufla nætursvefn hans. -"Ó, ég vissi það ekki!"

Davíð gat ekki verið að vinna heima að þessu sinni (og ég sem hélt að hann þyrfti kannski að sofa eitthvað) svo ég er heima með Oddi í dag. Við ætlum að hafa það notalegt en ég þarf líka að nýta tímann í sum verk sem setið hafa á hakanum undanfarið...

9.2.04

- Fótboltaæfing - Messufall hjá mér

Davíð var sestur við tölvuna í gær upp úr hádeginu, hafði verið að vinna langt fram eftir nóttu. Ég ákvað að fara með strákana í boltann og horfa á þá á æfingu. Þótt mig hafi langað á Himnatónlistarmessu þá sé ég ekki eftir því að hafa horft frekar á strákana. Ég sá heilmiklar framfarir hjá þeim. En alltaf er Oddur Smári jafn lengi að klæða sig. Hann þarf að tala svo mikið og er fyrir vikið alveg lang, lang, lang, lang síðastur.

- Handboltaleikur -
Valur - Haukar 27:27


Já, ég lét loksins verða af því að drífa mig á handboltaleik. Tók strákana með mér og þeir hittu nokkra fótboltafélaga sína á leiknum. Einn af félögunum er líka að æfa handbolta (líkt og tvíburarnir gerðu í fyrravetur). En ég vissi fyrirfram að þessi leikur yrði æsispennandi. Haukar höfðu frumkvæðið meiripartinn á leiknum en Valsmenn gáfust aldrei upp. Náðu þó ekki að jafna fyrr en í seinni hálfleik. Stuttu fyrir leikslok komust Valsmenn þremur mörkum yfir en Haukar náðu að jafna það. Það var ekkert skorað síðustu eina og hálfu mínútuna þannig að leikurinn gat farið hvernig sem var. Kannski er jafntefli bara sanngjörn úrslit...

8.2.04

- Jamm -

Það sem ég veit ekki hversu langan tíma það tekur mig að tjá mig um kórakvöldið og fleira (þetta er allt í kollinum en það gengur misvel að velja réttu orðin og ef ég þekki mig rétt þarf ég líka að passa að nota ekki of mikið af þeim, he, he...) ætla ég bara að demba mér nokkurn veginn beint í það og sjá til hversu langan tíma ég fæ í tölvunni (vinnuálag á Davíð þessa helgina.)

Inngangur - barnapíurnar sóttar -
Það var fyrsti föstudagur í mánuðinum og Davíð vildi frekar hitta vinnufélaga sína heldur en að koma með mér. Ég ákvað því að vera á bílnum. Rétt fyrir sjö skutluðum við strákarnir honum í sitt teiti og renndum svo "yfir lækinn" til Hafnarfjarðar að sækja drengina sem passa fyrir okkur stöku sinnum. Í leiðinni fjárfesti ég í 10 kg. ýsuöskju, það er svo gott að eiga til fisk í frysti. Vorum komin á Hrefnugötuna um átta. Skipti um föt og klippti út og límdi gulan broskarl í barminn á mér. Þar sem ég var á bílnum var ég viss um að ég myndi nú ekki endast út ballið sem var auglýst til tvö og sagði barnapíunum að líklega yrði ég komin heim milli eitt og hálftvö. Kvaddi svo strákana fjóra sem þegar voru farnir að leika sér í tölvunum.

Skemmtunin
Sótti eina sem syngur með mér í altinum og vorum við komnar að Valsheimilinu um hálfníu. Þar var ekki hlaupið að því að fá stæði því það var leikur í RE/MAX deild karla í handbolta (Valur-Grótta/KR 29:20). (Seinna um nóttina skyldum við ekkert í því, hversvegna bíllinn var svona langt í burtu, he he). Klukkan níu var hátíðin sett og stuttu seinna voru allir söngfuglarnir hitaðir upp með skemmtilegum samsöng um samskipti kynjanna. Okkar kór var kynntur fyrst, minnsti og örugglega krúttlegasti kórinn. Við sungum þrjú lög, Þú fagra blómið blóma, Amazing Grace (ísl. texti eftir Söru Vilbergsdóttur, sonur hennar einn bassinn okkar söng einsöng) og Gloria. Strax á eftir okkur var Skagfirska söngsveitin kynnt, salurinn tæmdist næstum því, fannst mér. Karlakór Kópavogs söng næstur og að lokum söng Snæfellingakórinn, sá kór sem fékk þessa hugmynd og sá um alla skipulagningu á kvöldinu. Fljótlega eftir að kórarnir höfðu lokið sér af hvað söng varðaði var fólki boðið að gjöra svo vel og fá sér að borða, pasta, osta, vínber og brauð og þegar allir voru búnir að fá sér á diskana var komið að skemmtiatriðunum. Við fengum að ríða á vaðið þar líka. Einn nýliðinn í kórnum var með "nokkra fimmaura brandara og smá kórhugleiðingar", eins og hann orðaði það sjálfur. Hann er mjög orðheppinn maðurinn og á köflum átti hann bágt með að halda tölunni áfram þar sem salurinn hreinlega lá í kasti, hláturskasti, oft á tíðum. Næst komu skemmtiatriði frá Skagfirsku söngsveitinni og þar söng einn bassinn þeirra "Í dag er ég...". Nú var komið að Karlakór Kópavogs og þar stigu tvær konur á svið (makar) og kynntu fimm kórmeðlimi sem rétt misstu af því að syngja með þar eð þeir villtust á leiðinni. Inn komu stuttir, breiðleitir drengir með risa pípuhatta og tóku nokkur létt dansspor undir kynningunni. Snæfellingakórinn kynnti efnilega söngkonu sem væri á leið til Ítalíu í nám hvað úr hverju. Stúlkan sú var með stórskemmtilegan látbragðsleik og mæmaði mjög þekkta aríu, alveg óborganleg (en ekki fékkst hún til að taka eitt aukalag þó). Að lokum hafði einn góður hagyrðingur úr Skagfirsku söngsveitinni beðið um orðið og nokkur gullkorn féllu frá honum sem hann hafði párað niður á meðan á söngskemmtuninni og skemmtiatriðunum stóð. Klukkan var orðin hálfeitt þegar Diskótekið, Ó, Dollý tók við. Skemmtunin hélt áfram og það eina sem mér fannst leiðinlegt við þetta frábæra kvöld var það hvað mikið var reykt inni, brunaboðinn fór tvisvar í gang og hálsinn á mér varð líka þurr og ómögulegur.
Davíð hringdi í mig rétt fyrir eitt. Ég svaraði ekki fyrr en tæpum klukkutíma seinna (síminn var stilltur á uss og þar að auki var hávaðinn mjög mikill í kringum mig). Þá hélt ég að ballið væri rétt að verða búið og sagðist koma bráðum. Klukkan var orðin hálfþrjú þegar við sem urðum samferða á staðinn fyrr um kvöldið kvöddum og löbbuðum og löbbuðum út í bíl sem var við hinn endann á húsinu. Eftir að hafa keyrt hana heim sótti ég Davíð sem var orðinn einn eftir í sínu teiti. Ég beið svo út í bíl á meðan hann vakti barnapíurnar.

Er það nokkuð furða að ég hafi verið löt á fætur í gærmorgun? Að vísu vaknaði ég við það um sjö að Davíð Steinn var að gubba, hann náði á klósettið sjálfur. Bræðurnir vöknuðu báðir en ég sendi þá í rúmið aftur og setti fötu hjá lasna drengnum. Hann kastaði aftur upp um níu en hafði samt lyst á morgunmat og eftir hann settust drengirnir fyrir framan skjáinn og horfðu á morgunsjónvarpið. Ég lagði mig aftur... Davíð Steinn kastaði upp einu sinni enn en fór að hressast upp úr hádeginu.

6.2.04

- Febrúar flýgur áfram -

Það er bara kominn föstudagur enn á ný og fyrsta vika febrúar að verða liðin. Á fimmta tímanum á miðvikudaginn var sótti ég strákana í boltann. Þeir voru ekki einu sinni byrjaðir að klæða sig þótt æfingin væri búin. Bræðurnir höfðu tekið blokkflauturnar með sér í skólann og fengið að halda tónleika í tónmennt og í bekknum. Og Oddur Smári tók flautuna með sér í boltann og spilaði á hana bæði fyrir og eftir æfingu. Þegar þeir voru loksins tilbúnir eftir æfinguna ákváðum við að labba aðeins lengri leið heim. Davíð hafði víst verið að vinna heima mest allan daginn. -"Afhverju svarar þú ekki í gemsann þinn?" -"Ég gleymdi honum heima í hleðslu á silence..." Maðurinn minn ætlaði að vera svo góður að sækja okkur en tafðist aðeins og hætti við það þar sem hann náði ekki í mig. En það var nú líka þetta fína veður og göngufæri á miðvikudaginn...

Í gær og í dag voru foreldradagar í skólanum. Oddur Smári byrjaði fimmtudagsmorguninn á því að kasta upp, var semsagt lasinn. Davíð ákvað að vinna heima svo aldrei þessu vant fór ég á bílnum í vinnuna. Davíð Steinn talaði um að hann vildi líka vera heima allan daginn, hann þyrfti ekki að fara með mér í viðtalið. Ég sótti hann upp úr hálfellefu og þá var hann að rétt að byrja að klæða sig með hangandi hendi. -"Ég vildi að ég þyrfti ekki að fara!" Ég held reyndar að hann hafi verið ánægður með það eftir á að hafa farið. Kennarinn hafði eiginlega ekkert nema gott um hann að segja og sýndi honum og mér prófin hans. Reyndar mætti hann vera sterkari í stafsetningunni, passa línubilið betur milli og passa sig á því að herma ekki eftir ef einhver er að segja eitthvað dónalegt. Kennari þeirra hefur verið að kenna bekknum svolítið í íslensku í vetur og er búin að leggja fyrir nafnorð, sagnorð og lýsingarorð. Hún útbjó próf til að vita hvort þau hefðu lært þetta og báðir bræðurnir stóðust prófið með sóma. Í fyrsta liðnum átti að strika undir nafnorð, í öðrum liðnum að strika undir sagnorð, í þriðja liðnum að breyta nútíð yfir í þátíð og í fjórða og síðasta liðnum að skrifa niður fimm lýsingarorð.

Mamma kom við og sótti Davíð Stein og skutlaðist með hann á kóræfingu í gær. Á meðan ákvað Oddur Smári að lesa heima. Davíð vissi ekki til fyrr en allt í einu að Oddur spurði hann hvað hann væri búinn að lesa lengi...

Mamma kom svo aftur inn í málin í morgun. Hún þurfti ekki að vera í Skaftahlíðinni svo hún kom hingað heim. Einnig tók hún að sér að passa tvíburabræður sem eru með tvíburabræðrunum í Skaftahlíðinni í bekk. Ég tók mér sumarfrí eftir hádegi og mamma var búin að lofa sér eitthvað um það leyti svo hún ákvað að sækja mig. Hér heima voru fimm börn að leika sér í tölvuleik eða horfa á. Það er líka frí í skólanum hennar Birtu og hún er hjá pabba sínum. Pabbi hennar sótti hana fljótlega eftir að ég kom heim en hún fór yfir rétt til að borða og er komin aftur. Bráðum verða tvíburabræðurnir sóttir.

Og kóramótið með Skagfirsku söngsveitinni, Snæfellingakór, Karlakór Kópavogs og kirkjukór Óháða safnaðarins er í kvöld. Meira um það seinna.

4.2.04

- "Víkingamatur" -

Það var engin kóræfing hjá drengjunum í gær. Þeir fengur að vera í Skaftahlíðinni og svo skutlaði mamma þeim á Grettisgötuna rétt eftir að við frænkur vorum komnar þangað. Helga kom heim á sjötta tímanum eftir viðkomu í Múlakaffi. Við systur vorum búnar að ákveða að hafa smá þorraveislu. -"Hvað er þetta mamma?" spurði Hulda. Helga sagði að þetta væri svona skrýtinn matur. -"Mér finnst góður skrýtinn matur!" sagði sú stutta. Hún fékkst til að smakka á súra matnum en fannst hann ekkert góður þegar til kom. En hún borðaði ósúru sviðasultuna með góðri lyst og kallaði þennan mat víkingamat. Helga eftirlét mér svo hákarlinn en hélt öllum öðrum afgöngum (það var reyndar ekki mjög mikill afgangur, en þó meira af sumu en öðru...)

3.2.04

- Bíóferð - ...og fleira.

Oddur Smári var byrjaður að bíða fyrir framan skóla þegar ég kom að stuttu fyrir hálffimm. -"Afhverju ert þú að koma núna mamma? Davíð Steinn var inni að spila. Á heimleiðinni komum við mæðginin við hjá Einar (reyndar labbaði annar drengurinn heim en hinn vildi koma með mér til að sjá til þess að ég myndi örugglega kaupa fiskibollur).

Anna frænka kom á sjöunda tímanum og Davíð stuttu seinna þannig að það var borðað í seinna lagi. Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur.

Á tíunda tímanum skutlaði ég nöfnu minni heim, setti bensín á bílinn og sótti Biddu. Við vorum löngu búnar að setja stefnuna á að sjá Kaldaljós þetta kvöld. Mjög góð mynd, vel leikin og myndatakan frábær. Það var ekkert hlé og mér fannst það gott, hefði annars slitið svolítið í sundur stemminguna.

Náði heim fyrir miðnætti. Davíð var í tímafreka leiknum, svo hann hefur greinilega ekki náð að spila yfir sig um helgina. Skyldi hann nokkurn tíma ná því???

1.2.04

- Skemmtileg helgi -

Jæja, þá er febrúar byrjaður. Kannski ég geri upp helgina (stikla á stóru) og byrja á byrjuninni. Helgin byrjaði strax upp úr fjögur á föstudag. Ég arkarði heim í kuldagallanum, leið sem ég hef ekki farið lengi og var samt ekki nema um fimmtán mínútur á leiðinni. Feðgarnir voru komnir heim og Davíð var byrjaður að taka saman tölvuna sína. Tvíburunum langaði mest til að fá að taka út hjólin sín en það var ekki hægt að verða við þeim óskum að þessu sinni. Skutluðum Davíð í Laugardalshöllina þar sem fór fram maraþonkeppni í Smell (keppni í tímafreka leiknum). Þegar við mæðginin komum til baka tók ég okkur saman (líkt og við værum að fara í viku ferðalag) og reyndi að ná símasambandi við pabba. Það tókst upp úr sex og tilkynnti ég komu okkar þá strax um kvöldið. Lentum þar upp úr hálfníu. Strákarnir voru varla búnir að heilsa afa sínum og komnir úr fyrr en þeir voru sestir fyrir framan skjáinn og búnir að stilla á Boomerang...

Þeir bræður rifu sig báðir upp um átta á laugardagsmorguninn. Ég leyfði mér að kúra til níu. Morguninn fór svo í að fá þá til að klára heimanámið, þ.e. skyldulesturinn og aukalesturinn. Oddur lauk við sitt fyrir hádegi (las aukalestur úr bókinni um Jón Odd og Jón Bjarna) en Davíð Steinn skildi aukalesturinn eftir (hann las hann ekki fyrr en eftir kvöldmat. Hefði helst viljað geyma hann lengur). Eftir hádegi klæddu bræður sig vel og hugðust heimsækja Ragnar Pál vin sinn. Hann var bara veikur þannig að þeir komu fljótt til baka. Oddur Smári hafði stungið upp í sig klaka, fest varirnar við hann og reif sig til blóðs. Hann kom inn og bað um plástur á sárið.

Við mæðginin skruppum svo í heimsókn til Ellu. Þangað hef ég ekki komist svo mánuðum skiptir. Tíminn flaug frá manni. Strákarnir léku við yngri son hennar og vissum við varla af þeim. Við gjóuðum augunum á undanúrslitaleikinn milli Dana og Þjóðverja en vorum mest að spjalla um hvað á daga okkar hefði drifið og hvað við erum að fást við þessa dagana.

Þegar við komum "heim" var pabbi nýbúinn að stinga inn helgarsteik í ofninn. Ég tók að mér að sjá um afganginn, setja upp kartöflur, finna til í sallat og baka upp sósu. Við borðum um sex og höfðu strákarnir góða lyst. Eftir kvöldmat, vildi Oddur fá flautukennslu. Davíð Steinn las aukalestur í Salómon Svarta og fékk svo líka flaututíma.

Í gærmorgun stökk ég yfir til föðurbróður míns. Hafði orð á því við hann að ég hefði verið að spá í að galla mig upp svona á milli húsa.

Klukkan var byrjuð að ganga tvö þegar við kvöddum pabba. Gerðum tæplega klukkustundarstopp hjá foreldrum "tvíburahálfsystur" minnar. Strákarnir héldu smá tónleika þar á flauturnar. Næst stoppuðum við á Bakkanum. Þar vildu strákarnir líka halda tónleika. Þeir fengu góðar undirtektir á báðum stöðum.

Davíð var kominn heim með tölvuna þegar við mæðgin birtumst rétt fyrir átta. Fimm lið voru á keppninni um helgina og lenti hans lið í öðru sæti...