30.6.21

Síðasti júnídagurinn

Þar sem ég var komin mjög snemma á fætur í gærmorgun ákvað ég að labba lengri leiðina í vinnuna. Var komin með 5000 skref fyrir klukkan átta. Ég var í bókhaldinu í gær og það var í nógu að snúast. Vinnudagurinn leið mjög hratt en við gátum hætt aðeins fyrr heldur en á mánudaginn eða upp úr klukkan þrjú. Labbaði Skúlagötuna, Snorrabraut, Gunnarsbraut, Flókagötu, þvert yfir Klamratún og Lönguhlíð heim. Þetta eru amk 2,8 km en síminn skráði aðeins 1,7 km sjálfvirkan göngutúr. Hins vegar fóru heildarskref gærdagsins rétt yfir 12.000. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim. Kveikti um stund á fartölvunni og vafraði um á netinu en svo las ég helling í síðustu bókinni  sem var eftir heima þegar ég fór á safnið á mánudaginn; Lasarus. Á að skila henni 14. júlí nema ég framlengi um 30 daga. Bókin er upp á tæpar 600 blaðsíður og stundum óbærilega spennandi. Er hálfnuð með hana. Einnig kláraði ég fyrstu dokkuna í bláa hjartateppinu og prjónaði dokku tvö við teppið. Þá þarf ég ekki að ganga frá þeim endum, heldur aðeins klippa spottana. 

29.6.21

Fótaferð um sex

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni og var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Hálftíma síðar labbaði ég af stað í vinnuna þvert yfir Klambratún, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut og Skúlagötu. Ég var á ítroðsluendanum á framleiðsluvélinni. Ein var að koma úr fjögurra vikna sumarfríi og hún var á móttökuendanum. Vinnudagurinn stóð alveg til klukkan fjögur þótt framleiðslu væri hætt upp úr tvö. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið og framhjá Valsheimilinu. Stoppaði sama og ekkert heima heldur dreif mig að skila öllum nema einni bók á safnið og kom svo við í fiskbúð Fúsa áður en ég fór heim aftur. Skrópaði semsagt í sund/sjóinn. Kom með sjö bækur heim af safninu og þar af eina skammtímalánsbók. Annars "datt" eldhúshandklæði af prjónunum í gærkvöldi. Gekk þá loksins líka frá endunum á ungbarnateppinu sem ég kláraði fyrir nokkrum dögum. Þegar ég taldi afklippurnar komst ég að því að ég hafði nota nákvæmlega jafnmargar dokkur og mælt var með í uppskriftabókinni eða 7 dokkur. 

28.6.21

Bókasafnsferð

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Hellti mér fljótlega upp á kaffi og fékk mér morgunverð. Vafraði um á netinu í stutta stund en tók svo aðeins í prjónana mína. Klukkan tíu var ég komin í sund. Fór 3x5 mínútur í kalda pottinn áður en ég synti 200 metra. Kom heim aftur um ellefu leytið. Um tólf var ég mætt hjá tvíburahálfsystur minni. Hún bauð mér inn í smá kaffi og hádegissnarl en um eitt lögðum við af stað út úr bænum á mínum bíl. Fyrst lá leiðin langleiðina austur að Flúðum. Ella og Aðalsteinn eru í bústað KÍ í landi Syðra-Langholts. Við vorum komnar til þeirra um hálfþrjú og stoppuðum við í uþb tvo tíma. Þá skruppum við á Hellu og stoppuðum í rétt rúman hálftíma hjá pabba mínum. Settumst beint inn í stofu og vildum alls ekki láta hann hafa fyrir okkur, vildum bara hitta aðeins á hann og spjalla smá. Þegar við vorum að halda áfram för sendi tvíburahálfsystir mín skilaboð til mömmu sinnar sem var búin að bjóða okkur í kvöldsnarl. Við vorum komnar í Fossheiðina rúmlega hálfsjö. Kvöldsnarlið reyndist vera grillveisla og meðlæti og ís í eftirrétt. Stoppuðum til klukkan að ganga tíu. Keyrðum Suðurstrandaveginn, í gegnum Grindavík og Reykjanesbrautina heim. Skyggnið var lítið en við sáum þó að margir voru á ferðinni við bílastæðin við gosstöðvarnar og á gönguleiðinni, ýmist að koma eða fara að gosinu. Skilaði vinkonu minni heim til sín um hálfellefu. Þetta var svo sannarlega skemmtileg og vel heppnuð dagsferð. 

27.6.21

Ein safnbók ólesin

Ég var komin á fætur rétt upp úr klukkan sjö í gærmorgun. N1-sonurinn er á helgarvakt en hann sagðist vera búinn að fá far í vinnuna bæði þá og eins fyrir daginn í dag. Ég lagði af stað í sund um það leyti sem morgunfréttir klukkan átta voru lesnar. Það var rólegt í Laugardalnum. Fór fjórum sinnum í kalda pottinn, synti 200 metra, 2x í heitasta pottinn, einu sinni í sjó pottinn og sat svo góða stund í sólinni og spjallaði við þrjár konur sem ég hitti misoft í sundi áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Eftir sundferðina fór ég í Krónuna út á Granda. Gekk frá vörunum og sunddótinu þegar ég kom heim og hellti mér svo upp á kaffi. Restin af deginum fór svo í ýmislegt dútl.

26.6.21

Alveg slök

Í gærmorgun labbaði ég Eiríksgötuna og Skólavörðustíginn í vinnuna. Ég var númer eitt á framleiðsluvélinni að hlaða inn verkefnum og senda þau af stað. Allt gekk mjög vel. Vorum beðnar um að bíða með að framleiða tvær af tegundunum af fyrsta verkefni dagsins. Kláruðum debetdaginn um hálftíu og byrjuðum aðeins á að vinna í debetendurnýjun áður en við vorum beðnar um að framleiða öll nema eitt úr annarri biðskránni. Í hinni skránni var aðeins eitt kort sem, líkt og þetta eina óframleidda af tegundinni sem mátti framleiða næstum öll þurfti að vinna aðeins með og senda aftur yfir á vélina áður en það var framleitt. Það tókst fyrir klukkan tíu. Þegar að var afgreitt tókum við extra langan kaffitíma. Fyrirliðinn hafði komið við í bakaríi með sérstakt leyfi frá kokkinum á K2 um að kaupa í föstudagskaffihlaðborð. Föstudagskaffið hefur legið niðri sl rúma árið en það er að byrja aftur. Sendillinn sem yfirlett hefur komið með sendingu frá K2 er kominn í veikindafrí og á meðan megum við bjarga okkur. Daglegri framleiðslu lauk um hálftólf og hálftíma seinna kvaddi sú sem er aðeins að vinna föstudagana þegar tvær af okkur fimm eru í fríi. Eftir hádegi lukum við hinar tvær að telja úr síðustu tveimur kössunum af nýjustu plastsendingunni. Töldum rúm 21.000 kort en allt í allt voru fúmlega 62.000 kort í tveimur tegundum í sex stórum kössum. Labbaði sömu leið heim úr vinnu og á fimmtudaginn. Var komin heim upp úr klukkan hálffjögur og ákvað að vera löt annan daginn í röð og fara hvorki í sund né sjóinn heldur slaka á heima. Fékk mér hvítvínsglas í tilefni þess að verið væri að aflétta öllum sóttvarnartakmörkum innanlands um miðnætti.

25.6.21

Níu gönguferðir á fimm dögum

Þriðja morguninn í röð, í gærmorgun, labbaði ég meðfram Hringbraut og flugvellinum í vinnuna sem ég kalla lengri leiðina. Þetta eru uþb 3,5 km. Ég var í bókhaldi í gær og hinar tvær á framleiðsluvélinni. Fyrsti skammtur kláraðist fyrir klukkan níu en svo var allt stopp. Það náðist ekki samband við færirbandið. Fyrst vildi tölvuskjárinn þeim meginn ekki opnast og svo vildi framleiðsluvélin hvorki framleiða kort á form né heldur kort sem ekki voru að fara á form eins og þau sem voru í fyrsta skammtinum. Þetta endaði með því að kalla varð út viðgerðarmann og tilkynna um seinkun á afhendingu. Viðgerðarmaðurinn komst ekki til okkar fyrr en rúmum tveimur tímum eftir að hringt var eftir honum. Hann var að leysa aðal viðgerðarmanninn af og þurfti á hringja í þann til að fá uppgefið aðgangsorð á tölvuna við færibandið. Eftir það var hann enga stund að laga það sem að var og framleiðslan var komin af stað rétt upp úr klukkan tvö. Daglegri framleiðslu, talningu og frágangi lauk um fjögur. Þá labbaði ég heim þvert yfir Skólavörðuholtið og labbaði framhjá Valsheimilinu. Fór undir brú á Bústaðaveginum rétt neðan við Orkuna í Öskjuhlið. Klukkan var orðin hálffimm þegar ég kom heim og ég nennti alls ekki út aftur, fór hvorki í sund né sjóinn. Kalda potts vinkona mín hafði samband á FB-spjallinu seinna um kvöldið og sagðist hafa saknað mín í kalda pottinum. Ég millifærði smá summu yfir á einkabílstjórann og sendi hann eftir fjölskyldutilboði frá KFC upp úr klukkan sex. Bræðurinr voru hæstánægðir með þessa leti í mömmu sinni. Fitjaði upp á nýju teppi. Ætla að prjóna hjartateppi úr bláu Anchor Bay garni sem mælt var með við mig. Þetta verður örugglega fínasta teppi því þetta var önnur tilraun til að byrja á því. Fitjaði semsagt upp á því í fyrrakvöld og var búin að prjóna fyrstu 15 umferðirnar þegar tvær lykkjur duttu af prjónunum. Ég sá að ég myndi ekki geta bjargað þeim þannig að það sæist ekki á prjónaskapnum svo ég rakti allt saman upp. 

24.6.21

Styttist í helgina

Labbaði aftur lengri leiðina í vinnuna, 3,5 km. Var í móttöku á vélinni og eftir hádegi komst ég aðeins í að flokka kennispjöld á meðan förgun ónýtra plasta frá mars til maí var framkvæmd. Eftir förgunina tók ég á móti restinni af kreditendurnýjuninni sem er búin að vera í gangi á meðan hinar tvær héldu áfram að opna og telja nýjar lagerbirgðir af kortaplasti. Þær opnuðu tvo kassa af fjórum og voru það alls 20.000 kort. Fór sömu leið heim og á þriðjudaginn. Stoppaði heima í einhverja stund áður en ég skrapp aðeins í sund. Synti reyndar ekkert og það er búið að loka gufunni þannig að ég fór 2x7 mínútur í kalda, 2x í heita pottinn og sat svo á bekk í smá stund áður en ég fór heim og eldaði kvöldmatinn. 

23.6.21

Labbað báðar leiðir

Fór lengri leiðina í vinnuna í gærmorgun. Ég var á framleiðsluvélinni að hlaða inn verkefnum og ýta þeim af stað. Eftir hádegi endurnýjuðum kort til klukkan að verða tvö. Þá héldum við áfram að opna kassa og telja upp úr þeim. Töldum 10.000 kort úr einum af þeim fimm kössum sem eftir voru á brettinu. Labbaði Skúlagötu, Snorrabraut, Gunnarsbraut, Flókagötu, þvert yfir Klamratún og Lönguhlíð frá Miklubraut heim. Stoppaði heim í tæpan klukkutíma áður en ég tók sjósundsdótið með mér út í bíl og skrapp í Nauthólsvík. Sjórinn 10,2°C, flóð og ég synti út að kaðli. Hafði salthnakka og soðnar kartöflur í kvöldmatinn. Ungbarnateppi "datt" af prjónunum í gærkvöldi, prjónað með einni færri dokku en mælt var með í bókinni. Átti alveg eina dokku í viðbót en mér fannst þetta vera komið og láðist að telja spottana áður en ég prjónaði  garðaprjón 14 síðustu umferðirnar og felldi af. Held að þetta muni samt alveg vera nothæft teppi. Heildarskrefafjöldi fór yfir 12200 í gær. 

22.6.21

Á leiðinni í sjóinn

Labbaði þvert yfir Skólavörðuholtið í vinnuna í gærmorgun. Ég var í bókhaldsstörfum. Hinar tvær sáu um daglega framleiðslu og að henni lokinni framleiddu þær hluta af endurnýjun alveg til tvö. Þá fórum við allar í að skoða í einn kassa af nokkrum sem komu í hús seinni partinn á föstudaginn og stóðu á bretti inni á gólfi rétt hjá framleiðsluvélinni. Þetta voru sex kassar og samkvæmt fylgiskjölum tvær tegundir af plasti, rúmlega fimmþúsund af annarri tegundinni og rúmlega fimmtíuþúsund af hinni. Opnuðum efsta kassann og töldum úr honum. Urðum að taka hvern 500 korta kassa úr plastinu til að geta talið kortin, klæða þá svo aftur í plastið, líma fyrir og kvitta. Í þessum eina kassa voru öll kortin fyrir þá tegund sem minna var af. Hættum vinnu um þrjú. Úti var rigning og fyrirliðinn sá aumur á mér og leyfði mér að sitja í. Hafði reynt að hringja í einkabílstjórann en náði ekki sambandi við hann, síminn hans stilltur á hljóðlaust. Í stað þess að fara í sjóinn seinni partinn í gær eins og oft á mánudögum fór ég í Laugardalinn. Synti ekkert en fór 3x5 mínútur í kalda pottinn, eina ferð í sjópottinn, eina í heitasta pottinn og endaði í gufubaði. Hafði plokkfisk í kvöldmatinn.

21.6.21

Ný vinnuvika hafin

Fór á fætur í gærmorgun á svipuðum tíma og á laugardagsmorguninn. Rétt fyrir klukkan tíu var ég komin í sund og ég var í minni fyrstu ferð í kalda pottinum, búin með uþb 4 mínútur, þegar kalda potts vinkonan mætti. Ég elti hana í heitasta pottinn og svo á milli þessara tveggja potta, alls sex sinnum í viðbót í þann kalda. Rétt áður en þessum ferðum lauk mætti systir hennar á svæðið svo ég ákvað að fara með þeim aðeins í heitasta pottinn til að spjalla. Eftir þá ferð skildu leiðir. Ég fór áttundu ferðina í þann kalda, í eina og hálfa mínútu áður en ég synti 500 metra. Eftir sundð fór ég níundu og síðustu ferðina í kalda pottinn, rúmar tvær mínutur og endaði svo á góðu gufubaði áður en ég sagði þetta gott og þvoði mér um hárið áður en ég fór heim. Þessi svaka rútína tók uþb tvo tíma en mikið sem mér leið dásamlega vel um allan kroppinn á eftir. Restin af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og þáttaáhorf. Hafði ýsuna sem ég keypti í fiskbúðinni seinni partinn á föstudaginn í kvöldmat og sauð blómkál með. 

20.6.21

Sól

Var ekkert að drífa mig á fætur í gærmorgun og var klukkan orðin hálfníu þegar ég loksins drattaðist framúr, nýlega vöknuð. Hitti sjósundsvinkonu mína og aðra af systrunum í Nauthólsvík um tíu. Við syntum út að kaðli í 9,3°C sjónum og vorum svo drjúga stund í heita pottinum áður en við fórum upp úr og hver til síns heima. Það sem eftir lifði dags notaði ég m.a. í lestur prjón og netvafr. Lánaði bræðrunum bílinn til að skreppa í heimsókn í Mosfellsbæinn. Ég nennti ekki út í labbitúr en hafði það af að ryksuga yfir gólfin. 

19.6.21

Laugardagur

Labbaði lengri leiðina í vinnuna í gærmorgun. Leiðirnar sem ég labba í vinnuna eru reyndar fleiri en tvær, aðallega þrjár með smá útúrdúrum stundum. En ég fór semsagt út Eskihlíðina undir brýrnar, Hringbraut meðfram flugvellinum, Hljómskálagarðinn, Fríkirkjuveg og Lækjargötu að Kalkofnsvegi. Var númer eitt á vélinni í vinnunni þ.e. hlóð inn verkefnunum og sendi þau af stað. Tvær endurnýjanir komu til okkar í gær, eða eiginlega þrjár því önnur skiptist í beint til fyrirtækis og svo í póst sem var mun stærri hluti. Gengum frá áður en klukkan varð þrjú og svo fékk ég far heim. Vinnufélagi minn sem er komin á samgöngusamning yfir sumarið og hjólar oftast í vinnuna kom á bíl í gærmorgun. Stoppaði heima í rúma klukkustund. Hringdi í þann sem ætlar að vera milliliður í framkvæmdunum utanhúss. Hann sagðist vera búinn að fá verktaka til að taka að sér verkið eftir því plaggi sem hann var að uppfæra. Vonandi fáum við plaggið til yfirlestrar sjálf fljótlega eftir helgi og vonandi verða allir sáttir hérna megin líka svo hægt sé að fara að byrja á þessu fljótlega.

Um hálffimm kom ég við í fiskbúð Fúsa áður en ég fór í sund. Í sundi fór ég 3x5 mínútur í kalda pottinn, synti ekki nema 200 metra, fór einu sinni í heitasta pottinn og endaði á góðu gufubaði. Nú er komin Nettó verslun þar sem Krónan var við Nóatún þar sem einu sinni var reyndar Nóatúnsbúð. Ég skrapp því alla leið vestur á Granda í Krónuna þar til að versla aðeins inn áður en ég fór heim. Oddur Smári opnaði fyrir mér og gekk frá vörunum. Hann var búinn að panta sér pizzu og Davíð Steinn var að vinna svo ég ákvað að sleppa því að hafa kvöldmat í gærkvöldi. 

18.6.21

Vinnuvikulok

Var komin á fætur rétt áður en klukkan varð átta í gærmorgun. Var eitthvað að spá í að skreppa í sund en það endaði með því að ég var löt heima í allan gærdag. Las þó heila bók; Brúin yfir Tangagötuna og mæli ég alveg með þeirri bók. Ég var líka eitthvað að prjóna, lagaði villu í eldhúshandklæði sem ég er með á prjónunum og til þess að laga þessa villu þurfti ég að prjóna tvær umferðir til baka. Ég var líka svo heppin að Davíð Steinn tók óumbeðið að sér að elda kvöldmatinn. Hann bauðst til þess þegar hann sá hvað ég hafði tekið út úr frysti, kjúklingalæri. Maturinn var mjög góður hjá honum. En þar sem þetta var "heima í leti dagur" er lítið annað að frétta. Get þó sagt frá því að æskuvinkona mín hringdi í mig í fyrrakvöld og spjallaði í dágóða stund. 

17.6.21

Hæ, hó, jibbí jey

Í gærmorgun fór ég á bílnum í vinnuna í fyrsta skiptið í þessum mánuði og í fimmta skiptið á árinu. Ég var í bókhaldinu og var því frammi í skrifstofurýminu nema þegar við vorum að telja. Eftir smá kaffipásu skildi ég stelpurnar eftir tvær og þær biðu með framleiðsluna á meðan og fóru frekar í að flokka kennispjöld. Ég keyrði að Laugardalshöll, eða aðeins lengra, lagði bílnum á stæði við Skautafélag Reykjavíkur. Margt var um manninn við höllina og kom röðin úr tveimur áttum og þegar nær dró innganginum skiptist hún í tvær og tvær. Þetta tók drjúga stund en mér fannst ég svo sem ekki þurfa að bíða lengi hreyfingalaus. Klukkan var orðin hálfellefu þegar ég settist í næst öftustu röðina og þá var verið að sprauta fólkið átta röðum fyrir framan. Ég fékk mína seinni stungu korter fyrir ellefu og plástur að auki en sú sem stakk mig var samt ekki viss um nákvæmlega hvar hún átti að setja plásturinn, það sáust engin ummerki. Það sveið ekki undan sprautunni eins og þeirri fyrri en ég var örugglega stungin og sprautuð því þegar fór að líða á daginn fann ég fyrir eymslum á stungustað og það var ekki þægilegt að leggjast á vinstri hliðina. Það liðu örugglega færri en 12 mínútur áður en minni röð var hleypt út eftir stungurnar. Ég var tilbúin og búin að senda skilaboð til samstarfskvenna minna. Var mætt í vinnuna aftur korter yfir ellefu og þá voru þær að byrja að framleiða aftur. Þær kláruðu hádegis og debetframleiðsluna um hálfeitt. Þá fórum við á hádegismat. Það sem var framleitt milli hálftólf og hálfeitt var talið eftir hádegi. Gengið var frá deildinni og svo fór ég smá stund í að flokka kennispjöld á meðan hinar tvær fóru fram að þeyta rjóma og búa til vöfflur.

Fór úr vinnu um þrjú. Byrjaði á því að bruna í handavinnubúðina í Hafnarfirði til að kaupa mér tvær auka dokkur í teppið sem ég er að prjóna og nokkrar aðrar líka. Svo fór ég heim og tók því rólega. Vafraði um á netinu, prjónaði, las og horfði aðeins á imbann.

16.6.21

Seinni Moderna í morgun

Labbaði sömu leið í vinnuna í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Ég var á ítroðsluendanum á framleiðsluvélinni og hlóð inn verkefnum sem lágu fyrir og þeim sem skiluðu sér til okkar upp úr ellefu. Framleiðslu var lokið fyrir hádegi. Eftir hádegi sorteruðum við kennispjöld til klukkan hálfþrjú. Fórum tvær með 13 kassa með sorteruðum kennispjöldum inn í kennispjaldageymslu og komum með 15 óflokkaða í staðinn. Erum komin með 1997 inn á deild en það eru nokkrir kassar síðan ágúst-des 1996 eftir óflokkaðir og eru í vinnslu. Labbaði sömu leið heim úr vinnunni. Fór í sund um fimm en synti reyndar ekki neitt og fór aðeins 2x5 mínútur í kalda pottinn. Kom heim um hálfsjö og eldaði kvöldmatinn. Strákarnir voru ekki komnir fram að borða þegar ég fór úr húsi stuttu fyrir átta með handavinnuna mína meðferðis. Saumaklúbbsmeðlimurinn sem situr lon og don í sölubás í Austurstræti frá því í byrjun maí og langt fram á haust hafði ætlað að þyggja far með mér. Hún lét mig hins vegar vita upp úr klukkan sex, þegar ég var á leiðinni heim úr sundi, að hún væri enn niðri á torgi og væri frekar lúin eftir daginn. Þannig að við vorum aðeins tvær í klúbbnum sem haldin var á nýja heimili tvíburahálfsystur minnar. Var komin til hennar um átta og eins og venjulega var klukkan orðin tíu eftir aðeins tíu mínútur (ég get svo svarið það). Fékk að skoða næstum alla króka og kima fasteignarinnar, allt nema herbergi dóttlunnar sem var með vinkonur í heimsókn. Fæ bara að skoða það herbergi seinna. Klukkan var að verða ellefu þegar ég kvaddi og fór heim. Var svo ljónheppin að fá stæði fyrir utan heima hjá mér.

Bækurnar þrjár sem skila á rétt fyrir næstu mánaðamót, ef ég framlengi ekki skilafresti eru; Sögur frá Þýskalandi eftir ýmsa höfunda, Brúin yfir Tangagötuna eftir Eirík Örn Norðdahl og Biðlund eftir Noru Roberts. Þar að auki er ég með eina kilju sem ég keypti mér sjálf um daginn nýjasta þýdda bókin eftir Angelu Marsons sem heitir Fyrsta málið. Er byrjuð á þeirri bók og gengur mjög vel með hana enda nokkuð spennandi.

15.6.21

Mánuðurin uþb hálfnaður

Það var vekjaraklukkan sem vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun og það þrátt fyrir að ég rumskaði stuttu fyrir sex. Ég sofnaði greinilega það fast aftur að ég var smá stund að átta mig á hvað væri að gerast þegar vekjraklukkan fór í gang. Labbaði í vinnuna upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Var á móttökuendanum á vélinni fram að hádegi en þá var allri framleiðslu lokið. Flokkaði kennispjöld eftir hádegi til klukkan hálfþrjú. Labbaði lengri leiðina heim. Stoppaði heima í rúman hálftíma áður en ég tók saman sjósundsdótið og og fjórar bækur til að skila á safnið í leiðinni. Var komin út í sjó rétt rúmlega fimm. Ekkert bólaði á sjósundsvinkonu minni sem þó ætlaði að mæta um sama leyti. Svamlaði um í 9°C sjónum í um tuttugu mínútur. Þegar ég fór í heita potti sá ég vinkonu mína, númer eitt í röðinni. Beið eftir henni og fór aftur í sjóinn þegar hún var tilbúin. Við vorum aðeins níu mínútur í það skiptið en í góða stund í pottinum á eftir. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn um það bil að fara í bíó. Ég ákvað því að sleppa eldamennsku og fékk Odd fyrir mig til að skreppa í Krambúðina og kaupa m.a. 1944 handa sér.

Bækurnar fjórar sem ég skilaði á safnið í gær voru: Hvunndagsmorð eftir Oddbjörgu Ragnarsdóttur, Ógnarhiti eftir Jane Harper, Þrír tímar eftur Anders Roslund og Mannavillt eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Tók þrjár bækur með mér heim; Lasarus eftir Lars Kepler, Flekklaus eftir Sólveigu Pálsdóttur og Morðin í Háskólabíó eftir Stellu Blómkvist. Heima voru svo amk þrjár í viðbót af safninu sem ég á eftir að lesa. Hef amk hálfan mánuð til að lesa þær og möguleika á að framlengja skilafresti þá um 30 daga.

Samsung health forritið taldi rúmlega 12000 skref hjá mér í gær.

14.6.21

Ný vinnuvika

Svaf til klukkan að verða hálfníu í gærmorgun. Fljótlega eftir að ég kom á fætur hellti ég upp á könnuna. Mágur minn var búinn að gefa hundunum að borða og hleypa þeim aðeins út að pissa en hann skreið svo aftur upp í og kom ekki fram fyrr en rúmlega níu. Hann var ánægðari með mágkonu sína að hafa séð til þess að hann gæti fengið sér kaffi þegar hann kæmi fram. Sjálf var ég búin að drekka einn bolla. Systir mín og mágur kvöddu svo einhvern tímann á ellefta tímanum. Ætluðu að erindast aðeins í bænum og sækja yngri dóttur sína áður en þau færu heim. Nú eru þau líklega hálftíma lengur að keyra heim tíl sín eftir að þau eru flutt í sveitina. Systir mín sagðist amk þurfa að fara af stað í síðasta lagi korter yfir sex til að vera mætt í vinnu korter fyrir sjö á morgnana.

Við pabbi höfðum saltfisk í hádeginu. Annars fór dagurinn í lestur, prjón, netvafr og kapallagnir. Ég kvaddi pabba fljótlega eftir kaffi og var komin heim til mín rétt fyrir klukkan sex. 

13.6.21

Sunnudagur

 Ég fór á fætur rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Fór fljótlega að vafra um á netinu í fartölvunni. Rúmlega hálfátta bauð ég N1 syninum far í vinnuna, sem hann þáði. Hann var mættur rétt fyrir klukkan átta og ég fór beinustu leið í sund. Fyrst í kalda pottinn í fjórar mínútur þá í heitasta pottinn í um fimm mínutur. Aftur í þann kalda í um fimm mínútur. Svo synti ég 400 metra, þar af 150 á bakinu. Fór svo beinustu leið í kalda pottinn og sat þar í um sjö mínútur áður en ég fór í gufu. Eftir gufubaðið fór ég upp úr og þvoði mér um hárið. Þegar heim kom hellti ég mér upp á smá kaffi og fékk mér hressingu. Um hálftólf var ég búin að pakka niður fyrir helgina. Vakti Odd Smára til að kveðja hann og sagði honum að hann mætti setja handklæði í þvottavél ef hann vantaði eitthvað að gera.

Var að nálgast Selfoss þegar systir mín hringdi úr bænum og spurði hvenær ég yrði komin austur á Hellu og hvort ég væri fáanleg til að skrifa inn í kort fyrir þau hjónin. Ég var semsagt komin tæpum klukkutíma á undan þeim Ingva austur. Þegar þau komu "skammaði" mágur minn mig fyrir að vera ekki búin að hella upp á. Ég bætti úr því á meðan hann fór að hreyfa hundana aðeins. Upp úr klukkan þrjú keyrði ég systir mín og mág í brúðkaupsveislu að Ármóti í Landeyjum. Fór miklu lengri leið heldur en ég þurfti, þ.e. í gegnum Hvolsvöll. Það er komin brú yfir Rangá milli Odda og Ármóta og sú leið er helmingi styttri. Að vísu er nýji vegurinn alfarið eins og versta þvottabretti en þetta er ekki langur spotti. Ég prófaði þessa leið á ellefta tímanum um kvöldið þegar ég sótti þau aftur úr veislunni. Veislan var svo sem ekki búin en þau voru búin að vera á fótum síðan um fimm, keyra alla leið úr sveitinni í Kinnunum og þar að auki búin að vera snemma á fótum alla vikuna þannig að þau voru eiginlega búin á því. Þess má geta í leiðinni að það varð til limra þegar ég skrifaði inn í kortið fyrir þau fyrr um daginn. Er búin að bæta þeirri í safnið á onnuvisur.blogspot.com

12.6.21

Morgunstund

Labbaði sennilega stystu leiðina í vinnuna í gær. Fór yfir á gönguljósunum við Miklubraut, undir brúna við Snorrabraut og Bústaðaveg, Eiríksgötu, Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Allri framleiðslu var lokið rétt upp úr klukkan hálftólf en það var nóg af verkefnum til klukkan þrjú. Ég komst meira að segja ekki nema fáein augnablik í kennispjaldaflokkunina. Fékk far heim úr vinnunni. Sú er nú að fara í sumarfrí og í næstu viku verður sennilega meira um það að ég labbi báðar leiðir. Nema á miðvikudaginn, þá fer ég örugglega á bíl í vinnuna til að geta skroppið í seinni sprautuna rétt fyrir ellefu. Tvíburarnir eru búnir að fá boð í fyrri Pfizer sprautuna eftir hádegi á þriðjudaginn kemur. 

Hitti þrjár úr sjósundshópnum í Nauthólsvík um hálffimm í gær. Vorum að svamla í sjónum í uþb tíu mínútur en vorum svo örugglega um hálftíma í heita pottinum að gantast og spjalla. 

11.6.21

Vinnuvikulok

Þriðja skiptið í vikunni labbaði ég lengri leiðina í vinnuna í gærmorgun. Var mætt fyrst tuttuguogfimm mínútum fyrir átta svo ég prentaði út framleiðslublöðin, kveikti á vélinni, opnaði stóru hurðina inn á lager og náði í bankatöskurnar í gegnum rimlana til að hægt væri að afhenda fyrstu tösku dagsins. Eftir smá kaffipásu á kaffistofunni og þegar við vorum allar mættar fór ég á "ítroðsluendann" á framleiðsluvélinni og hlóð inn fyrstu verkefnum dagsins á meðan önnur taldi í og tíndi til tegundirnar. Um leið og við vorum búnar að framleiða kreditkortinn settum við síðastu endurnýjunarskrána úr debetinu af stað. Það og talninging kláraðist fyrir kaffi. Eftir kaffi og til rúmlega ellefu framleiddum við dagleg debetkort. Hádegisframleiðslan kláraðist svo fyrir klukkan tólf. Ýmislegt var að sýsla og vorum við í vinnu til rúmlega þrjú. Fékk far heim úr vinnunni og stoppaði heima til klukkan rúmlega hálffimm. Þá dreif ég mig loksins í sund. Fór þrjár ferðir í kalda pottinn í fimm mínútur í senn og synti 200 metra áður en ég fór upp úr og heim aftur. 

10.6.21

Einn þriðji

Í gærmorgun labbaði ég Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut og Skúlagötu í vinnuna. Ég var á móttökuendanum á vélinni og taldi og tók til í tegundirnar sem voru í framleiðslu. Upp úr hádegi fékkst leyfi til að ljúka endurnýjun á tveimur síðustu dk-tegundunum. Vorum til þrjú að klára aðra upp á 1080 stk. Ég elti þá sem ég far með þessa dagana alla leið heim til hennar og sat og prjónaði þá stund á meðan við vorum þar. Hún lagði sig en ég veit ekki hvort hún gat nokkuð sofnað því það verið að háþrýsti þvo fyrir utan og þegar þeir sem voru að því urðu varir við að einhver var kominn heim báðu þeir um að þvotturinn væri tekinn inn og hliðið opnað út í garð.

Um hálffimm fórum við upp í Mosó að sækja fyrirliðann og við vorum komnar í skemmtigarðinn í Gufunesi í Grafarvogi um fimm. Þar hittum við marga af vinnufélögum okkar og fórum í axarkast og fótboltagólf. Það var líka hægt að fara í mínígólf en okkur vannst ekki tími til þess. Fengum hamborgara og franskar og gos, bjór eða vín með því ef við vildum. Forstjórinn settist hjá okkur og hafði m.a. á orði að hún þyrfti að fara að koma í heimsókn og skoða nýju vélina sem nota bene er búin að framleiða rúmlega tvöhundruðþúsund kort síðan byrjað var að nota hana í ágúst sl. Rúmlega átta ákváðum við að tími væri kominn að fara heim þótt atburðurinn væri sagður til níu. Ég hringdi í Odd, einkabílstjórann, sem svaraði ekki. Davíð Steinn svaraði hins vegar símanum og ég bað hann um að biðja bróður sinn að hringja í mig. Þegar Oddur hringdi bað ég hann um að sækja mig upp í Árbæ eftir hálftíma. Hann var búinn að bíða þar í fjórar mínútur þegar við komum frá því að skutla þeirri sem býr í Mosfellsbænum heim.

9.6.21

Mið vika

Annan daginn í röð labbaði ég lengri leiðina í vinnuna. Brá þó aðeins út af vananum og labbaði Sóleyjargötuna í stað þess að fara í gegnum Hljómskálagarðinn. Það hvorki lengdi né stytti leiðina amk ekki samkvæmt göngu forritnu sem skráir allar göngur hvort sem ég stilli á göngu eða ekki. Ég var í bókhaldinu í gær en byrjaði þó á að taka til framleiðslutegundir og taka á móti fyrstu kortunum því sú sem átti að vera á þeim enda byrjaði morguninn á því að mæta í blóðprufu. Þegar nær dró hádegi fór vélin að vera með smá vesen svo geyma þurfti hluta af debet framleiðslunni þar til eftir hádegi. Framleiðslu dagsins var því ekki lokið fyrr en upp úr klukkan tvö. Hætti vinnu rétt fyrir hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Fór í fiskbúð Fúsa eftir smá stopp heima og var komin í sund um fimm og var heppin að vera ekki seinna á ferðinni því ég náði aðeins tveimur ferðum í kalda pottinn með kalda potts vinkonu minni. Hún var að fara í bíó um sex og ég hitti hana í hennar fimmtu ferð. Eftir sundið fór ég alla leið í Krónuna út á Granda þótt ekki væri um neina stórverslunarferð að ræða.

8.6.21

Lengri leiðin í vinnuna

Var vöknuð, búin að slökkva á vekjaranum og komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Vafraði um á netinu þar til klukkan var uþb korter í sjö. Þá labbaði ég af stað í vinnuna, lengri leiðina meðfram flugvellinum, gegnum Hljómskálagarðinn, Fríkirkjuveg og Lækjargötu. Við þrjár sem stóðum vinnuvaktina breyttum aðeins verkaskiptingunni, þ.e. fórum ekki eftir planinu. Áttum að vera fjórar en sú fjórða hafði ákveðið að taka sér frí þessa viku. Ég fór á ítroðsluendann á vélinni. Allri framleiðslu lauk fyrir klukkan hálftólf. Þá skrapp sú sem hafði verið á móttökuendanum frá. Hin skrapp frá rúmlega eitt og ég var um tíma ein að flokka kennispjöld eftir hádegi. En þær skiluðu sér báðar aftur. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í um klukkustund áður en ég tók til sjósundsdótið og skrapp í Nauthólsvík. Hitti þrjár úr kjarnajósundshópnum mínum, sú fimmta var að vinna. Ég prófaði að fara út í 9°C heitan sjóinn í strandskónum sem ég keypti á Spáni 2016. Fannst það fyrst pínu kalt, en það vandist og ég var örugglega að svamla um í tuttugu mínútur því ég var langfyrst út í sjó og fór svo ekki upp úr fyrr en hinar fóru upp úr eftir tíu mínútna úthald. N1 sonurinn var búinn að skila sér heim úr Akureyrarferðinni þegar ég kom heim úr sjónum um sex.

7.6.21

Ný vinnuvika

Ég var vöknuð upp úr klukkan sjö í gærmorgun og komin á fætur fyrir átta. Eyddi einhverri stund í af vafra um á netinu í einni af tölvunum hans pabba. Ég var að hella mér upp á fyrstu kaffibolla dagsins um hálftíu þegar pabbi kom fram. Hann grillaði svo handa okkur lambaðsneiðar í hádeginu og bauð upp á kalda rófustöppu með. Það smakkaðist mjög vel saman. En við urðum frekar södd af þessu svo kaffitíminn var ekki fyrr en klukkan rúmlega fjögur. Ég kvaddi pabba um fimm og brunaði í bæinn. Kom við á Atlantsolíustöðinni við Sprengisand og fyllti á tankinn. Átt samt alveg að geta keyrt uþb 200 km í viðbót áður en tankurinn yrði tómur. Fékk stæði beint fyrir framan hús. Kvöldið fór í sjánvarpsgláp en ég var komin upp í rúm fyrir tíu og las í þrjú korter í; Þrír tímar eftir Anders Roslund.

6.6.21

Fyrsti sunnudagur mánaðarins

Ég var komin á fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Fyrsti klukkutíminn fór í netvafr, tölvuleiki og blogg. Um níu bjó ég mér til hafragraut og rétt fyrir tíu var ég mætt í röðina í Nauthólsvík. Það var ekki margt um manninn í röðinni, frekar rólegt. Sá samt tvennt sem var þegar komið út í sjó. Pottþétt komið í sundfötum innan undir og tekið af sér í fjörunni. Hvort þau notuðu svo sturtuaðstöðuna og heita pottinn eftir að opnaði tók ég ekki eftir. Sjórinn var 9°C og, fjara og ég synti út að kaðli. Hefði getað vaðið alla leið en ég svamlaði þessa leið á bakinu, bringunni og tók einnig nokkur skriðsundstök. Kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Var komin heim aftur um ellefu. Gekk frá sjósundsdótinu inn á baðherbergi, náði í þvott af snúrunni og hellti mér svo upp á kaffi. Það voru örugglega tveir til þrír bollar í brúsanum en ég drakk aðeins einn. Upp úr klukkan tólf lauk ég við að pakka niður, vakti Odd til þess að kveðja og brunaði svo af stað austur á bóginn. Kom við í Fossheiðinni og stoppaði þar í uþb klukkustund. Var komin á Hellu upp úr klukkan hálfþrjú. Pabbi var með kaffi um hálffjögur og ég tók út tvö bleikjuflök um fjögur leytið. Kvöldmatur var beint á eftir kvöldfréttum Bylgjunnar og hafði ég hrísgrjón og lauk með bleikjunni. Fékk mér að sjálfsögðu hvít með matnum og annað glas á eftir. 

5.6.21

Tvöþúsundníuhundruðogfyrsta færslan

Ég var komin á fætur rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu og smá netvafr í fartölvunni ákvað ég að labba lengri leiðina í vinnuna og lagði því að stað tíu mínútum fyrir sjö. Ég var samt mætt fyrst á vinnustaðinn eftir 40 mínútna göngu en rétt seinna kom svo í ljós að við vorum bara tvær af fimm því sú sem var í seinni módernasprautunni á miðvikudaginn var ennþá sárlasin og með mikil og ljót útbrot á hálsi og niður á maga. Vinnureglur kveða á um að aldrei séu færri en þrír á deildinni en það kemur fyrir, örsjaldan þó, að það er ekkert hægt að gera í því. Einn af strákunum frammi hefur stundum stokkið inn og bjargað málunum. Hann var reyndar mættur í gær en var bara einn, annar veikur og sá þriðji var ekki mættur og þurfti svo að skreppa á Korpu. Framleiðsla dagsins var ekki stór og við tvær báðum þann sem var frammi að fylgjast extra vel með okkur. Hin átti að vera í bókhaldi svo hún var á móttökuendanum á vélinni. Lukum við að framleiða fyrsta skammt um níu. Þá fór hin að vinna í bókhaldinu en ég að undirbúa pökkun debetkorta. Svo töldum við allar tegundir úr báðum skápunum sem var búið að framleiða úr, líka þær tegundir sem ekki voru í framleiðslu, því það er alltaf gert á föstudögum. Eftir morgunkaffi fórum við í debetframleiðslu dagsins. Rétt innan við þrjúhundruð kort og við kláruðum það á ca 40 mínútum. Þá fór hin í bókhaldið og ég að pakka. Töldum allar tegundir á vagni og vorum að klára þetta þegar hádegisframleiðslan var komin til okkar. Það eina sem eftir var að gera eftir hádegið af daglegum störfum var að telja allana síðasta vagninn. Flokkaði kennispjöld til klukkan hálfþrjú og fékk svo far heim úr vinnunni. Var nokkra stund að ákveða mig hvort ég ætti að fara í sund eða sjóinn. Sundið varð ofan á og ég notaði tækifærið og þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr eftir fjórar langar (4-6 mínútur) kalda potts ferðir, 300 metra sund og rúmar tíu mínútur í gufubaði.

4.6.21

Inn í helgina

Vaknaði á undan klukkunni, slökkti strax á henni og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég smá stund með fartölvuna í stofunni og vafraði um á netinu þar til kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Mættum þrjár til vinnu, sú fjórða var slöpp eftir seinni sprautuna af Moderna daginn áður og sú fimmta er í sumarfríi langt fram í júní. Sú sem var í bókhaldinu vann til hádegis. Ég var á ítroðsluendananum á vélinni alveg þar til framleiðslu var lokið um hálftólf. Sú sem var að taka á móti fékk þá að skreppa í klippingu. Eftir matinn fór ég ein inn á deild að flokka kennispjöld um hálfeitt. Sú sem fór í klippinguna kom ekki fyrr en um hálftvö eða uþb tveimur tímum frá því hún fór. Þessi seinkun kom reyndar ekki til af góðu. Klippingin gekk hratt og vel en svo hringdi elsti sonur hennar í hana og lét vit að mamma hennar, sem hefur verið í heimsókn hjá henni síðustu daga, hafði dottið á baðherberginu. Hún gat ekki staðið upp en sem betur fer var hún með gemsann sinn á sér. Dóttirin fór strax heim en hún gat ekki hjálpað mömmu sinni að standa upp en annar tengdasonur hennar kom og bjargaði málunum. Mamman var ómeidd en smá skekin og eftir sig. Hættum vinnu um hálfþrjú og ég fékk far heim. Var komin í sund rétt fyrir fimm og þá var kalda potts vinkonan þegar búin að fara þrjár ferðir í þann kalda. Hún fór eina auka ferð með mér, alls sjö ferðir, en eftir þá ferð synti ég 300 metra áður en ég fór upp úr og heim. 

3.6.21

Styttist í helgarfrí

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun, uþb tíu mínútum áður en hún átti að hringja. Slökkti á henni og dreif mig á fætur. Heyrði í rigningu útivið en þegar ég sat í stofusófanum sá ég ekki neitt, það var blakalogn úti. Labbaði í vinnuna og varð svolítið rök eftir þá göngu, samt var ekki hellirigning. Ég var í bókhaldinu í gær og kom því ekkert nálægt framleiðslunni. Þegar daglegum störfum var lokið flokkaði ég kennispjöld. Tvær af hinum þremur voru að vinna í reikningagerð eftir framleiðslu, pökkun og talningar. Það má segja að sú þriðja hafi verið að gera það líka því hún var að byrja á að vinna í öllum tenginum fyrir þennan nýbyrjaða mánuð í skjölum sem tengjast samantektartölum um mánaðamót. Fékk far heim úr vinnunni og við fórum aðra leið en venjulega, beygðum til hægri frá Hörpunni og fórum Lækjargötu og alla leið að Miklubraut og þaðan í Lönguhlíð. Var komin í sund upp úr klukkan hálffimm. Byrjaði á því að fara í fimm mínútur í kalda pottinn. Fór svo á braut 1 og synti 300 metra áður en ég fór aftur í kalda. Ég var á þriðju kaldapotts ferðinni þegar vinkona mín mætti loksins. Saman náðum við fjórum ferðum áður en ég endaði í gufunni.

Kom við í Krónunni við Nóatun. Þar hitti ég tvennt sem hafði verið í sjópottinum og er oft í sundi á svipuðum tíma. Þekki konuna frá því synir okkar voru í DKR. Hún var gapandi hissa á að sjá hversu sítt hár ég var komin með, sér það aldrei í sundinu því ég er alltaf með sundhettu. Oddur Smári tók á móti vörunum og gekk frá þegar ég kom heim. Ég sagði að hann mætti velja um að borða afgang af fiskibollum frá því kvöldið áður eða setja upp kartöflur og hita bjúgu. Hann valdi þriðju leiðina, skrapp út í Krambúð og keypti sér 1944. Þegar N1 sonurinn kom heim úr vinnu settist hann niður í sófann í stofunni og spjallaði við mig í hálftíma. Hann er í fríi í dag og á mánudaginn (er á frívakt föstudag til sunnudags) og er farinn til Akureyrar ásamt sjö vinum/kunningjum. Kemur líklega ekki heim fyrr en á mánudaginn.

2.6.21

Vikan hálfnuð

Labbaði af stað í vinnuna í fyrra fallinu í gærmorgun því ég ákvað að fara lengri leiðina, framhjá flugvellinum og í gegnum Hljómskálagarðinn. Ég var að vinna á móttökuendanum á vélinni bæði fyrir og eftir morgunkaffi. Sú sem átti að vera á þeim enda eftir kaffi bað mig um að leysa sig af í smá stund og svo bað ég um að fá að vera áfram. Það kom sér ágætlega fyrir þá sem var í bókhaldinu og er að læra á mánaðamótauppgjör og reikningagerð. Eftir hádegi sorteraði ég kennispjöld til klukkan að verða þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima til rúmlega hálffimm og var óvenju lengi á milli heimilis og sundsstaðar. Fyrsta ferðin í þann kalda, um leið og ég kom út úr klefa, var korter yfir fimm. Þar fyrir var náungi sem kannast við mig og kalda potts vinkonu mína og hann sagði mér að það væri verið að bíða eftir mér. Ég ákvað því að sitja í kalda pottinum þar til vinkonan kæmi úr heita pottinum og sitja með henni. Það urðu átta mínútur í átta gráðu köldum pottinum. Vinkonan var að fara sína fjórðu ferð í pottinn en hún tók eina auka og svo fór ég sjálf eina ferð í viðbót áður en ég fór í gufu.

1.6.21

Glænýr mánuður

Það var vekjaraklukkan sem "ýtti" við mér stuttu fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Man að ég rumskaði á stjötta tímanum en ég steinsofnaði greinilega aftur. Eftir morgunverkin á baðinu gaf ég mér tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna. Fram að morgunkaffi var í pökkunarundirbúningi, flokkun kennispjalda og talningu. Eftir kaffi fór ég á vélina að "troða í" og sú sem hafði verið á þeim enda fram að kaffi færði sig á hinn endann og tók á móti. Eftir hádegi fór ég móttökuendann á vélinni og tók á móti rúmlega fimmtánhundruð kortum sem voru að endurnýjast. Klukkan var akkúrat þrjú þegar endurnýjunin kláraðist. Þá var aðeins eftir að ganga frá og tæta niður prentborða úr módúlum 6 og 7 á vélinni.

Fékk far heim úr vinnunni og stoppaði heima í tæpa klukkustund áður en ég tók með með sjósundsdótið og dreif mig í sjóinn við Nauthólsvík. Synti út að kaðli. Hefði reyndar getað vaðið alla leið en það er ekki hálft eins gaman þótt það sé fyndið að það sé hægt á fjöru. Kom heim rétt upp úr sex og eldaði pottrétt úr hakki. Eftir kvöldfréttir horfði ég á leik í átta liða útsláttarkeppni á EM U21 í knattspyrnu karla. Leikurinn var á Rúv2 og var milli Þýskalands og Danmerkur. 1:1 var eftir venjulegan leiktíma og hvort liðið skoraði eitt mark í framlengingunni svo það þurfti vítaspyrnukeppni til að ná fram úrslitinum. Það var í bráðabana, sjöttu spyrnu sem þýski markvörðurinn varði sína aðra vítaspyrnu en þjóðverjar skoruðu úr sinni spyrnu svo það fór 5:4 í vítum eða 7:6 í heildina. Mér skilst að það hafi líka verið spenna í hinum leiknum sem var spilaður á sama tíma. Sá leikur var milli Ítalíu og Portúgals. Ítalía lenti 3:1 undir en manni færri jöfnuðu þeir og það var framlengt. Veit svo reyndar ekki hvernig leikar enduðu. Fyrr um daginn voru hinir leikirnir í átta liða úrslitum spilaði, minnir mig milli fimm og sjö og amk annar þeirra fór í framlengingu.