25.4.08

- Síðasti föstudagur mánaðarins -

Ósköp er ég eitthvað orðin léleg við skriftirnar, þetta nær bara ekki nokkurri norðanátt. Það gerist alveg hellingur í kringum mig og ég hugsa annan eins helling en þegar kemur að því að setja þessar hugsanir eða þessa atburði niður í skrifað mál og gefa það út á netið þá vandast málið heldur betur. Stundum er það tímaleysi, stundum andleysi og stundum eitthvað allt, allt annað. En ef þetta andleysi fer ekki að lagast þá þarf ég að fara að huga að því að taka mér ævilangt bloggfrí og fara að sinna öðrum málum betur. Sjáum hvað setur. Góða helgi!

17.4.08

- Boð á tvær ballettsýningar -

Helga systir bauð mér á ballettsýningar dætra sinna sl. þriðjudag. Þær systur eru báðar í ballettskóla Eddu Scheving og fjöldinn af yngstu iðkendunum er svo mikill að hafa varð þrjár sýningar. Það er örugglega góð æfing fyrir eldri og lengra komna iðkendurnar því þeir voru á öllum þremur sýningunum. Bríet var í fyrsta atriði á sýningu tvö, þ.e. kom inn sem ein af stjörnunum að "leika" nótt þegar allar sólirnar voru búnar að sýna sitt atriði. Mátulega stutt atriði fyrir þennan forskólaaldurshóp og fannst mér takast vel til. Þrjár af afa og ömmu stelpum nágrannanna af neðri hæðinni voru í þessari sömu sýningu og sátu þau beint fyrir aftan okkur. Ég tók samt ekki eftir þeim fyrr en eftir sýningu (ein blind og utanviðsig). Tvær af stelpunum eru systur og á sömu árum og frænkur mínar. Hulda kom fram í fyrsta atriði eftir hlé á síðustu sýningunni og dansaði hún indíánadans með sínum hóp. Hún brosti svo breitt og fallega að maður gat ekki annað en brosað með og dáðst að henni. Takk Helga, Ingvi, Hulda og Bríet fyrir að bjóða mér á þessar flottu sýningar.

Á kóræfingu í gærkvöldi æfðum við fyrir léttmessu sem verður annan sunnudag. Skipta á flestum sálmunum út og m.a. syngjum við "Drottinn er minn hirðir" í röddum. Ég fæ að syngja altröddina að þessu sinni en ég stóð mig að því að raula smá með tenórnum.

12.4.08

- Í flugvélinni -

Flugið milli Íslands og Barcelona er rúmir fjórir tímar. Ég var með slatta af sudoku, krossgátum og eitthvað af bókum til að stytta mér stundirnar. M.a. tók ég eina afmælisgjöfina með mér út: Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalmann Stefánsson. Það er bók sem ég þarf að lesa aftur og aftur og aftur... Sagan greip mig þvílíkum tökum að ég las bókina tiltölulega hratt, vitandi það að þá færi samt ýmislegt framhjá mér, sem er í góðu lagi því þá líður ekki á löngu áður en ég gríp í bókina aftur. Ein úr hópnum komst að því að ég hef verulega gaman af sudoku og þann daginn sem við voru ekki að "þvælast" saman rakst hún á freistandi sudokubók og keypti aukaeintak handa mér. Það eintak var ég að ráða í nær allan tímann á leiðinni heim og það er samt nóg eftir af gátum enn. Og já, ég tók með mér handavinnutöskuna mína út en saumaði reyndar ekki eitt spor þar úti.

Seinni partinn í gær tók ég strætó upp á Kringlumýrarbraut við Suðurver, stormaði yfir í Margaretha/Altex og leysti út afmælisgjöfina mína frá mömmu og pabba. Frábær afmælisgjöf. Mig er búið að langa í þennan lampa mjög lengi en ekkert gert í því nema að láta mig dreyma. Davíð sótti mig þegar ég var kominn með böggulinn í hendurnar og hann setti upp lampann fyrir mig strax í gærkvöldi.

10.4.08

- Ég er ekki hætt -

Jæja, það er liðinn hálfur mánuður frá síðustu færslu. Mér finnst það samt ekki vera meira en hálf vika og þó hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því í síðasta mánuði. Það helsta er að við hjónin erum nýkomin úr helgarferð frá Barcelona. Flugum út klukkan sjö að morgni þann 3. apríl sl. Vorum komin á hótelið um miðjan dag. Tókum örstuttan göngutúr um nágrennið um kvöldið. Fyrri partinn á föstudaginn fórum við í borgarferð um borgina á vegum Heimsferða. Ferðin tók fjóra tíma og var komið við á helstu kennileitum borgarinnar og fengum við margar góðar vísbendingar um hvar væri hægt að eyða tímanum við að skoða staðina betur. Eftir borgarferðina slóumst við í för með öðru pari úr ellefu manna hópnum sem við fórum með út. Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að setjast inn og fá sér eitthvað að borða. Svo röltum við aðal-römbluna alla leið niður að sjó. Ætluðum í ferð með kláf upp í miðjar fjallshlíðar en það varð ekkert úr þeirri ferð þennan daginn. Á laugardaginn kíktum við á útimarkað rétt hjá hótelinu, skruppum líka í moll þar rétt hjá og ég leit aðeins inn í H&M. Þar var útsala í gangi og ég keypti nokkra stutterma og langerma boli á tvíburana. Seinna um daginn kíktum við í fiskasafnið og um kvöldið prófuðum við að borða á hótelinu. Það var alveg ágætt. Á sunnudeginum fórum við m.a. í kláfinn og um kvöldið borðaði allur hópurinn saman á stað sem hótelið mælti með við okkur. Ef við hefðum hugsað út í það hefðum við líklega getað komist á leikinn og séð Eið spila. Mánudagurinn fór eiginlega allur í heimferðina.