Síðustu vikuna í september síðast liðinn gisti góð vinkona, Lilja, í stofunni hjá mér áður en hún fór út til vetrardvalar á Kanaríeyjum. Þessa viku sem hún var hjá mér spurði hún mig nokkrum sinnum hvort ég myndi ekki koma og heimasækja hana. Seinni parinn í nóvember varð það úr að ég athugaði hvort það væri í lagi að ég kláraði sumarfrídagana mína frá því í fyrra um mánaðamótin jan/feb 2019. Það gekk eftir og ég bókaði viku ferð með WOW út þann 29. janúar með eina litla handfarangurstösku og heim þann 5. febrúar með ferðatösku. Með sköttum og forfallatryggingu kostaði þetta vel innan við 50 þúsund.
Á mánudaginn í síðustu viku fékk ég að hætta í vinnu um hálftvö. Tók strætó heim til að sækja bílinn og byrjaði á því að skreppa í "Eins og fætur toga" til að leggja inn pöntun fyrir nýjum innleggjum og kaupa mér nýja strigaskó. Ætlaði líka að kaupa mér auka 7mm púða undir vinstri hælinn en það gleymdist. Kom reyndar ekki að sök því ég átti til innlegg með upphækkun sem ég gat notað. Áður en þessi dagur var úti var ég líka búin að skreppa í sund og pakka mig saman. Tvíburahálfsystir mín kom við hjá mér upp úr klukkan fimm til að hjálpa mér að setja upp bókunarapp í símann og ég var búin að skrá mig inn í flugið með því appi og pósti frá wow áður en hún fór.
Morguninn eftir keyrði einkabílstjórinn minn á BSÍ rétt upp úr klukkan sex þaðan sem ég tók rútu upp á flugvöll. Vel gekk að koma sér í gegn en þótt ég hefði rúman tíma þá notaði ég hann einungis til að taka út 300 evrur úr hraðabanka en settist svo niður og beið þar til kominn var tími til að ganga um borð. Fékk mér hvorki vott né þurrt þessi tvö harðsoðnu egg og vatnsglas stóðu með mér alveg þar til boðið var upp á að kaupa sér hressingu um borð. Flugið út tók styttri tíma en reiknað var með og vorum við lent amk tuttugu mínútum á undan áætlun, það snemma að Lilja vinkona var ennþá í strætó á leiðinni að sækja mig og þurfti ég að bíða smástund eftir henni. Það urðu fagnaðarfundir þegar hún fann mig. Við byrjuðum á því að skreppa með dótið mitt "heim" til hennar í þorp sem heitir Vecendario sem er ekkert mjög langt frá flugvellinum. Lilja bauð mér upp á súpu og kaffi. Svo skruppum við aðeins út í búð til að kaupa helstu nauðsynjar fyrir næstu daga, m.a. BACH-hvítvínsflösku. Sambýlingur Lilju síðustu mánaða skrapp til Íslands með vélinni sem ég kom með. Hún var búin að vera rúmum mánuði lengur á Kanarí og þurfti að koma heim áður en liðnir væru 6 mánuðir frá því hún fór út til að halda ákveðnum réttindum hér heima. En í stað þeirrar konu var von á annarri með öðru flugfélagi sama kvöld og ég kom. Sú lánaði hinni íbúðina sína í viku og fékk herbergið hennar í staðinn. Við Lilja fórum saman út á flugvöll að sækja viðkomandi. Lögðum tímanlega af stað en nú brá svo við að það var seinkun í gangi og við biðum í hátt í tvo og hálfan tíma á vellinum. Það var svo sem í góðu lagi því það var hægt að setjast niður og fá sér smá hressingu. Það var svo ákveðið að taka leigubíl heim. Fórum ekki að sofa fyrr en fór að halla í miðnætti.
Við vorum vaknaðar og komnar á stjá rétt upp úr klukkan átta á miðvikudagsmorguninn. Gáfum okkur góðan tíma í fá okkur kaffi og staðgóðan morgunverð, gríska jógúrt með múslí og epli. Síðan fórum við allar þrjár út í göngutúr um Vecendario. Fórum m.a. upp á göngugötu sem Lilja sagðist kalla Laugaveginn, tæplega km löng. Við skoðuðum inn í margar búðir og ég keypti mér bakpoka, buxur og stuttbuxur. Við fórum líka á markað þarna í grenndinni sem er alltaf á miðvikudögum og margt að sjá og finna þar. Ég keypti ekkert þar en hinar tvær fjárfestu m.a. í allskonar hollustu nammeríi eins og möndlum, fíkjum, döðlum og fleiru.
Á fimmtudeginum fengum við okkur 45 mínútna göngutúr að öðru þorpi, Paya de Pozo izquario, sem er alveg við sjóinn. Þar stoppuðum við í góða stund og tvær af okkur skelltu sér í smá sjóbað. Héldum göngunni svo áfram, fundum aðra leið heim og vorum þá búnar að ganga í stóran hring. Seinni partinn skruppum við svo í Mollið í Vecendario.
Á föstudaginn tókum við strætó til Faro. Þar keypti ég mér sandala og strandmottu enda eyddum við góðum tíma á ströndinni þar. Lilja var sú eina sem ekki fór í sólbað og sjóinn en hún var með sessu og bók með sér og beið þolinmóð eftir okkur hinum tveimur.
Morguninn eftir vildi hinn gesturinn fara eigin leiðir og skoða aðra strönd í öðru þorpi en við Lilja tókum stærtó upp í fjöllinn og eyddum deginum í einu af efsta fjallaþorpinu sem var endastöð strætó. Það var mjög gaman að ferðast með strætó alla þessa leið og margt að sjá. Á mörgum stöðum þurfti bílstjórinn að flauta fyrir horn. Í þorpinu sjálfu var líka ýmislegt að skoða. Við prófuðum m.a. útiæfingatæki sem ætluð voru öllum eldri en 15 ára. Við vorum þau löngu búnar að skoða það helsta og einnig fá okkur hressingu áður brottfarartími vagnsins til baka (um sex) rann upp. En þatta var mjög skemmtilegur dagur sem endaði með smá Pizza-veislu heima í íbúð.
Á sunnudeginum var ætlunin að fara á markað stutt frá ensku ströndinni. Svæðið sem Lilja fór með okkur á reyndist autt og tómt en áður en við vorum búnar að ákveða framhaldið bar að þýskan mann sem er búsettur í nágrenninu helminginn af árinu. Hann vissi hvert var búið að flytja markaðinn og rölti með okkur þangað spjallandi við Lilju á sínu móðurmáli. Markaðurinn reyndist öðruvísi en við ætluðum, t.d. ekkert grænmeti til sölu bara alls konar varningur í misjöfnu ástandi. Hinn gesturinn fann reyndar afar flotta styttu af konu í flottum bláum kjól og prúttaði niður í 7 evrur. Alveg við markaðinn var kaffihús og þar bauð egypskur maður okkur að setjast hjá sér. Þegar kaffið okkar kom var svarta kaffið kalt og ódrekkandi og Abú skilaði þeim bollum og kom með heitara kaffi í staðinn. Hann krafðist þess líka að fá að borga fyrir kaffið en þegar hann bauð okkur á rúntinn með sér sögðum við hingað en ekki lengra. Þökkuðum pent fyrir og sögðumst vera ákveðnar í að fara fótgangandi á næsta áfangastað sem var Jumbó Center á ensku ströndinni. Þangað var nokkur spölur en mjög skemmtileg ganga þangað, þurftum að svindla okkur yfir götur á tveimur stöðum þar sem við sáum ekki gangbraut nálægt en þurftum yfir. Fengum okkur að borða á stað sem er stutt frá stað sem í mörg ár var kallaður Klörubar. Og þegar við héldum göngunni áfram á þann stað þar sem við tókum strætó til baka til Vecendario sá ég Europalace hótelið tilsýndar, hótelið sem ég og nokkrir af útskriftarfélögum úr FSu dvöldum á í hálfan mánuð fyrir 31 ári síðan.
Á mánudaginn löbbuðum við hinn hina leiðina að ströndinni við Pozo þar sem tvær af okkur fóru í sólbað og sjóinn áður en við löbbuðum aftur til baka. Skiluðum af okkur stranddótinu og fórum svo í stærstu Kína-búðina í Vecendario þar sem ég keypti m.a. stærri tösku sem ég gat bæði sett flugreyjutöskuna mína, mitt dót sem ég var ekki með í bakpokanum og einnig nokkuð af verkfærum sem Lilja keypti sér í London í haust á leiðinni til Kanarí. Kínabúðtaskan er fjólublá og flott og tók leikandi við þessu öllu og fór ekki yfir þyngdarmörkin 23kg vó uþb 21,5kg og ég náði þarna að bjarga Lilju svo hún þarf ekki að borga yfirvigt þegar hún tekur sig upp frá Vecendario.