31.3.16

Hálfhringur í Öskjuhlíð

Korter fyrir sjö í gærmorgun tók ég strætó, leið 13 fyrir utan Sunnubúð, í vinnuna eftir smá "páskasumarfrí". Vinnudagurinn leið hratt og örugglega og þegar byrjað er klukkan sjö er vinnudagurinn búinn um þrjú. Þá tók ég strætó beint heim, setti í þvottavél, hringdi í pabba og dreif mig svo í smá göngutúr. Ætlaði að reyna að fá Odd Smára með mér en hann var ekki alveg tilbúinn í þetta sinnið en fékkst í staðinn til að búa til kaffi.

Gönguleiðina lét ég símann minn rekja jafnóðum bæði til að sjá leiðina og lengdina eftir á. Labbaði upp að Perlu, framhjá henni og áfram niður hinum meginn og kom niður við HR. Þar beygði ég til hægri. Beygði aftur til hægri við Valssvæðið og hringurinn sem ég labbaði endaði í rúmum 3 km. sem ég var uþb 40 mínútur að labba. Þrátt fyrir að vera ekki með bakpoka var foss á bakinu á mér og varð ég að þurrka mér og skipta um bol um leið og ég kom heim aftur.

Hafði lax í matinn upp úr klukkan sex og um svipað leyti mættu tveir af spilafélögum bræðranna. Davíð Steinn kom heim úr skólanum stuttu síðar og hreiðruðu þeir allir um sig í holinu og spiluðu alveg til klukkan að ganga tólf.

Ég lauk við að lesa bókina sem ég gat um í gær og fannst hún mjög áhugaverð og skemmtileg. Vel skrifuð og skemmtilega sett upp.

30.3.16

Bókasafns- og sundferð í gær

Í gær var síðasti frídagurinn minn í bili. Var eitthvað að gæla við þá hugmynd að taka daginn mjög snemma og byrja á því að fara í sund. Þegar ég rumskaði um hálfsex þá ákvað ég að slökkva á vekjaranum sem var stilltur til að vekja mig tuttugu mínútum seinna (05:50) og sofa aðeins lengur. Rúmum tveim tímum seinna varð ég bæði hissa og fegin að hafa ekki drifið mig af stað því þegar ég leit út um stofugluggann var allt orðið hvítt og það snjóaði enn.

Það var ekki fyrr en um tvö sem ég dreif mig loks af stað, bæði með bókasafnspokann og sunddótið. Eftir að hafa sópað af bílnum lá leiðin fyrst í Kringlusafnið þar sem ég skilaði fjórum bókum. Fann mér fjórar í staðinn, þar af eina sem er með 14 daga skilafrest: "LITLAR BYLTINGAR" eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, bók sem mér var bent á um daginn. Setti bókasafnspokann í skottið á lánsbílnum og brunaði því næst í Laugardalinn, frekar spennt yfir að komast aftur í kalda pottinn. Mér fannst pínu kalt að labba út í laug en ég byrjaði á því að synda 300 metra áður en ég fór í þann kalda. Ég náði alveg að halda mér í honum í tvær mínútur þrátt fyrir að það væru þrjár vikur síðan ég fór síðast. Skrapp aðeins í "aðeins" heitari pott í nokkrar mínútur áður en ég fór aftur í þann kalda og var aðrar tvær mínútur. Ég kom heim aftur um fjögur afar ánægð með sjálfa mig.

Rúmum klukkutíma eftir að ég kom heim bauðst Davíð Steinn til að taka að sér eldamennskuna og þáði ég það með þökkum. Gat þá einbeitt mér að því að fylgjast með vináttuleiknum við Grikki sem fór betur heldur leikurinn við Dani um daginn. Hinn sonurinn tók svo að sér að ganga frá eftir matinn, heppin mamma ég! :-)

29.3.16

"Þriðji í páskum" ;-)

Vaknaði alltof snemma, að mér fannst, í gærmorgun eða upp úr sjö. Nennti ekki framúr strax en sofnaði ekkert aftur svo ég gafst upp á kúrinu og fyrir hlandblöðrunni á níunda tímanum. Fékk mér eitthvað að borða og þegar pabbi kom fram kveikti ég á kaffivélinni. Pabbi fékk sér reyndar ekki bolla. Á ellefta tímanum ákvað ég að fá mér göngutúr upp að Helluvaði og heimsækja föðursystur mína. Svolítið kalt þar sem hann var svolítið á móti mér en ég var ágætlega klædd og gat arkað þetta nokkuð hratt. Hún tók vel á móti mér. Hafði ekki orðið vör við er ég gekk fyrir eldhúsgluggann, svo niðursokkin var hún í kapalinn. Stoppaði í rúman klukkutíma áður en ég skottaðist "heim" aftur. Bræðurnir voru báðir vaknaðir og við fórum fljótlega að huga að heimferð. Oddur Smári fékk að keyra en í þetta sinn sat ég fram í og Davíð Steinn aftur í. Komum heim um tvö. Seinna um daginn, eftir snemmbúinn kvöldmat um sex, fór tilvonandi rafeindavirkji upp í skóla að vinna að verkefni. Hann var svo heppinn að bróðir hans fékk leyfi til að skutla honum.

28.3.16

Annar í páskum

Vekjarinn á símanum mínum hringdi stundvíslega klukkan korter fyrir sex í gærmorgun. Rúmum klukkutíma síðar mætti ég upp í kirkju aðeins í fyrra fallinu til að athuga hvort ég gæti aðstoðað eitthvað með undirbúning fyrir "maulið" eftir messuna. Það kom í ljós að sú vinna var í góðum höndum og þær hendur höfðu reyndar mætt í kirkjuna á laugardaginn til að raða borðum og leggja á þau á báðum hæðum. Það er erfitt að áætla hvað koma margir gestir. Kórstjórinn mætti rétt upp úr sjö og byrjaði að hita upp þá kórfélaga sem voru mættir. Allt í allt vorum við tíu, tveir í hvorri karlarödd og þrjár í hvorri konurödd. Í messunni spilaði organistinn/kórstjórinn eingöngu á orgelið og fyrir utan fjóra sálma þá var sungið upp úr hátðarguðsþjónustu á páskum, eftir Bjarna Þorsteinsson, af kórfélögum oft nefnt "Bjarnatónið". Höfum ekki sungið þetta á páskum í nokkur ár en okkur langaði til að gera þetta núna og tókst okkur bara ágætlega upp. Ég söng með sópraninum næstum eins og ekkert væri, beitti röddinni amk ekki vitlaust og kvefið virtist ekki koma að sök.

Um hálftvöleytið lögðum við mæðgin í hann austur fyrir fjall. Einkabílstjórinn fékk að keyra þrátt fyrir að hafa ekkert farið að sofa nóttina áður. Hinn ungi maðurinn hafði sofið rúma fjóra tíma. Hann fékk að sitja fram í á meðan ég sat þæg í aftursætinum og naut útsýnisins. Klukkutíma eftir að við komum austur til foreldra minna var kaffi. Davíð Steinn hjálpaði ömmu sinni svo að undirbúa forréttinn fyrir matarboðið um kvöldið en fyrir utan okkur fimm voru tvö boðin í viðbót. Þau mættu á svæðið upp úr hálfsjö. Mamma bauð upp á þríréttað, en eftirrétturinn var borðaður eftir "Hrúta" í sjónvarpinu. Við mæðgin ákváðum að vera fyrir austan yfir nóttina, þ.e. ég ákvað það en bræðurnir mótmæltu ekki þeirri ákvörðun.

27.3.16

"Fögnum og verum glaðir!"

Gleðilega páska!

Ég varð annars mjög glöð þegar ég fékk sms-skeyti frá norsku esperanto-vinkonu minni seint í fyrrakvöld þar sem hún spurði ma hvort ég myndi kíkja til hennar morguninn eftir. Ég svaraði játandi og var mætt til hennar um ellefu í gærmorgun. Reyndar kíktum við ekkert á esperanto en skiptumst aðeins lauslega á nokkrum frösum sem við kunnum vel. Í staðinn settumst við yfir nokkrar krossgátur. Í miðjum klíðum hringdi besti vinur minn til að kanna hvort ég yrði heimavið seinna um daginn svo hann og fjölskylda hans gætu gert sér ferð með smávegis sem ég keypti af eldri dóttur þeirra til styrktar keppnisferð í körfubolta í sumar.

Eftir að ég kvaddi Inger og áður en ég fór heim fór ég í smá verslunarleiðangur í Krónuna við Granda og svo alla leið í Kringluna þar sem ég ætlaði að erindast smá á vegum kórsins í Bónus. Það sem ég ætlaði að fá þar reyndist ekki til en mér var tjáð að það væri hægt að fá þetta í Hagkaup. Stormaði því þangað og keypti eitt egg no. 3 og 2x6 gullegg no 1. Kom svo að lokum við í Heilsuhúsinu og keypti mér stóra dós af kyolic hvítlaukshylkjum.

Heima gekk annar sonurinn frá vörunum og svo skiptu þeir bræður smá húsverkum á milli sín en ég skellti í vöfflur og kaffi og skar niður hnúðkál, gúrku og gulrætur þar sem ég átti eina dós af ídýfu síðan í galdramessunni um daginn. Gestirnir komu um fjögur og voru mæðgurnar að heimsækja mig í fyrsta sinn. Þetta varð hin notalegasta og skemmtilegasta stund en ég hefði mátt hugsa fyrir því að sækja stóla fyrir bræðurnar eða þeir að finna sér stóla. Annar þeirra hellti upp á nýtt kaffi og settist svo inn í stofu en hinn  kom aðeins fram til að heilsa og fór svo beint inn í herbergið sitt aftur og lokaði að sér. Fljótlega eftir að gestirnir kvöddu skutlaði ég bræðrunum í Kópavog  til eins ævintýraspilafélagans. Þorði ekki að lána þeim lánsbílinn ef þeir yrðu nú ekki komnir heim fyrir sjö í morgun þar sem til stóð að hafa "all-nighters"!

26.3.16

Flensan náði mér og lagði mig

Er enn að jafna mig á þessari leiðindapest sem lagði mig í rúma viku. Missti af einni kóræfingu og söng ekki með í galdramessunni þann 13. sl. Þá var ég reyndar ekki lögst og ég hjálpaði til við að uppvarta því það voru hlaðborð sem svignuðu á báðum hæðum og í kirkjuna mættu yfir hundraðogtuttugu manns. Viku seinna þann 20. mars var fyrsta fermingarmessana og þá var ég fjarri góðu gamni. Að vísu orðin hitalaus en treysti ekki röddinni. Varð og verð reyndar enn frekar þurr í hálsinum við að tala eða reyna að raula og átti það til að fá óstöðvandi hóstakast ef ég reyndi of mikið. Sl. miðvikudag ákvað ég prófa að mæta á kóræfingu, enn óviss með hvort ég hefði stjórn á röddinni. Munnþurrkurinn er enn til staðar en ég gat sungið með sópraninum alveg skammlaust. Í gærkvöldi tók ég svo þátt í kvöldvökunni í kirkjunni, þar sem píslarsagan var lesin og kórinn söng á milli kafla. Flest einraddaðir sálmar fyrir utan einn en ég söng sálm no 143 sem sópran.

Hef ekki enn þorað að fara í sund en það eru tvær vikur og þrír dagar síðan ég fór síðast. Ætla að bíða með að fara þar til eftir páska. En ég þrái það afar heitt að komast í kalda pottinn sem fyrst og þetta sundogkaldapotts-stopp gerir sennilega það að verkum að það styttist enn frekar í að ég "fleygi" mér í sjóinn og fari að prófa að stunda sjósund.

10.3.16

Án sérstaks titils

Dagarnir þjóta hratt framhjá og ég nýti þá misvel. Það er amk ljóst að það fer ekki mikið fyrir skrifunum í augnablikinu. Ég fór ekkert í sund á mánudaginn en var mætt rétt upp úr hálfsjö á þriðjudagsmorguninn. Hitti Lenu þegar ég var búin að fara tvisvar í kalda pottinn og ég náði einni ferð með henni áður en ég fór smástund í sjópottinn. Í gær fór ég svo í sund eftir kóræfingu og sótti nýja sundkortið í leiðinni. Ég les og sauma ekki eins mikið og oft áður en ég hef oft tekið mislangar pásur í þeim efnum. Það gæti verið að ég sé að ofhugsa suma hluti en í augnablikinu finnst mér ég vera í hlutlausum gír, sem líklega er bæði gott og slæmt. Ég er samt á því að ákveða að hafa sem minnstar áhyggjur, taka einn dag í einu en vona jafnframt að svörin fari að koma til mín. Ég er ekki beint að bíða eftir neinu sérstöku, velti ákveðnum hlutum fyrir mér og finnst stundum að ég sé ekki alveg nógu stefnuföst. Og nú spyr ég mig hvort þessar pælingar séu nokkuð til að birta...??? Svörin eru bæði já og nei. Dæmigerður fiskur ég  :D

6.3.16

Helgin senn á enda

Þegar ég fór í sund um hálfsjö fyrir vinnu á föstudagsmorguninn lenti ég í smá brasi með sundkortið. Rétt áður hafði kona reynt að nota útrunnið kort og var að láta athuga það í afgreiðslunni. Ég fékk hins vegar græna ör til í fyrstu en komst samt ekki í gegn og þegar ég reyndi aftur komu upp skilaboð um að nýlega væri búið að nota kortið. Ég fór því einnig með kortið til skoðunnar í afgreiðsluna. Okkur var hleypt inn og ég fékk kortið aftur í hendurnar, eða það hélt ég. Þegar ég ætlaði að nota það rétt upp úr átta í gærmorgun voru skilaboðin þau að engin "miði" væri á kortinu, og það sem á að gilda fram í nóvember. Ég leit á kortið og sá það að það var skráð á e-a Ólöfu. Semsagt smá framhaldsvesen. Ég fór því afgreiðsluna og sagði frá hremmingum mínum. Það er nokkuð ljóst að hin konan hlýtur að hafa verið Ólöf og að hún hafi fengið mitt kort. Það var ákveðið að panta nýtt kort handa mér, sem mun hafa sama gildistíma, og þarf ég ekki að borga fyrir þar sem þetta voru mistök af hálfu einnar afgreiðslustúlku sundlaugarinnar. Í millitíðinni fékk ég í hendurnar yfirlýsingu um að verið sé að panta handa mér nýtt kort og ég eigi að fá rautt ÍTR armband sem er um leið aðgangur inn. Nú voru sumir stafirnir í millinafninu mínu á sundkortinu farnir að mást út svo það má eiginlega teljast heppilegt að ég hafi lent í þessu "veseni". Nýja kortið fæ ég svo sennilega á þriðjudag eða miðvikudag. Ég notaði sundferð gærdagsins afar vel. Synti í tæpan hálftíma, fór fjórum sinnum í kalda pottinn og var svo góða stund í sjópottinum eftir síðustu kaldapottsferðina. Þegar ég sat svo í "sólbaði" rétt fyrir tíu, stuttu áður en ég ætlaði upp úr heyrði ég allt í einu sagt; "Þessa þekki ég!" Ég leit upp og svaraði með breiðu brosi og sagði; "Já, og ég þekki þig líka!" Um var að ræða stelpu frá Hellu sem nú er bóndafrú norður í landi.

Í morgun veifaði ég "leyfisbréfinu" framan í ungan mann í afgreiðslunni í laugardalslauginni um hálfniu og fékk strax afhent rautt armband sem ég notaði aðeins til að opna leiðina inn að klefa og svo aftur til að hleypa mér út sex korterum seinna. Synti eitthvað svipað og í gær en nú var kaldi potturinn lokaður svo ég lagði mig í bleyti í sjópottinum í dágóða stund. Fór heim og gekk frá sunddótinu en stoppaði ekki við nema svo sem eins og klukkustund því ég ákvað að drífa mig í heimsókn austur til foreldra minna. Var komin þangað um eitt. Eftir kaffi skrapp ég á tvo staði, m.a. til fyrrum nágranna pabba og mömmu sem eru nú á elliheimilinu. Þau tóku mér fagnandi og eru merkilega hress miðað við að vera fædd árin 1920 (hann) og (hún) árið 1927. Ég kom aftur heim rétt upp úr klukkan tíu í kvöld.

4.3.16

Já góða daginn, mars er byrjaður fyrir nokkrum dögum

Google-"reikningurinn" var eitthvað að stríða mér í upphafi mánaðar. Þeir vilja setja allt undir einn hatt og "einfalda" málin en fyrir mér eru breytingar oft á tíðum frekar flóknar þótt inn á milli sé ég ágætlega dugleg við að tileinka mér eitt og annað "nýtt af nálinni". Ætla ekki að hafa þessa færslu mikið lengri þar sem ég er að undirbúa mig undir smá viðburð í kvöld. Líklega er ég heldur ekki komin í mitt venjulega skrifstuðsflæði, ef eitthvað er hægt að kalla venjulegt við mín skrif.