Korter fyrir sjö í gærmorgun tók ég strætó, leið 13 fyrir utan Sunnubúð, í vinnuna eftir smá "páskasumarfrí". Vinnudagurinn leið hratt og örugglega og þegar byrjað er klukkan sjö er vinnudagurinn búinn um þrjú. Þá tók ég strætó beint heim, setti í þvottavél, hringdi í pabba og dreif mig svo í smá göngutúr. Ætlaði að reyna að fá Odd Smára með mér en hann var ekki alveg tilbúinn í þetta sinnið en fékkst í staðinn til að búa til kaffi.
Gönguleiðina lét ég símann minn rekja jafnóðum bæði til að sjá leiðina og lengdina eftir á. Labbaði upp að Perlu, framhjá henni og áfram niður hinum meginn og kom niður við HR. Þar beygði ég til hægri. Beygði aftur til hægri við Valssvæðið og hringurinn sem ég labbaði endaði í rúmum 3 km. sem ég var uþb 40 mínútur að labba. Þrátt fyrir að vera ekki með bakpoka var foss á bakinu á mér og varð ég að þurrka mér og skipta um bol um leið og ég kom heim aftur.
Hafði lax í matinn upp úr klukkan sex og um svipað leyti mættu tveir af spilafélögum bræðranna. Davíð Steinn kom heim úr skólanum stuttu síðar og hreiðruðu þeir allir um sig í holinu og spiluðu alveg til klukkan að ganga tólf.
Ég lauk við að lesa bókina sem ég gat um í gær og fannst hún mjög áhugaverð og skemmtileg. Vel skrifuð og skemmtilega sett upp.