Líkt og oftast áður var ég vöknuð löngu á undan vekjaraklukkunni (um hálfníu) í gærmorgun en hafa ber í huga að klukkan var stillt á tíu svo ég hefði örugglega góðan tíma til að undirbúa mig fyrir messuna klukkan tólf. Undirbúningurinn var reyndar frekar léttur. Fá mér eitthvað að borða, dressa mig aftur upp í kjólinn góða sem ég keypti á Spáni í sumar, setja á mig varalit og fara í peysu, kápu og skó. Var mætt í kirkjuna fimm mínútum áður en messan hófst og vorum við Inga Dóra (kórfélagi minn til nokkurra ára) beðnar um að "stjórna" upprisunum þar sem við sátum á næstfremsta bekk og enginn var fyrir framan okkur. Fengum til þess alt-útgáfuna af messu á jóladag, svokallað Bjarnatón, og auðvitað sungum við þá með altinum. Auk þess las Inga Dóra fyrri ritningalesturinn og frænka hennar þann síðari. Þetta var jafn hátíðleg messa og daginn áður og það setti punktinn yfir i-ið að hlusta á Helgu Hansdóttur (móður Ingu Dóru, formann KÓSÍ og varaformann safnaðarstjórnarinnar) segja frá uppvaxtarárum sínum, m.a. frá jólahaldi um og upp úr miðri síðustu öld. Henni sagðist vel frá.
Strax eftir messuna dreif ég mig heim til að sækja strákana. Það tók samt smá stund að taka sig til því þótt við ætluðum aðeins að stoppa fram á kvöldið þá þurfti ég að taka ýmislegt með. Að þessu sinni ákvað ég að keyra, einkabílstjórinn sat í framsætinu við hliðina og N1 strákurinn fyrir aftan hann. Ferðalagið gekk vel og strax og við komum var öllum safnað saman í stofuna því þar biðu nokkrir pakkar undir jólatrénu eftir að verða opnaðir, flestir þeirra til mín reyndar en strákarnir fengu hvor sinn pakkann frá afa sínum og ömmu. Ég fékk hvorki fleiri né færri en þrjá pakka frá foreldrum mínum, baðsnyrtivörur, sjal og töfrasprota. Eftir að hafa opnað alla pakka og þakkað fyrir okkur fórum við systur í að útbúa kaffiborð inni í eldhúsi. Borðið var stækkað, dúkað og sparidiskar teknir fram. Helt var upp á, og svo voru ýmsar kræsingar tíndar til. Eftir kaffið stóð til að fara í spilabingó en það færðist mikil ró yfir mannskapinn og bingóinu var frestað fram yfir kvöldmat. Ég var með prjónana mína með og á nú einungis örfáar umferðir eftir af sjali sem ég hef verið að prjóna með hléum frá því í október.
Pabbi setti upp kartöflur seinna um daginn, dúkaði borð í stofunni og lagði á það. Mágur minn bjó til uppstúf, kalt hangiket var skorið niður og rauðkál og grænar baunir boðnar með. Einnig var boðið upp á hefðbundið jólaglundur sem og vatn. Þegar búið var að ganga frá eftir matinn voru teknar þrjár umferðir í spilabingói. Pabbi var bingóstjóri og við vorum fimm sem tókum þátt, við mæðginin, systir mín, mágur og yngri dóttir þeirra sem var búin að bíða eftir þessu allan daginn. Mamma hafði lagt sig aftur, en hún þarf mikið að hvíla sig þessa dagana, enda kannski ekkert skrýtið miðað við hvað hún er búin að ganga í gegnum.
Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar við mæðgin tókum okkur saman, þökkuðum fyrir okkur og héldum heim á leið. Ég vildi keyra sjálf, einkabílstjórinn sat fyrir aftan mig og N1 strákurinn við hliðina á mér. Það var leiðinlega blint megnið af leiðinni og þæfingur í Kömbunum og alveg niður undir Litlu kaffistofuna þannig að ég keyrði ekki mjög hratt en það var samt bara á einum stað sem ég hélt að bíllinn myndi ekki komast í gegn. Hann stoppaði þó aldrei alveg og skilaði okkur alla leið heim rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi.