30.12.16

Síðasti vinnudagur þessa árs var í dag

Báðir synir mínir voru á tólf tíma vakt í gær. Ég var farin út úr húsi á undan þeim og byrjuð að synda áður en þeir tóku strætó um sjö upp í Breiðholt og Kópavog. Þegar ég kom heim úr sundi nýtti ég morguninn nokkuð vel og verðlaunaði mig svo með því að sökkva mér niður í bók af safninu á eftir. Hringdi líka í pabba og í þrjá aðra. Foreldrar mínir komu í bæinn í gær eingöngu til að láta kíkja á hvernig hægri úlnliðurinn á mömmu hefðist við. Þetta ku vera í áttina en pinnarnir voru ekki teknir og hún þarf að koma aftur eftir viku.

Um þrjúleitið hringdi ég í norsku esperanto vinkonu mína og okkur kom saman um að ég skyldi drífa mig yfir til hennar með esperantobækurnar. Við lásum þrjár blaðsíður í Kontiki. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni við Granda. Náði að fara heim og ganga frá þeim vörum áður en ég náði í Skeljungsstrákinn í vinnuna. N1 strákurinn er með strætókortið svo hann var ekki sóttur en hann var ekkert að gera veður út af því.

Náði að ljúka við að lesa bókina; Aukaverkanir, um kvöldið og var það hin ágætasta afþreying. Hafði ætlað mér að klára að prjóna sjalið þar sem ég á bara eftir að prjóna tvær umferðir áður en ég felli af en það vannst ekki tími til þess.

29.12.16

Auka frídagur :-)

Það gleymdist að greina frá því í pistli gærdagsins að ég skrapp á bókasafnið næstum strax eftir vinnu í fyrradag. Hafði fengið áminningu um að skilafrestur á nokkrum bókum væri að renna út. Ég skilaði fimm bókum í Kringlusafnið, framlengdi skilafrestinn á sex bókum og auðvitað komu fjórar bækur að auki með mér heim þrátt fyrir að ég hafi fengið þrjár bækur í jólagjöf. Já, ég veit, ÉG er BÓKAORMUR mikill.

Bækurnar sem ég fékk í jólagjöf eru; Aflausn, Ljósin á  Dettifossi og Heiða. Bækurnar sem komu heim með mér af safninu eru, Klingevals, Júlíana Jensen og Ofan vatns eftir Jane Aamund og Mei mí beibísitt? æskuminningar úr bítlabænum Keflavík eftir Mörtu Eiríksdóttur. Þær sex sem ég framlengdi um annan mánuð eru af ýmsum toga, helmingurinn eftir íslenska höfunda, Iðunni Steinsdóttur (Hrólfssaga), Ólaf Hauk Símonarson (Aukaverkanir) og Einar Kárason (Skálmöld). Ein af hinum þremur er Ég læðist fram hjá öxi eftir Beate Grimsrud. Ó, já það er veisla framundan hjá mér.

Annars var ég mætt í sund rétt upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun og var afar glöð að sjá að það var komið vatn í kalda pottinn. Byrjaði þó á því að synda í góðan hálftíma áður en ég stakk mér á bólakaf í þann kalda. Úr kalda pottinum fór ég í sjópottinn og svo í gufuna í smá stund. Var komin heim aftur um hálfníu. Þá var einkabílstjórinn að rumska, N1 strákurinn var farinn í vinnu enda á tólf tíma vakt en virku dagana í þessari viku átti Skeljungsstrákurinn að vera á tíu til sex vakt. Hann skutlaði mér í vinnuna um hálftíu og hringdi svo klukkutíma seinna til að tilkynna mér að hann gæti ekki sótt mig aftur þar sem hann hafði verið beðinn um að vinna til hálfátta. Ég mætti annars þetta seint í mína vinnu til þess að sitja yfir þeim sem yfirfara vélina mánaðarlega. "Afhentum" þeim framleiðsluvélina um tvö og þeir voru búnir rétt fyrir sex. Ég ætlaði að nota tímann milli fjögur og sex til að fara að huga að áramótavarahlutalagertalningu en sá það fljótlega að það væri betra að gera það í enn meira næði. Er eiginlega búin að semja um að vinna svipaðan vinnudag og í gær í fyrstu vinnuvikunni á nýju ári.

28.12.16

Fæðingardagur föðurafa míns heitins (1894-1972) í dag

Þar sem N1 strákurinn átti frídag í gær fékk Skeljungsstrákurinn strætókortið og ég fór á bílnum í mína vinnu. Við vinnum engar vaktir þessa virku daga milli jóla og nýjárs en það er alltaf einhver einn sem er að taka út frídag sem við fáum aukalega í boði fyrirtækisins. Nóg er að gera og áður en ég vissi af var vinnudagurinn liðinn og ég á leiðinni heim aftur. Skeljungsstrákurinn kom heim um hálfsjö og fljótlega hafði ég kvöldmatinn til. Frétti það fyrst þá að þeir bræður væru boðnir í bíó af einum sem þeir eru búnir að þekkja síðan í 6 ára bekk í Ísaksskóla. Reyndar ákvað Skeljungsstrákurinn að sleppa bíóferðinni og halda sig heima, of seint var fyrir hinn bróðirinn (sem er ekki enn kominn með bílpróf) að taka strætó í bíó svo ég ákvað að skutlast með hann og var hann kominn tvær mínútur fyrir á staðinn. Hann gat þó nýtt sér strætókortið heim eftir bíó.

27.12.16

Virkur dagur

Í gær opnaði Laugardalslaugin klukkan tólf. Ég ákvað að drífa mig þangað um það leyti. Margt var um manninn en það urðu þó engir árekstrar í lauginni. Kaldi potturinn var ennþá tómur og sjópotturinn fullur svo ég skrapp aðeins í gufu áður eftir sundsprettinn. Þegar ég kom heim hellt ég upp á kaffi, þeytti rjóma, hræði í vöfflur og bjó til. Og ég sem hafði ætlað mér að gera helst lítið annað en að lesa og hafa það rólegt. En svona skyndiákvarðanir eru samt góðar. Strákarnir fengu lánaðan bílinn um sex leytið til að skreppa í fjölskyldujólaboð til pabba síns. Ég hélt til í stofunni með prjóna og bækur við hendina en festist svo alveg fyrir framan imbakassann. Kvöldið leið hratt eins og allur dagurinn og jólahelgin.

26.12.16

Annar í jólum

Líkt og oftast áður var ég vöknuð löngu á undan vekjaraklukkunni (um hálfníu) í gærmorgun en hafa ber í huga að klukkan var stillt á tíu svo ég hefði örugglega góðan tíma til að undirbúa mig fyrir messuna klukkan tólf. Undirbúningurinn var reyndar frekar léttur. Fá mér eitthvað að borða, dressa mig aftur upp í kjólinn góða sem ég keypti á Spáni í sumar, setja á mig  varalit og fara í peysu, kápu og skó. Var mætt í kirkjuna fimm mínútum áður en messan hófst og vorum við Inga Dóra (kórfélagi minn til nokkurra ára) beðnar um að "stjórna" upprisunum þar sem við sátum á næstfremsta bekk og enginn var fyrir framan okkur. Fengum til þess alt-útgáfuna af messu á jóladag, svokallað Bjarnatón, og auðvitað sungum við þá með altinum. Auk þess las Inga Dóra fyrri ritningalesturinn og frænka hennar þann síðari. Þetta var jafn hátíðleg messa og daginn áður og það setti punktinn yfir i-ið að hlusta á Helgu Hansdóttur (móður Ingu Dóru, formann KÓSÍ og varaformann safnaðarstjórnarinnar) segja frá uppvaxtarárum sínum, m.a. frá jólahaldi um og upp úr miðri síðustu öld. Henni sagðist vel frá.

Strax eftir messuna dreif ég mig heim til að sækja strákana. Það tók samt smá stund að taka sig til því þótt við ætluðum aðeins að stoppa fram á kvöldið þá þurfti ég að taka ýmislegt með. Að þessu sinni ákvað ég að keyra, einkabílstjórinn sat í framsætinu við hliðina og N1 strákurinn fyrir aftan hann. Ferðalagið gekk vel og strax og við komum var öllum safnað saman í stofuna því þar biðu nokkrir pakkar undir jólatrénu eftir að verða opnaðir, flestir þeirra til mín reyndar en strákarnir fengu hvor sinn pakkann frá afa sínum og ömmu. Ég fékk hvorki fleiri né færri en þrjá pakka frá foreldrum mínum, baðsnyrtivörur, sjal og töfrasprota. Eftir að hafa opnað alla pakka og þakkað fyrir okkur fórum við systur í að útbúa kaffiborð inni í eldhúsi. Borðið var stækkað, dúkað og sparidiskar teknir fram. Helt var upp á, og svo voru ýmsar kræsingar tíndar til. Eftir kaffið stóð til að fara í spilabingó en það færðist mikil ró yfir mannskapinn og bingóinu var frestað fram yfir kvöldmat. Ég var með prjónana mína með og á nú einungis örfáar umferðir eftir af sjali sem ég hef verið að prjóna með hléum frá því í október.

Pabbi setti upp kartöflur seinna um daginn, dúkaði borð í stofunni og lagði á það. Mágur minn bjó til uppstúf, kalt hangiket var skorið niður og rauðkál og grænar baunir boðnar með. Einnig var boðið upp á hefðbundið jólaglundur sem og vatn. Þegar búið var að ganga frá eftir matinn voru teknar þrjár umferðir í spilabingói. Pabbi var bingóstjóri og við vorum fimm sem tókum þátt, við mæðginin, systir mín, mágur og yngri dóttir þeirra sem var búin að bíða eftir þessu allan daginn. Mamma hafði lagt sig aftur, en hún þarf mikið að hvíla sig þessa dagana, enda kannski ekkert skrýtið miðað við hvað hún er búin að ganga í gegnum.

Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar við mæðgin tókum okkur saman, þökkuðum fyrir okkur og héldum heim á leið. Ég vildi keyra sjálf, einkabílstjórinn sat fyrir aftan mig og N1 strákurinn við hliðina á mér. Það var leiðinlega blint megnið af leiðinni og þæfingur í Kömbunum og alveg niður undir Litlu kaffistofuna þannig að ég keyrði ekki mjög hratt en það var samt bara á einum stað sem ég hélt að bíllinn myndi ekki komast í gegn. Hann stoppaði þó aldrei alveg og skilaði okkur alla leið heim rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi.

25.12.16

Jóladagur

Var mætt í Laugardalinn um það leyti sem verið var að opna klukkan átta í gærmorgun. Kaldi potturinn er ennþá tómur þannig að ég synti í hálftíma, lét líða úr mér í sjópottinum og gufunni á eftir og settist síðan stutta stund í "sólbað". Var komin heim um tíu. Upp úr hádeginu fór ég með síðustu jólakortin. Fór fyrst vestur í bæ, tók á móti öðru korti í staðinn, knúsaði mæðgurnar en stoppaði ekkert. Síðan lá leiðin til "tvíburahálfsystur" minnar. Þar ætlaði ég rétt að stoppa og þyggja smá knús, kaffi og spjall. Stoppið teygðist upp í næstum einn og hálfan tíma en það var alveg í góðu lagi því ég var ekkert í tímaþröng. Hafði nokkuð góða stund heima áður en ég klæddi mig upp á og fór í kirkju klukkan fjögur. Það var falleg og góð stund þrátt fyrir að tímasetningin væri allt annað en hefðbundin því eftir því sem ég best veit hefur aftansöngur á aðfangadag alltaf verið klukkan 18 í óháða söfnuðinum. Strákarnir voru að búa sig undir að fara til pabba síns og ég lánaði þeim bílinn þegar ég kom heim aftur, fyrir klukkan fimm. Afgangurinn af aðfangadeginum og kvöldinu leið ótrúlega hratt. Var ekki með neina sérstaka uppskrift en ég kveikti þó á kertum og gerði svo aðeins það sem mig langaði til að gera. Opnaði ekki bögglana mína fyrr en um átta og þar sem síðasti böggllinn var með jólakortunum tók ég þau með inn í stofu og beið ekki með að opna þau og lesa allar góðu, hlýju kveðjurnar. Og vá hvað ég fékk fallegar og góðar gjafir, hittu allar beint í mark. Pabbi hafði beðið mig um að hringja aftur um kvöldið þegar ég sló á þráðinn fyrr um daginn og ég hlýddi því og heyrði fyrst í systur minni og svo honum. Gat m.a. tilkynnt honum að ég hefði fengið jólakortið þeirra mömmu frá Inger og Per, danska vinafólkinu. Umslagið var stílað á mig og mitt heimilisfang, kveðjan í kortinu var til pabba og mömmu en inni í kortinu var einnig bréf til mín. Gaman að þessu. Verð að muna að taka þetta með mér austur á eftir.

24.12.16

Kaldi potturinn í Laugardalnum ennþá tómur

Fyrr í vikunni var ég ekki viss um að fá neina skötu á Þorláksmessu. Þar sem ég er ekki í mataráskrift í vinnunni hef ég engan rétt til þess að skreppa í mötuneytið dags daglega. Yfirleitt er mér alveg sama. Áður en reglunum var breytt þannig að maður yrði annað hvort að vera í fullri áskrift eða sleppa því alveg fór ég sjaldan oftar upp í matsal en tvisvar í viku. Fór eiginlega aðeins þá daga sem var fiskur á boðstólum. Í gær ákvað ég að lauma mér upp með þremur öðrum starfsfélögum mínum og vera fulltrúi þess fjórða sem er í mataráskrift en var í fríi í gær. Ég mætti engum hindrunum og fékk dásamlega vel kæsta skötu með kartöflum, rófum og hömsum.

Eftir vinnu ætlaði ég að koma bögglum og kortum til Brynju vinkonu. Hún var hins vegar ekki heima. Ég náði í hana í síma og við ákváðum að hún kæmi til mín þegar hennar erindum væri lokið. Annar ungi maðurinn var að vinna en hinn sonurinn var ennþá sofandi þegar ég kom heim. Fljótlega ákvað ég að taka fram ryksuguna og vonaði að það yrði til þess að strákurinn vaknaði og kæmi fram því ég hafði hug á því að fá hann til að aðstoða mig aðeins. Kannski vaknaði stráksi, en hann kom ekki fram svo ég ákvað að bjarga mér alveg sjálf. Lenti í smá kröppum dansi við þunga rúmdýnuna en að sjálfsögðu vann ég þann slag.

Brynja kom upp úr klukkan fjögur, kom inn í stutta stund en svo ákváðum við að skreppa aðeins út. Vorum ekkert búnar að ákveða hvert eða hvað við ætluðum að gera. Þar sem við fengum ágætis stæði stutt frá Pottinum og Pönnunni ákváðum við að kíkja þar inn og vorum með kaffi og kannski eitthvað létt í huga. Nú finn ég ekki lykt þannig að ég fann ekki skötuilminn sem tók á móti okkur. Þjónninn sem vísaði okkur til sætis að það væri hægt að fara á skötuhlaðborð og innifalið í því var einnig súpa,sallat og kaffi. Við skelltum okkur á þetta tilboð og vorum hæst ánægðar. Þetta kostaði 3690 kr. fyrir manninn og borgaði ég fyrir Brynju og hún fyrir mig.

Á eftir kíktum við aðeins við í Hagkaup í Skeifunni. Það vantaði m.a. handsápu á mitt heimili. Því miður var ég ekki með skrifaðan lista. Ekki það að ég var ekki að fylla körfuna af alls konar heldur gleymdi ég að kaupa það sem vantaði. Brynja skilaði mér heim fyrir klukkan níu. Skeljungs-strákurinn var kominn heim og hinn var búinn að elda eins og ég hafði reyndað beðið hann um að gera. Þann rétt get ég smakkað síðar nema drengirnir verði búnir að klára hann áður. Davíð Steinn ákvað að skreppa í Sunnubúðina fyrir lokun og keypti þar m.a. handsápu.

23.12.16

Síðasta vinnudegi fyrir jól lokið

Í gær var  hvorugur ungu mannanna að vinna svo ég notaði strætókortið milli heimilis og vinnu og var mikið fegin að sleppa við að sópa af lánsbílnum og skafa. Auðvitað komu svo skilaboð frá Atlantsolíu um 13 kr. afslátt. Kom heim fyrir hálfþrjú og fór fljótlega út að sópa og skafa af bílnum eingöngu til þess að skreppa og fylla á hann. Seinna um daginn lánaði ég svo bræðrunum bílinn svo þeir þyrftu ekki að burðast með marga böggla í strætó. Ég hafði það kósý heima og ákvað að vera ekkert að stressa mig á neinum húsverkum í bili. Miklu skemmtilegra að lesa og náði ég að klára bókina um Kiliansfólkið eftir Einar Kárason. Mikið sem mér finnst ég annars miklu lengur að lesa heldur en áður. Hugsanlega þarf ég að fara að láta mæla í mér sjónina.  Ég hef reyndar aldrei notað gleraugu við lestur, reif þau alltaf af mér ef ég leit í bók eða blöð. En nú eru margar vikur síðan ég setti gleraugu á nefið á mér, þarf þau ekki einu sinni við aksturinn. En það kemur fyrir að ég er smá stund að stilla fókusinn.

22.12.16

Sitt lítið af hverju

Þriðja daginn í röð fór ég á lánsbílnum í vinnuna. Lánaði Oddi nefnilega strætókortið en hann var að leysa af á tólf tíma vakt í Breiðholtinu. Davíð Steinn var kominn í nokkurra daga jólafrí og mátti sofa út. Vinnudagurinn minn þessa vikuna byrjar klukkan sjö eins og ég er líklega búin að skrifa um áður. Hætti og kvaddi á slaginu tvö og dreif mig beint í sund.

Varð pínu svekkt þegar ég sá að kaldi potturinn í Laugardalnum var tómur. Synti aðeins 300, skrapp í smá stund í sjópottinn og gufuna en dreif mig svo upp úr og heim. Fattaði ekki að ég lagði við hliðina á pabba sem hafði komið að stuttu áður en ekki náð sambandi við unga manninn sem var heima. Pabbi komst inn með mér og ég benti honum á að nú hefði verið gott fyrir hann að ef hann hefði verið áfram með lyklana að íbúðinni, sem hann skilaði daginn sem mamma fór í síðustu geisla fyrir um fjórum vikum. Mamma hafði annars farið í eftirskoðun vegna þeirrar meðferðar í gærmorgun og fengið ágætar fréttir. Hún var komin dagdeild bæklunardeildar í Fossvogi e-n tímann eftir hádegi í gær og þar var hún þar til hún komst að með úlnliðsbrotið sem þurfti að laga. Um hálfsex bættust mágur minn, eldri systurdóttir og vinkona hennar í hópinn. Það var ekki fyrr en um tíu sem pabbi mátti fara á vöknun til mömmu. Þar sem hann vissi ekki hvort hún gæti eða mætti koma austur eða hversu langan tíma þetta tæki þá biðu mágur minn og frænka áfram hjá okkur mæðginunum en vinkonan var sótt fljótlega. Mamma vildi fá að fara heim og fékk leyfið og þau lögðu öll fjögur í hann  austur á tólfta tímanum.

21.12.16

Vetrarsólstöður

Fór aftur á bíl í vinnuna í gærmorgun. Það teygðist örlítið á vinnutímanum en strax eftir vinnu sótti ég Odd Smára heim og við skruppum alla leið í Smáralindina. Fundum það sem hann vantaði og aðeins meira til. Skilaði syninum aftur heim en fór sjálf í heimsókn til vinkonu sem vann með mér á árunum 2000-2005. Færði henni jólakort og nokkur kerti. Stoppaði hjá henni í hátt í klukkustund áður en ég fór loksins heim. Var með bleikjurétt í matinn rétt fyrir sjö en eftir mat lánaði ég Oddi bílinn  svo hann kæmist í bíó með hluta af föðurfjölskyldunni í Egilshöll. Davíð Steinn kom heim á níunda tímanum. Hann hafði sent mér skilaboð um að hann yrði búinn að borða þegar hann kæmi heim. Merkilegt hvað hann sleppir oft að borða þegar er fiskur í matinn.  :-)  

20.12.16

Smá hraðferð á logninu seinni partinn í dag

Báðir synir mínir voru á 12 tíma vakt í gær. N1 ungi maðurinn var með strætókortið, hinn sonurinn var að leysa af á Skeljungsstöðinni á Sæbraut við Langholtsveg og fór einnig með strætó og ég fór á lánsbílnum í mína vinnu. Ég fór út á undan strákunum því mín vakt hófst klukkan sjö. Strax eftir vinnu, upp úr klukkan tvö, kom ég við á Hárhorninu með eitt jólakort til afmælisbarns gærdagsins áður en ég fór í sund.

Eftir að ég kom heim fór ég að vinna í að "smíða" tilkynningu í moggann, á vegginn og heimahöfnina vegna aðfanga- og jóladag. Hafði sent fyrirspurn um innihald til Péturs, Árna og Helgu og eftir að hafa fengið viðbrögð frá tveimur fyrrnefndu sendi ég uppkast til sömu aðilla til yfirlesturs. Fékk jákvæð viðbrögð frá prestinum og varaformanni safnaðarstjórnarinnar en ekkert "heyrðist" frá organistanum. Í millitíðinni sótti ég Skeljungsstrákinn og kom við í Krónunni við Nóatún á heimleiðinni þar sem virkjaði nýja debetkortið mitt.

19.12.16

Nokkrar línur um helgina

Á föstudagsmorguninn "skrópaði" ég í sundi en hafði þá verið búin að fara daglega í sund í meira en tvær vikur. Var með rauða kortið og tók strætó í vinnuna korter fyrir eitt með gjöf með mér. Klukkan eitt var hálfsmánaðarlegi fundurinn með framkvæmdastjóranum sem afhenti okkur m.a. jólagjafirnar. Fljótlega eftir að þeim fundi lauk söfnuðumst við saman frammi á kaffistofu. Búið var að dekka borð og þar kenndi ýmissa grasa. Eftir að hafa gert góðgerðunum skil var jólahúfa með númeruðum miðum upp í níu, jafnmörgum og við vorum sem og pakkarnir sem voru á öðru borði, látin ganga. Eftir þessa stund kvaddi morgunvaktin en við á síðdegisvaktinni fórum að huga að fyrirliggjandi verkefnum. Náðum að klára eitt þeirra áður en klukkan varð sjö.

Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta morguninn eftir. Náði klukkutíma heima eftir sundið áður en ég fór í esperantohitting. Á þessum klukkutíma byrjaði ég að undirbúa austurför. Synirnir voru báðir komnir á stjá er ég kom til að sækja farangurinn fyrir ferðina austur. Lagði í hann rétt upp úr klukkan tvö og var komin austur um kaffileytið. Við pabbi fóru í að hjálpa mömmu að ganga frá dóti í stóra herberginu. Það tók nú ekki langan tíma og á eftir settist niður í stofunni með prjónana mína. Pabbi hafði dýrindis lax í matinn og þar sem ég hafði tekið með mér hvítvínskassann frá því í fríhöfninni í sumar fékk ég mér eitt glas með matnum. Kvöldið notaði ég svo til að ljúka við jólakortaskrifin þetta árið og ég fyllti tvisvar á vínglasið.

Í gærmorgun gerði ég heiðarlega tilraun til að sofa út en ég var vöknuð miklu, miklu fyrr en ég ætlaði mér. Um hálfellefu labbaði ég upp að Helluvaði og heimsótti föðursystur mína. Þegar ég kom þaðan heyrðist mér á pabba að þar sem veðrið ætti að versna þegar líða tæki á daginn vildi hann að ég færa að huga að heimferð. Það stóð aldrei til að ég yrði lengur en fram að kaffi en þar sem ég var ákveðin í að koma við á einum stað á Selfossi á leiðinni heim kvaddi ég foreldra mína rétt fyrir eitt. Það var vel tekið á móti mér í Fossheiðinni að vanda, ég var nokkuð viss um að þar yrði einhver heima og var því ekkert búin að hringja á undan mér.

Kom í bæinn um hálffjögur. Byrjaði á því að setja flest öll jólakortin í póstkassa við pósthúsið í Síðumúla. Horfði á úrslitaleik í EM kvenna og hélt að sjálfsögðu með Þóri Hergeirssyni. En ég er á morgunvakt framan af þessari viku, 7-14 og því betra að fara að koma sér í ró svo ég verði fersk um sex í fyrramálið.

16.12.16

Aftur kominn föstudagur

Vikan mín á 13-19 vakt er senn á enda. Aðeins þessi vinnudagur eftir. Í gær fékk mótvaktin mín aðra af morgunvaktinni til að skipta við sig um vakt svo hún kæmist í jarðaför. Ég og sú sem skipti um vakt höfum unnið saman í ellefu ár en skv. núverandi vaktaplani þá erum við aldrei saman á vakt svo gærdagurinn var skemmtilega spes fyrir vikið. Að vísu lentum við í smá hremmingum í framleiðslunni en við hefðum reyndar klárað það sem lá á og lá fyrir ef við hefðum ekki verið stoppaðar af, vegna e-s konar prófana, rétt fyrir klukkan sex.  Í staðinn náðum við að ganga frá  nokkru fyrir klukkan sjö og leyfðum okkur að stinga af korteri á undan áætlun. Það ætti að vera í góðu lagi því það er nefnilega ósjaldan sem þetta er frekar á hinn veginn að maður er búinn að skila vinnutímaskyldunni en kemst ekki strax vegna alls konar atvika og verkefna.

Mamma er heldur skárri og hún fann leið til að laga rúmdýninuna þannig að hún halli frekar inn á við og þar af leiðandi minni hætta á að "leka" niður á gólf þegar hún er að fara framúr.

15.12.16

Desember um það bil hálfnaður

Kveikti aðeins örstutt á tölvunni í gærmorgun og ekkert í gærkvöldi þar sem ég skrapp út fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnu á áttunda tímanum og fór svo beint í háttinn þegar ég kom heim upp úr klukkan tíu. Rútínan er svipuð hjá mér þessa dagana, sund, heimilisstúss, lestur, vinna, slökun og passa upp á að fara ekki of seint í háttinn. Ég er byrjuð á jólakortaskrifunum, þrátt fyrir að eiga eftir að föndra líklega í kringum tíu kort. Fann listann sem ég notaði í fyrra og get notað hann aftur þetta árið með örlitlum breytingum. Var svo séð að setja ártalið í fyrra fyrir ofan merkidálkinn og svo er ónýttur annar dálkur þar við hliðina sem ég skráði 2016 fyrir ofan.

Mamma er léleg þessa dagana, orkuleysið vegna geilsameðferðarinnar er mikið. Sem betur fer getur hún sofið, legið og hvílst en svo á hún það til að lenda í vandræðum þegar hún þarf að fara framúr. Eins og staðan er búin að vera undan farnar vikur er mjög líklegt að það sé enn þónokkur tími sem aðeins er hægt að hugsa um einn dag í einu. Þau pabbi eru algerar hetjur að mínu mati og í pabba huga eru engin vandamál aðeins lausnir á verkefnum.

Prófaði að hafa mat í hádeginu í gær mér til gagns og gleði. Sauð bygggrjón, skar niður kúrbít, sæta kartöflu, sveppi, rauðrófu og gulrót og setti í eldfast fat. Setti tvö bleikjuflök ofan á grænmetið og kryddaði með sítrónupipar, svörtum pipar og hvítlauksdufti og setti inn í 150° ofn í ca 30 mínútur. Þessi réttur var bæði fallegur og góður en það er algerlega mitt mat þar sem synirnir eru ekki búnir að smakka ennþá.

Davíð Steinn fékk strætókortið í gær og þegar leið að því að ég ætti að mæta til vinnu ákvað ég að vekja einkabílstjórann og fá hann til að skutla mér. Oddur Smári fór eina ferð í Sorpu seinni partinn í gær. Hann þurfti ekki að sækja mig í vinnuna. Ég hefði líklega labbað heim ef mótvaktin mín hefði ekki boðið mér far. Þáði farið með þökkum svo ég hefði smá stund heima áður en skrapp í heimsókn til föðursystur minnar.

13.12.16

Castle-kvöld í kvöld

Í gærmorgun var ég mætt í Laugardalinn ca tíu mínútum eftir að var opnað í laugina. Synti 500, fór tvisvar í þann kalda, einu sinni í 42°C og aðeins í sjópottinn. Gufuklefinn er lokaður alveg fram á næsta föstudag. Kom heim rétt upp úr átta og þá var Oddur Smári að leggja af stað í skólann til að taka síðasta prófið á misserinu. Það ringdi svo ég sá aumur á syninum og skutlaði honum. Hann labbaði svo heim eftir prófið.

Ég skrapp í Kringluna til að fjárfesta í nýju þriggja mánaða strætókorti, eitthvað af frímerkjum og einu enn sem ég segi kannski frá síðar. Heima byrjaði ég á jólabréfi til Janis, enskrar vinkonu minnar til margra ára en við kynntumst í gegnum AFS þegar við vorum unglingar og byrjuðum okkar vinskap á að skrifast á. Þegar við vorum rúmlega tvítugar kom hún og ein vinkona hennar í heimsókn til Íslands. Þær gistu á farfuglaheimili og fóru amk einn svona "gullna-hring-ferðamanna túr" en mig minnir að við höfum hist nokkrum sinnum á þessum tíu dögum sem þær voru hérna. Skruppum m.a. austur á Hellu.

Davíð Steinn var á frívakt í gær svo ég notaði nýja kortið og var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan eitt. Átti að vera að vinna til sjö en klukkan var langt gengin í átta þegar við síðdegisvaktin gátum gengið frá og hætt. Fékk far heim hjá mótvaktinni minni. Ákvað að geyma frekari bréfa og jólakortaskrif aðeins lengur og horfði á "Svikamillu" frá því á sunnudagskvöldið áður en ég fór að sofa.

12.12.16

Tólfti, tólfti, sextán

Helgin var fljót að líða en ég gat engu að síður nýtt hana nokkuð vel.  Var mætt í Laugardalslaugina strax klukkan átta á laugardagsmorguninn. Eftir nokkuð hefðbundna rútínu hafði ég rúman klukkutíma áður en ég skrapp yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Okkur gekk vel í "tímanum", lásum tvær og hálfa blaðsíðu í Kontiki og þurftum ekki að fletta svo mörgum orðum upp.

Kvaddi Inger rétt fyrir eitt og skrapp í Krónuna áður en ég fór heim. N-1 strákurinn var á helgarvakt og tilvonandi tölvunarfræðingur var á sýningu upp í Tækniskóla.  Ég gekk því frá vörunum áður en ég hringdi í pabba og lét hann vita að ég ætlaði að koma austur um hádegisbil daginn eftir, á sunnudeginum. Síðan hrærði ég í hálfa uppskrift af heilhveitivöfflum og þrefalda af kornfleksmarenskökum. Bjó til kaffi og við Oddur fengum okkur af vöfflunum með því um kaffileytið. Öðrum bakstri lauk um fimm. Þá gerði ég klukkutíma pásu áður en ég fór að stússast aftur í eldhúsinu og huga að kvöldmatnum. Í kringum kvöldmatarleytið hringdi pabbi í mig og sagði að það hefði komið babb í bátinn. Mamma hafði dottið og únliðsbronað og var á leiðinni á Selfoss með sjúkrabíl. Þar átti að skoða hana og ákveða hvort hægt yrði að búa um brotið þar eða hvort þyrfti að senda hana alla leið í bæinn. Pabbi hringdi aftur á ellefta tímanum til að segja mér að hann mætti sækja mömmu á Selfoss.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð Steini á N1 við Stórahjalla upp úr hálfníu og fór svo í sund. Stoppaði ekki lengi heima eftir sundið, rétt til þess að ganga frá sunddótinu og taka smávegis af smákökunum og handavinnuna mína með. Var komin á Hellu rétt fyrir tólf og var þar þar til klukkan var langt gengin í níu. Mamma svaf mest allan daginn en rúllaði einu sinni fram úr rúminu. Gat látið vita áður en hún datt alveg niður á gólf en pabbi gat ekki reist hana upp og varð að láta hana setjast alveg á gólfið. Þar sem hún er svo aum í öllum líkamanum náði pabbi í eigin uppfinningu af talíu út í skúr og notaði dyrakarminn til að hífa hana það hátt upp að hún gat tillt í fætur og staðið upp. Alveg magnað að fylgjast með þessu en mikið sem mig langaði til að taka "snapp" af þessari björgun og senda systur minni og sonum mínum. Ég féll samt ekki í þá freistni heldur aðstoðaði við þessa björgun.

9.12.16

Föstudagur enn á ný

Hvernig fer tíminn eiginlega að því að æða svona áfram? Þar sem N-1 drengurinn minn hafði lofað að taka aukavakt seinni partinn í gær ákvað ég að skilja rauða kortið eftir heima og fara á lánsbílnum í vinnuna rétt fyrir hádegi í gær. Ekkert stæði var laust á neðra planinu svo ég lagði í gjaldstæði á Skúlagötunni og hefði ég mátt hafa bílinn þar alveg til klukkan að verða tíu núna í morgun. Við seinni vaktin leystum af á framleiðsluvélinni rúmlega tólf. Klukkutíma seinna gengum við öll vel frá og skruppum yfir í Hörpuna að fá okkur kaffi saman. Þær tvær sem voru á morgunvaktinni kvöddu að þessum kaffifundi loknum en við hin fórum aftur að vinna.

Þegar ég kom heim aftur upp úr klukkan sex freistaðist ég til að sleppa allri eldamennsku og fékk einkabílstjórann til að panta og sækja 3 bökur á Saffran. Horfði á Kiljuna frá því kvöldinu áður en gerði mest lítið annað. Dreif mig í háttinn um tíu svo ég var líklega búin að sofa í tæpa átta tíma þegar vekjaraklukkan vakti mig í miðjum draumi rétt fyrir sex í morgun.

8.12.16

KÓSÍ hittingur í gærkvöldi

Gærdagurinn byrjaði á sundferð strax um hálfsjö. Náði því að fara tvisvar í kalda pottinn og gaf mér líka góðan tíma í sjópottinum í spjall við pottavinkonu. Við urðum samferða í gufu og settumst meira að segja í "sólbað" um stund rétt áður en við fórum upp úr um átta.
Ég var með rauða kortið í gær og var mætt í vinnu á slaginu tólf. Við, seinni partsvaktin, hættum framleiðslu og gengum frá um sex.  Vann þó aðeins lengur því það komu varahlutir um daginn og þar sem það tók því ekki að fara heim en ekki var tímabært að mæta á jólaglögg KÓSÍ notaði ég tímann til að skrá inn hlutina og ganga frá þeim.

Rölti svo aðeins um í bænum. Skrapp inn í Eymundsson við Austurstræti og staldraði einnig góða stund við svellið við Ingólfstorg. Bankaði upp á hjá nöfnu minni og Arnlaugi manni hennar aðeins fyrir auglýstan tíma. Ég var auðvitað langfyrst en það var tekið á móti mér opnum örmum. Alls bættust fimm við og þá vorum við samankomin átta, rúmlega helmingurinn af hópnum. Áttum mjög góða stund saman enda leið tíminn afar hratt. Fékk einkabílsstjórann til að sækja mig upp úr ellefu og við komum við á Atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð á heimleiðinni.

Klukkan var víst orðin tólf áður en ég fór að sofa í hausinn á mér en engu að síður var ég vöknuð um sex í morgun og tilbúin að drífa mig í sund, sem ég og gerði.

7.12.16

17 dagar til jóla

Labbaði báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær. Fór að heiman rétt fyrir hálftólf og var mætt rétt fyrir tólf. Sex tímar og reyndar uþb hálftími betur voru ekki lengi að líða enda nóg að gera. Lagði af stað heim aftur um hálfsjö. Einkabílstjórinn var búinn að redda sér kvöldmat og N1 hinn ungi maðurinn var að vinna til hálfátta og búinn að ákveða að hitta vin strax á eftir þar sem það er frívakt í dag.  Ég átti sem betur fer afgang af bleikjurétti frá því kvöldið áður. Eftir að hafa nært mig og fengið Odd til að ganga frá tók ég fram mest allt jólakortaföndurdótið mitt og fór með inn í stofu. Ég náði aðeins að búa til eitt og hálft kort því þegar Castle byrjaði gerði ég verkfall og einbeitti mér að þættinum. Var aðeins lengur að koma mér í háttinn heldur en kvöldin tvö á undan en ég var nú samt sofnuð löngu fyrir klukkan ellefu.

Jólakortaföndurdótið er ennþá inni í stofu og var ætlunin að búa til amk eitt og hálft kort í viðbót. En einhvern veginn virðist tíminn vera að fara í allt annað mis-skynsamlegt. Ég ætla því að fela allt í hendurnar á "stillilögmálinu" og fara eftir mottóinu í desemberspá hinnar dásamlegu Siggu Kling: "Ekki gera það í dag sem þú getur gert eftir viku."

6.12.16

Einmitt það já!

Ég var vöknuð á undan vekjaraklukkunni í morgun. Hafi sem betur fer verið skynsöm og farið að sofa upp úr klukkan tíu svo ég fékk nánast átta tíma svefn. Gærdagurinn var annars svolítið köflóttur, en á góðan máta samt. Sá dagur byrjaði á sundferð, kom heim um hálfníu, nýtti tímann í alls konar bæði skynsamlega og líka í smá facebook-leiki. Fékk einkabílstjórann til að skutla mér í vinnuna rétt fyrir tólf. Vann til sex og labbaði beint heim yfir Skólavörðuholtið. Hafði til kvöldmat, sem þegar til kom, var eiginlega aðeins fyrir sjálfa mig því annar strákurinn fór til pabba síns og hinn var að vinna til hálfátta. Horfði á Svikamillu frá því á sunnudagskvöldið og las svo um stund í einni bók eftir Einar Kárason.

5.12.16

Nýkomin úr sundi

Þessa vikuna verður vinnutíminn minn frá klukkan tólf. Þar sem ég er yfirleitt vöknuð fyrir sex hef ég hugsað mér að byrja alla næstu morgna á því að fara í sund. Hitti N-einn strákinn minn er ég kom fram í morgun. Hann var að undirbúa sig undir að fara á 12 tíma vakt. Ég fór út á undan og var byrjuð að synda ca korter í sjö í morgun. Synti í um tuttugu mínútur eða 500 metra. Skellti mér beint í kalda pottinn í um þrjár mínútur og á leiðinni í sjópottinn hitti ég hana Sigrúnu og við röbbuðum heilmikið og heillengi í saltinu, færðum okkur svo yfir í gufubaðið og enduðum á því að sitja smá stund á bekk, í "sólbaði" eins og ég kalla það. Ég kom heim um hálfníu.

Í gærkvöldi var aðventukvöld í kirkjunni "minni". Mjög metnaðarfull dagskrá en ég verð að segja það að það fór aðeins of mikið fyrir söngnum, flottur og góður og allt það, en dagskráin í heild með öllu, líka hugvekju Einars Kárasonar, tók einn og hálfa tíma. Strax á eftir var fólk beðið um að stíga út fyrir og taka þátt í afhjúpun á þakklætis steini til hjóna úr söfnuðinum fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu safnaðarins. Hún er fallin frá fyrir hátt í tveimur árum en hann var á staðnum, vissi ekki neitt um þetta. Eftir þessa stuttu stund var fólki boðið inn aftur og upp á smákökusmakk í efri salnum.

4.12.16

Ekki svo viss um að skriftarhléi sé alveg lokið

Jæja, um fjórir mánuðir síðan ég skrifaði eitthvað niður á þessum vettvangi. Hitti eina jafnöldru mína seinni partinn í ágúst sem spurði hvort ég væri hætt að blogga. Ég var frekar hissa á spurningunni því ég veit ekkert hversu margir voru/eru að kíkja á bloggið mitt reglulega, fyrir utan eina sem er afar tryggur aðdáandi. Hún passar sig á að vera ekkert að reka á eftir mér með skrifin en hún lætur mig líka vita hversu ánægð hún er þegar ég byrja að skrá niður þanka og daglegar athafnir reglulega. Hún veit að ég er ekki mikið fyrir að tuða eða vera með væl eða neikvæðni, hvað þá að skrá of mikið niður af venjlegum húsverkastörfum, en ég er búin að láta vita að þetta hlé er alls ekki útaf neinu svoleiðis.

Ég vil halda því fram að ég sé heppin og að ég sé sífellt að verða færari í að grípa daginn og njóta 
augnabliksins. Kannski er ég að blekkja sjálfa mig? Þetta með að reyna að nýta tímann sem best og njóta hefur einhvern veginn lítið verið nýttur í hannyrðir og lestur, þó ég sleppi því aldrei alveg, tók td upp á því að grípa í prjóna í haust til að prjóna sjal eftir ákveðnu mynstri. Gæti verið búin með það ef ég hefði ekki prjónað miðjumynstrið aðeins of oft svo ég  sá fram á að ég ætti ekki nóg garn. Er loksins búin að kaupa aukahnotu en nú er svo sannarlega að koma tími á að hespa af jólakortaframleiðslu og skrifum.

Hvað er ég eiginlega þá að gera við tímann? Ja, stórt er spurt og ef ég get ekki svarað því sjálf, getur það enginn. Sjáum til hvort ég næ að vekja skrifaandann aftur og vonandi þá vísuandann í leiðinni.