26.2.10

- Vinnuvikan alveg að klárast -

Það er kominn föstudagur enn á ný og bara nokkrir klukkutímar og helgin eftir af febrúarmánuði. Hef ekki sest með saumana mína síðan á þriðjudagskvöldið. Hafði ætlað mér að sauma amk í klukkustund í gærkvöldi en mest kvöldið fór svo í lestur. Kláraði bókina "Óheillakráka" eftir Camillu Läckberg og nú bíð ég spennt eftir að komast yfir "Ástandsbarnið" eftir sama höfund sem og "Lofkastalann sem hrundi" eftir Stieg Larsson. En ég á líka alveg eftir að lesa allar jólabækurnar enn svo ég er ekkert að flýta mér að reyna að nálgast þessar bækur. Þær eru mjög vinsælar og enn á skammtímalánum, nema í bókasafninu á Hellu. Þar eru þær til í kilju uppi í hillu og á 30 daga skilafresti (sem örugglega mætti framlengja um mánuð).

25.2.10

- Syngjandi fjör -

Æfðum fyrir jazzmessuna n.k. sunnudag á kóræfingu í gærkvöldi. Það var mikið fjör og mikið gaman. Við munum líklega syngja flest lögin/sálmana í röddum. Þótt vel hafi gengið í gær var ákveðin aukaæfing á laugardagsmorguninn kemur. "Drottinn er minn hirðir", "Ég er hjá þér, ó, Guð", Ó, leið mig þá leið", "Þú ert mitt athvarf, Guð" og "Leitið hans ríkis" er m.a. það sem kórinn mun syngja. Það verða líka trommuleikari og saxafónleikari sem munu spila undir með Árna. Ég hlakka til messunnar og á alveg von á því að það verði mikil sveifla.

24.2.10

- Vikan hálfnuð -

Marsmánuður er handan við næstu helgi. Ekki var skrifað á umslög í gærkvöldi. Davíð sagðist vilja taka saman heimilsföng og póstlista á alla fyrst og strákarnir fengu að verða í pc-tölvunum til tíu og þá vorum við dottin í að horfa á skíðakrosskeppni alveg til hálfellefu að við skiptum yfir á "The las enemy". Strákarnir hafa beðið um að fá að bjóða tveimur af vinum sínum í veisluna. Annar af þessum tveimur ætlar ekki að láta ferma sig en hinn ætlar að bjóða tvíburunum í sína veislu sem verður hálfum mánuði fyrir þeirra veislu. Náði þó að sauma í eins og hálftíma í gærkvöldi. Fermingadrengur no II er alltaf að koma meira og meira í ljós.

23.2.10

- Þriðjudagur -

Kom við í Sunnubúð á leið heim í gær og keypti bjúgu, kartöflur og grænar baunir en Davíð hafði lagt það til um morguninn er ég spurði hann hvað ég ætti að hafa í matinn um kvöldið. Hitti söngfuglinn þegar ég var að ljúka við innkaupin en hann var að leggja í hann á kóræfingu. Ég vissi ekki betur en við hjónin yrðum bæði að heiman um kvöldið svo ég ákvað að koma strákunum á óvart. Mánudagar eru að öllu jöfnu tölvulausir dagar en ég sagði strákunum að þeir mættu vera í tölvunni í tvo tíma um kvöldið ef þeir tækju nú til á gólfinu inni hjá sér. Söngfuglinn var kominn heim á undan karatestráknum af æfingu og frétti þetta þá. Hann var svo glaður að hann fór strax í tiltektarmálin eftir að hafa borðað og skildi ekkert mjög mikið eftir handa bróður sínum. Davíð lenti í smá linsuvandamálum þannig að það endað með að hann var heima um kvöldið. Strákarnir fengu samt sína tölvustund. Ég fór í heimsókn til vinkonu minnar sem býr í Árbænum og tók saumana mína með. Höfðum svona míní-saumaklúbb en ein af okkur komst ekki vegna veikinda svo við ákváðum eiginlega að fresta saumaklúbbnum um viku en hittast samt tvær. Ég náði að ljúka við að sauma hendurnar og halda aðeins áfram með jakkann og skyrtuna á fermingadreng no II. Vona að ég geti sest niður smá stund með saumana í kvöld en megnið af kvöldinu fer örugglega í að skrifa utan á umslög og loka boðskort í tvíburafermingu inni í þeim.

22.2.10

- Hulda 10 ára -

Systurdóttir mín er tíu ára í dag. Mikið sem tíminn flýgur. Hittumst öll hjá pabba og mömmu seinni partinn á laugardaginn og vorum með smá þorrablót í bláendann á þorranum. Bríet er búin að missa fyrstu tönnina sína. Davíð fór eitthvað að gantast í henni og spurði hvað hefði eiginlega komið fyrir, afhverju hún væri búin að missa tönn. Það stóð ekki á svarinu hjá þeirri stuttu: "Pabbi minn reif úr mér tönnina!" Hið rétta er að tönnin var orðin svo laus að foreldrarnir voru hrædd um að barnið myndi gleypa hana einn daginn. Ingvi fékk að skoða tönnina, rétt kom við hana og tönnin datt úr.
Um morguninn höfðum við Davíð fylgt karatestráknum á hóp- og einstaklingskeppni í kata sem var haldið í íþróttahúsinum Fjörgyn í Grafarvogi. Maður sér alveg framfarir hjá stráknum en í báðum keppnunum lentu þeir/hann á móti besta liðinu/einstaklingnum og töpuðu. En það gengur bara betur næst.
Annars fór ég á bókasafnið strax eftir vinnu á föstudaginn var og skilaði tveimur bókum. Önnur bókanna var með tveggja vikna skilafrest sem var að renna út svo það var ekki seinna að vænna. Labbaði einn hring en fann ekkert sem vakti áhuga minn og í annað skiptið á stuttum tíma fór ég tómhent út úr safninu. En ég er með eina eftir sem ég er að lesa og einnig nokkrar esperantobækur. Svo á ég líka alveg eftir að lesa jólabækurnar. Nú ég þarf líka að vera dugleg að setjast niður með saumana mína....

19.2.10

- Vikan að klárast -

Enn einn föstudagurinn runninn upp, sá næstsíðasti í þessum mánuði. Í tvo daga í röð hef ég ekki tekið upp saumana mína. Ég vona að það þýði ekki að ég lendi í tímahraki um miðjan næsta mánuð. Tvíburarnir voru báðir heldur betur eftir sig eftir öskudaginn og fóru hvorugir á æfingu í gær. Ég var samt eitthvað svo innstill á það að það þyrfti ekki að vera tilbúinn matur fyrr en upp úr hálfátta svo ég var ekkert farin að hugsa út í matarmálin þegar Davíð kom heim um hálfsjö. Ég græddi nú heldur betur á því, því hann tók að sér að sjá um matarmálin. Karatestrákurinn fór snemma í rúmið en júdókappinn og söngfuglinn minn var á fótum þar til klukkan var byrjuð að ganga ellefu. En um það leyti sem hann fór að sofa leygðum við Davíð okkur myndina: "Stúlkan sem lék sér að eldinum"
Framundan er karatekeppni hjá Oddi og svo ætlum við að halda smá þorrablót með pabba, mömmu, systir minni og hennar fjölskyldu. Ekki seinna að vænna þar sem góan byrjar um helgina.

18.2.10

- Fjör á kóræfingu -

Tvisvar lagði ég af stað heim eftir vinnu í gær. Var hálfnuð upp götuna þegar ég uppgötvaði að ég var með vinnusímann í vasanum en ekki gemsann. Snéri við á punktinum. Leið mín lá fyrst í Eymundsson að kaupa línustrikuð blöð og 0.5 mm blý fyrir strákana. Þegar ég kom heim byrjaði ég á því að hengja upp úr þvottavélinni. Fjórir strákar voru í heimsókn hjá bræðrunum og allir voru þeir að leika sér í tölvunum. Ég kastaði kveðju á strákana og ákvað að leggja mig í uþb hálftíma. Var tilbúin með matinn (ofnbakaða bleikju með grjónum og lauksmjöri) upp úr klukkan hálfsjö og kom Davíð heim einmitt um það leyti. Klukkutíma síðar var ég mætt á kóræfingu. Við byrjuðum m.a. að æfa fyrir jazzmessuna sem verður þann 28. n.k; "Ó, leið mig þá leið" Og nú er ég með það lag á heilanum. Æfðum einnig "Maríukvæði" "Heyr himnasmiður" og fleiri. Við sungum líka yfir "Ísland ögrum skorið" og "Hærra minn Guð til þín". Inn á milli æfðum við alltaf frasa úr fyrst nefnda laginu svo það er kannski ekkert skrýtið þótt það haldi áfram að hljóma og laumist fram á varirnar inn á milli.

17.2.10

- Saumað í -

Settist niður með saumana mína um níu í gærkvöld og sat með þá í góðan klukkutíma. Lauk við andlitið á fermingarstráknum sem ég er að sauma núna og byrjaði á jakkanum. Vonandi næ ég svo að setjast niður við saumana eftir kóræfingu í kvöld.
Karatestrákurinn sagði frá því um það leiti sem hann var að leggja af stað á æfingu að hann ætti að mæta á aukaæfingu klukkan korter yfir átta. Við Davíð settum upp plan. Hann skutlaði júdókappanum á æfingu upp úr sex. Kom heim með hinn í mat rúmlega sjö og skutlaði honum aftur í Þórshamar stuttu áður en hann þurfti að sækja hinn. Karatestrákurinn kom svo labbandi heim rétt fyrir tíu.
Þeir bræður rifu sig á fætur upp úr klukkan sjö í morgun. Von var á hluta af vinum þeirra rétt fyrir hálfníu og þeir ætluð í strætó saman til eins vinarins og vera saman sem hópur í dag. Davíð Steinn gat notað búninginn sinn frá því í fyrra og Oddur Smári ætlaði að vera í karategallanum sem þýðir að ég verð að setja hann í þvottavélina í kvöld því það er æfing hjá kappanum á morgun.

16.2.10

- Fundir og útsaumur -

Strax eftir vinnu í gær lá leið mín í Pfaffhúsið á Grensásveginum. Á meðan söngfuglarnir æfðu hittumst við flestar í stjórninni og fórum í gegnum umsækjendur í hópstjórastöður í fyrirhugaða utanferð næsta sumar og skiptum strákunum upp í átta hópa. Eins og sumir voru búnir að kvíða fyrir þessu þá gekk þetta bara mjög vel og ég held að allir verði nokkurn veginn sáttir. Auðvitað gátu ekki allir umsækjendur fengið stöður en það fara átta út og voru valdi tveir til vara ef það verða forföll.
Ég ætlaði mér að vera dugleg að sauma seinni fermingadrenginn í gærkvöldi en klukkan var að verða tíu þegar ég settist loksins niður. Náði samt að sauma slatta á meðan ég fylgdist með seinni fréttum sjónvarpsins og ólympíuleikunum á eftir. Andlitið er því sem næst búið (hárið kláraðist um helgina) og næst er það jakkinn. Ég stefni að því að vera búin með báða drengina eftir 4-5 vikur (í kringum 20. mars).
Annars vorum við Davíð að koma úr foreldraviðtölum við kennara drengjanna. Þeir voru einnig viðstaddir, söngfuglinn í fyrri tímanum og karatedrengurinn í þeim seinni. Sá fyrrnefndi er að standa sig aðdáunarlega vel á meðan hinn hefur dalað og virðist ekki nenna að hafa fyrir hlutunum. Hann lofaði samt að taka sig á og breyta þessu.

15.2.10

- Helgin liðin -

Febrúar er hálfnaður og verður sjálfsagt liðinn áður en maður veit af. Sótti Helgu systur um hálfníu á laugardaginn. Við brunuðum á Hellu til pabba og mömmu og voru svo samferða þeim á Keldur eftir að hafa þegið smá kaffi. Útför föðursystur minnar hófst klukkan hálftólf hálftíma fyrir voru spiluð allskyns lög á orgelið. 10 félagar úr fóstbræðrum sungu og prestur var séra Guðbjörg Arnardóttir. Athöfnin var látlaus og falleg. Á eftir bauð fjölskyldan til erfidrykkju á Laugandi þar sem íþróttahús Hellu var upptekið vegna þorrablóts seinna um daginn. Boðið var upp á hangiket, flatkökur, baunir, rauðkál og kartöflur í jafningi og svo kaffi og pönnsur á eftir. Stoppuðum á eftir smá stund hjá pabba og mömmu þar sem ég fékk að smakka bollu. Tvíburarnir þurftu að labba í fermingafræðslu því ég var ekki komin aftur í bæinn fyrr en rúmlega fjögur. Fræðslan var e-s staðar í Suður-Hlíðunum svo þetta var ekkert svo langt labb. Engu að síður sótti Davíð strákana um fimm.
Í gær hélt óháði söfnuðurinn upp á 60 ára afmælið sitt með flottri afmælismessu. Forsetanum, tveimur fyrrverandi prestum og fleirum var m.a. boðið. Árni Heiðar fékk mann sem lék á kontrabassa til að spila með í messunni og Kristjana Stefánsdóttir söng. Hún söng forspilið og svo eitt lag fyrir predikun. Ómar Ragnarsson var með stólræðuna og fór á kostum eins og honum er einum lagið. Ég fann ekkert fyrir því þótt predikunin varði í meira ein tuttugu mínútur. Eftir ræðuna, söng og bundið mál söng kórinn "Ísland ögrum skorið" án undirleiks og strax á eftir sungum við fyrsta erindið í sálminum "Hærra minn Guð til þín". Kristjana söng næts erindi og ú-uðum við raddirnar (allar nema sópran undir) kórinn tók svo aftur undir í síðasta erindinu sem var sungið. Eftir messu kom Ómar til okkar og þakkaði okkur fyrir sönginn og sagði að Hærra minn... hefði verið einstaklega vel fluttur hjá okkur. Kona eins tenórsins sagði að hún hefði orðið svo hrærð yfir vel fluttum söng að hún táraðist og sagðist ekki hafa verið ein um það. Eftir messu var lagt á borð í kirkjunni en það voru líka dúkuð og dekkuð borð í "efra" og "neðra". Ég ákvað samt að drífa mig heim.
Davíð var að leggja síðustu hönd á boðskortið í ferminguna og svo skrifuðum við upp alla þá sem verður boðið. Fórum að versla á sjötta tímanum. Maturinn var ekki fyrr en um átta en það kom ekki að sök.
Í gær lauk ég við lestur bókarinnar sem ég er með í skammtímaláni. Settist líka aðeins við saumana mína í gærkvöldi.

12.2.10

- Föstudagur enn á ný -

Davíð skutlaði mér í vinnuna í morgun. Seinni partinn í gær var ég líka svo heppin að þegar ég var ca. hálfnuð heim var kallað í mig og mér boðið skutl heim. Þáði það með þökkum.
Tvíburarnir fóru báðir á æfingu (eða segir maður æfingar þar sem þeir voru að æfa hvor sína greinina), annar í karate og hinn í júdó. Feðgarnir fengu steikt slátur og soðnar kartöflur er þeir komu heim.
Að þessu sinni sinnti ég bæði saumaskap, lestri og FB en horfði ekkert á sjónvarp í gærkvöldi. Davíð var fyrir framan skjáinn að "leika" sér í ýmsum íþróttahreyfileikjum í ví-tölvunni og var rennsveittur eftir.
Framundan er jarðaför á morgun og söngur í 60 ára safnaðarafmælismessu á sunnudaginn.

11.2.10

- Fékk far í vinnuna í morgun -

Jæja, sólinn undir skónum á hægra fæti er orðinn lélegur svo ég þarf að drífa í því að kaupa mér nýja skó. Fann það er ég kom heim af kóræfingu í gærkvöldi að sokkurinn á hægra fæti var rakur svo ég ákvað að vekja Davíð tímanlega í morgun og biðja hann um að skutla mér. Það var ekkert mál. Ég labba svo örugglega heim eftir vinnu í dag, hvort sem jörð er blaut eða þurr.
Annars var mjög gaman á kóræfingu í gærkvöldi. Æfðum "Hærra minn Guð til þín" í röddum, tvö lög upp úr söngvasveig, og tvö önnur. Kórstjórinn ætlar svo að senda okkur númerin á sálmunum sem sungnir verða í messunni n.k. sunnudag.
Ekki settist ég við saumana mína í gær, en ég var bæði á FB og las einnig nokkra kafla í bókinni: "Stúlkan sem lék sér að eldinum" Þarf að klára þá bók og skila í síðasta lagi þann 19. Það á alveg að ganga upp en ég þarf líka að vera iðin við saumana mína.

10.2.10

- Rólegheit -

Í morgun labbaði ég til vinnu í fyrsta sinn í vikunni. Davíð skutlaði mér bæði í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Seinni partinn á mánudaginn tók ég strætó upp á Grensásveg og þangað kom Davíð og sótti mig upp úr klukkan hálfsjö. Labbaði heim í gær og kom við í kirkjuhúsinu. Var að spyrjast fyrir um minningarkort en söngkonan Rut L. Magnússon er fallin frá og fjölskyldan vill að drengjakórinn fái að njóta þess. Reikningsnúmer kórsins var birt með tilkynningunni í blöðunum í morgun og svei mér þá ef það er ekki farið að koma eitthvað inn vegna þess.
Söngfuglinn átti að mæta á sína aðra júdóæfingu í gær en það var að hellast í hann heiftarlegt kvef svo hann sleppti æfingunni. Davíð kom fyrir vikið fyrr heim og tók að sér að sjá um kvöldmatinn. Ég lék lausum hala á FB (fésbókinni) á meðan. Maðurinn hellti einnig upp á könnuna, fann það alveg upp hjá sjálfum sér þessi elska. Hann var svo að vinna frameftir og eitthvað að leika sér í nótt svo ég var ekkert að raska ró hans í morgun.
Hefði geta mætt á tónleika í Óháðu kirkjunni í gærkvöldi en ég var frekar löt og hummaði það fram af mér. Ætlaði líka að sauma smá en nú þarf ég helst að setjast með saumana á hverju kvöldi til að klára fermingadrengina fyrir ca. 20. mars n.k. svo þeir verði komnir úr innrömmun fyrir 11. apríl.

9.2.10

- "Ekki fundur" og saumaklúbbur -

Mér fannst endilega sem búið væri að boða til stjórnarfundar á kóræfingatíma í gær og ég var ekki ein um það. Við mættum þrjár af sex úr stjórninni en fundurinn er víst ekki fyrr en n.k. mánudag. Við gerðum bara gott úr þessum misskilningi en fundurinn varð samt ekki svo langur.
Eftir að hafa skutlað Davíð í pílu og sótt karatestrákinn af æfingu dreif ég mig í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar. Þriðjið fiskurinn í saumaklúbbnum var mætt rétt á undan mér stuttu fyrir hálfníu. Það var spjallað og hlegið mikið en inn á milli fengum við okkur kaffi og sukkum niður í saumana. Klukkutíma seinna, að mér fannst, leit ég á klukkuna og þá var hún byrjuð að ganga tólf. Hvernig getur tíminn flogið svona hratt?
Kíkti aðeins inn á fésbókina þegar ég kom heim en las svo tvo kafla í; "Stúlkan sem lék sér að eldinum" áður en ég fór að sofa.

8.2.10

- Ferð á bókasafnið og fleira -

Rétt upp úr klukkan hálffimm á föstudaginn var, skutlaði ég einni vinkonu minni á flugvöllinn. Ég notaði tækifærið í og skrapp á bókasafnið. Var með þrjár bækur til að skila og ætlaði mér svo aðeins að taka esperantobækur með mér heim því ég á enn eftir að lesa jólabækurnar. Ég tók þrjár esperantobækur og svo sá ég tvær af bókunum sem ég hef verið að athuga með undanfarið. Stóðst auðvitað ekki mátið og tók þær báðar þótt önnur væri 600 bls. og aðeins með 14 daga skilafrest. Þrátt fyrir þetta lagðist ég nú ekki í neinn maraþon lestur um helgina.
Skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar á laugardagsmorguninn og við fórum og lærðum saman á Kjarvalsstöðum. Um tvö var ég kominn upp í Þórshamar því karatestrákurinn minn var að taka sjúkragráðun. Sé mest eftir því að hafa ekki labbað á staðinn. Því Oddur byrjaði ekki fyrr en rétt um þrjú og söngfuglinn átti að vera mættur í Ráðhúsið klukkan hálffjögur. Ég missti því af seinni hluta prófsins hans Odds en hann náði og er kominn með hálft fjólublátt belti.
Upp úr klukkan sex kom tvíburahálfsystir mín og hennar maður með dóttur þeirra og pizzu til okkar. Strákarnir ætluðu að hafa ofan af fyrir stelpunni á meðan við hin fórum á árshátíð. Maður vinkonum minnar fór af hátíðinni í fyrra fallinu og sótti stelpuna til okkar. Passið gekk vel og árshátíðin sem við fórum á var mega-skemmtileg. Maturinn var góður og skemmtiatriðin heppnuðust öll vel. Óháði kórinn minn söng "Vísur Vatnsenda-Rósu" og "Alparós". Við komum ekkert svo seint heim. Klukkan var aðeins byrjuð að ganga eitt.

5.2.10

- Blóðbankinn heimsóttur -

Ég fékk bæði SMS og e-mail, frá blóðbankanum í gær, um hvort ég gæti komið við hjá þeim og gefið. Hef bara mátt gefa á fimm mánaða fresti og ég var síðast í bankanum 10. september. Hafði því sett í áminningu í gsm-inn minn að heimsækja blóðbankann 11. febrúar n.k. En ég fékk beiðni um að mæta í gær og varð við henni. Sú sem meðhöndlaði mig sagðist ætla að láta mæla járnið í blóðinu og ég get svo hringt eftir tvær vikur til að athuga hvort ég má gefa aftur eftir fjóra eða fimm mánuði. Gjöfin gekk annars mjög vel. Þetta var sú tuttugastaogfjórða en á spjaldinu stendur reyndar 25 en fyrir tveimur árum mistókst að stinga í æð svo ég varð að fara án þess að gefa í það skiptið. Engu að síður var það skráð sem heimsókn því blóðþrýstingurinn og púlsinn var mældur og tölurnar skráðar inn.

3.2.10

- Skór -

Það fer að líða að því að ég þurfi að skóa mig upp aftur. Á bara eitt par af götu-gönguskóm (sem ég keypti í fyrravor) og hef haft það á bak við eyrað um tíma að kaupa mér annað par til skiptanna. Það lítur samt út fyrir að ég þurfi fyrst að endurnýja parið sem ég á því sólarnir eru að verða lélegir. Kannski engin furða þar sem ég geng allt upp í 30km á viku, amk 100km á mánuði.
Þorði ekki að skreppa á keiluæfingu í gærkvöldi. Fingurnir tveir eru langt því frá að verða góðir, bólgnir og dofna oft upp hvort sem ég er að gera eitthvað eða ekki. Gat þó setið og saumað í rúman klukkutíma í gærkvöldi án þess að finna fyrir dofa. Eins gott því ég þarf að klára að sauma tvo fermingardrengi fyrir miðjan mars svo þeir verði komnir úr innrömmun áður en tvíburarnir fermast.

1.2.10

- Minning -
Ingigerður Oddsdóttir 28.03.1923-31.01.2010
Inga, föðursystir mín, fædd á Heiði á Rangárvöllum en kennd við Hróarslæk frá því hún byrjaði að búa, féll frá núna um helgina. Þá eru þau aðeins tvö systkynin eftir. Ég er sannfærð um að frænka mín var tilbúin að fá hvíldina, hefði orðið 87 ára í mars en talaði um það þegar elsti bróðirinn dó í desember 2008 að hún væri næst. Ég man eftir að það var fastur punktur í tilverunni eftir (Reyðarvatns-) réttir á haustin að enda daginn í smá kaffi á Hróarslæk. Pabbi var ekkert mikið fyrir að flækjast í heimsóknir en hann ákvað þó aleinn og sjálfur að skreppa með mig og tvíburana til systur sinnar þegar þeir voru bara á öðru árinu. Frænka mín var mjög hógvær og látlaus kona og með létta lund. Síðustu árin sín var hún á elliheimilinu Lundi á Hellu. Ég kíkti oft á hana þá sjaldan að ég var stödd á Hellu en alls ekki alltaf og sl. ár fór ég ekki mjög oft þannig að ég var ekki búin að heimsækja Ingu sennilega síðan sl. haust. Blessuð sé minning hennar!