- Helgin liðin -
Febrúar er hálfnaður og verður sjálfsagt liðinn áður en maður veit af. Sótti Helgu systur um hálfníu á laugardaginn. Við brunuðum á Hellu til pabba og mömmu og voru svo samferða þeim á Keldur eftir að hafa þegið smá kaffi. Útför föðursystur minnar hófst klukkan hálftólf hálftíma fyrir voru spiluð allskyns lög á orgelið. 10 félagar úr fóstbræðrum sungu og prestur var séra Guðbjörg Arnardóttir. Athöfnin var látlaus og falleg. Á eftir bauð fjölskyldan til erfidrykkju á Laugandi þar sem íþróttahús Hellu var upptekið vegna þorrablóts seinna um daginn. Boðið var upp á hangiket, flatkökur, baunir, rauðkál og kartöflur í jafningi og svo kaffi og pönnsur á eftir. Stoppuðum á eftir smá stund hjá pabba og mömmu þar sem ég fékk að smakka bollu. Tvíburarnir þurftu að labba í fermingafræðslu því ég var ekki komin aftur í bæinn fyrr en rúmlega fjögur. Fræðslan var e-s staðar í Suður-Hlíðunum svo þetta var ekkert svo langt labb. Engu að síður sótti Davíð strákana um fimm.
Í gær hélt óháði söfnuðurinn upp á 60 ára afmælið sitt með flottri afmælismessu. Forsetanum, tveimur fyrrverandi prestum og fleirum var m.a. boðið. Árni Heiðar fékk mann sem lék á kontrabassa til að spila með í messunni og Kristjana Stefánsdóttir söng. Hún söng forspilið og svo eitt lag fyrir predikun. Ómar Ragnarsson var með stólræðuna og fór á kostum eins og honum er einum lagið. Ég fann ekkert fyrir því þótt predikunin varði í meira ein tuttugu mínútur. Eftir ræðuna, söng og bundið mál söng kórinn "Ísland ögrum skorið" án undirleiks og strax á eftir sungum við fyrsta erindið í sálminum "Hærra minn Guð til þín". Kristjana söng næts erindi og ú-uðum við raddirnar (allar nema sópran undir) kórinn tók svo aftur undir í síðasta erindinu sem var sungið. Eftir messu kom Ómar til okkar og þakkaði okkur fyrir sönginn og sagði að Hærra minn... hefði verið einstaklega vel fluttur hjá okkur. Kona eins tenórsins sagði að hún hefði orðið svo hrærð yfir vel fluttum söng að hún táraðist og sagðist ekki hafa verið ein um það. Eftir messu var lagt á borð í kirkjunni en það voru líka dúkuð og dekkuð borð í "efra" og "neðra". Ég ákvað samt að drífa mig heim.
Davíð var að leggja síðustu hönd á boðskortið í ferminguna og svo skrifuðum við upp alla þá sem verður boðið. Fórum að versla á sjötta tímanum. Maturinn var ekki fyrr en um átta en það kom ekki að sök.
Í gær lauk ég við lestur bókarinnar sem ég er með í skammtímaláni. Settist líka aðeins við saumana mína í gærkvöldi.