29.12.04

- Millibil -

Áfram flýgur tíminn og erfitt að ná í skottið á honum. Undangengnir dagar hafa verið yndislegir. Við náðum auðvitað ekki að klára allt fyrir jólin, en við lukum við það nauðsynlegasta og er ég bara sátt með það. Við versluðum inn síðustu gjafirnar seinni partinn á Þorláksmessu og feðgarnir byrjuðu að pakka inn um kvöldið og við hjónin héldum þeirri vinnu áfram fram eftir nóttu (er mér óhætt að segja, en raunar með smá útúrdúrum). Feðgarnir skutust með bögglana á Bakkann um hádegisbil á Aðfangadag. Ég var heima í ýmiskonar stússi og grautargerð. Þegar fór að líða á daginn fór ég að undirbúa hamborgarhrygginn sem við vorum svo heppin að fá (Helga systir fékk hann í jólagjöf frá SS en notar hann ekki sjálf) gefins. Rétt fyrir fimm vorum við öll orðin spariklædd. Davíð skutlaði mér upp í Óháðu kirkjuna en þeir strákarnir fóru í Hallgrímskirkju. Upp úr sex var kveikt á jólakertinu í minni kirkju. Presturinn sagði að nú væru jólin komin og að kirkjugestir skyldu rísa á fætur og óska hver öðrum Gleðilegarar hátíðar! Þetta fannst mér mjög notalegt og alveg magnað.

Messan var búin fyrir sjö og þá fékk ég skutl heim með einni úr kórnum. Davíð og strákarnir komu heim tuttugu mínútum á eftir mér. Þá var ég langt komin með að redda hátíðarmatnum. Þeir héldu áfram að skreyta á meðan þeir biðu. Hryggurinn smakkaðist mjög vel að venju. Davíð Steinn fékk mönduna að þessu sinni og fékk ferða- lúdó og tafl (mjög sniðugt, fæst í Tiger og kostar ekki mikið). Á meðan Davíð gekk frá í eldhúsinu settum við strákarnir pakkana undir tréð. Klukkan var langt gengin í tíu áður en við byrjuðum að opna gjafirnar og það endaði nú svo að við geymdum nokkra böggla þar til daginn eftir. Einnig vannst mér enginn tími fyrir jólakortin fyrr að kvöldi jóladags (ég sem er vön að lesa þau í kringum miðnætti þann 24.)

Á jóladag söng ég í messu klukkan tvö. Þar var kórstjórinn allt í öllu (það vantaði nú bara að hann hringdi bjöllunum og rétti kirkjugestum sálmabækur); hann las fyrri ritningalesturinn að hluta til á íslensku og á ungversku, tengdapabbi hans las síðari ritningalesturinn á tékknesku, Pétur spilaði auðvitað undir kórsönginn og undir einsöng og síðast en ekki síst þá steig hann upp í predikunarstólinn og hélt þessa fínu ræðu. Hann slapp við að spila eftirspilið (einsöngvarinn söng án undirspils) því séra Pétur fékk hann með sér fram í anddyri til að taka í hendina á kirkjugestum.

22.12.04

- Lítil frænka heimsótt -


Fyrir tveimur vikum síðan, 7. desember, eignaðist tvíburahálfsystir mín dóttur. Í gær fannst mér kominn tími til að kíkja á litlu manneskjuna, bjóða hana velkomna í heiminn og óska henni til hamingju með fjölskylduna sem hún valdi sér. Mamma hafið beðið mig um að taka pakka til þeirra, stórglæsilegt barnateppi sem hún prjónaði sjálf og við færðum henni Halló heimur hér kem ég (bók barnsins). Féll þetta bæði alveg í kramið. Og ég get kallað mig Önnu frænku því við pabbinn erum skyld í fjórða lið. Magnað!

Við stoppuðum heldur lengur en við ætluðum okkur. Davíð fór beint heim en ég skutlaði nafna hans á aukakóræfingu og svo skruppum við Oddur Smári í verslunarleiðangur. Vorum komin til baka áður en æfingin var búin. Náði samt að kaupa allt sem mig vanhagaði um og nú á ég bara eftir að pakka inn gjöfum...

Í lokin ætla ég að nota tækifærið að óska öllum lesendum mínum nær og fjær: Gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári. Takk fyrir allar heimsóknirnar og umsagnirnar. Farið vel með ykkur! Ég veit ekki hvenær ég skrifa eitthvað næst, kannski milli jóla og nýjárs, en kannski ekki fyrr en á nýju ári. Það kemur væntanlega í ljós þegar þar að kemur ;=)!!!

21.12.04

- Vetrarsólstöður -

Nú fara í hönd hinir dimmustu dagar ársins og þegar það vantar snjóinn eru þeir ekstra dimmir. Ég finn samt ekkert fyrir skammdeginu. Allt gengur eitthvað svo ljómandi vel og ekkert nema gleði og gaman framundan. Sum verkin eru á eftir áætlun en það er svo sem engin ný saga hvað mig varðar svo ég hef heldur engar áhyggjur af því.

20.12.04

- Kirkjuferð og afmæli -

Við vorum mætt, öll fjögur, upp í Hallgrímskirkju, rúmlega tíu í gærmorgun. Davíð Steinn fór í vesti og slaufu og settist svo niður með hinum drengjunum og stúlkunum í unglingakórnum sem þegar voru byrjuð að hita upp. Oddi langaði mikið til að vera með. Hann skilaði jólakorti frá okkur til Magneu djákna og hún tók hann undir sinn verndarvæng og fann handa honum ýmislegt að gera við að aðstoða. Í messubyrjun voru Davíð Steinn og tveir aðrir drengir fengnir til að fara inn á undan prestinum og djáknanum, Davíð Steinn fyrstur með krossinn og hinir tveir rétt á eftir með logandi kerti. Mjög hátíðlegt! Messan gekk vel fyrir sig og sungu kórarnir saman eins og englar undir stjórn Friðriks og undirleiks Harðar Áskelssonar.

Komum heim um eitt (höfðum gefið okkur góðan tíma í kaffidrykkju eftir messuna). Pabbi kom rétt seinna og færði okkur hangiket. Ég ákvað svo að drífa í að skrifa öll þau jólakort sem ég átti eftir og þurftu að fara í póst. Sat við þetta verk inni í stofu og fylgdist með fótboltanum í leiðinni.

Um fimm skutlaði Davíð mér í fertugsafmæli sem ég var boðin í. Um var að ræða eina sem syngur með mér í kórnum. Hún sagðist vera búin að bíða eftir þessum degi í 40 ár! Þetta var bráðskemmtileg veisla með góðum mat og skemmtilegum uppákomum. Við kórinn, kynntum Abbalabba lá og annað lag sem afmælisbarnið eiginlega þolir ekki, en sungum svo "Stráið salinn greinum grænum" og eitt annað fallegt jólalag sem hefst á orðunum "Blundaðu ljúflingur, láttu þig dreyma." (Man ekki í svipinn hvað það heitir). Vinnufélagar hennar settu upp leikþátt um venjulegan dag í lífi hennar í vinnunni og góður vinur kom og stjórnaði leikritinu Þyrnirós sem í aðra röndina byggðist á setningum og orðum sem afmælisbarnið er þekkt fyrir. Þetta og margt fleira var gert sér til gamans og skemmtu allir sér konunglega.

18.12.04

- Alltaf eitthvað -

Það var jólaball (eiginlega jólaböll) í skólanum eftir hádegi. Davíð tók strákana með sér á skrifstofuna til að byrja með. Jólaballið hjá þeim var frá tvö til hálffjögur þannig að þegar Davíð var búinn að sækja þá aftur ákvað hann að sækja mig í leiðinni. Feðgarnir biðu því fyrir utan vinnustaðinn minn er ég kom út um fjögur. Við mæðginin fórum heim og Davíð aftur á skrifstofuna.

Um fimmleytið hringdi mamma. Davíð Steinn svaraði símanum, sem var heppilegt því hún átti erindið við hann. Sagðist koma og sækja hann rétt strax. Pilturinn fór með henni á Vífilsstaði, þar sem Jónas frændi býr núna, og söng nokkra jólasálma á öllum þremur hæðunum. Vistmenn og strarfsfólk gladdist mjög við þessa uppákomu, og mest gladdist Jónas. Hann gaukaði 1000 kr. að drengnum og einhver af annarri hæð sendi einnig 1000 kr. Ágætis tímakaup þótt ekki hafi verið ætlast til að fá borgað fyrir þetta. Ég er svo stolt af drengum því hann hefur yfirleitt verið frekar feiminn. Hann kveið líka fyrir þessu en vildi samt alveg gera þetta og valdi lögin (Í Betlehem er barn oss fætt, Nóttin var sú ágæt ein og Bjart er yfir Betlehem) alveg sjálfur og kynnti þau.

Mamma skilaði drengum aftur stuttu fyrir sjö. Eftir jóladagatalið og hressingu löbbuðum við mæðginin yfir í Valsheimilið þar sem Valur tók á móti ÍR í handbolta karla. Rétt fyrir leikinn ákváðu Valsmenn að minnast Magnúsar Blöndals sem þjálfaði og spilaði með Val á árum áður en dó fyrir fimmtán árum langt fyrir aldur fram. Magnús þessi var bekkjarbróðir minn í Kennó. Hann veiktist vorið sem við vorum að klára fyrsta árið. Hann barðist eins og hetja en var allur áður en árið var liðið aðeins 24 ára.

Leikurinn var mjög spennandi og þótt Valsarar væru stundum með ágætis forskot (allt að fimm mörkum yfir) þá var leikurinn eiginlega í járnum allan tímann og hefði getað farið hvernig sem var. Hann endaði þó 29:28 fyrir heimamenn og var það markvörðurinn Hlynur, sem bjargaði málunum síðustu mínúturnar. Hann varði vítakast og strax á eftir frákast og rétt seinna varði hann maður á mann eftir hraðaupphlaup og einnig frákastið. Glæsileg frammistaða! Í leikhléi var happdrætti. Ég hafði keypt tvo miða og gefið strákunum því miðinn kostaði bara 200 kr. Ekki unnu þeir en samt áskotnaðist Davíð Steini bolur og handklæði. Á heimleiðinni talaði stráksi um að þetta væri búinn að vera alger heppnisdagur.

Fyrirliggjandi eru kortaskrif, innkaup (jólagjafa og heimilis...) tiltekt, þrif og fleira. Á morgun syngur drengjakórinn í messu í Hallgrímskirkju. Strákarnir hefðu líka getað tekið þátt í jólamóti í knattspyrnu. Við vorum að velta því fyrir okkur að skipta okkur upp, Davíð að fara með Odd í Egilshöll og ég með Davíð Stein í kirkjuna, en komumst að þeirri niðurstöðu að betra væri að vera öll saman. Það er nóg að þurfa að skipta sér upp seinni partinn á Aðfangadag, þá fara feðgarnir í Hallgrímskirkju þar sem drengjakórinn á að syngja en ég syng með mínum kór í "minni" kirkju.

17.12.04

- Jólaglögg -

Þrátt fyrir annríki er ég búin að skrifa 20 jólakort og senda frá mér. Ég á eftir að skrifa amk 2 sinnum fleiri en hef engar áhyggjur. Þetta hefst örugglega allt saman í tíma!

Lilja vinkona kom til okkar um hálfátta í gærkvöldi. Við vorum sótt rétt upp úr átta af kórfélaga mínum sem líka heitir Lilja. Leiðin lá svo heim til kórstjórans. Hann var tilbúinn með áfengt og óáfengt jólaglögg og fljótlega voru allir komnir með eitthvað heitt og gott í bolla. Allir sem ætluðu að koma voru komnir upp úr hálftíu. Þegar það var orðið messufært sett einn bassanna upp gleraugun og tók upp nokkur prentuð blöð og las okkur pistilinn, annál haustannarinnar. Í fyrra talaði hann um að það erfiðasta við að vera í kórnum væri að þurfa að klæðast kjólum. Þá sagði hann að hann hefði stigið í faldinn og næstum dottið fyrir utan það að þeir strákarnir yrðu eitthvað svo óvissir um kynið sitt sbr. á einni æfingu fyrir aðventukvöldið í fyrra. Þá bað kórstjórinn konurnar að standa upp og það stóðu allir upp. Núna endaði hann pistilinn á því að hann hefði saknað þess að vera ekki í græna kjólnum á sl. aðventukvöldi. Allt um það kvöldið var skemmtilegt og fljótt að líða. Við komum heim fyrir miðnætti. Ég vissi vel að ég hefði fengið mér of mikið af glöggi. Ekki það að ég væri neitt full að ráði heldur var eitthvað óhollt fyrir mig í því þannig að ég fékk í magann eftir að ég kom heim og varð að sitja góða stund á salerninu. Ekki beint kræsilegt hmm!

15.12.04

- Bekkjarkvöld og helgileikur -

Þegar tvíburarnir komu heim úr skólanum í gær um hálffjögur var ég búin að ákveða að baka með þeim eina smákökusort til að hafa með okkur á bekkjarkvöld. Þeir bræður aðstoðuðu mig við að mæla efnið í deigið og settu það svo aleinir með tekskeiðum á smjörpappírsklæddar ofnplötur. Lilja vinkona leit inn um þetta leyti og hellti ég upp á kaffi fyrir okkur. Við sátum inni í stofu í mestu makindum en ég stóð upp öðru hvoru til að taka úr og setja í bakaraofninn. Davíð kom heim um fimm. Þá voru smákökurnar tilbúnar og tveir smápakkar að auki. Lilja kvaddi og við hin fórum öll upp í skóla. Þar voru bekkjarfélagarnir og foreldrar að tínast inn og klæða sig í búninga fyrir lokaæfingu á helgileiknum sem á að sýna á jólaballinu. Krakkarnir renndu tvisvar yfir helgileikinn. Einu sinni í kertaljósi og í seinna sinn í betra ljósi svo hægt væri að taka myndir. Þetta var mjög flott hjá þeim og sagðist kennari þeirra vera stolt af hópnum sínum. Við foreldrarnir vorum nú líka að springa úr stolti yfir börnunum.

Ég lauk við síðasta jólabréfið sem fer út og fór með öll kortin í póstkassa í gærkveldi. Þrjú til Danmerkur, eitt til Noregs og eitt til Englands. Nú á ég bara eftir að skrifa um sextíu kort sem sendast hérna innanlands. Ekki skrifa ég þó neitt í kvöld því það er kóræfing.

13.12.04

- Mikið að gera -

Sl. föstudag sótti ég strákana í skólann upp úr hádeginu. Hitti á kennarann þeirra sem hrósaði strákunum hvorum fyrir sig, Oddi Smára fyrir það hvað hann stendur sig vel í hlutverki gangavarðar í skólanum og Davíð Steini fyrir það hvað hann syngur vel. Ég er auðvitað að springa úr stolti. Við mæðginin fórum heim til að byrja með. Strákarnir skiptu um föt og fóru í eitthvað sparilegt. Upp úr tvö lögðum við í hann aftur. Fyrst lá leiðin í Leikbæ þar sem keypt var afmælisgjöf handa bekkjarbróður þeirra. Þegar búið var að ganga frá þeim málum sá ég að við höfðum mjög rúman tíma. Rúntaði eitthvað um bæinn en tvíburarnir voru samt mættir í afmælisveislu sjö mínútum fyrir þrjú.

Ég fór aftur heim, sinnti heimilsstörfum, las líka eitthvað og lagði mig smá (var búin að vera á fótum frá því klukkan fimm um morguninn (líkt og í dag)). Sótti strákana á slaginu sex. Davíð Steinn var ekki sáttur því krakkarnir voru að horfa á Skytturnar þrjár og var teiknimyndin ekki alveg búin. Pilturinn jafnaði sig þó mjög fljótt.

Laugardagurinn fór í heimilisstörf, fótboltaáhorf, jólabréfaskrif og rólegheit. Skrifaði bréf og jólakort til enskrar vinkonu minnar og byrjaði á öðru til danskra hjóna sem pabbi er búin að þekkja í áratugi og ég síðan um 1990. Enn á ég eftir að að skrifa bréf til tveggja frænkna minna og jólakort til þeirrar þriðju að auki. Tvær af þeim eru í Danmörku og ein í Noregi. Og svo á ég auðvitað eftir að skrifa á öll jólakortin sem eiga að sendast hérna innanlands. Tíu til fimmtán kort á dag er markmiðið og öll munu þau skila sér fyrir jól með póstinum að þessu sinni. Ef einhver kort verða keyrð út verða þau örfá og keyrslan fer fram nokkrum dögum fyrir jól.

Á sjöunda tímanum á laugardagskvöldið sótti Davíð barnapíurnar okkar. Við vorum svo mætt við Hreyfilshúsið um hálfátta þaðan sem við fórum upp í rútu ásamt fleira Habilisfólki m.a. Leiðin lá í Skíðaskálann í Hveradölum í jólahlaðborð. Kvöldið varð mjög skemmtilegt gott að borða, fín harmonikuskemmtiatriði og ágæt danshljómsveit á eftir. Við komum heim um eitt. Ég skutlaði barnapíunum heim. Er ég kom heim aftur kom Oddur Smári fram fljótlega og bauð góðan daginn. Ég sendi hann beint í rúmið aftur því enn var hánótt. Stráksi var svona spenntur því Stekkjastaur var á leið til byggða og þeir bræður voru búnir að hengja upp sokkana og annar að senda honum kort og hinn skrifaði bréf og teiknaði fallega mynd.

Í gærmorgun sá ég til þess að strákarnir löbbuðu tímanlega af stað út til að mæta á fótboltaæfingu klukkan níu. Þeir vöknuðu sjálfir rétt fyrir átta. Stekkjastaur hafði skilið eitthvað smáræði eftir handa þeim en ekki gefið sér tíma til að svara bréfi eða þakka fyrir sig. Skyldi það vera vegna þess hversu seint foreldrarnir fóru að sofa?

Mamma sótti mig um ellefu. Við vorum á leið í Garðabæinn í árlega jólakonfektgerð með frænku okkar og nöfnu minni. Við þrjár vorum langt komnar þegar Davíð og strákarnir skutluðust með aðra nöfnu mína og frænku til okkar upp úr hádeginu. Hún fékk þó að hjúpa megnið af konfektinu. Við gerðum fjórar tegundir og eitthvað minna magn en oft áður því við vorum búnar um tvö í stað svona fjögur áður.

Ég var komin heim um fjögur. Feðgarnir voru ekki heima. Oddur Smári hafði farið í keilu í Mjódd með krökkunum sem æfa með honum karate og voru nafnarnir að sækja hann. Ég horfði á Arsenal - Chelsea 2:2. Bráðskemmtilegur leikur og tel ég að úrslitin hafi bara verið nokkuð sanngjörn.

Mætti í kirkjuna mína klukkan að ganga átta í upphitun fyrir aðventukvöld. Stundin milli hálfníu og hálftíu var notaleg og mjög hátíðleg. Á eftir var boðið upp á kaffi og smákökur. Ég settist niður með kórfélögum mínum og fékk mér smá sopa en sleppti kökunum...

9.12.04

- Út og suður -

Ég hrökk upp með andfælum stuttu fyrir sjö í gærmorgun (var að vísu búin að láta klukkuna hringja og smella á "blunda" á símavekjaranum) og mundi að ég var ekki búin að festa bögglana í dagatalið (klukkustrenginn) hjá strákunum. Ég rauk á fætur og reddaði málunum og var nýbyrjuð að sýsla við annað í eldhúsinu þegar Oddur Smári kom fram.

Þessa dagana fer svartasta skammdegið í hönd. Þótt ekki sé mikill snjórinn til að lýsa það upp þá gera jólaljósin sitt gagn. Að vísu finn ég ekkert fyrir skammdeginu núna aldrei þessu vant. Það eina sem plagar mig og hugurinn hvarflar oft að er hormónavesenið á mér. Ég ætti nú að vera orðin vön þessu. Hef stundum haldið því fram að ég sé búin að vera á breytingaskeiði síðan fyrir tvítugt (og er ég ekki búin á því enn). Heiladingullinn starfar víst ekki rétt þannig að ég hef þurft að taka inn hormóna til að halda kerfinu gangandi og í jafnvægi. (Og það er líklega líka honum (dinglinum) að "þakka" að ég hef ekkert lyktarskyn). En það er hægt að fá stýrihormón þótt heiladingullinn framleiði það ekki og því gat ég eignast gullmolana mína. Eggjastokkarnir voru svo glaðir á sínum tíma (fyrir utan að það eru líka tvíburar í ættinni) þannig að ég er viss um að ef ég geri einhvern tíman aðra tilraun þá verði það örugglega tvö í einu og kannski þrjú...

Við urðum að losa okkur við nýja svefnsófann og er hann á leiðinni yfir á Grettisgötuna í þessum skrifuðum orðum. Hann er alltof stór og óhentugur, því miður því það var/er gott að sitja í honum og svefnpláss fyrir tvo. Pabbi kom með kerruna í bæinn í dag. Hann kom líka með Rainbow-ryksuguna og lánaði mér teppabankarann svo ég gæti hreinsað upp teppin frammi á palli og upp og niður stigann.

Skilafresturinn á bókasafninu rann eiginlega út í gær. Ég setti bókapokana í skottið á bílnum í morgun og þegar Davíð kom með strákana af æfingu á Grettisgötuna (Helga bauð okkur í mat) þá dreif ég mig á safnið að skila. Náði næstum því að lesa allar bækurnar, er að lesa tvær þær síðustu núna og framlengdi þeim um leið og ég bara hálffyllti körfu að fleiri bókum (ekki full karfa að þessu sinni, verð að sinna öðrum skyldum líka og það er nóg framundan)

Strákarnir eiga að gera íslensku heima reglulega. Annað hvort að skrifa niður nafnorð, sagnorð eða lýsingarorð eða fá lesin fyrir sig orð eða setningar. Í gær og fyrradag skrifaði Oddur Smári upp eftir mér byrjunina á bók eftir Sigrúnu Eldjárn Málfríður og tölvuskrímslið. Davíð Steinn bað um orð tengd -ng og -nk reglunni í fyrradag en í gær skrifaði hann eftir upplestri hálfa frétt um nýtt íþróttahús á Hólmavík úr Fréttablaðinu. Þetta eru dugnaðardrengir!

En framundan eru nokkrar annir; jólahlaðborð, konfektgerð, aðventudvöld í Óháðukirkjunni, leikrit í skólanum, jólakortaskrif, smá bakstur og fleira og fleira. Svo ekki vera hissa þótt ég skrifi stopult á næstunni. Það er samt aldrei að vita nema að pásur verði teknar reglulega...

7.12.04

Andinn er yfir mér í dag

Í þögninni hlusta ég hjarta mitt á.
Hugurinn dvelur þó víða.
Best væri knúsið og kossinn að fá
kæri mig ekki að bíða.

Á arkinu þankarnir snúast um það
því lífið hagi sér svona?
Á meðan færist ég hratt úr stað
í átt til nýrra vona.

Þar sem ég veit að Davíð les aldrei bloggið mitt þá er óhætt að birta þetta. En ég var að hugsa um hann þegar þessi orð hreinlega skullu á mér svo ég ætla að skrifa þetta betur upp og gefa honum...

- Fyrsta kortið komið í hús -

Lilja vinkona leit við seinni partinn í gær og kom færandi hendi í leiðinni. Hún stoppaði dágóða stund og fékk lánaða Lord of the Ring, Return of the King með sér heim. Alltaf gott að hitta Lilju.

Fyrsta jólakortið kom inn um lúguna í gær. Ég þarf að drífa í að setja upp jólapokann og skrifa á og senda mín jólakort. Keypti reyndar umslög um helgina og fór með filmur í framköllun í gær í þeirri von að fá kannski nýtilega mynd af tvíburunum til að senda með. Þetta hefst allt saman, það er ég viss um.
Frelsi

það er líkt og einhver
ósýnileg bönd hafi losnað
kannski slitnað

allt er svo undarlega létt
sólin brosir breiðar
og geislarnir snerta hjarta mitt

nú hef ég enn meira að gefa
er tilbúnari að þyggja
framundan eru gleðidagar

mér finnst þetta skrýtið
og hugsa oft um það
en þetta er bara svona

6.12.04

- Bergmál helgarinnar -

Við höfðum það bara notalegt um helgina. Helga og Bríet kíktu í heimsókn eftir hádegi á laugardaginn. Ég var ekkert að stressa mig yfir einhverju jólastússi þótt það hefði nú verið skynsamlegt af mér að baka eitthvað. Horfði á enska boltann, flesta leikina sem sýndir voru, um helgina og skemmti mér konunglega. Í gær hafði foreldrafélag Ísaksskóla ákveðið að stefna öllum upp í Árbæjarsafn eins og gert var í fyrra. Okkur líkaði bara ekki við veðrið svo við slepptum þessu. Fórum öll í verslunarleiðangur og keyptum m.a. nokkrar jólagjafir.

Er við komum heim úr búðinni í gær hringdi bróðir hennar mömmu og konan hans og boðuðu komu sína. Þau komu með fullt af pokum með fötum af drengnum sínum. Það kom sér vel. Sumt var reyndar heldur lítið en ég setti það bara í poka handa bróðursyni Davíðs.

Loksins eru framtennurnar í efrigómnum á Oddi að losna. Önnur tönnin var orðin laflaus í gærkvöldi en okkur (honum og mér) tókst ekki að kippa henni úr. Ég fékk að setja spotta í hana og kippa í því ég var hálfsmeik um að tönnin myndi detta um nóttina og strákurinn gleypa hana.

Í morgun vaknaði piltur tannlaus. Sagðist hafa vaknað einhvern tímann um nóttina og juggað í tönninni þar til hún losnaði alveg. -"Ég setti hana undir koddann og núna er hún horfin og enginn peningur fyrir hana." Tönnin fannst reyndar skömmu síðar, hafði þrykkst inn í koddaverið. Tannálfurinn hefur örugglega verið hættur að safna tönnum í nótt þegar tönnin losnaði!

4.12.04

- Nýjir fjölskyldulinkar -

Helga systir var að láta mig vita af því að hún er búin að opna heimasíður á Barnalandi.is fyrir dætur sínar og ég er strax búin að setja linka á síðurnar. Systir mín var líka að kvarta yfir því um daginn að það væru engar myndir á blogginu mínu og hver veit nema ég bæti úr því fljótlega.

Oddur Smári var einn af örfáum sem mættu á karateæfingu í morgun. Þau voru næstum öll í búningum með gula beltið bundið utan um sig. Þetta var næst-síðasta æfingin fyrir jólafrí.

Núna eru bræðurnir að mæta í afmælisveislu hjá bekkjarsystur sinni. Davíð er að skutlast með þá og ég ætti að vera byrjuð á tiltekt, þrifum og þvottamálum. Ja, uppþvottavélin er amk í gangi, he he.

3.12.04

- Hálf gráða í höfn -

Mömmu leist ekkert á að senda strákana á útiæfingu í þessari slyddu í gær, fannst þeir ekki nógu vel klæddi. Ég sagði henni þá bara að hafa drengina hjá sér þar til von væri á mér heim og kannski fá þá til að lesa smá.

Ég þurfti að að koma við á einum stað á heimleiðinni og kom því í gegnum Klambratúnið og þá leið. Hitti Odd fyrir utan heima og spurði um bróður hans. Davíð Steinn hafði víst labbað á móti mér. Lét Odd hafa húslyklana mína og sagði honum að taka sig til fyrir karatetímann. Labbaði svo út götuna og út Eskihlíðina án þess að sjá nokkuð til Davíð Steins. Þótt skynsemin segði mér að hann hefði nú ekki farið að æða neitt lengra þá var ég ekki viss og hélt förinni áfram, yfir Miklubraut og Snorrabraut og upp Eiríksgötu. Ég var komin til móts við kirkjuna þegar Davíð hafði samband og lét mig vita að Davíð Steinn væri búinn að skila sér heim. Davíð tók báða strákana með sér. Húslyklarnir mínir voru heima svo ég rölti í rólegheitunum (með einhverjum stoppum) upp í Þórshamar. Oddur Smári (og allur hópurinn) var búinn í prófinu. Hann náði örugglega og við keyptum á hann búning og gula beltið. Hann þarf svo að taka annað próf til að vera alveg kominn með gula beltið.

Fengum okkur að borða en svo fór Davíð heim að vinna en við mæðginin mættum í Valsheimilið og sáum Valsstelpurnar vinna stelpurnar í Fram (26:17) í átta liða úrslitum í bikarnum.

1.12.04

- Í byrjun desember -

Tíminn líður alltaf hraðar og hraðar þessa dagana. Reyndar tapaði ég einum degi í upphafi vikunnar þar sem mér tókst að ná mér í "skemmtilega" magapest. Það var mjög mikil ólga í maganum á tímabili en mér tókst að sofna og sofa þetta úr mér á 5-6 tímum. Davíð var með einhverja svipaða pest í gær.

Það er komið fram í miðja viku, svo stutt síðan síðasta helgi var og svo stutt í þá næstu. Við tókum því nokkuð rólega um síðustu helgi. Ég fór með Odd á karateæfingu á laugardagsmorguninn og svo ein í verslunarleiðangur eftir hádegið. Upp úr hádegi á sunnudag skutluðu feðgar mér í kirkjuna tímanlega fyrir upphitun fyrir þjóðlagamessu. Þeir fóru í sund. Ég kom heim upp úr þrjú með plögg frá prestinum. Við erum búin að gera þetta upp við okkur og gengin í söfnuðinn. Feðgarnir komu heim stuttu á eftir mér og var Davíð Steinn á sokkaleistunum, hafði ekki fundið stígvélin sín. Það var víst engin furða því stráksi hafði komið heim í stígvélum Víðis,annars tvíburans hennar mömmu, á föstudaginn.

Ég sótti norska vinkonu mína upp úr hálffjögur þennan dag. Hún var að bjóða mér á Blindsker með sér. Frábær mynd. Davíð var hér um bil tilbúinn með matinn er ég kom heim og á eftir skelltum við okkur öll á Valur - Grótta/KR og skemmtum okkur hið besta.

Var mjög róleg yfir því að nóvember var að klárast og það ætti eftir að setja upp klukkustrenginn þar sem strákarnir telja niður dagana til jóla. Var alveg viss um hvar hann var geymdur. Þegar átti svo að taka hann fram fannst hann ekki. Ég varð alveg mát þar til að ég mundi hvar ég hafði geymt hann á Hrefnugötunni. Strenginn fann ég í vel merktum kassa niðri í geymslu. Í gærkvöldi hjálpaðist svo öll fjölskyldan að við að setja hann upp. Ég bútaði niður álpappír í hæfilega stóra 2x12 miða og klippti einnig niður jafnlanga spotta. Strákarnir "klesstu saman" álpappírsmiðum (í nokkurs konar fiðrildildi) og bundu spottana utan um. Davíð festi þetta svo upp á strenginn.

Það voru yfirspenntir strákar sem vöknuðu fyrir sex í morgun. Ég sagði þeim að það væri enn of snemmt að fara á fætur. Upp úr klukkan hálfsjö fór ég svo framúr og þá komu þeir aftur fram og opnuðu fyrsta pakkann (ég set alltaf einn og einn (eða tvo og tvo víst) kvöldinu áður allt þar til jólasveinarnir fara að koma til byggða. Að kvöldi 11. des festa strákarnir jólasokkana sína á strenginn og vona innilega að ekki komi nein kartafla í hann...). Það er orðin hefð fyrir því að þeir fái blöðru 1. des. og ég breytti ekkert út af henni.

Allt í einu var klukkan orðin meira en hálf átta. -"Davíð, ég held ég sé orðin of sein!" Davíð sagði að ég mætti taka bílinn því hann ætlaði að vinna heima í dag.

Rétt fyrir klukkan eitt í dag var hringt úr skólanum og ég beðin um að sækja Davíð Stein og fara með hann á heilsugæsluna. Hann hafði víst dottið á skólalóðinni og er nú með mjög myndarlega kúlu fyrir ofan hægra augað, kúlu sem á svo eftir að síga niður og verða að myndarlegu glóðarauga. Það reyndist vera í lagi með strákinn að öðru leyti og fékk hann að fara heim og vera með pabba sínum það sem eftir lifði dags.

Og það er kóræfing í kvöld.

27.11.04

- Á Sikiley -
síðustu dagarnir

Sunnudagsmorguninn hófst eins og laugardagurinn með morgunverði upp úr hálftíu. Fórum aftur upp á herbergi og lögðum okkur oggupínupons. Klukkan hálftólf var hringt úr móttökunni og sagt að ef við vildum láta búa um og fara yfir herbergið yrðum við að skreppa út í síðasta lagi um tólf. Yfirleitt er mest allt lokað á sunnudögum og frekar lítið um að vera. Við ákváðum samt að rölta aðeins og kanna umhverfið. Einhverjir úr hópnum höfðu skráð sig í og farið í dagsferð til Cafalú (ekki komust samt allir sem höfðu hug á í ferðina. Við Davíð vorum nú ekki einu sinni að spá í hana).

Röltum í átt að höfninni. Sums staðar sáum við mikla fátækt og allt var einhvern veginn svo óhreint og sjúskað. Við rákumst líka á nokkra flækingshunda. Eftir nokkurt labb fundum við opinn veitingastað og ákváðum að setjast inn og prófa. Við fengum sæti og matseðla og vorum bara nokkuð fljót að ákveða okkur, ætluðum að skella okkur á sitthvora pizzuna. Þegar þjónninn kom sagði hann hins vegar að pizzur væru ekki afgreiddar fyrr en eftir hálfátta á kvöldin svo það eina sem var að marka á matseðlinum voru pastaréttirnir framan á honum. Smelltum okkur á þá og vorum bara ánægð þegar upp var staðið.

Áfram röltum við um og fundum m.a. nokkra opna markaði. Sáum samt ekkert sem okkur vantaði eða langaði í. Okkur hafði verið ráðlagt tvennt við komuna til Sikileyjar; kaupa skó og prófa sverðfisk. (Við vorum eiginlega ekki í stuði fyrir skóleiðangur þennan tíma sem við vorum þarna úti.) Þegar klukkan fór að ganga fjögur vildi ég fara heim á hótel. Davíð vildi ekki viðurkenna að hann væri alveg að rata til baka. Ég heimtaði að hann tæki upp kortið, sem við höfðum fengið á hótelinu, og þegar hann loks fékkst til þess kom í ljós að við vorum alls ekki á réttri leið. Á hótelið komust við svo fljótlega eftir að við náðum áttum. Skrifuðum á nokkur póstkort og slökuðum svo vel á. Við fórum aftur út á röltið um átta. Fundum ágætis veitingastað þar sem við fengum góða þjónustu og mjög góðan mat.

Lokadaginn mættum við í morgunmat á sama tíma og flesta hina dagana, upp úr hálftíu. Þá fengum við að vita það að klukkan tíu ætti að tékka sig út. Við vorum eiginlega búin að taka okkur saman svo það var lítið annað að gera en að fara upp og sækja töskuna og bakpokana. (Held samt að ég hafi gleymt gamla, ónýta gemsanum mínum). Fengum að geyma þetta í móttökunni. Skruppum í smá gönguferð. Í þeirri ferð fundum við loksins eitthvað sem okkur hugnaðist að kaupa, m.a. hulstur utan um nýja gemsann minn, nýtt seðlaveski handa mér, smádót handa tvíburunum og eitt og annað. Í bakaleiðinni villtumst við smá en við vorum með kortið góða og komum tímanlega rétt áður en farastjórinn leiddi hópinn að rútunni. Nú var verið að leggja upp í skoðunarferð í strandbæinn Mondello þar sem öllum var boðið upp á ís og svo gefinn frjálst tími í þrjár klukkustundir. Veðrið var gott alla þessa daga en alveg einstakt þennan mánudag og það sást yfir til Etnu þennan dag (svona svipað eins og Snæfellsjökull sést í góðu skyggni héðan frá Reykjavík). Við Davíð létum loks verða af því að prófa sverðfiskinn og vorum ekki svikinn af honum. Hann var verulega gómsætur.

Klukkan fjögur var safnast saman aftur í rútunni og ná lá leiðin beint á flugvöllinn. Þar höfðum við tvo tíma áður en bókað var inn í vélina. Margir fundu óskemmtilegan fnyk er inn í vélina kom, eitthvað hafði klikkað varðandi hreinsun salernanna. Fyrir mig, með mitt bilaða nef var þetta ekkert mál enda held ég að ég hafi farið mun oftar en aðrir á salernið þessa sex tíma sem við vorum að fljúga heim.

Lentum rétt fyrir miðnætti. Gummi frændi beið eftir okkur og skutlaði okkur heim. Heima beið Lilja. Allt hafði gengið eins og í sögu hjá henni með strákunum.

En þetta var öll sagan. Vonandi líða ekki alveg tíu ár þar til ég fer út fyrir landsteinana næst (lengra en Vestmannaeyjar sko en strákarnir fara á Shellmótið í Eyjum næsta sumar).

25.11.04

- Á Sikiley -
partur tvö

Annar dagur hófst frekar snemma miðað við það að við vorum í fríi. Mættum í morgunmat um hálfníu og hálftíma síðar safnaðist hópurinn saman í lobbýinu. Íslensk farastýra ásamt annarri ítalskri leiddu okkur svo fljótlega þangað sem rúta beið okkar. Fyrst var farið að öðru hóteli og fleiri ferðalangar sóttir. Í þeim hópi þekkti ég eina flugfreyjuna enda voru flugvélin og áhöfnin á staðnum allan tímann. svo var lagt af stað í Borgarferð. Skoðaðar voru tvær eins kapellur, önnur í Palermo og hin í bæ rétt fyrir utan borgina. Sú kapella var gerð eftir fyrirmynd hinnar. Og áður en rúmlega fjögurra stunda skoðunarferð lauk var farið í Dómkirkjuna í Palermo. Allt voru þetta mjög merkilegir staðir en flestum í hópnum fannst við dvelja of lengi við hvern stað. Hefðum viljað sjá meira en hlusta minna.

Rútan setti okkur úr á torgi ekki langt frá hótelinu. Við Davíð löbbuðum beint á hótelið aftur og lögðum okkur, fengum okkur "síestu". Hvíldum okkur í nokkra klukkutíma en fórum svo að leita okkur að stað til að snæða á. Skoðuðum aðeins þá markaði sem við löbbuðum framhjá og litum í búðarglugga. Fundum svo pizzastað sem var frekar ódýr. Davíð ætlaði að fá sér pizzu með pepperóni, sveppum og lauk. Þjónninn skyldi ekki þetta með laukinn en bauð honum skinku í staðinn. Ég fékk mér grænmetispizzu. Á henni voru kartöflur, spínat, sveppir og tómatar. Fínasta pízza. Pepperóníið reyndist vera paprika svo Davíð var hálffeginn að þjónninn hafði ekki skilið þetta með laukinn. Þegar við vorum búinn að borða kom í ljós að þetta var einn af fáum stöðum sem ekki tók visakort. Ég var skilin eftir upp í pant á meðan Davíð leitaði uppi næsta hraðbanka eftir frekar óljósar útskýringar frá einum þjóninum.

Á þriðja degi mættum við niður í morgunverð um hálftíu. Skruppum svo aðeins upp á herbergi aftur. Upp úr hádeginu röltum við út að skoða okkur um og til að fá okkur eitthvað í gogginn. Ákváðum að reyna að finna bleikan náttkjól á Huldu frænku. Á einum staðnum var Davíð beðinn um að tala frekar ensku því þær skyldu ekki þýsku. Hmm, maðurinn var nú að tala ensku þrátt fyrir allt. Fundum svo pizzastað en í ljós kom að þar voru bara afgreiddar pizzur eftir klukkan hálfátta á kvöldin. Fengum okkur því einhvers konar pastarétti í staðinn. Á heimleiðinni keyptum við póstkort og frímerki. Tókum aftur "síestu" seinni part dags en vorum svo komin í lobbíið um hálfátta. Þegar allur hópurinn var kominn niður var rölt á bar skammt frá þar sem margir fengu sér fordrykk áður en haldið var aðeins lengra á veitingahús þar sem hafði verið pantað fyrir okkur. Maturinn hafði verið pantaður fyrir okkur líka. Hann var svo sem ekkert spes en þjónarnir fóru á kostum og bættu allt upp. Þeir sýndu okkur m.a. áritaða mynd af Kristjáni Jóhannessyni þar sem það kom fram að þetta var uppáhalds veitingahúsið hans á Sikiley. Eftir hátt í þriggja tíma át gerði hópurinn heiðarlega tilraun til að finna jazzklúbb. Sú tilraun rann út í sandinn. Í staðinn var skroppið á bar í nágrenni hótelsins (ekki þann sama og fyrr um kvöldið). Í restina var svo safnast stund saman í lobbýinu.

24.11.04

- Ferðasagan -
fyrsti partur

Já ég er komin heim og rétt að byrja að átta mig á þessu. Næstu daga kem ég til með að segja ferðasöguna, líklega einn dag í einu. Ef eitthvað gerist á meðan bæti ég því bara við fyrir neðan eða eitthvað...

Á fimmtudagsmorguninn var fórum við á fætur rétt fyrir sex. Í stofunni svaf Lilja vinkona sem tók að sér að sjá um tvíburana þennan tíma. Rétt fyrir hálfsjö hringdi Davíð eitt símtal og svo löbbuðum við af stað með pjönkur okkar, tvo bakpoka og eina ferðatösku. Fyrir utan nr. 11 var Gummi frændi að skafa af bílnum sínum og Davíð setti leikrit á svið.
- "Nei, blessaður! Ekki ert þú á leið til Keflavíkur?"
- "Jú, jú, mikið rétt."
- "Fáum við þá ekki að fljóta með þér?"
- "Alveg sjálfsagt!"
Við bókuðum okkur inn upp úr hálfátta og fórum auðvitað beint á barinn. Ég fékk mér eitt hvítvínsglas, kalt og gott. Hittum ferðafélagana smátt og smátt og einnig nokkra fleiri sem við þekktum (Ólaf og Bylgju, barnatannlækni og klínikdömu, Önnu Báru frænku og Hjört manninn hennar, vin hans Ingva mágs) sem ýmist voru á sömu leið eða til London (og jafnvel lengra). Ákvað að kaupa mér nýjan gemsa og skellti mér á einn sem var á fínu tilboði, nokia 3510.

Tafir urðu á fluginu til Palermo. Við komum inn í vél rúmu korteri eftir áætlaðan brottfarartíma og þá þurfti að afísa vélina aftur. En þetta tókst allt saman. Fengum meðvind og vorum ca. 4 og hálfan tíma til áfangastaðar. Um leið og ég kveikti á gamla símanum sem var á síðasta punktinum, kom sms með Velkomin til Ítalíu. Á flugvellinum týndist ein taskan, þ.e. einhver úr öðrum hóp hafði tekið hana í misgripum. Ferðin frá flugvellinum og inn í borgina tók um 40 mín. og vorum við að bóka okkur inn á Vecchio Borgo um fimm að staðartíma (klukkutímamunur Íslandi í hag). Við Davíð fengum herbergi nr. 703. Hótelið var eiginlega bara svona strýta upp í loftið. 8 hæðir, jarðhæð (lobbýið) og kjallari (morgunverðarsalur). Á hæðum 1-8 voru hótelherbergin og aðeins voru fimm herbergi á hverri hæð. Ekkert gekk að opna okkar herbergi til að byrja með og það endaði með því að það þurfti að fara niður í lobbý og láta endurforrita herbergislykilinn.

Er við vorum loks komin inn á herbergi ákváðum við að leggja okkur aðeins. (Byrjaði samt á því að græja nýja síman minn og stinga honum í hleðslu) Þremur tímum seinna röltum við út í leit að stað til að borða á. Römbuðum á einn ágætan af fínni sortinni. Ég fékk mér nautasteik með sveppum og sósu og fékk bornar fram nokkrar franskar kartöflur með. Davíð fékk sér humar í pasta. Með þessu drukkum við hvítvín og vatn. Fengum fína þjónustu og ég get svo svarið það að Sópranó sjálfur var einn af þjónunum, amk. einhver mjög líkur honum! Við ákváðum að fá okkur eftirrétt og expressó svo í heildina tók það okkur rúma tvo tíma að borða. Er við komum aftur upp á hótel var búið að búa aftur um okkur og setja þrjá brjóstsykursmola ofan á koddana og miða með góða nótt á nokkrum tungumálum, ekki íslensku þó.

Meira næstu daga!

17.11.04

- Snjór -

Setti undir mig hausinn seinni partinn í gær og arkaði lengri leiðina heim. Þ.e. ég kom við í Fiskbúð Hafliða við Hlemm. Keypti lax. Þegar ég kom heim sá ég að tvíburarnir voru komnir. Allar töskurnar og útifötin voru í hrúgu frammi á palli og þeir voru greinilega í heimsókn í risinu. Þeir komu niður rétt fyrir sex og luku við að læra. Dagbjört kom um sjö og spurði hvort þeir gætu komið út að leika og þeir fengu það strax eftir matinn (var bara með afganga í gær, nota laxinn í dag). Klukkan hálfníu þurfti að sækja krakkana inn. Þá voru þau búin að búa til þessa fínu snjókerlinu, Snjóhvíti.


Tvíburahálfsystir mín og maðurinn hennar frændi minn litu við í gærkvöldi með wc-pappír sem dóttir hans var að selja til styrktar skátunum. Ég var einmitt að hugsa um það um daginn, þegar ég uppgötvaði að pappírinn sem við keyptum af 7. flokknum var að verða búinn, hvort ekki myndi bjóðast svona pakkar fljótlega aftur.

Ég hef lesið allnokkrar bækur undanfarið og á sem betur fer samt stafla ólesinn. Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason. Bráðsmellin bók að mörgu leiti þótt ég hlypi yfir sumar síður þar sem voru upptalningar eða samheitaorð yfir einn og sama hlutinn. Brunabíllinn sem hvarf eftir Sjövall og Wahlö. Þá bók og flestar hinar eftir sömu höfunda hef ég lesið áður og hef alltaf jafn gaman að. Svo er ég með Ævi mín og sagan sem ekki mátt segja um forsetasoninn Björn Sveinson Björnsson rituð af Nönnu Rögnvaldardóttur. Fróðleg og merkileg saga! Næst í röðinni er svo Kaldaljós eftir Vigdísi Grímsdóttur. Ég hlakka til að lesa hana. Er búin að sjá myndina og hún var góð. Ég er viss um að sagan er ekki verri.

Sikileyjarferð er framundan svo héðan verður lítið að frétta næstu daga. Þangað til hafið það gott og farið vel með ykkur.

16.11.04

- Hann kom grátandi heim -

Ég var fyrst heim seinni partinn í gær en það leið ekki á löngu áður en Oddur Smári kom. Eftir smá púst dreif drengurinn sig í að læra það sem hann hafði ekki komist yfir í heimanáminu í skólanum og það sem er skylda að gera heima. Skrift, íslenska og aukalestur (lesið upphátt í tuttugu mínútur). Þetta tók piltinn um klukkutíma. Mamma kom með töskuna hans Davíðs Steins eftir að hafa skutlað honum á kóræfingu. Hún stoppaði nokkra stund.

Davíð kom heim færandi hendi rétt fyrir sex. Hann hafði fengið tvö aðgöngukort á alla heimaleiki í handboltanum í vetur, alla leiki nema bikar- og úrslitaleiki! Víííí!!! Að vísu hef ég komist inn á heimaleikina með árskortinu sem Davíð fékk í vor en sennilega á það kort bara að gilda á knattspyrnuleiki. Veit ekki alveg. En nú á ég mitt eigið kort!

Þegar klukkan var orðin sjö fór ég að verða óróleg. Kóræfingarnar eru venjulega búnar korter fyrir og drengurinn kominn heim áður en klukkan slær sjö. Davíð sagði mér fyrst þá að hann hefði fengið sms um að pakka ætti fleiri kertum á æfingatíma. Ég varð samt ekkert rólegri við það og þegar klukkan var að verða hálfátta bað ég hann um að fara og athuga málið. Tíu mínútum eftir að hann fór hringdi dyrabjallan. Davíð Steinn var kominn, háskælandi. Hann hafði einhverra hluta vegna misst af farinu -"...og ég var búinn að bíða í marga klukkutíma!" og lagði því af stað labbandi. Við Miklubrautina var stoppað fyrir honum því það sást að drengurinn var varla mönnum sinnandi, grátandi og skjálfandi. Ég lét Davíð vita. Þótt við værum fegin að málin hefðu bjargast þá nefndum við það bæði við drenginn að hann mætti ekki þyggja far með ókunnugum. -"...en ég sá að þetta var svona blíður maður..." Davíð Steinn átti líka eftir að læra og sat við frá því eftir kvöldmat og til klukkan tíu (alltof lengi, hann verður sennilega með þreyttara móti í dag og það er bæði skólasund og fótboltaæfing).

Á milli þess sem ég beið eftir þvottavélinni og kíkti á skjáinn bjó ég til samtals um 20 jólakort í gærkvöldi. Ekkert þeirra var þrívíddar en þau voru nú flott samt. Nú er ég tilbúin með rúmlega 60 jólakort og langt komin.

15.11.04

- Eitt og annað -

Davíð Steinn hringdi í mig um tíu í gærmorgun. Hann var mjög glaður og ánægður með kóræfingabúðirnar. Sagðist hafa skemmt sér vel og sofið alveg rosalega vel. Hann var að fara í morgunmat og svo átti að leggja í hann rétt fyrir ellefu.

Á laugardaginn var Oddur Smári með heimsókn mest allan daginn. Stuttu eftir að búið var að sækja vininn var hringt og spurt hvort hann mætti sofa. Það var mikið í lagi svo vinurinn kom fljótlega aftur. Allt gekk þokkalega. Eftir Spaugstofuþáttinn háttuðu piltarnir og fengu svo að lesa aðeins upp í rúmi. Nokkru eftir að ég var búin að slökkva hjá þeim kallaði Oddur á pabba sinn. Vinurinn var kominn með heimþrá og gat ekki sofnað. Hann fékk að hringja í pabba sinn og var sóttur mjög fljótlega. Þannig fór þessi "næturheimsókn". Það jákvæða við þetta var að skipt var um rúmföt hjá tvíburunum.

Ég dreif mig ein á leikinn Valur - Haukar. Það var mjög erfiður leikur. Staðan var 10:19 Haukum í vil í hálfleik. Valsstelpurnar náðu þó að klóra í bakkann og lokastaðan var 29:32 þannig að þær töpuðu bara með þremur mörkum eftir að hafa stundum verið 10-11 mörkum undir í leiknum. Ég sé ekkert eftir að hafa drifið mig þótt svona færi.

Um hádegi í gær sótti ég Davíð Stein og mömmu á rútuna. Það var auðséð á mörgum ferðafélögunum að þeir höfðu fengið matarást á mömmu í ferðinni. Ég er hreint ekkert hissa á því. Svo æxlaðist það þannig að við mamma fórum saman og heimsóttum ömmubróðir minn sem er á Vífilsstöðum.

Um kvöldið ákváðum við Davíð að leigja spólu. Hann fór út og kom heim með Shrek 2. Horfðum á þessa bráðskemmtilegu mynd með ensku tali. Töluðum um það að gefa strákunum myndina í jólagjöf.

13.11.04

- Helgartiltekt framundan -

Smá "aftur í tímann". Helga systir hringdi í mig á fimmtudagskvöldið og sagði mér frá 25% afslætti í Debenhams og að það væri opið til tíu um kvöldið. Ég var alveg til í að koma með henni þangað. Notaði loksins gjafabréfið sem "föðursystir" mín og hennar maður gáfu okkur í innflutningsgjöf.

Feðgar komu nokkuð seint heim í gærkvöldi en það hafðist að gefa þeim að borða, setja Davíð Stein í bað og hjálpa honum að taka sig til fyrir helgina, áður en klukkan varð níu. Í morgun fór ég á fætur upp úr hálfátta og vakti snáðann. Oddur Smári vaknaði líka og fór einu sinni yfir tékklistann með bróður sínum, hvort hann væri örugglega ekki með allt. Korter yfir heila tímann skutlaðist ég með kórdrenginn minn upp að Hallgrímskirkju þar sem beið rúta eftir honum og fleiru. Núna er drengurinn kominn í Skálholt í æfingabúðir og kemur ekki heim fyrr en um hádegi á morgun.

Fljótlega eftir að ég kom til baka var kominn tími til að skutla Oddi í karate. Hann var alveg tilbúinn og við mættum aðeins fyrir tímann. Það er betra! Að venju fór drengurinn í sturtu eftir æfinguna. Við erum tiltölulega nýkomin heim. Ég er búin að hella upp á og er að reyna að ræsa manninn. Ég ætla mér að vera dugleg um helgina og verðlauna mig m.a. með því að fara á kvennaleikinn Valur - Haukar í handboltanum í dag. Ég er náttúrulega í skýjunum yfir sigrinum í strákaleiknum í gær á útivelli í Víkinni. Sérstaklega vegna þess að heimaleikurinn við Víkinga tapaðist. Áfram Valur!

11.11.04

- Raddæfing á kóræfingu -

Ég var fyrst heim í gær. Oddur kom ekkert löngu á eftir mér og dreif sig í að klára að læra. Davíð kom heim um sex og var þar af leiðandi á undan nafna sínum sem kom klukkutíma seinna af kóræfingu.

Var mætt á kóræfingu stuttu fyrir hálfníu. Hitti frænda minn Einar Péturson (við erum systkynabörn) sem er smiður og ætlar að taka að sér smá verkefni í kringum orgelið. Þegar klukkan var alveg orðin og flestir mættir lét Pétur kórstjóri stjórnina í hendurnar á Ingveldi Ýr sem ætlaði aðeins að upplýsa okkur og þjálfa og hreinsa raddirnar. M.a. lét hún okkur æfa okkur í að láta barkakýlið renna. (Þetta var ansi gaman og höfðum við mjög gott af þessu.) Hún var með okkur í klukkutíma en síðan gafst tími til að æfa nokkur jólalög. Þetta var síðasta æfing fyrir Sikileyjarferðina.

10.11.04

- Drápuhlíðin uppgerð að mestu -

Um fjögur í gær mættum við Davíð á fasteignasöluna þar sem við hittum Þorbjörgu sem seldi okkur íbúðina. Farið var í gegnum afsalið og málin eiginlega uppgerð. Fasteignasalan hélt eftir 150.000 þar sem ekki er búið að klára eignaskiptasamninginn að fullu. En málin eru samt orðin skýr.

Davíð þurfti svo að skreppa aftur á skrifstofuna og ljúka smá verkefni. Sagði mér að sækja mig þegar ég væri búin að sækja strákana af æfingu. Hafði tæpan klukkutíma og fannst eiginlega ekki taka því að fara heim. Skrapp á næsta lottósölustað og lottaði. Einhvern veginn flaug tíminn áfram og ég sótti strákana um hálfsex. Davíð var tilbúinn er við sóttum hann. Í tilefni dagsins ákváðum við að skreppa á Pítuna.

Seinna um kvöldið kvaddi ég feðgana og fór í jólakortagerð til
tvíbuarhálfsystur minnar. Tíminn leið hratt, alltof, alltof hratt. Við vorum niðursokknar í verkið og máttum varla vera að því að fá okkur kaffisopa. Tók saman um hálftólf og taldi öll jólakortin sem nú eru tilbúin, 6 þrívíddar og 37 venjuleg. Glæsilegt!?! Ég náði svo heim rétt fyrir miðnætti.

9.11.04

- Á bókasafnið -

Þótt ég væri vel skóuð og með regnhlíf frá því um morguninn ákvað ég að taka strætó heim. Oddur Smári kom stuttu á eftir mér og dreif sig í að læra. Ég gerði upp kertasölumálin. Það er munur að vera með heimabanka. Davíð Steinn kom heim af kóræfingu um sjö og Davíð rétt seinna. Ég var tilbúin með matinn og þegar Davíð var kominn dreif ég mig á bókasafnið að skila bókum, framlengja þeim sem ég átti eftir að lesa og næla mér í nokkrar fleiri. Verslaði smá á heimleiðinni en gleymdi aðal-nauðsynjavörunni. Það eru margir mánuðir síðan ég hef þurft að kaupa wc-rúllur. Ég er reyndar að fara að styrkja eina frænku mína sem er í skátunum og að selja m.a. rúllur og ætla að kaupa tvöfalt af henni. En ég þarf samt að brúa bilið þangað til, það er bara ein rúlla eftir...

8.11.04

- Helgarmál -

Enn ein helgin er liðin svo undrafljótt. Ég vakti Odd um hálfníu á laugardagsmorguninn. Keyrði hann í karate og fylgdist aðeins með tímanum. Stráknum fer fram. Ræsti manninn um hádegi en hann var búinn að lofa vinafólki okkar að hjálpa þeim í flutningum. Við mæðginin fórum hins vega í smá kertasöluherferð. Náðum að selja rúmlega tíu pakka. Davíð skilaði sér um fjögur (hætti aðeins fyrr v/afmælisboðs) og dreif sig í sturtu. Síðan lögðum við leið okkar til Grindavíkur í fertugsafmæli. Það var mjög ljúft.

Í gærmorgun vakti ég strákana rétt fyrir hálfníu. Fann það út að ég þarf að vekja þá fyrr. Skutlaði þeim á æfingu á slaginu níu og fór heim og lagði mig aðeins aftur. Ræsti manninn um tíu og um hálfellefu vorum við mætt á fund með knattspyrnuþjálfaranum. Mikið lýst mér vel á þann mann. Fundurinn stóð yfir í rúmlega einn og hálfan tíma. Eftir að hafa fengið okkur eitthvað að borða skyldum við Davíð eftir heima (þurfti að vinna sagði hann) og fórum austur að sækja skólatöskurnar. Komum við á Selfossi að koma af okkur tveimur kertapökkum og pabbi keypti líka tvo kertapakka. Af 106 kertapökkum (10,6 kassar) eru ekki svo margir pakkar eftir, en bara þrír litir. Held að það taki því ekki að skila þessu inn. Það er bara sniðugt að stinga kertum með í suma jólapakkana í ár. Reyndar eigum við eftir einhver hús og stigaganga í Eskihlíðinni en ég ætla að sjá til.


6.11.04

- Uppgjör og íþróttir -

Davíð sótti mig rétt fyrir tvö. Vorum mætt á slaginu á 101 Reykjavík þar sem gengið var að mestu frá afsalinu fyrir Hrefnugötunni. Það á víst eftir að fullafgreiða eignaskiptasamninginn og á meðan hann er ófrágenginn heldur fasteignasalan eftir hundrað þúsund af lokagreiðslunni til okkar. En þetta er allt að smella. Ég mátti fá bílinn því þar sem það var fyrsti föstudagur í mánuðinum var eitthvað um að vera í Habilis (bjór, pizza og tölvuleikir) eftir vinnu.

Tvíburarnir voru að leggja gangandi af stað heim er ég kom að skólanum. Fengum okkur að borða í fyrra fallinu (rétt fyrir sex) og vorum mætt í Valsheimilið rétt áður en leikurinn, Valur - Stjarnan (27:21) í ReMax deild karla hófst. Ágætur leikur alveg. Stjörnustrákarnir náðu að komast einu marki yfir á tímabili í fyrri hálfleik en Valsarar voru með eins marks forskot í leikhléinu. Í hléinu gaf ég tvíburunum 150 fyrir drykk. Oddur Smári kom til baka með epla-hi-C og bland í poka en Davíð Steinn hafði aðeins fengið kókflösku. Hann leit þó löngunaraugum á nammið hans bróður síns. Sagði að þetta væri ekki sanngjarnt, hann drykki ekki Hi-C og væri svo lávaxinn að hann hefði ekki séð hvaða fleiri drykkir væru í boði. Ég sagði að það væri ekki sanngjarnt að hann fengi meiri pening en Oddur en bætti því við að það væri ekki nammidagur fyrr en á morgun svo geyma yrði blandið.

Afmæli - afmæli - afmæli Ég bara varð að bæta því við að besti vinur minn, Kjartan Friðrik Adolfsson, er fertugur í dag. 6. nóv. Þar með hefur hann náð konunni sinni sem náði þessum áfanga í ágúst. Við Davíð erum að vinna í því að ná þeim en það borgar sig ekki að flýta sér of mikið heldur á maður að njóta augnabliksins svo maður missi ekki af lífinu!

5.11.04

- Svona er lífið -
"skrýtið"

Til eru þeir sem alltaf kvarta
hvernig sem stendur á
svo eru þeir sem lítið
láta uppi hvað þeim finnst

Til eru þeir sem allt sjá jákvætt
þótt oft sé erfitt um vik
svo eru þeir sem þurfa
mikið að tala um ALLT

Hjá sumum er tíminn lengi að líða
leiðist þeim sí og æ
aðrir eru ekkert að bíða
og skjótast um borg og bæ

Einhverjir halda að lífið sé hnútur
hugsa um hvort hann leysist
svo eru aðrir sem láta ekki
áhyggjurnar spilla svefni sínum

Sitt sýnist hverjum
enginn hugsar eins
SEM BETUR FER
brosum og verum glöð
- Ævintýragjarnar skólatöskur -

Mamma skutlaði tvíburunum á æfingu rétt fyrir fjögur í gær. Tæpum klukkutíma seinna sótti hún mig til Helgu svo hún gæti hjálpað mér að sækja fleiri kerti í kirkjuna. Ég fékk lykla hjá kórstjóranum sem var að æfa unglingakórinn. Þegar ég gekk í gegnum kirkjuna var ungi einsöngvarinn Ísak Ríkharðsson að æfa sig. Þvílík rödd sem drengurinn hefur.
Það kom í ljós að öll jólarauðukertin eru búin (eins gott að taka frá fyrir fyrirliggjandi pantanir), fann aðeins einn átekinn kassa af þeim og nappaði honum. Mamma skutlaði mér heim með tvo og hálfan kassa af kertum en svo lá leið hennar austur. Hún var búinn að fá sig lausa því eftir hádegi í dag á að veita pabba viðurkenningu fyrir störf í þágu Landgræðslunnar.

Davíð kom og sótti æfingabuxur og handklæði Odds. Hann hafði sótt strákinn á miðri fótboltaæfingu. Þegar hann var búinn að keyra hann á karateæfingu kom hann heim. Það var víst keppni í tímafreka leiknum klukkan sex. Ég fór fljótlega og sótti Davíð Stein. Ég spurði hann hvar taskan hans væri. -"Hún er í skottinu hjá ömmu". Ég hringdi í mömmu. Hún var stödd rétt hjá Hveragerði og kannaðist undir eins við málið. Skólatöskurnar eru semsagt komnar austur á Hellu (þær hafa kannski haldið að þær fengju að taka þátt í athöfninni eða verða vitni að henni). Við Davíð Steinn sáum seinni hlutann af karateæfingunni hjá Oddi. Drengnum fer fram og ég sé að hann leggur sig fram af alvöru.

Keppnin hjá Davíð stóð ekki svo lengi yfir. Ég bað hann um að hella upp á því ég var komin á fullt í kortaföndrið. Maðurinn minn ætlaði sér svo að vinna eitthvað en settist fyrst niður í sófann hjá mér og drakk með mér einn kaffibolla. Klukkutíma seinna var hann þar enn, dottandi. Ég var ýtti við manninum og spurði hvort hann vildi bara ekki hátta sig inn í rúm. Það var nú ekki það sem hann hafði ætlað sér. Um hálfellefu settist hann við tölvuna. Þar var hann í tíu mínútur áður en hann ákvað að láta undan og fara í rúmið. Ég hélt áfram að föndra og áður en ég vissi var klukkan byrjuð að ganga eitt. Þá voru tilbúin 5 venjuleg kort og eitt þrívíddarkort (þurfti að klippa út myndirnar og það var þolinmæðisvinna...)

4.11.04

- Hringrás -

nýr dagur risinn,
bankar upp á og
býður góðan dag
"notaðu mig nú vel!"

skyldum sinnt af kappi
inn á milli borðað
spjallað, dreypt á
te eða kaffi

það líður fram á dag
komið heim
gengið í daglegu störfin
þvottur, matur, tiltekt

smám saman slokknar
á deginum og ró
færist yfir allt og alla
nóttin breiðir úr sér

hverf inn í draumalandið
vitandi það að það
styttist í nýjan dag.
- Pípurnar -

Davíð var kominn heim á undan mér í gær til að taka á móti píparanum. Það er búið að vera smá vesen með að hita íbúðina. Davíð fann það út að ofnarnir hölluðu ekki rétt en þótt búið væri að laga það þá hitnuðu þeir samt ekki. Í gær kom í ljós að það var heljar stífla rétt við inntakið sem var helsta vandamálið. Þegar píparinn var búinn að laga það sagði hann okkur að láta renna svolítið vel í gegnum ofnana til að byrja með svo við skrúfuðum allt í botn næstum því.

Hafði kjötsúpu í matinn. Sumir voru ekki mjög ánægðir með það en það breyttist allt um leið og þeir smökkuðu á súpunni. Og það sem er allra best við þetta er að ég á nóg af súpu næstu daga.

Kvaddi feðgana upp úr átta og fór á kóræfingu. Við æfðum ekkert nema jólalög og enduðum á því að syngja "Heims um ból" mjög veikt og hátíðlega. Maður kemst í þvílíkt jólastuð við svona söng!

3.11.04

- Kertasala og kortaföndur -

Þar sem strákarnir voru á æfingu til rúmlega fimm kom ég við hjá Helgu systur seinni partinn í gær. Hafði með mér einn pakka af hvítum kertum sem hún hafði pantað hjá mér. (Þar með var ég búin að selja 10 pakka í gær). Hulda opnaði fyrir mér. -"Anna frænka!" -"Halló Hulda mín og til hamingju með mömmu þína!!!" -"Komstu með pakka handa henni?" -"Nei ekki núna, allavega ekki afmælispakka." -"Gleymdirðu honum...?" Ég gaf mér tíma fyrir te og spjall og var svo heppin að Bríet vaknaði áður en ég þurfti að drífa mig heim (en hún hafði verið sofandi úti í vagni).

Strákarnir komu heim upp úr hálfsex og fóru beint að læra. Davíð Steinn hjálpaði mér svo með kvöldmatinn með því að skera niður fyrir mig sveppi og pylsur (hann hafði sveppina samt vel stóra svo hann sjálfur ætti auðveldara með að plokka þá úr) út í pastarétt sem ég hafði. Áður var ég búin að skera niður lauk, papriku og gulrætur. Einnig setti ég út í réttinn furuhnetur, salthnetur og tvær dósir af rjómaosti með svörtum pipar. Blandan heppnaðist mjög vel.

Rétt fyrir átta sendi ég feðgana og nafnana út í smá kertasölu. Þeir höfðu með sér fullan poka og einum og hálfum tíma seinna komu þeir heim með aðeins einn pakka af kertum afgangs. Á flestum stöðum var mjög vel tekið á móti þeim (hvort sem fólk keypti eða ekki). En Davíð sagði mér að á einum stað sem þeir komu hafði allt verið myrkt. Þeir hringdu samt upp á upp á von og óvon. Allt í einu var kveikt og það opnaðist smá rifa á dyrnar. -"Já?" sagði eldri kona sem birtist í gættinni. Davíð Steinn steig fram bauð góða kvöldið og bar upp erindið. -"Nei!" sagði konan, skellti hurðinni og slökkti ljósið aftur.

Ég tók fram kortaföndrið í gærkvöldi og klippti niður seinni englamyndina og gerði eitt stykki þrívíddar jólakort í gærkvöldi. Byrjaði á þessu föndri í seinna lagi og lét líka sjónvarpið aðeins trufla mig á stundum þannig að það var komið framyfir miðnætti þegar ég lauk við kortið. En nú er ég líka búin að föndra þau þrjú til fjögur þrívíddarkort sem ég ætlaði mér. Reyndar á ég alveg von á því að ég fari fram úr mér í þeim efnum, þetta er svo gaman!

2.11.04

- Afmæli -

Afmælisbarn dagsins er Helga systir. Hún er 35 í dag, rétt rúmum átján mánuðum yngri en ég sem segir mér að það styttist í að ég verði 37 ára. Það er bara gott mál!

1.11.04

- Kertasala -

Ýtti við tvíburunum rétt fyrir hálfníu í gærmorgun. Tæpum hálftíma seinna fóru þeir hjólandi á æfingu. Þeir komu aftur um ellefu með tvo fótboltafélaga með sér sem stoppuðu í rúman klukkutíma.

Um tvö drifum við í að útvega okkur skiptimynt og svo var Drápuhlíðin þrædd enda á milli og boðin til sölu Heimaeyjarkerti til styrktar drengjakór Reykjavíkur. Salan gekk þokkalega en það fór allt síðdegið í þetta. Það var ánægju legt að sjá sjálfstraust Davíð Steins er hann ávarpaði þá sem komu til dyra og bauð þeim kertin til sölu. Davíð Steinn er nefnilega frekar feiminn og hefur hingað til verið mjög óframfærinn, alls ekki tilbúinn að gefa sig að þeim sem hann þekkir ekki. En hann stóð sig eins og hetja í gær.

31.10.04

- Blandað innihald -

Davíð datt út um níu sl. föstudagskvöld. Hann rétt rumskaði um miðnætti til að hátta sig. Ég er svo sem ekkert hissa á þessu, maðurinn er að slíta sér út á vinnu þessa dagana og virðist ekkert lát á (hann kom heim um fimm í morgun).

Í gærmorgun fór Davíð með Odd Smára á karateæfingu en við Davíð Steinn löbbuðum upp í kirkju og vorum komin þangað á slaginu tíu. Þar fór fram sannkölluð verksmiðjuvinna í kertapökkun næstu tímana. Oddur Smári og Davíð komu til aðstoðar um ellefu. Gert var ráð fyrir tímanum tíu til tvö en þetta var duglegt fólk sem þarna var og allt var búið um hálfeitt. Þá var búið að pakka 100.000 kertum í fimm litum, fílabeinslit, rauð, vínrauð, græn og blá. Hver drengur á að selja amk fimmtíu pakka og tókum við með okkur fimm kassa, tvo af rauðum, tvo af vínrauðum og einn fílabeinslit. Mér skilst að grænn og blár séu ekki eins vinsælir.

Eftir pakkið skruppum við á Pítuna. Davíð ákvað að vinna heima til að byrja með og strákarnir völdu að vera heimavið á meðan ég fór að versla. En tvíburarnir komu svo með mér í Valsheimilið um fjögur á Valur - FH (34:29) í kvennahandboltanum. Þetta var skemmtilegur leikur en aldrei spurning um hvernig færi þótt FH kæmist í 1:0.

Um það leyti sem tvíburarnir voru að fara í háttinn kvaddi Davíð og sagðist verða að fara á skrifstofuna til að ljúka ákveðnu verkefni. Ég var búin að komast á því að dagskrá Stöðvar 2 og Sýnar voru óruglaðar en fann þar svo sem ekkert sem mig langaði að horfa á (kannski hnefaleikana en ég valdi Deep cover sem sýnd var á Skjá einum).

Þegar ég fór í háttinn byrjaði ég á bók sem heitir Íslenskar smásögur Þýðingar og er í rauninni íslenskaðar smásögur eftir 29 erlenda höfunda. Las tvær fyrstu smásögurnar: Gamla konan eftir Bertold Brecht og Samkvæmt guðspjalli Markúsar eftir Jorge Luis Borges. Ég hlakka til að lesa allar hinar sögurnar.

29.10.04

- Lestur, jólakortagerð og fleira -

Strákarnir voru komnir heim á undan mér í gær, höfðu reynt að hringja en gemsinn var auðvitað dauður. Þeir bræður, sem voru nú ekki búnir að vera lengi einir, voru í playstation. Ég byrjaði á því að sækja þvott niður á snúrur, m.a. flipperhandklæðið hans Odds. Síðan ákvað ég að gefa mér tíma í smá lestur. Ég er nýbúin að ljúka við Minningar barnalæknisins Björns Guðbrandssonar en í gær lauk ég við að lesa Fjandvinir, smásögur eftir Gunnar Gunnarsson. Bókin um barnalækninn var fín. Margar af smásögunum voru líka mjög góðar en þær höfðuðu ekki allar til mín.

Um fimm sá ég til þess að Oddur Smári gerði sig kláran fyrir karateæfingu. Stráksi hringdi líka í pabba sinn til að kanna hvort hann næði ekki tímanlega í sig. Davíð Steinn fékk að vera áfram í tölvunni. Þegar feðgar komu heim af æfingu komu þeir með franskar kartöflur með sér og ég var búin að steikja nokkrar kjúklingabringur (og renna í könnuna). Átti til smá sallat í ísskápnum en ég var ein um að vilja svoleiðis með.

Davíð þurfti að vinna í gærkvöldi. Gat samt gert það heima svo hann kom öðru hvoru fram og drakk með mér kaffi. Reyndar kíkti mamma í heimsókn upp úr hálfátta. Við sátum saman fyrir framan imbann. Ég sýndi henni jólakortin sem ég er búin að gera og fór svo að klippa niður mynd af engli sem er að hugga ungan dreng. Það tók mig rúmlega klukkutíma að klippa þetta niður og svo tæpan hálftíma að líma þetta framan á kortið en það tókst og ég gerði því semsagt eitt jólakort í gærkvöldi. Svona þrívíddarkort koma mjög vel út og það er gaman að föndra við þau þótt það taki smá tíma.

28.10.04

- Afmælisbörn -

Davíð og Hugborg hans Tomma eru árinu eldri í dag. Vonandi verður dagurinn ekstra góður hjá þeim. Davíð var að vísu að vinna alveg fram á morgun. Rumskaði eitthvað um fimm þegar hann var að skríða í bælið.

27.10.04

- Tilfæringar og kortagerð -

Pabbi beið fyrir utan seinni partinn í gær. Hann var að koma til mín til að taka ónýtt og gamalt sjónvarp og sýsla ýmislegt fleira. Þegar hann kvaddi eftir kvöldmat var hann búinn að hjálpa mér að færa til stóra hluti í strákaherberginu svo sófinn kæmist betur fyrir. Það er samt nokkuð ljóst að þessi sófi passar alls ekki hjá okkur og getur í mesta lagi fengið að vera þar til strákarnir eru vaxnir upp úr kojunum (og það styttist í það). Hann var líka búinn bora upp fyrir mig geisladiskastand, sprittkertalampa og negla upp tvær myndir. Það eru þrír mánuðir síðan við fluttum og það er fyrst núna sem ég er að komast í gang með að koma mér betur fyrir. Hef svo sem verið að spá í hlutina, velta þeim fyrir mér fram og aftur, enda veit ég núna nákvæmlega hvernig ég vil hafa hlutina. Davíð er búinn að fá fullt af tækifærum til að gera þetta með mér en nú ákvað ég að virkja pabba.

Rétt fyrir átta kvaddi ég feðgana og dreif mig til tvíburahálfsystur minnar í kortagerð. Að þessu sinni vorum við bara tvær, áttum samt kannski von á einni til en það varð ekkert úr því. Ég gerði fyrstu tvö þrívíddarkortin mín. Líkt og í síðustu viku leið tíminn undrafljótt. Klukkan var allt í einu byrjuð að ganga tólf. Þá var ég búin að gera 8 jólakort og 8 merkispjöld, mjög sátt við framleiðslu kvöldsins.

26.10.04

- Foreldrafundur í drengjakórnum -

Kom við hjá Helgu systur í gær og þáði hjá henni einn tebolla. Það tók því ekki að fara heim því það var búið að boða til foreldrafundar upp í kirkju klukkan fimm. Það voru nokkur mál á dagskrá fundarins. M.a. tilvonandi kertasala drengjakórsins sem er árlegt hjá þeim. Hver drengur á að selja amk fimmtíu pakka (tíu kerti sama á kr. 600 í allskonar litum). N.k. laugardag á að hittast í kórkjallaranum og pakka saman kertum. Mér skilst að það sé mikið fjör og mikið gaman. Endilega látið mig vita ef þið viljið kaupa kerti. Það er líka stefnt að því að fara með strákana í æfingabúðir í Skálholt fljótlega og svo aftur í febrúar/mars. Kórinn á að syngja næst klukkan sex á aðfangadag. Sá dagur verður því líklega allt öðruvísi en flestir aðfangadagar hjá okkur. Hér má finna heimasíðu kórsins.
- Af símamálum -

Sennilega er stutt í síðustu andvörpin hjá gemsanum mínum. Hann er með "ofnæmi" (eða eitthvað) fyrir sjálfum sér. Vinnur í því að skemma sjálfan sig. Ég er búin að skipta tvisvar um rafhlöðu á árinu og passaði vel upp á að setja símann aldrei í helðslu fyrr en hann var amk farinn að pípa, helst alveg búinn á því. Núna þykist hann vera marga, marga klukkutíma að hlaða sig og sú hleðsla dugir mjög skammt þótt síminn sé frekar lítið notaður. Það gerðist samt svolítið skrýtið í morgun. Ég nota símann til að vekja mig og stillti hann í gærkvöldi þrátt fyrir að hann gæfi til kynna að lítið væri eftir á honum. Náði mér einnig í gamla vekjaraklukku til öryggis (sú er svolítið rugluð. Gengur rétt en ef hún á að vekja mann klukkan sex verður að stilla nálina á fimm). Einhvern tímann í nótt slokknaði á gemsanum. Ruglaða vekjaraklukkan hringdi rúmlega sex. Og viti menn, þrátt fyrir að gemsinn væri "dauður" hringdi hann klukkan 6:20 (og nokkrum sinnum eftir það).

25.10.04

- Tvisvar í kirkju -

Ýtti við Oddi Smára um hálfníu í gærmorgun og spurði hvort hann ætlaði á æfingu eða sofa áfram. Stráksi ákvað að mæta á fyrstu knattspyrnuæfingu sína í 6. flokknum og dreif sig á fætur, fékk sér morgunmat, tók sig til og hjólaði svo af stað rétt fyrir níu. (Æfingarnar eru örugglega byrjaðar fyrir einhverju síðan). Sendi Davíð Stein í sturtu. Á meðan hann var að fá sér eitthvað borða fann ég til sparifötin hans, skyrtu, svartar buxur, svarta sokka og svarta skó. Það kom reyndar í ljós að skórnir voru orðnir helst til þröngir og litlir en við redduðum því í gær með því að lána honum spariskó bróður síns. Upp úr hálftíu skutlaði ég Davíð Steini upp að kirkjukjallara og skildi við hann þar í bili.

Oddur Smári hringdi heim um hálfellefu til að spyrja hvort hann mætti fara heim með einum fótboltafélaga sínum. Ég minnti hann á að hann hefði lofað bróður sínum að mæta í kirkju til að hlusta á hann. Við fórum öll í kirkju. Davíð bað um að setjast ekki mjög framarlega en ég settist hjá Helgu og Ingva á þriðja bekk og það hefur sjálfsagt verið of framanlega fyrir manninn minn (eða þá að hann hafi hreinlega ekki séð okkur). Það er skemmst frá því að segja að Drengjakór Reykjavíkur stóð sig með miklum sóma í messunni. Kórstjórinn hafði fengið níu eldri drengi með þeim og þetta kom mjög vel út. Eftir messu og smá kaffisopa var fólkið boðið inn í kirkju aftur að hlusta á alla kórana (drengjakórinn, unglingakórinn og módettukórinn). Við höfðum bara tíma til að hlusta á strákana aftur því ég átti að vera mætt um eitt til að hita upp fyrir messu í Óháðu kirkjunni.

Feðgarnir skutluðu mér, fengu sér að borða og svo fóru bræðrnir saman í heimsókn til fótboltafélaga síns. Séra Pétur bað mig um að lesa fyrri ritningalesturinn og varð ég við því. Ég var of hissa til að verða stressuð. Fékk að lesa yfir textann áður en messan byrjaði. Það voru ekki margir mættir í messu, innan við 30 manns, svo það tók því ekki að verða feimin. Lét bara vaða. Meðhjálparinn stóð við hliðina á mér og las síðari ritningalesturinn. Hann tók fyrir mig biblíuna þegar við vorum búin (erfitt að halda bæði á sálmabók og biblíu alla messuna). Þetta verk var semsagt búið áður en ég vissi af. Svo er ekki laust við að ég hafi orðið pínu montin þegar flestir kórfélanna hrósuðu mér fyrir lesturinn eftir messu.

23.10.04

- Fyrsti vetrardagur -

Í dag er föðurbróðir minn, Þorsteinn Oddsson, 84 ára. Hugurinn verður hjá honum í dag. Reyndar hugsa ég oft til þessa frænda míns. Slæ stundum á þráðinn til hans og heilsa alltaf upp á hann þegar ég skrepp austur (þ.e. ef hann er heima).

Við Oddur vorum að koma frá karateæfingu. Hann varð glaður við að ég skyldi ætla að skutla honum og horfa á. Svo var ég að lesa blöðin þegar þjálfarinn kom með piltinn fram. -"Mamma, ég beyglaði stóru tána". Hann fékk kælingu á tána og fór svo aftur inn.

22.10.04

- Rafmangsleysi og rómantík -

Davíð fór með Odd Smára á karateæfingu í gær. Áður en þeir komu heim sendi hann mér sms-skeyti sem fór alveg framhjá mér (gemsinn var í kápuvasa mínum inni í skáp). Þegar þeir feðgar komu heim tilkynnti Davíð mér að það væri keppni í tímafreka leiknum og að hann hefði skráð sig þar með til leiks. Ég vék því úr tölvunni og fór að huga að kvöldmatnum. Hellti upp á í leiðinni. Við strákarnir borðuðum saman upp úr sjö.

Eftir mat fóru strákarnir inn í herbergið sitt að leika sér en ég settist með kaffibolla inn í stofu og kveikti á sjónvarpinu. Var að hugsa um hvað ég ætti að gera við kvöldið. Ætti ég að sauma eða gera nokkur jólakort? Ákvað að horfa amk á Malcolm in the middle áður en ég tæki ákvörðun. Sá þáttur var nýbyrjaður þegar rafmagnið fór. Davíð og félagar voru í miðjum leik. Bóndi minn var þó sá eini sem var útilokaður frá leiknum vegna óviðráðanlegra orsaka. Mér fannst þetta nokkuð fyndið, að það skyldi vera tekið fram fyrir hendurnar á honum þó svo að ég væri búin sætta mig við ástandið. Fljótlega kom maðurinn uppi að biðja um eld. Strákarnir fundu vasaljósin sín og skruppu svo upp í heimsókn. Ég kveikti á amk 12 sprittkertum og dreifði um húsið. Við Davíð settumst svo inn í stofusófa, drukkum kaffi, spjölluðum og höfðum það kósí. Strákarnir komu niður stuttu seinna og háttuðu sig en fengu svo að fara upp aftur til klukkan að verða tíu. Þeir sögðu að Dagbjörtu uppi leiddist svo.

Davíð var að hugsa um hvort hann þyrfti að fara á skrifstofuna að ljúka smá vinnu en rafmagnið kom á aftur (eftir um klukkustundar fjarveru) áður en til þess kom. Við slökktum á loftljósinu inni í stofu og drukkum einn kaffibolla í viðbót við sprittkertaljós. Maðurinn minn var svo að vinna langt fram á nótt.

21.10.04

- Engar holur -

Ég fór í árlegt eftirlit til tannsa í morgun. Var mætt á slaginu en þurfti að bíða í um tíu mínútur því einn mágur minn var í stólnum. Þegar ég komst að þurfti tannlæknirinn rétt að fara yfir tennurna og hreinsa smá tannstein hér og þar. Svo sagði hann bara: -"Sjáumst að ári!" Skiptimiðinn minn rann út á meðan ég var að gera upp og festa næsta tíma, svo ég ákvað að labba bara til baka í þessu fína veðri (tannlæknirinn er með stofu í Sjálfstæðishúsinu við Háaleitisbraut 1). Þetta var bara fínasti aukagöngutúr. Var heldur ekkert svo lengi þar sem ég er þrælvön.

Annars var ég með rúsínuslátur í matinn í gærkvöldi. Strákarnir borðuðu mikið og þótti maturinn góður. Þetta smakkaðist líka mjög vel. Hafði það mikið að ég get steikt slátur í kvöldmatinn í kvöld.

Mér er hætt að standa á sama með þessa vinnutörn hjá Davíð. Hann kom heim í morgun rétt áður en ég arkaði af stað og meðalsvefn á sólarhring er kominn niður í tvo tíma hjá honum. Ef þetta heldur svona áfram er ég hrædd um að eitthvað fari að bila hjá honum.

20.10.04

- Föndurkvöld -

Pabbi var búinn að láta mig vita að hann ætlaði að sækja mig seinni partinn. Þegar ég kom út um fjögur var það hins vegar mamma sem renndi upp að mér. Ég hikaði í smástund en sagði henni svo að það væri verið að sækja mig. Pabbi kom rétt seinna og bauð mér að taka í nýja bílinn sinn. Ég afþakkaði í þetta sinnið. -"Afi, velkominn! Gaman að sjá þig"! sögðu strákarnir sem biðu ásamt Bjössa (öðrum tvíburanum "hennar mömmu") á tröppunum heima.

Heima setti pabbi upp ljósakrónu fyrir mig. Ég bauð honum að borða með okkur (lúxusplokkfisk) og þáði hann það. Var bara hinn rólegasti hjá mér. Hann kvaddi samt strax eftir matinn en ég á von á honum fljótlega aftur.

Ég náði samningum við Davíð um að koma heim um átta og vinna þar. Tvíburarnir voru að koma úr bað er hann kom heim. Ég stakk næstum strax af og dreif mig yfir til tvíburahálfsystur minnar. Tvær aðrar vinkonur hennar voru þegar komnar þegar ég kom upp úr hálfníu og svo var Kristbjörg fósturdóttir hennar stödd þarna. Á dagskrá var jólakortagerð. Fljótlega var ég alveg niðursokkin í föndrið og rétt skaut inn orði og orði í umræðurnar. Það munaði vel um það að vera búin að klippa niður karton og myndir. Tíminn flaug og allt í einu var klukkan orðin ellefu. Þá voru líka komin 18 jólakort hjá mér. Ég kom heim um hálftólf. Davíð sat við tölvuna og var að hamast við að vinna og vann víst langt fram á nótt eins og undanfarna daga. Ég vona að þessari vinnutörn fari að ljúka bráðum!

En það var allt annað að arka í morgun heldur en undanfarna tvo morgna. Það var stillt og gott og frábært að hugsa.

19.10.04

- Hann tók vel í í morgun -

Já, það var hálfstrembið á arkinu í morgun. Að vísu komst ég að því þegar ég kom út að hljóðin í veðrinu voru mun meiri heldur en kannski sjálfur vindurinn. En hann var sterkur sums staðar á leiðinni. Stundum komst ég varla úr sporunum. Þetta hafðist þó allt saman.

Davíð Steinn tilkynnti mér er hann kom heim af kóræfingu að drengjakórinn ætti að syngja við messu í kirkjunni n.k. sunnudagsmorgun. Ég hlakka til að heyra í strákunum. Spurði drenginn hvort hann kæmi í mína messu ef ég kæmi í hans? He he.....

18.10.04

- Afmælisbarn dagsins -

...er hann pabbi minn.
Í dag fyllir hann sjö tugina og í tilefni þess ætlar hann að vera einn með sjálfum sér. Til hamingju með daginn pabbi! Á föstudaginn var, var síðasti vinnudagurinn hans hjá Landgræðslu Ríkisins. Ég er samt viss um að pabbi verður ekki í neinum vandræðum með að finna sér eitthvað til dundurs. T.d. er ýmislegt sem hann getur dytt að fyrir mig...

16.10.04

- Sláturgerð -

Mamma bauð tvíburunum með sér austur í gær. Hún beið hérna fyrir utan þegar ég kom arkandi heim um fimm. Ég tók til í tösku handa strákunum og fór með henni á skrifstofu habilis að sækja þá. Ætlaði svo að bjóðast til að labba heim þaðan (úr Ármúlanum), en Davíð Steinn bað um að fá að taka línuskautana sína og fylgihluti með austur svo við þurftum hvort sem er að fara eftir þeim hlutum. Ég kvaddi svo strákana og um fimm og sagðist sækja þá á sunnudag.

Davíð kom ekki heim fyrr en um ellefu um kvöldið. Það er smá vinnutörn í gangi hjá honum þessa dagana. Ég var sem betur fer með árskortið í Val og dreif mig handboltaleikinn VALUR - ÍBV 28:26. Satt best að segja hélt ég að strákarnir ætluðu ekki að hafa það. Eyjamenn skoruðu fyrsta markið en framan af fyrrihálfleik leiddu mínir menn. Þeir misstu þó forskotið niður og voru undir í hálfleik. Það var ekki fyrr en síga fór á seinni hluta síðari hálfleiks að Valsara náðu að rétta sinn hlut (leikurinn hefði reyndar getað farið á hvorn veginn sem var) og náðu undirtökunum. Pálmar stóð vel fyrir sínu í markinu og varði m.a. eitt vítaskot.

Í morgun dreif ég mig á fætur fyrir níu. Davíð hafði talað um að vera mættur í vinnu um tíu og hann ætlaði að skutla mér til tvíburahálfsystur minnar í leiðinni. Ég var mætt þangað rétt rúmlega. Hún og mamma hennar voru í þann veginn að byrja á sláturgerðinni. Mér var tjáð að ég ætti að skera mörinn en tvíburahálfsystir mín að sauma vampirnar. Þegar hún var búin að gera sig klára í að byrja saumaskapinn kom í ljós að allar vambirnar voru þegar saumaðar. Þar sem við mamma hennar vorum að snyrta og hakka lifrar var hún því beðin um að skera mörinn. Tvíburahálfsystir mín fann til bretti og hníf en þegar hún opnaði annan pokann með mörinni kom í ljós að það var þá þegar búið að skera allan mörinn. "-Ég hélt nú ekki að pabbi þinn hefði keyrt svo hart í bæinn í morgunn að mörinn myndi hristast í sundur..." sagði mamma hennar þá bara. En hún var semsagt búin að flýta fyrir sláturgerðinni eins og hægt var og þegar búin að gera sín þrjú slátur. Við vorum rétt um þrjá tíma að vinna tíu slátur. Ég fékk svo að geyma slátrið mitt í frystikistunni til morguns (tók bara fjóra keppi (tvo og tvo) með heim)

Davíð var að vinna til rúmlega sex svo þær mæðgur sátu uppi með mig. Ég var með saumadótið og hugsaði til þess að ég hefði átt að taka kortagerðardótið mitt líka með. Maðurinn minn sótti mig rétt um sjö. Hann skoðaði húsið tvíburahálfsystur minnar hátt og lágt enda að koma þangað í fyrsta sinn eftir flutningana. Hann skilaði mér heim í Drápuhlíð en þurfti svo að fara á skrifstofuna. Þar er hann enn og ekki vitað hvenær hann mun skila sér. Ég er samt að vona að hann þurfi ekkert að vinna á morgun og geti skroppið með mér austur.

15.10.04

- Föstudagur enn á ný -

Tvíburarnir voru "ekki týndir" þegar ég kom heim um hálffimm í gær, heldur uppi í risíbúð að glamra á hljóðfæri og leika sér við kettina. Unga húsmóðirin uppi er ekkert að neita þeim um að vera þótt stelpan hennar (sex ára) sé ekki endilega heima. Ég fór þó fljótlega upp og sagði Oddi Smára að koma og búa sig undir karatetíma. Fór svo niður í þvottahús og sótti nýfundið flipperhandklæðið hans til að taka með sér. Stráksi er sá eini sem fer í sturtu eftir tímana. Hann hringdi svo í pabba sinn og sagðist vera að verða klár.

Ég undirbjó kvöldmatinn og hellti upp á. Stuttu áður en þeir feðgar komu hringdi Davíð og sagðist ætla að skutla stráknum heim en fara beint að vinna aftur. Og ég sem var búin að hella upp á fullan brúsa. Mér tókst að fá manninn minn til að koma aðeins inn, fá sér að borða (saltfisk) og einn kaffibolla. Hann var samt farinn um hálfátta. Ein vinkona mín leit aðeins inn í gærkvöld, færandi hendi (gaf mér heimabakað rúgbrauð). Hún stoppaði ekki lengi því hún var eiginlega á leið annað.

Þeir bræður fóru í háttinn um níu. Ég tók loksins fram föndurdótið og skærin og klippti og klippti. Gaf mér samt ekki tíma til að klippa niður arkir í "jólakortastærð". Hefði líklega þá verið að langt fram á nótt. Kassinn undan nýju skónum hentaði vel undir föndrið. Fór í háttinn um miðnætti, heldur seint en þó ekki eins seint og Davíð. Hann kom ekki heim fyrr en um hálfsex í morgun og var mættur til vinnu aftur um níu.

En nú er ég komin í ævisögurnar í bili. Er að lesa um leikarahjónin Erling Gíslason og Brynju Benediktsdóttur. Er ekki komin mjög langt en sé samt fram á skemmtilestur.

14.10.04

- Enn er lesið -

Í gær lauk ég við skáldsöguna Á færibandi örlaganna eftir Halldór Stefánsson. Höfundur var á 81. ári þegar hann sendi þessa sögu frá sér á fyrri hluta áttunda áratugsins. Þetta var smellin saga en á margan hátt sorgleg. Sagan hélt mér við efnið. Það var með ólíkindum í hvaða raunum söguhetjurnar lentu. Stundum virtist ekkert vera að gerast þó en samt fann ég að það kraumaði eitthvað undir niðri.

Og nú er ég byrjuð á og langt komin með Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák Guðjónsson. Sú bók er líka um mannlegar raunir en þó mun nærri nútímanum.

Það var kóræfing í gærkvöldi og að þessu sinni vorum við að æfa jólasálma í röddum. Komust yfir 6 sálma og var tíminn alveg ótrúlega fljótur að líða. Það er mesta furða að ég skuli ekki vera að raula jólalög þessa stundina...

12.10.04

- Sunddót Odds komið í leitirnar -

Ég var hér um bil hálfnuð heim, seinnipartinn þegar gemsinn byrjaði að hringja. Davíð Steinn var á línunni. -"Hæ, mamma, ertu á leiðinni heim?" -"Já, elskan, en ég ætla að koma við í fiskbúðinni. Verður það ekki allt í lagi?" -"Jú, við erum komnir heim. Ég fékk símanúmerið þitt hjá pabba svo ég gæti hringt í þig til að vita hvort þú værir á leiðinni..."

Þeir bræður voru að leika sér í play station tölvunni þegar ég kom heim. Gaf þeim grænt ljós á að leika sér nokkra stund í henni áfram. Sjálf fleygði ég mér stund í rúmið og fór að lesa. Er að lesa "Sveindómur" eftir Egil Egilsson.

Þegar þeir bræður hættu að tölvast kom Davíð Steinn og sagði mér að hann hefði verið að leita að húfunni sinni í óskilamununum í skólanum og fundið sunddótið hans Odds sem er búið að vera týnt í nokkrar vikur. Mér léttir stórum. Að vísu var kominn tími til að kaupa stærri skýlur á strákana en mér var alls ekki sama um Flipper-handklæðið. En þetta er semsagt komið heim núna.

11.10.04

- Nýliðin helgi og fleira -

Eftir hádegi sl. laugardag skutluðum við mæðginin Davíð á skrifstofuna og sóttum svo tvíburahálfsystur mína. Við fórum fyrst í Föndru þar sem ég verslaði mér ýmislegt til kortagerðar. Síðan lá leiðin í Bónus.

Stoppuðum svo hjá tvíburahálf-systur minni til klukkan að verða fimm. Gerði tilraun til að heimsækja eina frænku mína og nöfnu sem ég er búin að vera á leiðinni til lengi, lengi. Hún var ekki heima svo ég skrapp í verslun áður en ég sótti svo Davíð

Í gær var messa og skírn í Óháða söfnuðinum. Að þessu sinni voru allir sálmar sungnir í röddum og eitt lag að auki þar sem einn tenórinn söng einsöng.

Ég hef nýlokið við að lesa bókina Hér leynist drengur sem er um einhverfan dreng og hvernig honum, með aðstoð foreldra og systur, tókst að vinna sig út úr einhverfunni. Mjög svo athyglisverð lesning sem náði sterkum tökum á mér.

Fór beint á ferðaskrifstofuna seinni partinn og borgaði upp Sikileyjarferðina sem við förum í 18. nóv. Nú er ég komin með farseðilinn í hendurnar og allt orðið einhvern veginn raunverulegra. Ég hlakka ekkert smá til, hef ekki farið út fyrir landsteinana síðan 1995, og finnst það alveg mál til komið. Ég er líka viss um að þessi ferð verður frábær.
- Skammdegi -

Birtan hverfur smátt og smátt
svart myrkrið tekur völdin.
Það má ekki að hafa hátt
í húminu á kvöldin.

9.10.04

- Bókasafnsferð og fleira -

Ég kom við á Grettisgötunni seinni partinn í gær og stoppaði í klukkutíma. Samt var ég á undan feðgunum heim. Þeir komu um sex og þá sá ég mér leik á borði og dreif mig á bókasafnið. Skilaði öllum bókum nema Harrý Potter og Fönixreglunni sem Oddur Smári er að lesa og annarri sem ég ætla strákunum líka að lesa. Framlengdi útláni þeirra um mánuð. Síðan tók ég mér körfu í hönd. Lagði leið mína m.a. á fimmtu hæðina og setti nokkrar ævisögur í körfuna, skrifa kannski um þær að lestri loknum, einnig kom ég við í barnadeildinni og tók nokkrar bækur fyrir strákana. Ég fyllti körfuna og þegar búið var að merkja bækurnar út fylltu þær tvo bókasafnspoka. Reyndar komst ég ekki langt með þær því það pípti á mig á útleið svo ég varð að fara aftur í afgreiðsluna, tína allar bækurnar úr pokunum. Þetta verður örugglega athyglisverð lesning. Tók eitthvað um sex bækur handa strákunum að lesa, en ég leigði 15 bækur handa mér og hlakka ég til að lesa þær. Það eru sirka tveir dagar á hverja bók en ég ætla nú ekkert að keppast við því það er ekkert auðveldara en að framlengja skilafrestinum.

Oddur Smári var vaknaður upp úr klukkan átta í morgun. Ég reif mig upp hálftíma síðar og ákvað að fara með drengnum í karate að horfa á í þetta skipti. (Davíð hefur séð um allar ferðir á æfingarnar hingað til). Ég hafði mjög gaman að því. Hann var mættur fyrstur. Áhugi hans er svo greinilegur því það var hann sem rak á eftir: -"Við verðum að drífa okkur mamma!" sagði hann áður en klukkan varð níu (æfingin byrjar kl. 9:20).

Ég er búin að lesa fyrstu bókina, Vatnsfólkið sem eru smásögur eftir Gyrði Elíasson. Sögurnar eru flesta mjög stuttar en þær toguðu í mig og drakk ég hverja söguna í mig á fætur annarri. Kannski las ég bókina heldur hratt og verið getur að ég lesi sumar sögurnar yfir aftur áður en ég skila bókinni. Hef skilafrest til 11. nóvember.

8.10.04

- Ný arkleið prófuð -

Ég tók óvænta stefnu á arkinu í morgun og prófaði alveg nýja leið. Góðan part af leiðinni heyrðist ekkert í neinu öðru en syngjandi fuglum. Veðrið var milt og alveg logn. Þetta var frábær göngutúr. Ég á örugglega eftir að ganga þessa leið aftur.

Það eru ellefu dagar þangað til ég á að skila af mér á bókasafninu en ég var að klára síðustu bókina í gærkvöldi. Samt var ég örugglega með hátt í 15 bækur. Þvílíkur bókaormur sem ég er. Sennilega verð ég á ferðinni á bókasafnið um helgina.

7.10.04

- Smeik í smá stund -

Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi ég í Skaftahlíðina til að grennslast fyrir um tvíburana. Í ljós kom að þangað höfðu þeir ekki komið (kannski vegna þess að enginn var heima um það leyti sem þeir eru vanir að "banka" upp á. Mamma fór með krakkana til tannlæknis um þetta leyti.) Hvar voru þá tvíburarnir? Hringdi í Davíð og minnti hann á að það var karateæfing hjá Oddi. Sagði honum líka að ég vissi ekkert hvar drengirnir væru. Hringdi líka í Helgu systur en hún gat lítið hjálpað mér. Galopnu dyrnar inn í íbúðina hefðu átt að gefa mér vísbendingu þegar ég kom heim. Fór fram í gang til að athuga hvort skórnir þeirra væru þar og þá kom Oddur Smári ofan úr risíbúð. Þeir bræður höfðu komið við í Skaftahlíðinni um þrjú leytið en þar sem enginn var heima þar löbbuðu þeir heim. Það var einhver heima uppi og þeim var hleypt inn. Þeir fóru alla leið upp að heimsækja kettina.

Annars fóru þeir með sínum bekk og öðrum sjö ára bekknum með rútu upp í Háskóla til að synja við setningu ráðstefnunna Spider Web. Það ku hafa gengið alveg ágætlega og nú er ég spennt að vita hvort eitthvað kemur um þetta í fréttunum.

6.10.04

- Nýtt húsgang -

Um sex í gær kom sending frá Betra bak. Tveir piltar komu inn með svefnsófa í pörtum og skrúfuðu hann saman inni í strákaherbergi. Held samt að það endi með því að sófinn verði settur í tölvuherbergið. Tvíburarnir voru nýkomnir heim og snérust í kringum ungu mennina, allir fjórir höfðu gaman að. Það er mamma sem var að senda okkur þennan sófa svo hún eða pabbi geti lúllað hjá okkur öðru hvoru.

Davíð skilaði sér heim á áttunda tímanum. Ég var búin að renna í könnuna og við mæðginin vorum búin að gæða okkur á sveppasúpu. Aldrei þessu vant þurfti Davíð ekki að vinna og hann "fór heldur ekki" á æfingu í tímafreka leiknum. Svo við höfðum kvöldið að mestu fyrir okkur.

5.10.04

- Meðbyr -

Ég var svo heppin að Kári var á sömu leið og ég seinni partinn í gær. Hann ýtti vel á bakið á mér og var ég fimm mínútum fljótari fyrir vikið. Einu sinni var næstum farið illa fyrir mér. Ég stóð og beið eftir ljósunum yfir Miklubraut þegar Kári ákveður að ýta duglega í mig. Ég var næstum því fokin út á götuna. Sem betur fer tókst mér að stöðva mig og hallaði mér bara duglega á móti vindinum.

4.10.04

- Helgin liðin -

Ég greip hugmyndina frá Guðrúnu Völu fegins hendi og smurði stafla af flatkökum með hangiketi í gærmorgun. Takk fyrir þessa snilldarhugmynd Guðrún Vala! Svo sendi ég feðgana eina út í Valsheimili, Davíð Steinn hjólaði en Oddur Smári var samferða pabba sínum. Dreif í að ryksuga og taka til en svo freistaðist ég til að horfa á Chelsea - Liverpool 1:0. Mínir menn töpuðu, en fengu þó bara eitt mark á sig og ég hef það á tilfinningunni þetta fari alveg að smella hjá þeim. En þvílíkt mark sem Henry skoraði fyrir Arsenal með hælspyrnu. Þetta var með ólíkindum.