29.11.11

- Eitt og annað -

Nú er
nóvember senn á enda og þá bara einn mánuður eftir af árinu. Undanfarnir dagar hafa verið fljótir að líða og margt hefur verið brallað. Á föstudaginn bauð ég Davíð með mér á jólhlaðborð með vinnufélögum mínum og þeirra fylgifiskum á Grand Hótel. Við stoppuðum aðeins í rúma tvo tíma því svo lá leiðin heim til eins kórfélaga míns í jólaglögg, söng og fleira. Við rétt misstum reyndar af hápunktinum, pistlinum sem sannKristinn flytur alltaf við svona tækifæri. En við skemmtum okkur engu að síður svo vel að áður en við vissum af var klukkan komin nokkuð fram yfir miðnætti. Maðurinn minn og svili stefndu á rjúpuferðir á laugardag og sunnudag og þar að auki hefði Davíð helst þurft að klára smá verkefni sem hann var að vinna að. Þeir félagar fóru ekki af stað fyrr en komið var vel fram á morguninn því yngri systurdóttir mín var að keppa á skautum og pabbi hennar að taka upp dansinn hennar. Sú stutta nældi sér í annað sætið. Ég var heimavið allan laugardaginn og náði að taka til í og þrífa efri skápana í eldhúsinu og framfylgja fleiri heimilisstörfum.

Svilarnir fóru fyrr af stað á sunnudagsmorguninn en samt ekki fyrr en á níunda tímanum. Ég var afar löt og kom mér ekki á fætur fyrr en um ellefu. Var mætt í kirkjuna um eitt og söng með sex öðrum kórfélögum mínum við messuna klukkan tvö. Rétt fyrir þrjú vorum við sest niður og ég komin með kaffi í bollann. Þá verð ég vör við það að gemsinn minn er að hringja. Á línunni var maðurinn minn með hjálparbeiðni. Hann bað mig að sækja aukalykla af bíl svila síns og skutlast með þá til þeirra. Áður en ég fór af stað lánaði sannKristinn mér pistilinn frá föstudeginum. Skrapp heim, skipti um skó og lét strákana vita hvað ég væri að fara að gera. Setti bensín á bílinn á leiðinni heim til systur minnar. Eftir að hafa sótt bíllyklana lagði ég í hann út úr bænum og var ég uþb klst að keyra til þeirra félaga. Þeir höfðu sem betur fer hitt á hóp manna sem var að vinna í skógrækt (saga og pakka jólatrjám) ca tuttugumínútna gangleið frá þar sem þeir festu sig og læstu sig úti úr bílnum. Vel gekk að kippa þeim lausum (ég og okkar bíll sluppum sem betur fer alveg við það). Vorum komin í bæinn stuttu fyrir sex. Bjó til kaffi handa manninum áður en ég skrapp að versla inn það nauðsynlegasta og skutlaði ég gleraugum mágs míns til hans í leiðinni. Ákváðum að hafa mat frá Saffran í kvöldmatinn.

23.11.11

- Tónleikar -
forskot á aðventuna
Um leið vinnu lauk í gær arkaði ég yfir Skólavörðuholtið og kom fyrst við í Sundhöllinni. Var komin ofan í laugina upp úr klukkan hálffimm og synti í ca tuttugu mínútur. Tapaði tölunni á ferðunum eftir þá 12. (300 metra) og veit ekki hvort ég synti 6 eða átta ferðir eftir það. Synti bara til klukkan að verða fimm og skrapp þá í heita pottinn áður en ég dreif mig upp úr og hélt áfram ferðinni heim.
ÉG var rétt að komast heim þegar Davíð hringdi í mig og spurði hvort ég væri með eitthvað skipulagt um kvöldið. Það var ekki svo hann sagðist ætla að bjóða mér á tónleika í Fríkirkjunni. Tveir kórar og Gissur Páll Gissurarson sáu um sönginn. Vox academica reið á vaðið með þremur lögum og áður en þriðja lagið kláraðist gengu þau aftast í kirkjuna og Raddbandafélag Reykjavíkur tók við. Báðir þessir kórar sungu án undirleiks. Ég verð aðeins að skjóta því að að þrátt fyrir fínan söng í upphafslögunum leist mér ekki á blikuna til að byrja með en þegar Raddbandafélagið byrjaði breikkaði brosið á minni og ég hélt áfram að brosa út að eyrum þegar Gissur steig fram og söng tvö lög. Á eftir Gissuri steig Vox hópurinn aftur upp á sviðið með mun skemmtilegri lög heldur en í byrjun. Svo söng Gissur eitt lag áður en Raddbandafélagið tók aftur við með þrjú lög. Að endingu sungu báðir kórarnir þrjú lög saman og Gissur sá um einsöng í tveimur laganna. Auðvitað var svo eitt aukalag í lokin. Erfið byrjun skemmti ekki fyrir mér kvöldið og ég var alsæl með kvöldið.

22.11.11

- Smá(köku)bakstur -

Um síðustu helgi stóð til að taka eldhúsið í gegn hjá mér. Það gekk ekki alveg eftir en ég þreif amk ísskápinn og tók til í honum áður en ég verslaði inn til vikunnar. Í gærkvöldi ákvað ég að demba mér í smákökubakstur og súkkulaðikúlugerð. Hnoðaði fyrst í kúludeigið (smjör, haframjöl, kakó, flórsykur og smá mjólk hnoðað saman og kúlað upp úr kókosmjöli) og fékk bræðurnar til að kúla það upp. Næst þeytti ég þrjár eggjahvítur sem er grunnurinn í lakkrístoppakökum (annað innihald er púðursykur, rjómasúkkulaði og lakkrískurl). Þetta urðu eitthvað rúmlega 60 kökur og þegar síðasta platan beið eftir að komast í ofninn bjó ég til "deig" í kornflekskökur (eggjahvítur, sykur, kornfleks, kókosmjöl og suðusúkkulaði). Tók síðust plötuna út úr ofninum á tólfta tímanum, stolt yfir því að hafa ekki látið freistast að sleikja skálar að innan eða smakka á afrakstrinum.

18.11.11

Sundgleði

Fljótlega eftir sumarfrí í haust ákvað ég að fara amk tvisvar í viku í Sundhöllina beint eftir vinnu. Átti gamalt tíu miða gatakort með sex götum á í fórum mínum. Eftir að hafa nýtt kortið ákvað ég að kaupa mér 10 "miða" kort í laugarnar. Var langt komin með að nota það kort þegar Davíð minntist á það að laugarnar opnuðu klukkan hálfsjö. Hann sagði ekki meira og ég var heilan sólarhring að átta mig á að maðurinn var að biðja mig um að koma í sund á morgnana. Við ákváðum að prófa þetta og komumst að því að þetta var að virka mjög vel. Þegar ég var búin að klára rafræna sundkortið tvisvar ákvað ég því að kaupa ársmiða í laugarnar. Í Sundhöllinni synti ég oftast 200m og aldrei meir en 300m en í Laugardalnum syndi ég oftast hálfan km og í morgun fór ég 700m. Það er virkilega gott að byrja daginn á að fá sér sundsprett.

16.11.11

Löng og góð bústaðarhelgi

Fyrsta föstudaginn í mánuðinum, 4. nóv. sl, tók ég mér frí úr vinnu frá hádegi. Davíð kom heim rétt fyrir þrjú og klukkan var orðin fjögur þegar öll fjölskyldan var búin að taka sig saman og lögðum af stað að heiman. Komum við í Krónunni upp á Höfða og svo tókum við bensín áður en við keyrðum alveg út úr borginni. Vorum ekki komin að afleggjaranum upp í land Efri-Reykja fyrr en um kvöldmatarleytið. Þar biðu eftir okkur mágur minn og yngri systurdóttir. Kvöldmatur var ekki borðaður fyrr en um níu, gúllassúpa a la Davíð. Eldsnemma morguninn eftir fóru svilarnir af stað í rjúpuleiðangur. Bríet vaknaði um það leyti sem þeir fóru og til að leyfa nú unglingunum mínum að sofa aðeins lengur dreif ég mig upp til að sinna frænku minni. Oddur Smári kom niður um níu og á ellefta tímanum skruppum við þrjú í pottinn. Pabbi kom upp úr hádeginu og systir mín og eldri dóttir hennar seinni partinn (Hulda hafði verið að keppa á skautum um morguninn) á svipuðum tíma og veiðimennirnir komu tómhentir heim. Þá vorum við öll mætt fyrir utan mömmu sem er að spóka sig á Kanaríeyjum þessa dagana og skemmtir sér konunglega þar í góðum hita fyrir kroppinn hennar. Borðað var hreindýr í kvöldmatinn með dýrindis meðlæti a la Helga og Ingvi og pabbi bauð okkur fullorðna fólkinu upp á rautt eða hvítt með.´

Spáin fyrir sunnudaginn var ekki spennandi en svilarnir ákváðu engu að síður að drífa sig upp snemma og taka stöðuna þá. Það varð úr að þeir drifu sig aftur á veiðar. Við hin fórum á tveimur bílum upp að Geysi þar sem voru teknar myndir af krökkunum við Strokk. Helga fór svo með eldri krakkana upp að Gullfossi og tók myndir af þeim þar á meðan við pabbi fórum með Bríeti í lengri bíltúr og keyptum handa henni ís. Veiðimennirnir komu heim með fjórar rjúpur en í kvöldmatinn var læri a la pabbi. Allir gestir voru farnir um átta og þá settumst við fjögur niður og spiluðum partý-alías. Nafnarnir rústuðu okkur Oddi en þetta var meiriháttar skemmtilegt.

Við vorum öll fjögur í fríi á mánudeginum og tókum því rólega til að byrja með. Við Davíð ákváðum samt að vekja strákana þegar klukkan var orðin tólf. Eftir að hafa fengið okkur eitthvað að borða fórum við að huga að tiltekt og frágangi. Lokuðum bústaðnum á eftir okkur rétt fyrir fimm.

15.11.11

- Mánuðurinn er hálfnaður -

Síðastliðin helgi var allsherjar pabbahelgi. Við systur kvöddum börn og menn og brunuðum saman austur á Hellu eftir kvöldmat á föstudaginn. Horfðum með honum á "Útsvarið" og skemmtum okkur vel. Hann leyfði okkur líka að hlusta á segulbandsspólu sem var tekin upp þegar mamma fór að hitta Þórhall miðil í síðastliðnum mánuði. Ég horfði svo á Wallander áður en ég fór í háttinn. Klukkan var rétt orðin tíu á laugardaginn þegar við brettum öll upp ermar og byrjuðum á skápaþrifum í eldhúsinu. Pabbi og Helga hjálpuðust að við að taka til og þrífa í búrinu á meðan ég setti minna notað leirtau í uppþvottavél og byrjaði á eldhússkápunum. Við unnum mjög vel allan daginn og fram að kvöldmat. Pabbi lenti í smá veseni því það var byrjað að leka undir eldhúsvaskinum, en auðvitað náði hann að laga það :-). Á sunnudaginn þreif Helga ísskápinn og ég þurrkaði af köppum og kösturum í stofunni. Síðan skellti ég mér í göngutúr upp að Helluvaði og heimsótti Árný, föðursystur mína. Áður en við systur lögðum af stað í bæinn kynnti pabbi okkur fyrir grænmetisréttinum sínum, gufusoðið niðurskorið grænmeti og epli.

En fyrsta helgin í mánuðinum var ekki síðri en sú nýliðna. Punkta aðeins niður um þá helgi næst. ...á annars ekki að skrifa í "öfugri tímaröð

11.11.11

- Ógnarferð á þessum tíma -

Hvernig væri nú að fara að skrifa reglulega á þessum vettvangi aftur? Er reyndar sannfærð um að ef ég næ að koma e-s konar skipulagi á þessi skrif þá verður þetta lítið mál. Ákveðin rútína er mjög holl.