26.11.18

Síðustu dagar næst síðasta mánaðar ársins

Sem fyrr æðir tíminn áfram og ég leyfi dögunum að líða án þess að punkta niður eitthvað um það sem er að gerast. Ef ég segi gróflega aðeins frá því helsta og byrja á því sem er nýlega búið að vera í gangi þá skrapp ég austur rétt upp úr hádegi í gær og stoppaði fram yfir kvöldmat. Hafði reyndar ætlað mér að fara á laugardaginn og gista eina nótt en aðfaranótt laugardagsins fékk ég gubbupest sem varð til þess að ég fór ekkert á laugardeginu. Svaf fram á dag og tók því svo rólega, aðallega með bók í hönd.

Upp úr klukkan fimm á fimmtudaginn var kom N1 strákurinn minn með mér á dekkjaverkstæðið í Fellsmúla. Þar keypti ég ný nagladekk og lét setja undir og notaði um og yfir 20% afslátt sonarins af vörum og vinnu. Hjólbarðarnir sem voru undir bílnum voru settir aftur í aftursætin. Þegar ég kom heim færði ég tvo af þeim í skottið. Pabbi tók svo við þeim um leið og ég kom austur í gær og ég hjálpaði honum að koma þeim fyrir í einu horninu í bílskúrnum hans. Áður en við fórum inn athugaði pabbi fyrir mig hvort rærnar á nagladekkjunum væru ekki örugglega vel fastar.

Ég fór austur og gisti eina nótt helgina á undan nýliðinni helgi. Var ekki með neitt sérstakt verkefni í gangi líkt og helgina þar á undan en þá útbjó ég 16 jólakort í viðbót við þau fimm sem ég hafði verið búin að búa til. Reyndar hafði ég skrifblokk með mér austur ef ég fengi andann yfir mig til að skrifa eitthvað af þeim þremur jólabréfum sem ég sendi með þeim þremur jólakortum sem fara út fyrir landsteinana. Andinn kom ekki yfir mig.

Á miðvikudagskvöldið var skellti ég í aðra uppáhaldssmákökusortina og að þessu sinni byrjaði ég að sortinni sem er uppáhaldið hans Davíð Steins (eggjahvítu-kornflekskökur með suðusúkkulaði og kókosmjöli). Hin uppáhaldssortin verður líklega ekki bökuð fyrr en á miðvikudagskvöldið kemur, lakkrístoppar.

Fyrir klukkutíma fjárfesti ég í jólagjöfinni minni á heimkaup.is, ný þvottavél sem strákarnir ætla að taka þátt í að gefa mér. Ég fæ gripinn eftir klukkan fimm á miðvikudaginn kemur og sú gamla verður fjarlægð í staðinn.

Að lokum aðeins um tvær af þeim fimm bókum sem ég er með af safninu. Þetta eru ævisögur sem eiga það sameiginlegt að vera um transkonur og nöfnum, konur sem fæddust í karllíkama og eru búnar fara í kynleiðréttingu: Hún er pabbi minn skráð af Bryndísi Júlíusdóttur og Anna: eins og ég er skráð af Guðríði Haraldsdóttur. Mjög vel skrifaðar og forvitnilegar, sérstaklega lýsingar á uppvexti Önnu Kristjánsdóttur.

11.11.18

Tíminn er ekkert að láta bíða eftir sér

Hef ekki verið í neinu skrifstuði undanfarið en það hafa runnið upp nokkur augnablik sem ég er næstum því búin að setjast niður við tölvu, skrá mig inn og punkta eitthvað niður. Núna er ég stödd á Hellu hjá pabba. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni hingað í gær. Fljótlega eftir að ég kom spurði ég pabba hvort ég ætti að "skella í" pönnsur. Honum leist vel á þá hugmynd en bað mig um að nota tilbúið duft í flösku sem hann hafði keypt um daginn. Hann var búinn að kaupa og prófa vöffluduft sjálfur og líkað vel. Pönnsusteikingin gekk ekki alveg eins vel og þegar ég hræri í frá grunni, en það urðu samt til pönnukökur sem við höfðum með í kaffitímanum.

Eftir vinnu á föstudaginn var fór ég með strætó alla leið upp í Kringlu. Fór fyrst á bókasafnið því skírteinið var útrunnið og ég ætlaði aðeins að endurnýja það því ég er enn með fimm bækur heima. Núna eru þær reyndar sex því ég stóðst ekki mátið og greip með mér eina nýja á 14 daga skilafresti. Þriðja og síðasta bókin í þríleiknum Valdamiklir menn: Þriðja morðið eftir Jón Pálsson. Aðal erindið í Kringluna var þó að fara og kaupa mér nýja sundhettu. Ég fann ekki speedo sundhettu fyrir sítt hár en keypti eina sem er merkt Arena og svo aðra til sem ég er reyndar ekki viss um að sé fyrir sítt hár. Prófaði aðra þeirra í sundi í gærmorgun og hún virkaði. Fannst reyndar eins og hún væri að renna af þegar ég setti hana yfir þurrt hárið en hún hélst á þegar ég setti hana yfir rakt hárið.

Um hálffimm á fimmtudaginn var hitti ég Helgu og Petru á kaffihúsi Jóa Fel í Holtagörðum. Flottur staður. Við þrjár vorum ekki búnar að hittast síðan um miðjan september. Tíminn leið hratt en kaffihúsið lokar klukkan sex. Áður en við kvöddumst ákváðum við að skreppa saman í bíó í næstu viku og sjá myndina um Freddy Mercury.

Lánaði Davíð Steini strætókortið á föstudaginn og sagði að hann mætti hafa það um helgina. Hann fór í afleysingu í N1 í Mosfellsbæk milli klukkan sex og ellefu. Sjálf fékk ég mér göngutúr niður að Ingólfsstræti á Lífspekifélagsfyrirlestur.