31.5.05

tíminn

það er alltaf til tími
til að njóta lífsins
tími til að brosa
til samferðafólksins

oft er tíminn mér að stríða
hleypur frá mér
hlægjandi

stundun sný ég tímann á
sigli mína leið
gef mér tíma til að
njóta
brosa
hugsa
og allt
-sem mig langar til

reynum ekki að elta tímann
og förum okkar leiðir
það er "kúl"

30.5.05

- Eitt tilbúið -

Það var svo gaman að sjá kortið "fæðast" að ég lauk alveg við það um helgina. Mestur tíminn fór í að festa tuttugu smáperlur hér og þar í kringum myndina. Það var ekki hægt að sauma í gegnum perlurnar heldur varð ég að þræða þær sjálf upp á bandið en þetta tókst allt saman að lokum og kemur þrælvel út. Ég er svo líka búin að taka upp mynstrið af jólatrénu. Það var heldur meira mál en með kertin, en ég gafst ekki upp og lauk við það verkefni á þremur korterum.

Annars kíktu Helga, Ingvi og dætur við seinni partinn í gær. Ingvi er í veikindafríi út mánuðinn. Hann átti að hitta lækni í dag og var pínu nervös yfir því vegna þess að í öll þau skipti sem hann hefur verið að láta líta á sig eftir slysið hefur hann fengið heldur verri fréttir. Hann er samt allur að koma til.

Ég er byrjuð að lesa Sölku Völku loksins. Hef lengi ætlað mér að lesa þá bók. Hún fer vel í mig og best gæti ég trúað því að ég verði fljót að lesa hana upp til agna (nema að föndrið togi því meira í mig sem er svo sem ekkert ólíklegt). Ég þarf að fara á bókasafnið á föstudaginn og skila inn bókum og framlengja nokkrar um mánuð. Kannski ég ætti svo að láta það vera að sanka að mér fleiri bókum í bili klára bara þær sem ég á eftir ólesnar...

29.5.05

- Mikið fjör og mikið gaman -

Ég vann í því að ljúka sem mestu að heimaverkefnunum til að komast með feðgunum í Egilshöllina seinni partinn í gær þar sem tvíburarnir voru að keppa í C-liði. Tók utan af öllum sumum og fleygði sængum og koddum út á svalir, ryksaug yfir flest gólf, setti í þvottavélar og fleira og fleira. Rúmlega þrjú bað ég strákana um að fara út með ruslið og bíða eftir okkur foreldrunum klárir úti (en þeir áttu að vera mættir á svæðið hálffjögur). Ég tek mig til og held af stað í humáttina á eftir þeim... og hvað sé ég!!! Kaffikorgur niður allan stigann. Ég var tilneydd að senda feðgana eina út í ævintýrin, finna framlengingasnúru og ryksuga allan korginn upp. Svo settist ég niður með saumana mína og kláraði næstum því að sauma fyrsta jólakortið. Á í rauninni bara eftir að sauma rúmlega tuttugu smáperlur í myndina.

En það gekk bara þokkalega hjá strákunum þótt þeir ynnu enga leiki. Liðið var að spila mjög vel á köflum og Davíð Steinn varði eins og berserkur, var í marki alla þrjá leikina, fékk á sig mörg skot en það fóru aðeins inn tveir boltar hjá honum í hverjum leik. Hann og Oddur Smári fengu svo sérstakt hrós hjá þjálfaranum fyrir að standa sig vel í sínum stöðum en Oddur var víst nokkuð öflugur í vörninni.

Rétt áður en feðgarnir komu heim kom ein elsta vinkona mín í heimsókn. Við höfðum um margt að spjalla og seinna um kvöldið röltum við á Kaffi París og fengum okkur hvítt, og rautt og kaffi. Það var spjallað og spjallað og jafnvel rætt um að fara eitthvað og fá sér snúning. Það varð reyndar ekkert úr dansinum en við röltum að tjörninni áður en við löbbuðum aftur heim. Davíð keppti við vinkonu mína í karateleik í Play station. Í morgun horfði hún á Spiderman II með strákunum og þegar við vinkonurnar vorum búnar að spjalla meira, drekka kaffi og horfa á startið í Formúlunni þá skruppum við saman í Kringluna. Eftir þá ferð skutlaði hún mér heim og kvaddi í þetta sinn. Þetta var mjög skemmtilegur tími sem við eyddum saman og við rifjuðum upp margt sem við brölluðum saman í denn...

28.5.05

- Hafist handa -

Þann 17. mars sl. sótti ég pöntun mína hjá Margaretha. Fyrir nokkru byrjaði ég á stærsta verkefninu í þeirri pöntun (en þó ekki fyrr en ég hafði lokið við ákveðið verkefni handa Bríeti frænku). En ég pantaði líka jólakort til að sauma út, eitt með mynd af jólatré, annað með mynd af jólasveini og á því þriðja eru kerti og jólakúlur á grænum greinum. Það olli mér smá vonbrigðum að myndirnar voru litaðar á jafann því ég ætlaði mér að nota munstrin aftur og aftur. En ég fann ráð við því og í gær byrjaði ég á fyrstu myndinni. Áður en ég saumaði í hana útbjó ég munstur eftir henni í rúðustrikaða bók (sjálfsagt fór ég Krýsuvíkurleiðina að þessu en mér fannst bara gaman að finna upp merkingar fyrir hvern lit og teikna í bókina). Ég náði líka að byrja að sauma sjálfa myndina. Garnið sem fylgir með sýnist mér nægja í tvær myndir en ég þarf svo hvort eð er að kaupa meiri jafa og þá mun ég líkast til byrja mig upp af garni líka. Semsagt jólakortagerðin er byrjuð hjá mér enda veitir ekki af tímanum. Ekki ætla ég nú að sauma öll kortin því ég er líka búin að kaupa tvær bækur með þrívíddarmyndum (í gegnum tvíburahálfsystur mína sem pantaði þær að utan) og það tekur tíma að klippa út myndirnar og líma þær í lögum framan á kortin. Það eru umþaðbil 30 vikur til næstu jóla og rúmlega sextíu jólakort þýða ca. 2 kort á viku (og ég er viss um að sumar vikurnar geri ég engin kort og aðrar alveg helling...)

27.5.05

- Fylkir - Valur 1:2 -

Já, "mínir" menn voru í bláum búningum þar sem rauði búningurinn þykir of líkur þeim appelsínugula. Þetta var hinn fjörugasti leikur en heldur harður á köflum. Valsmenn voru mun beittari og sköpuðu sér betri færi. Við mæðginin fórum á leikinn. Þeir bræður eiga bekkjarbræður sem búa í Árbænum. Þeir hittu þá ekki í þetta sinn hvort sem þeir voru á leiknum eða ekki.

Eftir hádegi eru strákarnir boðnir í afmæli í Breiðholtinu og seinni partinn á morgun eiga þeir að mæta í Egilshöll og keppa í knattspyrnu. Alltaf nóg að gera!

26.5.05

- Í landi minninganna -

Í dag hefði móðuramma mín, Anna Jónsdóttir heitin, orðið 85 ára. Það eru rétt tæp fimm ár síðan hún lést en hugurinn hvarflar oft á tíðum til hennar og minnist ég þá þess tíma sem við áttum saman. Tvíburarnir eiga það til að minnast hennar líka með söknuði en það er gott að ylja sér við góðar minningar!

Púllarar gerðu það aldeilis gott í úrslitaleiknum á móti AC-Milan í meistaradeildinni í gærkvöldi. Það er ég viss um að fáir hafi átt von á þessum úrslitum eftir fyrri hálfleikinn. Ég er svo að vona að það haldi áfram að vera rauður dagur í dag. Það er líklegt að við skreppum upp í Árbæ í kvöld og nú reynir á "mína menn" í fyrsta útileiknum sínum.

Skrapp í hafnarfjörðinn til tvíburahálfsystur minnar þar sem ég hitti fyrir "föðursystur" mína. Allt var þetta með ráðum gert. Ég kom í seinna fallinu, upp úr níu, og var með "saumið" mitt með mér. Það var samt aldrei tekið upp bara spjallað út í eitt. Það þarf líka stundum. Við Sonja stefnum á að hittast sem fyrst aftur og þá verður bæði föndrað og spjallað!

Gott er að minnast góðra stunda
gaman að rifa upp í hljóðu tómi.
Ég hlakka einnig til næstu funda
í suma er langt að mínum dómi.

Amma mín var mér alltaf svo kær
minningar eru í hugskoti mínu.
Hugur hennar var ungur og tær
hún fylgdi hugsjónum sínu-
m.

25.5.05

- Klúbbur eða keðjubréf -

Strákarnir tóku við bréfum um að ganga í límmiðaklúbb. Með bréfinu fylgdi límmiði en svo eiga þeir að senda límmiða til þess sem gekk í klúbbinn á undan þeim sem bauð þeim í klúbbinn. Næst breyta þeir klúbbbréfinu. Setja nafnið á þeim sem þeir fengu bréfið frá í 1. sæti og sitt í sæti nr. 2. Því næst fimm falda þeir bréfið, setja það í umslag ásamt límmiðum og reyna svo að veiða klúbbfélaga. Ég var að hjálpa þeim við þetta í gærkvöldi og ætluðu þeir að bjóða skólafélögum sínum að ganga í klúbbinn. Hvernig skyldi það svo ganga?

Mágur minn fær alltaf verri og verri fréttir af ástandinu af sér eftir slysið um síðustu helgi. Barkakýlið er víst brotið og hann verður að hreyfa sig og tala sem minnst næstu tvær vikurnar eða svo.

Gott er að skrifa hugsanir sínar
skoða þær fram og til baka.
Þær eru margar flugurnar mínar
af mörgu er að taka.

Þokkalegir þankar mínir
þeir eru út og suður.

(vill einhver botna ;) )???

24.5.05

- Góður leikur -

Við fórum öll á völlinn í gærkvöldi þegar Valur tók á móti ÍA í Landsbankadeild karla. "Okkar strákar" voru mun beittari í sínum aðgerðum og uppskáru eftir því. Leikurinn endaði: 2-0 sem er bara glæsilegt! 3. flokkur Vals spilaði úrslitaleik við Fylki, lentu 1-0 undir en sigruðu svo 3-1. Það er líka frábært.

Aðeins að öðrum málum. Mikið finnst mér skrýtið hvað ég er lengi að ganga nýju skóna mína til (bæði pörin). Þeir ætla bara ekki að samlagast mér og er ég því með blöðrur og skósæri þessa dagana, ekki gefst ég samt upp á arkinu! Kannski þarf ég að kaupa mér eitt par enn?

23.5.05

- Eitt og annað -

Ó, já. Helgin er liðin og aftur kominn mánudagur. Frá því hádegi á laugardag var ég á Grettisgötunni. Hulda var með Davíð og Oddi, Davíð Steinn var í skemmtiferð með drengjakórnum, Ingvi var inn og út af sjúkrahúsinu og Helga systir var að vinna til fjögur. Davíð var með Huldu alveg til fjögur og sótti svo Helgu. Oddur Smári var kominn í afmæli til bekkjarbróður síns. Við systur fórum saman í Bónus í Holtagarða ákveðnar í að grilla saman um kvöldið og hafa smá söngvakeppnisteiti. Davíð fór heim með okkar vörur og sótti svo strákana um sex og hálfsjö. Eiginlega má Ingvi ekki borða nema fljótandi, það blæddi inn á barkann og hann á helst að spara röddina næstu vikuna. Hann grillaði nú samt fyrir okkur og fékk sér smá smakk.

Í gær var ég í engu stuði, eins og sést kannski á línunum hér fyrir neðan. Davíð skutlaðist með nafna sinn í kirkjuna fyrir tíu og svo sendi ég þá feðga, Oddu og Davíð eina í messu um ellefu. Ég bara varð að fá tíma ein með sjálfri mér í ró og næði. (Að ég skyldi ekki hafa nýtt síðustu helgi betur fyrir það þegar Davíð var í Danmörku og strákarnir á Hellu...)

22.5.05

Út í bláinn

ég held að höfuðið
sé tengt við líkamann
ég heyri í hugsununum
en skil ekkert í þeim

ég held að hendur mínar
séu á réttum stað á búknum
ég sé fingurnar hreyfast
en skil ekki hvað þeir eru að gera

ég held af fæturnar
tengist rétt við búkinn
ég sé þær ekki hreyfast
og skil ekki afhverju

þetta er allt út í bláinn
engin tengsl
og lítið samhengi
þetta bara er
svona

21.5.05

- Breytingar á áætlunum -

Hér sit ég við tölvu systur minnar og mágs. Er að passa Bríet sem er sofandi úti í vagni, Ingvi er að láta taka mynd af barkakýlinu og kjálkanum (er með sex spor í hökunni eftir óhapp í óvissuferð með vinnunni sinni). Hulda er með Davíð og Oddi Smára á vorhátíð Ísaksskóla, Davíð Steinn er í dagsferð með drengjakórnum og Helga systir er á námskeiði.
Ég sé fram á það að komast ekki á völlinn en Valsstelpurnar eru að taka á móti Stjörnunni núna klukkan tvö. Það kemur heimaleikur eftir þennan leik!

20.5.05

- Eitt tekur við af öðru -

Noh, það er bara kominn föstudagur, enn á ný!!!

Og tónleikarnir eru búnir. Þeir tókust með ágætum þrátt fyrir vöntun í nær allar raddir. Það var bara bassinn sem var full skipaður enda bara tveir svo það hefðu verið mikil afföl ef annar hvor þeirra hefði forfallast. Það vantaði eina af sjö í sópran, eina af fjórum í alt og einn af fjórum í tenór. Fyrst sungum við fimm lög; Tíminn líður, Maríukvæði, Nú hverfur sól, Nótt og Á Sprengisandi. Þá söng Sólveig Samúelsdóttir messósópran þrjú lög. Þá söng kórinn önnur fimm lög; Tanzen und springen, Við brunninn, Þú hljóða nótt, Þú fagra blómið og sofðu rótt. Sólveig tók við og söng önnur þrjú lög. Næst síðasta lagið, Senn kemur vor, var í útsetningu fyrir kvennakór (og kórstjórinn þóttist ekkert skilja afhverju strákarnir komu upp líka. Hann var reyndar búin að biðja þá um að koma upp með okkur). Síðast söng kórninn Kvöldljóð. Sum lögin sungum við án hljóðfæraleiks, t.d. það fyrsta og Á Sprengisandi. Undir önnur lög spilaði kórstjórinn ýmist á orgel eða flygil, þó oftar á síðarnefnda hljóðfærið. Einsöngsstúlkunni og kórstjóranum voru færð blóm í lokin og svo söng kórinn eitt aukalag, Smávinir fagrir og Sólveig tók líka eitt aukalag og það var eina lagið sem hún hafði nótur fyrir framan sig. Á eftir var tónleikagestum boðið upp á kaffi og konfekt. Oddur Smári hélt smá sér tónleika (líkt og þeir bræður gerðu í fyrra nema nú söng hann einn allan tímann). Kvöldið var í alla staði vel heppnað og skemmtilegt. Næst stefnir kórinn og stjórinn á að hafa jólatónleika og ég hlakka til!!!!

Nú eiga bræður aðeins eftir eina og hálf viku eftir af skólaveru sinni í Ísaksskóla. Á morgun er vorhátíð skólans en Davíð Steinn er að fara í dagsferð með drengjakórnum. Og hann verður allan daginn í þessari ferð frá því fyrir níu og amk til hálfsjö. Það er ég viss um að verður skemmtilegt. Í skólanum á að snyrta skólalóðina milli tíu og tólf en eftir það og til tvö verður ýmislegt til gamans gert. M.a. grillaðar pylsur, farið í leiki og fleira og fleira.

18.5.05

- Lokaæfing -

Það var auka kóræfing í gærkvöldi og gekk hún mun betur heldur en æfingin á miðvikudaginn var. Raddþjálfarinn, Ingibjörg Ýr, var bara ánægð með okkur og Pétur kórstjóri líka. Við renndum í gegnum lögin, sum þurfti að syngja oftar yfir, og um tíu fengum við okkur kaffisopa áður en við fórum heim. Við fengum þær leiðinlegu fréttir að einn tenórinn var lagður inn á sjúkrahús í fyrradag með aðkenningu að kransæðastíflu. Vonandi fer allt vel. Þetta þýðir að þá vantar þrjú í kórinn á tónleikana í kvöld, eina úr sópran, eina úr alt og einn úr tenór. Sem betur fer eru báðir bassarnir sprækir og tilbúnir í slaginn. Og er það svo bara ekki toj, toj að lokum?!?!

17.5.05

- Þokkaleg helgi -

Um hálfsex sl. föstudagsmorgun kvaddi Davíð mig og fór yfir á 11 þaðan sem hann fékk að fljóta með út á Keflavíkurflugvöll. Habilismenn og sumir makar voru á leið til Kaupmannahafnar. Við mæðginin fórum á fætur um sjö. Ég rabbaði við strákana um hvað við gætum gert saman eftir skóla og um helgina. Þeim leist bara vel á allar áætlanir. Ég kvaddi þá korter fyrir átta og sagðist hringja í þá um átta til að ýta við þeim af stað í skólann, sem ég og gerði. Þetta gekk bara vel fyrir sig. Nokkrum tímum seinna lá fyrir að það þyrfti að vinna yfir helgina. Mamma var alveg til í að taka strákana austur með sér og þeir voru meira en til í að fara með henni (allar áætlanir gleymdar, he, he).

Ég fór austur strax eftir messu um hádegi á sunnudag. Helga, Ingvi og dætur höfðu farið austur á laugardag. Strákarnir voru búnir að vera duglegir að leika sér við Huldu. Það sauð samt næstum upp úr á laugardagskvöldið. Þau ætluðu í einhvern ofurhetjuleik og Oddur Smári sagði ákveðið: -"Það verða sko engar dúkkur með í þessum leik! Punktur!!!" (Þarna kemur skýrt fram hvernig við leggjum áherslu á hlutina á okkar heimili) Hulda var ekki par ánægð með þetta og kvartaði í mömmu sína. Helga fékk Odd til að samþykkja að ofurdúkkur gætu alveg verið með í leiknum.

Við mæðgin komum svo í bæinn rétt fyrir fimm í gær og mættum beint á völlinn. Valur - Grindavík 3:1. Fyrri hálfleikur var mjög skemmtilegur og vel leikinn af hálfu Valsara. Það er vonandi að þeir sýni svona góðan leik allar 90 mínúturnar þegar þeir taka á móti ÍA mánudagskvöldið 23. maí. n.k.!!!

Davíð skilaði sér svo heim upp úr tíu í gærkvöldi.

12.5.05

- B-12 -

Aðeins hefur borið á því að annar tvíburanum líði illa og ráði jafnvel illa við skap sitt. Pabbi ráðlagði mér að prófa B-12 kúr. Svo ég keypti eitt glas í gær og ákvað að setja báða strákana á kúr. Davíð Steinn var á kóræfingu til sjö þannig að Oddur Smári fékk fyrst. Útskýrði fyrir honum að þessa töflur ætti að gleypa, alls ekki sjúga eða tyggja og þær væru góðar til að hjálpa manni að halda góða skapinu. Rétt eftir að Oddur Smári gleypti töfluna sagði hann stríðnislega: -"Ég held að ég sé kominn í fýlu mamma!"

Í morgun vöknuðu tvíburarnir rétt á undan mér og voru að finna sér til morgunmat þegar ég kom fram í eldhús. Ég tíndi til handa þeim vítamínið og kom svo á eftir þeim með minn morgunmat. Þá gall við í Oddi: -"Mamma, ert þú líka að taka svona geðsjúklingspillur?" Davíð Steinn tók undir og sagði hreinskilinn: -"Já, það er örugglega líka gott fyrir þig því þú ert stundum svo pirruð!"

Annars var kóræfing í gærkvöldi. Við byrjuðum á því að renna yfir hvítasunnumessuna en svo stilltum við upp og æfðum "í tónleikastellingum". Ein úr altinum er á ferðalagi og getur ekki verið með og önnur var lasin í gær svo við vorum bara tvær í gærkvöldi. Það tóks samt nokkuð vel. Þó gekk kórnum fremur illa fyrri partinn af æfingunni en einhverra hluta vegna þá var allt annað upp á teningnum eftir kaffihlé. Áður en við fórum heim tókum við með okkur auglýsingaplögg til að hengja upp hér og þar og auglýsa tónleikana: Þeir verða haldnir í kirkju óháða safnaðarins þann 18. maí n.k. klukkan 20:00. Aðgangseyrir er kr. 1.500 og það er mjög líklegt að boðið verði upp á kaffi og konfekt eftir tónleikana. Sólveig Samúelsdóttir sópran, syngur einsöng inn á milli til að hvíla kórinn. Hún söng hjá okkur í fyrra líka, er með alveg frábæra rödd og mikla og góða túlkun.

11.5.05

- Bekkjarkvöld 8 ára Æ -

Ég hafði smá stund aflögu er ég kom heim seinni partinn í gær áður en arkaði af stað aftur áleiðis í Ísaksskóla. Davíð sótti strákana á æfingu rétt áður en henni lauk og voru feðgarnir komnir í skólann rétt á undan mér. Bekkurinn setti á svið leikritið Selshamurinn byggt á þjóðsögunni. Oddur Smári var annar sögumaðurinn og las á íslensku en hinn sögumaðurinn las söguna á ensku. Davíð Steinn lék eitt af selabörnunum. Þetta var virkilega flott hjá krökkunum og sögðu kennararnir að þau ættu allan heiðurinn skilið því þau hefðu lagt mikla vinnu í þetta og bjargað sér sjálf með marga hluti. Ástæðan fyrir því að sagan er líka sögð á ensku er sú að n.k. föstudag fær skólinn heimsókn frá Spáni og það á að sýna þeim hóp leikritið líka.

Þegar heim kom drifu strákarnir sig í að lesa og fengu svo að horfa á restina af leiknum Man. Utd. - Chelsea. Eiður var flottur.

10.5.05

- Vangaveltur -
...og fleira...

Jæja, nú styttist í að knattspyrnan fari að rúlla. Landsbankadeildin hefst n.k. mánudag, þann 16. maí með fjórum leikjum í karladeildinni og einum í kvenna. Valsstrákarnir taka á móti Grindavík í fyrstu umferðinni (þann 16.). Ég hlakka til og er að vona að sem netstjóri hjá
Val fái maðurinn minn amk eitt árskort á alla heimaleiki (eða tvö á afslætti...). Ég er harðákveðin í því að vera duglega að sækja sem flesta heimaleiki, bæði hjá stelpum og strákum. Verið var að spá um úrslitin eftir sumarið (svona áður en tímabilið hefst en liðin hafa reyndar verið að spila innanhúsknattspyrnu undanfarið) og lentu strákarnir í 3. (sem er nokkuð gott miðað við að vera að koma upp úr 1. deildinni) og stelpunum er spá titlinum aftur. Ég er handviss um að stelpurnar eiga eftir að standa sig vel í sumar en mér finnst að strákarnir eigi að fókusa á einn leik í einu og hafa að aðalmarkmiði að halda sér í deildinni. En það er bara mín skoðun.

Davíð tók að sér að aðstoða frænku mína við að fara yfir stærðfræði 103 fyrir próf. Ég var búin að ákveða að heimsæka tvíburahálfsystur mína og stóð við það. Tíminn þar var fljótur að líða, klukkan var allt í einu farin að ganga tólf. Frænka mín og Davíð voru í vinnustuði, alveg á kafi í stærðfræðinni. Mér skilst að klukkan hafi verið orðin eitt þegar þau hættu. Hún gat þess líka að hún hefði lært meira á þessu eina kvöldi heldur en allan veturinn. Já, hann Davíð er góður kennari!

Ég er búin að setja mér það markmið að vera búin að leggja 20 sinnum inn í blóðbankann um fertugt. En þá þarf ég líka að vinna svolítið í að gera blóð mitt það gott að ég megi gefa 3 sinnum á ári. Ég er mjög hraust og mér líður alltaf mjög vel eftir gjöf, blóðþrýstingurinn er líka alltaf í lagi en hitt sem er mælt í blóðinu er ekki alltaf nógu gott. Um daginn tók ég mig til og fór að drekka járn nokkuð reglulega og er ég búin með ein 1/2 lítra flösku. Er svona að hugsa mig um hvort ég eigi að næla mér í aðra. Ég gaf síðast um miðjan febrúar (það var 13. gjöfin mín) og var ráðlagt að koma ekki aftur fyrr en eftir 5-6 mánuði... ...og ég sem verð fertug eftir 3 ár. Hvað maður getur verið "skrýtinn" á köflum, he he!!!

9.5.05

- Gömlu skórnir -

Gamlir, slitnir, snjáðir
þreyttir og þjáðir
gömlu skórnir

götóttir og lekir
úr sér gengnir
gömlu skórnir

þeir þjónuðu mér
og pössuðu vel
gömlu skórnir

nú þarf ég að viðurkenna
fyrir sjálfri mér
að þeirra tími
er liðinn
minna gömlu skóa

tími bara ekki að fleygja þeim
veit þó að ekki er hægt að
lappa upp á þá
mína gömlu skó

blessuð sé minning
minna gömlu skóa.

8.5.05

- Helgin næstum liðin -

Sunnudagskvöld, strákarnir á leið í háttinn og fjölbreytt helgi næstum búin. Í gærmorgun var fjölskyldan öll snemma á fótum. Um hálftíu voru við komin vestur í bæ, á KR-svæðið. Þar voru þrjú lið, A,B og C að keppa við ÍBV og KR fram að hádegi. Oddur Smári gat ekki verið með. Ég skutlaðist með hann í Þórshamar rétt fyrir tíu þaðan sem lagt var upp í spennandi ósvissuferð. Síðan fór ég aftur vestur í bæ. Leikirnir gengu ekki alveg nógu vel. Davíð Steinn var í C-liðinu og spiluðu þeir fyrst við stráka úr Eyjum. Þeir strákar voru allir stærri en guttarnir okkar. Leikurinn fór amk 9-1 fyrir Eyjapeyjunum. KR strákarnir sem spiluðu við þá seinni leikinn voru jafnari okkar liði í hæð en mun flinkari með boltann. Davíð Steinn var í marki og bjargaði oft ansi vel en samt tapaðist leikurinn með alltof mörgum mörkum. En þetta er nú bara æfingaleikur og nú veit þjálfarinn á hverju á að taka fyrir Eyjaferðina síðast í júní.

Strax eftir keppnina skruppum við aðeins heim svo Davíð Steinn gæti skipt um föt og náð í sunddótið sitt. Við komum við á einum stað til að kaupa afmælisgjöf handa bekkjarbróður þeirra og var gjöfin höfð frá Oddi líka þótt hann kæmist ekki í boðið.

Á slaginu þrjú hringdi Oddur Smári og var þá kominn aftur í Þórshamarsheimilið. Ég sótti hann með það sama og var stráksi mjög ánægður með daginn. Kannski segir hann eitthvað frá óvissuferðinni á síðunni sinni en m.a. var farið í fjallgöngu á Helgafell, og í sund í Grafarvogslaug.

Það var messa í dag og kom Strætókórinn og söng með okkur. Sá kór verður svo með tónleika í kirkjunni okkar þann 19. maí n.k. klukkan 20:00 kvöldið eftir tónleikana okkar (sem verða á sama stað og sama tíma- það er bara alveg að koma að þessu...).

6.5.05

- Hálf- hundrað ára -

Þann 5. maí á því herrans ári 1955 fæddist hann Pétur Þorsteinsson sem nú er prestur yfir Óháða söfnuðinum. Hann hélt upp á afmælið sitt í gær, þann 05.05.05 og var örugglega vel yfir 200 manns í veislunni. Boðið var upp á uppáhaldsrétt afmælisbarnsins, plokkfisk með rúgbrauði og smjöri, virkilega gott og seinna var sett fram stærðarinnar afmælisterta með kaffinu. Sóknarprestur Grensáskirkju var veislustjóri og skemmtiatriðin sem voru mörg og góð entust alveg til klukkan að verða átta. Við í kórnum sungum tvö lög, "Tíminn líður" og "Á Sprengisandi". Ræður voru stranglega bannaðar en það mátti vera með framsækinn fíflaskap. Einn kórfélagi minn var sagðist ekki vera með ræðu heldur hugleiðingar. En m.a. var boðið upp á magadans-sýningu, "alvöru töfrabrögð", gjörninga, einsöng og fleira. Pétur sjálfur stjórnaði smá ferðalagi þar sem við konurnar misstum hægri skóinn en fengum í staðinn vinsti skó dansfélagans. Við fengum að bretta upp á buxnaskálmar og þeir fengu bæði að taka okkur á bakið og í fangið. Þetta var hin fjörugasta veilsa og skemmti ég mér afskaplega vel. Já, hann er hress hann séra Pétur og á marga hressa vini!!!

4.5.05

- Út og suður -

Það er fyndið hvað ég er fljót á milli staða á morgun- og síðdegisarkinu þegar hugsanir mínar snúast um hitamál. Í gær var ég hálf foj er ég hugsaði um það hversu margir eru að hjóla hjálmlausir, aðallega fullorðnir en líka eitthvað af yngri kynslóðinni. Þetta er ekkert annað en vítavert kæruleysi, og hananú!

Nafnarnir voru saman heima í gær líka. Davíð Steinn var nú á því að hann væri orðinn nógu hress, hann langaði víst til að prófa nýju fótboltaskóna á æfingu í gær. En hann var með smá hita seinni partinn á mánudag svo ég taldi best að hann yrði heima í gær.

Sótti Odd Smára í næstsíðasta karatetíma tímabilsins í gær. Eftir að hafa skilað honum heim dreif ég mig á bókasafn og skilaði þremur fullum pokum af bókum. Ég mundi nefnilega eftir því að skiladagur nálgaðist er ég skrifaði um sumar bækurnar síðast. Auðvitað kom ég með nokkrar bækur til baka þótt ég væri að framlengja 7 bókum, en það voru samt ekki fullir pokar þótt eitthvað færi í þá alla þrjá.

Hann var spennandi leikurinn milli ÍBV og Hauka í gærkvöldi og bauð upp á mikla skemmtun. Birkir Ívar fór ekki alveg strax í gang en hann komst í stuð á mikilvægu augnabliki. Róland Valur varði ágætlega en þegar Haukarnir komast í gang á annað borð þá er fátt sem stöðvar þá.

Eftir leikinn tók ég aðeins í nál og handlék nýjasta verkefnið. Það er afskaplega róandi að sauma út (þurfti aðeins að ná mér niður eftir spennuna).

Og Liverpool komst áfram í gær, jei!

2.5.05

- Bókamál og fleira -

Ég hef ekki slegið slöku við lesturinn þótt ég sé að vasast í mörgu öðru. Um daginn las ég bókina um Hrafn Gunnlaugsson. Hún kom á óvart og hafði ég gaman af að lesa hana. En ég hafði samt ennþá meira gaman af bókinni um Rannveigu E. Löve. Virkilega vel skrifuð og sú manneskja (Rannveig) hefur greinilega lent í mörgu. Ég átti bágt með að slíta mig frá lestrinum og var því ekki lengi að klára hana upp til agna. Í bókinni segir hún líka heilmikið frá foreldrum sínum og tíðarandi hvers tíma kemur vel fram. Sl. föstudagskvöld fór ég í háttinn um tíu og byrjaði á skáldsögu (man ekki eftir hvern en þýdd af Aldísi Baldvinsdóttur) sem heitir Pýrenurnar. Þetta var fremur þykk bók en svo spennandi að ég gat ekki lagt hana frá mér fyrr en ég var búin með hana og þá var klukkan byrjuð að ganga eitt. Núna er ég langt komin með Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson. Hún er búin að vera á óskalistanum síðan hún kom út og náði ég henni þegar leið mín lá síðast á safnið.

Þegar feðgarnir fóru í skómálin um helgina byrjaði Davíð á að fá aðstoð handa nafna sínum og hjálpa til sjálfur. Oddi fannst þetta taka alltof langan tíma og ákvað að bjarga sér sjálfur, fann of stóra skó og leitaði uppi annan afgreiðslumann og bað hann um að hjálpa sér að finna passlega skó í sama stíl og lit (gráir Wayne Rooney-skór). Mottóið hjá Oddi er því: Ég bjarga mér bara sjálfur!

1.5.05

- 1. Maí -

Það er líf og fjör í kringum mig alla daga. Í gær skildi ég feðgana eftir heima og fór í svokallaða vinnuferð. Davíð skutlaði mér að rútunni um átta og við fórum 5 saman af stað, tókum tvo uppí á leiðinni út úr bænum og hittum 3 til er við komum á staðinn. Það var nóg að gera en vinnuferðir snúast um að gera klára sumarbústaðina fyrir sumarið, viðra, þrífa, bera á, smíða og fleira ef tími vinnst til. Verkin gengu vel enda vanur mannskapur á ferð, aðeins einn sem ekki hafði komið áður. Í lok dags var borðað saman; dýrindis grillmáltíð með öllu tilheyrandi.

Ég kom heim um hálfníu. Feðgarnir höfðu m.a. farið í skókaup fyrir tvíburana, bæði fótbolta- og strigaskór voru keyptir og var þetta að hluta sumargjöf frá afa og ömmu á Bakkanum. Gott að þessi mál eru frá. Davíð Steinn var eitthvað slappur um kvöldið enda var hann sjóðheitur viðkomu. Hann þrjóskaðist samt við að horfa á Spaugstofuna kúrandi undir sæng í stofusófanum. Pabbi hans hjálpaði honum svo að hátta sig. Stuttu fyrir miðnætti kallaði strákur. Hann var þá búinn að æla á gólfið og smá á sæng bróður síns.

Stráksi er hressari í dag en ég held honum heima við og fór Oddur Smári einn á fótboltaæfingu í morgun. Davíð Steinn missti áttundu tönnina sína í morgun og skolaði henni svo óvart niður í vaskinn inn á baði svo ég er ekki viss um að tannálfurinn finni hana, hvað þá borgi eitthvað fyrir hana...