- Alltaf nóg að sýsla -
Nú er aðeins rétt rúm vika eftir af febrúar, ýmislegt búið að bralla og margt og mikið framundan. Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá "tvíburahálfsystur" minni og vorum við allar mættar áður en klukkan sló hálfníu í gærkvöldi. Ég vann í hvítvínssmámyndinni en tók líka eldhúsmyndina sem ég er byrjuð á með til að monta mig aðeins. Eins og venjulega var glatt á hjalla, mikið spjallað og hlegið en inn á milli datt allt í dúnalogn þegar við vorum allar að einbeita okkur að handavinnunni. Ég náði að koma heim rétt áður en klukkan varð ellefu og klukkutíminn fram að miðnætti (reyndar alveg til 00:10) fór í þvottahús-, tölvumál og lestur. Tíminn er alltof alltof fljótur að líða. Á konudaginn fór ég á fætur upp úr sjö og bjó til hafragraut, aðallega handa karatestráknum mínum en við Davíð fengum líka. Ég fór svo með Oddi Smára í Smárann og var með honum þar milli hálfníu og rúmlega ellefu. Hans flokkur hóf keppni á undan áætlun, upp úr hálfellefu og þetta tók frekar fljótt af. Á heimleiðinni kom ég við í Lyfju og keypti hnéhlíf og hirudoid fyrir manninn minn. Stoppaði mjög stutt heima því við norska esperanto vinkona mín ætluðum að hittast, höfðum bara fært hittinginn aðeins til vegna karatemótsins. Ég var mætt til hennar upp úr tólf og byrjaði hún á að bjóða mér kaffi og bollur áður en við snérum okkur að efninu. Verslaði svo inn áður en ég fór aftur heim. Um miðjan dag setti ég upp slátur. Einnig ákvað ég að standa við loforð sem ég gaf öðrum tvíburanum mínum helgina á undan og skellti í eina eplaköku. Laugardagurinn fór í afslappelsi að mestu. Svaf frameftir og tók því frekar rólega. Reyndar bakaði ég nokkrar vatnsdeigsbollur. Davíð kom draghaltur heim af karateæfingu (og er þá komin skýringing á Lyfju-ferðinni). Á föstudaginn skutlaði Davíð mér á Hvíta riddarann. Ég var mætt þar alveg á slaginu sjö mjög spennt að hitta "Krakkana þeirra Friðriks Guðna og Siggu" Þau heiðurshjón (sem létust langt fyrir aldur fram) stofnuðu tónlistarskóla Rangæinga. Einkadóttir þeirra var stödd á landinu og hún og tvær vinkonur ákváðu hvort ekki væri hægt að hóa saman hóp af krökkum sem stunduðu nám í tónlistarskólanum. Jú, jú, það var ágætist mæting og m.a. mættu nokkrir kennarar líka. Sumir voru ekki búnir að hittast mjög lengi en þetta varð hinn skemmtilegasti hittingur sem vonandi verður endurtekinn næst þegar Þöll verður á landinu. - Á fimmtudagskvöldið var ég orðin ein eftir heima rétt fyrir átta. Horfði á 3. þátt Hallarinnar á leigunni og dreif mig svo á fyrstu keiluæfinguna í marga, marga mánuði. Það er ljóst að þótt ég hafi sýnt gamla takta á köflum að þá er ég alls ekki í góðri æfingu. En þetta var alveg jafn gaman og mig minnti.