21.2.12

- Alltaf nóg að sýsla -

Nú er aðeins rétt rúm vika eftir af febrúar, ýmislegt búið að bralla og margt og mikið framundan. Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá "tvíburahálfsystur" minni og vorum við allar mættar áður en klukkan sló hálfníu í gærkvöldi. Ég vann í hvítvínssmámyndinni en tók líka eldhúsmyndina sem ég er byrjuð á með til að monta mig aðeins. Eins og venjulega var glatt á hjalla, mikið spjallað og hlegið en inn á milli datt allt í dúnalogn þegar við vorum allar að einbeita okkur að handavinnunni. Ég náði að koma heim rétt áður en klukkan varð ellefu og klukkutíminn fram að miðnætti (reyndar alveg til 00:10) fór í þvottahús-, tölvumál og lestur. Tíminn er alltof alltof fljótur að líða. Á konudaginn fór ég á fætur upp úr sjö og bjó til hafragraut, aðallega handa karatestráknum mínum en við Davíð fengum líka. Ég fór svo með Oddi Smára í Smárann og var með honum þar milli hálfníu og rúmlega ellefu. Hans flokkur hóf keppni á undan áætlun, upp úr hálfellefu og þetta tók frekar fljótt af. Á heimleiðinni kom ég við í Lyfju og keypti hnéhlíf og hirudoid fyrir manninn minn. Stoppaði mjög stutt heima því við norska esperanto vinkona mín ætluðum að hittast, höfðum bara fært hittinginn aðeins til vegna karatemótsins. Ég var mætt til hennar upp úr tólf og byrjaði hún á að bjóða mér kaffi og bollur áður en við snérum okkur að efninu. Verslaði svo inn áður en ég fór aftur heim. Um miðjan dag setti ég upp slátur. Einnig ákvað ég að standa við loforð sem ég gaf öðrum tvíburanum mínum helgina á undan og skellti í eina eplaköku. Laugardagurinn fór í afslappelsi að mestu. Svaf frameftir og tók því frekar rólega. Reyndar bakaði ég nokkrar vatnsdeigsbollur. Davíð kom draghaltur heim af karateæfingu (og er þá komin skýringing á Lyfju-ferðinni). Á föstudaginn skutlaði Davíð mér á Hvíta riddarann. Ég var mætt þar alveg á slaginu sjö mjög spennt að hitta "Krakkana þeirra Friðriks Guðna og Siggu" Þau heiðurshjón (sem létust langt fyrir aldur fram) stofnuðu tónlistarskóla Rangæinga. Einkadóttir þeirra var stödd á landinu og hún og tvær vinkonur ákváðu hvort ekki væri hægt að hóa saman hóp af krökkum sem stunduðu nám í tónlistarskólanum. Jú, jú, það var ágætist mæting og m.a. mættu nokkrir kennarar líka. Sumir voru ekki búnir að hittast mjög lengi en þetta varð hinn skemmtilegasti hittingur sem vonandi verður endurtekinn næst þegar Þöll verður á landinu. - Á fimmtudagskvöldið var ég orðin ein eftir heima rétt fyrir átta. Horfði á 3. þátt Hallarinnar á leigunni og dreif mig svo á fyrstu keiluæfinguna í marga, marga mánuði. Það er ljóst að þótt ég hafi sýnt gamla takta á köflum að þá er ég alls ekki í góðri æfingu. En þetta var alveg jafn gaman og mig minnti.

15.2.12

- Nokkrir dagar aftur í tímann -

Sennilega er best að byrja á að rekja sig afturábak. Það er gaman að segja frá því að á leiðinni í sund eftir vinnu í gær hitti ég Birnu frænku. Sá konu koma út úr búð við Skólavörðustíginn. Varð litið á hana, þekkti samstundis þessa frænku mína og fleygði mér um hálsinn á henni. Aðstæður til sunds voru svolítið erfiðar akkúrat á því tímabili sem ég var í lauginni, synti því bara 11 25m ferðir áður en ég skrapp í pott og gufu. - Á mánudaginn hitti ég nöfnu mína og frænku, systurdóttir mömmu, eftir vinnu. Ég trítlaði yfir á Vesturgötuna til hennar og hún keyrði mig heim. Löbbuðum samt hálfan hring í Öskjuhlíðinni áður en við fórum inn að hita okkur kaffi. Um svipað leyti og við nöfnurnar lögðum af stað í gönguna var Oddur Smári mættur í Faxafenið með pabba sínum en strákurinn var valinn í tafllið skólans og milli fimm og rúml. átta var haldið Reykjavíkurmót grunnskólanna í skák. Það áttu að vera fjórir í liði en það mættu bara þrír úr Hlíðaskóla svo þeir töpuðu alltaf einni skák í hverri umferð. Oddur tefldi á borði eitt og vann fjórar skákir af sjö. Eina vann hann þar sem hann átti að tefla við e-n sem ekki var á svæðinu svo það voru greinilega fleiri skólar sem ekki voru með fullmönnuð lið. Þessir þrír kappar úr Hlíðó náðu í 12 og hálfan vinning. - Mætti í messuupphitun klukkan eitt á sunnudaginn. Kórstjórinn ákvað að við skildum svo sitja dreifð úti í kirkju. Sungum þrjá sálma og svörin en fyrir og eftir predikun söng Hulda Garðars sópransöngkona fjögur lög (2 og 2) við undirleik Árna. Magnaðir örtónleikar það. Gaf mér ekki tíma til að fá mér kaffi eftir messuna heldur dreif mig heim og sá til þess að við vorum öll fjögur lögð af stað austur á Hellu til pabba og mömmu áður en klukkan varð mikið meira en fjögur. Tók saumana með mér austur en um hálfsexleytið fórum við pabbi að undirbúa þorraveislu sem mamma var aðeins byrjuð að undirbúa. Pabbi skar niður súrmat og setti á tvö föt á meðan kartöflur og rófur suðu í pottunum. Við feðgin lögðum á borð og ég steikti svo slátur handa öðrum unglingnum sem ekki borðar súrt. - Á laugardagsmorguninn skrapp ég til esperantovinkonu minnar. Hún bauð mér upp á lífrænan hafragraut og lífrænt kaffi á eftir áður en við byrjuðum að kíkja á áhugamálið okkar. Þegar ég kom heim var orðið ljóst að ekkert yrði af tófuferð svilanna svo Davíð missti ekki af karateæfingu. Tvíburarnir sáu um að ryksuga yfir gólfin en þeir áttu von á nokkrum unglingum á spilakvöld seinna um daginn. Ég bakaði eplaköku fyrir það tilefni. Fyrstu krakkarnir mættu um fimm og þegar flestir voru komnir röðuðu þau sér í kringum borðið í holinu og þau byrjuðu á að spila fimbulfamb. Glatt var á hjalla lengi frameftir kvöldi og þeir sem voru með mesta úthaldið voru til miðnættis. - Að loku ætla ég að geta þess að ég heimsótti blóðbankann í 30. sinn eftir vinnu og sundsprett sl. fimmtudag. Æðin í "betri" hendinni var með stæla en þá var bara tekið úr þeirri hægri í staðinn.

6.2.12

- Alls konar -

Janúar er liðinn og einnig nokkrir dagar af febrúar mánuði. Ég mætti á kóræfingu sl. miðvikudag. Röddin virkaði en hún var ekki 100% og þegar fór að líða á æfinguna fannst mér ég verða svo þurr í hálsinum. Þetta var ekkert svo erfið æfing en það var greinilega eitthvað ennþá ofan í mér sem fór að trufla mig eftir því sem leið á æfinguna. Daginn áður var "Önnuhittingur". Davíð hafði skilið bílinn eftir rétt fyrir utan vinnuna mína svo ég sótti nöfnu mína og frænku og byrjuðum við á að stoppa í Sundhöllinni og fá okkur smá sundsprett. Syntum 225 metra og vorum svo í nuddpottinum í dágóða stund. Anna kom með mér heim. Davíð sá um kvöldmatinn og fór svo á karateæfingu. Ég sýndi nöfnu minni m.a. kínverska táknið sem ég hef lokið við að sauma og á bara eftir að útbúa púða úr myndinni. Svo spjölluðum við um alla heima og geyma þar til Davíð kom heim af æfingu en þá skutlaði ég henni heim til sín. - Um nýliðna helgi fórum við m.a. tvisvar í Egilshöllina. Á sjöunda tímanum á laugardaginn var Hulda að keppa. Við mættum akkúrat um leið og hún var kynnt inn á svellið og sáum hennar æfingar og stúlkunnar sem var á eftir henni í röðinni áður en við drifum okkur yfir í Grafarholtið í smá þorrablót með vinafólki okkar til margrar ára. Strákarnir höfðu fengið að velja hvort þeir kæmu með eða ekki og þeir ákváðu að koma ekki. Kvöldið varð engu að síður mjög skemmtilegt og kvöddum við ekki fyrr en klukkan var farin að ganga eitt. - Um hálfsex í gær vorum við mætt aftur í Egilshöllina til að fylgjast með Bríeti keppa. Þurftum að bíða smá eftir að röðin kæmi að henni og þar sem ekkert lá annað fyrir biðum við þar til verðlaunaafhendingin fyrir hennar flokk var afstaðin. Sú stutta varð í 3. sæti af átta en var ekki par sátt með það því hún ætlaði sér víst að vinna. - Um helgina skrapp ég einnig í esperantohitting til norsku vinkonu minnar og heimsótti einnig mömmu frænku minnar. Einnig fór tíminn í smá tiltekt, þrif, lestur, saumaskap og sjónvarpsgláp. :-)