30.7.19

Ferðavikur valdar hjá Atlantsolíu

Á miðvikudaginn var gerði ég mér ferð á bókasafnið í Kringlunni. Fór labbandi að heiman með allar fjórar bækurnar af safninu í bókasafnspoka í bakpoka og þrjá bækur til að setja í gjafahilluna. Átta bækur komu með mér heim af safninu. Skilafrestur er 30 dagar eða til 23. ágúst n.k. og þar að auki get ég framlengt um aðra þrjátíu daga ef ekki verður búið að panta neina af bókunum. Er búin að lesa þrjár af þessum átta; Perlan eftir Birnu Önnu Björnsdóttur, Auðna eftir Önnu Rögnu Fossberg og Blóðskuld eftir Michael Connelly. Allt voru þetta grípandi og mjög spennandi bækur, sérstaklega seinni tvær. Ég er nýlega búin að lesa Skáldið eftir sama höfund og síðast nefnda bókin og af þessum átta bókum voru tvær eftir þann höfund svo ég á eina þar til góða. Mæli eindregið með þessum bókum og fjölskylduskáldsagan Auðna er byggð á sönnum atburðum, mjög vel skrifuð og sérlega spennandi.

Fór aftur í Qi gong á Klambratúni klukkan ellefu á fimmtudaginn var. Hitti þar m.a. esperanto vinkonu mína og tvær aðrar sem voru að tala um að fara á samskonar æfingu í Elliðaárdalnum morguninn eftir á vegum "Orkan í öndvegi". Ég var komin til Inger klukkan tíu morguninn eftir og uþb hálftíma seinna röltum við yfir á Aflagranda til að hitta hinar tvær. Önnur af þeim var á bíl og brunaði með okkur allar fjórar að orkuhúsinu við Rafstöðvarveg þar sem fólk var byrjað að safnast saman vegna æfingarinnar. Leiðbeinandinn/kennarinn faðmaði alla hvort sem hún þekkti okkur eða ekki og svo var labbað aðeins inn í dalinn og farið ég mjög skemmtilegan lund til að iðka æfingarnar. Að tíma loknum fengum við smá tesopa og súkkulaðibita þeir sem vildu. Þetta reyndist síðasti útitíminn þarna, þetta sumarið. Við fjóreykið sem urðum samferða á æfinguna tókum tveggja tíma göngu um dalinn áður en við brunuðum til baka.

Á sunnudaginn, rétt fyrir tólf, var ég staðinn upp til að taka mig til í Helluferðalag þegar síminn hringdi. Sú sem var á línunni var að athuga hvort ég væri á leiðinni á Hellu, en dóttir hennar (bróðurdóttir mömmu) og 2 börn, hún sjálf og maðurinn hennar (bróðursonur pabba) ætluðu í heimsókn til pabba þennan dag. Frænka mín hefur verið búsett í Danmörku síðustu 23 árin, eða síðan hún var tvítug. Ég var komin austur á hellu fyrir klukkan tvö, rúmum einum og hálfum tíma á undan gestunum og náði m.a. að steikja pönnukökur eftir einfaldri uppskrift af netinu. Það sem pönnsurnar slógu í gegn hjá öllum en sérstaklega yngstu kynslóðinni, Elíasi Frey 8 ára  síðan í byrjun júní og Agnesi Maríu sem verður sjö ára seint í nóvember.

Ég var aðeins eina nótt á Hellu í þetta skipti og kvaddi pabba um eitt leytið í gær til að gefa mér góðan tíma til að heimsækja hjónin sem ég var hjá í sveit fermingarsumarið mitt. Ég hafði haft samband kvöldið áður til að athuga hvernig stæði á og fékk þau viðbrögð að húsmóðirin yrði heima og það yrði tekið á móti mér. Hitti líka alla þrjá syni þeirra, eina tengdadóttur og 2 afsprengi, annað þeirra fætt um miðjan júní sl. Einn sonurinn hefur unnið hjá RB nokkur síðustu ár þannig að við erum vinnufélagar.

Í morgun mætti ég í Laugardalslaugina rétt upp úr sjö. Kom heim stuttu fyrir níu, bjó til hafragraut fyrir þrjá og hellti upp á tvo bolla af kaffi fyrir mig. Ýtti við N1 syninum áður en klukkan varð hálftíu svo hann hefði tíma til að fá sér aðeins að borða áður en ég skutlaði honum á 12 tíma vakt í Stórahjalla. Um ellefu var ég mætt á Klambratúni. Kona frá "Tveir heimar" var leiðbeinandi í dag með mjög góðar æfingar. Á eftir tók ég stuttan göngutúr heim en þó nógu langan til að síminn skráði hann sjálfvirkt. Við einkabílstjórinn skruppum í Sorpu og Krónuna og á heimleiðinni kom hann við á Hárhorninu og lét snyrta hár og skegg sem hefur ekki verið gert í marga, marga mánuði.

23.7.19

Tvíburarnir mínir 23 ára í dag

Ég var komin upp í rúm um tíu í gærkvöldi en las reyndar í hálftíma áður en ég sveif inn í draumalandið. Var samt vöknuð klukkan fimm í morgun, alveg klukkutíma á undan áætlun. Tosaði mig framúr rétt fyrir klukkan sex, fékk mér lýsi, eitt harðsoðið egg, tvö vatnsglös steinefnablöndu og nutrilenk áður en ég dreif mig í sund. Mætti í Laugardalslaugina rétt eftir opnun ca 6:35 og hitti fyrir þónokkra af  "morgunfólkinu" mínu. Fór tvær ferðir í þann kalda áður en ég synti 400m og fór þriðju ferðina í besta pottinn. Svo dagaði ég næstum því uppi í saltpottinum á eftir. Fór fjórðu ferðina í þann kalda og endaði í gufunni áður en ég fór uppúr og beint í kalda sturtu um hálfníu. Tveir góðir tímar í sundinu. Hellti upp á sterkt og gott kaffi þegar ég kom heim um níu og eftir þrjú korter ætla ég að vera mætt út á Klambratún og taka þátt í Tai-chi/Qi-gong æfingu. Það getur svo vel verið að ég hræri í nokkrar vöfflur eftir hádegi í dag. Afmælisbörnin ætla að sofa út og eyða kvöldinu með pabba sínum. Þeir fara út að borða og í bíó. Ég ætla hins vegar á heimaleik hjá "stelpunum" mínum. :-)

22.7.19

Hugað að fararskjótanum

Fyrsti virki frídagur runninn upp. Nýliðinni helgi eyddi ég allri í bænum. Var mætt í sund á slaginu klukkan átta á laugardagsmorguninn. Einum og hálfum tíma seinna var ég að "detta" inn hjá esperanto vinkonu minni, beint úr sundi. Við lásum hálfa blaðsíðu í Kon-Tiki en við vorum mættar í Nauthólsvík aðeins fyrir klukkan ellefu. Fundum ekki Tai-chi/Qi-gong hópinn þar svo líklega hefur tíminn fallið niður. Við fórum í tæplega hálftíma göngutúr áður en ég skilaði henni heim. Um hálftvö labbaði ég af stað niður í bæ, heiman að frá mér. Hitti aftur esperanto vinkonu mína sem var mætt ásamt annarri í bakgarðinn við Júmfrúna rétt rúmlega tvö. Þær voru búnar að finna 4 stóla en þrátt fyrir að enn væri tæp klukkustund fram að viðburði:20. júlí – Latínband Tómasar R. Hér mun enginn sitja kyrr! Tómas R. Einarsson: kontrabassi, Óskar Guðjónsson: tenórsaxófónn, Ómar Guðjónsson: gítar, Sigtryggur Baldursson: kóngatrommur, Samúel Jón Samúelsson: básúna og slagverk, voru öll borð úti upptekin. Sú fórða mætti tíu mínútum á eftir mér. Þá voru hinar tvær farnar í röðina að útvega sér eitthvað að drekka og borða. Ég var ekki í stuði til að fara í neina röð en jazzinn hlustaði ég á frá klukkan þrjú til klukkan fjögur. Við sátum fyrir aftan sviðið og sáum þá ekki spila, en fyrir mig gerði það ekkert til. Góður fílingur og þrátt fyrir að gerði eina örstutta hellidembu þá var veðrið himneskt mest allan tímann. Engu að síður fórum við af staðnum þegar hljómsveitin fór í smá pásu. Ég lagði leið mína á torgið til Lilju vinkonu hún var að byrja að ganga frá.Hitti á Ingibjörgu Tómasdóttur og Ragnar manninn hennar. Við Inga spjölluðum stuttlega saman. Held hreinlega að við höfum ekkert hist augliti til auglitis síðan í nóvember 2014, aðeins verið í stopulu síma- og email-sambandi. Ein af hinum þremur samferðakonum mínum, stökk upp í strætó áleiðis upp í Breiðholt. Hinar tvær stoppuðu aðeins við sölubásinn en röltu svo saman vestur í bæ. Þegar Lilja var búin að ganga frá og ferma hjólið knúsaði ég hana bless og rölti heim á leið.

Í gær var ég vöknuð upp úr klukkan sjö en hafði mig ekki alveg strax framúr og í sund. Fór að hlusta á Rás 2. Þegar ég kom fram suttu fyrir hálftíu var N1 sonurinn að koma fram og hann átti að vera mættur á vakt í Kópavoginn klukkan tíu. Ég skutlaði honum í vinnuna og fór svo í sund. Þegar ég var búin með 2 ferðir í þann kalda og 500m hitti ég á fyrrum mágkonum mömmu og við "slæptumst" saman alveg til klukkan að byrja að ganga eitt. Við fórum tvær ferðir saman í þann kalda en hún er að byrja að þjálfa sig upp í hann aftur, vorum smá stund í nuddpottinum, góða stund í sjópottinum og löbbuðum einn hring í kringum útisundlaugina. Var komin heim upp úr klukkan hálfeitt. Tæpum tveimur tímum seinna rölti ég yfir í Norræna húsið þar sem ég hitti esperanto vinkonu mína fyrir. Náði að fá mér 1 hvítvínsglas til að taka með mér út í glerhýsi áður en tónleikarnir hófust: Norræna húsið opnar glerdyrnar að nýju og býður þér á tónleika undir björtum himni, alla sunnudaga í sumar kl. 15:00. frá 16. júní – 11. ágúst 2019. Tónleikaröðin fer fram í fallegu umhverfi gróðurhúss Norræna hússins og laðar að sér bæði íslenska og erlenda tónlistarunnendur. Frítt er inn á alla tónleikana.
Indieelectro hljómsveitin Omotrack hefur spilað og komið fram á tónlistarhátíðum víðsvegar umÍsland og erlendis frá og með árinu 2015. Nafn hljómsveitarinnar er dregið af litla  þorpinu OmoRate. Annar bróðirinn hefur séð um sunnudagaskóla óháða safnaðarins með konu sinni sl. tvo vetur.
Í morgun var ég vöknuð um sex en eiginlega næstum jafn lengi að koma mér á fætur og í gærmorgun. Mætti í Laugardalslaugina um átta. Sinnti hefðbundinni rútínu og var ekkert að flýta mér. Eftir sundið fór ég með bílinn á smurstöðina við Laugaveg 180 og lét smyrja hann. Frá smurstöðinni lá leiðin á N1 dekkjaverkstæðið við Fellsmúla til að láta laga loftleka á tveimur dekkjum. Þrátt fyrir að vera ekki með N1 kort var nóg að gefa upp kennitölu N1 sonar míns til að fá afslátt.

19.7.19

Sumarfrí

Hætti vinnu um hálfþrjú í dag, kvaddi vinnufélagana og labbaði heim. Verð að segja frá því að upp úr hádeginu í gær fannst mér endilega vera kominn föstudagur. Var að ganga frá vinnuskýrslunum og senda frívikurnar til samþykktar hjá framakvæmdastjóra. Þegar ég ætlaði að senda inn þessa viku skildi ég í fyrstu ekkert í því að það voru engir tímar skráðir á föstudag. Fyllti út fyrirskipaða 7 klukkutíma en sendi þó ekki þessa viku til samþykktar fyrr en eftir hádegi í dag.

Annars hefur vikan verið fljót að líða. Fór í sund eftir vinnu á þriðjudaginn en um hálffjögur á miðvikudaginn sótti ein fyrrum samstarfskona mín, vinkona og jafnaldra mig í vinnuna og við fórum saman í heimsókn til þeirrar þriðju sem er einum 12 árum eldri en við. Sú var líka að vinna á kortadeildinni í um áratug eða svo. Við þrjár hittumst reglulega en það var liðinn óvenju langur tími frá síðasta hittingi. Við hittumst  á kaffihúsinu í Perlunni einhvern tímann í febrúar sl. Við höfðum um margt að spjalla og klukkan var orðin hálfsjö þegar við jafnöldrurnar kvöddum og hún skutlaði mér heim.

Þvílíkt blíðviðri sem var í gær. Labbaði heim úr vinnu um hálffjögur. Hellti mér upp á ca tvo bolla af kaffi og fékk mér flatköku með hummus. Hringdi í pabba áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Það var auðvitað margt um manninn, aðallega á sólbekkjunum en ég komst amk 3 sinnum í þann kalda og fékk pláss á einni brautinni. Nennti samt ekki að synda merira en 300 metra.

Verð í sumarfríi næstu 33 dagana og er ákveðin í að njóta alls tímans í botn.

16.7.19

Þrír virkir vinnudagar eftir fram að sumarfríi

Á sunnudagskvöldið, smurðum við systur slatta af flatkökum með hangiketi og rúlluðum upp uþb 40 pönnukökum. Í gærmorgun vorum við pabbi langfyrst á fætur, nokkru fyrir klukkan sex, og höfðum meira að segja tíma til að leggja nokkra kapla áður en við fórum í sund. Fór fjórum sinnum í kalda karið, synti í tuttugu mínútur, þar af 25m skriðsund og aðra 25m baksund. Ég fór í heitan pott og gufu en ég fór ekki í rennibrautirnar með pabba, heldur horfði á hann nánast hlaupa upp tröppurnar 33 í tvígang því hann fer eina ferð í hvora rennibraut. Fengum okkur kaffi á staðnum á eftir. Vorum komin í Hólavanginn upp úr klukkan hálfníu. Fljótlega hrærði ég í eina pönnsuposjón og var nýbúin að ljúka við að steikja úr hrærunni þegar Helga systir kom fram. Við kældum kökurnar aðeins áður en við drifum í að setja sultu og rjóma og raða þeim upp.

Jóna Mæja og Reynir komu um eitt og voru með eplatertu og auka rjómasprautu með sér. Pabbi stillti duftkerinu, sem og mynd af mömmu og kertinu sem voru á gestabóksborðinu í útförinni, upp á stofuskáp. Upp úr tvö fórum við að raða upp bollum og diskum en klukkan var langt genginn í þrjú áður en fleira fólk mætti.Byrjað var að drekka kaffið upp úr þrjú. Allt í allt urðum við 19. Allir voru komnir um fjögur. Við vorum öll komin á Keldur um fimm. Pabbi, Reynir og Hjörtur (maður Önnu Báru frænku minnar) hjálpuðust að við að taka smá torfu af leiðinu hennar "litlu Önnu" og bora meters holu. Moldinni var safnað í hjólbörur. Við pabbi hjálpuðumst að við að láta duftkerið síga rétt niður í holuna og Helga systir tók helling af myndum á vélina hans pabba. Þessi gjörningur tók vel innan við klukkustund og á eftir fóru allir og fengu sér meira kaffi og með því á Hellu. Allt hafði gengið mjög vel og allir sáttir.

14.7.19

Á Hellu

Systir mín og mágur byrjuðu í sumarfríi upp úr hádegi sl. föstudag og lögðu fljótlega af stað með yngri dóttur sína og tvo hunda suður og eiginlega alla leið austur á Hellu í næstum einni lotu. Eldri dóttirin og kærastinn hennar voru nýlega komin úr reisu frá London og ætla ekki að taka sér meira frí í bili.  Ég var búin að hugsa minn gang, ákveða og segja mörgum frá áætlunum mínum um að vera í bænum um helgina en drífa mig og strákana með mér austur upp úr hádegi n.k. mánudag, 15. júlí. Mér fannst þetta plan alveg ágætt en bæði Helga systir og pabbi vildu fá mig fyrr austur því þegar ég hringdi í pabba um miðjan dag í gær fékk ég m.a. að tala við Helgu og hún spurði afhverju ég væri ekki komin austur. Endirinn varð sá að þau skutust í bæinn, hún og pabbi, á nýja bílnum hans og sóttu mig. Þar með geta strákarnir komið austur á mínum bíl á morgun.

Vorum komin austur upp úr klukkan hálfátta í gærkvöldi. Kvöldið fór í kapallagnir, grín og glens. Í morgun útbjó ég tvær kaldar brauðtertur og upp úr hádeginu hrærði ég í 3 pönnsu-posjónir, eina í einu. Bauð upp á einn skammtinn í kaffitímanum en hina tvo ætlum við að rúlla upp og/eða setja smá sultu og rjóma í fyrramálið.

Sonurinn sem fór á Eistnaflugshátíðina á Neskaupsstað var að hringja rétt áðan frá Akureyri. Samferðalangarnir fóru austurleiðina austur sl. miðvikudag en eru greinilega að koma norðurleiðina til baka í dag.

12.7.19

Óstuð í skrifum

Júlí nálgast það að vera hálfnaður. Ég á eftir að vinna í fjóra virka daga í næstu viku og þá er ég komin í fjögurra og hálfs vikna sumarfrí. Framundan er löng helgi. Annar tvíburinn fór á hina árlegu Eistnaflugshátíð á Neskaupsstað með vinum sínum sl. þriðjudag og kemur ekki heim aftur fyrr en á sunnudaginn. Hinn tvíburinn er að vinna í dag (og í gær) og um helgina.

Ég er loksins búin að lesa síðustu jólabókina; Brúðan eftir Yrsu Sigurðardóttur sem ég fékk frá Helgu systur og fjölskyldu. Lauk við hana rétt upp úr síðustu helgi. Ég fór á bókasafnið þann 2. júlí og skilaði öllum bókum sem ég var með. Kom með fjórar ólíkar bækur heim, engin af þeim með skammtíma lán þannig að ég má hafa þessar alveg til og með 1. ágúst. Er þó þegar búin með eina bók; Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra eftir Halldór Laxness Halldórsson, og langt komin með aðra: Óvelkomni maðurinn eftir Jónínu Leósdóttur.

Síðan síðasta strætókort rann úr gildi þann 2. apríl sl. hef ég aðeins tvisvar sinnum farið á bílnum í vinnunna alla hina dagana, nema nokkra sem ég fór ekki í vinnu vegna lasleika og sálfræðivitala, hef ég labbað báðar leiðir. Hef alltaf haft kling á mér til að geta "hoppað" upp í strætó ef ég þyrfti. Var einu sinni nýlega að hugsa um að nota þetta klink en fann það ekki í bakpokanum fyrr en daginn eftir. Það var allan tíman í dós undan hafkalki í bakpokanum en ég hef greinilega ekkert átt að vera að nota strætó. Enda er ég stundum alveg jafn lengi að labba heim eins og að taka strætó upp úr klukkan hálffjögur/fjögur. Síminn er búinn að hanga á mér síðan klukkan sjö í morgun og skv. SAMSUNG Healt forritinu er ég búin að ganga rétt rúmlega 13600 skref í dag.