3.8.16

Ágústmánuður byrjaður

Það nóg um að vera í kringum mig en einhvern veginn hef ég ekki fengið mig til að setjast niður og skrá niður það helsta. Þetta er að verða vandræðalegt hversu léleg ég er að sinna bloggi sem og útsaumi. Að vísu tók ég saumana með austur um síðustu helgi, eins og reyndar oftast þegar ég ætla að gista, og viti menn ég saumaði bæði á sunnudeginum og á mánudagsmorguninn.

Byrjaði  á því að skreppa í sund strax um átta á laugardaginn var. Kom við heima í um klukkustund eftir sundið áður en ég fór yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Þar stoppaði ég í hátt í tvo klukkutíma. Þegar ég kom heim lauk ég við að pakka, kvaddi strákana og brunaði út úr bænum um tvö. Var komin austur klukkan hálffjögur þrátt fyrir að það væri smá flöskuháls við Selfoss.

Við pabbi vorum sest út á pall fyrir klukkan tíu á sunnudagsmorguninn. Fljótlega ákváðum við að taka út sláttuvél og klippur og snyrta grasflatirnar, bæði aftan og framan við hús. Þurftum að tæma fjórum sinnum en vorum sennilega ekki nema einn og hálfan tíma að klára þetta. Pabbi fór fyrstu hringina en ég tók svo við og var komin upp á sæmilegt lag við að elta vélina sem fór nota bene nokkuð hratt yfir. Á mánudagsmorgun uppgötvaði ég að ég hafði sennilega nota einhverja axlarvöðva sem eru sjaldan í notkun þrátt fyrir sund og e-s konar armdýfingar reglulega. En ég kvaddi foreldra mína um hálfþrjú á mánudeginum og var komin í bæinn um fjögur. Tók til sunddótið og byrjaði á því að skreppa í Laugardalslaugina. Kom við í búð á heimleiðinni þrátt fyrir að það væri frídagur verslunarmanna.

Labbaði í vinnuna í gærmorgun og var mætt vel fyrir klukkan átta. Ég og ein önnur vorum áfram frá fjögur, að sinna reikningagerð og vakta þá sem yfirfara vélina ca einu sinni í mánuði. Hin skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en um átta leitið skrapp ég aðeins í heimsókn til "föðursystur" minnar.