26.12.17

Jólaræðan

Jóladagur 25. Desember 2017 í óháða söfnuðinum.


Gleðilega hátíð kæra samferðafólk!

Það er margt búið að ganga á í kollinum á mér frá því Pétur bað mig um að taka þetta verkefni að mér á jóladag fyrir ári. Ég ákvað þó strax að taka þessari áskorun alveg óviss um hvernig ég ætti og ætlaði að tækla þetta verkefni. Ég veit vel að ég get alveg skrifað, hef frá því ég man eftir mér dregist að línustrikuðum blöðum og haldið dagbók með hléum síðan ég var krakki. Frá því 2003 færðust þau skrif yfir í bloggheima og þar á ég enn mína spretti.

Ég er annars ein af þeim sem er alin upp í sveit. Tel mig Rangæing í húð og hár þótt mömmu greinar skiptist í vestur, og norður. Hún fæddist á Akureyri 1944 þegar Lýðveldið Ísland var tæplega mánaða gamalt. Til tólf ára aldurs átti ég lögheimili á Heiði á Rangárvöllum, um 16 km frá Hellu. Föðurafi minn var fæddur þar og pabbi og öll hans 4 systkyni, pabbi yngstur árið 1934.

Ég fæddist í Reykjavík í mars 1968 og var á heimleið í fyrsta skipti í sveitina mína daginn sem breytt var yfir í hægri umferð, þann 26. maí sama ár. Mér er sagt að bíllinn hans pabba hafi sést á myndbroti í fréttum af þessari umferðarbreytingu.  Fyrstu fjögur árin mín, eða á meðan, afi lifði, var Heiði þríbýli. Elsti bróðir pabba sá þó um að reka búið, bæði kúa og sauðfjárbú auk nokkurra hesta. Hann hafði byggt sitt eigið hús yfir sig og sína örstutt frá gamla bænum og nefnt Heiðarbrekku. Foreldrar mínir byggðu sitt hús, 1961, við gamla bæinn þannig að það var innangengt á milli. Pabbi var í mörg ár titlaður bóndi í símaskránni en hann var farinn að vinna utan heimilis fyrir mína tíð. Eftir að afi dó fluttist amma mín að Helluvaði til yngstu dóttur sinnar og bjó þar síðustu 15 árin sín.

Ég er ekki fyrsta barn foreldra minna þótt í sé sú eldri af tveimur systrum. Frumburður þeirra, "Litla-Anna", fæddist daginn eftir fimm ára brúðkaupsafmæli þeirra í september 1966 en hún dó eftir stutt veikindi aðeins fimm mánaða gömul. Önnu nafnið mitt er því bæði eftir henni og í höfuðið á móðurömmu minni. Yngri systir mín fæddist rúmum 19 mánuðum á eftir mér. Ég kallaði hana víst Óóið lengi vel er mér sagt en ég man ekkert eftir því. Þegar ég fer að muna eftir mér sváfum við í koju, hún í þeirri efri og ég í þeirri neðri af því að ég átti það til að ganga í svefni. Okkur voru snemma kenndar bænir, vers og heilræðavísur og það var föst venja að fara þær og signa sig fyrir svefninn. Þegar við fengum sér herbergi í kjallaranum varð mamma oftast vör við það þegar ég labbaði af stað því þótt ég væri steinsofnadi þá fór ég í klossana mína. Mamma náði þá oftast að snúa mér við áður en ég var komin alla leið upp og fylgja mér í rúmið aftur. Ég man þó eftir einu skipti þar sem ég vaknaði upp á gólfinu fyrir framan tröppuna inn í hjónaherbergi. Mig hafði verið að dreyma að ég væri á sundæfingu.

Systir mín átti stundum erfitt með að sofna. Ef ég var sofnuð gat hún teygt hendina niður úr efri kojunni og kveikt ljósið hjá mér. Síðan hallaði hún sér yfir rúmbríkina, þannig að ég sá andlitið hennar á hvolfi, og sagði við mig: "Anna Sigga ég get ekki sofnað. Viltu segja mér sögu?" Og sýndi mér jafnvel með höndunum hversu löng sagan átti að vera. Ég átti frekar auðvelt með þetta, varð snemma læs og las mikið m.a. Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Ég var dugleg við að búa til alls konar ævintýri. Ég hafði afar gaman af því að spila eða leggja kapla og á tímabili gekk ég með spilastokk í rassvasanum og vísnabókina undir hendinni. Ég fékk líka stundum skrýtnar hugmyndir, t.d. eftir að Gideonfélagið hafði heimsótt bekkinn minn og gefið okkur nýja testamentið. Maðurinn sem afhenti okkur bækurnar sagði að hann myndi koma aftur þegar við yrðum í elsta bekk grunnskólans til að athuga hversu snjáðar bækurnar væru, þ.e. hvort við hefðum verið iðin við að glugga í testamentið. Ég gerði gott betur en það því ég fékk þá flugu í höfuðið að læra ættartölu Jésú Krists utan að og kunni hana lengi vel, alla 36 liðina, alveg frá Abraham að Jésú. Föðurbróðir minn vissi af þessu og átti það til að biðja mig um að þylja ættartöluna upp sérstaklega ef það voru gestir á staðnum.
En ég átti víst að segja frá jólaminningum mínum. ...og verð ég þá að viðurkenna og kannast við að undirbúningur undir jólin voru bara vesen í mínum huga, svo langt sem ég man? Mamma var og er mikið jólabarn og hún komst í mikið stuð þegar líða fór að aðventu.  Hún saumaði eitt sinn jólaklukkustreng, sem var númeraður frá 1 - 24 og rauður hringur við hvert númer. Áður en 1. desember rann upp var hún búin að pakka alls konar nammi-molum inn í álpappír, binda utan um og festa tvo pakka í hvern hring. Svona töldum við systur niður dagana til jóla. Mamma saumaði líka á okkur jólafötin í mörg ár. Allt var þrifið hátt og lágt og mamma var að langt fram á nótt vikurnar fyrir jól. Pabbi hjálpaði henni eftir að hann kom heim úr vinnu á kvöldin. Settar voru upp jólagardýnur í eldhúsinu og jóladúkar á eldhús- og stofuborð. Mamma bjó til aðventukrans og notaði svo hluta af greninu til að gera smáskreytingar og festa fyrir ofan innrammaðar myndir á veggjum í stofunni og víðar. Ákveðnar jólaskreytingar áttu sína föstu staði. Ég man sérstaklega eftir pínu litlu, skreyttu gervijólatré sem mamma hafði valið sem möndlugjöf sem unglingur og fékk svo sjálf möndluna. Þetta tré var alltaf sett upp á stofuklukkuna.

Bakaðar voru að mér fannst millijón smákökusortir og nokkrar lagtertur, jólakökur, og fleira og fleira og var mamma potturinn og pannan í þessu öllu. Nokkrar smákökusortir kölluðum við lengi vel fjölskyldukökur því þá hjálpuðumst við öll að, þetta voru t.d. loftkökur og vanilluhringir. Þetta fannst mér skemmtilegt. Foreldrar mínir hjálpuðust einnig að við að baka og setja saman piparkökuhús sem var látið standa alveg fram á þrettándann. Þá var það brotið niður og oft voru frændur okkar, bróðursynir pabba boðnir yfir til að hjálpa okkur að brjóta niður húsið og borða. Ef það voru fleiri ungmenni stödd á staðnum þá var þeim boðið líka. Leyfarnar af húsinu entust í einhverja daga.

Það var annars aldrei farið í kirkju á aðfangadag, jóla- eða gamlársdag, hvorki á meðan við bjuggum í sveitinni né eftir að við fluttum alfarið í þorpið 1981. En ég man að við fórum einu sinni á aðventustund, stuttu fyrir jól, í Þykkvabæjarkirkju og þótti mér sú stund afar hátíðleg.

Á Þorláksmessukvöld var gervitréð sett saman og pabbi athugaði hvort seríurnar væru í lagi áður en þær voru settar á og tréð skreytt. Mér fannst mest spennandi að sjá hversu mikið tréð hafði "minnkað" frá því árinu áður. Það var alltaf einhver munur en ég óx frekar hægt, 1-2 cm ár ári og eitt árið, tók systir mín mikinn vaxtakipp lengdist um heila tíu sentimetra og óx mér vel yfir höfuð. Ég, sem hafði alltaf verið aðeins stærri, var alveg nokkur ár að ná henni aftur.


Í hádeginu, á aðfangadag, var mamma með heitan grjónagraut með möndlu í og sá sem fékk möndluna fékk fyrsta pakkann. Klukkan fimm voru pakkarnir settir undir tréð en ljósin voru þó ekki kveikt fyrr en klukkan sex. Þá var líka sest að borðum og borðaður lambahryggur eða læri með öllu tilheyrandi. Ég var ekki mikið fyrir brúnuðu kartöflurnar og jólaölsblandan, hvítöl, malt, kók og appelsín fór alls ekki vel í magann minn. Þegar borðhaldinu lauk fengum við systur að opna fyrstu pakkana, sem voru yfirleitt merktir frá jólasveininum. Lengi vel voru líka geymdir nokkrir pakkar sem sem við systur opnuðum einn á dag alveg fram á gamlársdag. Ég sagði frá því hér að ofan að ég var og er mikill lestrarhestur. Ein bestu jólin voru líklega þegar ég var um ellefu ára. Ég fékk nýja skólatösku, einhverjar flíkur, kerti og spil frá heimilisfólkinu á Kaldbak en það var hefð í mörg ár og svo heilar ellefu bækur. Ég var því miður búin að lesa þær allar áður en nýtt ár rann upp.

Sem krakki var ég frekar alvarleg og tók lífinu kannski helst til of hátíðlega. En svo langt sem ég man átti ég það þó til að bresta í söng alveg að því er virtist af tilefnislausu og var ég ekki endilega að syngja neitt ákveðið þótt ég gerði það líka. Ég get alveg skotið því hér að, að ég er ekki vaxin upp úr þessu. Átta ára var ég send í Tónlistarskóla Rangæinga. Lærði fyrst á blokkflautu og svo orgel og píanó. Það var hefð að halda tvenna jólatónleika í sýslunni og eina í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Ég var valin í hópinn nokkrum sinnum til að koma fram á þessum tónleikum og ég gleymi því aldrei þegar ég spilaði á stóra pípuorgelið í fyrsta skipti. Sem betur fer var alltaf mætt góðum tíma fyrir tónleika svo hægt væri að taka eitt rennsli áður. Þrátt fyrir að ég kviði alltaf að koma fram þá fannst mér líka þetta vera hluti af undirbúningnum fyrir komu jólanna.

Minningarnar eru margar og ég gæti rifjað endalaust upp og sagt frá. Kannski er líka skrýtið að ég segi lítið frá sveitalífinu sjálfu því ég var á tímabili alveg ákveðin í að eiga alltaf heima í sveit. Reyndar var eitt og annað sem mig langaði að tæpa á en þegar ég komst af stað í skrifunum virtist einhvern veginn ekki rétt að hafa það með.

Mig langar til að enda þetta á því að fara með smá bæn í ferskeytluformi sem ég samdi í endaðan mars fyrir bráðum þremur árum:

Legg ég saman lófa mína
leitar hugur víða.
Bið Hann heili alla sína
höftin leysi´ og kvíða.
(ASH 28.03.2015)

Takk fyrir mig!

11.12.17

Morgunstund

Áfram æðir tíminn og lætur alls ekki bíða eftir sér. Það er varla að maður geti hangið í kjölsoginu. Oftast er það nú ekki nauðsynlegt að vera að eltast neitt sérstaklega við tímann. Mér sýnist á öllu að ef ég punkta bara upp það sem verður að klárast fyrir jól og raða svo verkefnunum skynsamlega niður þá á þetta allt að hafast. Ég er amk búin að skrifa jólabréfin og annað þeirra er nú þegar á leiðinni til Englands og hitt leggur af stað til Danmerkur í dag.

Ég skrapp annars austur um helgina, hafði ekki farið tvær helgar í röð og það var alveg kominn tími til að kíkja. Ég fór klifjuð af dóti eins og vanalega en notaði svo ekkert af því þegar til kom. Mestallur tíminn fór í að prjóna með mömmu, þýða eitt jólabréf fyrir pabba og svo skrapp ég aðeins og kíkti á föðursystur mína upp úr hádeginu í gær.

Pabbi var mjög duglegur að setja upp hluta af jólunum. Fékk að hjálpa honum aðeins við að setja upp jólagardýnur á efri gardýnustangirnar í eldhúsinu og leist nú ekkert að blikuna að fylgjast með pabba príla af tröppunni og alla leið upp á innréttinguna. Hann lofaði nú að fara varlega, vildi gera þetta sjálfur og það var ekki að sjá að "prílarinn" væri orðinn 83 ára.

Hafði annars ætlað mér að vinna í jólahugvekjunni. Kollurinn er fullur af orðum og hugmyndum en ég hafði einhvern veginn enga eirð til að setjast niður yfir punktana sem þegar eru komnir í skjalið. Mér finnst samt að það sé ekki langt í að ég detti í skrifstuðið og þá vona ég svo sannarlega að ég sitji fyrir framan tölvuskjá og hafi góðan tíma.

3.12.17

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Þetta er önnur helgin í röð sem ég fer ekki út úr bænum og austur. Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt upp úr átta. Hafði smá stund aflögu heima eftir sundið áður en ég skrapp í esperanto hitting til norsku vinkonu minnar. Var komin heim aftur upp úr klukkan tólf. Tæpum tveimur tímum seinna skutlaði einkabílstjórinn minn mér út að Eiðistorgi og hann notaði ferðina til að skreppa með plast, pappír og fleira í Sorpu.  Á Eiðistorgi var verið að sýna ballett, milli klukkan tvö og þrjú, þó nokkuð margir hópar sem eru í ballettskólanum á Seltjarnarnesi en skólinn er víst til húsa þarna á Eiðistorgi. Tvíburar Brynju vinkonu voru í fyrsta hópnum. Þetta var mjög skemmtileg sýning, atriðin ekki of löng en maður fékk að sjá ýmsa ballettakta, allt frá byrjendum og upp í unglinga.

Rétt upp úr þrjú vorum við vinkonurnar sestar inn í Hannesarholt þar sem við sátum næstu tvo tímana. Áður en hún skilaði mér heim tókum við smá rúnt yfir í annan bæjarhluta.

Ég var komin ofan í kalda pottinn 12 mínútur yfir átta í morgun. Sat þar í rúmar þrjár mínútur en synti svo í næstu tuttugu mínútur áður en ég fór aftur í þann kalda. Eftir þá ferð fór ég í sjópottinn og svo enn og aftur í þann kalda. Endaði svo stutta stund í gufunni áður en ég fór upp úr. Hitti óvænt þá sem ég heimsótti í Skagafirðinum er ég var á leiðinni til Helgu systur í ágúst sl. Eftir tíu mínútna spjall dreif hún og hennar maður sig í sundið en ég kom við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim.

Ég er annars nýkomin heim úr árlegu laufabrauðshittingi með frændfólki mínu. Vorum alls sjö og skárum út 80 kökur. Var mætt fyrst rétt fyrir tvö og við vorum búin að skera og steikja tveim tímum seinna. Og næst liggur leiðin í kirkjuna mína en þar er aðventukvöld í kvöld og stjórnin ætlar að hittast á undan til að undirbúa smá góðgæti sem verður á boðstólum eftir dagskrána.

29.11.17

Nokkrar línur fyrir svefninn

Ég kveikti á tölvunni í kvöld til þess að senda Veitum álestrartölur af rafmagns- og hitamælum íbúðarinnar. Báðir þessir mælar eru niðri í kjallara, annar í þvottahúsinu en hinn á ganginum fyrir framan.

Eftir vinnu í gær tók ég strætó á Hlemm og nr 14 þaðan í Laugardalinn. Kaldi potturinn var lokaður og tómur en ég synti í tæpan hálftíma, flatmagaði um stund í sjópottinum og endaði að gufu áður en ég fór upp úr. Var komin heim upp úr klukkan sex og byrjaði á því að hringja í pabba.

Hluta af vinnutímanum í dag notaði ég í að hreinsa til á heimasíðu óháða safnaðarins. Fór yfir allar tilkynningasíðurnar, afritaði textana yfir í word-skjal og ef í ljós komu leiðinda linkir eftir innbrot þá eyddi ég þeim textum einfaldlega út. Ég á aðeins eftir að athuga hvort svona linkir leynist í textunum sem eru bundnir við hnappana í svörtu stikunni.

Fór beint í sund eftir vinnu. Nú var kaldi potturinn opinn svo ég fór beint ofan í hann þegar ég kom út. Þar fyrir var maður sem ég veit að mælir hitastig pottsins reglulega svo ég spurði hvort hann hefði mælt í dag og hvað hitastigið væri. Jú, hann hafði mælt pottinn innan marka, 7,8°C. Við fórum aðeins að ræða um kalda potta og sjóböð og ég gleymdi tímanum, sat í pottinum í rúmar sjö mínútur. Synti svo í hálftíma og fór aðeins í sjópottinn áður en ég fór uppúr. Var komin heim á svipuðum tíma og í gær.

28.11.17

Lítið eftir af nóvember

Þar sem ég fór ekki austur um síðustu helgi var ég mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun, um átta á sunnudagsmorguninn. Var komin nógu snemma heim aftur til að skutla N1-unga manninum á vakt og hleypti ég honum út við stöðina við Stórahjalla átta mínútum fyrir tíu.

Hinn ungi maðurinn fór á fætur upp úr tólf til að koma með mér og undirbúa maulið eftir messuna í óháðu kirkjunni um eitt. Allt var nokkurn veginn klárt rétt fyrir tvö og þá gaf ég honum leyfi til að skreppa frá. Sjálf settist ég inn í kirkju og naut messunnar. Jazztríó sá um tónlistina og spilaði jólalög í jazzútsetningum á milli ritningalestra og predikunnar. Seinni messuna í mánuðinum er alltaf altarisganga og eftir að ég hafði þegið brauðið og og blóðið laumaði ég mér niður í eldhús til að sækja vatn úr ísskápnum og leggja lokahönd á maulið. Korteri eftir að messu lauk kom Oddur Smári aftur. Við tókum því þó rólega þar til flestir voru farnir en þá tók það okkur klukkutíma að ganga frá og vaska upp. Ungi maðurinn sá um að koma öllu niður í eldhús og laga og þurrka af borðunum á meðan ég sá um uppvaskið og fráganginn í eldhúsinu.

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær var ég eitthvað að spá í að drífa mig annað hvort á Valsvöllinn eða í Lífsspekifélagið um kvöldið. Hafði aðeins tekið þá ákvörðun á sleppa sjósundinu þar sem ekki var mælt með því vegna mengunnar. Reyndin var svo sú að ég var heima, horfði á megnið af körfuboltalandsleiknum og bjó til ein tíu jólakort, þau fyrstu og kannski síðustu kortin á þessu ári. Allir á jólakortalistanum fá þó jólakveðju því ég á til "hinsegin" jólakort.

26.11.17

Skautað yfir nýliðna viku

Fór í sjósund, eigilega sjóbusl, í ca. 3 mínútur í 1,6°C sjónum rétt upp úr fimm á mánudaginn var. Hafði til kvöldmat, horfði á fréttir og bakaði svo uppáhalds smákökusortina hans Odds Smára.

Eftir vinnu á þriðjudaginn, tók ég stætó upp á Hlemm og annan þaðan sem stoppaði rétt við Laugardalslaugina. Um kvöldið bakaði ég uppáhlalds smákökusortina hans Davíðs Steins.

Rétt fyrir átta á miðvikudagskvöldið sótti ein nafna mín og frænka mín mig. Við vorum boðnar í heimsókn til einnar sameiginlegrar vinkonu. Þar var vel tekið á móti okkur og flaug tíminn svo hratt að áður en við vissum af var klukkan að nálgast ellefu.

Fór í sund, með strætó, beint eftir vinnu á fimmtudagskvöldið. Kom heim fyrir sex og var farin aftur með strætó niður í bæ rétt fyrir klukkan átta. Hitti vinnufélagana á K1 í Matarkjallaranum. Það kvöld leið jafn hratt og kvöldið áður. Fékk far með einni heim.

Á föstudagskvöldið var ég mætt í Lífspekifélagið stuttu fyrir klukkan átta til að hlusta á skemmtilega kynningu/fyrirlestur um Joga Nídra. Engin af mínum vinkonum sem eru í félaginu komust en það var allt í lagi. Þar sem mér finnst svo gaman að trítla upp stigann, fór ég upp eftir fyrirlesturinn og fékk mér smá kaffi. Labbaði svo hálfa leiðina heim á eftir, eða upp á Hlemm og tók strætó þaðan. Var komin heim um tíu.

Í gærmorgun byrjaði ég á því að fara í sund stuttu eftir opnun. Komst heim að ganga frá sunddótinu áður en ég dreif mig yfir til esperanto vinkonu minnar. Frá henni lá svo leiðin í Krónuna við Granda. Það togaðist á í mér að halda mig bara heima við restina af deginum eða skreppa í Lífsspekifélagið. Það fyrrnefnda varð ofaná þótt ég hafi reyndar ekki nýtt daginn alveg jafn vel og ég hafði hugsað mér. Datt m.a. í að horfa á eina jólamynd á DR1.

14.11.17

Árskortið í sund endurnýjað

Fór á bílnum í vinnuna í morgun. Strax eftir vinnu, um fjögur, lá leiðin í Kringluna. Þar fór ég fyrst á bókasafnið og skilaði öllum sjö bókunum sem voru í mínum fórum og tók aðrar fimm í staðinn. Næst trítlaði ég alveg yfir í hinn endann, þar sem þjónustuborðið er fyrir framan Hagkaup á fyrstu hæðinni, og keypti mér þriggja mánaða kort í strætó sem gildir frá og með morgundeginum. N1 strákurinn minn getur þá nýtt hitt kortið síðasta mánuðinn en það rennur úr gildi 14. desember n.k. Eftir að það kort er runnið út ákveðum við hvort hann kaupi sér sjálfur þriggja mánaða kort eða hvort við nýtum mitt kort saman eins og við erum búin að vera að gera undan farið ár.

Eftir Kringluferðina lá leiðin í Laugardalinn þar sem ég byrjaði á því að endurnýja sundkortið mitt, sem rann út þann 12. nóvember sl. Nýja kortið gildir til 14. nóvember 2018. Það fæ ég endurgreitt sem íþróttastyrk. Að sjálfsögðu skellti ég mér í sund, 2x3 mínútur í kaldan pott, 500 metra bringusund og smástund í sjópottinum áður en ég fór upp úr og heim.

13.11.17

Sjórinn 3 komma 8 gráður um fimm í dag

Ég skrapp austur um helgina. Fór þó í sund og esperanto á laugardagsmorguninn. Kom aðeins við í Löngumýrinni en var komin á Hellu einhvern tímann á fjórða tímanum. Stoppaði til klukkan að verða tvö í gær. N1 strákurinn var að vinna um helgina, báða dagana frá 10-22. Hitti stuttlega á hinn unga manninn er ég kom heim í gær en hann var á leiðinni út úr húsi og kom ekki aftur fyrr en um níu leytið.

Fékk að hafa strætókortið í dag. Var mætt í vinnu um hálfátta og fór þaðan aftur klukkan hálffjögur. Stoppaði aðeins í um klukkustund heima áður en ég tók mig til fyrir ferð í sjóinn og dreif mig í Nauthólsvíkina um fimm. Fór tvisvar sinnum í sjóinn, heita langpottinn á milli og var komin heim aftur á slaginu sex.

Ein af bókunum sem komu með mér heim af safninu síðast er Uppskriftabók skáldverk eftir 10 höfunda sem eiga mismikið og ólík efni í bókinni. Hafði virkilega gaman að lestri þessarar bókar. Núna er ég að lesa Vegur vindsins eftir Ásu Marín og sú saga rígheldur og kallar fram margar tilfinningar á köflum. Hef bæði hlegið og tárast yfir lestrinum. Á eftir um 50 blaðsíður og ef ég þekki mig rétt þá fer ég ekki að sofa fyrr en ég hef lokið við bókina.

10.11.17

Smá föstudags

Ég ákvað að nota strætó í morgun þótt ég væri ekki með kortið. Átti nóg klink fyrir eitt fargjald, 450 kr. og var mætt í vinnu korter fyrir átta. Labbaði svo heim úr vinnunni seinni partinn, fínasta hreyfing það. N1 ungi maðurinn tekur tvær auka vaktir í næstu viku og verður með kortið fjóra af fimm virku dögunum. Ég fæ líklega aðeins að hafa kortið á mánudaginn. Kannski að það sé best að fjárfesta í nýju þriggja mánaða korti eftir vinnu á mánudaginn og leyfa piltinum að nýta hitt kortið á meðan það gildir. Örugglega skynsamlegt af mér að nota strætó í og úr vinnu flesta eða jafnvel alla daga vinnuvikunnar næstu þrjá mánuðina eða svo.

Í gærkvöldi var KÓSÍ-hittingur hjá einni úr hópnum. Ágætis mæting var þótt ekki kæmust allir. Skemmtilegt kvöld enda er sérstaklega góður andi yfir þessum fyrrum kirkjukórshóp.

Enn er ég ekkert farin að huga að jólakortagerð en það eru 44 dagar til jóla svo ég þarf að fara að huga alvarlega að þessu. Það gæti endað með því að einungis fáir útvaldir úr ekkert svo löngum lista fái heimasmíðað kort. En hver veit kannski kemur andinn og löngunin yfir mig fljótlega og þá svo sterk að ég föndra 25 kort á 2-3 kvöldstundum?

7.11.17

Engar holur

Fór í árlegt tanneftirlit um þrjú í dag. Það voru teknar tvær myndir og tannsteinn hreinsaður. Var í hæsta lagi í tuttugu mínútur í stólnum og bókaði sama tíma að ári um leið og ég gerði upp. Ég er svo sannarlega heppin með tennur og tannheilbrigði og ég er ekki frá því að engin gosneysla, nema sódavatn stöku sinnum, tengist þessu eitthvað.

Hef nýlokið við að lesa vísindaskáldsöguna Kórey eftir Ólaf Halldórsson. Sagan spannar tímabilið frá 2016-3095 er er mjög spennandi á löngum köflum. Það komu fyrir kaflar sem ég botnaði lítið sem ekkert í en ég skautaði í gegnum þá líkt og maður skautar stundum hratt yfir ættarupptalningarhlutana í Íslendingasögunum. :-)

Keypti mér sjósundssokka áður en ég skrapp í sjóinn í Nauthólsvíkinni upp úr klukkan fimm í gær. Sjórinn var sagður 4,7°, kaldari en kaldi potturinn en mér var hlýtt á tánum og fann ekki fyrir kulda. Buslaði líklega þó ekki nema um 3-4 mínútur í sjónum. Eftir að ég var búin að vera rúmar fimm mínútur í heita pottinum og farin að huga að því að fara aftur heim, kom ein bekkjarsystir mín úr grunnskóla og ég skellti mér í 3 mínútur í víkina með henni. Þar sem það var flóð var svipa hitastig á sjónum í víkinni. Ég kom heim hress og endurnærð á sjöunda tímanum.

5.11.17

Helginni eytt í bænum

Á föstudaginn vantaði mig aðeins rétt rúmlega 1000 skref til að jafna skrefametið skv. S-Healt í símanum.  Metið er yfir 18000 skref. Ég labbaði báðar leiðir milli heimilis og vinnu og um kvöldið dobblaði ein vinkona mín mig með sér í Öskjuhlíðina í tvo tíma, vorum ekki að labba mjög mikið, bara til og frá staðnum þar sem hittist hópur af fólki í eldathöfn.

Í gærmorgun var ekkert sem togaði mig strax á fætur þannig að ég var ekki komin í sundið fyrr en um hálfellefu. Kom heim aftur upp úr tólf og bjó mér til hafragraut. Um tvö heyrði ég í strákunum mínum en þeir voru ekkert að koma fram úr herbergjunum sínum. Ég var mætt í Lífspekifélagið rétt fyrir þrjú þar sem okkur var sagt frá og sýndar myndir úr japönsku Zen-búdda klaustri. Mjög flottar myndir og áhugaverð frásögn. Klukkan var nýorðin fimm þegar þetta var búið og þá lá leið mín í Smáralindina í búðina "Skórnir þínir" þar sem ég verslaði mér góða vetrar-gönguskó sem eru vatnsheldir, með góða, grófa sóla og eiga að endast mér næstu árin.

Í morgun var ég komin í Laugardalinn upp úr klukkan átta, ekkert löngu eftir opnun. Fór fyrst í kalda pottinn og svo í 42° heita pottinn að spjalla við eina pottormsvinkonu mína áður en ég fór aftur í þann kalda og synti svo í hálftíma. Endaði svo í gufunni áður en ég fór upp úr og heim.

1.11.17

Labbað milli heimilis og vinnu

Skref dagsins eru komin yfir 13000 samkvæmt talningu S-health í símanum mínum. En ég ætlaði svo sem ekkert að vera að monta mig of mikið af þessu. Það er kominn 1. nóvember og ég er ekki enn farin að huga að jólakortagerð. Ég er reyndar búin að vera að hugsa um að byrja í rúman mánuð en það er ekki nóg. Ég þykist nefnilega nokkuð viss um að þótt fyrstu tíu mánuðir ársins hafi liðið nokkuð hratt þá munu næstu átta vikur þjóta áfram á ljóshraða, eða eitthvað nálægt því.

Fyrir um hálfum mánuði síðan endurnýjaði ég bókasafnsskírteinið mitt um leið og ég skilaði sjö bókum af átta, framlengdi einni og nældi mér í 6 í viðbót til að taka með mér heim. Er ekki nógu dugleg að lesa þessa sem ég þarf að skila eftir rúmar tvær vikur. Búin að lesa tvær af hinum og er önnur þeirra alveg dásamleg; Britt-Marie var hér eftir Fredrik Olson, sama höfund og Maður sem heitir Ove og Amma biður að heilsa. Á eftir að lesa þá síðast nefndu en hingað til hefur hún ekki ratað í bókasafnspokann til mín.

31.10.17

Síminn gleymdist heima í dag

Ég uppgötvaði það er ég var komin í Laugardalinn um hálfsjö í morgun að ég hafði gleymt að hengja á mig símann. Ákvað því að vera símalaus í vinnunni í dag. Dreif mig í sundið og kalda pottinn og var mætt í vinnuna rétt rúmlega klukkutíma síðar. Vinnudegi lauk aðeins í fyrra fallinu og þar sem ég var á bílnum ákvað ég að koma við í Krónunni við Granda og versla inn. Kom heim um fjögur. Oddur Smári hjálpaði mér að ganga frá vörunum en ég notaði fyrst tækifærið og hreinsaði út alla ísingu í frystihólfinu. Það lítur annars út fyrir að ég fái ekkert að nýta strætókortið í þessari viku. N1 strákurinn var settur á smá námskeið í gær og í dag, á vaktir á morgun og hinn og er búinn að lofa að taka að sér aukavakt á föstudaginn.

30.10.17

Rétt rúmir tveir mánuðir eftir af árinu

Ég er að vinna í að koma mér aftur af stað á þessum vettvangi. Margt er búið að gerast í þessari skrifpásu. Nokkur sjöl hafa verið prjónuð, langt og gott sumarfrí tekið og ma ferðast innan lands, byrjuð að stunda sjóinn nokkuð reglulega, lesið og gert fullt af fleiri hlutum.

Ég skrapp til augnlæknis um daginn og hafði þá ekki látið mæla sjónina í rúm þrjú ár. Var síðast mæld með -2 á báðum og hafði verið með þá sjón nokkuð lengi. Nú brá svo við að nærsýnin hefur minnkað talsvert, vel innan við -1. Smá sjónskekkja á öðru auganu en augnlæknirinn sagði að ég þyrfti ekki að leysa út þannig gleraugu. Ég keypti mér  tvenn gleraugu í Tiger í haust, -1, sem ég nota aðeins akstur og stundum til að horfa á sjónvarpið. Aðeins er byrjað að votta fyrir fjarsýni en svo lítið að ég þarf ekki að spá í það ennþá. Heppin hún ég. Lofa annars engu um hversu reglulega ég hamra inn einhvern pistil/texta en vonandi kemst einhver regla á þessi skrif.

9.7.17

Tölvubindindið heima gengur glimrandi vel

Það gengur svo vel í tölvubindindinu hérna heima að það bitnar klárlega á bloggarskrifum mínum. En stundum er líka ágætt að hvíla fingurnar, hugann og sleppa því að segja frá öllu. Á móti kemur þá getur alveg verið að hluti af því sem er að gerast gleymist. Hvort er það gott eða slæmt? Held að það fari eftir ýmsu.

Annars var ég að koma heim af Valsvellinum þar sem mínir menn urðu að sætta sig við 1 stig, jafntefli á móti Stjörnunni. Eftir að hafa farið austur nokkrar helgar í röð hélt ég mig í bænum þessa helgina. Það kom nú ekki til af því að það væri heimaleikur í deildinni því ég ætlaði mér austur. Þegar ég kom heim úr vinnu seinni partinn á föstudaginn hringdi ég í heimasímann hjá foreldrum mínum. Það svaraði mér enginn svo ég hringdi í gemsann hans pabba. Þá var hann staddur á bráðamóttökunni í Fossvogi að bíða með mömmu en hún hafði verið kölluð inn eftir að hafa farið sneiðmyndatöku vegna magaverkjanna sem hún hefur glímt við sl. mánuði. Það var beðið og beðið eftir einhverjum sem myndi úrskurða hvað ætti að gera. Um eitt leytið um nóttina kom pabbi og fékk hjá mér húslykla en hann svaf svo í lazy-boy stól á bráðamóttökunni. Einhvern tímann mjög seint hafði verið ákveðið að mál mömmu yrði að bíða yfir helgina en það tók líka tíma að ákveða hvort ætti að senda hana austur aftur eða innrita hana. Ákveðið var að innrita hana á kvennadeildinni við Hringbraut en þar var allt fullt svo hún varð að bíða "á rúmstæði" í bráðamóttökunni í Fossvogi. Eftir að hafa skroppið í sund í gærmorgun, og fengið mér eitthvað að borða fór ég í heimsókn. Þegar mamma fékk að borða fékk ég pabba til að koma heim með mér. Eftir að hafa fengið okkur að borða og slakað á um stund hringdi mamma og sagði að það væri komið pláss á G12. Pabbi  fór um leið, "millifærði" hana á milli sjúkrahúsa og sat um stund hjá henni áður en hann fór austur.

Annars tók N1 strákurinn sér nokkra daga frí og fór með vinum sínum á Eistnaflug austur á Neskaupstað. Keyrðu norðurleiðina austur en eru á suðurleiðinni núna á heimleiðinni nýlega farnir í gegnum Hvolsvöll. Strákurinn minn á vaktafrí næstu tvo daga en Skeljungsstrákurinn var að skipta um vakt og leysa hinn bensín manninn af svo synir mínir verða ekki að vinna eða á frívöktum á sama tíma næstu fimm sex vikurnar.

Á aðeins eftir að fella af, ganga frá endum og skola og teygja úr sjöunda sjalinu. Er búin að kaupa dokkur í annað föl/húðbleikt sjal en ég veit ekki hvenær ég fitja upp á því. Það á að vera jólagjöf handa yngri systurdóttur minni. Ég skrapp á bókasafnið í kringum 21. júní sl. og er með nokkrar spennandi bækur, hef samt ekki alveg gefið mér góðan tíma til að lesa mikið.

En hér ætla ég að setja punktinn í þetta sinn.

30.6.17

Með sjöunda sjalið á prjónunum

Síðasti dagur sjötta mánuðar ársins er næstum búinn, 181 dagar að verða liðnir og 184 dagar eftir. Er það ekki magnað? Og árið sem er rétt nýhafið. Ég fékk bréf í vikunni frá ensku pennavinkonu minni og jafnöldru. Hún hafði nokkur orð um margt af því sem ég skrifaði henni í jólabréfinu og með hennar bréfi sendi hún einnig tvær myndir af sér. Á annarri myndinni var hún úti að borða með manninum sínum og á hinni var hún með vinkonu sem var að fara í fallhlífarstökk.

Hitti Brynju vinkonu á miðvikudaginn. Hún sótti mig heim um fimm og við skruppum á Gló í Hæðarsmára þar sem við fengum okkur grænmetislasanja og gleymdum tímanum við spjall næstu rúmlega þrjá tímana.

Síðasta messa fyrir sumarfrí var gúllasmessa sl. sunnudagskvöld kl. sex. Ætlum að prófa að hafa hana aftur á sama tíma að ári og sjá svo til hvort við munum halda okkur við þann tíma en fram að þessu voru þessar gúllasmessur, kl.11:00 fh. fjórða sunnudag í júní mánuði. Nú á heimasíðu og útgáfunefndin eftir að taka saman efni í safnaðarfréttirnar og setja í uppsetningu og prentun þannig að blaðið komi út fyrri partinn í ágúst.

Er annars búin að skreppa austur og vera yfir eina nótt allar helgar eftir hvítasunnuhelgina. Laugardaginn 10. júní fylgdi ég fyrrum nágranna foreldra minna, konu sem varð níræð í mars. Eftirlifandi maki hennar verður 97 ára 12 júlí n.k. Þessa sömu helgi var bongóblíða á Hellu. Ég sat um stund með prjónana mína á pallinum sunnan við hús foreldra minna og allt að því brann á bringunni.

Margt annað hefur drifið á daga mína, t.d. skrapp ég í bókasafnið. Kom líklega með heldur margar bækur með mér til baka þótt þær hafi ekki verið eins margar og ég tók hér áður fyrr. Málið er að nú fer miklu, miklu meiri tími í prjónaskap en lestur. Er einnig búin að fara 4 ferðir í sjóinn  en mætti vera duglegri við það. Það fara að nálgast tvær viku síðan ég fór síðast. Mitt mottó er að fara helst þegar er dumbungur, þá er líklegar að mun færri mæti þótt það séu nú alltaf einhverjir að stunda þetta daglega.

28.6.17

Í sjálfskipuðu tölvubindindi sem kemur niður á bloggskrifum í staðinn

Nú er árið rétt að verða hálfnað, þessi mánuður klárast eftir föstudaginn og þetta er aðeins önnur færslan mín í júní. Samt hefur alveg verið nóg að gerast í kringum mig. Ég tók það upp hjá mér að vera ekki að kveikja á tölvunni dags daglega og þá fáu daga sem ég þurfti að kveikja, t.d. til að senda inn tilkynningar um messur þá  notaði ég ekki tækifærið og skráði inn eitthvað af atburðum liðinna stunda. En þetta sést þegar bloggsíðan er opnuð, engar hreyfingar frá því um hvítasunnuna.

Er ekki alveg í stuði til að taka saman það helsta akkúrat í dag en sjáum til hvort á geti mannað mig upp í smá samantekt á morgun eða föstudaginn kemur.

4.6.17

Hvítasunnuhelgi

Tvisvar í síðustu viku kom upp bilun í deildinni minni sem setti strik í reikninginn varðandi vinnslu á daglegum verkefnum. Í fyrra tilfellinu náðum við að klára um níu um kvöldið en í seinna tilfellinu fékk ég að skreppa í sund og koma svo aftur tilbúin í að vinna eins lengi og þörf krefði þegar allt komst í gang aftur. Það kvöldið kom ég heim rétt um miðnættið og mætti því ekki í vinnu aftur fyrr en um hádegið daginn eftir.

Á föstudaginn lánaði ég bræðrunum bílinn til að fara saman í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu. Strákarnir voru nýfarnir þegar ég kom heim úr vinnu. Systir mín og fjölskylda (mínus Cara, annar hundurinn sem var sett í pössun fyrir norðan) voru á leiðinni suður. Þau komu um átta en fóru strax aftur í smá útréttingar. Bríet varð eftir hjá mér og við frænkur áttum góða stund saman. Hulda gisti hjá kærastanum en systir mín, mágur og minni hundurinn komu aftur um ellefu leytið og bjuggu um sig í stofunni.

Í gærmorgun dreif ég mig á fætur um átta, hellti upp á kaffi, harðsauð egg og útbjó hafragraut. Tímdi ekki að drífa mig í sundið fyrr en gestirnir drifu sig með allt sitt dót til að sækja eldri dótturina og kærastann og líta við í Costco áður en þau drifu sig austur. Ég kom heim úr sundi um ellefu og þá voru báðir synirnir vaknaðir og annar á leiðinni í sturtu. Við komumst af stað austur tæpum klukkutíma síðar. Hinir fjölskyldan var komin á Hellu á undan okkur. Um kaffileytið bættust þrír í hópinn og nokkru síðar aðrir tveir. Áttum afar skemmtilega stund saman fram eftir kvöldi. Við mæðgin komum í bæinn aftur rétt fyrir miðnætti og þá var búið að teppaleggja sameignina en gamla teppið var rifið af fyrr í vikunni. Það kom málari og lauk við að mála sameignina á tveimur dögum svo nú er sameign risíbúðar og efri hæðar orðin fín.

31.5.17

Buslað í sjónum í smá stund eftir vinnu

Gærdagurinn var ansi langur í annan endann. N1 ungi maðurinn var á aukavakt milli hálfátta og tvö í sinni vinnu svo ég eftirlét honum strætókortið. Ákvað að fara á bílnum beint í vinnuna, þ.e. ég sleppti morgunsundferð. Áður en ég fór tók ég alla skó af ganginum og inn í hol. Var tilbúin til að fara á síðastu jóga-nítre slökunarstundina í Fella og Hólakirkju seinna um daginn en um miðjan dag var ljóst að það myndi ekki ganga upp og lét ég Inger vita í tíma. Ég kom heim úr vinnu rétt upp úr klukkan hálftíu í gærkvöldi. Teppalagningarmaðurinn sem við nágranni minn í risinu réðum til að rífa af teppið og leggja nýtt í sameignina hafði komið og rifið upp og fjarlægt gamla teppið. Ég skrapp upp til nágrannans til að skoða teppaprufur. Við vorum ekki lengi að velja og vorum báðar sammála. Áður en ég komst í háttinn sendi ég messu tilkynningu í moggann og setti svipaðar fréttir á facebook vegg og heimasíðu safnaðarins. Tók á mig náðir þegar klukkan var byrjuð að ganga tólf.

30.5.17

35 ára fermingarafmæli í dag

Þann 30. maí 1982, sem var hvítasunnudagur, fermdist ég í Keldnakirkju. Síðan eru liðin 35 ár. :-)

Ég var annars með strætókortið í gær en flaskaði á því að það er komin sumartímatafla og þá gengur 13 aðeins tvisvar á klukkustund, 14 og 44 yfir heila tímann. Ég sem var að nota hálfátta vagninn þegar ég var að nota strætó í vetur. Vissi ekki af þessum breytingum í gær og fór því of fljótt út. Þegar ég áttaði mig á því að vagninn væri ekki að koma alveg strax labbaði ég upp að skýlinu sem er merkt Flókagötu þótt það standi nú reyndar við Lönguhlíð.

Um fjögur fékk ég far heim úr vinnunni og ákvað svo fljótlega að drífa mig í sund. Hringdi samt í pabba áður. Kom heim einhvern tímann á áttunda tímanum. Þá var Davíð Steinn búinn að steikja hakk sem þeir bræður notuðu svo á vefjur ásamt grænmeti. Ég ákvað að borða frekar afganga.

29.5.17

Aðeins um gærdaginn. Jazzmessa og fleira.

Ég skutlaði N1 unga manninum í vinnuna sína upp úr klukkan hálfníu og fór svo beint í sund. Kom heim um ellefu, gekk frá sunddótinu, fékk mér eitthvað að borða og prjónaði smá. Kvöldið áður hafði verið hringt í mig og ég spurð hvort ég gæti tekið að mér að sjá um maulið eftir messuna. Ég var örlítið efins í fyrstu en ég ætlaði hvort sem er að mæta í kirkjuna svo ég ákvað að vera jákvæð gangvart þessu verkefni. Um tólf leytið í gær skrapp ég því í Bónus í Kringlunni án þess að hafa hugmynd um það fyrirfram hvað ég myndi grípa með mér til að hafa með kaffinu.

Úr Bónus lá leiðin beint upp í kirkju og var ég svo heppin að sr. Pétur var að koma þar að um sama leyti, 12:40, svo ég komst strax inn. Er nefnilega ekki með lykla. Maulið er borið fram í efri safnaðarsal kirkjunna sem er mjög gott fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með stiga. Í neðri salnum hefði þurft að raða upp öllum borðum þar sem þau eru flest sett saman í eitt langborð. Svona vilja þeir sem eru með fundi í þessum sal, tveir hópar einu sinni í viku (annar hópurinn á mánudögum og hinn á fimmtudögum) hafa það. Uppi tók ég stóla frá tveimur borðum og ýtti borðunum þversum alveg upp að vegg. Á þessi borð setti ég maulið, glös, vatns- og djúskönnur, diska, servíettur, skál með ýmsum tegundum af tei og brúsa með heitu vatni. Á hin borðin setti ég nokkra bolla, eina mjólkurkönnu og einn kaffibrúsa. Hafði enga hugmynd um hversu margir yrðu í messunni. Þar sem organistinn og kórinn hans voru í fríi hafði hann beðið Ágústu Evu að syngja við messuna. Hún forfallaðist á síðustu stundu, en sr. Pétur fékk þrjá unga stráka sem eftir messuna kölluðu sig "Háóða jazztríóið" og jazz-söngkonuna Ingibjörgu Hlíðar. Hún var mjög tímabundin og þurfti að vera mætt annars staðar um þrjú. Engu að síður náði hún að syngja fyrir okkur fjögur lög áður en hún fór. Fjórða lagið söng hún eftir þá stystu predikun sem ég man eftir að hafa verið, og hafa þær yfirleitt aldrei verið lengri en tíu til fimmtán mínútur. Predikunin tók að þessu sinni rétt um þrjár mínútur en presturinn hafði spurt söfnuðinn hvort það væri ekki í lagi að hafa þetta það stutt til að fá fjórða lagið með söngkonunni. Nokkuð margt var í kirkjunni, alls 48 manns og um leið og ég var búin að fara í altarisgönguna dreif ég mig í að gera allt klárt fyrir maulið eftir athöfnina. Þrjú af fyrrum KÓSÍ meðlimum mættu og ég gaf mér smá tíma til að setjast niður með þeim. Ekkert stress var á fólki en ég var búin að ganga frá eftir maulið áður en klukkan varð hálffimm og varð samferða prestinum út.

Heima stoppaði ég svo aðeins í tæpa tvo tíma. Hringdi í pabba, prjónaði og las smá en á sjöunda tímanum lagði ég í hann til Grindavíkur á leik heimamanna og "minna" manna sem fór ekki alveg nógu vel fyrir Valsstrákunum, 1. tapið hjá þeim staðreynd en eru samt í 2. sæti með sama stigafjölda og lið Grindavíkur en betra markahlutfall. Eftir leikinn heimsótti ég vinafólk mitt en ég athugaði það á laugardaginn hvort þau yrðu heima og hvort ég gæti sótt þau heim þótt klukkan væri byrjuð að ganga tíu. Kom svo heim upp úr hálftólf. Ævintýralega skemmtilegur dagur.

28.5.17

Alls 48 í jazzmessu í dag

Í gærmorgun var ég fyrst út úr húsi rétt upp úr klukkan átta. Var byrjuð að synda ca tuttugu mínútum yfir átta og synti í tuttugu mínútur. Fór tvisvar í kalda pottinn og endaði í sjópottinum þar sem ég dagaði næstum því uppi því það heilsaði mér kona með þeim orðum að hún kannaðist svo við mig og við fórum að spjalla saman í kjölfarið. Eftir sundið skrapp ég heim til að ganga frá sunddótinu. Stoppaði ekkert, var með esperanto-bakpokann tilbúinn í skottinu og var komin vestur í bæ rétt upp úr hálfellefu. Rúmum tveimur tímum seinna kvaddi ég og þá lá beinast við að koma við í Krónunni við Granda áður en ég færi heim. Var svo alveg róleg heima restina af deginu. Prjónaði alveg helling og er byrjuð á þriðju dokku af fimm á sjalinu sem ég byrjaði á um síðustu helgi. Eftir að Oddur Smári kom heim úr sinni vinnu fór ég fljótlega að finna til matinn, steikti lambagúllas og skar niður ýmis konar grænmeti. Það var til salsasósa og sýrður rjómi í ísskápnum og þegar Davíð Steinn kom heim úr sinni vinnu var allt tilbúið til að útbúa sér vefjur. Sátum öll saman að snæðingi og bræðurnir skiptust á vinnusögum. Davíð Steinn bauð upp á gulrótarkökusneið í eftir rétt og svo hjálpuðust þeir að við að ganga frá eftir matinn.

27.5.17

279 lykkjur á hringprjónunum

Í gær fórum við öll mæðginin í vinnu. Davíð Steinn fór fyrstur sjö mínútur fyrir sjö til að ná í strætó og vera kominn í Stórahjallann fyrir hálfátta. Ég labbaði út tíu mínútum yfir sjö til að vera mætt í mína vinnu korter fyrir átta og Oddur Smári var síðastur út úr húsi en hann er aðeins nokkrar mínútur og tölta upp í Öskjuhlíð en hann átti að vera mættur um hálfátta. Helmingurinn af kortadeildinni var í orlofi í gær svo við vorum þrjú sem létum hendur standa fram úr ermum til að vinna á öllum daglegum verkum og þrátt fyrir að taka matar og kaffipásur náðum við ca. fimm korterum af deginum í endurnýjun. Hættum vinnu korter fyrir fjögur. Mér bauðst far heim sem ég þáði. Var samt ekki lengi heima. Hringdi í pabba en tók svo til bókasafnsbækur og sundútbúnað. Byrjaði á því að skila nokkrum bókum á Kringlusafnið og tók auðvitað nokkrar í staðinn. Var búin að framlengja skilafrestinum á þremur bókum. Næst lá leiðin í Nauthólsvíkina þar sem ég stakk mér í sjóinn í nokkrar mínútur. Var komin heim aftur fyrir klukkan hálfsjö. Kvöldmaturinn var akkúrat tilbúinn um það leyti sem Oddur kom heim úr vinnu. Sat svo með prjónana í stofunni og fylgdist aðeins með Voice. Slökkti á sjónvarpinu um tíu en klukkan var samt farin að ganga tólf áður en ég gekk til náða.

26.5.17

Á bókasafnið og í sjóinn eftir vinnu í dag

Oddur Smári var mættur einum og hálfum tíma snemma í vinnuna sína í gærmorgun. Það var rauður dagur og því átti hann ekki að mæta fyrr en klukkan níu. Sem betur fer er vinnan frekar stutt frá en hann verður í afleysingum, "starfsmaður á plani", á Skeljungsstöðinni í Öskjuhlíð. Ég hafði ekki stillt á mig neina klukku en fór á fætur einhvern tímann á níunda tímanum þannig að ég gat óskað syninum góðrar vaktar þegar hann fór aftur í vinnuna. Á meðan ég beið eftir því að N1 sonurinn vaknaði, en hann var í vaktafríi í gær, dundaði ég við ýmislegt hér heimavið, bæði húsverk, prjóna og fleira. Það fór nú svo að ég varð að vekja Davíð Stein um hálftvö. Bað hann um að ryksuga gólfið við útidyrnar og búa til vöfflur úr uppskrift sem ég var búin að hræra í á meðan ég væri í sundi. Þar með var ég farin í Laugardalinn. Kom heim aftur tæpum tveimur tímum seinna og skrapp þá eftir rjóma í Sunnubúðina. Hafði kvöldmatinn til um hálfsjö og var svo farin á Valsvöllinn (VALUR-Grindavík stelpurnar 5-1) áður en Skeljuns-ungi maðurinn kom heim úr vinnunni.

25.5.17

Nýstúdentinn strax byrjaður í sumarvinnunni

Í gær varð Oddur Smári stúdent af tölvubraut úr Tækniskólanum. Útskriftarathöfnin fór fram í Eldborg í Hörpu enda margir að útskrifast af mörgum brautum og skólum sem eru undir "hatti/þaki" Tækniskólans. Þar sem N1 ungi maðurinn var á frívakt notaði ég strætókortið til að komast í vinnunna og þannig gat Oddur komið á bílnum um tvöleytið. Hann var svo heppinn að fá stæði á neðra plani Seðlabankans. Ég var í vinnunni milli korter í átta og korter yfir tvö. Hafði mætt með sparilegt dress með mér í vinnuna og skipti um föt og málaði varirnar áður en ég fór yfir í Hörpuna. Athöfnin byrjaði um þrjú en ég var komin í sæti upp úr hálfþrjú og hafði verið svo séð að taka með mér prjónana svo ég gat dundað mér við að prjóna alveg þar til allt var sett í gang. Athöfnin tók rúmlega tvo og hálfan tíma og var bein útsending af Facebook-vegg skólans og var þetta í fyrsta skipti sem það er gert. Sendi pabba linkinn á athöfnina en reyndar gat hann ekki opnað einhverra hluta vegna. Ég prófaði ekki að opna sjálf þar sem ég var á staðnum. Hinn tvíburinn hafði ekki haft áhuga á því að mæta og fylgjast með bróður sínum taka á móti útskriftarplagginu en við sóttum hann seinna og buðum honum út að borða með okkur. Við Oddur skiptum samt fyrst um föt.

22.5.17

Smá lottovinningur á áskriftarmiða

Dagarnir þjóta hjá og tíminn lætur ekkert bíða eftir sér frekar en venjulega. Á föstudaginn fór ég úr vinnunni um hálfþrjú og fór beint í Kópavogskirkju til að fylgja einni náfrænku minni. Hafði ætlað mér að mæta aftur í vinnuna um fjögur og sitja yfir mönnunum sem koma og yfirfara framleiðsluvélina mánaðarlega. Hringdi í þá sem var á vaktinni og hún sagðist geta verið til klukkan sex svo ég hafði samband við norsku esperanto vinkonu mína í staðinn. Stoppaði hjá Inger í um klukkustund áður en ég fór í Krónuna við Granda til að versla inn.

Á Laugardagsmorguninn mætti ég í sund upp úr klukkan níu. Eftir sundið kom ég aðeins við í Hagkaup í Skeifunni til að athuga hvort það væru til fleiri dokkur með sama númeri í þessum fjórum litum sem ég keypti inn um daginn. Það var til og þar að auki keypti ég fimm dokkur í enn einum litnum. Þegar ég kom heim lauk ég við að taka mig til fyrir austurferð, vakti annan soninn bara til að kveðja hann. Við mamma höfðum mælt okkur mót við Selfosskirkju fyrir klukkan hálftvö til að fara saman á Queen-messu með kirkjukór Keflavíkurkirkju og Jónsa. Það var frábær klukkustund. Jóna og Reynir voru ekki heimavið og mamma fann ekki útiarinn í Húsasmiðjunni en okkur var tekið opnum örmum í Fossheiðinni. Lauk við að prjóna bleika sjalið um kvöldið, gekk frá endunum og byrjaði strax á næsta lit.

Svaf til klukkan að ganga tíu í gærmorgun þrátt fyrir að hafa farið að sofa fyrir miðnætti. Það var ekki alveg jafn mikil bongóblíða og á laugardeginum en þó var hægt að sitja úti á palli með prjónana það lengi að ég náði að roðna aðeins. Kom heim rétt upp úr klukkan tíu í gærkvöldi og fór næstum því beint í háttinn.

18.5.17

Torfi Geirmundsson kvaddur

Í gær labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Fékk Odd í lið með mér við ákveðin verk hér heima og sendi hann einnig eina ferð í Sorpu. Eftir kvöldmat fór ég loksins í sund og gaf mér góðan tíma í alla rútínu. Á tólfta tímanum komu systir mín og eldri dóttir hennar til mín. Hinn helmingurinn af fjölskyldunni og minni hundurinn gistu annars staðar í bænum og stærri hundurinn var í pössun fyrir norðan. Við systur þurftum að spjalla smá áður en við tókum á okkur náðir einhvern tímann eftir miðnætti.

Ég fór á bílnum í vinnuna í morgun og vann milli hálfátta og hálftólf. Þá fór ég heim, fékk mér smá hressingu og skipti um föt. Oddur klæddi sig líka upp og fékk að keyra okkur upp að Árbæjarkirkju. Þar var saman komið fjölmenni til að fylgja tengdapabba systur minnar. Enginn prestur var í athöfninni heldur voru uppáhalds lögin hans spiluð og minningarorð voru í höndum Rúnars bróður hans sem og Mikaels og Lilju, tveimur af fimm börnum Torfa heitins. Allt í hans anda. Blessuð sé minning um litríkan og góðan mann.

16.5.17

Jafntefli

Helgin leið afar hratt. Á föstudagskvöldið fór ég út að borða með 9 vinnufélögum úr K1 á Matstofu Garðabæjar. Það var mjög góð kvöldstund, gott að borða, góð þjónusta og skemmtilegur félagsskapur. Var mætt í sund rétt upp úr átta á laugardagsmorguninn og í klippingu klukkan tíu. Fór síðan heim, gekk frá sunddótinu og tók esperantodótið með mér til Inger. Þar stoppaði ég í einn og hálfan tíma. Fór beint heim aftur og lauk við að pakka niður fyrir austurferð. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni austur. Þegar ég kom svo til foreldra minna frétti ég að Torfi Geirmundsson, tengdapabbi systur minnar, væri fallin frá. Blessuð sé minning hans.

Mamma bað mig um að skreppa í búðina eftir rófu og smá söngvakeppnis snakki. Sauð rófuna og útbjó rófustöppu sem var höfð með sviðum í kvöldmatinn. Báðir foreldrar mínir entust fyrir framan skjáinn yfir söngvakeppninni. Ég var með prjónana og prjónaði helling. Við mamma sátum áfram eftir að keppninni lauk og horfðum á bíómyndina sem kom á eftir alveg þar til slökknaði á sjónvarpinu um miðnætti. Þá var amk hálftími eftir af myndinni en þar sem ekki var hægt að ná sambandi aftur við skjáinn fórum við að sofa.

Á sunnudeginum mundi ég eftir því að  pabba og mömmu hafði verið boðið í fermingarveislu. Hjálpaði mömmu að þvo sér um hárið. Þau kvöddu um þrjú en þá var ég komin á fullt að ryksuga bílinn og strjúka allt ryk af innan úr honum. Svo skrapp ég gangandi til föðursystur minnar upp að Helluvaði.

Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn en ég var skilaði mér heim í bæinn um tíu.

12.5.17

Á leiðinni út að borða með nokkrum vinnufélögum

Það var loksins haldinn saumaklúbbur í fiskamerkisfélaginu "þrír þorskar..." hér hjá mér á miðvikudagskvöldið. Það var 100% mæting, fyrri gesturinn mætti rétt fyrir átta og hinn ca hálftíma síðar. Og svo var klukkan allt í einu að verða ellefu. Mikið sem tíminn leið hratt, enda orðið það langur tími frá síðasta hittingi að það þurfti margt að spjalla. Nálar og prjónar fengu samt að vera með í klúbbnum.

Í gær var eini dagurinn í vikunni sem ég hafði aðgang að strætókortinu. Var mætt í vinnuna korter fyrir átta og var komin heim aftur um þrjú. Hafði kvöldmatinn frekar snemma og skrapp svo í sund milli klukkan hálfsjö og hálftíu, þ.e. ég fór að heiman um hálfsjö og var komin aftur heim um hálftíu. Fór í sarpinn og horfði með öðru auganu á Cikaco fire með öðru auganu en prjónaði með hinu.

10.5.17

Saumaklúbbur nýafstaðinn hjá mér í kvöld

Á mánudaginn labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Kom heim upp úr klukkan fjögur. Var eiginlega búin að taka ákvörðun um að láta loksins verða af því að prófa að skreppa í sjóinn. Vissi að það opnaði í afgreiðslunni á Ylströndinni við Nauthólsvík um fimm og yrði opið til klukkan átta. Klukkan var orðin hálfsex þegar ég fór með  handklæði, sundbol, strandskó og 600 kr. út í bíl. Þegar ég hafði lagt bílnum sá ég tvær konur sem ég reiknaði út að væru vanar og á leið í sjósund. Þær voru aðeins á undan mér. Í afgreiðslunni skrifaði ég mig í gestabók, borgaði gjaldið og fékk ágætis leiðbeiningar hjá þeirri sem afgreiddi mig. Í skiptiklefanum ákvað ég að bera mig upp við konurnar tvær og önnur þeirra var meira en til í að leyfa mér að hengja mig á sig. Hún lánaði mér meira að segja sundvettling á aðra höndina og sá til þess að ég fengi lánaðan vettling á hina höndina í afgreiðslunni. Dýfingin í sjóinn gekk annars glimrandi vel. Var alls ekki lengi útí, synti ekkert og ekki með höfuðið á kaf, en þó alla leið upp að hálsi. Vá, hvað þetta var annars gott og hressandi. Það mætti segja mér að ég verði farin að stunda þetta sport á fullu á næstu misserum.

Í gærmorgun skrapp ég í sund áður en ég fór í vinnuna. Vinnudagurinn var nokkuð skrautlegur en við náðum að klára allt nokkru áður en átta tímarnir voru liðnir. Annars er ég iðin við prjónana og gef mér einnig tíma til að lesa á hverjum degi.

8.5.17

Fór fyrsta íslenska sjóbaðið í dag

Var komin á fætur um átta í gærmorgun, hrærði í vöfflur, hellti upp á kaffi, harðsauð egg og bjó til myndarlegan vöfflustafla. Næturgestirnir vöknuðu einn af öðrum. Helga skrapp út í smá göngu með minni hundinn áður en við, hún, mágur minn, yngri systurdóttir og ég settumst niður við morgunverðarborðið í holinu. Systurdóttir mín fór aftur inn í stofu eftir að hafa dásamað það að fá vöfflur í morgunmat. Synir mínir fengu að sofa út en annar þeirra náði að koma fram áður en gestirnir tóku sig saman og kvöddu einhvern tímann á tólfta tímanum. Fram að því áttum við Helga og Ingvi gott spjall yfir nokkrum kaffibollum.

Um eitt leytið dreif ég mig í sund og kom svo við í garndeildinni í Hagkaup í Skeifunni og keypti mér 4x4 (4 litir) dokkur af kambgarni, nýjasta sudokublaðið og fjölnota Hagkaupspoka utan um allt saman. Fljótlega eftir að ég kom heim lánaði ég bræðrunum bílinn. Ég hringdi í pabba og ákvað svo að byrja á því að ryksuga yfir gólfin þar sem hundarnir höfðu fengið að fara um því þar lágu ófá hárin af henni Cöru, á eldhúsgólfinu, í holinu, á baðherbergisgólfinu og á stofugólfinu. Að þessu loknu fitjaði ég upp á nýju sjali og þegar hætti að prjóna í gærkvöldi hafði ég prjónað 48 umferðir. Að vísu aðeins sjö lykkjur til að byrja með en þeim fjölgaði  í annarri hverri umferð.

7.5.17

Þriðja sjalið komið á prjónana

Á föstudagskvöldið hafði systir mín samband við mig til að segja mér að þær mæðgur og báðir ferfætlingarnir  myndu taka laugardaginn snemma og renna suður. Spurði hvort þau fjölskyldan fengju gistingu eina nótt. Að sjálfsögðu var svar mitt mjög jákvætt. Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt fyrir hálfníu í gærmorgun og gaf mér góðan tíma í alla rútínu. Dagaði reyndar næstum uppi í salt/sjópottinum á spjalli við eina pottormsvinkonu mína. Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að undirbúa mig undir gestkomuna. Þegar einkabílstjórinn kom fram upp úr tvö var ég m.a. búin að hræra í vöffludeig. Fékk hann til að skreppa fyrir mig í búðina. Áður en hann kom heim aftur lagði N1 strákurinn af stað á aukavakt á N1-stöðina við Lækjargötu í Hafnarfirði. Hann átti að vinna milli fjögur og átta og notaði strætókortið til að koma sér á staðinn en ég lofaðist til að sjá til þess að hann yrði sóttur.

Þegar vöfflufjallið var um það bil að verða tilbúið og Oddur var að koma til baka úr búðinni komu mæðgurnar og hundarnir. Hulda kom rétt inn til að fá að nota salernið og ég fékk knús í leiðinni. Systir mín bað Bríet og Odd að fara í smá gönguferð með ferfætlingana en svo skutlaði hún eldri dóttur sinni til kærastans með viðkomu í einni búð. Þegar búið var að viðra hundana og fá sér vöfflur spiluðum við Bríet Ólsen ólsen upp og niður og svo kenndi hún mér annað spil sem ég hef aldrei spilað áður og heitir einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu - sprite/spræt! Minni hundurinn varð ekki rólegur fyrr en systir mín kom aftur og settist inn í stofusófa.

Upp úr hálfsjö komu nokkrir strákar til Odds því þeir höfðu fengið leyfi til að halda spilakvöld hér ef þeir yrðu ekki lengur en til ellefu. Ég fór því og sótti N1 strákinn eftir að hafa undirbúið lasanja í kvöldmatinn og fengið Helgu til að setja hvítlauksbrauð (eitthvað sem ég hef afarsjaldan með) inn í ofninn síðustu tíu mínúturnar áður en rétturinn yrði tilbúinn. Þurfti aðeins að bíða eftir vinnandi syninum en við vorum komin heim rétt fyrir hálfníu. Spilastrákarnir stóðu við samninginn, ég fór eina gönguferð með minni hundinn, mágur minn bættist í gestahópinn á tólfta tímanum eftir langt og erfitt sjúkraflug sem fylgdaraðili aðstandenda.

5.5.17

Aftur komin helgi

Orlofisdagarnir liðu alltof hratt en þar sem ég var undirbúin undir það þá ákvað ég að reyna að halda mig sem mest í núinu og þakka fyrir hverja mínútu. Vel gengur að lesa bækurnar sem ég tók af safninu um daginn, búin með þrjár af sjö og er að lesa hinar fjórar og tvær að auki. Netið eftir Lilju Sigurðardóttur (sjálfstætt framhald af: Gildran eftir sama höfund) er mjög spennandi. Kaflarnir eru þar að auki það stuttir að maður álpast stundum til að lesa aðeins einn enn, alltof mörgum sinnum. Er hálfnuð með þessa bók.

Er annars búinn að fara á tvo heimaleiki í Pepsídeildinni, Valur - Víkingur Ólafsvík 2:0 á sunnudagskvöldið var hjá strákunum og Valur - ÍBV 4:0 á miðvikudagskvöldið hjá stelpunum. Næstu heimaleikri eru eftir tíu daga 15. og 16. þ.m. Það verður komið að þeim tímapunkti áður en ég veit af.

Í gær var fyrsti vinnudagur eftir orlofið. Ég labbaði í vinnuna og aftur heim, þá með úlpuna undir hendinni. Kom við á Lækjartorginu og gaf mér góðan tíma til að spjalla við eina vinkonu sem var þar með sölubás. Veðrið var sérdeilis gott sem hefur varla farið framhjá neinum enda kom fram í fréttunum að hitinn hafi næstum náð jafn hátt og hann náði í fyrrasumar. Það er allt að gerast og sólin heldur áfram að hækka á lofti.

30.4.17

Pepsídeild karla rúllar af stað í kvöld

Þá er ég komin í fimm daga orlof, löng helgi þar sem 1. maí (morgundagurinn) er á mánudegi og ég ákvað að taka tvo af þeim fáu sumarfrísdögum sem ég á eftir frá því í fyrra. Fer því ekki að vinna fyrr en á fimmtudaginn.

Á föstudaginn fór ég á bílnum í vinnuna en fékk einkabílstjórann til að koma og sækja hann eftir skóla og skutla mér yfir í K2 í leiðinni. Í Katrínartúninu var örfundur á sviðinu mínu frá klukkan hálffjögur en að auki gaf ég mér tíma til að kveðja tvo vinnufélaga mína. Annar að hætta þar sem hann verður 67 á árinu en hinn að skipta um vinnustað.

Var svolítið löt á fætur í gærmorgun og N1 sonur minn notaði tækifærið og sagði að ég mætti alveg skutla sér í vinnuna upp úr klukkan hálfníu. Eftir skutlið fór ég í sund, úr sundinu beint til norsku esperanto vinkonu minnar og frá henni lá leiðin í Krónuna eins og oft áður áður en ég fór heim. Seinna um daginn skrapp ég með allar 11 bókasafnsbækurnar og skilaði á Kringlusafnið. Kom heim með sjö bækur í staðinn, m.a. nýjustu bók Ragnars Jónassonar Drungi.

28.4.17

Gugnaði á því að labba í vinnuna

Einkabílstjórinn var beðinn um að leysa af á Skeljungsstöðinni við Smárann fljótlega eftir hádegi í gær. Ég sagði honum að fara á bílnum og sækja mig í Laugardalinn eftir vaktina. Eftir vinnu fór ég fyrst heim, hringdi í pabba og bað svo Davíð Stein um að taka að sér kvöldmatargerðina. Tók svo til sunddótið, sjampó og fleira tilheyrandi og tók 13 við Sunnubúð korter fyrir sex og skipti yfir í 14 á Hlemmi. Var byrjuð að synda tuttugu mínútum yfir sex. Þrátt fyrir að vera ekki orðin góð af kvefpestinni sem byrjaði í hálsinum stalst ég eina ferð í kaldapottinn og sat í honum mínar tvær mínútur. Var varla byrjuð að bíða eftir Oddi þegar hann sótti mig. Heima var Davíð Steinn búinn að elda, leggja á borð og kveikja á tveimur sprittkertum. Mikið sem ég er þakklát fyrir þessa syni mína og mjög stolt af þeim líka.

27.4.17

Stalst í þann kalda

Í gær og í dag var N1 ungi maðurinn á frívakt svo ég nýtti strætókortið. Það er að verða að venju hjá mér að byrja vinnudaginn á því að safna saman vatnsflöskum samstarfsfólksins, setja í körfu og fara með fram til að fylla á. Þau sem ekki eru með þar til gerðar flöskur fá eitt vatnsglas á vinnustöðina sína. Daglegum verkefnum í gær lauk upp úr hádeginu í gær. Eftir að hafa fengið okkur að borða ákváðum við að flýta fyrir mánaðarlegri reikningagerð með því að gera smá lagertalningu á ákveðnum hlutum. Það var vel til fundið. Enn betra var svo að fá að hætta aðeins fyrr, þ.e. þurfa ekki að vera á staðnum alla átta tímana.

Ég var komin heim fyrir hálfþrjú með þau plön að taka aðeins til hendinni. Raunin varð reyndar sú að ég notaði þennan aukatíma í allt annað. Hitt verkefnið bíður mín bara aðeins lengur fyrir vikið.

26.4.17

Líður á vikuna og mánuðinn líka

Fyrstu tvo virku dagana í þessari viku fór ég á bílnum í vinnuna. Á mánudaginn fór ég beintustu leið á milli, báðar leiðir. Í gærmorgun byrjaði ég á því að skreppa í sund og ég stalst til að fara eina ferð í kalda pottinn þrátt fyrir að vera ekki búin að ná mér af hálsbólgunni og kvefinu. Fengum að hætta vinnu í fyrra fallinu, klukkutíma fyrr, þar sem allt var búið. Skrapp heim með sunddótið. Skólastrákurinn var á leið aftur í skólann og ég bauð honum far. Athugaði fyrst hvort Inger vildi taka á móti mér og hafa smá esperantohitting áður en við færum í slökunarjógað í Fella og Hólakirkju. Hún samþykkti þá hugmynd og við náðum að ljúka við að lesa kafla þrjú, rúmlega blaðsíðu. Hittum Sigurrós í Breiðholtinu og eftir öðru vísi slökunarstund en í síðustu viku bauð hún okkur heim til sín sem við þáðum enda hafði verið talað um það eftir síðasta hitting. Kom heim um hálfníu og horfði á Castle og einnig þáttinn eftir tíu fréttir á RÚV.

24.4.17

Eftir helgina

Það lá við að ég væri með smá fráhvarfseinkenni í gær. Hitti norsku esperanto vinkonu mína sex daga í röð frá 17. til og með 22. apríl. Fyrst var það annar í páskum, esperanto, smá afmælis og horft á Kon-Tiki. Á þriðjudeginum fórum við saman í djúpslökun (Yoga-nítre) í Fella- og Hólakirkju. Á miðvikudagskvöldið var það Þjóleikhúskjallarinn (improve iceland) og KEX (seinni partur af tónleikum Tómasar R og félaga). Á fimmtudaginn, Sumardaginn fyrsta, var aftur esperanto hittingu. Á föstudagskvöldið síðasti föstudagsfyrirlestur í Lífsspekifélaginu á þessu starfsári (2016-17) og svo hugleiðsla og umræður á sama stað (Ingólfsstræti 22) um miðjan dag á laugardaginn.

Skrapp í sund í gærmorgun og fór smá í kalda pottinn í leiðinni þrátt fyrir ertingu í hálsinum. Mætti í óháðu kirkjuna stuttu áður en tilraunamessan byrjaði og var beðin um að lesa fyrri ritningalesturinn. Eftir messuna og smá smakk af bráðabrauði og svartbaunaseyði var aðalfundur safnaðarins haldinn. Ég hafði verið beðin um að tilkynna breytingar varðandi Bjargasjóð og komst nokkurn veginn skammlaust frá því. Þegar ég kom heim aftur slakaði ég á að mestu yfir bókum. Horfði á einn þátt í sjónvarpi símans en var komin í bælið mun fyrr en venjulega eða um tíu.

22.4.17

Smá vesen í hálsinum, en er að lagast

 morgni sumar dagsins fyrsta byrjaði ég á því að skutla Skeljungsafleysingarsyninum upp á Vesturlandsveg þannig að hann var mættur þar um hálfátta. Í bakaleiðinni var nokkuð blint vegna þéttrar snjókomu efst í Ártúnsbrekkunni. Mér fannst ekki taka því að fara heim heldur tók smá rúnt um Laugardalinn en var þó kominn á stæði við Laugardalslaugina tíu mínútum áður en opnaði klukkan átta. Sendi N1syninum smáskilaboð um að ég yrði komin heim um hálftíu og gæti því skutlaði honum á sína vakt sem var frá 10-22. Auðvitað hefði hann alveg geta tekið strætó en með þessu móti fékk hann aðeins meiri tíma heima.

Um ellefu, þennan sama dag, var ég komin til norsku esperantovinkonu minnar og við áttum saman góða tvo tíma og notuðum drjúgan hluta af þeim tíma í að halda áfram að lesa Kon-Tiki. Frá Inger lá leiðin í Krónuna en eftir að ég kom heim hélt ég mig þar það sem eftir var dagsins og kvöldsins við lestur og fleira. Er að lesa fjórar bækur í einu, allar af bókasafninu, m.a.: Þar sem fjórir vegir mætast eftir Tommi Kinnunen og Fórnarleikar eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Ég er ekki enn búin að verða mér úti um garn í enn eitt sjalið en ég held að ég verði að gera þriðju tilraun með þriðja litinn og næ þá vonandi að fylgja mynstrinu frá fyrstu til síðustu lykkju.

Í gærmorgun var ég með strætókortið. Var mætt í vinnu korter fyrir átta. Tólf mínútum fyrir fjögur náði ég leið no 13 við Stjórnarráðið. Sá vagn bilaði reyndar á Hlemmi þannig að við sem biðum þolinmóð í bilaða vagninum fluttum okkur yfir í þann sem kom korteri síðar. Rúmlega sjö fór ég aftur að heiman og hélt áfram á nýta strætókortið. Fór úr vagninum á sama stað og eins og þegar ég er að fara í vinnuna. Kíkti aðeins inn í Mál og Menningu við Laugaveg en var mætt í Lífspekifélagið nokkru fyrir átta. Þar fór svo fram síðasti föstudagsfyrirlestur vetrarins, enda komið sumar. Inger og Sigurrós komu líka. Eftir mjög skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur og smá kaffi og með því á eftir var ég nýbúin að missa af leið 13. Ákvað því að labba með Inger áleiðis vestur í bæ og tók næsta vagn til baka og heim, ofarlega á Hofsvallagötunni.

20.4.17

Gleðilegt sumar

Á þriðjudaginn var ég með strætókortið. Mætti í vinnu um hálfátta. Þar sem að náðist að ljúka öllum daglegum störfum fyrir seinna kaffi fékk ég leyfi til að fara heim í fyrra fallinu. Þar stoppaði ég í tæpan klukkutíma áður en ég settist upp í lánsbílinn, sótti norsku vinkonu mína og endaði á Yoga-nítre (djúpslökunarstund) í Fella og Hólakirkju. Magnaður klukkutími það.

Í gærmorgun var N1 sonurinn á vakt svo hann var með strætókortið. Ég ákvað að fara á bílnum, frekar en að labba í vinnuna, og byrjaði á því að mæta í Laugardalslaugina rétt um það leyti sem opnaði um hálfsjö. Var mætt í vinnu rétt rúmum klukkutíma síðar. Kom heim upp úr hálffjögur. Hafði til matinn snemma eða fyrir sex. Korter yfir sjö var ég sótt af dóttur norsku esperanto vinkonu minnar. Sem skutlaði okkur vinkonunum í Þjóleikhúskjallarann þar sem við vorum næstu rúmu tvo tímana og skemmta okkur við að fylgjast með spunahóp. Þegar því lauk sendum við SMS á dótturina. Hún kom að vörmu spori að sækja okkur og sagði okkur frá því að það væri enn dagskrá á KEX, Tómas R Einarson og fjöldinn með honum að spila og syngja, frítt inn og mega stuð. Það þurfti ekki að þrábiðja okkur um að koma við þar á heimleiðinni. Tónleikunum lauk rétt fyrir ellefu og áður en við yfirgáfum staðinn hitti ég sr. Pétur, kampakátan að venju. Synirnir voru búnir að loka að sér þegar ég kom heim enda báðir að vinna í dag.

18.4.17

Fáir vinnudagar í þessari viku

Ég mætti í Laugardalslaugina klukkutíma eftir að opnaði í gærmorgun, eða um níu. Smá "sjógangur" var í lauginni en ég sinnti rútínunni minni út í gegn nema ég synti á brautum 1 og 2 en ekki 7 og 8 eins og oftast. Kom heim aftur um ellefu og byrjaði á því að hella upp á smá kaffi. Las, saumaði og vafraði um á netinu en stuttu fyrir þrjú tók ég strætó yfir á Sólvallagötuna með esperantopokann á bakinu. Norska esperanto vinkona mín átti afmæli. Við byrjuðum á því að lesa smá því von var á einum afmælisgesti í viðbót ca klst. eftir að ég mætti á svæðið. Þegar hún kom settumst við fimm, einnig maður og dóttir norsku vinkonu minnar, að glæsilegu kaffiborði. Eftir kaffið færðum við okkur inn í stofu og horfðum á myndina Kon-Tiki saman.

Kom heim aftur upp úr sjö. Hafði lánað bræðrum bílinn og voru þeir hjá pabba sínum eitthvað fram á kvöldið. Ég horfði m.a. á annan þáttinn af Dicte en fór í háttinn í fyrra fallinu. Þó ekki fyrr en synir mínir höfðu skilað sér heim og einkabílstjórinn sagt mér hvar hann hafði lagt bílnum.

17.4.17

Annar í páskum að kveldi kominn

Hafði stillt á mig klukku í gærmorgun til að vera viss um að ég svæfi ekki af mér páskamessuna klukkan átta. Reyndin varð sú að ég var vöknuð vel á undan klukkunni og lagði af stað labbandi tuttugu mínútum yfir sjö til að vera mætt nokkru fyrr og bjóða fram aðstoð við undirbúning á heitum brauðbollum og kakói með þeyttum rjóma sem var í boði safnaðarstjórnar strax á eftir messu. Fjórir af níu stjórnarmeðlimum voru mætt og langt komin með undirbúninginn. Ég settist því fljótlega inn í kirkju og tók virkan þátt í messunni þegar hún byrjaði. Að venju var ballettjáning rétt á undan predikuninni og voru tvær stúlkur sem dönsuðu verkið "Lífshvörf". Afar magnað verð ég að segja. Eftir messu gaf fólk sér góðan tíma til að spjalla yfir kakóinu (eða kaffinu) og brauðbollunum í efri safnaðarsal kirkjunnar. Yfir 40 höfðu tekið þátt í þessari stund. Á eftir aðstoðaði ég við frágang og fékk með mér smá af kakóinu og brauðbollunum sem varð afgangs. Einkabílstjórinn var að skutla N1 á 12 tíma vakt í Hafnarfirði frá klukkan tíu. Það passaði fínt fyrir hann að koma og hirða mig upp strax á eftir því mér hugnaðist ekki að labba heim, með kakóbrúsa í annarri hendinni þótt leiðin væri ekki löng. Restina af deginum notaði ég í lestur, imbagláp og útsaum.

16.4.17

Páskadagur

Síðasta virka dag fyrir páska enduðum við flest í deildinni minni vinnudaginn á Kryddlegnum hjörtum. Já, við höfðum fengið leyfi til að hætta vinnu þegar daglegum verkum var lokið og þeim var flestum lokið um hálfeitt. Fengum okkur súpu og sallat og ég splæsti þar að auki á mig hvítvínsglasi. Um hálftvö leytið leysist samkoman upp enda orðnar mettar og tilbúnar í að halda heim á leið. Ég hafði komið gangandi í vinnuna og rölti ásamt einni úr hópnum áleiðis að Hlemmi. Rétt við Lindargötu ákvað ég að athuga hvort fyrrum kórsystir mín væri heima. Heppnin var með mér, Lilja var heima. Hringdi í einkabílstjórann og bað hann um að koma og sækja mig um þrjú. Hafði því ágætis tíma fyrir smá spjall og kaffisopa.

Þegar Oddur Smári sótti mig fórum við eina ferð í Sorpu og skruppum einnig í Krónuna. Norska esperanto vinkona mín hafði haft samband og við ákváðum að hittast hjá henni um fjögur leytið. N1 ungi maðurinn var kominn heim svo ég fékk strætókortið um leið og ég sótti esperantogögnin. Einkabílstjórinn skutlaði mér til Inger en ég kom svo heim með strætó upp úr klukkan sex.

Á fimmtudagsmorguninn var ég mætt í Laugardalinn rétt eftir opnun, um átta. Þegar ég kom heim aftur sinnti ég smá heimilisverkefnum áður en ég græjaði mig fyrir tveggja daga heimsókn austur á Hellu. Ýtti aðeins við ungu mönnunum til að kveðja og brunaði svo austur upp úr hádeginu. Stoppaði um stund í Fossheiðinni, til að sækja mér faðmlög, spjall, kaffi og einnig til að fá að skreppa á salerni. Næstu tveir dagar liðu svo í rólegheitum, við alls konar dundur. Kom aftur í bæinn um tíu í gærkvöldi.

12.4.17

Labbað í vinnu í morgun

Í gærmorgun fór ég á bílnum í vinnuna og hafði með mér sunddótið í skottinu. Strax eftir vinnu fór ég í Laugardalinn og gaf mér einn og hálfan tíma í sundrútínuna. Á leiðinni heim úr sundi hringdi N1 ungi maðurinn, hafði reyndar verið búinn að reyna ná í mig á meðan ég var í sundinu, og sagðist myndu taka aukavakt morguninn eftir (í dag semsagt) og spurði hvort hann mætti ekki vera með strætókortið. Ég samþykkti þá beiðni og hafði á orði að ég hefði þrjá aðra möguleika í stöðunni. Fara aftur á bílnum, labba eða vekja einkabílstjórann og biðja hann um að skutla sér.

Útbjó lasanja í kvöldmatinn, horfði svo á Dicte frá því kvöldinu áður. Oddur Smári horfði svo á Castle og einnig þáttinn eftir tíu fréttir með mér. Ég var ekki búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera varðandi ferðir milli heimilis og vinnu þegar við fórum að sofa. Oddur var samt alveg rólegur yfir því, sagði bara að það myndi koma í ljós hvort hann yrði vakinn eða ekki.....

10.4.17

Labbað til og frá vinnu

Klukkan var tíu mínútur gengin í átta þegar ég byrjaði sund-rútínuna mína í gærmorgun. Synti í rúmlega tuttugu mínútur og fór fjórar ferðir í kalda pottinn, tvisvar í 42°C pottinn, einu sinni í sjópottinn og einu sinni í gufuna. Bjó mér til hafragraut og hellti upp á kaffi þegar ég kom heim. Í kaffibrúsanum var kaffi síðan á fimmtudagskvöldið og ég ákvað að nota hluta af því út í vöffludeig sem ég hrærði í. Geymdi deigið framyfir hádegi. Náði að ljúka smá eldhúsverkefni á næstu tveimur tímum. Fékk svo Davíð Stein til að steikja vöfflurnar á meðan ég skrapp í verslunarleiðangur.

9.4.17

Pálmasunnudagur

Dagarnir eru ekkert að láta bíða neitt eftir sér, sama hvort mikið eða lítið er í gangi. Eftir vinnu á fimmtudaginn kom ég heim með strætó til að ná í bílinn. Davíð Steinn og einn vinur hans voru búnir að leggja undir sig hol og stofu til að setja saman nýja tölvu. Ég tók til sunddótið mitt og spurði bræður í leiðinni hvort það væri eitthvað sérstakt sem þyrfti að koma með úr búðinni. Annar nefndi skinku og hinn mjólk. Eftir sundið kom ég við í fiskbúð. Fannst orðið óralangt síðan ég hafði fengið soðna ýsu. Úr fiskbúðinni lá leiðin í Krónuna við Nóatún. Sá á gemsanum að Davíð Steinn hafði reynt að hringja og svo sent skilaboð um að hann og vinurinn ætluðu að halda upp á að tölvan væri komin upp og fara og fá sér eitthvað að borða. Fiskurinn hefur greinilega ekki heillað. Það endaði svo með því að hinn sonurinn fékk sér heldur ekkert af kvöldmatnum. Það gerði nú minnst til því þá átti ég nóg afgangs í plokkfisk.

Upp úr klukkan átta um kvöldið kom tvíburahálfsystir mín með vörur sem ég hafði pantað til styrktar kórferðalagi dóttur hennar, hakk og pappír. Ég var búin að hella upp á og Sonja búin að keyra það út sem hægt var svo hún gat stoppað. Bræðurnir komu báðir inn í stofu til okkar að spjalla í smástund og það var afar glatt á hjalla. Eftir eina mínútu eða svo var klukkan allt í einu farin að ganga tólf.

Ég hafði strætókortið líka á föstudaginn. N1 sonurinn tók aukavakt milli klukkan 18 og 22 en þar sem bróðir hans var að fara í spilakvöldshitting rétt þar hjá ákvað ég að þeir bræður fengju bílinn en ég notaði strætókortið til að skreppa á lífsspekifélagsfund um átta. Kom aftur heim um tíu og N1 sonurinn ekkert svo löngu síðar en einkabílstjórinn fór aftur á spilakvöldið.

Í gærmorgun var ég komin í sund upp úr klukkan átta. Gaf mér það góðan tíma í rútínuna að ég fór beint úr sundi yfir til norsku esperantovinkonu minnar um hálfellefu. Restina af deginum ætlaði ég að nota skynsamlega en varð frekar lítið úr því verki sem ég sá að ég gæti ekki frestað mikið lengur. Davíð Steinn fór með strætó í Mosfellsbæ á fjórða tímanum en einkabílstjórinn fékk að fara á lánsbílnum um sex.

7.4.17

Tvíburahálfsystrahittingur

Það var hálka á Bústaðaveginum í gærmorgun og þrátt fyrir að ég væri ekki á mikilli ferð var mér næstum hætt að lítast á blikuna rétt áður en ég kom að ljósunum þar sem hægt er að beygja til að fara m.a. í HR og Nauthólsvík. Það endaði með því að ég sveigði upp á gangstéttarbrún til að stöðva bílinn og slapp ég þannig við að lenda aftan á þá bíla sem biðu eftir grænu ljósi. Komst því til vinnu án þess að valda eða lenda í tjóni, bíllinn tók amk ekki aftur á rás og bremsurnar hlýddu miklu betur og miklu fyrr.

Eftir vinnu skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni, skilaði fimm bókum af átta og nældi mér í sjö bækur. Ein af þeim þremur sem ég skildi eftir heima var reyndar að komast á tíma en sem betur fer gat ég framlengt um mánuð. Þetta er bókin Sjóveikur í Munchen eftir Hr. Hallgrím Helgason. Ég komst ekki í að byrja að lesa þá bók fyrr en rétt fyrir síðustu helgi en sá strax að þessa bók yrði ég að lesa.

Svo lá leiðin beint á mánaðarlegan fund í stjórn óháða safnaðarins. Kom ekki heim fyrr en upp úr klukkan hálfsjö og ákvað að vera heima, þ.e. sleppti einni sundferð. Útbjó messutilkynningu í moggann og póstaði einnig á óháða vegginn og heimahöfn safnaðarins. Fylgdist með skólahreysti, Kiljunni og Neyðarvaktinni en slökkti á imbanum upp úr klukkan tíu.

5.4.17

Kringlubókasafnið sótt heim seinni partinn í dag.

Ég var heppin að missa ekki af strætó í gærmorgun. Ég var ekki komin nema út að horni og átti eftir að fara yfir götuna og komast að stoppistöðinni þegar vagninn var að renna þar að. Bílstjórinn sá mig sem betur fer en þurfti alls ekki að bíða lengi eftir mér þar sem ég tók á sprett. Kom heim aftur rétt um fjögur og byrjaði á því að hringja austur áður en ég tók mig til og dreif mig í sund. Spjallaði einnig aðeins við N1 soninn sem var í vaktafríi í gær. Hann tók að sér að sjá um kvöldmatinn. Í Laugardalnum hitti ég greinilega á mjög góðan tíma því það var nóg pláss til að synda, mátulega margir aðrir á staðnum. Reyndar voru nokkuð margir í sjópottinum. Stuttu eftir að ég kom heim aftur bauð Davíð Steinn upp á ofnbökuð og velkrydduð kjúklingalæri og hrísgrjón með. Mjög gott hjá honum. Oddur Smári tók svo að sér frágang í eldhúsinu.

4.4.17

Castle-kvöld

Ég gleymdi að geta þess að pabbi tók sig til og skipti um dekk á lánsbílnum á laugardaginn. Tók nagladekkin undan og setti heilsársdekkin aftur í staðinn. Hann tók svo jeppann af nöglunum á sunnudaginn.

Strætókortið var í mínum höndum í gær og í dag. Gaf einkabílstjóranum grænt ljós á að fá bílinn lánaðann í skólann og fleiri erindi í gær, bæði vegna veðurs og eins þá hafði ég lagt í annarri götu þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið.

Annars átti ég hálfpartinn von á nöfnu minni og frænku í heimsókn til mín seinni partinn í gær. En hún kom ekki einhverra hluta vegna, náði ekki í hana svo ég fór jafnvel að spá í að ég hafi misskilið tímann og daginn eða þá að hún hafi þurft að skreppa af landi brott. Hafði ofnbakaða bleikju í matinn og dreif mig svo í sund.

2.4.17

Á Hellu

Áður en ég brunaði austur í gær fór ég í sund, klippingu og hitti esperanto vinkonu mína. Var nokkurn veginn búin að taka mig til fyrir helgina er ég skaust heim til að sækja það dót, ganga frá sunddótinu og kveðja þann soninn sem var heima. Hinn sonurinn var farinn á langa vakt en ég hitti hann aðeins rétt áður en ég fór í sundið og hann í strætó. Kom aðeins við í Fossheiðinni til að fá faðmlög, spjall, kaffi, nota salernið og skila bók og mynd sem ég hafði fengið lánað. Pabbi var útivið
þegar ég kom á Hellu. Hann var að fylla kerru númer tvö eftir smá vorverk í garðinum framan við hús. Mamma var inni að hlusta á sögu, smá lerkuð eftir að hafa dottið framan við hús daginn áður. Sem betur fer braut hún sig ekki og eftir síðdegiskaffið í gær og smá hvíld klæddi hún sig upp og fór smá stund út með tvo stafi til halds og trausts. Hún labbaði út að húsi no. 18 og til baka sagði að það hefði ekki mátt vera lengra. Ég held líka að það sé betra að hún drífi sig aðeins af stað en ætli sér samt ekki um og of.

31.3.17

17 3 eða 17 17 17

Strætó var notaður milli heimilis og vinnu í gær og svo fékk N1 sonurinn kortið, reyndar til að skutlast í heimsókn í Mosfellsbæinn. Einkabílstjórinn fékk afnot af lánsbílnum til að taka vakt á Skeljungsstöðinni við Vesturlandsveg milli klukkan þrjú og hálfátta. Ég fór því ekkert í sund í gær, var bara að dunda mér hér heima að sinna skylduverkum og áhugamálum. Eitthvað hefur líklega gengið á þegar ég var að ryksuga í kringum sjónvarpið því þegar ég ætlaði að kveikja á því um hálfsjö var allt dautt og fjölmiðlamælarnir einnig. Mér sýndist rauði hnappurinn á fjöltengjunum vera á on þótt ekki væri ljós. Ég ákvað að bíða með að leysa úr þessu "vandamáli". Fann til kvöldmatinn, handa mér og einkabílstjóranum sem skilaði sér heim um átta. Las, prjónaði og vafraði um á netinu.

Oddur Smári fann það svo út að slökkt væri á einu fjöltenginu, líklega því sem hafði verið stungið í samband í innstunguna í veggnum. Hann kveikti á því stakk í samband aftur og þá var hægt að glápa á imbann aftur.

30.3.17

Sólin hækkar á lofti, meir og meir

Ég var með strætókortið í gær, og í dag. Eitt af því fyrsta sem ég gerði er ég mætti í vinnu í gærmorgun var að plasta kortið. Ég var mætt korter fyrir átta þótt það sé einhverjum metrum lengra að labba frá Þjóðleikhúsinu heldur en Hörpunni. Var komin heim aftur rétt upp úr klukkan fjögur og byrjaði á því að hringja í gemsan hans pabba. Vissi að foreldrar mínir voru eða höfðu verið í bænum þar sem mamma átti tíma hjá krabbameinslækninum. Það var mamma sem svaraði símanum og þá voru þau nýlega lögð af stað austur aftur. Allt leit ágætlega út og þetta orkuleysi er víst eðlilegt miðað við ferlið sem hún er búin að ganga í gengum síðustu misserin.

Oddur Smári var búinn að upplýsa mig um það að hann ætti að leysa af á Skeljungsstöðinni við Langholtsveg milli 18 og 19:30. Þarna um hálffimm lánaði ég bræðrunum bílinn svo þeir gætu skotist í smá heimsókn upp á kvennadeild Landsspítalans við Hringbraut. Oddur var vinnufataklæddur en geymdi þó vestið og skóna í skottinu á bílnum. Hann smessaði á mig þegar hann var að fara úr heimsókninni því ég hafði ákveðið að skreppa í sund á meðan hann væri á afleysingavaktinni. Þetta passaði líka alveg ágætlega. Var byrjuð að synda ca tuttugu mínútum yfir sex og komin að bensínstöðinni aftur á slaginu hálfátta.

Við mæðginin, öll þrjú, fengum okkur svo upphitaða kjötsúpu upp úr klukkan átta. Settist með bækur og prjóna inn í stofu og þótt ég væri aðallega að horfa á imbann, Kiljuna og Neyðarvaktina, þá prjónaði ég smávegis og lauk líka við að lesa bókina "Elsku Drauma mín". Er annars að lesa nokkrar í einu, m.a. Ósk eftir Pál Kristinn Pálsson. Það er vel hægt að mæla með þeirri bók því þótt þetta sé skáldsaga er verið að skrifa um eitthvað sem örugglega á sér hliðstæðu í raunveruleikanum.

29.3.17

Áhugamálin alltaf í forgangi

Fór á lánsbílnum í vinnuna upp úr hálfátta í gærmorgun enda N1 ungi maðurinn á vakt og að nota strætókortið. Það er nú annars alveg kominn tími á að fara að nota tvo jafnfljóta stöku sinnum á milli heimilis og vinnu. Hins vegar var ég ákveðin í að fara beint í sund eftir vinnu og þá sparar það óneytanlega mikinn tíma og nota vélknúið faratæki á milli staða, svona fyrst maður hefur aðgang að því.

Vinnudagurinn til 15:45 leið nokkuð hratt og umferðin var ekkert byrjuð að þyngjast þegar ég dreif mig í Laugardalinn. Var byrjuð að synda rétt upp úr klukkan fjögur. Synti þó ekki nema í uþb tuttugu mínútur en fór þrisvar sinnum rúmlega tvær mínútur í kalda pottinn. Hitti eina konu frá Akureyri í einum heitapottinum á milli kalda potts ferða. Hún var búin að vera í sundi frá því um hálftvö. Hafði notað sér inni laugina sagðist hafa synt skriðsund í tvo tíma. Eitthvað hlýtur hún að hafa synt marga marga kílómetra.

Um leið og ég kom heim eftir vinnu og sund setti ég upp 1,4 kg af súpukjöti í stærsta pottinn minn. Eftir að suðan var komin upp settist ég niður með prjónana í smá stund áður en ég fór að skera niður grænmetið í súpuna.

28.3.17

Frænkunöfnuhittingur

Gærdaginn tók ég snemma og var mætt í Laugardalinn rétt um það bil sem verið var að opna. Uþb fimm korterum síðar var ég mætt í vinnuna. Þar leið dagurinn frekar hratt. Klukkan fjögur var ég mætt vestur í bæ til nöfnu minnar sem er systurdóttir mömmu. Anna frænka er semsagt á landinu þessa dagana og það lítur út fyrir að hún verði hérna meira og minna næsta árið, þarf að hala sér inn 20 einingum í HÍ til að ljúka ákveðnu námi þar. Það var eins og við hefðum hist síðast í gær en við höfðum samt um helling að tala og vorum hvergi nærri búnar þegar ég kvaddi á tíunda tímanum um kvöldið. Þá vorum við búnar að fá okkur kaffi, vatn, dýrindis ofnbakaðan kjúklingarétt með ofbökuðum sætum kartöflum og sallat með. Það var ekkert fyndið hversu hratt tíminn flaug frá okkur en við getum huggað okkur við það að á meðan og þegar nafna mín verður á landinu munum við hittast nokkuð reglulega og því ber að fagna.  :D

26.3.17

Í foreldrahúsum

 er strætó farinn að ganga upp og niður Hverfisgötuna í stað þess að fara Sæbrautina. Mér skilst að þetta sé tímabundið á meðan einhverjar framkvæmdir standa yfir. Ég fór semsagt úr vagninum við Þjóðleikhúsið ca tuttugu mínútum fyrir átta á föstudagsmorguninn og rölti þaðan í vinnuna. Að loknum vinnudegi tók ég svo 13 heim frá Stjórnarráðinu. Brynja vinkona sótti mig heim rétt fyrir hálfátta um kvöldið og við fórum saman að sjá farsann "Úti að aka" í Borgarleikhúsinu klukkan átta. Hláturtaugarnar voru heldur betur kitlaðar. Á eftir rúntuðum við alla leið niður í bæ, lögðum við Búlluna og settumst inn á Slippbarinn þar sem vinkona mín bauð mér upp á vínglas en fé sér sjá kaffi-latte. Tíminn var auðvitað alltof fljótur að líða og var klukkan langt gengin í eitt þegar ég kom heim.

Stillti á mig vekjaraklukku til að mæta örugglega í sund strax um átta. Vaknaði auðvitað á undan klukkunni eftir tæplega sex tíma svefn. Dreif mig í sundið og gaf mér góðan tíma í rútínuna. Hafði samt uþb hálftíma heima áður en ég fór með esperanto-bakpokann yfir til norsku vinkonu minnar. Við lásum eina og hálfa bls. í Kon-Tiki. Skrapp í Krónuna áður en ég fór aftur heim. Oddur Smári aðstoðaði mig við að ganga frá vörunum. En ég staldraði eiginlega ekkert við heima heldur tók til ýmislegt til að hafa með mér austur þar sem ég ætlaði að gista eina nótt.

Þegar ég var búin að kveðja synina, ferma bílinn og sest undir stýri tók ég upp gemsann til að láta pabba vita að ég væri að leggja í hann en ætlaði jafnframt að koma við á einum stað á Selfossi þá sá ég að Helga systir var nýbúin að reyna að ná í mig. Hringdi til baka og spjallaði stuttlega við hana. Þau mágur minn voru í borginni en á leið á árshátíð Advania um kvöldið. Var komin í Fossheiðina upp úr klukkan tvö, sennilega nær hálfþrjú, stoppaði þar í góðan klukkutíma. Ég var nýkomin austur á Hellu þegar nafna mín og hálfdönsk frænka hringdi og sagðist vera á landinu um þessar mundir. Við ákváðum að hittast strax eftir helgi. Ekkert svo löngu eftir þetta samtal hringdi æskuvinkona mín, sem býr á Egilsstöðum, í mig til að óska mér til hamingju með daginn um daginn og heyra í mér.

Kláraði dokku tvö í sjalið en á líklega eftir að prjóna úr næstum tveimur dokkum enn áður en ég felli af.