Þegar ég lagði í hann á ellefta tímanum á miðvikudagsmorguninn var ákvað ég að fara upp Mosfellsdalinn í átt að Þingvöllum og af hálsinum niður í Hvalfjörð og keyra fyrir fjörðinn. Skemmtileg og falleg leið. Mér lá ekkert á og eina markmiðið var að koma ekkert of seint á áfangastað, Akureyri. Stoppaði við Baulu um eitt, fékk að nota salernisaðstöðuna og svo splæsti ég á mig fiskrétti. Ég stoppaði hvergi annars staðar á leiðinni þannig að ég var komin á áfangastað um fimm leytið. Systurdóttir mín tók á móti mér meikuð eins og ljón í framan, systir mín og mágur sátu úti að njóta blíðunnar sem og hundarnir þeirra sem voru tjóðraðir svo þeir gætu nú ekki stungið af. Ég settist með þeim með hvítt í glasi, hafði með mér tvær litlar flöskur norður. Mágur minn gafst fljótlega upp á sólinni og hundarnir voru að rápa út og inn en við systur sátum báðar útivið þegar nokkuð stór skjálfti reið yfir.
Systir mín var farin til vinnu þegar ég kom fram um hálfátta á fimmtudagsmorguninn. Mágur minn fór í sína vinnu um átta og stuttu seinna kom Hulda fram en hún átti að mæta í sína vinnu um níu. Við frænkur fengum okkur kaffi saman og höfðum góðan tíma í að spjalla. Rétt fyrir tíu lokaði ég hundana af, læsti á eftir mér útihurðinni með lykli sem Ingvi lét mig hafa kvöldið áður og fór í sundlaug Akureyrar. Þar gaf ég mér góðan tíma í köld "böð" en ég synti líka í tæpan hálftíma og sat í gufunni í góða stund eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Fékk skyndinugdettu þegar ég var að fara með sunddótið í bílinn. Náði í kreditkortið mitt og pantaði mér Svalbarðseyring og sódavatn með sítrónubragði í pulsuvagninum fyrir utan. Svalbarðseyringur er pulsa með kartöflusallati. Einn máfur kom mjög nálægt, spenntur ef ég skyldi nú missa eitthvað niður og áður en ég var búin kom formaður óháða safnaðarins úr sundi ásamt maka sínum. Ég hefði ekki hitt þau ef ég hefði ekki ákveðið að freistast í eina pulsu. Svo fór ég í bíltúr í áttina að jólahúsinu, framhjá því og alveg þangað sem malbikið endaði. Ákvað þá að snúa við og stoppa á Smámunasafninu. Þar stoppaði ég í góða tvo tíma. Var ráðlagt að horfa fyrst á heimildamyndina sem ég og gerði og svo labbaði ég í rólegheitum og skoðaði muni og myndir misvel. Splæsti á mig kaffi og vöfflu og fékk svo lykil að Saurbæjarkirkju. Eftir að hafa skoðað hana að utan og innan skilaði ég lyklinum og hélt áfram för til baka. Stoppaði næst við jólahúsið en þar var ég einungis í ca. hálftíma. Ingvi, Helga og Hulda voru öll komin heim þegar ég "skilaði" mér. Við systur fórum skömmu síðar í Fiskás þar sem ég keypti tvö væn þorskhnakkaflök. Steikti þau upp úr möndlumjöli og gufusauð blómkál og brokkolí með. Ég vissi ekki að möndlumjöl fer ekki vel í magann á Huldu en það var sem betur fer til kjötsúpa sem hún gat borðað í staðinn.
Á föstudagsmorguninn kom ég fram um svipað leyti og morguninn áður. Þegar Hulda kom fram sá hún um að hella upp á kaffi handa okkur frænkum. Ég fór svo aftur í sund. Var komin til baka fyrir klukkan eitt. Hleypti hundunum fram og út á verönd. Þeir nenntu ekki að vera lengi úti. Helga kom heim úr vinnu skömmu síðar. Við skruppum í búð og þegar mágur minn kom úr sinni vinnu fórum við með hundana á hundasvæðið við Blómsturvelli þar sem þeir gátu m.a. "hoppað" í sjóinn og sótt prik sem fannst á staðnum. Eftir að hafa hreyft hundana keyrðu þau með mig m.a. að Hlíðarfjalli. Ég kláraði seinni litlu hvítvínsflöskuna mína þegar við komum til baka.
Kvaddi klukkan hálftólf í gær og keyrði í gegnum Dalvík og Ólafsfjörð. Stoppaði örstutt á Siglufirði þar sem ég hitti á fyrsta grunnskólakennarann minn. Hélt svo áfram för. Var eitthvað að spá í að kom við í sundlauginni á Hofsósi en þegar til kom keyrði ég framhjá. Keyrði inn afleggjarann að Óslandi en þar voru ábúendur víst í dagsferð. Ég hafði ekki boðað komu mína og lét ekki vita af ferðum mínum. Tók aðeins mynd af tveimur heimalingum sem jörmuðu mikið og vildu að ég gerði eitthvað fyrir þá. Þrátt fyrir að hlandblaðran væri aðeins farin að kvarta keyrði ég áfram á Sauðárkrók (sem er lengra heldur en að snúa við og stoppa á Hofsósi) og það sem meira er ég stoppaði ekki fyrr en ég var komin á Blöndós. Fór þar á salernið á kaffihúsinu Teni sem er rétt hjá sundlauginni og keypti mér svo kaffi og sneið af ostaköku. Svo stoppaði ég ekki meir nema ég fyllti á tankinn á Atlantsolíustöðinni við Borgarnes.