29.8.25

Föstudagur

Í gærmorgun var ég mætt á braut 7 um hálfátta. Hafði brautina alveg útaf fyrir mig. Synti 600 á rúmum 25 mínútum, flesta á bakinu en sennilega uþb 200m skriðsund líka. Hitti svo kaldapotts vinkonu mína í okkar fyrstu ferð af fimm í kalda pottinum. Gaf mér mjög góðan tíma í alla rútínu þannig að í heildina tók sundferðin rétt rúmlega tvo tíma. Kom heim rétt fyrir tíu. Um ellefu tæmdi ég rauða bakpokann og labbaði með hann á bakinu í Fiskbúð Fúsa. Þar verslaði ég harðfisk, ýsu, sneið af laxi og nokkrar glútenlausar fiskibollur til að smakka. Var komin heim aftur fyrir klukkan tólf. Setti upp kartöflur og ýsuna. Harðfiskurinn fór í eina skúffu og laxabitinn og fiskibollurnar í frystinn. Var alltaf á leiðinni út aftur en gleymdi mér aðeins við lestur; Völundur eftir Steindór Ívarsson, mjög spennandi bók. Rétt fyrir fimm var ég mætt á opið hús á tveggja herbergja íbúð á 4. hæð við Núpalind. Sama hæð og blokk og ég fór á opið hús á þriggja herbergja íbúð sl. þriðjudag. Einhvern veginn leið mér strax eins og ég væri að koma heim þegar ég kom í íbúðina í gær og nú er verið að setja saman tilboð frá mér í fasteignina. Hringdi í tvíburahálfsystur mína strax og ég var búin að skoða og taka með mér upplýsingar. Við sammæltumst um að ég kæmi til hennar um átta leytið. Fór heim í millitíðinni að melta hughrifin og sendi m.a. póst á fasteignasalann. Mætti til Sonju rúmlega átta. Hún hjálpaði mér við að gera ferilsskrá svo ég geti farið að demba mér út í atvinnuleit. Kvöldið leið ótrúlega hratt og var klukkan orðin hálfellefu áður en ég kvaddi og fór heim. Þurfti svo auðvitað að lesa smávegis áður en ég fór að sofa. 

28.8.25

Fimmtudagur

Í gærmorgun var ég vöknuð rétt upp úr klukkan fimm. Sofnaði ekki aftur en fór þó ekki á fætur fyrr en um sex. Í gær var sjósundsdagur en áður en ég skellti mér í sjóinn fór ég í bókabúð vestur á Fiskislóð til að kaupa námsbók fyrir mág minn sem byrjar í sínu meistaranámi eftir næstu helgi. Hringdi í mág minn og spurði hvernig hann vildi að ég kæmi pakkanum til hans. Um tvær leiðir var að velja; fá Advania vinnuna hans til að senda honum eða fara með þetta beint í flug. Hann valdi seinni leiðina. Var heppin að fá stæði við Nauthólsvík, mjög nálægt Nauthól, þegar ég kom þangað tuttugu mínútum yfir ellefu. Sjórinn 12,1°C og ég synti út að kaðli. Eftir tíu mínútur í gufunni á eftir fór ég aftur út í sjó. Kom ekkert við í pottinum áður en ég fór upp úr.  Næst lá leiðin í Eymundsson í Kringluna þar sem ég fjárfesti í umslagi utan um námsbókina og merkipenna. Þegar ég kom í bílinn aftur setti ég bókina í umslagið, lokaði því og merkti. Fór svo beint út á flugvöll. Klukkan var farin að ganga tvö þegar ég kom heim aftur. Upp úr klukkan fjögur dreif ég mig af stað yfir í Kópavoginn. Var búin að mæla mér mót við fasteignasala vegna Lautasmára 3 um hálffimm. Ég var mætt nokkrum mínútum fyrir það en fasteignasalinn tafðist í umferðinni. Hann lét mig vita og ég beið róleg. Hann kom tíu mínútum fyrir sex. Íbúðin er alveg fín. Svalirnar eru ekki yfirbyggðar, snúa út að Smáralindinni og þaðan kemur mikill umferðarniður. Skoðaði einnig geymsluna í kjallaranum, þar er ágætis pláss. Tók með mér gögn um íbúðina og fasteignasalinn benti mér á að ég mætti alveg bjóða lægra en uppsett verð ef ég hefði hug á því að kaupa. Eigendur eru fluttir til Ástralíu og íbúðin hefur verið í útleigu. Málið er samt að þótt staðsetningin sé ágæt, nóg af stæðum og að ég gæti fengið íbúðina afhenta við undirskrift kaupsamnings er ég ekki alveg að finna mig þarna. Ég verð að vanda mig og gefa mér smá tíma. Er viss um að allt er í hárréttum farvegi.

27.8.25

Smá valkvíði

Var vöknuð fyrir klukkan sex en festist í smá rútínu svo klukkan var að verða sjö þegar ég fór úr húsi. Fyrst lá leiðin á Reykjavíkurflugvöll, bygginguna þar sem tekið er á móti eða sóttir pakkar í flug. Of seint var að senda pakkann með fyrstu vél, hefði þurft að mæta amk korteri fyrr. En það kom reyndar ekki að sök þótt pakkinn færi með næsta flugi sem var rúmlega ellefu. Ég var svo mætt í Laugardalinn stuttu fyrir hálfátta. Fór beint á braut 8 og synti 500m, þar af helminginn skriðsund. Ég kom heim aftur upp úr klukkan níu. Ég var ekkert voðalega dugleg í sýslinu. Var meira og minna að fletta fasteignasíðunum, lesa og stundum glápa á eitthvað. Hitti frænku mína og nöfnu um fimm við Núpalind 6. Vorum á undan fasteignasölunum enda var opna húsið auglýst frá 17:15. Leist enn betur á þessa blokk og þessa íbúð heldur en íbúðina við Funalind. Ég er einnig búin að sjá að það er opið hús á sömu hæð á morgun þar sem er tveggja herbergja íbúð til sölu. Myndirnar frá henni kalla á mig og það er spurning hvort ég athuga hvort ég geti fengið forskot á að skoða. Með öllum íbúðum í húsinu fylgja geymslur á jarðhæð, það er nóg af stæðum við blokkina og þá er bara spurning hvort ég eigi frekar að miða á tveggja herbergja íbúð en þriggja. Auðvitað gæti verið gott að vera með auka herbergi en mér sýnist að þurfi að gera minna fyrir minni íbúðina. Ég hafði líka samband við fasteignasala sem er að selja íbúð við Lautarsmára, fasteign sem tvíburahálfsystir mín benti mér á. Sú íbúð  fengist afhent við undirritun. Er búin að bóka skoðun en fundargerð húsfélags bendir til að húsið sé komið á viðhald, eitthvað um leka og ósamkomulag íbúa. Það er ekkert voðalega spennandi tilhugsunar. Nú svo á kannski eftir að "detta" inn enn betri eign og staðsetning. Í augnablikinu er ég samt mjög heit fyrir Núpalind. 

26.8.25

Þriðjudagsmorgunn

Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun en vissi fljótlega að ég væri ekki tilbúinn til að drífa mig af stað í sund. Ákvað frekar að taka því aðeins rólega til að byrja með og labba frekar í osteostrong tíma upp úr klukkan átta. Var mætt í Hátúnið um hálfníu og komst strax að. Eftir tímann, slökun og vatnsglas labbaði ég aðeins aðra leið heim. Hafði svo hugsað mér að fara frekar í sund seinni partinn og hitta aðeins á kalda potts vinkonu mína. Ekkert varð úr þeim áætlunum því ég bókaði tíma í skoðun á fasteign í blokk við Furugrund í Kópavogi um hálfsex. Um þrjú hringdi Bríet í mig og spurði hvort ég gæti keypt námsefni fyrir hana þar sem lokaði klukkan fjögur og hvorki hún né Bjarki kærasti hennar hefðu náð í bæinn fyrir þann tíma. Ég dreif mig í málin. Ákvað að leggja við Háteigskirkju og rölti þaðan að Brautarholti 8. Rétt áður en ég kom á staðinn hringdi Ingvi mágur minn í mig og bað mig um að kaupa sama námsefni fyrir systur mína. Þær mæðgur voru að hefja meistaranám í kjötiðn í fjarnámi frá MK í gær. Verið var að setja saman námsefnið og ég þurfti að bíða í smá stund eftir að ég var búin að greiða fyrir efnið. Var þó komin út úr versluninni áður en klukkan varð fjögur. Námsefnið seig í á göngunni að bílnum aftur. Næst lá leiðin að N1 við Gagnveg. Umferðin var orðin þung og klukkan var rétt orðin hálffimm þegar ég kom þangað. Bjarki var þá nýkomin á staðinn úr vinnunni sinni frá Selfossi. Davíð Steinn var á vakt og var að afgreiða hann. Svo brunaði pilturinn austur í sveit. Ég stoppaði aðeins lengur og spjallaði við soninn og samstarfsmanninn. Var mætt við Funalind amk tuttugu mínútum fyrir valinn tíma. Beið út í bíl því ég átti von á frænku minni og nöfnu á staðinn. Hún var ekki komin  klukkan hálf svo ég fór upp að skoða og spjalla við fasteignasalann. Frænka mín kom 5 mínútum síðar, hafði villst á staðinn þar sem er opið hús seinni partinn í dag. Leist annars ágætlega á þessa fasteign sem ég skoðaði í gær. Á heimleiðinni kom ég við í Eymundsson í Kringlunni til að kaupa stórt umslag fóðrað með bóluplasti til að setja utan um námsgögnin hennar systur minnar.

25.8.25

Drápuhlíð

Vaknaði í fyrra fallinu í gærmorgun. Tókst ekki að sofna aftur en það leið amk klukkutími áður en ég fór á fætur. Tvíburahálfsystir mín vaknaði á meðan ég var að klæða mig og ganga frá sumu af dótinu mínu. Morgunmatur var borðaður um níu leytið. Við vinkonurnar ákváðum að pakka okkur saman og ferma bílinn en taka samt í smá borðspil með tvíburahálfforeldrunum áður en við færum að síga heim á leið. Klukkan var um tólf þegar við þökkuðum fyrir okkur, kvöddum og héldum af stað nestaðar fyrir daginn. Keyrðum alla leið á Blöndós og gerðum fyrsta stopp þar. Skoðuðum heimilisiðnaðarsýningu í húsi við hliðina á gamla húsmæðra/kvennaskólanum. Gáfum okkur góðan tíma enda margt mjög flott og fróðlegt að sjá. Á eftir borðuðum við hluta af nestinu áður en við héldum för áfram. Keyrðum aðeins í gegnum elsta hverfið en næsta stopp var svo gert á Hvammstanga. Keyrðum um svæðið og fundum svo verslun og safn sem var opið til fimm. Vorum komnar þar rétt fyrir hálffimm. Mæli annars með þessu safni, það er m.a. um fyrstu verslunina á staðnum. Næsti áfangi var Laugabakki en þar keyrðum við aðeins um en stoppuðum ekki neitt. Stoppuðum við Staðaskála til að fá að fara á salerni, keyptum okkur sódavatn og borðuðum svo afganginn af nestinu. Eftir þetta stopp var ekki stoppað aftur fyrr en fyrir utan Drápuhlíð. Þá var klukkan að byrja að ganga níu. Ég tók dótið mitt, kvaddi með knúsi og þakkaði fyrir ferðina. Sonja hitti þarna líka á fyrrum samstarfskonu.

24.8.25

Um laugardag

Svaf eiginlega út í gærmorgun, vaknaði ekki fyrr en um hálfátta leytið. Ekkert löngu síðar voru allir komnir á fætur og borðuðu morgunmat saman. Rétt fyrir ellefu fórum við Sonja í sund. Eftir sundið komum við við í Krónunni þar sem við hittum aðeins á Helgu systir. Þegar við komum til baka í Furulundinn var boðið upp á dýrindis hafragraut. Skömmu eftir að búið var að ganga frá eftir matinn var ákveðið að fara í bíltúr til Siglufjarðar. Veðrið var enn betra en á föstudeginum. Keyrðum um alla "smá" staðina á leiðinni og stoppuðum aðeins í sælkerabúð utan við Dalvík. Eftir góðan rúnt um Siglufjörð var klukkan um sex þegar við héldum aftur "heim" á leið. Vorum rétt rúman klukkutíma á leiðinni til baka.Þá var græjaður grillmatur nánast á núll einni. Vel var borðað og eftir frágang var spilað skemmtilegt borðspil fram eftir kvöldi.

Um föstudag

Þrátt fyrir að hafa farið að sofa á tólfta tímanum á fimmtudagskvöldið var ég vöknuð frekar snemma á föstudagsmorguninn. Ég var þó ekki fyrst á fætur. Allir voru komnir fram um hálfníu og þá var borðaður morgunmatur. Upp úr hádeginu var ákveðið að fara í bíltúr til Mývatns. Þar var komið við í sælkerabúð við stað sem heitir Hella. Í bakaleiðinni fórum við til Húsavíkur og gerðum smá stopp þar. M.a. í Nettó þar sem var keypt smá nesti. Vorum komin í Furulundinn aftur um sex að mig minnir eftir frábæran bíltúr í fínasta veðri. Reyndar var þokuloft við ströndina við Akureyri framan af degi en það skemmdi ekkert fyrir okkur.

Um fimmtudag

Ég dreif mig í sund rétt rúmlega sjö. Synti 500m, flesta á bakinu. Hitti kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum um átta. Fórum saman fjórar ferðir í þann pott, en skiptum hinum ferðunum milli 42°C, 44°C, gufunnar og sjópottsins. Kvaddi um níu leytið. Þvoði mér um hárið og áður en ég brunaði vestur á Sólvallagötuna samþykkti ég kauptilboðið sem frá parinu sem kom að skoða sl. mánudag. Fyrirvarar voru m.a. um ástands skoðun sem fram fer einhvern daginn í komandi viku. Var komin til Inger, með íslensku útgáfuna af Kon Tiki, um hálf tíu leytið. Lásum tvær bls. í esperanto útgáfunni. Var komin heim til mín um tólf leytið. Sýslaði ýmislegt til klukkan að ganga þrjú. M.a. hringdi ég í Ellu vinkonu. Um þrjú var ég búin að pakka niður fyrir þriggja daga ferðalag. Tvíburahálfsystir mín kippti mér upp um hálffjögur og við brunuðum sem leið lá norður á Akureyri. Stoppuðum aðeins í Varmahlíð til að tappa af og kaupa okkur sódavatn. Vorum komnar á Akurreyri um níu. Foreldrar Sonju tóku á móti okkur í stjórnendaíbúð við Furulund með steiktri bleikju og nýjum soðnum kartöflum.

21.8.25

Fleiri að skoða og tvö tilboð komin

Vetraropnun í Nauthólsvík þýðir að nú opnar klukkan ellefu en ekki tíu, það er lokað á sunnudögum og mánudögum og styttri opnunartími á laugardögum. Ég var samt næstum því hætt við að fara í sjóinn í gær því þegar ég kom að um ellefu voru öll stæði upptekin. Hringsólaði smávegis og athugaði með stæði við HR þar sem ég veit að megnið af bílunum á planinu við Nauthólsvík var undirlagt af háskólanemum. Fann reyndar eitt stæði en það var það langt frá að ég ákvað að gera aðra tilraun við Nauthólsvík. Þá hafði losnað eitt stæði og tvö önnur voru reyndar að losna. Var komin í sjóinn, 13,7°C korter yfir ellefu. Synti, svamlaði og "labbaði" út að kaðli í rólegheitum. Eftir ferð í gufuna fór ég aftur í sjóinn í smá stund. Sat svo í pottinum í rúman hálftíma því ég lenti á spjalli við konu eina sem kemur labbandi eða hjólandi úr hverfinu rétt ofan við Hlemm. Var komin heim stuttu fyrir klukkan eitt. Fimm korterum síðar kom fasteignasalinn og um hálfþrjú kom ungt par að skoða í búðina. Ég heilsaði þeim en lét fasteignasalann sjá um að sýna og segja þeim frá eigninni. Þegar þau fóru niður í geymslu, þvottahús og út varð ég eftir uppi og settist út á svalir. Þegar unga parið og fasteignasalinn voru farin hringdi ég aðeins í Helgu systur. Um fimm leytið skrapp ég út í stutta göngu. Settist á bekk við Klambratún og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Spjölluðum í um hálftíma og þá hélt ég göngunni áfram, labbaði 2km frekar rólega því ég var tæpan hálftíma. Fljótlega eftir að ég kom heim hafði fasteignasalinn samband og sagði að það væri komið tilboð frá unga parinu en hún sagði líka að parið sem kom sl. mánudag væri að vinna í að gera tilboð líka. Það tilboð barst um hálftíu í gærkvöldi. Bæði tilboðin eru með fyrirvara um ástands skoðun eignar á tímabilinu 25.29. ágúst og ég fæ 30 daga til að finna mér aðra eign og flytja út. Ævintýrin halda áfram. Og að þessum skrifuðum orðum vil ég koma því á framfæri að ég taki mér nokkurra daga færslupásu. Hugsanlega set ég eitthvað stutt inn en líklegra er að næsta færsla verði ekki fyrr en eftir helgina.

20.8.25

Vetraropnun í Nauthólsvík

Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar ég mætti í Laugardagslaugina í gærmorgun. Samt var ég vöknuð á sjöunda tímanum. Fór beint á braut 8 en færði mig svo á braut 7 eftir fyrstu hundrað metrana af 500. Synti til skiptis bringusund og skriðsund. Sundrútínan varði annars hátt í tvo tíma með öllu. Einhvern tímann eftir að ég kom heim aftur hringdi ég í fasteignasala sem sjá um sölur á íbúðum við Þorraholt 1. Fyrra númerið svaraði ekki en sá hringdi til baka upp úr hádeginu. Hinn svaraði strax en þurfti aðeins að kanna málið varðandi síðustu tveggja herberja íbúðina. Þegar hann hafði samband aftur og bauð mér að skoða ákváðum við að hittast um þrjú leytið. Rétt fyrir eitt hringdi frænka mín og nafna sem hefur verið að hjálpa mér. Hún var búin í vinnunni og á leiðinni í nudd en hún sagðist alveg geta komið og skoðað með mér. Íbúðin reyndist stórfín. Kannski smá galli að útsýnið, sem er stórglæsilegt í dag, mun hverfa þegar blokk í byggingu aðeins neðar verður risin. En íbúðin er líklega hvort sem er nánast seld. Sem fyrr er tilfinning mín líka sú að ég finni ekki næsta stað fyrr en ég hef selt mína íbúð. Það er þó gaman að skoða sig um og máta sig við hin og þessi svæðin. Fór beint heim aftur þar sem ein vinkona mín sem býr við Skógarhjalla svaraði ekki síma. Hún hringdi til baka fljótlega eftir að ég kom heim. Annars var ég að lesa í einni af bókunum af safninu; Týndur eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Nokkuð spennandi bók og meira grípandi heldur en bókin sem ég sagði frá í gær. Í gærkvöldi hringdi í mig fyrrum formaður safnaðarstjórnar óháða safnaðarins. Hún ég og frændi hennar erum enn í nefnd um Bjargarsjóð. Það hafði borist umsókn um styrk sem hún vildi bera undir mig. Ég var meira en 100% sammála um að veita þennan styrk svo það mál er afgreitt með öllum greiddum atkvæðum.

19.8.25

Lagt inn í lang-besta bankann

Klukkan var farin að ganga átta þegar ég mætti í sundið í gærmorgun. Byrjaði á ferð í kalda pottinn og endaði á því að synda aðeins 100m, þar af helminginn skriðsund. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Eftir tímann fór ég aðeins heim til að ganga frá sunddótinu mínu. Um hálftíu var ég mætt í Hlíðasmára 1 að sækja skjöl úr þinglýsingu. Það gekk fljótt og vel fyrir sig. Næst lagði ég bílnum á stæði við Háteigskirkju og rölti þaðan niður í Borgartún 21 þar sem ég skilaði af mér skjölunum í hsm. Áður en ég fór heim aftur fór ég á Kringlusafnið og skilaði af mér þremur bókum. Ég var búin að vera með Kon Tiki í tæpa sextíu daga. Prófaði samt hvort ég gæti fengið hana lánaða strax aftur og það gekk upp. Tók reyndar 4 aðrar bækur líka sem var kannski jafnvel tveimur of mikið. Ein af þeim bókum heitir Dauðadómurinn þar sem Steinunn Kristjánsdóttir skrifar um mál Bjarna Bjarnasonar frá Sjöundá út frá hans sjónarhorni. Þau skrif eru byggð á heimildum sem vísað er í á hverri einustu bls. Er aðeins byrjuð að glugga í þessa bók og er enn ekki alveg viss um hvað mér finnst og hvort ég eigi eftir að lesa hana alla. Rétt fyrir hálfþrjú kom fasteignasalinn og skömmu síðar hringdi sá sem var búinn að bóka skoðun. Ekki til að aflýsa heldur til að láta vita að hann væri fastur í umferðinni og myndi tefjast. Sú töf var þó ekki mjög löng. Þau komu þrjú saman að skoða. Eftir að þau og fasteignasalinn voru farin tók ég eftir að ég hafði fengið bæði sms og tölvupóst frá blóðbankanum. Prófaði að bóka tíma um sex og innan nokkurra mínútna kom staðfesting á þeirri bókun. Klukkan var ekki orðin fjögur þegar þetta var. Hringdi aðeins í pabba. Hann er búinn að koma sláttuvélinni í lag og var búinn að slá fyrir framan hús. Um hálfsex labbaði ég af stað í blóðbankann. Þar gekk allt mjög vel fyrir sig og ég var komin heim aftur fyrir klukkan sjö.

18.8.25

Mánudagur

Var komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gærmorgun. Tók fljótlega þá ákvörðun að stefna að sjósundsferð því eftir daginn í dag byrjar vetraropnun í Nauthólsvík aftur og þá verður lokað alla sunnu- og mánudaga og það opnar klukkutíma síðar heldur en á sumartíma. Ég var komin út í sjó ca korter yfir tíu. Synti út að kaðli. Fór beinustu leið í gufuna og sat þar í rúmar tíu mínútur áður en ég fór aftur út í sjó í nokkrar mínútur. Sat í pottinum í uþb hálftíma á eftir og spjallaði m.a. við einn fastagest á svæðinu. Rak nokkur erindi á Fiskislóða svæðinu áður en ég fór heim. M.a. renndi ég bílnum í gegnum færibandið hjá Löðri og verslaði inn í Krónunni og smá í Byko. Á síðar nefnda staðnum keypti ég aðeins tvo hluti og gerðist svo fræg að bjarga mér alveg sjálf í sjálfsafgreiðslu. Kom heim um hálftvö leytið. Það stóð svo alltaf til að skreppa út í smá göngu en það varð ekkert úr því. Aftur á móti heyrði ég í hálfdönsku nöfnu minni og frænku og við spjölluðum í dágóða stund.

17.8.25

Ýmislegt og ekki neitt

Mætti í Laugardalslaugina rétt rúmlega átta. Sleppti sundinu en fór þrisvar í þann kalda, korter í gufu og um tuttugu mínútur í sjópottinn. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan hálftíu. Við lásum tvær blaðsíður í Kon Tiki. Kom heim um hálftólf og stoppaði við í rúma klukkustund. Rétt fyrir eitt hitti ég tvíburahálfsystur mína fyrir utan blokk við Gullsmára. Þar var opið hús vegna sölu á 3 herbergja íbúð á sömu hæð og ég skoðaði tveggja herbergja íbúð með frænku minni sl. þriðjudagskvöld. Eigandi þessarar íbúðar er að stækka við sig og flytja upp á næstu hæð. Fleiri voru að skoða. Fengum líka að sjá geymsluna sem fylgir íbúðinni, rusla- og hjólageymsluna. Tók allar upplýsingar með mér þegar við höfðum grandskoðað og aðeins spurt út í eitt og annað. Tvíburahálfsystir mín kom svo með mér yfir í Garðabæinn og beið út í bíl á meðan ég skilaði frænku minni ávaxtaskálinni sem hún kom með til mín sl fimmtudag. Þau hjónin voru nýkomin úr gólfi og voru á leið í bíltúr að leita að sólinni. Hún afhenti mér fasteignasíður úr mogganum og benti mér á íbúðir til sölu í nýrri blokk við Þorraholt það skammt frá. Við Sonja keyrðum að blokkinni og skoðuðum aðstæður að utan en ég ákvað að bíða aðeins með að hringja í þá sem sjá um söluna. Fæ kannski að skoða að innan síðar þegar ég er búin að selja sjálf. Svo fórum við vinkonurnar á rúntinn um hverfi í Garðabæ og Kópavogi þar sem við vissum að væru íbúðir til sölu. Skilaði Sonju heim um þrjú leytið og þáði hjá henni te. Úr varð um tveggja tíma gott te og spjall stopp þannig að klukkan var farin að ganga sex þegar ég kom heim til mín aftur.

16.8.25

Laugardagur

Vaknaði útsofin rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Bjó til tvöfaldan skammt af hafragraut um níu leytið. Helmingurinn af honum fór í skál inn í ísskáp. Var mætt í Nauthólsvík um það leyti sem var að opna um tíu. Það var að nálgast háflóð, sjórinn 11,8°C og ég var þó ekki nema um tíu mínútur að synda/svamla út að kaðli. Rútínan tók mig uþb klst. Kom við í Fiskbúð Fúsa og verslaði m.a. þorskhnakka í soðið. Já, ég ákvað að sjóða mér fisk og nýjar kartöflur í hádeginu og aldrei þessu vant hafði ég þorsk en ekki ýsu. Annars var dagurinn frekar rólegur og tíðindalítill. Hringdi í pabba um miðjan dag og Helga systir hringdi um sex leytið og spjallaði við mig í hátt í tvo tíma. Það held ég að sé met. Hún var m.a. að reyna að sannfæra mig um að kaupa eign í kinninni skammt frá þeim. Það eru þó nokkrir sem hafa skoðun á því hvert ég á að flytja þegar ég hef selt eignina þar sem ég er búin að búa í rúm 21 ár. Sjálf er ég viss um að eftir sölu þá dúkki upp á sölu sú eign og sá staður þar sem ég verð nokkur næstu árin. Þetta kemur allt í ljós fljótlega. 

15.8.25

Opið hús í gær

Ég var mætt á braut 2 í Laugardalslaug fyrir klukkan hálfátta. Synti 600m, flesta á bakskrið. Eftir tvær ferðir í þann kalda, rúmar tíu mínútur í gufu og góða slökun í sjópottinum var ég búin að vera á svæðinu í hátt í tvo tíma. Þvoði mér um hárið og var komin heim um tíu. Sýslaði við eitt og annað en slakaði vel á inn á milli. Frænka mín kom til mín um fjögur. Vildi fá að setja upp meira punt sem hún fékk. M.a. lánaði hún mér skál af ávöxtum. Fasteigna salinn kom upp úr klukkan hálffimm. Hún fann dýrindis kaffiilm og þótt ég væri búin að taka kaffikönnuna úr sambandi nokkru áður þáði hún einn bolla og dásamaði kaffið. Ég held mig enn við mitt kaffibindindi og markmiðið er að ná tveimur árum. En ég drakk síðast kaffi rétt um miðjan október 2023. Við frænkurnar skildum fasteignasalann eftir um fimm. Nafna mín fór heim til sín en ég yfir til tvíburahálfsystur minnar. Rúmum hálftíma síðar hringdi Villa í mig og sagði að það væri ágætt ef ég kæmi heim fljótlega. Ég kláraði úr tebollanum, þakkaði fyrir mig og var komin heim innan við klukkutíma frá því ég fór að heima. Það var semsagt ekkert mikið rennerí á opna húsið en nágrannarnir úr kjallaranum voru mjög áhugasöm, þurfa að stækka við sig og vilja helst halda sig í húsinu. Það er frekar mikið af alls konar eignum að koma til sölu. Hef svo sem engar áhyggur af að mín eign seljist ekki en ég vil helst selja áður en ég fer að gera tilboð í framtíðareignina mína. Sl. vikur hafa hlutirnir þróast frekar hratt og kannski er ágætt að fá smá kyrrstöðu í nokkra daga. Allt hefur sinn tíma og ég hef þá trú að allt gangi upp og fari eins og það á að fara. Tvær nætur í röð hef ég sofið mjög vel. Eitthvað verið að dreyma sem ég man þó ekki eftir í smáatriðum. Tvö kvöld í röð hef ég líka farið að sofa án þess að grípa í bók. Það er reyndar svolítið skrítið. 

14.8.25

Smá kyrrstaða

Stöku nætur fara alls konar hugsanir á fleygiferð í mislangan tíma og trufla samfelldan svefn. Hugsanir og pælingar geta alveg verið góðar en helst þó ekki þegar ég á að vera í draumalandinu. Sem betur fer gerist þetta ekki oft en núna eru miklar breytingar í gangi og þá er sennilega eðlilegt að þetta gerist oftar. Það var semsagt frekar slitróttur svefninn í fyrrinótt. En ég var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Tveimur tímum síðar bjó ég mér til einn skammt af hafragraut og svo var ég mætt í Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Þar hitti ég kalda potts vinkonu mína. Fórum tvisvar í sjóinn sem nú er kominn niður fyrir 12°C og hitastigið að færast í rétta átt hvað mig varðar. Kvaddi vinkonu mína rétt fyrir ellefu því það stóð til að einhver myndi mæta og skoða íbúðina með fasteignasalanum upp úr hádeginu þótt það væri ekki opið hús fyrr en í dag fjórtánda ágúst. Fljótlega eftir að ég kom heim sá ég svo skilaboð um að viðkomandi hefði hætt við, ætlaði frekar að senda einhvern fyrir sig á opna húsið. Ég sýslaði ýmislegt en þó ekki eins mikið og undanfarnar vikur og daga. Um miðjan dag skrapp ég í stuttan göngutúr. Annars lítið að frétta nema ég var komin upp í rúm og sofnuð fyrir klukkan níu í gærkvöldi.

13.8.25

Sjósund á eftir

Svaf í einum dúr í fyrri nótt frá klukkan tíu til klukkan að ganga sjö í gærmorgun. Var komin í sund rétt upp úr klukkan átta. Fór beint á braut 7 og synti 500m þar af helminginn skriðsund. Þegar ég var komin í sjópottinn eftir að hafa farið í þann kalda og gufuna kom ein af Sigrúnunum og hrósaði mér fyrir skriðsundið. Sagði að það hefði verið mjög gaman að fylgjast með mér synda rólega og "þokkafullt" yfir laugina. Vá hvað ég var glöð með þetta hrós. Í seinni ferðinni í þann kalda hitti ég á kalda potts vinkonu mína. Þetta var um hálftíu leytið og hún var að mæta á svæðið og ég að fara. Náðum þó þessari ferð saman og sammæltumst um að hittast í Nauthólsvík um tíu á eftir (miðvikudag). Kom heim upp úr klukkan tíu og sýslaði við eitt og annað fram yfir hádegi. Rétt fyrir þrjú sendi nafna mín og frænka, sem hefur verið að hjálpa mér, skilaboð um hvort ég vildi borða með þeim hjónum um kvöldið. Ég þáði það boð en spurði jafnframt hvort hún ætlaði ekki að hitta mig á opnu húsi í Kópavoginum um fimm. Ég var mætt ca 12 mínútum fyrir og frænka mín kom fimm mínútum síðar. Skoðuðum sæta tveggja herbergja íbúð á mjög góðum stað. Íbúð sem getur verið laus strax. Það var þó tvennt sem ég var svolítið hugsi með. Geymslan sem fylgir íbúðinni er sameiginleg þvotta húsinu og innan íbúðar. Semsagt engin auka geymsla utan í sameign. Þótt ég sé búin að vera dugleg að grisja dótið mitt er ég ekki alveg viss um að geta komið því dóti fyrir sem þarfnast frekari yfirferðar og skoðunnar. Svo er bæði baðkar og sturta á baðherberginu. Baðkarið var fyrir en sturtan var sett upp frekar nýlega. Skápaplássið er samt töluvert, eldhúsinnrétting og gólfefni nýlegt og helstu tæki fylgja. Eftir að hafa skoða og gengið um íbúðina og svalirnar tók ég upplýsingapappíra með og við frænkur þökkuðum fyrir okkur. Ég elti svo frænku mín yfir í hæðahverfið í Garðabæ og stoppaði þar til klukkan að verða átta í gærkvöldi. 

12.8.25

Þriðjudagur

Það voru nokkur verkefni á dagskránni í gær. Mætti í sund rétt rúmlega sjö. Fór beint í kalda pottinn og þaðan í sjópottinn þar sem ég hitti þá Sigrúnu sem ég kynntist fyrst af þessum fimm sem ég hitti mis reglulega í sundi. Við spjölluðum í dágóða stund og urðum svo samferða í gufuna. Stoppuðum þar í um fimm mínútur og settumst svo smástund á stól til að sóla okkur og halda spjallinu áfram. Rétt fyrir hálfníu var ég mætt í osteostrong. Komst strax að. Bætti mig á einu tæki. Eftir tímann fékk ég að geyma bílinn þar sem ég lagði þegar ég mætti á meðan ég skrapp labbandi í hsm við Borgartún 21 til að sækja skjöl til undirritunar og þinglýsingar. Um var að ræða pappíra varðandi lánið sem var tekið þegar Drápuhlið 21, efri hæð var keypt fyrir rétt rúmu tuttuguogeinu ári síðan. Við skilnaðinn varð það útundan að lánið væri alfarið fært yfir á mig þótt íbúðareignin sjálf sé þinglýst á mig og að reikningarnir fyrir láninu hafi verið skráðir á mig sl 11-12 ár. Var komin heim upp úr klukkan hálftíu. Fékk mér hressingu skoðaði pappírana og prófaði kaffikönnuna sem ég fékk að láni hjá pabba. Hún virkaði fínt en ég veit ekkert hvernig kaffið bragðaðist því ég hellti því öllu niður, ca 6 bollum, síðar um morguninn þegar komið var að næsta verkefni. Um tíu hringdi ég í Davíð. Hann svaraði ekki svo ég sendi honum sms. Hann hringdi til baka rúmum hálftíma síðar. Ég sagði honum að við þyrftum að hittast til að ganga frá þessum lána málum. Hann var staddur á skrifstofunni í Ármúla og sagði að hentugast væri að ég kæmi þangað eða hann kæmi til mín. Ég var hins vegar búin að ákveða að fara upp á Gagnveg þar sem N1 sonurinn var á vakt og fá hann og samstarfsmanninn til að votta undirskriftir okkar. Og þar hittumst við um hálftólf leytið. Ég fór svo beinustu leið í Hlíðarsmára 1 til að láta þinglýsa skjölunum. Má sækja þau eftir viku og þá þarf ég að skila þeim aftur til hsm. Var komin heim fyrir klukkan hálfeitt. Restin af deginum fór í aðeins minna sýsl heldur en undanfarið ein eitthvað þó. Hellti m.a. aftur upp á og leyfði kaffinu að standa í hátt í tvo tíma áður en ég hellti því öllu niður. Hringdi bæði í Odd og pabba og reyndar Davíð Stein líka. Talaði við bræðurnar fyrir hádegi, N1 soninn um níu til að kanna hvenær gæti verið rólegast á stöðinni og um hálftíu við Odd sem svaraði líka í fyrsta og lét ágætlega af sér. Í pabba hringdi ég um miðjan dag og lét hann m.a. vita að kaffigræjan sem hann lánaði mér virkar.

11.8.25

Tvöhundraðtuttugastiogþriðji dagur ársin

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun eftir rúmlega átta tíma svefn. Skrapp fram á pisseríið og gerði tilraun til að kúra mig lengur niður. Lá svo sem slök í einhvern tíma en sofnaði ekki aftur. Klæddi mig um hálfátta leytið og kveikti á tölvunni hans pabba. Pabbi kom fram rúmum klukkutíma síðar en hann var reyndar búinn að kom fram fyrir klukkan sex, skrá niður helstu tölur og fá sér eitthvað. Ég varð ekkert vör við það. Við ákváðum að hafa folaldakjöt í hádeginu. Fasteignasalinn sendi mér yfirlit til samþykktar og auglýsti opið hús og íbúðina mína til sölu. Ég stoppaði hjá pabba fram á miðjan dag. Sátum góða stund út á palli í bongó blíðu. Var komin í bæinn rétt fyrir sex. Kom aðeins við í Krónunni í Skeifunni. Mætti til tvíburahálfsystur minnar upp úr klukkan hálfátta og var boðin í veislumat. Hún skannaði yfirlýsingar fyrir mig sem ég sendi á fasteignasalann. Margt var spjallað og tíminn flaug, ég var ekki komin heim aftur fyrr en klukkan var langt gengin í ellefu. 

10.8.25

Á Hellu í augnablikinu

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Var mætt í sund fljótlega eftir að opnaði um átta. Fór beint á braut 7 og synti 500m, þar af 200m skriðsund. Klukkan hálftíu var ég mætt á Sólvallagötuna í esperanto hitting. Klukkutíma síðar kom Inger með mér yfir í Drápuhlíðina til að fá að skoða umbreytinguna. Eftir að hún var farin sýslaði ég við eitt og annað. M.a. kom ég öllu "óviðkomandi" dóti úr augsýn. Þegar fasteignasalinn kom um eitt leytið var ekki svo mikið sem hægt var að setja út á og raunar var íbúðin tilbúin undir myndatöku svo hún ákvað að taka myndirnar sjálf. Veðrið var mjög gott í gær og glugginn og veggurinn úr herberginu sem Oddur var í leit út eins og málverk. Líklega fer þá auglýsing út á vefinn á veraldarvefinn mjög fljótlega. Seinni part dags ákvað ég svo að skreppa austur til pabba með kassa merktum Helgu systur. Var komin á Hellu um sex og ætla að stoppa eitthvað fram á daginn.

9.8.25

Færsla no 4390

Ég svaf aðeins lengur en marga undanfarna daga en ég var þó komin á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. Oddur kom fram ekkert löngu síðar, hafði sofið vel sína þriðju nótt í stofunni og líklega þá síðustu í Drápuhlíðinni. Ég bjó til hafragraut um níu leytið. Um tíu skrapp ég í Nauthólsvík. Það var stafalogn, að fjara út og sjórinn 12°C. Synti út að kaðli. Hefði líklega getað vaðið allan þann spöl. Fór beint í gufu í 10 mínútur og svo aftur út í sjó í nokkrar mínútur. Svo fór ég beint upp úr og skolaði aðeins á mér tærnar og sundbolinn. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn mættur á svæðið og var að taka til afganginn af dótinu sínu. Hann setti í síðustu þvottavélina svo það er ekki alveg allt farið. Bræðurnir hjálpuðu mér að yfirfara ýmislegt og fóru í síðustu sorpuferðina í bili um þrjú leytið. Til stóð að pabbi þeirra kæmi á flutningabíl fyrir Odd og mest af dótinu hans um fimm leytið. Strákarnir voru búnir að fá nágrannann á neðri að færa annan bílinn sinn og bera allt dótið út í innkeyrslu um fimm. Pabbi þeirra tafðist um rúman klukkutíma þar sem hann læsti bíllykilinn inn í flutningabílnum með tilheyrandi veseni. Þegar hann kom einhvern tímann á sjöunda tímanum, á mjög stórum flutningabíl, tók það ekki svo langan tíma að ferma bílinn. Mesta vesenið var að bakka bílnum í innkeyrsluna og fékk tré úr garði nágrannanna á no 23 að finna fyrir því. Tré sem breiðir úr sér yfir í innkeyrsluna á 21. Er að öllu jöfnu ekkert fyrir þannig séð. En flutningabíllinn var stór eins og fyrr er skrifað. Davíð Steinn fór austur á sínum bíl með tölvuskjá, spariföt og úlpu. Ég kvaddi Odd með knúsi. Hann er meira að segja búinn að skila af sér húslyklunum en er alveg reiðubúinn að hjálpa ef á þarf að halda. Pabbi þeirra hafði á orði að ég hefði átt að vera löngu búin að "henda" strákunum út. Sjálf vil ég meina að allt hefur sinn tíma en líklega hefði ég ekki farið alveg strax út í þessar breytingar ef ég hefði ekki misst vinnuna í vor. Núna virðist vera hárréttur tími til að snúa lífinu á enn meira hvolf, minnka við sig og horfa fram á veginn en ekki of mikið í baksýnisspegilinn.

8.8.25

Sjö ár síðan mamma dó

Gærdagurinn hófst mjög snemma. Var komin í sund rétt rúmlega sjö, fór beint á braut 7 og synti 600m, flesta á bakinu en smá skriðsund inn á milli. Ég var komin heim aftur fyrir níu og fór strax að sýsla við eitt og annað. Oddur kom fram skömmu síðar og ég bjó til hafragraut handa okkur. Var nýbúin að borða minn skammt þegar fyrrum samstarfskona hringdi. Eftir gott spjall hélt ég sýslinu áfram. Oddur fór eina ferð í sorpu upp úr klukkan eitt. Þá var að verða ljóst að hann flytur út seinni partinn í dag en þarf ekki að fá bílinn minn lánaðan. Frænka mín og nafna kom um miðjan dag með smá punt í þrjá glugga. Ég var þá langt komin með að þrífa tvo af þessum gluggum. Hún sá alveg greinilegan árangur á sýslinu mínu frá því daginn áður. Oddur var líka búinn að leggja mjög gott lið svo það er að sjá fyrir endann á þessum fasa í breytingunum framundan. Ýmislegt eftir en ég hef daginn í dag og fyrramálið því það er búið að fresta úttektinni til klukkan eitt á morgun. Við Oddur fórum saman í sorpuferð um fimm leytið. Það þurfti samt ekki að hafa aftursætin niðri og nota bene ég var bara í bílnum og lét hann sjá um að fara á milli gáma. Sýslið stoppaði aðeins eftir þetta en ég tók stutta törn um níu leytið áður en ég fór að sofa. 

7.8.25

Tíminn æðir áfram

Í gær var þriðji miðvikudagurinn á árinu sem ég sleppti sjósundinu. Var mætt í Laugardalslaug upp úr klukkan sjö. Fór beint á braut 7 og synti 500m þar af 150m skrið. Eftir fjórar mínútur í kalda pottinum og 12 mínútur í gufunni skellti ég mér í kalda sturtu áður en ég fór í sjópottinn. Á leiðinni heim úr sundi kom ég við í Stakkahlíð og sótti sófaborð var gefins. Oddur var kominn á fætur þegar ég kom heim um hálftíu, sagðist hafa sofið vel í stofunni. Ég bjó til hafragraut handa okkur og svo var sýslað við ýmislegt líkt og marga undanfarna daga. Klukkan hálftólf hringdi ég í flutningamanninn sem kom við annan mann á þriðjudaginn. Hann var tilbúinn að koma strax en gaf mér þó klukkutíma og kom við annan mann um hálfeitt. Líkt og í fyrradag var ýmislegt látið fljúga fram af svölunum. Þriggja sæta parturinn af stofusófanum var þó borinn niður. Verkið kláraðist á vel innan við klukkutíma. Oddur fór svo aukaferð í sorpu skömmu síðar. Ein frænka mín og nafna mætti til mín um miðjan dag og lagði mér lið í uþb tvær klukkustundir. N1 sonurinn var að vinna í gær en kom svo beint eftir vinnu til að taka dót. Hann gat ekki tekið alveg allt svo við Oddur skruppum saman eina ferð með eitt og annað í snjallgeymsluna. Enn sem komið er ég ekki búin að ákveða hvað af mínum geymsluhlutum fer þangað. Þarf aðeins að sortera sumt betur. Það eru mörg verkefni framundan næstu dagana en mér finnst ég þó vera langt kominn með vissan áfanga. Allt hefur sinn tíma, sumt er að gerast nokkuð hratt og annað tekur aðeins lengri tíma eins og gengur. 

6.8.25

Flutningabíll í gær og aftur í dag

Líkt og oft áður var ég vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun. Sinnti morgunrútínunni og dreif mig svo í sund áður en klukkan varð sjö. Þar fór ég beint á braut átta og synti 500m á rétt rúmum 20 mínútum. Hitti aðeins á sjósundsvinkonu mína, fyrst þegar ég var nýbúin að synda og svo aftur þegar ég var að fara upp úr klukkan átta. Dagurinn fór svo í alls konar sýsl. Synirnir komu fram á tíunda tímanum og um ellefu var annar sonurinn farinn í fyrstu ferð með dót frá sér yfir á nýja staðinn. Fljótlega eftir að hann fór setti ég mig í samband við FL flutninga og þeir gátu sent mér bíl og aukamann upp úr klukkan eitt. N1 sonurinn þurfti því að koma mun fyrr yfir aftur heldur en hann reiknaði með. En hann kom um hálfeitt og var búinn að skrúfa sundur tölvuskápinn þegar strákarnir á flutningabílnum komu. Báðir synirnir tóku þátt í að ferma bílinn af dóti sem mátti fara. M.a. fengu hlutir að fljúga fram af svölunum. Ekki komst allt með í þessari ferð en það dót fer í dag. Rúmið hans Odds var skrúfað í sundur og dót sem fara á með ferðinni í dag var sett inn í herbergið sem hann hefur haft afnot af sl 15 ár. Hefði getað búið um hann í herberginu sem bróðir hans var að losa í gær en hann vildi frekar hreiðra um sig í stofunni. Eins gott að sófinn komst ekki með í ruslferðinni í gær. Oddur er búinn að pakka að mestu en hann mun líklega ekki flytja alveg út fyrr en í vikulokin. Í millitíðinni mun hann þá geta hjálpað mér með hluta af þeim undirbúningi sem eftir er. Frænka mín og nafna kíkti aðeins við seinni partinn og mun vera í sambandi og á svæðinu til að hjálpa fram að helgi.

5.8.25

Breytingar

Í gær ákvað ég að drífa mig í sjósund. Á sumartíma opnar aðstaðan í Nauthólsvík klukkan tíu alla morgna og það er sumartími fram til 19. ágúst. Ég var því mætt um tíu enda löngu vöknuð. Sjórinn 12,5°C og ég synti út að kaðli. Nokkrar hressar konur í tveimur hópum syntu alveg yfir í Kópavog. Var komin heim aftur um hálftólf, hress og endurnærð. Dagurinn fór svo í alls konar sýsl líkt og undanfarna daga. Ég er ekki tilbúin að skrifa meira um það sem stendur nema það gengur ágætlega en mér finnst ég samt vera aðeins á eftir áætlnum en þó ekki. 

4.8.25

Frídagur verslunarmanna

Það varð ekkert úr sjó- eða sundferð í gær þótt ég væri vöknuð eldsnemma. Einmitt af því að ég vaknaði of snemma þá ákvað ég að skríða aftur upp í og halda áfram lesa seinni bókina sem ég sótti síðast á safnið. Las í tæpa tvo tíma og þá var klukkan hálfátta. Gerði tilraun til að sofna aðeins aftur. Sú tilraun stóð yfir í ca hálftíma áður en ég ákvað að klára bókina. Var komin á fætur upp úr klukkan níu. Um hálfellefu bjó ég til næstum fullan pott af hafragraut. Þegar ég var búin að fá mér að borða af honum ákvað ég að ræsa synina og bjóða þeim að fá sér. Hafði orðið vör við að vekjara þeirra fór í gang um tíu. Þeir komu fljótlega fram og fyrri parturinn af deginum fór í alls konar undirbúning og sýsl bæði hjá þeim og mér. Um fjögur fóru þeir til pabba síns og komu við í sorpu í leiðinni. Ég skrapp í stuttan göngutúr um fimm leytið, tæpa 2km. 

3.8.25

Verslunarmannahelgi

Ég var komin í sund rétt upp úr klukkan átta. Hitti aðeins á sjósundsvinkonu mína en hún var að fara beint í pott en ég fór á braut 8 og synti 500m, þar af uþb 150m skriðsund. Úr sundi fór ég beinustu leið vestur í bæ í esperanto hitting. Fékk svo að skilja esperantodótið mitt eftir hjá Inger. Þegar ég kom heim stuttu fyrir klukkan tólf voru báðir bræðurnir komnir á fætur. Sýslaði við eitt og annað fram eftir degi. Strákarnir skruppu í eina sorpuferð seinni part dags. Ég fór með gler í gáminn við Öskjuhlíð um svipað leyti og í stuttan göngutúr í kjölfarið. Það hægði á vinnugleðinni eftir því sem leið á daginn og á sjöunda tímanum kveikti ég á imbanum og gerðist sófakartafla þar til kominn var tími til að fara í háttinn. Bræðurnir fóru saman í bíó á tíunda tímanum og ég var löngu sofnuð áður en þeir komu heim aftur. 

2.8.25

Skrepp

Gærdagurinn byrjaði fyrir klukkan sex hjá mér. Var samt ekki mætt í sund fyrr en rúmlega sjö. Fór beint á braut 7 og synti 500m á tuttugu og tveimur mínútum. Kláraði afganginn af sundferðinni á rúmum hálftíma og var komin heim upp úr klukkan hálfníu. Afgangurinn af morgninum fór svo í alls konar sýsl, m.a. að undirbúa komu meindýraeyðirs. Bræðurnir komu tiltölulega snemma fram og lögðu sitt af mörkum. Meidýraeyðirinn kom um hálfeitt. Aðgengi var inn í allar íbúðir, geymslur og sameign frá kjallara upp í ris og allir íbúar "flúðu" út og héldu sér í burtu í amk þrjá tíma. Við mæðginin fórum á bíl N1 sonarins og gerðum okkur ferð austur á Hellu til að kíkja á pabba/afa. Vorum komin þangað upp úr klukkan hálfþrjú og stoppuðum í hátt í fjóra tíma. Pabbi leit vel út og lét vel af sér. Hann var í fyrstu að hugsa um að skella í pönnsur en svo var ákveðið að grilla í staðinn. Vorum komin heim aftur um níu leytið.

1.8.25

Nýr mánuður

Ég var mætt í sund og á braut 2 um sjö í gærmorgun. Synti flestar ferðir á bakinu því ég þvoði mér um hárið þegar ég var búin með prógrammið. Var komin heim upp úr klukkan níu. Gærdagurinn, líkt og undanfarnir dagar, fór í alls konar sýsl. Farnar voru tvær ferðir í sorpu þar sem slatti fór í nytjagám. Davíð Steinn fékk bílinn sinn úr viðgerð og losnaði í kjölfarið við endurskoðunar miðann.