Það sem þessi tími hleypur sífellt hraðar og hraðar, jafnvel þótt maður sé ekki að gera neitt sérstakt. Það var annars nóg að gera í vinnunni í gær, bæði uppi og niðri. Ég var niðri allan tímann og er smá saman að fóta mig betur og betur í mörgum af verkefnunum. Það er svo sannarlega í mörg horn að líta en það getur líka alveg komið rólegur tími inn á milli. Vorum búin um þrjú svo ég fékk hálftíma í bónus. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í sundið. Gleymdi nefnilega að segja honum að ein frænka mín og nafna í móðurættina, sem var mikið í sveitinni hjá pabba og mömmu fyrstu árin hennar, fimm árum eldri en ég, hafði samband. Það voru skipulagsbreytingar í vinnunni hennar og hún sagði mér að hún hefði hætt strax og væri núna á Spáni að læra spönsku. Kemur ekki heim fyrr en fyrri partinn í apríl. Pabbi þessarar frænku minnar og móðuramma mín voru systkyni. Var komin á braut 7 og 8 um hálffjögur rétt á eftir kalda potts vinkonu minni. Synti 500m á 25 mínútum og var á undan henni í þann kalda. Saman náðum við þó 3 ferðum í þann pott. Var komin heim um hálfsex. Skömmu síðar kom "farfuglinn" minn heim eftir nokkurra daga ferð í Þýskalandi. Hann komst út án þess að þurfa að veifa vegabréfi og fattaði því ekki fyrr en hann var komin til Frankfurt að vegabréfið varð eftir heima. Hann lenti því í smá veseni með að komast heim en það bjargaðist þó fyrir horn. Okkur mæðginum fannst báðum skrýtið að hann hafi gleymt vegabréfinu á borðinu við hliðina á veski og bíllyklum en hvernig sem hann fór að því þá varð amk úr þess góð saga. Hann var annars úti í tæpa viku og hitti tvo af þremum kunningjum. Svo er hann svo heppinn að vera í vaktafríi bæði í dag og á morgun.
12.3.25
11.3.25
Afskaplega þægilegt
Vaknaði stuttu fyrir sex. Sinnti hefðbundinni morgunrútínu nema ég tók smá hvíld frá æfingum með lóð. Vinnudagurinn var í styttra lagi og fór allur fram í klinkinu í "neðra". Það var rólegt framan af morgni, smá hasar um og upp úr hádegi en allt búið fyrir tvö. Líka verkefnin uppi. Það gaf auga leið að það var alltof snemmt að fara strax í osteostrong. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég keyrði að fyrirtækinu Hreysti í Skeifunni. Þar fjárfesti ég í tveimur 2,5kg lóðum. Tók smá rúnt um Öskjuhlíð og Nauthólsvík. Lagði svo bílnum í smástund við Hátún 10 og ákvað að athuga með endurkomutíma vegna úlnliðsins. Þá var klukkan orðin þrjú og búið að loka í móttöku bæklunardeildar. Ég hringi þá bara fyrir þrjú í dag eða á morgun. Mætti í osteostrong uþb klukkutíma fyrir fasta tímann. Var mjög nálægt mínu besta í öllum æfingum. Klukkan var svo aðeins byrjuð að ganga fimm þegar ég fór á braut 8 í Laugardalslauginni og synti 400m. Hitti kalda potts vinkonu mína í okkar fyrstu ferð í kalda eftir sundið.
Kláraði að lesa aðra framlengdu bókina af safninu í gærkvöldi; Dauðaþögn eftir Önnu Rún Frímanndsdóttur. Hún er um mál ungrar konu sem finnst myrt á heimili sínu. Lögfræðingurinn Hrefna fær það hlutverk að aðstoða einn eiganda lögfræðistofunnar sem hún vinnur hjá við þetta mál. Sá eigandi þekkir fjölskyldu fórnarlambsins. Nokkuð spennandi bók og sumt sér maður alls ekki í gegnum og heldur manni á tánum allt til enda.
10.3.25
Rusl
Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun. Var komin á fætur fyrir átta og settist fljótlega við tölvuna hans pabba. Það birtir fyrr og fyrr þessa dagana og í gær var stillt og gott veður eins og undanfarið. Frostið var um 6-7°C en þegar leið á daginn og sólin náði að skína m.a. á mælinn fór hitinn eitthvað yfir núllið. Hafði bleikju í hádeginu, las, prjónaði, lagði kapla og vafraði á netinu. Kvaddi pabba á fimmta tímanum og var komin heim um hálfsex leytið. Hjálpaði Oddi að þrífa svalirnar en hann var loksins að fjarlægja "Fat-boy" sessu/púða sem var búinn að vera það lengi á svölunum að það var komið gat á hann og hluti af innihaldinu farið að flækjast fyrir og fjúka um í roki. Horfði á restina af seinni leik dagsins í enska boltanum Man. Utd - Arsenal 1:1. Horfði líka á línulega dagskrá RÚV, Landann og Matarsögu Íslands. Framundan er vinnuvika í styttri kantinum hjá mér, verð mjög sennilega eingöngu í klinkinu að læra öll handtökin og skráningarnar þar.
9.3.25
Ýmislegt
Ég vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Fór strax á fætur en var þó ekki komin í sundið fyrr en rétt fyrir níu. Synti 600m og fór aðeins eina 5mínútna ferð í þann kalda. Var mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Við lásum 3 bls. í Kon-Tiki. Höfundur og félagar eru byrjaðir að setja saman flekann með góðri aðstoð og á besta stað; aðstöðu sjóhersins í Lima í Perú. Kom heim um hálftólf. Gekk frá sund- og esperantodótinu og setti niður í tösku. Um tólf leytið kvaddi ég Odd og brunaði af stað austur. Kom við í Fossheiðinni á Selfossi án þess að hafa látið vita af mér. Þar var vel tekið á móti mér og stoppaði ég í rúman klukkutíma og átti gott spjall yfir ávöxtum og bolla af tei. Kom til pabba um þrjú. Stuttu síðar kveikti hann á sjónvarpinu og ég dobblaði hann þá til að skipta yfir á rás 12 til að horfa á Liverpool - Southamton 3:1. Höfðum siginn fisk í kvöldmatinn. Pabbi var eitthvað að brasa í tölvunni til klukkan að ganga ellefu en var á undan að ganga til náða. Ég horfði á miðju myndina á RÚV áður en ég fór upp í rúm að lesa. Var sofnuð fyrir miðnætti.
8.3.25
Tuskuprjón
Vaknaði stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun og komst að því að ég hafði ekki stillt vekjarann aldrei þessu vant. Hann hefði svo sem ekki átt að ýta við mér fyrr en korter yfir sex. Var eingöngu í klinkinu í gær en það var þokkalega rólegt og allt búið um eitt leytið. Klóra mér enn í höfðinu yfir sumum verkefnunum en er komin með önnur nokkurn veginn á hreint. Var komin í sund um tvö. Mætti kalda potts vinkonunni þegar ég var að koma inn en hún hafði verið búin í vinnu mun fyrr. Eftir sundið kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti mér harðfisk og einnig í heilsuhúsinu í Kringlunni þar sem ég keypti m.a. beltisþara og frækex. Annars var dagurinn tíðindalítill.
7.3.25
Nokkuð gott
N1 sonurinn flaug á vit ævintýranna til Frankfurt í gærmorgun og verður þar í nokkra daga. Ég hlakka til að heyra ferðasöguna þegar þar að kemur. Annars fór ég ekkert niður í klinkið í gær, var bara í verkefnum uppi. Öllum verkefnum var lokið um tvö leytið og ég var komin í sund upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 400m og hitti svo kalda potts vinkonu mína í fyrstu ferðinni í kalda. Hún fékk eyrnabólgu um daginn og má ekki synda í nokkra daga. Ætlar svo að fjárfesta í eyrnatöppum sem eru góðir fyrir sundið áður en hún skellir sér aftur í laugina. Ég var komin heim um fimm leytið og þrátt fyrir fínasta veður fór ég ekkert út aftur. Það hefði nú alveg verið kjörið að skreppa aðeins í smá göngutúr. En annars á maður ekki að velta sér of mikið upp úr "ef" og "hefði"! Best að horfa fram á veginn en vera sem mest í núinu.
6.3.25
Inniskór
Í gær var ég svolítið eins og jójó í vinnunni. Var að læra hvernig maður meðhöndlar kassa frá bílastæðasjóði þegar ég fékk þau skilaboð að ég þyrfti koma upp í innleggin. Vorum bara 13 í húsi í heildina og aðeins of fáir að bóka. Fljótlega eftir kaffi fékk ég þó að fara niður aftur og hafa tækninmanninn sem kemur til okkar vikulega meðferðis. Hann stillti tvo nauðsynlega hluti inn á mitt svæði í tölvunni. Var niðri fram að hádegi en fór aftur í innleggin eftir hádegi. Verkefnum lauk um þrjú leytið og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Sjórinn var 2°C, mikil fjara og lítil sem engin ferð á logninu. Svamlaði um í uþb 10 mínútur. Fór beint í gufuna í korter, 3 mínútur í lónið og síðustu tuttugu mínúturnar áður en ég fór upp úr og heim var ég sð slaka á í pottinum.
5.3.25
Virðing
Lærifaðir minn í klinkdeildinni byrjaði gærdaginn á því að fara til tannlæknis. Ég var með nokkur verkefni sem ég átti að sinna á meðan og það tókst alveg skammlaust. Að þeim verkefnum loknum gerði ég atlögu að því að skrá mig inn á mín svæði í tölvunni og komst ég alla leið inn í kerfið sem við þurfum að nota mest. Það virðist sem þriðjudagarnir séu líka annasamir niðri en við fengum þó smá "dauðar" stundir inn á milli og þar að auki tókum við til pantanir sem komu eftir klukkan ellefu sem strangt til tekið á þá ekki að vinna að fyrr en næsta virka dag. Dagleg verkefni voru annars búin um þrjú leytið. Ég stimplaði mig út hálftíma áður en átta tímarnir voru liðnir og skráði þann hálftíma sem bónustíma eins og við eigum að gera. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á leiðinni yfir í sund. Hann var bara mjög hress og kátur með að geta sinnt sund rútínunni sinni. Ég synti 500m og hitti svo kalda potts vinonu mína í kalda pottinum. Fórum 3 ferðir í hann og komumst að því að næsti pottur var heitari en sá sem átti að vera heitastur. Eftir gufuferð í lok rútínu, sleppti ég sjópottinum og fór ég upp úr og beint heim.
4.3.25
Æðruleysi
Gleymdi að geta þess í gær að ég skilaði skattframtalinu strax á sunnudaginn var. Allt villulaust og það eina sem ég þurfti að gera var að haka í að uppgjörið verði gert strax í byrjun júni svo það dreifist ekki á nokkra mánuði, staðfesta og senda. Gærdagurinn gekk annars alveg ágætlega fyrir sig. Safnaði yfir 6000 skrefum í heildina og voru líklega hátt í 90% af þeim vegna vinnunnar í klinkinu. Stimplaði mig út eftir akkúrat átta tíma og fór beint í vikulegan osteostrong tíma. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í sundið eftir styrktartímann. Hann fór í sund í gær og fannst mjög gott að komast aftur í kalda pottinn. Ég var byrjuð að synda korter í fimm. Synit 400m á tuttugu mínútum og var búin með eina ferð í þann kalda þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum tvær ferðir í þann kalda og svo í góða gufu áður en ég kvaddi. Var komin heim upp úr klukkan sex.
3.3.25
Ný vinnuvika í nýjum mánuði
Fór á fætur um hálfátta, skömmu eftir að ég vaknaði. Rúmlega klukkutíma síðar var ég komin í sund. Byrjaði á 5 mínútum í kalda pottinum áður en ég fór á brautir 7 og 8 og synti 500m. Eftir næstu ferð í þann kalda fór ég í gufu svo kalda sturtu og sjópottinn. Var búin að vera þar í tíu mínútur þegar mágkona mömmu kom og stuttu síðar kalda potts vinkona mín. Eftir ca 25 mínútur í sjópottinum ætlaði ég að taka loka ferðina í þann kalda með vinkonu minni en þá var búið að loka honum í bili vegna of mikils klórs. Ég fór því bara í kalda sturtu, upp úr og heim. Bjó mér til hafragraut. Restin af deginum fór í alls konar dútl. M.a. fitjaði ég upp á enn einu eldhúshandklæðinu.
2.3.25
Rigningatíð
Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun. Gaf mér tíma í alla morgunrútínu hér heima áður en ég fór í sundið. Klukkan var því langt gengin í níu þegar ég skellti mér á braut 2 í Laugardalslauginni og synti 500m, flesta á bakinu. Fór tvær ferðir í þann kalda, góða gufu ferð og slakaði vel á í sjópottinum. Var á leiðinni upp úr úr kalda pottinum þegar yngsta mágkona mömmu mætti á svæðið svo ég skellti mér smá stund með henni í nuddpottinn. Annars var ég komin til esperanto vinkonu minna rétt rúmlega hálfellefu. Við lásum fjórar bls. í Kon-Tiki. Kvaddi hana um tólf og kom aðeins við í Krónunni við Fiskislóð áður en ég fór heim. Restin af deginum fór í alls konar heima-dútl.
1.3.25
Inni í bókaheimi
Prófaði nýja starfsstöð í seðlaveri RB í gær. Mörg handtökin, skrefin og misþungar lyfturnar í klinksalnum í kjallaranum. Hendurnar urðu skítugar og notuð er sérstök sápa til að skrúbba sig þegar farið er í kaffi eða matarpásur eða í lok vinnudags. En vinnudagurinn leið mjög hratt og það var aldrei "dauð" stund. Gáfum okkur samt extra langan kaffitíma því sú sem var að hætta og við fórum með í göngu og út að borða á fimmtudaginn var mætt í vinnu í síðasta sinn og það var tertuveisla, ræður, blómaafhending, húrrahróp og klapp í samverunni í kaffitímanum. Vinnudegi lauk um tvö leytið og ég er ákveðin í að hafa með mér glósubók og skriffæri niður í klinkið eftir helgi. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í sund. Synti aðeins 400m, fór eina 4 mínútna ferð í þann kalda, góða gufu og slakaði svo á í sjópottinum í rúmt korter áður en ég fór upp úr og heim.