28.2.25

Dropar

Það var vekjarinn sem ýtti við mér korter yfir sex í gærmorgun eftir afar góðan nætursvefn. Ég vaknaði tilbúin í daginn. Morgunrútínan var svipuð nema ég sleppti styrktaræfingunum. Vinnudagurinn leið hratt og var búinn í fyrra fallinu. Skrópaði líka í sundið og var komin heim um þrjú leytið. Upp úr klukkan fimm skipti ég um föt og korter í sex tók ég 13 niður á Lækjartorg. Átti að hitta stóran hluta af vinnufélögunum við Búlluna um sex en var aðeins of sein. Fann þau þó skammt frá, eftir að hafa hringt í fyrrum fyrirliða. Fórum semsagt í uþb klukkutíma göngu um miðbæinn með Stefáni Pálssyni of fræddumst um ýmislegt í leiðinni. Um sjö hitti hópurinn svo þrjá vinnufélaga í viðbót í Steikhúsinu við Tryggvagötu, ská á móti Búllunni. Vorum að kveðja vinnufélaga sem er að hætta vegna aldurs eftir daginn í dag. Hún var með í göngunni líka. Fengum þríréttaða máltíð og það var í boði að fá sér vínglas. Ég hélt mér þó við vatnið, borðaði forrétt og aðalrétt af bestu lyst en hafði ekkert pláss eftir fyrir eftirréttinn. Held að hann hefði hvort sem er verið of sætur fyrir mallakútinn minn. Fékk far heim með þeirr og var komin þangað um tíu. 

27.2.25

Náttúrusund eða sjóbusl

Það sem þessi tími er alls ekki að láta bíða eftir sér. Febrúar alveg að verða búinn og það styttist í smá vetrarfrí hjá mér. Já, ég er búin að fá samþykkta 4 frídaga um miðjan mars og einnig 4 virka daga um miðjan maí. Þar að auki hefur aðal sumarfríið mitt, síðasti dagurinn í júní og allur júlímánuður verið staðfest. En aðeins að gærdeginum. Átti boðað samtal við yfirmann seðlaversins í gær, fyrra samtal þessa árs. Fórum aðeins yfir stöðunum og skiptumst á spurningum og svörum. Ég er mjög ánægð í vinnunni en gat þess þó að ég saknaði kortadeildarinnar sem nú er liðin undir lok. Hann spurði hvort það væri eitthvað sérstakt starf annað innan starfseminnar sem ég hefði áhuga á að prófa og bæta við innleggs/bókunarstarfið og skráði hjá sér tvö atriði varðandi það. Annars afgreiddum við samtalið á uþb korteri og held að við höfum bæði verið sátt. Eftir vinnu fór ég beint í Nauthólsvík og var komin í 1,5°C sjóinn upp úr klukkan þrjú. Fór tvisvar út í, gufuna á milli ferða og var svo í pottinum í tæpan hálftíma áður en ég fór upp úr og heim. Hringdi í pabba og tók stöðuna á honum. Hann segir að heilsan sé öll á réttri leið. Ekki farinn að fara í sund þó en skreppur í Kanslarann í hádeginu. 

26.2.25

Udursamlegt

Held að síðasti dagurinn í keppninni í lífshlaupinu 2025 hafi verið í gær. Ef mig misminnir ekki þá er vel hægt að skrá alla hreyfingu áfram ef maður vill. Ég gerði það fyrir þó nokkru síðan í það langan tíma að mér voru sendar viðurkenningar fyrir mikla og góða hreyfingu. Annars vil ég helst skrá niður að "munaðarlausa" kortaplastið fór út úr húsi í gær. Var sótt af mönnum frá gagnaeyðingu. Hálftíma áður staðfesti vinnufélagi úr öryggisráði þegar við fyrrum fyrirliði hentum plasti sem hafði orðið ónýtt í framleiðslu í tunnuna. Við þrjár fengum svo að fara með þegar sá sem er oftast í afgreiðslunni kom niður og rúllaði tunnunni úr hvelfingunni yfir í skúr 2. Þar sáum við þegar tunnunni var læst og komið fyrir aftur í mjög öryggisvæddum bíl. Þess ber líka að geta að kortavélinni hefur verið komið ofan í 10 kassa og fer úr húsi á næstu dögum. En aðeins að öðru. Tæpum klukkutíma áður en ég var búin í vinnu í gær hringdi kalda potts vinkona mín í mig. Við hittumst í sundi um þrjú. Ég synti í 50mínútur. Hún var komin aðeins á undan mér og byrjuð að synda svo hún gat skroppið aðeins í heita pottinn áður en hún hitti mig í kalda pottinum þegar ég var búin að syda. Kom heim um fimm leytið og þá var að byrja að snjóa. 

25.2.25

Ræður

Síðasta vika mánaðarins byrjuð af krafti. Vinnudagurinn í gær var búinn um þrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í osteostrong. Pabbi var kvefaður og hafði sleppt því að mæta í sund um morguninn. Þar sem hann hafði ekki tilkynnt sig í sundið var hringt í hann um hálfsjö um morguninn og um sjö leytið kom sá sem er yfir sundmálunum aðeins við hjá honum til að athuga hvort það væri ekki örugglega í lagi með hann. Pabbi sagðist svo hafa skroppið á Kanslarann í hádeginu en annars var hann bara heima. Ég mætti auðvitað alltof snemma í styrktartímann en komst samt fljótlega að. Sló met á einu tækinu. Fór svo beint í sund og synti í 50 mínútur, fór aðeins einu sinni 5 mínútur í þann kalda og um 20 mínútur í gufu áður en ég fór upp úr og heim. Stoppaði ekki lengi heima. Gekk frá sunddótinu og fór svo á safnið, skilaði 4 bókum og tók 4 í staðinn. Var búin að framlengja skilafrestinum á tveimur bókum. 

24.2.25

Glimrandi gott

Rumskaði frekar snemma en sofnaði sem betur fer aftur og svaf til klukkan að verða hálfátta. Var komin í sund upp úr klukkan níu og byrjaði á því að synda 20x50m á 50 mínútum. Fór þrjár ferðir í þann kalda, 15 mínútur í sjópottinn og góða gufuferð áður en ég fór upp úr og heim. Heima bjó ég mér til dýrindis hafragraut. Um þrjú leytið skrapp ég í smá göngutúr, labbaði tæpa 3km á tæplega 40 mínútum. Horfði á fótbolta og þætti, prjónaði og las. Er búin með 4 bækur af sex af safninu. Skilafrestur er í vikunni og mun ég að öllum líkindum framlengja frestinum á þeim bókum sem ég er ekki búin með, byrjuð á annarri af þeim. Kláraði eina af hinum í gærkvöldi; Að hálfu horfin eftir Brit Bennett. 

23.2.25

Reynsla

Klukkan var byrjuð að ganga átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Sleppti styrktaræfingunum en gaf mér tíma fyrir netvafr og blogg áður en ég fór í sund. Fór beint á braut 7 tíu mínútum fyrir níu og synti í 50 mínútur, aðra hverja ferð á bakinu. Hitti svo óvænt kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum sem varð til þess að ég fór tvær auka ferðir í hann áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperant vinkonu minnar upp úr klukkan hálfellefu. Lásum næstum 3 bls. í Kon-Tiki í gær. Kom heim upp úr klukkan tólf. Rétt fyrir þrjú skrapp ég út í göngu. Fór 7,1km á 95 mínútum. Kannski var þetta heldur langt því síðustu tíu mínúturnar af göngunni fór ég að finna fyrir óþæginum á nokkrum tám og þegar ég kom heim þurfti ég að draga hægri fótinn upp vegna þreytu og verk í mjöðminni. Sú þreyta lagast alltaf skömmu síðar. Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi ég í eldri systurdóttur mína og söng fyrir hana afmælissönginn, en hún varð 25 ára í gær. Hringdi líka í pabba en talaði bara stutt við hann því það voru gestir hjá honum.

22.2.25

Aftur komin helgi

Vinnuvikan var ekki lengi að líða og kláraðist hún upp úr klukkan tvö hjá mér. Þá lá leiðin fyrst í Katrínartún 4 þar sem ég endurnýjaði rafrænu skilríkin mín í símann hjá Auðkenni. Það var verið að afgreiða 3 á tveimur borðum og einn var á undan í röðinni en þetta gekk fljótt og vel fyrir sig. Þurfti ekki að bíða nema í rúmar fimm mínútur eða svo og endurnýjunin tók bara örfáar mínútur þrátt fyrir að það væru nokkrar aðgerðir og smá bið á milli staðfestingar tvö og þrjú. Var komin í sund fyrir klukkan þrjú. Synti 1km á 50 mínútum og það munar svo sannarlega um að vera með sundgleraugu. Kalda potts vinkona mín byrjaði að synda aðeins á undan mér en hætti mun fyrr. Hitti hana svo í kalda pottinum. Fórum þrjár ferðir saman í hann og eina góða gufuferð. Ég var aðeins lengur í gufunni og tók svo fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim. Kom heim um sex og fór ekkert út aftur. 

21.2.25

Náttúran

Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun. Morgunrútínan á virkum morgni var hefðbundin og ég var svo mætt í vinnuna á sama tíma og oftast. Það var ekkert brjálæðislega mikið að gera í vinnunni og voru öll verkefni búin um tvö leytið. Fór beint í sund en hringdi þó fyrst í pabba sem svaraði gemsanum í fyrstu hringingu. Var komin á braut sex klukkan hálfþrjú og synti kílómeterinn á 50 mínútum. Þvílíkur munur að vera með sundgleraugu. Kalda potts vinkona mín mætti á sama tíma og ég. Hún synti í ca 40 mínútur og hitti mig svo í kalda pottinum þegar ég var búin að synda. Sundið tók í heildina, með öllu, næstum tvo og hálfan tíma. Hringdi í Helgu systur og spjallaði við hana á meðan ég var á leiðinni heim úr sundi. Klukkutíma eftir að ég kom heim skrapp ég út í göngu sem varð nokkuð lengri heldur en undanfarnir göngutúrar, fór 6 kílómetra á 90 mínútum. Veðrið var milt og gott en síðasta rúma korterið fór að rigna svo ég varð að hengja úlpuna mína upp inn á baðherbergi (fyrir ofan sturtubotninn) þegar ég kom heim. 

20.2.25

Ævintýri

Það sem þessi tími þýtur hratt áfram. Gærdagurinn var nokkuð hefðbundinn. Styrktaræfingar, enginferskot, morgunverkin á baðherberginu, netvafr, blogg og mætt í vinnu um hálfátta. Vorum að reyna að setja í lága drifið en engu að síður var allt búið fyrir klukkan tvö. Fór beinustu leið í Nauthólsvík og var komin út í 3°C sjóinn fyrir hálfþrjú og var að busla og hreyfa mig í honum í tuttugu mínútur. Sat svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Setti handklæði í þvottavél, fékk mér hressingu og um fimm skellti ég mér í klukkutíma göngu. Labbaði upp að Perlu og ætlaði beint niður hinum meginn en varð að taka smá sveig í gegnum kirkjugarðinn. Stórt svæði lokað af vegna fellinga trjáa. Hugsanlega óhætt að labba um það svæði þegar vinnu er hætt en ég virti amk merkingarnar í gær. Kom heim um sex, gengin upp að hnjám og mjöðm. Fékk því Odd til þess að fara og hengja upp úr vélinni. Jafnaði mig reyndar frekar fljótt en notaði tímann í annað, m.a. prjón og fótboltagláp. 

19.2.25

Rafræn skilríki

Rafrænu skilríkin í símanum eru að renna út eftir örfáa daga. Ég er búin að endurnýja vegabréfið til að geta sýnt hjá Auðkenni þegar ég mun endurnýja rafrænu skilríkin fljótlega. Er helst að spekulera í því hvort ég verði að endurnýja kóðann sem ég valdi þegar ég fékk mér skilríkin fyrir uþb fimm árum. Það kemur víst bara í ljós þegar ég fer í þetta mál. Annars var gærdagurinn alveg ágætur. Vinnudegi lauk upp úr klukkan tvö. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í sundið. Hann var úti í göngutúr en hafði samt tíma til að spjalla í smá stund. Keypti mér sundgleraugu í afgreiðslunni áður en ég fór inn í klefa. Hef ekki notað né átt svoleiðis í nokkur ár og ekki fundið fyrir því fyrr en ég fór að synda meira en 500m. Synti 1000m á 50 mínútum í gær. Var byrjuð aðeins áunda kalda potts vinkonu minni en hún hætti 10 mínútum á undan mér. Kom heim um fimm leytið og klukkutíma síðar skrapp ég út í 50 mínútuna göngu. Nokkuð mikil hreyfing hjá mér í gær.

18.2.25

Gæðastundir

Vaknaði rétt fyrir klukkan sex. Teygði mig vel áður en ég klæddi mig og bjó um. Æfði mig í tæpar tíu mínútur með 2kg lóð í hvorri hendi. Fékk mér lýsi og sopa af engifer og kanil drykk og sinnti loks morgunverkunum á baðherberginu. Svo hafði ég alveg ágætis tíma til að vafra á netinu og setja inn færslu dagsins. Var mætt í vinnu um hálfátta. Öllum verkefnum mínum var lokið fyrir þrjú og var ég mætt í osteostron uþb klukkutíma fyrir "fasta" tímann. Komst samt strax að. Bætti mig á einu tækinu. Var komin á planið við Laugardalslaugina fyrir klukkan fjögur. Hringdi í eina fyrrum samstarfskonu mína. Var komin á brautir 7 og 8 tuttugu mínútum yfir fjögur. Synti í 40 mínútur eða 800m og var búin með eina ferð í kalda og sat í sjópottinum þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Saman náðum við tveimur ferðum í kalda og góðri gufuferð áður en ég fór upp úr. Kom við í Krónunni í Skeifunni áður en ég fór heim. 

17.2.25

Göngutúr

Svaf svo vel og lengi að klukkan var orðin hálftíu þegar ég hafði mig á fætur í gærmorgun. Var þá aðeins búin að vera vakandi í uþb hálftíma. Rumskaði reyndar stuttlega um miðja nótt þegar unga parið kom af þorrablótinu. Þau komu á fætur upp úr hádeginu og fóru aftur í sveitina hans Bjarka, eða foreldra hans sem eru ekki heima við þessa dagana. Veðrið var dásamlegt en einhvern veginn hafði ég mig ekki strax út. Kláraði söguna um Pa Salt/Atlas, eitt eldhúshandklæði "datt" af prjónunum, lagði nokkra kapla og vafraði eitthvað um á netinu í tölvunni hans pabba. Um tvö byrjaði leikur í enska boltanum; Liverpool - Wolves 2:1. Pabbi byrjaði að horfa með mér en skrapp svo í stutta göngu. Fljótlega eftir að leikurinn var búinn tók ég mig saman, kvaddi pabba og var komin í bæinn um hálfsex. Þremur korterum eftir að ég kom heim dreif ég mig loksins út í það sem átti að vera ca hálftíma ganga en endaði í klukkutíma göngu réttsælis hring í kringum Öskjuhlíðina. 5km á 65mínútum. Þar með er ég búin að hreyfa mig alla daga, nema einn, sem liðnir eru af Lífshlaups-keppninni. Fitjaði svo upp á enn einu eldhúshandklæðinu og prjónaði á meðan ég fylgdist með Landanum og þættinum um íslenska matarhefð fyrr og nú. . 

16.2.25

Orka og kraftur

Stilli sjaldnast á mig klukku um helgar og í gær svaf ég alveg til klukkan að verða hálfsjö. Rétt hitti á N1 soninn áður en hann fór af stað í vinnuna. Gaf mér ágætis tíma í styrktaræfingar, netvafr og blogg og ákvað svo að fara í Sundhöllina. Þessa helgina er nefnilega sundmót í Laugardalslauginni. Mótið svo sem í innilauginni það getur bæði verið erfitt að fá stæði á planinu við laugina, gott skápapláss og jafnvel nægilegan frið til að synda á bakinu á brautunum í útilauginni. Það eru færri og styttri brautirnar í Sundhöllinni, 25m, 4 brautir úti og 4 inni. Ég byrjaði á að skella mér í kalda pottinn korter fyrir níu. Það var aðeins einn að synda í útilauginni og ég skellti mér á braut 4 eftir 4 mínútur í kalda og hafði brautina alveg fyrir mig á meðan ég synti 1000 metra (flesta á bakinu) næstu 50 mínúturnar. Fór aðra ferð í þann kalda og eina ferð í heitasta pottinn sem er annar af þeim tveim elstu. Þvoði mér um hárið og var svo mætt í esperanto hitting um hálfellefu. Lásum tvær bls. í Kon-Tiki. Kom heim um tólf. Pakkaði niður, kvaddi Odd og kom svo aðeins við á N1 við Gagnveg áður en ég brunaði beinustu leið austur á Hellu. Og nei ég var ekki að fara á þorrablótið. 

15.2.25

Laugardagur

Morgunrútínan í gærmorgun var keimlík flestum virkum morgnum. Mætti svo í vinnu um hálfátta. Þrátt fyrir að þrjár þyrftu að fara um og upp úr hádeginu kláruðust verkefni dagsins fyrir klukkan hálfþrjú. Áður en ég fór í sund hringdi ég í afmælisbarn gærdagsins, æskuvinkonu mína hana Ellu og einnig í pabba. Sá síðarnefndi var í smá bíltúr um Rangárvellina, var að hreyfa bílinn aðeins lengra heldur en í sundið, búðina og á Kanslarann. Hitti aðeins á kalda potts vinkonum mína. Hún var búin að synda en við náðum tveimur ferðum í þann kalda áður en ég fór á brautir 7-8 og synti í 40 mínútur eða 800 metra. Ætlaði mér að fara 10 ferðir eða kílómeterinn en allt í einu fylltist allt af krökkum sem voru að hita upp fyrir sundkeppni. Var komin heim fyrir klukkan fimm. Um hálfsex skrapp ég svo í "smá" göngutúr. Fór einn hring um Öskjuhlíð, tæpa 5km ár rétt rúmri klukkustund. 

14.2.25

Lífshlaupið

Það sem ég varð hissa þegar ég fékk skilaboð um hálftvö í gær þess efnis að ég gæti sótt vegabréfið mitt í Kringlunni í Skeifunni eftir klukkan þrjú. Ekki liðinn sólarhringur frá því ég var í myndatöku og ég var ekki að biðja um neina flýtimeðferð. Var búin að vinna upp úr klukkan tvö og fór beint í sund. Hringdi reyndar fyrst í pabba. Var komin á braut 7 tíu mínútum fyrir þrjú. Kalda potts vinkona mín var þá þegar mætt og búin að synda 400m. Ég synti kílómeterinn á 50 mínútum. Hitti svo vinkonu mína í kalda pottinum en hún hafði náð að skreppa aðeins í heitasta pottinn á meðan ég kláraði sundið. Klukkan var svo langt gengin í fimm þegar ég sótti nýja vegabréfið mitt áður en ég fór heim.  

13.2.25

Öryggi

Síðast liðinn mánudag fékk ég skilaboð um að rafrænu skilríkin mín væru að renna út eftir hálfan mánuð og það þyrfti að koma með gild skírteini til að endurnýja þau. Ég á ekki nafnskírteini, vegabréfið rann út í nóvember og mig langar ekki til að framvísa ökuskírteininu ef ég þarf þess ekki. Ég fékk því að fara úr vinnu um tvö í gær til að sækja um nýtt vegabréf. Var búin að panta tíma og allt. Skrifandi um ökuskírteini þá ruglaðist ég aðeins þegar ég kom inn í húsnæðið þar sem sýslumaður höfuðborgarsvæðisins er og byrjaði á því að ná í miða eins og ég væri að sækja um ökuskírteini. Áður en kom að mínu númeri var ég þó búin að átta mig á mistökum mínum og fór yfir ganginn og í réttu röðina. Byrjaði á því að borga hjá gjaldkera til að hafa kvittun tiltæka vegna myndatöku. Þurfti ekki að bíða lengi eftir að komast að í myndatökuna en komst þá að því að ég þurfti að framvísa skilríki og þau voru út í bíl. Ég fékk tíma til að sækja útrunna vegabréfið og svo gekk þetta allt mjög smurt. Var komin út í bíl aftur fyrir klukkan hálfþrjú. Vissi að allt væri að verða búið í vinnunni svo ég ákvað að fara með bílinn í smurningu, 11 mánuðir og tæpir 11000km eknir síðan síðast var smurt. Átti örfáa kílómetra eftir miðað við viðmiðunar miðann á framrúðunni. Komst strax að og þetta tók ekki langan tíma. Fór svo beinustu leið í Nauthólsvík, buslaði í sjónum í 10 mínútur og sat í pottinum í korter áður en ég fór upp úr og heim. Klukkan var þá um fjögur. Klukkutíma síðar skellti ég mér í rúmlega hálftíma 2,8km göngu. Alla hreyfingu skráði ég svo samviskusamlega á vegg lífshlaupsins. 

12.2.25

Virkni

Gærdagurinn byrjaði snemma hjá mér. Var glaðvöknuð um fimmleytið. Skrapp fram á salernið og fljótlega eftir að ég var komin upp í rúm aftur kveikti ég á náttborðs lampanum og fór að lesa aðeins um Atlas/Pa Salt, náungann sem ættleiddi 6 systur frá sex stöðum í heiminum. Þetta er um 750bls bók og ég á eftir að lesa um 200 bls. Rétt fyrir sex fór ég á fætur og gerði nokkrar æfingar með tveimur 2kg lóðum. Æfingarnar taka mig ca 7-10 mínútur. Var annars mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Það voru næg verkefni sem kláruðust þó í fyrra fallinu. Ég var komin í sund um þrjú, á sama tíma og kaldapotts vinkona mín. Við byrjuðum á því að synda í 50 mínútur, 1km. Fórum svo 3 ferðir í þann kalda, tvær í heitasta, 20mín í gufu og um korter í sjópottinn. Þá kvaddi ég en vinkona mín fór auka ferðir í þann kalda. Ég kom heim fyrir klukkan hálfsex. Um sjö leytið skrapp ég aftur út í hálftíma göngutúr, 2,2km. Það er magnað hvaða áhrif það hefur að hafa skráð sig í hóp í Lífshlaupinu sem fer fram þessa dagana. 

11.2.25

Nægjusemi

Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun. Gerði nokkrar æfingar með tveimur 1,5km lóðum þegar ég var búin að klæða mig. Fékk mér lýsi, engifer og kanilskot og vatnsglas og sinnti svo morgunverkunum á baðherberginu áður en ég settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um hálfsjö og fór skömmu síðar af stað í sína vinnu. Ég var mætt í mína vinnu um hálfátta. Verkefni mín dugðu alveg í tæpa átta tíma. Var komin í Hátún 12 í osteostrong rétt fyrir fjögur. Komst strax að og var því komin í sund um hálffimm. Synti í 40 mínútur, 800m og var nýbúin með fyrstu ferðina í þann kalda þegar kaldapotts vinkona mín kom úr leikfimitímanum sínum úr Laugum. Saman fórum við tvær ferðir í þann kalda, 10mínútur í gufu og annað eins í sjópottinn. Þá fór ég upp úr. Klukkan var að verða hálfsjö þegar ég kom heim.  

10.2.25

Afslöppun

Rumskaði aðeins þegar ég heyrði stofuklukkuna slá sjö í gærmorgun. Vissi næst af mér tveimur tímum seinna og var að brölta á fætur um hálftíu. Pabbi var búinn að koma fram á sínum morguntíma um sex leytið. Heyrði að hann var eitthvað að brasa frammi í herberginu sínu en hann kom þó ekki fram fyrr en eftir fréttir klukkan tíu. Við fórum í smá kaplakeppni en settumst svo inn í stofu að spjalla. Ég greip aðeins í útsaumsdótið mitt. Fengum okkur skyr í hádeginu. Stuttu fyrir eitt skrapp ég út í hálftíma göngu og kíkti svo aðeins á vinafólk í Nestúninu. Þar var ég ekki búin að koma langa lengi. Klukkan var að verða þrjú þegar ég kom aftur til pabba. Greip aðeins í prjónana en skömmu síðar vorum við feðgin aftur komin í kaplakeppni. Ég fékk mér smá te og frækex. Upp úr klukkan fjögur pakkaði ég niður og kvaddi pabba. Gerði klukkutíma stopp í Löngumýrinni á Selfossi svo klukkan var orðin meira en hálfsjö þegar ég kom heim. Lánaði Oddi bílinn því Davíð Steinn var nýkominn úr vinahittingi og ákvað að geyma verslunarferð þar til eftir vinnu í dag, mánudag. 

9.2.25

Ð

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Klukkan var samt alveg að verða níu þegar ég byrjaði að synda á braut 7 í Laugardalslauginni. Synti í heilar 50 mínútur sem var akkúrat 1km. Var fimm mínútur í kalda pottinum, tuttugu í gufu, 15 í sjópottinu og svo hálfa mínútur áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Þegar ég kom heim kláraði ég að pakka niður, hafði byrjað að taka til dót og tösku áður en ég fór í sundið, og fékk mér smá af grískri jógúrt. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég bankaði upp á hjá öðrum syninum til að láta vita að ég væri að stinga af. Rétt áður en ég brunaði af stað hringdi ég eitt stutt símtal. Niðurstaðan úr því símtali var sú að ég kom við í Fossheiðinni á Selfossi og stoppaði þar í dágóða stund. Fyrsta heimsóknin á þessu ári. Ég hélt svo för áfram á Hellu, líka fyrsta heimsóknin á árinu. Veðrið var annars dásamlega milt og gott og alls engin ferð á logninu. Um fimm skrapp ég aðeins út í stutta göngu, 1,5km á tuttugu mínútum. Alla hreyfingu dagsins skráði ég inn á Lífshlaupið sem er hafið. Við pabbi höfðum svo siginn fisk í kvöldmat sem var borðaður eftir kvöldfréttir, íþróttir og veður. 

8.2.25

Í þungum þönkum

Gærdagurinn var ekki lengi að líða. Nóg að gera í vinnunni en þó allt búið um tvö leytið. Hringdi í pabba og talaði við hann á meðan ég var að keyra frá vinnu yfir á planið við Laugardalslaug. Var komin á braut 8 á slaginu hálfþrjú. Færði mig fljótlega yfir á braut 6. Synti 700m á 35 mínútum. Kalda potts vinkona mín var komin á svæðið en hún var ekki með sundhettuna og beið eftir mér í sjópottinum. Var þó búin að fara eina ferð í þann kalda. Saman náðum við þremur ferðum í hann. Ég fór fjórðu og síðustu ferðina mína áður en ég fór upp úr. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim. Var að athuga með dokku af tuskugarni í ákveðnum lit. Fann hann ekki en keypti smá af öðrum litum sem gætu passað með litnum á eldhúshandklæðinu sem er á prjónunum þessa dagana.  

7.2.25

Veðrið

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Morgunrútínan var keimlík flestum virkum morgnum. Mætti í vinnu um hálfátta og var fljótlega byrjuð á innleggjum. Vorum búin með fyrirliggjandi verkefni nokkru fyrir hádegi en vegna veðurs var ekki von á meiru fyrr en um miðjan dag. Bílarnir skiluðu sér inn milli tvö og rúmlega þrjú. Hjálpuðumst að við að taka á móti og vorum búin um hálffjögur. Var komin í sund um fjögur. Kalda potts vinkonan var búin að synda í hálftíma. Við fórum þrjár ferðir í þann kalda og í gufuna og svo kom hún aftur út á braut 8 og synti í tuttugu mínútur. Ég synti 700m á 25 mínútum og mun sá tími verða skráður í Lífshlaupið. Kom aðeins við í Heilsuhúsinu í Kringlunni á leiðinni heim. Þar fæ ég nefninlega alltaf beltisþara ef ég finn hann ekki í Hagkaup. 

6.2.25

Mikil hraðferð á logninu þessa dagana

Var komin á fætur og búin að gera æfingar með lóðum rétt upp úr klukkan sex. N1 sonurinn fór af stað í sína vinnu um hálfsjö. Ég hafði ágætis tíma í smá netvafr, leiki og bloggfærslu. Mætti í vinnu um hálfátta. Vorum tveimur færri en á þriðjudaginn og um þrjú var verið að hvetja okkur til að ganga frá og fara heim. Þá vorum við búin. Ég var með sjósundsdótið meðferðis en það var búið að loka í Nauthólsvík og á leiðinni heim heyrði ég að það væri verið að loka öllum sundlaugum líka. Eins gott því það gekk yfir svaka eldingaveður seinni partinn í gær og fram á kvöld. Ég var því komin heim fyrir fjögur. N1 sonurinn kom ekki heim fyrr en rétt fyrir tíu. Hann hafði verið að vinna til sjö og svo skroppið í heimsókn til vina í engjahverfinu. 

5.2.25

Umhleypingar

Það var vekjarinn sem ýtti við mér á sjöunda tímanum í gærmorgun. Hafði reyndar rumskað eitthvað um hálffimm leytið en sem betur fer sofnaði ég aftur. Var að dreyma eitthvað en það gleymdist um leið og hljóðið í vekjaranum fór af stað. Vorum þremur fleiri í vinnu í gær og það munaði um það. Þrátt fyrir að meira væri að bóka vorum við búin aðeins fyrr í gær heldur en á mánudaginn. Var komin í sund um fjögur. Synti 500m á braut 7. Sat svo fimm mínútur í kalda pottinum. Fór þaðan beint í gufuna í fimmtán mínútur svo kalda sturtu áður en ég fór í sjópottinn í korter. Rétt áður en ég fór upp úr fór ég svo aftur í þann kalda en aðeins í tvær mínútur. Það er greinilegt að kalda potts vinkonan ver ekki á svæðinu því þá hefði ég líklega farið 3-4 ferðir í þann kalda. Kom við á Prepp-barnum á leiðinni heim og splæsti á mig afmælistilboði sem ég tók með mér og borðaði heima. 

4.2.25

Lending

Vorum í færri kantinum í vinnu í gær. Var að bóka til klukkan þrjú og fara yfir skjöl síðustu þrjú korterin. Dreif mig beinustu leið í osteostron og var komin þangað ca sjö mínútur yfir fjögur. Komst strax að og nýr leiðbeinandi fékk að fylgja mér í gegnum upphitun og styrktar og jafnvægisæfingar. Eftir átta mínútna slökun og vatnsglas á eftir var klukkan rétt að verða hálffimm þegar ég kvaddi og fór beinustu leið í sund. Spjallaði reyndar aðeins við pabba áður en ég fór inn í klefa. Synti ekkert en hitti á kalda potts vinkonu mína í heitasta pottinum eftir fyrstu ferðina í þann kalda. Fórum sama tvær ferðir í kalda pottinn. Ég fór upp úr og heim eftir gufuna og smástund í sjópottinum. 

3.2.25

Línudans

Vaknaði rétt fyrir sjö. Tæpum tveimur tímum síðar var ég komin í sund. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég fór á brautir 7 og 8. Synti blandað sund og helst á bakinu. Var búin með 400m þegar ég hitti á sjósunds vinkonu mína og manninn hennar. Þau voru að klára á braut sex. Hafði ætlað mér að synda 100-200m í viðbót en það varð úr að ég elti vinkonu mína í sjópottinn. Eftir rúmar tíu mínútur þar fórum við saman 4 mínútur í þann kalda. Eftir það fór hún upp úr en ég í smá gufu. Þvoði mér svo um hárið og var komin vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar stuttu fyrir klukkan ellefu. Við lásum tvær bls. í Kontíki. Var komin heim fyrir klukkan eitt. Fór ekkert út aftur en fjórar ferðir í þvottahúsið. Annars var ég að prjóna, lesa og /eða horfa á bolta og þætti. Dagurinn var ekki lengi að líða frekar en oftast áður. 

2.2.25

Öfugsnúið

Vaknaði upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun. Dreif mig fljótlega á fætur. Á níunda tímanum ákvað ég að sleppa sundferð og taka því bara rólega fram yfir hádegi. Var að vafra á netinu, fór fljótlega að lesa og um tíu kveikti ég á imbanum. Klukkan var byrjuð að ganga þrjú þegar ég dreif mig aðeins út í stutta göngu, 2,5km á tæpum hálftíma. Var komin inn aftur rétt áður en leikur Bournmouth og Liverpool hófst sem fór 0:2 fyrir gestaliðið sem er á toppnum í deildinni. Heimaliðið var ekki búið að tapa sl ellefu leiki og lét alveg Liverpool hafa fyrir þessum sigri. Kláraði tvær af safnbókunum í gær. Önnur þeirra er Hvítalogn eftir Ragnar Jónasson. Er búin að lesa ríflega 130bls af bókinni um Pa Salt en hún er 750 bls. Ég er líka að lesa næst síðustu jólabókina; Gólem eftir Steinar Braga. Og á þá einungis eftir að byrja á og lesa Yrsu, Ég læt sem ég sofi. Svo eru þrjár bækur í viðbót af safninu og nokkrar fleiri ólesnar. 

1.2.25

Rok og rigning

Í gær var síðasti dagurinn í janúar, heill mánuður liðinn frá áramótum. Vinnudagurinn var frá ca tuttugu mínútum í átta til klukkan að ganga þrjú. Megnið af honum fór í innlegg/bókanir en síðasta hálftímann var ég að yfirfara skjöl. Þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis tók ég ákörðun um að fara bara heim. Kom þó við í fiskbúðinni og keypti mér harðfisk og bleikjuflak. Ég var því komin heim áður en klukkan varð þrjú. Restin af deginum var nokkuð fljótur að líða. Fór í háttinn klukkan tíu og las í hálftíma. Var líka búin að lesa fyrr um daginn, fitja upp á prjóna og glápa á imbann.