Þar sem töluverður tími fór í alls konar hugsanir og áætlanir þegar ég rumskaði um tvö í fyrrinótt var ég ekki tilbúin að fara á fætur um sex leytið. Klukkan var reyndar farin að ganga níu þegar fasteignasalinn hringdi í mig. Það kom beiðni frá kaupendunum um hvort þau mættu koma með smið með sér í næstu viku. Við ákváðum að það væri velkomið að koma eftir hádegi á mánudaginn kemur. Sagði henni frá tilboðinu og hún ráðlagði mér að breyta því aðeins, hafa hærri fyrstu útborgun, aðal greiðsluna hæsta eftir að ég væri búin að fá tvær innborganir frá kaupendunum og halda eftir einni millijón sem ég greiddi upp við afsal. Sendi strax á hinn fasteignasalann. Um ellefu leytið fékk ég send ýmis gögn og tillögu að tilboði sem hún ráðlagði mér að fá fasteignasalann minn til að lesa yfir. Aðeins þurfti að breyta smá en rétt fyrir hádegi í gær skrifaði ég rafrænt undir kauptilboð frá mér sem gildir til klukkan 12 nk mánudag. Um miðjan dag uppgötvaði ég það að ég hafði skilið fjölmiðlamælinn minn eftir undir koddanum en ekki sett hann í vasann þegar ég fór á fætur á níunda tímanum. Ekkert varð úr sjó- eða sundferð í gær en um hálffjögur fór ég út í nokkuð góðan göngutúr. Settist niður á bekk í Öskjuhlíðinni eftir klukkutíma göngu, þaðan átti ég svo 13 mínútur eftir heim eftir rúmlega hálftíma setu á bekknum og nokkur símtöl.
30.8.25
29.8.25
Föstudagur
Í gærmorgun var ég mætt á braut 7 um hálfátta. Hafði brautina alveg útaf fyrir mig. Synti 600 á rúmum 25 mínútum, flesta á bakinu en sennilega uþb 200m skriðsund líka. Hitti svo kaldapotts vinkonu mína í okkar fyrstu ferð af fimm í kalda pottinum. Gaf mér mjög góðan tíma í alla rútínu þannig að í heildina tók sundferðin rétt rúmlega tvo tíma. Kom heim rétt fyrir tíu. Um ellefu tæmdi ég rauða bakpokann og labbaði með hann á bakinu í Fiskbúð Fúsa. Þar verslaði ég harðfisk, ýsu, sneið af laxi og nokkrar glútenlausar fiskibollur til að smakka. Var komin heim aftur fyrir klukkan tólf. Setti upp kartöflur og ýsuna. Harðfiskurinn fór í eina skúffu og laxabitinn og fiskibollurnar í frystinn. Var alltaf á leiðinni út aftur en gleymdi mér aðeins við lestur; Völundur eftir Steindór Ívarsson, mjög spennandi bók. Rétt fyrir fimm var ég mætt á opið hús á tveggja herbergja íbúð á 4. hæð við Núpalind. Sama hæð og blokk og ég fór á opið hús á þriggja herbergja íbúð sl. þriðjudag. Einhvern veginn leið mér strax eins og ég væri að koma heim þegar ég kom í íbúðina í gær og nú er verið að setja saman tilboð frá mér í fasteignina. Hringdi í tvíburahálfsystur mína strax og ég var búin að skoða og taka með mér upplýsingar. Við sammæltumst um að ég kæmi til hennar um átta leytið. Fór heim í millitíðinni að melta hughrifin og sendi m.a. póst á fasteignasalann. Mætti til Sonju rúmlega átta. Hún hjálpaði mér við að gera ferilsskrá svo ég geti farið að demba mér út í atvinnuleit. Kvöldið leið ótrúlega hratt og var klukkan orðin hálfellefu áður en ég kvaddi og fór heim. Þurfti svo auðvitað að lesa smávegis áður en ég fór að sofa.
28.8.25
Fimmtudagur
Í gærmorgun var ég vöknuð rétt upp úr klukkan fimm. Sofnaði ekki aftur en fór þó ekki á fætur fyrr en um sex. Í gær var sjósundsdagur en áður en ég skellti mér í sjóinn fór ég í bókabúð vestur á Fiskislóð til að kaupa námsbók fyrir mág minn sem byrjar í sínu meistaranámi eftir næstu helgi. Hringdi í mág minn og spurði hvernig hann vildi að ég kæmi pakkanum til hans. Um tvær leiðir var að velja; fá Advania vinnuna hans til að senda honum eða fara með þetta beint í flug. Hann valdi seinni leiðina. Var heppin að fá stæði við Nauthólsvík, mjög nálægt Nauthól, þegar ég kom þangað tuttugu mínútum yfir ellefu. Sjórinn 12,1°C og ég synti út að kaðli. Eftir tíu mínútur í gufunni á eftir fór ég aftur út í sjó. Kom ekkert við í pottinum áður en ég fór upp úr. Næst lá leiðin í Eymundsson í Kringluna þar sem ég fjárfesti í umslagi utan um námsbókina og merkipenna. Þegar ég kom í bílinn aftur setti ég bókina í umslagið, lokaði því og merkti. Fór svo beint út á flugvöll. Klukkan var farin að ganga tvö þegar ég kom heim aftur. Upp úr klukkan fjögur dreif ég mig af stað yfir í Kópavoginn. Var búin að mæla mér mót við fasteignasala vegna Lautasmára 3 um hálffimm. Ég var mætt nokkrum mínútum fyrir það en fasteignasalinn tafðist í umferðinni. Hann lét mig vita og ég beið róleg. Hann kom tíu mínútum fyrir sex. Íbúðin er alveg fín. Svalirnar eru ekki yfirbyggðar, snúa út að Smáralindinni og þaðan kemur mikill umferðarniður. Skoðaði einnig geymsluna í kjallaranum, þar er ágætis pláss. Tók með mér gögn um íbúðina og fasteignasalinn benti mér á að ég mætti alveg bjóða lægra en uppsett verð ef ég hefði hug á því að kaupa. Eigendur eru fluttir til Ástralíu og íbúðin hefur verið í útleigu. Málið er samt að þótt staðsetningin sé ágæt, nóg af stæðum og að ég gæti fengið íbúðina afhenta við undirskrift kaupsamnings er ég ekki alveg að finna mig þarna. Ég verð að vanda mig og gefa mér smá tíma. Er viss um að allt er í hárréttum farvegi.
27.8.25
Smá valkvíði
Var vöknuð fyrir klukkan sex en festist í smá rútínu svo klukkan var að verða sjö þegar ég fór úr húsi. Fyrst lá leiðin á Reykjavíkurflugvöll, bygginguna þar sem tekið er á móti eða sóttir pakkar í flug. Of seint var að senda pakkann með fyrstu vél, hefði þurft að mæta amk korteri fyrr. En það kom reyndar ekki að sök þótt pakkinn færi með næsta flugi sem var rúmlega ellefu. Ég var svo mætt í Laugardalinn stuttu fyrir hálfátta. Fór beint á braut 8 og synti 500m, þar af helminginn skriðsund. Ég kom heim aftur upp úr klukkan níu. Ég var ekkert voðalega dugleg í sýslinu. Var meira og minna að fletta fasteignasíðunum, lesa og stundum glápa á eitthvað. Hitti frænku mína og nöfnu um fimm við Núpalind 6. Vorum á undan fasteignasölunum enda var opna húsið auglýst frá 17:15. Leist enn betur á þessa blokk og þessa íbúð heldur en íbúðina við Funalind. Ég er einnig búin að sjá að það er opið hús á sömu hæð á morgun þar sem er tveggja herbergja íbúð til sölu. Myndirnar frá henni kalla á mig og það er spurning hvort ég athuga hvort ég geti fengið forskot á að skoða. Með öllum íbúðum í húsinu fylgja geymslur á jarðhæð, það er nóg af stæðum við blokkina og þá er bara spurning hvort ég eigi frekar að miða á tveggja herbergja íbúð en þriggja. Auðvitað gæti verið gott að vera með auka herbergi en mér sýnist að þurfi að gera minna fyrir minni íbúðina. Ég hafði líka samband við fasteignasala sem er að selja íbúð við Lautarsmára, fasteign sem tvíburahálfsystir mín benti mér á. Sú íbúð fengist afhent við undirritun. Er búin að bóka skoðun en fundargerð húsfélags bendir til að húsið sé komið á viðhald, eitthvað um leka og ósamkomulag íbúa. Það er ekkert voðalega spennandi tilhugsunar. Nú svo á kannski eftir að "detta" inn enn betri eign og staðsetning. Í augnablikinu er ég samt mjög heit fyrir Núpalind.
26.8.25
Þriðjudagsmorgunn
Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun en vissi fljótlega að ég væri ekki tilbúinn til að drífa mig af stað í sund. Ákvað frekar að taka því aðeins rólega til að byrja með og labba frekar í osteostrong tíma upp úr klukkan átta. Var mætt í Hátúnið um hálfníu og komst strax að. Eftir tímann, slökun og vatnsglas labbaði ég aðeins aðra leið heim. Hafði svo hugsað mér að fara frekar í sund seinni partinn og hitta aðeins á kalda potts vinkonu mína. Ekkert varð úr þeim áætlunum því ég bókaði tíma í skoðun á fasteign í blokk við Furugrund í Kópavogi um hálfsex. Um þrjú hringdi Bríet í mig og spurði hvort ég gæti keypt námsefni fyrir hana þar sem lokaði klukkan fjögur og hvorki hún né Bjarki kærasti hennar hefðu náð í bæinn fyrir þann tíma. Ég dreif mig í málin. Ákvað að leggja við Háteigskirkju og rölti þaðan að Brautarholti 8. Rétt áður en ég kom á staðinn hringdi Ingvi mágur minn í mig og bað mig um að kaupa sama námsefni fyrir systur mína. Þær mæðgur voru að hefja meistaranám í kjötiðn í fjarnámi frá MK í gær. Verið var að setja saman námsefnið og ég þurfti að bíða í smá stund eftir að ég var búin að greiða fyrir efnið. Var þó komin út úr versluninni áður en klukkan varð fjögur. Námsefnið seig í á göngunni að bílnum aftur. Næst lá leiðin að N1 við Gagnveg. Umferðin var orðin þung og klukkan var rétt orðin hálffimm þegar ég kom þangað. Bjarki var þá nýkomin á staðinn úr vinnunni sinni frá Selfossi. Davíð Steinn var á vakt og var að afgreiða hann. Svo brunaði pilturinn austur í sveit. Ég stoppaði aðeins lengur og spjallaði við soninn og samstarfsmanninn. Var mætt við Funalind amk tuttugu mínútum fyrir valinn tíma. Beið út í bíl því ég átti von á frænku minni og nöfnu á staðinn. Hún var ekki komin klukkan hálf svo ég fór upp að skoða og spjalla við fasteignasalann. Frænka mín kom 5 mínútum síðar, hafði villst á staðinn þar sem er opið hús seinni partinn í dag. Leist annars ágætlega á þessa fasteign sem ég skoðaði í gær. Á heimleiðinni kom ég við í Eymundsson í Kringlunni til að kaupa stórt umslag fóðrað með bóluplasti til að setja utan um námsgögnin hennar systur minnar.
25.8.25
Drápuhlíð
Vaknaði í fyrra fallinu í gærmorgun. Tókst ekki að sofna aftur en það leið amk klukkutími áður en ég fór á fætur. Tvíburahálfsystir mín vaknaði á meðan ég var að klæða mig og ganga frá sumu af dótinu mínu. Morgunmatur var borðaður um níu leytið. Við vinkonurnar ákváðum að pakka okkur saman og ferma bílinn en taka samt í smá borðspil með tvíburahálfforeldrunum áður en við færum að síga heim á leið. Klukkan var um tólf þegar við þökkuðum fyrir okkur, kvöddum og héldum af stað nestaðar fyrir daginn. Keyrðum alla leið á Blöndós og gerðum fyrsta stopp þar. Skoðuðum heimilisiðnaðarsýningu í húsi við hliðina á gamla húsmæðra/kvennaskólanum. Gáfum okkur góðan tíma enda margt mjög flott og fróðlegt að sjá. Á eftir borðuðum við hluta af nestinu áður en við héldum för áfram. Keyrðum aðeins í gegnum elsta hverfið en næsta stopp var svo gert á Hvammstanga. Keyrðum um svæðið og fundum svo verslun og safn sem var opið til fimm. Vorum komnar þar rétt fyrir hálffimm. Mæli annars með þessu safni, það er m.a. um fyrstu verslunina á staðnum. Næsti áfangi var Laugabakki en þar keyrðum við aðeins um en stoppuðum ekki neitt. Stoppuðum við Staðaskála til að fá að fara á salerni, keyptum okkur sódavatn og borðuðum svo afganginn af nestinu. Eftir þetta stopp var ekki stoppað aftur fyrr en fyrir utan Drápuhlíð. Þá var klukkan að byrja að ganga níu. Ég tók dótið mitt, kvaddi með knúsi og þakkaði fyrir ferðina. Sonja hitti þarna líka á fyrrum samstarfskonu.
24.8.25
Um laugardag
Svaf eiginlega út í gærmorgun, vaknaði ekki fyrr en um hálfátta leytið. Ekkert löngu síðar voru allir komnir á fætur og borðuðu morgunmat saman. Rétt fyrir ellefu fórum við Sonja í sund. Eftir sundið komum við við í Krónunni þar sem við hittum aðeins á Helgu systir. Þegar við komum til baka í Furulundinn var boðið upp á dýrindis hafragraut. Skömmu eftir að búið var að ganga frá eftir matinn var ákveðið að fara í bíltúr til Siglufjarðar. Veðrið var enn betra en á föstudeginum. Keyrðum um alla "smá" staðina á leiðinni og stoppuðum aðeins í sælkerabúð utan við Dalvík. Eftir góðan rúnt um Siglufjörð var klukkan um sex þegar við héldum aftur "heim" á leið. Vorum rétt rúman klukkutíma á leiðinni til baka.Þá var græjaður grillmatur nánast á núll einni. Vel var borðað og eftir frágang var spilað skemmtilegt borðspil fram eftir kvöldi.
Um föstudag
Þrátt fyrir að hafa farið að sofa á tólfta tímanum á fimmtudagskvöldið var ég vöknuð frekar snemma á föstudagsmorguninn. Ég var þó ekki fyrst á fætur. Allir voru komnir fram um hálfníu og þá var borðaður morgunmatur. Upp úr hádeginu var ákveðið að fara í bíltúr til Mývatns. Þar var komið við í sælkerabúð við stað sem heitir Hella. Í bakaleiðinni fórum við til Húsavíkur og gerðum smá stopp þar. M.a. í Nettó þar sem var keypt smá nesti. Vorum komin í Furulundinn aftur um sex að mig minnir eftir frábæran bíltúr í fínasta veðri. Reyndar var þokuloft við ströndina við Akureyri framan af degi en það skemmdi ekkert fyrir okkur.
Um fimmtudag
Ég dreif mig í sund rétt rúmlega sjö. Synti 500m, flesta á bakinu. Hitti kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum um átta. Fórum saman fjórar ferðir í þann pott, en skiptum hinum ferðunum milli 42°C, 44°C, gufunnar og sjópottsins. Kvaddi um níu leytið. Þvoði mér um hárið og áður en ég brunaði vestur á Sólvallagötuna samþykkti ég kauptilboðið sem frá parinu sem kom að skoða sl. mánudag. Fyrirvarar voru m.a. um ástands skoðun sem fram fer einhvern daginn í komandi viku. Var komin til Inger, með íslensku útgáfuna af Kon Tiki, um hálf tíu leytið. Lásum tvær bls. í esperanto útgáfunni. Var komin heim til mín um tólf leytið. Sýslaði ýmislegt til klukkan að ganga þrjú. M.a. hringdi ég í Ellu vinkonu. Um þrjú var ég búin að pakka niður fyrir þriggja daga ferðalag. Tvíburahálfsystir mín kippti mér upp um hálffjögur og við brunuðum sem leið lá norður á Akureyri. Stoppuðum aðeins í Varmahlíð til að tappa af og kaupa okkur sódavatn. Vorum komnar á Akurreyri um níu. Foreldrar Sonju tóku á móti okkur í stjórnendaíbúð við Furulund með steiktri bleikju og nýjum soðnum kartöflum.
21.8.25
Fleiri að skoða og tvö tilboð komin
Vetraropnun í Nauthólsvík þýðir að nú opnar klukkan ellefu en ekki tíu, það er lokað á sunnudögum og mánudögum og styttri opnunartími á laugardögum. Ég var samt næstum því hætt við að fara í sjóinn í gær því þegar ég kom að um ellefu voru öll stæði upptekin. Hringsólaði smávegis og athugaði með stæði við HR þar sem ég veit að megnið af bílunum á planinu við Nauthólsvík var undirlagt af háskólanemum. Fann reyndar eitt stæði en það var það langt frá að ég ákvað að gera aðra tilraun við Nauthólsvík. Þá hafði losnað eitt stæði og tvö önnur voru reyndar að losna. Var komin í sjóinn, 13,7°C korter yfir ellefu. Synti, svamlaði og "labbaði" út að kaðli í rólegheitum. Eftir ferð í gufuna fór ég aftur í sjóinn í smá stund. Sat svo í pottinum í rúman hálftíma því ég lenti á spjalli við konu eina sem kemur labbandi eða hjólandi úr hverfinu rétt ofan við Hlemm. Var komin heim stuttu fyrir klukkan eitt. Fimm korterum síðar kom fasteignasalinn og um hálfþrjú kom ungt par að skoða í búðina. Ég heilsaði þeim en lét fasteignasalann sjá um að sýna og segja þeim frá eigninni. Þegar þau fóru niður í geymslu, þvottahús og út varð ég eftir uppi og settist út á svalir. Þegar unga parið og fasteignasalinn voru farin hringdi ég aðeins í Helgu systur. Um fimm leytið skrapp ég út í stutta göngu. Settist á bekk við Klambratún og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Spjölluðum í um hálftíma og þá hélt ég göngunni áfram, labbaði 2km frekar rólega því ég var tæpan hálftíma. Fljótlega eftir að ég kom heim hafði fasteignasalinn samband og sagði að það væri komið tilboð frá unga parinu en hún sagði líka að parið sem kom sl. mánudag væri að vinna í að gera tilboð líka. Það tilboð barst um hálftíu í gærkvöldi. Bæði tilboðin eru með fyrirvara um ástands skoðun eignar á tímabilinu 25.29. ágúst og ég fæ 30 daga til að finna mér aðra eign og flytja út. Ævintýrin halda áfram. Og að þessum skrifuðum orðum vil ég koma því á framfæri að ég taki mér nokkurra daga færslupásu. Hugsanlega set ég eitthvað stutt inn en líklegra er að næsta færsla verði ekki fyrr en eftir helgina.
20.8.25
Vetraropnun í Nauthólsvík
Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar ég mætti í Laugardagslaugina í gærmorgun. Samt var ég vöknuð á sjöunda tímanum. Fór beint á braut 8 en færði mig svo á braut 7 eftir fyrstu hundrað metrana af 500. Synti til skiptis bringusund og skriðsund. Sundrútínan varði annars hátt í tvo tíma með öllu. Einhvern tímann eftir að ég kom heim aftur hringdi ég í fasteignasala sem sjá um sölur á íbúðum við Þorraholt 1. Fyrra númerið svaraði ekki en sá hringdi til baka upp úr hádeginu. Hinn svaraði strax en þurfti aðeins að kanna málið varðandi síðustu tveggja herberja íbúðina. Þegar hann hafði samband aftur og bauð mér að skoða ákváðum við að hittast um þrjú leytið. Rétt fyrir eitt hringdi frænka mín og nafna sem hefur verið að hjálpa mér. Hún var búin í vinnunni og á leiðinni í nudd en hún sagðist alveg geta komið og skoðað með mér. Íbúðin reyndist stórfín. Kannski smá galli að útsýnið, sem er stórglæsilegt í dag, mun hverfa þegar blokk í byggingu aðeins neðar verður risin. En íbúðin er líklega hvort sem er nánast seld. Sem fyrr er tilfinning mín líka sú að ég finni ekki næsta stað fyrr en ég hef selt mína íbúð. Það er þó gaman að skoða sig um og máta sig við hin og þessi svæðin. Fór beint heim aftur þar sem ein vinkona mín sem býr við Skógarhjalla svaraði ekki síma. Hún hringdi til baka fljótlega eftir að ég kom heim. Annars var ég að lesa í einni af bókunum af safninu; Týndur eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Nokkuð spennandi bók og meira grípandi heldur en bókin sem ég sagði frá í gær. Í gærkvöldi hringdi í mig fyrrum formaður safnaðarstjórnar óháða safnaðarins. Hún ég og frændi hennar erum enn í nefnd um Bjargarsjóð. Það hafði borist umsókn um styrk sem hún vildi bera undir mig. Ég var meira en 100% sammála um að veita þennan styrk svo það mál er afgreitt með öllum greiddum atkvæðum.
19.8.25
Lagt inn í lang-besta bankann
Klukkan var farin að ganga átta þegar ég mætti í sundið í gærmorgun. Byrjaði á ferð í kalda pottinn og endaði á því að synda aðeins 100m, þar af helminginn skriðsund. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Eftir tímann fór ég aðeins heim til að ganga frá sunddótinu mínu. Um hálftíu var ég mætt í Hlíðasmára 1 að sækja skjöl úr þinglýsingu. Það gekk fljótt og vel fyrir sig. Næst lagði ég bílnum á stæði við Háteigskirkju og rölti þaðan niður í Borgartún 21 þar sem ég skilaði af mér skjölunum í hsm. Áður en ég fór heim aftur fór ég á Kringlusafnið og skilaði af mér þremur bókum. Ég var búin að vera með Kon Tiki í tæpa sextíu daga. Prófaði samt hvort ég gæti fengið hana lánaða strax aftur og það gekk upp. Tók reyndar 4 aðrar bækur líka sem var kannski jafnvel tveimur of mikið. Ein af þeim bókum heitir Dauðadómurinn þar sem Steinunn Kristjánsdóttir skrifar um mál Bjarna Bjarnasonar frá Sjöundá út frá hans sjónarhorni. Þau skrif eru byggð á heimildum sem vísað er í á hverri einustu bls. Er aðeins byrjuð að glugga í þessa bók og er enn ekki alveg viss um hvað mér finnst og hvort ég eigi eftir að lesa hana alla. Rétt fyrir hálfþrjú kom fasteignasalinn og skömmu síðar hringdi sá sem var búinn að bóka skoðun. Ekki til að aflýsa heldur til að láta vita að hann væri fastur í umferðinni og myndi tefjast. Sú töf var þó ekki mjög löng. Þau komu þrjú saman að skoða. Eftir að þau og fasteignasalinn voru farin tók ég eftir að ég hafði fengið bæði sms og tölvupóst frá blóðbankanum. Prófaði að bóka tíma um sex og innan nokkurra mínútna kom staðfesting á þeirri bókun. Klukkan var ekki orðin fjögur þegar þetta var. Hringdi aðeins í pabba. Hann er búinn að koma sláttuvélinni í lag og var búinn að slá fyrir framan hús. Um hálfsex labbaði ég af stað í blóðbankann. Þar gekk allt mjög vel fyrir sig og ég var komin heim aftur fyrir klukkan sjö.
18.8.25
Mánudagur
Var komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gærmorgun. Tók fljótlega þá ákvörðun að stefna að sjósundsferð því eftir daginn í dag byrjar vetraropnun í Nauthólsvík aftur og þá verður lokað alla sunnu- og mánudaga og það opnar klukkutíma síðar heldur en á sumartíma. Ég var komin út í sjó ca korter yfir tíu. Synti út að kaðli. Fór beinustu leið í gufuna og sat þar í rúmar tíu mínútur áður en ég fór aftur út í sjó í nokkrar mínútur. Sat í pottinum í uþb hálftíma á eftir og spjallaði m.a. við einn fastagest á svæðinu. Rak nokkur erindi á Fiskislóða svæðinu áður en ég fór heim. M.a. renndi ég bílnum í gegnum færibandið hjá Löðri og verslaði inn í Krónunni og smá í Byko. Á síðar nefnda staðnum keypti ég aðeins tvo hluti og gerðist svo fræg að bjarga mér alveg sjálf í sjálfsafgreiðslu. Kom heim um hálftvö leytið. Það stóð svo alltaf til að skreppa út í smá göngu en það varð ekkert úr því. Aftur á móti heyrði ég í hálfdönsku nöfnu minni og frænku og við spjölluðum í dágóða stund.
17.8.25
Ýmislegt og ekki neitt
Mætti í Laugardalslaugina rétt rúmlega átta. Sleppti sundinu en fór þrisvar í þann kalda, korter í gufu og um tuttugu mínútur í sjópottinn. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan hálftíu. Við lásum tvær blaðsíður í Kon Tiki. Kom heim um hálftólf og stoppaði við í rúma klukkustund. Rétt fyrir eitt hitti ég tvíburahálfsystur mína fyrir utan blokk við Gullsmára. Þar var opið hús vegna sölu á 3 herbergja íbúð á sömu hæð og ég skoðaði tveggja herbergja íbúð með frænku minni sl. þriðjudagskvöld. Eigandi þessarar íbúðar er að stækka við sig og flytja upp á næstu hæð. Fleiri voru að skoða. Fengum líka að sjá geymsluna sem fylgir íbúðinni, rusla- og hjólageymsluna. Tók allar upplýsingar með mér þegar við höfðum grandskoðað og aðeins spurt út í eitt og annað. Tvíburahálfsystir mín kom svo með mér yfir í Garðabæinn og beið út í bíl á meðan ég skilaði frænku minni ávaxtaskálinni sem hún kom með til mín sl fimmtudag. Þau hjónin voru nýkomin úr gólfi og voru á leið í bíltúr að leita að sólinni. Hún afhenti mér fasteignasíður úr mogganum og benti mér á íbúðir til sölu í nýrri blokk við Þorraholt það skammt frá. Við Sonja keyrðum að blokkinni og skoðuðum aðstæður að utan en ég ákvað að bíða aðeins með að hringja í þá sem sjá um söluna. Fæ kannski að skoða að innan síðar þegar ég er búin að selja sjálf. Svo fórum við vinkonurnar á rúntinn um hverfi í Garðabæ og Kópavogi þar sem við vissum að væru íbúðir til sölu. Skilaði Sonju heim um þrjú leytið og þáði hjá henni te. Úr varð um tveggja tíma gott te og spjall stopp þannig að klukkan var farin að ganga sex þegar ég kom heim til mín aftur.
16.8.25
Laugardagur
Vaknaði útsofin rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Bjó til tvöfaldan skammt af hafragraut um níu leytið. Helmingurinn af honum fór í skál inn í ísskáp. Var mætt í Nauthólsvík um það leyti sem var að opna um tíu. Það var að nálgast háflóð, sjórinn 11,8°C og ég var þó ekki nema um tíu mínútur að synda/svamla út að kaðli. Rútínan tók mig uþb klst. Kom við í Fiskbúð Fúsa og verslaði m.a. þorskhnakka í soðið. Já, ég ákvað að sjóða mér fisk og nýjar kartöflur í hádeginu og aldrei þessu vant hafði ég þorsk en ekki ýsu. Annars var dagurinn frekar rólegur og tíðindalítill. Hringdi í pabba um miðjan dag og Helga systir hringdi um sex leytið og spjallaði við mig í hátt í tvo tíma. Það held ég að sé met. Hún var m.a. að reyna að sannfæra mig um að kaupa eign í kinninni skammt frá þeim. Það eru þó nokkrir sem hafa skoðun á því hvert ég á að flytja þegar ég hef selt eignina þar sem ég er búin að búa í rúm 21 ár. Sjálf er ég viss um að eftir sölu þá dúkki upp á sölu sú eign og sá staður þar sem ég verð nokkur næstu árin. Þetta kemur allt í ljós fljótlega.
15.8.25
Opið hús í gær
Ég var mætt á braut 2 í Laugardalslaug fyrir klukkan hálfátta. Synti 600m, flesta á bakskrið. Eftir tvær ferðir í þann kalda, rúmar tíu mínútur í gufu og góða slökun í sjópottinum var ég búin að vera á svæðinu í hátt í tvo tíma. Þvoði mér um hárið og var komin heim um tíu. Sýslaði við eitt og annað en slakaði vel á inn á milli. Frænka mín kom til mín um fjögur. Vildi fá að setja upp meira punt sem hún fékk. M.a. lánaði hún mér skál af ávöxtum. Fasteigna salinn kom upp úr klukkan hálffimm. Hún fann dýrindis kaffiilm og þótt ég væri búin að taka kaffikönnuna úr sambandi nokkru áður þáði hún einn bolla og dásamaði kaffið. Ég held mig enn við mitt kaffibindindi og markmiðið er að ná tveimur árum. En ég drakk síðast kaffi rétt um miðjan október 2023. Við frænkurnar skildum fasteignasalann eftir um fimm. Nafna mín fór heim til sín en ég yfir til tvíburahálfsystur minnar. Rúmum hálftíma síðar hringdi Villa í mig og sagði að það væri ágætt ef ég kæmi heim fljótlega. Ég kláraði úr tebollanum, þakkaði fyrir mig og var komin heim innan við klukkutíma frá því ég fór að heima. Það var semsagt ekkert mikið rennerí á opna húsið en nágrannarnir úr kjallaranum voru mjög áhugasöm, þurfa að stækka við sig og vilja helst halda sig í húsinu. Það er frekar mikið af alls konar eignum að koma til sölu. Hef svo sem engar áhyggur af að mín eign seljist ekki en ég vil helst selja áður en ég fer að gera tilboð í framtíðareignina mína. Sl. vikur hafa hlutirnir þróast frekar hratt og kannski er ágætt að fá smá kyrrstöðu í nokkra daga. Allt hefur sinn tíma og ég hef þá trú að allt gangi upp og fari eins og það á að fara. Tvær nætur í röð hef ég sofið mjög vel. Eitthvað verið að dreyma sem ég man þó ekki eftir í smáatriðum. Tvö kvöld í röð hef ég líka farið að sofa án þess að grípa í bók. Það er reyndar svolítið skrítið.
14.8.25
Smá kyrrstaða
Stöku nætur fara alls konar hugsanir á fleygiferð í mislangan tíma og trufla samfelldan svefn. Hugsanir og pælingar geta alveg verið góðar en helst þó ekki þegar ég á að vera í draumalandinu. Sem betur fer gerist þetta ekki oft en núna eru miklar breytingar í gangi og þá er sennilega eðlilegt að þetta gerist oftar. Það var semsagt frekar slitróttur svefninn í fyrrinótt. En ég var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Tveimur tímum síðar bjó ég mér til einn skammt af hafragraut og svo var ég mætt í Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Þar hitti ég kalda potts vinkonu mína. Fórum tvisvar í sjóinn sem nú er kominn niður fyrir 12°C og hitastigið að færast í rétta átt hvað mig varðar. Kvaddi vinkonu mína rétt fyrir ellefu því það stóð til að einhver myndi mæta og skoða íbúðina með fasteignasalanum upp úr hádeginu þótt það væri ekki opið hús fyrr en í dag fjórtánda ágúst. Fljótlega eftir að ég kom heim sá ég svo skilaboð um að viðkomandi hefði hætt við, ætlaði frekar að senda einhvern fyrir sig á opna húsið. Ég sýslaði ýmislegt en þó ekki eins mikið og undanfarnar vikur og daga. Um miðjan dag skrapp ég í stuttan göngutúr. Annars lítið að frétta nema ég var komin upp í rúm og sofnuð fyrir klukkan níu í gærkvöldi.
13.8.25
Sjósund á eftir
Svaf í einum dúr í fyrri nótt frá klukkan tíu til klukkan að ganga sjö í gærmorgun. Var komin í sund rétt upp úr klukkan átta. Fór beint á braut 7 og synti 500m þar af helminginn skriðsund. Þegar ég var komin í sjópottinn eftir að hafa farið í þann kalda og gufuna kom ein af Sigrúnunum og hrósaði mér fyrir skriðsundið. Sagði að það hefði verið mjög gaman að fylgjast með mér synda rólega og "þokkafullt" yfir laugina. Vá hvað ég var glöð með þetta hrós. Í seinni ferðinni í þann kalda hitti ég á kalda potts vinkonu mína. Þetta var um hálftíu leytið og hún var að mæta á svæðið og ég að fara. Náðum þó þessari ferð saman og sammæltumst um að hittast í Nauthólsvík um tíu á eftir (miðvikudag). Kom heim upp úr klukkan tíu og sýslaði við eitt og annað fram yfir hádegi. Rétt fyrir þrjú sendi nafna mín og frænka, sem hefur verið að hjálpa mér, skilaboð um hvort ég vildi borða með þeim hjónum um kvöldið. Ég þáði það boð en spurði jafnframt hvort hún ætlaði ekki að hitta mig á opnu húsi í Kópavoginum um fimm. Ég var mætt ca 12 mínútum fyrir og frænka mín kom fimm mínútum síðar. Skoðuðum sæta tveggja herbergja íbúð á mjög góðum stað. Íbúð sem getur verið laus strax. Það var þó tvennt sem ég var svolítið hugsi með. Geymslan sem fylgir íbúðinni er sameiginleg þvotta húsinu og innan íbúðar. Semsagt engin auka geymsla utan í sameign. Þótt ég sé búin að vera dugleg að grisja dótið mitt er ég ekki alveg viss um að geta komið því dóti fyrir sem þarfnast frekari yfirferðar og skoðunnar. Svo er bæði baðkar og sturta á baðherberginu. Baðkarið var fyrir en sturtan var sett upp frekar nýlega. Skápaplássið er samt töluvert, eldhúsinnrétting og gólfefni nýlegt og helstu tæki fylgja. Eftir að hafa skoða og gengið um íbúðina og svalirnar tók ég upplýsingapappíra með og við frænkur þökkuðum fyrir okkur. Ég elti svo frænku mín yfir í hæðahverfið í Garðabæ og stoppaði þar til klukkan að verða átta í gærkvöldi.
12.8.25
Þriðjudagur
Það voru nokkur verkefni á dagskránni í gær. Mætti í sund rétt rúmlega sjö. Fór beint í kalda pottinn og þaðan í sjópottinn þar sem ég hitti þá Sigrúnu sem ég kynntist fyrst af þessum fimm sem ég hitti mis reglulega í sundi. Við spjölluðum í dágóða stund og urðum svo samferða í gufuna. Stoppuðum þar í um fimm mínútur og settumst svo smástund á stól til að sóla okkur og halda spjallinu áfram. Rétt fyrir hálfníu var ég mætt í osteostrong. Komst strax að. Bætti mig á einu tæki. Eftir tímann fékk ég að geyma bílinn þar sem ég lagði þegar ég mætti á meðan ég skrapp labbandi í hsm við Borgartún 21 til að sækja skjöl til undirritunar og þinglýsingar. Um var að ræða pappíra varðandi lánið sem var tekið þegar Drápuhlið 21, efri hæð var keypt fyrir rétt rúmu tuttuguogeinu ári síðan. Við skilnaðinn varð það útundan að lánið væri alfarið fært yfir á mig þótt íbúðareignin sjálf sé þinglýst á mig og að reikningarnir fyrir láninu hafi verið skráðir á mig sl 11-12 ár. Var komin heim upp úr klukkan hálftíu. Fékk mér hressingu skoðaði pappírana og prófaði kaffikönnuna sem ég fékk að láni hjá pabba. Hún virkaði fínt en ég veit ekkert hvernig kaffið bragðaðist því ég hellti því öllu niður, ca 6 bollum, síðar um morguninn þegar komið var að næsta verkefni. Um tíu hringdi ég í Davíð. Hann svaraði ekki svo ég sendi honum sms. Hann hringdi til baka rúmum hálftíma síðar. Ég sagði honum að við þyrftum að hittast til að ganga frá þessum lána málum. Hann var staddur á skrifstofunni í Ármúla og sagði að hentugast væri að ég kæmi þangað eða hann kæmi til mín. Ég var hins vegar búin að ákveða að fara upp á Gagnveg þar sem N1 sonurinn var á vakt og fá hann og samstarfsmanninn til að votta undirskriftir okkar. Og þar hittumst við um hálftólf leytið. Ég fór svo beinustu leið í Hlíðarsmára 1 til að láta þinglýsa skjölunum. Má sækja þau eftir viku og þá þarf ég að skila þeim aftur til hsm. Var komin heim fyrir klukkan hálfeitt. Restin af deginum fór í aðeins minna sýsl heldur en undanfarið ein eitthvað þó. Hellti m.a. aftur upp á og leyfði kaffinu að standa í hátt í tvo tíma áður en ég hellti því öllu niður. Hringdi bæði í Odd og pabba og reyndar Davíð Stein líka. Talaði við bræðurnar fyrir hádegi, N1 soninn um níu til að kanna hvenær gæti verið rólegast á stöðinni og um hálftíu við Odd sem svaraði líka í fyrsta og lét ágætlega af sér. Í pabba hringdi ég um miðjan dag og lét hann m.a. vita að kaffigræjan sem hann lánaði mér virkar.
11.8.25
Tvöhundraðtuttugastiogþriðji dagur ársin
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun eftir rúmlega átta tíma svefn. Skrapp fram á pisseríið og gerði tilraun til að kúra mig lengur niður. Lá svo sem slök í einhvern tíma en sofnaði ekki aftur. Klæddi mig um hálfátta leytið og kveikti á tölvunni hans pabba. Pabbi kom fram rúmum klukkutíma síðar en hann var reyndar búinn að kom fram fyrir klukkan sex, skrá niður helstu tölur og fá sér eitthvað. Ég varð ekkert vör við það. Við ákváðum að hafa folaldakjöt í hádeginu. Fasteignasalinn sendi mér yfirlit til samþykktar og auglýsti opið hús og íbúðina mína til sölu. Ég stoppaði hjá pabba fram á miðjan dag. Sátum góða stund út á palli í bongó blíðu. Var komin í bæinn rétt fyrir sex. Kom aðeins við í Krónunni í Skeifunni. Mætti til tvíburahálfsystur minnar upp úr klukkan hálfátta og var boðin í veislumat. Hún skannaði yfirlýsingar fyrir mig sem ég sendi á fasteignasalann. Margt var spjallað og tíminn flaug, ég var ekki komin heim aftur fyrr en klukkan var langt gengin í ellefu.
10.8.25
Á Hellu í augnablikinu
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Var mætt í sund fljótlega eftir að opnaði um átta. Fór beint á braut 7 og synti 500m, þar af 200m skriðsund. Klukkan hálftíu var ég mætt á Sólvallagötuna í esperanto hitting. Klukkutíma síðar kom Inger með mér yfir í Drápuhlíðina til að fá að skoða umbreytinguna. Eftir að hún var farin sýslaði ég við eitt og annað. M.a. kom ég öllu "óviðkomandi" dóti úr augsýn. Þegar fasteignasalinn kom um eitt leytið var ekki svo mikið sem hægt var að setja út á og raunar var íbúðin tilbúin undir myndatöku svo hún ákvað að taka myndirnar sjálf. Veðrið var mjög gott í gær og glugginn og veggurinn úr herberginu sem Oddur var í leit út eins og málverk. Líklega fer þá auglýsing út á vefinn á veraldarvefinn mjög fljótlega. Seinni part dags ákvað ég svo að skreppa austur til pabba með kassa merktum Helgu systur. Var komin á Hellu um sex og ætla að stoppa eitthvað fram á daginn.
9.8.25
Færsla no 4390
Ég svaf aðeins lengur en marga undanfarna daga en ég var þó komin á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. Oddur kom fram ekkert löngu síðar, hafði sofið vel sína þriðju nótt í stofunni og líklega þá síðustu í Drápuhlíðinni. Ég bjó til hafragraut um níu leytið. Um tíu skrapp ég í Nauthólsvík. Það var stafalogn, að fjara út og sjórinn 12°C. Synti út að kaðli. Hefði líklega getað vaðið allan þann spöl. Fór beint í gufu í 10 mínútur og svo aftur út í sjó í nokkrar mínútur. Svo fór ég beint upp úr og skolaði aðeins á mér tærnar og sundbolinn. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn mættur á svæðið og var að taka til afganginn af dótinu sínu. Hann setti í síðustu þvottavélina svo það er ekki alveg allt farið. Bræðurnir hjálpuðu mér að yfirfara ýmislegt og fóru í síðustu sorpuferðina í bili um þrjú leytið. Til stóð að pabbi þeirra kæmi á flutningabíl fyrir Odd og mest af dótinu hans um fimm leytið. Strákarnir voru búnir að fá nágrannann á neðri að færa annan bílinn sinn og bera allt dótið út í innkeyrslu um fimm. Pabbi þeirra tafðist um rúman klukkutíma þar sem hann læsti bíllykilinn inn í flutningabílnum með tilheyrandi veseni. Þegar hann kom einhvern tímann á sjöunda tímanum, á mjög stórum flutningabíl, tók það ekki svo langan tíma að ferma bílinn. Mesta vesenið var að bakka bílnum í innkeyrsluna og fékk tré úr garði nágrannanna á no 23 að finna fyrir því. Tré sem breiðir úr sér yfir í innkeyrsluna á 21. Er að öllu jöfnu ekkert fyrir þannig séð. En flutningabíllinn var stór eins og fyrr er skrifað. Davíð Steinn fór austur á sínum bíl með tölvuskjá, spariföt og úlpu. Ég kvaddi Odd með knúsi. Hann er meira að segja búinn að skila af sér húslyklunum en er alveg reiðubúinn að hjálpa ef á þarf að halda. Pabbi þeirra hafði á orði að ég hefði átt að vera löngu búin að "henda" strákunum út. Sjálf vil ég meina að allt hefur sinn tíma en líklega hefði ég ekki farið alveg strax út í þessar breytingar ef ég hefði ekki misst vinnuna í vor. Núna virðist vera hárréttur tími til að snúa lífinu á enn meira hvolf, minnka við sig og horfa fram á veginn en ekki of mikið í baksýnisspegilinn.
8.8.25
Sjö ár síðan mamma dó
Gærdagurinn hófst mjög snemma. Var komin í sund rétt rúmlega sjö, fór beint á braut 7 og synti 600m, flesta á bakinu en smá skriðsund inn á milli. Ég var komin heim aftur fyrir níu og fór strax að sýsla við eitt og annað. Oddur kom fram skömmu síðar og ég bjó til hafragraut handa okkur. Var nýbúin að borða minn skammt þegar fyrrum samstarfskona hringdi. Eftir gott spjall hélt ég sýslinu áfram. Oddur fór eina ferð í sorpu upp úr klukkan eitt. Þá var að verða ljóst að hann flytur út seinni partinn í dag en þarf ekki að fá bílinn minn lánaðan. Frænka mín og nafna kom um miðjan dag með smá punt í þrjá glugga. Ég var þá langt komin með að þrífa tvo af þessum gluggum. Hún sá alveg greinilegan árangur á sýslinu mínu frá því daginn áður. Oddur var líka búinn að leggja mjög gott lið svo það er að sjá fyrir endann á þessum fasa í breytingunum framundan. Ýmislegt eftir en ég hef daginn í dag og fyrramálið því það er búið að fresta úttektinni til klukkan eitt á morgun. Við Oddur fórum saman í sorpuferð um fimm leytið. Það þurfti samt ekki að hafa aftursætin niðri og nota bene ég var bara í bílnum og lét hann sjá um að fara á milli gáma. Sýslið stoppaði aðeins eftir þetta en ég tók stutta törn um níu leytið áður en ég fór að sofa.
7.8.25
Tíminn æðir áfram
Í gær var þriðji miðvikudagurinn á árinu sem ég sleppti sjósundinu. Var mætt í Laugardalslaug upp úr klukkan sjö. Fór beint á braut 7 og synti 500m þar af 150m skrið. Eftir fjórar mínútur í kalda pottinum og 12 mínútur í gufunni skellti ég mér í kalda sturtu áður en ég fór í sjópottinn. Á leiðinni heim úr sundi kom ég við í Stakkahlíð og sótti sófaborð var gefins. Oddur var kominn á fætur þegar ég kom heim um hálftíu, sagðist hafa sofið vel í stofunni. Ég bjó til hafragraut handa okkur og svo var sýslað við ýmislegt líkt og marga undanfarna daga. Klukkan hálftólf hringdi ég í flutningamanninn sem kom við annan mann á þriðjudaginn. Hann var tilbúinn að koma strax en gaf mér þó klukkutíma og kom við annan mann um hálfeitt. Líkt og í fyrradag var ýmislegt látið fljúga fram af svölunum. Þriggja sæta parturinn af stofusófanum var þó borinn niður. Verkið kláraðist á vel innan við klukkutíma. Oddur fór svo aukaferð í sorpu skömmu síðar. Ein frænka mín og nafna mætti til mín um miðjan dag og lagði mér lið í uþb tvær klukkustundir. N1 sonurinn var að vinna í gær en kom svo beint eftir vinnu til að taka dót. Hann gat ekki tekið alveg allt svo við Oddur skruppum saman eina ferð með eitt og annað í snjallgeymsluna. Enn sem komið er ég ekki búin að ákveða hvað af mínum geymsluhlutum fer þangað. Þarf aðeins að sortera sumt betur. Það eru mörg verkefni framundan næstu dagana en mér finnst ég þó vera langt kominn með vissan áfanga. Allt hefur sinn tíma, sumt er að gerast nokkuð hratt og annað tekur aðeins lengri tíma eins og gengur.
6.8.25
Flutningabíll í gær og aftur í dag
Líkt og oft áður var ég vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun. Sinnti morgunrútínunni og dreif mig svo í sund áður en klukkan varð sjö. Þar fór ég beint á braut átta og synti 500m á rétt rúmum 20 mínútum. Hitti aðeins á sjósundsvinkonu mína, fyrst þegar ég var nýbúin að synda og svo aftur þegar ég var að fara upp úr klukkan átta. Dagurinn fór svo í alls konar sýsl. Synirnir komu fram á tíunda tímanum og um ellefu var annar sonurinn farinn í fyrstu ferð með dót frá sér yfir á nýja staðinn. Fljótlega eftir að hann fór setti ég mig í samband við FL flutninga og þeir gátu sent mér bíl og aukamann upp úr klukkan eitt. N1 sonurinn þurfti því að koma mun fyrr yfir aftur heldur en hann reiknaði með. En hann kom um hálfeitt og var búinn að skrúfa sundur tölvuskápinn þegar strákarnir á flutningabílnum komu. Báðir synirnir tóku þátt í að ferma bílinn af dóti sem mátti fara. M.a. fengu hlutir að fljúga fram af svölunum. Ekki komst allt með í þessari ferð en það dót fer í dag. Rúmið hans Odds var skrúfað í sundur og dót sem fara á með ferðinni í dag var sett inn í herbergið sem hann hefur haft afnot af sl 15 ár. Hefði getað búið um hann í herberginu sem bróðir hans var að losa í gær en hann vildi frekar hreiðra um sig í stofunni. Eins gott að sófinn komst ekki með í ruslferðinni í gær. Oddur er búinn að pakka að mestu en hann mun líklega ekki flytja alveg út fyrr en í vikulokin. Í millitíðinni mun hann þá geta hjálpað mér með hluta af þeim undirbúningi sem eftir er. Frænka mín og nafna kíkti aðeins við seinni partinn og mun vera í sambandi og á svæðinu til að hjálpa fram að helgi.
5.8.25
Breytingar
Í gær ákvað ég að drífa mig í sjósund. Á sumartíma opnar aðstaðan í Nauthólsvík klukkan tíu alla morgna og það er sumartími fram til 19. ágúst. Ég var því mætt um tíu enda löngu vöknuð. Sjórinn 12,5°C og ég synti út að kaðli. Nokkrar hressar konur í tveimur hópum syntu alveg yfir í Kópavog. Var komin heim aftur um hálftólf, hress og endurnærð. Dagurinn fór svo í alls konar sýsl líkt og undanfarna daga. Ég er ekki tilbúin að skrifa meira um það sem stendur nema það gengur ágætlega en mér finnst ég samt vera aðeins á eftir áætlnum en þó ekki.
4.8.25
Frídagur verslunarmanna
Það varð ekkert úr sjó- eða sundferð í gær þótt ég væri vöknuð eldsnemma. Einmitt af því að ég vaknaði of snemma þá ákvað ég að skríða aftur upp í og halda áfram lesa seinni bókina sem ég sótti síðast á safnið. Las í tæpa tvo tíma og þá var klukkan hálfátta. Gerði tilraun til að sofna aðeins aftur. Sú tilraun stóð yfir í ca hálftíma áður en ég ákvað að klára bókina. Var komin á fætur upp úr klukkan níu. Um hálfellefu bjó ég til næstum fullan pott af hafragraut. Þegar ég var búin að fá mér að borða af honum ákvað ég að ræsa synina og bjóða þeim að fá sér. Hafði orðið vör við að vekjara þeirra fór í gang um tíu. Þeir komu fljótlega fram og fyrri parturinn af deginum fór í alls konar undirbúning og sýsl bæði hjá þeim og mér. Um fjögur fóru þeir til pabba síns og komu við í sorpu í leiðinni. Ég skrapp í stuttan göngutúr um fimm leytið, tæpa 2km.
3.8.25
Verslunarmannahelgi
Ég var komin í sund rétt upp úr klukkan átta. Hitti aðeins á sjósundsvinkonu mína en hún var að fara beint í pott en ég fór á braut 8 og synti 500m, þar af uþb 150m skriðsund. Úr sundi fór ég beinustu leið vestur í bæ í esperanto hitting. Fékk svo að skilja esperantodótið mitt eftir hjá Inger. Þegar ég kom heim stuttu fyrir klukkan tólf voru báðir bræðurnir komnir á fætur. Sýslaði við eitt og annað fram eftir degi. Strákarnir skruppu í eina sorpuferð seinni part dags. Ég fór með gler í gáminn við Öskjuhlíð um svipað leyti og í stuttan göngutúr í kjölfarið. Það hægði á vinnugleðinni eftir því sem leið á daginn og á sjöunda tímanum kveikti ég á imbanum og gerðist sófakartafla þar til kominn var tími til að fara í háttinn. Bræðurnir fóru saman í bíó á tíunda tímanum og ég var löngu sofnuð áður en þeir komu heim aftur.
2.8.25
Skrepp
Gærdagurinn byrjaði fyrir klukkan sex hjá mér. Var samt ekki mætt í sund fyrr en rúmlega sjö. Fór beint á braut 7 og synti 500m á tuttugu og tveimur mínútum. Kláraði afganginn af sundferðinni á rúmum hálftíma og var komin heim upp úr klukkan hálfníu. Afgangurinn af morgninum fór svo í alls konar sýsl, m.a. að undirbúa komu meindýraeyðirs. Bræðurnir komu tiltölulega snemma fram og lögðu sitt af mörkum. Meidýraeyðirinn kom um hálfeitt. Aðgengi var inn í allar íbúðir, geymslur og sameign frá kjallara upp í ris og allir íbúar "flúðu" út og héldu sér í burtu í amk þrjá tíma. Við mæðginin fórum á bíl N1 sonarins og gerðum okkur ferð austur á Hellu til að kíkja á pabba/afa. Vorum komin þangað upp úr klukkan hálfþrjú og stoppuðum í hátt í fjóra tíma. Pabbi leit vel út og lét vel af sér. Hann var í fyrstu að hugsa um að skella í pönnsur en svo var ákveðið að grilla í staðinn. Vorum komin heim aftur um níu leytið.
1.8.25
Nýr mánuður
Ég var mætt í sund og á braut 2 um sjö í gærmorgun. Synti flestar ferðir á bakinu því ég þvoði mér um hárið þegar ég var búin með prógrammið. Var komin heim upp úr klukkan níu. Gærdagurinn, líkt og undanfarnir dagar, fór í alls konar sýsl. Farnar voru tvær ferðir í sorpu þar sem slatti fór í nytjagám. Davíð Steinn fékk bílinn sinn úr viðgerð og losnaði í kjölfarið við endurskoðunar miðann.
31.7.25
Síðasti júlídagurinn í ár framundan
Ég var komin á fætur um sex í gærmorgun. Nýtti morguninn óvenju vel miðað við oftast áður. Dreif mig svo í Nauthólsvík um tíu. Það var háflóð og sjórinn 12,5°C. Dásamlegt að skella sér út í og svamla um í uþb korter. Fór eina ferð í gufuna, smá stund í lónið og nokkrar mínútur í pottinn. Á heimleiðinni kom ég við á planið hjá ÓB í Öskjuhlíðinni til að athuga með og jafna loftþrýstinginn á dekkjunum. Hann var í lagi á þremur dekkjum af fjórum. Dagurinn var nýttur alveg þokkalega vel og ég sé alveg að það saxast á verkefnin. Ég fékk mér þrjá stutta göngutúra að málm og glergámunum við Eskihlíð og bræðurnir fóru tvær ferðir í sorpu. Þeir eru langt komnir með að fara yfir og flokka dótið sitt. Ég er eiginlega búin að tæma geymsluna af dóti sem má fara og er farið. Á bara eftir að taka ákvörðun um nokkra hluti. Það er auðvitað alveg nóg af verkefnum eftir en ég er bjartsýn á að þeir fari langt með að kláras um og upp úr helginni.
30.7.25
Mið vika
Ég var komin á fætur skömmu fyrir klukkan sex í gærmorgun. N1 sonurinn kom fram um sjö leytið og upp úr klukkan hálfátta, eða rúmlega það, keyrði hann bílinn sinn á verkstæði í Breiðholtinu. Ég fór fljótlega á eftir honum og sótti hann. Gærdagurinn var annars nýttur þokkalega hjá okkur öllum þremur. Bræðurnir eru komnir vel á veg með að "moka" í gegnum og yfirfara dótið sitt. Um tvö fóru þeir saman eina ferð á sorpu á bílnum mínum. Ferðina notuðu þeir líka til að sækja 20 pappakassa og lok en ein frænka mín þekkir fólk sem rekur verslun sem er að gefa þessa kassa. Frænka mín var milliliður í að fá samþykki til að nálgast þessa kassa. Um sex leytið bauðst ég til að bjóða strákunum með mér á Prepp barinn en þar er alltaf tilboð á þriðjudögum. Oddur var upptekinn og sagði pass. En Davíð Steinn þáði þetta boð þar sem í bili var ekki hægt að matreiða sér neitt í eldhúsinu. Hann fékk að keyra. Svo notuðum við tækifærið og skruppum til tvíburahálfsystur minnar. Davíð Steinn skutlaði mér til hennar og skrapp í smá pokaleiðangur. Vorum komin heim á níunda tímanum.
29.7.25
Þriðjudagur
Var vöknuð alltof snemma í gærmorgun. Mætti í sund um sjö. Synti 400m, fór tvær ferðir í þann kalda og eina í sjópottinn. Var svo komin í osteostrong tíma rétt fyrir hálfníu og heim hálftíma síðar. Dagurinn fór í alls konar sýsl. Oddur fór tvær ferðir í sorpu. Í fyrri ferðinni fór hann á þrjá staði til þess að geta losað sig við dót í nytjagám. Ég fór með honum í seinni ferðina í Ánanaust og notaði tækifærið og fór í Krónuna í leiðinni. Um hálfátta var ég mætt til tvíburahálfsystur minnar. Stoppaði hjá henni í rúma tvo tíma. Hún prentaði út fyrir mig skjal sem ég þarf að fylla út. Það er nóg framundan og það koma andartök þar sem mér finnst ég ekki ná alveg utan um allt en tilfinningin er samt aðallega sú að þetta séu rétt og nauðsynleg skref.
28.7.25
Dagurinn byrjar snemma í dag
Í fyrrakvöld var klukkan orðin ellefu áður en ég fór að sofa. Ég vaknaði svo útsofin um hálfsjö í gærmorgun. Var mætt í sund rétt eftir opnun, fór beint á braut 7 og synti 700m. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu þannig að klukkan var að verða hálfellefu þegar ég kom heim aftur. Fljótlega skrapp ég út með fullan höldupoka af gleri í glergáminn við Eskihlíð 1 og hélt svo göngunni áfram. Síminn skráði rúma tvo km á tæpum hálftíma. Klukkan var að verða tólf þegar ég kom heim og skömmu síðar kom Oddur fram. Ég bauð honum upp á fiskibollur og rósakál sem hann þáði. Svo fór afgangurinn af deginum í alls konar sýsl líkt og undanfarna daga. Er með það í huga að vera dugleg að henda eða gefa frá mér en ég fann samt fjársjóði sem halda verður upp á. Ekki var farin nein sorpu ferð en það er líklega búið að safna upp í amk 2 ferðir. Á áttunda tímanum í gærkvöldi skrapp ég á bílnum með tvo svarta poka af textíl í textílgám sem er staðsettur í Suðurhlíðunum rétt við Fossvogskirkjugarð austan megin.
27.7.25
Rífandi gangur með góðri hjálp
Ég var mætt í sund rétt upp úr klukkan átta í gærmorgun, stuttu eftir að opnaði. Fór beint á braut 7 og synti 500m. Um hálftíu var ég komin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Við lásum rétt rúmlega blaðsíðu af Kon-Tiki. Áður en ég fór heim aftur kom ég aðeins við í BYKO. Fljótlega eftir að ég kom heim komst hreyfing á synina. Ferðalangurinn kom þó fram nokkru á undan. Tvíburahálfsystir mín hafði samband upp úr klukkan eitt og mætti svo í eigin persónu fljótlega eftir það. Margar hendur vinna létt verk. Davíð Steinn hjálpaði Oddi að ferma bílinn minn af dóti sem fara átti í sorpu. Sá fyrrnefndi lagði svo af stað í tjaldferðalagið sem ég sagði frá í gær. Oddur fór tvær ferðir í sorpu og við tvíburahálfsystir mín hjálpuðum honum að ferma bílinni fyrir seinni ferðina. Ég er þakklát fyrir hjálpina. Það þurfti engan göngutúr til að koma skrefum gærdagsins yfir 4500, fóru reyndar yfir 5500.
26.7.25
Laugardagur
Gærdagurinn var alls konar. Hófst frekar snemma og fór allur í alls konar sýsl. Fór ekkert út úr húsi en tvær ferðir í geymsluna. Verkefnin eru fjölmörg og virðast fjölga frekar en hitt. Það er sem sagt allt að komast á fullt og framundan eru miklar breytingar og ný ævintýri. Davíð Steinn kom heim úr viku ferðalagi en er svo að fara strax aftur í 1-2 daga útilegu. Oddur er byrjaður að taka til hendinni í "sínu" herbergi. Skrúfaði m.a. niður rafmagns-trommusettið sem hefur ekki verið í notkun mörg undanfarin ár.
25.7.25
Verkefni
Ég var komin á braut 7 rúmlegakorter í átta í gærmorgun. Synti 700m, flesta bak-skrið, á rétt rúmum hálftíma. Var komin heim aftur á tíunda tímanum. Sinnti hinum ýmsu verkefnum til klukkan að verða hálftólf. Um tólf var ég mætt í heimsókn til einnar fyrrum samstarfskonu vestur í bæ og önnur fyrrum samstarfskona kom skömmu síðar. Var komin heim aftur stuttu fyrir tvö. Hálftíma eftir að ég kom heim mætti ein vinkona mín sem er fasteignasali og rétt á eftir henni nafna mín og frænka sem var að hjálpa mér á miðvikudaginn. Eftir að vinkona mín var farin fórum við frænkurnar í sorpu á Dalveginum. Megnið af því sem við vorum að losa fór í nytjagám. Næst lá leiðin í rúmfatalagerinn í Kópavogi. Þar fjárfesti ég í kössum. Ég fór líka í Bónus sem er þarna skammtfrá, eingöngu til að fjárfesta í nokkrum rúllum af hvítum/glærum stórum pokum. Klukkan var orðin hálffimm þegar frænka mín skilaði mér heim aftur. Sýslaði við eitt og annað alveg þar til ég kveikti á sjónvarpinu um hálfsjö. Fór óvenju snemma í rúmið en ég las líka í rúman hálftíma. Var sofnuð áður en klukkan varð tíu.
24.7.25
Hreyfingar
Var komin á fætur og búin að gera lóðaæfingar fyrir klukkan sex í gærmorgun. Miðvikudagar eru sjósundsdagar og í gær var ég búin að mæla mér mót við kaldapotts vinkonu mína þegar opnaði í Nauthólsvík kl. tíu. Sjórinn var 14°C og við fórum þrisvar út í hann, tvisvar í gufuna en ég fór aðeins einu sinni í pottinn. Á leiðinni heim kom ég við hjá ÓB í Öskjuhlíð til að jafna þrýstinginn í dekkjunum. Þegar heim kom, stuttu fyrir tólf, var Oddur kominn á fætur en hann átti fund hjá Vinnumálastofnun um eitt. Ég var búin að fá skilaboð frá einni frænku minni og nöfnu sem og vinkonu minni sem er fasteignasali. Sú síðarnefnda var að athuga hvort hún mætti kíkja á mig og íbúðina og skoða aðstæður í dag, fimmtudag. Ég lét hana vita að hún væri velkomin, væri búin að undirbúa slatta en íbúðin yrði ekki tilbúin fyrir myndatöku fyrr en um mánaðamótin. Svaraði einnig frænku minni sem hringdi skömmu síðar. Hún var komin til mín um hálfþrjú leytið og á næstu tveimur tímum gerðist alveg helling. M.a. gátum við sent Odd í eina sorpuferð með eitt og annað úr geymslunni. Ég verð sífellt tilbúnari fyrir frekari breytingar og hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu öllu saman. Auðvitað er hugurinn oft líka að spá í hvað sé réttast og best og svarar stundum með mismunandi svörum en yfirleitt kemst ég alltaf að sömu niðurstöðu; Skrefin sem ég er að stíga eru nauðsynleg og rétt.
23.7.25
Synirnir 29 ára í dag
Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt rúmlega sjö, þá búin að vera á fótum í hátt í tvo tíma. Fór beint á braut 7 og synti 600m á 27 mínútum. Í heildina tók rútínan tæpar 2 klst. Var komin heim fyrir klukkan hálftíu. Á næsta klukkutímanum eftir það fór ég nokkrum sinnum upp og niður tröppurnar milli íbúðar og geymslu. Það sem kom með mér upp úr geymslunni voru kassar og dót sem ég var handviss um að ekki þyrfti að geyma lengur. Þegar Oddur kom á fætur upp úr hádeginu hjálpuðumst við að við að flokka og fara með út í bíl. Setja þurfti aftursætin niður og sumt var einnig sett farþegamegin fram í bíl. Oddur sá svo um að ferja þetta yfir í sorpu og setja í réttu gámana og tók það merkilega stuttan tíma. Ég fór hins vegar í samskonar göngutúr og á mánudaginn milli þrjú og hálffjögur. Seinna um daginn leyfði ég mér að grípa aðeins í saumana. Þar eru allir heilir krossar búnir en slatti eftir af hálfu spori og allar útlínur. Horfði líka á leikinn milli Englands og Ítalíu í fyrri undanúrslitaleik á EM kvenna.
22.7.25
Án athugasemda
Gærdagurinn byrjaði í fyrra fallinu. Ég hefði alveg geta mætt í sund strax við opnun en úti var mikil mengun og ég var alvarlega að spá í að sleppa sundinu. Þegar til kom var ég mætt í Laugardalinn um sjö og fór beinustu leið í þann kalda. Eftir kælinguna sá ég þá Sigrúnu, sem ég kynntist fyrst í Laugardalnum fyrir um tíu árum síðan, þar sem hún var á leiðinni í sjópottinn. Ákvað að elta hana þangað og svo þaðan eftir 15 mínútur og gott spjall smá stund í gufuna. Leiðir skildu þegar ég fór seinni ferðina í þann kalda. Synti 200m áður en ég fór upp úr og beint í osteostrong. Var mætt þangað á slaginu hálfníu og komst strax að. Þrátt fyrir linkuna daginn áður stóð ég mig vel í tækjunum. Sló þó engin met að þessu sinni. Sjö mínútum fyrir níu kvaddi ég og labbaði út af staðnum. Ákvað að renna við hjá Frumherja við Grensásveg. Komst strax að og fékk fulla skoðun án athugasemda og gulan 26 miða á númeraplöturnar. Kom heim stuttu fyrir klukkan hálftíu. Stoppaði heima í um hálftíma og skrapp svo á Kringlusafnið og skilaði öllum bókum nema Kon-Tiki, framlengdi skilafrestinum á henni um 30 daga. Kom svo aðeins með tvær bækur með mér heim. Áður en ég fór inn úr bílnum hringdi ég tvö símtöl. Klukkan var að verða ellefu þegar ég kom heim/inn. Lungan úr deginum notaði ég svo í alls konar sýsl. Um hálftvö skrapp ég með málm í gáminn við upphafsenda Eskihlíðar. Úr þeirri ferð gerði ég tuttugu mínútna göngutúr. Um hálfníu leytið í gærkvöldi hringdi ein nafna mín og frænka í mig. Hún var á leið vestur í bæ að vökva blóm og þar sem ég var heima sammæltumst við um að hún myndi kíkja við í bakaleiðinni. Hún var komin til mín um níu og stoppaði við í rúman hálftíma. Ég var komin upp í rúm um tíu, las í stutta stund en var örugglega sofnuð um hálfellefu.
21.7.25
Mánudagur
Ég var komin á stjá fyrir klukkan sex í gærmorgun eftir ágætis nætursvefn. Um það leyti sem ég vaknaði fór ég þó að finna fyrir leiðinda ólgu í maganum. Fann þó ekki fyrir neinni annars konar linku. Ákvað að sleppa því að fara nokkuð út og fasta fram að hádegi. Var bara í vatninu. Um hálfeitt borðaði ég afgang af hafragraut frá því á föstudaginn. Maginn var ekkert að kvarta yfir því amk ekki strax. Eða hvort það var eitthvað sem ég fékk mér um miðjan dag sem fékk magann til að ólga aftur seinni part dagsins. Hvað sem þetta var þá tel ég það vera liðið hjá. Dagurinn leið frekar hratt þrátt fyrir að vera innipúki en ég var farin að sofa um tíu í gærkvöldi.
20.7.25
Mengun
Ég var mætt í Laugardalslaug rétt rúmlega átta í gærmorgun eða nokkrum mínútum eftir að opnaði. Eftir 500m sund, eina ferð í þann kalda og korter í gufunni hitti ég á sjósunds vinkonu mína í nuddpottinum. Við urðum svo samferða yfir í sjópottinn. Sá pottur var í heitara lagi en þá brá ég (og fleiri) á það ráð að setjast á kantinn og hafa aðeins fæturnar upp að hné ofan í. Fór aðra ferð í þann kalda áður en ég fór upp úr. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar rétt rúmlega tíu. Við lásum tvær bls. í Kon-Tiki. Var svo komin heim skömmu fyrir klukkan tólf. Afgangurinn af deginum var nýttur í alls kyns sýsl.
19.7.25
Laugardagur
Gærdagurinn byrjaði í fyrra fallinu. Var komin á ról fyrir klukkan sex, gerði nokkrar æfingar með 2kg lóðunum, fékk mér sítrónu vatn, burstaði tennur og settist svo niður í stofu með fartölvuna í fanginu. Var búin að slökka aftur á henni um átta leytið. Á tíunda tímanum bjó ég mér til hafragraut og svo var ég mætt í Nauthólsvík um tíu. Strandskórnir gleymdust heima en ég tiplaði berfætt út í 13,9°C sjóinn og svamlaði út að kaðli í samfloti við aðra sem líka var berfætt. Hún skildi þó sína skó viljandi eftir heima. Ekkert mál var að fóta sig upp hjá kaðlinum. Ég dýfði mér aðeins ofan í lónið áður en ég fór í gufu. Fór ekki aftur út í sjó en aðeins í pottinn. Var komin heim aftur upp úr klukkan ellefu. Fljótlega eftir að Oddur kom á fætur upp úr hádeginu fórum við með nokkra poka fulla af ýmsu dóti út í bíl. Hann hleypti mér út við Krónuna við Fiskislóð og þegar ég var búin að versla var hann búinn að fara í Sorpu. Fór líka í Byko og keypti tvo hluti og einnig í Elkó þar sem ég fjárfesti í hleðslubanka fyrir gsm símann. Áður en við fórum heim aftur keypti ég þvott á bílinni hjá Löðri þarna skammt frá.
18.7.25
Færsla no fjögurþúsundþrjúhundruðsextíuogátta
Í gærmorgun ákvað ég að snúa aðeins á rútínuna. Vaknaði ekki fyrr en korter fyrir sjö. Sennilega vegna þess að einhverra hluta vegna rumskaði ég upp úr miðnætti eftir uþb tveggja tíma svefn og þótt ég þyrfti ekki á salernið og gerði mitt besta til að kúra mig niður aftur þá "slökknaði" ekki almennilega á mér fyrr en milli klukkan tvö og þrjú. Sjálfsagt voru það einhverjar hugsanir sem hringsnérust í kollinum á mér og töfðu fyrir að í dytti almennilega inn í draumalandið. Rámar samt í það að mig hafi dreymt frekar furðulegan draum seinna um nóttina. Ég fékk mér sítrónuvatn og sinnti morgunverkunum á baðherberginu en var svo komin í sund milli sjö og hálfátta. Kom heim aftur um hálftíu. N1 sonurinn, sem er í sumarfríi þessa dagana, kom fram skömmu síðar. Hann kvaddi á ellefta tímanum og lagði af stað norður í land. Hann og Hulda frænka ætla að ferðast saman um norð-austanvert landið næstu dagana. Annars fór dagurinn í alls konar sýsl, var samt eiginlega ekki nógu dugleg að halda mig að verki. Því meira sem ég geri finnst mér stundum líkt og enn meira eigi eftir að gera. Um fimm leytið skrapp ég loks út að viðra mig. Rölti upp á veðurstofuhæð, 0,7km á 11 mínútum og settist á bekk þar. Hélt för aðeins áfram tæpum hálftíma eftir að ég settist á bekkinn. Labbaði þá 1,1km á tæpum 14 mínútum og settist aftur á bekk rétt við Stakkahlíð og Barmahlíð. Sat þar líklega í tæpar tíu mínútur áður en ég fór heim.
17.7.25
Byrjaði þennan dag á sundferð
Ég var búin að vera á fótum í rúman klukkutíma þegar ég "frétti" fyrst að það væri enn og aftur byrjað að gjósa á Reykjanesinu. Ég var fljót að kveikja á sjónvarpinu eftir að ég sá tilkynninguna á vedur.is. Að öðru leyti var miðvikudags rútínan svipuð. Útbjó mér hafragraut á tíunda tímanum og var komin í Nauthólsvík um það leyti sem aðstaðan var að opna um tíu. Á svipuðum tíma mættu þrjár úr gamla sjósundshópnum og þar að auki sonur einnar þeirrar. Við urðum öll samferða út í sjó, svömluðum þar um í rúmar tuttugu mínútur og sátum svo rúman hálftíma í pottinum. Ég var fyrst af okkur til að kveðja og fara upp úr. Kom heim stuttu fyrir klukkan tólf og horfði auðvitað á aukafréttatímann í hádeginu. Fram eftir degi var ég svo að sýsla við ýmislegt. Um hálffjögur skrapp ég svo loksins út aftur í það sem átti að verða stutt ganga og varð að tveimur stuttum göngutúrum þar sem ég sá ein frænda minn úti við þar sem hann býr í Norðurmýrinni og við spjölluðum saman í rúmar tuttugu mínútur. Kom heim aftur stuttu fyrir klukkan fimm.
16.7.25
Tólfta eldgosið á Reykjanesi hafið
Mig rámar í að hafa rumskað einhvern tímann á fjórða tímanum í fyrrinótt. Það var greinilega mjög stutt rumsk, þurfti ekki á salernið og man ekki meira eftir mér fyrr en ég vaknaði um hálfsex. Viðeyjardagurinn hefur greinilega gert mér mjög gott. Var heldur ekki með neina strengi eftir allt röltið. Klukkan var langt gengin í átta þegar ég var mætt á braut 8 í Laugardalslaug. Sundrútínan tók tæpa tvo tíma með öllu og svo fór ég beint heim aftur og fékk mér smá hressingu. Dagurinn, framan af, var svo notaður í alls konar dútl. Um eitt leytið rölti ég af stað með nokkra poka sem ég þurfti að losa í gámana í Eskihlíð. Var með tvo fatapoka, einn poka af glerkrukkum og smávegis í poka af málmi. Losaði mig við glerið og málminn en leist ekkert á textílgáminn og rölti yfir að gámunum við Kjarvalsstaði og losaði mig við fatapokana þar. Hélt svo göngunni aðeins áfram svo þegar ég kom heim aftur var ég búin að ganga tæpa tvo tíma á tæpum hálftíma. Hringdi í pabba. Hann lét bara mjög vel af sér, sat út á palli og fylgdist með þremur piltum á vegum hreppsins slá hólinn fyrir aftan hús hjá honum.
15.7.25
3/4 úr Viðeyjargenginu í Viðey í gær
Líkt og nokkra undanfarna morgna var ég vöknuð eldsnemma í gærmorgun. Ákvað samt að sleppa því að mæta í sund og var að bræða það með mér hvort ég ætti að labba í og úr osteostrong tíma. Ákvað samt að sleppa því líka, þ.e. er labbinu ekki tímanum. Var mætt tuttugu mínútur yfir átta og komst strax að. Var nálægt mínu besta á þremur tækjum og sló met á einu. Var komin heim aftur um níu. Fljótlega útbjó ég mér hafragraut. Um hálfellefu rölti ég af stað með harðfisk, vatnsflösku, lopapeysu og smávegis fleira í bakpoka. Hafði nægan tíma. Stoppaði aðeins hjá sölubásnum hennar Lilju og síminn skráði þar á mig hálftíma göngu. Rétt fyrir hálftólf var ég svo komin niður á gömlu höfnina og keypti mér ferð út í Viðey. Var á undan Inger og Helgu en báturinn fór heldur ekki fyrr en tíu mínútur fyrir tólf. Við þrjár príluðum upp á stýrishús, settumst þar á bekk sem snéri að stefninu. Báturinn kom við á Skarfabakka og sótti fólk þar og svo vorum við komin út í Viðey tuttugu mínútur yfir tólf. Stöldruðum stuttlega við í Viðeyjarstofu þar sem tvær af okkur nýttu salernisaðstöðuna. Svo löbbuðum við austur eftir eynni, með nokkrum smá stoppum t.d. í og við skólahúsið, og alveg að húsi Viðeyjarfélagsins þar sem við settumst niður á bekk og fengum okkur smá nesti. Þegar við komum til baka í Viðeyjarstofu vorum við ákveðnar að skilja eitthvað eftir okkur í eynni. Hinar tvær fengu sér súkkulaði-kókoskúlu og önnur kaffi með. Ég er enn í pásu frá kaffinu og það breyttist ekkert í gær. Aftur á móti leyfði ég mér eitt hvítvínsglas, en vín hef ég ekki drukkið síðan seinni partinn í maí í fyrra. Kaffi hef ég reyndar ekki drukkið síðan 14. október í hittifyrra. Það snarsveif auðvitað á mig af víninu og ég varð ennþá málglaðari en oftast. Við röltum svo vestur eftir eynni, upp á einn hól, niður aftur og að tveimur af 18 súlum sem eru þar. Ákváðum að í næstu ferð skyldum við byrja á að fara þessa leið og fara allan hringinn og skoða allar súlur. Hér áður fyrr var mikið um kríur á þessu svæði en þær hafa varla sést í eynni sl. ár. Við komum svo í Viðeyjarstofu aftur rétt fyrir fimm, nýttum okkur salernisaðstöðuna og ég keypti mér bláan kristal. Tókum svo næstsíðasta bátinn til baka um hálfsex en það er ein af þremur ferðum yfir daginn sem fer alla leið að gömlu höfninni. Flestu ferðirnar á sumartímanum eru frá Skarfabakka á klukkutíma fresti frá kl. 10:15 og síðasta ferðin úr eynni klukkan hálfsjö. Vorum komnar í land skömmu fyrir klukkan sex og ég labbaði heim líka. Settist í smá stund á bekk á Klambratúninu og þá var ég búin að ganga tæpa 3km á 38mínútum. Heildarskrefafjöldi gærdagsins fór líka yfir tuttuguogtvöþúsund skref. Það skal tekið fram að ég þurfti aldrei á lopapeysunni að halda. Var mestan tíman á stuttermabolnum.
14.7.25
Ný vika
Ég var komin á braut 7 í Laugardalslauginni tuttugu mínútur yfir átta. Synti 600m á tæpum hálftíma. Var komin heim aftur á ellefta tímanum. Dagurinn var semi vel nýttur í alls konar sýsl. Á sjötta tímanum ákvað ég að bjóða strákunum út að borða. Það styttist í afmælið þeirra og það er ekki víst að þeir verði báðir á sama stað um það leyti. Fórum á bílnum hans Davíðs Steins. Vorum ekki alveg búin á ákveða hvert þegar við lögðum af stað en enduðum svo á Saffran í Faxafeni.
13.7.25
Samverustundir með systurdóttur
12.7.25
Helgi
Var komin á stjá fyrir klukkan sex í gærmorgun. Í gær var sjósundsdagur og ég var mætt í Nauthólsvík rétt upp úr klukkan tíu. Sjórinn mældist 13°C, það var að fjara út og ég svamlaði og skokkaði út að kaðli á rúmum tíu mínútum. Ég fór aftur í sjóinn eftir 10 mínútur í gufunni og sat svo smá stund í pottinum áður en ég fór upp úr. Þá var klukkan rétt að verða ellefu. Fór beint heim og ekki aftur út fyrr en um þrjú. En þá skrapp ég út í göngu, réttsælis í kringum Öskjuhlíðina með tveimur stoppum. Eftir seinna stoppið sem var þegar ég settist á bekk í Eskihlíðinni. Þaðan var svo stutt heim að það skráðist ekki nein ganga. En það skráðust niður 2,2km og 3,2km.
11.7.25
Hittingur
Ég var komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun en mætti samt ekki í Laugardalslaug fyrr en upp úr klukkan hálfátta. Synti 700m á braut 7, langflesta á bakinu. Þegar ég syndi á bakinu þýðir það að ég þvæ mér um hárið. Þetta gerist svona ca einu sinni í viku. Úr sundi brunaði ég upp á N1 við Gagnveg. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum og var svo að spjalla við N1 soninn og vinnufélaga hans sem átti 25 ára afmæli í gær. Mér skilst að Davíð Steinn hafi bæði sungið fyrir hann og fært honum afmælisköku. Það teygðist aðeins úr spjallinu og klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar ég kvaddi og hélt heim á leið. Heima var ég að dunda mér við ýmislegt þar til fyrrum samstarfskona hafði samband og bað mig um að bruna til sín í fjögurra konu hitting. Við fjórar vorum þær sem komu að kortagerðarvinnu þar til henni var hætt í desember á sl. ári. Það var virkilega gott og gaman að hittast. Spjallað um alla heima og geyma og tíminn flaug hratt hjá. Þegar ég kom heim aftur hélt ég sýslinu áfram þar til leikurinn Ísland - Noregur 3:4 á EM kvenna hófst. Ég kláraði líka þriðju bókina af fjórum sem ég sótti síðast á safnið. Aðal skúrkurinn náðist ekki en gat komið því þannig fyrir að annar var handtekinn í hans stað. Það hlýtur að þýða að það eru fleiri bækur um þessar sögur persónur.
10.7.25
Tíundi júlí
Gærmorguninn var einn af þeim dögum sem byrjaði óþægilega snemma en ég virtist alveg vera útsofin áður en klukkan var einu sinni orðin fimm. Þegar ég gafst upp á að reyna að kúra lengur greip ég í bók af náttborðinu og setti lesgleraugu á nefið og las þar til klukkan var að verða sex. Þá fór ég á fætur og sinnti hefðbundinni morgunrútínu. Vafraði helst til lengi í netheimum en ég var þó búin að leggja frá mér fartölvuna um átta. Um níu leytið útbjó ég mér hafragraut og svo var ég mætt á planið við Nauthólsvík rétt fyrir klukkan tíu. Kalda potts vinkona mín var þá þegar mætt. Sjórinn var rúmlega tólf gráður og það var að fjara meir og meir út. Við fórum þrisvar í sjóinn og tvisvar í gufu og klukkan var um hálftólf þegar við fórum upp úr og kvöddumst. Ég kom við í Fisbúð Fúsa áður en ég fór heim. Keypti m.a. ýsu í soðið og fljótlega eftir að ég kom heim skellti ég hluta af henni í pott og hluta í frysti. Afgangurinn af deginum var alls konar. Ýmislegt gert og hugsað, spekúlerað og spáð. M.a. átti ég mjög langt símtal við eina vinkonu mína sem er fasteignasali. Það skal skrifast og viðurkennast að ég er búin að vera að velta því fyrir mér í ákveðinn tíma að gera breytingar. Stöku sinnum í gegnum sl amk fimm ár hef ég verið að velta fyrir mér ýmsum hlutum og oftar en ekki ýtt þeim svo frá mér og ákveðið að sjá til. En það er pottþétt ekki hægt að "sjá til" alveg endalaust og á einhverjum tímapunkti verður maður að taka ákvörðun um að hrökkva eða stökkva. Ég sem er meira en lítið fanaföst en engu að síður með ágæta aðlögunarhæfileika, syndi bæði með og á móti straumnum og er búin að vera í millibils ástandi sl. mánuði þarf að fara að standa enn betur með sjálfri mér og gera enn frekari breytingar. Veit innst inni að þetta verður allt í góðu lagi, hvernig svo sem hlutirnir þróast.
9.7.25
Sjósundsdagur framundan
Ég vaknaði útsofin um hálfsex í gærmorgun. Var samt ekki mætt í sund fyrr en um hálfátta. Fór beint á braut 7 og synti 700m áður en ég fór fyrstu ferðina í þann kalda. Ferðirnar í hann urðu þó aðeins þrjár talsins, 2 fimm mínútna ferðir og ein svona rúmlega dýfuferð eitthvað á aðra mínútu. Ég fór líka í gufu, nudd- og sjópott og gerði nokkrar æfingar í rimlum. Sundferðin tók alls tæpa tvo tíma með öllu. Þ.e. er frá því ég stilli símann áður en ég fer inn í klefa þar til ég slekk á stillingunni þegar ég kem út úr klefanum aftur. Forritið í Samung health veit ekki betur en ég sé að synda allan þennan tíma en ég skrái niður glósur um helstu hreyfiverkefni tímans þegar ég slekk á forritinu. Annars var gærdagurinn frekar fljótur að líða við alls konar og ekki neitt. Það er eiginlega alveg ljóst að ekkert fær stöðvað þennan tíma og það er bara spurning um hvernig og hversu vel hann er nýttur. Sjálfsagt gæti ég nýtt hann miklu miklu betur en ætla svo sem ekki að hafa áhyggjur af því. Fann bók í fórum mínum sem ekki er búið að taka plastið utan af en ég ætti kannski að gera og lesa; Lifum lífinu hægar eftir Carl Honoré. En annars er ég byrjuð á seinni tveimur bókum sem ég sótti í síðustu ferð á safnið um daginn; Opið hús eftir Sofie Sarenbrant og Vatnið brennur eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Sú fyrrnefnda alveg sérlega spennandi og hin svolítið öðruvísi. Báðar bækurnar í kringum 400 bls. og ég er búin að lesa yfir 60 bls.
8.7.25
Þriðjudagur
Ég var komin í sund um korter fyrir sjö í gærmorgun. Synti í uþb tuttugu mínútur, fór þrisvar sinnum fjórar mínútur í þann kalda, rúmar tíu mínútur í gufu og svipaðan tíma í sjópottinn en þar hitti ég fyrir eina konu sem ég hitti nokkuð oft á árunum 2015-2020 en kemur nú aðeins tvisvar í viku. Alltaf um leið og opnar. Var mætt í osteostrong um hálfníu. Var við mitt besta á flestum tækjunum. Eftir tímann fór ég í Krónuna á Fiskislóð og var komin þangað rétt eftir að opnaði. Var komin heim fyrir tíu. Þar með átti ég að hafa tíma til að gera alls konar og jafnvel koma meiru af "skylduverkunum" í gegn. Dagurinn leið amk frekar hratt en hversu mikið ég komst yfir að gera skal óskrifað bæði vegna þess að það má ekki skrifa um það og einnig vegna þess að miðað við tímann sem ég hafði fór aðeins brotabrot af honum í þessi verk. Það sat í mér bókin sem ég var síðast að lesa, hámaði í mig á rúmum sólarhring. Þannig að ég var einnig illa sofin. Lagði mig samt ekkert yfir daginn en var komin upp í rúm um níu í gærkvöldi og sennilega sofnuð um hálftíu því ég las bara í smá stund.
7.7.25
Osteostrong
Fannst eins og klukkan væri örugglega að ganga átta þegar ég dreif mig á fætur í gærmorgun. Þá var hún rétt að verða hálfsjö. Pabbi kom fljótlega á fætur líka. Veðrið var mjög gott. Ég fór samt ekki í neinn göngutúr en sat dágóða stund úti á palli eftir hádegið. Pabbi fór út á undan og var aðeins lengur. Ég "flúði" inn þegar mér var orðið alltof heitt. Annars fátt að frétta nema ég las heila bók, sögulega skáldsögu af safninu; Rokið í stofunni eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur. Yfir þrjúhundruð blaðsíður en svo grípandi og átakanleg á köflum, sérstaklega þar sem sagan er byggð á raunverulegum atburðum sem gerðust á stríðsárunum, hvernig brotið var á ungum stúlkum bæði af réttarkerfi og sumu samferðafólki, og fylgir einni persónunni út lífið. Kleppjárnsreykir koma við sögu þegar sögupersónan er á fjórtánda ári.
6.7.25
Sunnudagur
Ég var komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gærmorgun. Pabbi kom fram ekkert svo löngu síðar. Gærdagurinn var annars bara rólegheita dagur. Um tvö leytið skrapp ég aðeins út og labbaði 3,5km hring á þremur korterum. Kláraði að lesa eina af bókunum sem ég sótti á safnið á miðvikudaginn; Sjúk eftir Þóru Sveinsdóttur. Þessi bók kom út í fyrra, fer fram og aftur í tíma og er nokkuð spennandi. Höfðum urriða í matinn um sex leytið og ég skreið upp í rúm um hálfellefu sem er mun seinna en vanalega.
Er enn að ná utan um það að Diogo Jota og bróðir hans André Silva hafi farist í skelfilegu slysi fyrir þremur dögum. Jota var fæddur sama ár og tvíburarnir mínir og var að gera góða hluti innan vallar sem utan, búinn að vera í fimm á hjá Liverpool. Bróðir hann var fjórum árum yngri. Þetta er svo skelfilega sorglegt. Hugur minn og bænir eru hjá fjölskyldum þeirra, ættingjum og vinum.
5.7.25
Fimmti fjórði
Gærmorguninn byrjaði upp úr klukkan fimm. Greip í bók og las þar til klukkan var að verða hálfsjö. Þá fór ég á fætur og náði að hitta aðeins á N1 soninn sem lagði af stað á helgarvinnuvakt áður en klukkan varð sjö. Ég sinnti morgunrútínunni og hélt svo áfram að lesa. Kláraði aðra af þeim bókum sem ég skildi eftir heima þegar ég fór á safnið í vikunni. Á tíunda tímanum fékk ég mér hinn helminginn af hafragrautnum sem ég útbjó á miðvikudagsmorguninn. Var svo mætt í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu. Sjórinn 13°C og ég svamlaði út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór út í. Fór upp úr um ellefu leytið og kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Verslaði aðeins harðfisk að þessu sinni. Heima fékk ég mér hádegishressingu og pakkaði niður fyrir helgina. Lagði af stað úr bænum rúmlega tólf. Kom aðeins við á N1 við Gagnveg. Ætlaði að athuga þrýstinginn á dekkjunum en það var yfirgefin tezla og svo stór flutningabíll með gaskútum fyrir svo ég komst ekki að loftinu. Heilsaði aðeins upp á soninn. Keyrði austur um Þrengsli eins og ég geri orðið í langflestum tilvikum. Kom við hjá frændfólki á Selfossi og stoppaði við í tæpa klukkustund. Var komin á Hellu til pabba um þrjú. Afgangurinn af deginum fór í útsaum, kapallagnir og fótbolta- og imbagláp og leið mjög hratt. Líklega hefði verið skynsamlegra að safna aðeins fleiri skrefum en stundum þá er maður ekkert endilega mjög skynsamur.
4.7.25
Föstudagur
Um þetta leyti í gærmorgun, 7:39, var ég að mæta í Laugardalslaugina. Gærdagurinn hófst samt miklu fyrr en ég byrjaði á því að grípa í bók um fimm leytið. Á laugarsvæðinu byrjaði ég á kalda pottinum áður en ég fór á braut 7. Laugin var í heitara lagi en kannski fann ég minna fyrir því þar sem ég synti flestar ferðirnar á bakinu. Synti 1km á rúmum þremur korterum. Fór tvær aðrar ferðir í þann kalda og gerði nokkrar æfingar í rimlum eftir gufu ferð. Þvoði mér um hárið og var komin heim um hálfellefu. Um hálftvö leytið skrapp ég út í göngutúr upp í Öskjuhlíð. Settist niður eftir hálftíma göngu og hringdi í tvíburahálfsystur mína. Við spjölluðum í þónokkra stund og ákváðum svo að hún myndi kíkja við hjá mér eftir vinnu. Hún var komin um fimm og augnabliki síðar var klukkan allt í einu langt gengin í sjö. Fór óvanalega seint í háttinn þar sem ég vildi horfa á Steinsnar frá þjóðvegi í línulegri dagskrá. Endaði svo daginn eins og ég byrjaði með því að lesa um stund. Fór ekki að sofa fyrr en um hálftólf. Gærdagurinn var semsagt langur í báða enda.
3.7.25
Fyrsti leikur gekk ekki alveg nógu vel
Í gær var sjósundsdagur svo ég fór ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir tíu. Þá var ég búin að vera á fótum í tæpa fjóra tíma og vakandi í rúmlega fimm tíma. Bjó mér til hafragraut upp úr klukkan níu. Hitti kalda potts vinkonu mína á planinu við Nauthólsvík um það leyti sem verið var að opna. Sjórinn var 12,4°C og það var að flæða að. Fórum þrjár ferðir í sjóinn, eina í gufu og tvær í pottinn. Fórum upp úr um hálftólf. Ég kom við í bókasafninu í Kringlunni áður en ég fór heim. Skilaði 7 bókum af 9 og tók fjórar bækur í staðinn, allar með 30 daga skilafresti og frekar þykkar. Í hádeginu sauð ég ýsubita í einum potti og sæta kartöflu, brokkolí og gulrætur í öðrum potti. Fljótlega eftir hádegið skrapp ég út í smá göngu. Forritið í símanum skráði á mig 1,2km á korteri en þótt gangan hafi ekki verið mjög löng var hún í heildina eitthvað lengri því skrefin fóru yfir 4000. Sennilega spilar inn í að það var hringt í mig í miðri göngu og ég stoppaði í smá stund og rölti svo miklu hægar og stoppaði jafnvel öðru hvoru á meðan ég var að tala í símann. Á línunni var ein frænka mín og nafna, fimm árum eldri en ég. Eftir að ég kom heim aftur hringdi ég í pabba. Hann var bara nokkuð hress. Hafði lent í meira brasi með sláttuvélina en náði að gera við hana og klára að slá. Kveikti á sjónvarpinu stuttu fyrir fjögur og fylgdist með fyrsta leiknum á EM kvenna; Ísland - Finnland 0:1. Stelpurnar okkar voru ekki líkar sjálfum sér, amk ekki alveg eins ákveðnar og í æfingaleiknum fyrir nokkrum dögum. Fengu þó sín færi sem þær nýttu ekki. Kannski sló magakveisa fyrirliðans þær eitthvað út af laginu og ég veit að þær ætluðu sér að gera betur. Vonandi nýta þær færin sín betur í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum og ná hagstæðari úrslitum.
2.7.25
EM að byrja í dag
Þetta er einn af þeim dögum sem byrja eldsnemma. Það snemma að mér fannst ekki tímabært að fara á fætur og byrjaði því daginn eins og ég endaði gærdaginn. Eftir að hafa skroppið fram á baðherbergi um fimm fór ég aftur upp í rúm og greip í bók. Er búin með tvo þriðju af bókinni; Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og er alveg heilluð. Gærdagurinn byrjaði ekkert svo seint heldur en þó ekki eins snemma, einhvers staðar á milli sex og hálfsjö. Samt var klukkan orðin átta þegar ég var loksins mætt í sundið. Var í heila tvo tíma og synti m.a. 700m. Ég fór líka í göngutúr í gær en bara stuttan, 1,5km á 20 mínútum. Notaði ferðina til að fara með gler og málm í gámana við upphafsenda Eskihlíðar. Annars var nú veðrið í gær upplagt fyrir mikla útiveru en ég var að sýsla við eitt og annað hér heima og gleymdi mér í mis gáfulegum og mis nauðsynlegum verkefnum.
1.7.25
Verkstæðismál
Korter fyrir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 700m á rúmum hálftíma. Hafði ágætis tíma til að fara í gufuna, sjópottinn og þrjár ferðir í þann kalda. Gat einnig gefið mér tíma í spjall við konu sem ég er nýfarin að hitta aftur í sundi og kemur nú aðeins tvisvar í viku um leið og opnar. Var mætt í Hátúnið í osteostrong um hálfníu og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var við mitt besta á tveimur öðrum. Kom klukkan að byrja að ganga tíu. Rúmum klukkutíma síðar hringdi ég á N1 verkstæðið við Ægisíðu og spurði hvort þeir gætu athugað bremsurnar og skipt um klossa ef þyrfti. Ég var beðin um að koma með bílinn til þeirra sem allra fyrst og dreif mig strax í það verkefni. Í ljós kom að það þurfti að skipta um diska og klossa að framan. Þeir sögðust geta afgreitt það samdægurs svo ég skildi bílinn eftir, nafn mitt og símanúmer og labbaði heim. Fór ekki alveg beinustu leið en það urðu rúmir 4km á tæpum 55 mínútum. Klukkan hálftvö var hringt í mig frá verkstæðinu til að láta vita að bíllinn væri tilbúinn. Var rúmar 40mínútur að labba 3,55km. Mátti gefa upp kennutölu N1 sonarins og fékk ágætis afslátt út á hana. Borgaði tæp 47þúsund en sú upphæð hefði farið yfir 60þúsund. Var komin heim fyrir klukkan hálfþrjú og lánaði Oddi bílinn til að reka einhver erindi. Skrefafjöldi dagsins var þarna kominn yfir 12þúsund. Kláraði annars að lesa enn eina bókina af safninu.
30.6.25
Síðasti júnídagurinn framundan
Þegar maður er sofnaður fyrir klukkan hálfellefu er kannski ekkert svo skrýtið að vera vaknaður fyrir klukkan hálfsex. Ég er klædd og komin á ról og mun gera líkt í sl. mánudag; mæta snemma í sund og fara svo beint í osteostrong tíma um hálfníu. Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt rúmlega átta. Synti 500m á braut átta og fór 3x5 mínútur í þann kalda. Ég var komin heim aftur á ellefta tímanum. Var að sýsla við ýmislegt mis gáfulegt fram eftir degi. Ein nafna mín og frænka hringdi í mig um þrjú og við spjölluðum í hátt í klukkustund. Svo hringdi ég í pabba. Hann var hress en ekki alveg eins hress með sláttuvélina sína. Hún gafst upp áður en hann var búinn að slá. Sennilega vantar nýtt kerti í hana. Rétt rúmlega fjögur lagði ég af stað í göngutúr, nokkuð stóran hring í kringum Öskjuhlíðina. Settist niður í 10 mínútur eftir rúma 4 km og uþb 50 mínútna göngu. Var tæpan hálftíma að labba 2,2 km heim eftir að ég hélt för áfram. Veðrið var dásamlegt, milt og gott og ég var næstum alla gönguna á stuttermabol með peysuna bundna um mittið á mér.
29.6.25
Sunnudagur
Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Mætti í Laugardalslaugina um átta, rétt eftir að að var opnað. Fór beint á braut 7 og synti 600m. Fór 3 ferðir í þann kalda, eina í gufu, eina í sjópott, eina í heitasta og eina í nuddpottinn. Var svo mætt vestur í bær til norsku esperanto vinkonu minnar rétt rúmlega tíu. Við lásum 2 bls. í Kon-Tiki. Svo var ég komin heim um hálftólf leytið. Var að dútla við ýmislegt, m.a. það sem ekki má skrifa um. Klukkan var því að verða fjögur þegar ég skrapp loksins út í smá göngutúr. Labbaði tæpa 4km á þremur korterum og settist svo aðeins niður á bekk á Klambratúninu. Kom heim um hálfsex leytið. Kvöldið leið hratt. Þriðju vikuna í röð vann ég á áskriftamiðann minn í lottó. Var með 3 rétta. Í síðustu viku var ég með tvo rétta og bónus og vikuna þar á undan 4 rétta. Þegar ég ætlaði að slökkva á sjónvarpinu stuttu fyrir klukkan tíu "festist" ég yfir sannsögulegri mynd sem verið var að sína á RÚV. Fór því óvanalega seint í háttinn í gær. Las samt nokkrar bls. í tveimur af bókasafnsbókunum áður en ég fór að sofa.
28.6.25
Sól
Gærdagurinn var einn af þeim dögum sem byrjaði mjög snemma. Föstudagar eru líka orðnir sjósundsdagar og þar sem ekki opnar í Nauthólsvík fyrr en klukkan tíu var mjög rúmur tími til að gera ýmislegt, bæði sinna hefðbundinni morgunrútínu og fleiru. Um hálftíu fékk ég mér chia-graut sem ég átti tilbúinn í ísskápnum og svo var ég mætt í Nauthólsvík um það bil sem verið var að opna. Sjórinn 12°C og ég synti, eða réttara skrifað svamlaði, út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór í sjóinn. Það tók ekki nema uþb korter. Fór beint í gufu í um tíu mínútur og svo aftur í sjóinn í um tíu mínútur. Endaði svo í pottinum í smá stund áður en ég fór upp úr og heim aftur. Stuttu fyrir tvö skrapp ég aftur út í smá göngu. Rölti upp á "veðurstofuhæð" og settist á bekk í smá stund. Þetta er það stutt frá að síminn skráði þetta ekki sem göngu. Hringdi í pabba og svo Ellu vinkonu. Pabbi var á leiðinni frá Hvolsvelli eftir að hafa skilað inn gögnum og sótt um að endurnýja ökuleyfið sitt. Ella vinkona var í sólbaði og sagði að það væri í fyrsta skipti síðan ég var hjá henni í maí sem það væri sólbaðsveður. Sagði henni frá að ég hefði verið að finna heimatilbúið 37 ára afmæliskort með fallegri kveðju vegna tvítugs afmælis í. Eftir símtölin hélt ég göngunni áfram og labbaði um 2km á uþb 25 mínútum. Afgangurinn af gærdeginum leið frekar hratt við alls konar dútl.
27.6.25
Föstudagur
Ég var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Gerði lóðaæfingar með þyngstu lóðunum og synti einnig hefðbundinni morgunrútínu. Var kannski heldur lengi að vafra í netheimum því klukkan var orðin meira en hálfátta þegar ég mætti í Laugardalslaugina. Þar fór ég beint á braut 6 og synti 700m, flestar ferðir á bakinu. Fór fjórar ferðir í þann kalda og þvoði mér um hárið. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég lagði af stað heim. Upp úr klukkan tólf skrapp ég með einn poka af textíl í fatagáminn í Eskihlíð og kláraði lítinn gönguhring í leiðinni á uþb tuttugu mínútum. Mikið meira er svo sem ekki að frétta af gærdeginum sem leið þó ógnar hratt við alls konar dútl. M.a. kláraði ég að lesa bókina Fuglinn í fjörunni.
26.6.25
Endurnýjað árskort í Nauthólsvík
Í fyrrakvöld var ég sofnuð rétt upp úr klukkan tíu. Rumskaði svo á þriðja tímanum. Skrapp fram á baðherbergi til að tæma blöðruna. Tókst ekki að sofna þegar ég skreið aftur upp í rúm svo ég greip í bókina sem ég er að lesa sem heitir á frummálinu; The Long Call. Þetta er ríflega fjögurhundruð blaðsíðna bók og þegar ég byrjaði á henni fannst mér ég kannast við efnið. Hafði þó ekki lesið hana áður en það er búið að gera þætti um þessa bók sem finna má í sarpinum hjá sjónvarpi símans. Það er samt það langt síðan ég horfði á þá þætti að ég er man ekki hver ódæðismaðurinn er. Ég las líklega í svona hálftíma og sofnaði sem betur fer fljótlega eftir það. Klukkan var að verða hálfátta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Á tíunda tímanum bjó ég mér til hafragraut og svo var ég mætt á planið við Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Kaldapotts vinkona mín var þegar mætt. Ég byrjaði á því að endurnýja árskortið. Það var fjara, sjórinn 11°C og yfir tuttugu bátar á voginum. Við Hrafnhildur fórum þrisvar sinnum í sjóinn og tvisvar í gufuna. Vorum að njóta alveg til klukkan rúmlega hálftólf. Þegar ég kom í bílinn aftur tók ég mynd af kvittuninni fyrir árskortinu og sendi á RB því á eftir að nýta hluta af íþróttastyrknum og hann má nýta á meðan maður er á starflokum hjá fyrirtækinu. Sá líka að ég hafði fengið skilaboð eða réttara sagt fyrirspurn frá formanni starfsmannafélagsins en hún var að spyrja hvernig ég hefði það. Svaraði þeim skilaboðum. Hringdi svo í eina fyrrum samstarfskonu sem líka er á starfslokasamningi og spjallaði við hana á meðan ég keyrði vestur í bæ til að versla í Krónunni við Fiskislóð. Kom heim um eitt leytið. Eftir það fór dagurinn í alls konar dútl. M.a. hringdi ég í pabba minn. Ekkert varð úr því að ég færi neitt út aftur svo skrefafjöldi gærdagsins náði rétt yfir tvöþúsundþrjúhundruðogþrjátíu en þá eru reyndar ótalin þau skref sem ég tók á meðan ég var að vappa um í Nauthólsvík um morguninn, í og úr sjónum, gufunni og pottinum.
25.6.25
Klukkan alveg að verða átta
Það er rétt rúmur klukkutími síðan ég fór á fætur. Fyrir klukkan sjö og því alls ekki eins snemma og í gærmorgun en þá var klukkan ekki orðin hálfsex þegar ég var klædd, búin að búa um og gera nokkrar lóða æfingar. Ég var komin í Laugardalslaug rétt upp úr klukkan sjö. Hitti konu sem ég var ekki búin að hitta lengi en hitti nokkuð reglulega áður fyrr. Hún var reyndar á leiðinni upp úr en við spjölluðum samt saman í nokkrar mínútur. Þessi kona er föðursystir Hreims í Landi og sonum. Svo fór ég beint á braut 7 og synti í hálftíma, 600m. Fór 3x6mínútur í þann kalda og að sjálfsögðu bæði í sjópott og gufu. Var alveg um tvo tíma í sundi. Kom heim um hálftíu. Um hálftvö lagði ég af stað í göngutúr með hálftóman, gamlan sundpoka á bakinu því markmiðið var að labba m.a. í Fiskbúð Fúsa. Fór ekki alveg stystu leið en var þó aðeins tæpar tuttugu mínútur á leiðinni. Verslaði mér harðfisk, ýsu í soðið, nokkrar fiskibollur, gulrætur, tómata og tvær sítrónum. Labbaði svo aðra leið heim. Stoppaði í smá stund á Klambratúninu þar sem ég hitti unga konu með 4 ára son sinn, Odd. Og það kom í ljós að bróðir konunnar hafði verið í sama árgangi og tvíburarnir mínir í Hlíðaskóla og millinafnið hans er Oddur. Ég kom heim fyrir klukkan þrjú og fór ekki aftur út. Dagurinn leið engu að síður hratt við ýmiskonar dútl.
24.6.25
Nýr mánuður eftir viku...
...og þessi sem var að byrja? Hvernig í ósköpunum getur tíminn spanað svona hratt áfram? Líklega á maður alls ekki að skilja það, heldur bara njóta hvers dags eins og hann mætir manni. Í gærmorgun var ég mætt í sund upp úr klukkan hálfsjö. Fór beint á braut 7 og synti 500m. Eftir fyrri ferðina í þann kalda fór ég beint í sjópottinn. Þar hitti ég fyrir konu sem heitir Sigrún og er hún númer eitt af amk 5 með þessu nafni sem ég hef kynnst í sundi. Við spjölluðum um ýmislegt í ca korter en þá fór ég seinni ferðina í þann kalda og svo smástund í gufu. Var mætt í osteostrong tíma á slaginu klukkan hálfníu. Einn var á undan mér í röðinni en tíminn sem ég þurfti að bíða var ekki mjög langur. Sló met á tveimur tækjum af fjórum, m.a. á það tæki sem ég sló ekki met á í síðustu viku. Var komin heim korter yfir níu. Lánaði Oddi bílinn stuttu fyrir tíu. Hann hafði verið boðaður í atvinnuviðtal vestur í bæ. Þegar hann kom til baka var hann ekki hress með það viðtal, sagðist aðeins hafa verið spurður einnar spurningar og svo sendur í burtu. Án þess að fara út í þá sálma nánar þá fann ég alveg til með honum en benti honum samt á fleiri sjónarhorn heldur en hans. Honum fannst semsagt viðbrögðin við svari sínu á spurningunni út í hött. Fljótlega eftir hádegið fór ég með gler og málm í gáma sem standa við upphafsenda Eskihlíðar og notaði svo tækifærið og fór í smá göngutúr yfir brúna við Landsspítalann, upp á Barónsstíg, niður Eiríksgötu, undir brúna Snorrabrautsmeginn á gatnamótum og inn á Klambratún. Þar settist ég aðeins niður, reif upp símann og söng afmælissönginn fyrir Bríeti frænku þegar hún svaraði símanum. Síminn skráði á mig tvær lotur af göngu, önnur rúmir 2km hin tæpur 1km. Var komin heim aftur á þriðja tímanum. Restin af deginum fór í alls konar dútl. Var komin í háttinn um hálftíu og kláraði enn eina bókina; Flot. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundar og hún er mjög áhugaverð.
23.6.25
Í rauða bítið
Já, ég er komin á fætur og meira að segja búin að gera lóðaæfingar og sinna morgunverkunum á baðherberginu. Klukkan rétt nýlega orðin hálfsex. Ég var ekki alveg svona snemma á fótum í gærmorgun en skrapp þó fram að tæma blöðruna um sex. Fór ekki á fætur fyrr en rúmri klukkustund eftir það. Pabbi var búinn að koma fram til að taka niður helstu tölur og fá sér eitthvað. Hann kom svo aftur fram um níu leytið. Þá var ég búin að vera að vafra á netinu. Skömmu síðar lagði ég fyrsta kapal dagsins og hann gekk upp. Kláraði afganginn af fiskréttinum í hádeginu. Seinni partinn, eða á fimmta tímanum afhýdd ég, skar niður sæta kartöflu og sauð á meðan pabbi grillaði. Kvaddi hann svo um sex leytið og brunaði í bæinn. Var komin heim skömmu áður en N1 sonurinn kom af vinnuvakt.
22.6.25
Hjá pabba
Jæja, nú brá svo við að ég svaf þar til klukkan var langt gengin í sjö í gærmorgun. Stytti morgun rútínuna þannig að ég var örugglega mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um átta. fór beint á braut 7 og synti í hálftíma áður en ég fór fyrri sex mínútna ferðina í þann kalda. Ætlaði reyndar ekki að vera alveg svo lengi í þeim potti en lenti á spjalli og gleymdi tímanum aðeins. Fór að sjálfsögðu í gufu og sjópott líka. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um tíu. Var með íslensku útgáfuna af Kon Tiki með mér. Lásum meira í þeirri bók en þó eina bls. í esperanto útgáfunni. Kvaddi um ellefu leytið og kom við á AO við Öskjuhlíð til að fylla á tankinn sem reyndar var bara hálfur og hefði alveg dugað í það ferðalag sem ég var á leið í austur yfir fjall (og svo til baka í kvöld). Lagði af stað austur upp úr klukkan tólf og kom við í Fossheiðinni. Þar stoppaði ég í um klukkustund áður en ég hélt för áfram. Þegar ég kom á Hellu til pabba var hann að horfa á þátt í sjónvarpinu um Hákon heitinn Aðalsteinsson. Ég horfði með honum en þegar þátturinn var búinn lagði ég nokkra kapla, vafraði aðeins á netinu og greip líka í saumana mína. Um hálfsex eldaði ég handa okkur fiskrétt. Vorum búin að borða og ganga frá eftir okkur um hálfsjö.
21.6.25
Sumarsólstöður
Mér fannst ég vakna heldur snemma í gærmorgun. Klukkan var varla orðin fimm þegar ég rumskaði. Skrapp aðeins á salernið og reyndi svo að kúra mig niður aftur. Varð fljótlega ljóst að ég væri ekkert að fara að sofna aftur svo ég greip í bók og las þar til klukkan var að verða sex. Þá fór ég á fætur og sinnti rútínunni. Föstudagar eru líka orðnir sjósundsdagar svo ég var ekki að fara út úr húsi fyrr en stuttu fyrir tíu en tíminn fram að því leið mjög hratt. Fékk mér gríska jógúrt með chia fræjum, granatepli, bláberjum og kasew-hnetum og eina sneið af kaldri lifrarpylsu um hálftíu. Var komin út í sjó í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu og synti að þessu sinni alveg út að kaðli fyrri ferðina sem ég fór í sjóinn. Kom heim aftur upp úr klukkan hálftólf. Það stóð alveg til að skreppa aftur út í smá göngu en einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fór ekkert út aftur. Dagurinn leið samt alveg óhugnanlega hratt við alls konar dútl.
20.6.25
Aftur á safnið
19.6.25
Útitekin
Dagurinn í gær byrjaði stuttu fyrir klukkan sex. Þegar ég var komin á fætur byrjaði ég á því að gera nokkrar æfingar með léttustu lóðunum. Næst lá leiðin inn í eldhús þar sem ég fékk mér sítrónuvatn. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég, að venju, inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Slökkti svo á henni rúmlega sjö og færði mig yfir í sjónvarpsstólinn, greip í saumana mína og fylgdist með Bítinu á Bylgjunni í beinni á rás 8. Oddur kom fram upp úr klukkan hálfátta og klukkutíma síðar fór hann af stað í strætó til að vera kominn á Grensásveg um níu. Á tíunda tímanum útbjó ég mér hafragraut og svo var ég mætt í Nauthólsvík á slaginu tíu. Sjórinn var rétt rúmlega 12°C. Það var flóð og ég fór tvisvar sinnum tíu mínútur út í. Hélt mig nálægt landi og garðinu því það var mikið um bátaferðir á voginum. Eftir sjósundsferðina kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og ýsu í soðið. Oddur hafði samband skömmu síðar, var búinn á námskeiði dagsins og ég sótti hann. Um leið og við komum heim setti ég upp kartöflur og fiskinn í pott. Bauð Oddi að borða með mér en hann afþakkaði. Um tvö leytið skrapp ég í hálftíma göngutúr, smá hring í hverfinu. Næstsíðasta bókin af safninu, Skuggadrengur, er það spennandi að ég er að nálgast það að verða hálfnuð með hana. Það er frekar erfitt að leggja hana frá mér en ég greip samt oft í saumana mína í gær og dútlaði við ýmislegt annað en lestur.