Annan morguninn í röð vaknaði ég við vekjaraklukkuna, korter yfir sex. Þegar ég var búin að klæða mig gerði ég nokkrar æfingar með 2kg lóðum. Næst lá leiðin inn í eldhús að fá sér lýsi, engifer og kanil sjúss og vatnsglas á eftir. Þá fyrst var komið að morgunverkunum á baðherberginu. Og að sjálfsögðu var ágætis tími fyrir netvafr og bloggfærslu. Mætti í vinnu um hálfátta. Var komin niður í klinkrými tíu mínútum fyrir heila tímann en þó nokkrum mínútum síðar en lærifaðir minn. Það var ekkert brjálað að gera en verkefnin skiluðu sér jafnt og þétt, fengum pásur inn á milli en fundum okkur einnig önnur verkefni eins og að stauka upp 50kr úr stórum kassa sem kom frá Seðlabankanum eftir beiðni. Í fyrradag var send inn beiðni um sendingu af 100kr og hún kom í gær. Vorum búin með fyrirliggjandi verkefni skömmu fyrir þrjú í gær. Samkvæmt skjalinu eru væntanlegir nokkrir klinkkassar úr hinum ýmsu útibúum á næstu dögum.
Þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis var ég eiginlega búin að ákveða að skrópa í sund. Eins gott og það er samt að skola af sér eftir vinnu þá fæ ég ekkert samviskubit yfir að taka sundpásur dag og dag. Ætlaði að heyra í og jafnvel hitta hálfdönsku nöfnu mína og frænku en hún er víst stödd á Ítalíu í námsferð þessa dagana. Ég gerði mér því ferð í Krónuna við Fiskislóð í staðinn og var svo komin heim um fjögur leytið.
Ein af bókunum sem ég er með af safninu og er að lesa þessa dagana heitir; Fyndin saga eftir Emily Henry þýdd af Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem er bróðurdóttir Helgu í Gutt. Hef ekki lesið bók eftir þennan höfund áður en kannski mun ég svipast um eftir fleiri sögum eftir hann. Ákvað, rétt fyrir sl. helgi að framlengja skammtímalánsbókinni um hálfan mánuð þrátt fyrir að vera búin að lesa hana. Þar með mun ég mjög líklega skila öllum bókunum á sama tíma jafnvel þótt ég lesi ekki tvær af hinum bókunum. Aðra af þeim bókum hef ég lesið áður og hin var ekki alveg að ná mér og ég er ekki viss um að ég gefi henni annað tækifæri.