Enn og aftur komin helgi og í mínu tilviki þriggja daga helgi þar sem ég mun taka út gjafafrídaginn minn á mánudaginn kemur. Gærmorguninn var keimlíkur mörgum virkum vinnudagsmorgnum. Notaði 1,5kg lóðin við æfingarnar strax eftir að ég var búin að klæða mig. Áður en ég lagði af stað til vinnu þurfti ég að sópa blautan snjó af bílnum. Var samt mætt til vinnu upp úr klukkan hálfátta og byrjuð að vinna innlegg skömmu síðar. Vinnudegi lauk rétt fyrir hálffjögur. Fór beint í sund. Þurfti reyndar aftur að sópa blautum snjó af bílnum. Kalda potts vinkona mín var búin að synda og við hittumst í kalda pottinum í annarri ferðinni hennar. Fórum 3 ferðir saman, tvær ferðir í heitasta pottinn, vorum tuttugu mínútur í gufunni og enduðum í sjópottinum þar sem við hittum eina systur hennar. Ég endaði reyndar á því að synda 400m áður en ég fór upp úr og heim. Horfði á fyrsta þátt af fimm um Lockerbie, hryðjuverkið 1988 þegar flugvél frá Pan Am var sprengd. Colin Firth leikur aðalhlutverkið. Næsti þáttur kemur ekki inn fyrr en eftir viku.
4.1.25
3.1.25
Tímamót
Byrjaði gærdaginn á nokkurra mínútna æfingum með 2kg lóð eftir að hafa klætt mig og búið um rétt fyrir sex. Síðan fékk ég mér lýsi og sítrónuvatn áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Svo hafði ég tæpan klukkutíma í netvafr og bloggfærslu. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta og var byrjuð í innleggjunum rúmum tíu mínútum síðar. Um miðjan morgun tók fyrrum fyrirliði saman síðustu kortaframleiðslutölur og ég og sú sem enn er lausráðin fórum yfir þær tölur saman. Síðasti framleiðsludagur var líklega 18. desember sl. Annars var ég í innleggjum til klukkan að verða hálffjögur. Mínum verkefnum lauk um fjögur og fór ég beint yfir í Laugardalinn í sund. Hitti kaldapotts vinkonu mína örstutt í sturtu þegar hún var að klára og ég að mæta. Synti 300m, fór þrisvar í kalda, eina ferð í gufu og eina í heitasta pottinn. Var svo komin heim um sex leytið.
2.1.25
Ýkjulaust
Svaf til klukkan að verða sjö. Hvíldi mig á lóðaæfingum en vafraði á netinu fyrsta klukkutímann eftir að ég kom á fætur. Horfði á skaupið úr sarpinum og tengdi við margt, fannst þetta alveg ágætis skaup þótt sum atriðin hefðu mátt vera styttri. Um tíu útbjó ég mér matarmikinn hafragraut því ég blandaði í hann hnetum, rúsínum, fræjum og bláberjum og borðaði þykka sneið af köldum blóðmörskepp með. Tók til sjósundsdótið stuttu fyrir ellefu og var komin í Nauthólsvík rétt eftir að opnaði. Mælirinn í bílnum sagði -9 en það var engin ferð á logninu. Hitastigið á sjónum var skráð á tússtöflu á tveimur stöðum við afgreiðsluna. Það voru nokkrir búnir að fara út í og ryðja braut út að smá svæði sem ekki var ís eða krapi í. Ryðja þurfti báðar leiðir og smáa svæðið stækkaði einnig eftir því sem fleiri komu út í. Eftir fjórar mínútur fór ég smá stund í gufuna áður en ég fór aðra ferð út í sjóinn. Var svo í heita pottinum í tæpt korter áður en ég sá að það var lag að koma sér upp úr, skömmu fyrir tólf. En um það leyti eru flestir að skella sér út í uppáklæddir eða í eins konar grímubúningum. Ég laumaði mér í burtu áður en fjörið varð of mikið og var komin heim fyrir klukkan hálfeitt. Þá sýndi mælirinn í bílnum -11 stiga frost. Báðir synirnir voru vaknaðir. Restin af deginum fór í alls konar dundur. M.a. hringdi ég í pabba til að heyra sem fyrst í honum á glænýja árinu.
1.1.25
Nýtt ár!
Aftur var ég vöknuð alltof snemma og síðasti morgunn gamla ársins var keimlíkur þeim næst síðasta. En ég þurfti þó ekki að sópa snjó af bílnum áður en ég fór í vinnuna. Var mætt rétt rúmlega hálfátta og eftir að hafa fyllt á vatnsflöskuna og útbúið tebolla fór ég bæði með bollann og flöskuna að vinnustöðinni minni og hófst handa. Hættum innleggjum rétt fyrir ellefu og þremur korterum síðar skálaði framkvæmdastjóri seðlaversins við okkur í óáfengu freyðivíni. Vegna gamlárshlaupsins þurfti ég að fara krókaleiðir og mun lengri leið heim vegna lokanna. Leiðin varð reyndar líka heldur lengri vegna einbeitingaskorts því ég var allt í einu komin á Miklubraut á austurleið. Beygði inn afleggjarann sem liggur m.a. að Breiðholti og svo inn á Bústaðaveg. Ákvað að koma við hjá AO við Öskjuhlíð og fylla á tankinn. Klukkan var um eitt þegar ég kom loksins heim. Davíð Steinn var að vinna til fjögur. Þeir bræður fóru til föðurfjölskyldunnar um sex leytið. Ég hafði það bara kósí í allan gærdag, ætlaði mér reyndar að lesa meira en ég gerði. Horfði á þætti, kryddsíld sem var í opinni, annála og fleira. Hringdi í pabba. Kveikti á nokkrum sprittkertum. Eldaði mér fljótlegan rétt sem hefur ekkert nafn þar sem ég bjó hann til upp úr sjálfri mér. Í honum voru linsubaunir, kjúklingabaunir og túnfiskur. Um tíu leytið átti ég orðið erfitt með að halda mér vakandi og þótt það væri stutt í að skaupið byrjaði ákvað ég að fara bara í háttinn og það án þess að lesa. Var reyndar búin að lesa eitthvað um daginn. Er byrjuð m.a. á annarri bókasafnsbókinni; Frýs í æðum blóð eftir Yrsu Sigurðardóttur, bókin sem kom fyrir síðust jól.
Allt árið 2024 leið án þess að ég fengi mér kaffi en sagði ansi oft við sjálfa mig að þrauka lengur. Þetta er bara pása. Veit bara ekki enn hversu löng hún verður. Hugsanlega hefði ég getað barist á móti þreytunni sem helltist yfir mig um tíu leytið í gærkvöldi ef ég hefði hellt mér upp á og drukkið 1-2 bolla en mér datt það ekki einu sinni í hug. Líklegra er að líkaminn sé kominn í ákveðið jafnvægi hvað varðar vöku og svefn. Svo er ekkert sem segir að maður verði endilega að vaka fram yfir miðnætti á áramótunum. Reyndar rumskaði ég um miðnættið og þurfti og fór á prívatið. Þá voru skoteldarnir í hámarki, ennþá logaði á sprittkertunum en ég fór samt beinustu leið í rúmið aftur.