31.8.24

Á leið í sund og esperanto

Allt í einu er komin helgi aftur og þessi helgi lendir akkúrat á mánaðamótum. Vel gekk í kortaframleiðslunni í gær en við gengum frá henni um hádegisbilið og skildum eftir síðustu og stærstu endurnýjunarskrána, rúmlega þúsund kort. Erum samt rúmlega hálfnaðar og munum að öllum líkindum klára um miðja næstu viku. Sinnti reikningagerð kortadeildar, mánaðamótauppgjöri, til klukkan hálftvö en tók þá smá innlegg. Er ekki búin með uppgjörið en það klárast fljótlega eftir helgi. Á föstudögum er vinnuskilda til klukkan 15:15 en eins og alla aðra daga megum við fara þegar allt er búið sama hvað klukkan er. Í gær vorum við búin milli hálfþrjú og þrjú. Þurfti samt ekki að logga neinn bónustíma því ég stimplaði mig inn og var byrjuð að vinna um hálfátta leytið þannig að ég skilaði 7klst og 15 mínútum í gær. Var með sjósundsdótið með mér en einhvern veginn var ég ekki í stuði fyrir svoleiðis, hvorki sund né sjó. Fór bara heim og setti í þvottavél. Hringdi í Huldu frænku sem sagði mér frá því að hún, foreldrar hennar og tveir af hundunum væru að fara í útilegu yfir eina nótt á einhvern stað ekki langt frá Húsavík. Frænka mín var mjög spennt yfir þessu og hún hlakkaði til. Það er langt síðan ég heyrði svona spenning í röddinni hennar. Hringdi líka í pabba og esperanto vinkonu mína. Pabbi hafði fengið góða heimsókn í gær og við Inger ákváðum hitting og munum því spjalla betur á eftir. Núna er hins vegar löngu komin tími til að drífa sig í sund því það opnaði klukkan átta. 

30.8.24

Blóðgjöf og út að borða

Í gær fór ég hvorki í sund né sjóinn. Vinnudagurinn var í styttra lagi og var ég komin heim frekar snemma eða fyrir klukkan þrjú. Rúmum klukkutíma síðar rölti ég í blóðbankann, rúmur kílómetri. Sú sem mældi þrýsting og tók viðtalið við mig ákvað að fá "æðahvíslara" til að taka við verkefninu eftir að ég var lögst á bekk. Leyfði þeirri sem tók við að velja og eftir þreyfingar á báðum ákvað hún að velja þá hægri. Það gekk ekki betur en svo að æðin "hljóp" undan nálinni. Sem betur fer má prófa aftur, þ.e. stinga í hina olnbogabótina og það gekk miklu betur. Fann ekkert fyrir stungunni og rennslið var mjög gott. Var komin heim aftur um hálfsex.

Ég og fyrrum fyrirliði vorum búnar að ákveða að nota sumargjöfina frá RB, út að borða fyrir tvo á veitingastaðinn sumac (tvípunktur yfir u-inu), og bjóða nýjasta sumarliðanum og manni hennar með okkur. Þau þáðu boðið. Ég hafði ætlað að mæta á staðinn um sjö en fyrrum fyrirliði bað mig um að hringja og athuga hvort það væri pláss. Í ljós kom að það var betra að mæta upp úr klukkan hálfátta. Fyrrum fyrirliði var samt komin niður í bæ um sex leytið. Ég bauð henni að koma til mín og bíða. Þau sem við buðum með okkur sóttu okkur rétt fyrir hálfátta. Lögðum bílnum við Austurbæjarskóla og röltum þaðan. Fengum pláss í innra herbergi á veitingastaðnum. Þar fyrir var reyndar hópur af Ameríkönum en það fór vel um okkur. Þjónustan var extra góð og maturinn meiriháttar. Þurftum ekki að velja því gjafabréfið hljóðaði upp á eitthvað sem er kallað meze og er sjörétta matseðill. Þessi matarupplyfun tók okkur rúma tvo tíma, sem liðu reyndar frekar hratt. Þegar við vorum að fara hittum við vinnufélaga sem hafði líka verið að leysa út gjafabréfið. Mæli annars 100% með þessum stað. Var komin heim um hálfellefu og fór ekki að sofa fyrr en rúmum klukkutíma síðar því ég þurfti auðvitað að lesa smá. 

29.8.24

Fallegur dagur

Vinnudagurinn í gær fór eingöngu í kortamálin því það var komin endurnýjun til framleiðslu. Ég var á ítroðslu endanum. Prentarinn var með smá vesen framan af þannig að við vorum til hádegis að klára allt daglegt. Höfðum veður af því að uppi yrði allt búið frekar snemma. Kláruðum níu skrár af tólf í endurnýjuninni eftir hádegi, það voru eitthvað á sjötta hundrað kort og næstum einn fjórði af heildarendurnýjuninni. Vorum búnar að ganga frá kortadeildinni milli tvö og hálfþrjú. Flestum verkefnum á efri hæðinni var lokið þannig að við stimpluðum okkur fljótlega út og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í eitt afmælisbarn, fyrrum samstarfskonu, og spjallaði við hana á leiðinni á milli. Var korter í sjónum, annað korter í gufu. Fór aftur í sjóinn í tæpar fimm og var svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr. Aftur lenti ég í bílaröð frá hringtorginu við HR en var samt alls ekki eins lengi á leiðinni heim og sl. miðvikudag því röðin virtist mjakast aðeins hraðar en þá. 

28.8.24

Ósköp fátt en samt eitthvað

Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég vaknaði í gærmorgun, örfáum mínútum áður en vekjarinn átti að fara af stað. Engu að síður hafði ég ágætis tíma fyrir morgunrútínuna. Liðkaði reyndar ekki hendina með prjónaskap en ég gerði æfingar með tveimur tveggja kílóa lóðum. Var eiginlega aðalega að spá í gripið með þeirri hægri og hafa vinstri með til hliðsjónar. Mætti í vinnu um hálfátta. Fór fljótlega niður að hlaða inn nýjustu skrám og fylla út skiptiblöð. Stór dagur var í innlögnum í gær en það voru margar hendur á dekki svo við vorum búin um þrjú. Öllum verkefnum mínum var lokið rúmlega hálffjögur. Var komin í sund um fjögur. Kalda potts vinkona mín var mætt en hún vissi að ég ætlaði að byrja á því að synda svo hún beið eftir mér í sjópottinum. Synti 300m og svo var trítlið á milli potta og gufubaðs mjög svipað og á mánudaginn. Eftir sund kom ég aðeins við í heilsuhúsinu í Kringlunni, en ég var komin heim fyrir hálfsjö. 

27.8.24

Sól og blíða í gær

Vaknaði rétt fyrir sex. Gaf mér góðan tíma í alla morgunrútínu en var samt mætt í vinnu um hálfátta. Eftir að hafa stimplað mig inn, fyllt á vatnsflöskun, fengið mér heitt vatn og spjallað smá við vinnufélaga sem voru mætt fór ég niður að hlaða inn nýjustu skránum og útbúa skiptiblöð. Það tók aðeins um tuttugu mínútur svo ég var komin upp og byrjuð í innleggjunum rétt fyrir átta. Vinnudagurinn var búinn rétt fyrir fjögur. Þá fór ég beinustu leið í Hátúnið í vikulegan osteostrong tíma. Þar bætti ég mig á þremur tækjum af fjórum. Fékk aftur að setja þá hægri á hristipallinn og vafning utan um hana í slökuninni. Eftir tímann og slökunina fór ég beinustu leið í sund. Þar beið kalda potts vinkona mín eftir mér. Fórum fjórar ferðir í þann kalda sem var í heitara lagi fyrir okkur örugglega meira en 12°C. Á leiðinni í þriðju ferðina hittum við eina systur hennar og mæltum okkur "betra" mót við hana í sjópottinum eftir þann galda og smá gufu. Eftir fjórðu ferðina í þann kalda fór ég upp úr og kom við í Krónunni í Skeifunni á leiðinni heim enda var klukkan að verða sjö þegar ég skilaði mér loksins í heimahús. 

26.8.24

Síðasta vika ágústmánaðar hafin

Rumskaði fyrst upp úr klukkan sex en sofnaði strax aftur. Þegar ég vaknaði aftur heyrði ég stofuklukkuna slá átta högg. Fór á fætur. Pabbi var þegar klæddur og kominn á ról. Búinn að ganga frá úr uppþvottavélinni og sat við eldhúsborðið og lagði kapla. Ég settist á móti honum þegar ég var búin að sinna morgunverkunum á baðherberginu. Eftir nokkra kapla sem gengu frekar illa settist ég fram í gang við tölvuna hans pabba í smá stund. Vafraði á netinu og setti inn færslu. Færði mig svo inn í stofu. Pabbi var kominn þangað og búinn að kveikja á sjónvarpinu. Ég greip í prjónana. Það stóð alltaf til að fara aðeins út og safna skrefum en einhvern veginn leið dagurinn án þess að ég tosaði mig af stað. Borðuðum afganginn af folaldakjötinu í hádeginu. Las, prjónaði, lagði kapla og vafraði á netinu. Seinni partinn horfði ég á leik Liverpool og Brentford 2:0. Fljótlega eftir leikinn tók ég dótið mitt saman, kvaddi pabba og brunaði í bæinn.

25.8.24

Í heimsókn yfir nótt á Hellu hjá pabba

Vaknaði á sjöunda tímanum í gærmorgun. Rétt fyrir átta lagði ég af stað í sund. Það byrjaði ég á því að fara í kalda pottinn í 4 mínútur. Þegar ég var að ljúka tímanum kom sjósundsvinkona mín, þ.e. hún var að koma af brautum 7-8 og á leiðinni í nuddpottinn. Ég ákvað að fylgja henni þangað. Fórum saman í mína næstu ferð í þann kalda. Eftir fjórar mínútur þar fór hún upp úr en ég á brautir 7-8 og synti 600m áður en ég fór þriðju ferðina af fimm í þann kalda. Fór einnig í gufu í 10 mínútur og gerði æfingar og í 10 mín í sjópottinn. Þvoði mér svo um hárið áður en ég fór heim. Klukkan var að verða ellefu þegar ég kom heim. Pakkaði niður en fékk mér svo AB-mjólk með hnetum, fræjum og rúsínum. Rétt fyrir tólf sendi ég sms í Fossheiðina og dreif mig svo af stað. Þegar ég kom á Selfoss hafði ég ekki orðið vör við svarskilaboð (sá þau löngu síðar, kannski var ég bara svona blind) svo ég hringdi og fékk að vita að tvíburahálfforeldrarnir væru heima og heilsan góð (eins og stóð í skilaboðunum). Það var liðinn amk mánuður síðan ég var síðast á ferðinni og kominn tími til að renna við. Mátti þó ekki vera að því að bíða eftir tvíburahálfsystur minni sem var á leiðinni í berja og rabbabaravinnu. Stoppaði aðeins í uþb klst. Var komin á Hellu um þrjú. Pabbi var búinn að taka lásinn af og sat við eldhúsborðið að leggja kapla. Ég byrjaði því heimsóknina á að fara í smá kaplakeppni við hann. Ekkert löngu síðar færðum við okkur inn í stofu. Þar "datt" eitt stk. eldhús- eða fótþurrkuhandklæði af prjónunum og skömmu síðar fitjaði ég upp á enn einni tuskunni. Pabbi kveikti á sjónvarpinu. Man ekkert hvað hann var að horfa á en þegar sá þáttur var búinn var síðasti leikurinn í enska boltanum að hefjast. Aston Villa - Arsenal 0:2. Pabbi settist um stund við tölvuna en hann setti upp folaldakjöt um hálfsex og skrældi og skar niður eina væna sæta kartöflu sem hann sauð í sér potti stuttu áður en folaldakjötið var tilbúið. Skammturinn var svo stór að við borðum líklega afganginn í hádeginu í dag. Eftir mat hjálpuðumst við feðgin að mér frágang. Kvöldfréttir í sjónvarpinu voru búnar en við skiptumst á að horfa á útsendingar frá Arnarhóli og Hljómskálagarðinum. Ágætis tónleikar á báðum stöðum. Ég las bara stutt þegar ég fór í háttinn á tólfta tímanum, var örugglega steinsofnuð fyrir miðnætti.

24.8.24

Næst síðasta helgin í ágústmánuði

Vaknaði mjög snemma í gærmorgun, útsofin en ekki tilbúin til að fara strax á fætur. Klukkan var eitthvað aðeins byrjuð að ganga sex og ég byrjaði daginn á því að lesa smávegis. Mætti í vinnu um hálfátta og var fljótlega byrjuð á innleggjunum. Vinnan gekk ágætlega en það teygðist engu að síður úr deginum. Á föstudögum er markmiðið að vera búinn og farinn úr vinnu í síðasta lagi korter yfir þrjú. Getum ekki farið fyrr en allt er búið og ég var að stimpla mig út milli hálffjögur og fjögur í gær. Var með bæði sund- og sjósundsdót meðferðis. Nauthólsvíkin varð ofan á. Prófaði að nota ullarsokkana sem ég keypti á ullarsetrinu á Hvammstanga á leiðinni norður í vor. Hefði kannski líka átt að fara í ræfilslegu strandsskóna en þetta slapp til. Ekki þó viss um að ég geri þetta aftur. Annað hvort útvega ég mér betri sokka eða fer að nota sjósundsskóna aftur aðeins fyrr en ég ætlaði mér. Sjórinn var 9,8°C og skónotkunarviðmiðið hjá mér er ca 6-7. Var berhent eins og ég er búin að vera í allt sumar og svamlaði í sjónum í tæpt korter. Sat svo annað eins í gufunni og notaði tækifærið og gerði æfingar. Var komin heim um hálfsex. 

23.8.24

Enn eitt gosið við Grindavík

Rumskaði stuttlega um miðja nótt í fyrri nótt en vaknaði svo við vekjarann í gærmorgun. Rútínan varð eitthvað styttri fyrir vikið og bitnaði mest á morgunæfingunum. Mætti í vinnu um hálfátta og fljótlega var ég byrjuð að vinna innlegg. Verkefnum mínum var ekki lokið fyrr en korter fyrir fjögur og var ég með þeim síðustu út úr húsi, með í því að setja kerfið á áður ég og önnur hlupum út. Fór beint í sund og eftir fimm mínútur í kalda pottinum fór ég á braut 7 og synti 200 metra. Þá var komin svo mikil umferð í laugina að ég ákvað að kalla þetta gott sund í bili, betra en ekki neitt samt. Fór aftur í kalda pottinn. Svo gufu, kalda sturtu, sjópott og kalda sturtu á leiðinni upp úr. Var komin heim um sex. 

22.8.24

Beinþéttnimæling í gær

Fyrir tæpum tveimur vikum síðan fékk ég bréf frá Landsspítalanum þar sem ég var boðuð í beinþéttnimælingu og gefinn tíminn þann 21. þessa mánaðar kl. 9:10 í þá mælingu. Ég byrjaði því gærdaginn ekki alveg eins snemma og flesta virka daga en samt um hálfsjö leytið. Synti morgunrútínunni, gaf mér extra góðan tíma í æfingar og náði meira að segja að lesa aðeins áður en ég fór að huga að brottför í mælinguna. Hugmyndin var að fara á bílnum en leggja aðeins lengra frá og labba síðasta spölinn að Eiríksgötu 5. Hins vegar fann ég ekki stæði á þeim stað sem ég ætlaði að leggja bílnum svo ég fór alla leið, fékk stæði rétt við annan innganginn og þar sem ég var aðeins í fyrra fallinu borgaði ég fyrir rúman klukkutíma ef ég skyldi þurfa að bíða eitthvað. Skráði mig inn á fyrstu hæð og borgaði í þar til gerðan posa. Ég var mætt rúmum tíu mínútum fyrir boðaðan tíma en ég þurfti samt ekki að bíða lengi eftir að vera kölluð inn. Ég var búin að fylla út ákveðið skjal nema hæðina sem ég var ekki með á hreinu. Var síðast í mælingu fyrir fimm árum og síðan þá hef ég dregist saman um 2mm, mældist 169,3 í gær. Þyngdin 79kg. Ég þarf svo að panta tíma hjá lækni á heilsugæslunni til að fá niðurstöður en sú sem setti mig í tækið sagði að mælingar væru flestar mjög svipaðar og síðast þegar ég var mæld og það voru alls ekki slæmar mælingar. Mætti í vinnu um hálftíu og eftir smá fund fór ég í innlegg. Vinnudegi lauk um hálffjögur leytið og þá fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Svamlaði um í 11,1°C sjónum í uþb korter en því miður var gufan lokuð. Sat í heita pottinum í annað korter. Hefði líklega átt að fara aftur í sjóinn og gefa mér enn betri tíma því ég var án gríns næstum þrjú korter á leiðinni heim því umferðin frá HR var bíll við bíl, stopp og bið inn á milli og það var byrjað þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík.

21.8.24

Veðurblíða í gær og margt um manninn í sundi seinni partinn

Var komin á fætur rúmlega sex í gærmorgun. Morgunrútínan svipuð og flesta virka daga. Mætti í vinnu um hálfátta og fljótlega var ég byrjuð í innleggjunum sem voru mörg í gær. Verkefnum var ekki lokið fyrr en um hálffimm. Þá fór ég beint í sund. Lagði bílnum á stæði við Laugardalsvöllinn og rölti þaðan í laugina. Margar af brautunum voru fráteknar vegna æfinga og þær sem ekki voru fráteknar voru undirlagðar í leik eða slatta af syndandi fólki. Ég notaði þetta kraðak sem afsökun fyrir því að skrópa í sjálft sundið en fór tvisvar í frekar volgan kalda pottinn, tuttugu mínútur í gufu og tíu mínútur í sjópottinn áður en ég fór upp úr og heim. 

20.8.24

Hraðferð á logninu í gær

Glaðvaknaði korter fyrir sex í gærmorgun. Morgunrútínan var svipuð og oftast áður. Gaf mér góðan tíma í fyrstu æfingalotu dagsins en var líka að vafra á netinu. Mætti í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn og sumarliðinn sem hefur fengið framlengingu til áramóta sáu um það sem þurfti að gera varðandi kortamálin, bókhald og hlaða inn skrám. Ég var aðeins í innleggjum í gær. Það gekk vel og flestum verkefnum var lokið um þrjú. Mér fannst of snemmt að mæta strax þá í vikulegan osteostrong tímann minn en það tók því heldur ekki að fara heim. Hringdi í pabba sem var á ferðinni. Hafði skroppið í bæinn með bílinn í eftirlit hjá Brimborg en var staddur í Flóanum á leiðinni heim eftir bæjarferðina. Ég lagði mínum bíl fyrst við Hátún 10 og eftir að hafa talað við pabba hringdi ég í vinkonu mína sem er með bás á torginu öll sumur. Hún var heimavið í gær og við spjölluðum í dágóða stund. Rétt fyrir fjögur færði ég bílinn að Hátúni tólf og þótt ég væri mætt rúmum tuttugu mínútum áður en tíminn minn átti að hefjast komst ég strax að. Bætti mig á tveimur tækjum af fjórum og var við minn besta árangur á hinum tveim. Eftir jafnvægisæfingarnar bað ég um að fá að setja hægri hendina á hristipallinn í smá stund og í hvíldinni fékk ég auka vafning utan um hana. Eftir tímann fór ég beint í sund. Synti reyndar ekkert en fór tvisvar í þann kalda, gerði fingra og úlnliðsæfingar í gufunni og fór smá stund í sjópottinn líka. Var komin heim um sex. 

19.8.24

Ný vinnuvika

Man ekki nákvæmlega hvenær ég rumskaði í gærmorgun en ég kúrði amk uppí alveg til klukkan hálfátta. Þá fór ég á fætur og dundaði mér við ýmislegt þar til klukkan var langt gengin í ellefu. Um ellefu var ég komin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni í einn og hálfan tíma. Við lásum m.a. uþb eina og hálfa bls. í Kon Tiki. Keyrði aðeins út að Gróttu á leiðinni heim en stoppaði ekkert. Meiningin var svo að skreppa í göngutúr seinna um daginn en ég festist yfir fótbolta leikjum og þáttaáhorfi og ákvað að þetta yrði bara svona hreinasti letidagur þar sem ég fór heldur ekki í neitt sund. Í gær var síðasti dagur sumartímabilsins í Nauthólsvík. Frá og með deginum í dag verður aðstaðan lokuð á sunnudögum og mánudögum en hina dagana opið frá 10-19. Opnunartíminn breytist kannski þegar líður á haustið. Sl. vetur hefur verið opnað klukkan ellefu og á laugardögum lokað klukkan fjögur. 

18.8.24

Í bænum þessa helgin

Svaf í einum dúr frá hálfellefu til hálfsex í fyrrinótt og þar sem ég var útsofin fór ég á fætur. Tók af rúminu og setti hreint á í staðinn. Setti þetta samt ekki í þvottavélina fyrr en um átta, rétt áður en ég dreif mig í sund. Var tvo tíma í sundi. Synti 500m og fór 3x5mín í þann kalda. Fór líka í gufu og sjópottinn og sat svo á stól í smá stund. Þvoði mér um hárið og var komin heim um hálfellefu leytið. Horfði á einn þátt og akkúrat þegar hann var búinn var fyrsti leikur dagsins í enska að byrja. Liverpool sótti nýliðana Ipswich heim. Heimaliði byrjaði af krafti, varðist vel og gerði "mínum" mönnum erfitt fyrir í fyrri hálfleik. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik. Leikurinn endaði 0:2 fyrir gestunum en ég missti af báðum mörkunum, sá þau bara í endursýningu, því ég skrapp í smá stund frá (til að hengja upp úr þvottavélinni). Eftir leikinn skrapp ég út í rúmlega klukkutíma göngutúr. Fór svo ekkert meira út eftir það. 

17.8.24

Ágústmánuður rúmlega hálfnaður

Nú brá svo við að ég svaf alveg þar til vekjarinn vakti mig með látum í gærmorgun. Að vísu rumskaði ég aðeins um þrjú leytið og hefði eiginlega þurft að fara á pisseríið en í stað þess sneri ég mér á hina hliðina og vissi næst af mér þegar vekjarinn fór að ólmast. Morgun rútínan var því aðeins í styttra lagi en það kom ekkert að sök. Var mætt í vinnu um hálfátta. Vissi ekki strax að fyrirliði kortadeildar var mætt og farin niður að hlaða inn skrám en þegar ég opnaði tölvuna korter fyrir átta var hún að setja inn að skiptiblöð væru tilbúin. Ég græjaði framleiðslublöð og talningablöð, prentaði út öll gögn og var komin niður um átta. Kláruðum allt daglegt og rúmlega helming af endurnýjun sem var að bíða eftir plastsendingu. Hefðum klárað alla endurnýjunina ef umslögin hefðu ekki verið á þrotum. Einhvern veginn fór það framhjá okkur að þau væru að klárast en nóg er til af formum. Við gengum frá kortadeildinni korter fyrir tíu og ég sendi beiðni á viðkomandi aðila um að útvega okkur umslög eins fljótt og kostur væri. Eftir kaffi kláraði ég bókhaldsmál áður en ég stimplaði mig úr kortunum og setti upp tímateljara fyrir næsta verkefni. Flestum verkefnum var lokið upp úr klukkan tvö. Þrír sumarliðar kvöddu okkur en hugsanlega kom tveir þeirra í smá afleysingu stöku sinnum næstu vikurnar. Fimmti sumarliðinn mun kveðja eftir næsta þriðjudag, sá sjötti um mánaðamótin en sá sumarliði sem kom síðastur inn hefur fengið framlengingu til áramóta. Fór í sund eftir vinnu og beint á braut 6 þar sem ég synti 400m. Fór 3x5 mínútur í þann kalda sem reyndar var í volgara lagi, 10 mínútur í gufu og sjópott og 5 mínútur í 42°C pottinn. Kom við í fiskbúð Fúsa sem opnaði aftur í vikunni eftir sumarfrí. Keypti harðfisk og einnig ýsu í soðið. Var komin heim einhvern tímann á fimmta tímanum. 

16.8.24

Sól og blár himinn

Vaknaði upp úr klukkan hálfsex í gærmorgun. Tíminn fram að því að ég lagði af stað í vinnuna var fljótur að líða. Rútínan var svipuð og oftast. Var svo mætt í vinnu rétt um hálfátta. Vann aðallega í innleggjum en ég tók bæði að mér að útbúa framleiðslublöð og hlaða inn kortaskrám þótt tvær aðrar kortakonur væru á svæðinu. Þurfti nefnilega hvort sem er að fara niður til að mappa ákveðin skjöl frá því í fyrra dag. Auðvitað hefði það mátt bíða en fyrsti innleggja skammturinn minn var búinn um níu leytið en hinar tvær voru enn með verkefni og það var ekki alveg kominn tími á kaffipásu. Skrifandi um kaffi þá eru núna liðnir tíu mánuðir síðan ég drakk síðast kaffi. Fljótlega eftir kaffi var ísbíllinn á ferðinni, pantaður af framkvæmdastjóra til að gera vel við sumarliðana okkar en í gær var síðasti vinnudagur eins af þeim. Ég ákvað að skreppa út og spyrja hvort til væri sykurlaus ís og viti menn ég fékk einn í hendurnar sem stóð á "Utan tilsadt sucker". Og það sem meira var, eftir að hafa borðað hann var maginn alveg til friðs og löngun í gotterí eða meira að borða hafði ekki æsts upp. Vinnudegi mínum lauk um þrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaugina. Hann hafði farið í myndatöku á Selfoss á miðvikudaginn og skroppið í Krónuna í leiðinni. Þar fann hann uppáhalds hráefnið sitt í pönnukökugerð og var að undirbúa slíka framkvæmd þegar ég hringdi í hann. Ég fór beint á brautir 7 og 8 og byrjaði á því að synda 300m. Gufan var lokuð en ég fór 2x5mínútur í kalda, 15 mín í sjópottinn og 10 mínútur í nudd/magnesíum pottinn. Kalda potts vinkona mín var að koma þegar ég var að labba út úr byggingunni um hálffimm leytið. Lánaði Oddi bílinn eftir að ég kom heim og í staðinn skrapp hann í Sorpuferð á leiðinni í Krónuna. Horfðum svo á þrjá NCIS þætti eftir fréttir í gærkvöldi. 

15.8.24

Í sjóinn í gær

Þar sem ég var ekki alveg ákveðin í hvort ég færi í sund eða sjóinn eftir vinnu í gær hafði ég báða pokana með mér. Vinnudagurinn hófst á kortaverkefnum. Innan við þrjúhundruð kort voru í framleiðslu og ekki hægt að framleiða nokkur vegna hráefnisskorts. Vélin og prentarinn tóku smá "kast" en við vorum búnar að framleiða og ganga frá niðri korter fyrir tíu. Eftir kaffi kláraði ég bókhald og fylgiskjöl með pósti áður en ég stimplaði mig út úr kortunum, setti upp nýjan tímamæli og fór í innleggin. Öllum verkefnum mínum lauk milli klukkan tvö og hálfþrjú og þá mátti ég fara. Tók stefnuna í Nauthólsvík. Svamlaði í sjónum í uþb korter, var annað eins í gufunni og gerði æfingar þar, fór í kalda sturtu á eftir og sat í heita pottinum í rúmt korter áður en ég fór upp úr og heim. Davíð Steinn er allur að hressast og þótt hann ætli að halda sig inni við til morguns þegar hann á næstu vakt þá var hann hann að þvo af sér. Hann var því líka búinn að taka af snúrunum eftir mig og koma með upp, saman brotið, og setja á rúmið mitt. Hvorki ég né Oddur kennum okkur meins svo það er spurning hvort við séum sloppin í þetta sinnið. Krosslegg fingur og tær og vona það allra besta. 

14.8.24

Full skoðun á bílinn

Vaknaði nokkru á undan klukkunni eins og oftast áður, samt ekki mjög löngu á undan. Morgunrútínan var svipuð og oftast og ég var mætt í vinnu um hálfátta. Eftir að hafa stimplað mig inn, fyllt á vatnsflöskuna og fengið mér bolla af sjóðandi vatni byrjaði ég á því að græja tölu og bókhald fyrir kortadeild áður en ég sneri mér alfarið að innleggjum. Vinnudagurinn varði til klukkan að verða fjögur. Þá byrjaði ég á því að skreppa með bílinn að Klettagörðum 11 þar sem ég komst strax að með bílinn í skoðun hjá Frumherja. Það tók ekki mjög langan tíma, fékk enga athugasemd og nýjan miða á númeraplöturnar. Síðan lá leiðin í Laugardalslaug. Hringdi í pabba áður en ég fór inn. Hann er búinn að taka niður Reynitré sem var komið á tíma og aldur og hefði getað oltið um koll í næsta roki og þá jafnvel skemmt eitthvað í leiðinni. Það eru greinilega sundæfingar að byrja um hálffimm og aftur skrópaði ég í sundið sjálft en kaldi potturinn, gufan og sjópottinn héldu mér aðeins við efnið. 

13.8.24

Osteostrongtími í gær

Var mætt í vinnu um hálfátta. Græjaði bókhald og framleiðslutölur fyrir kortadeildina eftir að fyrirliðinn hafði ákveðið að við sumarliðinn ættum að fá að vinna saman og sumarliðinn ákveðið að hún vildi hlaða inn skrám fyrstu dagana en taka við bókhaldskeflinu aftur síðar í vikunni. Annars var ég í innleggjum. Fyrirliggjandi innlegg kláruðust um hálftíu leytið og næstu verkefni skiluðu sér ekki fyrr en um og upp úr hálfellefu. Allt var svo alveg búið milli þrjú og fjögur. Ég stimplaði mig út rétt fyrir hálffjögur. Osteostrong tími minn er ekki fyrr en kl. 16:20 en ég var mætt rúmum hálftíma fyrr en það og þurfti samt ekki að bíða. Bætti mig á þremur tækjum af fjórum og var við besta árangurinn á fjórða tækinu. Var komin í sund fyrir klukkan hálffimm. Synti reyndar ekkert því mér fannst of mikið kraðak á brautunum. Innisundlaugin er lokuð og því allar sundæfingar í útilauginni. Ég er svo sem ekkert viss um að ég hefði synt mikið hvort sem er en fór í þann kalda sem var um 10°C, gufuna og sjópottinn. Kom við í sokkabúðinni Copra við Garðatorg og keypti mér tvö pör af orkusokkum. Ætla að prufa hvort þeir hafi betri áhrif á bólgurnar í fótunum. Kom heim um hálfsjö. Davíð Steinn er allur að hressast en þarf að fara varlega næstu daga. Fer amk ekki í vinnu í dag og á svo frívakt næstu tvo daga og kemst svo kannski á helgarvaktina sína. Ég náði loksins að klára fyrstu bókina af fjórum af Sólheimasafninu, um 550bls. en ég var heldur ekki að fara að sofa fyrr en um hálftólf þótt ég færi upp í rétt fyrir tíu. 

12.8.24

Tólfti ágúst

Ingvi mágur og hundarnir Vargur og Ugla voru fyrst á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Að vísu var pabbi örugglega búinn að koma aðeins fram fyrr um morguninn til að taka niður helstu tölur og fá sér eitthvað. Ég klæddi mig um það leyti sem hundunum var hleypt út að pissa og bjó til kaffi. Er enn ekki farin að drekka kaffi aftur. Það eru uþb tíu mánuðir síðan ég drakk þann drykk síðast. Enn í pásu en ekki tilbúin að segja að ég sé hætt. Sé það nefnilega fyrir mér að leyfa mér einn til tvo bolla á dag einhvern tímann. Núna er markmiðið að vera kaffilaus amk í ár. Fljótlega fóru systir mín og mágur að hugsa sér til hreyfings enda löng keyrsla norður framundan. Þurftu að skila af sér kerru á N1 við Gagnveg og þar opnar ekki fyrr en tíu á sunnudögum. Kerran var notuð til að koma dýnu úr íbúðinni sem Bríet og Bjarki hafa leigt sl ár og aftur á Hellu. Unga parið hefur reyndar verið meira í sveitinni hjá foreldrum hans, bæði að hjálpa til og flýja flugnabit. Um hálftíu kvöddu norðanfólkið og hundarnir. Ég var áfram á Hellu fram eftir degi. Horfði á beinar útsendingar, prjónaði, lagði kapla, vafraði á netinu og las. Klukkan var farin að ganga fimm þegar ég kvaddi pabba. Þrátt fyrir umferð gekk ferðin í bæinn ágætlega, amk framan af. Það var mikil umferðasulta alveg frá Sandskeiði og að Rauðavatni. Kom heim um hálfsjö. Davíð Steinn greindist í fyrsta skipti með covid um helgina. Hann tók tvö test og bæði voru jákvæð. Hann er því ekki að fara að vinna í dag eða á morgun enda ekki orðinn hitalaus eða var það ekki í gærkvöldi. 

11.8.24

Alls konar og ekki neitt

Rumskaði um sjö leytið í gærmorgun við það þegar hundar mágs míns og systur ráku á eftir honum að hleypa sér út að pissa. Mágur minn fór með hundana í stutta göngu. Pabbi var kominn á fætur og var að horfa á beina útsendingu frá ólympíuleikunum. Helga systir var eitthvað illa fyrirkölluð og var í rauninni sárlasin og það voru alls ekki bara timburmenn ef það voru þá timburmenn. Um hálftólf leytið ákvað Ingvi að fara í aðeins lengri göngu með hundana og ég fékk að fara með. Löbbuðum að Rangánni og upp með henni, vegslóða, alveg að þar sem greinilega eru framkvæmdir í gangi. Á baka leiðinni fórum við annan veg sem Ingvi vildi sjá hvert leiddi. Sá vegur var aðeins meiri en slóði. Á tímabili vorum við stutt frá fjósinu á Helluvaði, aðeins tún á milli. Komum svo að öðrum stað þar sem einnig hefur verið framkvæmt og byggt. Göngutúrinn varði alls tæpa tvo tíma og forritið í simanum skráði á mig þrjár mislangar göngur innan þess tíma. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma sem skref dagsins fara yfir níuþúsund. Horfði á úrslitaleik kvenna í handbolta þar sem þær norsku unnu þær frönsku. Svo tók ég mig til og matreiddi löngu sem Helga hafði valið þegar þau pabbi skruppu saman í fiskbúðina stuttu fyrir helgi. Steikti lönguna upp úr krydduðu rjómablönduðu hrærðu eggi og smá hveiti á salatmæsterpönnunni hans pabba. Áður var ég búin að skræla og bita niður lauk og sæta kartöflu sem ég gufusauð. Með þessu bjó ég einnig til sallat. Helga hafði litla sem enga matarlyst en settist þau niður með okkur pabba og Ingva í smá stund og smakkaði á fiskinum. Matargerðin heppnaðist vel hjá mér og ef Helga hefði haft betri lyst hefði fiskurinn klárast. Pabbi sá um uppvaskið eftir matinn og það sem eftir lifði dags og kvölds var ég ýmist að prjóna, lesa, klappa hundum og/eða fylgjast með beinum útsendingum.

10.8.24

Komin aftur á Hellu

Svefninn í fyrrinótt var eitthvað furðulegur. Á tímabili kveikti ég á lampanum og setti upp lesgleraugu. Það var um miðja nótt. Engu að síður vaknaði ég löngu áður en vekjarinn átti að ýta við mér og var komin á fætur fyrir sex og mætt í vinnu um hálfátta. Ég fór niður að kveikja á kortavélinni, hlaða inn nýjustu skrám og fylla út skiptiblöð. Sumarliðinn sá um að útbúa framleiðslu og talningablöð og prentaði svo allt út áður en hún kom niður. Framleiðslu lauk á rúmum klukkutíma og frágangurinn tók ca hálftíma í viðbót. Eftir það skráðum við tímana á kortavinnslu, settum upp nýtt "tímatrakk" og snerum okkur að öðrum verkefnum. Nóg var að gera í innlögnunum, það kláraðist ekki fyrr en um hálffjögur og var klukkan orðin fjögur áður en ég stimplaði mig út. Fór beint yfir í Laugardalslaug og á braut tvö. Var bara búin að synda uþb 100m þegar sú braut fylltist að krökkum sem greinilega voru að fara að æfa svo ég færði mig snarlega yfir á braut 1, eftir það gat ég bara synt á bakinu aðra hverja ferð en ég synti 400m í það heila. Sat svo í tíu mínútur í 12°C (of heitum) kalda pottinum og ca 15 mínútur í sjópottinum áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið og skrapp svo aldrei þessu vant í Hagkaup í Skeifunni. Kom heim um hálfsjö leytið og fékk mér hressingu áður en ég pakkaði niður og lagði af stað austur. Var komin á Hellu um níu. Helga systir hringdi úr Hvolsvelli um klst síðar. Þá var ég farin að horfa á þátt og sagðist sækja þau um ellefu. Pabbi lánaði mér bílinn í það verkefni því þau voru með hundana með sér í matarboði hjá fólkinu sem seldi þeim Varg og lánaði þeim Uglu til uppeldis. 

9.8.24

Í sjóinn í gær

Vaknaði nokkrum mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér í gærmorgun. Mætti til vinnu um hálfátta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann og fengið mér bolla af heitu vatni fór ég niður í kortadeild, hlóð inn nýjustu skránum og útbjó skiptiblöð. Lengstan tíma tók að bíða eftir að fartölvan opnaði aðganginn minn og var ég niðri í tæpan hálftíma. Restina af vinnudeginum var ég í innleggjum og í yfirlestri í blálokin. Vinnudagurinn minn varði í akkúrat átta tíma. Var með sjósundsdótið meðferðis en ætlaði að vera skynsöm og láta skoða bílinn fyrst. Kom við í Frumherja við Grenásveg 7 því þangað hef ég farið undanfarin ár. Nær hefði líklega verið að fara á stöðina við Klettagarða. Klukkan var um fjögur og hálftími í lokun en því miður þá voru veikindi svo þótt ég kæmist inn á stöðin við Grensás og hitti einn mann að máli, þá var eiginlega búið að loka. Lét skoða bílinn síðast þann 8. ágúst í fyrra. Bílnúmerið endar á átta svo þetta er skoðunarmánuðurinn. Hef hann og tvo til svo það er nægur tími. Samt væri gott að ljúka þessu af. Hringdi og spjallaði við Ellu vinkonu þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Var komin ofan í sjóinn rúmlega hálffimm og svamlaði um í tæpar tuttugu mínútur. Eftir 10 mín í gufu, kalda sturtu og næstum tuttugu mínútur í pottinum fór ég upp úr. Sá á símanum að Helga systir hafði verið að reyna að ná í mig og hringdi til baka. Þau Ingvi verða á Hellu um helgina en eru boðin í mat í Hvolsvöll í kvöld. Pabbi er búinn að kaupa löngu sem ég á að matreiða á morgun. Fer líklega samt austur strax í kvöld. Frá Nauthólsvík lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð svo ég var ekki komin heim fyrr en um hálfsjö leytið. 

8.8.24

Draugalegt þokuloft í gærmorgun

Það var svolítið sérstakt að keyra til vinnu í gærmorgun því það var þokkalega þétt þoka og umhverfið hálf draugalegt þannig. Annars var framleiðsludagur. Kortasumarliðinn fór niður að hlaða inn skrám og fylla út skiptiblöð og ég útbjó framleiðslublöðu, fyllti út talningablöð og prentaði öll gögn út áður en ég fór niður. Framleiðsluvélin var með smá mótþróaþrjóskuröskun í upphafi og þurfti að taka hana einu sinni niður áður en hún komst af stað. Eftir það gekk allt eins og í sögu. Vorum næstum búnar með dagskammtinn þegar boð komu um að það væri fundur í morgunkaffinu um 9:40. Á fundinum var verið að fara yfir alls konar tölur varðandi vinnuna okkar allra. Framkvæmdastjórinn var mjög ánægður með hvað gengi vel á öllum sviðum. Hann langar þó að fá að sjá hversu mikil tími fer í kortaframleiðsluna þessa fáu mánuði sem eftir eru af henni svo hann bað um að við myndum skrá tímana okkar á það sama og við skráðum þá á þegar kortadeildin var staðsett í seðlabankanum, alltsvo þegar við værum að vinna í kortunum. Eftir fundinn fórum við niður aftur, kláruðum daginn og afganginn af endurnýjuninni sem kom stuttu fyrir sl mánaðamót. Sendum upp tólf fulla póstbakka um tólf leytið, ellefu af þeim tengdir endurnýjuninni. Vorum búnar að ganga frá kortadeildinni niðri en eftir mat kláruðum við frágang og fylgiskjöl, skráðum tímana og settum upp nýtt "tímatrakk" áður en við fórum í næsta verkefni. Mínum verkefnum var ekki lokið fyrr en um hálffimm leytið. Þá var komin sól og blíða úti. Var bæði með sund og sjósundsdót meðferðis. Ákvað að skella mér í sundið þar sem ég var viss um að það væri krökkt af fólki í Nauthólsvíkinni. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir. Hann var nýlega kominn heim úr smá ferðalagi um Rangárvelli með Bjarna Böðvarssyni frá Þinghól sem sótti hann og fékk hann til að fara með sér um þessar slóðir. Það var líka kraðak í sundlauginni sjálfri og kaldi potturinn ívið of heitur eða meira en 14°C. Sleppti því að synda en lét mig hafa það að sitja 2x10 mínútur í "kalda" pottinum, 10 mínútur í gufu og 10 mínútur í sjópottinum. Var komin heim um hálfsjö leytið.

7.8.24

Vikan uþb hálfnuð

Eitthvað var svefninn ekki alveg hundrað prósent í fyrrinótt, fannst ég ekki útsofin þegar ég fór á fætur upp úr klukkan sex. Ég var engu að síður tilbúin í daginn. Morgunrútínan var svipuð. Var mætt í vinnu um hálfátta. Nóg var af verkefnum og ég var að alveg til klukkan korter í fjögur. Fór þó auðvitað í kaffi og matarpásur. Tvær úr kortunum voru í fríi og sumarliðinn sem þekkir inn á það dæmi er enn lasin eftir slæma covid-pest. Ég fór því bæði niður að hlaða inn skrám og gera skiptablöð sem og útbúa framleiðslublöð og gera bókhaldið. Fékk að fara úr vinnu áður en allt var alveg búið því þar sem það var frídagur á mánudaginn hafði ég fært osteostrong tímann til um einn dag. Átti tíma tíu mínútur yfir fjögur í gær. Var mætt aðeins fyrr en það og átti von á því að þurfa kannski að bíða. En ég komst strax að, bætti mig á tveimur tækjum af þremur og jafnaði árangur á einu. Var ekki svo langt undir því besta á fjórða tækinu. Eftir jafnvægisæfingar á eftir og slökun fékk ég mér vatnsglas áður en ég kvaddi og fór beint í sund. Synti reyndar ekkert, fannst of margt á öllum brautum en ég fór tvisvar fimm mínútur í þann kalda og 15 mínútur í gufu og einnig sjópott. 

6.8.24

Vinnuvika í styttra lagi framundan

Fór á fætur um hálfátta í gærmorgun. Pabbi var löngu kominn á fætur og hafði lokað dyrunum inn á þvottahúsgang og inn í stofu. Hann hafði kveikt á sjónvarpinu um sex leytið og fylgst með beinum útsendingum. Ég settist inn í stofu með bók og prjóna. Fljótlega rétti pabbi mér fjarstýringuna og fór að sýsla ýmislegt annað. Um hádegið bauð hann upp á saltfisk með kartöflum og smjöri. Ég lagði fyrsta kapal dagsins eftir mat, 10, 20, 30, og hann gekk strax upp. Um hálf fimm leytið tók ég mig saman og kvaddi pabba. Umferðin var þónokkur í báðar áttir en gekk vel. Ákvað samt að beygja upp Villingaholtsafleggjarann og keyra þá leiðina í gegnum Stokkseyri og fara Þrengslin. Var komin heim upp úr sex. Fékk Odd til að koma út til að hjálpa mér inn með ferðatöskuna. Báðir bræður voru heima.  

5.8.24

Góður bíltúr með pabba í gær

Klukkan var að verða hálfátta þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Pabbi var þá þegar kominn á fætur. Morguninn var þokkalega rólegur; beinar útsendingar, prjón, lestur, æfingar og netvafr. Um hádegisbilið spurði pabbi hvenær ég hefði hugsað mér að fara. Ég var ekki alveg búin að hugsa það og spurði á móti, í gríni, hvort hann væri orðinn þreyttur á mér. Ekki var það nú meinið heldur var hann að spá í hvort ég kæmi með honum í smá bíltúr eftir hádegið. Auðvitað var ég til í bíltúr. Lögðum af stað rétt fyrir tvö. Ókum næstum upp að Keldum en beygðum upp til vinstri rétt áður, veg sem merktur er Syðri Fjallabaksleið. Ókum alla leið upp að leyfum af eyðibýlinu Rauðnefsstöðum sem fór í eyði eftir Heklugosið 1947. Í bakaleiðinni komum við niður hjá Tumastöðum í Fljótshlíðinni. Þessi bíltúr og smá stopp við Rauðnefsstaði tók rétt rúma tvo tíma.


4.8.24

Rólegheit

Vaknaði fyrir klukkan sex. Þurfti og fór á pisseríið en fannst of snemmt að fara strax á fætur. Las í smá stund en vissi svo næst af mér um níu leytið. Pabbi var auðvitað löngu kominn á fætur þegar ég kom fram um hálftíu. Hann var að horfa á beina útsendingu frá Frakklandi. Fórum svo í smá kaplakepnni og vöfruðum á netinu. Eftir hádegisfréttir skruppum við í búðina. Þegar við komum til baka kveikti pabbi á grillinu en ég setti upp sæta kartöflu og útbjó smá sallat. Vorum að borða um tvö leytið.

Ein af bókunum af safninu er meðferðis hún er númer tvö í röðinni eftir Camillu Lackberg og Henrik Fexeus um samstarf lögreglu og sjáanda; Gátan. Vel yfir fimmhundruð blaðsíður og ég er bara komin á blaðsíðu tvöhundruðogeitthvað. Hinar þrjár bækurnar eru svipað þykkar svo ég spyr mig; Hvenær ætla ég að læra að sníða mér stakk eftir vexti? Ég þarf að hafa mig alla við að klára þessar fjórar á 30-60 dögum því ég er með fleira lesefni á kantinum fyrir utan annað dútl.

 

3.8.24

Verslunarmannahelgi

Eftir vinnu á fimmtudaginn ákvað ég að skreppa aðeins í sund enda með sunddótið meðferðis. Það var búið að rigna mikið um daginn og um hádegisbilið kom þvílíkt úrhelli í þónokkurn tíma að það dimmdi yfir. En þegar ég kom í laugina rúmlega þrjú fór að sjást í bláan himin og sólina. Synti því í uþb hálftíma, flestar ferðir á bakinu, fór tvisvar sinnum fimm mínútur í kalda, 15 mínútur í gufu og næstum annað eins í magnesíum pottinn. Var komin ofan í þann pott rétt fyrir fjögur og á slaginu fjögur var sturtað úr heilli fötu af magnesíumflögum yfir okkur. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr þar sem ég var að fara út úr bænum í nokkra daga. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni heim og sagðist eiga eftir að pakka og fá mér eitthvað áður en ég drifi mig af stað. Hann var í miðju kafi að steikja pönnukökur. Ég var komin austur um átta leytið og frétti þá að Helga systir væri á leiðinni. Þau hjónin höfðu lagt af stað að norða um fimm leytið svo ég var farin að sofa þegar þau mættu á svæðið. Rumskaði aðeins þegar þau komu með tvo hunda af þremur um eitt leytið. Hefði þurft að fara og tæma blöðruna en ég sofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en um sjö leytið. Þá var pabbi farinn í sund og enginn annar kominn á fætur. Korter yfir tíu lögðum við mæðgin af stað í jarðaförina, Ingvi varð eftir til að passa upp á hundana. Vorum komin að Keldum tæpum hálftíma fyrir athöfn. Sátum út í bíl og fylgdumst með á fm 107,1. Athöfnin var mjög falleg og minningarorðin alveg í anda frænku minnar. Öðlingarnir og Gísli Stefánsson sáu um kór og einsöng, frændi minn Guðjón Halldór Óskarsson var organisti og frændi minn sr. Kristján Arason var sálusorgarinn. Margt var um manninn og eftir athöfn í kirkju og úti í garði var öllum boðið í íþróttahúsið á Hellu. Hitti ótal marga en hafði ekki tök á því að knúsa alla. Vorum komin í Hólavanginn upp úr klukkan tvö. Bríet frænka var komin og hún bað um að fá far með foreldrum sínum á Selfoss en þau voru að fara í bústað með vinkonu og verða þar næstu daga. Systir mín í fríi fram yfir næstu helgi og mágur minn að vinna í bænum í næstu viku. Við pabbi höfðum það bara gott. Fylgdumst eitthvað með beinum útsendingum, vöfruðum á netinu, lögðum kapla og ég var líka að lesa. Hafði bleikju og sætar kartöflur í kvöldmatinn, horfði á eina mynd í gærkvöldi og fór óvenju seint (á eftir pabba) í háttinn eða stuttu fyrir miðnætti. 

2.8.24

Árný Oddbjörg Oddsdóttir, f 6. jan 1928 d 13. júlí 2024

Í dag fylgi ég föðursystur minni síðasta spölinn og þakka fyrir samfylgdina. Það eru ótal skrefin upp að Helluvaði í gegnum tíðina og margar, margar minningarnar bæði gamlar og nýrri, allar góðar. Erfitt að gera upp á milli hverjar á að toga fram og festa á blað og verður líklega ekki gert. Þessi rólega, hlýja og blátt áfram frænka mín sem nú hefur fengið hvíldina. Lúmst stríðin og gott að spjalla við hana. Ekkert svo mörg ár síðan hún lagði prjónana á hilluna. Ræktaði garðinn sinn í öllum skilningi og var mjög stolt af fólkinu sínu. Mátti líka alveg vera það, sá fjársjóður er aldrei ofmetinn. Takk fyrir allt og allt! 

1.8.24

Bóksafn og hopp í sjónum

Í gærmorgun var ég mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Það var framleiðsludagur og ég var komin niður og búin að kveikja á vélinni korter fyrir átta. Að hlaða inn skrám og útbúa skiptiblöð gekk vandræðalaust fyrir sig. Sjálf vélin var með smá mótþróaþrjóskuröskun í byrjun en þegar hún komst af stað gekk allt ljómandi vel. Vorum búnar með daglega framleiðslu um kaffi leytið. Eftir kaffi byrjuðum við á nýjustu endurnýjuninni. Framleiddum alls níu skrár af ellefu en skildum tvær stærstu skrárnar eftir. Slökktum á framleiðsluvélinni um tvö en vorum hálftíma lengur niðri að plokka gula miða úr nýlegri plastsendingu. Var að vinna til klukkan rúmlega hálffjögur. Ætlaði að skila fjórum bókum á Kringlusafnið áður en ég færi í Nauthólsvík. Sumarlokun var og er á safninu til 19. ágúst n.k. Ég gerði mér því ferð á Sólheimasafnið. Tók fjórar bækur að láni. Það var pínu freistandi að fara svo bara heim en ég var með sjósunddótið meðferðis og ákvað að drífa mig í Nauthólsvík. Sé svo sannarlega ekki eftir því. Fór reyndar aðeins einu sinni út í sjóinn í uþb tíu mínútur og var aðallega að hoppa um í öldunum. Var næstu tíu mínútur í gufunni og sat svo í heita pottinum í tuttugu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.