16.9.24

Fartur á tímanum

Vaknaði um sjö. Um hálfníu var ég komin í Sundhöllina. Eftir fyrstu ferðina af þremur í þann kalda sá ég að braut tvö var mannlaus náði samt ekki ofan í laug áður en einhver annar var byrjaður að synda á henni. Var komin út í á braut eitt og synti 300m en á síðustu 75 metrunum bættist þriðja manneskjan við og ég rétt hafði geð í mér að klára upp í 300m því þessar brautir eru eiginlega bara ein og hálfbreidd eða svo. Fór aftur í kalda í fimm mínútur og fékk svo braut 1 í innilauginni alveg fyrir mig og synti aðra 300m þar. Fyllti á bensíntankinn á leiðinni heim um tíu leytið. Stoppaði heima í rúma tvo tíma. Rétt fyrir eitt sótti ég esperanto vinkonu mína. Vorum báðar klæddar til útivistar. Valið hafði staðið á milli þess að skreppa í Viðey eða leita að berjum og við ákváðum að fara í bíltúr aðeins út fyrir bæinn. Fórum fyrst upp að Hafravatni á stað sem Inger hafði farið áður. Þar voru engin ber en fullt af lyngi. Næst lá leiðin í Heiðmörk en við vorum heldur ekki lengi þar. Að endingu fórum við alla leið að Gljúfrasteini. Lögðum þar og röltum aðeins aftur fyrir húsið og stutt áleiðis að Helgufossi sem er tæpa 3km frá. Ef við hefðum verið fyrr á ferðinni, ákveðið að fara beint þangað, hefðum við sennilega labbað aðeins lengra. En við fundum samt smávegis af bæði blá- og krækiberjum. Þau voru ekki stór en í lagi með flest af þeim. Tíndum ekki mikið en eitthvað. Fengum okkur svo te og harðfisk sem Inger hafði útbúið og komið með sér. Í baka leiðinni komum við við hjá N1 við Gangveg og heilsuðum upp á Davíð Stein og Óla. N1-sonur minn tékkaði á þrýstingnum á dekkjunum. 3 af fjórum voru í lagi, en eins og mig grunaði var það fjórða frekar vanstillt. Skilaði svo Inger heim og var sjálf komin heim um hálfsex. Veðrið hafði leikið við okkur allan daginn þótt sums staðar væri smá ferð á logninu. Ekki náði ég þó að safna skrefum alveg upp í 4500 en fór heldur ekki út aftur til að gera það. Hefði ekki þurft langa göngu til að ná markmiðinu en hugsaði með mér að ef öll skref dagsins hefðu verið talin (skrefin milli potta og lauga í sundinu) væri ég í ágætis málum. 

15.9.24

Tap hjá Liverpool

Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Klukkan var svo orðin hálfníu þegar ég mætti í sundhöllina. Að þessu sinni gat ég farið beinustu leið í kalda pottinn. Sá yngstu mágkonu mömmu í heita pottinum og heilsaði upp á hana eftir fyrstu kælinguna. Hún var búin að synda og þegar hún fór að hugsa sér til hreyfings upp úr lauginni fór ég aftur í kalda áður en ég fór á braut 4 í innilauginni og synti 600m á hálftíma, flestar ferðir á bakinu en fjórðu hverju ferð ýmist skrið- eða bringusund. Fór smástund í heitasta pottinn, 42°C, annan af elstu pottunum, áður en ég fór síðustu ferðina í þann kalda, gufu og þvoði mér svo um hárið á leiðinni upp úr. Var komin til espernato vinkonu minnar rétt rúmlega hálfellefu og stoppaði hjá henni til tólf. Lásum eina og hálfa bls. í Kon-Tiki og höfðum nú íslensku útgáfuna til samanburðar. Planlögðum svo næsta hitting sem verður á öðrum nótum og strax í dag. Áður en ég fór heim keypti ég þvott og felguþrif á bílinn hjá Löðri við Fiskislóð og kom svo aðeins við í Krónunni. Restin af deginum fór að mestu í fótboltaáhorf, lestur og prjónaskap. 

14.9.24

September að verða hálnaður

Vinnudagurinn í gær var léttur og í styttra lagi. Kortaframleiðslu og frágangi á kortadeild lauk fyrir hálftíu. Restina af vinnudeginum var ég í innlögnum. Fréttum reyndar af plastsendingu í hádeginu en sem betur fer ákváðum við að bíða ekki eftir henni því um tvö leytið komu þau skilaboð að pakkanum yrði komið til okkar eftir helgi. Var komin í Nauthólsvík upp úr klukkan þrjú Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni. Pabbi var sjálfur á ferðinni, á leiðinni í búðina. Mágur minn er staddur hjá honum þessa dagana. Fór annars tvisvar í sjóinn, fyrst í tuttugu mínútur og eftir uþb tuttugu mínútna gufu fór ég aftur í rúmar fimm mínútur. Sat svo dágóða stund í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. 

13.9.24

Míni golfgarðurinn með vinnufélögum

Í gær skildi ég bæði prjóna og sunddót eftir heima þegar ég fór í vinnuna. Öllum verkefnum í vinnunni var lokið í fyrra lagi en við dokuðum flest við til klukkan langt gengin í fjögur. Ástæðan var sú að ekki tók því að fara heim því við vorum skráð sem hópur í Mínígólf og staðurinn, sem er frekar stutt frá vinnustaðnum, opnar klukkan fjögur. Vorum 22 í hópnum og af þeim tveir af sumarliðunum og ein sem er í barneignarfríi. Okkur hafði verið skipt í tvö lið og þeir tveir sem skipulögðu þennan hitting voru "bændurnir" í þessari bændaglímu. Svo var okkur skipt niður í fjóra fjögurra manna hópa og einn sex manna, tveir (þrír í sex manna hópnum) úr hvoru liði. Ég var í fyrsta hollinu sem var ræst út klukkan hálffimm. Spilaðar voru allar átján holurnar. Í mínu holli, ekki í mínu liði samt, var sá sem fór holurnar á fæstum höggum. Ég fór fyrstu holuna á tveimur höggum en svo gekk svona upp og niður. Skv. skorblaðinu átti ekki að skrá fleiri högg en sex á hverri holu. En við höfðum ekki lesið það og vissum því ekki af því fyrr en einhver úr öðru liði sagði okkur frá því. Ég fór nefnilega eina holuna á tólf höggum og aðra á 10. Eftir reiknireglunni "ekki fleiri en 6 högg" fór ég fyrri níu á 36 og seinni níu á sömu svo í heildina fór ég á 72 og var líklega í neðsta sæti á flestum höggum. En það var svo gaman og á eftir var hlaðborð og framkvæmdastjórinn tilkynnti hver fór flestar holur í höggi, hvort liði fór á færri höggum í heildina og hver fór á fæstum höggum.

12.9.24

Sjórinn og lengri göngutúr

Það var framleiðsludagur í vinnunni í gær. Allt gekk ágætlega en við áttum eftir að framleiða tvær tegundir þegar klukkan var að verða hálftíu. Geymdum þá framleiðslu því það var fundur í kaffitímanum og forstjórinn var með okkur á þeim fundi. Framleiðslu og frágangi í kortadeild lauk svo milli hálfellefu og ellefu. Sneri mér beint að innleggjum eftir það. Vinnudegi lauk fyrir klukkan þrjú. Var mætt í Nauthólsvík korter yfir þrjú og óð út í um hálffjögur. Hitastigið undir níu gráðum en ég var í strandskónum og berhent. Ætlaði ekki að tíma að fara upp úr en tuttugu mínútum síðar fór ég í gufuna. Eftir gufu, kalda sturtu og tuttugu mínútur í pottinum skrapp ég aftur í sjóinn í örfáar mínútur áður en ég fór að huga að heimferð. Ákvað að fara ekki í sturtu bara þurrka mér en skolaði strandskóna og úr sundbolnum. Kom heim klukkan að ganga sex. Ætlaði varla að nenna út aftur en stuttu fyrir átta fór ég út og það sem átti að vera göngutúr í styttra lagði varð 3,1km hringur á tæpum fjörutíu mínútum. Eftir að ég kom heim aftur náði ég sambandi við Jónu Mæju hans Reynis frænda. Hún náði ekki að svara heima símanum sínum en hringdi til baka úr gemsanum og við spjölluðum saman í heila klukkustund. Það var eiginlega komið fram yfir þann tíma sem ég fer oftast upp í, ekki svo langt fram yfir en framyfir samt. Engu að síður réði ég eina sudoku og las í þremur bókum eftir að ég var háttuð og komin í rúmið enda var klukkan orðin hálfellefu og rúmlega það þegar ég fór loksins að sofa. 

11.9.24

Sundhöllin og stuttur göngurtúr

Hrökk upp ca tíu mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Var að dreyma eitthvað furðulegt stuttu áður sem ég man ekki lengur hvað var. Aftur á móti man ég brot úr draumi frá nýliðinni nótt sem var enn furðulegri. "Fann s.s. útsaums/handavinnu-töskuna mína í uppþvottavélinni ásamt smávegis af óhreinu leirtaui. Ekki var búið að setja vélina af stað þegar ég bjargaði töskunni". Annars var ég að vinna til klukkan að verða fjögur í gær. Var með sunddótið meðferðis en ekki alveg ákveðin í hvaða laug ég ætti að stefna á fyrr en ég lagði af stað frá vinnu. Fann stæði við Austurbæjarskóla sem er örstutt frá Sundhöllinni. Því miður var kaldi potturinn lokaður. Ég byrjaði á einni gufuferð, útisturtu og í langpottinn úti. Þar var ég búin að sitja í uþb tíu mínútur þegar kaldapotts vinkona mín og ein systir hennar birtust. Spjallaði við þær í smá stund en svo sá ég að braut 4 í útilauginni var laus, skellti mér í hana og synti í uþb tuttugu mínútur áður en ég fór upp úr og heim. Ætlaði varla að nenna neinu meiru nema kannski glápi en dreif mig út um átta leytið og labbaði smá hring um hverfið. Hélt ekki að ég hefði stoppað neins staða en engu að síður skráði heilsuforritið í símanum á mig tvo stutta göngu túra samtals upp á 2,1km á tæpum tuttuguogfimm mínútum. Greip svo aðeins í prjónana áður en ég kveikti aftur á sjónvarpinu. Fór upp í rúm um hálftíu og las í 3x7-10 mínútur. Já, ég las í þremur bókum, tveimur af safninu og einni sem mér var gefið í vor.

10.9.24

Osteostrong og bókasafn í gær

Var komin á stjá um sex í gærmorgun. Morgunrútínan svipuð og greip ég aðeins í tveggja kílóa lóðin stuttu áður en ég lagði af stað í vinnu. Nóg var að gera í vinnunni, þurfti ekki að bíða eftir verkefnum, en allt var búið um þrjú. Fannst of snemmt að athuga hvort ég kæmist að í osteostrong tíma svo ég byrjaði á því að skreppa í bókasafnið í Kringlunni. Skilaði bókunum fjórum úr Sólheimasafni í hillu merkta "Frátekið". Fann mér svo fimm aðrar bækur, m.a. Kon-Tiki á íslensku en við Inger ætlum að bera saman þann texta við esperanto útgáfuna. Erum reyndar líka að spá í hvort við finnum eintak á norsku, það væri mjög gaman. Hitti Siggu, mágkonu mömmu, á safninu. Var komin í Hátún 12 rétt fyrir fjögur og í Laugardalslaug rétt rúmum hálftíma síðar. Kalda potts vinkona mín mætti um fimm. Þá var ég í minni annarri ferð af fjórum í kalda pottinum. Næsta hálfa mánuðinn verður laugin lokuð almenningi vegna viðhalds svo það verður spennandi að sjá hvaða laugar toga í staðinn eða hvort fleiri ferðir verða farnar í sjóinn. 

9.9.24

Ný vinnuvika framundan

Heyrði stofuklukkuna slá hálfsjö í gærmorgun. Svo fannst mér aðeins líða nokkrar mínútur þegar ég heyrði hana slá aftur og taldi sjö slög. Hef greinilega sofnað aðeins aftur og ég veit að ég steinsofnaði aftur milli sjö og átta. Klukkan var svo rétt byrjuð að ganga níu þegar ég var alveg glaðvöknuð og fór á fætur. Pabbi var nýlega kominn á fætur og var að taka niður daglegar tölur til að skrá niður. Dagurinn var frekar rólegur hjá okkur feðginum. Skiptumst á að vafra á netinu í tölvunni hans, fórum í kapla keppnir og horfðum á sjónvarpsútsendingar. Að auki var ég að prjóna. Um hádegisbil matreiddi ég tvö bleikjuflök handa okkur. Pabba fannst þau svo lítil að hann talaði um að hann gæti alveg fengið sér skyr. Ég bað hann amk um að fá sér smá af réttinum því það voru kartöflur og sallat með. Ef hann væri svangur eftir skammtinn mætti hann alveg fá sér skyr í eftirrétt. Um kaffi leytið fengum við okkur flatkökur með reyktum silungi. Það er örugglega uþb ár síðan ég borðaði flatkökur síðast og ég ákvað að fara varlega í smakkið. Borðaði þó tvo fjórðungsparta úr köku. Klukkan var að verða hálfsex þegar ég tók mig loksins saman, kvaddi pabba og brunaði í bæinn. 

8.9.24

Laugardagur - skráð á sunnudegi

Vaknaði um sjö í gærmorgun. Var komin í sund um hálfníu. Eftir fimm mínútur í kalda pottinum fór ég á braut 6 og synti 500 metra áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Eftir þá ferði lá leiðin í gufuna í ca 15 mínútur, köld sturta og sjópottur í 10 mínútur. Fór svo þriðju ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Stoppaði hjá henni í næstum einn og hálfan tíma og lásum við m.a. tvær og hálfa blaðsíður í Kon-Tiki. Var komin heim milli tólf og hálfeitt. Komst af stað austur rétt rúmum klukkutíma síðar og var komin til pabba rétt upp úr klukkan þrjú. Þegar ég var að leggja af stað úr bænum "vasahringdi" systir mín í mig en hún heyrði mig svara og spjallaði smá. Hafði verið að spjalla við manninn sinn sem þurfti að rjúka af stað með Huldu úr smalamennsku á sjúkrahús vegna ofnæmisviðbragða. Frétti ekki meira um það mál svo það hlýtur að hafa farið vel. Við pabbi ákváðum að grilla kindakjöt, sem var til í ísskápnum hjá honum, um hálfsex leytið. Ég setti upp kartöflur og lagði á borð en hann sá um grillið. Horfðum svo á útsendinguna frá Ljósanótt í Reykjanesbæ milli átta og ellefu.

7.9.24

Strax komin helgi aftur

Bankaði á herbergisdyrnar hjá Oddi stuttu áður en ég fór í vinnu í gær. Hann var vakandi og byrjaður að undirbúa sig undir verkefni dagsins, smá skyldufund hjá vinnumálastofnun og að taka á móti iðnaðarmönnum. Iðnaðarmennirnir höfðu ekki samband fyrr en hann var mættur á fundinn. Oddur sendi þeim skilaboð um að hringja í Davíð Stein þar sem hann væri smá upptekinn. Skilaboðin frá þeim sem voru að koma með nýju svalahurðina voru þau að þeir kæmu ekki fyrr en milli hálfellefu og ellefu. Oddur var löngu kominn heim aftur þá því bróðir hans sótti hann eftir fundinn. Davíð Steinn "stakk" hins vegar af, fór að sinna öðrum verkefnum s.s. fara í klippingu og fleira, og kom ekki aftur fyrr en nýja svalahurðin var komin upp og iðnaðarmennirnir farnir en þeir voru rétt rúma tvo tíma að græja þetta. Ég var búin að vinna stuttu fyrir þrjú. Hringdi í pabba þriðja daginn í röð þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Hann var reyndar í heimsókn hjá frændfólki á Selfossi en við spjölluðum engu að síður stuttlega saman. Sjórinn var dásamlegur og hressandi en heldur mikil fjara. Hringdi svo loksins í frænku mína og nöfnu sem á danskan pabba. Hún býr og vinnur hér á Íslandi en við vorum ekki búnar að heyrast síðan í sumar. Hvorug okkar var reyndar að velta sér upp úr því. Mamma hennar, móðursystir mín, er hætt að vinna og alveg flutt til Danmerkur aftur frá Noregi þar sem hún var með lögheimili sl. þrjátíu ár eða svo. Hún á reyndar fasteignir í nokkrum löndum, m.a. hér í Reykjavík.   

6.9.24

Ný svalahurð verður sett upp í dag

Gærdagurinn var í léttari kantinum vinnulega séð. Var komin í sund upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 400m og var að klára fyrstu ferðina í þann kalda þegar kalda potts vinkona mín mætti. Saman fórum við þrjár ferðir, vorum næstum hálftíma í gufu og uþb 15 mínútur í sjópottinum. Sundferðin mín stóð yfir í næstum tvo tíma. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni og keypti mér harðfisk og ýsu í soðið. Pikkaði svo Odd upp og skruppum við saman í Krónuna við Fiskislóð. Á leiðinni þangað hafði smiðurinn, sem kom og mældi út hjá mér svaladyrnar, samband og sagðist ætla koma í dag, föstudag. Hann og einhver með honum koma sennilega fljótlega eftir að ég er farin í vinnu. Oddur mun taka á móti honum og svo tekur Davíð Steinn við um miðjan morgun ef á þarf að halda því Oddur hefur verið boðaður á fund hjá vinnumálastofnun. Vonandi fer eitthvað að gerast í atvinnumálunum hjá honum. Held að hann þurfi að vera mun opnari fyrir tækifærunum en hann heldur amk þannig á spilunum að hann fær smá bætur mánaðarlega. 

5.9.24

Sjórinn hressir alltaf

Í gær var framleiðsludagur. Ég var í bókhaldi og á móttökuendanum. Vélin byrjaði á smá mótþróaþrjóskuröskun þegar við ætluðum að hefja framleiðslu. Þurfti að taka hana alveg niður og þegar parturinn fyrir vélina var ræstur gerðist nokkuð sem við höfum ekki lent í áður, þ.e. ekkert gerðist. Takkinn var í réttri stöðu en ekkert heyrðist í vélinni. Eftir nokkrar sekúndur af smá sjokki bað ég þá sem var á ítroðslu endanum að prófa að snúa takkanum til baka, doka stutta stund, og reyna aftur. Hvað við urðum fegnar að þá fór allt í gang og það sem meira var að framleiðsla gekk nánast eins og í sögu. Kláruðum allt daglegt fyrir kaffipásu og afganginn af endurnýjuninni milli tíu og tólf. Kláraði bókhaldsmálin eftir hádegi og var komin í innlegg upp úr hálftvö. Allt var búið um þrjú. Var með sjósundsdótið meðferðis en ákvað að kíkja fyrst í Aqua Sport, gömlu strandskórnir eru löngu orðnir ónýtir. Hringdi í pabba og spjallaði við hann hluta af leiðinni. Sokkarnir sem ég ætlaði að kaupa voru ekki til í minni stærð, kannski sem betur fer því þarna fæst alls konar og m.a. svipaðir skór og strandskórnir. Þykkari botnar aðeins öðru vísi efni og litir en miklu betra en sokkar. Og voru líka til í mínu númeri. Fjárfesti í þeim. Næst kom ég við í sokkabúðinni Copra við Garðatorg og fjárfesti í fjórum pörum af orkusokkum og á þá núna sex pör. Ætlaði að kíka í nýju verslunina Prís en "villtist" inn í Smáralind í Söstrene Grene og keypti mér nokkrar dokkur af 10% bómullargarnir í ýmsum litum. Ákvað að geyma "heimsóknina" í Prís til betri tíma því klukkan var farin að ganga fimm og mál að drífa sig í sjóinn og prófa nýju skóna. Hringdi þó fyrst í Ellu vinkonu eftir að ég var komin á stæði við Nauthólsvík og átti gott spjall við hana. Klukkan var akkúrat fimm þegar ég dembdi mér í sjóinn. Skórnir reyndust ljómandi vel. Var 15 mínútur í sjónum sem er rúmar 10°C þessa dagana, 10 mínútur í gufu, köld sturta og svo 15 mínútur í heita pottinum. Var komin heim fyrir klukkan hálfsjö. Um átta skrapp ég í 1,7km göngu sem tók mig 22 mínútur. Nú hef ég náð skrefamarkmiðunum fimm daga í röð. 

4.9.24

Yfir fjögurþúsundogfimmtíu blogg færslur

Gærdagurinn var mjög annasamur í vinnunni en allt kláraðist þó innan níu tíma. Var komin í sund um hálffimm leytið. Byrjaði á því að synda 300m en fór svo á kalda potts rölt með kalda potts vinkonu minni. Gáfum okkur extra góðan tíma í gufunni og sjópottinum. Ferðirnar í þann kalda urðu fjórar 3-5 mínútur í senn. Ég var komin heim rétt fyrir hálfsjö. Rétt rúmum klukkutíma síðar skrapp ég út í smá göngu. Labbaði 1,5km á uþb 19 mínútum og náði skrefa markmiðinu þriðja daginn í röð. Heildarskrefin voru samt mun færri heldur en þá daga sem ég labbaði í og jafnvel úr vinnu en sjöþúsund skref eru þó betri en innan við tvöþúsund skref, eða hvað? :-) 

3.9.24

Mun bjartara en í gærmorgun

Vaknaði rétt rúmlega sex í gærmorgun. Þurfti að kveikja ljós á meðan ég var að klæða mig og einnig athafna mig á baðherberginu. Annars var morgun rútínan mjög svipuð. Mætti í vinnu um hálfátta og fyrsti hálftíminn fór í bókhalds og reikningagerða vinnu fyrir kortadeildina. Upp úr klukkan átta svissaði ég yfir í innlagnir. Sú vinna stóð yfir til klukkan langt gengin í þrjú. Þá sneri ég mér aftur að reikningagerðinni. Fékk Petru til að lesa yfir loka tölur og skilaði svo af mér. Gott að þetta er frá. Er langt komin með allar excel tengingar til að safna tölum fyrir næstu mánaðamót. Var komin í Hátún 12 í osteostrong tíma rétt fyrir fjögur og sem fyrr komst ég strax að þótt "fasti" tíminn væri ekki fyrr en 16:20. Eftir tímann fór ég beint í sund. Var búin að láta kalda potts vinkonu mína vita að ég myndi líklega vera mætt í sund ca korter í fimm. Hún var mætt en ég sá hana ekki strax þar sem hún hafði skroppið í gufu. Ég var því búin að fara eina ferð í þann kalda og smá stund í sjópottinn áður en við hittumst. Fórum fjórar ferðir saman í þann kalda og í hina ýmsu potta eða gufu inn á milli. Var komin heim upp úr klukkan sex. Um átta leytið skrapp ég aftur út í stutta göngu, 1,1 km á tæpu korteri en þar með hafði ég náð að safna skrefamarkmiðum dagsins og gott betur svo forritið í símanum þarf ekki að "skamma" mig en hrósar mér í staðinn. Annars er ég svo sem að safna óskráðum skrefum þegar ég er að vappa á milli potta í sundinu. Það væri fróðlegt að vita hversu mörg skref það eru þegar farnar eru 4-6 ferðir í þann kalda og rölt á milli potta og gufu. 

2.9.24

Dimmt yfir

Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun, svona miðað við að það var sunnudagur. Helgast kannski af því að ég fór tiltölulega snemma að sofa á laugardagskvöldið. Hvað um það ég var komin á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Ætlaði að fylgjast með sundinu hjá Má á ólympíuleikunum áður en ég færi í sund. Í átta fréttum var sagt að það yrði um hálfníu svo ég taldi óhætt að horfa á brot úr þætti í sarpinum. Stillti aftur á rúv2 tuttugu mínútum yfir átta en þá var Már nýbúinn að synda sig inn í úrslit og hinn riðillinn í hans flokki að gera sig kláran í sundið. Var byrjuð að synda korter fyrir níu og þegar ég var akkúrat að klára 500 metrana kom kalda potts vinkona mín. Fórum 4 ferðir í kalda, eina í heitasta, eina í 42°C, eina í gufuna og eina í sjópottinn. Þar sem við hittum eina systur hennar. Kom heim um hálftólf. Dagurinn fór í alls konar en samt aðallega fótboltaáhorf og prjónaskap. Skrapp þó í stuttan göngutúr fljótlega eftir kvöldmat og náði þar af leiðandi skrefa markmiðinu mínu, sem er orðið frekar sjaldgæft. Nenni ekki alltaf út í göngu eftir vinnu og sund eða sjóferð.

1.9.24

Nýr mánuður

Ég rumskaði fyrst rétt fyrir fimm í gærmorgun. Skrapp á salernið að tæma blöðruna og fór beinustu leið aftur í bælið. Sofnaði aftur og klukkan var byrjuð að ganga átta þegar ég fór á fætur. Gleymdi mér aðeins í netvafrinu og um átta var ruslabíll á ferðinni í götunni. Ég var þó komin í sund um hálfníu. Synti 500m, flesta á bakinu. Fór tvær fjögurra mínútna ferðir í þann kalda, gerði æfingar í gufunni og slakaði vel á í sjópottinum. Þvoði mér um hárið og fór svo beint vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Tókum tvöfaldan tíma og kláruðum fyrsta kaflann í Kon-Tiki, sem við höfum reyndar lesið amk tvisvar sinnum áður. Varð að víkja fyrir bifreið þegar ég var á leiðinni í burtu og bíllinn straukst aðeins við smá steinkant við það. Hugsaði sem svo að það væri skárra heldur en að rispa bílinn sem ég var að víkja fyrir. Ætti að geta lappað upp á þessa skrámu næst þegar ég fer til pabba. Annarst ekkert nýtt né títt.