Það var nokkuð þungt yfir í gærmorgun og er enn. Þá er langbest að brosa breitt út í bæði og láta veðrið alls ekki hafa áhrif á sig. Var mætt í vinnu á sama tíma og oftast. Ég var á ítroðsluendanum og sumarstúlkan á móttökuendanum. Stuttu fyrir klukkan tólf vorum við búnar að framleiða allt daglegt og um tvöhundruðogáttatíu kort sem voru til endurnýjunar, alls eitthvað um þúsund kort. Eftir hádegi voru endurnýjuð á áttundahundrað kort í viðbót sem tók okkur aðeins um einn og hálfan tíma. Kláruðum endurnýjunina og vorum búnar að ganga frá og telja lagerinn um tvö leytið. Ég fór í sund skömmu síðar. Var að synda þriðju og síðustu ferðina, 300m, þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fórum sex ferðir í kalda, tvær í magnesíum pottinn, eina í heitasta, eina í sjópottinn og eina í gufu. Var komin heim um hálffimm. Á níunda tímanum um kvöldið kveikti ég á netinu í símanum og sá það að það var kominn póstur frá þeim sem ætlaði að koma og skoða gluggamálin og gera mér tilboð í síðustu viku. Hann var semsagt búinn að koma og taka mynd af öllum gluggum á minni hæð mín meginn í húsinu. Hann áætlaði að ef þyrfti að skipta þeim öllum út myndi það kosta rúmar þrjár millijónir með virðisauka, vinnu og pöllum. Þetta var eitthvað sem ég var alveg búin að ímynda mér og er alveg tilbúin í. Mun ekki einu sinni eyða helmingnum af því sem ég hef safnað svo líklega er verið að segja mér að það sé óhætt að fara að huga að framkvæmdum innan hús líka. Þyrfti eigilega að fjárfesta í nýju eldhúsi, mála alla íbúðina og það væri líklega ekki verra ef ég hugaði líka að rafmagnsmálunum. Held áfram að safna og spara en fer líka að leita tilboða þegar ég verð búin að raða upp verkefna listanum í það sem þarf að gera fljótlega og það sem má kannski bíða.
30.6.23
29.6.23
Dumbungur
Var komin á fætur um sex eftir rúmlega átta tíma svefn. Mætti í vinnu um hálfátta og var síðasta daginn í bili í bókhaldinu. Dagleg framleiðsla var yfir sexhundruð kort og svo voru framleidd rúmlega þrjúhundruð kort af þrettánhundruð korta endurnýjun. Var mætt í sund um þrjú. Hringdi í pabba, hann hafði ekki lenti í neinum aukaævintýrum í gær heldur stundað sína hefðbundu virku daga rútínu. Það var nokkuð létt í honum hljóðið. Hann hafði heyrt aðeins í Helgu systur sem var í vinnuferð á Hesteyri með manninum sínum og vinafólki í heila viku. Ég synti 200m, fór fjórar ferðir í kalda pottinn, eina í gufu, eina í sjópottinn og eina í heitasta pottinn. Mætti kalda potts vinkonu minni í sturtu þegar hún var að koma en ég að fara upp úr og heim um fjögur leytið.
28.6.23
Mið vika
Ég var komin á fætur um fimm leytið í gærmorgun. Það flögraði að mér að drífa mig bara í sund um hálfsjö, fyrir vinnu, en það fór þó svo að ég fór ekki út úr húsi fyrr en rúmum tveimur tímum seinna. Mætti í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Var áfram í bókhaldinu. Daglegri framleiðslu lauk fyrir tólf, samt voru yfir sexhundruð kort í framleiðslu í heildina. Í hádeginu var send til okkar endurnýjun. Kerfisfræðingur þurfti að handkeyra hana yfir en er nú búinn að stilla kerfið þannig að ef sent er á tímabilinu hádegi til tvö mun hún keyrast sjálfkrafa yfir. Endurnýjuninni var hlaðið inn en svo ákveðið að láta gott heita þótt klukkan væri ekki orðin tvö. Í staðinn fórum við í önnur verkefni uppi. Ég hringdi í pabba stuttu fyrir þrjú þegar ég var á leiðinni í sund. Hann sagðist hafa í bæjarferð um morguninn, þurfti að sleppa sundi til að vera mættur í sjónmælingu í Mjóddinni á réttum tíma. Nú er í undirbúningi umsókn um framlengingu á ökuskírteini og þótt sjónin sé óbreytt þá þarf hann líka að hafa samband við heimilislækni og fara í einhvers konar viðbraðga og færnimat áður en leyfi verður gefið út. Núverandi skírteini rennur út í haust.
Í sundi aðallega pottunum og gufunni hitti ég ruslastrákana mína og kalda potts vinkona mín mætti á svæðið þegar ég var í þriðju ferðinni í kalda pottinum sem er ekkert svo kaldur núna, líklega heitarin en sjórinn eitthvað nálægt tólf gráðum. Gátum því setið lon og don í pottinum án þess að færi neitt að bíta í tærnar. Nú er líka búið að opna heitasta pottinn aftur eftir að búið er að gera hann allan upp og laga. Hann er mjög flottur en ég stoppa ekki eins lengi í honum og kalda pottinum. Fór tvær ferðir í þann pott og tvær í gufuna en synti ekkert. Kom heim klukkan að ganga sex. Vafraði aðeins um á netinu, horfði á þætti, prjónaði yfir fréttunum en var komin í rúmið fyrir klukkan níu og las aðeins í um tuttugu mínútur áður en ég fór að sofa.
27.6.23
Frænkunöfnuvinkonuhittingur
Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Var mætt í vinnuna áður en klukkan sló hálfátta. Ég vissi að ég átti að vera í bókhaldinu svo ég útbjó fyrstu tölur og tók þær með mér niður þegar ég fór þangað til að kveikja á vélinni. Framleiðslu lauk rétt fyrir tólf, eitthvað á sjötta hundrað kort í heildina. Eftir hádegi var vélin ryksuguð. Ég stimplaði mig út úr vinnu um tvö leytið. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík. Hann var að koma frá Selfossi til að láta mæla upp bílinn. Rafgeymirinn var tómur í gærmorgun (sennilegast hefur logað ljós inn í bílnum sem tæmdi geyminn yfir helgina). Pabba labbaði því í sund í gærmorgun og fékk svo far til baka með einum sundfélaganum sem gat gefið honum start í leiðinni. Ég synti út að kaðli og var ca korter að svamla þangað og sat svo annað eins í heita pottinum. Kom heim um fjögur. Um hálfsjö sótti ég fyrrum samstarfskonu sem vann líka með og vingaðist við eina frænku mína fyrir mörgum árum. Þær tvær voru ekki búnar að hittast síðan fyrir Covid. Nafna mín bauð okkur kjúklingasallat og lagði á borð inni í sólhúsinu sínu. Hún var ein heima því maðurinn hennar var í veiðiferð með amk öðrum eða báðum sonum þeirra. Tíminn flaug, mikið spjalla og spekulerað og klukkan var langt gengin í tíu þegar við kvöddum. Ég fór því í rúmið mun seinna en vanalega en las nú samt til klukkan að verða ellefu.
26.6.23
Síðasta vikan í júní hafin
Ég var glaðvöknuð um sex leytið í gærmorgun. Dreif mig á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Þarna sat ég í góðan einn og hálfan tíma. Klukkan var samt ekki orðin átta þegar ég slökkti á henni aftur. Fór þá aðeins á netið á símanum að skoða snapp frá Huldu frænku. Hún hafði verið í hlöðupartýi, mússík og ljósaveisla, unglingar og heimalingar. Sá lítið af unglingunum því frænka mín snappaði af sér knúsa einn heimalinginn. Svo fraus síminn og ég var dágóða stund að fá hann aftur í gang. Í ágúst verða þrjú ár síðan ég keypti þennan síma og þrátt fyrir að geta nýtt símastyrkinn úr vinnunni á þriggja ára fresti þá langar mig alls ekki í nýjan síma strax, vil helst geta nýtt þennan áfram amk í 1-2 ár enn. Sjáum hvað setur. Var mætt í sund rétt fyrir klukkan hálfníu. Synti 500m, fór 4 ferðir í kalda pottinn, 1 í sjópottinn og 1 í gufuna. Kom heim aftur um hálfellefu og hellti mér upp á sterkt og gott kaffi eftir að hafa stungið í eina þvottavél. Dagurinn leið jafn hratt og allir aðrir daga. Notaði hann mis skynsamlega en ég er ekkert svekkt út í sjálfa mig þótt ég hafi ekki alveg sinnt sumum verkefnum sem liggja fyrir. Um fimm leytið hringdi fyrrum samstarfskona og jafnaldra í mig. Við áttum langt og gott spjall saman.
25.6.23
Sunnudagur
Helgin ætlar að líða alveg jafn hratt og aðrir dagar, ef ekki hraðar, svei mér þá. Samt var ég ekki að gera neitt sérstakt í gær. Var mætt í sund upp úr klukkan átta. Var búin að fara tvær ferðir í kalda pottinn og eina í sjópottinn áður en ég fór á braut átta og synti 500, meiri helminginn á bakinu. Fór tvær aðrar ferðir í kalda sem var reyndar ekkert svo kaldur, 11,4°C. Kaldi potturinn er bestur ef hann er undir tveggja stafa tölu. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og fór svo beinustu leið til esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni í um tvo tíma. Minni helmingurinn af þeim tíma fór í esperanto en samt einhver tími í smá lestur. Frá Inger fór ég í Löður við Fiskislóð og fór með bílinn í gegnum bílaþvottastöðina. Næst lá leiðin í Krónuna. Hringdi í pabba á leiðinni heim. Hann var og er bara sprækur. Kom heim um hálftvö. N1 sonurinn var að vinna en ég gerði tvær tilraunir til að ná í hinn soninn í síma. Var reyndar bara með tvo poka úr búðinni, sundpokann, esperantopokann og veski og komst með þetta allt í einni ferð inn. Þá náði ég loksins sambandi við soninn sem tók að sér að ganga frá vörunum. Meira merkilegt gerðist ekki en tíminn frá tvö til tíu flaug og svo las ég til ellefu áður en ég fór að sofa.
24.6.23
Bækurnar af safninu
Ég er búin að lesa fimm af níu bókum sem ég sótti á safnið um daginn. Eina af þessum fimm á ég eftir að glugga aftur í; ljóðabókin Edda eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur. Þessi bók hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2019 og ég skil það mjög vel. Þetta eru einfaldlega mögnuð ljóð. Ein bókin var í skammtímalánshillunni, það stendur á henni 14 dagar en þegar ég skoðaði tölvupóstinn með skiladögunum var hún með sama skilatíma og hinar átta bækurnar. Þetta eru smásögur; Skyggnur eftir Stefaníu Pálsdóttur. Hinar þrjár sem komnar eru aftur ofan í bókasafnspokann eru: Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur, Óvissa eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson og Strákar sem meiða eftir Evu Björg Ægisdóttur. Hinar fjórar bækurnar eru á náttborðinu (ásamt fleiri bókum), amk tvær þeirra eftir íslenska höfunda. Segi kannski frá þessum bókum síðar.
Annars var gærdagurinn rólegur í vinnunni. Innan við fimmhundruð framleidd kort. Við sumarstelpan skiptum um enda, vélin var ekkert að stríða og allt var búið og frágengið niðri um tólf. Það var líka svona rólegt uppi. Ég var komin í sjóinn stuttu fyrir klukkan þrjú. Það var að fjara út, smá hraðferð á loginu, öldugangur í sjónum og hann kominn niður í 10,2°C úr ellefu gráðum. Ég óð og svamlaði út að endanum á bryggjugarðinum. Botnaði alveg þar og hefði líklega getað vaðið alveg út að kaðli að ég tali nú ekki um hálfa leið til Kópavogs. En ég fór ekkert lengra en skemmti mér við að hoppa á staðnum í þessum öldugangi. Var komin heim fyrir fjögur og fór ekkert út aftur eftir það. Þriðja daginn í röð hellti ég mér upp á sterkt kaffi og drakk einn og hálfan bolla af því.
23.6.23
Strax að koma helgi aftur
Vaknaði um sex. Var mætt í vinnu um hálfátta. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og sumarstúlkan á móttökuendanum. Henni finnst skemmtilegast að vera þar en skiptir þó við mig öðru hvoru. Held ekki að hún hafi verið á ítroðendanum nema með mér. Í heildina var framleiðsludagurinn rétt rúmlega fimmhundruð kort, engin endurnýjun svo við vorum búnar að slökkva á vélinni um tólf. Það var bara smá frágangur eftir, eftir hádegi. Það var líka svona rólegt uppi. Var samt í vinnunni til klukkan að verða hálfþrjú. Þá voru flestir að fara eða farnir. Ég dreif mig í sund. Hringdi aðeins í pabba þegar ég var búin að leggja á planinu við sundlaugina. Það var bara mjög gott í honum hljóðið. Hann er farinn að ná tökum á skriðsundu og segist vera fljótari að synda þannig. Kaldi potturinn var opinn og búið að breyta pottinum við hliðina í magnesíum pott. Ég fór þrisvar í kalda, tvisvar í magnesíum pottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn en ég synti ekki neitt og skammaði mig í huganum fyrir þessa sundleti. Var komin heim rétt fyrir klukkan hálffimm. Um sex leytið skruppu bræðurnir í Sorpu á mínum bíl og Oddur fékk að keyra. Davíð Steinn hafði farið í sína fyrstu veiðiferð um morguninn á sínum bíl eitthvað suður með sjó. Hann veiddi ekkert, sagði að það hafi ekki verið nógu gott veiðiveður.
22.6.23
Fimmtudagur
Var komin á fætur um sex og mætt í vinnu áður en klukkan sló hálfátta. Ég var aftur í bókhaldinu. Fyrrum fyrirliði og sumarstelpan sáu um framleiðsluna. Reyndar þurfti að hafa samband við kerfisfræðing þar sem allar möppur voru tómar og ekkert nýtt í skránum. Kerfisfræðingurinn gat bjargað því. Fyrstu framleiðslu og talningu á því plasti lauk rétt fyrir hálftíu. Þá fórum við í kaffi. Allri daglegri framleiðslu lauk um tólf og það sem óframleitt var af endurnýjun var búið fyrir klukkan tvö. Þá var líka allt að verða búið uppi. Ég var komin í sund um hálfþrjú. Sá hálfpartinn eftir því að mæta í Laugardalinn því kaldi potturinn var lokaður. Hitti á fyrrum vinnufélaga, Sævar, svo það var líklega þess vegna sem ég átti að fara í þessa laug á þessum tíma. Eftir eina ferð í heitan pott og aðra í sjópott settist ég á bekk skammt frá útiklefunum. Ekkert löngu síðar var ég látin vita að búið væri að opna kalda pottinn. Ég fór auðvitað beinustu leið í þann pott og tvær ferðir til, í gufu eftir fyrstu ferðina, aftur í sjópottinn eftir aðra ferðina og smá sólbað eftir síðustu ferðina. Synti ekkert. Var komin heim um fjögur leytið. Bræðurnir sátu inn í stofu að spjalla saman. Davíð Steinn var að bíða eftir því að verða látinn vita að hann mætti sækja föðurömmu sína á sjúkrahúsið og skutla henni heim. Bíll pabba hans er bilaður, annar föðurbróðurinn var á Bakkanum og bíll hins föðurbróðurins "mengaður" af hundahárum og ekki á það hættandi að nýta það faratæki til að skutlast með gömlu konuna. Klukkan var langt gengin í átta þegar loksins var hægt að útskrifa ömmuna en talað hafði verið um milli þrjú og sex. Þessi nýjasti bílstjóri og bíleigandi í fjölskyldunni var smá svekktur með þennan drátt því hann var með plön um einhvern hitting um kvöldið sem átti að byrja um hálfsjö. Held samt að það hafi ekki verið slegið út af borðinu og hann fór beinustu leið í þann hitting eftir skutlið.
21.6.23
Smá frestun
Vaknaði við vekjarann í gærmorgun. Hafði rumskað um tvö leytið og það gekk ekki nógu vel að sofna aftur fyrr en tveimur til þremur tímum síðar. En þá steinsofnaði ég aftur og var að dreyma eitthvað skrítið þegar ýtt var við mér af vekjaranum. Mætti í vinnu á sama tíma og oftast. Yfirleitt stimpla mig ég strax inn sem ég geri oftast í gegnum app í símanum en stundum gleymi ég því. Hendi mér í verkefnin og ranka svo við mér korter til hálftíma síðar. Þá set ég athugasemd við stimplunina í appið og sú sem sér um að taka sama alla tíma lagar málin. Ég var í bókhaldinu í gær. Sú vinna gekk vel. Um tíu hringdi í mig sá sem ætlar að koma og taka út gluggavinnuna. Hann er víst einn að leysa tvo aðra af svo hann er yfirhlaðin af verkefnum og stundum margbókaður. Ég gaf honum upp símanúmer tvíburanna og sagðist alveg geta skotist frá úr minni vinnu um og frá hádegi ef hann sæi fram á að komast á þeim tíma. Einhvern veginn hef ég ekki neinar áhyggjur af þessu. Þetta er komið í ferli og nú verður bara spennandi að sjá hvort það þurfi nokkuð að skipta út nema tveimur til þremur rúðum, svalahurðinni og svo verður frábært þegar karmarnir verða allir orðnir hvítir eins og annars staðar á húsinu. En þar sem að náunginn komst ekki í gær fór ég beint heim eftir vinnu því ég var ekki með sund eða sjósundsdót með mér í bílnum.
20.6.23
Buslað í sjónum
Ég var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum allt daglegt um tólf og svo smá endurnýjun eftir hádegi. Hætti vinnu um þrjú leytið. Kom við á dekkjarverkstæðinu í Fellsmúla til að spyrjast fyrir um hettur á ventla. Mér voru gefnar tvær hettur. Aðra þeirra skrúfaði ég strax á ventinlinn á framdekkið bílstjóra meginn. Hinn á ég þá auka. Stuttu fyrir fjögur var ég að vaða út í sjó í Nauthólsvík. Svamlaði um í tuttugu mínútur og sat eitthvað svipað í heita pottinum á eftir áður en ég fór upp úr og heim.
19.6.23
Ný vinnuvika
Ég var aðeins fyrr á fótum í gærmorgun heldur en á laugardaginn, þó ekki miklu fyrr. Klukkan var að verða hálfníu. Kveikti á pabba-tölvu á leiðinni inn á baðherbergi og eftir að hafa sinnt morgunverkunum settist ég við hana í rúman klukkutíma. Þegar pabbi kom fram um tíu leytið var ég að leggja kapal inn í eldhúsi og að láta renna á kaffikönnuna. Hann bað mig um að klára síðasta harðsoðna eggið í ísskápnum og sauð um tíu önnur í staðinn. Hann byrjar alla morgna um sex á því að taka hitatölur, skrá niður og fá sér harðsoðið egg og klementínu. Hann var semsagt búinn að koma fram en lagði sig aftur og klæddi sig um tíu leytið. Hann fór í göngu seinna um daginn og komst heldur lengra en á föstudag og laugardag eða fram að húsi no 14 og til baka. Dagurinn leið annars þó nokkuð hratt. Fékk mér skyr um hálftvö leytið, þriðja og síðasta skammtinn úr 500 gr. dós. En um fimm var ég með bleikju og gróf hrísgrjón handa okkur pabba og fljótlega eftir matinn kvaddi ég. Í miðjum Kömbum birtist merki í mælaborðinu, merki um að fara að athuga þrýstinginn á dekkjunum fljótlega. Ég ók alla leið í bæinn og á N1 við Gagnveg þótt sonurinn væri ekki að vinna. Það var framhljólið farþegameginn sem var komið niður í 23", aftur dekkin voru í 29-30" en dekkið bílstjóra megin var á réttu róli 32". Þar hins vega var horfinn tappinn sem á að vera skrúfaður á totuna sem blásið er í. Strákarnir voru hjá pabba sínum og ég var komin inn í rúm og farin að sofa þegar þeir komu heim.
18.6.23
Sunnudagur
Svaf eitthvað stopult framan af nóttu en vaknaði svo ekki fyrr en um hálftíu í gærmorgun. Pabbi hafði víst komið fram um sex leytið en hann kom svo á fætur um tíu. Við höfðum það rólegt og samæltums um að hafa saltfisk í matinn um miðjan dag. Ég sá um soðninguna. Frosinn saltfiskur, nokkrar kartöflur og ein og hálf rófa skræld og bituð niður. Allt þetta soðið í sama pottinum og var tilbúið þegar kartöflurnar voru tilbúnar. Seinna um daginn skrapp pabbi í smá göngutúr, studdi sig við eina hækju og labbaði að númer 16 og til baka. Þrátt fyrir að við héldum okkur annars heimavið að sýsla við eitt og annað, m.a. kapallagnir, leið dagurinn ógnar hratt.
17.6.23
Þjóðhátíðardagur Íslendinga
Auðvitað var ég vöknuð um sex leytið í gærmorgun þrátt fyrir að vera í fríi og hafði alls ekki stillt á mig vekjaraklukku. Kom mér á fætur fljótlega, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér vítamín og vatnsglas og settist svo um stund með fartölvuna í fanginu í stofusófann. Var komin í Laugardalslaug rétt rúmlega átta. Eftir eina ferð í kalda fór ég á braut 6. Þar synti í 300 metra áður en ég færði mig yfir á brautir 7 og 8 og synti 400 metra í viðbót. Flestar ferðirnar á bakinu. Eftir næstu ferð í kalda fór ég í gufuna. Sjópotturinn var lokaður svo ég fór aðeins eina ferð í viðbót í kalda pottinn sat svo á stól í nokkrar mínútur áður en ég fór inn til að þvo á mér hárið. Kom heim um tíu. N1 sonurinn var á frívakt en hann var vaknaður og í sturtu þegar ég kom heim. Hann fór fljótlega með bílinn í skoðun og næsta sem ég vissi af honum var að hann skrapp norður að hitta félaga í fólksvagnseigenda klúbbnum. Ég hellti mér upp á sterkt kaffi og tók því rólega til klukkan að byrja að ganga eitt. Þá tók ég mig saman og lagði af stað austur. Kom við í Löngumýrinni. Jóna Mæja var heima og skömmu síðar kom frændi minn heim úr sjúkraþjálfun. Það er vika þangað til barnabörnin koma til landsins og Gerður frænka kemur svo 30. júní. Maðurinn hennar, og pabbi barnanna, kemur svo í kringum 5. júlí en þau fara svo öll saman heim um miðjan næsta mánuð. Líklega um það leyti sem ég er að fara í aðal sumarfríið mitt. Vona að ég geti hitt á þau áður. Var komin á Hellu um hálffjögur. Um sex leytið skrapp ég út í vínbúð til að kaupa mér hvítvínsbelju til að eiga hérna fyrir austan. Smakkaði aðeins vínið seinna um kvöldið. Það var alveg ágætt en ég drakk þó aðeins tvö glös. Bríet, Bjarki og einhverjir félagar þeirra eru á bíladögum fyrir norðan, með gisti og tjaldaðstöðu í sveitinni hjá foreldrum hennar. Svo við pabbi erum tvö hérna, Davíð Steinn líklega líka á Árlandi og Oddur Smári einn heima.
16.6.23
Stutt frí
Ég mætti í vinnu á svipuðum tíma og venjulega. Ekkert löngu á eftir mér kom fyrrum fyrirliði úr mánaða löngu sumarfríi. Fyrirliðinn og sumarstúlka tóku að sér framleiðsluna. Ég var í bókhaldinu og hafði fyrrum fyrirliða með mér. Setti hana inn í þær breytingar sem búið er að gera varðandi uppgjör og reikningagerð. Breytingarnar eru aðallega fólgnar í að hafa flest sem tilheyrir mánaðamótum saman í möppu. Færði samt ekki lotugjalda liðinn og fjölda og skiptingu í endurnýjun. Hver veit hvað gert verður síðar. Við fyrrum fyrirliði tókum líka til í uppgjörsblöðunum, hentum því sem var orðið það gamalt að víst er að ekki þarf að fletta upp í því, bæði pappírum (í tunnu merkt örugg eyðing gagna) og einnig hluta af því sem safnast hefur upp í tölvunni. Allri framleiðslu var lokið um tólf. Fékk mér að borða og um eitt kvaddi ég og fór beint í Nauthólsvík. Hafði tekið bæði sund- og sjósundsdóti með mér um morguninn þar sem ég var ekki alveg ákveðin í hvort ég myndi nota. Sjórinn varð fyrir valinu og synti ég aftur út að kaðli. Stoppaði ekki svo lengi við í heita pottinum á eftir því ég var komin til esperanto vinkonu minnar um hálfþrjú. Við tókum smá lestraræfingu í esperanto í bók sem er skemmtilega sett upp. Stuttir leskafla með orðasafni á undan þar sem orðin eru útskýrð með setningum á esperanto. Á eftir köflunum eru ýmis konar æfingar sem við rennum aðeins yfir. Var komin heim um fjögur. Oddur var nýbúinn að hengja upp úr vélinni en það var pláss á snúrunum svo ég henti í eina handklæðavél á 60°C með forþvotti.
15.6.23
Búin snemma
Ég var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun og mætt í vinnuna á svipuðum tíma og flesta vinnudaga. Við sumarstúlkan sáum um framleiðsluna. Heildar fjöldinn var í kringum fimmhundruð kort. Þrátt fyrir að við værum í klukkutíma stoppi í kaffinu vegna erindis á fundinum vorum við búnar um tólf. Viðgerðarmennirnir mættu á svæðið upp úr klukkan eitt. Ég sat yfir þeim til klukkan tvö en þá leysti fyrirliðinn mig af og sagði að ég mætti fara heim. Þrátt fyrir að allt væri á fullu uppi sýndist mér að það væri í góðu lagi að ég léti mig hverfa af svæðinu. Fór beinustu leið í sund og hitti óvænt kalda potts vinkonu mína í hennar þriðju ferð í kalda pottinum. saman fórum við alls fjórar ferðir. Eftir gufu og mína fimmtu ferð í kalda fór ég aðeins í sjópottinn áður en ég synti 400 metra. Var komin heim um fjögur.
14.6.23
Undarlegheit á blogginu mínu
Taldi mig vera búna að setja inn smá texta um gærdaginn en hafði þurft að setja hann inn í einhver ramma þar sem eingöngu var hægt að skrifa. Ramminn virðis svo hafa gleypt textann, ekki vistað hann þannig að það sem ég byrjaði á því að senda út í dag reyndist ekki vera neitt. Mjög furðulegt. En gærdagurinn var annars ágætur. Var á ítroðsluendanum á vélinni og skrapp í smá förgun milli klukkan ellefu og ellefu tuttuguogfimm. Kláruðum endurnýjun sem lá fyrir og í heildina voru framleidd um nítjánhundruð kort í gær. Var mætt í sund um þrjú, rétt á undan kalda potts vinkonu minni. Ég var búin með eina ferð í kalda og sat í smá sólbaði þegar hún kom. Þegar við vorum í okkar þriðju ferð í kalda kom yngsta systir hennar. Hef ekki hitt þá konu áður en þær systur eru frekar líkar. Það urðu alls sjö ferðir í kalda pottinn hjá mér en ég nennti ekki að synda. Var komin heim upp úr klukkan fimm. Synir mínir kvöddu um sex leytið, fóru út að borða saman og svo í bíó með litlu systur sinni.
13.6.23
Synt/svamlað út að kaðli
Vaknaði nokkrum mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Að vísu hafði ég rumskað um fjögur leytið og vissi þá alveg af mér í dágóða stund. Mætti í vinnu um hálfátta. Synti bókhaldinu. Fyrirliðinn og sumarstúlka kláruðu daglegu framleiðsluna, pakkið og talninguna um tólf og voru í endurnýjun eftir hádegi. Ég var mætt í Nauthólsvík rétt fyrir fjögur. Hringdi í pabba minn á meðan ég var á leiðinni þangað. Svamlaði út að kaðli, var ekkert að flýta mér. Það var nógu mikið flóð til að ekki væri hægt að vaða þessa leið. Sjórinn 10°C og ég var sennilega svona uþb tuttugu mínútur út í og kom svo við í lóninu á leiðinni í heita pottinn við bygginguna. Hitti aðeins á systurnar út sjósundshópnum mínum áður en ég fór upp úr. Kom við í Krónunni áður en ég fór heim. Oddur Smári sótti fyrir mig vörurnar út í bíl og gekk frá þeim. Það voru ekki nema tveir pokar en ég var þar að auki með bakpokann minn og sjósundsdótið. Davíð Steinn hafði verið kallaður inn í afleysingar. Hann fékk samt fyrst að fara með bílinn á dekkjaverkstæðið við Fellsmúla. Það hafði sprungið hjá honum þegar hann var að mæta í vinnu í gærmorgun. Hann setti varadekkið sjálfur undir eftir vaktina og var svo alveg með það á hreinu hvernig dekkjaumgang hann ætlaði að fjárfesta í. Sagði að það væri ennþá betra að keyra bílinn á þessum nýju dekkjum.
12.6.23
Öskjuhlíð, sund og gúllasguðþjónusta
Fannst sem ég væri örlítið sein á ferð þegar ég mætti í Laugardalinn um níu. Þá var ég klukkutíma og snemma á ferðinni því ég hafði ekki lesið öll skilaboð um opnunartíma. Það var semsagt tilkynnt fyrir um hálfum mánuði að lauginni yrði lokað klukkan 18 þann 10. júní. Ef ég hefði lesið lengri þá stóð einnig að vegna skyndihjálparnámskeiðs hjá starfsfólki yrði laugin ekki opnuð fyrr en klukkan tíu þann 11. júní. Ég var að hugsa um að skreppa í Sundhöllina í staðinn. Kom við í hraðbanka hjá landsbankaútibúinu í Borgartúni og þegar ég hélt ferð áfram skipti ég um skoðun. Lagði bílnum við Perluna og fór í hálftíma göngutúr í Öskuhliðinni og alveg út í kirkjugarð að leiða móðurforeldraminna og eins móðurbróður. Var komin aftur í Laugardalinn skömmu eftir að opnaði; kaldur, 400m, kaldur, gufa, kaldur, sjópottur, kaldur og smá "sólbað" áður en ég fór upp úr og heim. Var komin heim rétt fyrir tólf. Hellti mér upp á sterkt og gott kaffi og fékk mér einhverja hressingu. Tíminn til klukkan að verða hálfsex fór í alls konar dundur innan hús, aðallega tengt áhugamálunum. Hringdi líka í eina frænku mína og nöfnu og spjallaði við hana í góðan hálftíma. Um hálfsex skipti ég um topp, fór í kápuna mína og nýjustu skóna og labbaði upp í kirkju óháða safnaðarins til að hlíða á og taka þátt í síðust messu fyrir sumarfrí og fá mér gúllassúpu á eftir. Þetta var síðasta messa organistans sem er að fara í fullt starf sem organisti í Grindavíkurkirkju. Labbaði heim aftur tæpum tveimur tímum síðar og horfði á síðasta þátt hringfarans um mótorhjólaferð um Ísland á Covid-tímum.
11.6.23
Sund, esperanto og göngutúr
Var vöknuð áður en klukkan var orðin sex. Las til klukkan að verða sjö. Þá fór ég á fætur, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér lýsi, vítamín og vatnsglas og settist svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um það leyti sem morgunfréttir klukkan átta voru að hefjast í útvarpinu var ég að leggja af stað í sund. Mikið varð ég glöð fyrir hönd pabba að búið væri að semja. Hann komst ekkert í sund sl. viku vegna verkfalla. Svo gerðist það sem ég var einhvern tímann að velta fyrir mér síðusta hálfa árið, hvort ég myndi einhvern tíma gleyma að beygja inn á Sundlaugarveg um helgi og halda áfram út á Sæbraut í áttina að vinnustaðnum. Fattaði þetta um leið og ég kom að beygjuljósunum út á Sæbraut svo ég fór alls ekki alla leið en tók smá krókaleið í sundið. Fór í kalda pottinn fjórum sinnum, synti 500 metra, eina ferð í gufu og eina ferð í sjópottinn. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og fór svo beinustu leið til norsku esperanto vinkonu minnar. Var komin þangað rétt rúmlega tíu og stoppaði í tæpa tvo tíma. Að þessu sinni eyddum við amk þriðjungi af þessum tíma í að lesa kafla í esperanto bók. Kom heim um tólf. Fljótlega eftir hádegisfréttir fór ég að sinna því sem ekki má skrifa um. Milli klukkan 15:41 og 16:25 fór ég í rúmlega þriggja kílómetra göngutúr. Vestur eftir Eskihlíð, undir brýrnar við Bústaðaveg og Miklubraut, yfir brúna við Landsspítalann, framhjá BSÍ, upp Barónsstíg að Eiríksgötu, þar niður, undir brúna þar sem Snorrabraut, Bústaðavegur og Miklabraut mætast, Miklubraut að ljósunum við Lönguhlíð, þar yfir og heim. Mjög hressandi en ég var með foss á bakin og eldrauð í framan þrátt fyrir að hafa gengið rétt rúmlega rólega.
10.6.23
Tuttugu mínútur í 10°C sjónum seinni partinn í gær
Vaknaði góðum hálftíma áður en vekjarinn átti á ýta við mér. Slökkti á vekjaranum og fór á fætur. Hafði góðan tíma til að sinna morgunverkum og netvafri. Mætti í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Ég tók tvö af kerfunum niðri af, opnaði seinni lásinn á hvelfingunni uppi, fór niður til að kveikja á vélinni og undirbjó svo fyrstu tölur áður en ég fór inn á kaffistofu til að fylla á vatnsbrúsann og fá mér smá kaffi. Var með prjónana með mér og prjónaði eina umferð í klifurgrinda-tuskunni sem er langt komin. Á kannski tíu til fimmtán umferðir eftir nema ég ákveði að hafa tuskuna í stærra lagi. Ég var í bókhaldsvinnunni í gær. Það var minna vesen á vélinni í gær og aðeins færri kort til daglegrar framleiðslu þannig að þeirri vinnu lauk rétt fyrir tólf. Eftir hádegi var kláruð sú endurnýjun sem var byrjað á tveimur dögum fyrr (miðvikudaginn) og samt var vélin háttuð og gengið frá öllu upp úr klukkan tvö, að verða hálfþrjú. Ég var amk mætt í Nauthólsvík fimm mínútum fyrir þrjú. Hringdi í pabba á leiðinni þangað. Átta manns á kajökum kom að þar sem ég og fleiri fara út í sjóinn. Þau drógu kajakana aðeins upp á sandinn, en það var að fjara út, stilltu sér upp í myndatöku. Ég svamlaði út að enda grjótgarðsins. Gat reyndar alveg botnað og hefði getað vaðið út að kaðli. Fór samt ekki lengri því ég átti von á sjósundsvinkonu minni. Hún og önnur systranna komu tíu mínútum síðar. Þá var kajakfólkið að leggja frá aftur. Það snéri baki í ströndina þannig að þegar ég veifaði vinkonunum var ég spurð hvort ekki væri allt í lagi þar sem ég var að baða út höndunum. He, he. Ég fór upp úr sjónum um leið og hinar tvær, en þær voru út í í amk tíu mínútur. Á eftir vorum við hátt í klukkutíma í heita pottinum. Þurftum að spjalla um svo margt og svo hittum við eina til sem við könnumst við. Sú er daglega í sjónum. Ég kom heim rétt fyrir fimm. Hringdi í Ellu vinkonu og átti gott samtal við hana. Hún er komin í sumarfrí. Davíð Steinn kom heim úr sínu ferðalagi um hálfátta. Hann hafði að vísu verið að lenda seinni partinn en skutlaði samferðafólki sínu heim. Hann tók upp úr töskunum, færðu okkur smá gjafir, sýndi okkur tattú sem hann var að fá sér og einum og hálfum tímum síðar var hann rokinn upp í Mosfellsbæ með gjafir þangað. Hann var verulega ánægður með ferðina en sagðist ekki myndu þora að kíkja á bankareikninginn sinn alveg á næstunni.
9.6.23
Níu bækur heim af safninu
Ég vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Tók kerfið af hvelfingunni niðri, prentaði út fyrstu tölur, opnaði seinni lásinn á hvelfingunni uppi og fór niður í kortadeild til að kveikja á framleiðsluvélinni áður en ég fór inn á kaffistofu fyllti á vatnsbrúsann, fékk mér kaffi og prjónaði smá. Sumarstúlkan og ég tókum að okkur vélina en höfðum endaskipti. Hjálpaði henni af stað með að hlaða inn fyrstu framleiðslu og tíndi svo til kortin í þá framleiðslu. Þetta gekk alveg ágætlega. Það var ekki fyrr en við fórum að framleiða debetkort dagsins að við lentum í alls konar veseni. Þrátt fyrir allt þetta vesen hafðist að framleiða alla daglega framleiðslu en við ákváðum að hætta eftir hana. Vorum að ganga frá deildinni um hálfþrjú. Ég var komin í sund um þrjú leytið. Synti 300m og var búin með fyrstu ferðina í kalda pottinn þegar kalda potts vinkona mín mætti. Saman fórum við fimm ferðir í kalda, eina í gufu, eina í sjópottinn og þrjár ferðir í 42°C pottinn. Það er enn verið að lappa upp á heitasta pottinn. Eftir sundið fór ég í Kringlusafnið. Skilaði þremur síðustu bókunum og varð svo að stoppa mig af svo ég færi ekki heim með tveggja stafa tölu af bókum af safninu. Eina af þeim bókum tók ég úr skammtímaláns hillunum en þegar ég skannaði inn bækurnar voru allar með skilafrestinn 10. júlí n.k.
8.6.23
Blautur dagur í dag
Fór á fætur rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Var mætt í vinnuna um hálfátta. Ég og sumarstúlkan skiptum um hlutverk í kortadeildinni, þ.e. hún fór á móttökuendann. Daglegri framleiðslu var lokið um tólf. Þá átti bara eftir að pakka smávegis. Eftir hádegi og uppvask fórum við aftur niður. Kláruðum það sem var óklárað. Settum svo í gang endurnýjun í um einn og hálfan tíma áður en við hættum og gengum frá. Upp úr klukkan hálfþrjú fengu tveir kerfisfræðingar aðgang að kortavélinni og örfáum kortum í test. Ég hætti vinnu um þrjú. Fór beint á smurstöðina sem ég heimsæki reglulega. Í þetta sinn var ég ekki að láta smyrja heldur fá nýja peru í framljósið farþega meginn. Síðan fór ég beinustu leið heim og var því komin þangað óvenju snemma eða um fjögur leytið.
7.6.23
Vikan strax hálfnuð
Vaknaði ekki alveg eins snemma og á mánudagsmorguninn en þó aðeins fyrir klukkan sex í gærmorgun. Var útsofin og dreif mig strax á fætur. Var mætt í vinnu rétt áður en klukkan varð hálfátta. Nú voru engin vandræði með að komast inn. Ég og sumarstúlkan tókum að okkur vélarvaktina. Það gekk bara nokkuð vel hjá okkur. Vélin var samt með smá vesen en þegar við hættum um þrjú vorum við búnar að framleiða í kringum ellefu hundruð kort, þar af endurnýja um fjögurhundruð. Þessa vikuna eigum við eldhúsvaktina ég og sú fjórða. Fyrirliðinn bauðst til að leysa mig af við fráganginn eftir matinn. Ég þáði það og sagðist skyldu launa henni greiðann í næstu viku þegar hún á vaktina ásamt annarri sem er næst henni í stafrófinu. Var mætt í Laugardalslaug um hálffjögur og kom á sama tíma og kalda potts vinkona mín en hún hafði sent mér fyrirspurn fyrr um daginn um hvenær ég myndi mæta og ég sagðist mæta um þetta leyti. Við fórum fimm ferðir saman í kalda pottinn, eina í gufuna, fjórar í 42°C pottinn og eina í sjópottinn. Eftir góða stund í sjópottinum fór hún aftur í gufu en ég í þann kalda og sat svo smá stund á stól úti áður en ég fór upp úr og heim.
6.6.23
Þriðjudagur
Ég var komin á fætur um fimm leytið í gærmorgun. Rumskaði um fjögur þegar N1 sonurinn dreif sig á vit ævintýranna áleiðis út í lönd. Hann er núna staddur í Manchester ásamt tveimur af fyrrverandi vinnufélögum. Annar vinnufélaginn vinnur reyndar enn á N1 við Stórahjalla en hinn er hættur hjá N1. Þannig að sá sem er enn að vinna hjá N1 er samstarfsmaður þótt þeir Davíð Steinn vinni ekki á sömu stöð lengur. Ég var mætt í vinnu um hálfátta í gærmorgun. Númer tvö í röðinni. Ekki var hægt að komast alla leið inn því dyrnar við slússuna voru bilaðar og það þurfti að kalla út manneskju með lykil. Var komin inn á vinnusvæði stuttu fyrir átta. Var enn einn daginn í bókhaldinu til að setja upp tengingar og skrifa niður smá leiðbeiningar varðandi mánaðamóta tölur og uppgjör. Vonandi slær þetta ekki fyrrum fyrirliða út af laginu þegar hún tekur við uppgjörinu aftur. Held samt að ég hafi náð að einfalda hlutina aðeins betur þannig að það ætti að vera minna mál fyrir þá sem koma nýjir að þessu verkefni að setja sig inn í málin. Hætti vinnu klukkan þrjú og fór beint í Nauthólsvík. Sjórinn var 9,9°C og fjara. Svamlaði um í tíu mínútur og sat svo í heita pottinum í hálftíma áður en ég fór upp úr og heim. Mér tókst að halda mér á fótum til klukkan rúmlega níu. Las til klukkan hálftíu en var örugglega steinsofnuð skömmu síðar.
5.6.23
Dagurinn tekinn mjög snemma
Í gærmorgun/fyrrinótt rumskaði ég um fjögur leytið. Skrapp á salernið en ég sofnaði ekki aftur fyrr en upp úr klukkan sex. Þá svaf ég í rúma tvo tíma. Var semsagt komin á fætur á níunda tímanum. Um leið og ég fór að sinna morgunverkunum á baðherberginu kveikti ég á tölvunni hans pabba. Vafraði um á netinu í rúman klukkutíma. Hellti upp á kaffi um ellefu leytið. Lagði nokkra kapla, prjónaði og las. Var eitthvað að spá í að skreppa loksins í heimsókn á elliheimilið en það varð ekkert úr þeirri hugmynd. Pabbi bjó til amk tvöfaldan skammt af pönnukökum. Vorum með kaffitíma um fjögur. Um fimm leytið tók ég mig saman og pabbi fékk loksins að setja sinn bíl aftur inn í bílskúr. Þrjár umferðir yfir verstu rispurnar á bílnum mínum höfðu dugað til og nú fer ég að vinna í að panta alþrif á gripnum, þá verður hann næstum eins og nýr en hann er árgerð 2014. Kom í bæinn stuttu fyrir sjö. Bræðurnir voru ekki heima en komu rúmum einum og hálfum tíma á eftir mér.
4.6.23
Í heimsókn hjá pabba
Ég var vöknuð löngu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Setti inn færlsu á bloggið og vafraði um á netinu þar til kominn var tími til að skreppa í sund. Var í minni fyrstu ferð af fjórum í 6,6°C kalda pottinum korter yfir átta. Var á leið í gufuna eftir tvær aðrar ferðir, 300m sund og 1 ferð í sjópottinn þegar sr. Pétur mætti á svæðið. Hann sagðist vera flóttamaður þar sem Vesturbæjarlaugin var lokuð. Spjallaði ekki lengi við hann en hann minnti mig aftur á gúllasmessuna sem verður klukkan 18:00 n.k. sunnudag. Það er síðasta messa fyrir sumarfrí. Þvoði mér um hárið áður en ég fór upp úr. Skrapp heim með sunddótið og tók til dót með mér til gistingar. Var mætt til esperanto vinkonu minnar rétt upp úr klukkan tíu. Var með esperanto dótið með mér en við höfðum um svo margt annað að spjalla og voru ekki í rétta esperanto stuðinu. Stoppaði hjá henni í einn og hálfan tíma. Næst fór ég með bílinn í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð. Skrapp heim með esperantodótið og sótti strigaskóna og úlpugarm áður en ég brunaði austur. Var komin á Hellu tæpum hálftíma áður en úrslitaleikurinn milli Barcelona og Wolfsburg í knattspyrnu kvenna hófst. Ég hellti upp á kaffi og við pabbi horfðum saman á leikinn. Þegar hann var búinn færði pabbi bílinn sinn úr skúrnum svo ég gæti keyrt minn inn. Hann hjálpaði mér að pússa skrámurnar á bílnum fyrir ofan afturdekkið farþega meginn. Ég átti lakk og glæru efni sem pabbi var búinn að geyma fyrir mig. Fór alls þrjár umferðir, þá síðustu eftir fréttir og kvöldmat. Þetta er ekki mjög fallegt en skárra heldur en rispurnar sem eru búnar að vera þarna frá því í snjóófærðinni rétt fyrir síðustu jól.
3.6.23
Helgarfrí
Ég vaknaði fyrir klukkan sex, góðum hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Þar sem ég var alveg glaðvöknuð var langbest að drífa sig á fætur. Átti þá góðan tíma í netvafrið eftir morgunverkin. Mætti í vinnuna um hálfátta rétt á eftir fyrirliðanum. Ég var áfram að vinna að mánaðamótauppgjörinu og í daglegu bókhaldi. Fyrirliðinn og sumarstúlkan sáu um alla framleiðslu. Vélin var eitthvað að stríða en um tvö leytið var búið að framleiða yfir níuhundruð dagleg kort og pakka þeim og að auki annan eins fjölda korta til að klára endurnýjun sem kom rétt fyrir mánaðamót. Fyrirliðinn las yfir mánaðamótaskýrsluna hjá mér og ég gat skilað öllu af mér. Þá á ég bara eftir að vinna betur í tenginginunum fyrir næstu mánaðamót. Var komin í sjóinn upp úr klukkan hálffjögur, í fyrsta skipti síðan ég keypti mér árskortið. Sjórinn yfir 10 gráðum, það var að flæða að, lítil hreyfing á loginu og yndislegt að busla um stund í sjónum. Kom heim um fimm leytið.
2.6.23
Föstudagur
Gærdagurinn var hvorki eins þungur né langur vinnulega séð. Ég var áfram í bókhaldi og mánaðamótauppgjöri sem klárast vonandi og sennilega í dag. Daglegri framleiðslu lauk um hádegið og þrátt fyrir að vélin væri með smá leiðindi var framleitt svolítið af endurnýjun líka. En um tólf var vélin afhent til yfirferðar. Annar viðgerðarstrákurinn kom með ansi kunnuglegan grip með sér þegar hann mætti á svæðið. Hann hafði fengið að eiga verkfæratösku Péturs heitins sem var viðgerðarmaður í áratugi og verktaki hjá OBA lengst af. Ég leysti af í yfirsetu í hádeginu. Fyrirliðinn kom niður aftur rúmlega eitt og ég sagðist geta leyst hana aftur af um þrjú ef hún vildi nýta tímann til að fara aðeins fyrr úr vinnu til að endurnýja rafrænu skilríkin sín. Sumarstúlka kortadeildar fór að hjálpa til í störfunum uppi. Klukkan hálfþrjú var ég búin að gera allt sem hægt var að gera í uppgjörsmálum og fór því niður og leysti fyrirliðann af. Rétt skömmu síðar tóku viðgerðarmennirnir sér kaffipásu. Svo það var bara tíu mínútuna stopp hjá mér niðri. Fyrirliðinn var ekki farinn og ég spurði hvort ekki væri skynsamlegt að ná í eitt kort inn á lager til að testa vélina í lok yfirfærslu. Þetta var gripið á lofti og við fórum saman niður til að sækja kort inn í hvelfingu. Vélin var sett saman um hálffjögur, kveikt á henni og kortinu rennt í gegn vandræðalaust. Klukkan fjögur stimplaði ég mig út og fór beinustu leið yfir í Laugardalslaug. Hringdi og spjallaði við pabba á leiðinni yfir. Hann var að koma inn úr sláttuvinnu og var meira að segja að hugsa um að leggja í hólinn. Mér varð pínu um og ó en ég veit sem er að pabbi vill helst bjarga sér sjálfur með hlutina og finnur yfirleitt alltaf leiðir að verkefnunum sem hann tekst á við. Duglegi pabbi minn. Hitti kalda potts vinkonu mína eftir mína fyrstu ferð í kalda. Hún var þá þegar búin að fara þrjár og var að koma úr gufunni. Rúnturinn hjá okkur skiptist í; kalda, 42°, kalda, gufu, kalda, 42°, kalda, gufu, kalda, sjópottinn og kalda. Kom heim um sex leytið.
1.6.23
Júní mánuður hafinn
Ég var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Vinnudagurinn teygðist alveg til klukkan fimm og var verulega öðruvisi. Ætla samt ekki að fara neitt nánar út í það en bara geta þess að mánaðamótauppgjörsvinnan fer bara nokkuð vel af stað hjá mér. Var með sjósundsdótið með mér en ég var í engu stuði, hvorki til að skreppa í sund eða sjóinn. Sjálfsagt hefði ég nú alveg haft gott af því að skreppa smá en í staðinn kom ég við á AO við Kaplakrika og fyllti á tankinn áður en ég fór heim. Tók sem sagt stærri hringinn heim. Var komin heim stuttu fyrir sex. Bjó mér til plokkfisk úr afgangnum frá því á laugadaginn, ýsunni sem ég keypti hjá Fúsa sl. föstudag. Prjónaði smá, vafraði á netinu, horfði m.a. á Eyðibýli en var komin upp í rúm um níu og farin að sofa hálftíma síðar.