Var komin á fætur um átta en klukkan var rúmlega tíu þegar ég fór í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína og systur hennar í sjópottinum eftir mína fyrstu ferð í kalda. Tókum svo eina ferð í kalda og svo tíu mínútur í gufunni. Fórum í sturtu eftir gufuna og hittum systir hennar í potti tvö. Fljótlega fóru þær upp úr en ég synti fyrst 400 metra. Skrapp aðeins í Krónuna við Fiskislóð áður en ég fór heim. Heima var eldhúsvaskurinn stíflaður svo ég skrapp í BYKO um tvö að kaupa stíflueyðir. Keypti þrjár tegundir. Eldhúsvaskurinn er tvöfaldur og mér tókst að losa stífluna úr þeim hluta sem mest er notaður. Hinn hlutinn er meira notaðu undir plastafganga áður en þeir fara út í tunnu eða í sorpu. Gerði þó þrjár tilraunir til að losa stífluna þeim meginn en þótt eihttvað hafi þokast í rétta átt er vandamálið ekki úr sögunni. Horfði á fótbolta, þætti og smá af körfuboltalandsleiknum. Er einnig að nýta afganga úr tuskuprjóni í afgangatusku eftir mynstrinu blíðar bárur.
28.2.22
27.2.22
Rólegheit
Klukkan var um miðnætti þegar ég skreið upp í rúm á föstudagskvöldið. Þá átti ég eftir bæði að ráða smá í sudoku og lesa svo ég fór ekki að sofa fyrr en um eitt. Svaf því aðeins fram á morguninn í gær en komst á fætur áður en klukkan sló tíu. Einhvern veginn fór að svo þannig að ég fór ekkert út. Vafraði bara á netinu, prjónaði eða horfði á þætti. Sauð síðustu tvo keppina af mínum hluta af sláturgerðinni frá því í haust. Það voru tveir lifrarpylsukeppir. Mjög góðir en best finnst mér bland af báðu á diskinn minn. Það er hægt að fá frosið ósoðið slátur í Hagkaup, þrír keppir saman, svo það hefði alltaf verið einn auka ef ég hefði nælt mér í svoleiðis. En svo getur vel verið að ég kaupi þrjá og þrjá fljótlega því þótt suðan taki tíma er mjög gott að hafa svona mat öðru hvoru.
26.2.22
Sofið út
Áður en ég fór í vinnuna í gærmorgun hellti ég upp á 2-3 bolla af rótsterku kaffi. Engin hreyfing heyrðist úr stofunni. Fór á bílnum í vinnuna og klukkutíma síðar sendi ég mági mínum skilaboð um að ég hefði hellt upp á. Var á móttökuendanum á vélinni þar til allri daglegri framleiðslu var lokið. Sú sem var í bókhaldinu þurfti að fara um hálftvö og við hinar tvær sem voru eftir þá (ein í fríi og önnur er ekki að vinna á föstudögum) ákváðum að hafa stuttan dag og hættum upp úr klukkan tvö. Ég kom við í fiskbúðinni áður en ég fór í sund. Synti 500 metra, fór tvisvar í kalda pottinn (á undan og eftir sundinu) og endaði í góðu gufubaði. Var að koma heim um fjögur. Ákvað að hlusta á fréttirnar áður en ég færi inn en þá var bankað á bílrúðuna hjá mér. Mágur minn var að koma úr jarðarför. Synir mínir höfðu passað upp á hundinn á meðan og farið tvisvar út að ganga með hann. Ingvi stoppaði í rúma klukkustund en þá fóru hann og hundurinn austur á Hellu.
25.2.22
Næturgestir
Göngufærið í vinnuna í gærmorgun var mjög misjafnt á köflum. Á stórum hluta af stígnum þvert yfir Klambratún hafði skafið yfir til hálfs eða meira og eins á Gunnarsbrautinni. En ég var samt ekki nema þremur mínútum lengur að labba venjulegu leiðina. Var í bókhaldinu, talningum og flokkun kennispjalda. Hættum vinnu rúmlega hálfþrjú og þáði ég far heim úr vinnunni. Bræðurnir voru í sorpuferð en komu heim fljótlega á eftir mér. Var komin í sund um fjögur. Byrjaði á því að taka tvö skipti í kalda, einn í heitasta og góða stund í gufunni með kalda potts vinkonu minni. Eftir gufubaðið fór ég í kalda sturtu og synti svo 500 metra. Fékk mér bara snarl í matinn því strákarnir höfðu látið eftir sér að taka með sér pizzur heim. Fylgdist með mega spennandi körfubolta landsleik. Leik sem var svo spennandi á köflum að ég gat varla horft. Um níu hringdi mágur minn í mig. Hann var staddur í Varmahlíð og spurði hvort hann og Vargur fengju gistingu þegar þeir kæmu í bæinn. Ég sagði þá velkomna og sagðist myndi biðja Odd um að vera tilbúna að taka á móti þeim.
24.2.22
Styttist í næsta mánuð
Ég vaknaði sjálf um sex og dreif mig á fætur. Eftir morgunverkin vafraði ég aðeins um á netinu þar til tími var kominn til að labba af stað í vinnuna. Göngufærið var sæmilegt. Búið að moka gangstétt við Lönguhlíð en ekki stíginn þvert yfir Klambratún sem og gangstéttar við Gunnarsbraut. En þetta hafðist allt saman og tafði mig ekkert að ráði. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld. Eftir kaffi var ég á móttökuendanum á vélinni. Nú var verklagið aðeins annað heldur en venjulega því límið sem límir kortin á formið er búið og við fáum ekki nýjar birgðir fyrr en í vikulokin. Kortin voru framleidd fyrst og sér og formin sér. Svo handlímdum við kortin á viðeigandi form og allt sem var H merkt og með gild heimilisföng settum við í umslög. Hinu var pakkað eftir útibúsnúmerum. Þrátt fyrir þessa aðferð vorum við búnar með daglega framleiðslu stuttu fyrir tólf. Eftir hádegi flokkuðum við kennispjöld í um klukkutíma. Þá fórum við með 15 flokkaða kassa í kennispjaldageymsluna og sóttum 15 óflokkaða kassa í staðinn. Ég labbaði heim um þrjú. Fljótlega hringdi N1 sonurinn í mig hann sagðist þurfa að láta skoða sig á bráðamóttökunni, væri líklega með brákað rifbein eftir smá heimskupör með vinnufélögum í vinnunni um daginn. Hann var að jafna sig en verkurinn tók sig upp þegar hann hnerraði og var svo slæmur að hann var hálf ónýtur í vinnunni. Dvölin á bráðamóttökunni stóð yfir í hátt í sex tíma en einkabílstjórinn fór og sótti bróður sinn þegar hann var búinn. Ég var farin í háttinn og veit ekki hvort nokkuð var gert nema staðfest að um brot eða brákað rifbein væri að ræða.
23.2.22
Mið vika
Í gærmorgun fór ég á bíl í vinnuna í fyrsta skpti í þessum mánuði. Bíllinn var hinum megin við Lönguhlíð fyrir framan Drápuhlíð 25. Hann var hvítur á annarri hliðinni og það var einnig snjólag á framrúðunni. Það var auðvelt að sópa þessu af og skafa. Þurfti svo að aka varlega á köflum því það voru stórir pollar sums staðar á leiðinni. Ég var á ítorðsluendanum á vélinni fram að kaffi. Eftir kaffi var ég í pökkun en ég notaði einnig hluta af tímanum til að lesa síðustu sextíu blaðsíður í bókasafnsbók sem var að komast á síðasta skiladag. Hefði reyndar geta framlengt frestinum um 30 daga en ég vildi helst skila bókinni innan þrjátíu daga. Um hádegisbilið kláraðist límið sem límir kortin á form. Það eru þrjár vikur síðan við pöntuðum en af því að ekki var allt sem pantað var tilbúið var pöntunin enn erlendis. Birginn okkar verður að bjarga því en á meðan verðum við að framleiða kort og form sér og handlíma kortin á formin. Þetta gerum við aðeins við daglega vinnslu, endurnýjunin verður að bíða aðeins. Eftir hádegi flokkaði ég kennispjöld. Hættum vinnu um hálffjögur. Ég fór beinustu leið á safnið og skilaði þremur bókum sem voru með skilafrest til 23. og 24. febrúar. Tók þrjár bækur í staðinn þrátt fyrir að vera með tvær ólesnar heima. Ein af þeim bókum er ný, með 14 daga skilafresti. Síðan fór ég í sund. Synti í hálftíma. Kalda potts vinkonan var á svæðinu og hún tók eina aukaferð með mér í kalda pottinn og svo í gufuna. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn byrjaður að sinna matargerð. Hann hafði skroppið út í búð en gleymt hluta af því sem hann vantaði svo ég rölti yfir í Krambúð og bjargaði því sem hægt var. Maturinn var mjög góður hjá honum.
22.2.22
Litríkar veðurviðvaranir
Vaknaði rétt upp úr sex. Fór á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég í sófann í stofunni með fartölvuna í fanginu. Um sjö labbaði ég af stað í vinnu. Ég var frammi fyrsta kastið. Flokkaði kennispjöld en fór svo að skoða og telja kort sem voru að koma til okkar. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni og aftur eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni og ákvað fljótlega að halda mig heima við það sem eftir lifði dags.
Hulda systurdóttir mín er tuttuguogtveggja í dag.
21.2.22
Mánudagsmorgunn
Ég var komin á fætur um átta, rúmum klukkutíma á undan N1 syninum. Hleypti honum út við vinnustaðinn um hálftíu og fór svo beint í sund. Fór fyrst í kalda pottinn í 3 mínútur og svo á braut átta og synti í 30 mínútur. Í þriðju ferð af sjö tók ég eftir því að kalda potts vinkona mín var mætt á svæðið. Lauk samt við sundið. Hitti vinkonuna í hennar næstsíðustu ferð í kalda, fórum í þann heitasta á eftir þeirri ferð og í gufuna eftir síðustu ferðina. Eftir gufu fór ég í kalda sturtu og settist svo dágóða stund í sjópottinn. Kom heim um hálftólf og byrjaði á því að hella upp á sterkt og gott kaffi. Fór ekkert út aftur en dagurinn leið fljótt við alls konar dútl. Ég var nýkomin upp í rúm um tíu þegar Oddur Smári bankaði. Bríet hafði skroppið fljúgandi norður um helgina og geymt bílinn sinn á stæði við flugvöllinn. Bíllinn var á kafi í snjó og þótt Oddur færi fyrst einn kom hann fljótlega og sótti Davíð Stein til að aðstoða við bílabjörgunina. Þetta tók drjúga stund og þótt ég væri hætt að lesa og búin að kúra mig niður sofnaði ég ekki almennilega fyrr en bræður komu til baka, langt gengin í eitt. Bríet fór sennilega beinustu leið austur þegar bíllinn hennar var laus úr prísundinni. Sem betur fer á hún seinni parts vakt í þessari viku, á ekki að mæta til vinnu fyrr en um ellefu.
20.2.22
Sunnudagur
Fór á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Davíð Steinn kom fram rúmum hálftíma síðar. Skutlaði honum upp á Gagnveg og þáði kaffi út í bíl í staðinn. Kom næst við á Atlantsolíustöðinni við Bústaðaveg og fyllti á tankinn. Þegar ég setti bílinn aftur í gang tók ég eftir að kílometramælirinn stóð akkúrat í 46000. Var komin á planið við Laugardalslaugina rétt fyrir átta. Hlustaði á fréttir áður en ég fór inn. Var byrjuð að synda tólf mínútur yfir átta. Fyrstu 400 metrana synti ég á bringunni en eftir það aðra hverja ferð á bakinu. Hætti ekki að synda fyrr en ég var búin að vera að í klukkutíma. Það voru 12 eða 13 hundruð metrar. Fór næst í kalda pottinn í fimm mínútur. Áður en ég fór í þann heitasta skrapp ég á salernið í útiklefa kvenna. Eftir þrjár mínútur í heitasta fór ég aftur fimm mínútur í þann kalda og svo uþb tíu mínútur í gufuna áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Næst lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Kom heim um ellefu leytið. Dagurinn til hálfsex fór í netvafr, prjónaskap, lestur og fótboltagláp. Um hálfsex sótti fyrrum samstarfskona mín mig og leið okkar lá heim til annarar samtarfskonu upp í Árbæ og sú fjórða mætti rétt á eftir okkur. Þrjár af okkur fjórum vinnum enn saman. Heimsóknin stóð yfir í rúma þrjá tíma og var ansi glatt á hjalla. Fengum gott að borða og húsráðandi og sú sem var með bílstjóra fengu hvítvín með matnum. Ég kom heim um hálftíma á undan bræðrunum en þeir höfðu verið að hitta vini á Jómfrúnni. Davíð Steinn fékk að hætta fyrr í vinninnu til að komast með í þann hitting. Ég lánaði þeim þó ekki bílinn. Mun betra að nota strætó sem sem stoppar rétt hjá.
19.2.22
Á skutl vaktinni
Göngufærið í vinnuna í gærmorgun var alveg ágætt. Þveraði Klambratúnið, labbaði Gunnarsbraut að Njálsgötu, Snorrabraut að Laugavegi. Elti Laugaveg að Klapparstíg og Klapparstíg niður á Skúlagötu. Var 40 mínútur á leiðinni og mætt fyrst. Var á móttökuendanum fram að kaffi, í pökkun og talningum fram að hádegi og ítroðsluendanum eftir hádegi. Hættum vinnu um hálfþrjú og ég þáði far heim úr vinnunni. Einhvern veginn endaði ég á því að vera bara heima það sem eftir lifði dags og kvölds. Setti upp kartöflur og sauð upp á ýsuflakinu upp úr klukkan sex og svo fékk ég mér hvítvín með matnum.
18.2.22
Næstum búin að gleyma aðgangsorðinu
Það var svolítið strembið göngufærið í vinnuna í gærmorgun og var ég þrjú korter á leiðinni. Labbaði meðfram Klambratúninu því það var ekki búið að moka göngustíginn þvert yfir túnið. En svo var ekki heldur búið að moka gangstéttina sjúkrahúsmeginn við Eiríksgötuna svo það voru nokkur aukasporin sem ég tók þar. Enda var ég næstum komin með fimmþúsund skref þegar ég mætti í vinnunna. Var fyrst á svæðið en hinar fjórar komu skömmu síðar. Ég flokkaði kennispjöld fram að kaffi og var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni til hádegis. Eftir hádegi tók ég við bókhaldskeflinu því sú sem var á þeirri vakt er búin með sína vinnuviku á hádegi á fimmtudögum. Ég þáði far heim úr vinnunni. Skrapp í fiskbúðina um hálfsex á leiðinni í sund. Synti kílómeter á þremur korterum, sat í kalda pottinum í fimm mínútur og gufunni í tíu mínútur.
17.2.22
40, 50 og 30
Skondið hvernig maður vaknar stundum. Í gærmorgun var mig að dreyma eitthvað, þurfti að hagræða mér og rumskaði aðeins. Varð litið á útvarpsklukkuna og þótt enn væri korter þar til vekjaraklukkan átti að ýta við mér þá glaðvaknaði ég um leið. Dreif mig á fætur og hafði því nokkuð góða stund til að vafra aðeins um á netinu sem og setja inn færslu hér áður en ég labbaði í vinnuna. Göngufærið var svona la, la, sums staðar en ég var fjörutíu mínútur á leiðinni líkt og aðra morgna. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég með 14 flokkaða kennispjaldakassa inn í geymslu og sótti 15 óflokkaða kassa í staðinn. Flokkaði svo kennispjöld í um klukkustund. Eftir hádegi fór ég á móttökuendann á vélinni. Við vorum að vonast eftir því að ná að klára endurnýjunina sem ég hlóð inn seinni partinn í fyrradag því þetta eru kort eiga að taka við af kortum sem renna út um mánaðamótin og það er frekar stutt í mánaðamót. Prentarinn fór hins vegar að láta öllum illum látum um hálfþrjú leytið og hálftíma síðar þegar búið var að eyðileggja helling af formum ákváðum við að skilja eftir um sjöhundruð óframleidd kort af tvöþúsundogfimmhundruð. Labbaði sömu leið heim og í fyrradag og var fimmtíu mínútur á leiðinni. Það tók mig svo meira en einn og hálfan tíma að hafa mig af stað aftur. Var smá stund að sópa og skafa af bílnum en það var ekkert mál að bakka honum út úr stæðinu þrátt fyrir að hafa verið þar síðan á sunnudaginn. Ætlaði að koma við í fiskbúðinni hjá Fúsa en þar var ekkert stæði fyrir framan svo ég dreif mig í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína og systur hennar í klefanum. Þær voru á leiðinni upp úr. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn í uþb fimm mínútur. Tíu mínútur yfir sex byrjaði ég að synda og hálftíma seinna og 700 metrum síðar hætti ég og fór upp úr. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim. Fékk ekki sama stæðið en samt stæði fyrir framan hús.
16.2.22
Tíminn flýgur
Göngufærið var mun betra í gærmorgun. Búið var að moka stíginn sem þverar Klambratúnið. Var engu að síður 40 mínútur að labba í vinnuna og samt mætt fyrst. Ég var ekki skráð á vélina fyrr en eftir kaffi en sú sem átti að vera á móttökuendanum var að láta sinna tanneftirliti svo ég leysti hana af. Hún tók þá mína stöðu eftir kaffi en þá var ég í pakkningum. Allri framleiðslu var lokið upp úr klukkan hálftólf. Þá þurfti bara að bíða eftir að hluti af síðustu dk-endurnýjun yrði keyrður aftur yfir á vél. Kerfisfræðingurinn sem var í þeim málum var að skoða málið en fjarstýrði mér svo á endanum. Það var samt ekki fyrr en klukkan var langt gengin í fjögur og allar hinar voru farnar heim. En keyrslan gekk og það var mjög gott því þessi kerfisfræðingur er að fara í hálfsmánaða frí. Ég labbaði sömu leið heim og á föstudaginn var, m.a. gegnum Hljómskálagarðinn. Var tæpar 50 mínútur á leiðinni. Kom heim um fimm og ákvað að halda mig heima það sem eftir lifði dags og kvölds.
15.2.22
Þriðjudagur
Göngufærið í vinnuna í gærmorgun var örugglega skárra heldur en færið fyrir bílana sums staðar. Ég lagði samt ekki í að þvera Klambratúnið því það var ekki búið að moka stíginn þar nýlega. Fór þess í stað meðfram Klambratúninu, Eiríksgötu, Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Var ekkert lengur á leiðinni, bara á venjulegum vetrarfæristíma, 40 mínútur. Ég var fyrst í vinnuna. Var í bókhaldinu og byrjaði á því að prenta út fyrstu tölur. Sú sem býr í Mosfellsbænum mætti síðust, um tíu, en við hinar vorum komnar fyrir átta. Fengum aukaverkefni á borð til okkar, rúmlega fimmtánhundurð kort, sem við kláruðum að framleiða um tvö. Framleiðsla hófst milli daglegu verkefna tvö og þrjú og svo skiptum við okkur í mat þannig að framleiðsla var í gangi frá tíu til tvö. Ég þáði far heim úr vinnunni og fór ekkert aftur út.
14.2.22
Inn í vinnuvikuna
Ég var byrjuð að synda um hálftíu í gærmorgun og synti í 40 mínútur. Hitti kalda potts vinkonu mína i minni fyrstu ferð í kalda pottinu og það reyndist hennar fyrsta líka. Hún var komin á undan og fór á undan en kom við í gufunni þannig að við vorum báðar að fara í heitasta pottinn á sama tíma. Hittum eina systur hennar á svæðinu og eftir ferð tvö í kalda vorum við dágóða stund í sjópottinum með systurinni. Fór aðeins eina ferð í viðbót í kalda pottinn og endaði svo á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og heim. Dagurinn leið jafn fljótt og allir aðrir, við lestur, prjónaskap, netvafr, fótbolta- og þáttagláp.
13.2.22
Sunnudagur
Var komin á fætur um hálfníu en fór ekki í sund fyrr en um tíu leytið. Synti í 55 mínútur. Fyrstu 100 metrana á bakinu og svo aðra hverja ferð á bringunni. 2x5 mínútur í kalda pottinum, einu sinni í þann heitasta og góða stund í gufunni áður en ég fór upp úr og heim aftur. Hellti mér fljótlega upp á kaffi. Hringdi í pabba, föðursystur mína og Ellu vinkonu. Sú síðast nefnda svaraði ekki símanum en hringdi til baka skömmu síðar. Er að lesa aðra af þeim bókum sem ég skildi eftir hér heima þegar ég fór síðast á safnið; Glerstofan eftir Ann Cleeves um Veru Stanhope. Hin bókin sem ég á eftir að lesa er Bláköld lygi eftir Quentin Bates. Og skammtímaláns bókin sem skila þarf um svipað leyti er Þegar fennir í sporin eftir Steindór Ívarsson.
12.2.22
Bjart og stillt
Labbaði í vinnuna í gærmorgun og var fyrst á svæðið. Fram að kaffi var ég á móttökuendanum og fram að hádegi í pökkun og talningum. Öllum verkefnum var lokið upp úr hádegi nema um tvö hafði annar kerfisfræðingurinn samband við mig. Bað mig um að undirbúa ákveðnar breytingar í sérstöku verkfæri sem við höfum aðeins tvær aðgang að. Hinar þrjár fóru heim í helgina en ég og hinn kerfisfræðingurinn, sem var á svæðinu vorum áfram þar til þessu verkefni var lokið. Sá kerfisfræðingur sem var að fjarstýra mér gerði það í gegnum TEAMS. Var búin með minn part upp úr klukkan hálfþrjú og mátti fara heim fljótlega eftir það. Rifjaði upp gönguleiðina í gegnum Hljómskálagarðinn og var aðeins rétt túmum fimm mínútum lengur á leiðinni heim heldur en í vinnu. Forritið í símanum sagði að ég hefði gengið um 300 metrum lengra heldur en um morguninn. Skref gærdagsins fóru yfir tólf þúsund.
11.2.22
Helgin handan við vinnudaginn
Labbaði í vinnuna fjórða daginn í röð. Tók m.a. með mér bók af safninu. Átti 100 bls. ólesnar, skiladagur runninn upp og ég gat ekki endurnýjað útlánið. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld. Var aftur á ítroðsluendanum eftir kaffi. Dagleg framleiðsluverkefni kláruðust upp úr klukkan hálftólf. Las í smá stund í hádeginu. Engin verkefni bárust eftir hádegi, bara hægt að flokka kennispjöld. Hættum vinnu um tvö leytið. Þáði far heim úr vinnunni. Heima settist ég strax niður og kláraði að lesa bókina. Fór með þrjár bækur til að skila á safnið um fjögur. Þær voru allar komnar á tíma og ég var búin að lesa þær. Skildi tvær bækur eftir heima. Á eftir að lesa þær og þeim þarf ekki að skila fyrr en eftir hálfan mánuð. Mun líka geta framlengt skilafrestinum. Það kom nefnilega í ljós að bókasafnsskírteinið var útrunnið. Endurnýjaði það og tók þrjár bækur af safninu. Ein af þeim er með 14 daga skilafresti. Af safninu fór ég beinustu leið í sund. Synti í 30 mínútur. Hitti kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum. Hún var í sinni næst síðustu ferð. Ég fór þá síðustu með henni og svo í gufuna. Eftir gufuna fór ég í kalda sturtu og sat svo í sjópottinum í rúmar tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.
10.2.22
Meiri hreyfing
Labbaði í vinnuna þriðja daginn í röð. Færið var betra en gott að vera á mannbroddunum. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld og taldi svo með þeirri sem var í bókhaldinu þegar fyrstu tölur voru tilbúnar. Fram að hádegi var ég á ítroðsluendanum á vélinni og okkur tókst að ljúka við daglega framleiðslu fyrir klukkan tólf. Í hádeginu skruppum við á kaffihúsið í hótelinu við hliðina á Hörpu. Vissum af verkefni sem kæmi klukkan tvö. Það tók fimmtán mínútur að afgreiða það og svo gátum við farið. Ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Klukkan var orðin hálffimm þegar ég dreif mig loks í sund. Synti í 30 mínútur, fór einu sinni 5 mínútur í kalda pottinn og sat svo rúmar tíu mínútur í gufunni áður en ég fór upp úr og heim aftur.
9.2.22
Hreyfing
Var vöknuð tuttugu mínútum á undan klukkunni í gærmorgun. Hafði því góðan tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna. Mætti fyrst af fjórum á vinnustað, ein var í fríi. Fljótlega kom önnur en hún fékk skilaboð frá hinum tveimur að þær yrðu seinar fyrir vegna færðar og hægrar umferðar. Ég var í bókhaldinu en korter yfir átta lagði ég til að ég myndi telja í framleiðslutegundir fyrstu tveggja tegundanna og taka á móti á meðan hin myndi hlaða inn verkefnum og setja þau af stað þar til mannskapurinn mætti. Þær voru komnar um hálfníu. Öllum daglegum verkefnum var lokið um eitt leytið. Ákváðum að hafa þetta stuttan dag en biðum þó fram yfir tvö með að stinga af úr vinnunni. Ég labbaði heim aftur. Þar staldraði ég við í uþb hálftíma áður en ég tók til sunddótið og sópaði af bílnum. Kom fyrst við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið. Var byrjuð að synda rétt rúmlega fjögur og synti í hálftíma. Fór svo beinustu leið í kalda pottinn og var búin að sitja þar þegar kalda potts vinkona mín kom úr heitasta pottinum í sína þriðju ferð í kalda. Fórum þrjár aðrar ferðir í kalda pottinn og enduðum svo á góðu gufubaði. Klukkan var um sex þegar ég skilaði mér aftur heim.
8.2.22
Hríðarveður
Var komin á fætur um átta í gærmorgun. Tók því rólega til að byrja með, vafraði um á netinu og setti inn færslu. Rúmlega tíu labbaði ég af stað í vinnuna. Var í "frammiverkum" til að byrja með og hjálpaði til við talningar. Eftir hádegi fór ég á móttökuendann á vélinni. Kláruðum daglega framleiðslu um þrjú. Hættum vinnu tæpum klukkutíma seinna. Ég þáði far heim úr vinnunni og fór svo ekkert út aftur. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn og Oddur Smári að ganga frá eftir hann.
7.2.22
Veðurofsi
Ég var komin á fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Tæpum einum og hálfum tíma síðar skutlaði ég N1 syninum í vinnuna og fór svo beint í sund. Braut 5 var laus og ég synti 550 metra á bakinu áður en ég fékk félagsskap á brautinni. Skipti þá yfir í bringusund og synti 450 metra í viðbót. Var uþb 50 mínútur að þessu svo ekki syndi ég nú mjög hratt. Næst lá leiðin í kalda pottinn og eftir fimm mínútur þar fór ég í sjópottinn þar sem ég hitti fyrir yngstu mágkonu mömmu heitinnar. Hún var eiginlega á leiðinni að fara að synda en staldraði við í tíu mínútur til að spjalla. Fór aðrar fimm mínútur í kalda áður en ég fór í gufuna. Var búin að sitja nokkrar mínútur í gufunni þegar kaldapotts vinkona mín mætti. Fór því í sturtu eftir gufubaðið og eina ferð í kalda pottinn með vinkonunni, 3 mínútur, áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var komin heim um tólf. Hlustaði á hádegisfréttir og hellt mér svo upp á kaffi. Um hálffjögur hringdi fyrirliðinn í mig og spurði hvort ég gæti hitt hana og aðra til í vinnunni í smá stund. Ég var til í það og sú þriðja kippti mér með. Vorum mættar á svæðið um fjögur og á klukkutíma lukum við að framleiða og telja það sem við framleiðum yfirleitt fyrst á morgnana. Settum bankatöskur og töskuna með framleiðsluverkefninu í læstan skáp í afgreiðslunni og svo var mér skutlað aftur heim með þeim fyrirmælum að mæting í vinnu á mánudagsmorgni væri klukkan ellefu.
6.2.22
Sunnudagur
Ég var vöknuð um hálfsjö í gærmorgun. Notaði næsta rúma hálftímann í að vafra um á netinu sem og setja inn færslu á þessum vettvangi. N1 sonurinn var tilbúinn korter yfir sjö. Skutlaði honum upp á N1 við Gagnveg í Grafarvogi og þáði kaffibolla út í bíl í staðinn. Var komin á planið við Laugardalslaugina tíu mínútum fyrir átta. Lauk við að drekka kaffið og gaf mér líka tíma til að hlusta á morgunfréttirnar klukkan átta áður en ég fór að synda. Byrjaði á því að synda í hálftíma, 700 metra. Settist svo í kalda pottinn í fimm mínútur, sjópottinn í fimmtán mínútur, kaldapottinn aftur í fimm og endaði á tíu mínútna gufubaði. Eftir þessa dásamlegu rútínu fór ég heim. Hellti fljótlega upp á kaffi og fékk mér hressingu. Vafraði meira um á netinu. Kveikti á sjónvarpinu um hálftólf. Setti upp og sauð sjö egg. Oddur Smári kom loksins fram um hálftvö. Skömmu síðar skruppum við mæðgin í Krónuna við Fiskislóð til að versla. Sú verð tók tæpa klukkustund.
5.2.22
Á skutlvaktinni
Áður en ég féllst á að skrá mig í lífshlaupið hafði ég ætlað mér að fara á einkabílnum í vinnuna síðasta vinnudag vikunnar. Þegar maður er á samgöngusamning má maður nota bílinn einu sinni til tvisvar í viku og þegar ég fór á bílnum til vinnu á mánudagsmorguninn var enn janúar og samningurinn ekki kominn í gildi aftur. Ég ákvað að labba í vinnuna í gærmorgun. Ekkert sérstakt var á dagskrá eftir vinnu og veðrið alveg þokkalegt þrátt fyrir smá ferð á logninu og nokkuð frost. Var á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi og í pökkun, talningum og flokkun kennispjalda eftir kaffi. Öllum daglegum verkefnum var lokið fljótlega eftir hádegi og ekki komið leyfi til að klára dk-endurnýjunina svo við ákváðum að hætta vinnu um tvö. Ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið en fór ekkert út aftur eftir að heim kom. Hringdi í pabba og spjallaði um stund við hann, vafraði um á netinu og horfði á nokkra þætti.
4.2.22
LÍFSHLAUPIÐ
Labbaði sömu leið í vinnuna í gærmorgun og á miðvikudaginn. Var á gönguskónum með broddana undir. Tók samt stutt skref á köflum og var um tíu mínútum lengur á leiðinni heldur en að sumri til. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld og aðstoðaði við talningu eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Eftir kaffi var ég á móttökuendanum á vélinni. Við fórum ekki í mat fyrr en um eitt en þá vorum við líka búnar með endurnýjunina sem fór svo með hádegissframleiðslunni. Ég var svo vinsamlegast beðin um að skrá mig inn á lífshlaupið og sækja um að vera í hópnum korta sem er einn af hópunum í RB. Ég var í lífshlaupinu fyrir nokkrum árum og átti að eiga aðgang. Gat samt ekki munað lykilorðið og þau netföng sem ég gaf upp til að fá nýtt voru ekki samþykkt. Stofnaði því nýjan aðgang. Vorum tvær eftir í vinnu um hálfþrjú og hættum fljótlega sjálfar eftir það. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Einkabílstjórinn var í Sorpu- og stússferð. Hann kom heim milli fjögur og hálffim. Ég skrapp fljótlega í sund. Fór 2x5 mínútur í kalda, synti 500 metra og endaði á tíu mínútna gufubaði. Bauð svo strákunum með mér á Pítuna. Ég fékk mér fisk í orly og hvítvínsglas með.
3.2.22
Yfir áttaþúsund skref í gær
Fór í fyrsta skipti í gönguskóna í vetur og setti þar að auki undir þá mannbrodda áður en ég labbaði í vinnuna í gærmorgun. Var mætt fyrst, rúmlega hálfátta, og vatt mér beint í bókhaldsvinnuna. Fyrir utan bókhald og talningar í gær flokkaði ég kennispjöld úr rúmum tveimur kössum. Eitthvað á þriðja þúsund spjöld. Erum komnar að árinu 2006 og íslandsbanki kominn með glitnis-stimpilinn. Vorum í vinnu til klukkan að verða fjögur. Lokið var við að framleiða eina endurnýjun. Eigum þá síðustu frá því í síðasta mánuði eftir ef frá er talið það sem enn bíður úr debetendurnýjun vegna breytinga. Fékk far heim úr vinnunni. N1 sonurinn kom heim eitthvað á eftir mér, hafði þurft að taka að sér smá aukavinnu upp á Gagnvegi en hann átti að vera í vaktafríi því næsta vakt er frá föstudegi til sunnudags.
2.2.22
Mið vika
Labbaði í vinnuna í gærmorgun, stutt, stutt, skref fyrri partinn af leiðinni þannig að ég var komin með yfir fjögurþúsund skref þegar ég mætti. Fram að kaffi var ég á ítroðsluendanum á vélinni. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld en leysti líka eina af um stund á framleiðsluvélinni. Hún var á sama enda og ég fyrr um morguninn. Dagleg verkefni þrjú af fjórum var lokið og verið var að vinna í endurnýjun. Ég var hins vegar búin að hlaða inn fjórða verkefni dagsins og skrá inn skiptingarnar. Eftir hádegi átti ég að fara á móttökuendann á vélinni. Kerfisfræðingarnir tveir voru á staðnum að gera einhverjar tilraunir og fyrirliðinn ákvað að leyfa þeim að hafa vélina. Við gengum frá og hættum vinnu um tvö. Ég fékk far heim.
1.2.22
Einn tólfti liðinn af nýja árinu
Vaknaði upp úr klukkan sex. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu í nokkra stund. Tíu mínútum yfir sjö fór ég út í bíl með sunddótið, bakpoka og veski. Hélt ég yrði góða stund að sópa og skafa bílinn en var mun fljótari að því og mætti í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega um hálfátta. Vinnudagurinn leið ágætlega hratt. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld. Var á ítroðsluendanum á vélinni fram að hádegi og fór aftur í kennispjöldin eftir hádegi. Fór með 14 flokkaða kassa inn í geymslu og sótti 15 óflökkaða í staðinn. Erum komin til ársins 2006 með flokkunina. Eigum eftir að flokka rúm 12 ár enn þar til við náum að þeim tíma sem við hættum að flokka eingöngu eftir kennitölu og dagsetningum heldur eftir bönkum líka. Hættum vinnu um hálffjögur. Ég fór beint í sund. Byrjaði á 6 mínútum í kalda pottinum, synti svo 500 metra. Þar af helminginn á bakinu. Fór aftur í kalda í 4 mínútur og endaði svo í sjópottinum. Þar hitti ég fyrir eina sem hélt að hún væri að ruglast á dögum því venjulega fer ég í sjóinn á mánudögum. Ég þurfti hins vegar að þvo á mér hárið og það vil ég ekki gera eftir sjósundsferð. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim og keypti ýsu í soðið og harðfisk. Ég var ein um fiskinn. N1 sonurinn var á vakt og hinn var búinn að "redda" sér annars konar máltíð.