Labbaði 3km á 36 mínútum til vinnu í morgun. Ég var nr.1 á vélinni, í hleðslu og ítroðslu fram að morgunkaffi. Framleiðslan gekk frekar brösuglega og vorum við næstum hálftíma lengur fyrir vikið. Eftir kaffi leysti ég aðra af þeim sem áttu vélarvaktina og var þá í móttöku. Þegar hún kom aftur úr skreppu samdi ég við hana um að fá að halda áfram. Hættum vinnu um tvö leytið og fékk ég far með einni upp í K2 þar sem kveðja átti eina samstarfskonu okkar sem unnið hefur hjá RB sl 23 ár. Ég mætti ein úr K1 í þetta kveðjuhóf. Staldraði við í rúman klukkutíma áður en ég labbaði heim. Heim kom ég fyrir fjögur og byrjaði á því að hella upp á kaffi, fá mér hressingu og hringja í pabba. Spjallaði líka við annan soninn sem var að koma úr Sorpuferð um svipað leyti.
Klukkan hálffimm tók ég til sjósundsdótið til og skrapp í Nauthólsvík. Það var fjara, hraðferð á logninu og öldugangur. Svamlaði um í þessu í uþb 5 mínútur áður en ég skrapp smástund í heita pottinn. Aðeins mega vera 55 en það voru alls ekki svo margir á þeim tíma sem ég var og nóg pláss í búningsklefanum. Margnota innkaupapokar, sem ég geymi í bílskottinu, fuku út og af stað út í buskann að ég hélt. Gerði heiðarlega tilraun til að grípa þá og hlaupa á eftir þeim en datt, reif buxurnar og hruflaði mig á hné og þremur fingrum á hægri fæti og hönd. Pokarnir voru stöðvaðir af runna hinum meginn við götuna og náði ég þeim öllum sem betur fer. En nú er stærsta spurningin hvort ég komist í sund í fyrramálið, hinn eða hinn.