29.5.20

Sjórinn 9°C

Labbaði 3km á 36 mínútum til vinnu í morgun. Ég var nr.1 á vélinni, í hleðslu og ítroðslu fram að morgunkaffi. Framleiðslan gekk frekar brösuglega og vorum við næstum hálftíma lengur fyrir vikið. Eftir kaffi leysti ég aðra af þeim sem áttu vélarvaktina og var þá í móttöku. Þegar hún kom aftur úr skreppu samdi ég við hana um að fá að halda áfram. Hættum vinnu um tvö leytið og fékk ég far með einni upp í K2 þar sem kveðja átti eina samstarfskonu okkar sem unnið hefur hjá RB sl 23 ár. Ég mætti ein úr K1 í þetta kveðjuhóf. Staldraði við í rúman klukkutíma áður en ég labbaði heim. Heim kom ég fyrir fjögur og byrjaði á því að hella upp á kaffi, fá mér hressingu og hringja í pabba. Spjallaði líka við annan soninn sem var að koma úr Sorpuferð um svipað leyti.

Klukkan hálffimm tók ég til sjósundsdótið til og skrapp í Nauthólsvík. Það var fjara, hraðferð á logninu og öldugangur. Svamlaði um í þessu í uþb 5 mínútur áður en ég skrapp smástund í heita pottinn. Aðeins mega vera 55 en það voru alls ekki svo margir á þeim tíma sem ég var og nóg pláss í búningsklefanum. Margnota innkaupapokar, sem ég geymi í bílskottinu, fuku út og af stað út í buskann að ég hélt. Gerði heiðarlega tilraun til að grípa þá og hlaupa á eftir þeim en datt, reif buxurnar og hruflaði mig á hné og þremur fingrum á hægri fæti og hönd. Pokarnir voru stöðvaðir af runna hinum meginn við götuna og náði ég þeim öllum sem betur fer. En nú er stærsta spurningin hvort ég komist í sund í fyrramálið, hinn eða hinn.

28.5.20

Aðstaðan í Nauthólsvík opnuð aftur í dag

Það var víst opnuð öll aðstaðan í Nauthólsvík klukkan tíu í morgun, klefar, heiti pottur, gufan, útisturtur og að sjálfsögðu sjórinn (sem auðvitað var "opinn" allan tímann), og verður opið alla daga frá 10-19. Ég ákvað hins vegar að bíða amk til morguns með að skreppa í sjóinn og var mætt í Laugardalslaug um fjögur í dag. Skolaði vel af mér göngurykið en ég labbaði 2,96km til vinnu í morgun og 3,5km heim eftir vinnu. Skref dagsins eru komin upp í rúmlega tólfþúsundogfjögurhundruð og þá eru alveg ótalin skrefin milli potta, laugar og gufu. Synti ekki nema 300m en ég fór fimm sinnum í kalda pottinn og endaði í gufunni í rúmar 15 mínútur.

27.5.20

Tíundi sunddagurinn í röð

Vaknaði rétt fyrir klukkan sex í morgun, amk hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Var óviss með gönguveðrið en það endaði með því að ég labbaði af stað í regnkápu, ecco-götuskóm og með rauðabakpokann, sem ég keypti á Kanarí í fyrra, fullan af "ómissandi" dóti. M.a. aukabolur til að fara í eftir gönguna, hádegisnesti, ein bók, prjónadót og ýmislegt fleira. S-helath í simanum skráði á mig 2,81km (36 mín) göngu sjálfvirkt. Vann í móttöku á vélinni milli 8 og 9:30 en eftir kaffi svaraði ég m.a. fyrirspurnum í síma. Framkvæmdastjórinn mætti á fyrsta fund kortadeildar síðan í byrjun mars. Þessir fundir eru yfirleitt hálfsmánaðarlega nema rétt yfir blá sumarið. Og eftir fundinn fórum við kortadeildin á kaffihúsið Bergmál í Hörpu og gerðum okkur smá glaðan dag áður en við fórum heim. Mér bauðst far heim úr vinnunni sem ég þáði. Stoppaði þó ekki lengi heimavið, nema rétt til að hringja í pabba, taka mig til fyrir sundið og athuga hvað ég ætti helst að koma með heim úr búðinni. Verslaði í Krónunni við Nóatún áður en ég fór í sund. Kom heim aftur um hálfsjö. Davíð Steinn gekk frá vörunum og er að elda kvöldmatinn í þessum skrifuðum orðum.

26.5.20

Ein öld...

...er síðan móðuramma mín, Anna Jónsdóttir heitin, fæddist. Í næsta mánuði verða liðin 20 ár síðan hún dó.

Systir mín hringdi í mig í gærkvöldi og spurði hvort hún mætti biðja mig um að sækja fyrir sig vörur í Vöruhús Górilla við Vatnagarða 22 á næstu dögum. Ég ákvað því að fara á bílnum í vinnuna í morgun og hafði með mér sunddótið. Framleiðslu og endurnýjun lauk fyrir klukkan hálfeitt og öllum öðrum verkefnum löngu lokið þegar við yfirgáfum vinnustaðinn um tvö. Byrjaði á því að sækja pakkann fyrir Helgu áður en ég skellti mér í sund. Fór eina ferð í kalda pottinn áður en ég synti 500m, aðallega á bringunni en ca 30m skriðsund í loka ferðinni. Ég var svo búin að fara þrjár ferðir í kalda þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið og ég fór tvær ferðir í viðbót með henni áður en ég fór í gufu og svo uppúr og heim. Davíð Steinn var að leggja af stað í vinnu þegar ég kom heim á sjötta tímanum. Sá hann aðeins tilsýndar. Og Oddur Smári var í sinni vinnu milli 15 og 20. Ég ákvað því að sleppa létt frá eldamennsku og setti aðeins upp nokkur egg sem ég harðsauð. Fékk mér eitt af þeim eggjum en geymi mér hin til næstu daga.

Um daginn fór ég að horfa á seríu sem ber titilinn Normal people sem ég fann í sarpinum hjá sjónvarpi símans premium. Ein bókin sem ég kom með heim af safninu nýliðna helgi er bókin Eins og fólk er flest eftir Sally Rooney. Og eru þættirnir byggðir á þeirri sögu. Hef áður lesið sögu eftir sama höfund; Dragið andann djúpt og ég man að ég las þá bók með mikilli athygli og ánægju.

25.5.20

Sameining

Ég mætti í laugina um hálfeitt í gær. Fór eina ferð í kalda pottinn áður en ég synti 500m (200m á bakinu og 300m bringusund). Síðan fór ég beint í kalda pottinn aftur og var búin að sitja þar í uþb 2mínútur þegar kalda potts vinkona mín birtist, þá að fara sína 3. ferð. Ég sat í 3 mínútur í viðbót með henni og elti hana svo á milli potta næstu 6 skipti áður en ég endaði í gufunni. Heitu pottarnir voru ekki alveg á sínum réttu stillingum, mismunandi mikið kaldari.

Eftir sundið kom ég við í bókasafninu í Kringlunni. Skilaði 7 bókum og fékk mér 6 í staðinn. Er því með átta bækur af safninu núna. Kláraði tvær af þessum 6 strax í gær og er einnig byrjuð á annarri af þeim tveimur sem ég átti ólesnar síðan síðast. Önnur af þeim bókum sem ég kláraði í gær er á tveggja vikna láni; 43 smámunir: Örsögur eftir Katrínu Óttarsdóttur. Hver einasta saga er nákvæmlega 301 orð að lengd. Hin bókin er líka smásögur og heitir Það sem þú vilt eftir Pál Kristinn Pálsson.

Labbaði í vinnuna í morgun á nýju skónum og svo aftur heim um þrjú. Stoppaði stutt heima því ég var búin að mæla mér mót við kalda potts vinkonu mína milli fjögur og fimm. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í sundið og er búin að steikja þorskhnakka handa okkur Davíð Steini. Oddur Smári er að vinna til klukkan átta og verður að öllum líkindum búinn að borða þegar hann kemur heim af vaktinni.

24.5.20

Þrír réttir í lottó

Það fór nú svo að nýju skórnir voru ekkert gengnir meira til í gær heldur en milli bíls og áfangastaða og aftur heim um hádegisbil. Þrátt fyrir bongóblíðu fór ég nefnilega ekki aftur út. Hluti af ástæðunni er bókin Englar Hammúrabís. Lagði samt bókina frá mér um tíma. Las svo í smá stund eftir að ég fór upp í frekar snemma á laugardagskvöldi eða rúmlega tíu. Var sennilega sofnuð áður en klukkan varð ellefu. Enda vaknaði ég um sex í morgun. Og þá gerðist það sama og í gærmorgun, eftir að hafa reynt að kúra mig niður í uþb klukkustund, gafst ég upp og fór að lesa. Hafði eitthvað verið að spá í að mæta í sund strax um átta en það fór svo að ég gat ekki hætt að lesa fyrr en bókin var alveg búin og þá var klukkan að nálgast hálftíu. Úr þessu þá liggur mér ekkert svo á í sund, en í sund mun ég fara í dag hvort sem það verður eftir hálftíma, upp úr hádeginu eða seinni partinn í dag.

23.5.20

Sund daglega

Í gærmorgun mætti ég í sund rúmlega hálfellefu. Hitti þrjár sem voru að koma upp úr. Þær eru kennarara komnar á eftirlaun og tvær af þeim voru í KÓSÍ. Ég byrjaði á að dýfa mér í tvær mínútur í þann kalda áður en ég synti í tæpar tuttugu mínútur. Fór fimm ferðir í viðbót í kalda pottinn. Heitasti potturinn var lokaður en ég fór ma í sjópottinn og endaði í gufunni. Eftir sundferðina fór ég með bílinn í smurningu og áður en ég fór heim kom ég við í Eins og fætur toga keypti mér nýja strigaskó og fékk sokkapar í kaupbæti. Var með "gömlu skóna" með mér og bað um að þeim yrði fargað. Þá skó keypti ég seinni partinn í janúar í fyrra og hætti að nota þá sjö mánuðum síðar, þá búin að ganga þá upp til agna (sérstaklega vinstri skóinn).

Í morgun var ég vöknuð fyrir klukkan sjö. Fljótlega ákvað ég að lesa um stund. Það endaði með því að ég kláraði bókina BROT. Mætti í laugina um hálftíu, sinnti rútínunni og endaði svo á hálftíma "sólbaði" því ég hitti frændfólk mitt og við tókum tal saman. Áður en ég kom heim stoppaði ég í KVIKK í Öskjuhlíð og fékk Odd til að gefa mér kaffi sem ég drakk á staðnum.

22.5.20

Kaffi Álftanes

Davíð Steinn kom fram úr herberginu sínu rétt á eftir mér upp úr átta í gærmorgun. Hann hafði verið beðinn um að taka aukavakt á N1 í Skógarseli frá 10-19:30 og sagðist vanta far. Ég var hvort sem er búin að mæla mér mót við kaldapotts vinkonu mína um ellefu og sá þarna tækifæri til þess að vera búin að synda áður en við færum að trítla á milli potta. Það var nokkuð margt um manninn í Laugardalnum. Fann þó stóran skáp hinum meginn í skiptiklefanum og þegar ég kom út að laug sundleikfimi í gangi á brautum 7 og 8. Ég byrjaði á því að fara eina ferð í þann kalda áður en ég ákvað að nota braut 1 til að synda smávegis. Klukkan var akkúrat 10:30 þegar byrjaði. Varð að synda rólega á köflum og sveigja stundum fram hjá öðrum þannig að ég var nokkuð viss um að fjórar ferðir fram og til baka voru meira en 400m. Fór aftur í þann kalda og var stödd í heitasta pottinum þegar Hrafnhildur kom. Fór fjórar ferðir í kalda pottinn með henni. Hittum systur hennar eftir eina ferðina og fórum í 42°C pottinn og sjópottinn með henni. Ég endaði smá stund í gufu áður en ég fór heim upp úr klukkan tólf.

Um tvöleytið sótti fyrrum samstarfskona mín og við urðum samferða á Kaffi Álftanes þar sem við hittum tvær aðrar úr kortadeildinni. Aðra af þeim hef ég ekki hitt síðan rétt fyrir miðjan mars en við erum búnar að hringjast á öðru hvoru. Hina hitti ég aðra hvora viku í viku frá 30. mars þegar hún kom inn í A-hópinn eftir að hafa jafnað sig á aðgerð á vinstri úlnlið eftir slæmt brot sem ekki gréri. Við stöllurnar höfðum um margt að spjalla. Vorum allar að koma í fyrsta skipti á þennan stað sem var stofnaður fyrir 4,5 árum. Ég byrjaði á því að fá mér uppáhellt með ábót, fyrstu kaffibollar dagsins, hrákökusneið með rjóma og eplasíder 0%. Fljótlega fengum við vatnsflösku á borðið og þegar ég var búin með kökuna og tvo bolla af kaffi ákvað ég að fá mér eitt hvítvínsglas fyrst ég var nú einu sinni með bílstjóra. Lét eitt glas duga. Við stoppuðum þarna í góða tvo tíma og ákváðum að næsti sameiginlegi hittingur yrði ferð á Flúðir seinni partinn í júlí.

21.5.20

Uppstigningadagur

Er að lesa tvær bækur í einu; Englar hammúrabís eftir Max Seeck og BROT eftir Dóru S. Bjarnason þar sem hún skrifar um "lífshlaup þriggja kynslóða kvenna, lífshlaup mæðgna sem spannar 137 ár". Þá á ég aðeins eftir að opna tvær af átta bókum sem komu með mér af safninu á föstudaginn var. Það eru bækurnar Næstum eins og ástin eftir Ellen Feldman og Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason. Skilafrestur þessara bóka er til 14. júní n.k. og það er hægt að framlengja um 30 daga. Hins vegar þarf ég að skila tveimur bókum rétt fyrir næstu mánaðamót og þá gæti ég fallið í freistingu. Mun skila amk 5 bókum af mér, kannski tveimur í viðbót. Því færri bækur sem verða eftir heima þeim mun meiri verður freistingin að líta í kringum sig á safninu. Og það er líklega alveg í góðu lagi ef ég passa uppá fjöldann.

Um eittleytið í gær fór ég gangandi yfir í Blóðbankann til að athuga hvor ég mætti ekki gefa. Fékk engin skilaboð eftir síðustu gjöf, í endaðan janúar, þannig að ég var viss um að ég myndi fá sms og email fljótlega eftir helgi. Ég fékk að gefa, það var stungið í þá hægri. Fann ekki fyrir stungunni og allt virtist ætla að ganga mjög vel. Eftir smá stund fór tækið að kvarta yfir að það væri ekki nógu gott flæði. Því var bjargað snarlega með því að hjúkrunarfræðingurinn studdi við nálina afganginn af tímanum sem það tók að fylla pokann. Þetta hefur aldrei þurft að gera áður. Mér fannst þetta allt í lagi svo fremi sem það tækist að ná skammtinum innan tímamarka sem tókst. Þetta var fimmtugastaogfimmta heimsókninn í þennan góða banka og ef ekki koma nein skilaboð á næstu dögum get ég farið aftur eftir fjóra mánuði.

20.5.20

Harðfiskur

Tíminn milli 8:30 og 13 í gærmorguninn fór í ósköp svipuð "verkefni" og á mánudagsmorguninn. Upp úr klukkan eitt dreif ég mig loksins í sund. Byrjaði á einni ferð í þann kalda og synti svo í rúmar 20 mínútur áður en ég fór aftur í þann kalda. Hitti Hrafnhildi í þeirri ferð og hún var búin að ná einni ferð áður á meðan ég var að klára að synda. Saman fórum við svo 7 ferðir í þann kalda og 6 í heitastas pottinn. Eftir loka ferðina í kalda pottinn fór ég í gufu. Áður höfðum við sammælst um að hittast næst rétt fyrir hádegi á uppstigningadag.

Ég var komin heim um hálffjögur og hellti mér strax upp á tvo bolla af kaffi. Síðan greip ég bók í hönd og las og las og las. Lauk við skammtímalánsbókina, hún var spennandi frá upphafi til enda. Ég las einnig; Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Sú bók kom út 2018 og ég vissi um leið og ég byrjaði á henni að þá bók hefði ég lesið áður. Ég gat samt ekki lagt hana frá mér.

Hafði plokkfisk í kvöldmatinn handa okkur Davíð Steini. Oddur Smári var að vinna til klukkan átta og kemur sjaldan svangur heim.

Í morgun var ég vöknuð upp úr klukkan sex aðeins fyrr en ég áætlaði svo ég gerði heiðarlega tilraun til að reyna að sofna aftur um stund. Það fór nú þannig að ég var mætt í Laugardalinn klukkutíma síðar. Synti 500m, fór 4x í þann kalda, einu sinni í saltpottinn, einu sinni í heitasta pottinn og endaði í gufunni.

19.5.20

Ýmislegt

Eftir að hafa bloggað og "skroppið" stund í facebook-leikjaheima í gær notaði ég afganginn af morgninum í lestur. Fyrir blogg stakk ég í eina þvottavél og á tólfta tímanum skrapp ég aftur niður í þvottahús til að hengja upp. Þegar ég kom upp aftur hellti ég upp á könnuna og fékk mér einhverja hressingu. Hafði samband við kalda-potts vinkonu mína í gegnum facebook-spjallið. Hún sagðist myndu mæta í sund um eitt og ég ákvað að stíla mína sundferð inn á það. Ég hlustaði á hádegisfréttir og greip í prjónana mína en um leið og fréttirnar voru búnar dreif ég mig af stað. Tók einnig með mér tómt box í aukapoka sem ég geymdi í innkaupapokunum í skottinu á bílnum. Á leiðinni í sturtu hitti ég aðeins á Anítu Hinriksdóttur en pabbi hennar vann hjá RB í mörg ár svo ég hef fylgst extra vel með þessari hlaupadrottningu.  Hrafnhildur var þegar búin að fara eina ferð í þann kalda og á leiðinni í sína aðra ferð þegar ég kom út. Hún sagði að sér fyndist potturinn of kaldur og gæti ekki verið mjög lengi í einu. Potturinn var við neðri mörkin, 6°C, jú í kaldara lagi en líklega þurfti hún bara að æfa sig upp aftur eftir tveggja mánaða hlé. Við töpuðum tölunni á ferðunum í þann kalda, hún hafði samt alltaf eina umfram mig. Vorum alltaf lengur og lengur í hverri ferð og komnar yfir tvær mínútur þegar hún þurfti að fara aftur. Þá synti ég í smá stund eða 300m áður en ég fór upp úr og notaði tækifærið og þvoði mér um hárið. Næst lá leiðin í fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti ýsu í soðið, harðfisk og 10 fiskibollur í frystinn. Úr fiskbúðinni fór ég í bílaþvottastöðina við Granda áður en ég endaði í Krónunni. Oddur Smári var farinn í vinnuna þegar ég kom heim. Davíð Steinn svaraði ekki símanum en var að fara að hringja til baka þegar ég kom inn með alla pinklana. Hann gekk frá vörunum á meðan ég gekk frá sunddótinu og svo hellti ég mér aftur upp á kaffi. Allt í allt drakk ég samt aðeins 4 bolla af kaffi í gær.

18.5.20

Spenningur

Það fór nú þannig að ég fór ekki út úr húsi í gær. Framan af var ég að stefna að því að skreppa í smá gönguferð upp úr hádeginu en einhvern veginn leið dagurinn án þess að ég drifi mig af stað. Ég var komin á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. Fékk mér lýsi, egg, vatnsglas og kalk áður en ég settist inn í stofu. Þar plantaði ég prjónadótinu og nokkrum bókum á borð en byrjaði á því að setja upp fartölvuna. Slökkti ekki á henni aftur fyrr en á ellefta tímanum. Þá færði ég mig úr sófanum yfir í stofustól og greip bók í hönd. Er ca hálfnuð með skammtímalánsbókina en lauk við að lesa 2 bækur með 100 skemmtisögum af vestfjörðum. Á tólfta tímanum kláraði ég hinn helminginn af hafragrautnum, kaldan með rúsínum. Hellti upp á kaffi og var búin að drekka þrjá bolla fyrir hádegisfréttir. Hellti ekki aftur uppá könnuna. Hringdi í pabba upp úr klukkan tvö. Svo var ég ýmist að lesa, prjóna eða glápa á eitthvað í sjónvarpinu. Um kvöldmatarleytið hitaði upp afgang af hakkrétt og bætti m.a. osti út í. Annar sonurinn hafði þá þegar pantað sér pizzu og laumast með hana inn í herbergið sitt en hinn sonurinn kom fram og hafði fengið sömu hugmynd og ég, ég varð bara á undan.

17.5.20

Mæðginaskreppuferð

Gærmorguninn notaði ég í ýmislegt dundur. Lauk við lestur á síðustu bókinni sem ég tók á safninu þegar það opnaði aftur 4. maí sl. Byrjaði á skammtímalánsbókinni eftir Jussi Adler Olsen sem er rétt yfir 500 bls. en mjög spennandi. Eiginlega hálf hissa á mér að geta lagt hana frá mér eftir að ég var byrjuð að lesa. Rétt fyrir ellefu bjó ég mér til hafragraut, harðsauð egg og hellti upp á nákvæmlega 2 bolla af kaffi. Um svipað leyti kom Davíð Steinn fram. Ég bauð honum að deila með mér en hann afþakkaði í bili. Sagði honum að við Oddur Smári ætluðum að skreppa á Hellu upp úr hádeginu og bauð honum með. Hann þáði það.

Klukkan var byrjuð að ganga tvö þegar við lögðum í hann. Ég tók prjónadótið og tvær bækur með mér í ferðina. Einkabílstjórinn sá um aksturinn. Reynir og Jóna Mæja voru í innliti hjá pabba og nýlega mætt þangað þegar við komum. Ákveðið var að skella í vöfflur. Pabbi var þegar búinn að setja upp kaffið og ég skrapp í búðina eftir þeytirjóma og tók svo að mér að standa vöffluvaktina þegar ég kom til baka. Það var góð stemming í eldhúsinu og bræðurnir skiptust á um að segja sögur. Oddur var að heimsækja afa sinn í fyrsta sinn á þessu ári, Davíð Steinn í annað sinn og þetta var fjórða heimsóknin mín. Jóna og Reynir kvöddu um hálffimm. Davíð Steinn hjálpaði afa sínum að sækja allar myndir úr tölvunum þannig að hægt væri að sýna þær á tjaldi í gegnum myndvarpa og usb eða snúrutengi. Ég greip í prjónana mína um stund.

Kvöddum pabba á sjöunda tímanum. Ég las alla leið í bæinn. Komum við á KFC því Davíð Steinn bað um að fá að splæsa á okkur fjölskyldutilboði. Hann var svo búinn að mæla sér mót inn í tölvuheima um átta leytið. Oddur Smári fékk sína tölvu úr viðgerð á föstudaginn var. Eftir að hafa farið með hana tvisvar fannst loksins ástæða bilunarinnar. Takkinn til að endurræsa vélina stóð á sér og var alltaf að trufla. Taka þurfti þann hnapp úr sambandi.

16.5.20

Sumardekkin loksins komin undir

Í ljósi aðstæðna ákvað ég að vera ekki að "troða" mér á milli heldur panta tíma til að fá sumardekkin undir og setja nagladekkinn á dekkjahótel í staðinn. Þegar sú pöntun fór fram var nokkuð langt liðið á apríl og engir tímar lausir fyrr en í viku 20. Ég vissi að ég væri að standa vaktina á K1 með A-hópnum en mér fannst endilega eins og dagurinn sem ég valdi á netinu væri laugardagur, en ekki föstudagur. Það er ekki í boði að panta tíma nema á virkum dögum. Ég ákvað samt að halda tímanum og semja við Odd sem þurfti að vakna um átta í gærmorgun til að mæta með bílinn í bókaðan tíma kl 8:30 hjá N1 í Fellsmúla hvar sumardekkin hafa verið á hóteli síðan í nóvemberbyrjun.

Ég labbaði milli heimilis og vinnu fimmta daginn í röð. Skrefafjöldi virku daganna var aldrei undir 12800 skrefum og fór mest upp í tæp 15000. Við A-teymið í kortadeild rúlluðum upp föstudagsvaktinni, skrifuðum skýrslu til B-hópsins, sótthreinsuðum helstu snertifleti á starfsstöðvum og gátum samt farið snemma heim. Ég lagði af stað um hálfþrjú og kom við á Lækjartorginu hjá Lilju vinkonu sem var með opinn sölubásinn sinn í 5. sinn á þessu tímabili. Hún var ein af þremur. Gott að hitta aðeins á hana en við slepptum því að faðmast.

Kom heim áður en klukkan varð hálffjögur. Hringdi í pabba og spjallaði um stund við hann. Hann er að undirbúa rúðuskipti á þremur stöðum. Hann er loksins búin að fara í ómskoðunina á blöðruhálskirtlinum, fékk lyf við sýkingunni og á að mæta aftur í næsta mánuði. Hann fékk amk tvenns konar lyf en hætti eiginlega strax á einu lyfinu því það virkaði þveröfugt við það sem hann þarf og vill því það var eins og skrúfað væri frá en ekki fyrir.

Um fjögur skrapp ég á bílnum á bókasafnið upp í Kringlu. Skilaði tveimur af þremur bókum. Önnur af þeim bókum var á skammtímaláni og ég fékk póst frá safninu í gær um að skiladagur væri að nálgast. Hefði samt alveg haft alla helgina og fram á mánudag. En líklega hefði ég annað hvort átt að bíða með að skreppa á safnið í gær eða amk fara gangandi því sennilega hefðu komið færri bækur með mér heim fyrir vikið. Tók semsagt 8 misþykkar bækur og ein af þeim er á skammtímaláni; Frá deild Q: Fórnarlamb 2117 eftir Jussi Adler Olsen.

Áður en ég kom inn úr bílnum eftir bókasafnsferðina hringdi ég í systir mína. Hún mun byrja í sumarfríi aðeins á undan mér en þau Ingvi, Bríet og hundarnir verða á Hellu frá því 6. eða 7. júní n.k. og fram eftir júní mánuði. Bríet verður amk mánuði lengur en hún er búin að fá sumarvinnu hjá SS á Hvolsvelli.

14.5.20

Maí að verða hálfnaður

Þegar ég rumskaði fyrst upp úr klukkan fimm í morgun heyrði ég að úti var hellirigning. Hugsunin um að velja það að fara á bíl í vinnuna skaust upp í kollinn. Þegar ég fór á fætur einum og hálfum tíma seinna var himininn vissulega þungbúinn en það leit ekki út fyrir að vera mikil rigning svo ég ákvað að fara gangandi í vinnuna. Valdi meira að segja að fara leiðina sem er 3,5km. Það var smá úði á leiðinni en ég varð ekkert holdvot þótt ég væri aðeins í úlpu en ekki regnkápunni.

Daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir tólf og við sem vorum á framleiðsluvaktinni náðum meira að segja að framleiða 300 stk af rúmlega sextánhundruð kortum sem eftir var að endurnýja. Afganginn framleiddum við strax eftir hádegishlé og kláruðum fyrir hálfþrjú. Var komin heim fyrir klukkan fjögur.

13.5.20

Í vinnunni milli 7:35 og 18:15

Þegar ég labbaði í vinnunna í morgun átti ég alls ekki von á að vera lengur en til klukkan þrjú. Ég var í bókhaldinu í dag og það fór stór hluti af morgninum að leyfa tæknimanni að yfirtaka tölvuna mína til að hann gæti hjálpað mér að tengjast teams. Það tókst rétt fyrir tólf. Um svipað leyti mætti viðgerðarmaður frá OBA mjög svo óvænt á svæðið til að taka yfirferð á vélinni. Það var akkúrat verið að ljúka við daglegu framleiðsluna og það var ákveðið að geyma afganginn af endurnýjuninni til morguns og "afhenda vélina til yfirferðar". Hinar tvær í vinnuhópnum mínum voru báðar með ákveðnar áætlanir utan vinnu seinni partinn svo ég tók að mér að sitja yfir. Hinar voru farnar fyrir þrjú en klukkan var farin að ganga fimm þegar ég labbaði heim úr vinnunni.

12.5.20

2x3,5km til og frá vinnu í dag

Rumskaði einhvern tímann milli fimm og sex í morgun við mikinn fuglasöng. Hefði helst þurft að fara á salernið en ég náði kúra í tæpa klukkustund. Var komin á fætur fyrir hálfsjö og lögð af stað gangandi í vinnuna sjö mínútum fyrir sjö. Gat ekki prentað út út tölvunni minni svo ég ákvað, líkt og í gær, að vera í framleiðsluteyminu í dag. Allt daglegt plús rúmlega 50 í dk-end var framleitt fyrir hádegi og milli eitt og hálfþrjú framleiddum við tæplega 1200 í viðbót í endurnýjuninni. enn eru óframleidd ríflega sextánhundruð kort. Prentaramálin voru lagfærð um hádegisbil þannig að á morgun get ég verið í bókhaldinu.

Hulda frænka var farin þegar ég kom heim úr vinnunni upp úr klukkan hálffjögur. Davíð Steinn sagði að hún hefði farið "áðan". Rétt fyrir fjögur fékk ég sms frá frænku minni þar sem hún þakkaði fyrir sig. Hringdi í pabba um fjögur leytið og hann er búinn að fá staðfestingu á því að mæta í ómskoðun á blöðruhálskirtli hér í Reykjavík rétt fyrir hádegi á morgun.

11.5.20

Vinnuhópur A að vinna í K1 þessa vikuna

Ég vaknaði við vekjaraklukkuna um 6:20 í morgun. Labbaði af stað í vinnuna rétt fyrir sjö og fékk skráðan á mig 38 mínútna göngutúr uþb 3km. Vinnutölvan mín er ekki mjög samvinnuþýð og neitar t.d. að prenta út svo ég ákvað að ég væri önnur af þeim sem sæi um framleiðslu í dag. Lukum við allt daglegt og eina litla skrá úr dk-endurnýjun fyrir klukkan tólf. Framleiddum vel yfir 900 kort í viðbót af endurnýjuninni eftir hádegi. Hættum framleiðslu upp úr klukkan hálfþrjú. Frá kl 15:07-15-49 var ég á leiðinni heim, 3,3 km. Heildarskref dagsins eru komin yfir 13500.

Í gærmorgun skrapp ég með systurdóttur mína upp í Grafarvog að sækja afganginn af dótinu sínu heim til mömmu fyrrverandi kærasta síns. Eftir hádegi bjó ég til vöfflur en sagði svo við Davíð Stein að hann yrði að taka að sér að elda kvöldmatinn. Hann gerði það þrátt fyrir að vera í e-s konar liða-spil-keppni á netinu frá klukkan fimm síðdegis. Maturinn var tilbúinn upp úr klukkan níu en sjálfur komst hann ekki til að borða fyrr en á ellefta tímanum.

10.5.20

Hulda

Rétt upp úr hádegi á föstudaginn dreif ég mig loksins af stað í leiðangur á bílnum. Fór fyrst að versla og því næst keypti ég þrif fyrir bílinn og keyrði í gegnum þvottastöð þar sem m.a. felgurnar voru þrifnar sérstaklega. Næst lá leiðin að Atlantsolíu við Sprengisand. Bensínnálin sýndi að það var enn fjórðungur úr tanki eftir á bílnum og í mælaborðinu gat ég nálgast þær upplýsingar að það gæti dugað mér í amk 180km. Helga systir hringdi þegar ég var á Miklubrautinni við Hlíðar til að tilkynna mér að Hulda væri að koma í bæinn. Það var ég þegar búin að frétta í gegnum annan soninn. Eftir að hafa fyllt á bílinn dreif ég mig heim. Fékk stæði fyrir framan heima og byrjaði á því að reyna að hringja í Odd svo ég gæti beðið þá bræður um að koma til móts við mig og taka við eitthvað af vörunum. Oddur heyrði ekki í símanum sínum svo ég sló á þráðinn til Davíðs Steins og það var Hulda sem svaraði. Hún kom skilaboðunum til bræðranna en það var aðeins Oddur sem kom á móti mér. Það var reyndar alveg nóg þegar til kom. Hann gekk frá vörunum. Hulda þurfti að skreppa fljótlega því hún hafði alveg gleymt að pakka niður nærflíkum þrátt fyrir að ætla að gista í þrjár nætur. Hún fékk far með vini í Smáralindina en klukkutíma síðar hringdi hún í Odd og bað hann um að sækja sig í Kringluna. Þeir bræður fóru báðir að sækja frænku sína, gangandi.

Upp úr klukkan sex sótti sjósundsvinkona mín mig og við skelltum okkur í sjóinn í Nauthólsvík í ca. 17 mínútur. Það var flóð og að flæða meira að svo ekki þurfti að fara mjög langt útí til að hætta að botna. Það var eitthvað af fólki í sjónum, ekki margir þó, og um sama leyti og við vorum að koma að kom kona sem greinilega var vön. Hún fór berfætt og vettlingalaus útí og var engu að síður amk 5 mínútum lengur ofaní sjónum heldur en við Helga Rún. Þegar ég kom heim aftur var Davíð Steinn að sinna kvöldmatargerð og tvær vinkonur Huldu voru í heimsókn. Vinkonurnar voru farnar áður en við borðuðum en Hulda fór og hitti þær einhvers staðar annars staðar á spilakvöldi. Frænka mín sagðist ætla að koma heim um tíu þegar hún fór en var ekki kominn heim þegar ég fór að sofa á tólfta tímanum.

Vaknaði rétt fyrir átta í gærmorgun. Fór á fætur fljótlega og sá þá traustar vísbendingar um að Hulda hafi skilað sér í hús. Ég ákvað að fá mér göngutúr upp í Kvikk þar sem Oddur er á vakt  milli 7:30 og 16 þessa helgina. Hann bauð mér upp á kaffi og ég sat og spjallaði við hann í hátt í tvo tíma á milli þess sem hann afgreiddi kúnnana. Þegar ég kom heim var Hulda vöknuð. Um eitt lögðum við frænkur af stað út úr bænum og vorum við komnar austur á Hellu rúmum klukkutíma síðar. Ég var að heimsækja pabba minn í þriðja sinn á þessu ári en Hulda var ekki búin að hitta afa sinn síðan 22. ágúst 2018. Það voru fagnaðar fundir. Pabbi var að sinna garðverkum en við frænkur fórum fljótlega inn og hjálpuðumst að við að útbúa upprúllaðar pönnsur. Eftir kaffitímann hjálpaði Hulda afa sínum að tengja myndasýningavél þannig að hún gat varpað myndum úr tölvu yfir á tjald. Hulda þurfti reyndar að fá smá aðstoð við þetta frá pabba sínum sem gat hjálpað í gegnum Facetime.

Við frænkur vorum komnar í bæinn aftur á sjöunda tímanum. Ég ætlaði að bjóða öllum krökkunum út að borða á uppáhaldsstað Huldu. Oddur vissi af því en var engu að síður búinn að gera aðrar ráðstafanir, var ekki í stuði til að koma með okkur hinum á Alibaba.

8.5.20

Sól og blár himinn

Báðir synir mínir voru komnir á fætur 2-3 tímum fyrir hádegi í gær. Annar þeirra átti endurkomutíma á heilsugæslunni vegna sveppasýkingarinnar sem hann var með um daginn. Hinn var ekki með nein plön nema "hamast" í tölvunni og hann var byrjaður að spila við einhvern upp úr klukkan níu. Tölvan hans Odds er í viðgerð en hann "leikur" sér þá bara í símanum í staðinn. Annars fór hann eina ferð í Sorpu í gær á meðan hinn samþykkti að skúra inni á baði. Ekki alveg jöfn skipti það þannig séð. Rétt fyrir fimm lánaði ég bræðrum bílinn og þeir fóru í 6 ára afmæli systur sinnar.

Ég kom ýmsu í verk í gær en ég hafði líka góðan tíma í alls konar. Vel gengur að lesa bækurnar af safninu. Sé fyrir mér að það hafi verið magnað að umgangast Indriða miðil þessi fáu ár áður en hann veiktist alvarlega og féll frá. Í raun og veru var hann "rannsakaður" af félagsskap sem kallaði sig Tilraunafélagið. Félag sem síðar varð að Sálarrannsóknarfélagi. Annar af þeim sem tók efnið saman er meðlimur í Lífsspekifélaginu og er stundum með erindi þar. Fleiri hafa skrifað um Indriða í gegnum tíðina m.a. Þórbergur Þórðarson í bók um Endurminningar Brynjólfs Þorlákssonar söngkennara.

7.5.20

Fimmtudagsmorgun

Ég fór fyrr uppí rúm í gærkvöldi heldur en í fyrrakvöld. Las að sjálfsögðu í einhverja stund en var örugglega sofnuð um ellefu. Vissi næst af mér klukkan korter yfir sjö í morgun. Að vísu rámar mig í einhverjar draumfarir, frekar miklar, en ekki nógu skýrar til að segja betur frá þeim.

Annars er ég að lesa allar þrjár bækurnar af safninu í einu. Eina af bókunum hef ég lesið áður, ég vissi alveg af því;  Fimmti riddarinn eftir James Patterson. Þriðja bókin er 1983 eftir Eirík Guðmundsson. Ágætt að dreifa athyglinni á milli bóka.

Lítið af frétta að öðru leyti. Hélt mig heimavið í gær, bara afþví bara. Hefði auðvitað átt að skreppa í smá gönguferð en einhvern veginn leið dagurinn, og hann leið ágætlega hratt þrátt fyrir að hafa byrjað mjög snemma, án þess að ég færi út úr húsi. Stundum er þetta bara svona. Báðir strákarnir fóru út á tímabili. Oddur fór í vinnu en Davíð Steinn að hitta vini.

6.5.20

Morgunstund

Fór heldur seinna að sofa í gærkvöldi en undanfarið, samt ekki eftir miðnætti. Klukkan var þó líklega orðin hálftólf. Og svo vakna ég fyrir klukkan sex í morgun, ekki við fuglasöng, heldur bara afþvíbara. Hugsanlega hefði ég getað kúrt mig niður aftur, sérstaklega eftir ferð á salernið, en í staðinn klæddi ég mig fyrir klukkan sjö og skipti um á rúminu mínu. Finnst samt aðeins of snemmt að trítla niður í þvottahús og setja í þvottavél. Hér sit ég því inni í stofu með kjöltutölvu sem pabbi á, búin að bursta tennurnar en ekki búin að fá mér neitt hvorki lýsi né neitt annað. Skrýtin skrúfa hún ég. En það er líka í góðu lagi.

Í gærmorgun fór ég ekki á fætur fyrr en um hálfníu. Eftir að hafa pissað og tannað settist ég beint inn í stofu, kveikti á þessari sömu tölvu og byrjaði á því að blogga. Klukkan var farin að ganga ellefu áður en ég slökkti og gekk frá tölvunni, skipti um sæti úr sófanum yfir í stól og tók mér bók í hönd. Það var ekki fyrr en klukkan var farin að halla í tólf að ég hellti mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Hafði samt einhvern tímann í millitíðinni tekið inn matskeið af lýsi. Á meðan hádegisfréttir voru sagðar felldi ég síðustu lykkjurnar af græn-svörtu afgangasjali sem ég hef verið að prjóna og gekk frá öllum 16 endunum. Stuttu síðar dembdi ég mér í vöfflubakstur, átti helming af soppu síðan í fyrradag sem urðu 7 vöfflur. Strákarnir "hjálpuðu" mér við að sporðrenna þessu.

Oddur Smári fór í vinnuna sína rétt fyrir þrjú. Davíð Steinn var heima í allan gærdag. Um hálffjögur sótti sjósundsvinkona mín mig. Það var flóð og sjávarhiti líklega um 6°C. Við svömluðum um í tæpar tuttugu mínútur og lentum svo í smá umferðarsultu á Flugvallarvegi og Bústaðavegi. Langt síðan hefur myndast svona sulta. Þegar ég kom heim fór ég beint í sturtu og notaði tækifærið og þvoði á mér hárið.

5.5.20

Tilhlökkun og von

Ef allt gengur upp og fer á besta veg þá er góður möguleiki á því að ég komist loksins í sund aftur annan mánudag. Ég krosslegg bæði fingur og tær en held ró minni að öðru leyti. Það hefur gert mikið fyrir mig að hafa fundið leið til þess að stunda sjóböð öðru hvoru síðustu vikur. Það á ég sjósundsvinkonu minni, Helgu Rún, að þakka. Hún á fimm "stakka" sem hún hannaði og saumaði sjálf og kallar yfirtökuflíkur því þetta var notað til að bregða yfir leikara sem voru í pásum frá útikvikmyndatökum eða eitthvað svoleiðis. Helga Rún byrjaði að stunda kælingar í sjónum í fyrra sumar og þegar ég kynntist henni í nóvember sl. mætti hún þrisvar í viku. Ég hitti hana oftast á mánudögum. Framan af hausti fór ég tvisvar í viku í sjóinn en ég hafði sundið og í október fækkaði ég ferðum um helming í sjóinn og valdi að mæta á mánudögum. Fór þó stöku sinnum á miðvikudögum ef ég hafði ekki komist á mánudeginum.

Ég labbaði með fjórar bókasafnsbækur í bakpoka á Kringlusafnið um þrjú í gærdag. Þær bækur var ég beðin um að setja ofan í kassa. Valdi mér þrjár bækur í staðinn. Ein af þeim bókum er ný með 14 daga útláni og er um Indriða Indriðason miðil (1883-1912). Ég var einnig með tómt plastbox með mér í bakpokanum. Úr Kringlunni labbaði ég því næst yfir í Fiskbúð Fúsa og keypti mér ýsu í soðið og tvo pakka af harðfisk, óbarinni ýsu áður en ég labbaði aftur heim.

4.5.20

Vöndum okkur

Í dag hefur aðeins verið slakað á þeim fjöldatakmörkunum og sumum reglum sem gilt hafa í nokkrar vikur vegna Covid-19. Veit til þess að ein samstarfskona mín var búin að panta tíma í klippingu, sjúkraþjálfun og fótaaðgerð allt í þessari viku. Þrátt fyrir að 2 metra regla gildi almennt ennþá, þá má þessi starfssemi fara í gang aftur en allir þurfa að fara extra varlega og muna þvott og sótthreinsun. Þá mega dagforeldrar, leikskólar og grunnskólar starfa eðlilega með þeim formerkjum að starfsfólkið haldi áfram að passa sig eins og kostur er. Það eru ekki mörg virk smit í okkar samfélagi en á meðan einhver smit eru enn í gangi verður að fara gætilega. Þetta vitum við örugglega velflest þar sem lögð hefur verið áhersla að hafa allt upp á borðum og greina frá og svara spurningum á daglegum upplýsingafundum almanna varna, sóttvarnar- og landlæknis embætta. Þessir undanfarnir mánuðir hafa verið mjög einkennilegir en ég er sannfærð um að það var brugðist rétt við svo afstýra mætti veldisvexti og ofurálagi. Álagið á heilbrigðiststéttina var mjög mikið á tímabili en þar sem allir unnu saman voru fundnar nýjar leiðir sem sumarhverjar munu vafalaust vera komnar til að vera. Ég vona að þetta skref í afléttingu gangi það vel að hægt verði að komast í sund aftur eftir þrjár vikur. Reyndar er ég það heppin að hafa fundið leið til að komast í sjóinn stöku sinnum og það gerir heilmikið. Ég veit að það er stór hópur af fólki sem vant var að fara daglega í sund eða mjög þétt og reglulega sem saknar þess að geta ekki stundað sína rútínu. Margt af eldra fólkinu stirðnar upp, sérstaklega þeir sem eiga erfiðara með að hreyfa sig um þegar þeir eru ekki í vatni. En ég get þó skroppið í bókasafnið upp í Kringlu á eftir, það opnar klukkan tíu. Förum varlega en gleymum samt ekki að lifa lífinu lifandi. Og eitt að lokum, verð að monta mig yfir því að ég náði skrefum gærdagsins yfir 12000, enda fór ég í langan göngutúr réttsælis um Öskuhlíðina milli klukkan þrjú og hálffimm í gær.

3.5.20

Sjósundsmorgunn

Í gær skráði síminn á mig rétt tæplega 12000 skref alls. megnið af þeim skrefum safnaðist í einum löngum göngutúr seinni partinn milli klukkan 15:15 og 16:44, 6,79 km rangsælis í kringum Öskjuhlíð. Ekkert stopp á leiðinni og meðalhraði skráður 4,5km á klst.

Davíð Steinn tók að sér að elda úr tveimur þorskhnakkaflökum í gærkvöldi, mjög gott hjá honum. Ég ákvað að fá mér hvítvínsglas eftir mat. Settist með það inn í stofu og hlustaði og horfði á "Heima með Helga" á Sjónvarpi Símans. Þetta var víst síðasti þátturinn og ég sat límd við skjáinn. Hef ekki horft á áður en mér skilst að hægt sé að ná í hina þættina og horfa á þá alla ennþá. Hver veit nema ég geri það.

Sjósundsvinkona mín sótti mig rétt upp úr klukkan níu í morgun og við skelltum okkur í sjóinn við Nauthólsvík í 17 mínútur. Það var svo mikil fjara að við vorum "nánast hálfnaðar" til Kópavogs (eða þannig) þegar við hættum að botna. Hressandi busl eins og alltaf.

Annars er ég spennt fyrir því að líklega eru sum bókasöfnin að opna aftur núna eftir helgi.

2.5.20

Laugardagsmorgunn

Skref gærdagsins voru innan við 7000 og náðu því ekki einu sinni helming fjöldans sem síminn skráði á mig á fimmtudaginn. Skrefin hefðu reyndar vel geta verið miklu færri eða eitthvað fleiri. Ég skrapp í rúmlega hálftíma göngutúr um miðjan dag í gær, labbaði hring um hverfið og fór m.a. um Klambratún. Ég fór líka nokkrar ferðir í þvottahúsið, heilmikill tröppugangur það. Gærdagurinn leið ótrúlega hratt miðað við að ég var svo sem ekki að gera neitt sérstakt. Greip þó í prjónana um stund, las, vafraði um á netinu og ýmislegt fleira. Horfði t.d. á 2 Criminal Mind þætti með Oddi. Davíð Steinn skrapp í afleysingar á N1 við Stórahjalla frá fjögur til átta.

1.5.20

Uþb 17 mínútur í sjónum

Hlustaði á fréttir klukkan sex í morgun. Slökkti á útvarpinu strax að loknum fréttum og snéri mér á hina hliðina. Mér tókst að slaka á, held þó að ég hafi ekki beint sofnað aftur, og kúrði mig niður í næstum einn og hálfan tíma. Þá reis ég úr rekkju, bjó um rúmið, fór í slopp og eftir að hafa sinnt morgunverkunum inni á baði eldaði ég einn góðan skammt af hafragraut handa mér. Rétt fyrir níu setti ég hárið í hnút og teygju og sundhettuna á mig, fór í sundbol, sjósundssokka og strandskó. Sundvettlingana og handklæði setti ég í poka. Síminn, fjölmiðlamælirinn, húslyklar og sokkapar fóru í stóru vasana á yfirtökuflíkinni og þegar ég var komin í hana og ullarhúfu yfir sundhettuna taldi ég mig tilbúnar og fór út með handklæðið og sundvettlingana í poka og þurfti aðeins að bíða í eina mínútu eftir sjósundsvinkonu minni. Það var fjara í Nauthólsvík en hún var ekki nærri því eins mikil og seinni partinn á þriðjudaginn var, síðast þegar við fórum. Við áætluðum að sjórinn væri eitthvað um 5°C, svalur en mjög svo notalegur. Svömluðum um í sjónum í rétt tæpar 17 mínútur. Það var ekki fyrr en ég var komin úr öðrum sjósundssokknum og strandskó og var að þurrka á mér tærnar að ég fattaði að ég hafði ekki tekið með mér skó. Ég fór úr hinum sjósundssokknum og strandskónum og klæddi mig svo aftur í strandskóna. Það var betra heldur en að labba berfættur eða á sokkaleistunum. Þetta var, held ég, sjötta sjósundsferðin frá því að morgni annars dags páska, 13. apríl sl. og er þetta í fyrsta skipti sem ég gleymdi að taka með mér skó.

Gönguforritið í símanum mínum taldi yfir 14.000 skref í gærdag, enda labbaði ég bæði til og frá vinnu, mörg skref í vinnunni og svo fór ég tvisvar sinnum í þvottahúsið eftir að ég kom heim seinni partinn í gær. Það skráðust tveir "göngusprettir" á mig í gærmorgun; fyrst 0,98km í 13 mínútur frá kl. 6:58 og svo 1,9km í 27 mínútur frá kl 7:12.  Labbaði í gegnum Klambratún, eftir Gunnarsbraut, smá spöl á Snorrabraut, Laugaveg, Hverfisgötu. Man ekki hvaða götu ég beygði til að fara alla leið á Skúlagötuna en ég var komin á þá götu aðeins áður en ég labbaði framhjá bakaríinu sem þar er. Það var nóg að gera í vinnunni, enda mánaðamót framundan og klukkan var orðin meira en hálffimm áður en ég rölti heim upp Ingólfsstræti, Skólavörðustíg, niður Eiríksgötu að Snorrabraut yfir á Bústaðaveg, undir brú og labbaði svo eftir Eskihlíð að Reykjahlíð þar sem ég beygði strax inn þar sem Drápuhlíð byrjar og alla leið heim.  Alls 2,8km á 41 mínútu.