30.9.19

Síðasti septemberdagurinn

Þessi dagur hefur verið nokkuð annasamur fram að þessu og ég er komin með um 7000 skráð skref þrátt fyrir að hafa farið á bílnum í vinnuna í morgun. Yfirgaf vinnuna rétt upp úr klukkan hálftvö og var komin á leitarstöðina tæpu korteri fyrir uppgefinn tíma í brjóstamyndatöku. Það fór svo að ég var að labba út á slaginu klukkan tvö og þá var erindi mínu lokið þar. Næst lá leiðin á Kvikk í Öskjuhlíðinni þar sem ég fékk einn kaffibolla í boði sonarins eftir að ég var búin að athuga með loftþrýstinginn í öllum fjórum hljólbörðunum. Lauk við kaffibollann áður en ég hélt förinni áfram í Kringluna. Það var búið að færa þjónustuborðið upp á aðra hæð en ég fann það eftir að hafa labbað stærri hringinn. Ætlaði mér að kaupa hálfsárs kort í strætó en þarna eru bara seld eins og þriggja mánaða kort. Ég skellti mér á lengra tímabilið og það kort gildir frá og með morgundeginum til og með 31. desember næstkomandi. Kíkti stuttlega inn á tvo staði á sömu hæð áður en ég hélt för minni áfram. Ég fékk bæði sms og e-mail frá blóðbankanum í morgun og auðvitað hlýddi ég kallinu. Gjöfin gekk extra vel. Eini gallinn við að gefa er sá að þar með verð ég að sleppa sjó eða sundferð í dag. Var komin fyrir utan hér heima rétt upp úr klukkan fjögur og ákvað að skreppa yfir á heilsugæsluna, fá viðtal á vaktinni til að senda inn beiðni um að verða kölluð í beinþéttnimælingu. Er búin að vera á leiðinni að láta athuga beinþéttnina í rúm tvö ár. Báðir synirnir eru að vinna en ég er engu að síður að vinna í kvöldmatargerð, er með eitt flak af þorskhnakka í ofninu ásamt ýmsu meðlæti og með smá rjómaskvettu út á. Hlakka til að borða af þeim rétti eftir ekkert svo langa stund.

29.9.19

Sunnudagur í bænum

Ég var komin upp í rúm um hálfellefu í gærkvöldi og ætlaði að lesa til ellefu. Það liðu samt þrjú korter áður en ég lagði frá mér bókina, slökkti ljósið, bað bænirnar mínar og fór að sofa. Var að lesa, og langt komin með; Brestir í Brooklyn eftir Paul Auster. Er búin að vera að lesa þessa með hléum í á aðra viku og  náði loks að ljúka lestrinum um hádegisbil í dag. Í millitíðinni las ég reyndar m.a. bóka; Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Sú saga er byggð á raunverulegum atburðum og ég get svo svarið að það var erfitt að slíta sig frá henni en ég táraðist á köflum. Núna er ég byrjuð á bókinni; Konungsmorðið eftir Hanne Vibeke Holst í þýðingu Halldóru Jónsdóttur. Spennusagan er sjálfstætt framhald af bók sem heitir Krónprinsessan.

En ég var glaðvöknuð upp úr klukkan sjö, slökkti á vekjaranum sem átti að hringja 7:20 og dreif mig fljótlega á fætur. Fékk mér lýsi, vítamín, vatnsglas og eitt harðsoðið egg. Var komin í kalda pottinn í Laugardalnum (6,7°C) ca korter yfir átta. Sat þar í fjórar mínútur áður en ég synti mína 500 metra á uþb tuttugu mínútum, synti 400m bringusund, ca 40m skriðsund og 60m á bakinu áður en ég fór aftur í þann kalda í rúmar tvær mínútur. Síðan lá leiðin í heitasta pottinn í örstutta stund og svo dagaði ég næstum því uppi í sjópottinum á spjalli við eitt af afmælisbörnum morgundagsins. Þegar við ákváðum láta loksins gott heita í heita sjónum fór hún í gufuna en ég enn eina ferðina í þann kalda. Svo sátum við um stund í sólbaði. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég kom heim. Á tólfta tímanum harðsauð ég 7 egg, bjó til hafragraut og hellti upp á könnuna. Hluti af deginum hefur farið í lestur bóka og helgarblaðs og prjónaskap.

28.9.19

Tvær kveðjur

Í gærmorgun fór ég, aldrei þessu vant, á bíl í vinnuna. Vann til hádegis. Hafði fengið leyfi til að hætta vinnu upp úr tólf til að fylgja bekkjarsystur minni úr KHÍ en hún varð bráðkvödd þremur vikum eftir að við fórum saman austur í berjamó með pabba. Valbjörg Jónsdóttir var kölluð mamman í bekknum okkar en hún var fædd seint í október 1942 á Suðureyri við Súgandafjörð. Ég er ekki alveg að ná utan um það að hún sé farin en það fylgdu henni fjöldi manns, ættingjar, vinir og annað samferðafólk. Ég hitti fimm aðra úr bekknum okkar í kirkjunni og erfidrykkjunni. Valla var einstök persóna, þótti góður kennari og var afar dugleg að rækta frænd- og vinagarðinn. Eftir að hún komst á eftirlaunaaldur sinnti hún ýmis konar sjálfboðavinnu. Þessi kona var alltaf brosandi og afar viðræðugóð. Ég er þakklát fyrir að við drifum okkur í berjaleiðangurinn seinni partinn í ágúst sl.

Skilaði bílnum heim um þrjú en stuttu síðar labbaði ég í RB í K2. Þar var haldið kveðjupartý fyrir eina samstarfskonu mína sl. tæpu tuttugu árin en hún ákvað að fara að sinna eigin fyrirtæki ásamt eiginmanni sínum eftir rúmlega 23 ár hjá reiknistofu bankanna. Kveðjuhófið var auglýst frá 16-19 en ég bað Odd um að sækja mig um hálfátta.

Nennti ekki alveg strax á fætur í morgun klukkan átta. Var mætt til esperanto-vinkonu minnar um hálfellefu og tveimur tímum síðar skutlaði ég henni áleiðis í vinnu og dreif mig svo loksins í sund. Rétt gaf mér tíma til að hengja upp sunddótið þegar ég  kom heim og var svo farin strax út aftur til að fylgjast með Valsstrákunum á heimavelli gegn HK í lokaumferð Pepsídeildar karla 2019. Átta mínútur voru liðnar af leiknum er ég mætti á svæðið en ég missti ekki af þeim tveimur mörkum sem mínir menn skoruðu. Leikurinn fór 2:0 fyrir Val en það var Hannesi að þakka að HK-ingar skoruðu ekki. Einu sinni fór þó boltinn í netið en það mark var ekki dæmt vegna rangstöðu.

Oddur átti frí í dag en Davíð Steinn var að vinna hjá N1 í Mosó. Ég ákvað að við skildum fara bæði að sækja hann og bauð strákunum á KFC á heimleiðinni en það gerist ekki oft.

25.9.19

Smá úttekt á deginum í dag

Vaknaði heilum fimm mínútum áður en vekjarinn átti að fara í gang. Labbaði af stað í vinnuna um kl . 7:10. Vinnudagurinn leið frekar hratt. Öllum verkefnum var lokið um tvö og þá var ákveðið að yfirgefa vinnustaðinn. Ég hringdi í fyrrum kórsystur mína úr KÓSÍ um leið og ég var komin út af vinnustaðnum. Þessi kona er jafngömul pabba mínum og býr við Lindagötu. Ég náði sambandi við hana í heimasímann hennar en hefði ekki mátt hringja einni mínútu síðar. Hún var á leiðinni niður í sameiginlega salinn í kaffi. Hún bauð mig velkomna í heimsókn og sagðist myndu bíða eftir mér fyrir framan hús. Ég setti í hærri göngugýr og var mætt til hennar rúmum fimm mínútum síðar. Í salnum var einnig verið að dansa gömlu dansana við undirspil 5 manna hljómsveitar, 3 á harmonikkur, 1 á gítar og 1 á trommur. Við fengum okkur kaffi og hlustuðum á mússíkina og horfðum á þá sem voru að dansa. Það er víst alltaf dans á miðvikudögum og síðasta miðvikudag mánaðarins er svo endað á því að dreifa söngheftum og sungið saman í nokkra stund. Okkur fyrrum kórsysturm leiddist ekkert að syngja saman nokkur þekkt dægurlög. Einn lék undir á nikku.

Var komin í Nauthólsvík klukkan fimm, sjórinn 0,4 gráðum hlýrri en sl. mánudag. Svamlaði um í tuttugu mínútur og fór svo beint í víkina þar sem sjórinn er heitari an þar sem hann er mældur. Að lokum fór ég í heita pottinn og sat þar í korter áður en ég dreif mig upp úr og heim.

24.9.19

Kaldi potturinn

Um fimm leytið í gærdag var ég komin í Nauthólsvík. Hitastig sjávar var komið aftur í 10°. Ég fer alltaf beint út í sjó þegar ég er búin að fara í sundbol, sundhettu, strandskó (bráðum sokka) og hanska. Þarf ekki að fara í sturtu sem ég þyrfti að gera ef ég myndi byrja á því að setjast í heita pottinn. Í gær var fjara og ég grínast oft með það á þá þurfi að vaða áleiðis til Kópavogs áður en maður hættir að botna. Ég gleymdi að taka með mér sundgleraugun en ég var mest í því að svamla um á bakinu, tók þó örfá bringsunds- sem og skriðsundstök í þessu uþb 15 mín. sjóbaði. Sat svo í heita pottinum í næstum tuttugu mínútur áður en ég dreif mig upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Krónunni við Nóatún áður en ég fór heim.

Eftir vinnu seinni partinn í dag kom ég örstutt við á Lækjartorginu og heilsaði aðeins upp á Lilju vinkonu áður en ég trítlaði heim, hellti mér upp á kaffi, fékk mér hressingu með og hringdi í pabba. Var mætt í Laugardalslaug um fimm. Fór 3x í kalda pottinn áður en ég valdi mér braut til að synda mína 500 metra. Strax eftir "sundsprettinn" fór ég í fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr.

 styttist í það að ég fari að fjárfesta í strætókorti og þar með dregur líklega allverulega úr skrefasöfnun og skósólaslitum.

22.9.19

Árgangur 1968 úr Helluskóla

Fyrr á árinu var stofnaður lokaður hópur á Facebook utan um okkur tuttugu sem vorum saman í bekk í grunnskólanum á Hellu. Fimm úr hópnum voru í grunnskóla Þykkvabæjar til 12 ára en komu í unglingadeildina á Hellu í 7. 8. og 9. bekk (sem nú eru 8. 9. og 10. bekkur). Einn úr hópnum er reyndar ekki á neinum samfélagsmiðlum en hann var látinn vita um hópinn og að til stæði að hittast eina helgina seinni partinn í september á þessu ári þegar liðin eru 35 ár síðan við útskrifuðumst úr grunnskóla. Fimmtán af okkur hittumst í gær. Um þrjú skráðu 6 of okkur sig inn á Hótel Stracta við Hellu, sá sjöundi sem líka ætlaði að gista nóttina sameinaðist hópnum um hálfátta í gærkvöldi er hann kom nánast beint úr flugi utan úr heimi. Þrettán af okkur vorum mætt við grunnskólann um fjögur í gær og fengum leiðsögn um hann hjá nýjum skólastjóra, Kristínu Sigfúsdóttur, sem var ráðin í starfið eftir að skólastjóri síðustu 35 ára sagði starfi sínu lausu í vor. Yfirferðin tók um klukkustund og höfðum við gaman að þessu. Frá skólanum lá leiðin upp að Ægisíðu þar sem dóttir eins úr hópnum leiðsagði og sýndi okkur nokkra af hellunum. Sest var að snæðingi í Hótelinu um átta og þá voru allir sem boðuðu ekki afföll mættir. Við skemmtum okkur svo fram á rauða nótt og voru margar skemmtilegar sögur rifjaðar upp. Fimm af okkur sjö sem gistum á hótelinu vorum mætt í morgunmatinn upp úr klukkan níu.

Núna er  ég stödd hjá pabba og ætla að vera framyfir kvöldmat. Í gærmorgun náði ég góðri sundferð í Laugardalslaugina þar sem ég fór m.a. fjórar ferðir í þann kalda. Lagði af stað úr bænum rétt upp úr hádegi og kom við í Fossheiðinni. Hugurinn var reyndar á Valsvellinum bróður partinn úr deginum en ég sá hluta af leik Vals og Keflavíkur í lokaumferð Pepsídeildar kvenna í lobbýinu á hótelinu.

Á föstudagskvöldið sótti Brynja vinkona mig um hálfátta og við fórum saman á kvöldvöku með Jóni Gnarr í Borgarleikhúsinu. Sú kvöldvaka stóð til klukkan að ganga tólf og skemmtum við okkur alveg ágætlega.

18.9.19

Sjórinn

Það var eins gott að ég á góða regnkápu, rigndi frekar mikið á mig á labbinu í vinnuna á áttunda tímanum í morgun. Þyfrti svo annað hvort að fjárfesta í regnbuxum eða taka með mér aukabuxur sem ég gerði ekki í morgun. Buxurnar blotnuðu nokkuð frá hné og niður úr. En þetta var svo sem fljótt að þorna. Eftir hádegi græjuðum við vöfflukaffi í vinnunni og svo tók ég að mér að bíða eftir að mánaðarleg endurnýjun skilaði sér yfir á framleiðsluvélina. Var búin að hlaða henni inn rétt fyrir hálffjögur. Ekki rigndi neitt að ráði á mig á heimleiðinni, aðeins smávegis síðasta hálfa kílómetrann eða svo. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi, fékk mér hressingu, las smávegis, hringdi í pabba og var svo komin í sjóinn við Nauthólsvík upp úr klukkan fimm. Svamlaði um í sjónum í tæpar tíu mínútur og sat svo í heita pottinum í uþb korter áður en ég fór upp úr og heim aftur.

17.9.19

Tíminn

Í gærmorgun labbaði ég af stað í vinnuna með gamlan sundpoka með nokkrum nauðsynjahlutum á bakinu innan undir regnkápunni. Vinnudagurinn varð nokkuð óvenjulegur. Það varð smá óhapp sem varð til þess að framleiðsla tafðist og fyrstu skil voru hálftíma á eftir áætlun. Náðum að vinna þetta upp og klára vinnudaginn innan átta tíma. Labbaði af stað úr vinnunni korter í fjögur og fór beint upp í Perlu til að hitta fyrrum kórfélaga mína í KÓSÍ. Mættum átta af 15. Flestir komu um fjögur, ég kom korter yfir en var alls ekki seinust en þau sem lögðu til þennan hitting komust ekki.

Um sex skrapp ég heim, skipti um föt og slakaði á um stund áður en ég rölti yfir á Valsvöllinn og sá KR tryggja sér titilinn með einu marki geng engu minna manna. Það var svolítið erfitt að horfa upp á þetta en ég sat þó allan leikinn en fór heim mjög fljótlega eftir að leikurinn var flautaður af.

Það var svo sannarlega ekkert regnkápuveður í dag. Það slapp að klæða sig í flíspeysu. Kom heim rétt upp úr klukkan þrjú. Hellti upp á 3 bolla af kaffi, fékk mér smá hressingu með, las smávegis og hringdi svo í pabba stuttu áður en ég skellti mér í sund á fimmta tímanum.

15.9.19

100 dagar til jóla

Var komin í sund rétt upp úr klukkan átta í morgun og gaf mér góðan tíma í rútínuna. Kom heim rétt upp úr klukkan tíu, eldaði mér hafragraut og hellti upp á kaffi. Nú er ég nýbúin að klára úr þriðja og sennilega síðasta kaffibolla dagsins og síðasta hálftímann hef ég verið að lesa; Saga af nýju ættarnafni eftir Elenu Ferrante, aðra bókina af fjórum í svokölluðum Napólísögum.

Í gærmorgun var ég líka komin í sund fljótlega eftir opnun og gaf mér jafnvel betri tíma í rútínuna heldur en ég gerði svo í morgun og endaði á því að þvo á mér hárið. Kom við í Krónunni við Nóatún, Atlantsolíu við Flugvallarveg og Kvikk í Öskjuhlíð á heimleiðinni. Oddur Smári hafði skilið fjölmiðlamælinn sinn eftir í gluggakistunni inni á baði og hann var að vinna til fjögur í gær. Ég færði honum mælinn og þáði hjá honum hálfan kaffibolla áður en ég fór heim og gekk frá vörunum. Klukkan að verða eitt sótti ég eina fyrrum samstarfskonum mína vestur í bæ og á leiðinni út úr bænum komum við við í austurbænum í Kópavogi og sóttum aðra sem var að vinna með okkur. Leiðin lá fyrst austur í Þorlákshöf þar sem við fengum okkur kaffi á Hendur í höfn. Stoppuðum stuttlega á tveimur stöðum á Selfossi og keyrðum einn rúnt um Þykkvabæinn áður en við heimsóttum pabba um hálffimm. Stoppuðum hjá honum til klukkan langt gengin í átta og um hálfsjö var ég búin að gufusjóða blöndu af blómkáli, lauk, papriku, kartöflu og epli og steikja bleikju. Virkilega vel heppnaður kvöldmatur. Kom heim aftur um hálftíu í gærkvöldi eftir að hafa skilað stelpunum heim.

Af seinni hluta nýliðinnar vinnuviku ber hæst að nefna að um fjögur á fimmtudaginn fóru tvær rútur (og reyndar fjölmargir á einkabílum) út úr bænum í Félagsgarð í Kjós; starfsmannafundum undir yfirskriftinni " Frábær saman". Fram að kvöldmat voru tveir fyrirlestrar og hópmyndataka. Eftir kvöldmat var hópsöngur áður en var alveg frjáls tími. Seinni rútan lagði af stað í bæinn rétt rúmlega tíu.

10.9.19

Ferð á bókasafnið

Vekjarakukkan hringdi upp úr klukkan hálfsjö í morgun. Ég var eiginlega hálfhissa á því að það væri kominn tími til að fara á fætur fyrir utan að ég er undanfarið vaknað amk tíu mínútum á undan vekjaranum. Tíminn í morgunrútínuna var alveg nægur og  ca hálftíma eftir að klukkan hringdi labbaði ég af stað í vinnuna og var mætt þar á slaginu 7:45. Strax eftir hádegið mættu tveir viðgerðarmenn til að sinna mánaðarlegri yfirferð á vélinni. Aðeins einn þarf að sitja yfir alveg til klukkan fimm. Í þetta sinn var það fyrirliðinn sem tók það að sér (hafði samt þurft að mæta í vinnu um leið og við hinar tvær en það er ein í fríi og sú fimmta hefur ekki störf fyrr en eftir næstu helgi). Ég fékk því það frelsi að geta hætt í vinnunni um hálftvö og labbað heim.

Eftir að hafa fengið mér hressingu, tvo bolla af kaffi og hringt í pabba tók ég til sunddótið og ákvað í leiðinni að taka bókasafnspokann og koma við á Kringlusafninu. Reyndi m.a. að skila bók sem var ekki af safninu. Skilaði átta bókum af tíu og tók fimm bækur í staðinn. Var komin fyrstu ferðina af fjórum í kalda pottinn fyrir klukkan hálffimm. Þegar ég var í gufunni eftir síðustu ferðina í þann kalda var ég spurð að því hvort ég væri ekki mamma Odds og Davíðs. Það reyndist vera fyrrum "þríburinn" minn og frændi (langafi hans og föðurafi minn voru hálfbræður, samfeðra).

9.9.19

Svamlað í sjónum

Í gærmorgun var ég vöknuð stuttu fyrir átta en tók þá ákvörðun að taka lífinu með ró. Sleppti því að fara í sund til að leyfa sprungnu blöðrunni á slæma staðnum jafna sig aðeins. Var komin á fætur fyrir klukkan níu og fékk mér morgunhressingu og hellti upp á tvo bolla af kaffi. Var mætt á heimavöllinn klukkan tvö, sleppti kirkjuferð, og horfði á Valsstelpurnar vinna ÍBV 4:0.

Labbaði af stað í vinnuna upp úr klukkan sjö í morgun, fann varla fyrir blöðrunni enda með plástur á henni. Um hálftvöleytið labbaði ég úr K1 yfir í K2 þar sem ég fór á örkynningu. Sú kynning var búin um hálfþrjú og þá labbaði ég heim. Hellti upp á smá kaffi og fékk mér síðdegishressingu. Var komin í sjóinn tíu mínútum fyrir fimm og svamlaði þar um í uþb tuttugu mínútur áður en ég fór í pottinn. Stuttu seinna mætti bekkjarsystir mín úr grunnskóla og ég ákvað að skella mér smá stund í sjóinn með henni eða í rúmlega tíu mínútur. Mjög hressandi. Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég lagði af stað frá Nauthólsvík. Umferðarteppan var ekki eins mikil frá HR og milli klukkan fjögur og sex en það var samt smá sulta á hluta af leiðinni.

Sauð nokkrar rauðar kartöflur og steikti eitt flak af þorskhnökkum í fjórum bitum upp úr krydduðu eggi og blöndu af byggmjöli og byggflögum. Báðir synirnir voru í mat. N1 sonurinn tilkynnti sig veikan þegar hann kom úr skólanum, var með höfuðverk, og hinn sonurinn var beðinn um að taka 10-18 vakt vegna forfalla hjá Kvikk í Öskjuhlíðinni. Venjulega á hann að vera á 15-20 vakt mánudaga til miðvikudaga en mér skilst að hann verði aftur á 10-18 vakt á morgun.

8.9.19

Sunnudagur

Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun í gærmorgun. Byrjaði á kalda pottinum og var þar í uþb 4 mínútur áður en ég valdi braut 7 af 8 til að synda. Synti í tuttugu mínútur, 350m bringusund, ca 115m baksund og ca 35m skriðsund. Fór svo beint í kalda pottinn aftur og var þar í næstum fimm mínútur áður en ég endaði í sjópottinum þar sem ég spjallaði  dagóða stund við eina af Sigrúnunum sem ég hitti reglulega í sundi. Úr sjópottinum fór ég beint upp úr og gaf mér góðan tíma í hárþvott og smástund í kalda sturtu á eftir áður en ég dreif mig í fötin og fór beinustu leið á Kristu Quest. Var sest í stólinn hjá Nonna, hárgreiðslumeistara mínum til margra ára rétt fyrir klukkan tíu. Nú tekur lengri tíma að þurrka og greiða hárið en hann klippti ca sentimeter af endunum. Keypti mér sjampó um leið og ég gerði upp og endaði á því að óska honum "Gleðilegra jóla!" því það verður kominn febrúar áður en ég sest í stólinn hjá Nonna næst, nema eitthvað mjög sérstakt komi upp á. Er ákveðin í því að klippa mig ekki stutt aftur fyrr en framkvæmdum utanhúss verður lokið og þær framkvæmdir eru ekki einu sinni byrjaðar.

Næst lá leiðin beinustu leið vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Hún bauð mér upp á skál af hafragraut áður en við lásum eina blaðsíðu í Kon Tiki. Eftir lestur, spjall og tvo bolla af kaffi fór ég heim til að ganga frá sunddótinu mínu en brunaði svo beint austur á Hellu með léttan farangur. Ætlaði ekkert að gista að þessu sinni. Var komin austur fyrir klukkan tvö. Eftir kaffið upp úr klukkan hálffjögur, kveikti ég á sjónvarpinu til að horfa á landsleikinn. Prjónaði smávegis, amk langt fram í seinni hálfleik. Strax eftir leikinn fór ég að huga að kvöldmatargerð. Eftir kvöldmat athugaði ég með N1 strákinn sem var á vakt í Stórahjalla til klukkan tíu svo ég ákvað að stilla heimferð þannig að hann gæti orðið samferða heim. Lagði því nokkra kapla áður en ég þakkaði fyrir daginn, kvaddi pabba og lagði af stað í bæinn upp úr klukkan hálfníu.

6.9.19

Vinnuvikulok

N1/skólastrákurinn hefur verið með vaktir hjá N1 hér og þar alla vikuna. Í Mosfellsbæ eftir skóla á mánudaginn, í Borgartúni eftir skóla á þriðjudag og miðvikudag (18-22), í Stórahjalla í gær frá 18-22 og var svo mættur þar í morgun klukkan 7:30 og þá á 12 tíma vakt.

Áður en ég fór í sund eftir vinnu á þriðjudaginn var, kom ég við í Steinari&Waage í Kringlunni og fjárfesti í nýjum inniskóm fyrir vinnuna. Kvittunin sem ég sendi fjármáladeild fyrirtækisins var samþykkt af framkvæmdastjóranum mínum og fékk ég nýju skóna endurgreidda að fullu.

Á miðvikudaginn var fannst mér rigningin það mikil að ég var viss um að verða blaut í fæturnar ef ég arkaði af stað í vinnuna á strigaskónum. Mér fannst ég heldur ekki geta farið í gönguskónum því það var búið að ákveða að kortadeildin færi á kaffihús eftir hádegi. Ég ákvað að fara í ecco-spariskóm sem ég er búin að eiga og nota öðru hvoru í amk tvö-þrjú ár. Það var allt í lagi að labba á þeim í vinnuna en eftir vinnudaginn og kaffihúsið var hægri fóturinn orðinn svo bólginn að skórinn var eiginlega of þröngur og meiddi mig á tveimur stöðum. Hin þrjóska ég labbaði engu að síður lengri leiðina heim (3,3 km) og uppskar slæmar blððrur og rifnaði önnur þeirra þegar ég fór úr skónum heima. Ég hafði hugsað mér að skreppa í sjósund en ákvað að efna fyrst loforð sem ég hafði heitið mér í sumarfríinu og athuga hvort bíllinn kæmist strax að í alþrif. Tók samt til bæði sjósunds- og sunddótið og tók með mér. Brunaði svo upp að Stórhöfða 20 á Bónstofuna og viti menn; bíllinn minn komst næstum því strax að. Var eiginlega settur inn í röðina. Alþrifin voru sögð taka uþb tvær klukkustundir (ég var þar rétt fyrir klukkan fjögur). Var komin í strigaskóna og gekk ágætlega að labba upp á Bíldshöfða 20 þar sem Krónan, bakarí, apótek, Húsgagnahöllin og rúmfatalagerinn eru til húsa. Skoðaði mig aðeins um í síðastnefnda fyrirtækinu en fékk mér svo kaffibolla og hrökkbrauð á kaffihúsinu og sat þar í um klukkustund. Um hálfsex var ég aftur komin á Stórhöfða 20 og þurfti aðeins að bíða í um tíu mínútur áður en ég gerði upp og tók við hreinum og fínum, nýbónuðum bílnum. Á heimleiðinni skellti ég mér í Laugardalslaugina. Fór m.a. 3x í þann kalda og 2x í 42gráðu pottinn en synti svo aðeins 100m. Alltaf sveið í svæðinu þar sem sprungna blaðran var þegar ég steig út í vatnið.

Í gærmórgun fór ég á gönguskónum í vinnuna. Sára blaðran var ekkert að jafna sig, en labba skyldi ég í vinnuna og heim aftur. Frestaði laugarferð um ca 2 klst en var tilbúin með kvöldmat og skutlaði svo Davíð Steini á vakt. Á leiðinni í sundið kom ég við í Lyfju við Lágmúla og keypti mér "second skin" plástur. Í sundi hitti ég þrælskemmtilega og hressa konu sem hefur verið búsett í Danmörku um árabil en er stödd hér á landi til að aðstoða bróður sinn að flytja. Við hittumst í minni annarri ferð í kalda pottinn og hún var að prófa hann í annað eða þriðja sinn. Þetta var mjög hláturmild kona og hláturinn var afar smitandi.

Ég setti á mig plásturinn í morgun áður en ég arkaði af stað í vinnuna. Það var skárra að labba en plásturinn færðist samt aðeins til svo ég setti nýjan áður en ég labbaði aftur heim eftir vinnu.

2.9.19

Nýr mánuður og ný vinnuvika

Veðrið í gær var það gott að við pabbi freistuðumst til að fara í þriðju berjaferðina. Vorum alls ekki lengi en við tíndum rúmlega 11 kíló og mér skilst að pabbi hafi farið aftur eftir hádegi í dag og tínt um fjögur kíló í viðbót. Þar með er krækiberjauppskera þessa árs 51 kíló, rúmlega tveggja ára birgðir. Kvaddi pabba eftir kvöldmat upp úr klukkan átta. Þegar ég kom í bæinn var ekkert stæði í lengjunni minni en ég fann eitt í fyrir framan Drápuhlíð nr. 35, hinum megin við Lönguhlíðina.

Strákarnir kom heim nokkru á eftir mér. Þá var ég búin að horfa á "Veröld sem var" og íslenska myndin Eiðurinn var nýhafin. Ég ætlaði reyndar ekkert að horfa á þá mynd, en festist og fyrir vikið var klukkan farin að nálgast miðnætti þegar ég fór í háttinn. Stóðst samt ekki mátið að lesa nokkra kafla í: Lítil tilraun til betra lífs. Leynilega dagbók Hendriks Groen, 83 1/4 ára þýdd af Rögnu Sigurðardóttur. Byrjaði á þeirri bók um helgina og las m.a. smá brot úr sumum köflum fyrir pabba. Bráðfyndin og mjög mannleg bók.

Þrátt fyrir að hafa farið að sofa rétt eftir miðnættið vaknaði ég á undan vekjaraklukkunnu rétt fyrir hálfsjö í morgun. Var mætt í vinnu korter fyrir átta eftir að hafa labbað nákvæmlega 3km. Nú erum við eftir fjórar á deildinni minni. Tvær sinntu bókhaldi, mánaðamótum og reikningagerð en ég og sú fjórða sáum um daglega framleiðslu sem var lokið um hádegið. Rétt fyrir tvö fóru samstarfsmínir yfir í K2 á öryggisfund. Ég sat eftir með verkefni til klukkan rúmlega tvö en mátti svo fara heim. Labbaði aðeins lengri leið heim eða 3,3km og var komin heim um þrjú. Var komin í sjóinn rétt fyrir fjögur. Fjaran var svo mikið að mér fannst ég hlyti að vera komin yfir í Kópavog áður en það var orðið nógu djúpt til að synda. Svamlaði um í næstum því tuttugu mínútur og flatmagaði í heita pottinum í aðrar tuttugu.

Kom við í Krónunni við Granda. Eftir verslunarleiðangurinn stoppaði ég stuttlega í Kvikk þar sem Oddur var á vakt og bauð mér upp á kaffibolla. Hann er að vinna frá þrjú til átta í dag og næstu tvo daga. Hann var að vinna frá átta til fjögur um helgina og átti síðustu 15-20 vaktina sl. föstudag. Davíð Steinn var í skólanum í dag en mætti svo á vakt kl fimm hjá N1 í Mosfellsbæ. Hans vakt lýkur klukkan hálftólf og hann sem á að mæta í skólann rúmlega átta í fyrramálið.