7.4.25

Aftur kominn mánudagur

Það sem ég varð hissa þegar ég fór á fætur í gærmorgun og sá að klukkan var hálftíu. Þá var ég örugglega búin að sofa í um níu tíma. Var sofnuð fyrir miðnætti og var svo búin að liggja í nokkra stund upp í rúmi haldandi að klukkan væri í mesta lagi rétt byrjuð að ganga níu. Kveikti á tölvunni hans pabba áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Fyrsti klukkutíminn fór svo í alls konar netvafr. Pabbi kom á fætur um hálfellefu og fljótlega settist ég inn í eldhús til hans og fór að leggja kapal. Ekkert löngu síðar færðum við okkur inn í stofu. Fékk mér skyr í hádeginu. Unga parið, hafði komið heim úr sveit foreldra hans einhvern tímann eftir miðnætti, lét á sér kræla um eitt leytið. Klukkutíma síðar fóru þau í bæinn í einhvern innkaupa leiðangur. Ég hitti þau ekki aftur því ég kvaddi pabba á fimmta tímanum og var komin heim stuttu fyrir sex. Þá var N1 sonurinn kominn heim úr bústað og báðir bræðurnir því heima.

6.4.25

Titill með téi

Vaknaði um sjö í gærmorgun. Var komin í sund rúmlega átta. Fór beint á braut 2 og synti 500m og svo fimm mínútur í kalda pottinn. Þaðan í sjópottinn í korter, aftur í þann kalda í rúmar 4 mínútur og gufuna í korter áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar fyrir klukkan hálftíu. Lásum rúmar tvær bls. í Kon-Tiki á met hraða. Var komin heim um hálftólf. Sótti þvott af snúrum sem ég hafði næstum því gleymt að hengja upp kvöldið áður. Pakkaði niður og um tólf leytið kvaddi ég Odd og brunaði af stað austur. Kom við í Fossheiðinni og var boðið upp á dýrindis gúllassúpu og gott spjall. Var komin austur á Hellu um þrjú. Skömmu síðar sá ég, á snap-kortinu, að Davíð Steinn var að keyra framhjá Hellu. "Veifaði" í gegnum snappið og sonurinn sagði að hann myndi kannski koma við og heilsa upp á afa sinn í baka leiðinni. Hann og ferðafélaginn voru á leið að Seljalandsfossi en fóru reyndar í Nauthúsagil og blotnuðu í fæturnar í þeirri ferð. Komu við upp úr klukkan sex, annað þeirra ferfætt og hitt á sokkunum. Davíð Steinn hafði haft vit á að fara úr þeim áður en hann labbaði inn í gilið. Þau, vinirnir til sjö ára, stoppuðu í tæpa klukkustund en vildu ekki borða með okkur. Ætluðu að grilla. Við pabbi fengum okkur siginn fisk með kartöflum rófu og smjöri eftir að ferðalangarnir voru farnir. Horfðum svo á kvöldfréttir í sarpinum í sjónvarpinu.

5.4.25

Skrif

Það var sennilega rólegasti dagurinn í klinkinu í vikunni í gær og á svoleiðis dögum er ekki alveg nóg að gera fyrir tvo allan tímann. Engu að síður var ég niðri og sá um sorteringar og staukun en Jói var meira í pöntunum og bókunum. Þegar hann fór upp að ganga frá eftir hádegismatinn var eiginlega allt búið niðri. Ég ákvað þó að prófa að gera eins og hann hefur kennt mér og athuga hvort komnar væru inn pantanir sem eiga ekki að fara úr húsi fyrr en eftir helgina og það voru tvær. Tók þær til enda hefði hann ekki kennt mér þetta nema þetta væri leyfilegt. Vorum búin niðri á undan þeim sem voru að vinna uppi, upp úr klukkan hálftvö og ég mátti alveg stinga af inn í helgina. Var komin í sund um tvö leytið. Fór beint í þann kalda og eftir 5 mínútur í honum fann ég kalda potts vinkonu mína og dóttur hennar í gufunni. Elti þær svo í sjópottinn. Náði einni 3 mínútna ferð í þann kalda með vinkonu minni áður en hún fór. Synti svo aðeins 200m áður en ég fór upp úr og heim. N1 sonurinn er í vaktafríi um helgina og var hann búinn að pakka niður í ferðatösku og á leiðinni í sumarbústað á vegum Festis fljótlega eftir að ég kom heim. Hinn sonurinn ætlar að heimsækja pabba sinn og fjölskyldu hans í dag. 

4.4.25

Gleðisprengjur

Vaknaði um sex. Morgunrútínan var hefðbundin með lóða æfingum og netvafri áður en ég lagði af stað í vinnu. Var búin að stimpla mig inn um hálfátta. Lagði það til við læriföður minn að við svissuðum um hlutverk. Hann færi í pantanir og tæki bókanir en ég sæi um að sortera úr klinkkössum og stauka upp klinkið. Þetta gekk svona glimrandi vel. Lenti stundum í smá veseni, aðallega með sorteringa- og stauk vélar en í flestum tilfellum fann ég út úr hlutunum sjálf. Í hádeginu gaf ég kost á mér að vera lengur í vinnu til að bíða eftir innflutningi sem kæmi í hús milli fimm og sex. Það þurfa alltaf að vera tveir á staðnum. Oftast eru það sá í afgreiðslunni og lærifaðir minn sem taka þetta að sér. Stöku sinnum einhver annar en í gær gat sá í afgreiðslunni ekki verið lengur. Ég ákvað að prófa þetta verkefni sem felst að mestu í að bíða eftir að bíllinn með innflutninginn komi frá Keflavík. Vorum annars búin í klinkinu rétt fyrir þrjú og komum upp stuttu áður en flestir voru að fara. Framkvæmdastjóri og næstráðandi voru í húsi til klukkan fjögur að ganga fimm. Ég var sem betur fer með prjónana mína og einhvern veginn leið tíminn. Yfirleitt hringja þeir sem eru á bílnum þegar þeir leggja af stað frá Keflavík en þeir gerðu það ekki í gær en þeir komu um hálfsex. Við tókum á móti 10 pokum úr lyftinni í skúr 2 og kvittuðum fyrir, settum á vagn og keyrðum renndum inn í hvelfinguna uppi. Þegar bíllinn var farinn og við búin að loka hvelfingunni gátum við farið. Ég fór aðeins á undan og lét læriföður minn um að setja kerfin á á eftir okkur. Fór beint í sund, 5 mínútur í þann kalda, synti 300m og dýfði mér svo í þann kalda aftur í eina mínútu áður en ég fór upp úr og heim. Skipti um föt og fékk mér smá snarl. Rétt fyrir átta var ég svo mætt á skyggnilýsingarfund á vegum kíwanisklúbbsins Sólborgar í Hafnarfirði. Fundurinn stóð í rétt rúma klukkustund og skemmti ég mér ágætlega. Ég kom heim um hálftíu og fór beint í háttinn en las þó í rúman hálftíma. 

3.4.25

Og það er nú það

Ég fékk meiri ábyrgð í störfum mínum í klinkinu í gær. Sá sem hefur verið að kenna mér var "skugginn" minn fram að hádegi og lét mig um að taka ákvarðanir um hvernig verkefnin voru tækluð. Hann var þó stundum á pantana vaktinni en það þarf að fylgjast með og taka til allar pantanir sem koma til klukkan ellefu. Þær pantanir sem koma eftir klukkan ellefu má alveg taka til en þær eru yfirleitt ekki á leið út úr húsi fyrr en daginn eftir. Skugginn minn kvaddi um hádegið svo ég var ein niðri eftir hádegi. Þegar við fórum upp í mat um hálftólf áttum við svo sem ekki von á neinu meiriháttar verkefnum. Það voru þó komnir tveir klinkkassar og einnig klink sending frá félagasamtökum. Ákvað að geyma síðast nefndu pöntunina. Tók til eina klinkpöntun og vatt mér svo í að sortera klinkið úr klinkkössunum. Þeir koma frá bankaútibúum og þessir tveir voru úr hvor sínum bankanum svo ég þurfti að passa að halda þeim aðskildum og núllstilla sorteringa vélina á milli kassa. Þegar klinkið hafði verið sorterað á tvo mismunandi vagna var komið að því að stauka það upp. Kláraði annan bankann í einu. Lenti í smá veseni með staukvélina þegar ég var langt komin með annan bankann. Varð að hringja á vin. Skugginn minn var farinn úr húsi (um hádegið) en það er annar sem hefur stundum leyst hann af. Sá kom niður og hjálpaði mér að koma vélinni aftur af stað. Var ekki lengi að því og var aðeins niðri í um fimm mínútur. Þegar allt hafði verið staukað upp bókaði ég kassana inn í kerfið, færði inn í klinksjóðina og gekk frá á klinkinu á rétta staði. Prentaði svo út sjóðastöðuna úr öllum bönkum, slökkti á öllum vélum og á ljósum og fór upp. Þá var klukkan að verða hálfþrjú og ég var rauð í framan og kófsveitt. Var komin í sjóinn upp úr klukkan þrjú og heim um hálffimm leytið.