20.11.24

Sjósundsdagur í dag

Var vöknuð stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Byrjaði á því að gera einhverskonar teygjuæfingar upp í rúmi áður en ég klæddi mig og bjó um. Þá tók ég fram 2kg lóðin og gerði nokkrar styrktar- og lyftuæfingar. Næst lá leiðin inn í eldhús þar sem ég fékk mér glas af vatnsblönduðum sítrónusafa úr hálfri sítrónu. Svo sinnti ég morgunverkunum á baðherberginu. Settist svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Var mætt í vinnu um hálfátta. Var í lopapeysu og hafði meðferðis ullarsokka ef mér yrði kalt á tánum. Fór næstum beint niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skránum. Niðri var hlýtt og gott. Uppi var sum staðar skárra "kuldastig" heldur en á mánudaginn. Búið var að setja af stað hitablásarana og ég gat byrjað strax á því að vinna innlegg og bóka. Það var öllu kaldara hjá þeim sem voru á stóru kópru-vélunum. Þrátt fyrir að það væri hitablásari í rýminu hjá þeim þurftu þau á tímabili að vera í úlpum og með húfur. Ég fór úr lopapeysunni upp úr hádeginu en um það leyti sem við vorum að klára allar bókanir var byrjað að kólna aftur. Þrátt fyrir stóran dag og vesen með hitastigið var öllum verkefnum lokið fyrir klukkan hálffjögur. Ég fór beint í sund og á braut átta og var búin að synda rúma hundrað metra þegar kaldapotts vinkona mín kom. Hún synti 500 og ég 600 í heildina. Eftir þrjár ferðir í kalda, góða gufuferð og tuttugu mínútur í sjópottinum fór ég upp úr. Ákvað að skreppa upp á Gagnveg á vinnustað N1 sonarins sem var á vakt. Stuttu áður en ég kom þangað fór mælaborðið að gera athugasemd varðandi þrýstinginn á dekkjunum svo ég byrjaði á því að leggja framan við loft-dæmið og jafna hann sjálf. Það var smá bras en hafðist alveg. Lagði svo bílinn við þjónustudælu til að fá áfyllingu á rúðupissið. Starfsmaður á plani kom fyrst að en rétt á eftir sonur minn sem tók verkið að sér og vildi ekkert taka fyrir það. Var komin heim stuttu fyrir klukkan hálfsjö. 

19.11.24

Innikuldi á vinnustað

Var vöknuð um sex, á undan vekjaranum. Gaf mér góðan tíma í alla morgunrútínu en var samt mætt í vinnu rétt fyrir hálfátta. Inni var mjög kalt, þó ekki frost eins og út en samt þannig kalt að það var eiginlega ekki hægt að vinna við þessar aðstæður. Ég fór þó niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám og útbúa skiptiblöð. Það virkaði ekki alveg jafn kalt þar. Þegar ég kom upp aftur gerði ég eins og margir af vinnufélögunum sótti úlpuna því þrátt fyrir að vera í ullarvesti var það ekki nóg. Það var heldur skárra inni í kaffistofu en ef maður sat of lengi og var ekki með teppi yfir sér sótti kuldinn á. Einhverjir voru frammi í sal að "reyna" að vinna en við vorum nokkur sem bara gátum ekki hugsað okkur að vinna fyrr en hitastigið yrði aðeins lagað svo við værum ekki með loppnar fingur og tær og eldrauð nef. Menn fá hitastýringu voru fengnir á staðinn en það voru líka leigðir nokkrir hitablásarar og dreyfðir um salinn. Nokkru eftir að þeir voru komnir í gang, svona um tíu leytið, ákvað ég að prófa að vinna. Færði borðið ofar og vann standandi til að geta verið á smá hreyfingu. Hádegismaturinn kom í seinna lagi en yfirleitt kemur hann alltof snemma. Eftir mat prófaði ég að sitja við að bóka innlagnir og það slapp alveg til. Þrátt fyrir að við værum nokkur sem byrjuðum ekki að bóka fyrr en eftir dúk og disk og þar að auki eru nokkrir aðrir frá vegna veikinda þá vorum við búin með verkefni dagsins áður en ég var búin að vera átta tíma á svæðinu. Það munaði þó ekki nema uþb tíu mínútum. Var mætt í osteostrong rúmum hálftíma fyrir fasta tímann og komst beint að. Var því komin í sund um hálffimm. Synti 600m, fór í þann kalda í rúmar þrjár mínútur og beið svo í sjópottinum þar til kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Saman náðum við tveimur ferðum í þann kalda og góðri gufuferð en þá var ég komin í spreng og kvaddi. Var komin heim á sjöunda tímanum. Hringdi annars í pabba þegar ég var á leiðinni í osteostrong. Hann svaraði úr sínum bíl og var staddur á Ölfusárbrúnni. Hafði skroppið í kaupstað að versla og notaði tækifærið til að fylla á bílinn hjá Atlantsolíu.

18.11.24

Ný vinnuvika

Var komin í sund um hálftíu leytið. Byrjaði á 4 mínútum í kalda pottinum áður en ég fór á braut 6 og synti 500 metra, þar af tæpan helminginn skriðsund. Síðan fór ég aftur í þann kalda og hitti á kalda potts vinkonu mína. Fórum þrjár ferðir saman, tvær í þann heitasta, eina góða ferð í gufu og eina í 42°C pottinn. Sjópotturinn var lokaður. Ég var með skammtímaláns bókina meðferðis í bílnum en bókasafnið opnar ekki fyrr en klukkan tólf á sunnudögum og ég var komin heim um hálftólf. Ákvað að framlengja skilafrestinum um hálfan mánuð og verð þá vonandi búin með tvær af hinum þremur bókunum og get skilað þeim í leiðinni. Skammtímalánsbókin er annars; Súkkulaðileikur eftir Hlyn Níels Grímsson og er alveg ágætis afþreying. 

17.11.24

Rétt rúmar sex vikur eftir af þessu ári

Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt, þurfti og fór fram á salerni að tæma blöðruna. Er hreint ekki viss hvenær ég sofnaði aftur en vissi svo næst af mér um klukkan hálfátta. Tók mér rúman hálftíma í morgunverkin og netvafrið en var mætt í Laugardalslaugina á braut sex korter fyrir níu. Synti 500 metra, flesta á bakinu en smá skrið- og bringusund með. Þvoði mér um hárið þegar ég var á leiðinni upp úr um tíu. Næst lá leiðin vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Við lásum þrjár blaðsíður í Kon-Tiki. Um tólf renndi ég svo bílnum í gegnum bílaþvottastöðina Löður við Fiskislóð. Á eftir kom ég við í Krónunni áður en ég fór heim.

Annars gleymdi ég að geta þess að ég kom við í Holtagörðum eftir vinnu á föstudaginn til að kjósa utan kjörfundar. Það var aðallega til þess að nýta vegabréfið áður en það rennur úr gildi í næstu viku. Mér var reyndar tjáð að það væri alveg tekið mark á útrunnum skilríkjum. Mér var líka sagt að ég mætti kjósa eins oft og ég vildi utankjörfundar. Það er skráður tími á umslagið utan um atkvæðið og það nýjasta gildir. Það er annars ágætt að að vita að ég get kosið aftur ef mér snýst hugur og líka gott að vita að ég get kosið á kjördag, þó bara einu sinni, einnig ef ég verð komin að annarri niðurstöðu um hver eða hvort einhver eigi skilið mitt atkvæði.

16.11.24

Dagur íslenskrar tungu í dag

Var vöknuð alltof snemma í gærmorgun. Gerði smá teygju- og styrktaræfingar í rúminu og þegar ég var komin á fætur og búin að búa um gerði ég æfingar með 2kg lóð í hvorri hönd í nokkrar mínútur. Samt var klukkan ekki orðin sex þegar ég fór fram fékk mér lýsi og kalk, sopa af rauðrófu safa og hálft vatnsglas og sinnti morgun verkunum á baðherberginu. Mætti í vinnu rétt fyrir hálfátta. Sú lausráðna hafði ætlað að vera í fríi í gær og fara með fyrstu vél til Akureyrar. Það var hins vegar ekkert flogið norður í gær og hún ákvað að koma bara í vinnuna. Það er annars búið að framlengja vinnusamningnum hennar til ágústloka 2025 en staðan verður tekin aftur næsta sumar. Vonandi verða aðstæður þá orðnar þannig að hægt verði að fastráða hana. Við rúlluðum upp korta framleiðslunni á tæpri klukkustund. Ég var korteri lengur að ganga frá bókhaldi og póstmálum en fór svo beint í innlegg eftir það. Verkefnum var lokið rétt upp úr klukkan tvö. Ég ætlaði að koma við í Fiskbúð Fúsa en kom að lokuðum dyrum vegna árshátíðaferðar. Var komin í Nauthólsvík rétt fyrir þrjú. Hringdi eitt símtal áður en ég yfirgaf bílinn. Sjórinn hafði mælst 7°C á fimmtudaginn en var kominn niður í 4,4°C. Það var að flæða að. Ég svamlaði um í korter, sat annað eins í gufunni áður en ég fór aftur smástund út í, berhent. Var líklega rúmlega eina mínútu áður en ég fór í pottinn. Eftir sjósundsferðina gerði ég mér ferð í Hagkaup í Skeifunni. Yfirleitt líður lengra á milli ferða þangað en í síðustu ferð á sunnudagskvöldið var keypti ég tvær dokkur af fjólublá þykku bómullargarni og þær eru ekki að duga fyrir stykkið sem ég er með á prjónunum. Þarf amk eina dokku til. Auðvitað rataði ýmislegt annað í körfuna í leiðinni en vörurnar komust þó vel fyrir í einum margnota hagkaupspoka af minni gerðinni. Svona poka sem inn á milli er geymdur í litlum samlitum poka og fer mjög lítið fyrir.