27.1.26

Jafntefli við Sviss, sem var neðst í milliriðlinum

Ég var komin á fætur rétt fyrir hálfsex og byrjaði á því að gefa mér tíma fyrir nokkrar æfingar með tvö 1,5kg lóð. Var komin á braut 8 í Laugardalslauginni rétt rúmum klukkutíma síðar. Stimplaði mig inn í vinnu rétt að verða korter í átta. Var síðust á svæðið. Í gær afhenti stöðvarstjórinn mér lykla af stöðinni og erum við þá öll þrjú með lykla. Það var rólegt fyrstu þrjú korterin og gafst mér ágætist tími til að gera upp í nýja kerfinu. Verkefnin komu svo í skorpum yfir daginn. Yfir fjörutíu bílar voru skoðaðir og ég tók á móti nokkrum bílnúmerum af bílum sem á að taka úr umferð tímabundið. Vinnudagurinn leið alla vega ágætlega hratt en ég var orðin ein eftir tuttugu mínútum fyrir lokun. Eftir vinnu skrapp ég í Fiskbúð Fúsa eftir harðfiski og ýsu í soðið. Kom einnig við í Krónunni í Lindum. Kom heim upp úr klukkan hálfsex.

26.1.26

Framlenging á skilafresti

Vaknaði um hálfsex. Mætti í sund um það leyti sem var opnað. Synti 300m á braut 7. Fór beint úr kalda pottinum í sjópottinn, smá stund í 42°C pottinn og eina dýfu í kalda áður en ég fór í vinnuna. Stimplaði mig inn korter í átta. Vorum bara tvö fyrsta klukkutímann. Ég gerði upp úr báðum kerfum og fékk sem betur fer ágætis næði til þess. Vinnudagurinn leið hratt enda var í nógu að snúast. Yfir þrjátíu bílar komu í skoðun og einnig var eitthvað um önnur verkefni svo sem eins og að svara í símann, taka á móti númeraplötum og fleira. Var komin heim rétt fyrir fimm. Heyrði í fyrrum samstarfskonu og öðrum syninum. Átti von á að það kæmi einhver frá capacent til að ná gögnum úr mælinu en enginn hefur komið enn. En þrátt fyrir að vera búin að lesa bækur sem átti að fara að skila eftir morgundaginn ákvað ég að framlengja frestinum á þeim. Á aðeins eina bók ólesna af safninu. Skilafresturinn er til 9. febrúar n.k. og ég ætla að klára þá bók áður en ég fer og skila öllum fimm bókunum sem ég er með af safninu. 

25.1.26

Átta marka sigur á Svíum

Mikið sem ég svaf vel í nótt. Var komin upp í rúm rétt fyrir tíu og aldrei þessu vant fór ég beint að sofa. Rumskaði eitthvað stuttlega eldsnemma í morgun en sofnaði strax aftur. Vaknaði á níunda tímanum alveg útsofin og eldhress. Eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér harðsoðið egg og gleypti svo vítamínin öll í einu og drakk eitt glas af vatni með. Pabbi kom klæddur fram rétt á eftir mér. Hann fór mun seinna að sofa og ég er nokkuð viss um að hann var búinn að koma fram eldsnemma, taka niður tölur og fá sér mandarínu og egg. Hann bauð upp á hægsoðið folaldakjöt og sæta kartöflu í hádeginu. Um tvö leytið kvaddi ég pabba. Bíllinn var í 84% hleðslu. Kom við í Fossheiðinni en var komin í bæinn upp úr klukkan hálffimm. Keypti mér þvott á bílinn áður en ég fór heim. Þá var hleðslan komin í 39%, alveg í lagi þannig séð en ég sá mér samt leik á borði þar sem var laust á staurnum á planinu sem tilheyrir blokkinni. Að þessu sinni hlóð ég í gegnum ON. Fyllti hann upp í 99% á tæpum þremur tímum. Horfði á landsleikinn og "framlenginguna" en fór svo beint út, aftengdi bílinn og færði hann í annað stæði. 

24.1.26

Hleðsluævintýri og ferðalag

Þegar ég kom heim í gær sá ég að aldrei þessu vant var allt upptekið á hleðslustaurnum. Í morgun var ég búin að ákveða að leggja snemma af stað í sund, finna hleðslustaur frá Ísorku við Kleppsveg, stinga í samband og labba þaðan í Laugardalslaug. Ekki virkaði að koma hleðslunni af stað svo ég hætti við og fór á bílnum alla leið á planið við laugina. Eftir sundferðina fór ég vestur í bæ og ætlaði að nota hraðhreðslustöð við Ánanaust. Það var heldur ekki að virka en ég veit núna í því tilfelli hvað ég var að gera vitlaust. Svo vildi svo vel til að hleðslustöðvarnar fyrir utan heima hjá norsku esperanto vinkonu minni eru bæði fyrir íbúa og gesti. Þar gat ég stungið í samband og komið á hleðslu með því að leggja kreditkortið við staurinn þannig að hleðsla hófst. Var með hann í hleðslu þennan rétt rúma klukkutíma sem ég var hjá vinkonu minni. Batteríið var komið upp í 68% úr 35% á þessum klukkutíma. Ég fór heim og gekk frá sund- og esperantodótinu og kláraði að pakka niður. Líklega hefði ég komist alla leið á Hellu en ég ákvað að stinga í samband í hraðhleðslustöð ísorku við Olís utan við á. Hélt að hleðsla væri komin af stað en um tíu mínútum seinna var ekkert að gerast. Þá var kominn annar aðili sem var búinn að stinga sínum bíl í samband og gat aðstoðað mig við að koma hleðslunni af stað. Hlóð bara í tæpar tíu mínútur og komst upp í 54%. Í millitíðinni hafði ég hringt í frændfólkið mitt í Norðurmýrinni til að athuga hvort þau væru með tengil, sem var ekki, svo ég stoppaði aðeins hjá þeim. Þau fengu að skoða bílinn og setjast aðeins inn í hann. Stoppaði hjá þeim í uþb klukkustund. Hringdi í pabba þegar ég var að leggja af stað frá þeim og var komin til hans um þrjú leytið. Hann var að horfa á þátt um Siglufjörð en að þeim þætti loknum skoðaði hann bílinn. Við athuguðum líka hvort tengið sem hann setti upp fyrir Ford tvin bílinn sem hann átti fyrir nokkrum árum. Svo var ekki. Pabbi fékk að keyra bílinn að hraðhleðslustöð Ísorku við Olís. Þar setti ég bílinn í hleðslu og svo röltum við pabbi í bakaríð, eða hann ætlaði að bjóða mér í "kaffi". Þá var reyndar klukkan orðin fjögur og búið að loka. Við settumst þá niður við borð í rýminu framan við búðina, vínbúðina og bakaríið. Á tuttugu mínútum fór batteríið upp 85% og það á að vera hægt að keyra rúmlega 200km á þeirri hleðslu. Við komum til baka í Hólavanginn um hálffimm og ætlum að hafa siginn fisk í kvöldmatinn. 

23.1.26

Fastráðning

Var alls ekki tilbúin að fara á fætur þegar vekjaraklukkan hringdi rétt fyrir klukkan sex í morgun. Fór því ekki í sund en var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir klukkan átta. Rúmum klukkutíma síðar skildi ég skoðnunarmennina eftir á meðan ég skrapp í Mjóddina til að tala við Forstjóra Frumherja. Það var mannauðsstjórinn sem hafði samband við mig í gær og bað mig að koma en tilefnið var að skrifa undir fastráðningasamning. Einn af kúnnum dagsins hafði verið að vinna með fyrrum nágranna mínum og fljótlega eftir vinnu ákvað ég að skella mér í heimsókn í Drápuhlíðina. Það var vel tekið á móti mér. Ég stoppaði í rúman hálftíma og þegar ég var að kveðja hittist svo vel á að fjölskyldan á efri hæðinni var að koma heim. Ég fékk leyfi til að kíkja inn hjá þeim og hvað allt var orðið breytt og svo yndislega öðruvísi. Þau ætla að hóa í mig þegar þau verða búin að ljúka við flestar breytingarnar og koma sér enn betur fyrir. Þá fæ ég líka örugglega að taka myndir. Annars var ég komin heim stuttu fyrir klukkan sex.