Ég pakkaði niður um verslunarmannahelgina og lagði af stað á sunnudeginum. Ákvað að taka stuttan, en kunnuglegan túr. Kom við í Fossheiðinni en stoppaði svo tvær nætur á Hellu hjá pabba. Kvaddi hann rétt upp úr klukkan hálfníu á þriðjudagsmorguninn og lagði af stað austur á bóginn. Hugurinn bar mig sterkt og frekar hratt í áttina til æskuvinkonu minnar. Stoppaði ca fjórum sinnum á leiðinni, mislengi. Keypti mér kaffibolla á N1 við Kirkjubæjarklaustur og fékk að nota salernið. Stoppaði næst á mjög góðum nestis-stopp-stað rétt vestan við Hala. Gat pissað í hvarfi örstutt frá, inn á milli hóla. Svo stoppaði ég reyndar aftur á Hala, hefði líklega ekki stoppað nema vegna þess að það setti mig smávegis út af laginu á rétt austan við afleggjarann voru tveir lögreglubílar, sjúkrabíll og tveir tjónaðir bílar. Ákvað á núll einni að fá mér kaffi og eplatertu á Þórbergssetrinu og tæma blaðrið betur. Sjúkrabíllinni var farinn, þegar ég hélt áfram för, en lögreglan stjórnaði umferðinni þar sem ekki var hægt að mætast við tjónuðu bílana. Stoppaði einu sinni enn nokkru áður en beygt er að leiðinni um Öxi. Vel gekk að keyra yfir Öxi og var ég komin á Egilsstaði rétt upp úr klukkan hálfsex. Byrjaði á því að finna Atlantsolíu og fylla á bílinn áður en ég lagði fyrir utan hjá vinkonu minni. Stoppaði á Egilsstöðum fram á hádegi á föstudag. Við vinkonurnar fórum m.a. tvisvar sinnum í sund en vorum hvorugar spenntar yfir að keyra mikið um austfirðina. Höfðum um margt að spjalla enda leið tíminn alltof hratt.
Var komin til systur minnar seinni partinn á föstudeginum. Hún var með matarboð um kvöldið en einn frændi okkar, bróðursonur mömmu konan hans og tveir synir voru í bústað í Hlíðarfjalli. Áður en kvöldinu lauk vorum við búin að sammælast um að fara saman á smakkið á Fiskideginum mikla á Dalvík fyrir hádegi á laugardeginum. Það var mjög skemmtilega upplifun og um kvöldið fórum við systur aftur á staðinn til að upplifa tónleikana á eigin skinni. Ég fór tvisvar sinnum í sundlaugina á Akureyri og fannst hún frábær í alla staði. Við hittum frændur okkar einu sinni enn í kaffi og vöfflum hjá Helgu systur eftir að við tvær vorum búnar að kíkja aðeins á handverkshátíðina. Stoppaði á Akureyri alveg til hádegis á þriðjudaginn. Hafði þá samband við eina frá Hellu sem býr á sveitabænum Óslandi skammt frá Hofsósi. Hún sagðist geta tekið á móti mér seinni partinn, var að erindast inn á Króknum. Ég keyrði í gegnum Dalvík, Ólafsfjörð, Siglufjörð og nokkur göng og fékk mér smá sundsprett í sundlauginni á Hofsósi. Og keyrði í hlaðið á Óslandi rétt á undan hinum Rangæingnum. Mér var boðið í kaffi, kvöldmat og loks gistingu sem ég þáði. Eftir morgunkaffið í gær skrapp ég með henni aðeins í búð á Hofsós og rúntaði hún með mig um svæðið og sagði mér frá því helsta. Klukkan var orðin eitt þegar ég þakkaði fyrir mig og kvaddi. Var leyst út með gjöfum, handverki og heimagerðri reyktri og saltaðri rúllupyslu. Keyrði um Sauðárkrók suður, stoppaði aðeins í Staðaskála og var komin heim rétt fyrir klukkan sex.