15.8.19

Komin heim úr hringferðalaginu

Ég pakkaði niður um verslunarmannahelgina og lagði af stað á sunnudeginum. Ákvað að taka stuttan, en kunnuglegan túr. Kom við í Fossheiðinni en stoppaði svo tvær nætur á Hellu hjá pabba. Kvaddi hann rétt upp úr klukkan hálfníu á þriðjudagsmorguninn og lagði af stað austur á bóginn. Hugurinn bar mig sterkt og frekar hratt í áttina til æskuvinkonu minnar. Stoppaði ca fjórum sinnum á leiðinni, mislengi. Keypti mér kaffibolla á N1 við Kirkjubæjarklaustur og fékk að nota salernið. Stoppaði næst á mjög góðum nestis-stopp-stað rétt vestan við Hala. Gat pissað í hvarfi örstutt frá, inn á milli hóla. Svo stoppaði ég reyndar aftur á Hala, hefði líklega ekki stoppað nema vegna þess að það setti mig smávegis út af laginu á rétt austan við afleggjarann voru tveir lögreglubílar, sjúkrabíll og tveir tjónaðir bílar. Ákvað á núll einni að fá mér kaffi og eplatertu á Þórbergssetrinu og tæma blaðrið betur. Sjúkrabíllinni var farinn, þegar ég hélt áfram för, en lögreglan stjórnaði umferðinni þar sem ekki var hægt að mætast við tjónuðu bílana. Stoppaði einu sinni enn nokkru áður en beygt er að leiðinni um Öxi. Vel gekk að keyra yfir Öxi og var ég komin á Egilsstaði rétt upp úr klukkan hálfsex. Byrjaði á því að finna Atlantsolíu og fylla á bílinn áður en ég lagði fyrir utan hjá vinkonu minni. Stoppaði á Egilsstöðum fram á hádegi á föstudag. Við vinkonurnar fórum m.a. tvisvar sinnum í sund en vorum hvorugar spenntar yfir að keyra mikið um austfirðina. Höfðum um margt að spjalla enda leið tíminn alltof hratt.

Var komin til systur minnar seinni partinn á föstudeginum. Hún var með matarboð um kvöldið en einn frændi okkar, bróðursonur mömmu konan hans og tveir synir voru í bústað í Hlíðarfjalli. Áður en kvöldinu lauk vorum við búin að sammælast um að fara saman á smakkið á Fiskideginum mikla á Dalvík fyrir hádegi á laugardeginum. Það var mjög skemmtilega upplifun og um kvöldið fórum við systur aftur á staðinn til að upplifa tónleikana á eigin skinni. Ég fór tvisvar sinnum í sundlaugina á Akureyri og fannst hún frábær í alla staði. Við hittum frændur okkar einu sinni enn í kaffi og vöfflum hjá Helgu systur eftir að við tvær vorum búnar að kíkja aðeins á handverkshátíðina. Stoppaði á Akureyri alveg til hádegis á þriðjudaginn. Hafði þá samband við eina frá Hellu sem býr á sveitabænum Óslandi skammt frá Hofsósi. Hún sagðist geta tekið á móti mér seinni partinn, var að erindast inn á Króknum. Ég keyrði í gegnum Dalvík, Ólafsfjörð, Siglufjörð og nokkur göng og fékk mér smá sundsprett í sundlauginni á Hofsósi. Og keyrði í hlaðið á Óslandi rétt á undan hinum Rangæingnum. Mér var boðið í kaffi, kvöldmat og loks gistingu sem ég þáði. Eftir morgunkaffið í gær skrapp ég með henni aðeins í búð á Hofsós og rúntaði hún með mig um svæðið og sagði mér frá því helsta. Klukkan var orðin eitt þegar ég þakkaði fyrir mig og kvaddi. Var leyst út með gjöfum, handverki og heimagerðri reyktri og saltaðri rúllupyslu. Keyrði um Sauðárkrók suður, stoppaði aðeins í Staðaskála og var komin heim rétt fyrir klukkan sex.

2.8.19

Ferðaundirbúningur hafinn í huganum

Skutlaði N1 syninum á vakt í Skógarselið um hálfátta í gærmorgun og fór beinustu leið í sund. Áður en ég fór að heiman hafði ég fyllt skúringafötuna af köldu vatni og hraðsuðukönnuna einnig. Ástæðan var sú að kvöldið áður fékk ég tilkynningu frá veitum að lokað yrði fyrir kalda vatnið í götunni frá klukkan níu til klukkan fimm. Kom heim úr sundi upp úr klukkan níu. Ákvað að bíða með að búa til kaffi þar til ég kæmi heim af Qi-gong æfingu um hádegið. Fór á Klambratúnið í stuttbuxum og hlýrabol með peysu bundna um mittið. Dagurinn leið fremur hratt þótt ég væri ekki að gera neitt sérstakt.

Í morgun skutlaði ég N1 syninum á vakt í Mosfellsbæinn stuttu fyrir sjö og fór að sjálfsögðu beint í sund á eftir. Dagurinn hefur annars farið í alls konar. Er búin að lesa 4 bækur af 8 af safninu, ganga frá endum á tveimur tuskum og fitja upp á enn einni tuskunni.


1.8.19

Dagsferð með vinkonu

Var komin í sund rétt upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Hitaði mér kaffi og fékk mér hressingu þegar ég kom heim aftur stuttu fyrir níu. Náði að lesa smávegis en stoppaði ekki mjög lengi heimavið. Tók mig til fyrir dagsferð um Suðurlandið. Skutlaði N1 syninum á aukvakt í Kópavoginn rétt fyrir tíu og sótti eina vinkonu mína og jafnöldru sem býr þar stutt frá. Leyfði henni að ráða hvaða leið við færum út úr bænum en markmiðið var m.a. að heilsa upp á pabba um miðjan dag.

Það var ákveðið að fara um Mosfellssveit og taka svo leiðina á Þingvöll, framhjá Laxnesi. Stoppuðum samt ekkert á Þingvöllum. Fyrsta stopp var á Laugavatni þar sem við kíktum á staðinn sem nefndur er Fontana. Fengum okkur smá hádegishressingu og ég einn kaffibolla að auki. Löbbuðum aðeins um svæðið og ákváðum báðar með sjálfum okkur að koma seinna og prófa þetta laugardæmi við vatnið.

Næst gerðum við örstutt stopp á Friðheimum, eingöngu til að skoða og rölta um. Svo lá leiðin á Sólheima í Grímsnesi. Lagði bílnum mjög ofarlega svo við gætum rölt meira um, enda skráði síminn á mig sjálfvirkan göngutúr. Fengum okkur íspinna í hressingu og sátum um stund úti í sólinni í 21°C hita. Eftir þetta stopp lá leiðin yfir í næstu sýslu. Vorum komin á Hellu um þrjú. Pabbi tók vel á móti okkur, var að hitta þessa vinkonu mína í fyrsta sinn. Ég hitaði kaffi og gerði eina soppu af pönnukökudeigi og steikti á tveimur pönnum. Eftir kaffið tók ég út þorskblokkir að beiðni pabba en hann bauð okkur svo í tveggja tíma bíltúr um Rangárvelli. Fórum eystri leiðina að Keldum þar sem við gerðum smá stopp. Síðan fórum við upp hjá Gunnarsholti og komum niður hjá Heiði. Klukkan var að verða sjö þegar við komum aftur á Hellu. Pabbi horfði á fréttirnar á meðan ég útbjókvöldmatinn, steiktan fisk og gufusoðið grænmeti (blómkál, sæt kartafla, 1 laukur og hálft grænt epli að auki). Fljótlega eftir kvöldmatinn kvöddum við pabba og ég skilaði vinkonu minni heim að dyrum nákvæmlega 12 tímum eftir að ég sótti hana.

30.7.19

Ferðavikur valdar hjá Atlantsolíu

Á miðvikudaginn var gerði ég mér ferð á bókasafnið í Kringlunni. Fór labbandi að heiman með allar fjórar bækurnar af safninu í bókasafnspoka í bakpoka og þrjá bækur til að setja í gjafahilluna. Átta bækur komu með mér heim af safninu. Skilafrestur er 30 dagar eða til 23. ágúst n.k. og þar að auki get ég framlengt um aðra þrjátíu daga ef ekki verður búið að panta neina af bókunum. Er búin að lesa þrjár af þessum átta; Perlan eftir Birnu Önnu Björnsdóttur, Auðna eftir Önnu Rögnu Fossberg og Blóðskuld eftir Michael Connelly. Allt voru þetta grípandi og mjög spennandi bækur, sérstaklega seinni tvær. Ég er nýlega búin að lesa Skáldið eftir sama höfund og síðast nefnda bókin og af þessum átta bókum voru tvær eftir þann höfund svo ég á eina þar til góða. Mæli eindregið með þessum bókum og fjölskylduskáldsagan Auðna er byggð á sönnum atburðum, mjög vel skrifuð og sérlega spennandi.

Fór aftur í Qi gong á Klambratúni klukkan ellefu á fimmtudaginn var. Hitti þar m.a. esperanto vinkonu mína og tvær aðrar sem voru að tala um að fara á samskonar æfingu í Elliðaárdalnum morguninn eftir á vegum "Orkan í öndvegi". Ég var komin til Inger klukkan tíu morguninn eftir og uþb hálftíma seinna röltum við yfir á Aflagranda til að hitta hinar tvær. Önnur af þeim var á bíl og brunaði með okkur allar fjórar að orkuhúsinu við Rafstöðvarveg þar sem fólk var byrjað að safnast saman vegna æfingarinnar. Leiðbeinandinn/kennarinn faðmaði alla hvort sem hún þekkti okkur eða ekki og svo var labbað aðeins inn í dalinn og farið ég mjög skemmtilegan lund til að iðka æfingarnar. Að tíma loknum fengum við smá tesopa og súkkulaðibita þeir sem vildu. Þetta reyndist síðasti útitíminn þarna, þetta sumarið. Við fjóreykið sem urðum samferða á æfinguna tókum tveggja tíma göngu um dalinn áður en við brunuðum til baka.

Á sunnudaginn, rétt fyrir tólf, var ég staðinn upp til að taka mig til í Helluferðalag þegar síminn hringdi. Sú sem var á línunni var að athuga hvort ég væri á leiðinni á Hellu, en dóttir hennar (bróðurdóttir mömmu) og 2 börn, hún sjálf og maðurinn hennar (bróðursonur pabba) ætluðu í heimsókn til pabba þennan dag. Frænka mín hefur verið búsett í Danmörku síðustu 23 árin, eða síðan hún var tvítug. Ég var komin austur á hellu fyrir klukkan tvö, rúmum einum og hálfum tíma á undan gestunum og náði m.a. að steikja pönnukökur eftir einfaldri uppskrift af netinu. Það sem pönnsurnar slógu í gegn hjá öllum en sérstaklega yngstu kynslóðinni, Elíasi Frey 8 ára  síðan í byrjun júní og Agnesi Maríu sem verður sjö ára seint í nóvember.

Ég var aðeins eina nótt á Hellu í þetta skipti og kvaddi pabba um eitt leytið í gær til að gefa mér góðan tíma til að heimsækja hjónin sem ég var hjá í sveit fermingarsumarið mitt. Ég hafði haft samband kvöldið áður til að athuga hvernig stæði á og fékk þau viðbrögð að húsmóðirin yrði heima og það yrði tekið á móti mér. Hitti líka alla þrjá syni þeirra, eina tengdadóttur og 2 afsprengi, annað þeirra fætt um miðjan júní sl. Einn sonurinn hefur unnið hjá RB nokkur síðustu ár þannig að við erum vinnufélagar.

Í morgun mætti ég í Laugardalslaugina rétt upp úr sjö. Kom heim stuttu fyrir níu, bjó til hafragraut fyrir þrjá og hellti upp á tvo bolla af kaffi fyrir mig. Ýtti við N1 syninum áður en klukkan varð hálftíu svo hann hefði tíma til að fá sér aðeins að borða áður en ég skutlaði honum á 12 tíma vakt í Stórahjalla. Um ellefu var ég mætt á Klambratúni. Kona frá "Tveir heimar" var leiðbeinandi í dag með mjög góðar æfingar. Á eftir tók ég stuttan göngutúr heim en þó nógu langan til að síminn skráði hann sjálfvirkt. Við einkabílstjórinn skruppum í Sorpu og Krónuna og á heimleiðinni kom hann við á Hárhorninu og lét snyrta hár og skegg sem hefur ekki verið gert í marga, marga mánuði.

23.7.19

Tvíburarnir mínir 23 ára í dag

Ég var komin upp í rúm um tíu í gærkvöldi en las reyndar í hálftíma áður en ég sveif inn í draumalandið. Var samt vöknuð klukkan fimm í morgun, alveg klukkutíma á undan áætlun. Tosaði mig framúr rétt fyrir klukkan sex, fékk mér lýsi, eitt harðsoðið egg, tvö vatnsglös steinefnablöndu og nutrilenk áður en ég dreif mig í sund. Mætti í Laugardalslaugina rétt eftir opnun ca 6:35 og hitti fyrir þónokkra af  "morgunfólkinu" mínu. Fór tvær ferðir í þann kalda áður en ég synti 400m og fór þriðju ferðina í besta pottinn. Svo dagaði ég næstum því uppi í saltpottinum á eftir. Fór fjórðu ferðina í þann kalda og endaði í gufunni áður en ég fór uppúr og beint í kalda sturtu um hálfníu. Tveir góðir tímar í sundinu. Hellti upp á sterkt og gott kaffi þegar ég kom heim um níu og eftir þrjú korter ætla ég að vera mætt út á Klambratún og taka þátt í Tai-chi/Qi-gong æfingu. Það getur svo vel verið að ég hræri í nokkrar vöfflur eftir hádegi í dag. Afmælisbörnin ætla að sofa út og eyða kvöldinu með pabba sínum. Þeir fara út að borða og í bíó. Ég ætla hins vegar á heimaleik hjá "stelpunum" mínum. :-)

22.7.19

Hugað að fararskjótanum

Fyrsti virki frídagur runninn upp. Nýliðinni helgi eyddi ég allri í bænum. Var mætt í sund á slaginu klukkan átta á laugardagsmorguninn. Einum og hálfum tíma seinna var ég að "detta" inn hjá esperanto vinkonu minni, beint úr sundi. Við lásum hálfa blaðsíðu í Kon-Tiki en við vorum mættar í Nauthólsvík aðeins fyrir klukkan ellefu. Fundum ekki Tai-chi/Qi-gong hópinn þar svo líklega hefur tíminn fallið niður. Við fórum í tæplega hálftíma göngutúr áður en ég skilaði henni heim. Um hálftvö labbaði ég af stað niður í bæ, heiman að frá mér. Hitti aftur esperanto vinkonu mína sem var mætt ásamt annarri í bakgarðinn við Júmfrúna rétt rúmlega tvö. Þær voru búnar að finna 4 stóla en þrátt fyrir að enn væri tæp klukkustund fram að viðburði:20. júlí – Latínband Tómasar R. Hér mun enginn sitja kyrr! Tómas R. Einarsson: kontrabassi, Óskar Guðjónsson: tenórsaxófónn, Ómar Guðjónsson: gítar, Sigtryggur Baldursson: kóngatrommur, Samúel Jón Samúelsson: básúna og slagverk, voru öll borð úti upptekin. Sú fórða mætti tíu mínútum á eftir mér. Þá voru hinar tvær farnar í röðina að útvega sér eitthvað að drekka og borða. Ég var ekki í stuði til að fara í neina röð en jazzinn hlustaði ég á frá klukkan þrjú til klukkan fjögur. Við sátum fyrir aftan sviðið og sáum þá ekki spila, en fyrir mig gerði það ekkert til. Góður fílingur og þrátt fyrir að gerði eina örstutta hellidembu þá var veðrið himneskt mest allan tímann. Engu að síður fórum við af staðnum þegar hljómsveitin fór í smá pásu. Ég lagði leið mína á torgið til Lilju vinkonu hún var að byrja að ganga frá.Hitti á Ingibjörgu Tómasdóttur og Ragnar manninn hennar. Við Inga spjölluðum stuttlega saman. Held hreinlega að við höfum ekkert hist augliti til auglitis síðan í nóvember 2014, aðeins verið í stopulu síma- og email-sambandi. Ein af hinum þremur samferðakonum mínum, stökk upp í strætó áleiðis upp í Breiðholt. Hinar tvær stoppuðu aðeins við sölubásinn en röltu svo saman vestur í bæ. Þegar Lilja var búin að ganga frá og ferma hjólið knúsaði ég hana bless og rölti heim á leið.

Í gær var ég vöknuð upp úr klukkan sjö en hafði mig ekki alveg strax framúr og í sund. Fór að hlusta á Rás 2. Þegar ég kom fram suttu fyrir hálftíu var N1 sonurinn að koma fram og hann átti að vera mættur á vakt í Kópavoginn klukkan tíu. Ég skutlaði honum í vinnuna og fór svo í sund. Þegar ég var búin með 2 ferðir í þann kalda og 500m hitti ég á fyrrum mágkonum mömmu og við "slæptumst" saman alveg til klukkan að byrja að ganga eitt. Við fórum tvær ferðir saman í þann kalda en hún er að byrja að þjálfa sig upp í hann aftur, vorum smá stund í nuddpottinum, góða stund í sjópottinum og löbbuðum einn hring í kringum útisundlaugina. Var komin heim upp úr klukkan hálfeitt. Tæpum tveimur tímum seinna rölti ég yfir í Norræna húsið þar sem ég hitti esperanto vinkonu mína fyrir. Náði að fá mér 1 hvítvínsglas til að taka með mér út í glerhýsi áður en tónleikarnir hófust: Norræna húsið opnar glerdyrnar að nýju og býður þér á tónleika undir björtum himni, alla sunnudaga í sumar kl. 15:00. frá 16. júní – 11. ágúst 2019. Tónleikaröðin fer fram í fallegu umhverfi gróðurhúss Norræna hússins og laðar að sér bæði íslenska og erlenda tónlistarunnendur. Frítt er inn á alla tónleikana.
Indieelectro hljómsveitin Omotrack hefur spilað og komið fram á tónlistarhátíðum víðsvegar umÍsland og erlendis frá og með árinu 2015. Nafn hljómsveitarinnar er dregið af litla  þorpinu OmoRate. Annar bróðirinn hefur séð um sunnudagaskóla óháða safnaðarins með konu sinni sl. tvo vetur.
Í morgun var ég vöknuð um sex en eiginlega næstum jafn lengi að koma mér á fætur og í gærmorgun. Mætti í Laugardalslaugina um átta. Sinnti hefðbundinni rútínu og var ekkert að flýta mér. Eftir sundið fór ég með bílinn á smurstöðina við Laugaveg 180 og lét smyrja hann. Frá smurstöðinni lá leiðin á N1 dekkjaverkstæðið við Fellsmúla til að láta laga loftleka á tveimur dekkjum. Þrátt fyrir að vera ekki með N1 kort var nóg að gefa upp kennitölu N1 sonar míns til að fá afslátt.

19.7.19

Sumarfrí

Hætti vinnu um hálfþrjú í dag, kvaddi vinnufélagana og labbaði heim. Verð að segja frá því að upp úr hádeginu í gær fannst mér endilega vera kominn föstudagur. Var að ganga frá vinnuskýrslunum og senda frívikurnar til samþykktar hjá framakvæmdastjóra. Þegar ég ætlaði að senda inn þessa viku skildi ég í fyrstu ekkert í því að það voru engir tímar skráðir á föstudag. Fyllti út fyrirskipaða 7 klukkutíma en sendi þó ekki þessa viku til samþykktar fyrr en eftir hádegi í dag.

Annars hefur vikan verið fljót að líða. Fór í sund eftir vinnu á þriðjudaginn en um hálffjögur á miðvikudaginn sótti ein fyrrum samstarfskona mín, vinkona og jafnaldra mig í vinnuna og við fórum saman í heimsókn til þeirrar þriðju sem er einum 12 árum eldri en við. Sú var líka að vinna á kortadeildinni í um áratug eða svo. Við þrjár hittumst reglulega en það var liðinn óvenju langur tími frá síðasta hittingi. Við hittumst  á kaffihúsinu í Perlunni einhvern tímann í febrúar sl. Við höfðum um margt að spjalla og klukkan var orðin hálfsjö þegar við jafnöldrurnar kvöddum og hún skutlaði mér heim.

Þvílíkt blíðviðri sem var í gær. Labbaði heim úr vinnu um hálffjögur. Hellti mér upp á ca tvo bolla af kaffi og fékk mér flatköku með hummus. Hringdi í pabba áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Það var auðvitað margt um manninn, aðallega á sólbekkjunum en ég komst amk 3 sinnum í þann kalda og fékk pláss á einni brautinni. Nennti samt ekki að synda merira en 300 metra.

Verð í sumarfríi næstu 33 dagana og er ákveðin í að njóta alls tímans í botn.

16.7.19

Þrír virkir vinnudagar eftir fram að sumarfríi

Á sunnudagskvöldið, smurðum við systur slatta af flatkökum með hangiketi og rúlluðum upp uþb 40 pönnukökum. Í gærmorgun vorum við pabbi langfyrst á fætur, nokkru fyrir klukkan sex, og höfðum meira að segja tíma til að leggja nokkra kapla áður en við fórum í sund. Fór fjórum sinnum í kalda karið, synti í tuttugu mínútur, þar af 25m skriðsund og aðra 25m baksund. Ég fór í heitan pott og gufu en ég fór ekki í rennibrautirnar með pabba, heldur horfði á hann nánast hlaupa upp tröppurnar 33 í tvígang því hann fer eina ferð í hvora rennibraut. Fengum okkur kaffi á staðnum á eftir. Vorum komin í Hólavanginn upp úr klukkan hálfníu. Fljótlega hrærði ég í eina pönnsuposjón og var nýbúin að ljúka við að steikja úr hrærunni þegar Helga systir kom fram. Við kældum kökurnar aðeins áður en við drifum í að setja sultu og rjóma og raða þeim upp.

Jóna Mæja og Reynir komu um eitt og voru með eplatertu og auka rjómasprautu með sér. Pabbi stillti duftkerinu, sem og mynd af mömmu og kertinu sem voru á gestabóksborðinu í útförinni, upp á stofuskáp. Upp úr tvö fórum við að raða upp bollum og diskum en klukkan var langt genginn í þrjú áður en fleira fólk mætti.Byrjað var að drekka kaffið upp úr þrjú. Allt í allt urðum við 19. Allir voru komnir um fjögur. Við vorum öll komin á Keldur um fimm. Pabbi, Reynir og Hjörtur (maður Önnu Báru frænku minnar) hjálpuðust að við að taka smá torfu af leiðinu hennar "litlu Önnu" og bora meters holu. Moldinni var safnað í hjólbörur. Við pabbi hjálpuðumst að við að láta duftkerið síga rétt niður í holuna og Helga systir tók helling af myndum á vélina hans pabba. Þessi gjörningur tók vel innan við klukkustund og á eftir fóru allir og fengu sér meira kaffi og með því á Hellu. Allt hafði gengið mjög vel og allir sáttir.

14.7.19

Á Hellu

Systir mín og mágur byrjuðu í sumarfríi upp úr hádegi sl. föstudag og lögðu fljótlega af stað með yngri dóttur sína og tvo hunda suður og eiginlega alla leið austur á Hellu í næstum einni lotu. Eldri dóttirin og kærastinn hennar voru nýlega komin úr reisu frá London og ætla ekki að taka sér meira frí í bili.  Ég var búin að hugsa minn gang, ákveða og segja mörgum frá áætlunum mínum um að vera í bænum um helgina en drífa mig og strákana með mér austur upp úr hádegi n.k. mánudag, 15. júlí. Mér fannst þetta plan alveg ágætt en bæði Helga systir og pabbi vildu fá mig fyrr austur því þegar ég hringdi í pabba um miðjan dag í gær fékk ég m.a. að tala við Helgu og hún spurði afhverju ég væri ekki komin austur. Endirinn varð sá að þau skutust í bæinn, hún og pabbi, á nýja bílnum hans og sóttu mig. Þar með geta strákarnir komið austur á mínum bíl á morgun.

Vorum komin austur upp úr klukkan hálfátta í gærkvöldi. Kvöldið fór í kapallagnir, grín og glens. Í morgun útbjó ég tvær kaldar brauðtertur og upp úr hádeginu hrærði ég í 3 pönnsu-posjónir, eina í einu. Bauð upp á einn skammtinn í kaffitímanum en hina tvo ætlum við að rúlla upp og/eða setja smá sultu og rjóma í fyrramálið.

Sonurinn sem fór á Eistnaflugshátíðina á Neskaupsstað var að hringja rétt áðan frá Akureyri. Samferðalangarnir fóru austurleiðina austur sl. miðvikudag en eru greinilega að koma norðurleiðina til baka í dag.

12.7.19

Óstuð í skrifum

Júlí nálgast það að vera hálfnaður. Ég á eftir að vinna í fjóra virka daga í næstu viku og þá er ég komin í fjögurra og hálfs vikna sumarfrí. Framundan er löng helgi. Annar tvíburinn fór á hina árlegu Eistnaflugshátíð á Neskaupsstað með vinum sínum sl. þriðjudag og kemur ekki heim aftur fyrr en á sunnudaginn. Hinn tvíburinn er að vinna í dag (og í gær) og um helgina.

Ég er loksins búin að lesa síðustu jólabókina; Brúðan eftir Yrsu Sigurðardóttur sem ég fékk frá Helgu systur og fjölskyldu. Lauk við hana rétt upp úr síðustu helgi. Ég fór á bókasafnið þann 2. júlí og skilaði öllum bókum sem ég var með. Kom með fjórar ólíkar bækur heim, engin af þeim með skammtíma lán þannig að ég má hafa þessar alveg til og með 1. ágúst. Er þó þegar búin með eina bók; Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra eftir Halldór Laxness Halldórsson, og langt komin með aðra: Óvelkomni maðurinn eftir Jónínu Leósdóttur.

Síðan síðasta strætókort rann úr gildi þann 2. apríl sl. hef ég aðeins tvisvar sinnum farið á bílnum í vinnunna alla hina dagana, nema nokkra sem ég fór ekki í vinnu vegna lasleika og sálfræðivitala, hef ég labbað báðar leiðir. Hef alltaf haft kling á mér til að geta "hoppað" upp í strætó ef ég þyrfti. Var einu sinni nýlega að hugsa um að nota þetta klink en fann það ekki í bakpokanum fyrr en daginn eftir. Það var allan tíman í dós undan hafkalki í bakpokanum en ég hef greinilega ekkert átt að vera að nota strætó. Enda er ég stundum alveg jafn lengi að labba heim eins og að taka strætó upp úr klukkan hálffjögur/fjögur. Síminn er búinn að hanga á mér síðan klukkan sjö í morgun og skv. SAMSUNG Healt forritinu er ég búin að ganga rétt rúmlega 13600 skref í dag.

27.6.19

Bókaormur

Fór síðast á bókasafnið rétt fyrir miðjan júní og skilaði af mér 5 bókum þar af tveimur sem átti að skila í síðasta lagi þann 18. Var með tvær bækur eftir heima sem skila á 4. júlí n.k, Sonurinn eftir Jo Nesbö og Eftirbátur eftir Rúnar Helga Vignisson. Tók aðeins 3 bækur, þar af eina stutta ljóðabók, allar með 30 daga skilafresti. Mæli mjög með bókinni Líkblómið eftir Anne Mette Hancock. Aðeins ein bók af safninu er ólesin en ég er byrjuð á henni og líst vel á þá sögu; Svartalogn eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Stefni að því að vera búin með þá bók fyrir fjórða júlí og skila þá af mér öllum bókasafnsbókunum.

26.6.19

Þyrfti helst að setja upp e-s konar blogg-rútínu

Það getur verið gott að taka sér pásur og það er sérstaklega gott að vinna markvisst að því að halda sig meira frá tölvunni. En það er líka frekar erfitt að skrá niður það sem gerist hjá mér og í kringum mig ef það eru margar vikur á milli færslna. Ætti að geta komið með einhver stikkorð/setningar um það helsta en akkúrat núna er ég með takmarkaðan tíma til að festa þetta niður. Ég get þó sagt að ég hafi ekki slegið slöku við lesturinn eða tuskuprjónaskapinn, er "útskrifuð" frá sálfræðingun eftir 4 góða samtalstíma (má þó alltaf hafa samband ef ég tel mig þurfa þess). Pabbi er búinn að sækja duftkerið sem ákveðið hefur verið að setja niður hjá "litlu Önnu" daginn sem mamma hefði orðið 75 ára og þá verður akkúrat vika þar til aðal sumarfríið mitt byrjar. Pabbi er kominn á nýjan bíl og búinn að selja þann gamla. Systir mín, mágur, hundarnir og yngri systurdóttir mín komu suður helgina fyrir 17. júní. Áttum góða helgi saman á Hellu þar sem við skruppum m.a. upp að Heiði. Þetta var svona það allra helsta. Vona að það verði ekki margar vikur þar til næst, en kannski einhverjir dagar. Sjáum til með það, ætla ekkert að lofa neinu.

4.6.19

Og þá er kominn júní

Í gær fékk ég bæði sms og mail frá Blóðbankanum. Ég kom því við þar á leið heim úr vinnunni í mína 52. heimsókn. Vel gekk að gefa en ég varð að sleppa því að skreppa í sund og potta svo ég fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim um hálffimm. Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn, prjónaði, las og horfði á danska þáttinn á RÚV.

Ég fékk líka skilaboð frá bókasafninu í gær um að skiladagur væri að nálgast á einni bók, bókinni sem var með 14 daga skilafresti. Þótt sá frestur hafi verið til 5. júní ákvað ég að skreppa á safnið eftir vinnu í dag þegar ég væri hvort sem er á leiðinni í sund. Skilaði fimm bókum af sex. Er byrjuð að lesa þá sjöttu. En það "eltu" mig sex bækur heim og þar af eru tvær með 14 daga skilafresti. Hvar endar þetta eignlega?

Annars er ég komin með 9. tuskuna á prjónana. Er ekki enn búin að prófa að hekla eitt stk tusku, en það er nóg eftir af garni, sér varla högg á vatni í pokanum.

29.5.19

Maí alveg að verða búinn

Hvernig fer tíminn eiginlega að því að æða svona hratt áfram? Ég er búin að vera dugleg við lesturinn undanfarið og hef heimsótt bókasafnið á ca hálfsmánaða fresti aðallega vegna þess að ein að bókunum sem koma með mér heim í hvert skipti er með 14 daga skilafrest. Næ að klára að lesa hluta af hinum bókunum og skila í leiðinni en þótt ég skilji eftir ólesnar bækur heima kem ég alltaf með 4-6 bækur með mér heim. Á miðvikudaginn var skilaði ég nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar Stúlkan hjá brúnni og þar áður Krýsuvík eftir Stefán Mána. Var annars að ljúka við lestur á bókinni Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shaffer & Annie Barrows. Bókin gerist rétt eftir seinni heimstyrjöldina og er framvinda sögunnar sett upp í sendibréfum. Þessi bók greip mig heljartökum. Byrjaði á henni sl. sunnudag og lauk við hana aðfaranótt þriðjudags. Var ekki heima á mánudagskvöldið. Hefði geta farið á heimaleik í Pepsí-deild kvenna en milli sex og rúmlega hálfátta var ég á Bjórgarðinum að kveðja einn vinnufélaga og þaðan fór ég svo beint í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar. Var mætt hjá henni rétt fyrir átta og fimm mínútum síðar var klukkan byrjuð að ganga tólf.

Var ekki í vinnu í gær. Var að hitta sálfræðinginn í 3. sinn og líkt og í hin skiptin tók ég mér heilan veikindadag. Ég finn að þetta samtal er að gera mér gott og ég finn líka að ég geri rétt með því að taka nokkra tíma í þetta. Sálfræðingurinn var að hvetja mig til að halda einhvers konar tilfinningadagbók fyrir sjálfa mig. Það er smá áskorun því það er orðið mjög langt síðan ég skrifaði eitthvað niður á blað ef mér leið ekki mjög vel. Ég er nokkuð viss um að það mun gera mér gott að taka þessari áskorun. Svo stefnan er að finna eða útvega mér stílabók og byrja á þessu verkefni sem fyrst. Punkta niður líðan mína daglega sama hvernig mér líður og grufla þá í því hvort eða hvað sé að flækjast fyrir mér og hvernig ég geti létt á mér og skilið eftir eitthvað sem er alveg óþarfi að burðast með dags daglega út lífið.

14.5.19

Rúmur mánuður

Það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig en samt hef ég leyft tímanum að þjóta hjá án þess að setja niður staf um eitt eða neitt af því. Ég er mikið búin að lesa, prjóna, labba, synda, pottormast og fara á hina og þessa viðburðina, hitta vinkonur og fleira og fleira.. Og svo er ég búin að gera eitt tvisvar sinnum sem ég hef aldrei gert áður. Var við það að brotna saman í vinnunni um daginn, ekki alveg viss nákvæmlega út af hverju en ákvað að prófa að fá að tala við sálfræðing. Ferlið var þannig að ég lét mannauststjóra og framkvæmdastjórann minn vita að ég væri ekki alveg að fúnkera og að þegar samstarfstarfsfólki mínu væri farið að líða illa í kringum mig þá þyrfti ég að athuga minn gang. Þetta var fyrir páska. Tveim dögum eftir að ég sendi þessi skilaboð hitti ég mannauðsstjóra og talaði við hana í rúma klukkustund, beygði aðeins af fyrstu mínúturnar sem er frekar ólíkt mér. Við, mannauðsstjórinn, ákváðum í sameiningu að ég myndi fara og bera mig upp við trúnaðarlækni fyrirtækissins morguninn eftir en hún sendi mér líka rafrænt bréf á einkanetfangið mitt með alls konar tillögum. Hitti lækninn strax morguninn eftir og við ákváðum að ég skildi prófa að tala við sálfræðing. Læknirinn tók niður gsm-númerið mitt og tveim dögum seinna hafði sálfræðingurinn samband og gaf mér tíma síðasta mánudaginn í apríl. Mér skilst að vinnan mín greiði fyrir allt að 10 tíma. Ég fékk líka að ráða því að hafa það þannig að ég tæki mér heilan veikindadag fyrir þennan eina tíma. Fyrsta viðtaliið gekk bara vel, fannst gott að fá tækifæri til að velta upp og tala um ýmsa hluti. 50 mínútur voru afar fljótar að líða og okkur kom saman um að hittast aftur. Sá tími var í gær og fékk ég að hafa þetta eins, taka heilan veikindadag og ráðstafa honum að vild. Fór í sund í gærmorgun og hellti upp á kaffi þegar ég kom heim upp úr klukkan tíu. Sálfræðitíminn var klukkan eitt. Það fór á sama veg, 50 mínútur voru fljótar að líða og mér fannst ég ekki vera búin að tala út eða finna alveg afhverju mér leið svona illa og hafði allt á hornum mér í vinnunni fyrri partinn í apríl. Það getur vel verið að það sé fleira en eitt og meira en tvennt sem er að naga mig að einhverju leyti. En á meðan mér finnst það gera mér gott að tjá mig við fagmenntaðan einstakling ætla ég að þyggja það að taka nokkra tíma enn.

8.4.19

Nagladekkin komin á dekkjahótel

Það fór eins og mig grunaði, ég dvaldi fyrir austan alveg framyfir kvöldfréttir og kvöldmat. Upp úr tvö hrærði ég í pönnsur. Pabbi ákvað að fá sér göngutúr á meðan og fór alla leið í búðina til að kaupa rjómapela. Skrapp aðeins til Möggu og Sævars í Nestúnið eftir pönnsukaffið. Þar voru þau úti á palli ásamt tveimur börnum sínum, tengdasyni, gesti (núverandi bónda á Helluvaði), dóttur hans og þremur barnabörnum. Sátum ekki lengi útivið. Dóttir þeirra hjóna og hennar fjölskylda búa í bænum og þegar sonur þeirra var orðinn úrvinda og farinn að biðja um að fara heim kvöddu þau. Við Magga sátum svo í góða stund inni í stofu hjá henni og spjölluðum um lífið og tilveruna.

Við pabbi ákváðum að ég skyldi taka sumardekkin með mér í bæinn, sóttum þau í skúrinn upp úr klukkan sex og settum tvo hjólbarða í skottið og tvo afturí. Ég fékk að sjá um matinn. Steikti þorsk og hafði kartöflur, gulrætur og lauk með. Um það leyti sem Landanum lauk kvaddi ég pabba og dreif mig heim. Fékk ekki stæði í Drápuhlíðinni en fann ágætis stæði í Blönduhlíðinni.

Fór gangandi í vinnuna í morgun og þegar ég kom heim aftur ákvað ég að keyra við hjá hjólbarðaþjónustu N1 við Fellsmúla og athuga hvort þeir gætu ekki umfelgað, sett sumardekkin undir og geymt fyrir mig nagladekkin. Maðurinn í afgreiðslunni sagði að það væri amk klukkutíma bið en féllst á að taka bíllykilinn og fá hjá mér símanúmer á meðan ég tæki smá göngutúr. Ég kíkti aðeins í A4, Rúmfatalagerinn og Hagkaup. Þegar ég tók upp símann til að athuga með hvað tímanum liði sá ég að ég hafði misst af símtali, nokkrum mínútum áður en það var ekki einu sinni liðinn nema uþb hálftími. Borgaði rúm 15 þúsund fyrir umfelgun og hálfs árs hótelgeymslu og fór svo beint í sund.

6.4.19

Á Hellu

Aðra helgina í röð er ég komin í sveitasæluna á Hellu og það er ljóst að hér verð ég til morguns og líklega alveg frameftir degi þá og jafnvel fram á kvöld. Var komin austur rétt upp úr klukkan tvö. Eftir kaffi, um fjögur, skrapp ég með nokkrar bækur til nöfnu minnar (vinkonu mömmu) og mömmu eins bekkjarbróður míns í grunnskóla. Þar kom vel á vondann. Hún var heimavið að endurlesa og langt komin með eina bók eftir Camillu Läckberg og var farin að spá í hvað hún ætti að lesa í kvöld og næstu daga. Hún ákvað að taka til skoðunnar allar fjórar bækurnar sem ég var með, tvær eftir Lizu Marklund og aðrar tvær eftir Boris Akunin. Stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma.

Pabbi notaði tækifærið og fór í sinn nýlega daglega göngutúr á meðan ég var í þessari heimsókn. Á fimmtudaginn var labbaði ég í fyrsta skipti til og frá vinnu síðan í haust og sama dag sá pabbi að það var orðið vel göngufært fyrir eldri borgara með staf. Strætókortið mitt rann úr gildi eftir 2. apríl sl. og þann 3. fór ég á bíl í vinnuna í fyrsta skipti síðan fyrsta virka daginn á þessu ári. Hætti vinnu fyrir hálfþrjú þann dag og byrjaði á því að sækja mér nýja lykil fyrir fyrirtækjabankann v/hússjóðs Drápuhlíðar 21. Úr bankanum fór ég beint í sund og svo kom ég við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Var komin heim rétt fyrir fimm. Davíð Steinn tjáði mér að hann ætti að taka vakt frá klukkan sex til klukkan tíu á N1 í Fossvogi milli Reykjavíkur og Kópavogs. Það eru aðeins strætóstoppistöðvar á Kringlumýrarbraut við Kringluna og svo við Hamraborg. Það var boðaður saumaklúbbur hjá mér þetta kvöld um átta. Ég ákvað að hringja í þá sem býr í húsbílnum sínum í Moso og bjóðast til að sækja hana í fyrra fallinu og bjóða henni í mat. Hún þáði það með þökkum. Davíð Steinn var mættur á vaktina ca tíu mínútum fyrir sex og uþb tuttugu mínútum seinna var ég kominn upp í Mosó. Við Lilja vorum komnar í Drápuhlíð um hálfsjö, sáum Odd Smára tilsýndar en hann hafði verið kallaður á aukavakt. Bauð Lilju upp á steikta þorskhnakka með kartöflum. Hnakkana fékk ég hjá einni sem vann með mér á kortadeildinni í meira en tíu ár. Hennar maður er vélstjóri á sjó og kemur stundum með þorsk, ýsu og eða þorskhnakka í tíu kílóa öskjum. Ég keypti af þeim tíu kíló á mánudagskvöldið var og skipti þeim niður í þónokkra frystipoka með tveimur flökum í.

Í gær skráði síminn á mig alls fjóra göngutúra. Til og frá vinnu og svo skrapp ég gangandi í Lífspekifélagið og var mætt rétt fyrir átta og komin heim aftur upp úr klukkan hálftíu eftir fróðlegan fyrirlestur sem var m.a. um ffh, fljúgandi furðuhluti.

29.3.19

Vinnuvikulok og bráðum mánaðamót

Ég er tiltölulega nýkomin heim úr Lífspekifélaginu. Þar hélt Þórarinn Friðriksson fyrirlestur sem bar yfirskriftina: Í minningu vinar og gelísk áhrif. Efnið var mjög áhugavert og vel flutt. Þórarinn sagði svo frá því að það væri að koma út bók sem hann tók saman um gelísk orð í íslenskunni. Eftir erindið skrapp ég aðeins upp á efri hæðina, fékk mér kaffibolla og kleinu og spjallaði við nöfnu mína sem var með erindi um spring forest qi gong í félaginu fyrir nokkrum vikum.

28.3.19

Snjór

Það var snjókoma úti þegar ég trítlaði út á strætóstoppistöð á leið í vinnuna um hálfátta í morgun. Þétt snjókoma á köflum. Kom heim aftur úr vinnu rétt fyrir fjögur með strætó í ágætisveðri. Staldraði stutt við heima. Hringdi í pabba og tók svo til sunddótið, dall undir fisk og kúst til að sópa af bílnum. Eftir að hafa sópað af bílnum lá leiðin í Fiskbúð Fúsa og keypti mér nætursaltaða ýsu í soðið. Síðan lá leiðin í Laugardalinn og tók uþb klukkutíma rútínu í þann kalda, laugina og gufuna.

27.3.19

Kiljan

Kom við heima eftir vinnu til að sækja sunddótið mitt og ákvað að skila tveimur bókum á safnið í leiðinni. Flýtti mér út af safninu eftir að hafa skilað bókunum. Er enn með fjórar bækur af safninu og það er nóg næstu tvær til sex vikurnar.

Var komin fyrstu ferðina í kalda pottinn klukkan hálffimm, var búin að synda 500 metra áður en klukkan var orðin fimm og komin aftur í pottinn. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu. Lét þetta svo gott heita en gaf mér góðan tíma í hárþvott og hárblástur á eftir.

Kom heim um sex og var búin að finna til kvöldmatinn áður en klukkan varð hálfsjö. Gekk frá öllum endum í appelsínugula sjalinu sem datt endanlega af prjónunum í hádegishléinu. Fitjaði jafnfram upp á nýju sjali í nýjum lit.