2.12.25

Starfsmaður no 86, það er 68 afturábak

Ekkert varð úr göngutúr í gær en ég kláraði að skrifa bréf og jólakort sem fara út fyrir landsteinana; bréf og kort á ensku til Manchester, bréf og kort á dönsku til Jótlands og jólakort á íslensku til Stavanger. Eldaði mér líkja smávegis af bleikjubitum, sem ég átti og á í frysti, í kvöldmatinn. Í morgun var ég komin í stund á svipuðum tíma og í gærmorgun, var á sömu braut en nú synti ég aðeins 400m, flestar ferðir á bakinu. Þvoði mér um hárið og var mætt í Mjóddina rétt fyrir klukkan níu. Þar tóku nafni og nafna á móti mér. Siggi heilsaði og spjallaði smá en ég fór niður í stóra fundaherbergið með starfsmannastjóranum fyrsta klukkutímann og fyllti út alls konar skjöl varðandi ráðningarmálin. Um tíu færðum við okkur upp í minna herbergi þar sem búið var að bóka hitt herbergið. Þar var mér úthlutaður sér aðgangur og vinnunetfang og kynnt fyrir mig helstu verkfærin sem ég mun þurfa að læra á eða nota. Kann nú ýmislegt fyrir mér í bæði tímon og teams en annað verð ég að gefa mér aðeins betri tíma í að skoða og læra á. Áður en við hættum þessari yfirferð, um hálffjögur leytið, gaf hún mér peysu merkta Frumherja. Kom við í pósthúsinu við Dalveg á leiðinni heim. Morgundagurinn verður pottþétt mun lengri. Ef ég vil fara í sund fyrir vinnu verð ég að vera mætt um hálfsjö. Á að mæta á stöðina í Skeifuna stuttu fyrir átta og þar mun sú sem er að fara að flytja sig úr afgreiðslunni í afgreiðsluna á Selfoss eftir hálfan mánuð, setja mig inn í málin og hjálpa mér af stað. 

1.12.25

Auka færsla og breyttur taktur

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex og mætt á braut 8 tuttugu mínútur yfir sjö. Synti 500m, helminginn skriðsund eins og í gær. Var 5 mínútur í þeim kalda, um tíu mínútur í gufunni og sjópottinum og dýfði mér svo í nokkrar sekúndur í þann kalda áður en ég fór upp úr og í osteostrong. Sló met á þremur tækjum af fjórum og var alveg við mitt besta á fjórða tækinu. Færði líka tímann til klukkan fimm síðdegis á miðvikudögum. Mætti í annað viðtal í Þarabakka 3 kl. hálftíu. Framkvæmdarstjórinn og stöðvarstjórinn í Skeifunni voru með mér á þeim fundi. Fundurinn var ekki langur, ca korter en gekk vel. Framkvæmdastjórinn sagðist myndu hafa samband við mig innan dagsins. Mér skilst að yfir 90 manns hafi sótt um stöðuna. Rétt fyrir klukkan tólf fékk ég sms frá osteostrong um að ég ætti tíma hjá þeim strax á miðvikudaginn kemur. Á eftir að hringja í þá til að fella þann tíma niður, vil ekki byrja á miðvikudags tímunum fyrr en í næstu viku. Upp úr klukkan hálfeitt fékk ég svo rafrænan póst frá "nafna" mínum og frænda, Frumherji vill fá mig í liðið sitt og hann spurði hvort ég gæti mætt í Mjóddina klukkan níu í fyrramálið. Hvort ég get, vííí ég er komin með nýja vinnu. Þess vegna ætla ég að skipta um takt í blogginu og kemur næsta færsla ekki inn fyrr en einhvern tímann eftir að ég kem heim úr vinnu á morgun. 

Ekkert sund í gær

Svaf til klukkan að verða níu í gærmorgun. Oddur virtist sofa ágætlega í stofunni og hann rumskaði ekki fyrr en nokkru eftir að ég kom á fætur. Ég bjó til hafragraut um tíu. Rétt fyrir eitt skutlaði ég Oddi í Mjóddina þar sem hann tók strætó á Selfoss korter yfir heila tímann. Ég skrapp sjálf í Kringluna. Skilaði þremur bókum á safnið og tók tvær í staðinn. Er þá með þrjár af safninu hérna heima. Kíkti á tvo aðra staði í Kringlunni áður en ég fór aftur heim.