Var komin á fætur upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt á braut 8 í Laugardalslauginni. Synti 500 metra, var 6 mínútur í þeim kalda, uþb korter í gufunni og dagaði svo næstum því uppi í sjópottinum. Þar hitti ég m.a. eina sundvinkonu mína sem bað mig helst um að hætta ekki að mæta í Laugardalslaugina þótt ég væri að flytja í Kópavoginn. Kom heim stuttu fyrir hálfellefu. Sýslaði ýmislegt fram yfir hádegi og hugsaði m.a. næstu skref. Esperanto vinkona mín kom labbandi úr vesturbænum um eitt. Bauð henni upp á te og svo hjálpaði hún mér að fara yfir stóran hluta af því sem eftir var í fataskápnum. Sumt þarf að skola aðeins úr í þvottavél og sumt ákvað ég að myndi fara í fatagám. Settum svo eitthvað meira úr kassa úr eldhúsinu og ég tæmdi að mestu það dót sem var eftir í baðherbergissúffunum. Fljótlega eftir að tvíburahálfsystir mín mætti á svæðið fórum við í að ferma bílana. Nú er nánast búið að tæma geymsluna. Bílarnir fylltust reyndar ekki en við ákváðum engu að síðar að bruna yfir í Kópavoginn. Fengum stæði á planinu framan við innganginn. Sumt af dótinu fór niður í geymslu. En fórum líka með slatta upp í íbúð og gengum frá í skápa og skúffur svo það verði ekki fyrir málaranum. Ég skutlaði Inger heim til hennar. Sonja skrapp aðeins heim til sín að ná í nokkra hluti en hún kom aftur í Drápuhlíðina rétt á eftir mér. Við nánast kláruðum að pakka eldhúsið niður. Það eru flestir skápar tómir, bara eftir í einni hillu í einum skáp. Ég setti líka megnið af sorteruðum fötunum í stóran glæran kassa og einn poka. Ég átti von á konunni sem ákvað að taka borðstofuborðið um sex leytið. Hún og dóttir hennar komu rétt fyrir hálfsjö og þá hittist svo vel á að innkeyrslan var laus. Þær mæðgur voru með einhver verkfæri til að skrúfa boðið í sundur og það vildi svo vel til að Sonja gat lánað þeim skrúfjárn. Allt komst fyrir í bílnum og stólarnir fjórir líka. Eftir að mæðgurnar voru farnar fermdum við bílinn hennar Sonju og fórum eina ferð á einum bíl í Núpalindina. Gengum frá dótinu og komum til baka með balann og kassana. Þá var klukkan langt gengin í átta og við stöllur orðnar sáttar og ánægðar með dagsverkið. Þvílíkur munur að fá svona góða aðstoð, bæði við að pakka, yfirfara hluti og ganga frá þeim á hinum staðnum. En það er líka frekar tómlegt í holinu þar sem borðstofuborðið var undanfarin rúmu 21 ár.
13.10.25
12.10.25
Aðeins byrjuð að færa dót yfir með góðri aðstoð
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Var mætt í sund um átta rétt eftir að opnaði. Fór beint á braut 7 og synti 500 metra þar af 200 skrið. Hitti eina miðjunafns nöfnu mína í kalda pottinum og sat fyrir vikið í honum á sjöundu mínútu. Hitti hana aftur í gufunni og þá sagði hún mér að hún væri tvíeggja tvíburi. Var mætt á Sólvallagötuna rétt fyrir tíu og komin heim fyrir hálftólf. Tvíburahálfsystir mín sótti mig um eitt og við skruppum í Slippfélagið til að skoða liti. Valdi 1/2 Hör, sem er vinsælasti liturinn í dag, og sendi málaranum sms. Fórum yfir í Drápuhlíðina en Sonja varð reyndar að leggja bílnum á stæði við Blönduhlíð. Það var mikil rigning og við veltum því fyrir okkur hvort við þyrftum að skera niður stóra plastpoka til að vernda kassana. Sonja þvoði upp hnífana og dótið í hnífaskúffunni. Ég tók frá þau eldhúsáhöld sem ég þarf á að halda hérna í Drápuhlíðinni. Pökkuðum slatta af hinu niður og einnig eldhústækjum sem ég vissi að ég gæti sett í skápa í Núpalindinni. Tvíburahálfsystir mín setti borðstofuborðið og stólana á svæði á Facebook þar sem hlutir eru gefins gegn því að verða sóttir. Hún var nýbúin að pósta auglýsingunni þegar ég fékk fyrstu hringinguna. Sá aðili sagðist geta komið um sjö. Ég fékk einnig aðra hringingu og mér skilst að það hafi komið þónokkrar fyrirspurnin undir auglýsingunni. Það var annars hætt að rigna þegar við byrjuðum að ferma bílinn minn. Svo hafði losnað stæði við hliðina á innkeyrslunni svo Sonja sótti bílinn sinn og við settum slatta í hann líka. Mig minnir að við höfum verið komnar í Núpalindina fyrir klukkan þrjú. Byrjaði á því að sýna Sonju íbúðina en svo fórum við niður á fyrstu hæð þar sem geymslan er. Vorum rétt að verða búnar að tæma úr seinni bílnum þegar ég fékk fyrstu heimsóknina. Frænka mín og nafna, sem m.a. hjálpaði mér að undirbúa opna húsið í Drápuhlíð, og maðurinn hennar komu og fengu skoðunarferð um geymsluna fyrst. Hann hjálpaði okkur með dót í lyftuna og inn í íbúð. Hann sá eitt og annað sem þyrfti aðeins að lagfæra, ekkert stórmál en mjög góðar ábendingar. Gestirnir kvöddu á fimmta tímanum þá var Sonja langt komin með að raða dóti í skúffur og skápa í eldhúsinu. Ég hafði fengið sms frá þeim sem ætlaði að taka borðið um að hann yrði að hætta við vegna plássleysis í bíl. Sem betur fer var ein af þeim sem sendu skilaboð undir auglýsinguna á biðlista og ég var í sms sambandi við hana í gærkvöldi. Við tvíburahálfsysturnar ákváðum svo að láta gott heita og kvöddumst um fimm. Ég kom við í Krónunni í Skeifunni á leiðinni heim þótt Krónan í Lindum væri rétt hjá Núpalind. Sú búð er reyndar alveg stórfín.
11.10.25
Búin að flytja lögheimilið
Spenningurinn yfir að vera að fá íbúðina við Núpalind afhenta var það mikill að ég var vöknuð fyrir klukkan fimm í gærmorgun. Fór í sund um sjö leytið og var komin heim aftur rétt rúmlega níu. Rétt fyrir ellefu var ég mætt í Kópavoginn. Rebekka var þegar mætt. Eftir yfirferð yfir íbúðina fékk ég loksins að sjá geymsluna. Það var nýbúið að klára að tæma hana og einn bróðir hennar var akkúrat að taka með sér síðustu kassana. Fékk þrjú sett af lyklum og vitneskju um að fjórða og síðasta settið myndi skila sér í póstkassann um kvöldið. Eftir að Rebekka var farin fór ég aftur upp í íbúð. Tók nokkur snöpp og myndir og ákvað að skilja eitt lyklasettið eftir. Það er annars engin hætta á að ég muni læsa mig úti því það þarf að læsa utanfrá og það er hægt að tvílæsa. Áður en ég fór heim kom ég við í Fiskbúð Fúsa. Keypti harðfisk, kartöflur, bleikjuflak og þorskhnakkaflak. Þorskinn setti ég í frystinn þegar ég kom í Drápuhliðina. Setti upp kartöflur og rétt sauð svo upp á bleikjunni í vatni krydduðu með sítrónupipar, karrý og cayanne. Eftir matinn ákvað ég að fara á ísland.is og skrá nýtt lögheimili. Um hálftvö sendi ég rafrænan póst á málara sem tvíburahálfsystir mín hafði mælt með. Klukkutíma síðar hringdi umræddur málari og við mæltum okkur mót í Núpalindinni um hálffimm. Ég lagði af stað um fjögur vitandi að umferðin er þung á þessum tíma. Var komin ca sjö mínútum fyrr. Rétt rúmlega hálf hringdi málarinn. Þá var hann reyndar rétt ókominn en hafði aðeins tafist í umferðinni. Hann gerði mér tilboð og mælti með lit en hvatti mig til að fá að skoða litinn í Slippfélaginu. Fékk heitið á litnum og tilboðið í sms. Mér leist það vel á tilboðið að ég afhenti málaranum lykla af útihurð og hurðinni inn í íbúð. Hann og aðstoðamaður hans munu mála tvær umferðir yfir loft, veggi og glugga og í bað- og þvottaherbergi nota mygluvörn. Hann áætlaði að verða búinn um 20. okt. Ég get samt verið að flytja skáp úr skáp og úr geymslu í geymslu og tæmt smám saman hjá mér hér í Drápuhlíðinni. Á einhverjum tímapunkti þarf ég svo að kaupa mér nýtt rúm. Það væri best fyrir málarana að ég hinkraði með það á meðan þeir eru að mála. En til að kóróna daginn þá fékk ég sms frá HHÍ um hálfátta í gærkvöldi um 20.000kr vinning og það eru aðeins þrír mánuðir síðan ég fékk vinning upp á sömu upphæð.
10.10.25
Fæ afhent í dag
Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Laugardalinn. Var rétt á eftir kalda potts vinkonu minni sem var líklega búin að synda um 100m þegar ég kom á braut 7. Synti 500m á uþb 23 mínútum, flestar ferðirnar á bakinu en smá skriðsund með. Á eftir fórum við stöllur fjórar ferðir í þann kalda, eina í þann heitasta, eina í 42°C pottinn, góða ferð í gufuna og sjópottinn. Var komin heim aftur rétt fyrir tíu. Um hálfeitt fékk ég hringingu frá þeirri sem kvittaði upp á sölu á tveggja herbergja íbúðinni á 4. hæð við Núpalind sex og sagðist mundu vilja afhenda mér í dag föstudag. Við komum okkur saman um tíma. Ég varð bæði spennt og slök á sama tíma. Ekkert varð úr neinum göngutúr en ég hef ekkert samviskubit yfir því. Stundum þarf ekki að gera bæði að synda og ganga. Var komin upp í rúm fyrir tíu í gærkvöldi og las í smá stund. Fiðrildin í maganum fara stækkandi, vissan um að allt sé að ganga eftir áætlun og að það fer að sjá fyrir endann á þessum fasteigna viðskiptum og búferla flutningum. Hef uþb þrjár vikur en vonast til að ég verði búin að tæma fyrr, fá þrif og geta afhent Drápuhlíðina einhverjum dögum fyrr en 30. okt nk. Sjáum til og tökum einn dag í einu.
9.10.25
Engin hola
Gærdagurinn byrjaði óþarflega snemma. Tók því frekar rólega framan af. Útbjó mér hafragraut um tíu. Um ellefu var ég komin að Nauthólsvík en þar voru engin stæði á lausu svo ég skrópaði í sjóinn og fór aftur heim. Um hálfþrjú fór ég labbandi, í hressandi roki, upp í Valhöll en þar á þriðju hæð er tannlæknirinn minn. Ég átti árlegan tím um þrjú. Var mætt skömmu áður. Klukkan var að verða hálffjögur þegar ég var kölluð í stólinn. Yfirferðin tók enga stund og allt í besta standi. Þessi heimsókn kostaði rúmar átjánþúsund krónur. Kom við í Álftamýrinni hjá móðurbróður mínum og fjölskyldu og stoppaði við í rúma klukkustund áður en ég labbaði heim.
8.10.25
Allt rólegt
Vaknaði útsofin rétt um hálfsex í gærmorgun. Var komin í sund á svipuðum tíma og á mánudaginn. Gaf mér heldur lengri tíma í sund, pottarölt og gufu en var þó komin heim aftur rétt fyrir níu. Á tólfta tímanum skrapp ég aftur út í rúmlega klukkutíma göngu. Fór sama hring í kringum Öskjuhlíðina en að þessu sinni kláraði ég hann án þess að stoppa og mældist hann rúmlega 5,5km skv símaforritinu. Annars var ég bara slök í gær. Viðurkenni þó að þegar síminn hringdi stuttu eftir að ég kom heim úr göngunni hélt ég í augnablik að nú væri komið að því að ákveða afhendingu á íbúðinni í Núpalind. En svo reyndist ekki vera og sá ég það strax og ég tók upp símann. Á línunni var frænka mín og nafna, líklega alveg jafn spennt og ég, að spyrja frétta. Mín tilfinning er sú að ég verði búin að fá afhent fyrir næstu helgi en það kemur allt í ljós mjög fljótlega.
7.10.25
Þriðjudagur
Korter yfir sjö í gærmorgun var ég komin á braut 7. Synti 500m og hafði ágætis tíma í potta og gufu rútínu á eftir. Fór þó aðeins tvisvar í þann kalda og seinna skiptið var aðeins smá dýfa. Um hálfníu var ég mætt í Hátún 12 í osteostrong tíma. Það var smá bið í örfáar mínútur en samt var ég búin og komin út í bíl aftur um níu. Heima fékk ég mér hressingu og var svo alveg slök þar til klukkan að verða tvö. Skrapp þá út í göngu hringinn í kringum Öskjuhlíðina sem ég skipti niður í tvær göngulotur. Annars er fátt að frétta í augnablikinu.
6.10.25
Hratt líður stund
Vaknaði á slaginu hálfsjö í gærmorgun. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt á braut átta í Laugardalslauginni. Gaf mér góðan tíma í sund, potta, gufu og spjall og var klukkan orðin hálfellefu þegar ég kom heim aftur. Á tólfta tímanum flysjaði ég sæta kartöflu og skar niður ásamt nokkrum regnbogagulrótum og setti í pott ásamt smá vatni og salti. Tíu mínútum eftir að suðan kom upp sauð ég upp á bleikjuflaki, í vatni sem ég kryddaði með karrý, sítrónupipar og cayanne pipar. Hafði tekið flakið úr frysti áður en ég fór í sundið. Borðaði helminginn af þessu í hádeginu ásamt nokkrum pikkaló tómötum. Dagurinn leið ótrúlega hratt miðað við að ég var ekki að gera neitt sem er í frekari frásögur færandi. Aldrei þessu vant var klukkan svo byrjuð að ganga ellefu áður en ég skreið upp í rúm með bók eftir Katrine Engberg, Krókodíllinn.
5.10.25
Sunnudagur
Mætti í sund rétt rúmlega átta eða rétt eftir opnun í gærmorgun. Fór beint á braut 8 og synti 500m áður en ég fór í þann kalda. Þar ætlaði ég aðeins að vera uþb 4 mínútur. Hitti svo skemmtilegt fólk að ég gleymdi mér aðeins og var í rúmar sex mínútur. Eftir 12 mínútur í gufunni og aðrar 12 í sjópottinum var ég 3 mínútur í kalda áður en ég fór upp úr og heim. Um hádegisbilið var ég mætt til esperanto vinkonu minnar sem bauð upp á smá veislu áður en við lásum nokkrar blaðsíður í Kon Tiki. Stuttu fyrir klukkan tvö fórum við svo saman á "pop up" málverkasýningu í Skútuvogi. Fasteignasalinn, vinkona mín Vilborg, er búin að fá nokkur alþjóðleg verðlaun, viðurkenningar og umfjöllun um málverkin sín. Þetta var mjög kraftmikil sýning og við Inger tókum þrjá hringi um svæðið, hughrifin voru svo mögnuð. Þarna hitti ég svo fyrir eina sem ég kynntist í sundi. Sú er að mestu hætt að stunda Laugardalslaugina, fallinn fyrir Sundhöllinn. Frétti það fyrst þarna að hún og Vilborg eru frænkur. Við Inger stoppuðum í tæpan klukkutíma af tveimur, það var enn að streyma að fólk þegar við kvöddum. Tókum smá rúnt yfir í Kópavog áður en ég skutlaði henni aftur heim.
4.10.25
Kaupsamningur undirritaður
Gærdagurinn hófst frekar snemma hjá mér í gær. Var komin á fætur einhvern tímann á sjötta tímanum. Leyfði klukkunni þó að verða sjö áður en ég lagði af stað í sund. Fór beint á braut 7 og synti 500m, skriðsund aðra hverja ferð. Eftir kaldan pott og smá gufu settist ég næstum því að í sjópottinum. Ég var nú samt komin heim aftur um níu leitið. Tuttugu mínútum yfir tíu var ég komin á fasteignasöluna Domus Nova með tvö plögg meðferðis. Fasteignasalinn bauð mér kaffi en ég bað um vatn og var nýsest inn í fundarherbergið þegar handhafi seljenda og maðurinn hennar mættu á slaginu hálfellefu. Farið var yfir það helsta og það kom í ljós að ég átti víst að vera með eitt plagg enn með mér. Það kom þó ekki að sök því fasteignasalinn var með það í rafrænum pósti sem hún gat prentað út. Skrifað var undir öll viðeigandi skjöl og ég borgaði fyrstu innborgun á íbúðina og gerði einnig upp umsýslugjald við fasteignasalann. Á kaupsamningum stendur að íbúð eigi að afhendast eigi síðar en 17. okt. n.k. en mér skilst að það eigi bara eftir að fá þrif svo það eru góðar líkur að ég verði búin að fá afhent fyrir næstu helgi. Ég hringdi í Odd um leið og ég kom út í bíl. Hann svaraði ekki en hringdi til baka áður en ég var komin út af planinu svo hann var fyrstu að fá fréttirnar. Ég hringdi svo í fasteignasalann minn þegar ég kom heim. Hringdi reyndar nokkur önnur símtöl í gær en ég fór líka í smá göngu og kom aðeins við á Grettisgötunni hjá Lilju vinkonu, sem var mjög hissa að sjá mig en tók að sjálfsögðu vel á móti mér.
3.10.25
Fössari
Vaknaði frekar snemma í gærmorgun, eða upp úr klukkan fimm. Fór þó ekki á fætur fyrr en um klukkustund síðar og var mætt í sund fyrir klukkan hálfátta. Fór fyrst í þann kalda og svo á braut 2 þar sem ég synti 400m, flesta á bakinu. Eftir tvær ferðir í viðbót í þann kalda, smá gufu og næstum hálftíma í sjópottinum þvoði ég mér um hárið og fór svo beint heim. Fékk mér hressingu en stoppaði ekki lengi heima. Labbaði á heilsugæsluna skömmu fyrir tíu þar sem ég átti pantaðan tíma í leghálsskoðun, sennilega næstsíðasta skiptið. Það er smá skömm að segja frá því að það eru liðin heldur fleiri en fimm ár frá síðustu sýnatöku. En ef allt er eðlilegt á ég víst bara eftir að fara einu sinni enn því þessari skimun er hætt eftir að kona er orðin 64 ára. Ferlið gekk annars hratt og vel og ég var komin heim aftur tíu mínútur yfir tíu. Rétt fyrir hálfþrjú var ég mætt á fasteignasöluna Bæ sem er með skrifstofu í Skútuvogi. Þar hitti ég kaupendurna af Drápuhlíðinni og að þessu sinni voru þau með yngri dóttur sína með sér þar sem það var starfsdagur í leikskólanum. Allt ferlið vegna sölunnar, yfirferð og undirskriftir tók tæpa klukkustund. Mér létti stórlega þegar samningur kvað á um að afhending yrði í síðasta lagi eftir 4 vikur, má vera fyrr en það færi þá eftir því hvenær ég fæ afhent og hversu langan tíma það tekur að tæma, flytja og fá þrif. Kemur allt í ljós á næstu vikum. Ég lagði svo leið mína upp á N1 við Gagnveg til að heilsa aðeins upp á N1 soninn og í bakaleiðinni heimsótti ég fyrrum fyrirliða og samstarfskonu sem einnig er á starfslokasamningi. Stoppaði hjá henni í rúman hálftíma og hitti einnig þrjá káta kettlinga. Kom heim upp úr klukkan fimm.
2.10.25
Málin að þokast áfram
Ég átti tíma hjá augnlækni korter yfir átta í gærmorgun. Þetta var þriðja heimsóknin á árinu til að ganga úr skugga að blettur í hvítunni á öðru auganu væri ekki að breytast. Allt leit eins út og enn er heldur engin ástæða fyrir mig að nota önnur gleraugu en lesgleraugu í styrk plús 1,5. Næsti tími var bókaður eftir rétt rúmt ár. Um tíu leytið útbjó ég mér hafragraut. Mætti í Nauthólsvík um ellefu. Sjórinn var 9,4°C en fyrir fjórum árum var hann 6°C. Synti út að kaðli, gaf mér góðan tíma í gufunni á eftir og skrapp svo aftur út í sjó í uþb 5 mínútur. Þegar ég var á leiðinni í bílinn aftur eftir þessa hressandi stund sá ég að ég hafði misst af símtali við fasteignasalann minn. Hafði víst líka fengið sms sem ég sá ekki fyrr en ég var búin að hringja til baka. Ég er boðuð á fasteignasöluna um hálfþrjú í dag. Eftir að ég var komin heim gerði ég tilraun til að hringja í fasteignasalann sem hefur með Núpalindina að gera. Fékk skilaboð um að hringt yrði til baka. Það símtal kom um fjögur. Reyndar sagði fasteignasalinn að hún hefði verið búin að hringja fyrr en ég varð ekki vör við þá hringingu. Ég fékk líka að vita að ég fengi ekki afhent strax og kaupsamningur er kominn í gang sem ég var mjög hissa en það verður þá bara aðeins flóknara ferlið við flutningana sem eru framundan. Ákvað að drífa mig á bókasafnið um fimm leytið. Skilaði þremur bókum og kom heim með fimm. Ein af þeim er; LÚÐRASVEIT Ellu Stínu. Þessi bók kom út 1996 og er samasafn af örsögum og prósum sem ég er nú þegar búin að lesa einu sinni og finnst ekkert ólíklegt að ég muni lesa bókina aftur áður en ég þarf að skila henni.
1.10.25
Októbermánuður genginn í garð
Var mætt í sund upp úr klukkan sjö. Fór á braut 7 og synti 500 metra, skriðsund aðra hverja ferð. Fór tvær ferðir í þann kalda, tíu mínútur í gufuna en lengst var ég í sjópottinum. Kom heim aftur á tíunda tímanum. Annars er frekar lítið að frétta svo ég verð virkilega undrandi ef ekkert mun heyrast í fasteignasalanum í dag. Ég sýslaði við eitt og annað hér heima en fór ekkert út aftur. Bjó mér til frekar einfalda linsubaunasúpu í gærkvöldi og borðaði einn þriðja af henni.