Er ekki búin að taka fram prjónana og fitja upp á einhverju (sennilega enn einni tuskunni til að byrja með) en ég var dugleg að nudda örið í gær. Eftir göngutúr gærdagsins tók ég af mér spelkuna. Setti hana ekki upp aftur fyrr en ég var á leið í háttinn. Þegar til kom reif ég spelkuna aftur af. Líklega er best að fara að fjárfesta í einhverju betra til að vinna á bólgunni þar sem spelkan er farin að pirra mig og meiða. Spelkan er líka einungis til að styðja við og hlífa úlnliðnum inn á milli. Er enn meira meðvituð um að fara að nota hendina meira og sinnti léttari pappírsvinnunni með þeirri hægri á salerninu í morgun, í fyrsta skipti eftir fallið. Tókst líka að setja upp hárið í teygju áður en ég fór í sturtu í morgun. Það er pínu freistandi að láta klippa mig stutt næst þegar ég fer í klippingu en á móti kemur þá er það ágætis æfing að hemja hárið með teygju. Þurfti þrjár tilraunir áður en hárið var komið upp fyrir háls.
29.2.24
28.2.24
Smá námskeið
Oddur Smári kom á fætur um hálftíu í morgun að minni ósk. Þremur korterum síðar skutlaði hann mér upp í Fossvog. Átti að mæta á 7C. Fann bara A, B og E uppi á sjöundu hæð en ég var samt komin á réttan stað. Um hálfellefu átti að byrja fræðsla um úlnliðsbrot og æfingar til að ná sér. Það var beðið með að byrja í ca tíu mínútur áður en sjúkraþjálfinn vísaði okkur sex af sjö skráðum inn í "kennslustofu". Sjöundu manneskjunni var fylgt inn skömmu síðar. Öll vorum við með úlnliðsbrot, flest á hægri en tveir á vinstri. Þrjú af okkur höfðum verið toguð þar af ein þrítoguð. Hún og hin höfðu sloppið við aðgerð en við vorum tvö sem höfðum þurft að fara í aðgerð. Fengum að sjá tvær stærðir af plötum sem settar eru í úlnlið í aðgerðartilfellum. Ég komst að því að ég hefði alveg mátt taka fram prjónana fyrir nokkrum dögum. Prjónaskapur er góð iðjuþjálfun. Það var líka sagt að það tæki í kringum þrjá mánuði fyrir beinin að gróa en svo veltur það á þjálfuninni hversu fljótur maður nær upp sem mest af fyrri færni. Og ég þarf víst að vera dugleg að nudda örið. Sonurinn sótti mig rúmum klukkutíma síðar. Fékk mér skyr með krækiberjum og horfði á einn og hálfan þátt áður en ég fór út í 40 mínútna göngutúr.
27.2.24
Alls konar áskoranir
Sum mörk eru ekki mjög skýr og þá er vandinn að feta milliveginn. Á fyrstu vikum úlnliðsbrotsins sem og eftir aðgerðina var markmiðið að nota þá hægri sem allra minnst. Alveg frá upphafi var samt tekið fram að gott væri að hreyfa fingurnar reglulega. Eftir að spelkan var sett á voru fyrirmælin um að taka hana af þrisvar til fjórum sinnum á dag og gera þjálfunaræfingar. Óhætt væri að fara að sársaukamörkum. Mér fannst þetta ganga mjög vel fyrstu dagana. En nú er spelkan stundum farin að meiða mig svo ég er farin að taka hana oftar af og í lengri tíma. Þrátt fyrir nuddsárin eftir spelkuna finnst mér ennþá öryggi í að hafa hana á. Passa mig þá betur. Mörkin milli þess að gera það sem þarf til að þjálfa upp færni og styrk en fara þó ekki yfir strikið, því þá er líklegt að verði bakslag, eru samt alls ekki ljós þótt ég geti yfirleitt miðað við sársaukamörk.
24.2.24
Síðasta helgin í þessum mánuði
Sú hægri var frekar stirð og bólgin í gær. Tók engu að síður fjórar æfingalotur yfir daginn en hafði þær í léttari kantinum. Upp úr hádeginu skrapp ég í góðan göngutúr með viðkomu í apóteki í Suðurveri þar sem ég leysti út hinn skammtinn af lyfseðlinum sem sendur var í gáttina daginn sem aðgerðin var. Undanfarin kvöld hef ég tekið eina til tvær parkódín áður en ég fer að sofa og ég er ekki frá því að ég hvílist og sofi aðeins betur. Annars var ég að lesa og horfa á þætti í gær.
23.2.24
Verslunar og bókasafnsferð í gær
Eldri systurdóttir mín varð 24 ára í gær. Hringdi í hana um hádegisbilið. Um eitt leytið kom Oddur fram tilbúinn í að skutlast með mér á safnið og í Krónuna. Skilaði öllum sex bókunum og tók sjö stykki í staðinn. Ein af þeim er um fimmtu systurina, Tiggy, 640 blaðsíður. Er að sjálfsögðu byrjuð að lesa hana. Beint af safninu fórum við í Krónuna við Fiskislóð þar sem ég verslaði fyrir tæpar tuttuguogfjögurþúsund krónur. Ekkert varð af neinum labbitúr í gær, spenningurinn yfir lesefninu varð yfirsterkari.
22.2.24
Eymsli og bólgur
Var mjög bólgin og stirð í kringum hægri úlnlið og þumal í gær. Gat ekki beygt fingur eins mikið og ég var farin að geta. Þetta var svona langt fram eftir degi. Hugsanlega hef ég eitthvað ofgert mér. En ég tók samt fjórar æfingalotur yfir daginn. Ég tók líka bólgueyðandi. Labbaði líka í Fiskbúð Fúsa eftir harðfiski, ýsu og bleikju. Var nýlega komin til baka þegar Oddur kom fram og spurði hvort ég ætlaði að þvo á morgun. Hann var semsagt að panta þvottadag svo ég skellti sjálf í vél í gær, tók þvott frá Davíð Steini af snúrunni og hengdi sjálf upp þegar vélin var búin að gera sitt.
21.2.24
Það snjóar
Það var smá áskorun að setja teygju í hárið til að taka það saman upp á höfðinu áður en ég fór í sturtu í gærmorgun. Frá fallinu hafði ég gert mér að góðu að þvo mér með þvottapoka. Sturtuferðin var minna mál heldur en ég hélt. Upp úr hádeginu rölti ég á Hárhornið og fékk hárþvott og fasta fléttu hjá samstarfskonu Lilju. Lilja var með tvö verkefni í gangi en ég komst strax í stólinn hjá samstarfskonunni. Næst skrapp ég í heimsókn til Lilju vinkonu og stoppaði hjá henni í góðan klukkutíma áður en ég rölti aftur heim. Bræðurnir höfðu skroppið saman til ömmu sinnar og þeir voru ekki komnir heim þegar ég fór í háttinn upp úr klukkan hálftíu.
20.2.24
Hárþvottur, föst flétta og heimsókn
Ekkert varð úr bókasafnsferð í gær og bíður sú ferð betri tíma. Fór í einn hálftíma göngutúr og tók fjórar æfingalotur. Annars var ég bara aðhámhorfa á hina ýmsu þætti.
Spelkan er aðeins farin að meiða mig á köflum. Úlniður og þumall eru þó nokkuð bólgina á morgnana og þegar ég tek spelkuna af fyrir æfingar er ég nokkuð dofin á neðsta hlutanum á lófasvæðinu. Prófaði að taka spelkuna af þegar ég fór að sofa í gærkvöldi. Var sennilega eitthvað smeik við þann gjörning því ég svaf frekar órólega og þegar ég rumskaði um þrjú leytið setti ég spelkuna á mig aftur. Samt finnst mér allt vera í rétta átt, gerist bara á hraða snigilsins.
19.2.24
Bókasafnsferð á döfinni í dag
Var komin á fætur um átta leytið í gærmorgun. Settist fljótlega inn í stofu með fartölvuna í fanginu en var mjög meðvituð að vera ekki of lengi. Stuttu fyrir klukkan níu gerði ég fyrstu æfingalotuna af fjórum yfir daginn. Höndin var stirð og bólgin en lét þokkalega vel að stjórn. Um klukkutíma seinna skrapp ég í hálftíma göngutúr. Fór aftur í göngutúr um tvö leytið og var þá búin að taka tvær æfingalotur í viðbót. Þegar ég tók fjórðu og síðustu æfingalotu dagsins um fjögur leytið var höndin alls ekki eins bólgin og fyrr um daginn. Þumalfingur er "óþekkastur" og liðleikinn í úlnliðnum er langt því frá að vera upp á sitt besta. En engu að síður finnst mér þetta vera í rétta átt og er ákveðin í að vera þolinmóð og dugleg í senn. Í gærkvöldi kláraði ég svo að lesa síðustu bókina af safninu.
18.2.24
Allt í rétta átt
Í gær voru sex vikur frá því ég brotnaði. Vissi reyndar ekki fyrr en á sunnudagskvöldinu að ég væri brotin eftir að hafa farið í fyrstu röntgen myndatökuna G3 fyrir ofan bráðamóttökuna. Ef ekki hefði þurft að toga brotið til eða togunin virkað hefði ég losnað við gipsið á mánudaginn var. En ég ætla svo sem ekkert að vera að velta mér upp úr ef og hefði heldur vinna með það sem er.
Á föstudaginn fór ég í tvo göngutúra, annan um morguninn nákvæmlega 20 mínútna langan og hinn eftir hádegi sem varði í tæpan hálftíma. Samtals voru þetta um 3,5 km. Ég æfði úlnlið og fingur fjórum sinnum 15 skipti yfir daginn. Í gær tók ég líka 4 æfingalotur en fór í einn uþb 40 mínútna göngutúr sem var 3 km langur. Annars var ég að horfa á boltann, þætti eða lesa. N1 sonurinn hringdi um hádegið og bað mig um að senda Odd með verkja og bólgulyf til sín í vinnuna. Lánaði Oddi bílinn bæði í þessa sendiferð og svo áfram í heimsókn til pabba hans og fjölskyldu.
16.2.24
Þrjár vikur frá aðgerð
Sleppti göngutúrnum í gær. Tók þrjár æfingalotur yfir daginn og þrammaði upp og niður stigana í kringum 15 sinnum. Setti handklæði, tuskur, brækur og þvottapoka í þvottavélina og gat svo hengt upp alveg sjálf. Í gær var liðinn hálfur mánuður síðan Oddur fór með mér á bókasafnið. Er að lesa síðustu bókina af sex; Dularmögn eftir Dean Koontz. Búin með 226 bls. af tæplega 600. Er einnig búin að lesa jólabækurnar svo aldrei þessu vant er ég aðeins að lesa þessa einu bók en ekki þrjár til fjórar.
15.2.24
Febrúar uþb hálfnaður
Í gær var bæði öskudagur og dagur elskenda. Nágrannakonan í kjallaranum kom fram með þá tillögu að kalla daginn öskutínus og tileinka þeim sem sjá um að hirða fyrir okkur sorpið. Mér fannst það ágætis hugmynd. Æskuvinkona mín átti afmæli og Víkingur Heiðar hélt upp á fertugsafmælið sitt með sannkallaðri tónlistaveislu þegar hann spilaði Goldberg-tilbrigðin í Hörpu í beinni útsendingu á RÚV í gærkvöldi. Annars var ég þokkalega dugleg í öllum æfingum, fjórar æfingalotur, þrammaði stigana allt í allt rúmlega tuttugu sinnum og fór þar að auki í hálftímagöngutúr.
14.2.24
Mið vika
Ég er aðeins byrjuð að pikka með hægri og í gær prófaði ég að nota tölvumúsina í fyrsta sinn síðan 6. janúar sl. Tók þrjár æfingalotur yfir daginn, sumar upp í 15 skipti, þrammaði stigana nokkrum sinnum og fór út í stuttan göngutúr í gær. Labbaði 1,2 km hring á tæpum 18 mínútum svo ekki hef ég farið mjög hratt yfir. Þarf að yfirstíga þessa hræðslu við að detta, halda mér í formi og þjálfa upp færni í að nota hægri hendina. Verð þó að vera skynsöm. Það eru rétt að verða liðnar þrjár vikur frá aðgerðinni og ég held alls ekki að ég sé alveg gróin. Þetta er allt spurning um gera nóg en ofgera sér samt ekki. Láta þó reyna á mörkin í einhverjum tilvikum.
13.2.24
Smá leiðangur í gær
Klukkan var langt gengin í átta þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Tók fyrstu æfingalotuna af þremur um hálfníu. Milli níu og tíu komst ég að því að N1 sonurinn var lasinn heima. Hann kom aðeins fram um það leyti sem hann tilkynnti veikindi sín á heilsuveru. Um hálfellefu fór ég með óhreinan þvott af mér í stórum hagkaupspoka niður í þvottahús. Var að miða við að þvottavélin yrði búin um eitt leytið. Um ellefu gerði ég úlnliðs- axla- og fingraæfingarnar aftur. Oddur kom fram skömmu síðar eingöngu til að skreppa á salernið. Ég átti við hann orð sem varð til þess að hann kom aftur fram um hálfeitt. Hann hjálpaði mér að henga upp í þvottahúsinu og svo keyrði hann mig á Hárhornið og beið eftir mér út í bíl á meðan ég fékk hárþvott og fasta fléttu. Komst strax að hjá Lilju og það var ekki liðinn hálftími þegar ég kom aftur út í bíl. Næst lá leiðin í Fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti harðfisk, bleikjuflök og 500 gr af ýsu. Áður en við fórum heim aftur komum við við í Bónus í Skeifunni en þar er hægt að fá áburðinn 5KIND. Komum heim um hálfþrjú og klukkutíma síðar tók ég þriðju og síðustu æfingalotu dagsins. Þori ekki að byrja of skart en veit þó að ég verð að vera samviskusöm og dugleg til að ná upp fyrri færni. Þetta er líka spurning um gróandann, byrja að þjálfa en ofgera sér ekki fyrsta kastið.
12.2.24
Æfingar
Nóttina eftir að ég fékk spelkuna svaf ég mjög vel og í heila átta tíma. Var vöknuð rétt fyrir sjö og komin á fætur hálftíma síðar. Þetta var laugardagur og dagurinn sem ég byrjaði að æfa úlnlið og fingur. Bæklingurinn sýnir átta mismunandi æfingar sem mælt er með að gera 3-4 sinnum á dag. 7 af æfingunum á að endurtaka 10-15 sinnum en þá áttundu 2-3 og halda í 5-10 sekúndur. Ég ákvað að byrjar rólega fyrstu dagana og bæði í gær og fyrradag gerði ég þessar 7 þrisvar sinnum 10 skipti. Tvær æfingalotur fyrir hádegi og eina um miðjan dag. Ég má ekki lyfta neinu þungu fyrsta kastið en er það er samt mælt með að nota höndina við daglegar athafnir á sem eðlilegastan hátt. Sumar athafnir eru þó flóknari á meðan ég þarf að vera sem mest í spelkunni. Svo þrammaði ég stigana upp og niður nokkrum sinnum. En annars var ég að lesa eða horfa á þætti og fótbolta.
10.2.24
Í spelku
Svaf mjög órólega í fyrrinótt. Var bæði spennt og kvíðin fyrir endurkomunni á G3 í Fossvogi. Fór á fætur upp úr klukkan sjö. Oddur kom fram um átta leytið. Hann skutlaði mér á staðinn stuttu fyrir níu og ákvað að leggja bílnum og bíða þar eftir mér. Ég þurfti ekki að bíða lengi eftir að verða kölluð inn. Á móti mér tók hjúkrunarfræðingurinn Linda sem reyndist mjög tengd þremur fyrrum vinnufélögum sem eru öll komin á áttræðisaldurinn, tveir bræður (annar maðurinn hennar) og kona hins (svilkona). Linda tók af mér umbúðirnar sem voru settar á eftir aðgerðina, skoðaði og hreinsaði sárið. Það þurfti að klippa einhverja sauma en svo setti hún nokkra litla plástra yfir áður en hún útbjó spelku með frönskum rennilás og afhenti mér bækling með leiðbeiningum um úlnliðs og fingræaæfingar. Hún svaraði öllum mínum spurningum en í heildina tók þessi heimsókn ekki nema rúman hálftíma. Á eftir skruppum við Oddur í Hagkaup í Skeifunni en þar fæ ég samskonar frækex og í Heilsuhúsinu. Um kvöldið eldað Davíð Steinn lax handa mér. Hvorugur bræðrana vildi borða af þeim rétti en kokkurinn smakkaði samt aðeins til þess að kanna árangur eldamennskunnar. Ég á þá bara nóg í 2-3 skammta í viðbót sem ég get bjargað mér sjálf um að fá mér af.
8.2.24
Eldgos enn á ný
Aftur svaf ég af mér gosbyrjun við Grindavík. Rumskaði að vísu um þrjú í nótt og eftir að hafa skroppið á salernið greip ég í bók og las til klukkan fjögur. Var örugglega sofnuð aftur um hálffimm. Heyrði þó í N1 syninum fara í vinnu um sjö en þá snéri ég mér á hina hliðina og vissi næst af mér fyrir rétt rúmri klukkustund. Núna ætla ég að horfa á aukafréttatímann sem var klukkan níu og búa mig undir þann sem verður í hádeginu. Pabba dreymdi, fyrir nokkru, sömu rolluna skíta á nokkrum stöðum á þessu svæði. Hann taldi ekki hversu oft en það var oftar en þrisvar sinnum svo það er líklega von á fleiri svona atburðum á þessu svæði.
6.2.24
Lestrarhestur
Nú er ég búin að lesa tvær af sex bókunum af safninu, langt komin með þá þriðju og byrjuð á fjórðu bókinni. Það er ekki liðin vika síðan ég sótti þessar bækur á safnið með góðri aðstoð Odds. Svo er komið bókamerki við fyrsta kaflann í síðustu jólabókinni (Arnaldur). Gærdagurinn var annars tekinn frekar snemma. Fór ekkert út en labbaði stigana nokkrum sinnum. Strákarnir voru báðir heima allan daginn. Þeir stefna að því að fara fyrir mig í fiskbúðina í dag.
4.2.24
Kuldakafli
Enn er ég að passa upp á að nota eingöngu vinstri hendina en þó liðka öxl, olnboga og fingur á hægri. Þarf enn að taka verkjalyf áður en ég fer í háttinn en sleppi þeim annars. Hef ekki farið út aftur en setti í þvottavél í gær, sem Oddur sá um að hengja upp úr, og labbaði upp og niður stigana nokkrum sinnum. Annars var ég að lesa eða horfa á fótbolta og þætti.
2.2.24
Nýr mánuður
Janúar hefur kvatt og stysti mánuður ársins, sem þó er einum degi lengri þetta árið, er farinn að rúlla af stað. Í dag er vika síðan aðgerðin var gerð. Í gær fór ég út í fyrsta sinn eftir þá aðgerð. Fékk Odd til að skutla mér á Hárhornið upp úr hádeginu. Urðum samt fyrst að ræsa Davíð Stein út til að ýta bílnum út úr stæðinu. Oddur beið út í bíl á meðan ég fékk hárþvott og fasta fléttu. Síðan skruppum við á bókasafnið. Öllum sex bókunum var skilað og jafn margar teknar í staðinn. Ein af þeim er fjórða bókin um sjö systur, um perlusysturina Cece. Áður en við fórum heim skrapp ég í Söstrene Grene og keypti handsápur.