31.1.23

Janúar á endasprettinum

Svaf alveg þar til vekjaraklukkan gaf til kynna að kominn væri tími á fótaferð í gærmorgun. Davíð Steinn var því á undan mér fram svo ég fór beinustu leið inn í stofu þegar ég var búin að klæða mig. Sinnti ekk morgunverkunum á baðherberginu fyrr en um hálftíma síðar. Var mætt í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta. Ein var í fríi í gær og við höfðum þá fjórðu fram að morgunkaffi. Ég byrjaði því á því að sinna bókhaldsvinnu. Eftir klukkan tíu fór ég niður á móttökuendann á vélinni. Klukkutíma seinna skrapp ég upp til að prenta út hádegisframeiðsluna og skuldfærslubeiðnir fyrir fjóra póstbunka. Komum upp með afganginn af daglegu framleiðslunni korter yfir tólf. Eftir mat unnum við að endurnýjun til klukkan rúmlega hálfþrjú. Ég hætti vinnu um þrjú og fór beinustu leið heim.

30.1.23

Á leið í vinnu aftur

Ég vaknaði um níu í gærmorgun. Rúmlega klukkutíma síðar var ég komin í Laugardalinn. Varð að leggja í stæði við völlinn. Þrátt fyrir full stæði á planinu við laugina var nóg af skápum og samt var helmingurinn af klefanum stúkaður af og merktur keppendum. Ég notaði skápinn undir fötin rétt á meðan ég skrapp í sturtu og hárþvott. Fór svo beinustu leið heim aftur án þessa að fara í sund, potta eða gufu. Við Davíð Steinn fórum ekki aftur á rúntinn í gær. Veit ekki hvort hann nennti að prófa að keyra í þessum smá snjó sem aftur var kominn eða hvort hann nennti ekki út. Ég nennti svo sem ekki aftur út og tók því bara rólega. Horfði á bronsleikinn. Sendi Odd á KFC. Horfði á gull leikinn á HM í handbolta karla. Danir heimsmeistarar í þriðja sinn í röð. Það hefur enginn gert áður. Voru með Frakka í vasanum allan tímann, amk alltaf skrefinu á undan.

29.1.23

Sunnudagur

Það var um eitt leytið að við mæðgin skruppum aðeins á rúntinn í gær á hans bíl. Skiltið um æfingaakstur á skottlokinu, ég í farþegasætinu og Davíð Steinn í bílstjórasætinu. Fyrst lá leiðin aðeins út á Gróttu. Ekkert stoppað þar. Sonurinn skrapp svo í Elko við Fiskislóð að kaupa eitthvað fyrir símann til að tengja í bílinn. Hann fékk ekki alveg allt sem hann vantaði þar svo hann fór næst í tölvubúðina í Skipholti og keypti restina af því sem hann vantaði. Svo lá leiðin inn í Hafnarfjörð og þar var mikið rúntað. Hann kom aðeins við  í N1 til að kaupa sér nýja lykt í bílinn. Þegar við komum heim aftur vorum við búin að vera á ferðinni í um tvo tíma. Nokkru síðar lánaði ég bræðrunum bílinn minn til að fara í heimsókn í Mosfellsbæinn. Ég fór ekkert aftur út en fitjaði upp á nýrri tusku og horfði á nokkra þætti. 

28.1.23

Allt í rétta átt

Ég líkist sjálfri mér meir og meir. Hitalaus í amk tvo daga, ekki þurft að taka verkjalyf síðan í fyrrakvöld og aðeins eftir að losna við smávegis úr brjóstholinu. Er að hósta því upp smátt og smátt. Ég er að bræða það með mér hvort ég komist upp með að skreppa á rúntinn með syninum sem þarf að æfa sig án þess að fara í sturtu í dag. Hann verður kannski að segja til um það hvort mamma hans lykti nokkuð illa. Ég var komin á fætur um níu leytið í gærmorgun eftir að hafa sofið ágætlega út. Minnst vafrað á netinu í gær. Mest horft á þætti og handbolta og eins og ein tuska kláruð. Ég vona svo sannarlega að ég hafi tæklað þessi veikindi það vel að ég leggist ekki aftur í bráð. 

27.1.23

Heil vika

Já, ég er búin að vera heima í viku. Var líklega að verða lasin á fimmtudagskvöldið í síðustu viku en stóð samt vaktina í vinnu á föstudag. Mældi mig fyrst á laugardagsmorgninum. Hitinn er að minnsta kosti farinn en ég er enn að hósta einhverju upp sem er ekki alveg á því að losna. Þetta er samt allt í rétta átt. Davíð Steinn var á sinni seinni vinnuvakt í þessari viku í gær og var farinn löngu áður en ég vaknaði. Ég var nú samt komin á fætur fyrir klukkan tíu. Oddur kom á fætur fljótlega en hann var á leið í blóðprufu og hormóna sprautu. Hann fékk lánaðan bílinn til að fara upp á Landsspítala í blóðprufuna en sprautuna fékk hann í Heilsugæslunni, mætti sjálfur með efnið eins og alltaf. Minn dagur var ósköp svipaður og undan farin vika. En á þriðja tímanum hellti ég mér loksins upp á kaffi. Hafði ekki drukkið svoleiðis síðan í hádeginu á föstudaginn var. Áður en vaktin var búin hjá Davíð Steini sendi ég honum skilaboð um að færa mér poka af hálsbrjóstsykri þegar hann kæmi heim. Ég tók engar verkjatöflur í gær, ekki heldur þegar ég fór að sofa. 

26.1.23

Hætt að mæla mig

Það var gott að geta slakað á og sofa nokkuð langan dúr. Ég var útsofin upp úr klukkan átta og klæddi mig í fyrsta skipti í nokkra daga. Dagurinn fór í svipað og undan farnir dagar. Hálsinn er enn aumur og augun lasleg svo skynsemin segir mér að halda mér heima eitthvað lengur. Semsagt frekar lítið að frétta.

25.1.23

Hitalaus en ekki 100%

Ég rumskaði um sjö leytið í gærmorgun. Mældi mig, skrapp svo á salernið áður en ég kúrði mig aftur undir sæng. Vaknaði aftur á ellefta tímanum. Hringdi í pabba og einnig fyrirliðann í kortadeildinni og grínaðist í báðum tilvikum með að ég þyrfti endilega að hætta að reykja. Röddin er svo rám enda er hálsinn frekar aumur. Um hádegisbilið ákvað ég að skella í mig tveimur parataps töflum og einu vatnsglasi. Var farin að finna eymsli í skrokknum þannig að erfitt var að finna góða stellingu til að sitja eða liggja. Kláraði eina tusku og fitjaði upp á annarri. Vafraði aðeins um á netinu en ekkert eftir klukkan tvö. Horfði á helling af þáttum en það var ekki fyrr en ég fór upp í rúm um tíu að ég las smávegis. Hitamælirinn sýnir 37°C en augun eru frekar mött ennþá og hálsinn aumur. Ég er samt búin að klæða mig í fyrsta sinn síðan á föstudaginn. Hef hina dagana verið á sloppnum og í ullarsokkum.

24.1.23

mínus fimm kommur, 36,5°C

Aðfaranótt gærdagsins var mér verulega erfið. Fann til, sama á hvaða hlið ég reyndi að leggjast. Ég reyndi fyrst að fara í rúmið um tíu en þetta endaði með því að ég var stöðutg að koma fram í lengri eða styttri ferðir. Mig minnir að ég hafi loks náð að sofna eitthvað á fimmta tímanum en svo var ég vökunuð aftur upp úr klukkan sjö. Þá mældi ég mig og var með fimm kommur. Dagurinn fór í merkilega lítið netvafr, ekkert lesið, smá prjónað en horft á þætti og handbolta. Mældi mig aftur um níu leytið um kvöldið og var þá með átta kommur. Hélt að ég væri orðin nógu þreytt til að lognast útaf en svo var ekki. Um tíu ákvað ég því að senda Odd fyrir mig út í lyfju að kaupa verkjalyf. Hann kom til baka með eina pakkningu af 500mg parataps og aðra pakkningu með 400mg íbúfen. Ég tók tvær parataps töflur og kláraði að horfa á þátt sem ég var langt komin með að horfa á. Þegar ég fór upp í rúm um ellefu fann ég ekkert til og hef líklega sofnað mjög fljótlega. Þrátt fyrir að hitinn sé að víkja er mjög líklegt að ég verði að fara mjög vel með mig í nokkra daga enn og finnst ólíklegt að ég sé á leiðinni í vinnu þessa vikuna. Ég er enn að hósta þótt ég hósti ekki oft, hef ekki verið að hósta mikið en það er samt eitthvað ofan í mér sem er smám saman að losna.

23.1.23

Fimm kommur

Rumskaði frekar snemma í gærmorgun og mældi mig, 38,5°C. Skrapp aðeins á baðherbergið en fór beint upp í rúm aftur og sofnaði. Svaf í rúma þrjá tíma í viðbót. Á tólfta tímanum hringdi ég í fyrirliða kortadeildar og tilkynnti henni stöðuna á mér. Tók því svo frekar rólega allan daginn. Prjónaði smá og horfði á boltaíþróttir og þætti. Eitt af því sem ég gerði ekki var að lesa og síðustu kvöld hef ég farið upp í rúm án þess að lesa staf. Á eftir að lesa eina bók af safninu en ég framlengdi skilafrestinum og þarf ekki að hafa áhyggjur næstu rúmu tvær vikurnar. Þegar Davíð Steinn kom heim úr vinnu í gærkvöldi fór hann næstum beint niður í þvottahús með nýja verkfærið. Þegar hann hafði dvalið þar um stund sendi ég Odd niður til hans. Það er ekki vandamál að skrúfa upp snúrurnar en þeir eru ekki búnir að því nema að hálfu leyti því snúrurnar eru eitthvað flæktar. Kannski finna þeir út úr þessu í dag. 

22.1.23

Nýtt verkfæri

Ég mældi mig snemma í gærmorgun og var þá með 38,5°C hita. Rétt fyrir sjö bankaði ég hjá Davíð Steini til að segja honum að hann yrði að bjarga sér sjálfur í vinnuna. Hann var svo sem búinn að undirbúa sig undir það því hann varð var við að ég var að hósta mikið kvöldið áður. Hann tók leigubíl upp á Gagnveg og fær hann vonandi endurgreiddan. Ég fór fljótlega aftur inn í rúm og svaf næstum fram að hádegi. Var þó komin fram aftur um hálftólf í slopp og sokkum. Tveimur tímum seinna bankaði ég hjá Oddi. Ég var búin að millifæra 50000 á hann og bað hann um að fara í Bauhaus til að kaupa borvél sem líka væri hægt að nota sem skrúfvél og þá bæði bor- og skrúfbitasett. Það er útsala um þessar mundir og Oddur fékk ágætist grip á eitthvað um 43000 krónur. Var sagt að gripurinn ætti að endast í 10 ár. Nú verður loksins hægt að skrúfa upp nýju snúrurnar. Þeir munu gera það í sameiningu, bræðurnir, þegar Davíð Steinn kemur heim úr vinnu í kvöld. 

21.1.23

Lasin

Vinnudagurinn í gær var frá rúmlega hálfátta til rúmlega þrjú. Ég var í bókhaldinu. Við fengum aukamanneskjuna með okkur. Hún er reyndar alls ekki auka því hún á að koma inn í þetta með okkur með tíð og tíma en hún þarf líka stundum að sinna verkefnum sem hún hefur verið að sinna fram að þessu, sérstaklega ef það eru frí. Fyrirliðinn fékk tækifæri til að taka saman pappíra um ónýt kort í nóvember og desember og ég hjálpaði til við að sortera, telja og stemma af. Ég fór beinustu leið heim eftir vinnu. Var komin með leiðinda kuldahroll. Fljótlega eftir að ég kom heim vafði ég teppi utan um mig. Ég fór ekki að sofa fyrr en á tólfta tímanum og nú brá svo við að ég las ekki einn staf í bókinni sem er á náttborðinu þessa dagana. 

20.1.23

Föstudagur

Fengum fjórðu manneskjuna með okkur í gærmorgun og hún var á mótökuendanum á vélinni með mér til hádegis. Framleiðsla gekk næstum eins og í sögu og vorum við búnar með allt daglegt um tólf. Fljótlega komu viðgerðarmennirnir til að yfir fara vélina. Ég fór fyrst í mat og sú sem var með mér um morguninn fór einnig í mat og svo önnur verkefni. Eftir hádegishléið tók ég prjónana með mér niður í korta deild og sat yfir. Strákarnir voru búnir að taka öll lok af vélinni og svo ryksuguðu þeir og blésu. Um þrjú komu tvö úr arion banka í heimsókn og fengu að fræðast um alla starfsemi seðlaversins. Þau komu í kortadeildina þegar viðgerðarmennirnir voru að setja saman vélina aftur og fengu að sjá eitt kort framleitt. Var ekki búin í vinnu fyrr en um hálffimm en þá fór ég beint heim fyrst sundlaugar og aðastaðan í Nauthólsvík voru lokuð vegna kulda og til að spara vatnið. 

19.1.23

Færsla no 3494

Í dag eru tuttugu ár síðan ég byrjaði á þessum vettvangi, að blogga. Færslurnar eru orðnar hátt í fjögur þúsund en sum bloggárin voru rýrari en önnur. Ef ég hefði sett inn eina færslu á dag væru þær orðnar rúmlega sjöþúsundogþrjúhundruð. Gærdagurinn var annars alveg ágætur. Var í bókhaldinu. Færði mig yfir í tímon úr tempo og er nú komin með vinnuskráningar app í gemsann þar sem ég get stimplað mig inn og út. Um tvö leytið leysti ég aðra af á vélinni sem þurfti að fara. Það var aðeins eftir að framleiða rúmlega þrjátíu kort, telja, pakka og ganga frá. Það var allt búið um þrjú leytið og um hálffjögur fór ég heim. Hringdi í Lilju vinkonu og pabba en um hálffimm var ég búin að kveikja á sjónvarpinu til að horfa á HM stofuna og landsleikinn. Seinna um kvöldið horði ég að parta úr leik Svía og Ungverja og Cristal Palace og Man. Utd.

18.1.23

Miðvikudagur

Það var vekjaraklukkan í gemsanum sem ýtti við mér í gær. Að vísu var ég búin að rumska en það var vel fyrir sex og ég sofnaði sem betur fer aftur. Hafði alveg tíma til að vafra um á netinu en var mætt í vinnuna tuttugu mínútum fyrir átta. Var á ítroðsluendanum á vélinni. Kláruðum fyrsta skammtinn, sem var yfir tvöhundruð kort, korter yfir níu. En þegar við ætluðum að fara að framleiða kort á form var prentarinn með mjög þreytandi vesen og það tók okkur eina og hálfa klukkustund að koma honum í gang. Kláruðum endurnýjun korta sem renna úr gildi um næstu mánaðamót. Um fimm hundruð kort. Byrjuðum á daglegri framleiðslu rúmlega tólf en þá tók prentarinn aftur kast. Þrátt fyrir að dagleg framleiðsla væru aðeins færri kort en þau sem við vorum að endurnýja vorum við ekki búnar fyrr en rúmlega fjögur og klukkan var orðin hálffimm þegar ég kvaddi vinnustaðinn minn. Fór beinustu leið í sund og náði aðeins í "skottið" á kalda potts vinkonum minni. Eftir sundið kom ég við á AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. 

17.1.23

Mánuðurinn rúmlega hálfnaður

Var mætt í vinnuna rétt upp úr klukkan hálfátta. Sú sem var í bókhaldinu var komin en ekki búin að fara niður. Ég skrapp því niður til að kveikja á vélinni og rakatækinu. Áður en lengra var haldið fór ég upp aftur, fyllti á vatnsflöskuna, fékk mér kaffi og settist aðeins niður með prjónana mína í kaffistofunni. Ég var á móttökuendanum. Áttum bara eftir hádegis framleiðsluna þegar við fórum í mat upp úr klukkan tólf. Þegar daglegri framleiðslu og pökkun lauk héldum við áfram með endurnýjunina. Vélin var hundleiðinleg. Unnum til klukkan að verða fimm en náðum ekki að klára allt það sem við ætluðum okkur, eigum rúmlega fimmhundruð kort eftir af því. Hlustaði á lýsingu á landsleiknum á Rás tvö á leiðinni heim og var fyrri hálfleikur rúmlega hálfnaður þegar ég kom heim og kveikti á sjónvarpinu. 

16.1.23

Mánudagur

Ég var komin á fætur um átta leytið í gærmorgun. Tók því frekar rólega og vafraði um á netinu dágóða stund. Um hálfellefu skrapp ég út til að færa bílinn. Kom beint inn aftur og kveikti þá á sjónvarpinu og horfði á nokkra þætti. Um tvö leytið ætluðum við Davíð Steinn að skreppa aðeins á rúntinn á nýja bílnum hans. Bíllinn fór hins vegar ekki í gang. Var rafmagnslaus, sennilega vegna þess að hann hafði skilið ljósin inni í bílnum eftir á en kuldinn hefur heldur ekki hjálpað til. Vinnufélagi hans sendi pabba sinn á staðinn til að gefa start. Pabbinn kom um fjögur og skömmu síðar gátum við loksins lagt af stað. Sonurinn ók um borgina og nærliggjandi sveitafélög. "Fann" ansi mörg hringtorg og þurfti einnig að stoppa á mörgum ljósum. Bíltúrinn tók um klukkustund. Hann drap aldrei á bílnum og skiptingarnar og að taka af stað verður sífellt mýkra hjá honum. Honum fer fram og hann er vandvirkur og athugull fyrir. Kláraði eldhúshandklæði úr afgöngum. Á samt nóg af afgöngum í amk tvö handklæði eða nokkrar tuskur enn. Fitjaði þó upp á nýrri tusku úr nýju bókinni af nýrri garnhnotu úr Söstrene Grene.

15.1.23

Töp og sigrar

Ég svaf út í gærmorgun og klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég dreif mig loksins á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu til klukkan að verða hálfellefu. Þá fór ég með esperanto dótið mitt yfir í vesturbæinn til esperanto vinkonu minnar. Komum okkur í ágætis esperanto gír. Var komin heim aftur skömmu fyrir klukkan eitt. Fór ekkert út aftur en setti í eina þvottavél, vafraði á neti, prjónaði og horfði á fótbolta, körfubolta, handbolta og þætti. Lánaði bræðrunum bílinn. Þegar þeir komu til baka fann Oddur ekkert annað stæði en bak við heilsugæsluna. 

14.1.23

Á rúntinum

Mætti í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta. Ég var aftur á ítroðsluendanum en hinar tvær skiptu um vinnustöð. Daglegri framleiðslu lauk á svipuðum tíma og daginn áður eða um hádegið. Eftir hádegi framleiddum við eitthvað í kringum fimmhundruð kort í endurnýjun. Hættum vinnum um hálfþrjú. Ég fór beinustu leið heim þrátt fyrir að vera með sjósundsdótið með mér í bílnum. Málið var að það var stutt í háfjöru og ég var ekki alveg í stuði til að vaða "hálfa leið" til Kópavogs. Hefði reyndar ekki þurft að gera það svo sem því það er vel hægt að svamla um í sjó sem nær upp að hné. Þegar klukkan var byrjuð að ganga sex fórum við Davíð Steinn saman að bílnum hans. Illa gekk að bakka út úr stæðinu og það virtist ekki nóg að ég ýtti en sem betur fer kom að ungur maður sem hjálpaði mér svo eftir tíu mínútna streð komst Davíð Steinn loksins út úr stæðinu. Leiðin lá fyrst að N1 í Kópavogi, gömlu vinnustöðinni hans. Þar fyllti hann á bílinn og bætti einnig á rúðuvökvann. Svo keyrði sonrinn í gegnum Breiðholtið og yfir í Grafarvog og stoppaði smá stund á N1 við Gagnveg. Þaðan ók hann í gegnum Grafarvoginn og svo aftur heim. Þessi ferð tók um eina og hálfa klukkustund. Ég finn það að hann verður góður ökumaður. Hann er varkár og ekur frekar mjúklega. Þarf að æfa sig í að taka af stað í brekku og passa að leita ekki of mikið til hægri út í kantinn. 

13.1.23

Sigur í fyrsta leik á HM í handbolta karla

Vaknaði upp úr klukkan sex og var komin fram fljótlega eftir það. Nógur tími til að vafra um á netinu og setja inn færslu á þessum vettvangi. Davíð Steinn kom fram fyrir klukkan hálfsjö og var farinn út úr húsi innan við korteri seinna. Ég mætti í vinnuna korter í átta. Var á ítroðsluendanum. Kláruðum daglega framleiðslu um hádegið. Eftir hádegi unnum við að endurnýjun. Þá var vélin byrjuð að vera með stæla og á þeim tíma sem við hefðum venjulega verið að framleiða hátt í þúsund kort framleiddum við rúmlega fjögurhundruð. Fór beint í sund eftir vinnu. Hringdi þó fyrst í pabba þegar ég var búin að leggja bílnum við Laugardalslaugina. Hitti kalda potts vinkonu mína í hennar þriðju ferð í kalda. Fórum saman í fjórar ferðir og svo í gufu. Ég fór í sturtu eftir gufuna og synti 200 metra áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var komin heim um hálfsex. Byrjaði á því að vafra um á netinu til klukkan að verða sjö en þá kveikti ég á sjónvarpinu til að horfa á HM stofuna og leikinn Ísland - Portúgal 30:26. Fyrstu mínúturnar leit þetta mjög vel út en leikurinn jafnaðist út eingöngu vegna of margra tapaðra bolta hjá okkar strákun. Portugalir komust samt aldrei yfir í leiknum. Þeir eru með mjög gott lið en þetta datt okkar meginn í gær, þökk sé góðri vörn og Bjöggi var frábær í markinu. Viktor Gísli varði eitt víti og leysti Bjögga af um stund þegar sá síðarnefdi var búinn að fá boltann í höfuðið í tvígang.

12.1.23

Fatakaup

Davíð Steinn svaf aðeins yfir sig í gærmorgun svo ég bauðst til þess að skutla honum í vinnuna. Á leiðinni út götuna ókum við framhjá bílnum sem hann fjárfesti í í fyrradag. Hvít volkswagen bjalla með númerið KMT96. Vinnufélagi hans vann í að leita að bíl með honum og sá er einnig skráður sem leiðbeinandi vegna æfingaakstur svo Davíð Steinn fékk rúmlega klukkutíma æfingu seinni partinn á þriðjudaginn. Ég var mætt í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta eftir að hafa skilað syninum af mér korteri fyrr. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum daglega framleiðslu og pökkun um hádegi og unnum að endurnýjun eftir hádegi. Fór beinustu leið í sund eftir vinnu. Hafði ætlað mér að synda smá baksund og þvo mér um hárið á leiðinni upp úr en ég hafði ekki tekið með mér höfuðhandklæði svo ég sleppti öllu sundi og hárþvotti. Fór 2x5 mínútur í kalda, einu sinni í heitasta, einu sinni í sjópottinn og einu sinni í gufuna. Áður en ég fór heim kom ég við í Belladonna og keypti mér 4 buxur.

11.1.23

Í jafnvægi

Ég var  aftur á bókhaldsvaktinni í gær. Leysti aðra af á vélinni milli eitt og hálfþrjú þar sem hún fór á fund og hina um hálffjögur en hún var á leið í sjúkraþjálfun. Bras var á vélinni og þegar við vorum loksins búnar að framleiða um 500 kort þurftum við að lesa saman mest alla framleiðsluna til að finna út hvaða eina kort hafði verið á lista. Listinn hafði óvart verið þurrkaður út. Þetta varð til þess að klukkan var að verða fimm þegar við gátum farið úr vinnu. Og þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis fór ég beinustu leið heim.

10.1.23

Sjórinn góður

Ég var mætt fyrst í vinnu í gærmorgun. Fór niður og kveikti á vélinni, teljurum og rakatæki. Var að vinna í að prenta út fyrstu tölur þegar samstarfskonur mínar mættu. Ég var semsagt í bókhaldinu í gær. Við unnum til hálffjögur. Þá fór ég beint í Nauthólsvík. Var mætt rétt fyrir fjögur. Sjórinn -1,8°C og aðeins byrjað að flæða að aftur. Engin ísing var á sjónum enda aðeins meiri hreyfing á logninu. Ég var rúmar þrjár mínútur út í og var svo búin að vera tíu mínútur í pottinum þegar þrjár úr sjósundshópnum mættu. Þær fóru í lónið sem þær sögðu vera mun heitara en sjórinn. Var komin heim um fimm leytið. Í dag eru tuttuguogþrjú ár síðan ég byrjaði að vinna hjá RB.

9.1.23

Helgin liðin

Fór á fætur um átta. Rúmlega klukkutíma síðar settum við skiltið á bílinn og Davíð Steinn keyrði sig í vinnuna. Ég tók skiltið af þegar við vorum komin upp á Gagnveg, kvaddi soninn og dreif mig í sund. Synti 400 metra, fór 3x5 mínútur í kalda, einu sinni í sjó pottinn og einu sinni í gufuna. Heitasti potturinn var lokaður. Hitti tvær úr sjósundshópnum mínum örstutt. Var komin heim um hálftólf og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Sýslaði við nokkurn veginn það sama annars þegar ég er heima við. Dagurinn var alltof fljótur að líða. 

8.1.23

Æfinga akstur

Var vöknuð upp úr klukkan sex í gærmorgun. Rétt fyrir sjö heyrði ég í vekjaraklukkunni hjá Davíð Steini. Tíu mínútum seinna hringdi ég í hann til að ýta við honum. Bauð honum að keyra sig sjálfan í vinnuna. Settum skiltið neðst á skottlokið og tókum ökubókina sem ökukennarinn er búinn að kvitta í fimm sinnum og sýslumaður stimpla leyfi til að æfa sig í akstri. Þetta var í fyrsta sinn sem Davíð Steinn keyrði sjálfskiptan bíl og þetta gekk bara nokkuð vel hjá honum. Aðeins einu sinni sem hann bremsaði svolítið harkalega. Þegar við komum upp á Gagnveg tókum við skiltið af og skiptum um sæti. Ég þáði kaffi bolla með mér til baka og kláraði að drekka hann á planinu við Laugardalslaugina. Fór tvær ferðir í kalda pottinn, eina í heitasta og eina í sjópottinn áður en ég synti 300 metra. Var komin heim um tíu. Klukkutíma síðar skrapp ég til norsku esperanto vinkonu minnar. Skilaði henni smákökudósinni. Var með esperanto dótið meðferðis en við vorum hvorugar í stuði í svoleiðis æfingar í gær og frestuðum þeim um viku. Fór með bílinn í gegnum löðurþvottastöðina við Fiskislóð og skrapp svo í Krónuna á eftir. Kom heim um hálftvö og var nýbúin að ganga frá vörunum þegar Oddur Smári kom fram. Horfði á æfingaleikinn milli Þýskalands og Íslands, fitjaði upp á nýrri tusku, vafraði svolítið á netinu og fleira. Um sex var ég mætt á staðinn Matur og Drykkur við Grandagarð 2. Móðursystir mín hafði boðið mér í mat með þeim mæðgum nöfnu minni og kærasta hennar. Þannig að við vorum fjögur. Mæli eindregið með þessum stað. Góður matur og mjög góð þjónusta. Var komin heim aftur um hálfníu. 

7.1.23

Nægjusemi

Var komin á fætur rétt rúmlega sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu næsta klukkutímann eða svo. Mætti í vinnu um hálfátta leytið. Var á móttökuendanum á vélinni og kláruðum allt daglegt um tólf. Eftir hádegi var klárað og telja og svo gengum við bara frá vélinni og deildinni og hættum vinnu um tvö samt ekkert svo löngu á undan öðrum vinnufélögum á staðnum. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Þurfti að vaða varlega út í -2,1°C sjóinn en tolldi samt rúmlega mínútu út í áður en ég fór aftur upp úr og í heita pottinn. Klukkan var ekki orðin hálffjögur þegar ég kom heim. 

6.1.23

Ýmislegt

Vinnudagurinn í gær var örlítið styttri en samt náðum við að framleiða yfir ellefuhundruð kort í endurnýnun fyrir utan daglega framleiðslu. Ég var á ítroðsluendanum en hinar tvær skiptu um stað. Sú sem er búin að vera í bókhaldinu undanfarna viku kom á móttökuendann. Vorum búnar að ganga frá deildinni um hálfþrjú. Ég fór beint í sund. Staldraði þó aðeins við í bílnum á planinu og hringdi í eina vinkonu mína sem var að missa pabba sinn í fyrradag. Hún var á rölti á Laugaveginum með einni af systrum sínum til að dreifa huganum aðeins. Synti 300 metra áður en ég fór í kalda pottinn þar var kalda potts vinkona mín að ljúka sinni annarri ferð þar en hún hafði líka mætt í fyrra fallinu. Saman fórum við 4 ferðir í kalda, þann heitasta á milli og í gufuna eftir síðustu ferðina í kalda. 

5.1.23

Tækifæri

Ég var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir klukkan átta. Sú sem hefur verið í bókhaldinu síðustu daga var beðin um að vera í því enn einn daginn en við sem vorum niðri skiptum um enda. Ég var semsagt á ítroðsluendanum. Daglegri framleiðslu lauk um hádegið. Eftir hádegi ætluðum við að byrjað á einni endurnýjuninni sem bíður. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Hluti af því var að búið er að taka öll gömul load til hliðar. En þegar búið var að færa fjögur af þeim til baka, fjögur sem tilheyra sex óframleiddum skrám kom í ljós að það var eitthvað meira að því vélin vildi hvorki starta á skrám hvort sem kort áttu að fara á form eða ekki. Kerfisfræðingurinn hafði verið beðinn um að setja inn nýtt forrit inn í Smára (Smári er kerfi sem m.a. "talar" við örgjörvamódúlana í framleiðsluvélinni) af öryggisstjóra. Það var ekki fyrr en búið var að stöðva þetta forrit að kortavélin samþykkti að fara af stað. Framleiddum eina af sex skrám sem bíða. Ég var komin heim um hálffjögur og bað Odd um að skreppa eina ferð í Sorpu, sem hann gerði. Hann hefði helst vilja fara í dag en ég er búin að lofa mér í sund seinni partinn í dag.

4.1.23

Tilraun

Í gærmorgun vaknaði ég við vekjaraklukkuna. Ég hafði reyndar rumskað um fimm en sem betur fer steinsofnað aftur. Það var smá bras að bakka út úr stæðinu þegar ég var að leggja af stað í vinnuna um hálfátta en það tókst í fimmtu tilraun. Vorum á sömu vinnustöðvum, ég semsagt á móttökuendanum og að pakka. Hættum vinnu um þrjú og ég fór beint í sund. Byrjaði á kalda pottinum en sat svo í þeim heitasta þegar kalda potts vinkonan kom úr gufu. Hún var þá þegar búin með tvær ferðir í kalda en saman fórum við í fjórar og svo í gufu. Eftir gufubaðið fór ég í sturtu og synti 200 metra á bakinu áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim.

3.1.23

Án titils

Var vöknuð um sex og komin fram á undan Davíð Steini sem þó fer alltaf á undan út úr húsi. Hann kom fram um hálfsjö og var farinn tíu mínútum seinna. Útidyrnar stóðu ekki á sér að þessu sinni, hvorki þegar hann fór né þegar ég fór rúmum hálftíma seinna. Er helst á því að minnsta einingin í lásnum hafi frosið eða staðið á sér í fyrrakvöld. Bíllinn var í Blönduhlíð. Þurfti aðeins að sópa af honum en ekki mikið þó. Í vinnunni var ég á móttökuendanum og í pökkun. Vélin hagaði sér þokkalega og við gátum klárað eins og eitt stykki endurnýjun og vorum samt hættar um þrjú. Endurnýjunum er samt ekki lokið en það saxast á þær og vonandi verða þær búnar áður en þær næstu skella á okkur. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík eftir vinnu. Enn var mikill krapi þar sem ég er vön að fara út í. Sjórinn -1,6°C. Við vorum nokkur sem fórum út í á sama tíma. Fórum ekki langt. Ég var um mínútu út í þarna meginn en skrapp svo í lónið í 3 mínútur áður en ég fór í pottinn. Var komin heim um hálffimm. Kláraði tuskuna Blanda og fitjaði upp á nýrri sem heitir Ferningar. Horfði að mestu á leikinn í enska en mínir menn Liverpool töpuðu á úti velli fyrir Brentford sem er á góðri leið að gera heimavöllinn sinn óvinnandi vígi og þó voru þeir án síns besta manns. Aðeins Arsenal hafa unnið þá á þessum velli á þessari leiktíð.

2.1.23

Ryk

Rumskaði um sjö leytið í gærmorgun en steinsofnaði fljótlega aftur. Komst svo á fætur rétt áður en klukkan varð tíu. Ekki það að ég ætlaði mér neitt að vakna mjög snemma og ég var alls ekki með nein plön önnur en að taka því rólega heima við og sinna mínum hugðarefnum. Tók tvær bækur með mér inn í stofu en las svo ekkert í þeim fyrr en ég fór upp í rúm um kvöldið. Það var prjónið, netvafrið, fótboltinn og þáttaáhorf sem urðu ofan á fram eftir degi og fram á kvöld. Lánaði Oddi bílinn um miðjan dag. Ég var farin að sofa þegar Davíð Steinn hringdi um hálfellefu. Þá voru þeir bræður fyrir utan en útidyrnar vildu ekki opnast utan frá. Ég fór í slopp og niður en gat heldur ekki opnað innan frá svo ég hleypti sonunum inn um dyrnar í kjallaranum. Veit ekkert hvað er í gangi með þessa hurð en það verður skoðað. 

1.1.23

!

Enn eitt árið horfið í aldanna skaut og nýtt ár að hefja sína vegferð. Ég var komin á fætur um níu í gærmorgun. Þrátt fyrir ágætis veður ákvað ég að senda skilaboð til norsku esperanto vinkonu minnar að ég væri löt og ætlaði bara að halda mig heima við. Og það gerði ég, hélt mér heima við. Vafraði á netinu, kláraði eina tusku og byrjaði á annarri, horfði á þætti, fótbolta, fréttaannál og skaup og hafði það yfir höfuð mjög notalegt. Við Oddur voru tvö heima, Davíð Steinn var hjá vini sínum á Akranesi og kemur ekki heim fyrr en í kvöld. Ég var með ofnrétt úr kjúkling og grænmeti og hafði einnig bygggrjón með. Í stofunni var ég með tvær bækur á kantinum en ég las ekki í þeim fyrr en ég var komin upp í rúm um hálfeitt leytið.