30.11.22

Sá síðasti í nóvember

Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálf átta í gærmorgun. Vorum á sömu vinnustöðum og á þriðjudaginn. Framleiðslan gekk ótrúlega vel en það var samt smá vesen. Við framleiddum yfir 2700 kort, rúmlega 1000 af þeim gjafakort, og vorum samt hættar framleiðslu rétt fyrir þrjú. Ein þurfti að fara skömmu áður en við hinar tvær gengum frá. Það gleymdist samt alveg að loka gluggunum í deildinni. Það er næstum búið að gleymast tvisvar áður en í þetta sinn mundi ég ekki eftir því fyrr en ég var komin ofan í kalda pottinn í Laugardalslauginni. Þar hitti ég fyrir vinkonu mína í sinni annarri ferð, nýstaðna upp úr Covid. Saman náðum við fimm ferðum og enduðum svo í gufunni. 

29.11.22

Sjórinn góður

Var vöknuð rétt fyrir klukkan sex. Dreif mig á fætur fljótlega og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um í netheimum þar til tími var kominn til að keyra í vinnuna. Vorum allar þrjár. Ég var á ítroðsluendanum. Framleiðsla gekk þokkalega. Upp úr hádeginu kom annar viðgerðarmaðurinn og við erum að vonast til þess að hann hafi náð að stilla umslagavélina þannig að hún verði stilltari. Báðar hinar þurftu að fara um þrjú. Við gengum frá deildinni og læstum vagnana inni á lager rétt fyrir það og svo tók ég við að klára að ganga frá pökkuninni á daglegri framleiðslu. Korter yfir fjögur var ég að vaða út í 1,7°C sjóinn þegar sjósundsvinkona mín mætti á svæði. Ég dýfði mér aðeins upp að hálsi en fór svo upp úr til að bíða eftir vinkonunni. Hitti aðra úr sjósundshópnum. Ég settist smá stund í heita pottinn þar til þær tvær komu út. Við vorum fimm mínútur í sjónum en örugglega hálftíma í heita pottinum á eftir.

28.11.22

Aðventutími

Fór á fætur rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun. Rúmlega klukkutíma seinna skutlaði ég Davíð Steini upp á Gagnveg, þáði kaffi út í bíl og fór svo beinustu leið heim. Gærdagurinn fór meira og minna í fótboltagláp, smá körfugláp, prjón og netvafr. Lánaði Oddi bílinn seinni partinn en hann var kominn heim aftur um átta, rétt á undan bróður sínum. Davíð Steinn var víst kominn í strætó þegar Oddur hringdi og athugaði með hann. 

27.11.22

Á skutlvaktinni

Ég var vöknuð upp úr klukkan sex í gærmorgun og var búin að vera á fótum í uþb klukkutíma þegar Davíð Steinn kom fram. Skutlaði honum upp á Gagnveg og þáði kaffi í staðinn. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti tankinn á bílnum. Var mætt við Sundhöllina fyrir klukkan átta. Sat út í bíl fram yfir morgunfréttir. Eftir ferð í kalda pottinn fór ég beinustu leið í innilaugina og synti 750 metra, flesta á bakinu, á braut þrjú. Það tók mig rétt rúmlega hálftíma. Settist aðeins út í heitari pottinn á svölunum áður en ég fór aðra ferð í kalda pottinn. Endaði í gufunni áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var komin heim rúmlega tíu. 

26.11.22

Aftur tvær

Það er stefnan á núverandi vinnustað að taka styttingu vinnuviku á föstudögum og vera hættur um þrjú. Það kom sér ágætlega fyrir mig þar sem ég þurfti að mæta aftur til tanna klukkan þrjú til að láta skanna jaxlinn sem var pússaður niður á þriðjudaginn og bráðabirgða hulsa sett yfir þar til króna hefur verið útbúin. Við tvær sem vorum mættar í kortadeildinni urðum samt að halda vel á spöðunum til að komast yfir að klára daginn og kannski smá meira. Gerðum 1500 gjafakort en komumst ekki í endurnýjun enda er umslagavélin verulega leiðinleg svo við ætlum að láta líta á hana eftir helgi. Það eina sem við urðum að skilja eftir var talning á öðrum kortaskápnum. Vorum búnar að telja visa vagninn en vagninn með debet- og saltpay kortunum verður að bíða til mánudagsmorguns. Var mætt til tanna á slaginu þrjú og labbaði þaðan út aftur hálftíma síðar. Fór beinustu leið heim. 

25.11.22

Föstudagur

Ég var mætt fyrst af kortadeildargenginu. Reyndar vorum við bara tvær af þremur því ein var lasin. Tækluðum verkefnin tvær með mestu ágætum. Framleiddum slatta en þegar við gengum frá deildinni um hálfþrjú áttum við eftir að telja skápana. Urðum að geyma það því hin átti tíma í sjúkraþjálfun klukkan þrjú. Ég var í vinnunni til klukkan hálffjögur. Fór á sviðsfund í gegnum TEAMS klukkan þrjú en stakk af fundi og fór beint í sund. Kaldapotts vinkona mín hafði sent mér kveðju. Kemst ekki þessa dagana vegna Covid. Ég fór þrisvar í kalda, tvivar í heitasta og endaði í gufunni. Fannst of margir á brautunum að ég sleppti því alveg að synda. Kom heim upp úr klukkan fimm og fékk hornstæðið. 

24.11.22

Líður á viku og mánuð

Ég var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Var aftur í bókhaldinu og byrjaði á því að prenta út tölur, fylla út skiptiblað og prenta það út líka. Forstjórinn kom í heimsókn og kíkti niður í kortadeild í smá stund. Um hálftíu var vikulegur fundur í kaffistofunni og boðið upp á brauð og bakkelsi. Framleiðsluvélin, aðallega umslagavélin var með smá leiðindi en daglegri framleiðslu lauk upp úr hádegi. Þá var látið ganga fyrir að ljúka framleiðslu á gjafakortum. Reyndar bættust við 2000 í viðbót með hádegisskammtinum og verða þau framleidd meðfram endurnýjunum sem verður lögð aðal áhersla á næstu dagana. Góða við gjafakortin er að það er hægt að skilja vélina eftir við framleiðslu þeirra. Var komin heim um hálffjögur og fljótlega fóru bræðurnir saman í Sorpuferð. Hvorugur þeirra var að nota þvottavélina svo ég setti í eina vél.

23.11.22

Miðvikudagur

Ég var mætt í vinnuna um hálfátta. Var í bókhaldinu svo ég byrjaði á því að prenta út framleiðslutölur og skiptiblað áður en ég fór á kaffistofuna. Fyllti á vatnsbrúsann, fékk mér kaffi og settist á borðið með prjónana mína þar sem Ella sat með prjónana sína. Allt gekk ágætlega fyrir sig nema vélin var eitthvað að stríða stelpunum. Stuttu fyrir tvö varð ég að fara. Þá var smá eftir af hádegisframleiðslunni. Ákváðum samt að ég þyrfti ekki að koma aftur. Ég var komin til tannlæknisins klukkan tvö. Hann slípaði niður rótarfyllta jaxlinn og setti bráðabirgða hulsu yfir. Þarf að mæta aftur á föstudaginn í skanna og svo fæ ég krónu yfir jaxlinn eftir ca tvær vikur eða svo. Skrapp aðeins heim eftir þetta en var komin í sund um fjögur. Synti samt ekkert og þar sem kalda potts vinkona mín var ekki á staðnum fór ég aðeins 3x5 mínútur í kalda, tvisvar í heitasta pottinn og svo góða gufu á eftir. Gerði svo nokkuð sem ég hef aldrei gert áður, kom við í pylsuvagninum og fékk mér eina með öllu áður en ég fór heim. 

22.11.22

Tíminn flýgur

Ég var mætt í vinnuna um hálfátta í gærmorgun. Fyrirliðinn var komin og búin að fara niður til að kveikja á vélinni. Hitastigið í herberginu var um 14°C en fór hæst í rúmlega 18. Ég var á ítorðsluendanum. Daglegur verkefnum lauk um hádegið og eftir hádegi og til klukkan þrjú framleiddum við 1500 gjafakort og eitthvað af endurnýjun. Ég var komin í Nauthólsvík rétt fyrir fjögur. Sjórinn 4,7°C og flóð sem náði alveg upp á brúna niður í fjöru. Svamlaði um í uþb korter og var svo í rúman hálftíma í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. 

21.11.22

Morgunstund

Var fyrst á fætur um níu. Kveikti strax á tölvunni í ganginum en sinnti þó morgunverkunum á baðherberginu áður en ég fór að vafra á netinu. Um tíu fékk ég mér lýsi og harðsoðið egg. Pabbi kom á fætur skömmu síðar og fljótlega bjó ég mér til kaffi. Í hádeginu fengum við okkur skyr. Ég var ýmist að lesa, prjóna eða vafra á netinu. Bjó mér aftur til kaffi um þrjú leytið og tæpum klukkutíma seinna tók ég mig saman, kvaddi og brunaði í bæinn. Fékk stæði beint fyrir utan hús. 

20.11.22

Jólakortagerð

Ég var vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sjö. Rétt rúmlega átta lagði ég við Austurbæjarskóla og trítlaði þaðan í Sundhöllina. Byrjaði á ferð í kalda pottinn en fór svo á braut 3 í innilauginni og synti 600 metra, flesta á bakinu. 1x25m skriðsund og 1x25m bringusund. Settist stund í heitari pottinn uppi úti áður en ég fór aftur í þann kalda. Endaði svo í gufunni. Þvoði mér um hárið og var komin heim um tíu. Tæpum klukkutíma seinna var ég búin að pakka niður, hlaða bílinn og á leiðinni til norsku vinkonu minnar. Við tókum smá esperantóhitting áður en ég fór úr borginni. Kom við í Fossheiðinni en var komin á Hellu rúmlega hálfþrjú. Pabbi var að horfa á fótboltalandsleikinn um Eystrasalts-bikarinn. Horfðum til enda áður en við fengum okkur kaffi. Um sex var pabbi með saltfisk í matinn. Ég horfði á kvöldfréttir og prjónaði smá. Um hálfátta tók ég fram jólkortagerðar dótið og tæpum þremur tímum seinna var ég búin að búa til 26 jólakort. Að sjálfsögðu var ég með hvítt á kantinum en það urðu þó bara tvö glös og svo hálft í viðbót eftir að ég var búin að ganga frá dótinu.

19.11.22

Helgarfrí

Var mætt til vinnu á svipuðum tíma og áður, upp úr klukkan hálfátta. Nú var ég komin á ítroðsluendann. Hlóð inn þeim verkefnum sem fyrir lágu. Ein skráin, debet, nýja leiðin, var eitthvað biluð. Kerfisfræðingurinn okkar gat bjargað þeim málum. Vorum búnar með fyrstu framleiðslu og komnar upp með töskuna um hálftíu. Debetið var búið um hádegið sem og 200 spargjafakort. Eftir hádegi og þrjú framleiddum við það sem er sent til okkar á tólfta tímanum sem og 2000 gjafakort úr 5000 korta skrá. Vorum þegar búnar með 1500 af henni svo eftir eru 1500 í viðbót. Með hádegisskammtinum var send 3000 korta gjafakortaskrá til okkar. Ég fór úr vinnunni fyrir hálffjögur og beinustu leið í Nauthólsvík. Byrjaði á því að hringja aðeins í pabba áður en ég fór í 4,9°C sjóinn. Það var rétt að byrja að fjara út eftir háflóð, fáninn á flaggstönginni var ekki á mikilli hreyfingu og þrátt fyrir að það séu líklega þrjár vikur síðan ég fór í sjóinn síðast tolldi ég út í í rúmar tíu mínútur. Sat svo hálftíma í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.

18.11.22

Flest gengur ágætlega

Ég var mætt í Sundaborg rétt upp úr klukkan hálfátta. Silla kom skömmu síðar en Ella skrapp fyrst niður á K1. Hún var hvort eð er í bókhaldinu og við Silla prentuðum út fyrstu tölur. Urðum reyndar að skreppa niður að sækja tóner í prentarann en við vorum byrjaðar að framleiða korter yfir átta. Lukum fyrsta skammti um níu og byrjuðum aðeins á debetinu áður en við fórum upp með töskuna og í kaffi. Eftir hádegi söxuðum við aðeins betur á gjafakortaframleiðsluna en það eru að hrúgast inn endurnýjanir í staðinn. Silla varð að fara stuttu fyrir þrjú og ég um hálffjögur. Ég fór beinustu leið í besta bankann. Átti pantaðan tíma klukkan fjögur og var því komin í fyrra fallinu. Skemmst er frá því að segja að æðin gafst upp áður en náðist nóg í gjafapokann. Þannig þessi gjöf var ónýt en heimsóknin telur þó og er númer 62. Á þá bara 13 eftir til að ná 75. 

17.11.22

Eðlilegri vinnudagur

Ég var mætt í vinnuna upp úr klukkan hálfátta. Fór niður að sækja framleiðsluna frá því á þriðjudaginn til að afgreiðslan gæti komið henni út úr húsi. Svo fyllti ég á vatnsbrúsann og fékk mér kaffi. Við Silla áttum vélarvakt dagsins. Hún á ítroðsluendanum og ég í móttökunni og að taka til í framleiðsluna. Kláruðum fyrstu framleiðslu á rúmum klukkutíma og vorum komnar upp með töskuna um hálftíu. Debetið kláruðum við um hádegisbilið og daglegri framleiðslu lauk fyrir klukkan tvö. Það var smá flækjuvesen á vélinni en ekki nærri eins mikið og fyrstu tvo dagana. Framleiddum 2500 gjafakort til hálffjögur. Viðgerðarmaður kom að kíkja á prentarann og umslagavélina. Ég mátti fara og fór beint heim og sótti Odd. Skipti við hann um sæti. Hann byrjaði á að skreppa í Lyfjaver en þar var lyfið hans ekki til þótt hann ætti ávísun í gáttinni. Þá fór hann í Lyfju í Lágmúla og var afgreiddur þar. Skruppum svo í Krónuna í Skeifunni áður en við fórum heim aftur.

16.11.22

Mánuðurinn hálfnaður

Var vöknuð upp úr klukkan sex. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu þar til kominn var tími til að keyra af stað í vinnuna. Við stöllurnar í kortadeildinni ákváðum að halda sömu vinnustöðvum og á mánudaginn. Og vélin ákvað að vera áfram með flækju-leiðindi. Það er kalt í kortadeildinni og gustar aðeins um akkúrat þar sem prentarin er að skila af sér blöðum og formin límast á þau. Það var prófað að leggja teppi yfir þennan stað og svei mér þá ef það var ekki aðeins betra. En það er samt búið að boða viðgerðarmenn til okkar í dag. Fleiri kort voru í framleiðslu heldur en daginn áður. Einhvern veginn náðum við að koma framleiðslunni í gegn en þegar var búið að framleiða, pakka og ganga frá ákváðum við að bíða með talningar til morguns. Labbaði út af vinnustaðnum rétt rúmlega sex. Var ekki í neinu sundstuði og ákvað að fara bara beint heim.

15.11.22

Þriðjudagur

Þrátt fyrir kaflaskiptan svefn í fyrrinótt var ég vöknuð og komin á fætur upp úr sex. Eftir morgunverkin á baðherberginu gaf ég mér góðan tíma í netvafr. Klukkan var tuttuguogeitthvað mínútur yfir sjö þegar ég lagði af stað á bílnum í vinnuna á nýja staðinn. Vinnufélagarnir eru nú orðnir rúmlega tuttugu sem eru að vinna á sama stað. Fyrirliði kortadeildar var þegar mætt og búin að kveikja á kortavélinni. Nokkrir aðrir voru einnig mættir og allir byrjuðu á að bjóða mig velkomna. Ég skrapp niður á kortalager til að sækja þau kort sem þurftu að komast út úr húsi með því sem var að fara. Svo fór ég í smá kaffi eins og flestir gera í upphafi vinnudags. Ég sá um bókhaldið í gær. Fyrsti framleiðsluskammtur kom upp í innsiglaðri tösku rétt fyrir tíu og til að byrja með fær taskan að fara út úr húsi samdægurs eins og hún hefur gert síðustu áratugina fyrir utan þau skipti sem upp hafa komað vélabilanir og tafir. Framleiðsla korta á form var frekar brösug því inn á milli var vélin að flækja burðarblöðin. Þetta tafði aðeins fyrir og framleiðslu lauk ekki fyrr en um fjögur og þá átti eftir að telja, ganga frá og setjast aðeins niður með þeim tveim sem munu halda utan um okkur kortadeildina á þessum stað. Það  varð því ekkert úr því að ég færi í sjóinn í gær en þó var ég ekki komin heim fyrr en skömmu fyrir klukkan sex. 

14.11.22

Ný vinnuvika á nýjum stað

Var vöknuð upp úr klukkan hálfátta og komin á fætur fljótlega eftir það. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu til klukkan níu. Skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg og þáði kaffibolla út í bíl því ég vissi að ég þyrfti að bíða smá stund eftir að komast í sund. Árshátíð sundlaugastarfsfólks var haldin á laugardagskvöldið og ekki opnað í sund fyrr en klukkan tíu í gærmorgun. Þetta hentaði mér ágætlega. Ég fór tvisvar í kalda og einu sinni í heita áður en ég fór á braut átta og synti 200 metra með fjórum aðferðum; baksund, skriðsund, bakskriðsund og bringusund. Fór svo þriðju ferðina í kalda pottinn og góða stund í gufu áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið í leiðinni. Afganginn af deginum notaði ég í netvafr, prjón, lestur, íþrótta og þáttaáhorf. 

13.11.22

Sunnudagur

Var komin á fætur um klukkan sex í gærmorgun. Rúmum klukkutíma síðar skutlaði ég Davíð Steini upp á Gagnveg og þáði kaffibolla út í bíl í staðinn. Fyllti á tankinn hjá AO við Sprengisand en var samt komin á planið við Laugardalslaug tíu mínútum fyrir átta. Fór inn um leið og var opnað. Tvær ferðir í kalda, eina í heitasta og synti 200 metra áður en ég fór upp úr. Síðan lá leiðin á nýja staðinn. Lagði fyrir ofan, nær Sæbraut. Einn af vinnufélögunum var akkúrat að koma inn að neðan og hleypti mér inn. Þegar ég var komin alla leið inn fékk ég nýtt aðgangskort. Byrjað var á að safnast saman á kaffistofunni. Fengum okkur kaffi og með því og einnig var afmæliskaka á boðstólnum sem flutningsstjórinn sá um að útvega. Fyrirliðinn úr kortadeild átti afmæli. Um hálftíu var farið niður. Þrír frá Ottó B Arnar fór að setja saman vélina. Við úr kortadeildinni fórum inn á lager að taka upp úr pokum og kössum og raða upp í hillur með góðri aðstoð. Um hádegið voru debetkortin og hluti af kreditkortunum komin á sínar nýju hillur. Fengum mat frá Hamborgara fabrikkunni sem flutningsstjórinn hafði pantað eftir okkar óskum og hún sótti og kom með til okkar. Síðan var haldið áfram að taka upp og koma fyrir. Lagerinn var kominn í sitt nýja form á fimmta tímanum. Búið var að kveikja á vélinni og framleiða kort, bæði áprentuð og upphleypt. Þegar framleiðsla á form var prufuð kom upp vandamál með formin. Vélin beyglaði þau eða braut ekki rétt saman. Veit ekki hversu langan tíma tók að laga þetta því ég mátti fara heim um hálfsex en þá var enn verið að finna út úr þessu vandamáli. 

12.11.22

Auka vinnudagur á nýjum stað

Ég var vöknuð rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Hafði því extra góðan tíma til að hafa mig til og vafra smá á netinu því ég fór á bílnum í vinnuna. Var mætt fyrst. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og sú sem var í bókhaldinu var meira og minna á móttökuendanum því fyrirliðinn var að hjálpa við frágang og að innsigla kortaumbúðir. Daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir tólf en svo bættist aðeins við og varð smá vesen en það var þó búið að slökka á kortavélinni í síðasta sinn á Kalkofnsvegi um eitt. Um leið og við töldum öll kort á vögnum plöstuðum við þau inn og gátum fækkað komið öllum kortum fyrir í tveimur vögnum. Höfum verið að nota fjóra vagna undan farin ár. Vagnarnir voru síðan læsti og setti inn í hvelfingu hjá öllum hinum kortaumbúðunum. Ein úr öryggisdeildinni fékk mig til að koma með sér inn á lagerinn þar sem hún gerði talningu á því sem verið var að flytja. Hún sá svo um að telja þetta inn í flutningabílinn og svo sá öryggisstjórinn um að telja þetta út úr bílnum á staðnum sem þetta var flutt á. Þrír frá Otto B Arnar komu um eitt og skrúfuðu niður vélina sem var svo flutt í einingum í tveimur ferðum á nýja staðinn. Þessum flutningum fylgdu einnig tveir menn frá securitas. Tveir sem eru á Reiknistofubílnum sáu um að flytja önnur gögn dót og þeir þurftu að fara nokkrar ferðir. Sérstakur flutningsstjóri sá um ýmislegt í kringum þetta og var búin að setja upp skipulag fyrir nokkru. Hún var á Kalkofnsvegi frá því um hádegi í gær. Um sex leytið voru pantaðar pizzur í allan mannskapinn sem vann að þessu. Síðasta ferð frá Kalkofnsvegi var farin um átta. Flutningsstjórinn þurfti svo að taka smávegis í bílinn hjá sér. Ég var að vinna til hálfníu í gærkvöldi en það var mjög skrýtið að labba út af staðnum í síðasta skiptið. Er búin að mæta í vinnu á Kalkofnsveg í tæp 23 ár.

11.11.22

Síðasti vinnudagurinn í Seðlabankarýminu

Í gær labbaði ég í síðasta sinn niður á Kalkofnsveg. Fór Drápuhlíðina, Reykjahlíð, Miklubraut, Snorrabraut, Eiríksgötu, Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Var mætt fyrst af okkur þremur ein hinar komu fljótlega. Hinar tvær svissuðu um vinnustað en ég ákvað að taka að mér móttökuendann þriðja daginn í röð. Um hálftíu var heljarinnar morgunkaffi og mættu þær tvær úr deildinni sem fengu starfslokasamning um daginn og eins einn sem er nýlega hættur að vinna vegna aldurs. Tókum okkur góða stund í kaffi og það var glatt á hjalla og borðið svignaði undan krásunum. Mikið var að gera hjá fyrirliðanum í símsvörum og að svara póstum en daglegri framleiðslu lauk einhvern tímann eftir hádegi. Þá stillti kerfisfræðingurinn af útlitið á nýja gjafakortaplastinu. Hálftíma síðar komu skilaboð um að það mætti framleiða eins og vindurinn. En við vorum líka að pakka niður kortalagernum í poka og kassa sem hægt er a innsigla eða loka örugglega. Vorum að þessu fram á kvöld. Eins gott að það sé til nóg hráefni á vögnunum í framleiðslu dagsins. Fékk far heim úr vinnunni rétt fyrir tíu, í síðasta sinn. Frá og með næstu viku nota ég óvistvænan ferðamáta í vinnuna og fer á bílnum. Sé fyrir mér að ég verði jafnvel duglegri við að skella mér í sund eða sjóinn beint eftir vinnu. Og í næstu viku byrja ég einnig í mataráskrift svo það verður sjaldnar sem ég elda eitthvað á kvöldin. Mun þó örugglega kaupa í soðið öðru hvoru. 

10.11.22

Síðasti vinnulabbidagur í bili

Labbaði með höfuðljósið í vinnuna þvert yfir Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Njálsgötu, Snorrabraut, Laugaveg og Ingólfsstræti. Vorum allar mættar fyrir átta og ákváðum að halda sömu vinnustöðvum og daginn áður. Ég var því á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir tólf. Ekki var búið að stilla fyrir okkur breytingar vegna gjafakorta en við höfðum í nógu að sýsla við frágang og undirbúning flutninga. Fékk far heim úr vinnunni upp úr klukkan hálffjögur. Um sex bauð ég bræðrunum með mér á Pítuna. Oddur sá um að koma okkur á milli staða. 

9.11.22

Heimsókn á nýja staðinn

Ég fór aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Þó ekki eins snemma og tvo virku morgnana á undan. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Kepptumst við að ljúka allri daglegri framleiðslu sem fyrst svo við gætum skilað af okkur framleiðsluvélinni um hádegið. Það var síðasta yfirferðin á vélinni á þessum stað. Eftir hádegi kláruðum við allar talningar og frágang á deildinni. Um tvö mættum við í heimsókn í Seðlaverið til að skoða aðstöðuna sem við flytjum í um helgina og hitta á næstu yfirmenn okkar. Sú heimsókn tók um klukkutíma. Ég var komin á planið við Laugardalslaugina rétt rúmlega þrjú. Byrjaði á því að hringja í pabba áður en ég fór inn. Um hálffjögur var ég byrjuð að synda og synti ég í tæpar tuttugu mínútur. Ég var svo búin með eina ferð í kalda pottinn og eina í þann heitasta þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Saman fórum við fimm ferðir í hvorn pott og enduðum svo í gufunni. Ég kom heim skömmu fyrir sex. 

8.11.22

Á bílnum

Var vöknuð rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Hafði því alveg tíma til að vafra smá stund á netinu þrátt fyrir að mæta til vinnu klukkan sjö. Enda fór ég á bílnum. Við mættum tvær um sjö og byrjuðum daginn á því að framleiða 1000 gjafakort til að geta afhent þau frá okkur ásamt 4000 öðrum um átta. Næst skiptum við yfir í það sem er yfirleitt framleitt fyrst á morgnana. Þeirri framleiðslu lauk um níu. Þá ákváðum við að klára síðustu endurnýjun frá því í síðasta mánuði. Framleiðsla á kortum sem eiga að taka við af plasti sem rennur út um næstu mánaðamót. Eftir morgunkaffi skiptum við yfir í daglega debetframleiðslu. Henni lauk rúmlega ellefu og þá tók við framleiðsla á hádegisskammtinum. Kreditkort sem send eru til okkar um það leyti. Áttum tæp 5000 gjafakort óframleidd og fengum pöntun upp á önnur 5000. Nóg er til af hráefninu en þegar eldri birgðir kláruðust kom í ljós að það var breyting á plastinu. Við höfðum ekki fengið neina beiðni um að breyta áprentuninni og byrjuðum að nota plastið, hugsuðum eiginlega mest út í að reyna að vinda ofan af framleiðslunni. Enda er kominn þessi tími og þrátt fyrir að við fáum stundum þau skilaboð að ekkert liggi á er spurt næstum daglega eftir gjafakortunum, sérstaklega ef pöntuð hafa verið mörg á saman útibú. Það tekur lengri tíma að framleiða 5000 kort heldur en 500 kort og allt daglegt og jafnvel endurnýjun er látið ganga fyrir. Eftir nokkra framleiðslu á nýja plastútlitinu var samt ákveðið að stoppa og senda fyrirspurn á eigendur. Þrátt fyrir þetta stopp var ég að vinna til klukkan hálffjögur. Var með sjósundsdótið í skottinu en ákvað hins vegar að fara bara beint heim. Hluti af þeirri ákvörðun var tekin vegna þess að ég fékk stæði á góðum stað við húsið. 

7.11.22

Mæti snemma í vinnu

Stillti enga klukku á mig en var vöknuð og komin á fætur um átta leytið. Setti í þvottavél og tók upp þvottinn sem var á snúrunni. Mætti í Laugardalslaugina um tíu en kalda potts vinkona mín hefur sennilega ákveðið að mæta og syngja með kirkjukórnum í Laugarneskirkju í messu. Ég fór þrjár langar ferðir í kalda pottinn, tvær í heitasta pottinn og endaði á góðu gufubaði. Var ekki í stuði til að synda neitt og sleppti því þess vegna. Fór beint heim aftur að undirbúa mig undir fyrsta leikinn í enska. Hengdi upp úr vélinni, hellti upp á kaffi og sótti prjónana mína. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn en þeir skruppu í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu hans. Dagurinn leið frekar hratt.

6.11.22

Sunnudagur

Rumskaði fyrst alltof snemma, fyrir klukkan sex. Sofnaði aftur í smá stund en um sjö ákvað ég að fara á salernið og tæma blöðruna. Eftir það sofnaði ég aftur, fyrst til klukkan að verða níu en svo lengur og reyndar var klukkan næstum orðin ellefu þegar ég dreif mig loksins á fætur. Ég eyddi svo deginum í að taka því rólega. Vafra á netinu, prjóna, horfa á boltaíþróttir og þætti og hringja í pabba og vinkonu. 

5.11.22

Sofið út

Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun. Fór á bílnum í vinnunna tæpum klukkutíma síðar. Við ætluðum að reyna að klára það sem stóð útaf þegar við urðum að hætta deginum áður og koma því með í töskuna sem var sótt um átta. Framleiðsluvélin, þ.e.a.s. umslaga parturinn á henni, var að haga sér mjög illa. Aðeins örfá kort voru tilbúin en ekki hægt að senda þau með þegar taskan var sótt. Við gátum hins vegar framleitt öll kort sem ekki voru að fara á form en það voru aðeins um 180 kort svo það var afgreitt á innan við klukkutíma. En á meðan við biðum eftir viðgerðarmanni gátum við þó framleitt slatta af gjafakortum. Vélin komst ekki í lag fyrr en um tvö og við vorum til hálffimm að framleiða allt daglegt á form og það sem vantaði upp á frá því í fyrradag. Ég fékk að fara korter í fimm. Fór beint heim. Tók inn bakpokann, handtöskuna og sjósundsdótið. Fór í aðra blússu og svo brunuðum við mæðginin austur á Selfoss til Jónu og Reynis þar sem við hittum líka Helgu systur og pabba. Helga var búin að vera hjá frændfólkinu í vikunni á meðan hún var starfsmaður í þjálfun í Krónunni á Selfossi. Þetta var frábær hittingur og klukkan var langt gengin í tólf þegar við mæðgin kvöddum og fórum aftur í bæinn. Oddur Smári keyrði báðar leiðir. 

4.11.22

Morgunstund

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Vorum á sömu vinnustöðvum og á miðvikudaginn svo ég var í bókhaldinu. Stelpurnar byrjuðu á því að framleiða fyrir nýjasta bankann en þegar þær ætluðu að byrja á daglegum verkum stoppaði allt. Það var reynt að endurræsa, slökkva og alls konar en fljótlega varð ljóst að hringja þurfti út viðgerðarmann. Hann kom um tíu og það tók tvo tíma að koma vélinni í gagnið aftur. Um þrjú áttum við að vera í heimsókn á nýja staðnum og skoða aðstöðuna sem við fáum þar en við urðum að afboða okkur. Þurftum samt að afhenda vélina um þrjú svo hægt væri að uppfæra hin ýmsu kerfi á henni. Eitt daglegt verkefni stóð þá útaf. Kláruðum að telja, pakka og ganga frá. Ég var komin fyrir utan Laugardalslaug um fjögur. Hringdi í pabba í gemsann og á meðan við vorum að tala saman hringdi systir mín í hann í heimasímann. Hún var að bjóða okkur í mat í kvöld hjá frændfólki okkar á Selfossi í tilefni þess að hún og kona frænda okkar áttu afmæli 2. og 3. nóvember. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið um hálffimm. Þá var ég búin að fara tvær ferðir í kalda. Fór fjórar í viðbót með henni. Synti 200 metra á bakinu og þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. Systir mín hringdi svo aftur í mig í gærkvöldi til að athuga hvort synir mínir myndu nenna með á Selfoss og einkabílstjórinn að keyra mig svo ég gæti fengið mér í tána, eða allar tærnar þess vegna. 

3.11.22

Fimmtudagur

Labbaði í vinnuna sömu leið og á mánudagsmorguninn. Ég var í bókhaldinu og það var nóg að gera fram yfir hádegi. Eftir hádegi var verið að vinna að endurnýjun til hálffjögur. Ég settist hins vegar með prjónana mína í sófann dágóða stund en hjálpaði svo til við að ganga frá og loka deildinni. Klukkan var að verða hálffimm þegar við yfirgáfum staðinn því við ákváðum að klára að pakka allri endurnýjun. Fékk far heim úr vinnunni en fór svo ekkert út aftur.

2.11.22

Afmælisdagur systur minnar

Vaknaði um sex. Þveraði Klambratúnið þegar ég labbaði í vinnuna. Setti höfuðljósi í hleðslu á vinnutölvunni minni eftir gönguna. Ákváðum að vera á sömu vinnustöðvum og á mánudaginn. Ég var semsagt á móttökuendanum. Rétt fyrir hádegi tók framleiðsluvélin kast. Við ákváðum að slökkva á henni á meðan við færum í mat. Fyrsta einn og hálfa tímann eftir mat hegðaði vélin sér betur en svo var hún að byrja aftur um tvö. Skiptum því úr endurnýjun yfir í gjafakortaframleiðslu og framleiddum 1000 svoleiðis áður en við sögðum þetta gott um þrjú. Sú sem oftast býður mér far heim úr vinnu var að fara beint í sjúkraþjálfun svo ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Það kom maður um hálffimm að rakamæla flestar íbúðir í húsinu. Tengist tilvonandi framkvæmdum og uppsetningu þeirra. Ég skrapp svo á bókasafnið og í Krónuna en skrópaði í sund. 

1.11.22

Glænýr mánuður

Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun. Dreif mig fljótlega á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég í stofuna með fartölvuna í fanginu þar til kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Labbaði upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Öll dagleg framleiðsla var búin um hádegið svo við gátum einbeitt okkur að endurnýjun eftir hádegi. Allt gekk mjög vel framan af en um þrjú fékk vélin kast og það endaði með því að klukkan var orðin hálffimm áður en við gátum yfirgefið vinnustaðinn. Fékk far heim úr vinnunni og við vorum lengur en venjulega vegna umferðar á þessum tíma. Ég ákvað svo að fara ekkert út aftur. Kláraði eina tusku og fitjaði upp á nýrri og horfði á tvo þætti úr hluta af þeim seríum sem ég er að fylgjast með.