31.8.22

Á bílnum

Svaf alveg þar til vekjaraklukkan hringdi í gærmorgun. Fór á bílnum í vinnuna. Einhvern veginn atvikaðist það þannig að ég var allan daginn á móttökuendanum á vélinni. Átti reyndar þátt í þeirri ákvörðun sjálf. Sú sem átti að fara inn á vél eftir kaffi bað mig um að leysa sig af vegna annarra verkefna sem hún var í og þrátt fyrir að hún ætti að fara á ítroðsluendann bauð ég þeirri sem var með mér á vélinni fram að kaffi að halda sömu stöðum. Svo fór ég aftur inn eftir hádegi með þeirri sem var skráð á ítroðsluendann eftir kaffi. Hún fór sjálfkrafa á þann enda. Við vorum að vinna að endurnýjun. Allt gekk vel framan af en  eftir klukkutíma keyrslu fór umslagaparturinn á vélinni að haga sér verulega illa. Áttum von á viðgerðarmanni til að laga annað mál. Hann kom um hálfþrjú og sinnti þessu verkefni líka. Um hálffjögur fór ég í að taka tappann úr þremur tegundum með aðstoð beggja kerfisfræðinganna. Annar þeirra var á staðnum en hinn fjarstýrði mér og okkur í gegnum fjarfundabúnað. Erum komin með smá plast af þeirri tegund sem vantar og þegar sá sem fjarstýrði okkur var búin að kanna stöðuna á því sem hefur safnast upp síðustu vikur sáum við að hægt yrði að taka tappann úr þessum þremur, náms og klassakortum. Og vonandi fáum við svo heildarbirgðirnar á næstu dögum. Fór úr vinnu um hálffimm og þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér í skottinu fór ég beinustu leið heim.

30.8.22

Mánuðurinn að klárast

Labbaði í vinnuna þvert yfir Klambratún, Gunnarsbraut, Snorrabraut, Laugaveg og nokkrar litlar götur í kringum Þjóðleikhúsið. Var mætt fyrst af fjórum. Skráð í bókhaldið svo ég byrjaði á því að prenta út fyrstu framleiðsluskrár dagsins. Daglegri framleiðslu lauk rétt upp úr tólf. Smá vesen á vélinni svo kalla þurfti út viðgerðarmann. Það átti þó að reyna að byrja á endurnýjun eftir hádegi en það gekk ekki upp svo hornið í sófanum í skrifstofurýminu breyttist í hálfgerðan prjónaklúbb. Að vísu vorum við bara tvær að prjóna af fjórum. Fékk að hætta vinnu um þrjú leytið. Úti var smá úði og dumbungur svo ég ákvað að hringja í einkabílstjórann og biðja hann um að sækja mig við Sólfarið. Rölti svo þangað og þurfti aðeins að bíða þar í nokkrar mínútur. Heima fengum við það gott stæði að ég nota það sem afsökun til að fara ekkert aftur út. 

29.8.22

Ný vinnuvika að hefjast

Vaknaði um níu í gærmorgun og var komin á fætur hálftíma síðar. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu í smá stund, bæði með bók og prjóna. Nokkru síðar fór ég inn í eldhús. Fékk mér lýsissopa og harðsoðið egg og hellti upp á smá kaffi. Dagurinn leið hratt við prjón, lestur og kapallagnir. Pabbi bauð okkur Bríet upp á grillaðar lambasneiðar um fimm leytið, með soðnum kartöflum, hrásallati, spínati og lambhagasallati. Þetta var mjög gott. Eiginlega strax eftir mat pakkaði ég saman og kvaddi. Var komin heim upp úr klukkan sjö. 

28.8.22

Í föðurhúsum

Þrátt fyrir að vera komin á fætur fyrir átta í gærmorgun var klukkan farin að nálgast ellefu þegar ég mætti í Sundhöllina. Byrjaði á að skella mér í kalda pottinn. Synti svo í tæpan hálftíma á braut 4 í útilauginni, flestar ferðirnar á bakinu en þó 2x25m skriðsund. Fór beint aftur í kalda pottinn í nokkrar mínútur og sat svo í 3-4 mínútur á bekk úti áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Þegar ég kom heim og ætlaði að ganga frá sunddótinu kom í ljós að ég hafði gleymt sundbolnum mínum hangandi á snaga í rýminu þar sem maður þurrkar sér. Fékk mér að borða áður en ég pakkaði niður og kvaddi. Byrjaði á því að koma við í Sundhöllinni og fékk að fara sjálf niður. Fann sundbolinn þar sem ég hafði skilið hann eftir. Kom næst við í AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. Var komin á Hellu um þrjú. Pabbi var á leið út í garð að slá. Ég skrapp út í vínbúð að kaupa kassa af hvítvíni. Hitti skólasystur mína úr grunnskóla þegar ég kom úr vínbúðinni en hún var á leið í matvörubúðina. Spjölluðum saman í nokkrar mínútur. Horfði á bikarúrslitaleik kvenna í knattspyrnu og var glöð yfir að mínar stelpur í Val höfðu sigur þrátt fyrir að lenda undir; Breiðablik 1 Valur 2. Og Liverpool vann loksins sinn fyrsta leik á tímabilinu í fjórðu umferð deildarinnar. Sigruðu Bournmouth með níu mörkum gegn engu. 

27.8.22

Síðasta helgin í ágúst

Fór aftur á bílnum í vinnuna í gær. Nú með sjósundsdótið með mér í skottinu. Ég var á móttökuendanum. Allri framleiðslu og talningu var lokið fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi tók ég óvissukennispjalda bunkann og fletti öllum kennitölum upp. Þannig fann ég hvar amk 30 spjöld áttu "heima".  Hættum vinnu um hálftvö. Ég byrjaði á því að skreppa aðeins heim. Oddur hafði á orði að skinkan væri búin og hann væri búinn að taka síðasta brauðkubbinn úr frysti. Ég var komin í sjóinn um hálffjögur og svamlaði um í rúmar tuttugu mínútur. Sat svo annað eins eða jafnvel aðeins lengur í heita pottinum. Síðan skrapp ég í Krónuna við Fiskislóð og verslaði í tvo fjölnota innkaupapoka. Hringdi í Odd þegar ég var komin fyrir utan og bað hann um að sækja vörurnar. Hann gerði það og gekk frá þeim líka.

26.8.22

Föstudagur

Í gærmorgun vaknaði ég þremur mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Ég hélt ég hefði slökkt á henni en þegar ég var að klæða mig stuttu síðar byrjaði síminn að hamast. Fór á bílnum í vinnuna og tók sunddótið með og geymdi í skottinu. Ég byrjaði frammi að undirbúa pökkun og aðstoða þá sem var í bókhaldinu að telja þegar fyrstu tölur voru tilbúnar. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Fengum smá "glugga" til að halda aðeins áfram með endurnýjun. Eftir hádegi tók aðeins hálftíma á klára þá endurnýjun. Ég var á móttökuendanum þá. Svo enduðum við á því að ryksuga vélina. Ákváðum að hætta vinnu upp úr klukkan hálftvö með það á bak við eyrað að fljótlega gætum við þurft að vera lengur en átta tíma í vinnunni. Meira um það þegar þar að kemur. Ég ákvað að skreppa í sund í Laugardalinn en þar hef ég ekki synt eða farið síðan í mars. Fór beinustu leið í kalda pottinn. Synti svo 300 metra og var á minni annari ferð í þeim kalda þegar kalda potts vinkona mín og systir hennar mættu á svæðið. Það urðu fagnaðarfundir og við fórum 5 eða sex ferðir á milli kalda og heita áður en við kvöddumst og ég endaði á góðu gufubaði. Hún hafði "stungið" af úr skólanum sem er nýbyrjaður og var á leið þangað aftur. 

25.8.22

Fimmtudagur

Var mjög hissa þegar vekjaraklukkan ýtti við mér í gærmorgun. Slökkti á henni og fór á fætur. Beið með morgunverkin að baðherberginu því Davíð Steinn var þar. Hann var svo farinn í sína vinnu á undan mér. Ég labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á ítroðsluendanum á vélinni fram að kaffi og á móttökuendanum til hádegis. Eftir hádegi var ég að pakka endurnýjun og fletta í gegnum nokkra kassa af umslögum til að finna og taka út tvö kort sem beiðni var um að færu frekar í útibú. Kom við á Lækjartorgi hjá Lilju og labbaði svo heim í gegnum Hljómskálagarðinn og meðfram flugvellinum og Valsvellinum. Ákvað að þetta væri nóg hreyfing yfir daginn og fór ekkert út aftur. 

24.8.22

Miðvikudagur

Var vöknuð upp úr klukkan sex. Labbaði af stað í vinnuna um sjö, yfir Klambratúnið og þá leiðina. Ég var í bókhaldinu í gær. Við tvær sem vorum frammi saman fyrst einhentum okkur fljótlega í að opna sendingu af plasti sem kom í fyrradag. Tveir stórir kassar og þrír minni og litlir kassar inni í þeim öllum. 1-3 litlir í minni kössunum en 5-6 í þeim stóru. Höfðum ekki að klára og þessu verkefni var ekki haldið áfram fyrr en eftir hádegi. Sú sem var með mér frammi þá kláraði með mér. Þetta voru í heildina um 40.000 kort og þurfti að taka alla kassa úr plasti til að telja, setja svo aftur í plastið og loka vel. Áttum bara eftir að merkja (setja límmiða) á hluta af sendingunni þegar við hættum vinnu um hálffjögur. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Stoppaði heima í rúman klukkutíma áður en ég fór í fiskbúð og svo sund. Synti ekki neitt en fór 3 sinnum í kalda pottinn, einu sinni í heitan og einu sinni í gufu. Kom heim um hálfátta og ákvað að geyma fiskinn til morguns.

23.8.22

Jafntefli og tap

Labbaði í vinnuna í gærmorgun og var mætt fyrst til vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Hinar þrjár sem ekki eru í fríi skiluðu sér á svipuðum tíma ca tíu mínútum síðar. Ég byrjaði á ítroðsluendanum á vélinni, hlóð inn verkefnum og sendi frá mér skrárnar úr fyrsta skammtinum og megnið af þeim næsta fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Kláruðum skammt númer tvö og héldum svo áfram með gjafakortaframleiðslu þar til hádegisskammturinn skilaði sér. Lentum í smá veseni með hádegisframleiðsluna því þegar átti að framleiða sex skrár í einu sem allar eru hlaðnar inn á sama hátt merktist bara við fimm af þeim, sú fyrsta varð útundan. Öll kortin voru hins vegar í þeirri röð sem átti að framleiða þau og þetta varð til þess að það varð slatti ónýtur og tíma tók að greiða úr þessari flækju. Eftir hádegi var ég að mestu frammi við. Leysti þó þær sem voru á vélinni af um tvö, eina í einu, í smá stund. Um þrjú vorum við allar mættar upp í K2 í fundarherbergið Hamar. Þangað mætti einnig kerfisfræðingurinn sem er með vinnuaðstöðu hjá okkur í K1. Yfirmaður okkar hafði boðað okkur á fund og vildi fá okkur upp í Katrínartún svo hún hefði möguleika á að nota skjá. Fundurinn stóð yfir í rúman klukkutíma. Ég labbaði heim og var komin þangað upp úr klukkan hálffimm. Ákvað að "skrópa" í sjósundsferð. Var eiginlega hvort sem er búin að missa af þeim sem ætluðu að mæta úr hópnum mínum. Horfði á Man. Utd - Liverpool 2:1 og fylgdist með Breiðablik - Valur 2:2 á netmogganum. Fyrsti leikur sem Liverpool tapar í marga, marga mánuði. 

22.8.22

Líður á mánuðinn

Í gærmorgun var ég komin á fætur um hálfátta. Skutlaði syninum í vinnuna rétt fyrir hálftíu og ákvað að kíkja í Grafarvogslaug. Byrjaði á að pottormast milli kalda og heita og fór í gufu áður en ég synti smávegis. Kom við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim. Oddur Smári gaf mér fjórar dokkur af sérstöku garni fyrir nokkrum vikum. Það garn hentar ekki í tuskugerð. Hefði líklega getað prjónað teppi en í staðinn fitjaði ég upp á enn einu sjalinu. Er byrjuð á dokku tvö af bleika litnum. Hinar tvær dokkurnar eru bláar og ætla ég að nota þær á síðasta helmingi sjalsins. Fann eina dokku af bleika garninu í Hagkaup í gær og fjárfesti í henni.

Annars gleymdi ég að geta þess að ég fór á bókasafnið á laugardaginn. Skilaði fjórum bókum, ein með skilafrest 22. ágúst og hinar 24. ágúst. Þrjár bækur voru eftir heima og ég tók þrjár með mér heim af safninu. Ein af þeim er ný með 14 daga skilafresti. Ég á reyndar eftir að athuga einhvern tímann hvort hægt sé að fá auka hálfan mánuð. Held að það eigi að vera hægt nema bókin sé pöntuð í millitíðinni. En ég er yfirleitt búin að lesa bækurnar áður en kemur að skilafresti.

Og af því að ég er að rifja upp og skrásetja viðburði þá er rétt að hafa það skjalfest að tæpum fjórum mánuðum eftir að gert var við framtönnina og jaxlinn er rótarfyllingin farin úr jaxlinum. Framtönnin er heil en líklega var það ópal sem ég fékk mér af í vinnunni í boði vinnufélaga á miðvikudaginn var sem losaði um og skemmti fyllinguna. Hef ekki enn haft samband við tannlækni og pantað mér tíma en ég læt það líklega ekki bíða fram að næsta tanneftirlitsdegi sem er eftir tvo mánuði. 

21.8.22

Heildarfærsla no 3343

Var komin á fætur um hálfsjö. Klukkutíma síðar hleypti ég Davíð Steini út við N1 stöðina við Gagnveg og þáði kaffi til að taka með  í staðinn. Komst alla leið að Sundhöllinni og fékk stæði fyrir framan þótt búið væri að loka einhverjum götum. Hitti ritara safnaðarstjórnar óháða safnaðarins í búningsklefanum og svo aftur aðeins í kalda pottinum í minni annarri ferð af þremur. Fékk að synda óáreitt á braut fjögur í útilauginni í uþb tuttugu mínútur, flestar ferðirnar á bakinu. Var ekki alveg búin með 500 metra þegar ég fékk félagsskap og ákvað að kalla þetta gott. Finnst óþægilegt að synda á bakinu þegar fleiri eru í sömu braut. Í gær var hárþvottadagur og ég vildi synda sem flestar ferðir á bakinu. Synti þó 2x25m skriðsundsferðir. Var komin heim upp úr klukkan hálftíu. Hellti mér ekki upp á kaffi fyrr en um hádegisbilið. Svo fór afgangurinn af deginum í prjón, boltaáhorf og smá þvott.

20.8.22

Menningarnótt í dag

Þriðja daginn í röð fór ég á bílnum í vinnuna. Þar sem sú sem var skráð í bókhaldið var búin að láta vita að hún kæmi ekki fyrr en upp úr níu prentaði ég út tölur fyrir fyrstu tvær daglegu framleiðslur. Hin sem var með mér á vélinni kom mátulega til að taka vagna og töskur með mér út af lager rétt áður en fyrsta bankataskan var sótt. Ég var skráð á ítroðsluendann en fyrr í vikunni svissuðust stöðurnar milli okkar sömu tveggja þar sem hún kom ekki í vinnu fyrr en upp úr klukkan átta. Ég sá því um móttökuendann á vélinni allan daginn þar sem við vorum aðeins þrjár í vinnu. Með hádegisskammtinum kom pöntun upp á 5000 gjafakort. Framleiddum helminginn af þeim á uþb tveimur og hálfum tíma eftir hádegi þannig að ekkert var unnið við endurnýjun í gær. Sú sem var í bókhaldinu þurfti að fara rétt fyrir þrjú en við sem vorum á vélinni vorum til hálffjögur. Ég fór beint í Nauthólsvík. Sjórinn 11,2 og það var að koma fjara. Svamlaði um í tæpar tuttugu mínútur. Á þeim tíma fór að hellirigna og regndroparnir voru svo stórir og margir að það var eins og þeir dönsuðu á sjávarfletinum. Eftir sjóbuslið sat ég svo annað eins í heita pottinum ef ekki ívíð lengur. Klukkan var byrjuð að ganga sex þegar ég kom heim. 

19.8.22

Aftur á bílnum

Ég var skráð í bókhaldið í gær og þegar maður á bókhaldið á fimmtudögum kemur maður við í bakaríi á leiðinni í vinnuna. Ég var ekki í stuði til að labba við þótt það sé þannig séð í leiðinni. Hefði svo sem líka alveg getað skroppið frá eftir að vinna hófst. En ég fór semsagt á bílnum og kom við í Bakaríinu við Skúlagötu, keypti gróft súrdeigsbrauð, tvær tegundir af sallati og vínarbrauðslengju. Þrátt fyrir þetta stopp var ég langfyrst í vinnuna. Sú sem kemur oftast fyrst eða um svipað leyti og ég komst ekki strax. Var með barnabarnið sitt og það átti ekki að mæta í leikskólann sinn fyrr en klukkan níu. Einhvern veginn gat hún þó samið um að hann mætti koma í fyrra fallinu og var sjálf mætt í vinnu upp úr klukkan hálfníu. Framleiðsla og endurnýjun gengu vel og allar talningar gengu 100 prósent upp. Hættum vinnu rétt um þrjú. Þá þurfti amman að fara að sækja barnabarnið. Ég kom við í Sundhöllinni. Synti þó ekkert en nýtti mér potta og gufu. Kom heim um hálffimm. 

18.8.22

Á bílnum

Það var svolítið hraðferð á logninu og aðeins byrjað að rigna um sjö í gærmorgun. Ég notaði það sem afsökun til að fara á bílnum í vinnuna. Sú sem átti að vera nr. 1 með mér á vélinni kom ekki fyrr en korter yfir átta. Ég ákvað því að svissa um enda við hana. Við eigum vélina aftur á föstudagsmorguninn. Þá er ég skráð no. 1 og skipti þá við hana og fer yfir á móttökuendann. Nóg var að gera á ítroðsluendanum að hlaða inn deginum sem og nokkrum endurnýjunum. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Kláruðum að framleiða daglegu debetkortin um hálfellefu og framleiddum þá smá endurnýjun næsta rúma hálftímann. Vorum svo búnar að framleiða hádegisskammtinn rétt rúmlega hálftólf. Eftir hádegi voru aðrar tvær saman inn á vél að vinna að endurnýjun. Ég leysti aðra þeirra af um tíma þar sem hún varð að svara mikilvægum fyrirspurnum. Hættum vinnu rúmlega þrjú. Úti var hellidemba og þrátt fyrir að sunddótið væri meðferðis fór ég bara beinustu leið heim. 

17.8.22

Sjósundsferð

Labbaði í vinnuna um sjö. Var í "frammiverkefnum" fram að kaffi. Undibjór pökkun og taldi svo með þeirri sem var í bókhaldinu þegar fyrsti skammturinn hafði verið afgreiddur. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann. Við vorum búnar með næsta skammt hálftíma áður en hádegisskammturinn komi yfir á vél og sá skammtur var búinn rúmlega hálftólf. Fengum að fara úr vinnu um hálftvö. Ég kom aðeins við í bókabúð að kíkja á nýja tuskuprjónabók. Ákvað samt að freistast ekki til að kaupa þá bók. Stoppaði heima í um tvo tíma áður en ég tók til sjósundsdótið og fór í Nauthólsvík. Hausttímabilið er hafið og ég fyllti á kortið mitt til áramóta. Hitti sjósundsvinkonu mína og við vorum búnar að vera rúmar tíu mínútur á svamli í sjónum þegar systurnar úr hópnum okkar komu. Fórum í heita pottinn tuttugu mínútum síðar. Það var frekar margt um manninn miðað við að ekki er lengur ókeypis í aðstöðuna. Áður en ég fór heim kom ég við í fiskbúðinni og keypti ýsu í soðið. Ekki var til harðfiskur úr óbarinni ýsu en ég prófaði keilu og þorsk í staðinn. 

16.8.22

Labbað í vinnu og aftur heim

Vaknaði rétt rúmlega sex. Sá til þess að vekjarinn myndi ekki hringja, fór á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu í tæpan hálftíma. N1 sonurinn kom fram rétt fyrir hálfsjö og fór út á undan mér. Ég labbaði í vinnuna um sjö og var fyrst á svæðið af fjórum. Já, nú er aðeins ein í fríi og við fjórar á svæðinu. Var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni fram að hádegi og í pökkun, talningu og sorteringu til hádegis. Var að flokka ónýt kort frá apríl og út júlí sem þarf að farga fljótlega. Átti aðeins júlíkortin eftir þegar við skruppum í mat. Yfirgáfum vinnustaðinn fyrir klukkan þrjú og ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið.

15.8.22

Ný vinnuvika

Vaknaði rúmlega níu. Var samt komin á fætur og fram aðeins á undan pabba. Lagði kapla, las og prjónaði. Hellti mér upp á kaffi um hálfellefu. Um hálftvö kom maður einnar frænku okkar pabba og færði honum smávegis af krækiberjum. Ég hellti aftur upp á. Maðurinn stoppaði þó ekki lengi en gaf sér tíma til að drekka einn bolla af kaffi. Upp úr hálffjögur bauð pabbi upp á grilluð rif með hrísgrjónum og sallati. Bríet og Bjarki borðuðu með okkur og tóku svo að sér að vaska upp. Rúmlega fimm tók ég mig saman og kvaddi pabba. Bjarki var farinn og Bríet líklega farin að sofa því hún átti að byrja vinnu eldsnemma eða um fjögur í morgun. Greiðfært var í bæinn eða alveg fram að þar sem framkvæmdirnar eru þar var samfelld bílalest á ca 30 km hraða inn að fyrsta hringtorgi. 

14.8.22

Sunnudagur

Klukkan var orðin hálfníu þegar ég vaknaði í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu gaf ég mér tíma í netvafr og það urðu tveir tíma. Klukkan var því um ellefu þegar ég mætti í Sundhöllina. Braut 4 í útilauginni var laus og ég byrjaði á því að synda í tuttugu mínútur, flestar ferðirnar á bakinu en þó tvær skriðsundsferðir. Eftir sundið var það kaldi í fimm mínútur, gufa, sturta og aftur kaldi áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Skrapp aðeins í Krónuna við Fiskislóð því það var farið að vanta ost, skinku og brauð. Verslaði aðeins í einn poka. Gekk frá vörunum er ég kom heim og fékk mér einhverja hressingu. Kveikti aðeins á sjónvarpinu og horfði á síðustu mínútur í hádegisleiknum í enska boltanum. Svo pakkaði ég niður og dreif mig austur. Fór Þrengslin og kom aðeins við hjá Jónu og Reyni en þau eru enn í sumarleyfi, nýkomin úr tveggja vikna ferð til dóttur sinnar og fjölskyldu í Danmörku. Þáði kaffi hjá þeim en stoppaði aðeins í tæpan klukkutíma. Klukkan var samt orðin hálffimm þegar ég kom til pabba. 

13.8.22

Nýr skoðunarmiði

Í gærmorgun vaknaði ég aðeins þremur mínútum áður en klukkan átti að hringja. Hafði reyndar rumskað um klukkutíma fyrr en mér fannst það heldur snemmt og sem betur fer steinsofnaði ég aftur og dreymdi einhverja vitleysu. Fór á bílnum í vinnuna. Við vorum tvær, ég var í bókhaldi og á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk fyrir klukkan tólf og við kláruðum að telja og ganga frá áður en við fórum í mat. Ég fékk að fara um tvö. Fór með bílinn í Frumherja til að láta skoða hann. Tveir aðrir voru á undan og aðeins einn í vinnu en biðin varð samt ekkert löng og ég fékk bláan 2023 miða á bílinn og enga athugasemd. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. Þrátt fyrir að vera með sunddótið í bílnum ákvað ég að fara heim án þess að fara í sund. Oddur fékk lánaðan bílinn og þeir bræður fóru báðir saman eitthvað að erindast. Komu heim með tilboð og fötu frá KFC í boði Davíðs Steins. Um kvöldið horfði ég á bikarleik kvenna, undanúrslit, í fótboltanum. Stjarnan - Valur 1:3. Leikur var sýndur beint á RÚV2.

12.8.22

Labbað báðar leiðir í gær

Ég var vöknuð og komin á fætur upp úr klukkan sex. Hafði því ágætis tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna. Ég var á móttökuendanum aftur í gær því ég bauð þeirri sem var í bókhaldinu í fyrradag sem var aðeins að vinna til hádegis í gær að velja á hvorum endanum hún vildi vera. Framleiðsla var ekki mikil og gekk vel. Geymdum okkur part af verkefni tvö fram yfir kaffi. Sú sem var í bókhaldinu hafði skroppið í Bernhöftsbakarí og fyrrum vinnufélagi okkar kom í heimsókn í "föstudagskaffið". Þegar daglegri framleiðslu lauk fengum við nokkra mínútna auka verkefni sem bráðlega mun bætast við inn í framleiðsluflóruna. Daglegri framleiðslu, fyrir utan þrjú kort úr tegund sem bráðum fer að hætta, var lokið upp úr klukkan hálftólf. Stuttu síðar fór sú sem vinnur bara til hádegis á fimmtudögum inn í sína helgi.  Eftir hádegi var loksins hægt að framleiða kortin þrjú. Ég fékk að hætta og fara um hálftvö. Það var hvort sem er allt búið. Kom við í Austurstræti og heilsaði aðeins upp á Lilju. Labbaði svo lengri leiðina heim, Lækjargötu, gegnum Hljómskálagarðinn, meðfram flugvellinum og framhjá Valsheimilinu. Oddur var í Sorpuferð en kom heim nokkru á eftir mér. Davíð Steinn var á vinnuvakt. Hann kom ekki heim fyrr en um hálfníu.

11.8.22

Flokkun lokið

Labbaði yfir Skólavörðuholtið í vinnuna í gærmorgun með ýmislegt með mér í bakpokanum. Vorum þrjár, ein farin í frí og önnur komin úr stuttu fríi. Tekist hafði að koma í veg fyrir lekann svo það kom ekkert plast til framleiðslu sem ekki eru til birgðir af. Ég var á móttöku endanum og við sem vorum á vélinni kláruðum fyrstu tvö verkefnin áður en við fórum í kaffi. Tókum okkur gott kaffihlé en svo fór fyrirliðinn á fjarfund í tölvunni sinni. Sá fundi var lokið áður en hádegisverkefnið skilaði sér til okkar. Allri framleiðslu var lokið korter í tólf, allt talið og frágengið um tólf. Hinar tvær fóru svo heim en ég tók á móti tveimur viðgerðarmönnum í yfirferð. Kerfisfræðingurinn sem er með aðstöðuna hjá okkur var líka á svæðinu. Yfirferðin fólst að þessu sinni í að fara yfir og sortera varahluti og setja í nýjar geymsluhirslur. Ég flokkaði kennispjöld á meðan. Flokkaði síðustu kennispjöldin frá því í ágúst 2016 um þrjú leytið. Var með bók í bakpokanum og einnig komin inn með prjónana mína en ég eyddi síðustu þremur korterunum í að vafra á netinu á vinnutölvunni minni. Oddur sótti mig í vinnuna og ég fór ekkert aftur út. Lauk við eldhúshandklæðið í páskagula litnum, gekk frá endum og fitjaði upp á nýrri tusku úr grænni dokku. 

10.8.22

Yfirseta í dag

Það var úrhellisdemba í gærmorgun svo ég fór á bílnum í vinnuna. Varð blaut við að labba út í bíl en hann var í stæði fyrir framan númer 9 svo þetta var smá spölur. Eitthvað gerðist þegar verið var að laga uppsetningu kortanna í kerfinu í fyrradag og þrátt fyrir að sumar tegundir væru merktar þannig að ekki mætti framleiða þær komu allar tegundir til framleiðslu. Sem betur fer fengum við leyfi til að nota annað plastútlit svo hægt var að framleiða kortin. Kerfisfræðingarnir fóru í það að "handlaga" málin og nú er það svo að þegar birgðir berast verðum við að kalla þá til til að opna aftur fyrir framleiðslu. Ég var á ítroðsluendanum. Við vorum þrjár í vinnu og sá fjórði á staðnum, annar kerfisfræðingurinn, því hann er með sína aðstöðu hjá okkur og mun flytja með kortadeildinni þegar þar að kemur. Framleiðslu lauk rétt fyrir tólf. Þá vorum við búnar að framleiða yfir níuhundruð kort. Ég fór upp í mat með þeirri sem er skráð í mat. Eftir hádegi töldum við afganginn af vögnunum, vorum búnar að telja tvo af fjórum rétt fyrir morgunkaffi. Ég mátti svo hætta vinnu rétt fyrir tvö. Ég ákvað að fara í sund í Vesturbæjarlaugina. Vafði sjampóbrúsa og höfuðhandklæðinu inn í handklæðið. Þegar til kom synti ég ekkert og fór ekki heldur í kalda pottinn. Það eru aðeins fjórar brautir og þar sem ekki voru þegar fyrir einn eða tveir að synda voru börn að leik og þar sem ég var að spá í að þvo á mér hárið vildi ég helst synda nokkrar ferðir á bakinu. Ég var samt rúman klukkutíma á svæðinu. Fór í sána, heita potta, vaðlaug og sat góða stund á einum af bekkjunum. En þar sem ég synti ekki neitt þvoði ég mér heldur ekki um hárið. Ekki að það sé mikið skítugt en það er vika síðan ég þvoði það síðast. 

9.8.22

Bókasafnsferð

Vaknaði rétt fyrir sex og fór strax á fætur. Klukkutíma síðar labbaði ég af stað í vinnuna og komst alla leið áður en fór að rigna. Það var rétt að byrja að dropa síðustu metrana. Við vorum tvær í vinnu, ég í bókhaldi og á móttökuendanum á vélinni. Um níu kom kerfisfræðingurinn sem er með aðstöðu hjá okkur úr fríi svo þá vorum við orðin lögleg á deildinni. Þótt dagleg framleiðsla væri ekki mjög mikil var klukka orðin hálfeitt þegar henni lauk. Silla bauð mér með sér upp að borða. Strax eftir mat og einn kaffibolla fór hún í að pakka og ég að vinna í bókhaldinu. Höfðum talið fyrstu framleiðslu fyrir morgunkaffi en áttum eftir að telja hinar tvær, seinni tvo vagnana. Vorum í vinnu til hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Settist smá stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu en rétt fyrir fimm skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði þremur bókum. Ein af þeim var skammtímalánsbókin og var akkúrat kominn tími til að skila henni. Þrátt fyrir að vera með þrjár bækur enn heima tók ég fjórar bækur og ein af þeim er ný með 14 daga skilafresti. Fór beint heim aftur og kláraði að lesa eina af þeim þremur sem voru heima frá síðustu ferð og byrjaði svo strax á annarri af hinum; Hægt og hljótt til helvítis eftir Magnús Guðmundsson

8.8.22

Enn einn kippurinn

Í dag eru 4 ár síðan mamma dó og rúm þrjú ár eru liðin síðan duftkerið var sett niður í gröf "Litlu Önnu" systur minnar sem aðeins fékk að vera til um sjö mánuði. Það er ekki búið að setja viðbótarmerki á leiðið en það verður ekki gert strax. Annars var ég komin á fætur rúmlega sjö í gærmorgun. tæpum tveimur tímum síðar fékk ég mér lýsi og musli með mjólk út á. Skutlaði Davíð Steini í vinnu þannig að hann var mættur á stöðina klukkan hálftíu. Þáði kaffi út í bíl sem ég drakk þegar ég var komin á stæði við Nauthólsvík. Hlustaði á útvarpsfréttir klukkan tíu og snérist svo hugur. Hætti við að skella mér í sjóinn og fór bara heim. Heima dútlaði ég við ýmislegt, las, prjónaði, vafraði á netinu, horfði á leiki í enska sem og þætti. Setti handklæði af strákunum í þvottavél sem ég fékk svo Odd til að hengja upp. Er búin að ræða við strákana um að þeir geti alveg farið að skiptast á að þvo handklæðin sín. Þeir eru löngu farnir að þvo af sér leppana og nú er það orðið þannig að maður spyr hvort þeir þurfi að setja í vél áður en maður fer í þvottahúsið því ef þeir segjast þurfa að þvo fer ég að sjálfsögðu ekki í þvottahúsið þann daginn.

7.8.22

Jafntefli

Vaknaði um sexleytið og dreif mig á fætur. Hafði því ágætan tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég skutlaði N1 syninum upp á Gagnveg. Hleypti piltinum út við vinnustaðinn um hálfátta og beið fyrir utan þar til hann var búinn að færa mér kaffi. Drakk kaffið á bílastæði við Austurbæjarskóla. Hlustaði á morgunfréttir klukkan átta áður en ég dreif mig í sund. Sá bíl sr. Péturs fyrir framan Sundhöllina en hitti samt ekki á hann í sundinu. Fór 4 ferðir í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur á braut 4 í innilauginni (allt á bringunni), eina ferð í heitasta pottinn, eina ferð í gufu og eina ferð í langpottinn á útisvæðinu. Áður en ég fór heim kom ég við í Bakarameistaranum í Suðurveri og fékk mér kaffi, smurt rúnstykki og sérbakað vínarbrauð sem ég borðaði og drakk á staðnum. Kom heim um hálfellefuleytið. Fór ekkert út aftur en setti í þvottavél, prjónaði, vafraði á netinu, horfði á leiki í enska og þætti. Um kvöldið steikti ég þorskhnakka. 

6.8.22

Á skutlvaktinni

Í gærmorgun  fór ég á bílnum í vinnuna. Við vorum tvær hin í bókhaldi og á móttökuendanum og ég á ítroðsluendanum. Fyrsta framleiðsla gekk alveg ágætlega. Svo lentum við í brasi með eina tegund úr næstu framleiðslu. Svo miklu brasi að við urðum að sleppa því að framleiða þá tegund, þar var eitthvað ekki alveg rétt og vélin virtist ekki ráða við málið. Þetta bras kostaði það að við áttum eftir að framleiða fyrir einn bankann þegar við fórum í mat. Eftir mat byrjuðum við á því að snúa við ferlinu og framleiddum fyrst allt sem fara átti í póst fyrir síðasta bankann. Gengum svo frá öllum póstsendingum áður en við kláruðum að framleiða. Pósturinn hefur nefnilega verið sóttur frekar snemma undanfarið, klukkan er varla orðin hálftvö og ef það er ekki allt tilbúið fyrir þann tíma fer það ekki fyrr en í næstu ferð. Þegar framleiðslu lauk fór sú sem var í bókhaldinu og útbúa talningablöð en kom svo og kláraði að pakka með mér því sem átti að fara í útibú. Síðan töldum við báða seinni vagnana, fyrri tvo töldum við eftir fyrstu framleiðsluna. Hættum vinnu um hálfþrjú og ég fór í Nauthólsvík því ég var með sjósundsdótið með mér í skottinu. Svamlaði um í uþb korter í tæplega 12 gráðu heitum sjónum. Var komin heim um hálffimm. Um kvöldið kíkti ég aðeins á opnunarleik í enska boltanu; Crystal Palace - Arsenal 0:2. Horfði ekki á allan leikinn en sá fyrra markið.

5.8.22

Enski boltinn að rúlla af stað

Vaknaði rúmlega sex. Labbaði af stað í vinnuna tæpum klukkutíma síðar. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Framleiðsla gekk vel fyrir sig. Sú sem var í bókhaldinu náði að klára sín verk áður en hún fór heim inn í sína helgi. Hin bauð mér upp í mat með sér. Vorum í vinnu til rúmlega tvö. Flokkaði m.a. kennispjöld úr hálfum kassa. Aðeins er eftir að flokka úr rúmum þremur kössum svo þetta er alveg að verða búið. Fékk far heim úr vinnunni. Bræðurnir voru í nýlega farnir í Sorpuferð þegar ég kom heim um hálfþrjú. Ég fór ekkert út aftur. Vafraði um á netinu, horfði á fréttir og þætti, prjónaði og endaði á því að horfa smá stund á gosið á RÚV2 áður en ég fór upp í rúm að lesa um hálftíu. 

4.8.22

Nýtt gos á Reykjanesi hafið

Rumskaði um hálfsex við skjálfta en sofnaði strax aftur. Vaknaði tæpum klukkutíma síðar, rétt áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Slökkti á henni og dreif mig á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu þar til kominn var tími til að labba í vinnuna. Ég var í bókhaldinu í gær. Dagleg framleiðsla var nokkuð stór, debetið yfir sexhundruð og þrjátíu kort og visa yfir tvöhundruð og fjörutíu. Hádegisskammturinn var temmilegur. Þrátt fyrir þennan fjölda lauk framleiðslu um tólf. Þá afhentum við vélina aftur til yfirferðar. Að vísu byrjuðum við á því að senda viðgerðarmanninn fram í mat á meðan við fórum upp að borða. Öllum talningum lauk upp úr klukkan eitt og þá var líka opnaður síðasti kassinn af nýjustu kortasendingunni. Það voru rúm þrjúþúsund kort sem ekki heldur var hægt að telja í gegnum plastið utanum um kassann og kortin. Hinar tvær sem voru að vinna með mér fóru heim upp úr klukkan tvö. Ég sat yfir viðgerðarmanninum og flokkaði kennispjöld á meðan. Hafði samband við einkabílstjórann um þrjú og hann var kominn til að sækja mig klukkutíma síðar. Svo lánaði ég honum bílinn skömmu síðar til að hitta bróður sinn hjá pabba þeirra. N1 sonurinn hafði farið og leyst af í N1 í Mosfellsbæ um hádegisbilið. 

3.8.22

Á bílnum í gær

Rumskaði um hálftólf og hrökk aftur upp um hálfþrjú í fyrrinótt þegar yfir riðu allsterkir skjálftar. Gekk aðeins verr að sofna aftur þarna um miðja nótt en tókst þó og svaf þá til rúmlega sex. Fór á bílnum í vinnuna. Var á ítroðsluendanum. Daglegri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Um hádegisbilið afhentum við vélina til yfirferðar en tvær af okkur þremur fórum að opna og telja kortasendingu. Ekki var hægt að telja kortin í gegnum plastið svo við urðum að klæða kassana úr, telja, klæða aftur í og líma fyrir. Þetta tók okkur drjúga stund því við vorum að fá yfir fjörutíuþúsund kort í einni tegund. Áttum eftir einn minniháttar kassa með kortum af annarri tegund þegar við hættum og gengum frá. Hinar tvær fóru um þrjú en ég sat yfir viðgerðarmanninum þar til hann hætti um fjögur. Þá fór ég beint í Sundhöllina. Synti baksund á braut 4 í útilauginni í ca korter, fór tvisvar í kalda pottinn og endaði í smá gufubaði. Þvoðið mér um hárið á leiðinni upp úr. Kom svo við í Krónunni á leiðinni heim. 

2.8.22

Hrokkið upp af værum svefni

Fór á fætur á svipuðum tíma og á sunnudagsmorguninn. Að þessu sinni var ég samt á undan pabba mínum. Morguninn fór í netvafr, prjón og kapallagnir. Steiktum okkur hamborgara í hádeginu og þá fyrst hellti ég upp á kaffi. Settumst fljótlega eftir það út á pall og sátum þar úti í um tvo tíma. Ég rétt skrapp inn einu sinni til að fara á klósettið sem og að ná mér í aðeins meira kaffi. Tók mig saman og kvaddi pabba á fimmta tímnum. Sagði honum að ég ætlaði að keyra aðra leið heim og myndi ekki vera að flýta mér. Stoppaði aðeins á bensínstöð í Þorlákshöfn til að tékka á þrýstingnum í hjólbörðunum en ég hafði stuttu áður orðið vör við að mælaborðið var komið með athugasemd þar um. Síðan keyrði ég Suðurstrandaveginn alla leið til Grindavíkur. Hugmyndin var að stoppa þar um stund í grenndinni en þegar til kom varð ekkert af því. Var því komin heim um sjö. 

1.8.22

Öflugir jarðskjálftar

Fór á fætur um níu í gærmorgun. Pabbi var kominn á fætur og sat frammi í eldhúsi. Um tíu leytið hellti ég mér upp á kaffi og tók út eitt þorshnakkaflak. Langaði að leyfa að pabba að smakka á því sem hann geymir fyrir mig í frystikistunni sinni. Um ellefu skrapp pabbi í búðina eftir hrásallati. Á meðan hann var þar renndi einn bróðir hennar mömmu og konan hans í hlað. Þau höfðu gist á Hótel Rangá og ákváðu að koma við áður en þau fóru aftur í bæinn. Hellti upp á nýtt kaffi fyrir þau. Þau vildu hins vegar ekki borða með okkur, voru nýlega búin að borða vel útilátinn morgunverð. Þau kvöddu um eitt og þá settumst við pabbi að snæðingi. Mér tókst að toppa sjálfa mig í eldamennskunni, maður minn hvað þetta var góður matur. Við feðginin vorum bæði spennt fyrir úrslitaleik EM kvenna milli Englands og Þýskalands. Á Heiði var verið að halda hálfgildings ættarmót en pabba langaði ekki þangað svo ég ákvað að vera bara með honum. Leikurinn var spennandi en það hefði verið gaman að vita hvort hann hefði verið öðruvísi ef fyrirliði Þjóðverja, Alexandra Popp, hefði getað verið með. Hún meiddist í upphituninni og gat ekki einu sinni gefið kost á sér sem varamaður. Hún var þó á svæðinu. Held að úrslitin 2:1 fyrir England eftir framlengdan leik séu mjög sanngjörn. Bæði lið áttu sín færi og þetta eru þau lið sem fengu á sig fæst mörk í allri keppninni. Fengu til dæmis ekki á sig mark í riðlakeppninni. Stuttu fyrir klukkan sex reið yfir sterkur jarðskjálfti á Reykjanesinu þar sem stendur yfir mjög öflug hrina. Skjálftinn fannst vel hér á Hellu.