31.5.22

Síðasti maí dagurinn í ár

Vaknaði upp úr klukkan sex. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu þar til klukkan var að verða sjö. Þá labbaði ég af stað í vinnuna, yfir Klambratúnið og þá leiðina. Fram að kaffi undirbjó ég pökkun og flokkaði kennispjöld. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Lukum við daglega framleiðslu um tólf. Eftir hádegi fór ég á móttökuendann og við unnum við endurnýjun til klukkan hálfþrjú. Þá tókum við til við að ryksuga vélina. Labbaði heim úr vinnu yfir Skólavörðuholtið. Stoppaði heima við í tæpa klukkustund áður en ég fór og skilaði fimm bókum á safnið. Tók þrjár í staðinn þrátt fyrir að vera með þrjár heima. Næst kom ég við í fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og nætursaltaða ýsu. Síðan lá leiðin í Sundhöllina. Synti ekkert að þessu sinni en fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta og smástund í gufu. Síminn taldi yfir 13200 skref í gær og þá eru þau skref ótalin með sem ég trítlaði um á sundhallarsvæðinu. 

30.5.22

Roðnaði undan sólinni

Fór á fætur um níu í gærmorgun. Kveikti strax á einni tölvunni hans pabba og eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu í uþb klukkustund. Svo fékk ég mér lýsi og harðsoðið egg áður en ég tók til við að leggja nokkra kapla. Pabbi kom fram um hálfellefu. Rúmri klukkustund seinna steikti ég þrjú bleikjuflök krydduð með best á lambið cayanne pipar. Pabbi hafði skroppið í búðina í millitíðinni og keypti sætkartöflumús og hrásallat. Hellti upp á kaffi og fljótlega eftir hádegi settist ég út á pall með einn kaffibolla. Drakk hann og sótti svo bók og prjónanan mína inn. Pabbi kom út stuttu seinna og sátum við úti í sólinni í amk einn og hálfan tíma. Það kom til okkar köttur sem vildi alveg láta klappa sér en helst ekki halda á sér. Ég náði að roðna á bringunni og í framan en varð þó ekkert alveg eldrauð eins og stundum hefur gerst áður. Kannski sat ég ekkert of lengi í sterkri sólinni. Dagurinn leið frekar hratt. Ég stoppaði alveg fram yfir kvöldfréttir áður en ég kvaddi og fór heim. 

29.5.22

Á Hellu

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Klukkutíma seinna þáði ég kaffi út í bíl eftir að hafa skutlað Davíð Steini upp á Gagnveg. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti tankinn. Næst lá leiðin á stæði við Austurbæjarskóla. Þar geymdi ég bílinn á meðan ég fór í Sundhöllina. Þrjár ferðir í kalda, hálftíma sund á braut 4 í innilauginni, smá stund í heitasta pottinum, tíu mínútur í gufunni og smástund á bekk úti áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Fór heim og tók til í tösku. Var eitthvað að dútla mér, kláraði m.a. eina bók áður en ég lagði í hann enda var klukkan farin að ganga eitt þegar ég brunaði úr bænum. Kom við í Fossheiðinni og þáði gúllassúpu og kaffibolla. Þegar ég kom svo í Hólavanginn kom ég að læstum dyrum og tómu húsi. Pabbi hafði skroppið austur í Hvolsvöll á ráðstefnu og kom ekki heim fyrr en um fimm. Ég hleypti sjálfri mér inn og dundaði mér við alls konar; netvafr, prjón, lestur og kapallagnir. Um níu sendi tvíburahálfsystir mín mér sms og spurði hvort ég hefði nokkuð kíkt á Snap-staðsetninguna og séð að við væru í nágrenni hvor við aðra. Þær mæðgur voru á hótel Hellu og búnar að vera þar frá því á föstudagskvöldinu. Við löbbuðum á mót hvor annarri, vinkonurnar og ég kíkti inn á herbergi til þeirra. Sonja labbaði svo með mér til baka rétt til þess að segja hæ við pabba. Staldraði við í nokkrar mínútur áður en hún kvaddi og fékk sér smá göngutúr á hótelið. 

28.5.22

Óvænt innihald í bréfi

Það var alls ekki erfitt að vakna og gíra sig upp í einn vinnudag í gærmorgun. Fór á bílnum og vorum við bara þrjár í vinnu. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni allan daginn. Fram að hádegi sinntum við daglegum skildum og eftir hádegi settum við endurnýjun á fullt og kláruðum þrjá banka af fimm. Að vísu var bara sitthvort kortið til endurnýjunnar í tveimur af þessum bönkum en sá þriðji taldi yfir sextánhundruð kort. Hinir tveir bankarnir sem eftir eru eru með fleiri kort til endurnýjunnar, báðir yfir tvöþúsund. Ég fór beint í sjóinn eftir vinnu. Það var flóð en ég synti, öllu heldur svamlaði, í rólegheitum út að kaðli og kom svo við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Þegar heim kom beið mín bréf frá ensku vinkonu minni. Hún var búin að senda mér skilaboð fyrr í vikunni að það væri á leiðinni en hún undirbjó mig ekki undir það að bréfið var á íslensku. Hún hafði haft fyrir því að nota google translate á allt bréfið. Ekki alveg hundrað prósent rétt málfræði og þannig háttar en kemur öllu frá henni vel til skila.

27.5.22

Föstudagur

Vaknaði um átta. Vafraði um á netinu, las og um hálftíu fékk ég mér eitthvað að borða. Var komin í Nauthólsvík klukkan tíu. Það var fjara og "langt" í sjóinn og á eitthvað dýpi. Svamlaði rólega um, synti smá skriðsund og bringusund og dólaði mér út að kaðli. Var um tuttugu mínútur í sjónum og líklega tvisvar sinnum það í heita pottinum á eftir. Fór beint heim aftur og hélt áfram að lesa. Strákarnir skruppu í Sorpu og stuttu eftir þá ferð fóru Bríet og Davíð Steinn í langa göngutúr. Hún fór svo að hitta vini. Ein tuska kláraðist í gær og önnur fór strax á prjónana. Ég er alls ekki orðin þreytt á þessu tuskuprjóni.  

26.5.22

Uppstigningardagur

Labbaði svipaða leið í vinnuna í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Forritið í símanum sagði samt að ég hefði labbar 200 metrum lengri leið. Vorum allar fimm til vinnu í gær. Við vorum mjög glaðar að sjá að loksins voru límstykkerarnir komnir í hús. Ég var á móttökuendanum fram að kaffi og í pökkun, talningu og flokkun kennispjalda fram að hádegi. Fengum sent sushi frá K2 í hádeginu. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann á vélinni og við vorum til þrjú að klára visa kreditendurnýjunina, sem við hefðum alls ekki klárað ef við værum enn að framleiða kort og form sér og handlíma, setja í umslög og loka. Fékk far heim úr vinnunni. Davíð Steinn eldaði sér úr hráefni sem hann verslaði sjálfur og bauð frænkunni að borða með sér  um fjögur. Ég eldaði úr hakkinu sem ég hafði tekið úr frysti um morguninn og bauð Oddi að borða með mér um sjö. Þá var frænka mín farin að hitta vini.

25.5.22

Miðvikudagur

Þrátt fyrir að hafa rumskað einhvern tímann á sjötta tímanum í gærmorgun svaf ég svo alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Ákvað að fara á bílnum í vinnuna. Fram að kaffi var ég að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld. Límstykkerarnir eru komnir til landsins en þeir bárust ekki alla leið til okkar í gær svo enn var verklagið að framleiða kort og form sér, lesa saman og handlíma kort á form. Engu að síður ákváðum við að byrja á einni endurnýjuninni þegar daglegri framleiðslu var lokið eftir hádegi. Þannig að þegar við hættum vinnu um þrjú vorum við örugglega búnar að handlíma hátt í áttahundruð kort alls. Ætlaði aftur í Vesturbæjarlaugina en þar var verið að malbika planið fyrir framan og ég nennti ekki að leita að stæði. Fann stæði á góðum stað rétt hjá Sundhöllinni og var byrjuð að synda í innilauginni þar korter fyrir fjögur.

24.5.22

Nota bílinn í dag

Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Lokað var inn í stofu þannig að frænka mín hafði skilað sér einhvern tímann eftir að ég fór að sofa. N1 sonurinn kom fram um hálfsjö og var farinn út á undan mér. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö, yfir Klambratúnið, Gunnarsbraut og Laugaveg. Vorum fjórar í vinnu. Límstykkerinn er ekki búinn að skila sér og einhver vandræði með að fá rekstrarvörunar sendar. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi og tók svo á móti fram að hádegi. Klárðuðum allt daglegt um tólf og afhentum þá viðgerðarmönnum vélina til yfirferðar. Flokkaði kennispjöld eftir hádegi til klukkan tvö en þá máttum við sem ekki vorum að sitja yfir fara heim. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í um klukkutíma en þá tók ég sunddótið með mér út í bíl. Skrapp samt fyrst í fiskbúðina áður en ég fór í Vesturbæjarlaug. 

23.5.22

Óvæntur hittingur

Var komin á fætur upp úr átta. Tók því rólega fyrst um sinn og vafraði um á netinu. Um tíu, um það bil sem verið var að opna, var ég mætt í Nauthólsvík. Þar hitti ég óvænt fyrir þrjár af fjórum úr sjósundshópnum mínum. Systurnar og sjósundsvinkonu mína sem heldur utan um hópinn. Aðra af systrunum hitti ég í Hagkaup fyrir nokkru síðan en annars var þetta í fyrsta skipti á þessu ári sem hópurinn hittist. Þær biðu eftir mér á meðan ég græjaði mig og svo urðum við samferða út í sjó. Fórum ekkert svo langt en vorum tæpar tuttugu mínútur út í og svo annað eins eða jafnvel aðeins lengur í heita pottinum. Þegar ég kom heim aftur byrjaði ég á því að hella mér upp á kaffi. Davíð Steinn var vaknaður og kominn fram en hann fór fljótlega inn í herbergið sitt aftur. Næstur fram var Oddur. Lánaði þeim bræðrum bílinn um miðjan dag. Um svipað leyti fór Bríet í sund. Ég fór hins vegar að fylgjast með enska boltanum og fitja upp á nýrri tusku. Mitt lið, Liverpool, fékk á sig mark strax á fyrstu mínútunum og það tók töluverðan tíma að jafna og hvað þá komast yfir. Lokatölur urðu þó 3:1 fyrir Liverpool. Salah skoraði eitt markanna, Son í Tottenham skoraði 2 og voru þeir jafnir eftir leiktíðina og skiptu með sér gullskónum. Manchester City liðið sem var á toppnum fyrir umferðina lenti 2:0 undir gegn Aston Villa en skoraði svo þrjú mörk seint í seinni hálfleik og sigraði því deildina með eins stigs mun. Allison í marki Liverpool fékk gullhanskann fyrir að fá á sig fæst mörkin. Held að Edison í City liðinu hafi fengið jafnfá mörk á sig en hann spilaði einum leik meira en Allison. Nú er bara að sjá hvernig úrslitaleikurinn í meistaradeildinni fer en þar gæti Liverpool unnið þriðja bikarinn af fjórum mögulegum.

22.5.22

Sunnudagur

Var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Lokað var inn í stofu þannig að einhverntímann kom frænka mín heim. Ég var með tölvuna í herberginu mínu og vafraði aðeins um á netinu. Var komin í Sundhöllina rúmlega átta. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég fór á innstu braut í innilauginni og synti í hálftíma. Settist smá stund út á svalir í heitari pottinn áður en ég fór aftur í kalda pottinn í fimm mínútur. Úr kalda fór ég í gufu og þar á eftir settist ég í nokkrar mínútur út á bekk áður en ég fór og þvoði á mér hárið. Ekkert af heimafólkinu var vaknað þegar ég kom heim rétt rúmlega tíu. Ég hellti mér upp á kaffi og fór með það inn í mitt herbergi, kom mér fyrir upp í rúmi með bók og bolla. Um miðjan dag bauð frænka mín okkur mæðginum á kaffihús, Te&kaffi við Suðurlandsbraut. Stoppuðum þar í hátt í klukkutíma. Eftir kaffihúsaferðina fór frænka mín að hitta vini. Ég kveikti fljótlega á sjónvarpinu og fylgdist aðeins með úrslitaleik meistaradeildarinnar í kvennafótboltanum. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn. 

21.5.22

Á leið í sund

Fór aftur á bílnum til vinnu í gærmorgun og að þessu sinni með sjósundsdótið í skottinu. Ég var í bókhaldinu og drjúgan hluta af morgninum var ég að flokka kennispjöld. Var nýlega byrjuð á fjórða kassanum þegar ég gat loksins farið að hjálpa stelpunum á vélinni að para saman kort og form. Það var aðallega vegna þess að vélin hafði eitthvað verið ósamvinnuþýð og það sem var farið í gegn höfðu þær undan að ganga frá. Daglegri vinnu og allri talningu var ekki lokið fyrr en klukkan var farin að ganga fjögur. Fór beint í Nauthólsvík eftir vinnu og var að vaða út í um fjögur, hálfa leið til Kópavogs eða þannig leið mér, það var svo mikil fjara. Svamlaði aðeins um en synti svo í rólegheitum út að kaðli. Var rúmt korter í sjónum og svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.

20.5.22

Föstudagur enn á ný

Vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Morguninn svipaður og aðrir virkir vinnumorgnar en svo fór ég á bílnum í vinnuna. Tók með mér bókasafnspoka og sunddót sem ég geymdi í skottinu. Um átta hringdi Bríet í mig og spurði hvort hún mætti gista hjá mér næstu daga. Það var auðsótt mál. Hún var enn fyrir norðan þegar hún hringdi en kom með flugi suður upp úr hádegi. Oddur Smári, sem þá var kominn heim úr atvinnuviðtali og klippingu, opnaði fyrir henni og hjálpaði henni með farangurinn. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Eftir fyrstu framleiðslu, sem eru eingöngu kort, hófst sama starfsaðferð og í fyrradag. Kort framleidd sér og form sér. Síðan parað saman og í DK-inu allt H merkt sett í umslög. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Vorum búnar með þrjá banka af fjórum í debetinu þegar við fórum yfir í hádegisframleiðsluna. Síðasti bankinn var svo kláraður eftir mat. Allt daglegt var búið rétt fyrir tvö og þá tókum við okkur tíma til að flokka kennispjöld til klukkan að ganga fjögur. Úr vinnunni fór ég beint á safnið og skilaði fjórum bókum af sex og tók með mér sex bækur í staðinn. Engin þeirra með skammtímalán og hægt að framlengja um 30 daga eftir 30 daga lán. Af safninu fór ég í Vesturbæjarlaugina. Synti 300 metra, fór eina ferð í kalda pottinn, svo í gufuna. Fór í sturtu eftir eimbaðið, heitan pott og sat svo smá stund úti áður en ég fór upp úr og heim. Það voru bara ummerki um að Bríet hefði komið við, semsagt farangurinn hennar, en hún var ekki komin aftur þegar ég fór að lesa og sofa um tíu.

19.5.22

Öðruvísi vinnubrögð

Labbaði sömu leið í vinnuna í gærmorgun og á þriðjudagsmorguninn. Ég var í skrifstofurýminu fram að kaffi, undirbjó pökkun og flokkaði kennispjöld. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Framleiða varð kort og form sér. Þetta gekk furðanlega vel fyrir sig og kláruðum við daglega framleiðslu um hálfeitt. Eftir hádegi fór ég á móttökuendann á vélinni. Við kláruðum loks endurnýjun frá því í apríl með sama vinnulagi og vorum búnar um hálffjögur. Labbaði heim úr vinnunni og að þessu sinni fór ég Lækjargötu, meðfram tjörninni, yfir Hljómskálagarðinn, Hringbraut og Bústaðaveg framhjá Valsheimilinu og undir brúna þar. Var þrjú korter á leiðinni og mældist þetta vera uþb 4 km. Um kvöldið fylgdist ég með textalýsingu á mbl.is af úrslitaleiknum milli Vals og Tindastóls í körfunni. Valur vann leikinn og titilinn í fyrsta sinn í 39 ár.

18.5.22

Miðvikudagur

Labbaði í vinnu upp Eiríksgötu og yfir Skólavörðuholtið. Var í bókhaldinu í gær og flokkaði einnig slatta af kennispjöldum. Rétt fyrir tvö kláraðist síðasti límstykkerinn í miðri endurnýjunarskrá og við ekki búnar að fá til okkar sem við pöntuðum fyrir nokkrum vikum síðan. Sendingin er vonandi að koma í dag en á meðan þarf að framleiða kort og form sér og handlíma kortin á formin. Labbaði heim sömu leið og ég fór í vinnuna. Klukkan var orðin hálfsex þegar ég dreif mig loksins í sjóinn. Nú er komin sumaropnun og frítt inn. Hitastig sjávar komið yfir átta gráður og ég ákvað að skilja sjósundsskóna eftir heima en nota strandskóna í staðinn. Stutt var út í sjó og enn að flæða að þegar ég skellti mér út í ca korter fyrir sex. Svamlaði um í tíu mínútur og fór svo í gufuna þar sem mér fannst heldur margt fólk í heita pottinum. Áður en ég fór heim skrapp ég í Krónuna við Fiskislóð og verslaði inn. Varð svo að leggja bílnum í næstu götu en Oddur kom út og sótti pokana með vörunum og gekk frá þeim. 

17.5.22

Þriðjudagur

Var vöknuð um sex í gærmorgun og fór strax á fætur. Enginn á fótum nema ég í íbúðinni því N1 sonurinn var á helgarvakt og er á frívakt til miðvikudags. Gaf mér tíma til að vafra um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Hafði með mér hádegisnesti, afgang af hakkkássu. Fram að kaffi var ég á móttökuendanum á vélinni. Eftir kaffi var ég smávegis í pökkun en eftirlét þeirri sem var í bókhaldinu í gær það og snéri mér alfarið að flokkun kennispjalda. Vorum bara tvær frammi, fjórar í vinnu, því ein er í fríi næstu vikuna og alveg til og með þriðjudags. Þegar til kom var mér boðið upp í mat og þáði ég það. Eftir hádegi var ég á ítroðsluendanum og við kláruðum eina endurnýjunina og héldum aðeins áfram með þá síðustu frá því í síðasta mánuði. Þessar endurnýjanir koma til með að ná saman því nú fara að "detta" inn þær endurnýjanir korta sem renna úr gildi mánaðamótin júní/júlí. Hættum vinnu rúmlega þrjú og vorum búnar að ganga frá um hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Lauk við að prjóna eina tusku og byrjaði strax á annarri. Á tuskuefni í amk sex tuskur í viðbót.

16.5.22

Maí hálfnaður

Klukkan var orðin tíu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Pabbi var nýlega kominn fram og að fá sér harðsoðið egg. Ég fékk mér eitt svoleiðis líka þegar ég var búin með morgunverkin á baðherberginu og taka lýsi. Síðan lagði ég nokkra kapla. Pabbi spurði hvort við ættum að hafa snarl í hádeginu og vildi helst fá bleikju aftur. Ég tók út þrjú lítil flök úr frysti og setti upp basamí hrísgrjón. Hellti líka upp á könnuna. Kryddaði bleikjuna eins og kvöldið áður og með þessu kláruðum við hrásallatið og drukkum vatn. Dagurinn leið ógnarhratt við lestur, kapallagnir, prjón og netvafr. Tæpum tveimur tímum eftir kaffitímann tók ég mig svo saman, kvaddi pabba og hélt heim á leið.

15.5.22

Bleikja

Ég var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun og hafði tíma til að vafra um á netinu áður en ég skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg. Nú er ekki hægt að keyra alveg upp að stöðinni vegna framkvæmda en sonurinn þurfti ekki að labba mörgum skrefum lengra og færði mér svo kaffimál fullt af kaffi og með loki til að taka með mér. Var komin á bílastæði kennara við Austurbæjarskóla korteri áður en Sundhöllin opnaði. Kláraði kaffið í rólegheitum og hlustaði á morgunfréttir áður en ég dreif mig í sundið. Byrjaði á einni ferð í þann kalda fór svo á innstu brautina í innilauginni og synti í rúmar tuttugu mínútur, aðra hverja ferð á bakinu og amk 4x25m skriðsund. Settist svo smástund í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Á leiðinni þangað fannst mér undarlegt að finna miða á sundbolnum hægra megin eins og ég væri í öfugum bolnum. Það gat samt ekki verið. Endaði í gufubaði og sat svo á bekk úti í um þrjár mínútur áður en ég fór inn. Þá kom í ljós stærðarinnar gat á sundbolnum, ekki á viðkvæmum stað sem betur fer en þar er bolurinn einnig farinn að láta á sjá. Ég nota þennan líklega ekki meir og fer örugglega fljótega að fjárfesta í nýjum sundbolum. Þvoði mér um hárið og skrapp svo á kjörstað áður en ég fór heim. Oddur Smári kom aðeins fram um hálfellefu og ég notaði tækifærið og sagðist vera að fara austur eftir smá. Ég var búin að vera á Hellu í þrjá og hálfan tíma og sat með prjónana í stofunni þegar harður jarðskjálfti reið yfir. Skjálfti sem átti upptök sín við Þrengsli og var á endanum mældur 4,8. Var með bleikju, soðin hýðisgrjón og hrásallat í kvöldmatinn. Mjög, mjög gott, kryddaði með cayanne og best á lambið. Fékk mér hvítvín eftir að söngvakeppnin var byrjuð. Horfði á alla útsendinguna og síðan smávegis af kosningasjónvarpinu. Fyrstu tölur úr Reykjavík voru þó ekki komnar þegar ég ákvað að fara frekar inn í rúm að lesa.

14.5.22

"Bíddu bara"

Fór semsagt aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Var á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi og í pökkun og flokkun kennispjalda fram að hádegi. Kerfisfræðingarnir fengu "lánaða" vélina um stund þannig að framleiðslu daglegra debetkorta lauk ekki fyrr en eftir hádegi. Við höfðum engu að síður tíma til að endurnýja kort áður en við hættum og erum langt komnar með að klára að endurnýja þau kort sem taka gildi um næstu mánaðamót. Fór beinustu leið í Nauthólsvík eftir vinnu og óð út í 8,9°C sjóinn á flóði um fjögur. Var að svamla um í tuttugu mínútur og sat svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Rétt fyrir átta var ég komin í Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði þar sem ég hitti fyrir samstarfskonur mínar að horfa á sýninguna; Bíddu bara, með Björk Jakobs, Selmu Björns og Sölku Sól. Skemmtum okkur mjög vel og var tíminn mjög fljótur að líða. 

13.5.22

Aftur á bílnum

Kom við í bakaríinu við Skúlagötu á leiðinni í vinnuna í gærmorgun og keypti brauð og kruðerí með "föstudags" kaffinu sem við höfum alltaf á fimmtudögum svo allir geti verið með. Var í bókhaldsverkefnum og flokkunarstörfum í gær. Fór m.a. með 13 flokkaða kassa inn í kennispjaldageymslu og sótti 15 óflokkaða í staðinn. Taldi óflokkuðu kassana sem eftir voru í geymslunni og þeir eru aðeins 30 þannig að það sér fyrir endann á þessu verkefni. Erum búnar að flokka hátt yfir fjögurhundruð þúsund kennispjöld og það eru ekki mörg sem eru í óvissukassanum, óstimpluð. Var boðið með í mat upp í mötuneyti Seðlabankans í hádeginu. Um hálftvö vorum við aðeins þrjár eftir. Hinar tvær voru á vélinni og um þrjú fór vélina að haga sér það illa að fyrirliðinn sá ástæðu til að kalla til viðgerðarmann. Ég kvaddi um hálffjögur og fór beint í Vesturbæjarlaug. Byrjaði á miðlungsheitum potti, svo þrjár mínútur í kalda pottinum áður en ég synti í korter. Svo fór ég beinustu leið heim og fékk stæði fyrir framan. 

12.5.22

Nota bílinn í dag

Í gærmorgun labbaði ég í vinnuna þvert yfir Klambratúnið, Gunnarsbraut, Laugaveg og Klapparstíg. Var í flokkunarstörfum fram að kaffi og á móttökuendanum fram að hádegi. Mér var boðið upp í mat í hádeginu. Einn vinnufélaginn sem er í áskrift er enn í fríi og ég nýt góðs af því. Um tvö kom yfirmaður á fund með okkur og báðum kerfisfræðingunum sem vinna að kortamálum. Fékk far heim úr vinnunni og enn einn daginn nennti ég ekki út aftur. Ég skil ekki hvers konar drifleysi er að hrjá mig en það hlýtur að lagast fljótlega. 

11.5.22

Vikan hálfnuð

Vaknaði stuttu fyrir sex í gærmorgun og fór fljótlega á fætur. Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Kláruðum fyrstu framleiðslu og eina aukaframleiðslu. Sá um pökkun og talningu fram að hádegi og leysti svo aðra sem var á vélinni af upp úr klukkan hálftólf. Skrapp svo upp í mat með hinni. Var á móttökuendanum á vélinni til hálffjögur og vorum við að vinna í að endurnýja debetkort. Labbaði heim, næstum því sömu leið og um morguninn. Kom aðeins við á torginu til að kanna hvort vinkona mín væri í einum sölubásnum. Hún var ekki þar, kannski farin heim enda klukkan um fjögur. Það var þó verið í fjórum básum en í einum af þeim var verið að taka saman. 

10.5.22

Birtir meir og meir

Rumskaði upp úr klukkan fimm í gærmorgun og fannst það heldur snemmt. Fór á fætur klukkutíma síðar. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um sjö labbaði ég af stað í vinnuna. Var frammi að flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni til hádegis og flokkaði svo fleiri kennispjöld eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni stuttu fyrir fjögur. Fór ekki út aftur en seinni parturinn og kvöldið var frekar fljótt að líða yfir alls konar dútli. 

9.5.22

Glæný vinnuvika

Þrátt fyrir að vera komin á fætur um átta leytið í gærmorgun var klukkan að verða tólf þegar ég dreif mig loksins í sund. Fór í sundhöllina og byrjaði á því að setjast í kalda pottinn ca korter yfir tólf. Síðan fór ég í innilaugina og synti í tuttugu mínútur á innstu brautinni þrátt fyrir að opið væri í litla stökkbrettið. Strákarnir sem voru að stökkva voru ekkert fyrir mér. Settist svo smá stund út í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í þann kalda. Hitti konu sem var með mér í landsbankakórnum. Hún er nýlega hætt að vinna, komin yfir sextugt en ekki þó orðin 67 heldur var hún á 95 ára reglunni. Þvoði á mér hárið á leiðinni upp úr og var komin heim um hálftvö. Kveikti strax á sjónvarpinu og horfði á leik í enska. Var reyndar að skipta aðeins á milli rása því það voru þrír leikir í gangi. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn. Þeir skruppu til pabba síns en systir þeirra  varð átta ára á laugardaginn. Ég var komin upp í rúm þegar þeir komu heim. Davíð Steinn bað mig samt um að koma aðeins fram fyrst ég var ekki farin að sofa. Þeir bræður höfðu keypt handa mér mæðradagsgjöf, nýja hraðsuðukönnu, garn til að prjóna úr og þar að auki höfðu þeir fyllt á tankinn á bílnum. Það sem ég á góða og hugulsama syni.Þakklát fyrir það og þá. 

8.5.22

Bækurnar af safninu

Er búin með þær tvær sem ég skildi eftir heima í síðustu ferð; Hálfgerðar lygasögur með heilagan sannleika í bland eftir Guðberg Bergson og Blaðamaður deyr eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Þær fjórar sem komu heim með mér úr síðustu ferð eru; Dulmál Katharinu eftir Jörn Lier Horst, Meinsemd eftir Kim Faber & Janni Pedersen, Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og Tilfinningar eru fyrir aumingja eftir Kamillu Einarsdóttur. Síðastnefndu bókin er ég byrjuð að lesa.

Annars var gærdagurinn afar tíðindalítill. Rumskaði þegar systurdóttir mín fór eldsnemma úr húsi út á flugvöll. Hún er komin í þriggja vikna sumarfrí og fór norður til að komast í sauðburðinn á Árlandi. Ég fór á fætur um átta. Skipti um á rúminu mínu en afrekaði svo ekki mikið meira heldur en að vafra um á netinu, prjóna horfa á þætti og fótboltaleiki og lesa. Oddur skutlaði bróður sínum á árshátíð um sjö leytið og kom við í Saffran á heimleiðinni. Ég nennti semsagt ekki heldur að elda og pantaði mér hamingjuböku og bauð Oddi upp á að panta sér böku líka.

7.5.22

Laugardagur

Var komin á fætur rétt rúmlega sex í gærmorgun. Þrátt fyrir ágætasta gönguveður ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna. Framleiðsludagurinn í debetinu var yfir sextánhundruð kort svo við ákváðum að skipta okkur í kaffi og mat. Vorum bara fjórar þannig að sú sem var í bókhaldinu varð að leysa af í kaffi og matartímum. Vélin gekk og gekk. Við þurftum svo aðeins að lána hana kerfisfræðingum um eitt leytið, tvisvar sinnum en ekki mjög lengi í einu. Framleiðslu lauk samt ekki fyrr en rúmlega fjögur og klukkan var farin að ganga sex þegar öllum frágangi og talningu lauk. Ég ákvað því að sleppa sjósundsferð og fara beint heim. Hugsanlega hefði sjórinn kallað sterkar ef það hefði verið flóð en ekki fjara. Bríet kom um átta að sækja húslykla en hún fékk að gista hér í nótt. Fór fljótlega út aftur að hitta vini. Lánaði bræðrunum bílinn í bíóferð en var sjálf að taka því mjög rólega. Horfði á þætti til klukkan tíu og fór þá upp í rúm að lesa í klukkustund áður en ég fór að sofa. 

6.5.22

Föstudagur

Labbaði svipaða leið í vinnuna í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Ég var að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Í hádeginu komu sjö pokar af kortum, yfir tuttugu þúsund kort. Við tvær sem vorum á vélinni til hádegis tókum að okkur að opna pokana og kassana inn í þeim, telja kortin og sortera eftir tegundum. Sem betur fer var hægt að telja kortin í gegnum plastið því það er mjög seinlegt að taka kassana úr plastinu, telja, þræða plastið á aftur og líma fyrir. Þegar búið var að telja öll kortin fór ég í að búa til móttökuskjöl, láta eigendur plastsins vita og taka tappann úr þeim tegundum sem ekki hefur verið hægt að framleiða undanfarna daga. Hin fór í að útbúa límmiða og merkja kortategundirnar. Svo hjálpuðumst við að við að setja þetta upp í hillur inn á kortalager. Rétt fyrir hálffjögur hringdi Oddur Smári í mig. Hann var staddur við Krónuna við Fiskislóð, nýkominn úr Sorpuferð og spurði hvort ég væri búin í vinnunni. Hann sótti mig skömmu síðar. 

5.5.22

Fimmtudagur fimmti

Vaknaði um sex í gærmorgun. Klukkutíma síðar labbaði ég í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Lentum í smá brasi en það tafði okkur ekki mjög mikið. Ákváðum að gefa vélinni pásu bæði í kaffi og hádegishléi. Fram að hádegi flokkaði ég kennispjöld. Þáði boð um að borða í mötuneytinu og fékk mjög góðan steiktan hlýra. Eftir hádegi var ég á móttökuendanum á vélinni. Framleiddum þúsund kort af einni endurnýjuninni. Hættum vinnu um hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni og ákvað að skrópa í sund. Vafraði um á netinu, prjónaði, las og horfði á þætti og las svo meira þegar ég var komin upp í um tíu. 

4.5.22

Morgunstund

Vaknaði rétt rúmlega sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég um stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Áður en ég brunaði svo á bílnum í vinnuna fékk ég mér lýsi. Flokkaði kennispjöld, taldi fyrstu framleiðslu með bókaranum og ýmislegt fleira fram að kaffi. Við sem vorum í skrifstofurýminu fórum á undan í kaffi og tvær af okkur leystum svo þær tvær sem voru á vélinni um tíu. Ég fór á ítroðsluendann. Við kláruðum að framleiða dk daginn og framleiddum svo endurnýjun þar til hádegisskammturinn var kominn á vélina. Sú sem var með mér á móttökuendanum var leyst af klukkan tólf en hún var að taka styttingu vinnuvikunnar. Ég var leyst af tíu mínútum síðar. Eftir hádegishléið mitt taldi ég síðasta vagninn með bókaranum og fór svo að flokka kennispjöld. Upp úr klukkan tvö fór ég með 15 flokkaða kassa af kennispjöldum inn í kennispjaldageymslu og sótti 15 óflokkaða í staðinn. Hættum vinnu um hálffjögur og ég fór beinustu leið í Vesturbæjarlaugina. Synti í 15 mínútur, fór eina ferð í kalda pottinn og prófaði sánaklefann. Þarna eru sér klefar, annar fyrir konur og hinn fyrir menn. Fór í sturtu á eftir og svo í 40°C heitan pott í smá stund áður en ég fór upp úr og heim. Davíð Steinn sá um eldamennskuna í gær og töfraði fram fínasta kjúklingarétt. Mjög gott hjá honum.

3.5.22

Stytting vinnuvikunnar

Labbaði af stað í vinnuna um sjö í gærmorgun. Fór þvert yfir Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Njálsgötu, Snorrabraut, Laugaveg, Vitastíg og Skúlagötu. Þegar ég var rétt komin á Skúlagötuna kom vinnufélagi hjólandi að mér og var samferða síðasta spölinn. Hún bauð mér reyndar far en mér leist ekkert á að klöngrast upp á stýrið hjá henni með bakpokann á bakin, enda vorum við bara að fíflast. Ég var í bókhaldinu og mánaðamótaverkefnum fram að hádegi en þá hætti ég vinnu og tók út síðasta hálfa dag einu sinni í mánuði fyrir sumarfrí. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Davíð Steinn var kominn á fætur og Oddur kom fram skömmu síðar. Ég stoppaði heimvið í tæpa þrjá tíma en þá skrapp ég á bókasafnið og skilaði þremur bókum af fimm og fékk mér fimm bækur í staðinn. Allar fimm bækurnar með 30 daga skilafresti og möguleikann á að framlengja um aðra 30 daga. Síðan lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Verslaði inn fyrir rúmlega tuttuguogsexþúsund krónur, sumt af því kannski óþarfi. Þegar ég kom heim fékk ég stæði beint fyrir utan. Davíð Steinn kom út að hjálpa mér með pokana inn og gekk hann líka frá vörunum. Sleppti bæði sjó- og sund ferð og hélt mig heima við það sem eftir lifði dags og kvölds. 

2.5.22

Virkur dagur

Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég klæddi mig og bjó um. Eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér lýsi og eitt harðsoðið egg. Kveikti svo á einni tölvunni hans pabba og vafraði um á netinu í rúma klukkustund. Settist svo smá stund með bók og prjóna inn í stofu. Hellti upp á könnuna og lagði nokkra kapla. Pabbi kom fram um hálfellefu. Hann var þó löngu vaknaður. Um eitt kveiktum við á sjónvarpinu og stilltum á leik í enska boltanum. Prjónaði alveg helling á meðan ég fylgdist með leiknum. Var að spá í að taka mgi saman eftir kaffi en pabbi freistaði mín með því að spyrja hvort við ættum að hafa saltfisk í matinn. Hann fór svo að steikja pönnsur en ég á netflakk. Kvöldmatur var borðaður um hálfsjö og ég kvaddi ekki fyrr en eftir fréttir og veður. Kom heim um níu í gærkvöldi.

1.5.22

Þriggja bókstafa mánuður

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun. Hafði tekið fartölvuna með mér inn í herbergi í fyrrakvöld og nýtti mér það. N1 sonurinn vaknaði ekki við vekjaraklukkuna sína rétt fyrir sjö heldur sms og facebook skilaboð sem ég sendi rétt eftir að vekjaraklukkan hans hætti. Skutlaði honum í vinnuna og þáði kaffi í staðinn. Var komin á bílastæði við Austurbæjarskóla tólf mínútum fyrir átta. Staldraði við í bílnum framyfir morgunfréttir áður en ég fór í sund. Byrjaði á kalda pottinum. Fór svo inn og synti í hálftíma, þar af 125m skriðsund og aðrahvora ferð á bakinu. Settist svo stund í heitari pottinn úti á svölum áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Þaðan fór ég svo í gufu. Þvoðið mér um hárið og var komin heim um tíu. Stoppaði ekki lengi þar. Á meðan ég var að taka mig til fyrir einnar nætur stopp kom Oddur fram til að skreppa á baðherbergið. Ég notaði tækifærið og kvaddi hann. Kom við hjá samstarfskonu minni og fékk eina öskju af þorskhnökkum og þáði hjá henni einn kaffibolla áður en ég hélt för minni áfram. Ákvað að keyra Þrengslin og gat haldið mig á 90km hraða á krúskontról án þess að þurfa að hægja á mér vegna annarrar umferðar. Gerði smá stopp í Fossheiðinni en þorði ekki að stoppa of lengi vegna fisksins sem ég var með í skottinu. Stoppið var líklega ekki nema rétt rúmur hálftími en það var hægt að spjalla á þeim tíma, drekka tvo kaffibolla og borða eina skál af grænmetissúpu. Var komin á Hellu stuttu eftir að hádegisleiknum í enska lauk. Dagurinn fór svo í prjónaskap, fótboltaáhorf, netvafr, kapallagnir, lestur og ýmislegt fleira. Pabbi bauð upp á reykt folaldakjöt í kvöldmatinn og í gærkvöldi fékk ég mér svo smá hvítvín á meðan ég horfði á fjórða þáttinn af Alla leið á RÚV.